Hæstiréttur íslands

Mál nr. 457/2004


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Ítrekun
  • Hegningarauki
  • Dráttur á máli
  • Aðfinnslur


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 10. mars 2005.

Nr. 457/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Finnboga Erni Halldórssyni

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

 

Þjófnaður. Ítrekun. Hegningarauki. Dráttur á máli. Aðfinnslur.

Þótt F hefði játað þá háttsemi sem honum var gefin að sök þegar við yfirheyrslu hjá lögreglu leið hátt á annað ár frá því að rannsókn lauk og þar til ákæra á hendur honum var gefin út. Taldist þessi dráttur málsins vítaverður og brjóta í bága við meginreglu 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og vera í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þrátt fyrir þetta var ekki annað unnt en að staðfesta refsiákvörðun héraðsdóms, sem byggði á löngum sakarferli F.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 9. nóvember 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem í greinargerð krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms.

Ákærði hefur játað brot samkvæmt ákæru. Hann krefst aðallega að sér verði ekki gerð sérstök refsing, en til vara að hún verði milduð.

Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa við annan mann brotist inn á heimili í Garðabæ og haft þaðan með sér verðmæti, sem talin eru hafa numið 2.002.000 krónum. Var innbrotið tilkynnt 20. nóvember 2002 og var ákærði handtekinn af lögreglunni í Keflavík 22. sama mánaðar með hluta þýfisins í fórum sínum. Hann var  yfirheyrður af lögreglunni í Hafnarfirði strax sama dag og gekkst þá við brotinu. Af gögnum málsins verður ekki annað séð en að rannsókn þess hafi lokið í janúar 2003. Eftir þetta hafi ekkert gerst í málinu fyrr en lögreglustjórinn í Hafnarfirði gaf út ákæru 1. september 2004. Þessi dráttur málsins á rannsóknarstigi er vítaverður og hefur ekki verið skýrður. Þótt þetta brjóti í bága við meginreglu 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og sé í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrárinnar verður að staðfesta héraðsdóm með vísan til forsendna hans.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Finnbogi Örn Halldórsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. október 2004.

Málið höfðaði lögreglustjórinn í Hafnarfirði með ákæru útgefinni 1. september 2004 á hendur ákærða, Finnboga Erni Halldórssyni, [kt], Torfufelli 50, Reykjavík, "fyrir þjófnað, miðvikudaginn 20. nóvember 2002, milli klukkan 16:30 og 17:50, í samvinnu við X, [kt.], d. [...].2003, með því að hafa brotið rúðu í svalarhurð íbúðarhúsnæðisins að [...], Garðabæ, og í kjölfarið farið í heimildarleysi inn í húsnæðið og tekið þaðan ófrjálsri hendi hina ýmsu muni, samtals að áætluðu verðmæti kr. 2.002.000.

Telst framangreind háttsemi varða 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar."

Ákærði hefur skýlaust játað að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Er með þeirri játningu, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í ákæru og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæðis.

Sakaferill ákærða er samkvæmt framlögðu sakavottorði þannig, að hann fékk tvívegis ákærufrestun á árinu 1997 annars vegar fyrir brot gegn 244. gr. alm. hegningarlaga og hins vegar fyrir brot gegn 231. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.  Frá árinu 1998 hefur ákærður hlotið 7 dóma, þar sem hann hefur í allt verið dæmdur til að sæta fangelsi í 55 mánuði aðallega fyrir brot á 244. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga, en einnig í tveimur tilvikum fyrir brot gegn 155. gr. og 248. gr. alm. hegningarlaga, í eitt skiptið fyrir brot gegn lögum nr. 65,1974 og í eitt skipti fyrir brot á umferðarlögum.

Tveir síðustu dómarnir eru dómur Hæstaréttar frá 6. nóvember 2003, þar sem ákærði var dæmdur til að sæta fangelsi í 14 mánuði fyrir brot á 244. gr. almennra hegningarlaga og dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 11. nóvember 2003, þar sem ákærður var dæmdur til að sæta fangelsi í 18 mánuði fyrir brot gegn 244. gr. og 20.gr. sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga, en hann var staðfestur í Hæstarétti  7. október sl.

Við ákvörðun refsingar í málinu verður því að hafa hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga og dæma hegningarauka við þá refsingu sem ákærður var dæmdur í tveimur síðasttöldu dómunum.  Hér er um margítrekað brot á 244. gr. almennra hegningarlaga að ræða og þykir refsing ákærða með vísun í 255. gr. sbr. 71. gr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði.

Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar þar með talin málsvarnarlaun til skipaðs verjanda Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, sem ákveðst 75.000 krónur.

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi sýslumannsins í Hafnarfirði, fór með málið af hálfu ákæru­valds.

Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Ákærði, Finnbogi Örn Halldórsson, sæti fangelsi í 5 mánuði.

Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar þar með talin málsvarnarlaun til skipaðs verjanda  Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.