Hæstiréttur íslands
Mál nr. 230/2005
Lykilorð
- Skaðabætur
- Fasteign
- Líkamstjón
- Sakarskipting
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 3. nóvember 2005. |
|
Nr. 230/2005. |
Rafnhildur Ívarsdóttir(Helgi Birgisson hrl.) gegn þrotabúi Kínversku kjötbollugerðarinnar ehf. (Kristín Edwald hrl.) |
Skaðabætur. Fasteign. Líkamstjón. Sakarskipting. Gjafsókn.
R krafðist skaðabóta úr hendi þrotabús K, vegna slyss sem hún varð fyrir er hún datt á trépalli við veitingastaðinn Kaffi Nauthól í Reykjavík, en K hafði umráð fasteignarinnar. Ljóst var að fyrirsvarsmaður K hafði veitt því athygli umræddan dag að hálka hafði myndast á pallinum og var fallist á með R að K hafi borið skylda til að gera ráðstafanir til að tryggja að gestum veitingahússins stafaði ekki hætta af för sinni yfir pallinn og að dyrunum. Þótti sýnt að ráðstafanir þær sem K kvaðst hafa gert til að eyða hálku á pallinum hafi ekki verið fullnægjandi og var því fallist á að K bæri fébótaábyrgð á tjóni R. K hélt því fram að R hafi verið ölvuð þegar slysið varð og að orsakir þess yrðu að minnsta kosti að hluta raktar til þess. Talið var að R ætti sjálf nokkra sök á því hversu erfitt reyndist að færa sönnur á ætlað ölvunarástand hennar þegar slysið varð, með því að hafa neytt að minnsta kosti allnokkurs magns af áfengi strax á eftir og þótti hún verða að bera hallann af skorti á sönnun að þessu leyti. Var því lagt til grundvallar dómi að R hafi verið undir áfengisáhrifum þegar slysið varð og orsakir þess yrðu að hluta til raktar til þess. Var R gert að bera sjálf helming tjóns síns.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. júní 2005. Hún krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi sé skaðabótaskyldur fyrir tjóni sem hún hafi orðið fyrir í slysi við veitingastaðinn Kaffi Nauthól í Reykjavík 1. desember 2002. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna tjóns áfrýjanda og málskostnaður í því tilviki verði felldur niður.
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. hefur verið stefnt til réttargæslu. Réttargæslustefndi gerir ekki kröfur í málinu en styður kröfur og málflutning stefnda.
I.
Kínverska kjötbollugerðin ehf. mun hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2005, eftir að málið hafði verið flutt í héraði en áður en hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp. Samkvæmt 3. mgr. 23. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála tók þrotabúið þá við aðild málsins.
Í málinu liggur fyrir vottorð Brynjólfs Jónssonar læknis um að áfrýjandi hafi komið á slysadeild Landspítalans í Fossvogi þann 1. desember 2002 vegna brots á hægri öxl með kurlun og mikilli tilfærslu. Hafi þetta leitt til þess, að settur hafi verið gerviliður í öxlina 12. desember sama ár. Með vísan til þessa vottorðs hefur stefndi fallið frá þeirri málsástæðu, sem höfð var uppi í héraði, að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að hún hafi orðið fyrir líkamstjóni vegna slyssins.
II.
Óumdeilt er að áfrýjandi varð fyrir slysinu eftir að hún var komin af hellulagðri stétt sem liggur frá bílastæði að veitingahúsinu Kaffi Nauthóll og inn á trépall, sem fara þarf yfir til að komast að inngöngudyrum þess. Samkvæmt vottorði Veðurstofu Íslands var veður í Reykjavík að morgni 1. desember 2002 þannig að líklegt var talið, að ísing hafi getað myndast á vegum. „Hægviðri, léttskýjað og hiti lítillega yfir frostmarki eru nánast kjöraðstæður til þess“ segir í vottorðinu en með þessum orðum er vísað til veðurlags þennan morgun í Reykjavík. Fyrirsvarsmaður stefnda kvaðst fyrir dómi hafa um morguninn gert sér grein fyrir, að sleipt hafi verið á pallinum. Hann hafi dreift hálkueyðandi efni á göngustíginn sem liggur frá bílastæðinu að pallinum og einnig á pallinn framan við inngöngudyrnar að veitingahúsinu. Af þessu er ljóst, að fyrirsvarsmaðurinn hafði veitt því athygli að hálka hafði myndast á pallinum, sem gæti reynst hættuleg þeim sem leið ættu um. Um var að ræða veitingahús, sem opið var almenningi, og verður fallist á það með áfrýjanda, að stefnda hafi borið skylda til að gera ráðstafanir til að tryggja að gestum þess stafaði ekki hætta af för sinni yfir pallinn og að dyrunum.
Lögreglumenn sem kvaddir voru á vettvang komu þangað kl. 12.42, en slysið virðist hafa orðið allt að því einni klukkustund fyrr. Í frumskýrslu þeirra segir, að á viðarpallinum hafi verið mjög sleipt en yfirborðið hafi verið hélað. Fyrir dómi kvað annar lögreglumannanna pallinn hafa verið mjög hálan af ís. Með hliðsjón af þessu verður að telja í ljós leitt, að ráðstafanir þær, sem fyrirsvarsmaður veitingastaðarins kveðst hafa gert um morguninn til að eyða hálku á pallinum hafi ekki verið fullnægjandi til að tryggja öryggi gesta veitingahússins framan við dyr þess. Verður því fallist á að stefndi beri fébótaábyrgð á tjóni áfrýjanda.
III.
Þá kemur til athugunar, hvort áfrýjandi teljist einnig sjálf hafa átt sök á slysinu þannig að hún hafi fyrirgert bótarétti að öllu leyti eða að hluta. Stefndi hefur byggt málflutning sinn hér að lútandi á því, að áfrýjandi hafi verið ölvuð, þegar slysið varð og að orsakir þess verði að minnsta kosti að hluta raktar til þess. Ekki nýtur óyggjandi sönnunargagna í málinu um ástand áfrýjanda að þessu leyti þegar slysið varð. Samferðamaður hennar kvaðst fyrir dómi ekki hafa vitað til að hún hafi verið undir áhrifum áfengis, þegar þau komu að staðnum. Sonur hennar kom einnig fyrir dóm og sagðist hafa hitt hana fyrr um morguninn og hafi hún þá ekki verið undir áfengisáhrifum. Sjálf skýrði áfrýjandi svo frá fyrir dómi, að hún hafi verið ódrukkin þegar slysið varð. Hún hafi verið að skemmta sér kvöldið áður og farið að sofa um klukkan fjögur um nóttina. Hafi hún verið vöknuð milli klukkan níu og hálftíu um morguninn. Eftir að hún slasaðist, en áður en lögreglan kom á staðinn, hafi hún vegna sársauka beðið um og fengið sterka áfengisblöndu inni á veitingahúsinu. Kemur þetta heim við framburð starfsstúlku á staðnum, sem kvaðst hafa útbúið slíkan áfengisskammt fyrir hana. Ekkert er getið um áfengisáhrif á áfrýjanda í frumskýrslu lögreglu. Fyrir dómi skýrðu báðir lögreglumennirnir, sem komu á vettvang, svo frá að áfrýjandi hafi verið áberandi ölvuð, þegar þeir komu á staðinn. Töldu þeir ölvun hennar meiri en svo að hún gæti skýrst af neyslu úr glasinu, sem hún hafi verið með. Fyrirsvarsmaður veitingahússins og starfsstúlkan báru bæði fyrir dómi, að áfrýjandi hafi sýnilega verið ölvuð, þegar hún kom.
Þegar til þess er litið, að áfrýjandi á sjálf nokkra sök á því hversu erfitt reynist að færa sönnur á ætlað ölvunarástand hennar, þegar slysið varð, með því að hafa neytt að minnsta kosti allnokkurs magns af áfengi strax á eftir, þykir hún verða að bera hallann af skorti á sönnun um hvort hún þá var undir áfengisáhrifum. Almennt verður að telja líklegt, að ölvuðum manni hafi verið hættara við slysi á trépallinum en þeim sem ekki var undir áfengisáhrifum. Verður samkvæmt framansögðu lagt til grundvallar dómi að áfrýjandi hafi verið undir áfengisáhrifum þegar slysið varð og orsakir þess verði að hluta raktar til þess. Þykir af þessum sökum hæfilegt að hún beri sjálf helming tjóns síns.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað áfrýjanda verða staðfest.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.
Stefndi verður dæmdur til að greiða málskostnað í ríkissjóð eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Viðurkennt er að stefndi, þrotabú Kínversku kjötbollugerðarinnar ehf., beri skaðabótaábyrgð á helmingi þess tjóns sem áfrýjandi, Rafnhildur Ívarsdóttir, varð fyrir í slysi við veitingastaðinn Kaffi Nauthól í Reykjavík 1. desember 2002.
Staðfest eru ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað áfrýjanda.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 350.000 krónur.
Stefndi greiði vegna málskostnaðar fyrir Hæstarétti 200.000 krónur í ríkissjóð.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 2. mars sl., er höfðað 3. september 2004 af Rafnhildi Ívarsdóttur, Háaleitisbraut 115, Reykjavík, á hendur Kínversku kjötbollugerðinni ehf., Nauthólsvegi í Reykjavík, og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að stefndi sé skaðabótaskyldur fyrir tjóni sem stefnandi varð fyrir í slysi sem hún varð fyrir við veitingastaðinn Kaffi Nauthól í Nauthólsvík 1. desember 2002. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnanda var veitt gjafsókn með bréfi dómsmálaráðuneytisins 5. apríl 2004.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi. Til vara er þess krafist að stefndi verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir í óhappi 1. desember 2002 og að málskostnaður verði felldur niður.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og hann gerir engar kröfur í málinu.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi meiddist á öxl er hún féll vegna þess að henni skrikaði fótur á trépalli skömmu fyrir hádegi 1. desember 2002 fyrir utan veitingahúsið Kaffi Nauthól sem stefndi rak á þeim tíma. Stefnandi telur að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda vegna slyssins sem verði rakið til hálku á pallinum sem stefndi hafi ekki gert fullnægjandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða vara við.
Stefndi hafnar bótaskyldu enda hafi pallurinn ekki verið hálli en gera hafi mátt ráð fyrir við þær aðstæður sem þarna voru. Ástæðan fyrir falli stefnanda hafi verið óhappatilviljun og aðgæsluleysi hennar sjálfrar.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að hún hafi komið að veitingahúsinu Kaffi Nauthól um hádegi 1. desember 2002. Með henni hafi verið Þorsteinn Aðalsteinsson. Hiti hafi verið rétt yfir frostmarki en úrkomulaust og að mestu snjólaust. Á pallinum, sem ganga hafi þurft yfir til að komst inn á veitingastaðinn, hafi verið þunnt íslag eftir frost um nóttina. Pallurinn hafi verið flugháll. Hún hafi ekkert áttað sig á hálkunni fyrr en hún hafi verið komin inn á pallinn enda hafi íslagið vart verið sjáanlegt. Hún hafi misst fótanna og fallið á pallinn. Hún hafi komið niður á hægri öxlina og strax fundið fyrir gífurlegum sársauka. Hún hafi fengið aðstoð við að komast inn á veitingastaðinn. Þar hafi hún óskað eftir áfengi til að lina kvalirnar og hafi hún fengið fjórfaldan drykk af sterku áfengi.
Við skoðun á slysadeild hafi komið í ljós að stefnandi hafði brotnað á hægri öxl. Brotið hafi reynst mjög alvarlegt og hafi þurft að setja gervilið í öxlina í aðgerð 12. desember sama ár. Stefnandi hafi varanlega hreyfiskerðingu í öxlinni og stöðuga verki. Stefnandi hafi verið óvinnufær eftir slysið. Hún búi enn við skerta starfsorku sem ekki sé fyrirsjáanlegt að breytist. Hún hafi notið aðstoðar félagsþjónustunnar eftir slysið við heimilisstörf.
Stefndi hafi rekið veitingastaðinn Kaffi Nauthól þegar slysið varð. Krafa stefnanda sé á því byggð að tjón hennar megi rekja til hálkunnar á timburpallinum þegar slysið varð. Hafi starfsfólki veitingastaðarins borið að gera ráðstafanir til að draga úr hættunni á slysum vegna hálkunnar, annars vegar með því að vara við hættunni og hins vegar með því að grípa til ráðstafana til að eyða hálkunni eða draga úr hættu á falli með öðrum hætti. Hvorki hafi verið sett upp aðvörunarskilti né hafi pallurinn verið sandborinn eins og hefði þurft að gera, en ástandið á pallinum bendi til ófullnægjandi aðgerða. Sérstök skylda hvíli á þeim sem veiti almenningi þjónustu til að sjá til þess að aðgengi fólks að þjónustunni sé sem hættuminnst. Þeirri skyldu hafi starfsmenn stefnda brugðist. Mótmælt er að starfsmenn stefnda hafi borið hálkueyðandi efni á pallinn. Stefndi beri því sem rekstraraðili veitingastaðarins og vinnuveitandi starfsfólksins skaðabótaábyrgð á afleiðingum þeirrar vanrækslu.
Á þeim tíma er slysið varð hafi stefndi verið með frjálsa ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda, en tryggingin bæti tjón eins og það sem stefndi sé talinn bera bótaábyrgð á.
Stefnandi vísi til almennra reglna skaðabótaréttarins um sakarábyrgð og vinnuveitendaábyrgð svo og til sérreglna um bótaskyldu eiganda og rekstraraðila atvinnuhúsnæðis vegna vanbúnaðar húsnæðisins og aðgengis að því.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af stefnda hálfu er málsatvikum lýst þannig að stefnandi hafi runnið á trépalli við Kaffi Nauthól umræddan dag með þeim afleiðingum að hún hafi meiðst á öxl, en stefndi hafi þá rekið veitingastaðinn. Í lögregluskýrslu komi fram að pallurinn hafi verið hélaður þegar óhappið varð en þann dag hafi meðalhiti í Reykjavík verið 2,1 °C, hægur vindur, skýjað og talsverð rigning samkvæmt vottorði veðurstofu. Um morguninn hefðu starfsmenn Kaffi Nauthóls borið hálkueyðandi efni á. Trépallurinn hafi að mestu verið auður þegar óhappið varð en blautur og þar af leiðandi nokkuð háll við þessi votviðrasömu skilyrði. Af gögnum málsins verði ekki ráðið hvernig stefnandi hafi verið búinn um fæturna þegar óhappið varð.
Þegar stefnandi datt á trépallinum hafi hún verið áberandi ölvuð eins og starfsmenn stefnda hafi borið um. Hún hafi hringt tvisvar þá um morguninn til að athuga með afgreiðslutíma, matseðil o.fl. og hafi starfsmaðurinn þá strax orðið var við að stefnandi var ölvuð. Lögreglumennirnir sem kallaðir voru til eftir óhappið hafi staðfest að stefnandi hafi verið „áberandi ölvuð“ þegar þeir komu á vettvang og „ekki að fullu viðræðuhæf“. Þeir fullyrði að ölvunarástand stefnanda hafi verið „augljóslega“ mun meira en svo að rekja megi til þess eina drykkjar sem hún hafi drukkið eftir óhappið.
Engin gögn liggi fyrir í málinu um tímabundin eða varanleg áhrif umrædds óhapps á heilsu stefnanda. Af þeim sökum sé því mótmælt sem ósönnuðu að stefnandi hafi varanlega hreyfiskerðingu í öxlinni og stöðuga verki eða búi við skerta starfsorku vegna slyssins og að ekki sé fyrirsjáanlegt að það breytist eins og hún haldi fram.
Sýknukröfuna byggi stefndi á því að umrætt óhapp verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi stefnda eða starfsmanna hans eða aðstæðna sem stefndi beri ábyrgð á. Af hálfu stefnda hafi verið gripið til þeirra ráðstafana sem honum hafi verið tækar til að draga úr hálku á trépallinum með því að bera hálkueyðandi efni á hann um morguninn. Pallurinn hafi að mestu verið auður þegar óhappið varð, en hélaður og blautur vegna úrkomu.
Stefnandi hefði átt að geta gert sér grein fyrir því að pallurinn var háll enda alkunna að trépallar geti orðið hálir við veðuraðstæður sem þarna voru, auk þess sem óhappið hafi orðið um hábjartan dag og aðstæður því ljósar. Vegfarendur megi almennt búast við hálku við þessar aðstæður og á þessum árstíma. Verði ekki alfarið komið í veg fyrir slíkt enda þótt gripið sé til allra venjulegra og eðlilegra varúðarráðstafana, líkt og gert hafi verið í þessu tilviki. Jafnframt verði að gera þá kröfu til vegfarenda að þeir hagi för sinni um svæði þar sem hálka kunni að vera af ýtrustu aðgæslu og varúð. Aðrir en stefnandi hafi ekki átt í erfiðleikum með að fóta sig á pallinum þennan dag.
Sýknukröfuna reisi stefndi jafnframt á að óhappið verði rakið til ölvunar stefnanda en samkvæmt vætti starfsmanna stefnda og lögreglumanna hafi stefnandi verið mjög ölvuð þegar hún féll á pallinum þennan dag og afar líklegt að ölvunin hafi átt verulegan þátt í því að óhappið varð. Óhappið sé því að rekja til ölvunar hennar og/eða óhappatilviljunar, en ekki til atvika sem stefndi beri ábyrgð á. Stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á hið gagnstæða, en um það beri hún sönnunarbyrði samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins.
Fallist dómurinn, þrátt fyrir ofangreint, á að stefndi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi umrætt sinn telji stefndi að sýkna beri engu að síður þar eð stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hún hafi orðið fyrir líkamstjóni vegna óhappsins. Þannig hafi stefnandi ekki lagt fram gögn sem leiði í ljós að hún eigi rétt á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón, þjáningar, varanlegan miska eða varanlega örorku á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi hafi því ekki sýnt fram á að skilyrði sakarreglunnar um tjón af völdum saknæmrar háttsemi sé uppfyllt og því beri að sýkna stefnda.
Verði ekki fallist á sýknukröfuna sé krafist til vara að stefndi verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna eigin sakar stefnanda. Vísist til þess sem áður hafi komið fram til stuðnings aðalkröfu stefnda eftir því sem við eigi.
Um lagarök vísi stefndi einkum til almennra reglna skaðabótaréttar um saknæmi, orsakasamhengi, sönnunarbyrði, gáleysi, eigin sök og tjón tjónþola og til skaðabótalaga nr. 50/1993. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Stefnandi hefur lýst atvikum þannig að hún hafi ekkert orðið vör við hálkuna þarna um morguninn fyrr en hún kom upp á trépallinn við Kaffi Nauthól en pallurinn liggur umhverfis húsið. Stutt bil hafi verið á pallinum að útihurðinni. Hún hafi ætlað að opna dyrnar en þá hafi hún séð að pallurinn var alveg fljúgandi sleipur. Þorsteinn hafi verið að binda hundinn, sem þau voru með, og hafi hún snúið sér við og ætlað að kalla í hann og vara hann við en þá hafi henni skrikað fótur. Næst hafi hún vitað af sér þegar hún lá á pallinum. Hún neitar því að hafa verið drukkin en hún hafi verið að skemmta sér kvöldið áður, farið að sofa um klukkan 4.00 um nóttina og vaknað um klukkan níu eða hálf tíu um morguninn. Henni hafi verið hjálpað inn á veitingastaðinn eftir að hún datt, en hún hafi verið mjög kvalin. Þorsteinn hafi beðið um að hringt yrði á sjúkrabíl en enginn bíll hafi verið tiltækur. Hún hafi beðið um einn sterkan „sjúss” en hún hafi ætlað að athuga hvort það myndi ekki deyfa sársaukann. Hún hafi fengið þrefaldan vodka og drukkið hann. Langur tími hafi liðið þar til lögreglan kom á staðinn, þrír stundarfjórðungar eða allt upp í klukkustund. Hún kvaðst ekki hafa séð að búið hafi verið að bera eitthvað á pallinn.
Fyrirsvarsmaður stefnda kveðst hafa komið á Kaffi Nauthól þennan morgun og hafi hann gert sér grein fyrir því að sleipt var á pallinum. Hann hafi því vitað að bera þyrfti á pallinn. Nokkru seinna hafi hann farið út og hafi hann þá stráð yfir göngustíginn, sem liggur frá bílastæðinu upp að húsinu, og alveg upp að þröskuldi við innganginn og örlítið í kring en ekki inn á pallinn að öðru leyti. Þetta hafi verið hálkubani en það sé einhvers konar efni sem notað sé sérstaklega í þetta og fáist í stórmörkuðum. Efnið hafi hann borið á um það bil hálfri klukkustund áður en stefnandi og Þorsteinn komu á staðinn en þau hafi komið milli klukkan ellefu og hálftólf. Hann kvaðst hafa séð Þorsteinn aðstoða stefnanda við að komast út úr bílnum og upp að pallinum en þar hafi hann snúið til baka. Annað kvaðst hann ekki hafa séð til stefnanda fyrr en eftir að hún slasaðist. Hún hafi þurft að bíða nokkuð lengi eftir lögreglumönnunum, líklega í rúma hálfa klukkustund eða lengur, jafnvel upp undir klukkustund.
Samkvæmt lögregluskýrslu komu tveir lögreglumenn á staðinn um klukkan 12.42 umræddan dag. Þórir Rúnar Geirsson lögreglumaður var annar þeirra en hann skýrði svo frá fyrir dóminum að þegar þeir komu á staðinn hafi stefnandi verið kominn inn og greinilega ölvaðri en eftir drykk af einu glasi af áfengi. Hún hafi ekki getað gengið ein út í lögreglubílinn. Timburpallurinn hafi verið mjög háll og varasamur og hafi þeir þurft að fara varlega. Dögg eða héla hafi verið á pallinum en hann mundi ekki hvort það hafi sést. Hann gat ekki lýst yfirborðinu nánar en í lögregluskýrslunni hafi hann skrifað að pallurinn hafi verið hélaður. Þar hafi hann átt við hélu svipaða og myndist á bílum, þ.e. sem grá- eða hvítleitur litur. Hann mundi ekki hvort hann sá að borið hefði verið á pallinn. Einnig kom á staðinn Hinrik Pálsson lögreglumaður. Hann skýrði svo frá fyrir dóminum að enginn sjúkrabíll hafi verið tiltækur og þess vegna hafi þeir flutt stefnanda í lögreglubílnum á slysadeild. Hún hafi verið áberandi ölvuð og hafi það ekkert farið á milli mála. Hún hafi drukkið úr glasi af áfengi en ölvunareinkennin hafi verið mun meiri en svo að það geti skýrst af því glasi. Af henni hafi verið mjög sterk áfengislykt og hún hafi borið önnur einkenni ölvunar. Hann mundi ekki hvort trépallurinn fyrir utan var háll og ekki mundi hann hvort sést hafi að borið hefði verið á pallinn. Hann vissi ekki hvort stefnandi hafði dottið vegna hálku eða af öðrum ástæðum.
Samkvæmt vottorði Veðurstofu Íslands var logn að morgni 1. desember 2002 en vestan 1 metri á sekúndu klukkan tólf. Hiti var 2,2˚C klukkan níu en 1,6˚C klukkan tólf. Mælingar á þriggja klukkustunda fresti allan sólarhringinn sýndu ekkert frost nóttina áður. Í vottorðinu segir enn fremur að miðað við veður að morgni þess dags sé líklegt að ísing hafi getað myndast á vegum, en hægviðri, léttskýjað og hiti lítillega yfir frostmarki séu nánast kjöraðstæður til þess.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að starfsmaður hafi borið ísvarnarefni á gangstíginn að húsinu og á pallinn við innganginn um morguninn eins og áður er rakið. Engin skýring hefur komið fram á því hvers vegna pallurinn er í lögregluskýrslu og samkvæmt framburði lögreglumannsins, sem skrifaði skýrsluna, talinn hélaður þrátt fyrir staðhæfingar stefnda um að borið hafði verið ísvarnarefni á pallinn. Ekki liggja heldur fyrir upplýsingar um eiginleika efnisins sem um ræðir eða hvernig það virkar á efnið í pallinum við aðstæður sem þarna voru þegar stefnanda skrikaði þar fótur. Þegar dómurinn gekk á vettvang klukkan níu að morgni 2. mars sl. var trépallurinn auður en að öðru leyti virtust aðstæður svipaðar hvað veðurfar og hitastig varðar og þegar slysið varð. Ekki var að sjá að pallurinn væri frábrugðinn öðrum slíkum pöllum sem gegna líku hlutverki og pallurinn við Kaffi Nauthól eða að aðstæður væru þar á nokkurn hátt óeðlilegar. Þegar virt er það sem fram hefur komið verður ekki talið að pallurinn hafi þennan umrædda morgun verið hættulegri en við mátti búast við þær aðstæður sem þarna voru miðað við að gætt væri eðlilegrar varkárni. Stefnanda var kunnugt um hálkuna á trépallinum þegar hún steig á pallinn, eins og hún hefur sjálf skýrt frá, enda mátti hún gera ráð fyrir hálku þar vegna aðstæðna sem þarna voru. Að þessu virtu og þótt fallist sé á að stefnda hafi borið að gera ráðstafanir til að draga úr hættu á slysum á trépallinum verður ekki talin næg sönnun komin fram fyrir því að slysið verði rakið til vanrækslu af stefnda hálfu eða annarra atvika sem leiða ættu til þess að stefndi verði talinn bera bótaábyrgð á hinu meinta tjóni stefnanda. Ber með vísan til þess að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 290.250 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Þrastar Þórssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 270.000 krónur án virðisaukaskatts, en útlagður kostnaður er samtals 20.250 krónur. Kostnaður vegna málsskots til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, að fjárhæð 5.000 krónur, telst ekki til málskostnaðar sem gjafsóknin tekur til og verður því ekki tekinn til greina.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Stefnda, Kínverska kjötbollugerðin ehf., skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Rafnhildar Ívarsdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 290.250 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Þrastar Þórssonar hdl., 270.000 krónur.