Hæstiréttur íslands
Mál nr. 521/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Trygging
- Farbann
- Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi
|
|
Mánudaginn 9. október 2006. |
|
Nr. 521/2006. |
Ríkislögreglustjóri(Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Trygging. Farbann. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni á grundvelli 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr. sömu laga, en í þess stað var honum gert að setja tryggingu samkvæmt 109. gr. laganna fyrir því að hann mætti til skýrslugjafar hjá lögreglu innan þess tíma sem farbanninu var ætlað að gilda .
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. október 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. október 2006, þar sem varnaraðila var bönnuð brottför af landinu allt til miðvikudagsins 11. október 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili sætt farbanni frá 20. ágúst 2006 en Hæstiréttur hefur staðfest úrskurði héraðsdóms þessa efnis með dómum 11. september í málinu nr. 486/2006, 25. september í málinu nr. 507/2006 og 3. október 2006 í málinu nr. 515/2006. Í öllum þessum málum var farbanni markaður tími í samræmi við kröfur sóknaraðila. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 486/2006 sagði að ráða mætti af gögnum málsins að sá tími sem farbanni væri markaður í hinum kærða úrskurði myndi duga til að ljúka rannsókn og taka ákvörðun um saksókn yrði sú raunin en samkvæmt honum var varnaraðila bönnuð brottför af landinu til 21. september 2006. Í greinargerð sóknaraðila í héraði, sem vísað var til í greinargerð hans fyrir Hæstarétti í málinu nr. 507/2006, kom fram að rannsókn málsins væri á lokastigi og að það yrði „afhent saksóknara á allra næstu dögum“ til ákvörðunar um saksókn. Var niðurstaða Hæstaréttar í því máli meðal annars rökstudd með því að rannsóknargögn lægju þá fyrir, sem aflað hefði verið eftir að dómur réttarins í málinu nr. 486/2006 gekk, og yrði að ætla sóknaraðila hæfilegan tíma til að vinna úr þeim, ljúka rannsókn sinni og taka ákvörðun um hvort ákært yrði. Í málinu nr. 515/2006 krafðist sóknaraðili framlengingar á farbanni varnaraðila allt til 4. október 2006. Í greinargerð hans fyrir héraðsdómi kom fram að ákæra yrði gefin út á hendur varnaraðila áður en farbann það, sem krafan laut að, rynni út og að stefnt yrði að þingfestingu málsins innan sömu tímamarka. Í forsendum úrskurðar héraðsdóms var sérstaklega vísað til þessarar yfirlýsingar sóknaraðila og fallist á kröfu hans. Í tilefni af kæru varnaraðila á úrskurðinum til Hæstaréttar vísaði sóknaraðili til greinargerðar sinnar fyrir héraðsdómi og forsendna úrskurðarins. Staðfesti Hæstiréttur úrskurðinn með vísan til forsendna hans.
Samkvæmt þessu hefur í framangreindum dómum Hæstaréttar verið fallist á áframhaldandi farbann með vísan til yfirlýsinga sóknaraðila um að rannsókn málsins væri að ljúka og nú síðast á grundvelli upplýsinga um að ákæra yrði gefin út fyrir 4. október 2006. Þetta hefur ekki gengið eftir. Nú leitar sóknaraðili enn á ný eftir framlengingu farbanns yfir varnaraðila svo unnt verði að ljúka rannsókn málsins. Farbann er til þess fallið að skerða mikilvæg réttindi þess sem því sætir og kallar á að rannsókn máls sé hraðað eftir föngum meðan á því stendur. Af gögnum málsins má ráða að varnaraðili sé ekki lengur grunaður um brot gegn lögum nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Beinist rannsókn nú einungis að meintu broti á höfundalögum nr. 73/1972. Í greinargerð varnaraðila fyrir Hæstarétti kemur fram að hann hafi margítrekað lýst því yfir að hann sé reiðubúinn til að leggja fram tryggingu fyrir nærveru sinni en hann gerði varakröfu þessa efnis fyrir Hæstarétti í málinu nr. 486/2006. Samkvæmt 109. gr. laga nr. 19/1991 getur dómari ákveðið að í staðinn fyrir að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 103. gr. laganna fái hann að halda frelsi sínu gegn því að hann setji tryggingu. Þessi heimild nær einnig til tilvika þar sem til greina kemur að sakborningur sæti farbanni samkvæmt 110. gr. sömu laga. Ætla verður að rannsókn málsins sé nú á lokastigi þótt ákvörðun um ákæru hafi ekki enn verið tekin að því er alla rannsóknarþætti málsins varðar, eins og sóknaraðili hefur þó ítrekað sagt að gerast myndi. Samkvæmt öllu framangreindu verður ekki fallist á að varnaraðili þurfi að sæta áfram farbanni. Eins og mál þetta liggur fyrir verður honum þess í stað gert að setja tryggingu fyrir því að hann mæti til skýrslugjafar hjá lögreglu innan þess tíma sem farbanninu var ætlað að gilda samkvæmt hinum kærða úrskurði. Honum verður þó bönnuð brottför af landinu í samræmi við 110. gr. laga nr. 19/1991 allt þar til slík trygging, sem í dómsorði greinir, hefur verið sett innan framangreindra tímamarka.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Varnaraðili, X, skal setja tryggingu að fjárhæð 4.000.000 krónur fyrir því að hann mæti hjá lögreglu samkvæmt boðun vegna rannsóknar málsins fram til miðvikudagsins 11. október 2006 klukkan 16. Þangað til tryggingin er sett er honum bönnuð brottför af landinu.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. október 2006.
Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess, með vísan til 110 gr. laga nr. 19, 1991, um meðferð opinberra mála, og b-liðar 1. mgr. 103. gr. sömu laga, að X, [kt.], verði bönnuð brottför af landinu allt til miðvikudagsins 11. október nk. kl. 16:00.
Í greinargerð ríkislögreglustjóra kemur fram að efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra hafi nú til rannsóknar meint brot kærða á höfundalögum nr. 73, 1972.
Í þágu rannsóknar málsins hafi kærði sætt farbanni frá 20. ágúst sl., sem hafi svo verið framlengt með úrskurðum héraðsdóms Reykjavíkur 28. ágúst, 7., 21. og 29. september sl., en hinir þrír síðastnefndu voru staðfestir með dómum Hæstaréttar Íslands nr. 486/2006, 507/2006 og 515/2006, til dagsins í dag kl. 16:00.
Um málsatvik vísast til krafna efnahagsbrotadeildar um leit og handtöku þann 10. ágúst sl. og um farbann þann 20. og 28. ágúst og 7. og 21. september, svo og úrskurða héraðsdóms af því tilefni.
Kærða sé gefið að sök að hafa afritað í heimildarleysi, af netþjóni kæranda, Y ehf., á 250 gígabæta færanlega gagnageymslu (harðan disk) u.þ.b. 60.000 skrár, sem hver um sig hefur að geyma umtalsvert safn upplýsinga og eru jafnframt afrakstur verulegrar fjárfestingar félagsins. Af hálfu kæranda sé því haldið fram að umræddar skrár innihaldi verðmætustu rannsóknar- og viðskiptaleyndarmál fyrirtækisins.
Eins og fram kom í farbannskröfu ríkislögreglustjóra, dags. 29. september sl., hafi verið ákveðið að takmarka rannsókn málsins við afritun 28 skráa. Tekist hafi að ljúka rannsókn er lýtur að 9 skrám og liggur fyrir ákvörðun saksóknara um að höfða opinbert mál á hendur kærða vegna þeirra. Ákveðið hafi verið að bíða með útgáfu ákæru uns rannsókn vegna þeirra 19 skrá sem eftir standa lýkur. Megi búast við að rannsókn vegna þeirra ljúki nú í vikulok og verður þá strax í kjölfarið tekin ákvöðrun um saksókn.
Í framangreindum dómum Hæstaréttar sé því slegið föstu að skilyrðum fyrir farbanni, í tilviki kærða, væri fullnægt, sbr. 110. gr., sbr. b. lið 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991. Ekkert hafi komið fram í málinu nú sem hnekkt geti því mati. Sú hætta, að kærði muni reyna að komast úr landi og þannig undan málsókn, sé enn jafn mikil og þegar ofangreindir dómar gengu.
Með vísan til þess sem að framan sé rakið sé þess krafist að dómari leggi fyrir kærða að halda sig á Íslandi allt til miðvikudagsins 11. október nk. kl. 16:00.
Kærði er og hefur verið grunaður um brot gegn höfundarlögum nr. 73/1972. Brot gegn þessum lögum geta varðað fangelsisrefsingu. Hins vegar beinist rannsókn málsins ekki lengur gegn broti á lögum nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Kærði hefur sætt farbanni frá 20. ágúst sl. Með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 515/2006 var staðfestur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur um að kærði skyldi sæta farbanni til dagsins í dag kl. 16:00.
Í kröfu þeirri sem að nú liggur fyrir réttinum kemur fram að lokið sé rannsókn á 9 af þeim 28 skrám sem verið hafa til rannsóknar. Enn fremur kemur fram að ákveðið hafi verið að höfða opinbert mál vegna þeirra. Þá kom fram við meðferð málsins hér fyrir dómi að varnaraðili hafi verið í skýrslutöku í allan dag. Þeirri skýrslutöku muni ljúka ekki seinna en á föstudag, en skýrslutakan beinist að meðferð þeirra 19 skráa sem eftir standi. Í beinu framhaldi verði tekin ákvörðun um hvort einnig verði höfðað opinbert mál vegna þeirra skráa. Samkvæmt þessu liggur fyrir að rannsókn málsins verði lokið í þessari viku og að ákæra verður gefin út á næstu dögum.
Kærði, sem er erlendur ríkisborgari, er undir rökstuddum grun um að hafa framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við. Þykir áfram vera hætta á því að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málssókn. Er skilyrðum 110. gr., sbr. b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 fyrir því að kærði sæti farbanni fullnægt. Er krafa ríkislögreglustjóra því tekin til greina.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærða, X, [kt.], er bönnuð brottför af landinu allt til miðvikudagsins 11. október nk. kl. 16:00.