Hæstiréttur íslands

Mál nr. 807/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Kaup
  • Afhending
  • Áhættuskipti


Miðvikudaginn 14. janúar 2015

Nr. 807/2014.

Nergard Havfiske AS

(Jón Ögmundsson hrl.)

gegn

þrotabúi Útgerðarfélagsins Ásvellir ehf.

(Guðbjarni Eggertsson hrl.)

Kærumál.Gjaldþrotaskipti. Kaup. Afhending. Áhættuskipti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu N, norsks útgerðarfélags, sem lýst var við gjaldþrotaskipti Ú ehf. Var krafa N sett fram á þeim grundvelli að Ú ehf. hefði borið að endurgreiða N kaupverð skips sem síðarnefnda félagið hafði keypt af hinu fyrrnefnda, en skipið sökk á leið til Noregs. Hafði N þá greitt Ú ehf. kaupverðið samkvæmt ákvæðum samningsins, en Ú ehf. fékk greitt andvirði húftryggingar skipsins. Skiptastjóri hafnaði kröfunni á þeim grundvelli að krafa N hefði verið fullgreidd þar sem Ú ehf. hefði endurgreitt kaupverðið að frádregnum kostnaði við flutning skipsins inn á reikning skipamiðlunarinnar S sem B var fyrirsvarsmaður fyrir, en B hafði komið fram fyrir hönd N á fyrri stigum málsins og setti fram kröfu um endurgreiðslu kaupverðsins á fundi með fyrirsvarsmanni Ú ehf. og skipamiðlara sem komið hafði fram fyrir hans hönd. Hvorki S né B höfðu skriflegt umboð frá N til móttöku fjárins og greiddi B féð ekki til N. Í málinu deildu aðilar m.a. um það hvar afhendingarstaður skipsins hefði átt að vera og hvort B hefði haft umboð til að taka við greiðslu úr hendi Ú ehf. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að samkvæmt kaupsamningi skyldi skipið afhent N á tilgreindum stað á Íslandi og hefði N hvorki sýnt fram á að samið hefði verið um breytingu á afhendingarstað né að áhættuskipti skyldu eiga sér stað á öðru tímamarki en við afhendingu. Af því leiddi að N hefði ekki átt lögvarða kröfu á hendur Ú ehf. um endurgreiðslu kaupverðsins og yrði krafa hans því ekki tekin til greina á þeim grundvelli. Hefði loforð fyrirsvarsmanns Ú ehf. um endurgreiðslu kaupverðsins, að frádregnum kostnaði vegna flutnings, verið umfram skyldu og falið í sér örlætisgerning. Yfirlýsing N í greinargerð til Hæstaréttar um að framangreint samkomulag hefði verið munnlegt og gert við mann sem ekki hefði haft heimild til að taka slíka ákvörðun fyrir hönd N, yrði ekki skilin á annan veg en að með því hefði ekki stofnast til gildrar skuldbindingar af hálfu seljanda skipsins gagnvart N sem N gæti byggt rétt á. Yrði krafa N því ekki tekin til greina á þeim grundvelli að hann ætti vegna örlætisgernings kröfu á hendur þrotabúi Ú ehf. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2014 þar sem leyst var úr ágreiningi um viðurkenningu krafna sóknaraðila við gjaldþrotaskipti varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að krafa sín að fjárhæð 2.001.500 norskar krónur verði viðurkennd við gjaldþrotaskiptin með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 og að viðurkennt verði að dráttarvextir af kröfunni frá 25. janúar 2012 njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 114. gr. sömu laga.  Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Fallist er þá niðurstöðu í hinum kærða úrskurði að mál þetta sé á grundvelli fortakslauss ákvæðis 171. gr. laga nr. 21/1991 réttilega rekið fyrir dómstólum hér á landi.

Samkvæmt 3. gr. kaupsamnings um skipið Hallgrím SI 77 frá 30. desember 2011 skyldi það afhent kaupanda á Siglufirði. Gegn andmælum varnaraðila hefur sóknaraðili hvorki sýnt fram á að eftir gerð kaupsamningsins hafi verið samið um breytingu á afhendingarstað skipsins né að áhættuskipti skyldu eiga sér stað á öðru tímamarki en við afhendingu. Af því leiðir að sóknaraðili átti ekki lögvarða kröfu á hendur seljanda skipsins um endurgreiðslu kaupverðsins og verður krafa sóknaraðila í málinu því ekki tekin til greina á þeim grundvelli.

Loforð það sem forsvarsmaður Útgerðarfélagsins Ásvellir ehf. gaf Bjørn Sjåstad skipamiðlara á fyrstu mánuðum ársins 2012 um endurgreiðslu kaupverðs skipsins, að frádregnum kostnaði vegna flutnings þess til Noregs, var samkvæmt framansögðu umfram skyldu og fól í sér örlætisgerning af hálfu seljanda skipsins. Í greinargerð sinni fyrir Hæstarétti tók sóknaraðili fram að það „samkomulag“ hefði eingöngu verið „munnlegt og gert við mann sem hafði ekki heimild til að taka slíka ákvörðun fyrir sóknaraðila“. Framangreind yfirlýsing sóknaraðila verður ekki skilinn á annan veg en þann að með þessu hafi ekki stofnast til gildrar skuldbindingar af hálfu seljanda skipsins gagnvart sóknaraðila sem hinn síðarnefndi geti byggt rétt á. Verður krafa sóknaraðila í málinu því heldur ekki tekin til greina á þeim grundvelli að hann eigi vegna örlætisgernings kröfu á hendur varnaraðila. Er þá ekki þörf á að fjalla sérstaklega um hvort umræddur Bjørn Sjåstad hafi haft umboð til þess að taka við greiðslu fyrir hönd sóknaraðila. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Nergard Havfiske AS, greiði varnaraðila, þrotabúi Útgerðarfélagsins Ásvellir ehf., 500.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2014.

Mál þetta var þingfest 14. mars sl. og tekið til úrskurðar 24. október sl. Sóknaraðili er Nergård Havfiske AS, Langnesvegen 18, 9408 Harstad, Noregi, en varnaraðili er þrotabú Útgerðarfélagsins Ásvalla ehf., kt. [...], Lágmúla 7, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að krafa hans að fjárhæð 2.001.500 norskar krónur, sem lýst var í þrotabú varnaraðila, verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og að viðurkennt verði að dráttarvextir af kröfunni frá 25. janúar 2012 verði viðurkenndir sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. sömu laga. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu sóknaraðila að fjárhæð 2.001.500 norskar krónur, sem lýst var í þrotabú varnaraðila sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Til vara krefst varnaraðili þess að hann verði sýknaður að svo stöddu af kröfu sóknaraðila að fjárhæð 2.001.500 norskar krónur, sem lýst var í þrotabú varnaraðila sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 að svo stöddu, eða þar til sóknaraðili hefur fengið skorið úr um réttmæti kröfu sinnar fyrir gerðardómi í Noregi í samræmi við ákvæði kaupsamnings um Hallgrím SI 77, skráningarnúmer 1612.

Verði krafa sóknaraðila samþykkt að einhverju leyti er þess krafist að til frádráttar komi 200.000 norskar krónur sem greiddar voru skipamiðlaranum Alasund Shipbrokers Ltd. fyrir þeirra þátt í viðskiptunum.

Verði krafa sóknaraðila samþykkt að einhverju leyti er þess krafist að til frádráttar komi 1.400.000 norskar krónur sem greiddar voru af Útgerðarfélaginu Ásvöllum ehf. inn á reikning Sjåstad Shipping AS.

Verði krafa sóknaraðila samþykkt að einhverju leyti er þess enn fremur krafist að til frádráttar komi útlagður kostnaður Útgerðarfélagsins Ásvalla ehf. við flutning á skipinu, samtals 400.000 norskar krónur.

Verði krafa sóknaraðila samþykkt að einhverju leyti krefst varnaraðili þess aðallega að krafan beri ekki dráttarvexti en til vara að dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu reiknist frá 13. desember 2012. Varnaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

I

Málsatvik

Sóknaraðili er norskt útgerðarfélag. Með kaupsamningi, dags. 30. desember 2011, keypti sóknaraðili af varnaraðila skipið Hallgrím SI 77, skráningarnúmer 1612, fyrir tvær milljónir norskra króna. Skipamiðlarar komu fram fyrir hönd málsaðila við kaupin á skipinu, Alasund Shipbrokers Ltd. fyrir hönd varnaraðila, en Sjåstad Shipping AS fyrir hönd sóknaraðila og munu öll samskipti málsaðila í aðdraganda kaupanna hafa farið fram í gegnum miðlarana.

Skipið sökk á siglingu til Noregs 25. janúar 2012. Þá hafði sóknaraðili þegar greitt varnaraðila kaupverðið, 1.800.000 norskar krónur, en 200.000 norskar krónur á geymslureikning Alasund Shipbrokers Ltd. sem innáborgun samkvæmt ákvæðum samningsins. Varnaraðili fékk greitt andvirði húftryggingar skipsins, 83 milljónir íslenskra króna. Að sögn varnaraðila krafðist Bjørn Sjåstad, fyrirsvarsmaður Sjåstad Shipping AS, þess með tölvuskeyti og á fundi í Reykjavík með Þórarni S. Guðbergssyni, fyrirsvarsmanni Alasund Shipbrokers Ltd. og Kristjáni Sverrissyni, fyrirsvarsmanni varnaraðila, að varnaraðili endurgreiddi sóknaraðila kaupverðið. Fyrirsvarsmaður varnaraðila mun hafa samþykkt á fundinum að endurgreiða sóknaraðila kaupverðið, að frádregnum kostnaði við flutning skipsins.

Hinn 27. mars 2012 greiddi varnaraðili 1.400.000 norskar krónur inn á reikning Sjåstad Shipping AS. Ekki er um það deilt að hvorki Bjørn Sjåstad né Sjåstad Shipping AS hafði skriflegt umboð frá sóknaraðila til móttöku fjárins. Bjørn Sjåstad mun hafa millifært féð af reikningi félagsins á reikning annars félags í sinni eigu, í stað þess að greiða féð til sóknaraðila. Hinn 13. nóvember 2012 krafði sóknaraðili varnaraðila um greiðslu kaupverðsins, en þeirri kröfu hafnaði varnaraðili. Fyrir liggur að með dómi héraðsdóms í Noregi (Sunnmøre Tingsrett) 24. október 2013 var Bjørn Sjåstad dæmdur til refsingar fyrir m.a. alvarleg fjársvik með því að hafa 26. mars 2012 blekkt starfsfólk varnaraðila til að millifæra til sín 1.400.000 norskar krónur fyrir skip með því að upplýsa ranglega að hann hefði heimild til að taka við peningunum á vegum sóknaraðila.

Bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2013. Sóknaraðili lýsti kröfu í þrotabúið á grundvelli fyrrgreinds viðauka. Skiptastjóri hafnaði kröfunni með bréfi, dags. 23. október 2013, á þeim grundvelli að gögn málsins bæru með sér að Bjørn Sjåstad hefði haft umboð til að taka við greiðslu frá varnaraðila og krafa sóknaraðila væri því fullgreidd. Sóknaraðili mótmælti afstöðu skiptastjóra með bréfi, dags. 24. október sama ár, og vísaði skiptastjóri þá ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms.

Skýrslu fyrir dóminum gáfu Kristján Sigurður Sverrisson, fyrirsvarsmaður varnaraðila, og Þórarinn S. Guðbergsson, fyrirsvarsmaður Alasund Shipbrokers Ltd.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili vísar til þess að lögsaga Héraðsdóms Reykjavíkur í þessu máli sé lögákveðin, sbr. 1. mgr. 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og 2. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Ákvæði c-liðar 16. gr. kaupsamnings aðila, þess efnis að allar deilur sem risið geti á grundvelli samningsins skuli leystar fyrir gerðardómi í Osló í Noregi, standi af þeim sökum ekki í vegi fyrir lögsögu héraðsdóms.

Sóknaraðili byggir kröfu sína á almennum reglum kauparéttar og skilmálum kaupsamnings aðila. Þegar söluhlutur sé ekki afhentur og kaupanda sé ekki um að kenna geti kaupandi samkvæmt almennum reglum kauparéttar krafist efnda, riftunar og skaðabóta. Þar sem skipið Hallgrímur fórst áður en afhendingu var lokið sé sóknaraðili ekki í stöðu til að krefjast efnda kaupsamningsins, en hafi farið fram á endurgreiðslu kaupverðs. Slík krafa sé í samræmi við almennar reglur kauparéttar, sem og sérstaklega ákvæða kaupsamningsins. Ákvæði d-liðar 5. gr. kaupsamningsins segi að farist skipið fyrir afhendingu skuli endurgreiða fyrri greiðslur og samningurinn skuli verða ógildur. Í ljósi þessa eigi sóknaraðili kröfu til endurgreiðslu kaupverðsins, 2.000.000 norskra króna, ásamt vöxtum og dráttarvöxtum.

Sóknaraðili hafnar þeirri afstöðu varnaraðila að skipið hafi verið afhent á Siglufirði og áhætta af skipinu hafi þar af leiðandi flust þar yfir á sóknaraðila. Í fyrsta lagi sé á því byggt að milli aðila hafi um það samist að afhending ætti sér stað í Álasundi í Noregi. Í tilboði sóknaraðila sem varnaraðili samþykkti hafi afhendingarstaður verið sagður annaðhvort í Álasundi í Noregi eða Grenå í Danmörku samkvæmt nánari útlistun. Aldrei hafi verið fallið frá þessu. Til dæmis hafi í 8. gr. kaupsamningsins verið vísað til Álasunds eða Björgvins í Noregi sem stað lokunar viðskiptanna (e. place of closing). Þessu til viðbótar vísi sóknaraðili til þriggja atriða, sem hvert og eitt staðfesti tilvist og skilning aðila á umræddu samkomulagi.

Í fyrsta lagi hafi varnaraðili greitt Sjåstad Shipping AS 1.600.000 norskar krónur þegar eftir því var leitað af hálfu skipamiðlarans Bjørns Sjåstad. Hefði varnaraðili litið svo á að afhending hafi átt sér stað á Siglufirði hefði hann ekki millifært féð til skipamiðlarans. Með þeirri millifærslu hafi varnaraðili staðfest að áhættan hefði ekki færst til sóknaraðila. Í þeirri greiðslu hafi falist viðurkenning á skyldu varnaraðila til endurgreiðslu kaupverðsins.

Í öðru lagi sé ágreiningslaust að skipið hafi verið húftryggt af hálfu varnaraðila á þeim tíma sem því var siglt til Noregs og að varnaraðili hafi fengið greiðslu að fjárhæð 83.000.000 króna vegna þessarar húftryggingar í kjölfar þess að skipið fórst. Jafnframt hafi áhöfn skipsins verið tryggð af hálfu varnaraðila og hafi hann fengið greiðslu að fjárhæð 209.840 krónur úr tryggingunni í kjölfarið. Hafi áhættan flust frá varnaraðila til sóknaraðila hefði varnaraðila ekki verið rétt, né tækt að taka við greiðslu bóta vegna skipsins. Sóknaraðili hefði þar að auki sjálfur keypt tryggingu vegna skipsins og áhafnar þess. Jafnframt veki umrædd málsástæða varnaraðila upp spurningar um það hvort um hafi verið að ræða sviksamlega háttsemi af hálfu þrotamannsins og/eða starfsmanna hans, enda falli skipatryggingar iðulega úr gildi við eigendaskipti á skipi. Í ljósi fullyrðingar varnaraðila um að afleiðing þess að sóknaraðili hafi ekki tryggt skipið hafi verið sú að hann gat ekki gert kröfu um bætur úr tryggingunni vísar sóknaraðili til 40. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Það að sóknaraðili hafi ekki verið móttakandi bótanna staðfestir í ljósi ákvæða laga nr. 30/2004 að skilningur aðila hafi verið sá að afhending hafi ekki farið fram.

Í þriðja lagi verði að líta til skráningar skipsins þegar því var siglt til Noregs við ákvörðun á raunverulegum áhættuflutningi milli aðila. Varnaraðili hafi lagt til allan mannskap á skipinu við siglingu þess og afhendingu í Noregi. Skipið hefði ekki verið afskráð af skipaskrá, né hefði skráningu þess verið breytt er það fórst. Sóknaraðili hafi því, á þeim tíma, engan rétt haft yfir skipinu og ekki getað hafa tekið við því í skilningi laga.

Bjørn Sjåstad hafi verið falið að finna skip sem hentaði sóknaraðila og skoða skipið. Honum hafi verið munnlega falið umboð til að setja saman kaupsamningstilboð til handa varnaraðila um kaup á skipinu og hafi komið að tilteknum atriðum við kaup og sölu skipsins. Hann hafi ekki haft frekara umboð til að ganga frá kaupum á skipinu eða taka við endurgreiðslu. Þvert á móti komi skýrt fram að eini skipamiðlarinn sem hafi komið að kaupum skipsins með formlegum hætti var Alasund Shipbrokers Ltd. sem hafði m.a. milligöngu um móttöku á 10% innborgun kaupverðs. Skortur Bjørns Sjåstad á umboði hafi m.a. verið staðfestur í dómi Sunnmøre Tingsrett í Noregi 24. október 2013. Með dómnum hafi Bjørn Sjåstad verið gerð refsing fyrir stórfelldan fjárdrátt á 1.400.000 norskum krónum sem hann án heimildar frá sóknaraðila hafi tekið við og ráðstafað í eigin þágu. Sóknaraðili byggi á 1. mgr. 11. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Líta verði til þess að ekki liggi fyrir skriflegt umboð og að lögmannsstofan Lögsaga hafi haft milligöngu um endurgreiðsluna, fyrir hönd varnaraðila. Gera verði ríkar kröfur til grandsemi og þess sem lögmenn taki að sér fyrir hönd skjólstæðinga sinna. Þar sem Bjørn Sjåstad skorti umboð til að taka við endurgreiðslunni hefði verið skylt og rétt að óska eftir slíku umboði frá honum. Án slíkrar beiðni geti varnaraðili ekki talist grandlaus.

Jafnframt eigi 2. mgr. 11. gr. laga nr. 7/1936 við. Þar sé ekki gerð krafa um að þriðji maður sé grandsamur. Þannig sé löggerningur ekki skuldbindandi fyrir umbjóðanda, þótt þriðji maður sé grandlaus þegar umboði sé háttað eins og hér stóð á. Engu skilríki hafi verið til að dreifa sem gaf til kynna að Bjørn Sjåstad hefði umboð. Grandsemi varnaraðila skipti því engu máli. Í 11. gr. norsku laga nr. 4 frá 31. maí 1918, Lov om avslutning av avtaler, om fuldmagt og om ugyldige viljeserklæringer, sé ákvæði samhljóða 11. gr. laga nr. 7/1936.

Hvað varðar þann lið kröfugerðar varnaraðila að verði fallist á kröfu sóknaraðila komi til frádráttar 200.000 norskar krónur sem greiddar hafi verið til skipamiðlarans Alasund Shipbrokers Ltd. vegna hans þáttar í viðskiptunum sé það einfaldlega rangt að sú fjáræð hafi verið greiðsla til skipamiðlarans. Um hafi verið að ræða innágreiðslu kaupverðs samkvæmt ákvæðum samningsins.

Sóknaraðili vísar til meginreglna kröfuréttar sem og kauparéttar, til laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá vísar sóknaraðili til hliðstæðra norskra lagareglna sem við eigi, þ. á m. laga nr. 4/1918 og norskra laga um gerðardóma nr. 25/2004. Þá vísar sóknaraðili til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og til stuðnings málskostnaðarkröfu sérstaklega til XXI. kafla, allt með vísan til 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili vísar til þess að kaup sóknaraðila á skipinu Hallgrími hafi komið þannig til að Bjørn Sjåstad leitaði 9. nóvember 2011 til fyrirtækisins Alasund Shipbrokers Ltd. eftir skipi sem hægt væri að úrelda í Noregi. Sama dag hafi Sveinn Þórarinsson, fulltrúi Alasund Shipbrokers Ltd., stungið upp á Hallgrími. Sveinn hafi í kjölfarið haft samband við forsvarsmenn varnaraðila og borið undir þá tilboð frá Bjørn Sjåstad. Þeir hafi tekið vel í þá málaleitan og fengið 2. desember 2011 afhent skriflegt kauptilboð í skipið, undirritað af Bjørn Sjåstad.

Með tölvupósti sem sendur var sama dag og tilboðið barst hafi Þórarinn Guðbergsson tilkynnt Bjørn Sjåstad að eigendur skipsins samþykktu alla skilmála tilboðsins nema afhendinguna sem skyldi eiga sér stað á Siglufirði þar sem skipið væri en ekki í Noregi eða Danmörku, svo sem kveðið var á um í tilboðinu.

Bjørn Sjåstad hafi svarað póstinum 5. desember 2011 þar sem hann segi að kaupandi samþykki að greiða 2.000.000 norskra króna fyrir skipið, afhent á Siglufirði. Niðurstaðan hafi orðið sú að í b-lið 5. gr. kaupsamnings standi að skipið skyldi afhent kaupanda á Siglufirði, þaðan sem skipið sigldi síðan til Noregs. Ofangreind samskipti útskýri misræmi í afhendingarstað í kauptilboði og kaupsamningi og taki af allan vafa um það að ákvæði kaupsamnings skuli gilda við úrlausn málsins. Samningaviðræður um afhendingarstað hafi varðað báða aðila miklu, enda fylgi flutningi skipsins yfir opið haf bæði umtalsverður kostnaður og áhætta.

Varnaraðili hafnar því að lokun viðskiptanna hafi nokkuð með afhendingu og áhættuskipti að gera, heldur sé um að ræða undirskrift á skráningarskírteini, sem sé sambærilegt við afhendingu afsals í fasteignaviðskiptum. Glögglega komi fram í ,,Bill of Sale“ að afhending og lok viðskipta skuli fara fram á ólíkum stöðum.

Málsaðilar hafi náð samkomulagi um að þótt skipið væri afhent á Siglufirði, og áhættan flyttist um leið frá seljanda til kaupanda, skyldi seljandi annast flutning skipsins til Noregs. Með aðstoð Alasund Shipbrokers Ltd. hafi varnaraðili því ráðið áhöfn á skipið og búið það til fararinnar. Hluti af eðlilegum undirbúningi sé kaup tryggingar á skipið og leiði af IX. kafla siglingalaga nr. 34/1985 að útgerðarmanni sé skylt að tryggja áhöfn sína og beri auk þess ábyrgð á öðru tjóni sem verði vegna starfa í þágu skips. Skip séu að jafnaði tryggð hjá þeim er geri þau til sjóferðar. Því sé ekki ljóst hvað sóknaraðili eigi við þegar hann segi að skipatryggingar falli iðulega úr gildi við eigendaskipti á skipi, enda vísi hann ekki í neinar réttarreglur máli sínu til stuðnings. Dylgjur um sviksamlega háttsemi séu sömuleiðis ekki studdar neinum rökum.

Óumdeilt sé að varnaraðila, sem útgerðarmanni skipsins í þessari ferð, hafi borið skylda til að tryggja áhöfn sína og sjálfan sig gegn tjóni. Engar reglur séu í siglingalögum um að eigandi skipsins þurfi að vera tilnefndur sem bótaþegi við hlið hans eða í hans stað. Afleiðing þessa sé sú að sóknaraðili, sem hefði sjálfur getað tryggt skipið, gat ekki gert kröfu um bætur úr tryggingunni. Það þýði þó ekki að hann geti ekki fengið tjón sitt bætt, enda geti hann gert kröfu um bætur úr hendi varnaraðila samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar telji hann að tjón sitt verði rakið til saknæmrar háttsemi hans eða vanrækslu.

Hlutverk Bjørns Sjåstad hafi verið mun viðameira en sóknaraðili byggi á. Á þeim tíma sem hafi liðið frá því samskipti aðila hófust í nóvember 2011 og þar til kaupverð skipsins var endurgreitt í lok apríl 2012 hafi sóknaraðili aldrei gefið sig fram við varnaraðila. Bjørn Sjåstad hafi verið eini maðurinn sem nokkuð samband hafi haft fyrir hönd sóknaraðila. Skjöl málsins beri enda með sér að þáttur hans í viðskiptunum hafi verið mun stærri en almennt eigi við um umboðsmenn. Bjørn hafi m.a. skrifað undir kauptilboð í eigin nafni. Þá beri gögn málsins einnig með sér að Bjørn hafi hlutast til um að greiðsla bærist frá sóknaraðila til varnaraðila. Af þessum sökum hafi forsvarsmenn varnaraðila mátt vera í góðri trú um að Bjørn Sjåstad hefði fullt umboð til að taka við greiðslunni. Endurgreiðsla varnaraðila á hluta kaupverðs hafi verið fullnaðarendurgreiðsla, að teknu tilliti til greiðslu kostnaðar við flutning á skipinu.

Skiptastjóra varnaraðila hafi borist skrifleg yfirlýsing frá Bjørn Sjåstad þar sem hann fullyrði að hann hafi haft umboð til að krefja varnaraðila um endurgreiðslu kaupverðsins fyrir hönd sóknaraðila. Sú yfirlýsing sé rökrétt og í samræmi við samskipti aðila fram að þeim tíma. Brot hans sé fólgið í því að hafa ekki sent peningana áfram til sóknaraðila. Þessi túlkun atburðarásarinnar fái stoð í því að sóknaraðili hafi fyrst í nóvember haft samband við varnaraðila til að spyrjast fyrir um endurgreiðslu kaupverðsins. Að sóknaraðili hafi ekki gert það fyrr bendi sterklega til þess að hann hafi annaðhvort talið Bjørn Sjåstad hafa umboð til að gera það fyrir sína hönd eða að hann hafi ekki talið sig eiga rétt á endurgreiðslu.

Varnaraðili hafnar því að atvikalýsing í dómi Sunnmøre Tingsrett hafi nokkurt vægi, enda hafi málið verið játningarmál og ekki tekist sérstaklega á um það hvort Bjørn Sjåstad hefði haft umboð til að taka við greiðslu frá varnaraðila eður ei. Þá stangist niðurstaða dómsins á við yfirlýsingu Bjørns Sjåstad til skiptastjóra og atvik máls að öðru leyti.

Rétt sé að Bjørn Sjåstad hafi ekki haft skriflegt umboð en það sé hvorki skilyrði samkvæmt lögum né sé það viðtekin venja í viðskiptum af þessu tagi. Þá sé ljóst af hegðun sóknaraðila að hann hafi talið Bjørn hafa umboð til að skuldbinda sig með ýmsum hætti, þ.m.t. með því að skrifa undir kauptilboð fyrir sína hönd. Varnaraðili mótmæli túlkun sóknaraðila á 2. mgr. 11. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Umboð Bjørns hafi augljóslega ekki verið stöðuumboð í skilningi 18. gr. laganna þar sem umboðið hafi verið falið í öðru og meiru en munnlegri yfirlýsingu, enda hafi sóknaraðili áður talið sig skuldbundinn af kauptilboði sem Bjørn undirritaði í hans nafni.

Lögsaga Héraðsdóms Reykjavíkur til viðurkenningar kröfunnar leiðir af 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Lögsaga héraðsdóms breyti þó ekki því að c-liður 16. gr. samnings aðila kveði á um að samningurinn skuli fara eftir norskum lögum og að skorið skuli úr álitamálum er hann varðar fyrir gerðardómi. Af þeim sökum sé rétt að sýkna varnaraðila að svo stöddu þar til sóknaraðili hafi fengið efnisdóm fyrir kröfum sínum fyrir gerðardómi í Noregi. Varnaraðili geti ekki borið greiðsluskyldu án úrskurðar gerðardóms og því sé sá tími ókominn sem hann verður krafinn um efndir kröfunnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ekki sé þörf á skuldbindandi yfirlýsingu varnaraðila um að hann muni lúta niðurstöðu gerðardóms, enda ráðist skuldbindingargildi gerðardómsins af ákvæðum kaupsamningsins. Ákvæði 1. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991 standi því ekki í vegi að sóknaraðili höfði mál á hendur varnaraðila fyrir norskum gerðardómi. Þar sem norsk lög gildi um samning aðila geti varnaraðili ekki borið fyrir sig íslenska réttarreglu til að komast undan lögsögu gerðardómsins.

Varnaraðili muni geta fengið úthlutað aflahlutdeild þrátt fyrir að skipið sem aflaði veiðireynslunnar sé sokkið, sbr. 9. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Varnaraðili verði af úthlutuninni, verði bú hans tekið til gjaldþrotaskipta og muni þau verðmæti sem í henni felast þá tapast. Í ljósi þess að engar eignir séu í félaginu í dag verði að teljast líklegt að staða sóknaraðila styrkist verulega, verði varnaraðili sýknaður af kröfu hans að svo stöddu og honum gert að sækja kröfu sína fyrir gerðardómi í Noregi.

Varnaraðili byggir fyrstu lækkunarkröfu sína á því að sóknaraðili hafi fyrst haft samband við Alasund Shipbrokers Ltd. til að finna fyrir sig skip til kaups. Þar af leiðandi sé eðlilegt að sóknaraðili beri kostnað af störfum hans.

Varnaraðili byggir aðra lækkunarkröfu sína á sömu rökum og sýknukröfu sína, þ.e.a.s. að hann hafi réttilega endurgreitt 1.400.000 norskar krónur til umboðsmanns sóknaraðila.

Varnaraðili byggir þriðju lækkunarkröfu sína á ákvæði kaupsamnings um að skipið skyldi afhent á Siglufirði og að sóknaraðili hafi ráðið hann til þess að flytja skipið til Noregs. Jafnvel þótt illa hafi farið verði sá kostnaður ekki felldur á varnaraðila.

Kröfu sína um að krafan beri ekki dráttarvexti styður varnaraðili þeim rökum að krafa sóknaraðila sé vanreifuð, enda komi ekki fram í dómkröfum á hvaða grunni hann vilji láta reikna dráttarvextina. Varakröfu um að dráttarvextir reiknist frá 13. desember 2012 byggir hann á því að komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að Bjørn Sjåstad hafi ekki haft umboð til að krefja varnaraðila um endurgreiðslu kaupverðs, hafi krafa sóknaraðila um endurgreiðsluna fyrst verið sett fram með bréfi lögmanns hans 13. nóvember 2012. Dráttarvextir geti því fyrst reiknast 30 dögum síðar, sbr. 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga.

Varnaraðili byggir á meginreglum kröfu- og kauparéttar. Varnaraðili vísar enn fremur til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og þá sérstaklega 10. og 11. gr. um umboð, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og þá sérstaklega 2. mgr. 26. gr. þeirra er varða sýknu að svo stöddu og XXI. kafla er varðar málskostnað, vaxtalaga nr. 25/1987 og þá sérstaklega 9. gr. þeirra um upphaf dráttarvaxtareiknings, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 5. þáttar þeirra, siglingalaga nr. 34/1985 og þá sérstaklega IX. kafla þeirra og laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og þá sérstaklega 9. gr. þeirra um úthlutun aflamarks á skip.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að krafa hans að fjárhæð 2.001.500 norskar krónur sem lýst var í bú varnaraðila 15. maí 2013, njóti rétthæðar sem almenn krafa, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., við gjaldþrotaskipti varnaraðila. Þá krefst hann þess að dráttarvextir frá 25. janúar 2012 verði viðurkenndir í réttindaröð sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. sömu laga. Sóknaraðili kveður kröfu sína vera endurgreiðslukröfu vegna kaupa sinna á skipinu Hallgrími, skipanúmer 1612, af varnaraðila, og byggir hann kröfu sína á kaupsamningi aðila um skipið.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Til vara krefst hann sýknu að svo stöddu. Málatilbúnað varnaraðila hvað varakröfu hans varðar verður að skilja á þann veg að hann byggi á því að sýkna beri hann að svo stöddu þar til hann hafi borið ágreining aðila undir gerðardóm í Noregi í samræmi við ákvæði c-liðar 16. gr. í kaupsamningi þar að lútandi.

Í c-lið 16. gr. umrædds kaupsamnings segir að allar deilur sem risið geta á grundvelli samningsins skuli leystar fyrir gerðardómi í Osló í Noregi. Sóknaraðili hefur á það bent að samkvæmt 2. gr. laga nr. 53/1989 um gerðardóma og samhljóða ákvæði í 1. mgr. 7. gr. norsku laganna frá 14. maí 2004 um gerðardóma skuli máli ekki vísa frá nema krafa komi fram um það hafi mál verið höfðað fyrir almennum dómstólum um ágreiningsefni sem eigi undir gerðardóm. Varnaraðili hafi ekki krafist frávísunar málsins. Samkvæmt þessu stoði lítið að krefjast sýknu að svo stöddu og bera það fyrir sig að málið eigi undir gerðardóm í Osló. Ljóst sé að aðilar geti samið um annað og fyrir sitt leyti hafi sóknaraðili samþykkt lögsögu héraðsdóms Reykjavíkur. Þá verði ekki fram hjá því litið að skiptastjóri hafi sjálfur beint málinu til úrlausnar dómsins.

Bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta 4. apríl 2013. Sóknaraðili lýsti kröfu í búið15. maí 2013 sem hafnað var með bréfi skiptastjóra 23. október sama ár. Máli þessu hefur skiptastjóri beint til dómsins á grundvelli 1. mgr. 171. gr. laga nr. 21/1991. Í því ákvæði segir að rísi ágreiningur um atriði við gjaldþrotaskipti skuli skiptastjóri beina slíkum málum til héraðsdóms til úrlausnar. Verður að fallast á með sóknaraðila að hér sé um fortakslaust ákvæði að ræða. Málið snýst um réttmæti lýstrar kröfu og ákvörðun skiptastjóra um höfnun hennar og ágreining þar að lútandi. Þótt niðurstaða málsins lúti m.a. að túlkun á umræddum kaupsamningi aðila verður með vísan til áðurnefnds ákvæðis laga nr. 21/1991 að telja málinu réttilega beint til dómsins til úrlausnar um ágreininginn enda beindi skiptastjóri varnaraðila málinu til dómsins. Þykir því ekki ástæða til að fjalla frekar um þennan þátt ágreinings aðila og kröfu varnaraðila um sýknu að svo stöddu.

Í málinu liggur fyrir að málsaðilar gerðu kaupsamning 30. desember 2011 um kaup sóknaraðila á skipinu Hallgrími SI 77, skráningarnúmer 1612, af varnaraðila. Samkvæmt 1. gr. samningsins var kaupverð skipsins 2.000.000 norskra króna. Skyldi greiða innborgun að fjárhæð 200.000 norskar krónur inn á geymslureikning skipamiðlarans Alasund Shipbrokers Ltd. innan sjö daga frá dagsetningu kaupsamnings. Samkvæmt 3. gr. samningsins skyldi greiða kaupverðið við afhendingu skipsins. Þá skyldi afhendingarstaður skipsins vera á Siglufirði samkvæmt b-lið 5. gr. samningsins. Skipið sökk 25. janúar 2012 á leið sinni til Noregs.

Sóknaraðili byggir kröfu sína um endurgreiðslu kaupverðs skipsins úr hendi varnaraðila á því að skipið hafi farist áður en það var afhent, ekki hafi kaupanda verið um að kenna og varnaraðili verði því að bera áhættu af því að skipið hafi farist. Hann hafi innt af hendi allt kaupverðið áður en skipið lét úr höfn á Siglufirði. Sóknaraðili byggir á því að svo hafi um samist með aðilum að seljandi skylda afhenda skipið í Álasundi í Noregi. Hefur hann vísað til þess að í tilboði sóknaraðila sé kveðið á um það að afhending fari fram í Álasundi í Noregi eða Grenå í Danmörku. Þá hefur hann vísað til tölvupóstssamskipta Bjørns Sjåstad við Þórarinn Guðbergsson hjá Alasund Shipbrokers Ltd. frá 5. desember 2011 þar sem segi að ræða þurfi nánar afhendingu í Noregi. Aldrei hafi verið fallið frá þessu og þannig hafi í 8. gr. kaupsamningsins verið vísað til Álasunds eða Björgvinjar í Noregi sem stað lokunar viðskiptanna. Þá byggir sóknaraðili á því að með millifærslu 1.400.000 norskra króna 26. mars 2012 til Bjørns Sjåstad Shipping AS, eftir að skipið fórst, hafi varnaraðili staðfest að áhættan hafi ekki færst til sóknaraðila sem kaupanda og greiðslan feli því í sér viðurkenning varnaraðila á skyldu hans til endurgreiðslu kaupverðsins til sóknaraðila. Þá hafi skipið verið húftryggt hjá Tryggingamiðstöðinni á þeim tíma sem því hafi verið siglt til Noregs og varnaraðili hafi notið greiðslu úr húftryggingunni er skipið fórst. Áhöfn skipsins hafi einnig verið tryggð af hálfu varnaraðila og hafi hann notið greiðslu vegna þess í kjölfar slyssins. Varnaraðili hafi lagt til allan mannskap á skipinu við siglingu þess til Noregs. Þá verði að líta til þess að skipið hafi ekki verið afskráð af skipaskrá né hafði skráningu þess verið breytt er það fórst enda höfðu engin eigendaskipti farið fram. Sóknaraðili hafi því á þessum tíma engan rétt yfir skipinu og gat ekki tekið við því í skilningi laga. Varnaraðili byggir á hinn bóginn á því að afhending hafi farið fram á Siglufirði og því beri sóknaraðili áhættu af því að skipið hafi farist. Byggir hann á orðalagi samningsins og kveður ekkert í gögnum málsins eða atvikum að því benda til annars en að áhættan hafi flust yfir á kaupanda áður en skipið lagði úr höfn í Siglufirði á leið sinni til Noregs.

Fram er komið í málinu, og er það í raun óumdeilt, að allt kaupverð skipsins hafði verið greitt þegar það lagði úr höfn á Siglufirði. Mun innborgunargreiðslan hafa verið greidd inn á geymslureikning skipamiðlarans Alasund Shipbrokes Ltd. og var það staðfest fyrir dómi af Þórarni S. Guðbergssyni, starfsmanni þess. Eftirstöðvar kaupverðsins munu svo hafa verið greiddar inn á reikning lögmanns varnaraðila og barst tilkynning um það frá Bjørn Sjåstad til Þórarins 17. janúar 2012.

Sóknaraðili hefur haldið því fram að samist hafi um aðra greiðslutilhögun og annan afhendingarstað en fram komi í ákvæðum samningsins. Þannig hafi aðilar orðið sammála um að afhendingarstaður yrði í Noregi en kaupverðið yrði allt greitt strax. Þá hefur sóknaraðili haldið því fram að varnaraðili hafi sem seljandi tekið að sér að sigla skipinu til Álasunds og breytt þar með afhendingarstað.

Þetta fær ekki stoð í gögnum málsins. Verður að telja ósannað að um annað hafi samist með aðilum en það er í samningi greindi um afhendingarstað. Þá kom fram í máli Þórarins S. Guðbergssonar fyrir dóminum að varnaraðili hefði ekkert komið að því að útvega mannskap eða vistir eða búa skipið að öðru leyti fyrir flutning til Noregs. Verður því einnig að telja ósannað að varnaraðili hafi sem seljandi skipsins tekið að sér að flytja skipið til Noregs fyrir kaupanda. Samkvæmt skýru ákvæði 3. gr. samningsins skyldi greiða kaupverðið við afhendingu og samkvæmt b-lið 5. gr. hans skyldi afhendingarstaður vera á Siglufirði. Verður því ekki annað séð en að greiðsla alls kaupverðsins fyrir afhendingu skipsins hafi verið í samræmi við ákvæði samningsins og í raun verður að telja að það styrki enn frekar þann augljósa skýringarkost að afhending skipsins skyldi fara fram á Siglufirði eins og samningurinn kveður skýrt á um.

Er það því niðurstaða dómsins að samkvæmt skýru ákvæði samnings aðila skyldi afhending skipsins fara fram á Siglufirði. Hefur sóknaraðila ekki lánast sönnun um annað. Áhættan af skipinu hafði því þegar flust yfir á sóknaraðila er skipið fórst í hafi 25. janúar 2012. Þá verður ekki litið svo á að nein önnur atvik í málinu breyti þessari niðurstöðu, þ.e. hvort varnaraðili keypti húftryggingu fyrir skipið eða hvernig skráningu skipsins var háttað eins og sóknaraðili hefur haldið fram. Verður því ekki talið, gegn skýrum ákvæðum samningsins, að áhættan af því að skipið fórst hafi með því enn verið hjá sóknaraðila. Þá verður ekki talið að ákvæði siglingalaga nr. 34/1985 um skyldu útgerðarmanns til að tryggja skip sitt og áhöfn eða ákvæði laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga breyti þessari niðurstöðu. Ekkert í málinu styður því þá staðhæfingu sóknaraðila að skipið hafi enn verið á áhættu varnaraðila þegar það fórst.

Í málinu liggur fyrir að nokkrum vikum eftir að skipið fórst hafi fyrrum fyrirsvarsmaður varnaraðila, Kristján Sverrir og Þórarinn S. Guðbergsson átt fund með Bjørn Sjåstad. Hafi orðið að samkomulagi með Bjørn og Kristjáni Sverri að félagið endurgreiddi sóknaraðila kaupverð skipsins að frádregnum ýmsum kostnaði vegna flutnings þess til Noregs. Er óumdeilt að varnaraðili greiddi inn á reikning félags þess fyrrnefnda 1.400.000 norskar krónur. Kaupverðið samkvæmt samningnum var á hinn bóginn 2.000.000 norskra króna.

Sóknaraðili hefur byggt á því í málinu að nefndur Bjørn Sjåstad hafi ekki haft neina heimild til að taka við greiðslu fyrir hönd sóknaraðila. Hann hafi eingöngu haft það hlutverk við kaupin að finna skip sem hentaði sóknaraðila og hann hafi skoðað skipið. Honum hafi verið falið munnlega að setja saman kaupsamningstilboð um kaup á skipinu og koma að tilteknum atriðum við kaup og sölu þess. Hann hafi á hinn bóginn ekki haft umboð til að ganga frá kaupum á skipinu, né að taka við endurgreiðslu kaupverðsins eins og hann gerði. Eini skipamiðlarinn sem kom að kaupum og sölu skipsins með formlegum hætti hafi verið Alasund Shipbrokes Ltd. sem m.a. hafði milligöngu um móttöku 10% innborgunar kaupverðs. Bjørn hafi með því farið út fyrir umboð sitt. Hafi skortur Bjørns á umboði verið staðfestur í dómi Sunnmøre Tingsrett í Noregi þar sem honum hafi verið refsað fyrir stórfelldan fjárdrátt á peningum sem hann tók við án heimildar frá sóknaraðila og ráðstafaði í eigin þágu. Telur sóknaraðili ljóst, með vísan til 11. gr. laga nr. 7/1936, að móttaka fjárins geti ekki verið skuldbindandi fyrir hann þar sem varnaraðila hafi mátt vera ljóst að Bjørn braut í bága við fyrirmæli sóknaraðila. Engu umboðsskjali hafi verið fyrir að fara í málinu og hefði lögmannsstofu varnaraðila fyrir hönd umbjóðanda síns verið rétt að óska eftir umboði frá Bjørn til að taka við endurgreiðslunni. Þá byggir sóknaraðili einnig á að 2. mgr. áðurnefndrar 11. gr. eigi við í málinu en þar sé ekki gerð krafa um grandsemi þriðja manns. Telur sóknaraðili sig því ekki vera bundinn af háttsemi Bjørns hvort sem varnaraðili verði talinn grandsamur eður ei.

Í málinu liggur fyrir að sóknaraðili var í tölvupóstssamskiptum við umræddan Bjørn á tímabilinu apríl 2012 til ágústloka sama ár. Þar reyndi sóknaraðili ítrekað að fá upplýsingar frá honum um gang mála, þ.e. hvort samþykkt hefði verið að endurgreiða allt kaupverðið og þá hvenær en hann hafi færst undan því að svara. Í ljós hafi komið að Bjørn hafi verið ótrúverðugur aðili í viðskiptum og ekki gengið heill erinda sóknaraðila heldur sinna eigin. Í október 2012 hafi komið í ljós að Bjørn hefði dregið sér andvirði endurgreiðslunnar.

Það er mat dómsins að umrædd endurgreiðsla hafi í raun verið umfram skyldu bæði samkvæmt kaupsamningnum sjálfum og almennum reglum kauparéttar. Eins og atvikum máls þessa er háttað, verður þó ekki talið að í þessu hafi falist viðurkenning varnaraðila á því að svo hafi um samist að skipið skyldi afhenda í Noregi þvert á ákvæði samningsins og hann bæri því áhættuna af því að skipið hefði farist. Þá var varnaraðila rétt að líta svo á að Bjørn Sjåstad kæmi fram fyrir hönd sóknaraðila við endurgreiðslu fjárhæðarinnar eins og hann hafði gert við samningsgerðina sjálfa. Ekkert liggur fyrir um það að á tímabilinu, frá því að kauptilboð var gert 2. desember 2011 og kaupsamningur undirritaður í framhaldi af því 30. sama mánaðar og þar til umrædd endurgreiðsla var innt af hendi til fyrirtækis 26. mars 2012, hafi nokkurt tilefni verið til þess fyrir varnaraðila að ætla að umræddur Bjørn kæmi ekki lengur fram fyrir hönd sóknaraðila. Bjørn Sjåstad kom fram fyrir hönd sóknaraðila við gerð kauptilboðsins sem hann skrifaði undir, við gerð samningsins, þar sem hann upplýsti að sóknaraðili sættist á að afhending færi fram á Siglufirði og hann upplýsti að sóknaraðili hefði innt af hendi kaupsamningsgreiðslu 17. janúar 2012. Er til þess að líta að á þessum tíma var varnaraðili aldrei í samskiptum, hvorki beinum né óbeinum, við nokkurn annan aðila á vegum sóknaraðila, hvorki fyrirsvarsmanns hans né aðra, varðandi viðskiptin. Þá verður og að hafa í huga að frumkvæði að kaupunum kom frá sóknaraðila og Bjørn Sjåstad kom fram fyrir hans hönd gagnvart varnaraðila í öllu ferlinu.

Þá verður um þessa niðurstöðu að líta til þess að í málinu liggur fyrir tölvupóstur frá forsvarsmönnum sóknaraðila 13. apríl 2012 til Bjørns Sjåstad þar sem hann er inntur eftir því hvað endurgreiðslu vegna skipsins líði. Verður ekki hjá því komist að álykta af þessu að sóknaraðili hafi sjálfur litið svo á að margnefndur Bjørn kæmi fram fyrir hans hönd gagnvart varnaraðila hvað endurgreiðsluna varðaði eins og áður í viðskiptum með skipið. Þykir það styrkja þessa niðurstöðu að það er ekki fyrr en í nóvember 2012 sem sóknaraðili gerir reka að því að spyrjast fyrir um endurgreiðslu kaupverðsins. Þá verður að telja að sóknaraðili verði að bera hallann af skorti á skriflegu umboði um aðkomu Bjørns að kaupunum enda var það hann sem fékk hann til starfans. Það verður því að telja það hafa staðið sóknaraðila nær að tryggja sér með skýrum hætti sönnur fyrir því hvað fólst í umboði Bjørns og gefa fyrirmæli um aðkomu hans að kaupunum. Er það niðurstaða dómsins að sóknaraðili verði að bera hallann af viðskiptum sínum við Bjørn en það verði ekki lagt á grandlausan viðsemjanda hans. Með hliðsjón af þessu þykir ljóst að sóknaraðili á enga kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli áðurnefnds kaupsamnings og því ekkert tilkall til greiðslna úr búi hans. Er kröfum sóknaraðila því hafnað.

Eftir þessum úrslitum málsins verður sóknaraðila, með vísan til 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, vera hæfilega ákveðinn 450.000 krónur.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við málinu 23. maí sl.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu sóknaraðila, Nergård Havfiske AS., um að viðurkennt verði að krafa hans að fjárhæð 2.001.500 norskar krónur, njóti rétthæðar samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og að dráttarvextir frá 25. janúar 2012 af framangreindri kröfu njóti rétthæðar samkvæmt 114. gr. sömu laga, við gjaldþrotaskipti á varnaraðila, þrotabúi Útgerðarfélagsins Ásvalla ehf. er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 450.000 krónur í málskostnað.