Hæstiréttur íslands

Mál nr. 466/2002


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Vanreifun
  • Ómerking
  • Frávísun frá héraðsdómi


_Dómsatkvæði

 

Fimmtudaginn 10. apríl 2003.

Nr. 466/2002.

Byggingafélagið Sandfell ehf.

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

gegn

Bergi Bergssyni

(Sigurður Georgsson hrl.)

 

Verksamningur. Vanreifun. Ómerking. Frávísun frá héraðsdómi.

B og BS ehf. deildu um greiðslu reiknings sem átti rætur að rekja til verksamnings milli BS ehf. og tveggja einkahlutafélaga um framkvæmdir við húsbyggingu. Hélt BS ehf. því fram að B hefði ábyrgst greiðslu fyrir verkið við Lóuhraun 3 með yfirlýsingu þar um og hefði hún verið til staðfestingar munnlegum verksamningi og komið í stað fyrri verksamnings, sem rift hefði verið bæði munnlega og í verki. Á fyrrnefndum reikningi var tekið fram að hann væri vegna vinnu, efnis og leigu á verkpöllum við Lóuhraun 3 en engin frekari grein var gerð fyrir reikningsfjárhæðinni eða hún sundurliðuð. Þá hafði reikningsfjárhæðin ekki verið studd gögnum er skýrði tilurð hennar. BS ehf. hélt því fram að reikningsfjárhæðin næmi sama hlutfalli af umsaminni heildargreiðslu vegna þessarar tilteknu húsbyggingar og lokið væri við. Engra haldbærra gagna naut þó í málinu um stöðu verksins á þessum tíma eða annarra verka samkvæmt upphaflega verksamningnum. Þótti málið svo vanreifað um grundvöll kröfugerðar BS ehf. að ekki yrði hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.

Málinu var áfrýjað 14. október 2002. Áfrýjandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.632.398 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. ágúst 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 12. gr. laganna, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og fram kemur í héraðsdómi á ágreiningsefni þessa máls rætur að rekja til verksamnings frá 2. apríl 1999 milli áfrýjanda sem verktaka annars vegar og einkahlutafélaganna Gravis og Reitsins sem verkkaupa hins vegar, en með honum tók áfrýjandi að sér að reisa tíu hús á svonefndum Einarsreit í Hafnarfirði, þar á meðal á lóðunum nr. 3 og 5 við Lóuhraun. Gerðar voru lítils háttar breytingar á samningnum á verkfundi 11. janúar 2000, er meðal annars lutu að því að hækka samningsverð úr 24.300.000 krónum í 24.568.547 krónur. Með yfirlýsingu 29. mars 2000 af hálfu stefnda og Reitsins ehf., sem voru lóðarhafar framangreindra lóða við Lóuhraun, var löggiltum fasteignasala veitt umboð til að greiða áfrýjanda „hlutfallslegar greiðslur samkvæmt gangi verksins við byggingu húsanna Lóuhraun 3 og 5 í Hafnarfirði að fengnu samþykki byggingarstjórans á verkinu Stefáns Jörundssonar að verktakinn hafi framkvæmt tiltekna verkþætti samkvæmt áðurgerðum samningi milli Sandfells ehf, Reitsins ehf. og Gravis ehf. dagsettan 2. apríl 1999.“ Framkvæmdastjóri áfrýjanda ritaði undir yfirlýsinguna sem annar tveggja votta. Áfrýjandi reisir kröfugerð sína í málinu á því, að með þessari yfirlýsingu hafi stefndi ábyrgst greiðslu fyrir verkið við Lóuhraun 3 og hafi hún verið til staðfestingar munnlegum verksamningi milli yfirlýsingargjafanna og sín, sem komið hafi í stað fyrri verksamnings, sem rift hafi verið bæði munnlega og í verki, þegar áfrýjandi hætti vinnu við byggingu húsanna nokkru áður.

Við þingfestingu málsins í héraði lagði áfrýjandi fram reikning á hendur stefnda frá 3. janúar 2001 ásamt innheimtubréfi 27. febrúar sama ár, þar sem greind var höfuðstólsfjárhæðin 2.632.398 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Á reikningi kom fram, að hann væri vegna vinnu, efnis og leigu á verkpöllum við Lóuhraun 3. Eftir útivist af hálfu stefnda við þingfestingu var stefna árituð um aðfararhæfi dómkrafna, en málið var endurupptekið án andmæla áfrýjanda, eins og frá er sagt í héraðsdómi.

Þegar málið var dæmt fyrra sinni í héraðsdómi með áritun samkvæmt 1. mgr. 113. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hafði engin frekari grein verið gerð fyrir reikningsfjárhæðinni en fólst í framangreindri skýringu á sjálfum reikningnum og var þar enga sundurliðun að finna. Við frekari dómsmeðferð eftir endurupptöku málsins hefur reikningsfjárhæðin ekki verið studd gögnum, er skýri tilurð hennar. Í greinargerð sinni í héraði andmælti stefndi reikningnum á þeim forsendum, að hann ætti sér enga stoð í raunveruleikanum og væri gerð hans og innheimta löglaus. Áfrýjandi heldur því hins vegar fram, að um 90% verkframkvæmda við Lóuhraun 3 hafi verið lokið, þegar hann hafi horfið frá verkinu vegna vanefnda verkkaupa, og nemi reikningsfjárhæðin því hlutfalli af umsaminni heildargreiðslu vegna þessa húss. Í málinu nýtur þó engra haldbærra gagna um stöðu verksins á þessum tíma eða annarra verka samkvæmt verksamningi 2. apríl 1999, sem var milli áfrýjanda og annarra aðila en stefnda.

Samkvæmt framansögðu er málið svo vanreifað um grundvöll kröfugerðar áfrýjanda, að ekki verður hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu.

Eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera ómerkur og er málinu vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2002.

                Mál þetta var höfðað með stefnu sem var þingfest 29. maí 2001 og dómtekið 3. þ.m.

Stefnandi er Byggingafélagið Sandfell ehf.

Stefndi er Bergur Bergsson, kt. 061055-5929, Skarðshlíð 32 f, Akureyri.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að upphæð 2.632.398 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. ágúst 2000 til greiðsludags auk málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefn­anda.

Í stefnu segir að skuldin sé samkvæmt reikningi nr. 169, útg. 3. janúar 2001 að upphæð 2.895.637 krónur en innifaldir séu dráttarvextir frá 5. ágúst 2000 þannig að reikningsfjárhæðin nemi 2.632.398 krónum að dráttarvöxtunum frátöldum og sé krafist dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá 5. ágúst 2000.  Málavöxtum er lýst þannig að stefnandi hafi tekið að sér að reisa fyrir stefnda húsið að Lóuhrauni 3, Hafnarfirði.  Stefnandi hafi uppfyllt sinn hluta af samningnum en stefndi hafi ekki sinnt greiðslu­skyldu sinni.

Um lagarök segir að stefnandi byggi málshöfðun sína á ákvæðum kaupalaga nr. 39/1922, almennum reglum kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og samninga­lögum nr. 7/1936.

Máli sínu til sönnunar lagði stefnandi fram reikning dags. 3. janúar 2001, innheimtubréf dags. 27. febrúar 2001 og málskostnaðarreikning.

Texti reikningsins er svohljóðandi:  “Reikningur vegna Lóuhraun 3, efni, stinlansaleiga og vinna”.  Reikningsfjárhæðin er 2.114.376 krónur auk vanskilavaxta og virðisaukaskatts og nemur samtalan 2.895.637 krónum.  Tekið er fram á reikningn­um að síðasti mögulegi eindagi sé 20. janúar 2001.

Innheimtubréf, sem lögmaður stefnanda sendi stefnda 27. febrúar 2001, tilgreinir höfuðstól kröfunnar 2.632.398 krónur.

Útivist varð af hálfu stefnda.

Lögmaður stefnanda skilaði skriflegri sókn 24. september 2001.  Þar segir að málavextir séu þeir að stefnandi hafi unnið verk fyrir stefnda sem greiðast skyldi við verklok.  Verklok hafi verið í byrjun ágúst 2000 en ekkert hafi gengið hjá stefnanda að fá greitt fyrir verkið.  Samkomulag hafi orðið milli aðila um að reikningur yrði gefinn út við greiðslu.  Þann 3. janúar 2001 hafi stefnandi gefist upp á að bíða eftir greiðslu og útbúið reikning fyrir verkinu og reiknað inn í hann dráttarvexti frá verklokum til útgáfu reikningsins.

Stefnan var þ. 18. maí 2001 árituð um aðfararhæfi dómkrafna, og þ.m.t. 200.000 krónur í málskostnað.

Stefndi óskaði eftir endurupptöku málsins þ. 4. janúar 2001 þar sem hann hefði verið við störf á hálendinu þegar stefna hafi verið birt og því ekki vitað af henni fyrr en eftir dómtöku (svo) málsins.

Í endurupptökubeiðninni segir að stefndi muni krefjast sýknu vegna aðildar­skorts.  Henni fylgdi verksamningur dags. 2. apríl 1999 milli Gravis ehf. og Reitsins ehf. sem verkkaupa og Sandfells ehf. sem verktaka.  Fyrir hönd Gravis ehf. undirrita samninginn stefndi og Stefán Jörundsson og fyrir hönd stefnanda Hreiðar Hermanns­son.  Samningurinn kveður á um að verktaki taki að sér framkvæmdir við að reisa eftirtalin hús í “Einarsreiti” í Hafnarfirði.  Fálkahraun 2, 3, 4, 6, 7, 9, 12 og 14 og Lóuhraun 3 og 5.  Samningsupphæð er tilgreind 24.300.000 krónur og skyldi verkkaupi greiða með húsunum nr. 3 og 4 við Fálkahraun.  

Endurupptöku var ekki andmælt af hálfu stefnanda og var málið endurupptekið 11. mars 2002.

Í þinghaldi 19. mars 2002 lagði stefnandi m.a. fram aðilaskýrslu Hreiðars Hermannssonar framkvæmdastjóra, óundirritað tryggingarbréf, dags. 10. ágúst 2000, þar sem kveðið er á um að stefndi veðsetji með 4. veðrétti einbýlishúsið nr. 3 við Lóuhraun ásamt lóðarréttindum til tryggingar skaðlausri og skilvísri greiðslu á skuld sinni samkvæmt reikningi veðhafa, stefnanda máls þessa, fyrir allt að 3.000.000 króna, yfirlýsingu, dags. 29. mars 2000, undirritaða af forsvarsmönnum Reitsins ehf. og stefnda, og afsal stefnda, dags. 22. febrúar 2001, fyrir fasteigninni Lóuhrauni 3, Hafnar­firði. 

Samkvæmt framangreindri yfirlýsingu gefa Reiturinn ehf. og stefndi Sigurbergi Guðjónssyni  hdl., löggiltum fasteignasala og fulltrúa H-Gæða ehf., umboð til að greiða byggingarverktakanum Sandfelli ehf. hlutfallslegar greiðslur samkvæmt gangi verksins við byggingu húsanna Lóuhraun 3 og 5 að fengnu samþykki bygg­ingar­stjórans á verkinu, Stefáns Jörundssonar, að verktakinn hafi framkvæmt tiltekna verkþætti samkvæmt áðurgerðum samningi milli Sandfells ehf., Reitsins ehf. og Gravis ehf. dags. 2. apríl 1999.     Skjal þetta var þinglesið 29. september 2000.  Jafn­framt liggur frammi afturköllun umboðs, undirritað 22. febrúar 2001 af Sigurbergi Guðjóns­syni og Stefáni Jörundssyni f.h. stefnda og móttekið á skrifstofu sýslumanns­ins í Hafnarfirði sama dag til aflýsingar á framangreindri yfirlýsingu.

Í aðilaskýrslu Hreiðars Hermannssonar er því lýst að ekki hafi gengið fyllilega eftir  að stefnandi fengi í sinn hlut verðmæti sem fólgið væri í húseignunum nr. 3 og 4 við Fálkahraun.  Þegar öll húsin við Fálkahraun  hafi verið reist hafi verið töluverð skuld við stefnanda og hafi hann því neitað að halda áfram framkvæmdum við Lóuhraun 3 og 5 eins og gert hafi verið ráð fyrir í samningi nema að fá tryggingu fyrir því að greiðslur bærust.  Stefndi hafi þá haft samband við sig og óskað sérstaklega eftir því að hann héldi áfram með húsin þar sem hann væri kominn með kaupanda að húsi nr. 3.  jafnframt hafi legið fyrir kauptilboð í hús nr. 5.  Gert hafi verið sérstakt samkomulag hjá sölumanni á fasteignasölunni H-Gæði og stefndi m.a. lýst yfir að Sigurbergur Guðjónsson mundi sjá um greiðslur til stefnanda.  Það hafi verið eina ástæða þess að stefnandi hélt áfram framkvæmdum að stefndi væri persónulega ábyrgur fyrir greiðslum.  Síðar, þegar komið hafi í ljós að sala á Lóuhrauni 3 gekk ekki eftir, hafi stefndi boðið tryggingarbréf í Lóuhrauni 3 í staðinn fyrir  yfirlýsingu um ráðstöfun andvirðis kaupsamningagreiðslna sem ljóst hafi verið að kæmi ekki a.m.k. að sinni.  Þegar í ljós hafi komið að eignin væri  umtalsvert meira veðsett en stefndi hefði upplýst hafi framkvæmdir verið stöðvaðar en lítið hafi þá verið eftir til að ljúka verkinu.

Meðal gagna, sem fram voru lögð af hálfu stefnda með greinargerð hans 26. mars 2002, eru aðilaskýrsla stefnda, bréf Stefáns Jörundssonar, endurrit af verkfundi 12. janúar 2000 og verksamningur milli Gravis ehf. og stefnda dags. 15. febrúar 2000.

Á framangreindum verkfundi var gert samkomulag milli Gravis ehf. og stefnanda og tók það m.a. til hússins Lóuhrauni 3.  Samkomulagið tók m.a. til breytinga á teikningum og hækkun á samningsverði úr 24.300.000 krónum í 24.568.547 krónur.

Tilvitnaður verksamningurinn kveður á um að Gravis ehf. taki að sér að byggja fyrir stefnda hús nr. 3 við Lóuhraun í Hafnarfirði.

Málavöxtum er með vísun til aðilaskýrslu stefnda lýst þannig í greinargerð:

Reiturinn ehf. fékk úthlutað frá Hafnarfjarðarbæ 15 lóðum í svonefndum Einarsreit í Hafnarfirði á árinu 1999.  Reiturinn ehf. og Gravis ehf., sem eru bygg­ingar­fyrirtæki, gerðu í framhaldi af þeirri úthlutun samstarfssamning um byggingu jafnmargra einbýlishúsa á umræddum lóðum.  Með samþykki Hafnarfjarðarbæjar framseldi Reiturinn ehf. hluta lóðanna til Gravis ehf. og reistu Reiturinn ehf. og Gravis ehf. í sameiningu fjögur hús á svæðinu.  Úthlutun lóða, sem ekki voru hafnar framkvæmdir á, gekk til baka til Hafnarfjarðarbæjar en hluta lóðanna var endurút­hlutað til Reitsins ehf. og einstaklinga.  Stefndi fékk, sem einstaklingur, úthlutað lóðinni að Lóuhrauni 3.  Þann 2. apríl 1999 gerðu stefnandi annars vegar og Gravis ehf. og Reiturinn ehf. hins vegar verksamning um að stefnandi tæki að sér að reisa hús á lóðunum Fálkahrauni 2, 3, 4, 6, 7, 9, 12 og 14 og Lóuhrauni 3 og 5, eða alls 10 hús.   Þann 15. febrúar 2000 gerðu stefndi og Gravis ehf. verksamning um að Gravis ehf. tæki að sér að byggja hús fyrir stefnda á lóðinni hr. 3 við Lóuhraun.

Það er meginmálsástæða stefnda að sýkna beri hann vegna aðildarskorts þar sem glöggt megi sjá af framangreindum samningum að samningssamband hafi aldrei verið milli málsaðila.  Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi reist umrætt hús fyrir stefnda er á því byggt að umrætt verk sé að fullu uppgert og í raun sé stefnandi í skuld við viðsemjendur sína, Reitinn ehf. og Gravis ehf. 

Fyrir dóminum staðfesti vitnið Sigurbergur  Guðjónsson að hann hefði samið yfirlýsingu þá og tryggingarbréf, sem að framan getur.

Vitnið Sæmundur Sæmundsson var eigandi fasteignasölunnar H-gæði sem hann kvað hafa selt 10 af framangreindum húsum en hins vegar ekki Lóuhraun 3.  Hann kvaðst ekki hafa átt bein samskipti við stefnanda.

Vitnið Stefán Jörundsson kvaðst hafa annast öll fjármál fyrir Gravis ehf.  Hann kvað það vera alrangt að stefnandi ætti kröfu á hendur stefnda.  Samningur hefði verið milli Gravis ehf. og stefnanda um Lóuhraun 3 en stefndi hafi aldrei orðið samnings­aðili stefnanda.  Hann kvað verksamning Gravis ehf. og stefnda ekki hafa verið málamyndagerning og hefði Hreiðar Hermannson vitað af honum.  Stefndi hafi verið lóðarhafi að Lóuhrauni 3.  Gagnvart honum hafi Gravis ehf. verið verktaki og stefnandi undirverktaki fyrir Gravis ehf.

Haraldur Jónsson og Hjörleifur Jón Steinsson, starfsmenn stefnanda á þeim tíma sem hér um ræðir, báru vætti.  Haraldur kvað stefnda hafa verið aðaldrifkraft við byggingu hússins Lóuhraun 3 og reynt að láta klára það.  Hann kvað sér hafa skilist að hann hafi ætlað að eiga það.  Hjörleifur Jón kvað Stefán Jörundsson hafa séð um efnisútvegun við byggingu húsa í Fálkahrauni.  Efni hafi komið seint og brösuglega og hafi vinnu verið hætt á tímabili.  Hann kvaðst hafa haldið að við Lóuhraun 3 væri unnið fyrir stefnda, það hafi Hreiðar upplýst og stefndi hafi séð um að útvega efni.

Á grundvelli framangreinds er niðurstaða dómsins sú að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að samningssamband hafi verið milli aðila um byggingu hússins að Lóuhrauni 3.  Breytir í því efni engu þótt stefndi hafi leitast við að stuðla að framgangi verksins með efnisútvegun og með því að gera ráðstafanir til að greiðslur bærust stefnanda.  Þá er það framangreindri niðurstöðu til styrktar að samningur, sem stefnandi  gerði við Gravis ehf. um byggingu hússins, var aldrei felldur úr gildi eða honum breytt umfram það sem áður greinir.

Samkvæmt þessu ber að sýkna stefnda vegna aðildarskorts.  Dæma ber stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sbr. 3. mgr. 141. gr. laga nr. 91/1991,  og er hann ákveðinn 200.000 krónur.

Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Bergur Bergsson, er sýknaður af kröfum stefnanda, Sandfells ehf.

Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.