Hæstiréttur íslands
Mál nr. 192/2012
Lykilorð
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Sjúkrakostnaður
- Dánarbú
- Erfðaréttur
Líkamstjón. Skaðabætur. Sjúkrakostnaður. Dánarbú. Erfðaréttur.
Erfingjar D kröfðu G um skaðabætur vegna líkamstjóns sem D varð fyrir við vinnu sína hjá G, en D hafði látist áður en málið var höfðað af orsökum ótengdum líkamstjóninu. Laut ágreiningur aðila annars vegar að því hvort krafa D um bætur fyrir varanlega örorku og annað fjártjón hefði erfst og hins vegar hvort heimilt hefði verið að draga bætur sem dánarbúi D voru greiddar úr kjarasamningsbundinni slysatryggingu launþega frá bótum fyrir varanlegan miska. Í dómi Hæstaréttar sagði meðal annars að D hefði þegar við tjónsatvik eignast kröfu um skaðabætur fyrir líkamstjón sitt að því marki sem síðar yrði fallist á skaðabótaskyldu og umfang bótanna. Krafa D um skaðabætur fyrir fjártjón hefði verið andlag erfða eftir hann og því fallið til dánarbús hans eftir andlátið. Bætur vegna þjáninga og varanlegs miska hefðu verið greiddar að fullu og féllst Hæstiréttur á það að G hefði verið heimilt að draga bætur sem greiddar voru úr slysatryggingu launþega frá bótum fyrir varanlegan miska. Hefði D einnig átt rétt til bóta fyrir varanlega örorku sem miðuðust við batahvörf til dánardags hans. Frá bótunum væri heimilt að draga bætur sem greiddar voru úr slysatryggingu launþega og væri krafa erfingja D um bætur á þeim grundvelli fallin niður vegna þess. G var hins vegar gert að greiða erfingjum D bætur vegna útlagðs sjúkrakostnaðar sem ekki hefði verið bættur af þriðja manni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 21. mars 2012. Þau krefjast þess aðallega að stefnda verði gert að greiða þeim 5.240.449 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.054.060 krónum frá 22. apríl 2005 til 22. október sama ár, en af 5.240.449 krónum frá þeim degi til 7. janúar 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 1.830.779 krónur þann 19. desember 2006. Til vara krefjast þau að stefnda verði gert að greiða þeim 1.212.001 krónu með 4,5% ársvöxtum frá 22. apríl 2005 til 7. janúar 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 220.488 krónur þann 19. desember 2006. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjenda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Áfrýjendur hafa stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.
I
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi varð D, sem þá var starfsmaður stefnda, fyrir slysi 22. apríl 2005 við vinnu sína á […] bæjarins. Atvik að slysinu munu hafa verið þau að D var að taka saman verkfæri og setja á fjórhjól, sem hann notaði við störf sín, er fjórhjólið hrökk í gír og fór af stað. Skellti það D um koll og fór yfir vinstri ganglim hans. Hlaut hann af þessu meiðsl, sem höfðu bæði tímabundnar og varanlegar afleiðingar.
Lögmaður D ritaði bréf til stefnda 24. september 2006 þar sem því var lýst að D hefði hlotið varanlega áverka í slysinu. Benti lögmaðurinn á að tímabært væri að meta afleiðingar líkamstjónsins. Í bréfinu sagði einnig að nauðsynlegt væri að gera sér grein fyrir því hvort D ætti kost á frekari bótum en þeim, sem hann ætti rétt til úr kjarasamningsbundinni slysatryggingu launþega. Gat lögmaðurinn þess í bréfinu að slysið hefði orðið ,,vegna ökutækis og telur því undirritaður að [D] eigi rétt á bótum, eins og um umferðarslys sé að ræða.“ Lögmaðurinn hafði áður leitað eftir viðurkenningu á greiðsluskyldu Alþjóðlegra bifreiðatrygginga á Íslandi sf. þar sem fjórhjólið hafi verið óskráð og óvátryggt. Þeirri viðurkenningu var hafnað með þeim rökum að félaginu bæri samkvæmt gildandi reglugerð nr. 392/2003 um lögmæltar ökutækjatryggingar aðeins að bæta tjón þriðja manns en ekki stjórnanda þeirra ökutækja, sem undir greiðsluábyrgð þess féllu.
Af hálfu D var óskað einhliða eftir mati á tímabundnum og varanlegum afleiðingum líkamstjónsins og hvenær batahvörf hafi verið. Matsgerð lá fyrir 20. nóvember 2006. Niðurstaða matsmanna var á þann veg að tímabundið atvinnutjón D vegna slyssins tæki til tímabilsins 22. apríl 2005 til 22. október sama ár. Réttur til þjáningabóta, sbr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sem miðaðar skyldu við að hann hefði ekki verið rúmliggjandi, tæki til sama tímabils. Batahvörf hefðu verið 22. október 2005. Varanlegur miski var metinn 15 stig og varanleg örorka 25%.
Lögmaður D ritaði 21. nóvember 2006 bréf til réttargæslustefnda, sem veitt hafði stefnda ábyrgðartryggingu, en sveitarfélagið hafði einnig tekið kjarasamningsbundna slysatryggingu launþega fyrir starfsmenn sína hjá félaginu. Krafðist lögmaðurinn greiðslu bóta úr slysatryggingunni og kostnaðar. Þá ritaði hann sama dag bréf til réttargæslustefnda þar sem hann benti á að slysið hefði orðið vegna slits eða bilunar í fjórhjólinu. Lýsti lögmaðurinn þeirri skoðun að hann teldi stefnda hafa viðurkennt að saknæmisskilyrðum væri fullnægt. Var þess óskað að réttargæslustefndi ,,afgreiddi“ kröfuna sem fyrst. Enn ritaði lögmaðurinn réttargæslustefnda bréf 23. nóvember 2006 og setti þá fram kröfu reista á matsgerðinni, sem áður greinir. Sú krafa miðaði við að orsök líkamstjóns D hefði verið með þeim hætti að stefndi bæri skaðabótaábyrgð á afleiðingum þess.
D lést […] nóvember 2006 af orsökum ótengdum líkamstjóninu.
Réttargæslustefndi sendi lögmanni D heitins tölvupóst 15. desember 2006 þar sem félagið upplýsti að það hefði móttekið bréfið sem dagsett var 23. nóvember hinn 27. sama mánaðar. Í tölvupóstinum segir einnig svo: ,,Með hliðsjón af bréfi þínu 21. nóvember virðist krafa um bætur skv. skaðabótalögum byggja á því að Grindavíkurkaupstaður beri skaðabótaábyrgð á slysinu þar sem búnaður hjólsins hafi verið ófullnægjandi eða það bilað.“ Lýsti félagið því að það teldi sér ekki skylt að greiða bætur úr ábyrgðartryggingu vegna slyssins.
Réttargæslustefndi greiddi bætur 15. desember 2006 til dánarbús D heitins úr kjarasamningsbundinni slysatryggingu launþega 1.830.799 krónur auk kostnaðar samtals 1.965.229 krónur. Félagið féllst á að greiða bætur vegna þjáninga 204.960 krónur og bætur vegna varanlegs miska 849.900 krónur auk vaxta og ýmiss kostnaðar. Ekki kom þó til þess að greiðsla síðarnefndu fjárhæðarinnar rynni til dánarbúsins því félagið dró bætur, sem greiddar voru úr slysatryggingunni, frá miskabótum með vísan til 4. mgr. 4. gr., sbr. 4. mgr. 5. gr., skaðabótalaga. Ekkja D heitins höfðaði mál þetta 18. desember 2009 á hendur stefnda og krafðist skaðabóta úr hendi sveitarfélagsins. Krafan var við það miðuð að um skaðabótaábyrgð stefnda væri að ræða og að bætur úr kjarasamningsbundinni slysatryggingu launþega ættu ekki að koma til frádráttar. Ekkja D heitins lést undir rekstri málsins og eru áfrýjendur erfingjar þeirra hjóna. Er aðild þeirra að málinu ekki umdeild. Stefndi krafðist sýknu en til vara lækkunar á stefnukröfum og reisti sýknukröfuna sína á því að með þeim greiðslum sem félagið hefði þegar innt af hendi, að teknu tilliti til lögmælts frádráttar á þeim og áður er gerð grein fyrir, hefði tjónið verið bætt að fullu lögum samkvæmt.
II
Fallist er á þá niðurstöðu héraðsdóms að í greinagerð stefnda þar fyrir dómi hafi málsvörn hans ekki verið á því reist að hann bæri ekki skaðabótaábyrgð á líkamstjóni D heitins […]. Er fallist á að málsástæðu um þetta verði ekki komið að síðar undir rekstri málsins og því verður ekki tekið tillit til hennar.
Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að réttur til bóta fyrir annað fjártjón og fyrir varanlega örorku hafi ekki erfst og fallið til hins óskipta bús sem eftirlifandi eiginkona D heitins sat í vegna þess að hann hefði látist áður en krafan hefði verið viðurkennd. Engar bótagreiðslur vegna kröfunnar hefðu verið inntar af hendi. Í héraðsgreinargerð stefnda sagði einnig svo um þetta: ,,Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. skaðabótalaga erfist krafa um bætur fyrir þjáningar eða varanlegan miska hafi hún verið viðurkennd, einkamál verið höfðað til heimtu hennar eða viðurkenningar eða hún hefur verið gerð fyrir dómi í sakamáli. Ákvæði 2. mgr. 18. gr. skaðabótalaga er skýrt samkvæmt orðanna hljóðan og verður ekki túlkað á annan hátt en að þar séu tæmandi þær bætur vegna líkamstjóna sem erfast. Aðrar bætur en bætur vegna þjáninga eða varanlegs miska erfast ekki séu skilyrði 2. mgr. 18. gr. um viðurkenningu eða höfðun dómsmáls ekki uppfyllt. Krafa um bætur fyrir varanlega örorku og annað fjártjón hafði hvorki verið viðurkennd né hafði dómsmál verið höfðað til heimtu hennar eða viðurkenningar þegar [D] heitinn lést. Er því alveg ljóst að stefnandi á ekki rétt til frekari bóta en þegar hafa verið greiddar.“
Það er meginregla skaðabótaréttar að krafa um bætur vegna líkamstjóns stofnast þegar tjónsatvik verður þótt umfang einstakra þátta tjónsins og fjárhæð skaðabótakröfunnar verði í mörgum tilvikum ekki staðreynd fyrr en síðar. D heitinn hafði því þegar við tjónsatvik eignast kröfu um skaðabætur fyrir líkamstjón sitt að því marki sem síðar yrði fallist á skaðabótaskyldu og umfang bótanna. Við andlát hans féllu þessi fjárhagslegu réttindi til dánarbús hans, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991, nema annað leiði af réttarreglum, löggerningi eða eðli réttindanna. Í 2. mgr. 18. gr. skaðabótalaga er sérregla um að krafa um bætur fyrir þjáningar og varanlegan miska erfist ekki nema slík krafa hafi verið viðurkennd, einkamál verið höfðað til heimtu hennar eða viðurkenningar eða hún hefur verið gerð fyrir dómi í sakamáli. Þessi regla er undantekningarregla og verður því ekki túlkuð rýmra en orð hennar gefa til kynna. Krafa D heitins um skaðabætur fyrir fjártjón, sem eins og fyrr greinir hefur ekki verið andmælt í málinu, var andlag erfða eftir hann og féll því til dánarbús hans við andlátið.
Samkvæmt framansögðu verður fallist á að dánarbú D og síðar erfingjar hans geti krafist skaðabóta vegna fjártjóns er leiddi af slysi því er hann varð fyrir 22. apríl 2005. Eins og fram er komið hafa bætur vegna þjáninga þegar verið greiddar að fullu. Hið sama á við um bætur fyrir varanlegan miska að fjárhæð 849.900 krónur. Verður fallist á með stefnda að samkvæmt því sem segir berum orðum í 4. mgr. 4. gr., sbr. 4. mgr. 5. gr., skaðabótalaga, beri að draga frá miskabótum greiddar bætur úr kjarasamningsbundinni slysatryggingu launþega sem námu 1.830.779 krónum. Samkvæmt því hefur stefndi einnig fullnægt skyldu sinni til greiðslu bóta fyrir varanlegan miska vegna slyssins.
Við mat á fjártjóni D heitins […] vegna líkamstjónsins, að teknu tilliti til þess að andlát hans varð af öðrum orsökum, verður eins og áður hefur verið lagt til grundvallar, talið að hann hafi átt rétt til skaðabóta vegna varanlegrar örorku sem miðast við batahvörf 22. október 2005 til dánardags hans […] nóvember 2006. Ágreiningslaust er að fjártjón vegna starfsorkuskerðingar fyrir framangreint tímabil, að teknu tilliti til aldurs hans við batahvörf og dánarlíkur miðað við þann aldur til 75 ára aldurs, nemi 455.215 krónum. Stefndi krefst þess að frá þessum bótum dragist, samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, bætur sem greiddar voru úr kjarasamningsbundinni slysatryggingu launþega, enda standi eftir 980.899 krónur (1.830.799 – 849.900) sem ekki hafi verið nýttar til frádráttar. Verður fallist á með stefnda að áfrýjendur þurfi samkvæmt síðastnefndu lagaákvæði að una slíkum frádrætti og því sé krafa um bætur fyrir umrætt tímabil vegna varanlegrar örorku D heitins niður fallin.
Áfrýjendur kröfðust 305.073 króna í bætur fyrir ,,sjúkrakostnað og annað fjártjón“ samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Er sú fjárhæð sundurliðuð í skjali sem áfrýjendur lögðu fram í þinghaldi 25. maí 2011. Stefndi hefur lagt fram annað yfirlit um sundurliðun þessarar fjárhæðar og hvaða hluta hennar félagið telur að það hafi greitt. Áfrýjendur lýstu því yfir fyrir Hæstarétti að yfirlit stefnda og tilgreining á því hvað af þessum kröfulið hefði þegar verið greitt væri á rökum reist. Miða áfrýjendur kröfu sína í þessum lið fyrir Hæstarétti við að ógreitt sé af þessari fjárhæð 157.141 króna. Kröfuliður þessi er reistur á því að bæta beri ógreiddan útlagðan kostnað D heitins vegna læknismeðferðar og rannsókna lækna svo og sjúkraþjálfunar og hluta kostnaðar við að staðreyna tjón. Verður fallist á að þessi kostnaður sé sjúkrakostnaður í skilningi 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga og hann hafi verið nauðsynlegur og eðlilegur í því skyni að tjónþoli leitaðist við að fá bót meina sinna og ætti kost á að staðreyna tjón sitt. Þennan sjúkrakostnað, sem ekki hefur verið bættur af þriðja manni, ber stefnda að bæta. Krafan beri dráttarvexti frá 7. janúar 2010 eins og krafist er.
Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Grindavíkurbær, greiði áfrýjendum, A, B og C, 157.141 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. janúar 2010 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjendum hverjum fyrir sig málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti 400.000 krónur til hvers þeirra.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2012.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 18. desember 2009. Það var dómtekið að loknum endurflutningi þann 5. janúar 2012. Stefnandi var E f.h. dánarbús D. Stefndi er Grindavíkurbær, Víkurbraut 42, Grindavík og réttargæslustefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.376.834 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 22. apríl 2005 til 7. janúar 2010 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Allt að frádregnum 2.185.717 krónum miðað við 19. desember 2006. Til vara krefst stefnanda þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.348.603 krónur með sama vaxtafæti og í aðalkröfu að frádregnum 354.898 krónum miðað við 19. desember 2006. Stefnandi krefst jafnframt málskostnaðar að skaðlausu.
Dómkröfur stefnda, Grindavíkurbæjar, eru aðallega sýknun af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður. Réttargæslustefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gerir ekki sjálfstæðar kröfur í máli þessu en tekur undir og styður málatilbúnað og málsástæður stefnda.
Mál þetta var þingfest 7. janúar 2010 og frestað til greinargerðar til 18. febrúar 2010 og en síðan ítrekað þar til 8. apríl 2010 þegar stefndi, Grindvíkurbær, og réttargæslustefndi skiluðu greinargerð. Útivist varð hins vegar af hálfu Alþjóðlegra bifreiðatrygginga á Íslandi sf. sem einnig hafði verið stefnt en þar til málið var tekið fyrir þann 9. júní 2010 hjá þeim dómara er þá fór með málið, hafði það hins vegar ekki verið bókað í þingbók hins reglulega dómþings. Í því þinghaldi var áréttað af hálfu lögmann stefnda, Grindvíkurbæjar, og réttargæslustefnda að lögmaðurinn hefði aldrei farið með málið fyrir Alþjóðlegar bifreiðatryggingar þrátt fyrir að skilja mætti bókun í þingbók svo fram að þeim tíma. Þegar málið var tekið fyrir 9. september 2010 lýsti lögmaður stefnanda því yfir að fallið væri frá kröfum á hendur Alþjóðlegum bifreiðatryggingum á íslandi sf. Þá ber að nefna að samkvæmt stefnu var E sjálf einnig stefnandi en í þinghaldi 22. júní 2010 lýsti lögmaður stefnenda því yfir að hún félli frá kröfum á hendur stefndu, þ.e. að db. D væri eitt stefnandi í málinu. Við aðalmeðferð 25. maí sl. lækkaði stefnandi dómkröfur sínar og gerði jafnframt varakröfu, eins og framar greinir. Eftir dómtöku málsins varð dómari, sem þá fór með málið, þess var að á skorti að stefnandi upplýsti og legði fram gögn um heimild E til að fara með forræði búsins, sbr. 85. gr. laga nr. 20/1991. Málið var því endurupptekið 12. júlí 2010, í samræmi við 104. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í því þinghaldi leitaði dómari jafnframt frekari skýringa hjá lögmönnum aðila á forsendum útreiknings á varanlegri örorku. Lögmaður stefndu óskaði þá eftir fresti til að kanna það nánar og leita skýringa hjá réttargæslustefnda. Þá segir í sömu bókun að dómari hafi leitað eftir nánari rökstuðningi fyrir mótmælum stefnda gegn kröfu um bætur vegna annars fjártjóns.
Í fyrstu fyrirtöku nýs dómara, þann 7. október 2011, var upplýst að E hefði látist. Lá þá ekki fyrir hvernig aðild yrði hagað sóknarmegin.
Í þinghaldi 11. nóvember 2011, óskaði lögmaður stefndu að bókuð yrðu viðbrögð við fyrirspurnum fyrri dómara málsins í þinghaldi 12. júlí 2010 og lagði jafnframt fram gögn þeim til stuðnings. Framlagningu þeirra gagna og bókunum var ekki mótmælt fyrr en í þinghaldi 9. desember 2011 og þá með framlagningu bókunar þar um.
Mál þetta hefur dregist verulega. Endurflutningur hafði verið ákveðinn hinn 17. október 2011 en lögmaður stefnanda hafði ráðstafað þeim degi til aðalmeðferðar annars máls. Lögmaður gagnaðila samþykkti frest af þessum sökum. Vegna dagskrár dómara var ekki unnt að bóka endurflutning fyrr en 25. janúar 2012. Að endingu tókst að flýta endurflutningi til 5. janúar 2012 en þá lá fyrir staðfesting sýslumannsins í Keflavík á því að einkaskiptum erfingja væri lokið. Tóku þeir því við aðild málsins sóknarmegin.
Málsatvik
D heitinn slasaðist 22. apríl 2005 er hann var að störfum fyrir stefnda, Grindavíkurbæ. Í tilkynningu til Vinnueftirlits ríkisins, dags. 25. apríl 2005, er skráð að D hafi verið að taka saman verkfæri og setja á fjórhjólið, sem hafi verið í gangi. Það hafi þá hrokkið í gír, skellt D um koll og farið yfir fótinn á honum. Merkt er við reit undir liðnum orsök áverka, „klemmdist festist í vél“. Einnig kemur þar fram í viðeigandi reitum að D hafi verið verkstjóri sem hafði starfað lengur en 5 ár hjá stefnda. Afleiðingar slyssins voru þær að vinstri ökkli hans brotnaði og gekkst hann undir aðgerð 6. júlí 2005 þar sem ökklinn var „skrúfaður“. Að beiðni lögmanns D mátu F lögfræðingur og G afleiðingar slyssins á heilsufar hans samkvæmt skaðabótalögum. Niðurstöður þeirra er að finna í matsgerð dagsettri 20. nóvember 2006. Var niðurstaða þeirra sú að varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga var metinn 15% og varanleg örorka 25%. D lést, af orsökum sem ekki verða raktar til slyssins, þann […] nóvember 2006.
Með bréfi dagsettu 21. nóvember 2006 krafði lögmaður D heitins réttargæslustefnda um bætur að fjárhæð 1.651.100 krónur úr launþegatryggingu með vísan til matsgerðarinnar og reikninga. Með bréfi dagsettu 23. nóvember s.á. var krafist bóta að fjárhæð 6.150.356 krónur með vísan til matsgerðarinnar, kostnaðar og skaðabótalaga. Í tölvubréfi starfsmanns réttargæslustefnda, 15. desember s.á., til lögmannsins kemur fram að bótakrafa hans samkvæmt bréfi 23. nóvember s.á. þar sem krafist sé bóta á grundvelli skaðabótalaga vegna slyssins hafi verið móttekin 27. nóvember. Í bréfinu segir m.a.:
„Liggur jafnframt fyrir krafa, dags. 21. nóvember sl. úr slysatryggingu launþega. Óumdeilt er að tjónþoli var starfsmaður Grindvíkurbæjar þegar slysið varð og að hann eigi rétt á bótum úr slysatryggingunni vegna þess. Reiknaðar örorkubætur úr slysatryggingunni er kr. 1.830.779 en til viðbótar er félagið reiðubúið til greiðslu kr. 69.450 vegna læknisvottorða og kr. 65.000 vegna kostnaðarreiknings læknis v. örorkumatsins. Ekki er fallist á greiðslu frekari kostnaðar eða lögmannsþóknunar skv. venju, enda um einfalda summutryggingu að ræða. Þessi greiðsla hefur verið lögð inn á reikning þinn í dag og bið ég þig vinsamlega að senda mér staðfestingu þess efnis að fallist sé á framangreinda greiðslu sem fullnaðaruppgjör úr slysatryggingu launþega.“
Þá segir enn fremur að krafa um bætur samkvæmt skaðabótalögum virðist byggja á því að Grindvíkurkaupstaður beri skaðabótaábyrgð á slysinu þar sem búnaður hjólsins hafi verið ófullnægjandi eða það bilað. Fjallað er nánar um tildrög slyssins og skilmála ábyrgðartryggingar Grindvíkurbæjar og síðan lýst þeirri afstöðu að samkvæmt þeim sé greiðsluskylda ekki fyrir hendi úr ábyrgðartryggingu bæjarins.
Í niðurlagi bréfsins segir síðan: „Varðandi tölulega hlið málsins er bent sérstaklega á að skv. 18. gr. skbl. falla niður bætur vegna varanlegrar örorku við andlát tjónþola, sem ekki hafa þegar verið greiddar við andlátið. Skv. 4. mgr. 4. gr. laganna dragast greiddar bætur úr slysatryggingu launþega frá skaðabótum á hendur vinnuveitanda og því verður ekki heldur um að ræða bætur vegna varanlegs miska, sem reiknast mun lægri en bætur úr slysatryggingunni. Eftir standa því bætur vegna þjáninga, auk vaxta og eftirstöðvar útlagðs kostnaðar við læknisvottorð og örorkumat, sem ekki er greiddur úr slysatryggingunni.“
Lögmaður stefnenda tók við bótum með fyrirvara úr hendi réttargæslustefnda í desember 2006. Samkvæmt kvittun með tjónsnúmeri 03-0500260 var annars vegar um að ræða greiðslu þann 15. desember 2006 að fjárhæð 1.985.929 sem er sundurliðuð þannig:
|
Örorkumat/vottorð v/Db. D |
134.450 kr. |
|
Fullnaðaruppgjör v/Db. D |
1.830.779 kr. |
|
Læknisvottorð v/ H samkv. reikn. nr. 2 |
20.700 kr. |
Þá liggur jafnframt fyrir kvittun með sama tjónsnúmeri þar sem staðfest er að réttargæslustefndi hafi greitt lögmanni stefnanda 1.830.000 krónur úr slysatryggingu launþega og um sé að ræða fullnaðaruppgjör. „12.205.195,- x 15% = 1.830.779,-“
Hins vegar var um að ræða greiðslu að fjárhæð 364.203 krónur 22. desember 2006 samkvæmt kvittun með tjónsnúmeri 59-0500704. Þar kemur fram að um sé að ræða fullnaðaruppgjör. Nánar tiltekið segir m.a.: „... ofangreind bótafjárhæð er fullnaðar- og lokagreiðsla vegna slyss [D] kt. […], þann 22.04.2005. Með greiðslunni er lokið öllum kröfum á hendur félaginu vegna slyssins. Lögm. tjónþola gerir fyrirvara við frádrátt launþ.tr. frá varanl. miska og niðurfall bóta v. varanl. örorku v. andláts. Greitt án viðurkenningar á greiðsluskyldu Grindavíkurkaupstaðar.“
Þá hefur einnig verið lagt fram yfirlit, dagsett 19. desember 2006, er ber yfirskriftina „Fullnaðaruppgjör, bótauppgjör vegna [D]“, frá réttargæslustefnda. Þar er m.a. að finna svohljóðandi sundurliðun á skaðabótum:
|
a) Tekjutap vegna tímabundinnar örorku |
0 kr. |
|
Frádráttur skv. 2.mgr. 2. gr. |
0 kr. |
|
b) Þjáningabætur |
204.960 kr. |
|
0 dagar rúmliggjandi 2.080 kr. |
0 kr. |
|
183 dagar óvinnufærni 1.120 kr. |
204.960 kr. |
|
c) Varanlegur miski |
0 kr. |
|
5.666.000 15% |
849.900 kr. |
|
Frádráttur skv. 4. mgr. 4. gr. |
1.830.779 kr. |
|
d) Varanleg örorka |
|
|
3.524.452 kr. 4,572 0,00% |
0 kr. |
|
Frádráttur skv. 4. mgr. 5. gr. |
0 kr. |
|
e) Annað fjártjón skv. 1. gr. |
0 kr. |
|
f) Vextir 16. gr. |
15.228 kr. |
|
g) Dráttarvextir skv. III. kafla laga nr. 38/2001 |
0 kr. |
|
h) Útlagður kostnaður tjónþola |
0 kr. |
|
Útreiknuð bótafjárhæð |
220.488 kr. |
Samkvæmt uppgjörinu var að meðtöldum lögmannskostnaði samtals greitt við „lokauppgjör“ fyrrgreind fjárhæð samkvæmt fyrrgreindri kvittun, tjón nr. 59.0500704, þ.e. 364.203 krónur. Lögmaður stefnenda tók við þessum greiðslum með fyrirvara samkvæmt áritun á uppgjörið.
Málsástæður og lagarök stefnenda
Stefnendur byggja kröfur sínar á því að D heitinn hafi slasast við vinnu sína hjá stefnda sem beri ábyrgð á líkamstjóni hans, hvort sem byggt sé á 88. gr. umferðarlaga, sbr. 90. gr. sömu laga um ábyrgð skráningarskylds eiganda ökutækis eða ákvæðum 92. gr. sömu laga þar sem D hafi orðið fyrir líkamstjóni af akstri (notkun) ökutækisins sem stjórnandi þess. Einnig byggir stefnandi á því að D hafi orðið yfir tjóni vegna bilunar í tæki sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Í stefnu segi að stefnandi kjósi að stefna Grindvíkurbæ beint í stað þess að beina kröfum sínum að Sjóvá-Almennum tryggingum hf. sem sé stefnt til réttargæslu.
Stefnandi byggir á því að andlát D eigi ekki að leiða til þess að framangreindar bætur sæti skerðingu, hvorki lækkun né niðurfellingu. Stefndi og réttargæslustefndi eigi ekki að hagnast á andláti hans. Um sé að ræða bætur sem séu framtíðartekjutap tjónþola og reiknaðar samkvæmt ákveðnum stöðlum óháðum því hvort tjónþoli verði langlífur eða skammlífur í raun. Því til stuðnings vísar stefnandi í dóm Hæstaréttar Danmerkur er birtur er í UfR 2005, 2390 H en upphaflegu skaðabótalögin hafi verið næg bein þýðingu á dönsku lögunum og því hljóti að gilda svipuð sjónarmið.
Stefnandi kveður D hafa orðið fyrir líkamstjóni sem hafi haft í för með sér varanlega skerðingu á getu til að afla vinnutekna og því hafi hann átt rétt á bótum fyrir varanlega örorku auk miskabóta. Í stefnu komi fram að E sé erfingi D. Hún hafi verið eiginkona hans og sitji í óskiptu búi eftir hann ásamt börnum þeirra. Hún hafi því forræði fyrir búinu.
Þá byggir stefnandi einnig á orðalagi 2. mgr. 18. gr. skaðabótalaga þar sem segi að þjáningabætur og bætur fyrir varanlegan miska erfist hafi krafan verið viðurkennd fyrir andlát tjónþola. Svo hafi verið í tilviki D heitins en með ákvæðinu sé átt við allar bætur samkvæmt skaðabótalögum þar sem taka hefði þurft fram með skýrum hætti að ekki væri einnig átt við bætur fyrir varanlega örorku. Þá vísar stefnandi einnig til athugasemda í greinargerð með 2. mgr. 18. gr. skaðabótalaga sem hljóðar svo:
„Ákvæði 2. mgr. er sama efnis og núgildandi regla 3. mgr. 264. gr. hegningarlaga, nr. 19/1940. Ákvæðið tekur aðeins til skilyrða þess að krafa um þjáningabætur eða bætur fyrir varanlegan miska gangi í arf. Ákvæðið varðar því ekki skilyrði þess að bótakrafa fyrir fjártjón vegna líkamsspjalla erfist. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir breytingu á gildandi reglum um það. Samkvæmt dómum, sem gengið hafa, erfist slík krafa a.m.k. ef hún hefur verið gerð fyrir dómi áður en slasaði lést, sbr. t.d. H 1961, 432, og H 1989, 131.“
Stefnandi byggir á því að samkvæmt orðum greinargerðar varði ákvæðið ekki skilyrði þess að bótakrafa fyrir fjártjón vegna líkamsspjalla erfist. Hér verði að horfa til erfðalaga og 1. kafla laga um skipti á dánarbúum og grundvallarreglna um eignarrétt, skaðabótalögin nr. 50/1993 kveði ekki á um þessi atriði.
Með skaðabótalögunum hafi 264. gr. alm. hgl. verið numin úr gildi án þess að kveðið væri afdráttarlaust á um það að allar fjárkröfur vegna líkamstjóns erfðust ekki. Því sé það í hendi dómstóla að dæma um skilyrði þess hvort fjárkrafa D hafi gengið í arf en óumdeilt sé að krafan hafi verið eign D er hann lést. E hafi erft dómkröfuna sem hafi gengið til óskipta búsins sem hún hafi forræði fyrir, þ.e. stefnanda.
Stefnandi kveðst byggja fjárhæð dómkröfu sinnar á fyrrgreindri matsgerð frá 20. nóvember 2006. Við aðalmeðferð lagði stefnandi fram skjal með sundurliðun endanlegra dómkrafna. Samkvæmt því er aðalkrafa stefnanda sundurliðuð með svofelldum hætti:
|
1. Miskabætur: 5.666.000 x 15% |
849.900 kr. |
|
2. Þjáningarbætur: 183 x 1.120: |
204.960 kr. |
|
3. Bætur fyrir varanlega örorku: 3.524.452 x 4,572 x 25% |
4.028.488 kr. |
|
4. Annað fjártjón og sjúkrakostnaður: |
293.743 kr. |
|
Reiknuð aðalkrafa |
5.377.051 kr. |
Í samræmi við stefnu sé gerð krafa um 5.376.834 krónur.
Um útreikning á miskabótum og þjáningabótum vísar stefnandi til fullnaðaruppgjörsins frá 19. desember 2006 sem gerð er grein fyrir hér að framan í lýsingu málavaxta. Þá séu bætur fyrir varanlega örorku reiknaðar eins og gefin sé forsenda til í sama uppgjöri.
Annað fjártjón og sjúkrakostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og framlögðum reikningum. Fjárhæðina sundurliðar stefnandi svo:
|
Matskostnaður, reikningur BDan: |
90.761 kr. |
|
Reikningur G, Sportmed: |
65.000 kr. |
|
Reikningur I f. vottorð: |
25.000 kr. |
|
Reikningur J: |
36.000 kr. |
|
Reikningur K: |
2.750 kr. |
|
Vottorð frá LSH: |
10.700 kr. |
|
Komugjald á LSH þann 15.6.2005: |
6.393 kr. |
|
Komugjald á LSH 19.5.2005: |
6.394 kr. |
|
Komugjald til L Heilsugæslu […], dags. 20.10.2005: |
3.846 kr. |
|
Komugjald 1.12.2005 til L Heilsugæslu […] 1.12.2005: |
2.350 kr. |
|
Reikningur sjúkraþjálfara, dags. 19.12.2005: |
5.364 kr. |
|
Skoðun á Dómus Medica v. I þann 15.11.2005: |
4.017 kr. |
|
Röntgen, ökkli í Orkuhúsinu þann 1.12.2005 v. L: |
5.251 kr. |
|
Röntgen í Orkuhúsinu þann 20.10.2005 ökkli, fótleggur: |
3.403 kr. |
|
Komugjald á Heilsugæslu […] 1.5.2005: |
1.750 kr. |
|
Komugjald á Heilsugæslu […] slysadag þann 22.4.2005: |
3.452 kr. |
|
Beiðni um óvinnufærnivottorð þann 18.11.2005: |
700 kr. |
|
Myndgreiningarþjónusta á LSH 19.5.2005: |
2.152 kr. |
|
Myndgreiningarþjónusta á LSH 19.5.2005: |
2.152 kr. |
|
Myndgreiningarþjónusta á LSH 19.5.2005: |
1.252 kr. |
|
Myndgreiningarþjónusta 6.7.2005 á LSH: |
2.152 kr. |
|
Myndgreiningarþjónusta 15.6.2005, fótleggur, ökkli: |
3.403 kr. |
|
Viðtal og skoðun bæklunarlæknis á LSH þann 26.7.2005: |
2.990 kr. |
|
Röntgengjald á LSH 6.7.2005: |
6.511 kr. |
|
Samtals útlagður kostnaður eða sjúkrakostnaður: |
305.073 kr. |
Varakrafa sundurliðast svo:
|
1. Miskabætur: 5.666.000x15%: |
849.900 kr. |
|
2. Þjáningarbætur 183x1.120: |
204.960 kr. |
|
3. Annað fjártjón og sjúkrakostnaður: |
293.743 kr. |
|
Samtals varakrafa: |
1.348.603 kr. |
Stefnendur kveða varakröfuna grundvallaða með sama hætti og aðalkrafa að frátöldum bótum fyrir varanlega örorku.
Varðandi frádrátt frá aðalkröfu kveða stefnendur að réttargæslustefndi hafi greitt 134.450 krónur upp í sjúkrakostnað 19. desember 2006, sbr. fyrrgreinda kvittun vegna greiðslna úr launþegatryggingunni. Enn fremur 1.830.779 krónur sem greiddar hafi verið í bætur skv. launþegatryggingu á sama tíma. Þá komi einnig til frádráttar 220.488 krónur sem réttargæslustefndi greiddi stefnanda í þjáningarbætur og vexti á sama tíma úr ábyrgðartryggingunni. Samtals séu þannig dregnar frá aðalkröfu 2.185.717 krónur sem greiddar hafi verið 19. desember 2006.
Málsástæður og lagarök stefnda
Sýknukrafa stefnda er á því byggð að með þegar greiddum bótum hafi tjónið verið að fullu bætt lögum samkvæmt. Stefnendur eigi ekki lögvarinn rétt til frekari bóta. Greiddar hafa verið fullar bætur vegna þjáninga og miska auk útlagðs kostnaðar og lögmannsþóknunar. Því sé mótmælt að stefnendur hafi erft bætur vegna varanlegrar örorku eða annars fjártjóns sem gengið hafi til þess óskipta bús sem þeir hafi forræði fyrir. Þegar D heitinn hafi látist þann […] nóvember 2006 hafi engin bótaskylda verið viðurkennd og engar bótagreiðslur verið inntar af hendi.
Stefndi bendir á að samkvæmt 2. mgr. 18. gr. skaðabótalaga erfist krafa um bætur fyrir þjáningar eða varanlegan miska hafi hún verið viðurkennd, einkamál verið höfðað til heimtu hennar eða viðurkenningar eða hún verið gerð fyrir dómi í sakamáli. Ákvæði 2. gr. 18. gr. skaðabótalaga sé skýrt samkvæmt orðanna hljóðan og verði ekki túlkað á annan hátt en að þar séu tæmandi þær bætur vegna líkamstjóna sem erfist. Aðrar bætur en bætur vegna þjáninga eða varanlegs miska erfist ekki séu skilyrði 2. mgr. 18. gr. um viðurkenningu eða höfðun dómsmáls ekki uppfyllt.
Stefndi heldur því fram að krafa um bætur fyrir varanlega örorku og annað fjártjón hafi hvorki verið viðurkennd né hafi dómsmál verið höfðað til heimtu hennar eða viðurkenningar þegar D heitinn hafi látist. Því sé alveg ljóst að stefnendur eigi ekki rétt til frekari bóta en þegar hafi verið greiddar.
Þá segir stefndi að krafa stefnenda verði heldur ekki studd við meginreglur erfðaréttar eða eignarréttar eins og stefnandi byggir á. Jafnframt er því mótmælt að um brot á 72. gr. sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar sé að ræða. Því sé sérstaklega mótmælt að stefndi eða réttargæslustefndi séu að hagnast á andláti D heitins enda hafa fullar bætur verið greiddar lögum samkvæmt.
Stefndi kveðst einnig mótmæla því að bætur fyrir varanlega örorku séu einungis reiknaðar samkvæmt ákveðnum stöðlum óháð því hvort viðkomandi einstaklingur verði langlífur eða skammlífur í raun. Stefndi heldur því fram að hluti af mati á varanlegri örorku felist í því að taka mið af persónulegum aðstæðum einstaklinga, t.d. hvort uppi séu aðstæður ótengdar hinum bótaskylda atburði sem líklega muni leiða til styttri starfsævi. Ein af forsendum í fyrirliggjandi matsgerð á bls. 13 sé að „ekki sé hægt að gera ráð fyrir öðru en að hann hefði áfram unnið í þessu eða svipuðum störfum út starfsævina ef slysið hefði ekki komið til“. Forsendur mats á varanlegri örorku hafi því í raun verið brostnar þegar D lést einungis örfáum dögum eftir að matsgerð lá fyrir og því ekki unnt að byggja kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku á henni.
Stefndi segir að danski dómurinn sem stefnandi vitni til sé hvorki fordæmi né leiðbeinandi fyrir túlkun 18. gr. íslensku skaðabótalaganna, m.a. þar sem tilvikin séu með öllu ósambærileg. Í því tilviki hafi andlátið verið afleiðing hinna bótaskyldu læknamistaka og átt sér stað fimm og hálfu ári eftir að mistökin urðu.
Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. sbr. 4. mgr. 5 gr. skaðabótalaga dragist greiðslur frá samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega frá skaðabótakröfu hans á hendur vinnuveitanda þeim sem slysatrygginguna keypti. Bætur vegna varanlegs miska nemi 849.900 kr. en greiddar bætur úr slysatryggingu launþega, sem stefndi hafði keypt, nemi 1.830.779 kr. Á grundvelli tilvitnaðra ákvæða skaðabótalaga beri að draga þær bætur frá bótum vegna varanlegs miska. Málsástæðum stefnenda, um að annan hátt hafi borið að hafa á frádrættinum er alfarið mótmælt af hálfu stefnda.
Stefndi telji samkvæmt framangreindu fyllilega ljóst að stefnendur hafi fengið fullar bætur greiddar og eigi ekki lögvarinn rétt til frekari bóta. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda er gerð krafa um verulega lækkun á kröfu stefnanda. Verði fallist á að stefnandi eigi rétt til frekari bóta er þess krafist að þegar greiddar bætur að heildarfjárhæð 2.350.132 kr., sem sundurliðaðar séu á fyrrgreindum kvittunum og í uppgjörinu frá 19. desember 2006, komi að fullu til frádráttar.
Kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku er mótmælt sem vanreifaðri þar sem stefnandi gerir ekki grein fyrir sundurliðun hennar og ekki sé unnt að sjá við hvaða vísitölur verðbreytingar eru miðaðar. Stefndi byggir einnig á því að verði fallist á kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku beri að miða við lægri fjárhæð, þ.e. 3.706.170 kr. en sú fjárhæð byggist á meðalárslaunum D heitins síðustu þrjú ár fyrir slys, verðbættum með launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við, auk 6% framlags í lífeyrissjóð, aldursstuðli 4,572 og 25% varanlegri örorku, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.
Kröfu um bætur vegna annars fjártjóns er mótmælt þar sem fjárhæð hennar beri ekki saman við framlögð gögn.
Þá mótmælir stefndi kröfu um vexti eldri en 4 ára á stefnubirtingardegi þann 18. desember 2009 sem fyrndri með vísan til 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.
Um lagarök vísar stefndi einkum til skaðabótalaga nr. 50/1993. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Eins og fram hefur komið byggja stefnendur á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni því er D heitinn varð fyrir 22. apríl 2005 í störfum sínum fyrir stefnda. Rekja megi tjónið til bilunar þess ökutækis sem hann ók umrætt sinn.
Í greinargerð stefnda er ekki vikið að þessari málsástæðu en þar segir: „Sýknukrafa er á því byggð að með þegar greiddum bótum hafi tjónið verið að fullu bætt lögum samkvæmt. Stefnandi eigi ekki lögvarinn rétt til frekari bóta.“ Í þinghaldi 11. nóvember 2011 óskaði lögmaður stefnda eftir bókunum, m.a. um að stefndi féllist ekki á að bótaskylda væri fyrir hendi í málinu með vísan til ofangreinds orðalags í greinargerð. Þessu var mótmælt í næsta þinghaldi af hálfu lögmanns stefnanda sem kvað yfirlýsinguna alfarið brjóta í bága við þær málsástæður sem á væri byggt í greinargerð stefnda og fyrri yfirlýsingu hans sem fram hefði komið við málflutning 25. maí 2010. Við endurflutning var m.a. tekist á um þetta atriði en ekkert var bókað um það í þingbók á sínum tíma.
Stefndi byggir ekki á því í greinargerð að bótagrundvöllur hafi ekki verið til staðar, þ.e. að skilyrði skaðabótaskyldu hafi ekki verið fyrir hendi. Hins vegar er sýknukrafan á því byggð að greiddar hafi verið fullar bætur vegna þjáninga og miska, auk útlagðs kostnaðar og lögmannsþóknunar. Tjónið hafi þannig verið að fullu bætt. Ekki er að sjá í gögnum málsins að nokkuð hafi verið aðhafst til þess að rannsaka tildrög slyssins eða bótagrundvöll nánar en þó var það tilkynnt til Vinnueftirlitsins.
Nýrri málsástæðu, þess efnis að bótaskylda sé ekki fyrir hendi í málinu, verður ekki komið að í málinu með bókun í þingbók gegn andmælum gagnaðila. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki annað ráðið af málatilbúnaði stefnda en að ágreiningslaust sé að skaðabótaskylda stefnda hafi stofnast vegna slyssins og að fullu bætt. Því sé hins vegar hafnað að stefndu beri að greiða stefnendum frekari skaðabætur og er málatilbúnaður stefnda alfarið á því reistur. Eins og áður er rakið gerði lögmaður stefnenda fyrirvara um frádrátt launþegatryggingar frá varanlegum miska og niðurfellingu bóta vegna varanlegrar örorku vegna andláts við greiðslu bóta frá stefnda.
Ágreiningur aðila í aðalsök lýtur að því hvort krafa D til bóta fyrir varanlega örorku eða annað fjártjón vegna slyssins hafi erfst og þá að hvaða marki.
Í 2. mgr. 18. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 segir: „ Krafa um bætur fyrir þjáningar eða varanlegan miska erfist hafi hún verið viðurkennd, einkamál verið höfðað til heimtu hennar eða viðurkenningar eða hún hefur verið gerð fyrir dómi í sakamáli.“
Í athugasemdum með ákvæðinu í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögunum kemur fram að það varði ekki skilyrði þess að bótakrafa fyrir fjártjón vegna líkamsspjalla erfist. Þá er enn fremur áréttað að ekki sé gert ráð fyrir breytingu á gildandi reglum um það og samkvæmt dómum „erfist slík krafa a.m.k. hafi hún verið gerð fyrir dómi áður en slasaði lést, sbr. t.d. H 1961, 432 og H 1989,131“.
Í þeim dómsmálum sem vísað er til hér var atvikum svo háttað að tjónþoli lést eftir að mál hafði verið höfðað og dómur gengið í héraði. Af forsendum dómanna verður ráðið að lagt var til grundvallar að umdeildar kröfur dánarbús um bætur vegna varanlegrar örorku hefðu erfst en á hinn bóginn yrðu ekki dæmdar bætur miðað við lengri tíma en lífstíð tjónþola. Nánar tiltekið segir í forsendum síðari dómsins að örorkubótum sé ætlað að bæta fjárhagstjón vegna skerts aflahæfis tjónþola. Örorkumöt og líkindareikningar um örorkutjón séu hjálpargögn við ákvörðun slíkra skaðabóta. Þá segir í dóminum: „Verður að telja það reglu íslensks skaðabótaréttar að þótt reiknað sé með almennum lífslíkum við slíka útreikninga verði skaðabætur ekki miðaðar við lengri tíma en lífstíð tjónþola. Er þessi niðurstaða í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar.“ Í dóminum frá 1961 var lagður fram útreikningur á örorkubótum tjónþola fram að dánardegi sem framkvæmdur var með sama hætti og í héraðsdómi. Rétt þótti að bæta örorkutjón að hálfu. Í forsendum í máli nr. 309/2002 sem Hæstiréttur kvað upp dóm í 23. janúar 2003 var einnig sú staða uppi að tjónþoli hafði andast eftir uppkvaðningu héraðsdóms. Á það er bent í forsendum dómsins að gagnaðilinn hafi ekki gert athugasemdir við forsendur tjónsútreiknings „þótt tjónþoli hafi andast eftir uppsögu héraðsdóms“.
Greiðslur voru inntar af hendi eftir andlát D heitins, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá réttargæslustefnda, nánar tiltekið 15. desember 2006 úr slysatryggingu launþega, 1.830.779 krónur svo og kostnaður vegna örorkumats og læknisvottorð, alls 1.985.929 krónur. Þá voru greiddar þann 22. desember 2006, úr ábyrgðartryggingu samkvæmt umferðarlögum, 364.203 krónur. Um var að ræða fé sem rann til ekkju D sem þá sat í óskiptu búi. Fram kemur að um fullnaðaruppgjör sé að ræða eins og lýst var í málsatvikalýsingu.
Að mati dómsins fólu greiðslur þessar ekki í sér viðurkenningu á kröfu um bætur fyrir varanlega örorku og eftir atvikum fyrir annað fjártjón. Þvert á móti kemur fram í gögnum að ekki séu greiddar bætur fyrir varanlegan miska og varanlega örorku. Verður því að telja að kröfur um bætur umfram þær sem þegar voru greiddar hafi ekki erfst, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 50/1993. Þykir ekki nægjanlegt í þessu sambandi að D heitinn hafi haldið kröfum sínum til streitu í kjölfar slyssins og óskað matsgerðar þeim til stuðnings. Þá er ljóst að forsendur umrædds mats voru brostnar hvað varðar útreikning á varanlegum miska og varnalegar örorku en D heitinn lést nokkrum dögum eftir að matsgerðinni var skilað. Þá skal það áréttað sem fram kemur í ofangreindum dómi Hæstaréttar frá árinu 1989 að varanlegri örorku sé ætlað að bæta fjárhagstjón vegna skerts aflahæfis. Er því ljóst að slíkar bætur eru annars eðlis og ætlaðar tjónþola til framfærslu.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er það álit dómsins að stefndi hafi að fullu gert upp tjón það er hér um ræðir lögum samkvæmt. Því beri að hafna öllum kröfum stefnenda í málinu um frekari bætur. Ekki þykir ástæða til að fjalla sjálfstætt um varakröfuna enda eiga sömu sjónarmið og rakin hafa verið við um bæði aðal- og varakröfu. Samkvæmt því ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Miðað við þessa niðurstöðu ber stefnendum að greiða stefnda óskipt málskostnað sem hæfilegur þykir 700.000 krónur.
Sigríður Hjaltested, settur héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Grindavíkurkaupstaður, skal vera sýkn af kröfum stefnenda.
Stefnendur, A, B og C skulu greiða stefnda óskipt 700.000 krónur í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti.