Hæstiréttur íslands
Mál nr. 324/2013
Lykilorð
- Ábyrgð
- Skuldskeyting
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 7. nóvember 2013 |
|
Nr. 324/2013.
|
Kormákur Geirharðsson Arnar Bergmann Gunnlaugsson Bjarki Bergmann Gunnlaugsson og Skjöldur Sigurjónsson (Björn Þorri Viktorsson hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) |
Ábyrgð. Skuldskeyting. Málsástæða.
K, A, B og S voru eigendur K ehf. í jöfnum hlutföllum, en félagið hafði veitingastaðarekstur með höndum. K ehf. var í viðskiptum við forvera L hf. og gaf m.a. út skuldabréf til L hf. á árinu 2006 og gengust K, A, B og S undir sjálfskuldarábyrgð gagnvart bankanum til tryggingar á skilvísri og skaðlausri greiðslu. Í desember 2009 seldi K ehf. veitingastaðarekstur sinn til B. Í samningi milli aðila um kaupin kom m.a. fram að B tæki yfir skuld K ehf. við L hf., sem var grundvölluð á fjórum skuldabréfum, þar á meðal skuldabréfinu sem deilt var um í málinu, samtals að fjárhæð um 36.000.000 krónur. Þá var einnig kveðið á um að B gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir 26.000.000 króna og að „kauptilboðshafar“ yrðu enn í ábyrgðum fyrir 10.000.000 króna. Voru sjálfskuldarábyrgðir þeirra samkvæmt öðrum skuldabréfum sem gefin höfðu verið út af K ehf. þannig felldar niður. Í tengslum við söluna rituðu K, A, B og S undir skjal hjá L hf. um skuldskeytingu sem „sjálfskuldarábyrgðaraðilar“. Í kjölfar þess að skuldabréfið fór í vanskil kröfðust K, A, B og S þess í bréfi til L hf. að bankinn gæfi út yfirlýsingu um að hann myndi ekki bera ábyrgðaryfirlýsingar þeirra fyrir sig. Þegar ekki var orðið við því höfðuðu þeir mál og kröfðust þess að viðurkennt yrði að sjálfskuldarábyrgð þeirra væri úr gildi fallin. Var krafa þeirra byggð á því að þegar nýr aðili hefði tekið yfir greiðsluskyldu samkvæmt skuldabréfinu hefði sjálfskuldarábyrgð þeirra fallið niður. Héraðsdómur taldi að með undirritun sinni á skuldskeytinguna hefðu K, A, B og S samþykkt að ábyrgjast efndir B á skyldum sínum samkvæmt skuldabréfinu í stað K ehf. Yrði að líta svo á að með því hafi stofnast til nýrrar sjálfskuldarábyrgðar af þeirra hálfu og yrði lánveitandi í slíkum tilvikum að gæta að skyldum sínum samkvæmt 4. og 5. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, að því gefnu að lögin tækju til þeirra. Sjálfskuldarábyrgð K, A, B og S hefði á hinn bóginn verið veitt til þess að tryggja fjárhagslega hagsmuni þeirra sjálfra, en erfiðlega hafði gengið að standa undir skuldbindingum K ehf. með þeim rekstri sem fram fór á vegum félagsins. Hefði L hf. því verið rétt að líta svo á að undanþága 2. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 ætti við um K, A, B og S þannig að ekki hefði verið skylt að fylgja fyrirmælum laganna gagnvart þeim. Þá var ekki fallist á að fella bæri sjálfskuldarábyrgðina úr gildi á þeim grundvelli að bersýnilega ósanngjarnt væri að bera hana fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Var L hf. því sýknaður af kröfum K, A, B og S. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 22. mars 2013. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 8. maí 2012 og áfrýjuðu þeir öðru sinni 14. maí sama ár samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þeir krefjast þess aðallega að viðurkennt verði að sjálfskuldarábyrgðir sínar á skuldabréfi nr. 0115-74-152998 séu úr gildi fallnar, en til vara að „skuldbindingar og undirritanir“ þeirra á framangreint skuldabréf verði ógiltar. Í báðum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fyrir Hæstarétti halda áfrýjendur því fram til stuðnings aðalkröfu sinni að ábyrgð þeirra sé andstæð samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 milli viðskiptaráðuneytisins, Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, Sambands íslenskra sparisjóða og Neytendasamtakanna. Ekki verður séð að á þessari málsástæðu hafi verið byggt í héraði og kemst hún því ekki að fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjendur verða dæmdir til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Kormákur Geirharðsson, Arnar Bergmann Gunnlaugsson, Bjarki Bergmann Gunnlaugsson og Skjöldur Sigurjónsson, greiði stefnda, Landsbankanum hf., óskipt 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2013.
I.
Mál þetta, sem var dómtekið 14. janúar sl., er höfðað 8. júní 2012 af Kormáki Geirharðssyni, Lindargötu 25 í Reykjavík, Skildi Sigurjónssyni, Grundarstíg 3 í Reykjavík, Arnari Gunnlaugssyni, Laugavegi 40a í Reykjavík og Bjarka Gunnlaugssyni, Smáraflöt 14 á Akranesi, gegn Landsbankanum hf., Austurstræti 11 í Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnenda eru þær aðallega að dómur kveði á um að sjálfskuldarábyrgðir stefnenda á veðskuldabréfi nr. 0115-74-152998 séu úr gildi fallnar. Til vara gera stefnefndur þær dómkröfur að ógiltar verði með dómi skuldbindingar þeirra og undirritanir á veðskuldabréf nr. 0115-74-152998 um sjálfskuldaábyrgðir. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar í báðum tilvikum úr hendi stefnda að skaðlausu að mati réttarins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verði fram við aðalflutning málsins. Þá krefjast stefnendur þess að við ákvörðun um málskostnað verði tekið tillit til þess að stefnendur séu ekki virðisaukaskattskyldir.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnenda í málinu. Að auki krefst hann málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð, eða samkvæmt mati dómsins, sem og virðisaukaskatts af dæmdri málflutningsþóknun.
II.
Stefnendur voru eigendur einkahlutafélagsins Kolskeggs í jöfnum hlutföllum, en félagið rak veitingastað í Þingholtsstræti sem bar heitið Domo. Kolskeggur ehf. var í viðskiptum við forvera stefnda, Landsbanka Íslands hf., og síðar við stefnda er tók við eignum og skuldum forvera síns í október 2008. Kolskeggur ehf. gaf meðal annars út skuldabréf 24. nóvember 2006, þar sem félagið viðurkenndi að skulda Breiðholtsútibúi Landsbankans tíu milljónir króna, sem skyldu greiðast til baka á sjö árum með nánar tilgreindum samningsvöxtum. Lánið var verðtryggt og skyldi höfuðstóll þess breytast í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs. Skuldabréf þetta bar númerið 0115-74-152998 og var eitt af fleiri hliðstæðum skuldabréfum sem félagið gaf út til bankans. Stefnendur, ásamt Rósant Frey Birgissyni, gengust undir sjálfskuldarábyrgð gagnvart bankanum til tryggingar á skilvísri og skaðlausri greiðslu á höfuðstól skuldabréfsins, vöxtum, vísitöluálagi, dráttarvöxtum og kostnaði af vanskilum og innheimtuaðgerðum. Tekið var fram á skuldabréfinu að ábyrgðin gilti jafnt þótt greiðslufrestur yrði veittur á láninu, einu sinni eða oftar, uns skuldin væri að fullu greidd.
Samkvæmt áritun á skuldabréfið 8. febrúar 2007 var fyrrgreindur Rósant leystur undan sjálfskuldarábyrgð sinni. Á árinu 2009 voru einnig samþykktar tvær breytingar á greiðsluskilmálum skuldabréfsins. Fyrri skilmálabreytingin, dags. 20. febrúar 2009, fól í sér frestun á greiðslu afborgana af höfuðstól lánsins til 5. september 2009. Síðari skilmálabreytingin er dagsett 11. september 2009, en þar var greiðslu afborgana af höfuðstól lánsins frestað til 12. mars 2010. Stefnendur veittu samþykki sitt fyrir báðum skilmálabreytingunum.
Hinn 15. desember 2009 var gerður samningur, sem ranglega er dagsettur ári síðar. Samningur þessi ber yfirskriftina „Kaupsamningur/leigusamningur um hlutafé í einkahlutafélaginu Kolskeggur ehf. kt.: 550506-2460, félag um rekstur á veitingastaðnum DOMO Þingholtsstræti 5, 101 Rvík.“ Tekið er fram í samningnum að aðilar hans séu Kolskeggur ehf. sem „seljandi“ annars vegar og Björn Þór Baldursson sem „kaupandi“ hins vegar. Í kafla samningsins, sem ber yfirskriftina „Söluandlagið“, kemur fram að seljandi lofi að selja og „kaupandi að kaupa allt hlutafé í einkahlutafélaginu Kolskeggur ehf.“ að nafnvirði 36 milljónir króna. Um kaupverð og greiðslutilhögun var í samningnum tekið fram að „tilboðsgjafi“ yfirtaki „um 36.000.000 (þrjátíu og sexmilljón króna) skuld rekstrarfélagsins við Landsbanka Íslands“. Kveðið var á um að hann gengi síðan „í sjálfskuldarábyrgð“ fyrir 26.000.000 króna en að „kauptilboðshafar“ yrðu enn í ábyrgðum fyrir 10.000.000 króna „gagnvart Landsbanka Íslands“. Miðað var við að félagið yrði afhent kaupanda 15. desember 2009 ásamt öllum réttindum sem fylgdu hlutunum og tæki kaupandi við rekstri félagsins frá og með afhendingu þess. Skyldi allt hið selda hlutafé vera „veðbanda- og kvaðalaust við afhendingu að frátöldu framantöldum lánum við Landsbanka Íslands“. Mátti félagið þá ekki skulda neitt umfram það sem fram kom í þeim reikningshaldslegu gögnum, sem lögð voru fram við undirritun samningsins, og var tekið fram að seljendur hefðu frest til 1. mars til að aflétta óviðkomandi kvöðum af „hinu keypta“. Stefnendurnir Bjarki og Kormákur undirrituðu samninginn fyrir hönd Kolskeggs ehf.
Við skýrslugjöf stefnenda við aðalmeðferð málsins kom fram að litið hefði verið svo á að einungis rekstur Kolskeggs ehf. á veitingastaðnum DOMO hefði skipt um hendur við framangreindan gerning, en ekki hlutafé í félaginu. Gögn málsins bera og með sér að Kolskeggur ehf. sé ennþá í eigu stefnenda.
Í málinu liggur fyrir skjal, dags. 25. febrúar 2010, sem ber yfirskriftina „Skuldskeyting. Viðauki við skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð“, en það er gert á bréfsefni stefnda. Í þessu skjali er vísað til fyrrgreinds skuldabréfs númer 0115-74-152998. Þar er tekið fram að stefndi hafi veitt samþykki sitt fyrir því að nýr skuldari, Björn Þór Baldursson, taki yfir skyldur Kolskeggs ehf. samkvæmt skuldabréfinu. Í texta skjalsins segir orðrétt: „Með undirritun sinni á viðauka þennan staðfesta sjálfskuldarábyrgðaraðilar að þeir hafa kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbankans um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila, en Landsbankinn er aðili að samkomulagi fjármálafyrirtækja, stjórnvalda og Neytendasamtakanna um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga.“ Undir skjalið rita Björn Þór Baldursson, sem nýr skuldari, og stefnendur, Kormákur og Bjarki, fyrir hönd fyrri skuldara, Kolskeggs ehf. Allir stefnendur skrifuðu jafnframt undir sem sjálfskuldarábyrgðaraðilar. Neðan við nöfn þeirra er eftirfarandi texti: „Óskar eftir mati á greiðslugetu NÝS skuldara.“ Þar fyrir aftan var gert ráð fyrir að viðkomandi merkti annað hvort við „já“ eða „nei“ í þar til gerða reiti. Allir stefnendur merktu í reit við „nei“, en ekki í reit við „já“.
Umrætt skuldabréf var áritað um skuldskeytinguna þar sem nýr skuldari er tilgreindur Björn Þór Baldursson. Sú áritun virðist hafa verið færð á bréfið 12. janúar 2010. Sama dag var bréfið áritað um nýja skilmálabreytingu. Þar virðist vera vísað til breytingar á greiðsluskilmálum skuldabréfsins, dags. 25. febrúar 2010, þar sem afborgun af höfuðstól lánsins var frestað til 2. ágúst 2010. Stefnendur samþykktu þessa breytingu með áritun sinni á skuldbreytingarskjalið. Eftir það voru tvær afborganir af höfuðstól skuldarinnar greiddar uns ný skilmálabreyting var gerð 22. desember 2010 þar sem lánstíminn var lengdur í 12 ár. Stefnendur veittu einnig samþykki sitt fyrir þessari breytingu með áritun sinni á skjalið. Samkvæmt gögnum málsins fór lánið í vanskil í ársbyrjun 2011.
Með bréfi lögmanns stefnenda 20. mars 2012 var þess krafist að stefndi gæfi út yfirlýsingu um að bankinn myndi ekki bera fyrrgreindar ábyrgðaryfirlýsingar stefnenda fyrir sig. Í bréfinu er því meðal annars haldið fram að lítið sem ekkert hafi verið greitt af skuldabréfinu eftir skuldskeytinguna, en að áður hefði það verið í fullum skilum. Þá hefði bankinn ekki efnt skyldu sína um að sjá til þess að greiðslumat færi fram til að sýna fram á hæfi nýs lántaka til að geta staðið í skilum áður en stefnendur gengust undir ábyrgð á endurgreiðslu lánsins og að kynna niðurstöður matsins fyrir þeim. Þá hafi ekki verið gerður sérstakur ábyrgðarsamningur við stefnendur, eins og skylt hafi verið að gera. Í þessu sambandi var í bréfinu vísað til laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, einkum 4., 5. og 6. gr. laganna.
Með bréfi stefnda 12. apríl 2012 var því haldið fram að ábyrgðin stæði óhögguð þó að nýr skuldari hefði tekið við skuldbindingum upphaflegs lántaka. Ekki yrði talið að samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 ætti við þar sem „um fyrirtæki [var] að ræða“ við upphaflega lánveitingu 24. nóvember 2006. Væri það mat bankans að ábyrgðin væri gild þar sem ekki hefði verið um nýja lánveitingu að ræða þegar skuldskeytingin átti sér stað 25. febrúar 2010.
III.
1. Málsástæður og lagarök stefnenda
Stefnendur reisa dómkröfur sínar á því að aldrei hafi stofnast til sjálfskuldarábyrgðar af þeirra hálfu gagnvart nýjum lántaka og að fyrri yfirlýsingar um sjálfskuldarábyrgðir þeirra hafi fallið niður við skuldskeytingu lánsins. Því geti stefndi ekki byggt neinn rétt á þeim gagnvart stefnendum. Í stefnu var þessi afstaða einkum reist á tveimur málsástæðum, annars vegar að stefnendur hafi hvorki undirritað nein skjöl né gefið skriflegar yfirlýsingar um að þeir tækjust á hendur ábyrgð af þessu tagi gagnvart nýjum skuldara, hins vegar að stefndi hafi virt að vettugi skyldur sem á honum hafi hvílt sem lánveitanda, þegar leitast hafi verið við að stofna til nýrra sjálfskuldarábyrgða. Við aðalmeðferð málsins féllu stefnendur frá fyrri málsástæðunni í ljósi framlagningar stefnda á skjali um skuldskeytinguna, dags. 25. febrúar 2010, þar sem allir stefnendur veittu skriflegt samþykki sitt fyrir því að standa í ábyrgð fyrir greiðslu nýs skuldara á láninu.
Undir rekstri málsins, og með samþykki stefnda, bættu stefnendur varakröfu við kröfugerð sína. Sú krafa er á því reist að bersýnilega sé ósanngjarnt af hálfu stefnda að bera fyrir sig ábyrgðirnar, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og tilgreind ákvæði laga nr. 32/2009, eins og nánar verður vikið að síðar. Þessi breyting á málatilbúnaði stefnenda var rökstudd með skírskotun til niðurstöðu Hæstaréttar Íslands frá 29. nóvember sl. í máli nr. 213/2012 um túlkun ákvæða laga nr. 32/2009.
Aðalkrafa stefnenda er á því reist að við skuldskeytingu á skuldabréfaláninu hafi þurft að stofna til nýrrar sjálfskuldarábyrgðar stefnenda á efndum nýs skuldara á greiðsluskyldum sínum samkvæmt skuldabréfinu, hafi þeir áfram átt að vera í slíkri ábyrgð. Um það vísa stefnendur meðal annars til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 455/2009. Staða ábyrgðarmanna geti enda versnað til mikilla muna við skuldskeytingu taki skuldari með lakari greiðslugetu við af fyrri skuldara, eins og stefnendur halda fram að gerst hafi í þessu tilviki. Allar forsendur fyrri yfirlýsinga ábyrgðarmanna um sjálfskuldarábyrgð séu því eðli málsins samkvæmt brostnar enda hafi þeir ekki tekist á hendur ábyrgð á efndum síðari skuldara.
Stefnendur byggja einnig á því að við stofnun nýrrar sjálfskuldarábyrgðar í tengslum við umrædda skuldskeytingu hafi borið að fylgja lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, en lögin hafi tekið gildi 2. apríl 2009. Lögin kveði með skýrum hætti á um hvaða skilyrði lánveitandi verði að uppfylla svo að til sjálfskuldarábyrgðar stofnist. Lögin leggi m.a. þær skyldur á herðar honum að framkvæma greiðslumat á lántaka, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og að niðurstaða þess sé kynnt fyrir ábyrgðarmönnum, sbr. b-lið 5. gr. sömu laga. Það hafi ekki verið gert í þessu tilviki. Halda stefnendur því fram að tilvist greiðslumatsins hafi verið forsenda þess að ábyrgðarmennirnir gætu tekið upplýsta ákvörðun um þá áhættu sem fólst í því að takast á hendur persónulega ábyrgð á fjárskuldbindingum þriðja aðila.
Stefnendur vísa enn fremur til þess að í 6. gr. laga nr. 32/2009 sé kveðið á um að gera skuli skriflegan ábyrgðarsamning. Þar skuli koma fram þær upplýsingar sem kveðið sé á um í 1. mgr. 5. gr. laganna. Verði þær að liggja fyrir við undirritun sjálfskuldarábyrgðar þannig að ábyrgðarmenn geti tekið upplýsta ákvörðun um þá áhættu sem sé samfara því að gangast undir hana. Tilvist slíks samnings sé því ófrávíkjanlegt skilyrði þess að til sjálfskuldarábyrgðar geti stofnast.
Stefnendur taka enn fremur fram að stefndi sé lánastofnun og starfi í skjóli opinberra starfsleyfa. Hafi stefndi haft yfirburðarstöðu gagnvart stefnendum í samningum um sölu rekstrarins bæði þegar litið sé til fjárhagslegrar stöðu sem og þekkingar. Auk þess hafi öll skjalagerð varðandi skuldabréfið verið í höndum stefnda. Hann beri því hallann af því hafi skjalagerð ekki verið með þeim hætti sem gerð sé krafa um í lögum. Því beri að skýra allan vafa um það hvort til ábyrgðar hafi stofnast stefnda í óhag. Það sé jafnframt í samræmi við meginreglur samningaréttar um túlkun, sér í lagi þegar neytendaréttarsjónarmið eigi við.
Til stuðnings varakröfu byggja stefnendur á því í bókun, sem lögð var fram í þinghaldi 4. janúar sl., að það sé bersýnilega ósanngjarnt af hálfu stefnda að bera fyrir sig ábyrgðirnar. Um það vísa stefnendur til þess að eftir yfirtöku kaupanda á skuldbindingum Kolskeggs ehf. hafi aldrei verið greitt af hinu umþrætta skuldabréfi, en að það hafi verið í skilum fram að því. Það sé því óhætt að fullyrða að um leið og reynt hafi á greiðslugetu hins nýja skuldara hafi komið í ljós að hann hafi ekki getað efnt skyldur sínar samkvæmt skuldabréfinu. Stefnendur hafi aldrei verið upplýstir með formlegum og réttmætum hætti um takmarkaða greiðslugetu hins nýja skuldara, eins og lög kveði á um að skuli gert, en þeir telja að stefndi hafi haft upplýsingar um það. Með vísan til fyrrgreindra ákvæða laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, einkum 1. gr., II. kafla og 2. mgr. 10. gr., sbr. framlagt skjal um veð stefnda í rekstrarfjármunum veitingastaðarins, en í ákvæðinu sé kveðið á um skyldur lánveitanda til að gæta að veðum og öðrum tryggingaráðstöfunum, auk 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, telja stefnendur að umræddar sjálfskuldarábyrgðir séu ógildanlegar og að þeim beri að víkja til hliðar.
Um lagarök vísa stefnendur til meginreglna samninga- og kröfuréttar, viðskiptabréfareglna, auk laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, einkum I. og II. kafla laganna. Þá vísa stefnendur til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, til stuðnings varakröfu.
2. Málsástæður og lagarök stefnda
Röksemdir stefnda fyrir því að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnenda koma annars vegar fram í greinargerð hans, sem lögð var fyrir dóminn 11. september 2012, og hins vegar í bókun sem lögð var fram í þinghaldi 4. janúar sl., en þar er brugðist við nýrri málsástæðu stefnanda. Í bókuninni er jafnframt vakin athygli dómsins á því málið sé vanreifað af hálfu stefnenda um það hvort með kaupsamningnum frá 15. desember 2009 hafi átt sér stað sala á rekstri veitingastaðarins eða sala á hlutabréfum í Kolskeggi ehf. Ekki hafi verið brugðist við ábendingum í greinargerð stefnda um þetta atriði. Því sé íhugunarefni hvort vísa eigi málinu frá dómi án kröfu sökum þessa, þar sem þessi vanreifun hafi að mati stefnda mikla þýðingu við mat á því hvort lög um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 eigi við um kröfur stefnenda eða ekki. Bendir stefndi á að samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá séu stefnendur ennþá eigendur alls hlutafjár í Kolskeggi ehf.
Sýknukrafa stefnda er á því reist að umrædd sjálfskuldarábyrgð sé í fullu gildi. Ekkert komi fram í stefnu og málatilbúnaði stefnenda sem réttlæti að lögum að ábyrgðin teljist úr gildi fallin. Stefndi bendir í því sambandi meðal annars á að stefnendur hafi allir samþykkt með undirritun á skuldskeytingu 25. febrúar 2010 að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð gagnvart nýjum skuldara á umræddu skuldabréfi.
Í tilefni af því sem haldið sé fram af hálfu stefnenda, að stefndi hafi virt að vettugi skyldur lánveitanda lögum samkvæmt við stofnun nýrra sjálfskuldarábyrgða, heldur stefndi því fram að ekki hafi verið stofnað til nýrra sjálfskuldarábyrgða við skuldskeytinguna. Skuldin sem ábyrgðunum hafi verið ætlað að ná til sé ennþá til staðar og hafi stefndi fallist á skuldskeytingu þeirrar skuldar með því að engin breyting yrði á sjálfskuldarábyrgð stefnenda.
Þá byggir stefndi á því að lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn gildi ekki í málinu. Stefnendur geti því ekki stutt dómkröfu sína á ákvæðum þeirra. Því til stuðnings vísar stefndi til þess að samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laganna sé með ábyrgðarmanni átt við einstakling sem gangist persónulega í ábyrgð eða veðsetur tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka, enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans. Samkvæmt athugasemdum frumvarpsins sé helsta afmörkunin í 2. gr. undir því komin í hvaða tilgangi ábyrgð sé veitt. Veiti ábyrgðarmaður ábyrgð í þágu eigin atvinnurekstrar, sé litið svo á að ábyrgðarmaður hafi ekki þörf fyrir jafn ríka vernd og ákvæði frumvarpsins mæli fyrir um. Við mat á því hvort skilyrði um atvinnurekstur sé uppfyllt verði einkum að líta til þess, hvort ábyrgðarmaður hafi þegið sanngjarnt endurgjald fyrir að gangast í ábyrgð. Stefndi telur að hvoru tveggja eigi við í þessu máli, annars vegar að umrædd ábyrgð hafi verið veitt í þágu atvinnurekstrar stefnenda og hins vegar í þágu fjárhagslegs ávinnings þeirra.
Stefndi bendir á að ráða megi af gögnum málsins að rekstur veitingastaðarins Domo hafi verið seldur Birni Þór Baldurssyni meðal annars með þeim skilmálum að stefnendur væru áfram í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuld Kolskeggs ehf. við stefnda, samkvæmt skuldabréfi nr. 0115-74-152998 að fjárhæð 10.000.000 króna. Kaupsamningur samningsaðila geri ráð fyrir þessu og til staðfestingar á þeirri ráðagerð hafi stefnendur undirritað formlega skuldskeytingu, sem jafnframt hafi verið viðauki við umrætt skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð þeirra.
Af hálfu stefnda er bent á að stefnendur hafi sjálfir ákveðið að ganga til samninga við hinn nýja skuldara og hafi þeir samþykkt með eigin undirritun á umrædda skuldskeytingu að ekki yrði lagt sérstakt mat á greiðslugetu hans. Að mati stefnda sé augljóst að allt þetta hafi verið gert í þágu stefnenda til að auðvelda mætti sölu umrædds rekstrar. Stefnendur hafi sjálfir haft ríka hagsmuni af því að salan gengi eftir og framangreindir skilmálar í kaupsamningi aðila og gerð skuldskeytingar í samræmi við kaupsamninginn, hafi verið grundvöllur þess að svo mætti verða. Ljóst sé að veitingareksturinn hafi gengið illa og augljósir hagmunir stefnenda að tryggja sölu hans, þar sem þeir hafi augljóslega ekki ráðið við reksturinn.
Til frekari stuðnings því að afmörkun á gildissviði laga um ábyrgðarmenn komi í veg fyrir að stefnendur geti byggt kröfu sína í máli þessu á ákvæðum þess, bendir stefndi á að í upphafi athugasemda frumvarps til laga um ábyrgðarmenn, komi fram að í frumvarpinu sé lögð áhersla á vernd ábyrgðarmanna og formfestu og fagleg vinnubrögð við gerð lánasamninga þar sem krafist sé ábyrgðarmanna. Finna megi þess mörg dæmi úr íslensku viðskiptalífi, að forsenda þess að samningur hafi tekist með lánveitendum og lántökum sé að þriðji aðili, einstaklingur, hafi endurgjaldslaust tekist á hendur ábyrgð. Eins og ráða megi af framangreindu sé ekki um slíka ábyrgð að ræða, þegar að baki liggi sala á rekstri í eigu stefnenda og þeir sjálfir hafi persónulega og fjárhagslega hagsmuni af að salan gangi eftir. Af gögnum málsins megi augljóslega ráða að ein af forsendunum fyrir sölunni hafi verið að stefnendur væru áfram í ábyrgð samkvæmt umræddu skuldabréfi og á þeim grunni hafi stefndi samþykkt skuldskeytinguna, sem hafi verið hluti af sölunni og skilmálum samkvæmt kaupsamningi.
Auk framangreinds, og með hliðsjón af viðurkenndum sjónarmiðum í íslenskum rétti um tómlæti, liggi fyrir að stefnendur hafi litið svo á, löngu eftir að umrædd sala á rekstrinum og skilmálabreyting á skuldabréfinu hafi farið fram, að enginn vafi léki á gildi áframhaldandi sjálfskuldarábyrgðar þeirra. Því til staðfestingar vísar stefndi til þess, að með breytingu á greiðsluskilmálum, dags. 22. desember 2010, hafi stefnendur ritað sem sjálfskuldarábyrgðaraðilar, undir samþykki sitt fyrir enn einni skilmálabreytingunni á skuldabréfinu, tæpu ári eftir að margumrædd viðskipti voru um garð gengin.
Verði talið að lög um ábyrgðarmenn eigi við í máli þessu byggir stefndi sýknukröfu sína einnig á því að með eigin undirritun og samþykki hafi stefnendur fyrirgert rétti sínum samkvæmt lögunum um að sérstakt mat yrði lagt á greiðslugetu hins nýja skuldara samkvæmt umræddu skuldabréfi. Lög um ábyrgðarmenn komi ekki í veg fyrir að stefnendur geti fallið frá því að umrætt mat fari fram, enda sé vilji þeirra skýr og augljós. Í þessu efni sé byggt á meginreglunni um samningsfrelsi varðandi heimildir stefnenda til að semja sig undan umræddu mati á hinum nýja skuldara. Telur stefndi að það hefði þurft að koma skýrt fram í lagatextanum sjálfum ef ætlunin hefði verið að lögin væru óundanþæg. Slíku sé ekki til að dreifa í lögunum. Stefnendur hafi því getað horfið frá þeirri vernd sem lögunum hafi verið ætlað að veita þeim með sérstöku mati á greiðslugetu hins nýja skuldara.
Auk framangreinds hafnar stefndi þeirri málsástæðu stefnenda að lagaskylda samkvæmt 6. gr. laga um ábyrgðarmenn hafi staðið til þess að stefnda hafi borið að gera sérstakan ábyrgðarsamning við stefnendur vegna sjálfskuldarábyrgðar þeirra, sem hafi verið áfram í gildi við gerð og framkvæmd skuldskeytingar á umræddu skuldabréfi. Stefndi byggir á því að ekki hafi verið þörf á gerð slíks ábyrgðarsamnings, þar sem skilmálar skuldabréfsins og skuldskeytingarinnar hafi verið skýrir, auk þess sem stefnendur hefðu fallið frá því að framkvæmt yrði mat á hinum nýja skuldara samkvæmt 5. gr. laga um ábyrgðarmenn.
Stefndi telur að gögn málsins afhjúpi í besta falli vafasaman málatilbúnað stefnenda og vonda trú þeirra gagnvart stefnda, í tengslum við sölu á margumræddum rekstri og í samskiptum við stefnda þá og síðar vegna skuldbindinga Kolskeggs ehf. og þeirra sjálfra, persónulega. Að baki ábyrgðinni liggi kaupsamningur um rekstur sem hafi verið í eigu stefnenda, sem hafi gert ráð fyrir áframhaldandi ábyrgð þeirra til að sala hans gæti gengið eftir og stefndi hafi samþykkt fyrir sitt leyti. Auk þess hafi stefnendur hagað sér í samræmi við áframhaldandi sjálfskuldarábyrgð sína löngu eftir að umrædd kaup hafi verið um garð gengin með því að samþykkja sem ábyrgðaraðilar frekari skilmálabreytingar á þeirri skuld sem þeir hafi verið og séu í ábyrgð fyrir. Að krefjast ógildingar á umræddri ábyrgð nú sé að mati stefnda óskiljanlegt í ljósi forsögunnar og beri vott um vægast sagt vafasama viðskiptahætti.
Í bókun stefnda, sem lögð var fram 4. janúar sl., er því hafnað með öllu að fyrir hendi séu málsástæður og lagarök sem réttlæti lögum samkvæmt að ógilda sjálfskuldarábyrgðir stefnenda á þeim grunni að þær séu bersýnilega ósanngjarnar gagnvart stefnendum. Telur stefndi að ekkert hafi komið fram af hálfu stefnenda í málinu sem réttlæti slíka niðurstöðu og ítrekar hann fyrri málsástæður sínar og lagarök í greinargerð um að lög um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 geti ekki átt við um kröfur stefnenda í máli þessu. Ef fallist verði eftir sem áður á að lögin eigi við, og komi til skoðunar hvort víkja eigi ábyrgðunum til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, tekur stefndi fram að það sé í besta falli röng framsetning og raunar ósatt af hálfu stefnenda að umrætt skuldabréf hafi verið í skilum þar til nýr skuldari á skuldabréfinu tók yfir skuldbindinguna með skuldskeytingu. Sama gildi um þá fullyrðingu stefnenda að þegar reynt hafi á greiðslugetu hins nýja skuldara hafi komið í ljós að hann hafi ekki getað staðið í skilum og að svo virðist sem bankinn hafi búið yfir upplýsingum um takmarkaða greiðslugetu hins nýja skuldara, sem stefnendur hafi ekki verið upplýstir um. Framangreint sé með öllu ósannað af hálfu stefnenda og með þessum málatilbúnaði slíti stefnendur alla málavexti úr samhengi, að því er virðist með það að markmiði að varpa villandi eða beinlínis röngu ljósi á staðreyndir málsins.
Stefndi tekur fram að Kolskeggur ehf. hafi verið í skilum með afborganir á umræddu skuldabréfi frá 5. janúar 2007 til og með 5. desember 2008, en lánið hafi upphaflega verið til 7 ára. Í ársbyrjun 2009 hafi verið farið að halla verulega undan fæti í rekstri Kolskeggs ehf. og veitingastaðarins Domo. Því hafi félagið þurft nauðsynlega á skilmálabreytingu að halda á umræddu láni, þar sem það hafi ekki getað staðið í skilum samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins. Skilmálabreyting hafi verið gerð á skuldabréfinu þann 20. febrúar 2009. Hafi lánstíminn verið lengdur og afborgunum af höfuðstól frestað til 5. september 2009. Á umræddu tímabili hafi því aðeins verið greiddar verðbætur og vextir af skuldabréfinu. Aftur hafi verið gerð skilmálabreyting á skuldabréfinu 11. september 2009 vegna greiðsluerfiðleika Kolskeggs ehf. og nú hafi afborgun af höfuðstól skuldabréfsins verið frestað til 12. mars 2010. Að lokum hafi verið gerð skilmálabreyting á skuldabréfinu 25. febrúar 2010, samhliða skuldskeytingu skuldabréfsins. Þá hafi afborgun skuldabréfsins verið frestað til 2. ágúst 2010 og hafi verið greitt af því af hálfu nýs skuldara á þeim gjalddaga og eins á gjalddaga skuldabréfsins 2. september 2010. Síðan hafi verið gerð enn ein skilmálabreytingin á láninu 22. desember 2010, sem stefnendur hafi samþykkt fyrir sitt leyti. Skuldabréfið hafi síðan farið í endanleg vanskil í upphafi árs 2011. Af þessu megi sjá að fullyrðingar stefnenda um að aldrei hafi verið greitt af skuldabréfinu eftir yfirtöku nýs skuldara á láninu séu rangar og skilmálabreytingar hafi verið gerðar á láninu á sama hátt og tíðkast hafði gagnvart Kolskeggi ehf.
Stefndi byggir enn fremur á því að gögn málsins sýni stigvaxandi rekstrarerfiðleika Kolskeggs ehf. á árabilinu 2006 til 2009. Í því efni vísar stefndi meðal annars til framlagðra ársreikninga félagsins. Lykiltölur úr rekstri þess endurspegli mjög neikvæðan rekstur félagsins öll rekstrarárin. EBITDA sé neikvæð og ávallt sé mikið tap á rekstrinum. Langtímaskuldir félagsins hafi ávallt verið við stefnda og við stefnendur sem eigendur félagsins. Skammtímaskuldir hafi verið yfirdráttarlán, viðskiptaskuldir, ógreidd laun o.fl., eins og ársreikningarnir beri með sér. Tölurnar sýni augljóslega mjög erfiðan rekstur Kolskeggs ehf. og mikið tap öll umrædd ár. Tölurnar sýni jafnframt að félagið hafi verið verulega skuldsett og með verulega neikvætt eigið fé. Félagið hafi hætt að geta staðið undir lánum við stefnda árið 2009, en hvorki hafi verið skilað inn ársreikningi fyrir það ár né rekstrarárin þar á eftir.
Þessu til viðbótar bendir stefndi á að við söluna á rekstri veitingastaðarins hafi Kolskeggur ehf. skuldað stefnda 36 milljónir króna. Tilboðsgjafi hafi yfirtekið skuldirnar samkvæmt kaupsamningi, en stefnendur hafi áfram verið í sjálfskuldarábyrgð fyrir 10 milljóna króna skuld eins og rakið hafi verið. Í tengslum við þessi viðskipti hafi stefndi fallist á að losa stefnendur undan sjálfskuldarábyrgðum þeirra samkvæmt skuldabréfi nr. 0115-74-152941, dags. 16. október 2006, útgefnu af Kolskeggi ehf., sem upphaflega hafi verið að fjárhæð 10.000.000 króna. Skilmálum þess hafi verið breytt 20. febrúar 2009 og aftur 11. september 2009. Hafi lánið staðið í 9.730.166 krónum við skuldskeytingu og niðurfellingu sjálfskuldarábyrgða stefnenda 25. febrúar 2010. Þá hafi stefndi jafnframt fallist á að losa stefnendur undan sjálfskuldarábyrgðum þeirra á skuldabréfi nr. 0115-74-154608, dags. 2. apríl 2008, útgefnu af Kolskeggi ehf., sem upphaflega hafi verið að fjárhæð 10.000.000 króna. Því skuldabréfi hafi verið skilmálabreytt 20. mars 2009 og aftur 11. september 2009. Hafi lánið staðið í 8.739.044 krónum við skuldskeytingu og niðurfellingu sjálfskuldarábyrgðar stefnenda 25. febrúar 2010. Að síðustu hafi stefndi fallist á að losa stefnendurna, Arnar Bergmann Gunnlaugsson og Bjarka Bergmann Gunnlaugsson, undan sjálfskuldarábyrgðum þeirra á skuldabréfi nr. 0115-74-154171, dags. 23. apríl 2007, útgefnu af Kolskeggi ehf., sem hafi upphaflega verið að fjárhæð 6.000.000 króna í tengslum við framangreind viðskipti.
Það eina sem hafi staðið eftir við umrædda sölu á rekstri veitingastaðarins samkvæmt kaupsamningi hafi verið að stefnendur yrðu áfram í sjálfskuldarábyrgð á margumræddu skuldabréfi. Að mati stefnda hafi stefnendum verið mikill greiði gerður með því að fallast á að halda einungis eftir sjálfskuldarábyrgð þeirra vegna framangreindra viðskipta og losa þá þannig undan frekari ábyrgðum sem þeir hafi staðið í vegna Kolskeggs ehf., sem hafi verið og sé félag í þeirra eigu.
Stefndi leggur áherslu á að skoða verði viðskiptin 15. desember 2009 með hliðsjón af skuldsetningu Kolskeggs ehf. gagnvart stefnda og meta málið í ljósi þeirra ábyrgða, sem stefnendur hafi losnað undan gagnvart félaginu, sem og þeirri hagfelldu niðurstöðu sem af því hafi leitt fyrir stefnendur persónulega. Með hliðsjón af öllu framansögðu mótmælir stefndi því harðlega að hægt sé að fallast á það með stefnendum að fella beri úr gildi eða víkja til hliðar sjálfskuldarábyrgðir þeirra á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, þar sem þær séu bersýnilega ósanngjarnar. Að mati stefnda hafi stefnandi ekki sýnt fram á það í málatilbúnaði sínum eða framlögðum gögnum, að svo sé eða hafi verið. Þvert á móti bendi gögn málsins til hins gagnstæða, að framangreind viðskipti og ráðstafanir hafi allar verið til hagsbóta fyrir stefnendur.
Um lagarök vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir kröfuréttinda og laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. Stefndi kveður kröfu sína um málskostnað styðjast við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefndi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur aðili og beri að taka tillit til þess við ákvörðun um málskostnað.
IV.
Í máli þessu gera stefnendur þá kröfu að sjálfskuldarábyrgð stefnenda á efndum skuldabréfs, sem Kolskeggur ehf. gaf út 24. nóvember 2006, sé aðallega fallin niður en til vara að fella beri hana úr gildi. Stefndi mótmælir kröfum stefnanda og telur að ábyrgðaryfirlýsingin sé ennþá í fullu gildi og að engin rök standi til þess að ógilda hana.
Málatilbúnaður stefnanda hefur verið nokkuð á reiki, einkum um það hvort hlutabréf stefnenda í Kolskeggi ehf. hafi verið seld með kaupsamningi 15. desember 2009, sem rakinn er í kafla II, eða hvort salan hafi lotið að rekstri veitingastaðarins Domo, sem var í eigu félagsins. Í stefnu er talið að með samningnum hafi hlutabréfin verið seld Birni Þór Baldurssyni. Af aðilaskýrslum stefnenda fyrir dómi verður ráðið að þeir hafi litið svo á að einungis hafi orðið eigendaskipti á rekstri veitingastaðarins við gerð samningsins og að þeir séu ennþá eigendur Kolskeggs ehf. Kemur þetta og heim og saman við önnur gögn málsins og verður út frá því gengið við úrlausn málsins. Ekki verður séð að rangfærsla í stefnu um raunverulegt andlag kaupsamningsins hafi komið niður á vörnum stefnda, enda hefur hann frá öndverðu byggt á því að samningurinn lúti að rekstri veitingastaðarins. Dómurinn telur því ekki efni til að vísa málinu frá á þessum grundvelli.
Það er óumdeilt að stefnendur tóku á sig sjálfskuldarábyrgð á efndum skuldabréfsins frá 24. nóvember 2006 með áritun sinni á það. Stefnendur voru þá eigendur útgefanda bréfsins, Kolskeggs ehf., og hafa þeir ekki véfengt gildi ábyrgðar þeirra á efndum félagsins samkvæmt skuldabréfinu. Stefnendur byggja aftur á móti á því að þegar nýr aðili hafi tekið yfir greiðsluskyldu upphaflegs útgefanda bréfsins hafi sjálfskuldarábyrgð þeirra fallið niður.
Stefnendur samþykktu með undirritun sinni á skuldskeytingarskjal, dags. 25. febrúar 2010, að þeir yrðu áfram í sjálfskuldarábyrgð fyrir efndum á skuldabréfinu eftir að nýr skuldari, Björn Þór Baldursson, tæki yfir skyldur upphaflegs útgefanda þess. Það var og í samræmi við fyrrgreindan kaupsamning Björns Þórs og Kolskeggs ehf., en þar virðist hafa verið við það miðað að Björn Þór myndi eignast reksturinn gegn yfirtöku á 36 milljóna króna skuld Kolskeggs ehf. við stefnda og að stefnendur yrðu áfram í sjálfskuldarábyrgð fyrir 10 milljónum króna. Stefnendur byggja aðalkröfu sína á því að þetta samþykki sé óskuldbindandi fyrir þá, þar sem stefndi hafi ekki farið að fyrirmælum laga nr. 32/2009, einkum 4. og 5. gr. þeirra, þegar þess var aflað. Í því efni er lögð áhersla á að stefndi hafi krafist þess að stefnendur ábyrgðust áfram efndir á umræddu skuldabréfi.
Þegar skuldskeytingin átti sér stað höfðu lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn tekið gildi. Í 4. gr. þeirra er meðal annars lögð sú skylda á lánveitanda að meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán, gangist ábyrgðarmaður í ábyrgð til tryggingar á efndum lántaka. Verður lánveitandi að ráða ábyrgðarmanni frá því að undirgangast ábyrgðina ef greiðslumatið bendir til þess að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna ber lánveitanda einnig að veita væntanlegum ábyrgðarmanni leiðbeiningar um tilgreind atriði, sem talin eru upp í níu stafliðum í ákvæðinu, þ. á m. um greiðslugetu lántaka, sbr. b-lið 1. mgr. 5. gr. laganna.
Það er óumdeilt að mat á hæfi Björns Þórs Baldurssonar til að standa í skilum með umrætt skuldabréf fór ekki fram áður en stefnendur samþykktu að gangast í ábyrgð fyrir efndum hans á skuldabréfinu. Þá verður ekki séð að nokkrar upplýsingar hafi verið veittar um greiðslugetu hans. Stefndi ber því hins vegar við að lögin hafi hvorki gilt um skuldskeytinguna 25. febrúar 2010 né stefnendur sem ábyrgðarmenn og því geti þeir ekki borið þau fyrir sig.
Í 12. gr. laga nr. 32/2009 segir að lögin taki til ábyrgða sem stofnað hafi verið til fyrir gildistöku þeirra „að frátöldum 4. gr., 5. gr., 1. mgr. 6. gr. og 8. gr.“ laganna. Í nefndaráliti viðskiptanefndar segir um þessa breytingu að lagt sé til að „þau ákvæði frumvarpsins sem lúti að stofnun, efni og formi ábyrgðarsamninga gildi ekki um ábyrgðarsamninga sem gerðir hafa verið fyrir gildistöku laganna“.
Með sjálfskuldarábyrgð skuldbindur ábyrgðarmaður sig til að efna greiðsluskyldu aðalskuldara gagnvart kröfuhafa hafi aðalskuldari vanefnt þá skyldu. Komi nýr skuldari í stað upphaflegs aðalskuldara fellur ábyrgð ábyrgðarmanns niður, nema hann veiti samþykki sitt fyrir því að ábyrgjast áfram efndir á greiðsluskyldu hins nýja skuldara gagnvart kröfuhafa. Með undirritun sinni á skuldskeytinguna 25. febrúar 2010 samþykktu stefnendur að ábyrgjast efndir Björns Þórs Baldurssonar á skyldum sínum samkvæmt skuldabréfinu í stað Kolskeggs ehf. Í ljósi þess sem að framan greinir verður að líta svo á að með því hafi stofnast til nýrrar sjálfskuldarábyrgðar af þeirra hálfu. Við aðstæður sem þessar verður lánveitandi að gæta að skyldum sínum samkvæmt 4. og 5. gr. laga nr. 32/2009 að því gefnu að lögin taki til viðkomandi ábyrgðarmanna.
Ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 felur í sér takmörkun á gildissviði laganna að því leyti að þau taka ekki til ábyrgðarmanns ef ábyrgðin er í þágu atvinnurekstrar hans eða „í þágu fjárhagslegs ávinnings hans“. Ábyrgð stefnenda á efndum á skuldbindingum Kolskeggs ehf. samkvæmt skuldabréfinu var í þágu atvinnurekstrar þeirra, en eins og fyrr segir áttu þeir hver um sig fjórðungs hlut í félaginu og ekki liggur annað fyrir en að lánsféð hafi verið notað til fjárfestinga í þágu rekstrar á vegum þess. Það er hins vegar langsótt að unnt sé að líta svo á að loforð stefnenda um ábyrgð þeirra á efndum nýs skuldara hafi verið gefið í þágu atvinnurekstrar þeirra, þar sem rekstur veitingastaðarins var þá úr höndum stefnenda og Kolskeggs ehf. Nærtækara er að skoða hvort ábyrgðaryfirlýsingin 25. febrúar 2010 hafi verið gefin „í þágu fjárhagslegs ávinnings“ stefnenda, þannig að undanþága 2. mgr. 2. gr. laganna eigi við.
Tillaga að þessari undanþágu kom frá viðskiptanefnd Alþingis er frumvarp það er varð að lögum nr. 32/2009 var til meðferðar á Alþingi. Í nefndaráliti segir að hér sé lagt til að „ákvæði frumvarpsins eigi ekki við um tilvik þegar einstaklingur tekst á hendur ábyrgð í eigin þágu“. Kemur þar fram að þessi breyting feli í sér að utan ákvæða laganna falli „ekki einungis þau tilvik sem strangt til tekið eru í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns heldur einnig þau sem eru í þágu hans sjálfs“. Þessi ummæli gefa ekki tilefni til þröngrar túlkunar á ákvæðinu þó að í nefndarálitinu sé jafnframt tekið fram að undanþágur eigi að skýra þröngt. Telur dómurinn að við mat á því hvort undanþágan eigi við verði að líta til aðstæðna þegar ábyrgðarmaður gengst undir ábyrgðina og hvort að ætla megi að það hafi verið gefið í því skyni að tryggja fjárhagslega hagsmuni hans sjálfs.
Eins og fram hefur komið rak Kolskeggur ehf. veitingastaðinn Domo frá nóvember 2006, en stefnendur skýrðu frá því fyrir dómi að rekstur hans hafi verið eina verkefni félagsins. Í málinu liggja fyrir ársreikningar félagsins fyrir rekstrarárið 2006, 2007 og 2008, en ekki liggur fyrir ársreikningur fyrir árið 2009 og engin gögn um rekstrarafkomu félagsins á því ári. Tap var á rekstrinum öll árin þrjú. Tap fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBDTA) voru rúmlega 35 milljónir króna árið 2007 og tæplega 15,4 milljónir króna árið 2008. Rekstrartekjur ársins 2007 voru 185.928.521 króna, en lækkuðu í 148.876.377 krónur árið 2008. Rekstrarkostnaður lækkaði hins vegar á sama tíma úr 221.039.601 krónu niður í 164.248.412 krónur. Langtímaskuldir við stefnda jukust á tímabilinu, fóru úr 29.520.725 krónum árið 2007 í 37.222.160 krónur ári síðar. Í heild lækkuðu hins vegar langtímaskuldir úr 61.205.423 krónum í 43.184.585 krónur vegna lækkunar á skuldum við eigendur. Skammtímaskuldir hækkuðu hins vegar milli ára, fóru úr 37.284.888 krónum í 41.371.405 krónur. Í heild sýna þessar upplýsingar að rekstur veitingastaðarins hafi ekki staðið undir kostnaði á þessum árum. Eigið fé var neikvætt og félagið verulega skuldsett. Ársreikningar félagsins og framlögð gögn um skuldbreytingar á langtímaskuldum félagsins sýna einnig að reksturinn stóð ekki undir afborgunum á lánunum við stefnda.
Stefnendur stóðu í persónulegum ábyrgðum fyrir efndum Kolskeggs ehf. á öllum langtímaskuldum félagsins við stefnda. Auk skuldabréfsins, sem fjallað er um í þessu máli, sýnir ársreikningur félagsins 2008 að það hafi, á þeim tíma sem félagið annaðist rekstur veitingastaðarins, gefið út fjögur önnur skuldabréf. Staða þessara skulda í árslok 2008 nam rúmlega 37 milljónum króna. Við sölu á rekstri félagsins í desember 2009 virðist kaupandinn hafa, með samþykki stefnda, tekið yfir fjögur af þessum fimm skuldabréfum, en ekki hefur verið upplýst um afdrif fimmta bréfsins. Sjálfskuldarábyrgð stefnenda á efndum annarra skuldabréfa en þess sem hér er til umfjöllunar var aflétt við söluna. Af gögnum málsins virðist mega ráða að eftirstöðvar þeirra bréfa hafi numið um 24 milljónum króna á þeim tíma. Eftirstöðvar þess skuldabréfs, sem kröfugerð stefnenda lýtur að, námu á sama tíma rúmlega 10 milljónum króna.
Samkvæmt tölvuskeyti frá starfsmanni stefnda 19. nóvember 2009 og framburði aðila fyrir dómi er upplýst að stefndi hafi sett það sem skilyrði fyrir því að kaupandi veitingastaðarins tæki yfir greiðsluskyldu á 36 milljón króna skuld við bankann, að stefnendur stæðu áfram í sjálfskuldarábyrgð á efndum á 10 milljónum króna af þeirri skuld. Á það féllust stefnendur til þess að sala Kolskeggs ehf. á rekstri veitingastaðarins gæti gengið eftir. Með því losnaði félagið, sem var í þeirra eigu, undan skuldbindingum sem erfiðlega hafði gengið að standa undir með þeim rekstri sem fram fór á vegum félagsins. Enn fremur voru stefnendur allir leystir undan íþyngjandi sjálfskuldarábyrgðum, sem töluverð hætta var á að félli á þá, nema viðsnúningur yrði á rekstri veitingastaðarins. Af þessum sökum verður að líta svo á að sjálfskuldarábyrgð stefnenda fyrir efndum kaupanda rekstrarins á skuldbindingum samkvæmt því skuldabréfi, sem hér er til umfjöllunar, hafi verið veitt til að tryggja fjárhagslega hagsmuni þeirra sjálfra. Í ljósi atvika var stefnda því rétt að líta svo á að áðurgreind undanþága samkvæmt niðurlagi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 ætti við þannig að ekki væri skylt að fylgja fyrirmælum laganna gagnvart stefnendum. Ekki var því nauðsynlegt að meta greiðslugetu nýs skuldara bréfsins og upplýsa stefnendur um greiðslugetu hans.
Kemur þá til skoðunar hvort til greina komi að fella sjálfskuldarábyrgð stefnenda eftir sem áður úr gildi á þeim grundvelli að bersýnilega sé ósanngjarnt að bera hana fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Dómurinn fær ekki séð að efni sé til þess að fallast á þá málsástæðu stefnenda. Í því efni er áréttað það sem að framan greinir að stefnendur samþykktu að undirgangast sjálfskuldarábyrgð á efndum kaupanda veitingastaðarins á skuldabréfinu til að salan á staðnum gengi eftir, en umtalsverðir fjárhagslegir hagsmunir stefnenda voru í húfi við söluna. Sjálfir töldu þeir heldur enga þörf á að þeir yrðu upplýstir um persónulega getu nýs skuldara til að efna skyldur sínar samkvæmt skuldabréfinu. Ekki er heldur ljóst hvaða þýðingu slíkar upplýsingar hefðu haft í ljósi eðlis viðskiptanna. Ætla mátti að geta nýs skuldara til að standa undir efndum hafi fyrst og fremst átt að ráðast af afkomu veitingarekstrarins, en ekki af eigna- og skuldastöðu hans. Engin breyting varð á þessu við eigendaskiptin frá því sem áður hafði verið, en reksturinn var áður í höndum félags í eigu stefnenda með takmarkaðri ábyrgð. Ekkert liggur fyrir um að stefndi hafi leynt stefnendur upplýsingum sem stefndi hafði undir höndum og gátu haft þýðingu fyrir þá ákvörðun stefnenda að gangast í sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldabréfsins. Þá er óupplýst að stefndi hafi gefið bindandi loforð um að uppgreiðslu þess yrði hraðað umfram greiðslu annarra skulda nýs eiganda rekstrarins. Kannaðist Björn Þór ekki við að hafa gert slíkt samkomulag um tilhögun á greiðslu skuldabréfanna er hann gaf skýrslu fyrir dómi og tölvuskeyti frá starfsmanni stefnda, dags. 19. nóvember 2009, er ekki afdráttarlaust um þetta atriði. Tilvísun af hálfu stefnenda til 2. mgr. 10. gr. laga nr. 32/2009, þar sem mælt er fyrir um brottfall ábyrgðarskuldbindingar, gefi lánveitandi eftir aðrar tryggingar á efndum samnings þannig að staða ábyrgðarmanns verði mun verri en hún var, er einnig haldlaus, enda liggur ekkert fyrir um slíkar tryggingar hafi verið gefnar eftir.
Samkvæmt því sem að framan er rakið er ekki fallist á að stefnendur hafi fært þau rök fyrir kröfugerð sinni að unnt sé að fallast á aðal- eða varakröfu þeirra. Því ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður þeim gert að greiða stefnda sameiginlega málskostnað sem þykir, í ljósi eðlis málsins og reksturs þess fyrir dómi, hæfilega ákveðinn 750.000 krónur.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnenda, Kormáks Geirharðssonar, Skjaldar Sigurjónssonar, Arnars Gunnlaugssonar og Bjarka Gunnlaugssonar.
Stefnendur greiði stefnda sameiginlega 750.000 krónur í málskostnað.