Hæstiréttur íslands

Mál nr. 364/1999


Lykilorð

  • Skjalafals
  • Rangfærsla sönnunargagna


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. desember 1999.

Nr. 364/1999.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Ólafi Helga Úlfarssyni

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

 

Skjalafals. Rangfærsla sönnunargagna.

Ó var dæmdur fyrir skjalafals og rangfærslu sönnunargagna fyrir dómi. Ekki var talið að leiddir hefðu verið í ljós annmarkar á rithandarrannsóknum lögreglu en Ó hélt því fram að undirskriftir á viðkomandi skjölum hefðu ekki verið rannsakaðar af til þess bærum mönnum. Var Ó gerð fangelsisrefsing vegna brota sinna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. ágúst 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað aftur til héraðsdóms til nýrrar meðferðar. Til vara krefst hann sýknu, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð og skilorðsbundin.

I.

Með héraðsdómi var ákærði sakfelldur fyrir að hafa notað í viðskiptum fjögur skjöl, sem getið er í ákæru 12. janúar 1999, þótt honum hafi verið ljóst að nafnritun Guðjóns Brodda Einarssonar undir skjölin væri fölsuð. Var jafnframt talið sannað að hann hafi framvísað í þinghaldi í málinu 9. apríl 1999 umboði með nafnritun Guðjóns, sem honum hafi þó verið fullkunnugt um að stafaði ekki frá honum. Hafi hann því einnig gerst sekur um þá háttsemi, sem ákæra 11. júní 1999 tekur til.

Ákærði neitar sök. Aðspurður fyrir dómi um hver hafi ritað undir eitt þeirra skjala, sem getið er í ákæru 12. janúar 1999, svaraði hann: „Ég tel með nokkurri vissu að Guðjón Broddi hafi ritað nafn sitt sjálfur á þetta þó ég geti í sjálfu sér ekki sagt til um það hundrað prósent, en ég tel það“. Er hann var nánar spurður hvort hugsanlegt væri að hann hafi sjálfur ritað nafn Guðjóns undir skjölin svaraði hann: „Nú, eins og ég segi ég held ekki“. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var lýst yfir af hálfu ákærða að til greina kæmi að hann hafi undirritað, en þá haft heimild Guðjóns til þess. Var jafnframt vísað til þess, sem komið hafi fram við meðferð málsins fyrir héraðsdómi, að þeir hafi báðir verið óreglusamir á því tímabili, er atvik málsins urðu.

II.

Svo sem rakið er í héraðsdómi liggja fyrir í málinu skýrslur um rannsókn lögreglu á nefndum skjölum. Eru þær gerðar af Haraldi Árnasyni lögreglufulltrúa. Eru helstu niðurstöður þeirra að litlar líkur séu á því að Guðjón hafi skrifað nafn sitt undir skjölin. Um nafnritun á skjali, sem ákæra 11. júní 1999 tekur til, er jafnframt sagt að hún beri öll merki þess að vera fölsuð.

Kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms reisir ákærði á því að ekki hafi farið fram fullnægjandi rannsókn á þeim skjölum, sem hann sé sakaður um að hafa falsað. Telur hann ýmis atriði rannsóknarinnar gefa tilefni til að ætla að með rannsóknum, sem færu fram erlendis, mætti annað hvort leiða frekari rök að sekt eða sýknu. Þá telur hann menntun lögreglufulltrúans á þessu sviði ekki nægilega til að rannsóknir hans verði lagðar til grundvallar dómi um sakarefnið. Til þess þurfi ítarlegt nám í rithandarrannsóknum, sem lögreglufulltrúinn hafi ekki lagt að baki.

Haraldur Árnason kom tvisvar fyrir dóm og skýrði ítarlega rannsóknarefnið og einstök atriði þess. Þá hefur verið lagt fram yfirlitsblað um menntun og starfsreynslu hans í skjalarannsóknum. Hefur hann samkvæmt því sótt allmörg námskeið og námsstefnur erlendis á þessu sviði. Jafnframt kemur fram í yfirlitinu, að vitnið hafi starfað við skjalarannsóknir frá 1977 og frá árinu 1989 lokið með formlegri niðurstöðu um það bil sex hundruð þess háttar rannsóknum.

Ákærði hefur ekki skýrt frekar þær kröfur um menntun, sem hann telur að gera þurfi, með öðrum hætti en þeim að ítarlegt nám þurfi til. Menntun vitnisins og starfsreynsla er rakin að framan og ekkert er fram komið, sem rennt getur stoðum undir að rannsókn á ákæruefnum í málinu sé ófullnægjandi eða að mistök kunni að hafa orðið. Hafa engir annmarkar verið leiddir í ljós varðandi rithandarrannsóknir lögreglu í málinu, sem leitt geti til þess að krafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms verði tekin til greina. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða. Verður niðurstaða hans um refsingu ákærða og vísun til refsiákvæða einnig staðfest, þó að því gættu að háttsemi, sem ákæra 11. júní 1999 tekur til, varðar við       1. mgr. 162. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hefur málið verið flutt með tilliti til þess að svo kynni að vera.

Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Ólafur Helgi Úlfarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 1999.

Málið er höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettum 12. janúar og 11. júní sl., gegn ákærða, Ólafi Helga Úlfarssyni, Nýbýlavegi 62, Kópavogi, kt. 250663-2779.

Með ákæru 12. janúar sl. er ákærða gefið að sök „skjalafals á árinu 1998 með því að nota í viðskiptum skjöl, sem ákærði falsaði með nafni Guðjóns Brodda Einarssonar, kt. 310370-3129, Fífumóa 5b, Reykjanesbæ, svo sem rakið er:

I.

Í janúar selt í Landsbanka Íslands, Árbæjarútibúi í Reykjavík, samning, dagsettan 22. janúar sama ár, um kaup Guðjóns Brodda á vöru með eignarréttarfyrirvara af fyrirtæki ákærða 4P sf., kt. 661192-2329, fyrir andvirði kr. 368.445, skuldfærðu á reikning Guðjóns Brodda hjá VISA nr. 4507 3900 0004 5388, sem ákærði falsaði með nafni Guðjóns Brodda sem greiðanda.

II.

Í febrúar selt í sama banka samning, dagsettan 25. febrúar sama ár, um kaup Guðjóns Brodda á vöru með eignarréttarfyrirvara af fyrirtæki ákærða 4P sf. fyrir andvirði kr. 227.360, skuldfærðum á ofangreindan reikning Guðjóns Brodda hjá VISA sem ákærði falsaði með nafni Guðjóns Brodda sem greiðanda.

III.

 Þann 5. mars framvísað í bankanum yfirlýsingu um ábyrgð Guðjóns Brodda á kr. 200.000 vegna heimildar ákærða til yfirdráttar á tékkareikningi 4P sf. nr. 113-26-11072 hjá bankanum.

IV.

Þann 27. mars afhent til þinglýsingar hjá sýslumanninum í Keflavík skuldabréfi nr. 87576 að fjárhæð kr. 800.000, útgefnu 24. mars 1998, með veði í íbúð Guðjóns Brodda nr. 202 að Fífumóa 5b, Njarðvík, fölsuðu með áritun á nafni Guðjóns Brodda sem útgefanda og fengið þannig skuldinni þinglýst á fasteignina og afhent bréfið í sama mánuði í Landsbanka Íslands, Árbæjarútibúi, sem handveð fyrir yfirdráttarheimild á tékkareikningi ákærða hjá bankanum.

Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Í málinu er af hálfu Landsbanka Íslands, kt. 550291-2159, krafist skaðabóta kr. 1.903.014,53.

Með ákæru 11. júní sl. er ákærða gefið að sök „skjalafals með því að hafa, föstudaginn 9. apríl 1999, lagt fram í héraðsdómi Reykjavíkur í þinghaldi í sakamálinu nr. 20/1999 sem höfðað var á hendur honum 3. mars 1999 fyrir ætlað skjalafals, falsað skjal, dagsett 2. febrúar 1997, þess efnis að Guðjón Broddi Einarsson, Fífumóa 5b, Njarðvík, veitti ákærða fullt og ótakmarkað umboð til þess að gefa út skuldbindingar fyrir sína hönd, hvaða nafni sem þær kynnu að nefnast, fyrir allt að kr. 1.000.000.

Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Málin voru sameinuð að beiðni ákæruvaldsins með bréfi 11. júní 1999.

Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í báðum ákærunum. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu Landsbanka Íslands verði vísað frá dómi. Loks krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

 

Málavextir.

Föstudaginn 22. maí 1998 kom Guðjón Broddi Einarsson til rannsóknardeildar lögreglunnar í Keflavík til að leggja fram kæru vegna fölsunar á nafni hans undir skuldabréf, veðsetningu íbúðar hans til tryggingar greiðslu skuldarinnar, fölsunar á tveimur raðgreiðslusamningum VISA og fölsunar á sjálfskuldarábyrgð hans vegna yfirdráttarheimildar. Kvaðst kærandi gruna Ólaf Helga Úlfarsson, ákærða í málinu, um að hafa falsað nafn sitt undir þessi skjöl.

Guðjón kynntist ákærða um haustið 1997 þegar þeir voru að vinna saman hjá Flugleiðum á Keflavíkurflugvelli. Ákærði bjó á þeim tíma í Innri-Njarðvík, en flutti þaðan á Hótel Kristínu í Keflavík þar sem hann bjó fram yfir jólin 1997. Síðan lenti hann í peningaerfiðleikum og fór það svo í janúar 1998, að Guðjón ákvað að leyfa ákærða að vera í íbúðinni hjá sér að Fífumóa 5b í Njarðvík. Bjó ákærði hjá Guðjóni þangað til 1. maí sama ár. Ákærði og Guðjón voru saman á vakt hjá Flugleiðum, þó þannig að Guðjón vann á bæði nætur- og dagvöktum en ákærði einungis á dagvöktum. Hins vegar var alltaf um sömu daga að ræða.

Kærandi bar við rannsókna málsins að hann hafi ekki haft grun um að nokkuð óeðlilegt væri að gerast fyrr en 19. maí 1998, þegar hringt var í hann í vinnuna úr Landsbanka Íslands hf., Árbæjarútibúi. Þá hafi hann verið spurður út í greiðslur sem hann kannaðist ekkert við. Honum hafi þá verið sagt að ef hann hafi hann hefði ekki skrifað undir þessi skjöl, þá skyldi hann koma í bankann til að sækja þessi gögn, því hér væri þá um lögreglumál að ræða. Þegar Guðjón fór að ræða þetta við ákærða, sagði ákærði að hér væri um smá misskilning að ræða. Daginn eftir fóru þeir saman í bankann og sótti ákærði gögnin. Var hér um að ræða ljósrit af skuldabréfi nr. 87576, dagsett 24. mars 1998, að fjárhæð 800.000 krónur og var íbúð Guðjóns veðsett fyrir skuldinni. Nafn Guðjóns var ritað á bréfið sem lántakandi. Vottar á bréfinu voru Ágústa G. Hermannsdóttir og Sigurður Skjaldarson, sem bæði störfuðu hjá Flugleiðum. Einnig var hér um að ræða ljósrit tveggja raðgreiðslusamninga VISA, sá fyrri nr. 0302401, dagsettur 22. janúar 1998, 368.445 krónur og sá síðari nr. 0302403, dagsettur 25. febrúar sama ár, 227.360 krónur. Nafn Guðjóns var ritað undir samningana sem kaupandi, en um var að ræða samninga um kaup á vörum fyrirtækisins 4P sf., sem var einkafirma ákærða. Ákærði kom hins vegar ekki með nein gögn varðandi yfirdráttarheimildina, sem starfsmaður bankans hafði þó nefnt í samtalinu. Við síðari heimsókn Guðjóns í bankann, fékk hann þau gögn einnig. Guðjón afhenti lögreglunni í Keflavík skjölin þegar hann lagði fram kæru og gaf skýrslu um málið 22. maí 1998. Í framhaldinu var gerð rithandarrannsókn á þeim, sbr. skýrslu 29. október 1998. Segir þar meðal annars um rannsóknina: „Við samanburð á hinum fyrirsynjuðu nafnritunum Guðjóns Brodda annars vegar og staðfestu rithandarsýni hans kemur fram verulegt skriftarlegt misræmi. Misræmi er í stafaformi, hlutföllum og skriftarhalla, auk annarra veigamikilla skriftarlegra þátta og telur undirritaður litlar líkur á að hann hafi skrifað hinar fyrirsynjuðu nafnritanir sínar.“ Þá segir í rannsókninni um samanburð á nafnritunum undir skjölin og staðfestu rithandarsýni ákærða að fram komi skirftarlegt samræmi í tilteknum þáttum, en hins vegar telur rannsakari að það samræmi sé ekki nægilegt að umfangi til að byggja á afgerandi afstöðu til þess hvort ákærði hafi skrifað nafnritanirnar undir skjölin og taki því ekki afstöðu til þess.

Mál á hendur ákærða fyrir fölsun nefndra skjala var höfðað með ákæruskjali dagsettu 12. janúar 1999. Í þinghaldi 9. apríl lagði ákærði fram umboð, dagsett 2. febrúar 1997 þar sem sagði að Guðjón Broddi Einarsson veiti hér með ákærða: „fullt og ótakmarkað umboð, til að fyrir mína hönd, að gefa út skuldbindingar fyrir mína hönd, hvaða nafni sem þær kunna að nefnast, fyrir allt að kr. 1.000.000. Allt sem umboðsmaður minn gerir í mínu nafni er sem ég hafi gert það.“ Umboðið var dagsett 2. febrúar 1997. Guðjón neitaði við yfirheyrslu fyrir dómi að hann hafi skrifað undir þetta umboð og kannaðist ekkert við það. Umboðið var sent í sams konar rannsókn og skjöl, sem lýst er í fyrra ákæruskjali og fékk Haraldur Árnason rannsóknarlögreglumaður, umboðið til rannsóknar. Í skýrslu hans, 20. apríl 1999, segir meðal annars svo um rannsóknina: „Við samanburð á nafnritun Guðjóns Brodda undir umboðinu annarsvegar og staðfestum rithandarsýnum hans hinsvegar, kemur fram skriftarlegt misræmi í formi, tengingum, auk annarra veigamikilla skriftarlegra þátta. Auk þessa koma fram við smásjárskoðun, aðrir þættir sem eindregið benda til fölsunar sem gæti verið sambland af fríhendis- og tæknifölsun. Í ljósi framanritaðs telur undirritaður yfirgnæfandi líkur á að nafnritun Guðjóns Brodda undir framangreint umboð, sé falsað og litlar líkur á að hann hafi skrifað nafn sitt undir skjalið.“ Í niðurlagi skýrslunnar segir síðan: „Það er niðurstaða undirritaðs, að litlar líkur séu á því að Guðjón Broddi Einarsson, kt. 310370-3129, hafi skrifað nafn sitt undir framangreint umboð og að nafnritunin beri öll merki fríhendis- og tæknifölsunar.“

Ákærða og Guðjóni ber ekki saman um tilurð og undirritun þessara gagna.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu vegna máls þessa 30. júní sl. Hann kvaðst ekki vilja tjá sig um sakarefnið, en tók fram „að það sem gert hafi verið og sé tilefni þessara kæru hafi verið með vitund og vilja Guðjóns Brodda, og mætti hafi ekkert brotið af sér.“ Fyrir dómi kannaðist hann við það að hafa notað skjölin þau, sem lýst er í ákæru 12. janúar sl., á þann veg sem þar er lýst, en neitaði alfarið að hann hafi falsað nafnritun Guðjóns undir skjölin sem lýst er í, og taldi „nokkuð víst“ að Guðjón hefði sjálfur ritað nafn sitt, þótt hann gæti ekki fullyrt það með vissu. Ákærði kvaðst þó ekki vera viss um þetta þar sem hann hafi verið í mikilli óreglu á þessum tíma. Aðspurður um gerð umboðsins sagði ákærði að dagsetningin á því væri misrituð, hún ætti að vera 2. febrúar 1998 en ekki 1997. Sagði ákærði að umboðið hafi verið útbúið til þess að á hreinu væri um hversu háa fjárhæð mætti skuldbinda Guðjón. Ákærði sagðist ekki hafa séð ástæðu til að fá votta til að undirrita umboðið og hann hafi sjálfur verið viðstaddur þegar Guðjón hefði ritað nafn sitt undir það. Ákærði neitaði að hafa haft ásetning um að hafa ætlað að blekkja neinn þegar hann nýtti sér umrædd skjöl og jafnframt að hann hafi haldið sig innan þeirrar heimildar sem umrætt umboð veitti honum. Ákærði bar að Guðjóni hefði verið vel kunnugt um nefndar skuldbindingar áður en hringt var í hann í maí 1998 enda hefði hann fengið VISA yfirlit og greiðslumiða vegna skuldabréfsins. Ákærði viðurkenndi að hafa fengið vitnin Sigurð og Ágústu til að skrifa sem vottar undir skuldabréfið og ber að hann hafi þá verið búinn að vélrita það í heild sinni. Aðeins hafi vantað undirritun Guðjóns sem ákærði telur að hafi sjálfur skrifað undir bréfið.

Vitnið Guðjón Broddi Einarsson kom fyrir dóminn. Vitnið kannaðist ekki við að hafa skrifað undir nefndar skuldbindingar eða umboð til handa ákærða til að skuldbinda sig. Kvaðst vitnið ekki hafa skrifað upp á neitt fyrir ákærða og hafi sagt það oftar en einu sinni við ákærða að hann myndi aldrei gera slíkt. Ákærði hafi aldrei beðið vitnið að skrifa upp á neitt fyrir sig, en vitnið bar að spurst hafi út að hann ætti ekki að skrifa upp á neitt fyrir ákærða og helst ekki láta hann sjá skrift sína. Skjölin, sem mál þetta snýst um, voru lögð fyrir vitnið og kannaðist það ekki við að hafa ritað undir neitt þeirra. Vitnið viðurkenndi að hafa leyft ákærða að setja þrjár greiðslur á VISA kort sitt, hverja að fjárhæð 19.000 krónur, en bar jafnframt að hann hafi aldrei látið hann hafa kortið eða kortanúmerið. Vitnið bar að hann hafi aldrei fengið tilkynningar um að fallnar væru á hann greiðslur samkvæmt nefndum skuldbindingum en eftir samtal við starfsmann Landsbanka Íslands hf. 19. maí 1998 hafi hann farið að leita og þá fundið tilkynningu um vanskil á skuldabréfinu, en greiðsluseðil hafi hann aldrei fengið. Eftir að vitnið hafði lagt fram kæru hafi greiðsluseðlar hins vegar farið að berast. Í þessu sambandi ber vitnið að í mars 1998 hafi lykillinn að póstkassanum ekki passað lengur. Hann hafi hins vegar ekki látið laga það þar sem hann hafi komist í póstinn með því að troða hendinni niður í kassann. Taldi vitnið að ákærði hafi tekið rétta lykilinn og sett annan lykil í staðinn. Með þessu hafi ákærði komist í póstinn á undan vitninu og með þeim hætti komið undan pósti sem hefðu vakið grunsemdir hjá vitninu.

Haraldur Árnason rannsóknarlögreglumaður tæknirannsóknarstofu ríkislögreglustjóra, kom fyrir dóminn sem vitni. Staðfesti vitnið að hann hafi unnið að rannsóknum á undirskriftum umdeildra skjala og staðfesti jafnframt þær niðurstöður sem komu fram í skýrslunni 29. október 1998, að litlar líkur væri á því að að Guðjón Broddi Einarsson hefði skrifað undir þau skjöl sem þar voru til rannsóknar. Jafnframt staðfesti vitnið rannsókn sína 20. apríl 1999 á ofangreindu umboði og niðurstöðu sína. Vitnið sagði að undirskriftin á umboðinu væri sambland af fríhendis- og tæknifölsun. Byggði vitnið þá niðurstöðu meðal annars á því að líklegast væri að skrifuð hafi verið með blýanti einhvers konar fyrirmynd nafnáritunar Guðjóns eða hún „tekin í gegn“, t.d. á gluggarúðu, sem síðan hafi svo verið skrifað ofan í með penna. Ekki væri hægt að samkenna undirritunina á umboðinu persónulegri skrift neins manns, heldur benti rannsóknin eindregin til þess að nafnritun hans hafi verið notuð sem fyrirmynd. Vitnið taldi að undirritunin væri „teikning“ af skrift Guðjóns.

Vitnið Sigurður Eysteinn Skjaldarson kom fyrir dóminn. Vitnið kannaðist ekki við að hafa vottað skuldabréf fyrir ákærða. Hann hafi hins vegar vottað skuldabréf sem ákærði kom með til hans, sem í raun og veru hafi ekkert verið ritað á. Skuldabréfið hafi verið óútfyllt þegar ákærði hafi beðið sig að skrifa undir það.

Vitnið Ágústa Guðríður Hermannsdóttir bar á sama veg og vitnið Sigurður um það að ákærði hefði komið með skuldabréfið til sín og beðið sig að skrifa undir sem vottur. Þá hafi ekkert verið skrifað á eyðublaðið en ákærði hafi sagt sér að hann hafi verið að sækja um smá lán í sparisjóðnum.

Hvorugt vitnið, Sigurður eða Ágústa, taldi sig hafa verið að votta rétta undirskrift Guðjóns Brodda Einarssonar. Þau könnuðust hins vegar við nafnritanir sína sem vottar undir skuldabréfið sem um getur í IV. kafla ákæru 12. janúar sl.

Þorgrímur Ottósson, skrifstofustjóri Landsbanka Íslands hf. Árbæjarútibúi, kom fyrir lögreglu og gaf skýrslu um málið 20. ágúst 1998, en hann kom ekki fyrir dóminn, enda er ekki var ágreiningur um það sem fram kemur í skýrslu hans. Skýrði Þorgrímur frá samskiptum sínum við ákærða þau skipti sem hann kom í bankann með viðskiptabréf er vörðuðu Guðjón Brodda Einarsson. Í skýrslu sinni sagði Þorgrímur að ákærði hefði komið 16. febrúar 1998 og aftur 2. mars sama ár í bankann með raðgreiðslusamninga VISA og óskað eftir að bankinn keypti þessa samninga af fyrirtæki hans 4P sf. Bankinn hafi keypt samningana eftir venjubundna athugun á fjárhagsstöðu skuldara, Guðjóns Brodda Einarssonar. Það næsta sem gerst hafi var að 5. mars hafi ákærði komið með yfirlýsingu þar sem Guðjón hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð að upphæð 200.000 krónur vegna yfirdráttarheimildar á tékkareikningi fyrirtækisins 4P sf. Þetta hafi einnig gengið athugasemdalaust fyrir sig. Aðspurður taldi Þorgrímur sig minnast þess að ákærði hafi skýrt frá því að Guðjón væri vinnufélagi ákærða hjá Flugleiðum. Þann 3. apríl hafi ákærði síðan komið með veðskuldabréf að fjárhæð 800.000 krónur þar sem Guðjón hafi verið skráður lántakandi. Skuldabréfið hafi verið samþykkt eftir venjubundna athugun á skuldara bréfsins. Ekkert hafi verið athugavert við skjalið sem hafi verið formlega rétt útfyllt og vottað af tveimur aðilum. Hins vegar hafi Þorgrímur hringt í Guðjón þann 18. maí 1998 þegar engar afborganir hafi verið greiddar af bréfinu. Þá hafi Guðjón ekkert kannast við þetta bréf, frekar en önnur skjöl sem ákærði hafi komið með í bankann. Í framhaldinu hafi hann boðið Guðjóni að koma í bankann til að kanna undirritanir undir skjölin en það hafi gerst meðan hann hafi verið í sumarleyfi.

 

Niðurstaða.

Óumdeilt er að ákærði framvísaði skjölum þeim sem lýst er í ákæru 12. janúar 1999 í Landsbanka Íslands hf. Árbæjarútibúi. Ákærði seldi bankanum raðgreiðslusamningana og andvirði þeirra fór beint inn á reikning einkafirma hans 4P sf. Ábyrgðaryfirlýsing vegna yfirdráttarheimildar var vegna sama fyrirtækis og einnig skuldabréf sem afhent var bankanum sem handveð fyrir aukinni yfirdráttarheimild. Hér var því um að ræða fjóra gerninga sem voru alfarið og eingöngu einkafirma ákærða til hagsbóta. Ákærði viðurkenndi fyrir dóminum að hann hefði notað skjölin svo sem lýst væri í ákæru, en neitar því að hann hafi falsað nafn Guðjóns undir skjölin og kaðst hafa hann hafi haft heimild Guðjóns til að skuldbinda hann á þennan hátt.

Í þinghaldi við meðferð málsins lagði ákærði fram umboð þar sem nafn Guðjóns Brodda Einarssonar var ritað undir. Var þar um að ræða mjög víðtækt umboð þar sem ákærða voru veittar ótakmarkaðar heimildir til að gefa út skuldbindingar fyrir hönd Guðjóns, sama hvaða nafni þær kynnu að nefnast, fyrir allt að 1.000.000 krónur. Guðjón neitaði að hafa skrifað undir þessar skuldbindingar og neitaði jafnframt að hafa skrifað undir þetta umboð, en ákærði bar að hann hafi verið vitni að því er það átti að hafa gerst.

Haraldur Árnason rannsóknarlögreglumaður, kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslur sínar 29. október 1998 og 20. apríl sl. þess efnis að litlar líkur væri á því að Guðjón Broddi hafi skrifað nafn sitt undir skjölin fjögur, sem mál þetta snýst um, svo og umboð það sem hann framvísaði fyrir dómi.

Með hliðsjón af rannsóknum vitnisins og framburði vitna í málinu verður að telja mjög miklar líkur á að Guðjón hafi ekki undirritað nefnd skjöl. Við mat á gildi umboðsins er einnig óhjákvæmilegt til þess að líta að umboðið er mjög víðtækt, en þar eru engar takmarkanir nema að því er varðar hámark upphæðar. Þá eru engir vottar á umboðinu og ákærði framvísaði því ekki fyrr en við meðferð málsins, en honum hefði þó átt að vera hægt um vik að koma fram með umboðið strax er sakir voru fyrst bornar á hann. Hann hefur ekki gefið skýringu á þessum drætti. Einnig eykur það á ótrúverðugleika umboðsins að Guðjón virðist ekki hafa haft neina ástæðu til að takast á hendur slíkar skuldbindingar fyrir ákærða sem í umboðinu greinir. Fram er komið að enginn skyldleiki eða fjárhagsleg tengsl voru á milli þeirra. Einu tengsl þeirra voru þau að þeir unnu og bjuggu saman um stutta hríð, en höfðu aðeins þekkst í 2-3 mánuði á þeim tíma er nefnt umboð á að hafa verið undirritað að sögn ákærða. Verður samkvæmt þessu að talja fram komið að skjöl þau sem mál þetta snýst um beri öll falsaða nafnritun Guðjóns Brodda.

Samkvæmt ofanrituðu þykir fyllilega sannað að ákærði hafi notað þau fjögur skjöl sem getið er í ákæru 12. janúar sl. á þann veg sem þar er lýst þrátt fyrir að honum væri ljóst að nafnritun Guðjóns Brodda undir skjölin væri fölsuð. Þykir einnig sannað með vísan til framanritaðs að hann hafi framvísað í í þinghaldinu 9. apríl sl. umboði, sem honum var einnig fullkunnugt um að stafaði ekki frá Guðjóni Brodda. Með þessari háttsemi sinni hefur hann gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Viðurlög.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann þrisvar sinnum gengist undir sátt fyrir umferðalagabrot, síðast 3. desember 1996 er hann var dæmdur til sviptingar ökuréttinda og greiðslu sektar. Þá var hann dæmdur 3. mars 1998 í 10 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir skjalafals. Brot ákærða, sem getið er um í I. og II. kafla ákæru 12. janúar sl. eru framin áður en ákærði hlaut síðargreindan dóm og ber því að ákveða honum hegningarauka að því er þau brot varðar samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga. Með brotunum í III. og IV. kafla þeirrar ákæru og ákæru 11. júní sl., sem ákærði hefur hér verið sakfelldur fyrir, hefur hann rofið skilorð sama dóms. Ber því nú samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 8. gr. laga nr. 22/1955, að dæma ákærða í einu lagi fyrir brot þau sem hann var sakfelldur fyrir í dóminum 3. mars 1998 og þau brot, sem hér eru til umfjöllunar. Þegar litið er til þess að brot ákærða eru mörg, þau varða mikla fjármuni og harðs brotavilja ákærða, sem framvísaði fyrir dómi fölsuðu skjali, og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 20 mánuði.

 

Skaðabætur.

Landsbanki Íslands hf. lagði fram við rannsókn málsins skaðabótakröfur á hendur ákærða vegna skipta hans við bankann í þessu máli, sbr. niðurlag fyrri ákæru. Sundurliðun fjárhæða kröfunnar er með eftirfarandi hætti: yfirdráttarskuld kr. 431.041,54; VISA raðgreiðslusamningur nr. 302403 kr. 223.915,76; VISA raðgreiðslusamningur nr. 302401 kr. 362.863,90 og skuldabréf nr. 87576 kr. 885.193,33. Samtals nema þessar kröfur kr. 1.903.014,53. Af hálfu ákærða er skaðabótakröfunni mótmælt og krafist frávísunar hennar. Krafa þessi er vanreifuð. Ber þegar af þeirri ástæðu að vísa henni frá dómi í málinu.

 

Sakarkostnaður.

Ákærði er dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur.

Ingibjörg Benediktsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Ólafur Helgi Úlfarsson, sæti fangelsi í 20 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur.