Hæstiréttur íslands
Mál nr. 310/1998
Lykilorð
- Ólögmæt meðferð fundins fjár
- Skilorðsrof
Fimmtudaginn 14. janúar 1999.
Nr. 310/1998. Ákæruvaldið
(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Róbert Cassis
(Páll Arnór Pálsson hrl.)
Ólögmæt meðferð fundins fjár. Skilorðsrof.
R var ákærður fyrir ólögmæta meðferð fundins fjár með því að hafa kastað eign sinni á íþróttatösku sem hann fann. Talið sannað gegn andmælum ákærða að hann hafi gerst brotlegur við 246. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. júlí 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst sýknu en til vara að refsing verði milduð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Róbert Cassis, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 35.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 1998.
Ár 1998, þriðjudaginn 30. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem haldið er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ingibjörgu Benediktsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 559/1998: Ákæruvaldið gegn Róberti Cassis, sem tekið var til dóms 23. þ.m.
Málið er höfðað með ákæruskjali lögreglustjórans í Reykjavík dagsettu 2. júní sl. gegn ákærða Róberti Cassis, kt. 250164-4759, Krummahólum 6, Reykjavík, „fyrir ólögmæta meðferð fundins fjár með því að hafa að kvöldi mánudagsins 9. febrúar 1998, kastað eign sinni á íþróttatösku sem ákærði fann þetta kvöld á leið sinni frá veitingahúsinu Keisaranum, Laugavegi 116, að gistiskýli Samhjálpar, Þingholtsstræti 25 í Reykjavík, þar sem hann lét starfsmann gistiskýlisins geyma fyrir sig töskuna, og daginn eftir tekið sokka úr töskunni og látið hana aftur í geymslu. Í töskunni auk sokkanna voru snyrtivörur, geisladiskur, silfurhálsmen, 3 silfurhringir, íþróttaföt, GSM-sími af gerðinni Ericson og kr. 70.350 í reiðufé.
Telst þessi háttsemi varða við 246. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Málavextir eru þeir að síðdegis 10. febrúar sl. var lögregla kvödd að gistiskýli Samhjálpar að Þingholtsstræti 25 hér í borg vegna hugsanlegs þýfis er þar væri. Lögreglumenn sem fóru á vettvang hittu þar tilkynnanda, Gunnar Sigurjónsson, sem lét þá hafa tösku sem í voru munir þeir sem tilgreindir eru í ákæru. Einnig fannst í töskunni greiðslukvittun stíluð á Orville Pennant. Í frumskýrslu lögreglu segir að Gunnar hafi sagt að ákærði hafi beðið hann um að geyma töskuna. Þar sem hann hafi ekki fyrr séð ákærða með töskuna hafi honum fundist þetta grunsamlegt og því kallað á lögreglu. Þremur dögum síðar lagði eigandi töskunnar, Orville Joseph Pennant, fram kæru vegna þjófnaðar á töskunni úr bifreiðinni TN-389, þar sem hún stóð á bifreiðastæði við Veghúsastíg sunnan gatnamóta Laugavegar þann 9. sama mánaðar. Er lögregla skilaði töskunni með þeim munum sem fundust í gistiskýlinu kvað hann enn vanta 4.900 krónur auk fimm geisladiska.
Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu, sem ákærði hefur staðfest fyrir dómi að sé rétt, var ákærði yfirheyrður í Hlíðardalsskóla í Ölfusi 26. febrúar sl. Þar er haft eftir ákærða að hann hafi verið í mikilli óreglu undanfarið og mundi lítið eftir atvikum vegna „black out“ ástands. Hann mundi þó eftir því að hafa verið á Keisaranum við Laugaveg og ætlað í gistiskýli Samhjálpar. Hann kvaðst ekki muna hvort hann fann töskuna á gangstétt eða hvort hún var í bifreið, en hann hafi kannað innihaldið er hann kom í gistiskýlið. Hann hafi einungis séð skítug íþróttaföt. Morguninn eftir hafi hann kíkt í töskuna og tekið úr henni sokka og beðið starfsmann að geyma töskuna. Hann neitaði því að hafa tekið peninga úr töskunni.
Ákærði neitaði sakargiftum við meðferð málsins og kvaðst hafa tekið við töskunni á Keisaranum af einhverjum manni sem hann kunni engin deili á. Hann sagði í fyrstu að hann hafi farið til Gunnars Sigurjónssonar í gistiskýli Samhjálpar og beðið hann um að geyma fyrir sig töskuna; síðar kvaðst hann ekki muna hvort hann bað starfsmann að geyma fyrir sig töskuna eða ekki, viðurkenndi að hann hafi tekið sokkana en skilið töskuna eftir í gistiskýlinu. Ákærði sagði um breyttan framburð sinn að við skýrslutöku lögreglu hafi hann verið í áfengismeðferð. Kæran hafi komið flatt upp á sig og hann skýrt frá því sem hann taldi sig muna. Síðan hafi hann rifjað málið upp og þá munað að einhver afhenti honum töskuna.
Vitnið Gunnar Sigurjónsson kvað ákærða hafa komið um níuleytið að kvöldi mánudagsins í gistiskýlið, en vitnið kvaðst ekki hafa séð töskuna fyrr en hann kom á vakt daginn eftir við rúm hans og þá kallað á lögreglu. Hann hafi séð einhver föt í töskunni og síðar GSM síma. Ákærði hafi ekki verið viðstaddur er lögregla kom og tók töskuna.
Niðurstaða.
Ákærði sagði við rannsókn málsins að hann hafi fundið töskuna á leið sinni frá Keisaranum að gistiskýlinu við Þingholtsstræti. Bifreið sú sem taskan hvarf úr var staðsett á leiðinni milli Keisarans og gistiskýlisins að Þingholtsstræti. Hins vegar sagði hann fyrir dómi að hann hefði fengið töskuna hjá einhverjum til geymslu á Keisaranum en í töskunni voru talsverðir fjármunir og kvittun sem gaf vísbendingu um hver var eigandi hennar. Ákærði gerði engan reka að því að skila töskunni og enginn hafði vitjað hennar er starfsmaður gistiheimilisins kallaði á lögreglu daginn eftir þrátt fyrir mikla fjármuni sem í henni voru. Þegar framangreint er virt þykir framburður ákærða fyrir dómi ótrúverðugur og þykir ekki varhugavert að telja sannað að hann hafi gerst sekur um það brot sem hann er ákærður fyrir og varðar við tilgreind ákvæði í ákæru.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann 16 sinnum gengist undir sátt frá árinu 1980, þar af 11 sinnum vegna ávana- og fíkniefnabrota, tvisvar vegna ölvunar við akstur og þrisvar vegna hegningarlagabrota, síðast í október sl., 20.000 króna sekt vegna eignaspjalla. Hann hefur að auki hlotið frá árinu 1981, 6 refsidóma, einn vegna ávana- og fíkniefnabrota, þrjá vegna auðgunarbrota og tvo síðustu dómana, árið 1989, 18 mánaða fangelsi fyrir meiri háttar líkamsárás og 11. desember sl., 20 daga varðhald, skilorðsbundið í 3 ár, vegna líkamsárásar sbr. 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur með broti sínum rofið skilorð dómsins frá 11. desember sl. Ber því nú samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 22/1955, að dæma hann í einu lagi fyrir brot það sem fjallað var um í dóminum 11. desember sl. og það brot sem hér er til meðferðar. Þykir refsing hans með hliðsjón af sakaferli og 77. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði.
Þá er ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin saksóknaralaun í ríkissjóð 30.000 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmar Ingimundarson hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur.
Dómsorð:
Ákærði, Róbert Cassis, sæti fangelsi í 2 mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknaralaun í ríkissjóð 30.000 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmar Ingimundarson hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur.