- Umboðssvik
- Markaðsmisnotkun
- Hlutdeild
- Fjármálafyrirtæki
- Verðbréfaviðskipti
|
Fimmtudaginn 12. febrúar 2015. |
Nr. 145/2014.
|
Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari) gegn Hreiðari Má Sigurðssyni (Hörður Felix Harðarson hrl.) Sigurði Einarssyni (Ólafur Eiríksson hrl.) Ólafi Ólafssyni og (Hákon Árnason hrl. Þórólfur Jónsson hdl.) Magnúsi Guðmundssyni (Kristín Edwald hrl.) |
Umboðssvik. Markaðsmisnotkun. Hlutdeild. Fjármálafyrirtæki. Verðbréfaviðskipti.
Viðskiptabankinn K hf. lét frá sér fara fréttatilkynningu 22. september 2008 um að Q, félag í óbeinni eigu MAT sem var auðugur kaupsýslumaður í Miðausturlöndum, hefði keypt 5,01% hlutafjár í K hf. fyrir 25.599.000.000 krónur. Eftir að Fjármálaeftirlitið hafði sett skilanefnd yfir K hf. beindi það til lögreglu í mars 2009 gögnum um athugun sem það hafði fengið gerða á þessum viðskiptum. Við rannsókn málsins kom fram að K hf. hafði veitt lán fyrir öllu kaupverði hlutabréfanna sem bankinn hafði sjálfur átt fram að sölu þeirra. Það hefði verið gert þannig að tvö félög á Bresku Jómfrúareyjunum, ST og GA, það fyrrnefnda í eigu MAT og það síðarnefnda í eigu Ó, sem fór fyrir öðru félagi sem var næststærsti hluthafinn í K hf., hefðu hvort fyrir sig fengið lán hjá K hf. sem nam helmingi kaupverðsins, það lánsfé hefði svo runnið til kýpversks félags sem fyrrnefndu félögin tvö áttu, en það félag hefði loks veitt Q lán fyrir kaupverðinu. Samhliða þessu hefði K hf. veitt BT, öðru félagi í óbeinni eigu MAT, lán að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir sem var greitt út með innborgun á reikning félagsins hjá KL, dótturfélagi K hf. í Luxembourg. Þá kom fram við rannsókn málsins að lánveitingin til ST hefði verið samþykkt af lánanefnd stjórnar K hf., en hvorki lánveiting til GA né BT, svo sem nauðsynlegt hefði verið. Í málinu var H, sem var forstjóri K hf. á þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað, ákærður fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í tengslum við lánin til GA og BT, sem honum var gefið að sök að hafa tekið ákvörðun um að veita og gefið fyrirmæli um að greiða út, og markaðsmisnotkun samkvæmt 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti fyrir að hafa stofnað með blekkingum til sýndarviðskipta með fyrrgreindum hlutabréfakaupum sem hefðu gefið misvísandi mynd af spurn eftir hlutabréfunum, staðið að villandi fréttatilkynningu um kaupin og látið frá sér ummæli í fjölmiðlum um kaupin sem hefðu gefið misvísandi mynd af þessum viðskiptum. Þá var S, sem hafði verið starfandi stjórnarformaður K hf., gefið að sök að hafa staðið að öðru umboðssvikabrotinu með H og að hafa gerst á sama hátt og hann sekur um markaðsmisnotkun. Ó var ákærður aðallega fyrir hlutdeild í umboðssvikum, en til vara hylmingu og peningaþvætti, í tengslum við fyrrgreint lán til GA, hlutdeild í markaðsmisnotkun sem varðaði ætluð sýndarviðskipti með hlutabréfin og markaðsmisnotkun vegna fréttatilkynningar um kaupin og ummæli sem voru höfð eftir honum í fjölmiðlum. Loks var MG, sem hafði verið forstjóri KL, ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum í tengslum við lánveitinguna til BT, hlutdeild í markaðsmisnotkun sem sneri að ætluðum sýndarviðskiptum með hlutabréf og markaðsmisnotkun með þætti sínum að fréttatilkynningunni. Í dómi Hæstaréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sakfella H og MG fyrir öll áðurgreind brot. S var jafnframt sakfelldur fyrir brotin sem honum voru gefin að sök að öðru leyti en því að hann var talinn hlutdeildarmaður í umboðssvikabroti H í tengslum við lánveitinguna til GA. Loks var Ó sýknaður af sakargiftum sem tengdust lánveitingunni til GA, en sakfelldur að öðru leyti samkvæmt ákæru. Allir ákærðu voru dæmdir til fangelsisrefsingar, H í 5 ár og 6 mánuði, S í 4 ár og Ó og MG í 4 ár og 6 mánuði hvor.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson og Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. febrúar og 12. mars 2014 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd.
Ákærðu krefjast þess hver fyrir sitt leyti aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en að því frágengnu verði þeir sýknaðir. Þá krefjast ákærðu Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson þess að refsing þeirra verði að öðrum kosti milduð.
Héraðsdóm í máli þessu kváðu upp Símon Sigvaldason héraðsdómari sem dómsformaður og meðdómsmennirnir Ingimundur Einarsson dómstjóri og Magnús Benediktsson endurskoðandi.
I
1
Búnaðarbanki Íslands var stofnaður með sérstökum lögum um hann, sem voru nr. 115/1941, og var hann í eigu íslenska ríkisins. Með lögum nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands varð sú breyting að Búnaðarbanki Íslands hf. tók til starfa 1. janúar 1998, en um sinn var hann þó áfram eign ríkisins. Þeim lögum var svo breytt með 1. gr. laga nr. 70/2001 á þann hátt að ríkinu var heimilað að selja þann hlut, sem það átti þá enn í Búnaðarbanka Íslands hf., og var þeirrar heimildar endanlega neytt 16. janúar 2003. Síðar á því ári var félagið sameinað Kaupþingi hf. og fékk sameinaða félagið seinna heitið Kaupþing banki hf. Frá árinu 1998 mun Kaupþing hf. hafa átt dótturfélagið Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem hafði á hendi starfsemi í því landi og varð dótturfélag Kaupþings banka hf. eftir fyrrgreinda sameiningu. Þá mun Kaupþing banki hf. jafnframt hafa á árinu 2005 keypt enskan banka og sett á grunni hans á fót dótturfélag þar í landi með heitinu Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. Á þessum árum jókst starfsemi Kaupþings banka hf. mjög hér á landi og erlendis og mun hafa verið svo komið á árinu 2008 að félagið átti ýmist dótturfélög eða rak orðið útibú í 15 löndum. Á þeim tíma var ákærði Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri Kaupþings banka hf. og ákærði Sigurður Einarsson formaður stjórnar félagsins, sem átta aðrir menn sátu í. Fyrir liggur að ákærði Sigurður var í fullu starfi hjá félaginu sem formaður stjórnar þess. Samkvæmt málatilbúnaði ákærða Ólafs Ólafssonar átti hann á þessum tíma „stærsta hlutinn í Kjalari hf.“, sem hafi verið „óbeinn eigandi“ hollensks félags með heitinu Egla Invest B.V., en það félag hafi verið næst stærsti hluthafinn í Kaupþingi banka hf. með 9,88% eignarhlut. Sá ákærði kveðst hvorki hafa starfað hjá síðastnefndu félagi né setið í stjórn þess. Þá mun ákærði Magnús Guðmundsson hafa stýrt dótturfélaginu Kaupthing Bank Luxembourg S.A. allt frá stofnun og ákærðu Hreiðar og Sigurður átt sæti í stjórn þess ásamt ákærða Magnúsi og einum manni öðrum.
Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi banka hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd, en slit á félaginu, sem nú ber heitið Kaupþing hf., hófust 22. apríl 2009 og standa þau enn yfir. Í framhaldi af þessari aðgerð Fjármálaeftirlitsins mun Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar og Banque Havilland S.A. á síðari stigum tekið yfir starfsemi félagsins.
2
Samkvæmt skýrslu ákærða Hreiðars fyrir héraðsdómi höfðu stjórnendur Kaupþings banka hf. allt frá árinu 2003 leitað eftir því að fá erlenda hluthafa að bankanum og þeim orðið nokkuð ágengt í því, en 2007 hafi sú viðleitni þeirra farið að beinast að fjárfestum í Miðausturlöndum. Ákærði Ólafur lýsti því í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hafi á árinu 2005 kynnst MAT og SAT, sem báðir séu frá Qatar, fyrir atbeina ensks lögmanns þeirra að nafni SS. MAT hafi verið bróðir emírsins af Qatar og um tíma aðstoðarforsætisráðherra þess ríkis, en stundað viðskipti frá árinu 2003 eða 2004. SAT hafi verið frændi MAT, unnið fyrir hann og rekið margvísleg viðskipti. Sagðist ákærði Ólafur hafa á árinu 2007 komið á fundi milli ákærða Sigurðar og SAT til að skipuleggja ferð á vegum Kaupþings banka hf. til Qatar og fleiri landa í Miðausturlöndum og bar ákærði Sigurður um það fyrir dómi að hann hafi 2007 og 2008 farið fjölmargar ferðir til Qatar, en hann kvað MAT hafa verið „einn af efnameiri fjárfestum heimsins“. Þá lýsti ákærði Hreiðar því fyrir héraðsdómi að haustið 2007 hafi hann ásamt ákærða Sigurði átt fund í Bandaríkjunum með fjármálaráðherra Qatar, sem hafi lýst áhuga á að Qatar National Bank eignaðist „verulegan hlut“ í Kaupþingi banka hf., en viðræður um það hafi ekki borið árangur og þeim lokið í ársbyrjun 2008. Hafi þá farið í hönd viðræður um sama efni við Qatar Investment Authority, sem hann sagði að væri „í raun olíusjóður Qatar“, og hafi hann í því sambandi átt fund sumarið 2008 ásamt ákærðu Sigurði og Ólafi með forsætisráðherra Qatar, sem ákærði Ólafur hafi haft milligöngu um. Þar hafi verið ákveðið að stefna að því að sjóður þessi keypti 20% hlut í Kaupþingi banka hf. að undangenginni áreiðanleikakönnun. Ákærði Ólafur lýsti þessu svo fyrir dómi að fjórir fundir hafi verið haldnir um þetta á tímabilinu frá mars til júlí 2008 og hafi hann meðal annars átt tvo einkafundi með forsætisráðherranum.
Meðal gagna málsins er tölvubréf 16. apríl 2008 frá ákærða Ólafi til starfsmanns Qatar Investment Authority, þar sem sá fyrrnefndi svaraði spurningum þess síðarnefnda varðandi Kaupþing banka hf. í fimm liðum. Af bréfinu verður ráðið að rætt hafi verið um að hlutafé í félaginu yrði aukið og laut ein spurningin að því hvert yrði verð slíkra hluta, sem ákærði kvað mundu verða markaðsverð með nokkrum afslætti. Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að áreiðanleikakönnun hafi farið fram vorið og sumarið 2008 í tengslum við viðræðurnar, sem áður var getið, og hún leitt til þess að Qatar Investment Authority hafi lagt til að kaupverð úr sinni hendi fyrir hluti í Kaupþingi banka hf. yrði 399 krónur á hvern. Virðist þetta tilboð hafa verið reist á útreikningi, þar sem lagt hafi verið til grundvallar bókfært verðmæti félagsins að frádregnu andvirði viðskiptavildar og annarra óefnislegra eigna, áætluðu tapi á árinu og leiðréttingu vegna fjárfestingar í félaginu Storebrand. Ákærði Hreiðar sagðist fyrir héraðsdómi hafa átt í framhaldi af þessu fundi í Qatar með ráðgjöfum sjóðsins og niðurstaðan orðið sú að stjórnendur Kaupþings banka hf. hafi ekki getað sætt sig við þann afslátt frá markaðsverði hluta í félaginu, sem fólst í tillögunni. Hafi því ekki orðið af þessum viðskiptum. Ákærði Ólafur lýsti vonbrigðum með þessa niðurstöðu í bréfi 14. júlí 2008 til forsætisráðherra Qatar ásamt ósk um að frekari viðræður gætu farið fram um þetta síðar, en afriti af því bréfi var beint til ákærðu Hreiðars og Sigurðar.
3
Í skýrslu fyrir héraðsdómi lýsti ákærði Hreiðar því að MAT hafi gegnum tengsl sín við ákærða Ólaf fylgst með fyrrgreindum viðræðum Kaupþings banka hf. og Qatar Investment Authority. Þessir ákærðu greindu jafnframt báðir frá því fyrir dómi að ákærði Ólafur hafi átt í viðræðum við MAT og SAT um að stofna fjárfestingarsjóð, sem meðal annars myndi kaupa stóran hlut í Alfesca hf. Kaupþing banki hf. myndi lána sjóðnum allt að 350.000.000 evrur og MAT gangast fyrst í stað í sjálfskuldarábyrgð fyrir 150.000.000 evrum af þeirri fjárhæð og B 50.000.000 evrum, en veð myndu síðar koma í stað þessara ábyrgða. Ákærði Ólafur kvað þessar viðræður hafa byrjað í júní 2008 og hafi verið ákveðið í mánuðinum á eftir að hann og MAT myndu hvor um sig eiga 42,85% í þessum sjóði, en SAT 14,3%. Hafi verið farið ítarlega yfir þessi áform á fundi ákærðu Ólafs og Hreiðars með SAT í byrjun júlí. Sagðist ákærði Ólafur í framhaldi af þessu hafa leitað eftir aðstoð KH hæstaréttarlögmanns vegna þessara fyrirætlana og hafi hann haft milligöngu um að TH héraðsdómslögmaður tæki verkefnið að sér. Hafi ákærði síðan átt fund með henni „um uppsetningu á sjóðnum“ og hún síðan fundað með lögfræðingi, sem starfaði hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A., EH.
4
Ákærði Ólafur skýrði einnig frá því fyrir héraðsdómi að SAT hafi komið til Íslands með ákærða Sigurði um mánaðamót júlí og ágúst 2008 og hafi SAT í þeirri ferð sótt kynningarfund um Kaupþing banka hf. með ákærða Hreiðari. Ákærðu Ólafur og Sigurður hafi síðan verið við skotveiðar í Englandi 26. og 27. ágúst 2008 meðal annars með MAT og SAT, þar sem sá síðastnefndi hafi lýst hrifningu af bankanum og þeir frændur báðir lýst trausti á ákærða Sigurði og öðrum stjórnendum bankans. Í lok mánaðarins hafi ákærði Hreiðar borið upp við ákærða Ólaf hvort MAT kynni að hafa áhuga á að kaupa hlut í bankanum. Fyrir dómi lýsti ákærði Hreiðar því einnig að hann hafi hreyft þessari hugmynd við ákærða Ólaf. Sá síðastnefndi kvaðst af þessu tilefni hafa borið þetta erindi upp við SAT og kynnt honum síðan að ákærði Hreiðar legði til að kaupverð hluta í Kaupþingi banka hf. tæki mið af markaðsverði þeirra og myndi bankinn lána fé til kaupanna „gegn 50% eigin áhættu“ MAT. Í byrjun september 2008 hafi SAT staðfest að frændi sinn hefði áhuga á þessum kaupum. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi lýsti ákærði Hreiðar því að samkomulag hafi tekist á þessum grunni í september 2008 milli Kaupþings banka hf. og MAT um þrenns konar viðskipti. Í fyrsta lagi myndi MAT kaupa 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf., sem myndi veita lán fyrir kaupverðinu öllu gegn tryggingu kaupandans fyrir helmingi þess, en hún yrði í byrjun sjálfskuldarábyrgð, sem yrði fljótlega skipt út fyrir veð í erlendum fasteignum. Í annan stað myndi bankinn veita MAT lán til að kaupa skuldabréf útgefin af Deutsche Bank AG, þar sem vextir og áhætta yrði tengd svonefndu skuldatryggingarálagi Kaupþings banka hf. og greiðsluhæfi hans, en bréf þessi væru nefnd „Credit Linked Notes“ eða CLN. Í þriðja lagi myndi Kaupþing banki hf. lána félagi í eigu MAT 50.000.000 bandaríkjadali, sem nota ætti til fjárfestinga, og yrði sú skuld tryggð með veði í fyrrnefndum skuldabréfum.
Ákærðu Hreiðar og Ólafur báru báðir um það fyrir héraðsdómi að þessi viðskipti Kaupþings banka hf. og MAT hafi ekki tengst áðurnefndum ráðagerðum um stofnun fjárfestingarsjóðs ákærða Ólafs, MAT og SAT. Ákærði Hreiðar hafi á hinn bóginn lagt til að ábyrgðin að fjárhæð 150.000.000 evrur, sem MAT hafi þegar samþykkt að veita vegna fjárfestingarsjóðsins, yrði fyrst í stað notuð sem trygging fyrir þeim helmingi af kaupverði hlutanna í Kaupþingi banka hf., sem honum hafi verið ætlað að bera sjálfskuldarábyrgð á, eða 90.000.000 evrum. Ákærði Ólafur sagði ákærða Hreiðar hafa lagt til að fyrirhugaður fjárfestingarsjóður yrði notaður í þessum viðskiptum til að ná því fram að MAT teldist ekki bera ábyrgð á kaupverði hlutanna umfram þessar 90.000.000 evrur. Kvaðst ákærði Ólafur þá einnig hafa samþykkt tillögu ákærða Hreiðars um að félag í eigu ákærða Ólafs myndi „fjármagna helming kaupanna til skamms tíma“, en með því hafi tekist að tryggja að MAT bæri aðeins ábyrgð á helmingnum af kaupverði hlutanna. Innan 90 daga hafi svo átt að koma lánsviðskiptum MAT við bankann af þessu tilefni í endanlegan búning, meðal annars með veði fyrir skuld hans, en þáttur ákærða í þeim hafi þannig aðeins átt að standa til skamms tíma. Þessir ákærðu sögðu báðir fyrir dómi að ákærða Ólafi hafi í raun ekki verið ætlað að eiga hlut að hlutabréfakaupunum, bera af þeim áhættu eða njóta hagnaðar.
5
Samkvæmt gögnum málsins var 5. nóvember 2007 stofnað félag á Kýpur með heitinu Choice Stay Ltd., en eini hluthafinn í félaginu var sagður vera D.G.G. Nominees Ltd. Fyrir liggur vottorð um að Choice Stay Ltd. hafi verið skráð í fyrirtækjaskrá á Kýpur 3. desember 2007, en 19. sama mánaðar veitti félagið KVE, lögmanni í Luxembourg, umboð til hvers kyns ráðstafana í nafni þess. Í málinu liggja ekki fyrir gögn um breytingu á hlutaskrá þessa félags eða stjórn þess, en á eyðublaði frá Kaupþingi banka hf., sem var fyllt út í Luxembourg 19. september 2008 og undirritað af hálfu bankans af starfsmanni Kaupthing Bank Luxembourg S.A. til að veita upplýsingar fyrir könnun á áreiðanleika viðskiptamanns samkvæmt ákvæðum laga nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, kom meðal annars fram að svonefndir raunverulegir eigendur Choice Stay Ltd. í merkingu 4. töluliðar 3. gr. laganna væru ákærði Ólafur og MAT, svo og að félagið lyti stjórn Jaeger Investment Corp., sem KVE kæmi fram fyrir. Sama dag undirritaði síðastnefndur maður umsókn í nafni Choice Stay Ltd. um opnun bankareiknings hjá Kaupþingi banka hf. og var félagið þá jafnframt skráð í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og fékk íslenska kennitölu. Í málinu liggja einnig fyrir þrjár yfirlýsingar, sem allar voru dagsettar 20. september 2008. Var ein undirrituð af ákærða Ólafi fyrir Gerland Assets Ltd., önnur af MAT fyrir Serval Trading Group Corp. og sú þriðja af SAT fyrir Jackal Finance Inc., en í þeim lýstu þessi þrjú félög því að þau væru raunverulegir eigendur Choice Stay Ltd.
Stofnskrá og samþykktir fyrir félagið Gerland Assets Ltd. voru undirritaðar í Tortola á Bresku Jómfrúareyjunum 18. júlí 2008 og var félagið skráð þar í fyrirtækjaskrá sama dag. Til að stjórna félaginu voru tilnefnd félögin Allied Directors Corp., Global Managers Inc. og International Officers Ltd., sem öll voru skráð á Bresku Jómfrúareyjunum, en í stjórnum þeirra allra sátu frá 1. apríl 2008 sömu þrír starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem virðist jafnframt hafa í öndverðu verið eini hluthafinn í Gerland Assets Ltd. Starfsmaður Kaupthing Bank Luxembourg S.A. fyllti út eyðublað 19. september 2008 fyrir áreiðanleikakönnun á Gerland Assets Ltd. vegna þarlendra reglna um varnir gegn peningaþvætti og kom þar fram að raunverulegur eigandi félagsins væri ákærði Ólafur, en eyðublað þetta var áritað af bankanum um samþykki 23. og 24. sama mánaðar. Þá liggja fyrir í málinu samningur ákærða Ólafs við Kaupthing Bank Luxembourg S.A. um kaup á öllum hlutum í Gerland Assets Ltd., þar sem mælt var fyrir um að sömu félög og fyrr færu með stjórn þess, samningur þeirra sömu um að bankinn myndi veita þjónustu varðandi rekstur Gerland Assets Ltd. og yfirlýsing ákærða Ólafs um að hann væri raunverulegur eigandi félagsins, en öll þessi skjöl voru dagsett 20. september 2008. Gögn málsins bera með sér að félag þetta hafi fengið íslenska kennitölu, en ekki verður séð hvenær það hafi verið skráð í fyrirtækjaskrá hér á landi.
Stofnskrá og samþykktir fyrir Mink Trading Corp. voru undirritaðar í Tortola 18. júlí 2008 og var félagið skráð sama dag í fyrirtækjaskrá Bresku Jómfrúareyjanna. Fyrrnefnd félög Allied Directors Corp., Global Managers Inc. og International Officers Ltd. voru sama dag útnefnd til að fara með stjórn Mink Trading Corp. Af gögnum málsins verður ekki ráðið hver eða hverjir hafi í öndverðu átt hluti í félaginu, en á hinn bóginn liggja fyrir óundirritaðir samningar, dagsettir 8. september 2008, annars vegar um kaup MAT á öllum hlutum í því af Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og hins vegar um að bankinn veitti þjónustu um rekstur þess. Samkvæmt fyrrnefnda samningnum átti stjórn félagsins að verða óbreytt. Jafnframt liggur fyrir óundirrituð yfirlýsing, sem ætluð var MAT og dagsett 8. september 2008, um að hann væri raunverulegur eigandi þessa félags.
Félagið Brooks Trading Ltd. var skráð í fyrirtækjaskrá Bresku Jómfrúareyjanna 18. júlí 2008 og var stofnskrá félagsins og samþykktir dagsettar í Tortola sama dag. Þann dag var áðurnefnt félag Jaeger Investment Corp. jafnframt tilnefnt til að stjórna Brooks Trading Ltd. Ekki liggur fyrir hverjir hafi upphaflega átt hluti í félaginu, en MAT undirritaði 8. september 2008 yfirlýsingu um að Mink Trading Corp. væri raunverulegur eigandi þess og var hlutaskrá Brooks Trading Ltd. færð í samræmi við það frá sama degi. Starfsmaður Kaupthing Bank Luxembourg S.A., BK, fyllti út eyðublað 12. september 2008 fyrir áreiðanleikakönnun á Brooks Trading Ltd. vegna reglna um aðgerðir gegn peningaþvætti og kom þar fram að raunverulegur eigandi félagsins væri MAT, en eyðublað þetta var áritað af bankanum um samþykki 22. sama mánaðar. Í málinu liggur fyrir yfirlýsing Brooks Trading Ltd. 16. september 2008, sem beint var til Deutsche Bank AG, um að félagið hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að eiga viðskipti við þann banka um „Credit Linked Notes“ að fjárhæð 125.000.000 evrur. Á eyðublaði frá Kaupþingi banka hf., sem var fyllt út í Luxembourg 19. september 2008 til að veita upplýsingar fyrir könnun á áreiðanleika viðskiptamanns samkvæmt ákvæðum laga nr. 64/2006, kom meðal annars fram að raunverulegur eigandi félagsins væri MAT, svo og að það lyti stjórn Jaeger Investment Corp., sem KVE kæmi fram fyrir, en sá maður hafði degi áður sótt um að opna reikning fyrir Brooks Trading Ltd. hjá bankanum. Félagið var skráð í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra 19. september 2008 og fékk þá íslenska kennitölu.
Stofnskrá og samþykktir fyrir Serval Trading Group Corp. voru undirritaðar í Tortola 18. júlí 2008 og var það skráð í fyrirtækjaskrá Bresku Jómfrúareyjanna sama dag. Þann dag voru International Officers Ltd., Global Managers Ltd. og Allied Directors Corp. tilnefnd til að stjórna félaginu. Af gögnum málsins verður ráðið að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi upphaflega verið eini hluthafinn í félaginu, en fyrir liggja samningar milli bankans og MAT, sem sá síðarnefndi undirritaði 20. september 2008, um kaup hans á öllum hlutum í félaginu og um að bankinn hefði umsjón með rekstri félagsins. MAT undirritaði sama dag yfirlýsingu um að hann væri raunverulegur eigandi félagsins, en það sama hafði einnig komið fram í eyðublaði frá Kaupþingi banka hf., sem var fyllt út af hálfu félagsins degi fyrr til að veita upplýsingar fyrir könnun á áreiðanleika viðskiptamanns samkvæmt ákvæðum laga nr. 64/2006. Gögn málsins bera með sér að félagið hafi fengið íslenska kennitölu, en ekki liggur fyrir hvenær það hafi verið skráð í fyrirtækjaskrá hér á landi.
Í málinu liggja ekki fyrir gögn um stofnun eða skráningu áðurnefnds félags Jackal Finance Inc., en samkvæmt yfirlýsingu SAT 20. september 2008 var hann raunverulegur eigandi þess.
Af gögnum málsins verður ráðið að í apríl 2008 hafi Logos lögmannsþjónusta stofnað félag með heitinu ELL 162 ehf., sem hafði sama skráða aðsetur og sú lögmannsstofa, en hlutafé þess var 500.000 krónur. Nafni þessa félags virðist síðan hafa verið breytt í Q Iceland Holding ehf., en tilkynning um það til fyrirtækjaskrár liggur ekki fyrir í málinu. Á hinn bóginn hefur verið lögð fram tilkynning 23. september 2008 í nafni BÓ héraðsdómslögmanns, starfsmanns nefndrar lögmannstofu, þar sem greint var frá því að tveir hluthafafundir hafi farið fram í félaginu Q Iceland Holding ehf. Annars vegar hafi verið haldinn fundur 3. júní 2008, þar sem samþykktum félagsins hafi verið breytt á þann hátt að tveir menn ættu sæti í stjórn þess og hafi verið kjörnir í hana GJO héraðsdómslögmaður og SAT, sem væri formaður hennar. Hins vegar hafi samþykktum félagsins aftur verið breytt á hluthafafundi 30. sama mánaðar þannig að þrír menn sætu í stjórn þess, svo og að einn stjórnarmaður gæti skuldbundið félagið nema ráðstafað væri eignum þess að andvirði meira en 10.000 evrur, en til slíkra skuldbindinga þyrfti skriflegt samþykki MAT. Á þessum fundi hafi síðastnefndur maður jafnframt verið kjörinn í stjórn félagsins ásamt þeim tveimur, sem áður áttu þar sæti. Með þessari tilkynningu fylgdu undirritaðar yfirlýsingar frá SAT 4. júní 2008, GJO sama dag og MAT 13. sama mánaðar um að þeir samþykktu að taka sæti í stjórn félagsins. Samkvæmt bréfi viðskiptaráðuneytisins 18. september 2008 til lögmannsstofunnar veitti það undanþágu til „að tveir þar nafngreindir einstaklingar frá Qatar geti setið í stjórn félagsins Q Iceland Holding ehf.“ Í framhaldi af þessu leitaði lögmannsstofan eftir því 29. september 2008 að MAT og SAT fengju kennitölur í þjóðskrá, en af gögnum málsins verður ekkert séð um afgreiðslu þess erindis.
Loks er þess að geta að með samningi 19. september 2008 milli KH hæstaréttarlögmanns og Q Iceland Holding ehf. seldi sá fyrrnefndi þeim síðarnefnda alla hluti í félagi með heitinu Bakkafullur ehf., sem virðist hafa verið stofnað í júlí sama ár, en fyrir hönd kaupandans var samningurinn undirritaður af GJO. Í samningnum kom meðal annars fram að hlutafé í félaginu væri 500.000 krónur og hafi hlutirnir í því verið seldir fyrir sömu fjárhæð. Sama dag var fyrirtækjaskrá tilkynnt að heiti Bakkafulls ehf. hafi verið breytt í Q Iceland Finance ehf. og hafi TH héraðsdómslögmaður bæði verið kjörin eini stjórnarmaður í félaginu og ráðin framkvæmdastjóri þess með prókúruumboði.
6
Hér áður var greint frá því að ákærði Hreiðar hafi í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi lýst samkomulagi, sem Kaupþing banki hf. og MAT hafi gert í september 2008 um þrenns konar viðskipti, en eftir gögnum málsins virðist aldrei hafa verið gerður skriflegur samningur um þau í heild.
Í fyrsta lagi kvað ákærði Hreiðar sem áður segir MAT hafa átt að kaupa 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf., sem myndi veita lán fyrir kaupverðinu í heild. Þessi þáttur í samkomulaginu mun hafa gengið eftir í framhaldi af því að kaupandinn undirritaði yfirlýsingu dagsetta 20. september 2008 um að hann gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir peningamarkaðsláni, sem Serval Trading Group Corp. fengi hjá Kaupþingi banka hf. að fjárhæð 150.000.000 evrur. Eftir að yfirlýsing þessi lá fyrir, sem virðist þó ekki hafa verið fyrr en að kvöldi 21. september 2008, var lokið við texta tilkynningar frá Kaupþingi banka hf., sem birt var í kauphöll að morgni 22. sama mánaðar, um að félagið Q Iceland Finance ehf., dótturfélag Q Iceland Holding ehf. sem væri í eigu MAT, hafi keypt 5,01% hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. eða 37.100.000 hluti fyrir 690 krónur hvern. Í gögnum málsins kemur fram að félagið hafi nokkrum dögum fyrir þessi viðskipti átt 36.179.216 eigin hluti, en í tengslum við þau mun það hafa keypt 4.200.000 hluti áður en salan á hlutunum 37.100.000 fór fram. Kaupþing banki hf. gaf út 26. september 2008 staðfestingu til Q Iceland Finance ehf. fyrir pöntun félagsins á þessum hlutum, sem greiða ætti 25.726.995.350 krónur fyrir að meðtöldum kostnaði, og kæmi sú fjárhæð til uppgjörs 29. sama mánaðar. Á þeim uppgjörsdegi gaf Kaupþing banki hf. síðan út staðfestingu á peningamarkaðsútláni til Serval Trading Group Corp. að fjárhæð 12.863.497.675 krónur og sams konar láni til Gerland Assets Ltd. með sömu fjárhæð. Að því gerðu greiddi Kaupþing banki hf. fjárhæð hvors þessara peningamarkaðsútlána inn á reikninga hjá sér á nafni hvors lántakans fyrir sig, því næst voru sömu fjárhæðir teknar af þeim reikningum og lagðar inn á reikning hjá bankanum á nafni Choice Stay Ltd., eftir það var samanlagða fjárhæðin tekin af síðastnefndum reikningi og lögð á reikning Q Iceland Finance ehf. við bankann. Af þeim reikningi mun svo greiðsla á 25.726.995.350 krónum hafa verið tekin til að greiða bankanum fyrir kaupverð hlutanna.
Í öðru lagi kom fram í skýrslu ákærða Hreiðars fyrir héraðsdómi að samið hafi verið um að Kaupþing banki hf. myndi veita MAT lán til að eiga viðskipti við Deutsche Bank AG um svonefnd „Credit Linked Notes“. Eftir gögnum málsins varð ekkert af þeim viðskiptum.
Í þriðja lagi sagði ákærði Hreiðar að Kaupþing banki hf. hafi heitið að lána félagi í eigu MAT 50.000.000 bandaríkjadali til fjárfestinga. Þetta lán var veitt til Brooks Trading Ltd., en í málinu er deilt um hvort það hafi verið gert 19. september 2008, svo sem ákæruvaldið heldur fram, eða 29. sama mánaðar.
7
Bankastjóri Seðlabanka Íslands sendi 9. desember 2008 stutta samantekt um framangreind viðskipti til ríkislögreglustjóra, sem framsendi það erindi samdægurs til Fjármálaeftirlitsins, en að undangenginni nokkurri gagnaöflun beindi það kæru af þessu tilefni til sérstaks saksóknara 13. mars 2009. Að lokinni lögreglurannsókn gaf saksóknarinn út ákæru í máli þessu 16. febrúar 2012. Ákærunni, sem tekin er upp í heild í hinum áfrýjaða dómi, var skipt í fjóra meginkafla og voru helstu efnisatriði hennar sem hér segir:
Í a. lið I. kafla ákærunnar var ákærða Hreiðari gefið að sök brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með umboðssvikum, sem fólgin hafi verið í því að hann hafi í september 2008 misnotað aðstöðu sína sem forstjóri Kaupþings banka hf. þegar hann hafi farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga með því að hafa án samþykkis lánanefnda bankans látið hann lána Brooks Trading Ltd. 50.000.000 bandaríkjadali án nokkurra trygginga með óundirrituðu peningamarkaðsútláni og valdið honum þannig verulegri fjártjónshættu. Í b. lið sama kafla ákærunnar var ákærða Magnúsi gefin að sök hlutdeild í framangreindu broti með nánar tiltekinni háttsemi, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.
Í a. lið II. kafla ákærunnar voru ákærðu Hreiðari og Sigurði báðum gefin að sök umboðssvik, sem varði við 249. gr. almennra hegningarlaga, með því að sá fyrrnefnefndi hafi sem forstjóri Kaupþings banka hf. og sá síðarnefndi sem formaður stjórnar félagsins og formaður lánanefndar hennar farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga í september 2008 þegar Gerland Assets Ltd. hafi án samþykkis lánanefnda verið veitt peningamarkaðsútlán að fjárhæð 12.863.497.675 krónur án þess að lánsskjöl væru undirrituð og trygging verið sett fyrir endurgreiðslu, en með þessu hafi þeir valdið bankanum verulegri fjártjónshættu. Í b. lið sama kafla ákærunnar var ákærða Ólafi á nánar tilgreindum forsendum aðallega gefin að sök hlutdeild í síðastgreindu broti, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga, en til vara hylming og peningaþvætti, sem varði við 254. og 264. gr. sömu laga.
Í a. lið III. kafla ákæru voru ákærðu Hreiðar og Sigurður báðir bornir sökum um markaðsmisnotkun, sem varði við a. lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 146. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, með því að hafa í viðskiptum með 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. í september 2008 á nánar tilgreindan hátt látið ranglega líta svo út að MAT hafi lagt til fé til að kaupa hlutina ásamt því að bera fulla markaðsáhættu af kaupunum og leynt fullri fjármögnun bankans á þeim, svo og aðkomu ákærða Ólafs að viðskiptunum. Hafi ákærðu Hreiðar og Sigurður sameiginlega tekið ákvörðun um viðskiptin og fjármögnun þeirra, en sá fyrrnefndi gefið starfsmönnum bankans fyrirmæli um framkvæmd þeirra. Viðskiptin með stóran hlut í félaginu hafi falið í sér blekkingu og sýndarmennsku og verið líkleg til að gefa misvísandi mynd af spurn eftir hlutabréfunum og verði þeirra, enda hafi verið dulin full fjármögnun bankans á viðskiptunum, að hann hafi borið helming markaðsáhættu af þeim og að ákærði Ólafur, sem hafi verið stór hluthafi í félaginu, hafi átt þar hlut að máli. Í b. lið III. kafla ákærunnar var ákærðu Magnúsi og Ólafi báðum gefin að sök hlutdeild í framangreindum brotum með því að hafa með nánar tilteknu móti átt þátt í því að koma viðskiptunum á og hrinda þeim í framkvæmd. Sú háttsemi var talin varða við fyrrgreind ákvæði laga nr. 108/2007, sbr. 3. mgr. 147. gr. sömu laga og 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.
Loks var ákærðu öllum í IV. kafla ákærunnar gefin að sök markaðsmisnotkun með því að hafa 22. og 23. september 2008 í tilkynningu, sem birt hafi verið á vef Kauphallar Íslands, og í viðtölum við fjölmiðla dreift fréttum og upplýsingum, sem hver um sig og í heild hafi verið líklegar til að gefa misvísandi mynd af viðskiptunum, sem um ræddi í III. kafla ákærunnar, og vísbendingar um þau. Í þessum kafla ákærunnar var inntaki tilkynningarinnar og þessara viðtala nánar lýst, meðal annars með því að tekin voru upp orðrétt ummæli, sem höfð hafi verið eftir ákærðu Hreiðari, Sigurði og Ólafi í tilteknum fjölmiðlum. Jafnframt var tiltekið á hvaða hátt talið væri að þessar upplýsingar og vísbendingar hafi verið misvísandi, en þær hafi verið fallnar til að hafa áhrif á ákvarðanir annarra um viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Háttsemi ákærðu samkvæmt þessum kafla ákærunnar var talin varða við 3. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 146. gr. laga nr. 108/2007.
Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu sakfelldir fyrir þá háttsemi alla, sem þeim var gefin að sök í ákærunni.
II
1
Sem fyrr segir krefjast ákærðu þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Allir byggja þeir þá kröfu meðal annars á þeirri röksemd að brotinn hafi verið á þeim réttur, sem þeim sé tryggður með 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, til að fá aðgang að gögnum undir rannsókn lögreglu á málinu og við meðferð þess fyrir dómi.
Ákærðu kröfðust þess í þinghaldi 27. apríl 2012 að sérstökum saksóknara yrði gert að afhenda þeim „eintak atburðarskrár (log-skrár) um tengingar milli símtala, eða önnur þau gögn sem kunna að hafa orðið til við rannsókn málsins hjá embætti sérstaks saksóknara og hafa að geyma yfirlit yfir símtöl sem hlustuð voru á grundvelli úrskurða um hlustanir í málinu.“ Þá kröfðust ákærðu þess einnig að þeim yrði „afhent afrit allra tölvupósta sem fóru um netföng þeirra og voru haldlögð af embætti sérstaks saksóknara við rannsókn málsins.“ Af hálfu ákæruvaldsins var hafnað að verða við þessu. Í úrskurði héraðsdóms, sem gekk 4. maí 2012 meðal annars um þessar kröfur ákærðu, var vísað til þess að ákæruvaldið hafi lýst því yfir að gögnin, sem hér um ræddi, væru ákærðu aðgengileg hjá lögreglu og gætu þeir kynnt sér þannig hvort þau hefðu að þeirra mati þýðingu fyrir málið og hvort rétt yrði að leggja þau fram. Gæti fyrst komið til álita eftir slíka könnun hvort verða ætti við kröfum um að gögnin yrðu lögð fram og yrði því að vísa kröfunum frá dómi. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar, sem með dómi 16. maí 2012 í máli nr. 325/2012 felldi úr gildi ákvæði hans um að vísa kröfum ákærðu frá dómi og lagði fyrir héraðsdóm að taka efnislega afstöðu til krafnanna. Þær voru því aftur teknar fyrir í þinghaldi í héraði 24. maí 2012 og var kveðinn upp úrskurður um þær 29. sama mánaðar. Þar var eins og í fyrri úrskurðinum vísað til þess að gögnin, sem kröfur ákærðu sneru að, væru þeim aðgengileg hjá lögreglu samkvæmt yfirlýsingu ákæruvaldsins og gætu þeir kynnt sér þau þar til að komast að raun um hvort rétt væri að leggja þau fram í málinu. Yrði að telja að ákæruvaldinu væri almennt skylt í ljósi meginreglunnar um jafnræði aðila að veita ákærðu eða verjendum þeirra aðgang að þeim gögnum, sem lögreglan hafi aflað vegna rannsóknar sakamáls en ekki hafi verið lögð fram fyrir dómi. Ekki væri þó unnt að líta svo á að lögreglu eða ákæruvaldinu væri skylt að afhenda ákærðu eða verjendum þeirra eintök af slíkum gögnum. Kröfum ákærðu var því hafnað. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar, sem staðfesti hann með dómi 8. júní 2012 í máli nr. 392/2012.
Ákærðu kröfðust þess í þinghaldi 21. mars 2013 að þeim yrði afhent aðallega „yfirlit yfir öll gögn sem aflað hefur verið af lögreglu og ekki hafa verið lögð fram í málinu.“ Til vara kröfðust þeir þess að þeim yrði afhent yfirlit yfir öll gögn, sem aflað hafi verið við rannsókn lögreglunnar, afmörkuð hafi verið í „Clearwell-leitarforriti“, fengið hafi heitin „ESS KAU Q Iceland“, „ESS KAU Q Iceland 2“ og „KAU KBLUC“ og ekki verið lögð fram í málinu. Að þessu frágengnu kröfðust þeir þess að þeim yrði afhent yfirlit yfir öll gögn, sem hafi verið aflað við rannsóknina, afmörkuð með sama leitarforriti og fengið heitin sem að framan greinir, en fundin yrðu með notkun 15 mismunandi leitarorða eða orðasambanda. Ákæruvaldið hafnaði að verða við þessari kröfu með vísan til þess að slík gögn væru ekki til. Með úrskurði héraðsdóms 26. mars 2013 var þessum kröfum hafnað með þeim rökum að skilja yrði 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála svo að ákvæðið tæki einungis til gagna, sem orðið hafi til og enn væru fyrir hendi, en ekki fælist í því að lögreglu eða ákæruvaldinu væri almennt skylt að útbúa gögn að kröfu verjanda. Ákærðu kærðu úrskurðinn til Hæstaréttar. Í dómi réttarins 4. apríl 2013 í máli nr. 220/2013 var vísað til þess að samkvæmt c. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 sæti kæru til Hæstaréttar úrskurður héraðsdóms um synjun um að láta af hendi afrit af gögnum og tæki þetta ákvæði til gagna, sem þegar væru fyrir hendi. Kröfur ákærðu lytu á hinn bóginn að því að lögregla eða ákæruvaldið léti vinna tiltekin gögn og hafi þessum kröfum verið hafnað með hinum kærða úrskurði. Úrskurður þess efnis sætti ekki kæru eftir fyrrgreindri heimild eða öðrum stafliðum 1. mgr. 192. gr. laganna og var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Svo sem rakið hefur verið stóð ákærðu til boða að fá aðgang að þeim heildarsöfnum gagna, sem þeir kröfðust 27. apríl 2012 að fá afhent afrit af, til að kynna sér þau og velja úr þeim einstök gögn til að fá lögð fram við meðferð málsins fyrir dómi. Eins og málið liggur fyrir er ekki ljóst í hverjum mæli ákærðu hafi nýtt sér þetta boð. Ekki verður horft fram hjá því að gögn, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, munu vera gríðarleg að umfangi, en meðal þeirra munu vera rafræn afrit af tölvubréfum, sem fóru um tölvukerfi Kaupþings banka hf. á tilteknu tímabili. Samkvæmt málflutningi af hálfu ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti munu þau tölvubréf vera um 20.000.000 talsins og mætti áætla að skrá um þau yrði sem svaraði um 400.000 blaðsíðum að lengd. Meðal slíkra tölvubréfa hljóta eðli máls samkvæmt að vera í ríkum mæli orðsendingar varðandi fjárhagsmálefni fjölmargra viðskiptamanna bankans, sem leynd verður að ríkja um, og að auki persónulegar orðsendingar, sem starfsmenn félagsins fengu eða sendu og vörðuðu einkalíf þeirra. Þá lutu kröfur ákærðu, sem héraðsdómur tók afstöðu til með áðurnefndum úrskurði 26. mars 2013, sem áður segir að því að lögreglan byggi til handa þeim tiltekin gögn, en ekki að þeim yrði veittur aðgangur að þeim. Í hvorugu þessara tilvika var ákærðu neitað um að fá aðgang að einhverjum tilteknum gögnum, heldur var hafnað kröfum þeirra um að fá afhent eintak af umfangsmiklu heildarsafni gagna, sem þeim stóð til boða að fá aðgang að hjá lögreglu, og um að lögregla leysti af hendi vinnu í þeirra þágu við skráargerð. Ekki er unnt að líta svo á að niðurstöður um þessar kröfur hafi takmarkað þann rétt, sem ákærðu bar að njóta til aðgangs að gögnum eftir 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Að öðru leyti en þessu gerðu ákærðu ekki kröfur um aðgang að gögnum fyrir héraðsdómi. Þegar metið er hvort réttur sakaðs manns til aðgangs að gögnum hafi verið takmarkaður í andstöðu við framangreindar réttarreglur verður því grunnskilyrði að vera fullnægt að krafa um það efni hafi verið borin undir dómstóla. Samkvæmt þessu eru ekki efni til að vísa málinu frá héraðsdómi á grundvelli þeirra röksemda ákærðu, sem hér um ræðir.
2
Í annan stað hafa ákærðu vísað til þess að uppvíst hafi orðið þegar liðið hafi á rannsókn málsins að á fyrri hluta árs 2010 hafi lögregla tekið upp símtöl einhverra þeirra og hafi í þeim upptökum verið meðal annars samtöl, sem tveir þeirra hafi átt við verjendur sína. Starfsmenn lögreglu hafi fengið það hlutverk að hlýða á upptökur af símtölum og hljóti þeir að hafa þurft að hlusta á hvert samtal fyrir sig í heild eða að hluta, þótt þeir hafi fengið fyrirmæli um að láta af slíku ef þeir yrðu þess varir að samtal væri við verjanda, svo sem ákæruvaldið hafi haldið fram að gefin hafi verið. Á þennan hátt hafi verið skertur réttur sakbornings til trúnaðar um samtöl sín við verjanda, en lögreglu hefði verið skylt að haga hlustun á annan veg til að tryggja þennan trúnað, svo sem með því að aðrir en starfsmenn hennar hefðu gengið úr skugga um hvort samtöl væru við verjendur áður en lengra yrði haldið.
Í málatilbúnaði ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti hefur framangreindu verið andmælt, en í tengslum við þetta hefur verið vísað til þess að í bréfi sérstaks saksóknara 20. mars 2013 til verjanda ákærða Hreiðars hafi verið greint frá því að upptökum af fjórum samtölum milli þeirra tveggja hafi vegna mistaka ekki verið eytt, en á þær upptökur hafi ekki verið hlustað. Gildi það síðastnefnda um allar aðrar upptökur af símtölum, sem þessu marki hafi verið brenndar.
Í málinu liggur ekki fyrir nokkurt endurrit af hljóðrituðu símtali milli einhvers ákærða og verjanda síns, útdrættir úr slíkum símtölum eða skýrslur um efni þeirra. Er þannig alls kostar ljóst að slík gögn hafa á engan hátt verið nýtt til sönnunar fyrir dómi. Að þessu frágengnu er þess að gæta að ekki fæst séð hvernig lögregla gæti almennt hagað aðgerðum við hlustun síma sakbornings á annan hátt en gert var í þessu tilviki samkvæmt fyrrnefndu bréfi sérstaks saksóknara, enda verður hvorki séð fyrir hvort símtal sakbornings kunni að vera við verjanda fremur en annan né hefur lögregla heimild í XI. kafla laga nr. 88/2008 til að fela öðrum framkvæmd þess inngrips í friðhelgi einkalífs manna að hluta á símtöl þeirra. Í málinu hafa engin rök verið færð fyrir því að upptökur, sem viðurkennt er að hafi orðið til af símtölum við verjanda, hafi í reynd haft áhrif á rannsókn málsins eða að raunhæf hætta geti hafa verið á því. Að þessu öllu virtu verður aðalkrafa ákærðu ekki tekin til greina á þessum grunni.
3
Þá bera ákærðu því við til stuðnings kröfu um frávísun málsins frá héraðsdómi að ákæruvaldið hafi lagt fram greinargerð rannsakenda, sem beri þess skýr merki að lögregla hafi ekki gætt þeirrar hlutlægni við rannsókn málsins, sem henni hafi borið samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, en með því hafi verið brotið gegn 2. mgr. 70. stjórnarskrárinnar. Sé í greinargerðinni að finna ítrekaðar og fyrirvaralausar fullyrðingar, sem óhagfelldar séu ákærðu, um flesta þætti málsins og verði af því ráðið að meðan á rannsókn stóð hafi hugur rannsakenda verið fullmótaður. Að auki hafi framlagning þessarar greinargerðar verið andstæð meginreglu um munnlegan flutning máls.
Greinargerðin, sem hér um ræðir, var gerð á grundvelli 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008. Af greinargerð sem þessari, sem gerð er við lok rannsóknar, verða ekki dregnar ályktanir um viðhorf rannsakenda til sakarefnis meðan aðgerðir við hana stóðu yfir, svo sem ákærðu leitast við að gera samkvæmt áðursögðu. Greinargerð rannsakenda í þessu máli er að sönnu yfirgripsmikil, en það eru ekki síður gögn þess, sem leitast var við að vinna úr í henni. Í fyrrnefndum úrskurði héraðsdóms 4. maí 2012 var hafnað kröfu ákærðu um að skjal þetta fengist ekki lagt fram í málinu. Til þess tók Hæstiréttur ekki efnislega afstöðu í máli nr. 325/2012, þar sem úrskurður um þetta atriði gat ekki sætt kæru, en ekki hefðu verið næg efni til að hafna því að greinargerðin yrði lögð fram í málinu, enda er ekki að finna í henni skriflegan málflutning í ríkara mæli en í málatilbúnaði ákærðu í héraði. Framangreindar röksemdir fyrir frávísun málsins eru því haldlausar.
4
Ákærði Sigurður hefur reist kröfu um frávísun málsins frá héraðsdómi sérstaklega á því fyrir sitt leyti að lögregla hafi í nánar tilgreindum atriðum staðið ranglega að verki þegar hún leitaði eftir og fékk því framgengt að alþjóðalögreglan gæfi út eftirlýsingu á hendur þessum ákærða 11. maí 2010 þegar hann var staddur í Bretlandi, þar sem hann átti heimili.
Við flutning málsins fyrir Hæstarétti hafa röksemdir, sem tengjast framangreindu, ekki verið færðar fram með þeim hætti að unnt sé að sjá hvernig hugsanlegir annmarkar á framkvæmd áðurnefndrar eftirlýsingar gagnvart ákærða Sigurði gætu leitt til þess að vísa ætti máli þessu frá héraðsdómi að því er hann varðar. Verður því ekki orðið við aðalkröfu hans á þessum grunni.
5
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi bar ákærði Magnús meðal annars fyrir sig í héraði að fyrir því yrði ekki fundin stoð í ákvæðum 4. til 7. gr. almennra hegningarlaga að íslenska ríkið hefði lögsögu yfir honum til að koma fram refsingu vegna þeirra sakargifta, sem hann er borinn í málinu, þar sem hann hafi á þeim tíma, sem atvik málsins gerðust, verið búsettur í Luxembourg og hafi engar þær athafnir, sem þessar sakir varði, átt sér stað hér á landi. Fyrir Hæstarétti hafa ákærðu Sigurður og Ólafur borið því sama við hvor fyrir sitt leyti með vísan til þess að þeir hafi verið búsettir í öðrum löndum á þessum tíma og sé atvikum að öðru leyti eins háttað um þá. Með vísan til dóms Hæstaréttar 3. desember 2009 í máli nr. 509/2009 er rétt að taka afstöðu til þessara röksemda með tilliti til þess hvort efni séu til að vísa máli þessu frá héraðsdómi að því er ákærðu Magnús, Sigurð og Ólaf varðar.
Svo sem áður var getið er ákærði Magnús borinn sökum í b. lið I. kafla ákæru um hlutdeild samkvæmt 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga í ætluðu broti ákærða Hreiðars samkvæmt a. lið sama kafla hennar gegn 249. gr. sömu laga, í b. lið III. kafla ákæru um hlutdeild samkvæmt fyrrnefnda lagaákvæðinu í ætluðu broti ákærðu Hreiðars og Sigurðar gegn a. lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 samkvæmt a. lið sama kafla og um brot gegn 3. tölulið 1. mgr. sömu lagagreinar í a. lið IV. kafla ákærunnar. Ákærði Sigurður er borinn sökum um brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga í a. lið II. kafla ákæru, brot gegn a. lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 í a. lið III. kafla hennar og brot gegn 3. tölulið 1. mgr. sömu lagagreinar í a. og d. lið IV. kafla ákærunnar. Þá er ákærði Ólafur borinn sökum í b. lið II. kafla ákærunnar aðallega um hlutdeild samkvæmt 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga í ætluðum brotum ákærðu Hreiðars og Sigurðar gegn 249. gr. sömu laga samkvæmt a. lið sama kafla ákærunnar, en til vara brot gegn 254. og 264. gr. laganna. Í b. lið III. kafla ákærunnar er ákærði Ólafur jafnframt sakaður á sama hátt og ákærði Magnús um hlutdeild í ætluðu broti ákærðu Hreiðars og Sigurðar gegn a. lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 samkvæmt a. lið sama kafla, svo og um brot gegn 3. tölulið 1. mgr. sömu lagagreinar í a. og c. lið IV. kafla ákærunnar.
Brotunum, sem ákærðu Magnús, Sigurður og Ólafur eru sakaðir um í málinu og varða 249. gr. almennra hegningarlaga, er það sammerkt að refsinæmi ætlaðrar háttsemi þeirra er að einhverju leyti bundin við afleiðingar verknaðar í skilningi 7. gr. almennra hegningarlaga. Afleiðingar ætlaðra brota gegn 249. gr. laganna myndu birtast í því að Kaupþingi banka hf. hafi verið valdið verulegri fjártjónshættu í starfsemi sinni hér á landi. Ætluð brot gegn 117. gr. laga nr. 108/2007 tengdust starfsemi sama félags hér á landi og teljast þau því hafa verið framin innan íslenska ríkisins í skilningi 1. töluliðar 4. gr. almennra hegningarlaga. Í því ljósi er fullnægt efnisskilyrðum 4. og 7. gr. almennra hegningarlaga fyrir lögsögu íslenska ríkisins yfir þessum ákærðu í málinu.
Samkvæmt því öllu, sem greinir hér að framan í þessum kafla, er hafnað aðalkröfu ákærðu um að málinu verði vísað frá héraðsdómi.
III
1
Til vara krefjast allir ákærðu þess að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur. Þá kröfu reisa þeir meðal annars á því að þeir hafi með réttu mátt draga í efa óhlutdrægni sérfróðs meðdómsmanns í héraði, fyrrnefnds Magnúsar Benediktssonar, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008, auk þess sem vafasamt sé að hann hafi fullnægt því almenna hæfisskilyrði 1. mgr. 4. gr. sömu laga að hann hafi ekki sýnt af sér háttsemi, sem rýrt gæti það traust sem dómarar verði almennt að njóta. Í þessum efnum vísa ákærðu til þess að þeim hafi orðið það kunnugt eftir uppkvaðningu héraðsdóms að nefndur meðdómsmaður hafi átt í umfangsmiklum lánsviðskiptum við Kaupþing banka hf. og Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, en af gögnum um þetta megi vera ljóst að miklir persónulegir hagsmunir hans hafi verið tengdir fyrrnefnda fjármálafyrirtækinu. Þannig hafi nafngreint einkahlutafélag, sem meðdómsmaðurinn hafi verið stjórnarmaður í, verið tekið til gjaldþrotaskipta degi áður en tilkynnt hafi verið að hann myndi gegna þessu verki í málinu. Lýst hafi verið átta kröfum í þrotabúið að samanlagðri fjárhæð 40.966.786 krónur og hafi skiptum verið lokið í apríl 2013 án þess að greiðsla fengist upp í þær. Hafi tvær af þessum kröfum verið á hendi Dróma hf. og með fjórar hafi Arion banki hf. farið, en ein þeirra hafi verið reist á skuldabréfi, sem upphaflega hafi verið gefið út til Kaupþings banka hf. og meðdómsmaðurinn borið sjálfskuldarábyrgð á, og eftirstöðvar hennar numið 954.822 krónum. Þá vísa ákærðu til þess að meðdómsmaðurinn hafi verið framkvæmdastjóri annars nafngreinds einkahlutafélags, sem hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta í apríl 2014, en af þinglýstum heimildum verði séð að tryggingarbréf útgefin af því félagi til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, annars vegar fyrir 129.700 evrum og hins vegar 10.000.000 krónum, hvíli á fasteign í eigu meðdómsmannsins, auk þess sem fjórar aðrar veðskuldir, sem hvíli á eigninni, hafi áður verið við sama sparisjóð og Kaupþing banka hf. Að auki sé meðdómsmaðurinn á vanskilaskrá vegna skuldar við Íslandsbanka hf. Ákærðu benda á að sakarefni þessa máls lúti að viðskiptum Kaupþings banka hf. og séu meðal þeirra fyrrum forstjóri hans og stjórnarformaður auk forstjóra erlends dótturfélags. Fall íslensku viðskiptabankanna hafi haft gríðarleg áhrif á efnahagslíf hér landi, fjárhagsstöðu manna og rekstur margra fyrirtækja, en stjórnendur bankanna virðist í hugum margra eiga þar mesta sök.
Um þessar röksemdir ákærðu er þess fyrst að gæta að engan veginn verður séð hvernig skuldir meðdómsmannsins eða félaga, sem hann á fyrri tímum hefur gegnt störfum fyrir, við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, Dróma hf. eða Íslandsbanka hf. gætu valdið í málinu þeirri aðstöðu, sem um ræðir í g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Sama gegnir um skuldbindingar, sem kann að hafa verið stofnað til við Arion banka hf. Þótt meðdómsmaðurinn hafi þess utan borið skuldbindingar við Kaupþing banka hf. verður heldur ekki séð hvernig sú aðstaða gæti leitt til vanhæfis í málinu eftir nefndu lagaákvæði, enda hljóta lántakar þess banka hér á landi að hafa að minnsta kosti skipt mörgum tugum þúsunda. Tengsl meðdómsmannsins við tvö félög, sem munu hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta, og vanskil í einu tilviki við banka eru ekki þess eðlis að hann hafi ekki fullnægt almennum hæfisskilyrðum 1. mgr. 4. gr. nefndra laga til að taka sæti meðdómsmanns. Eru því ekki haldbær rök fyrir kröfu ákærðu um ómerkingu héraðsdóms á þessum grunni.
2
Ákærðu bera því jafnframt við til stuðnings kröfu sinni um ómerkingu hins áfrýjaða dóms að héraðsdómur hafi við úrlausn málsins komist að þeirri niðurstöðu að framburður fjögurra vitna, BHD, BÓ, GG og HS, hafi án sjálfstæðs mats á skýrslum þeirra fyrir dómi verið ótrúverðugur vegna þess eins að verjendur tveggja ákærðu hafi rætt við vitnin fyrir aðalmeðferð málsins, og „í einhverjum tilvikum, sýnt þeim gögn málsins“, svo sem komist var að orði í greinargerð ákærða Sigurðar fyrir Hæstarétti.
Tilefni fyrir varakröfu ákærðu er að þessu leyti að finna í lokaorðum forsendna hins áfrýjaða dóms, þar sem segir eftirfarandi: „Við aðalmeðferð málsins kom fram að fjögur vitni hefðu átt fund með verjendum ákærðu, Hreiðars Más og Ólafs, fyrir aðalmeðferð málsins og þau kynnt sér gögn málsins á skrifstofu verjendanna. Samkvæmt 3. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 kynnir dómari ekki fyrir vitni skýrslur þess hjá lögreglu eða önnur sýnileg sönnunargögn fyrr en dómara þykir þess þörf til skýringar eða leiðréttingar skýrslu þess. Með því að ræða við vitnin fyrir aðalmeðferð máls og sýna þeim sýnileg sönnunargögn var farið á svig við greind lagafyrirmæli, auk þess sem sú háttsemi var til þess fallin að rýra trúverðugleika vitnanna, sbr. 7. tl. 122. gr. laga nr. 88/2008. Er þetta aðfinnsluvert.“ Orðin, sem hér greinir, gefa ekkert tilefni til þeirrar ályktunar, sem ákærðu leggja til grundvallar varakröfu sinni að þessu leyti, að héraðsdómur hafi ekkert tillit tekið til vættis þessara manna og að svo hafi farið af þeim ástæðum einum, sem hér um ræðir. Er það þeim mun ljósara þegar litið er til þess að um þetta var ekki rætt við úrlausn um sönnun fyrir einstaka sakaratriðum, heldur sem aðfinnslu í garð tveggja verjenda í niðurlagi dómsins, og að auki með þeim orðum að þessi háttsemi hafi verið fallin til að rýra trúverðugleika vitnanna, en ekki að sú hafi orðið raunin. Að þessari aðfinnslu verður að öðru leyti vikið í niðurlagi dóms þessa, en rökin, sem að framan greinir, gefa ekkert tilefni til að verða við varakröfu ákærðu.
3
Til stuðnings kröfu um ómerkingu hins áfrýjaða dóms byggja ákærðu einnig á því að þar hafi ranglega verið lagt til grundvallar við sönnunarmat um nánar tilgreind atriði að skýrslur vitnanna EH og HBL hafi verið trúverðugar, en ákærðu hafa vísað til ýmissa atriða varðandi framburð þessara vitna og aðstæður þeirra, sem ákærðu telja rýra trúverðugleika þeirra. Sé því svo ástatt að ómerkja ætti héraðsdóm með stoð í 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Ákærðu hafa að öðru leyti reist þessa dómkröfu á því að annars vegar hafi sá annmarki verið á meðferð málsins í héraði að ekki hafi verið reynt á viðhlítandi hátt að fá MAT og SAT til að bera vitni fyrir dómi. Hafi verið teknar viðtalsskýrslur við hvorn þeirra meðan á rannsókn lögreglu á málinu stóð og ákæruvaldið síðan undir rekstri þess í héraði beint fyrirspurn til lögmanns í Englandi, sem hafi í öðrum samböndum komið fram af hálfu þessara manna, um hvort þeir myndu koma fyrir dóm í Reykjavík eða gefa skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð málsins til að svara hliðstæðum spurningum og bornar hafi verið upp í viðtölunum við þá. Í stað þess að aðhafast nokkuð frekar hafi ákæruvaldið látið við það sitja að lögmaðurinn hafi svarað fyrirspurninni neitandi. Hins vegar telja ákærðu þann annmarka á hinum áfrýjaða dómi að þar skorti á að tekin hafi verið afstaða til röksemda, sem þeir hafi haldið fram sér til varnar og eftir atvikum varðandi formhlið málsins.
Í dómi þessum eru ekki efni til að taka að svo komnu máli afstöðu til þess hvort annmarkar geti hafa verið á mati héraðsdóms á trúverðugleika áðurnefndra tveggja vitna þannig að ómerkingu hins áfrýjaða dóms varði, enda gæti þetta fyrst komið til athugunar að því reyndu að vætti þessara manna, annars eða beggja, kynni að hafa teljandi áhrif á niðurstöðu um eitthvert atriði málsins, sem sanna þarf. Að breyttu breytanda gildir það sama um framangreindar röksemdir ákærðu, sem snúa að því að vitnaskýrslur hafi ekki verið fengnar fyrir dómi af MAT eða SAT, en af vöntun vitnisburðar þeirra yrði ákæruvaldið að auki að bera eftir atvikum halla í efnisniðurstöðu málsins. Um aðfinnslur ákærðu, sem varða samningu hins áfrýjaða dóms, verður loks að gæta að því að ákvæðum f. og g. liðar 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008, sbr. og hliðstæð fyrirmæli í f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, hefur ekki verið beitt svo í framkvæmd að nauðsyn hafi borið til að taka berum orðum rökstudda afstöðu í dómi til sérhverrar röksemdar, sem málsaðila kann að hugkvæmast að halda fram, heldur hefur bæði í tíð þessara laga og eldri um sama efni verið litið svo á að taka beri rökstudda afstöðu til alls þess, sem raunhæft er að ætla að kynni að hafa áhrif á niðurstöðu um eitthvert atriði máls, en önnur rök, sem hafnað er, megi liggja í þagnargildi.
Samkvæmt öllu framangreindu verður varakröfu ákærðu um ómerkingu hins áfrýjaða dóms hafnað.
IV
1
Áður hefur verið gerð nokkur grein fyrir gögnum, sem tengjast stofnun átta félaga með takmarkaðri ábyrgð ásamt eignarhaldi að þeim og stjórnun þeirra síðari hluta árs 2008, en af þessum félögum var eitt skráð á Kýpur, fimm á Bresku Jómfrúareyjunum og tvö hér á landi og snerta þau öll á einn eða annan hátt atvik málsins. Þá hefur verið rakið það helsta, sem ráðið verður af skriflegum sönnunargögnum um viðleitni stjórnenda Kaupþings banka hf. til að leita nýrra hluthafa frá Miðausturlöndum á árinu 2007 og fram eftir ári 2008, svo og af því, sem ákærðu Hreiðar og Ólafur báru um það efni fyrir dómi, þar á meðal hvernig komið hafi til að sjónum hafi verið beint að MAT í þeim efnum. Eins og þegar hefur verið rakið í því sambandi hafa þessir ákærðu lýst því að samhliða en þó ótengt þessu hafi ákærði Ólafur lagt á árinu 2008 drög að sameiginlegum fjárfestingum með MAT og SAT.
2
MAT undirritaði 7. september 2008 eyðublöð fyrir umsókn til Kaupthing Bank Luxembourg S.A. um opnun bankareiknings og sendi áðurnefndur lögmaður í Englandi, SS, þessi gögn í þágu hans til ákærða Magnúsar sem stjórnanda bankans með bréfi 8. sama mánaðar. Lögmaðurinn sendi jafnframt sama dag til ákærða Magnúsar tölvubréf, sem myndrit af þessum gögnum virðist hafa fylgt. Ákærði framsendi þetta tölvubréf samdægurs til tveggja starfsmanna Kaupthing Bank Luxembourg S.A., BK og EH, en sá síðarnefndi mun hafa veitt lögfræðideild bankans forstöðu. Í bréfi ákærða var óskað eftir því að BK og EH sinntu þessu erindi og sendu til ákærða afrit af tölvubréfum í tengslum við það. EH framsendi þessa orðsendingu til tveggja starfsmanna lögfræðideildarinnar og lét þess getið að þetta væru fyrstu upplýsingarnar sem þau fengju, en nánari vitneskju mætti fá hjá BK. Síðar þennan dag og þann næsta leitaði BK frekari upplýsinga í tengslum við þetta með tölvubréfum til enska lögmannsins, þar á meðal um lögheimili MAT. Í þessum tölvubréfum BK var þess meðal annars getið að hann hafi 8. september 2008 rætt við ákærða Ólaf, sem hafi óskað eftir því að hann aflaði sams konar gagna og upplýsinga varðandi SAT, svo og að ákærði Ólafur hafi tjáð BK að lögheimili MAT væri í Qatar.
Af gögnum málsins verður ráðið að upplýsingar, sem kallað var eftir á framangreindan hátt, hafi verið komnar í hendur BK 11. september 2008, þar á meðal yfirlýsing MAT um lögheimili sitt, en þann dag fyllti BK út í þágu hans eyðublað frá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. fyrir áreiðanleikakönnun vegna reglna um varnir gegn peningaþvætti ásamt því að aflað var úr gagnabanka upplýsinga um hann. Sama dag sendi starfsmaður lögfræðideildar bankans, LS, tölvubréf meðal annars til annars starfsmanns sömu deildar, SÖS, svo og BK og EH, þar sem sagði að viðskiptin við Mink Trading Corp. og Brooks Trading Ltd. væru orðin aðkallandi, en ákærði Magnús væri 15. sama mánaðar á leið til fundar við viðskiptavininn í Qatar og því yrði næsta dag að hafa tilbúin öll skjöl, sem hann þyrfti að undirrita. Það gæti hún á hinn bóginn ekki gert nema búið væri að opna reikninga fyrir bæði félögin og spurðist hún því fyrir um hvernig þau mál stæðu. Þessu svaraði BK með því að enn vantaði undirrituð eintök af skjölum frá Bresku Jómfrúareyjunum vegna Mink Trading Corp., en þau væru á leið til lögmanns eiganda félagsins í London og kynni að mega reikna með myndriti af þeim næsta dag.
Síðar um daginn 11. september 2008 beindi starfsmaður Kaupthing Bank Luxembourg S.A. tölvubréfi til BK, þar sem óskað var í nokkrum liðum eftir frekari upplýsingum og gögnum vegna MAT í tengslum við áðurnefnda áreiðanleikakönnun. Þetta virðist hafa orðið tilefni til þess að ákærði Magnús sendi tölvubréf í lok þessa dags til þriggja starfsmanna bankans, þar á meðal BK og EH, en með því framsendi hann síðastnefndu orðsendinguna. Í tölvubréfi ákærða sagði að ræða yrði þetta mál næsta dag og yrðu þeir ef til vill að vera aðeins mildari um sum atriði, enda væru þeir ekki ókunnir MAT, sem væri viðskiptafélagi og veiðifélagi ákærða Ólafs, en hann færi fyrir næst stærsta hluthafa Kaupþings banka hf. Þeir, starfsmenn bankans, hefðu undanfarin þrjú ár átt fundi með þessu fólki til að reyna að gera eitthvað sérstakt. Sagðist ákærði Magnús myndu hitta MAT ekki síðar en um komandi helgi og kynni hann þá að geta gert eitthvað, sem skort hafi á til þessa. Ekki bæði hann um að MAT fengi sérstaka meðferð, heldur vildi hann benda á að þeir þekktu vel til hans. Væri ekki á hverjum degi sem einhver auðugasta fjölskylda heims vildi vinna með þeim og byggja eitthvað alvarlegt upp. Skyldu þeir því hittast til að komast að niðurstöðu um hvað skipti máli og gera áætlun um hvers væri þörf. Þessu tölvubréfi svaraði EH um hæl með þeim orðum að markmið þeirra væri að sýna ákveðni en vera um leið sveigjanlegir og væri ástríða fyrir viðskiptum þeirra leiðarljós.
Eins og áður var getið fyllti BK 12. september 2008 út eyðublað frá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. fyrir áreiðanleikakönnun á Brooks Trading Ltd. vegna reglna um varnir gegn peningaþvætti. Í lok sama dags sendi hann síðan tölvubréf til ákærðu Ólafs og Magnúsar, þar sem sagði að meðfylgjandi væru gögnin, sem MAT þyrfti að undirrita vegna félaganna á Bresku Jómfrúareyjunum, en ákærði Magnús tæki þau með sér til Qatar og fengi undirskriftir.
Á sunnudeginum 14. september 2008 sendi ákærði Magnús svohljóðandi tölvubréf til ákærða Hreiðars: „Tu matt hringja I mig I dag thannig ad vid getum planad vel ferd okkar til qatar thannig ad vid seum med engin mal opin thegar eg kem til baka.“ Næsta dag var fyrrnefnt eyðublað fyrir áreiðanleikakönnun á MAT vegna reglna um varnir gegn peningaþvætti, sem var fyllt út 11. sama mánaðar, áritað um samþykki af starfsmönnum Kaupthing Bank Luxembourg S.A.
3
EH sendi ákærða Magnúsi tölvubréf mánudaginn 15. september 2008 og fylgdi því skjal, sem bar auðkennið „Structure Proposal 16-09-08.ppt“. Í bréfinu bað EH ákærða um að kíkja „á þetta“ og myndi hann svo heyra í ákærða, en hann lét þess jafnframt getið að hann yrði „í bankanum“ þar til yfir lyki. Fylgiskjalið, sem hér um ræðir, hafði að geyma glærukynningu, sem var merkt Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og sýndi skipurit tiltekinna viðskipta, en í hinum áfrýjaða dómi er þetta skipurit að öðru jöfnu nefnt „strúktúr“.
Í upphafi skipuritsins var að finna lýsingu á viðskiptunum og sagði þar að MAT og hugsanlega fleiri fjárfestar hefðu í félagi við ákærða Ólaf í hyggju að setja upp fjárfestingaráætlun með því markmiði að fjármagna fjárfestingarfélagið Q Iceland Holding ehf. Að lokinni þeirri fjármögnun hefði félagið í hyggju að eignast 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. Hvor þeirra MAT og ákærða Ólafs myndi í þessu skyni fá að láni hjá Kaupþingi banka hf. 150.000.000 evrur gegn tryggingum eftir almennum venjum á markaði. Þetta lánsfé yrði síðan lagt sem hlutafé til sérstaks fjárfestingarfélags, sem yrði stofnað og að helmingi í eigu hvors þeirra. Þetta sérstaka fjárfestingarfélag myndi síðan lána Q Iceland Holding ehf. 200.000.000 evrur af þessu fé til að kaupa 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. og skyldu skilmálar lánsins taka mið af þróun á verðmæti þessara hlutabréfa. Í tengslum við þessi viðskipti væri Kaupþing banki hf. reiðubúinn til að veita sérstaka fjárfestingarfélaginu aðgang að lánsfé að fjárhæð 200.000.000 evrur til annarra fjárfestinga. Í framhaldi af þessu var brugðið upp í skipuritinu myndrænni lýsingu viðskiptanna ásamt skýringartexta, þar sem aftur var tekið fram að MAT og ákærði Ólafur hygðust leggja sérstaka fjárfestingarfélaginu til samtals 300.000.000 evrur og að auki fengi það lán frá Kaupþingi banka hf. að fjárhæð 200.000.000 evrur til ýmissa fjárfestinga, en þannig hefði þetta félag yfir 500.000.000 evrum að ráða. Sérstaka fjárfestingarfélagið myndi svo veita Q Iceland Holding ehf. lán að fjárhæð 200.000.000 evrur til að kaupa 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. og tækju skilmálar þess láns mið af þróun á verðmæti hlutabréfanna. Af skipuritinu er ljóst að MAT og ákærða Ólafi hafi hvorum verið ætlað að eiga helming í sérstaka fjárfestingarfélaginu, en á hinn bóginn yrði Q Iceland Holding ehf. með öllu í eigu þess fyrrnefnda. Í lok skjalsins var svo tekið fram að ef hlutaðeigendur samþykktu þessa áætlun yrði hafist handa við kaup á hlutum í Kaupþingi banka hf. um leið og vinna væri byrjuð við stofnun sérstaka fjárfestingarfélagsins, fjármögnun þess og setningu trygginga.
Starfsmaður Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sendi framangreint skipurit sem fylgigagn með tölvubréfi 16. september 2008 til starfsmanns endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young Cyprus Ltd., en skipuritið var þó í breyttri mynd að því leyti að þar höfðu verið felld brott nöfn ákærða Ólafs, MAT og Q Iceland Holding ehf. og bókstafir settir í stað þeirra. Þess var heldur ekki getið í hvaða félagi kaupa ætti 5,01% hlutafjár, en á hinn bóginn kom fram að ráðgert væri að stofna félag á Kýpur, sem yrði sérstaka fjárfestingarfélagið. Í tölvubréfinu var vísað til símtals þessara manna og tekið fram að leitað væri ráða um hvort mæla mætti með þessum viðskiptum með tilliti til aðstæðna á Kýpur. Sérstaklega væri óskað eftir að sú ráðgjöf lyti að því að gert væri ráð fyrir að sérstaka fjárfestingarfélagið myndi greiða vexti til Kaupþings banka hf. og hluthafanna og var spurt hvort útgjöld af þeim sökum yrðu bær til frádráttar af vaxtatekjum af láni til ónafngreinda félagsins, sem eins og að framan greinir var Q Iceland Holding ehf. Starfsmaður endurskoðunarfyrirtækisins svaraði strax að kvöldi sama dags með fyrirspurn í tölvubréfi um hvað gera ætti við þær 300.000.000 evrur, sem yrðu hlutafjárframlög til sérstaka fjárfestingarfélagsins, en tekið var fram að við fyrstu sýn virtist heppilegra af skattalegum ástæðum að fjárframlög hluthafanna yrðu í formi láns fremur en hlutafjár ef sérstaka fjárfestingarfélagið yrði á Kýpur.
Starfsmaður Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sendi þessi síðastnefndu tölvubréf til EH, sem framsendi þau án frekari orða með tölvubréfi 17. september 2008 til BÓ. Stuttu áður hafði EH sent BÓ annað tölvubréf, sem skipurit viðskiptanna fylgdi með. Í málinu liggur fyrir endurrit af hljóðupptöku af símtali milli EH og BÓ, sem eftir upphafsorðum þess fór greinilega fram á sama tíma og EH sendi tölvubréfið með skipuritinu, en hann tók einnig fram að hann hafi reynt að ná í BÓ daginn áður. Fljótlega í samtalinu kvaðst EH óttast að lán, sem hann nefndi „profit participating lán“ og fæli í sér að lánskjörin tækju mið af þróun á verðmæti hluta í Kaupþingi banka hf., kynni að mati skattyfirvalda að fela í sér duldar arðgreiðslur. Hann hafi leitað álits hjá tveimur nafngreindum Íslendingum, sérfróðum á sviði skattaréttar, sem hafi lýst þeirri skoðun að hjá þessu mætti komast með því að hafa lánið í formi skuldabréfs og kjörin í formi vaxta. Hann lýsti því að ef „við lendum í einhverju veseni með þetta, að skattayfirvöld verða nú að þráskallast við eins og oft kemur upp sko ... þá er næsta í rauninni girðing ... hvar getum við sett þá upp félag ... ég viljandi ... setti það hvergi upp ... sagði bara að þeir myndu sko setja þetta inn sem equity inn í félagið en það er útfærsluatriði að þessar 300 milljónir sem þeir koma með saman, 150 og 150, að það geti verið í formi sko eigin fjár og ... hérna hluthafaláns ... til þess að fá vaxtagjöld ... og við tékkuðum á því með Kýpur að það gengur alveg að koma inn með bara stórt hluthafalán, að það yrði frádráttarbært frá öllum vaxtatekjum.“ EH vísaði síðan til upplýsinga í tölvubréfi frá endurskoðunarfyrirtækinu á Kýpur og sagðist þá um leið senda það áfram til BÓ. Sagði þá BÓ að hann væri „aðeins búinn að nefna það við Óla sko að það yrði Kýpur félag fyrir ofan, þannig að ... hann veit af slíkum möguleikum“. Hann bætti því svo við að það væri „annað sem að þyrfti að tékka sig af líka sko í þessu sko, ég var nú að ræða við Óla sko um að ... mér sýndist vera í lagi ... en það var sko, hvort að það væri sko flöggun á honum“. Sagði þá EH að þetta væri „næsta atriði af því hann er náttúrulega þarna inni í Eglu og allt það ... þá kom einmitt þetta sko, í mínum huga ókei, náttúrulega uppleggið frá Magga var að segja eitthvað ... hann má ekki flagga, við viljum bara að Qatarinn flaggi og enginn annar, hann er bara einn í þessu sko.“ Þessu játti BÓ og sagði þá EH að þess vegna yrði þetta að verða í formi láns. Hann bætti því svo við að hann vildi ræða þetta við BÓ „áður en við klárum þetta, því að þeir eru búnir að samþykkja þetta Ólafur og, og [MAT] og þetta er bara go“. Lýsti EH eftir þetta að MAT ætti „Q Icelandic“ að fullu og hann væri búinn að taka þar stóra fjárfestingu í Alfesca hf., en ef hann tæki „síðan stöðu í bankanum ... og á síðan félagið ... 50% á móti Ólafi ... er eitthvað hætta á að við getum sagt að það eru bein eignatengsl þarna á milli, af því þetta er afkomutengt“. Sagði þá BÓ að „það er hætta á því sko ... ég þarf að þræða mig aðeins í gegnum það ... ég sagði bara við Óla að mér sýndist að þetta þarna ... sko hann var þá ekki búinn að ræða, við vorum þá ekki búnir að ræða sko arðgefandi lánið ... að það yrði beint, beint arðgefandi sko, ef það væri alveg skilyrði að það væri arðgefandi sko“. Skaut þá EH inn orðunum „já, sem það og er sko, af því að mér skilst að Ólafur náttúrulega á að fá sinn part í kökunni sko“. Játti BÓ því og sagði „hann, hann þarf að fá sinn part af, af upside-inu sko.“ Í framhaldi af þessu ræddu þeir um ýmis atriði varðandi útfærslu á viðskiptunum í tengslum við félög á Kýpur og Bresku Jómfrúareyjunum, en um það sagði svo BÓ að þetta væri „útfærsluatriði en grundvallarspurningin er náttúrulega bara fyrst og fremst ... er flöggun þarna eða ekki, sko.“ Hann bætti því síðar við að þá væri „spurning sko hvernig strúktúrinn hjá honum persónulega er fyrir ofan en það er auðvitað hans mál sko ... ég var ekkert búinn að ræða sko, hann var að spyrja um það hann Óli sko“. Eftir þetta tóku við nokkuð langar samræður um skattaleg atriði, en undir lok samtalsins sagðist BÓ „tékka á, á þessu út frá kauphallarmálum“ og aðeins síðar sagði EH að það væru þá „þrjú atriði, það er eignarhaldið, flöggunin, síðan númer tvö er, er arðstekjur ... og þrjú er, er skattur á vexti.“
4
Í málinu liggur fyrir önnur glærukynning, sem var merkt Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og dagsett 16. september 2008, en þar var sýnt skipurit vegna viðskipta Mink Trading Corp. og Brooks Trading Ltd. Samkvæmt þessu skipuriti átti Mink Trading Corp. að öllu leyti að vera í eigu MAT og átti það félag að vera eini eigandi Brooks Trading Ltd. Í skýringum við skipuritið kom fram að Brooks Trading Ltd. yrði útvegað reiðufé að fjárhæð samtals 125.000.000 evrur til að skrifa sig fyrir skuldabréfi frá Deutsche Bank AG, svo og að félagið myndi útvega sér aukið fé ef kallað yrði eftir frekari tryggingum vegna þeirra viðskipta. Í tengslum við þetta er þess að geta að Brooks Trading Ltd. beindi sem fyrr segir yfirlýsingu 16. september 2008 til Deutsche Bank AG um að félagið hafi verið stofnað til þess eins að eiga viðskipti við þann banka um „Credit Linked Notes“ að fjárhæð 125.000.000 evrur. Að morgni 17. september 2008 sendi LS myndrit af þessari yfirlýsingu með tölvubréfi til Deutsche Bank AG ásamt staðfestri hlutaskrá fyrir Brooks Trading Ltd., en tölvubréfinu beindi hún jafnframt til EH og ákærða Magnúsar. Þar var tekið fram að frekari gögn vegna félagsins yrðu send síðar sama dag.
Að kvöldi 16. september 2008 sendi ákærði Magnús tölvubréf til lögmannsins SS og ákærða Ólafs, þar sem sagði að meðfylgjandi væru gögn, sem MAT þyrfti að undirrita vegna viðskiptanna, sem ákærði Ólafur hafi skýrt út. Þyrfti MAT þó aðeins að samþykkja að þeir önnuðust viðskiptin. Stuttu síðar sendi EH tölvubréf til ákærða Magnúsar, þar sem sagði: „Hvernig gekk fundurinn med [MAT]“. Því svaraði ákærði með tölvubréfi, þar sem aðeins voru tákn sem sýndu svonefndan broskarl.
Undir miðnætti 16. september 2008 sendi SS tölvubréf til ákærðu Magnúsar og Ólafs, þar sem spurt var hvort þeir hefðu lýsingu á skilmálum viðskiptanna, sem lögð hafi verið til. Ákærði Magnús framsendi þetta erindi að morgni 17. sama mánaðar með tölvubréfi til EH og LS og bað um að lögmanninum yrðu sendir skilmálar vegna síðustu viðskiptanna af sama toga. Sú síðastnefnda sinnti þessu um hæl með tölvubréfi til SS, EH og ákærðu Magnúsar og Ólafs, þar sem sagði að meðfylgjandi væru skilmálar vegna nánar tilgreindra viðskipta. Fyrir liggur að þau snerust um viðskipti félags, sem er máli þessu óviðkomandi, við Deutsche Bank AG um „Credit Linked Notes“ tengd Kaupþingi banka hf.
Í framhaldi af síðastnefndu tölvubréfi beindi LS öðru til BK og EH, þar sem hún óskaði eftir að fá sendar upplýsingar um MAT. Slíkar upplýsingar lagði BK til í svari, sem hann sendi jafnframt ákærða Magnúsi, og kvað þann síðarnefnda hugsanlega geta bætt einhverju við. Í framhaldi af þessu gengu frekari tölvubréf milli þessara sömu, þar sem meðal annars kom fram að ákærði væri á fundi með EH af þessu tilefni, en nokkrum klukkustundum síðar lauk þessum orðsendingum með því að ákærði Magnús bað LS um að senda afrakstur þessa verks til Deutsche Bank AG.
Að áliðnum degi 17. september 2008 sendi ákærði Magnús tölvubréf til ákærða Hreiðars, þar sem spurt var „á hvaða kjörum eigum við að lána H.H. [MAT]“. Ekki er að sjá í málinu svar við þessari fyrirspurn, en skömmu síðar sendi ákærði Magnús annað tölvubréf til ákærða Hreiðars, þar sem sagði: „félagið sem við ætlum að lána fyrir hagnaðinum á tradinu er Mink Trading Corp. ... total USD 50.000.000 láttu mig vita hver sér um þetta þannig að ég get rekið eftir því“.
Um líkt leyti og síðastgreindar orðsendingar fóru milli ákærðu Magnúsar og Hreiðars sendi starfsmaður Kaupþings banka hf. tölvubréf til GA, framkvæmdastjóra fjárstýringar við bankann, þar sem sagði meðal annars: „Kassinn er því akkúrat þannig núna að við getum rekið bankann frá degi til dags en megum ekki við neinum áföllum. Þeir niðri eru að reyna eins og þeir geta að koma krónu yfir í gjaldeyri en það gengur rosalega hægt.“
5
Starfsmaður fyrrnefnds dótturfélags Kaupþings banka hf. í Englandi, Kaupthing Singer & Friedlander Ltd., sendi tölvubréf 18. september 2008 til ákærða Magnúsar, þar sem vísað var til samtals, sem ákærði hafi nýverið átt við annan starfsmann félagsins, og sagt að af því tilefni væri sent skjal, sem hafði að geyma yfirlit yfir skilmála hugsanlegs láns félagsins til MAT. Samkvæmt því yfirliti var gert ráð fyrir láni að fjárhæð 150.000.000 evrur, sem veitt yrði án trygginga til margvíslegra ótilgreindra fjárfestinga, en um gjalddaga var ekki rætt, heldur að lánið yrði endurkræft við uppsögn.
Ákærði Magnús framsendi framangreinda skilmála samdægurs til EH og SÖS með ósk um að þeir tækju þá til skoðunar. Að undangengnum frekari orðsendingum milli þeirra fram eftir morgni 18. september 2008 létu EH og SÖS í té umsögn um skilmálana í tölvubréfi til ákærða Magnúsar, þar sem ýmsar athugasemdir voru gerðar.
6
Að morgni 18. september 2008 sendi BÓ tölvubréf til EH og var efni þess auðkennt sem „Suggested Cyprus Structure“. Kvaðst hann velta nokkuð vöngum „í kringum SPV, þ.e. hvort PPL ætti að hafa bæði fasta vexti (lága eins og við ræddum í gær) og breytilega vexti, sem þó væru ekki 100% af hagnaði fjárfestingar þar sem það er nokkuð aggresivt. Spurning hvort hægt sé að minnka það í t.d. 90% og breyta hlutföllum jafnframt til samræmis í SPV?“ Í svari stuttu síðar lét EH í ljós að sér litist vel á hugmyndir BÓ, en spurði hvort BÓ ætti ekki að ræða beint við starfsmann endurskoðunarfyrirtækisins á Kýpur, sem hafi verið búinn að fá eintak af „kynningunni“ og „hugmyndir um fasta vexti auk ppl vexti.“ Í þessu tölvubréfi varpaði EH einnig fram spurningu um hvort komin væri einhver niðurstaða um „flöggunarskyldu“. Um líkt leyti og þessi bréfaskipti fóru fram sendi BÓ tölvubréf til GJO, sem eins og fyrr segir átti sæti í stjórn Q Iceland Holding ehf., og var tiltekið að bréfið varðaði „fjármögnun Q Icelandic ehf.“ Það var svohljóðandi: „Heyri kannski í þér á eftir upp á að synca vinnu vegna þessa. K Lúx hefur verið í sambandi við mig út frá regulatory og skattahliðum málsins. Inn í þetta spilar hvernig profit sharing lánasamningi milli SPV og Q Ice er stillt upp. Langar að heyra í þér þegar þú losnar, svo þetta sé allt í fullu samráði.“
Upp úr hádegi 18. september 2008 sendi EH tölvubréf til SÖS, LS og BÓ og fylgdi því skjal, sem bar auðkennið „Structural Proposal II 16-09-08.ppt“. Í bréfinu sagði að þetta væri lítillega endurbætt útgáfa af skipuriti fyrir viðskiptin. Þessi útgáfa af skipuritinu var eins og sú fyrsta að því leyti að í lýsingu á viðskiptunum kom fram að MAT og hugsanlega fleiri fjárfestar hefðu í félagi við ákærða Ólaf í hyggju að setja upp fjárfestingaráætlun með því markmiði að fjármagna fjárfestingarfélagið Q Iceland Holding ehf. Að lokinni þeirri fjármögnun hefði félagið í hyggju að eignast 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. Þessi útgáfa skipuritsins var á hinn bóginn frábrugðin þeirri fyrstu að því leyti að þessu næst var tilgreint að hvor þeirra MAT og ákærði Ólafur myndi í þessu skyni eignast félag á Bresku Jómfrúareyjunum og myndi hvort félag taka að láni hjá Kaupþingi banka hf. 150.000.000 evrur með ábyrgð nefndra eigenda þeirra. Að auki bæri félögunum eða eigendunum að leggja til tryggingar í samræmi við almennar venjur á markaði. Láninu til hvors félags yrði síðan ráðstafað til sérstaks fjárfestingarfélags, sem yrði að jöfnu í eigu þeirra, í formi hlutafjár og hluthafalána, en þetta fjárfestingarfélag yrði stofnað á Kýpur. Í framhaldi af þessu var tiltekið á sama hátt og í fyrstu útgáfu skipuritsins að sérstaka fjárfestingarfélagið myndi lána Q Iceland Holding ehf. 200.000.000 evrur til að kaupa 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. og skyldu skilmálar lánsins taka mið af þróun á verðmæti þessara hlutabréfa. Í niðurlagi lýsingarinnar í annarri útgáfu skipuritsins var á hinn bóginn ekki lengur sagt að Kaupþing banki hf. væri í tengslum við þessi viðskipti reiðubúinn til að veita sérstaka fjárfestingarfélaginu aðgang að lánsfé að fjárhæð 200.000.000 evrur til annarra fjárfestinga, svo sem gert var í fyrstu útgáfunni, heldur að bankinn myndi taka þetta til athugunar. Myndræn lýsing á skipuritinu fylgdi sem fyrr annarri útgáfunni ásamt skýringartexta. Sú lýsing var frábrugðin þeirri, sem kom fram í fyrstu útgáfunni, að því leyti að í stað þess að sýna hvorn þeirra ákærða Ólafs og MAT sem eiganda að helmingi sérstaka fjárfestingarfélagsins voru sýnd á myndinni tvö ónefnd félög á Bresku Jómfrúareyjunum, sem hvor þeirra ætti að fullu, og þau félög ættu síðan hvort sinn helming í sérstaka fjárfestingarfélaginu, en sem fyrr rynni svo lánsfé frá því félagi til Q Iceland Holding ehf., sem að fullu væri í eigu MAT, til að kaupa 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. Skýringartexti með myndinni samrýmdist henni og var því ekki lengur rætt þar um að sérstaka fjárfestingarfélagið fengi til viðbótar við framlög hluthafanna lán frá Kaupþingi banka hf. að fjárhæð 200.000.000 evrur og hefði þannig yfir að ráða alls 500.000.000 evrum, heldur var ráðstöfunarfé félagsins sagt vera 300.000.000 evrur.
Eftir að EH hafði sent frá sér framangreinda útgáfu skipuritsins sendi starfsmaður Kaupthing Bank Luxembourg S.A. tölvubréf til hans, LS og SÖS, þar sem greint var frá því að félög á Bresku Jómfrúareyjunum væru „Serval Trading Group Corp. (Sheik) Gerland Assets Ltd. (OO)“, en félag á Kýpur væri Choice Stay Ltd. Í framhaldi af þessu sendi sami starfsmaður tölvubréf til EH og ákærða Magnúsar, þar sem fram kom að meðfylgjandi væru gögn um að búið væri kaupa félögin Serval Trading Group Corp. og Choice Stay Ltd. Um líkt leyti átti EH þrjú hljóðrituð símtöl við BÓ og liggja fyrir í málinu endurrit af þeim. Í fyrsta símtalinu sagði EH meðal annars að „ÓÓ verður fjármagnaður á Íslandi Sheikinn í London“, hann hafi rætt við ákærða Magnús að þeir yrðu hvor með sitt „boxið ofan á SIC-inu og boxin taka bara lán og þeir gefa bara personal guarantee ... Síðan þegar hagnaður kemur þá bara fer hann inn í félögin og þá eru bara lánin gerð upp“. EH sagði einnig að MAT yrði „unsecure“ og hafi sér verið sagt að ástæðan fyrir því væri sú að „þeir vilja í raun keyra á þetta eins hratt og hægt er og bara veita lánið með þessum formerkjum og fara svo að vinna í að collateralísera í framhaldi og það er þá annaðhvort taka þeir bara lánið persónulega og eða þá með guarantee ef að koma inn einhver box sem að taka lánin bara persónulega ábyrgð sko frá báðum“. Í öðru símtalinu greindi EH meðal annars frá því að hann hafi rætt nánar við SÖS og LS og hafi hún komið upp með „valid hérna sjónarmið inn í þetta“ sem fælust í spurningu um hvort það væri „einhver hætta á því að þetta súrni í höndunum á mönnum og þetta financial assistance geti komið upp? Banki sem fjármagnar í eðli sínu sjálfan sig. Kaupir í sjálfum sér Erum við með eitthvað svoleiðis í lögum heima sem að gæti eitthvað truflað þetta?“ Í þriðja símtalinu ræddu þeir nokkuð um skipuritið fyrir viðskiptin og hvort skylda gæti verið til flöggunar um þau í kauphöll, en í tengslum við það lét EH í ljós að þörf væri á að bæta inn í skipuritið félögum á Bresku Jómfrúareyjunum til að „aðeins að lengja í loop-unni sko“ og sagði þá BÓ að eitthvað hafi verið rabbað um að það gæti eins verið Kýpur. Í símtalinu sagði EH jafnframt að „Óli og [MAT]“ ættu hvor að fá að láni „150 milljónir“ og ætti það að gerast „eins hratt og auðið er þetta er bara þannig ég held að það sé, eigi bara að fara að tjakka, setja tjakkinn af stað, bara búa til eftirspurn“.
7
GÞG sendi tölvubréf síðdegis 18. september 2008 til HBL, þar sem boðaður var „fundur með HMS og MG“ milli klukkan 16 og 17 þann dag. GÞG og HBL gegndu samkvæmt gögnum málsins störfum viðskiptastjóra hjá Kaupþingi banka hf. og munu hafa heyrt undir framkvæmdastjóra útlána, BHD. Í hinum áfrýjaða dómi er rakið hvernig GÞG, HBL, BHD og ákærðu Hreiðar og Magnús greindu fyrir dómi frá því, sem fram fór á þeim fundi, en BHD kvaðst að hluta hafa setið fundinn, sem haldinn var um síma, enda munu báðir ákærðu hafa á þeim tíma verið staddir erlendis. Bar þeim öllum saman um það meginatriði að ákærðu hafi á fundinum greint frá fyrirhuguðum viðskiptum í tengslum við kaup félags á vegum MAT á hlut í Kaupþingi banka hf.
Í málinu liggur fyrir endurrit af hljóðupptöku af símtali milli HBL og SÖS, sem mun hafa byrjað skömmu eftir fyrrnefndan fund, en þar spurði SÖS hvort HBL væri „inni í Sheik dílnum eða [GÞG]“ og svaraði HBL að hann væri það eða reyndar þeir báðir, því þetta væru „tveir dílar“. Sagðist HBL vita „allt um þennan díl, ég ... var á fundi með Hreiðari og Magga áðan.“ SÖS lýsti því að næsta dag ætti að opna reikninga „fyrir þessi tvö félög á Íslandi og borga inn þar 100 milljónir evra lán til beggja félaganna og flytja“. Ætti þetta að fara inn á íslenska reikninga og síðan til Kýpur, því lánin, sem yrðu veitt þessum tveimur félögum á Bresku Jómfrúareyjunum, ætti að nota sem hlutafé eða hluthafalán til félags á Kýpur, sem ætti reikning í Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Lánsféð þyrfti að berast næsta dag, en farið væri með þetta „eins og mannsmorð“. Hefði verið unnið hratt við þetta ytra, gagnstætt því sem myndi verða hjá Kaupþingi banka hf., þar sem áreiðanleikakannanir vegna reglna um varnir gegn peningaþvætti gengju mjög hægt, en við bankann hér á landi þyrfti samt að stofna tvo reikninga. Kvaðst SÖS strax mundu senda það, sem hann hefði undir höndum um annað félagið á Bresku Jómfrúareyjunum, en „fyrir Ólafs félag ... get ég bara sent þér nafnið og sagt það verða nákvæmlega sömu upplýsingar“. Útbúa þyrfti skjöl um ákvarðanir hluthafa í þessum félögum um að taka lánin og ráðstafa fénu til félags á Kýpur og yrðu raunverulegir eigendur félaganna að undirrita þau. Héldi SÖS að „hans hátign eigi að vera í persónulegri ábyrgð fyrir sínu“ en Ólafur ekki. Sagði SÖS hvort þessara lána eiga að nema allt að 150.000.000 evrum, en 100.000.000 evrur af hvoru yrðu greiddar nú út til eins mánaðar. Skaut þá HBL því inn að þetta yrðu peningamarkaðsútlán „til að kaupa okkur frest til að ganga frá pappírunum“ og bætti SÖS við að þau yrðu síðan framlengd í þriggja ára lán. HBL sagði að síðar myndi „Singer og Friedlander taka út ... lánið til Sheiksins“ og þyrfti að „græja lánasamninga annars vegar á Sheikinn í Bretlandi og hins vegar hér á, á Óla.“ Svo væri annað mál, sem væri „strúktúr á ... CLN lánum nú er kominn þarna Minks og Brooks.“ Þeir veltu síðan fyrir sér hvers vegna þyrfti tvö félög, gagnstætt því sem hafi verið gert við tvenn fyrri slík viðskipti, og sagði síðan SÖS „að menn vildu slíta þetta lengra frá Kaupþings láninu þannig að þú værir ekki að hugsa um, sjá fyrir þér financial assistance ákvæði, sko.“ HBL sagði að það væri „bara verið að búa til lengri ... keðju einhverja“ og samsinnti SÖS því með þeirri viðbót að þá yrði „lagalega erfiðara að segja að þetta sé ólöglegt“. SÖS greindi svo frá því að hann væri „ekki sáttur við þetta“, Logos lögmannsþjónusta hafi gefið eitthvert álit um að þetta „væri ekki financial assistance þessi strúktúr sem við erum að fara inn í núna“, sem SÖS væri ósammála og kvaðst hann fullyrða að hann „viti jafnvel og LOGOS um þær reglur því in the end er sko lánið háð því hvernig Kaupþing gengur hitt er bara málamynda framlengingar sko“. Sagðist hann þó bara vilja koma þessari skoðun á framfæri, en hann hefði ekkert um það að segja, enda væri hann „ekki stjórinn“. HBL sagði síðan að „þetta eru tvö félög, allt gott og blessað með það en ... nú ætlum við að leyfa Sheiknum að taka út 50 milljón dollara í hagnað á morgun út af einhverjum CDS-um sem er ekki einu sinni búið að safna sko“. Spurði þá SÖS hvort „þið eruð að lána Brooks eða hvað“ og svaraði þá HBL að það væri „eiginlega spurningin sko ég hafði hugsað að það færi inn í Brooks og við myndum taka veð í CLN-inu, en Maggi var að tala um að það ætti bara að fara beint inn í Minks ég var ekki alveg sáttur við það“. Þeir ræddu síðan um flækjur, sem þetta gæti valdið vegna trygginga, því Deutsche Bank AG gæti átt kröfu og væri þá verra „að hafa hagnaðinn inni í Brooks út af því sko, en náttúrulega ef að CLN-ið fer í default þá náttúrulega er allt farið til fjandans hvort sem er sko“ eins og HBL komst að orði. Væri því miklu eðlilegra að hagnaður „fari inn í Brooks“, sem SÖS samsinnti. HBL bætti því svo við að það væri „búið að lofa honum 50 milljón dollurum meðan að hagnaðurinn af CLN-inu eru 70 milljón evrur hann er bara að fá rétt helminginn af hagnaðinum sko, en hann er samt 100% eigandi“ og stæðu þá eftir „35 evrur“. SÖS sagði að þá myndi vanta einhvern „samning á milli það verði að vera einhver profit share samningur þarna á milli sko, nú vildu menn slíta Kaupþings lánið frá þessu, þannig að ég sé ekki annað en að sko það verði að vera profit share samningur á milli Kaupþings“ og skaut þá HBL inn „og Sheiksins sko“ og síðan SÖS „og Minksins“. SÖS spurði undir lok símtalsins hvað væri „í þessu fyrir bankann annað en að spreadið lækkar“ og svaraði þá HBL að það væri „náttúrulega stóri díllinn það eru náttúrulega hlutabréfin sem hanga þar á spýtunni sko“.
Fljótlega eftir að símtali þessu lauk sendi HBL tölvubréf til HSK og ÓFG, sem báðir störfuðu á sviði fjárstýringar við Kaupþing banka hf. Bréfið var svohljóðandi: „Við þurfum að greiða EUR 200m og USD 50m MM inn á reikninga í Lux á morgun. Fáum reyndar á móti USD 50m frá Lux. Meira um það á morgun.“ HBL sendi einnig tölvubréf til GÞG, þar sem sagði: „Fór aðeins í gegnum þetta með [SÖS]. Hann vill fá EUR 200 milljónirnar inn á reikning í Lux. Við myndum greiða þá inn á reikninga hér hjá SPV-um í eigu Sjeihksins og ÓÓ. Þaðan þyrfti þetta að fara inn á reikning í Lux í eigu „QO Invest“ sem verður kýpur félag þar sem þeir myndu sitja þangað til „Q Invest IS“ er búið að kaupa bréfin þá verða peningarnir fluttir inn á reikning hjá þeim.“ Þessu svaraði GÞG nokkru síðar á eftirfarandi hátt: „OK, tha verdur Lux ad borga nidur somu upphaed I millifelagalan. Thetta a ad vera funding neutral.“ Í málinu liggur fyrir endurrit hljóðupptöku af símtali, sem HBL og HSK áttu í beinu framhaldi af fyrstnefnda tölvubréfinu, en í upphafi þess spurði HSK hvað væri að gerast í Luxembourg og svaraði HBL því til að þrjú félög þyrftu „á þessum peningum að halda“, þetta væru „tvisvar sinnum 100 milljón evrur og einu sinni 50 milljón dollarar“, sem yrði gengið frá sem peningamarkaðsútlán, væntanlega til fjögurra vikna. Sagði þá HSK að „við eigum ekki fyrir þessu“ og svaraði HBL því til varðandi 200.000.000 evrur að um tvö félög væri að ræða „sem munu eiga reikninga hér“ og yrði sú fjárhæð lögð inn á þá, síðan millifærð inn á reikning félags hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og kæmi svo féð þaðan „aftur hingað til Íslands eftir helgi“. HSK sagðist þá ekki hafa verið „að grínast með það, þetta kemst ekki út ... það er ekki til peningur fyrir þessu“. Spurði þá HBL hvort einhverju myndi breyta ef félagið, sem ætti að taka við fénu, ætti reikning í Kaupþingi banka hf. og svaraði HSK að „það myndi do the trick fyrir okkur sko. Að öðru leyti væri ekki hægt að gera þetta nema við myndum senda þetta út að morgni í evru til Luxembourg og við myndum fá þetta strax aftur til baka“. HBL spurði hvort það myndi leysa málið að „þetta Kýpurfélag ... sem á að fá peningana“ myndi stofna reikning í bankanum og játti HSK því. Sagðist þá HBL mundu „skoða það með þeim í Lúx ... af hverju þeir vildu endilega fá þetta inn á reikning hjá þeim.“ Að loknu þessu símtali sendi HBL tölvubréf til SÖS, þar sem hann spurði hvort ekki væri unnt að stofna reikning handa „þessu Kýpur félagi ... hér á Íslandi“, því „fjárstýringin er í vandræðum með að redda þessum peningum til að millifæra til Lux.“ Í gögnum málsins liggur ekki fyrir svar við þessu, en stuttu síðar áttu HBL og HSK aftur símtal, þar sem sá fyrrnefndi sagði að „vandamálið“ fælist í því að ekki myndi takast næsta dag „að keyra þetta félag“ í gegnum áreiðanleikakönnun hjá Kaupþingi banka hf. vegna reglna um varnir gegn peningaþvætti, en ætlunin væri „bara með handaafli að stofna einhverja reikninga þarna í Lúx“ án þess að slíkri könnun væri lokið. Sagði HBL síðan að ef ekki væri nokkur leið að útvega fé til að senda til Kaupthing Bank Luxembourg S.A. yrði að „snúa upp á hendina“ á þeim, sem stýri áreiðanleikakönnunum, og „koma þessum reikningum bara í gegn hér á Íslandi“, sem HSK samsinnti. Bætti HBL því við að þetta væri „bara díll sem var að koma í hús klukkan þrjú, Hreiðar, þetta kemur frá Hreiðari sko þannig að hérna þess vegna er verið að reyna að redda þessu svona á síðustu stundu sko.“ Undir lok samtalsins sagði HBL að greiðsla á 50.000.000 bandaríkjadölum yrði að fara til Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og yrði því fé eytt erlendis, en féð í evrum kæmi aftur til baka þaðan.
Gögn málsins sýna að eftir því sem leið frekar á daginn 18. september 2008 hafi nokkur tölvubréf gengið milli HBL og annarra starfsmanna Kaupþings banka hf. og jafnframt milli hans og starfsmanna Kaupthing Bank Luxembourg S.A., þar sem send voru að utan og síðan milli starfsmanna hér gögn og upplýsingar varðandi félögin Serval Trading Group Corp. og Gerland Assets Ltd., svo og Choice Stay Ltd. sem þá virðist fyrst hafa verið greint frá með nafni gagnvart starfsmönnum bankans hér á landi. Verður ekki annað séð en að þessi gögn og upplýsingar hafi farið á milli manna í tengslum við áreiðanleikakannanir vegna reglna um varnir gegn peningaþvætti og annan undirbúning þess að stofna til bankaviðskipta fyrir erlendu félögin hér á landi.
Þegar liðið var langt fram á kvöld 18. september 2008 sendi ákærði Magnús tölvubréf til EH, GÞG og ákærða Hreiðars, sem var svohljóðandi: „Hi Frekari upplysingar Olafur mun hitta logmann [MAT] a laugardag Vid thurfum ad hafa ALLT klart a morgun og senda a olaf I rafraenu formi, [EH] tu getur bodid olafi ad annad hvort eg eda tu komum til london ef olafur vill, eda badir Bo declaration Lanaskjol Abyrgdir Allt allt allt please, vid faum ekki annad taekifaeri til undirritanna Vid skulum skuldbinda okkur ad afletta personulegum abyrgdum gegn vedi I odrum eignum midad vid almenna bankavenju I thekju Vinsamlega hafid oll skjol med theim lanum sem verda theirra heildarlan [MAT] 150m eur. Jafnvel to ad hann dragi adeins 100 Til vidbotar vid thad sem var akvedid i dag tha munum vid gefa lanalinu til [SAT], [EH] tu ert med allar uppl I bankanum um hann, upphaedin er 50 m eur Thessi upphaed verdur ekki dreginn strax, en tharf ad vera, Klar [EH] og [GÞG], once again vid reidum okkur a ad klara thetta Einhverjar spurningar Kv magnus“. GÞG framsendi þetta tölvubréf næsta morgun til HBL til upplýsinga.
8
Samhliða þeim atvikum, sem reifuð voru hér að framan, fór fjöldi tölvubréfa milli sömu manna 18. og 19. september 2008, sem sneru að hugsanlegum viðskiptum félags á vegum MAT við Deutsche Bank AG með „Credit Linked Notes“. Þannig sendi EH snemma morguns 18. september orðsendingu til ákærða Magnúsar, BK og SÖS, þar sem spurt var hvort nokkur hafi sinnt því að biðja Kaupþing banka hf. um að lána fé til Mink Trading Corp. til að eiga slík viðskipti. LS sendi tölvubréf meðal annars til SÖS, EH og BK, þar sem hún kvað það nauðsynlegt að opna reikning fyrir Mink Trading Corp. hjá Kaupþingi banka hf. vegna þessara viðskipta, en tók fram að upplýsingar um eiganda félagsins væru viðkvæmar og ætti því ekki að ræða þetta við aðra en þá, sem bréfið færi á milli. Þá sendi sú sama stuttu síðar annað tölvubréf til HBL, ákærða Magnúsar, SÖS og EH, þar sem fram kom að í undirbúningi væru þriðju viðskiptin við Deutsche Bank AG með „Credit Linked Notes“, sem yrðu samsvarandi þeim fyrri, en þau yrðu við Mink Trading Corp. Væri viðsemjandinn þessu sinni MAT, sem væri persónulegur samstarfsmaður ákærða Ólafs, og hafi henni skilist á ákærða Magnúsi að skilmálar í þetta skipti ættu að vera nákvæmlega eins og í fyrri tilvikunum. Skjöl hafi verið útbúin því til samræmis, en vegna tímaskorts hafi ákærði Magnús farið með þau sjálfur til viðsemjandans í liðinni viku. Óskaði hún eftir staðfestingu á því að skilmálar láns frá Íslandi yrðu eins og ráðgert væri í skjölum, sem fylgdu tölvubréfinu, en ef svo yrði ekki þyrfti að fá upplýsingar um það sem fyrst, því lögmaður viðsemjandans í London hefði skjölin til skoðunar. Væri þörf frekari upplýsinga um þessa ráðstöfun kynni HBL að vilja ræða það við ákærða Hreiðar. Opna þyrfti bankareikning á Íslandi um leið og undirrituð skjöl bærust og væri því óskað eftir eyðublöðum til að flýta fyrir.
Eftir þau samskipti, sem að framan greinir, sendi HBL tölvubréf til ákærða Hreiðars og var tilgreint þar að efni þess varðaði „H.H. [MAT]“. Þetta bréf var svohljóðandi: „Ég var að fá þriðju CDS transaktionina frá LUX inn á borð til mín þar sem [MAT] er BO. Ég heyrði líka frá [GÞG] að þú hefðir látið hann vita að þetta væri á leiðinni. Til að vera viss eigum við ekki að afgreiða þetta á sömu kjörum og fyrri tvö lán þ.e.a.s. 150 bps álag og 145 bps lántökugjald? Eigum við líka að leyfa honum að taka hagnaðinn af þessu strax út eins og hinum þ.e.a.s. að lána honum USD 50 milljóna hagnaðinn?“ Ekki liggur fyrir í málinu svar við þessu bréfi, en HBL sendi á hinn bóginn í framhaldi af þessu tölvubréf til ákærða Magnúsar, LS, SÖS og EH, þar sem hann kvað skilmála láns frá Kaupþingi banka hf. myndu verða eins og í fyrri tilvikum, en jafnframt óskaði hann eftir upplýsingum um hvenær þyrfti að greiða þetta lán út. Þessu svaraði LS um hæl með tölvubréfi til HBL, ákærða Magnúsar, SÖS og EH, þar sem sagði að greiða þyrfti út lánið svo fljótt sem auðið væri. HBL sendi strax aftur tölvubréf til þeirra sömu og óskaði eftir upplýsingum um hverja fjárhæð ætti að greiða og hvernig, en tók fram að þetta yrði sem fyrr gert með peningamarkaðsútláni. Þessu svaraði síðan LS með enn einu tölvubréfi til þeirra sömu ásamt BK, þar sem sagði að enn væri beðið eftir undirskrift eiganda félagsins og væri því ekki unnt að gefa greiðsluupplýsingar, en óskað væri þó eftir að skjöl yrðu undirbúin. Tók hún fram að BK myndi fylgja þessu eftir gagnvart lögmanni eigandans í London og kynni hann eða ákærði Magnús að geta upplýst hvenær þetta þyrfti að gerast, en það gæti orðið innan tveggja daga.
Að kvöldi 18. september 2008 sendi síðan HBL tölvubréf til LS, EH, SÖS og ákærða Magnúsar, þar sem hann kvaðst fyrr þennan dag hafa rætt við ákærðu Hreiðar og Magnús um hvort lán að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir ætti að fara til Mink Trading Corp. eða Brooks Trading Ltd. Hann hafi svo rætt þetta mun nánar við SÖS og hafi þeir orðið sammála um að þetta lán, sem svaraði til hagnaðar sem eigandi félaganna ætti í vændum, yrði veitt Brooks Trading Ltd., því á þann hátt væri unnt að taka tryggingu fyrir láninu í „Credit Linked Notes“. Spurði HBL hvort þau sæju nokkuð þessu til fyrirstöðu. Kvaðst hann eðlilega ekki vita hvað MAT hygðist gera við þetta fé, en spurði svo hvort ekki mætti færa síðan féð frá Brooks Trading Ltd. til Mink Trading Corp. og láta MAT eftir að fara með það eins og honum sýndist. HBL sagðist hafa skilið þetta svo að þetta fé svaraði til þess, sem MAT ætti að hafa út úr þessum viðskiptum, en afgangur hagnaðar myndi renna til Kaupþings banka hf. Af þessum sökum yrði að gera einhvern samning um skiptingu hagnaðarins, sem yrði hluti lánssamnings milli bankans og Mink Trading Corp. um 130.000.000 evrur. Bað HBL um að þetta yrði leiðrétt hafi hann misskilið eitthvað og óskaði hann svo að endingu eftir því að fá með nokkurra daga fyrirvara upplýsingar um hvenær greiða þyrfti þetta síðastnefnda lán út.
Sama kvöld sendi HBL tölvubréf til starfsmanns á lögmannsskrifstofunni BBA Legal og fjallaði þar um undirbúning skjala í tengslum við viðskipti við Deutsche Bank AG með „Credit Linked Notes“. Kom þar meðal annars fram að í bígerð væri að gera þriðja slíka samninginn og væri hann fyrir „Minks/Brooks“. Þessu svaraði starfsmaður lögmannsstofunnar með tölvubréfi um miðbik næsta dags og sendi HBL í framhaldi af því aðra orðsendingu til hans, þar sem hann greindi nánar frá atriðum í þessu sambandi, sem sneru að Mink Trading Corp. og Brooks Trading Ltd. Sagði þar að fyrrnefnda félagið væri móðurfélag þess síðarnefnda og væri það í eigu MAT. Yrði Mink Trading Corp. viðsemjandi Deutsche Bank AG í þessum viðskiptum. MAT ætti þó aðeins að fá 50.000.000 bandaríkjadali af hagnaðinum af þessum viðskiptum, sem ætti að öðru leyti að renna til Kaupþings banka hf., en gera þyrfti samning um þessa skiptingu hagnaðarins, sem yrði hluti af lánssamningi milli bankans og Mink Trading Corp.
Í framhaldi af síðastgreindum bréfaskiptum sendi HBL tölvubréf 19. september 2008 til ákærða Magnúsar, þar sem hann spurði hvort ákærði gæti staðfest að það væri réttur skilningur hjá HBL að MAT ætti að hámarki að fá 50.000.000 bandaríkjadali vegna þessara viðskipta, sem ættu að fara inn á reikning hans þennan dag, en „bankinn taki restina af hagnaðinum af CLNinu.“ Væri það svo þyrfti að „útbúa einhvern profit sharing samning samhliða lánssamningnum við Mink.“ Þessu svaraði ákærði Magnús þegar í stað og staðfesti að skilningur HBL væri réttur, en „við stillum thad af a seinni stigum thegar vid. Hofum tradad, annad hvort med voxtum eda thoknun“. Þessum samskiptum lauk síðan með því að HBL sendi aftur tölvubréf til ákærða Magnúsar og sagðist mundu bíða með að búa til „profit sharing samning“ þar til hann heyrði frá ákærða „með endanlega lendingu á því.“
9
Brooks Trading Ltd. lagði 18. september 2008 fram umsókn til Kaupþings banka hf. um að opna þar bankareikning, en félagið hafði 16. sama mánaðar gert það sama hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Sem fyrr segir var af hálfu félagsins 19. sama mánaðar fyllt út eyðublað frá Kaupþingi banka hf. til að veita upplýsingar fyrir áreiðanleikakönnun vegna reglna um varnir gegn peningaþvætti. Að morgni 19. september 2008 sendi HBL tölvubréf til nokkurra starfsmanna Kaupþings banka hf., þar sem sagði að skrá þyrfti Brooks Trading Ltd. í lánakerfi bankans „þannig að við getum afgreitt USD 50m MM lán til þeirra með value í dag.“ Nokkru eftir hádegi þennan dag var HBL svo tilkynnt að áreiðanleikakönnun á félaginu væri lokið.
HBL sendi að morgni föstudagsins 19. september 2008 tölvubréf til LS, SÖS, EH og ákærða Magnúsar með beiðni um upplýsingar um hvert greiða ætti 50.000.000 bandaríkjadali, sem Brooks Trading Ltd. væri að taka að láni. Þetta virðist hafa orðið tilefni til þess að HBL átti símtal þennan morgun við SÖS og LS, sem var hljóðritað og liggur fyrir í málinu endurrit af því. Í byrjun samtalsins vísaði SÖS til þess að borist hafi ósk frá HBL um greiðslufyrirmæli vegna þessa láns til Brooks Trading Ltd. og skaut LS því inn að hún væri ekki viss um hvort hún væri ein um að skilja þetta ekki. Spurði SÖS hvort Kaupthing Bank Luxembourg S.A. ætti að búast við greiðslu frá Kaupþingi banka hf. til Brooks Trading Ltd. og kvað HBL svo vera, enda væri ætlunin að félagið ætti viðskipti við Deutsche Bank AG um svonefnd „Credit Linked Notes“. Hafi orðið að samkomulagi milli Kaupþings banka hf. og MAT að hagnaður hans af þeim viðskiptum yrði 50.000.000 bandaríkjadalir, sem hann ætti að fá þennan dag. SÖS sagði þetta valda þeim áhyggjum, því þau hefðu enga skilmála fengið frá Deutsche Bank AG um þessi viðskipti og spurði hann hvernig Kaupþing banki hf. gæti þá greitt MAT þessa fjárhæð þegar engin vissa væri fyrir að viðskiptin kæmust á eða bréfin yrði keypt. Sagði þá HBL að rætt hafi verið um það daginn áður hvort MAT ætti að ganga inn í annan samning við Deutsche Bank AG, sem lengra væri kominn, en um það hafi ákærðu Hreiðar og Magnús ekki verið á einu máli og hafi þeir því ætlað að ræða þá um kvöldið við starfsmenn bankans um að koma þessum nýja samningi á. Hafi ákærðu án tillits til þessa viljað millifæra 50.000.000 bandaríkjadali til MAT. LS virtist þá ætla að leggja eitthvað til mála, en HBL greip fram í fyrir henni með orðunum: „No, no ifs or buts just transfer, that was kind of the, the message“. SÖS spurði þá hvort þetta ætti að verða fyrirframgreiddur hagnaður eða lán og sagði HBL að þetta væri það fyrrnefnda eða hlutdeild MAT í hagnaðinum. Kvaðst SÖS þá vera ruglaður og spurði hvort ætlast væri til að Brooks Trading Ltd. sendi Kaupþingi banka hf. beiðni um að 50.000.000 bandaríkjadalir yrðu fluttir á reikning félagsins hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og sagði HBL svo vera. Spurði þá SÖS hver ætti að skrifa undir beiðni um þetta, því venjulega þyrfti raunverulegur eigandi félags að biðja um ráðstöfun sem þessa, og sagði þá HBL að líklega þyrfti ekki annað en að skrifa undir eitt blað um peningamarkaðslán, en þetta yrði bókað hjá Kaupþingi banka hf. sem þess háttar lán til þriggja eða fjögurra vikna. Lýsti SÖS þá undrun sinni á því að fólk gæti reiknað út hagnað af viðskiptum, sem það hefði enga skilmála um. Ítrekaði HBL að samið hafi verið um að MAT fengi 50.000.000 bandaríkjadali þennan dag og væri það helmingur væntanlegs hagnaðar af viðskiptunum við Deutsche Bank A.G., sem honum skildist að rynni að öðru leyti til Kaupþings banka hf. Hann bætti því síðan við að hann gæti samsinnt því að þetta væri nokkuð sérkennilegt. Eftir þetta beindist samtalið að vandkvæðum við að opna bankareikninga fyrir erlendu félögin og sagði HBL í því sambandi að tækist ekki í tæka tíð að koma kýpverska félaginu gegnum áreiðanleikakönnun vegna reglna um varnir gegn peningaþvætti yrði að fá ákærða Hreiðar til að samþykkja að reikningur yrði opnaður fyrir það án slíkrar könnunar.
Samkvæmt endurriti af öðru símtali, sem var hljóðritað og HBL átti við HSK nokkru eftir að því framangreinda lauk, kvað HBL það mundu dragast fram yfir hádegi þennan dag að ljúka áreiðanleikakönnun vegna reglna um varnir gegn peningaþvætti á erlendu félögunum til að geta opnað fyrir þau reikninga hjá Kaupþingi banka hf. Lánsfé til Brooks Trading Ltd. yrði hvað sem þessu liði að flytja til Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Sá banki myndi á hinn bóginn greiða féð til baka samdægurs vegna skuldar við Kaupþing banka hf. Sagði þá HSK að best yrði ef það mætti einfaldlega skuldajafna þessu milli bankanna og kvaðst HBL myndu athuga það.
Um hádegisbil 19. september 2008 sendi LS tölvubréf til HBL, SÖS, EH og ákærða Magnúsar, þar sem hún spurðist fyrir um hvort lán til Brooks Trading Ltd. ætti að fara á reikning hjá Kaupþingi banka hf. eða Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Þessu svaraði EH stuttu síðar með tölvubréfi til þeirra sömu og kvað greiðsluna eiga að berast inn á reikning hjá síðarnefnda bankanum, en með þessu ætti nafngreindur starfsmaður þar að fylgjast og var HBL beðinn um að láta vita þegar greiðsla hefði farið fram. HBL svaraði þessu enn með tölvubréfi til þeirra sömu og sagði það vera rétt að greiðsla þessi ætti að fara á reikning Brooks Trading Ltd. hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Sá banki ætti á hinn bóginn í beinu framhaldi að endurgreiða eitthvert lán til Kaupþings banka hf., þannig að í reynd ætti ekkert fé að fara milli bankanna. Af þessum sökum vildu starfsmenn fjárstýringar hjá Kaupþingi banka hf. vita hvort ekki mætti skuldajafna þessu og ef svo væri hver sú skuld Kaupthing Bank Luxembourg S.A. væri, sem ætti að nota í þessu skyni. Þessi bréfaskipti virðast hafa gefið tilefni til enn eins símtals, sem var hljóðritað, en í þetta sinn ræddust við HBL, SÖS og LS ásamt starfsmanni Kaupthing Bank Luxembourg S.A. að nafni FXC. Í byrjun samtalsins sagði SÖS að þau þar ytra væru með spurningarmerki í andliti eftir síðasta tölvubréf HBL, sem svaraði því til að ákærði Magnús hafi sagt daginn áður að þessi flutningur á fé ætti að fara fram á þann hátt að Kaupþing banki hf. sendi fjárhæðina út og Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sendi hana jafnharðan til baka sem endurgreiðslu á einhverju láni. HBL kvaðst kjósa frekar að skuldajafna milli bankanna í bókum á Íslandi. FXC spurði þá hvort féð ætti að fara út af reikningi Brooks Trading Ltd. til einhvers þriðja manns og svaraði HBL að það ætti að verða kyrrt á þeim reikningi þar til ákærði Magnús segði annað. FXC lagði þá til að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. lánaði Kaupþingi banka hf. þessa fjárhæð til næsta föstudags, því þá væri gjalddagi á einhverjum skuldum fyrrnefnda bankans við þann síðarnefnda. Virðist sem HBL hafi samþykkt þetta og ítrekaði hann síðan að féð ætti að standa á reikningnum þar til ákærði Magnús mælti fyrir um annað. FXC fann síðan að því að enginn fyrirvari hafi verið veittur fyrir ekki stærri banka en Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og tók HBL undir það. Hann bætti því svo við að sannast sagna hafi verið mikill asi, því ákærðu Hreiðar og Magnús hafi mælt fyrir um að þetta skyldi gert þennan dag, en í sannleika sagt vissi hann ekki til hvers nota ætti þetta fé. Við svo búið sagðist LS mundu senda greiðslufyrirmæli.
LS sendi tölvubréf til lögmannsins KVE, sem hafði eins og áður greinir umboð til að koma fram fyrir hönd stjórnar Brooks Trading Ltd. Í bréfinu sagði að fyrirmæli um greiðslu vantaði frá félaginu vegna láns að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir, sem ætti að berast til Kaupthing Bank Luxembourg S.A. þennan dag frá Íslandi. Hafi bankinn gert uppkast að texta um þau fyrirmæli, sem var tekið upp í tölvubréfinu, og jafnframt yfirlýsingu um ákvörðun hluthafa í Brooks Trading Ltd. um lántökuna. Þá yfirlýsingu myndi eigandi félagsins, MAT, undirrita um komandi helgi þótt lánið yrði greitt út strax. Óskaði hún eftir því að þessu yrði sinnt sem fyrst, því þetta þyldi ekki bið. Stuttu síðar svaraði KVE þessu erindi með tölvubréfi til LS, SÖS og EH og spurði hvort þetta dygði. Þótt tölvubréfið beri ekki með sér hvort eitthvað hafi fylgt því má augljóst vera af þessari spurningu að þar hafi fylgt með bréf, sem liggur fyrir í málinu og var beint til Kaupþings banka hf. af KVE fyrir hönd Brooks Trading Ltd., þar sem sagði að með vísan til þess að peningamarkaðsútlán til eins mánaðar yrði greitt þennan dag frá bankanum til félagsins að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir væri þess farið á leit að féð yrði lagt inn á nánar tilgreindan reikning þess hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. LS svaraði eftir skamma stund með þeim orðum í tölvubréfi að þetta væri fullkomið. Hún sendi jafnframt þessi greiðslufyrirmæli með tölvubréfi, sem beint var til HBL, SÖS, EH og ákærða Magnúsar. Í framhaldinu sendi hún síðan annað tölvubréf til BK, EH, SÖS og ákærða Magnúsar, þar sem sagði að greiðslufyrirmæli vegna láns Brooks Trading Ltd. hafi verið send til Kaupþings banka hf., en féð ætti að millifæra á þann hátt að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. skuldajafnaði við lán frá Kaupþingi banka hf. Bað hún þá um að gera ráðstafanir til að fá lánið bókað inn á reikning Brooks Trading Ltd. í bandaríkjadölum hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A.
Eftir að skipst hafði verið á framangreindum bréfum beindi HBL tölvubréfi til LS, FXC, EH, SÖS og ákærða Magnúsar, þar sem hann óskaði eftir að staðfest yrði að FXC og HSK hefðu rætt um að ekkert fé yrði sent frá Kaupþingi banka hf. til Kaupthing Bank Luxembourg S.A. vegna láns til Brooks Trading Ltd., heldur yrði beitt skuldajöfnuði og legði síðarnefndi bankinn lánsféð inn á reikning félagsins. Þessu svaraði FXC með tölvubréfi og staðfesti að rétt væri með farið, svo og að engin greiðsla færi milli bankanna tveggja. HBL sendi tölvubréf til HSK og ÓFG, þar sem vísað var til meðfylgjandi fyrirmæla frá Brooks Trading Ltd. um hvert greiða ætti út lán til félagsins, en tekið var fram að HSK hafi rætt við FXC, sem hafi samþykkt að „netta þetta“ og ætti „því ekki að vera nein raunveruleg millifærsla.“
Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sendi Kaupþingi banka hf. 19. september 2008 svonefnt SWIFT-skeyti, þar sem fram kom í skýringartexta að Kaupþing banki hf. ætti að greiða Kaupthing Bank Luxembourg S.A. 50.000.000 bandaríkjadali þennan dag fyrir viðskiptamann þess síðarnefnda, en hafi óskað eftir því að krafa sín á hendur Kaupthing Bank Luxembourg S.A. yrði lækkuð sem því næmi. Með því að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. stæði í engri skuld við Kaupþing banka hf. í bandaríkjadölum myndi sá fyrrnefndi lána þeim síðarnefnda fjárhæðina frá þessum degi til 29. sama mánaðar, þegar næst væri gjalddagi á skuldum hans, og mætti þá lækka þær í einhverjum öðrum gjaldmiðli. Væri þetta lán boðið með tilteknum vöxtum og yrði ekkert fé millifært þennan dag, en um þetta vissi „[H]“. Þetta boð var samþykkt og gaf Kaupthing Bank Luxembourg S.A. stuttu síðar út staðfestingu um samning þessa efnis.
Um miðjan dag 19. september 2008 áttu HBL og HSK símtal, sem var hljóðritað og liggur fyrir í málinu endurrit af því. Ræddu þeir þar um að lokið hafi verið áreiðanleikakönnun á Brooks Trading Ltd. vegna reglna um varnir gegn peningaþvætti og gengið hafi verið frá því að greiðslu Kaupþings banka hf. til Kaupthing Bank Luxembourg S.A. vegna láns til félagsins yrði jafnað út. Útborgun á lánum að fjárhæð 200.000.000 evrur til félaga, sem þeir nefndu Serval og Gerland, hafi á hinn bóginn verið frestað til næsta mánudags og færi þá féð inn á reikning félags, sem héti Choice, þar sem það yrði notað til að „settla trade á hlutabréfum“. Yrði þetta allt gert með millifærslum innan Kaupþings banka hf. Fyrstnefndu félögin tvö fengju peningamarkaðslán og spurði HBL hvort ekki þyrfti að skrifa undir eitthvað vegna þeirra, sem HSK játti. Bætti HBL því þá við að ákærðu Hreiðar og Magnús væru að fara að hitta MAT næsta morgun og hafi þeir beðið hann „um að senda sér innan klukkutíma ... allt sem að þeir þurfa að skrifa undir“.
Stuttu eftir framangreint símtal sendi HBL tölvubréf til starfsmanns Kaupþings banka hf., þar sem fram kom að meðfylgjandi væri lánsbeiðni fyrir Mink Trading Corp., Brooks Trading Ltd. og Serval Trading Group Corp., sem væru nýstofnuð fjárfestingarfélög og þyrftu þau „að fara á undanþágulista.“ Í þessari beiðni, sem HBL beindi til lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf., var greint frá því að Brooks Trading Ltd. væri félag, sem hafi verið stofnað til að eiga viðskipti við Deutsche Bank AG með svonefnd „Credit Linked Notes“. Það félag væri í eigu Mink Trading Corp. og væri raunverulegur eigandi þess MAT. Leitaði síðastnefnda félagið eftir láni að fjárhæð 130.000.000 evrur til að leggja Brooks Trading Ltd. til vegna þeirra viðskipta. Þá leitaði Brooks Trading Ltd. einnig eftir láni, að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir, en það væri hluti hagnaðar af fyrrnefndu viðskiptunum. Loks væri sami maður einnig raunverulegur eigandi Serval Trading Group Corp., sem óskaði eftir láni að fjárhæð 150.000.000 evrur „to invest in some securities.“ Væri mælt með því að þessar beiðnir yrðu allar teknar til greina. Tölvubréfi HBL var svarað fáum mínútum síðar með þeim orðum að félögin yrðu sett „á undanþágu í bili.“ Ekki var þar frekar um það rætt hvenær lánsbeiðnin kæmi til meðferðar hjá lánanefndinni, en eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi laut undanþágan, sem vísað var til í þessum orðsendingum, að almennum skilyrðum í lánareglum bankans um lánshæfismat. Á hinn bóginn liggur fyrir í málinu tölvubréf, sem BHD sendi 21. september 2008 til ákærðu Sigurðar og Hreiðars, BÓ og GPP, sem skipuðu lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf., þar sem taldar voru upp lánsbeiðnir, sem koma ættu til umfjöllunar á fundi nefndarinnar 24. september 2008. Í þeirri upptalningu var einn liðurinn: „[MAT] lánsbeiðni“, en tölvubréfið ber með sér að allar beiðnirnar, sem fjalla átti um á fundinum, hafi fylgt því.
Um miðjan dag 19. september 2008 sendi HSK tölvubréf til HBL og kvaðst mundu útbúa „lán á Brooks, Serval og Gerland“ um leið og staðfest væri að áreiðanleikakönnun á þeim vegna reglna um varnir gegn peningaþvætti væri lokið og „búið er að stofna í kerfum.“ Yrði „Brooks nettað við Lúx, Serval og Gerland með allt flæði innan bankans.“ Sagðist HSK mundu láta af hendi staðfestingu fyrir þessu, sem senda mætti áfram.
HBL barst þessi staðfesting með tölvubréfi stuttu síðar og virðist hún hafa verið í formi samnings milli Kaupþings banka hf. og Brooks Trading Ltd. um peningamarkaðsútlán nr. 398424/449463 að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir. Vítt og breitt í gögnum málsins liggja fyrir alls fimm eintök af þessum samningi og eru þau öll samhljóða að gættu því að þrjú eru á íslensku og tvö á ensku. Ekkert þeirra var undirritað. Kveðið var á um að fjárhæðin yrði greidd út 19. september 2008 og gjalddagi skuldarinnar væri 30. sama mánaðar. Tiltekið var inn á hvaða bankareikning endurgreiðsla ætti að berast, en ekki var fyllt út eyða, sem ætluð var fyrir tilgreiningu bankareiknings vegna útborgunar á láninu. Af gögnum málsins verður ráðið að í bókum Kaupþings banka hf. hafi verið færð lánveiting til Brooks Trading Ltd. 19. september 2008 að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir með gjalddaga 30. sama mánaðar, svo og lántaka frá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sem andhverfa af henni.
Í málinu liggur fyrir endurrit af hljóðrituðu símtali, sem SÖS og GÞG áttu að áliðnum degi 19. september 2008. Þar ræddu þeir meðal annars um að komin væri staðfesting um frágang á máli Brooks Trading Ltd., sem GÞG sagði að væri „hagnaðurinn ... af hérna CLN trade-inu“. Skaut þá SÖS því inn að það væri „svolítið gaman að vera búinn að reikna hann út þegar Deutsche er ekki búinn að senda okkur einu sinni skilmála eða samþykkja að þeir fari í dílinn“ og svaraði GÞG með orðunum: „Já, já, ég veit“.
10
Af gögnum málsins verður séð að föstudaginn 19. september 2008 hafi áfram verið unnið að skipuriti vegna viðskipta með hluti í Kaupþingi banka hf., en að morgni þess dags barst EH með tölvubréfi álitsgerð frá endurskoðunarfyrirtækinu Ernst & Young Cyprus Ltd. um atriði varðandi skattlagningu kýpversks félags, sem kæmi að þeim viðskiptum. Álitsgerð þessa framsendi EH til BÓ.
Stuttu eftir þetta sendi EH jafnframt tölvubréf til starfsmanns Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem hann hafði áður verið í samskiptum við vegna þessa atriðis, og kvað hann það hafa þróast nokkuð frá því að leitað hafi verið eftir áliti endurskoðunarfyrirtækisins. Þannig væri ekki lengur ráðgert að Kaupþing banki hf. veitti nokkurt lán til annarra fjárfestinga. Þá myndu ákærði Ólafur og MAT hvor um sig eiga félag á Bresku Jómfrúareyjunum og myndu þau félög í þeirra stað eiga sérstaka fjárfestingarfélagið. Auk þessa hefði BÓ ný atriði fram að færa varðandi lán síðastnefnda félagsins til Q Iceland Finance ehf. Í framhaldi af þessu sendi starfsmaðurinn tölvubréf, þar sem hann bauð BÓ að senda beint til sín hugmyndir um breytingar á þessum ráðagerðum, og svaraði BÓ því um hæl að það myndi hann gera.
11
Gögn málsins bera með sér að samhliða þeirri afgreiðslu á láni til Brooks Trading Ltd., sem greint var frá hér að framan, hafi starfsmenn Kaupþings banka hf. og Kaupthing Bank Luxembourg S.A. unnið föstudaginn 19. september 2008 hörðum höndum að öðrum þáttum í viðskiptunum, sem tengdust MAT. Þannig sendi EH laust eftir miðnætti þennan dag tölvubréf til samstarfsmanns síns hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og kvaðst hann engin tölvubréf hafa fengið um hvað hafi verið sent GÞG eða HBL af skjölum fyrir félög á Bresku Jómfrúareyjunum, sem ætluð væru MAT og ákærða Ólafi. Óskaði EH eftir staðfestingu á því að skjölin hefðu þegar verið send eða það yrði gert strax um morguninn. Tók hann fram að stefnt væri að því að öll þessi skjöl, sem Kaupthing Bank Luxembourg S.A. legði til vegna félaganna og Kaupþing banki hf. vegna lána, yrðu undirrituð 20. sama mánaðar. Þetta væri mjög mikilvægt og því óskað eftir að starfsmaðurinn legði til hliðar öll önnur viðfangsefni ef þess gerðist þörf. Snemma nætur sendi EH jafnframt tölvubréf til GÞG og ákærðu Hreiðars og Magnúsar til að bera upp hvort skilningur sinn á tilteknum atriðum varðandi viðskipti MAT og SAT við Kaupþing banka hf. væri réttur, en hann tók fram að allt væri að öðru leyti á hreinu. Þessu svaraði ákærði Magnús um hæl með tölvubréfi til þeirra sömu, þar sem sagði: „Rett Fardu ad sofa“. Þessu virðist EH ekki hafa sinnt, enda ritaði hann tveimur klukkustundum síðar tölvubréf til BK, GÞG og ákærða Magnúsar með ósk um að BK sendi tiltekin gögn til GÞG, sem þyrfti að „draga upp lánsskjöl strax í fyrramálið“.
Í málinu liggja fyrir yfir 60 tölvubréf og endurrit af hljóðrituðum símtölum 19. september 2008 milli starfsmanna Kaupþings banka hf. og Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem bera með sér hvernig vinnu vatt fram þann dag við að opna reikninga hjá bönkunum fyrir Choice Stay Ltd., Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp. ásamt Brooks Trading Ltd. og skrá félögin að öðru leyti í kerfum fyrrnefnda bankans, sem virðast hafa tengst lánsviðskiptum. Áður en degi þessum lauk virðist þeim viðfangsefnum hafa í mörgum atriðum verið lokið vegna allra félaganna, en í því skyni höfðu meðal annars verið send milli starfsmanna bankanna fjölmörg skjöl í tengslum við áreiðanleikakönnun á félögunum vegna reglna um varnir gegn peningaþvætti og umsóknir félaganna um reikningsviðskipti. Gögn málsins bera þó með sér að einhverjir endar hafi enn verið lausir þegar hér var komið sögu, enda fóru tölvubréf milli GÞG og HBL daginn eftir, þar sem því var velt upp hvort styðjast mætti við áreiðanleikakönnun Kaupthing Bank Luxembourg S.A. á MAT vegna reglna um varnir gegn peningaþvætti til að geta opnað reikning hjá Kaupþingi Banka hf. fyrir Choice Stay Ltd. og virðist sem niðurstaðan hafi orðið sú að slík könnun yrði að fara fram hjá bankanum hér á landi í komandi viku. Áreiðanleikakönnunum Kaupthing Bank Luxembourg S.A. á Serval Trading Group Corp., Brooks Trading Ltd. og Gerland Assets Ltd. vegna reglna um varnir gegn peningaþvætti virðist heldur ekki hafa lokið fyrr en 22. og 24. september 2008. Vinna innan Kaupþings banka hf. við slíka könnun á Serval Trading Group Corp. stóð eftir gögnum málsins einnig yfir 22. september ásamt þeirri könnun á Choice Stay Ltd., sem vikið var að í fyrrnefndum tölvubréfum.
Auk þess, sem að framan greinir, höfðu 19. september 2008 verið dregin upp skjöl, sem virðist enn hafa vantað í tengslum við eignarhald að þessum félögum, þar á meðal kaupsamningur um hluti í Serval Trading Group Corp. Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafði jafnframt sent bréflegar tilkynningar til MAT og Gerland Assets Ltd. um að opnaðir hafi verið bankareikningar fyrir þá og um flokkun þeirra í markaðsviðskiptum með verðbréf. Þá höfðu verið gerð skjöl til undirritunar vegna væntanlegra lánsviðskipta Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp. við Kaupþing banka hf., þar á meðal um ákvörðun hluthafa í félögunum um að taka þessi lán og ráðstöfun lánsfjárins til Choice Stay Ltd., auk þess sem gerð höfðu verið yfirlit um skilmála peningamarkaðsútlána bankans til tveggja fyrstnefndu félaganna og útbúnir samningar um lánin.
Meðan á framangreindum verkum stóð sendi HBL meðal annars tölvubréf snemma að morgni 19. september 2008 til SÖS og GÞG, sem tilgreint var að varðaði „Sjeikinn og ÓÓ“, en þar var rætt um að til stæði að greiða út þann dag peningamarkaðslán „án nokkurra ábyrgða/trygginga.“ Þessi lán yrðu væntanlega til eins mánaðar og hefðu þeir því þann tíma til að ganga frá endanlegum lánssamningum. Sagði að Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. myndi „sjá um Sjeikinn“ og yrði það lán væntanlega með ábyrgð eða veði, en „hjá ÓÓ“ yrði tekið veð í nýju félagi hans á Bresku Jómfrúareyjunum, sem væri Gerland, og hlut þess í félaginu Choice. Væri síðan spurning „um hvernig samning ÓÓ gerir við Sjeikinn til að tryggja sér sinn hlut af hagnaðinum af Kaupþings bréfunum sem þeir eru að kaupa. Spurning hvort við getum ekki fengið eitthvað hald í honum líka. Ég reikna ekki með að það sé nokkuð annað sem ÓÓ geti veðsett okkur sem stendur.“ GÞG svaraði þessu stuttu síðar með tölvubréfi, þar sem aðeins sagði: „Nei, ekkert til þess að veðsetja.“ Ekki verður ráðið af gögnum málsins hvað búið hafi að baki þeim skilningi HBL, sem fram kom í framangreindu tölvubréfi, að greiða ætti út peningamarkaðslán til Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp. þennan dag, en hvað sem því líður verður séð að þegar leið á daginn hafi skilningur hans verið orðinn annar, enda greindi hann nokkrum starfsmönnum Kaupþings banka hf. frá því í tölvubréfi um miðbik dagsins að til stæði að greiða þetta út 22. sama mánaðar.
Ráðið verður af tölvubréfum, sem fóru milli starfsmanna bankanna tveggja 19. september 2008, og endurritum af hljóðrituðum símtölum þeirra að einhverjir þeirra hafi staðið í þeirri trú að til stæði að ákærðu Hreiðar og Magnús myndu hitta MAT næsta dag. Þannig sagði í tölvubréfi, sem HBL sendi samstarfsmanni við Kaupþing banka hf. þennan dag, að „Hreiðar er að fara að hitta Sheikinn á morgun og vildi hafa öll skjöl sem hann þarf að skrifa undir með sér. Ég þyrfti því að fá þetta á næstu 10 mínútum.“ Þá lét SÖS orð falla í símtali við HBL um að „Magnús sé svona á góðri íslensku going unglued það er bara bókstaflega eins og framtíð Kaupþings sé að veði hvort hann heillar sheikinn á morgun“ og við samstarfsmann sinn við Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sagði SÖS að það væri „að minnsta kosti ljóst að það er eitthvað ægilega mikið undir því að allt sé klárt áður en menn hitta hans hátign“. Af samskiptum, sem aðrir starfsmenn bankanna áttu, verður þó einnig séð að einhverjir þeirra hafi talið sig hafa vitneskju um að ákærði Ólafur kæmi hér við sögu, en í tölvubréfi, sem LS sendi þennan dag til BK, SÖS, EH og ákærða Magnúsar bað hún þá um að fara með sér yfir skjöl til að ganga úr skugga um að ákærði Ólafur fengi þau öll.
Af tölvubréfum, sem fóru milli ákærðu Hreiðars og Magnúsar 19. september 2008, verður séð að þeir hafi þá báðir verið staddir í London. Ekki verður ráðið af gögnum málsins hvort eða hvernig ráðagerðir um fundarhöld til að ljúka við undirritun skjala kunni að hafa breyst, en þegar kom fram á kvöld þessa dags sendi BK tölvubréf til EH og ákærða Magnúsar, þar sem sagði: „Þetta á allt að vera klárt núna Cross our fingers“, og svaraði ákærði Magnús með orðunum: „Flott Eg hitti olaf og [SS] 2m“.
12
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi báru ákærðu Ólafur og Magnús báðir um það fyrir dómi að þeir hafi átt fund á skrifstofu þess fyrrnefnda í London laugardaginn 20. september 2008 með lögmanninum SS og hafi ákærði Magnús afhent honum þar skjöl, sem MAT hafi þurft að undirrita vegna viðskiptanna sem málið varðar. Ákærði Ólafur bar að jafnframt hafi þar verið rætt um kynningu þessara viðskipta og hafi lögmaðurinn lýst viðhorfum MAT. Lögmaðurinn hafi svo farið til Qatar á fund MAT, sem hafi ritað undir skjölin.
Samkvæmt gögnum málsins voru skjölin, sem hér um ræðir, í fyrsta lagi staðfesting MAT á því að hann hafi lesið og skilið sjö önnur skjöl, sem þar voru talin upp, skilmála þeirra og efni og væri hann samþykkur því að vera bundinn af þeim að lögum. Í öðru lagi yfirlýsing hans um að hann væri raunverulegur eigandi Serval Trading Group Corp. Í þriðja lagi samningur milli hans og Kaupthing Bank Luxembourg S.A. um að bankinn hefði umsjón með rekstri Serval Trading Group Corp. Í fjórða lagi samningur hans um að kaupa alla hluti í Serval Trading Group Corp. af Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Í fimmta lagi yfirlýsing hans sem hluthafa í Serval Trading Group Corp. um að hann hafi ákveðið að félagið tæki peningamarkaðslán að fjárhæð 150.000.000 evrur hjá Kaupþingi banka hf., að félagið skyldi eignast 42,85% hlut í félagi með heitinu Choice Stay Ltd. og ráðstafa lánsfénu til þess félags sem hlutafé eða hluthafaláni og að gefa Choice Stay Ltd. fyrirmæli um að greiða allt að 200.000.000 evrur til Q Iceland Finance ehf., dótturfélags Q Iceland Holding ehf. Í sjötta lagi yfirlýsing hans um samþykki á fundargerð stjórnar Serval Trading Group Corp., þar sem ákvörðun var tekin um framangreinda lántöku hjá Kaupþingi banka hf. og ráðstöfun lánsfjárins, en með fundargerðinni fylgdi yfirlit um skilmála þessa láns, sem yrði peningamarkaðslán til eins mánaðar með nánar tilgreindum vöxtum. Í sjöunda lagi yfirlýsing hans sem hluthafa í Brooks Trading Ltd. um að hann hafi ákveðið að félagið tæki lán hjá Kaupþingi banka hf. að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir samkvæmt skilmálum, sem fylgdu yfirlýsingunni og mæltu fyrir um að þetta væri peningamarkaðslán án trygginga til eins mánaðar sem bæri nánar tilgreinda vexti. Í áttunda lagi yfirlýsing um að Serval Trading Group Corp. væri ásamt Gerland Assets Ltd. og Jackal Finance Inc. raunverulegur eigandi Choice Stay Ltd. Skjölin, sem hér voru talin í öðru til áttunda lagi voru þau, sem vitnað var til í skjalinu sem fyrst var nefnt. Auk þessara skjala undirritaði MAT yfirlýsingu um að hann gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir peningamarkaðsláni að fjárhæð allt að 150.000.000 evrur, sem Serval Trading Group Corp. tæki hjá Kaupþingi banka hf. 22. september 2008 eða þar um bil til þriggja mánaða með nánar tilgreindum vöxtum, en að þeim tíma liðnum yrði því láni breytt á þann hátt að það stæði til þriggja ára og yrði tryggt með veði, sem bankinn myndi una við. Þá undirritaði hann einnig sérstaka yfirlýsingu, þar sem Serval Trading Group Corp. beindi til Choice Stay Ltd. að greiða 200.000.000 evrur til Q Iceland Finance ehf.
Í málinu liggja einnig fyrir skjöl varðandi Gerland Assets Ltd., sem dagsett voru 20. september 2008 og undirrituð af ákærða Ólafi. Þar er fyrst til að telja yfirlýsingu ákærða um að hann væri raunverulegur eigandi félagsins. Í annan stað ritaði hann undir samning um kaup á öllum hlutum í félaginu af Kaupthing Bank Luxembourg S.A., svo og samning um að bankinn hefði umsjón með rekstri félagsins. Að auki undirritaði hann yfirlýsingu sem hluthafi í Gerland Assets Ltd. um að hann hafi ákveðið að félagið tæki peningamarkaðslán að fjárhæð 150.000.000 evrur hjá Kaupþingi banka hf., að félagið skyldi eignast 42,85% hlut í félagi með heitinu Choice Stay Ltd. og ráðstafa lánsfénu til þess félags sem hlutafé eða hluthafaláni og að gefa Choice Stay Ltd. fyrirmæli um að greiða allt að 200.000.000 evrur til Q Iceland Finance ehf., dótturfélags Q Iceland Holding ehf. Í viðauka við þessa yfirlýsingu var að finna yfirlit um skilmála lánsins, sem Gerland Assets Ltd. hugðist taka hjá Kaupþingi banka hf., og kom þar fram að það yrði ótryggt peningamarkaðslán með áðurnefndri fjárhæð til þriggja mánaða með nánar tilgreindum vöxtum, svo og að breyta ætti þessari skuldbindingu innan umsamins lánstíma í lán til þriggja ára, sem yrði tryggt á þann hátt sem Kaupthing Bank Luxembourg S.A. teldi mega una við. Loks undirritaði ákærði Ólafur yfirlýsingu um samþykki á fundargerð stjórnar Gerland Assets Ltd., þar sem teknar voru ákvarðanir um það sama og greindi í fyrrnefndri yfirlýsingu, sem hann gaf sem hluthafi í félaginu.
Ekki liggur fyrir í málinu hvort ákærði Ólafur hafi undirritað framangreind skjöl á fundinum, sem hann átti samkvæmt áðursögðu með ákærða Magnúsi og SS 20. september 2008. Þótt þau hafi verið dagsett þann dag er þess að gæta að í tölvubréfum, sem fóru milli LS, BK, EH og SÖS 22. sama mánaðar, var fjallað um skjöl fyrir ákærða Ólaf, sem hafi verið endurskoðuð á grundvelli breytinga, sem ákærði Magnús hafi gert á skjölum fyrir MAT um helgina, sem þá var að baki. Þá var í tölvubréfum milli þeirra sömu 23. september 2008 enn fjallað um endurskoðuð skjöl fyrir ákærða Ólaf og óskaði LS að endingu eftir að BK myndi fá þau undirrituð. Í þessu ljósi má því ætla að meginefni fundarins 20. september 2008 hafi tengst fyrirhuguðum undirritunum MAT. Nokkru eftir hádegi þann dag sendi EH tölvubréf til ákærða Magnúsar, þar sem hann spurði: „Er thetta allt að ganga upp“. Því svaraði ákærði Magnús játandi. Sendi þá EH aftur svofellda orðsendingu til ákærða: „Flott Lattu mig endilega vita thegar thetta er I hofn, tha aetla eg ad skala fyrir okkur“.
Að kvöldi sunnudagsins 21. september 2008 barst ákærða Ólafi tölvubréf án texta, en það ber með sér að með því hafi verið nokkur fjöldi fylgiskjala. Verður ekki annað ráðið en að þau hafi verið myndrit af skjölunum, sem MAT undirritaði samkvæmt áðursögðu. Ákærði Ólafur framsendi þetta stuttu síðar til ákærða Magnúsar með tölvubréfi, þar sem sagði: „Sæll félagi, nú eru öll skjöl frágengin og við búnir með okkar „helgar-stubb“.“
13
Í hinum áfrýjaða dómi er greint frá því að vitnið JS, sem gegndi starfi framkvæmdastjóra samskiptasviðs Kaupþings banka hf., hafi borið í skýrslu sinni fyrir dómi að ákærði Hreiðar hafi hringt til sín að kvöldi föstudagsins 19. september 2008 og beðið sig um að semja fréttatilkynningu vegna viðskipta með hluti í bankanum til birtingar í fjölmiðlum 22. sama mánaðar. Kvaðst JS hafa verið erlendis og því fengið starfsmann á sviðinu, DG, til að vinna að þessu með sér.
Meðal gagna málsins er tölvubréf DG til JS frá því laust eftir hádegi laugardaginn 20. september 2008, sem hafði að geyma drög að fréttatilkynningu á ensku. Í fyrirsögn kom fram að Sheikh AT hafi eignast 5,1% hlut í Kaupþingi banka hf., en í framhaldi af því sagði að ELL162 ehf., fjárfestingarfélag í eigu hans hátignar MAT af Qatar hafi keypt þetta hlutfall hlutabréfa í félaginu, alls 37.763.103 hluti. Í framhaldi af því kom málsgrein, þar sem tiltekin ummæli í tilefni af þessum kaupum voru lögð kaupandanum í munn, og síðan tvær málsgreinar, þar sem orð af sama tilefni voru höfð eftir ákærða Sigurði sem formanni stjórnar félagsins. JS svaraði þessu stuttu síðar með tölvubréfi og kvað þetta vera góða byrjun, sem þeir skyldu hugleiða, en hann biði „eftir ad maggi gudmunds hringi I mig vegna thessa.“ Rúmum stundarfjórðungi síðar sendi DG aftur tölvubréf til JS, sem hafði að geyma önnur drög að tilkynningunni. Þar hafði fyrirsögn verið breytt með því að fella brott nafn kaupandans og nefna hann þess í stað fjárfesti frá Qatar. Í meginmáli var kaupandinn sagður heita Q Iceland Investing og voru síðan sögð mun nánari deili á MAT en í fyrstu drögunum, þar á meðal að hann væri bróðir emírsins af Qatar. Þá höfðu verið gerðar nokkrar breytingar á ummælum, sem áttu að vera höfð eftir MAT og ákærða Sigurði. Þessari tillögu svaraði JS um hæl og boðaði að hann myndi hafa símsamband við DG.
Ljóst er af gögnum málsins að ákærða Magnúsi hafi verið kynnt síðastgreind útgáfa af drögum að fréttatilkynningu, enda sendi hann JS fáum mínútum síðar athugasemdir, sem lutu meðal annars að því að heiti kaupandans væri Q Iceland Finance, sem væri að fullu í eigu Q Iceland Holding, svo og að MAT væri af ættinni, sem hafi stýrt Qatar frá miðri 19. öld, auk þess að vera bróðir emírsins. JS framsendi þetta tölvubréf til DG með fyrirmælum um að lagfæra texta draganna til samræmis við þetta og senda síðan nýja útgáfu. DG sendi innan klukkustundar nýja útgáfu til JS, sem gerði í framhaldinu tillögu um innskot í textann, og stuttu síðar sendi ákærði Magnús tillögur um breytingar með tölvubréfi, sem hann beindi til JS, DG og IH framkvæmdastjóra Kaupþings banka hf. Þessum tillögum svaraði síðan JS með tölvubréfi til þeirra sömu, þar sem sagði: „Flott. [DG] lagar thetta og sendir a hms og olaf sidar I dag“.
Þegar liðið var nokkuð á daginn 20. september 2008 sendi DG tölvubréf til JS og IH og ákærðu Magnúsar, Hreiðars og Sigurðar, sem hafði að geyma uppfærð drög að fréttatilkynningu, og kvað DG allar athugasemdir vel þegnar. Ákærði Magnús svaraði þessu með tölvubréfi, sem hann beindi til allra hinna áðurnefndra og lýsti þeirri skoðun að þeir þyrftu að sjá endanleg drög næsta morgun til að unnt yrði að bera þau undir MAT.
Eftir hádegi næsta dag, sunnudaginn 21. september 2008, sendi DG til JS og ákærða Magnúsar tölvubréf, sem hann kvað hafa að geyma lokadrög að tilkynningunni. Um klukkustund síðar sendi ákærði Magnús svar til hinna í tölvubréfi, þar sem var að finna texta tilkynningarinnar með breytingum „eftir fund okkar olafs“, svo sem sagði í bréfinu. Á næstu klukkustundum á eftir lagði ákærði Magnús þrívegis til fleiri breytingar á textanum í tölvubréfum til DG og JS, en bætti svo við í síðasta bréfinu ósk um að ný útgáfa yrði send sér og ákærðu Hreiðari og Ólafi. Í framhaldi af þessu var textanum breytt með tilliti til þessara tillagna og sendi JS hann undir kvöld með tölvubréfi til ákærðu Hreiðars, Magnúsar og Ólafs með þeim boðum að þetta væri „nýjasta útgáfan af tilkynningunni.“ Ákærði Ólafur sendi síðan JS og ákærðu Hreiðari og Magnúsi tölvubréf með orðunum „er OK.“ Eftir þetta virðist sem JS hafi kynnt þessi drög fyrir mönnum erlendis, sem ekki er ljóst af gögnum málsins hvaða hlutverki gegndu að öðru leyti en því að svar fékk JS í tölvubréfi frá einum þeirra, sem virðist hafa verið forstöðumaður samskiptasviðs Kaupþings banka hf. í Svíþjóð og virðist sá hafa tjáð sig í þágu ákærða Sigurðar, sem hafi verið staddur þar í landi. Að kvöldi 21. september 2008 sendi JS loks tölvubréf til ákærða Hreiðars með fylgiskjali, sem hann kvað hafa að geyma lokaútgáfu „af ensku fréttatilkynningunni“. Er svo að sjá að sá texti svari til tilkynningar á íslensku, sem Kaupþing banki hf. beindi til kauphallar að morgni 22. september 2008 og getið er nánar um hér á eftir.
Síðar að kvöldi 21. september 2008 sendi JS ákærða Hreiðari tölvubréf og fylgdi því að virðist glærukynning á ensku á kaupum Q Iceland Finance ehf. á hlutum í Kaupþingi banka hf. Ákærði svaraði stuttu síðar með tölvubréfi, þar sem hann gerði tvær athugasemdir við texta kynningarinnar, og staðfesti JS í framhaldi af því að hún yrði lagfærð „að sjálfsögðu“.
14
ÓEE, sem gegndi hlutverki regluvarðar hjá Kaupþingi banka hf., greindi meðal annars frá því í skýrslu sínu fyrir héraðsdómi að HS, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs bankans, hafi kallað sig til vinnu sunnudaginn 21. september 2008 til að leysa af hendi verk í tengslum við viðskipti með hluti í Kaupþingi banka hf.
Samkvæmt gögnum málsins sendi ÓEE að áliðnum þessum degi tölvubréf til IH með tillögu um orðalag beiðni Kaupþings banka hf. til regluvarðar um heimild handa félaginu til að kaupa allt að 3.500.000 hluti í því sjálfu til að selja aftur sama dag. Þá ritaði hún nokkru síðar tölvubréf, sem hún stílaði á ákærða Magnús og sendi honum ásamt HS og IH, og kvað meðfylgjandi vera flöggunartilkynningu vegna kaupa Q Iceland Finance ehf. á 37.100.000 hlutum í Kaupþingi banka hf. Í bréfinu skýrði hún í stuttu máli að sá, sem ætti viðskipti með hluti sem færu fram úr flöggunarmörkum samkvæmt lögum nr. 108/2007, bæri skyldu til að senda félaginu, sem hlutirnir væru í, og Fjármálaeftirlitinu slíka tilkynningu. Til að hafa þetta í réttu horfi sendi hún þessa tilkynningu til ákærða til þess að hann „eða e-r annar sem kemur fram fyrir hönd Q Iceland Finance“ gæti síðan beint henni til regluvarðar Kaupþings banka hf. og Fjármálaeftirlitsins á nánar tiltekinn hátt. Þessu svaraði ákærði Magnús að kvöldi sama dags með tölvubréfi til ÓEE, IH, HS, TH og KH og beindi þar þessum orðum til TH: „þessi skjöl þarf félagið að senda til regluvarðar. [HS] hringir í þig“. Í framhaldi af því ritaði ÓEE tölvubréf, sem hún beindi til TH og KH og sendi jafnframt HS, IH og ákærða Magnúsi. Sagði þar að flöggunartilkynning fyrir Q Iceland Finance ehf. fylgdi bréfinu og þyrfti að fara yfir hana og undirrita, en senda síðan til Fjármálaeftirlitsins og Kaupþings banka hf., sem sæi um að birta hana. Þessu svaraði síðan TH með tölvubréfi til þeirra sömu og kvaðst mundu koma tilkynningunni til ÓEE fyrir klukkan 8 næsta morgun.
Þetta sama kvöld sendi starfsmaður Kaupþings banka hf. tölvubréf til ÓEE, IH, HS og SPK, forstöðumanns áhættusviðs bankans, þar sem greint var frá því hvað félagið hafi átt af eigin hlutum dagana á undan, hversu mikið af hlutum það þyrfti að kaupa til að eiga viðskiptin við Q Iceland Finance ehf. og hversu marga hluti það myndi eiga eftir þau viðskipti. Þá sendi IH jafnframt tölvubréf til ÓEE, HS og ákærða Hreiðars, þar sem hann leitaði fyrir Kaupþing banka hf. eftir heimild þeirrar fyrstnefndu sem regluvarðar til að kaupa hluti í félaginu og selja á ný næsta dag og sendi hún um hæl það svar að beiðnin væri samþykkt, sem hún áréttaði síðan í öðru tölvubréfi laust eftir miðnætti 22. september 2008.
Nokkru eftir klukkan 8 að morgni 22. september 2008 ritaði TH tölvubréf til ÓEE, sem hún sendi einnig ákærðu Ólafi og Magnúsi, HS, IH og KH, og kvað hún undirritaða flöggunartilkynningu fylgja með. ÓEE staðfesti móttöku tilkynningarinnar með tölvubréfi, sem hún beindi til þeirra sömu, og kvað tilkynninguna mundu verða senda til birtingar með öðrum tilkynningum vegna viðskiptanna. IH sendi stuttu síðar tölvubréf til ÓEE, HS og ákærða Hreiðars, þar sem hann tilkynnti henni sem regluverði um viðskipti Kaupþings banka hf. með eigin hluti og sendi hún það svar að hún færi að ganga frá tilkynningum. Eftir að hafa borið með tölvubréfi tilkynningar undir IH og HS sendi ÓEE þær til Fjármálaeftirlitsins laust fyrir klukkan 10.30 þennan morgun. Þetta munu hafa verið flöggunartilkynningar Kaupþings banka hf. annars vegar um kaup á 4.200.000 hlutum í félaginu og hins vegar um sölu á 37.100.000 eigin hlutum, svo og flöggunartilkynning Q Iceland Finance ehf. um kaup á 37.100.000 hlutum.
Jafnframt því, sem að framan greinir, voru birtar í kauphöll 22. september 2008 þrjár tilkynningar frá Kaupþingi banka hf. Sú fyrsta var birt klukkan 6.55 að morgni þessa dags og var svohljóðandi: „Q Iceland Finance ehf., dótturfélag í eigu Q Iceland Holding ehf., sem er eignarhaldsfélag hans hátignar [MAT], hefur keypt 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. Q Iceland Finance keypti alls 37,1 milljón hluta á genginu 690 kr. á hlut og verður þar með þriðji stærsti hluthafi bankans. Hans hátign, [MAT] er í konungsfjölskyldunni sem hefur verið við völd í Qatar frá því á nítjándu öld. Hans hátign [MAT]: „Við höfum fylgst náið með Kaupþingi í nokkurn tíma og teljum þetta góða fjárfestingu. Staða Kaupþings er sterk og við höfum trú á stefnu og stjórnendum bankans, enda hefur Kaupþing náð góðum árangri við þær erfiðu aðstæður sem nú eru á markaðnum og sýnt fram á getu til þess að breytast og laga sig að nýjum veruleika í bankastarfsemi. Við lítum á hlut okkar í Kaupþingi sem langtímafjárfestingu og hlökkum til að eiga góð samskipti við stjórnendur bankans.“ Sigurður Einarsson stjórnarformaður: „Okkur er mikil ánægja að bjóða hans hátign [MAT] velkominn í hluthafahóp Kaupþings. Það hefur lengi verið stefna okkar að laða nýja fjárfesta að bankanum og því er ánægjulegt að sjá að við höfum nú náð að breikka hluthafahópinn enn frekar. Við hlökkum til þess að vinna með hans hátign [MAT] í framtíðinni.““ Tilkynning þessi er grunnur sakargifta á hendur öllum ákærðu í a. lið IV. kafla ákæru. Önnur tilkynning var birt klukkan 10.28 um að Kaupþing banki hf. hafi selt 37.100.000 eigin hluti á 690 krónur hvern og ætti eftir þau viðskipti 3.279.216 hluti. Sú þriðja var svo birt klukkan 12.25 og var í henni greint frá því að Kaupþing banki hf. hefði keypt 4.200.000 hluti í félaginu á 744 krónur hvern og ætti eftir þau viðskipti 40.379.216 eigin hluti.
Í tilefni af framangreindum tilkynningum fjölluðu fjölmiðlar um kaup MAT á hlutum í Kaupþingi banka hf. 22. september 2008 og jafnframt næsta dag, en í viðtölum fjölmiðla sem þessu tengdust við ákærðu Hreiðar, Sigurð og Ólaf voru meðal annars höfð eftir þeim ummæli, sem sakargiftir á hendur þeim í b., c. og d. lið IV. kafla ákæru eru reistar á.
Gögn málsins bera með sér að innan Kaupþings banka hf. hafi ýmsum verkum verið sinnt 22. september 2008 í tengslum við kynningu á þessum viðskiptum. Þannig sendi JS tölvubréf snemma morguns til GA til að minna hann á að hafa samband við alþjóðlegt matsfyrirtæki og bætti því þar við að „auðvitað er kvótið í karlinn snilld“. GA svaraði þessu þannig að matsfyrirtækið myndi vilja vita „hvernig var greitt osfr.“ og spurði hver væri „the official line“. JS svaraði þessu með þeim orðum að engin slík lína væri enn komin varðandi greiðslu og sagðist þá GA í tölvubréfi til hans mundu bíða með að ræða við matsfyrirtækið. Að morgni þessa dags sendi jafnframt ákærði Magnús tölvubréf til JS og ákærða Hreiðars og lét fylgja umfjöllun úr erlendum fjölmiðli um viðskiptin. Þá liggja einnig fyrir í málinu tölvubréf með fyrirspurnum erlendra fjölmiðla um þau, þar sem meðal annars var spurt hvernig MAT hafi keypt hlutina í Kaupþingi banka hf., því orðrómur væri uppi um að bankinn hafi selt honum eigin hluti á undirverði. Af þessu tilefni kom JS því svari á framfæri í tölvubréfi að bankinn hafi að mestu selt MAT eigin hluti, en keypt viðbót á markaði og selt á hærra verði, þannig að engir afslættir hafi verið gefnir.
15
Þótt gögnin, sem rakin hafa verið að framan, beri með sér að stjórnendur Kaupþings banka hf. hafi litið svo á að þegar hér var komið sögu hafi viðskiptin verið ráðin með hluti í félaginu stóð enn eftir að hrinda þeim í framkvæmd, en þess er að gæta að í málinu liggur enginn skriflegur samningur fyrir um kaup Q Iceland Finance ehf. á 5,01% hlutafjár í fyrrnefnda félaginu. Að morgni mánudagsins 22. september 2008 kom GJO því á framfæri í tölvubréfi til enska lögmannsins SS að ákærði Ólafur hafi haft samband við sig kvöldið áður og sagt frá ráðagerðum MAT um kaup á hlutum í Kaupþingi banka hf. gegnum Q Iceland Finance ehf., sem yrði dótturfélag Q Iceland Holding ehf. Sem stjórnarmaður í því félagi væri GJO reiðubúinn til að undirrita skjöl af þessu tilefni eftir því sem eigandi þess gæfi fyrirmæli um. Ekki er að sjá af gögnum málsins að reynt hafi frekar á þetta boð.
Starfsmaður Kaupþings banka hf. sendi tölvubréf til HBL um morguninn 22. september 2008 með upplýsingum um númer á reikningum, sem opnaðir hafi verið við bankann fyrir Gerland Assets Ltd., Serval Trading Group Corp. og Choice Stay Ltd., og kennitölur, sem félögin hafi fengið hér á landi. HBL framsendi þessa orðsendingu í tölvubréfi til LS, SÖS, EH og ákærða Magnúsar og óskaði eftir að fá greiðslufyrirmæli frá fyrstnefndu félögunum tveimur vegna lána til hvors þeirra að fjárhæð 100.000.000 evrur. Þessu svaraði LS með því að hún myndi sinna þessu svo fljótt sem hún gæti, en hún biði eftir fyrirmælum frá EH og ákærða Magnúsi. Af gögnum málsins er einnig ljóst að þennan dag hafi ekki enn verið komin niðurstaða um hvernig búa ætti um hnúta varðandi fjárframlag eða lán, sem Choice Stay Ltd. var ætlað að inna af hendi til Q Iceland Finance ehf. til að standa straum af kaupverði hlutanna í Kaupþingi banka hf., enda fóru þennan dag tölvubréf milli BÓ, EH og starfsmanns endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young Cyprus Ltd. um að halda símafund um það efni daginn eftir.
Að áliðnum degi 22. september 2008 sendi ákærði Magnús tölvubréf til IH, sem tilgreint var að varðaði „Skjöl vegna Q Iceland Finance ehf.“ Af gögnum málsins verður ekki ráðið hver þessi gögn hafa verið, en bréf þetta framsendi IH í kjölfarið til HS með tölvubréfi, þar sem hann spurði hvort það væri „eitthvað meira sem við MG þurfum að gera eða ertu með allt undir control?“ HS svaraði þessu með tölvubréfi, sem hann beindi til IH og ákærða Magnúsar, þar sem sagði eftirfarandi: „Ég þekki þessi viðskipti ekki nægjanlega vel til þess að meta það. Þetta félag er ekki með nema 500 þús. í hlutafé og getur því augljóslega ekki staðið undir miklum viðskiptum og þjónar takmörkuðum tilgangi að gera mikla samninga við það. Annars væri gott að vita hvort og þá hvaða skjöl hafa verið undirrituð í tengslum við þetta þá meina ég á milli eigenda félagsins og okkar, ábyrgðaryfirlýsingar, samkomulag etc.“
Undir lok dagsins sendi starfsmaður Kaupþings banka hf. tölvubréf til GA, þar sem meðal annars sagði eftirfarandi: „Liquidity skjalið þessa vikuna. Slatti af krónum en gengur svakalega illa að koma því í gjaldeyri, Margin callin að sliga menn, há margin call út af CDS og stærstu stokkarnir okkar lækka í dag þannig að það verður slatta útflæði út af því á morgun.“ Sama dag virðist GA hafa lokið við kynningu um greiðslustöðu Kaupþings banka hf., sem ætluð var til nota á stjórnarfundi í félaginu 25. og 26. september 2008.
16
Eins og áður greinir beindi BÓ tilkynningu 23. september 2008 til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um hluthafafundi í Q Iceland Holding ehf. í júní 2008, þar sem breytingar hafi verið gerðar á samþykktum og stjórn félagsins, en tilkynningin barst þó ekki fyrr en 29. september sama ár. BÓ mun jafnframt 23. september 2008 hafa átt símafund með starfsmanni endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young Cyprus Ltd. og starfsmanni Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem sá síðastnefndi upplýsti EH um með tölvubréfi þann dag. Í bréfinu kom fram að BÓ og starfsmaður endurskoðunarfyrirtækisins hafi samþykkt skipuritið fyrir viðskiptin með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. eins og hann kvað það þá hafa staðið, en þó væri enn óútkljáð hverjir vextir ættu að verða af láni sérstaka fjárfestingarfélagsins til Q Iceland Finance ehf., sem tengt yrði þróun á verðmæti hlutabréfanna. Þessu svaraði EH með ósk um frekari umræður um það daginn eftir.
Undir lok dags 23. september 2008 sendi ÓFG tölvubréf til GG, starfsmanns Kaupþings banka hf., GA, IH og ákærðu Hreiðars og Sigurðar, þar sem lýst var erfiðri lausafjárstöðu bankans. Þessu svaraði ákærði Hreiðar skömmu síðar með tölvubréfi til þeirra sömu, þar sem hann spurði: „Til hvaða aðgerða erum við að grípa til að fá inn lausafé?“ GA sendi af þessu tilefni tölvubréf til hinna og lýsti því meðal annars að hann færi næsta dag á fund hjá Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. um kaup þess síðarnefnda á eignum af Kaupþingi banka hf., sem þeir hafi gefið sér tvær vikur til að ljúka. Í lok bréfsins sagði: „Nú er lausafjárstaðan 275 dagar og mun lækka um 300m evra á næstu dögum ... Það verður erfitt að klára fjórðunginn með lausafé yfir 360 dögum.“ Eftir þetta sendi ákærði Hreiðar tölvubréf til GA og GG og lét meðal annars þau orð falla að „við verðum að ganga frá sölu til KSF fyrr, getum við ekki klárað Sommerfield strax á morgun?“ Að endingu sagði í því bréfi: „Við megum ekki fara ofan í stöðu eins og í dag. Við verðum að setja upp „crisis mode“ ef lausafjárstaðan fer undir 100 milljarða. Markmið að hafa hana 150 milljarða.“ Svar við þessu, sem GG sendi í tölvubréfi til GA og ákærða Hreiðars, hófst á orðunum: „Við erum að keyra í algjöru „crisis mode“ í dag!“ Í bréfinu rakti hann síðan ýmsar upplýsingar um stöðu Kaupþings banka hf. og sagði meðal annars: „Á morgun er gjalddagi á 15ma. vikuláni frá Straumi. Við munum bjóða í þessa fjármögnun á morgun líklega til viku. Ef við reiknum ekki með Straumi þurfum við EUR 720m til þess að ná upp í 150ma.“ Að morgni 24. september 2008 sendi síðan starfsmaður Kaupþings banka hf. tölvubréf til GA, þar sem sagði meðal annars eftirfarandi: „Ákvað að update-a liqcheck skjalið þar sem að staðan er alls alls alls ekki góð. Það hefur svo sem lítið breyst nema að búið er að lána FIH 175mEUR. Hitt er svo annað mál að sú gríðarlega lága „Cash“ staða sem við höldum er mjög bjöguð í áttina að ISK. Við verður að fara að líta þessa bjögun mun alvarlegri augum en við höfum gert hingað til. ... Þetta er staðan þrátt fyrir að við höfum verið að grafa í gegnum allar bækur að lausum eignum og repo-að því sem með nokkru móti er hægt að repo-a ... Staðan er því þannig að það þarf að hrista upp í londonarbúum og finna einhverjar lausnir sem hægt er að vinna með. Og einhver lausnin þarf að vera lausn sem getur gerst á næstu dögum (ekki vikum eða mánuðum).“
17
Lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf. kom saman til fundar 24. september 2008, en eins og áður kom fram var ákærði Sigurður formaður hennar og áttu þar að öðru leyti sæti ákærði Hreiðar ásamt tveimur stjórnarmönnum í félaginu, BÓ og GPP. HBL kom sem fyrr segir á framfæri 19. sama mánaðar lánsbeiðni fyrir Mink Trading Corp., Brooks Trading Ltd. og Serval Trading Group Corp., sem hafði verið tekin á dagskrá þessa fundar lánanefndarinnar og dreift til fundarmanna með tölvubréfi BHD 21. september 2008. Samkvæmt dagskránni átti í næsta lið á undan þeim, sem sneri að þessari lánsbeiðni, að fjalla um „Kjalar hf. lánsbeiðni og yfirlit“ og ber tölvubréf BHD með sér að með því hafi einnig fylgt efni vegna þessa liðar. Eins og áður kom fram hefur ákærði Ólafur lýst því í málatilbúnaði sínum að hann hafi á þessum tíma átt stærsta hlutinn í Kjalari hf. Í framangreindri lánsbeiðni fyrir það félag voru taldar upp skuldbindingar þess og tengdra félaga við Kaupþing banka hf., sem sagðar voru nema samtals 77.198.306.522 krónum, en þar voru tilgreind fjögur slík félög og var Gerland Assets Ltd. ekki meðal þeirra.
Fundur lánanefndarinnar var sóttur af öllum, sem áttu í henni sæti, en að auki sat BHD þennan fund ásamt ritara nefndarinnar, GH, sem ritaði fundargerð. Í málinu liggja fyrir drög að fundargerð, þar sem kom fram að lánsbeiðnin, sem fyrr var getið hér að framan, hafi verið tekin fyrir undir dagskrárlið með fyrirsögninni „[MAT]“. Í þessum lið kom fram að lánsbeiðnin sneri að félögum, sem væru á undanþágulista vegna lánshæfismats, en hún tæki til þriggja atriða og vörðuðu þau samtals 320.000.000 evrur. Í framhaldi af þessu var fyrst talið til að Brooks Trading Ltd. væri fjárfestingarfélag, sem hefði það markmið að eiga viðskipti við Deutsche Bank AG um „Credit Linked Notes“ sem yrðu á gjalddaga 20. september 2013, og yrði varið til þeirra 250.000.000 evrum, auk þess sem kostnaður yrði 5.000.000 evrur. Að baki félaginu stæði Mink Trading Corp. og væri raunverulegur eigandi síðarnefnda félagsins MAT. Deutsche Bank AG myndi lána Brooks Trading Ltd. 125.000.000 evrur, en Mink Trading Corp. myndi leggja félaginu til þær 130.000.000 evrur, sem á vantaði. Sagði síðan að Mink Trading Corp. leitaði eftir því að fá síðastnefnda fjárhæð að láni til fimm ára gegn veði í hlutum í því félagi og hlutum þess í Brooks Trading Ltd. Í annan stað óskaði Brooks Trading Ltd. eftir að fá 50.000.000 bandaríkjadali að láni hjá Kaupþingi banka hf. og væri það hluti af ágóðanum af fyrrgreindum viðskiptum við Deutsche Bank AG. Yrði það lán einnig til fimm ára og trygging veitt fyrir því með veði í „Credit Linked Notes“. Í þriðja lagi óskaði MAT sem raunverulegur eigandi Serval Trading Group Corp., sem væri fjárfestingarfélag sem hygðist „invest in some securities“, eftir láni handa því að fjárhæð allt að 150.000.000 evrur. Lagt væri til að fyrst í stað yrði lánið veitt sem peningamarkaðslán til skamms tíma, en það yrði endurfjármagnað síðar, líklega gegnum Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. Til tryggingar yrði veitt persónuleg ábyrgð raunverulega eigandans, en líklega kæmi síðar í hennar stað veð í einhverjum eignum. Í niðurlagi bókunarinnar var tekið fram að lánsbeiðnin hafi verið samþykkt.
Í málinu liggur einnig fyrir eintak af fundargerð frá þessum fundi lánanefndarinnar, sem ber yfirskriftina: „Óundirrituð lokaútgáfa“, og virðist mega ætla að með henni hafi áðurgreind drög að fundargerð verið færð í endanlegan búning. Upphaf fundargerðarinnar var frábrugðin drögunum að því leyti að tiltekið var að SPK hafi setið fundinn auk þeirra, sem áður voru nefndir. Umfjöllun undir þeim lið fundargerðarinnar, sem varðaði MAT, var að efni til í flestu á sama veg og fram hafði komið í drögunum, en um þau atriði í drögunum, sem getið var hér að framan, var fundargerðin á annan veg að fernu leyti. Í fyrsta lagi hafði fyrirsögn dagskrárliðarins tekið þeirri breytingu að í lokaútgáfu fundargerðarinnar var hún „[MAT] / Brooks / Mink Trading Corp. / Q Iceland Holding ehf.“ Í öðru lagi sagði að þau þrjú atriði, sem lánsbeiðnin snerist um, vörðuðu samtals 350.000.000 evrur, en ekki 320.000.000 evrur eins og greint var í drögunum. Í þriðja lagi höfðu verið felld brott ummæli í drögunum um að þeir 50.000.000 bandaríkjadalir, sem Brooks Trading Ltd. óskaði eftir að fá að láni, svöruðu til hluta ágóða af viðskiptunum við Deutsche Bank AG. Í fjórða lagi hafði orðalagi um beiðni MAT um lán handa Serval Trading Group Corp. verið breytt frá drögunum að því leyti að hvorki var lengur rætt um að það lán yrði líklega endurfjármagnað með láni frá Kaupthing Singer & Friedlander Ltd., heldur að það yrði endurfjármagnað þannig, né að í stað sjálfskuldarábyrgðar raunverulega eigandans kæmi líklega síðar veð í einhverjum eignum, heldur að veð í eignum MAT kæmi síðar í stað ábyrgðarinnar.
Í hvorugri af framangreindum útgáfum af fundargerðinni var vikið að láni til Gerland Assets Ltd. og virðist sem óumdeilt sé að í engu hafi verið vikið að því á fundi nefndarinnar. Samkvæmt báðum útgáfum af fundargerðinni var áðurnefnd lánsbeiðni fyrir Kjalar hf. á hinn bóginn tekin til umfjöllunar næst á undan þeim dagskrárlið, sem varðaði MAT, og var sú beiðni samþykkt.
Stjórn Kaupþings banka hf. hélt sem áður segir fund 25. og 26. september 2008. Samkvæmt fundargerð greindi ákærði Sigurður stjórninni frá kaupum „[HAT]“ á hlut í bankanum undir dagskrárlið fyrir önnur mál, en ekki kom þar nánar fram hvað rætt hafi verið um í því sambandi. Þá var eftir fundargerðinni einn dagskrárliður helgaður yfirliti um stórar áhættulánveitingar og sagði meðal annars um hann að ákærði Hreiðar hefði kynnt þetta efni, en um það hafi verið dreift kynningu, þar sem gerð hafi verið grein fyrir einstökum lánum. Má ætla að orð um þetta í fundargerðinni hafi varðað kynningu, sem BHD gerði fyrir stjórnarfundinn og liggur fyrir í málinu. Í henni var sérstakur liður um skuldbindingar Kjalars hf. og tengdra félaga og manna við bankann, þar á meðal ákærða Ólafs, en ekki var vikið þar að Gerland Assets Ltd.
18
Um hádegi föstudaginn 26. september 2008 sendi HBL tölvubréf til LS, SÖS, EH, GÞG og ákærða Magnúsar um að uppgjör á kaupum „Q Invest“ á hlutum í Kaupþingi banka hf. ætti að fara fram 29. sama mánaðar og þyrfti því að fara að undirbúa það. Við þessu brást SÖS með tölvubréfi til HBL, LS og EH, þar sem kom fram að fyrst uppgjörið yrði framkvæmt gegnum reikninga hjá Kaupþingi banka hf. þyrfti hann að fá upplýsingar um reikninga Gerland Assets Ltd., Serval Trading Group Corp., Choice Stay Ltd. og „Q invest“, svo og hverjar fjárhæðir ættu að fara milli þeirra. Í framhaldi af þessu bað HBL í tölvubréfi til starfsmanns Kaupþings banka hf. um „uppgjör vegna þessara bréfa“ og var af því tilefni gerð staðfesting, sem stíluð var á Q Iceland Finance ehf., fyrir pöntun félagsins á 37.100.000 hlutum í Kaupþingi banka hf., en kaupverð að meðtöldum kostnaði, 25.726.995.350 krónur, yrði skuldfært af nánar tilgreindum reikningi hjá bankanum 29. september 2008.
LS sendi um miðjan dag 26. september 2008 tölvubréf til HBL, SÖS og EH og kvaðst hún þar hafa fengið númer á bankareikningum Gerland Assets Ltd., Serval Trading Group Corp. og Choice Stay Ltd., en vanti á hinn bóginn slíkar upplýsingar vegna „Q Iceland“. Bað hún jafnframt um staðfestingu á því að fjárhæðir, sem færa ætti, væru 100.000.000 evrur frá hvoru félaginu Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp. og síðan 200.000.000 evrur frá Choice Stay Ltd. til „Q Invest“, en spurði hvort það þyrfti greiðslufyrirmæli til að leggja lánsfé inn á reikninga fyrstnefndu félaganna tveggja. Með svari HBL við þessu sendi hann fyrrnefnda staðfestingu vegna pöntunar á hlutunum í Kaupþingi banka hf. og sagðist hann þurfa fyrirmæli frá Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp. bæði um að leggja lánsféð á reikninga þeirra og um að ráðstafa því aftur út af þeim inn á reikning Choice Stay Ltd., svo og fyrirmæli frá þeim síðastnefnda um að flytja féð af reikningi hans inn á reikning „Q Iceland ltd.“
Meðal gagna málsins eru bréf 26. september 2008 til Kaupþings banka hf. frá annars vegar Gerland Assets Ltd. og hins vegar Serval Trading Group Corp., þar sem mælt var fyrir um að taka ætti 100.000.000 evrur af nánar tilgreindum reikningum hvors félags hjá bankanum og leggja þar inn á tiltekinn reikning Choice Stay Ltd. Myndrit af þessum bréfum voru send HBL með tölvubréfi frá LS síðla þennan dag, þar sem hún kvaðst mundu biðja um greiðslufyrirmæli frá Choice Stay Ltd., en spurði jafnframt hvort HBL væri viss um að greiðsla til uppgjörs samkvæmt áðurnefndri staðfestingu ætti að fara fram í íslenskum krónum. Í tölvubréfi, sem HBL sendi af þessu tilefni til LS, SÖS, EH og ákærða Magnúsar, var ítrekað að enn vantaði fyrirmæli frá Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp. um hvert greiða ætti út lánsféð til þeirra, en hann lét þess einnig getið að hann biði eftir upplýsingum um gengi til að skipta evrum í íslenskar krónur, sem yrðu lagðar inn á reikning Q Iceland Finance ehf.
Vegna síðastgreindrar orðsendingar sendi ákærði Magnús tölvubréf til HBL, LS, SÖS og EH, þar sem hann spurði hvort gjaldeyrisviðskipti hefðu þegar farið fram, en ef svo væri ekki vildi hann ræða á ný við „the client“ um hvort hann vildi láta ráðstafanirnar ganga fram á þennan hátt. HBL svaraði þessu með tölvubréfi til þeirra sömu og kvað gjaldeyrisviðskiptin ekki verða gerð fyrr en að morgni 29. september 2008, en spurði hvort einhverjir aðrir kostir væru í boði. Í tölvubréfi, sem ákærði Magnús sendi stuttu síðar til HBL, LS, SÖS og EH, gaf hann fyrirmæli um að skuldin yrði látin standa í íslenskum krónum á meðan hún bráðni og skipta svo, en hann myndi ræða við „the investor“ og gefa nánari upplýsingar 29. september 2008.
19
Í málinu liggur fyrir endurrit af hljóðrituðu símtali, sem HBL og HSK áttu snemma að morgni mánudagsins 29. september 2008. Þar vísaði sá fyrrnefndi til fyrri samræðna þeirra um lán að fjárhæð 200.000.000 evrur, sem ætti að greiða út þennan dag, og greindi síðan frá því að „hann“, sem ekki voru sögð nánari deili á, væri „jafnvel að spá bara í að taka lánið í íslenskum“. Aðspurður kvaðst HSK ekkert sjá því til fyrirstöðu og sagði þá HBL að þetta yrði lagt inn á vörslureikning og notað til uppgjörs á hlutabréfaviðskiptunum frá því viku fyrr. Stuttu síðar sendi HBL tölvubréf til ákærða Magnúsar, LS, SÖS og EH og spurði hvort ákærða Magnúsi hafi tekist að ná í „the client“ og hvort gera ætti gjaldeyrisviðskipti. Þessu svaraði ákærði með tölvubréfi til þeirra sömu, þar sem hann kvaðst hafa rætt við viðskiptavininn og ætti ekki að fara í gjaldeyrisviðskipti, heldur vildi sá fá lánið í íslenskum krónum í bili þar til hún yrði stöðugri. Spurði ákærði hvort þetta gæti gengið. HBL sendi af þessu tilefni tölvubréf til þeirra sömu og staðfesti að svo væri, en bað um að send yrðu þá greiðslufyrirmæli vegna íslenskra króna. Af gögnum málsins verður ekki séð að slík fyrirmæli hafi borist og heldur ekki greiðslufyrirmæli frá Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp. vegna útborgunar á lánum til þeirra, sem HBL hafði þó kallað eftir í áðurnefndum tölvubréfum 26. sama mánaðar.
Í hádeginu 29. september 2008 sendi HBL tölvubréf til HSK, ákærða Magnúsar, EH, SÖS, BHD og GÞG, þar sem fram kom að ganga þyrfti frá peningamarkaðsútlánum til Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp., hvoru að fjárhæð 12.863.497.675 krónur til eins mánaðar með nánar tilgreindum vöxtum. Ætti að leggja lánsféð inn á tiltekna reikninga félaganna hjá Kaupþingi banka hf., millifæra það síðan af þeim reikningum inn á tilgreindan reikning Choice Stay Ltd. og loks að millifæra það þaðan inn á tiltekinn vörslureikning Q Iceland Finance ehf. Í tölvubréfi í framhaldi af þessu til HBL spurðist HSK fyrir um hvenær millifærslurnar ættu að vera dagsettar og svaraði HBL því til að „ádráttur“ ætti að verða þennan dag, en gjalddagi 31. október 2008.
HBL sendi síðan tölvubréf nokkru eftir hádegi 29. september 2008 til ákærða Magnúsar, LS, SÖS og EH og bar upp fyrirspurn um hverja fjárhæð ætti „að láta þá draga í ISK“, en alls þyrfti að gera upp 25.726.000.000 krónur. Hann spurði einnig hvort láta ætti „hvort félag draga nákvæmlega helming af þeirri upphæð“. Um hæl svaraði ákærði Magnús þessu játandi.
Af óútskýrðum sökum hafa verið lögð fram vítt og breitt í málinu þrettán eintök af skjali, sem Kaupþing banki hf. gerði 29. september 2008 um staðfestingu á peningamarkaðsútláni til Serval Trading Group Corp. nr. 398626/449669, en samkvæmt því átti bankinn þennan dag að lána félaginu 12.863.497.675 krónur með nánar tilteknum vöxtum. Skjalið ber með sér að ætlast hafi verið til að það yrði undirritað bæði af hendi lánveitanda og lántaka. Þessi eintök af skjalinu eru samhljóða um annað en það að í sumum eintökum var gjalddagi tilgreindur 8. október 2008 en í öðrum 31. sama mánaðar.
Sams konar staðfesting var gerð 29. september 2008 um peningamarkaðsútlán Kaupþings banka hf. nr. 398625/449668 til Gerland Assets Ltd., sem einnig var að fjárhæð 12.863.497.675 krónur, bera skyldi tilgreinda vexti og greiða átti út þennan dag. Af þessu skjali hafa ekki verið lögð fram nema fimm eintök í málinu, ýmist á íslensku eða ensku, og eru þau í öllum atriðum efnislega samhljóða, þar á meðal um að gjalddagi skuldarinnar yrði 31. október 2008.
Í gögnum málsins er ekkert undirritað eintak af þeim tveimur skjölum, sem hér var síðast getið. Eftir undirritunum var þó leitað, því HBL sendi tölvubréf 1. október 2008 til SÖS og LS ásamt myndritum af þessum skjölum, sem hann óskaði eftir að aflað yrði undirskrifta á.
Kaupþing banki hf. gaf út kvittun 29. september 2008 fyrir því að klukkan 16.40 þann dag voru 12.863.497.675 krónur teknar af tilteknum reikningi bankans og greiddar inn á tiltekinn reikning Serval Trading Group Corp., svo og að sama fjárhæð hafi á hliðstæðan hátt verið lögð inn á tiltekinn reikning Gerland Assets Ltd. við bankann. Sama dag klukkan 16.58 gaf bankinn út aðra kvittun, sem bar með sér annars vegar að sömu fjárhæðir hafi verið teknar af reikningum Serval Trading Group Corp. og Gerland Assets Ltd. og 25.726.995.350 krónur lagðar inn á reikning Choice Stay Ltd. og hins vegar að sú fjárhæð hafi svo verið tekin af reikningi Choice Stay Ltd. og lögð inn á reikning Q Iceland Finance ehf.
Starfsmaður Kaupþings banka hf. sendi laust eftir klukkan 17 þennan dag tölvubréf til HBL, þar sem sagði: „þetta er farið í gegn“.
20
Eins og áður greinir var gjalddagi 30. september 2008 á peningamarkaðsláni, sem Brooks Trading Ltd. hafði fengið 19. sama mánaðar. Fyrrnefnda daginn gerði Kaupþing banki hf. skjal um staðfestingu á framlengingu þessa láns til 14. október sama ár, en áföllnum vöxtum hafði þá sýnilega verið bætt við upphaflega lánið og var ný fjárhæð þess því 50.079.444,44 bandaríkjadalir. Í málinu liggja fyrir eintök af þessu skjali, sem bera undirritun af hálfu lántakans.
Í málinu liggur fyrir afrit af reikningi á hendur Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem dagsettur var 30. september 2008 og að fjárhæð 3.967 evrur. Þetta afrit sendi BÓ til starfsmanns sérstaks saksóknara með tölvubréfi 7. nóvember 2011 og vísaði til þess að við skýrslugjöf hjá lögreglu skömmu áður hafi hann verið beðinn um sýna reikning vegna vinnu, sem hann hafi innt af hendi í tengslum við það sem að framan greinir. Afrit reikningsins ber ekki með sér hver hafi gefið hann út, en með honum fylgdi vinnuskýrsla merkt Logos lögmannsþjónustu. Á þeirri skýrslu voru tilgreindar samtals 11,5 vinnustundir, sem sundurliðaðar voru á dagana 17., 18., 22. og 23. september 2008, og var þar tekið fram að vinnan hafi ýmist tengst „Q Investment structure“ eða „Q Investment issues“. Með þessu gögnum fylgdi jafnframt afrit af kreditreikningi 31. desember 2009, sem stílaður var á Kaupthing Bank Luxembourg S.A., og var fyrrgreind fjárhæð felld niður með honum. Samkvæmt því, sem sagði í áðurnefndu tölvubréfi BÓ, var síðastnefndur reikningur gerður sökum þess að „vinnan var töpuð.“
Starfsmaður Kaupþings banka hf. sendi 1. október 2008 tölvubréf til GA, þar sem fram kom að sá fyrrnefndi hafi tekið til athugunar nokkra af stærstu samningunum, sem hafi verið taldir upp á nánar tilteknu yfirliti um lán sem ætti að fara að greiða út. Hann hafi rætt við HBL „um hversu mikið af þessu væru nett útflæði og það kom mér óþægilega á óvart hversu mikið er að fara út vegna þessa.“ Talin voru upp í þessu sambandi fjögur lán að fjárhæð allt að 280.000.000 evrur, en af þeim voru annars vegar lán til MAT vegna Serval Trading Group Corp. að fjárhæð 50.000.000 evrur og hins vegar lán til þess sama vegna Mink Trading Corp. að fjárhæð 130.000.000 evrur. Við þessa upptalningu var tekið fram að HBL hafi upplýst að fyrrnefnda lánið væri „nett útflæði“ en það síðarnefnda væri „nett um miðjan okt.“ Í framhaldi af þessu framsendi GA tölvubréfið til ákærða Hreiðars og spurði: „Er þetta done?“ Um svör ákærða við þessu liggur ekki annað fyrir en það, sem fram kom í tölvubréfi sem GA sendi stuttu síðar til HBL, þar sem sagði: „Hreiðar segir mér að allt útflæði vegna þessa hafi þegar átt sér stað. Geturðu staðfest?“ Í svari HBL við þessu sagði að „neðangreind fjögur mál eiga væntanlega eftir að fara út. Hér er væntanlega um net útflæði að ræða vegna þessara mála um EUR 200m+“. GA sendi af þessu tilefni tölvubréf til HBL og sagðist þurfa að fá þetta staðfest.
Í tilefni af framangreindu sendi HBL tölvubréf til ákærða Magnúsar og EH, þar sem hann kvaðst vera að reyna að gera áætlun fyrir fjárstýringu Kaupþings banka hf. um útstreymi á næstunni og spurði hverju þeir reiknuðu með „að gerist með CLN-ið fyrir sjeikinn EUR 130m? Við vorum búnir að greiða honum USD 50m í „hagnað“ en aldrei búnir að greiða til DB sjálft CLN-ið. Hver er staðan á þessu er þetta ennþá on og þá hvenær? Þegar við funduðum hér um daginn sögðuð þið Hreiðar að Sjeiknum hefði verið lofað EUR 150m í lán. Hann er búinn að draga tæpar 100m. Er eitthvað vitað hvort og þá hvenær hann muni draga á restina?“ Þessu svaraði ákærði Magnús með eftirfarandi orðum: „Við bíðum aðeins og sjáum til hvort það rofi ekki aðeins til á skerinu áður en við drögum á frekari lánalínur“. HBL sendi þá aftur tölvubréf til ákærða Magnúsar og EH og spurði hvort það ætti þá að reikna með að „þetta fari ekki út fyrr en í nóvember í fyrsta lagi“. Því svaraði ákærði Magnús síðan játandi.
Skömmu eftir framangreind bréfaskipti sendi HBL tölvubréf til GA, þar sem sagði: „Ég fór aðeins betur í gegnum þetta með Magnúsi í Lux. Við skulum ekki reikna með að þessar EUR 180 milljónir ... fari út fyrr en í fyrsta lagi í Nóvember.“ Í tilefni af þessu sendi GA tölvubréf til HBL og ákærða Magnúsar, þar sem sagði: „Þetta gengur ekki alveg svona ... „reiknum með“ þýðir oft að ekkert gerist þegar mest á reynir. Magnús, getur þú eitthvað kveðið fastar að orði?“ Ákærði Magnús svaraði þessu með eftirfarandi orðum: „Sterkara ad ordi Vid greidum ekkert ut til theirra nema med samthykki [GA] og hms Nog?“
Um líkt leyti og framangreind samskipti fóru fram 1. október 2008 sendi GA tölvubréf meðal annars til ákærðu Sigurðar og Hreiðars og sagði eftirfarandi: „Góðu fréttirnar: kassinn er upp um 60 milljarða í dag sem er gott. EDGE er með innflæði upp á 5m evra sem er frábært. Slæmu fréttirnar eru að ég var að líta nánar á „back-up“ samninginn sem við eigum við Deutsche Bank fyrir 1 milljarð evra. Þessi samningur er kjölurinn í back-up plani okkar og án hans er þessi 360 daga regla kolfallin. Þar segir að samningurinn sé aðeins virkur ef lánshæfismat okkar sé a.m.k. „BBB flat, stable outlook frá bæði Moodys og Fitch“. Við erum núna með BBB flat outlook negative svo samningur er ekki í gildi.“ Sagðist GA þurfa að hringja til Deutsche Bank AG til að „endursemja.“ Að morgni 3. október 2008 sendi GA aftur tölvubréf meðal annars til ákærðu Hreiðars og Sigurðar, þar sem fram kom að hann hafi rætt við starfsmann Deutsche Bank AG „út af back-up línunni. Það er ljóst að hún er ekki lengur í gildi og tilgangslaust að gera veður út af því í dag. Það myndi gera hlutina enn verri.“
21
Í tölvubréfum, sem fóru milli TH, EH, BK og ákærða Magnúsar 30. september og 1. október 2008, komu fram ráðagerðir um fund þeirra í Luxembourg síðarnefnda daginn. Í tölvubréfi, sem EH beindi 1. október 2008 til ákærða Ólafs og sendi jafnframt BK og ákærða Magnúsi, var vísað til þess að EH og BK hafi þann dag átt fund með TH til að fara yfir „þær hugmyndir sem við ræddum um fyrr í morgun og hún hefur einnig verið að vinna að með þér.“ Hafi verið farið yfir kosti í stöðunni varðandi uppsetningu eða viðbót við „núverandi strúktúr“ til að ná mestri skattalegu hagkvæmni og komast undan eftirliti í Bretlandi. Um það myndi TH skoða vissa þætti nánar og hafi EH verið í sambandi við BÓ þennan dag, en þeir myndu svo hitta TH til að draga upp hugmyndir og ræða þær við ákærða Ólaf. Þá sagði að með bréfinu fylgdi „yfirlitsmynd yfir stöðu strúktúrsins eins og hún er nú og nokkrar hugmyndir í lokin í línu við það sem ritað er að ofan“, en bréfið ber með sér að því hafi fylgt skjal með heitinu „Structure Proposal III 01-10-09.ppt“.
Fylgiskjalið, sem hér um ræðir, hafði að geyma þriðju útgáfu af skipuriti vegna viðskiptanna með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Að efni til var þessi útgáfa um margt hliðstæð annarri útgáfunni, sem áður var lýst, en í nokkrum atriðum var þó munur. Í annarri útgáfunni var sem fyrr greinir sagt í upphafi lýsingar á viðskiptunum að MAT og hugsanlega fleiri fjárfestar hefðu í félagi við ákærða Ólaf í hyggju að setja upp fjárfestingaráætlun með því markmiði að fjármagna fjárfestingarfélagið Q Iceland Holding ehf. Í þriðju útgáfunni var á hinn bóginn ekki lengur rætt um aðra hugsanlega fjárfesta og var fjárfestingarfélagið nefnt Q Iceland Finance ehf. Sem fyrr var í þriðju útgáfunni sagt að þetta fjárfestingarfélag hefði í hyggju að eignast 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. Einnig kom þar fram að MAT og ákærði Ólafur myndu hvor um sig eignast félag á Bresku Jómfrúareyjunum, sem tækju hvort sitt lán hjá bankanum að fjárhæð 150.000.000 evrur með persónulegum ábyrgðum, en um síðastnefnt atriði hafði orðið sú breyting frá annarri útgáfunni að ekki var lengur sagt að þessar persónulegu ábyrgðir yrðu frá MAT og ákærða Ólafi. Þá var eins og í annarri útgáfunni tiltekið að þetta lánsfé ætti að renna sem hlutafé og hluthafalán til sérstaks fjárfestingarfélags, sem yrði stofnað á Kýpur. Um þetta atriði hafði á hinn bóginn orðið sú breyting að í annarri útgáfunni var rætt um að þetta fjárfestingarfélag yrði að jöfnu í eigu félaga MAT og ákærða Ólafs á Bresku Jómfrúareyjunum, en í þeirri þriðju kom fram að þau félög myndu hvort eiga 42,85% í sérstaka fjárfestingarfélaginu, sem yrði að 14,3% í eigu félags SAT. Í framhaldi af þessu voru báðar útgáfurnar eins að því leyti að sagt var að sérstaka fjárfestingarfélagið myndi lána enn einu félagi 200.000.000 evrur til að kaupa hlutabréfin í Kaupþingi banka hf., en í annarri útgáfunni var það félag nefnt Q Iceland Holding ehf. og þeirri þriðju Q Iceland Finance ehf. Í þriðju útgáfunni hafði síðan í framhaldi af þessu verið bætt við ákvæði um að hluthafalán frá félögum MAT og ákærða Ólafs á Bresku Jómfrúareyjunum til sérstaka fjárfestingarfélagsins ættu að vera með sömu skilmálum og lán sérstaka fjárfestingarfélagsins til Q Iceland Finance ehf., en þó þannig að tiltekinn vaxtamunur yrði eftir í fjárfestingarfélaginu. Í þriðju útgáfunni höfðu síðan verið felld brott ummæli um að Kaupþing banki hf. kynni að veita sérstaka fjárfestingarfélaginu frekari lán. Á myndrænni uppstillingu skipuritsins í þriðju útgáfu þess hafði orðið nokkur breyting frá þeirri, sem fram kom í annarri útgáfunni. Þannig voru nú sýnd þrjú félög á Bresku Jómfrúareyjunum, hvert í eigu SAT, ákærða Ólafs og MAT, og voru heiti þeirra tilgreind, en í annarri útgáfunni voru aðeins sýnd slík félög í eigu þeirra tveggja síðastnefndu án heita. Í þriðju útgáfunni voru þessi þrjú félög sýnd sem eigendur sérstaka fjárfestingarfélagsins í áðurgreindum hlutföllum og var tiltekið að þetta fjárfestingarfélag héti Choice Stay Ltd., en samkvæmt annarri útgáfunni átti fjárfestingarfélagið, sem bar ekkert heiti, að vera að jöfnu í eigu félaga ákærða Ólafs og MAT. Í myndrænni lýsingu í annarri útgáfu skipuritsins hafði verið sýnt félagið Q Iceland Holding ehf., sem yrði að fullu í eigu MAT og fengi 200.000.000 evrur frá sérstaka fjárfestingarfélaginu. Í þriðju útgáfunni var á hinn bóginn sýnt kýpverskt félag með heitinu Q Iceland Invest Ltd. í fullri eigu MAT, sem ætti síðan tvö félög, annars vegar Q Iceland Holding ehf. sem ætti að eignast 12,5% hlut í Alfesca hf., og hins vegar Q Iceland Finance ehf., sem ætti að fá 200.000.000 evrur að láni frá Choice Stay Ltd. og eignast 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. Þá er þess loks að geta að í þriðju útgáfunni hafði verið bætt við sérstökum þætti um frekari þróun skipuritsins, sem átti sér ekki hliðstæðu í annarri útgáfunni. Þar kom fram að þeir, sem áttu í hlut, vildu bæta nýrri einingu inn í skipuritið til að standa að annars konar fjárfestingum í fjármálagerningum, en hugsanlegir kostir í því efni gætu verið sérstakur fjárfestingarsjóður eða fjárfestingarfélag í fullri eigu þeirra sömu.
EH framsendi 2. október 2008 til BÓ fyrrnefnt tölvubréf sitt til ákærða Ólafs frá 1. sama mánaðar ásamt fylgiskjalinu, sem hér var lýst. Í þessu tölvubréfi til BÓ sagði: „Þetta er uppfært mv núverandi stöðu. Ath. að [TH] má ekki vita um að félag ÓÓ fékk 150 mio að láni.“
Í tölvubréfi, sem EH sendi 5. október 2008 til SÖS og annars starfsmanns Kaupthing Bank Luxembourg S.A., var því hreyft að það þyrfti að fá skráð veðréttindi vegna einhverra af skuldbindingum ákærða Ólafs í fasteign hans í Frakklandi og var spurt hvernig þoka ætti því áfram. Starfsmaðurinn svaraði því til að biðja yrði BK um að láta senda viðeigandi skjöl. EH framsendi síðan þessi bréfaskipti til BK með spurningu um hvernig þeir ættu „að tækla þetta“. Frekari orðsendingar um þetta efni liggja ekki fyrir í málinu.
TH sendi 6. október 2008 tölvubréf til EH, BÓ, ákærða Ólafs og KH, sem varðaði samkvæmt yfirskrift sinni „stofnun sjóðs og ráðgjafafyrirtækis“, en í bréfinu sagðist hún hafa útbúið minnisblað, sem fylgdi bréfinu, sem „upphafsgagn fyrir fund okkar til að fara yfir málið.“ Minnisblað þetta liggur fyrir í málinu og virðist það bera þess merki að TH hafi ekki haft undir höndum áðurnefnda þriðju útgáfu af skipuriti, þótt minnisblaðið hafi að nokkru snúist um atriði, sem þar komu fram. EH svaraði þessari orðsendingu TH með tölvubréfi 6. október 2008 til þeirra sömu og áður voru taldir, en þar kom fram að hann yrði á Íslandi 8. sama mánaðar og legði hann til að þau ættu fund þann dag. Í tölvubréfum, sem fóru síðan milli þeirra sömu, var bundist fastmælum um fund laust eftir hádegi síðastnefndan dag. Af skjölum málsins verður ekki annað ráðið en að orðið hafi af þeim fundi, en ekkert kemur þar frekar fram um hvað hafi verið gert á honum.
Í málinu liggja fyrir tvö skjöl á ensku, sem TH undirritaði 7. október 2008. Í öðru þeirra lýsti hún því yfir að hún hafi ekki undirritað önnur skjöl í nafni Q Iceland Finance ehf. en flöggunartilkynningu og gögn til að fá opnaðan reikning hjá Kaupþingi banka hf. Í hinu skuldbatt hún sig til að undirrita ekki samninga eða aðrar skuldbindingar í nafni Q Iceland Finance ehf. nema samkvæmt skriflegri beiðni MAT.
22
Í málinu liggur fyrir endurrit af símtali, sem var hljóðritað og HBL átti að morgni 7. október 2008 við SÖS. Í símtalinu spurði HBL meðal annars hver staðan væri með „þessa pappíra“ og hvort MAT hafi ekki verið búinn að undirrita allar ábyrgðir. SÖS svaraði því til að hann hafi fyrir hálfum mánuði skrifað undir „ábyrgðir á sínum lánum“ og skjalapakka „til að kaupa“, en hann vissi ekki hvort MAT hafi skrifað undir allt „varðandi Credit Linked Notes“. HBL sagði þá: „Það var nú svo, svo létum við hann fá þarna 50 milljónir dollara til viðbótar sko sem hagnaðinn af því, sko hann fékk það fyrir fram. Svo náttúrulega er ekki einu sinni búið að, að útbúa þetta“.
Síðdegis 7. október 2008 átti SÖS símtal við EH, sem jafnframt var hljóðritað, en samkvæmt endurriti af því sagði sá síðarnefndi meðal annars að „Katararnir halda að þeir geti bakkað út úr þessu Ólafur hringdi í mig áðan og þeir eru að spá í eitthvað hvort að peningarnir hafi gengið rétta leið og allt þetta“. Ræddu þeir í framhaldi af þessu hvort undirrituð skjöl hafi ekki skilað sér. Um líkt leyti og þetta samtal fór fram sendi EH tölvubréf til SÖS og ákærða Magnúsar, þar sem hann kvaðst hafa rætt við lögmanninn SS um „fjarmognun og kaup a brefum Q Iceland i bankanum. Hann vildi fa hreyfingayfirlit fyrir hvert felag i ferlinu. [HBL] er ad redda thvi. Eg bad [DR] ad faela oll frumgognin um daginn sem MG kom med fra London i tengslum vid thessa transaction.“ Í málinu liggur fyrir tölvubréf, sem HBL sendi á sama tíma til starfsmanns Kaupþings banka hf. með beiðni um að fá yfirlit yfir hreyfingar á reikningum Serval Trading Group Corp., Choice Stay Ltd. og Q Iceland Finance ehf. hjá bankanum. Þessi yfirlit fékk HBL stuttu síðar með tölvubréfi, sem hann framsendi til EH. Sá síðastnefndi óskaði svo eftir því í tölvubréfi snemma morguns 8. október 2008 til LS að hún sendi þessi gögn til SS.
Að morgni 8. október 2008 áttu SÖS og HBL símtal, sem var hljóðritað, og liggur fyrir endurrit af því. Þar töluðu þeir fyrst um hreyfingar, sem urðu á fé milli einstakra félaga sem um ræðir í málinu, og spurði þá SÖS hvort það hafi verið lánað í krónum. Því svaraði HBL þannig: „Maggi vildi það, alveg á síðustu metrunum þegar að ég var að fara að afgreiða þetta evrulán á föstudagskvöldið ... þá var ég í samskiptum við Magga þar sem hann biður mig að, fyrst að FX-ið hafi ekki verið komið í gang, sko að breyta þessu yfir í íslenskar og bað mig að bíða sko, hann ætlaði að tala við, við, við Óla og Sheikinn. Og svo á mánudagsmorgni kemur hann til baka og segir að þeir ætli bara að taka lánið í íslenskum.“ Hann bætti síðar við að hann „ætlaði að taka þetta í evrum og hérna kaupa krónur sko en Maggi vildi það ekki. Maggi bað mig um bara að afgreiða þetta í íslenskum krónum.“ Þeir ræddu síðan um frágang skjala vegna þessara viðskipta, svo og um erfiðleika Kaupþings banka hf. og sölu eigna, sem hafi í einhverjum tilvikum verið á brunaútsölu. SÖS sagðist að endingu efast um að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. yrði til eftir nokkrar vikur og svaraði HBL með því að hann héldi að línan væri að „skala þetta allt niður í einhverja litla operation hérna á Íslandi“.
LS sendi tölvubréf að áliðnum morgni 8. október 2008 til EH og SÖS og beindi því þar til þess fyrrnefnda að þau SÖS væru að fara yfir viðskipti MAT. Meðal þess, sem ylli þeim hugarangri, væri að skjöl um hvað hafi verið gert með heimild frá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. næðu ekki lengra en til þess að fé hafi verið greitt til Q Iceland Finance ehf. Engin gögn lægju fyrir um heimild Kaupthing Bank Luxembourg S.A. til að kaupa hlutina í Kaupþingi banka hf. og spurði hún hvort EH vissi til þess að eitthvað slíkt hafi verið útbúið á Íslandi. Þá benti hún á að einnig vanti gögn um heimild til að færa lán vegna þessara viðskipta úr evrum í krónur til að leggja inn á reikninga hjá Kaupþingi banka hf. Hún hefði undir höndum nokkur tölvubréf frá ákærða Magnúsi til HBL, þar sem fram kæmi að hann hafi rætt við viðskiptavinina, en annað ekki. Að auki vanti frumrit skjala frá MAT og spurði hún hvort EH vissi hvar þau væru. Þessu svaraði SÖS stuttu síðar með tölvubréfi til LS og EH, þar sem hann kvaðst hafa spurt ákærða Magnús hvað hann hafi gert við frumrit skjala frá MAT og hafi hann sagst hafa afhent þau starfsmanni Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Sá starfsmaður segðist á hinn bóginn aðeins hafa undir höndum rafræn eintök af skjölunum. Í tölvubréfi, sem EH sendi af þessu tilefni til LS og SÖS, kom fram að hann væri viss um að frumrit þessara gagna hafi verið afhent starfsmanni bankans að nafni DR og hefði hann lagt áherslu á að þau yrðu varðveitt í ljósi eðlis þessara viðskipta, en ef gögn vantaði vegna Q Iceland Finance ehf. benti hann LS á að leita til TH. Af þessu tilefni sendi LS aftur tölvubréf til EH og bað hann um að sinna síðastnefndu atriði úr því að hann myndi hitta TH á fundi þennan dag, en það samþykkti EH að gera í svari til hennar.
Aftur áttu SÖS og HBL símtal laust fyrir hádegi 8. október 2008, en það var hljóðritað og liggur fyrir endurrit af því. Þar sagði SÖS meðal annars að „vandræðin eru þessi að þeir ætla sér að komast út úr þessu og þeir eru með case, segja hvaða krónur eru þetta, við höfum bara bókað að við ætlum að taka lán í evrum. Ég þori ekki einu sinni að ræða þetta við Magga núna, hann er ekki viðræðuhæfur fyrir stressi.“ HBL spurði nokkru síðar í samtalinu um „hver samþykkti þetta munnlega eða skriflega við Magga sko“ og sagðist SÖS ætla að spyrja hann að því.
Um hádegi 8. október 2008 sendi SÖS tölvubréf til EH og kvaðst hafa rætt ítarlega við áðurnefnda DR, sem segðist vera viss um að hún hafi aðeins fengið frumrit skjala varðandi Mink Trading Corp., en rafræn myndrit af öðru, sem hún hafi gætt sérstaklega vel. Hún myndi þó halda leit áfram, en öll væru þau „vel stressuð“ og mætti ekki gerast að frumgögn fyndust ekki. Að endingu spurði SÖS hvort EH vissi hvort lögmaðurinn SS hafi sent „skjölin á Magnús“, en um þetta spyrji hann út af því að ákærði Magnús hafi farið til London og samið við lögmanninn, sem hafi svo farið til Qatar og fengið skjölin undirrituð. Þessu svaraði EH með tölvubréfi skömmu síðar til SÖS og fullyrti að hann hefði látið DR fá skjalapakkann, sem ákærði Magnús hafi komið með frá London. Sagðist hann minna að meðal þessara skjala hafi verið bréf frá SS, þar sem þau hafi öll verið talin upp, en fyndist það bréf mætti sjá hvaða gögn EH hafi afhent. DR sendi af þessu tilefni tölvubréf til hinna þriggja, þar sem hún vísaði til þess að meðfylgjandi væri bréfið frá SS, sem staðfesti að gögnin sem þau hafi fengið hafi eingöngu varðað Mink Trading Corp.
Af framangreindu tilefni sendi EH á ný tölvubréf til SÖS og LS og sagði það nauðsynlegt að hafa samband við SS til að fá þau frumgögn sem vantaði. Í framhaldi af þessu sendi SÖS tölvubréf til SS, þar sem hann þakkaði fyrir samtal sem þeir hafi átt og vísaði til þess að með bréfinu fylgdu myndrit af skjölum varðandi Serval Trading Group Corp. Með því að lögmaðurinn hafi staðfest að hann hefði frumrit þessara skjala undir höndum væri hann beðinn um að senda þau strax. Í framhaldi af þessu sendi SÖS annað tölvubréf til EH og kvað SS hafa verið mjög varkáran í símtali þeirra, sagt frumskjöl vera hjá sér eins og sakir stæðu og beðið síðan um lista yfir skjölin sem SÖS vantaði, en „hann er bara að stolla ... ég hef ekki trú á að við fáum þessi frumrit svo auðveldlega.“ EH og SÖS áttu stuttu síðar símtal, sem var hljóðritað, þar sem þeir ræddu meðal annars um erfiðleika við að fá skjöl frá SS og hvort yfirlit, sem hann vildi fá, gætu leitt til vandræða, því viðskiptin hafi í raun öll farið fram í krónum þótt skjöl um þau hafi hljóðað á lán í evrum. Nokkru eftir þetta sendi SÖS tölvubréf til EH og kvaðst mundu senda SS reikningsyfirlit með skýringum. Það gerði SÖS í beinu framhaldi, en í því tölvubréfi var vísað til meðfylgjandi reikningsyfirlita, sem sýndu að lán til Serval Trading Group Corp. hafi verið að fjárhæð 12.863.497.675 krónur og lán til Gerland Assets Ltd. hafi verið nákvæmlega eins. Féð úr báðum lánum hafi svo rakleitt verið fært yfir á reikning Choice Stay Ltd. og þaðan á reikning Q Iceland Finance ehf.
Um þær mundir sem síðastnefnd samskipti með tölvubréfum fóru fram áttu HSK og GÞG símtal, sem var hljóðritað og liggur fyrir í málinu endurrit af því. Þar spurðist GÞG fyrir um stöðu skuldar Serval Trading Group Corp. við Kaupþing banka hf. og upplýsti HSK að hún væri „12,8 milljarðar íslenskar“. Nokkru síðar ræddust EH og LS við í símtali, sem einnig var hljóðritað, en þar sagði hann meðal annars að Kaupþing banki hf. vildi næsta dag fá undirrituð eintök af öllum skjölum vegna viðskiptanna. Í framhaldinu beindist samtal þeirra inn á aðrar brautir með því að EH kvaðst ætla að athuga við BK hvort „we have the money there for Mink or Brooks“ og bauðst þá LS til að gera það, sem EH þáði og bað hana um að athuga einnig hvernig féð hefði verið fest. Í samræmi við þetta sendi LS tölvubréf til BK og spurðist fyrir um hvort bókaðar væru hjá þeim 50.000.000 evrur, sem Kaupþing banki hf. hafi átt að greiða til Mink Trading Corp. eða Brooks Trading Ltd., en ef svo væri bað hún um upplýsingar um á hvaða reikningi féð stæði og hvort það væri á nokkurn hátt bundið. Í svari BK kom hann á framfæri þeirri leiðréttingu að um 50.000.000 bandaríkjadali væri að ræða og stæðu þeir á innlánsreikningi Brooks Trading Ltd. hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. LS spurði þá í beinu framhaldi hvort einhverjar takmarkanir væru á því að viðskiptamaðurinn gæti flutt þetta fé og svaraði BK því til í tölvubréfi, sem hann beindi til LS, EH, SÖS og ákærða Magnúsar, að hann vissi það ekki, en hugsanlega gætu EH eða ákærði Magnús upplýst það. LS sendi af þessu tilefni tölvubréf til þeirra sömu og kvað ákærða Magnús frekar vant við látinn, en EH væri sá, sem leitaði þessara upplýsinga. Sagði hún að þau skyldu láta þetta kyrrt liggja um sinn ef ekkert væri að sjá um þetta í kerfum bankans. EH sendi af þessu tilefni tölvubréf til þeirra sömu og sagði það eitt að hann væri að fást við þetta.
Um líkt leyti áttu HBL og HSK þrjú símtöl með nokkru millibili. Í því fyrsta vísaði HBL til þess að Serval Trading Group Corp. stæði í skuld vegna peningamarkaðsláns „upp á tæpa 13 milljarða íslenskar“, en á reikningi í Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sætu „50 milljón dollarar ... sem eiga að fara inn á þetta lán“. Að þessu sögðu ræddu þeir nokkuð um hvernig framkvæma mætti flutning á fénu og sagði síðan HBL að „þetta þyrfti að ganga í gegn sko eins og annað tiltölulega hratt“, en greiða ætti með þessu inn á lánið og myndi svo „sá sem stendur á bak við þetta félag“ taka ábyrgð á eftirstöðvunum. Í öðru símtalinu kvaðst HSK hafa rætt við starfsmann Kaupthing Bank Luxembourg S.A., áðurnefndan FXC, um hugsanlega framkvæmd á flutningi fjárins. Í því þriðja var enn rætt um það sama, en fram kom í máli GBL að EH væri staddur hjá sér. Samhliða þessu beindi EH tölvubréfi til FXC og BK, sem einnig var sent ákærða Magnúsi, þar sem hann bað FXC um að ræða við ÓFG um ráðstöfun á 50.000.000 bandaríkjadölunum til að endurgreiða í krónum peningamarkaðslán Serval Trading Group Corp. frá Kaupþingi banka hf. Aftur sendi EH tölvubréf skömmu síðar til FXC, sem hann bað um að ræða við HSK til að finna skilvirkustu leiðina, en sá síðastnefndi hefði frekari upplýsingar. Eftir að nokkur fjöldi annarra tölvubréfa hafði gengið 8. október 2008 milli starfsmanna Kaupþings banka hf. og Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sendi EH að áliðnum degi tölvubréf til FXC, þar sem gefið var upp númer á reikningi hjá Kaupþingi banka hf. til að greiða inn á, og eftir það greindi ÓFG frá því í tölvubréfi til EH, FXC, HBL og HSK að framkvæma mætti færsluna í bakvinnslu bankans ef það yrði samþykkt af Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem EH og FXC staðfestu báðir. Að þessu búnu sendi BK fyrirmæli til starfsmanns Kaupthing Bank Luxembourg S.A. um að senda 12.800.000.000 krónur inn á reikninginn hjá Kaupþingi banka hf., sem EH hafði vísað á samkvæmt áðursögðu. Stuttu síðar sendi BK svo aftur tvö tölvubréf til starfsmanna Kaupthing Bank Luxembourg S.A., þar sem hann annars vegar kom á framfæri þeirri leiðréttingu að fjárhæðin, sem senda ætti, væri 12.520.750.000 krónur og hins vegar lýsti yfir að reikningur Brooks Trading Ltd. væri „unlocked“.
Um frekari framkvæmd þessarar greiðslu virðist ekki liggja annað fyrir í skjölum málsins en svonefnt SWIFT-skeyti, sem Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sendi 8. október 2008 til Kaupþings banka hf., en í því virðast hafa falist fyrirmæli um að taka 12.520.750.000 krónur af tilteknum reikningi fyrrnefnda bankans hjá Kaupþingi banka hf. og leggja sömu fjárhæð inn á tiltekinn reikning síðarnefnda bankans í þágu Brooks Trading Ltd. Virðist óumdeilt að þetta hafi nánar verið gert á þann hátt að 50.000.000 bandaríkjadalir, sem Brooks Trading Ltd. átti á reikningi hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. vegna peningamarkaðslánsins frá Kaupþingi banka hf., hafi ásamt áföllunum vöxtum verið teknir af þeim reikningi. Samkomulag hafi tekist í tengslum við þetta milli Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og Kaupþings banka hf. um að síðarnefndi bankinn keypti þessa bandaríkjadali af þeim fyrrnefnda á genginu 250 krónur fyrir hvern. Greiðslu vegna þessara kaupa hafi svo verið jafnað út á móti öðrum skuldbindingum milli bankanna þannig að myndast hafi innstæða á reikningi Kaupthing Bank Luxembourg S.A. í krónum hjá Kaupþingi banka hf. Af þeim reikningi hafi fjárhæðin 12.520.750.000 krónur loks verið tekin til að greiða inn á skuld Serval Trading Group Corp. vegna peningamarkaðslánsins, sem Kaupþing banki hf. veitti félaginu samkvæmt áðursögðu 29. september 2008 og var upphaflega að fjárhæð 12.863.497.675 krónur.
Í málinu liggja fyrir gögn um að nefndar 12.520.750.000 krónur hafi 8. október 2008 verið færðar hjá Kaupþingi banka hf. sem innborgun á þessa skuld Serval Trading Group Corp. Sendi einnig EH tölvubréf til BK í lok dags 8. október 2008 um að hann væri búinn að „fa stadfest ad thetta er komid I gegn.“
Aðfaranótt 9. október 2008 neytti Fjármálaeftirlitið sem áður segir heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi banka hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd.
23
Í hljóðrituðu símtali HBL og ÓFG, sem þeir áttu um hádegi 9. október 2008, kom meðal annars fram að EH hafi beðið um staðfestingu á því að skuld Serval Trading Group Corp. við Kaupþing banka hf. hafi verið greidd upp. Í framhaldi af því sendi ÓFG tölvubréf til HBL, þar sem fram kom að fengin hafi verið greiðsla á 12.520.750.000 krónum inn á peningamarkaðslán Serval Trading Group Corp., en með vöxtum hafi hún numið 12.920.097.065 krónum og stæðu því eftir 399.347.065 krónur. Þetta bréf framsendi síðan HBL til EH og spurði jafnframt eftir hverju EH væri nákvæmlega að leita og hvort þetta dygði „ekki bara varðandi stöðuna á láninu“. Þessu svaraði EH með tölvubréfi til HBL, þar sem hann sagðist hafa verið að leita að „einhverskonar kvittun eda utprentun sem stadfestir stoduna.“
Lögmaðurinn SS ritaði 10. október 2008 tölvubréf til SÖS og spurðist fyrir um hver væri staða á skuld Serval Trading Group Corp. eftir greiðsluna, sem hafi borist. SÖS svaraði því til að hann myndi brátt geta sent upplýsingar um þetta, en bað jafnframt um að lögmaðurinn staðfesti að gögn, sem þeir hafi áður rætt um, yrðu send. Lögmaðurinn svaraði SÖS með þeim orðum að hann væri frá skrifstofu sinni í nokkra daga, en þegar hann kæmi til baka myndi hann senda öll skjöl sem vantaði.
Kallað var víðar 10. október 2008 eftir undirrituðum eintökum af skjölum í tengslum við viðskiptin, sem málið varðar. Þannig leitaði starfsmaður Kaupþings banka hf. eftir því með tölvubréfi til HBL þennan dag að aflað yrði undirskrifta á skjöl til staðfestingar á fyrrnefndum peningamarkaðslánum bankans til Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp. frá 29. september 2008 og framlengingu á slíku láni til Brooks Trading Ltd. 30. sama mánaðar. Þetta erindi framsendi HBL sama dag með tölvubréfi til SÖS og LS, en hún sendi HBL stuttu síðar myndrit af nokkrum skjölum, þar á meðal út af síðastnefndu peningamarkaðsláni. Þá framsendi EH 14. október 2008 til HBL áðurnefnt tölvubréf frá ákærða Ólafi til ákærða Magnúsar frá 21. september sama ár, en því fylgdu sem áður segir myndrit af skjölum, sem MAT hafði undirritað og dagsett voru 20. þess mánaðar.
Enn gekk SS eftir upplýsingum um stöðu skuldar Serval Trading Group Corp. með tölvubréfi til SÖS 13. október 2008. Því erindi beindi SÖS samdægurs til HBL og liggja fyrir í málinu nokkur tölvubréf, sem fóru í framhaldi af því milli starfsmanna Kaupþings banka hf. um þetta efni. Af þeim verður ráðið að málaleitan um slíka útreikninga hafi beinst inn á þá braut að fundið yrði hvert uppgreiðsluverð skuldarinnar yrði 15. október 2008. Í því sambandi er þess að geta að fyrir liggur endurrit af hljóðrituðu símtali, sem HBL átti 13. október 2008 við ÓFG, þar sem sá síðarnefndi gat þess að EH vildi endilega að skuld Serval Trading Group Corp. yrði greidd upp. HBL barst síðan útreikningur í samræmi við þetta í dagslok 13. október 2008 og sendi hann til EH með tölvubréfi. Daginn eftir áttu HBL og ÓFG aftur símtal, sem var hljóðritað, og kvað sá síðarnefndi ákærða Ólaf hafa verið í sambandi við sig til að fá „töluna sem hann skuldaði“, en HBL svaraði því þá til að hann hafi þegar sent upplýsingar um það til EH.
Starfsmaður Kaupþings banka hf. ritaði 14. október 2008 tölvubréf til HBL og BHD, þar sem hann vakti athygli á því að peningamarkaðslán til Brooks Trading Ltd. væri á gjalddaga þennan dag og spurði hvort framlengja ætti það. Þessari fyrirspurn svaraði HBL með tölvubréfi, þar sem hann mæltist til þess að skuldin yrði höfð í vanskilum. Ekki er að sjá skýringar í gögnum málsins á því að þrátt fyrir þetta gerði bankinn þennan dag skjal um staðfestingu á að lánið hafi aftur verið framlengt, þessu sinni til 18. nóvember sama ár, en skuldin næmi orðið 50.190.843,38 bandaríkjadölum að meðtöldum áföllnum vöxtum. Í málinu hefur ekki verið lagt fram undirritað eintak af þessu skjali.
TH ritaði tölvubréf 14. október 2008 til ákærða Ólafs og fylgdu því tvö skjöl. Var þar annars vegar um að ræða yfirlýsingu, sem ætluð var Kaupthing Bank Luxembourg S.A. til undirritunar, um að hann ætti engar kröfur á hendur MAT, SAT, Serval Trading Group Corp. eða Jackal Finance Inc. og væru því allar ábyrgðir, sem þeir tveir fyrstnefndu hafi gefið út til bankans, fallnar úr gildi. Hins vegar var yfirlýsing, sem var ætluð Kaupþingi banka hf., um að hann ætti engar kröfur á þessa menn, fyrrnefnd félög þeirra eða Q Iceland Finance ehf. Ákærði Ólafur framsendi þetta tölvubréf með fylgigögnunum samdægurs til EH með fyrirspurn um hvort unnt væri að fá yfirlýsingar sem þessar frá bönkunum „ef skuld HH er greidd upp að fullu“. EH sendi þetta áfram til HBL, sem framsendi það sama dag til BHD með spurningunni: „Ertu tilbúinn að skrifa upp á svona yfirlýsingu?“
Í málinu liggur fyrir svonefnt SWIFT-skeyti frá 20. október 2008, sem virðist bera með sér að þann dag hafi MAT greitt 2.645.190,08 evrur inn á reikning Kjalars hf. við Deutsche Bank AG. Að morgni 21. sama mánaðar sendi starfsmaður Samskipa hf. tölvubréf til Kaupþings banka hf., þar sem óskað var eftir því að 401.885.137 krónur yrðu teknar af tilteknum reikningi ákærða Ólafs „vegna uppgreitt lán Serval.“ Greiðsla þessi var sýnilega framkvæmd, enda sendi starfsmaður Samskipa hf. stuttu síðar kvittun fyrir henni með tölvubréfi til HBL, þar sem sagði að kvittunin væri send að beiðni ákærða Ólafs. Þessa kvittun framsendi HBL síðan til tveggja annarra starfsmanna Kaupþings banka hf. og lét þess getið að samkvæmt henni hafi skuld Serval Trading Group Corp. við bankann verið greidd upp.
Lögmaðurinn SS ritaði tölvubréf 22. október 2008 til HBL og kvaðst þar gera það eftir ábendingu frá EH, en erindi hans væri að óska eftir því fyrir hönd MAT að yfirlýsing hans um ábyrgð á skuld Serval Trading Group Corp. við Kaupþing banka hf. yrði send til lögmannsins í ljósi þess að skuldin hafi verið greidd upp. Þetta erindi ítrekaði lögmaðurinn síðan í tölvubréfi 3. nóvember 2008, en því hafnaði HBL með tölvubréfi 18. sama mánaðar. Þetta virðist hafa orðið tilefni til að EH beindi fyrirspurn til HBL með tölvubréfi síðastgreindan dag um hvort það væri „eitthvad vesen ut af thessum fael“. Því svaraði HBL samdægurs með eftirfarandi orðum: „Í grunninn er málið að það er mikil ákvörðunartökufælni í bankanum í dag og enginn vill í raun skrifa upp á þetta. Sérstaklega í ljósi þess að endurgreiðsla lánsins var kannski ekki hafin yfir gagnrýni.“
Starfsmaður Kaupþings banka hf. sendi HBL tölvubréf 30. október 2008, þar sem fram kom að skuld Gerland Assets Ltd. að fjárhæð 12.863.497.675 krónur væri á gjalddaga næsta dag og var spurt hvort þetta „eigi að rúlla áfram eða settla“. HBL framsendi þetta erindi sama dag til BHD með tölvubréfi, þar sem sagði eftirfarandi: „Þetta er lánið hans ÓÓ til að kaupa bréf í bankanum með sjeiknum um daginn ... er ekki rétt að gjaldfella þetta lán bara engin ástæða til að lengja í þessu?“ BHD svaraði HBL í tölvubréfi 2. nóvember sama ár með eftirfarandi orðum: „Það er engin ástæða til að framlengja þetta. Verðum bara að fara í uppgjör á málinu og afskrifa.“ Eftir gögnum málsins hefur Kaupþing banki hf. enga greiðslu fengið upp í þessa skuld, en 20. janúar 2009 var fjárhæð hennar talin nema 13.574.134.458 krónum.
Ekki verður annað séð af gögnum málsins en að peningamarkaðslán Kaupþings banka hf. til Brooks Trading Ltd. hafi verið í vanskilum frá 18. nóvember 2008 þegar gjalddaga lánsins bar upp samkvæmt áðurnefndu skjali um framlengingu þess 14. október sama ár. Fyrir liggur í málinu að bankinn taldi 20. janúar 2009 að skuld félagsins vegna þessa næmi orðið 50.972.370,58 bandaríkjadölum. Kaupþing hf., svo sem félagið hét þá orðið, gaf út stefnu 19. janúar 2012 á hendur MAT, þar sem krafist var aðallega að hann yrði dæmdur til að greiða félaginu 12.662.854.813 krónur. Sú krafa var einkum reist á því að bæði skuld Serval Trading Group Corp. og ábyrgð MAT væru enn við lýði, enda hafi greiðsla Brooks Trading Ltd. á skuldinni 8. október 2008 verið „ólögmæt og ógild sem slík.“ Það mál mun aldrei hafa verið þingfest, en fyrir liggur að Kaupþing hf. og þrotabú Brooks Trading Ltd. gerðu 7. desember 2012 samning við MAT og fleiri um að ljúka ágreiningi, sem þetta fyrirhugaða dómsmál átti að taka til, með því að sá síðastnefndi greiddi þrotabúinu 26.500.000 bandaríkjadali. Samkvæmt bréfi slitastjórnar Kaupþings hf. 21. febrúar 2013 fékk félagið 12. sama mánaðar greidda 25.962.735,31 bandaríkjadali af framangreindri fjárhæð frá þrotabúi Brooks Trading Ltd.
V
1
Hér í upphafi var í grófum dráttum greint frá viðskiptunum, sem mál þetta er sprottið af, en að framan hefur síðan verið rakið helsta efni fjölmargra skjala, sem lögð hafa verið fram í málinu. Þessi skjöl stafa frá þeim tíma, sem atvik málsins gerðust, og gefa til samans mynd af undirbúningi viðskiptanna og framkvæmd þeirra, svo og að nokkru af eftirmálum þeirra. Ákæra í málinu snýr að afmörkuðum þáttum þessara viðskipta. Einstök atriði innan þeirra tengjast á hinn bóginn með þeim hætti að draga verður hér saman ályktanir um hvað sé sannað í málinu og þá einkum með tilliti til framlagðra skjala, þótt slíkar ályktanir snúi ekki í öllum tilvikum beinlínis að tilteknum þáttum í ákærunni.
2
Hér áður hefur verið greint frá því hvernig ákærðu Hreiðar og Ólafur lýstu í skýrslum sínum fyrir héraðsdómi að hugmynd hafi kviknað um að kanna hvort MAT kynni að hafa áhuga á að kaupa hlutabréf í Kaupþingi banka hf., en báðir báru þeir um að það hafi gerst eftir að lokið hafi án árangurs viðræðum um slík kaup við Qatar Investment Authority og hafi ákærði Hreiðar fyrstur hreyft hugmyndinni. Ákærði Ólafur kvað það hafa gerst í lok ágúst 2008, hann hafi kynnt hugmyndina fyrir SAT, sem hafi síðan fengið nánari upplýsingar um kjör í slíkum viðskiptum, en ákærði Hreiðar hafi gert tillögu um þau og ákærði Ólafur borið á milli. Ákærði Hreiðar kvað MAT hafa áður fylgst með viðræðum Kaupþings banka hf. við Qatar Investment Authority gegnum tengsl sín við ákærða Ólaf og sagði sá síðastnefndi jafnframt að SAT hafi leitað upplýsinga hjá Qatar Investment Authority eftir að tillaga ákærða Hreiðars var komin fram. Í byrjun september 2008 hafi svo SAT staðfest að MAT hefði áhuga á þessum viðskiptum. Ákærði Hreiðar lýsti þessu þannig fyrir dómi að samkomulag hafi tekist um kaupin í byrjun þess mánaðar.
Framangreind lýsing getur samrýmst framlögðum skjölum í málinu að því leyti að fyrir liggur að ákærði Ólafur veitti starfsmanni Qatar Investment Authority upplýsingar í tölvubréfi 16. apríl 2008 um tiltekin atriði varðandi Kaupþing banka hf., en augljóst er af efni bréfsins að þær hafi tengst hugleiðingum um kaup á hlutabréfum í félaginu. Þá liggja fyrir tölvubréf, sem fóru milli þeirra sömu 23. og 25. apríl og 7. maí 2008 varðandi áreiðanleikakönnun á Kaupþingi banka hf., svo og fyrrnefnt bréf ákærða Ólafs til forsætisráðherra Qatar 14. júlí 2008, sem ritað var eftir að félagið hafði hafnað boði Qatar Investment Authority um verð fyrir hluti í því. Af yfirliti, sem liggur fyrir í málinu og var gert af starfsmanni Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. 20. ágúst 2008, verður ráðið að það boð hafi hljóðað á 399 krónur fyrir hvern hlut. Í ljósi framangreinds framburðar ákærðu Hreiðars og Ólafs má leggja til grundvallar að MAT hafi verið kunnugt um þetta boð þegar hann lýsti áhuga á kaupum á hlutum í Kaupþingi banka hf. á grundvelli tillögu ákærða Hreiðars, sem eftir framburði ákærða Ólafs miðaði við markaðsverð hlutanna. Eins og áður er fram komið keypti Q Iceland Finance ehf. hlutina í félaginu á 690 krónur hvern. Ekki hefur komið fram í málinu viðhlítandi skýring á því að MAT hafi viljað ganga til kaupa á því verði í ljósi þess, sem Qatar Investment Authority hafði áður boðið fyrir sitt leyti.
Um tímasetningar í fyrrgreindri rás atburða má að öðru leyti gæta að því að enski lögmaðurinn SS sendi sem áður segir ákærða Magnúsi bréf 8. september 2008 ásamt gögnum varðandi umsókn MAT um reikningsviðskipti við Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Í tengslum við afgreiðslu þeirrar umsóknar sendi ákærði Magnús nokkrum starfsmönnum Kaupthing Bank Luxembourg S.A. tölvubréf 11. sama mánaðar, þar sem sagði meðal annars að „we, kaupthing people have been meeting them over the last 3 years to make something special“. Fyrr sama dag hafði starfsmaður bankans, LS, jafnframt lýst því í tölvubréfi til nokkurra samstarfsmanna sinna að viðskipti við Mink Trading Corp. og Brooks Trading Ltd. væru orðin aðkallandi og þyrfti að hafa tilbúin skjöl vegna þeirra þegar ákærði Magnús færi til fundar við viðskiptavininn 15. sama mánaðar. Þótt þessi atriði gefi vísbendingar um að viðskipti MAT kunni að hafa átt lengri aðdraganda en ákærðu hafa lýst hefur það ekki sérstakt vægi við úrlausn málsins.
3
Fyrir héraðsdómi lýsti ákærði Hreiðar sem áður segir megininntaki samkomulags, sem tekist hafi við MAT í september 2008, á þann hátt að í fyrsta lagi myndi fjárfestingarfélag í eigu hans kaupa 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf., sem myndi veita lán fyrir öllu kaupverðinu gegn sjálfskuldarábyrgð hans fyrir helmingi þess, og yrði þeirri ábyrgð síðar skipt út fyrir veðtryggingu. Í öðru lagi myndi bankinn leggja MAT til lánsfé til að eiga viðskipti við Deutsche Bank AG um svonefnd „Credit Linked Notes“. Í þriðja lagi fengi fjárfestingarfélag í eigu hans 50.000.000 bandaríkjadali að láni til fjárfestinga, en fyrir því yrði veittur veðréttur í áðurnefndum „Credit Linked Notes“. Aðspurður fyrir dómi um ástæðu þess að ákærðu Ólafur og Magnús hafi valist til farar til Qatar 16. september 2008 til að eiga fund með MAT sagði ákærði Hreiðar um þann fyrstnefnda að þar hafi búið að baki að hann hafi komið viðskiptunum á. Ákærði Magnús hafi á hinn bóginn verið fenginn til ferðarinnar til að fá skjöl undirrituð og stofna jafnframt til viðskiptasambands við MAT og fjölskyldu hans um einkabankaþjónustu hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A., svo og um að halda utan um fjárfestingarfélög hans í tengslum við þessi viðskipti. Ákærði Magnús hafi ekki tekið þátt í samningaviðræðum um viðskiptin og hafi þau fyrst verið rædd við hann „einhverjum dögum“ áður en hann fór til Qatar 16. september 2008, en viðskiptin hafi verið komin á rekspöl þegar þau voru fyrst kynnt honum og í nokkuð endanlega mynd síðastnefndan dag, ef ekki algjörlega.
Ákærði Magnús kvaðst fyrir dómi fyrst hafa frétt af fyrirhuguðum hlutabréfakaupum MAT þegar hann hitti ákærðu Hreiðar og Ólaf við hádegisverð í London, sem ákærði Magnús taldi hafa geta verið 8. eða 9. september 2008, en áður hafi sér þó verið kunnugt um að MAT hygðist eiga viðskipti fyrir tilstilli Kaupþings banka hf. með „Credit Linked Notes“. Ákærði Magnús sagðist hafa gefið EH grófa mynd af því, sem ætti að gerast, en það hafi nánar tiltekið verið að stofna fjárfestingarfélag MAT og ákærða Ólafs, svo og að það félag ætti að fá lán að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadali til að eiga viðskipti með „Credit Linked Notes“. Hann kannaðist við að hafa fengið með tölvubréfi frá EH 15. september 2008 skipurit um hluta viðskiptanna, en kvaðst engin fyrirmæli hafa gefið honum um að búa það til eða um efni þess frekar en áður greinir. Þetta skipurit hafi ekki verið sýnt MAT þegar ákærði Magnús átti fund með honum ásamt ákærða Ólafi í Qatar 16. sama mánaðar, en aðspurður sagði ákærði Magnús að það eina „sem er ekki rétt í þessum strúktúr er að það er engin hagnaðarhlutdeild sem Ólafur Ólafsson átti að fá.“
Í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi bar EH að í ágúst eða byrjun september 2008 hafi hann fengið fyrirmæli frá ákærða Magnúsi um hvernig framkvæma ætti viðskipti í tengslum við kaup Q Iceland Finance ehf. á 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. og hafi hann út frá því farið að vinna að skipuriti um þau viðskipti. Fljótlega hafi BÓ byrjað að starfa að þessu með sér og kvaðst EH hafa litið á hann „sem lögmann og ráðgjafa og í rauninni fulltrúa Ólafs líka, þar sem Ólafur ... kom að þessum viðskiptum“, en BÓ hafi virst hafa góða yfirsýn um hvernig skipuritið hafi átt að líta út. EH sagðist hafa svo sent glærukynningu um skipuritið til ákærða Magnúsar með tölvubréfi 15. september 2008, en ekki minntist hann þess að ákærði hafi gert athugasemdir um efni þess.
Hér áður var lýst helstu efnisatriðum í skipuriti um hlutabréfaviðskiptin, sem EH sendi ákærða Magnúsi með tölvubréfi 15. september 2008, daginn áður en ákærði Magnús hélt í ferð sína með ákærða Ólafi til Qatar til fundar við MAT. Í skipuritinu kom fram að sá síðastnefndi ásamt ákærða Ólafi og hugsanlega öðrum hygðust fjármagna Q Iceland Holding ehf. svo að félagið gæti eignast 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf., en í því skyni tækju þeir hvor að láni hjá bankanum 150.000.000 evrur gegn tryggingum, legðu það fé til sérstaks fjárfestingarfélags, sem þeir myndu eiga að helmingi hvor, það félag myndi svo lána Q Iceland Holding ehf., sem yrði með öllu í eigu MAT, 200.000.000 evrur til hlutabréfakaupanna og tækju skilmálar þess láns mið af þróun á verðmæti hlutabréfanna. Af því, sem rakið var hér á undan úr skýrslu ákærða Hreiðars fyrir dómi, verður ekki annað ráðið en að hann hafi kynnt ákærða Magnúsi fyrirhuguð viðskipti MAT einhverjum dögum fyrir 16. september 2008, sem getur í þessum atriðum farið saman við framburð ákærða Magnúsar. Sá síðastnefndi sagðist svo hafa gefið EH grófa mynd af því, sem gera ætti, og kannaðist hann við að hafa fengið frá EH skipuritið, sem að framan er lýst, en það hafi verið rétt í öllu öðru en því að ákærði Ólafur hafi ekki átt að njóta hagnaðar af hlutabréfakaupunum. EH kvaðst sem áður segir hafa fengið fyrirmæli, sem bjuggu að baki þessu skipuriti, frá ákærða Magnúsi. Að atriðum, sem varða ráðagerð í skipuritinu um að kjör á láni sérstaka fjárfestingarfélagsins til Q Iceland Holding ehf. tækju mið af þróun á verðmæti hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. og ákærði Magnús átti sýnilega við með ummælum sínum um að ákærði Ólafur hafi ekki átt að njóta hagnaðar af kaupum bréfanna, verður vikið nánar hér næst á eftir. Að því frágengnu getur engin skynsamleg ástæða verið til vafa um að efni skipuritsins hafi átt sér stoð í lýsingu, sem EH hafði frá ákærða Magnúsi, en eftir framburði ákærðu Magnúsar og Hreiðars gat sú lýsing ekki hafa stafað í öndverðu frá öðrum en þeim síðastnefnda.
Símtal, sem EH og BÓ áttu 17. september 2008, hefur áður verið rakið í nokkru máli, en af fyrirligjandi gögnum verður séð að EH hafði rétt fyrir það sent BÓ tölvubréf, sem fyrrgreint skipurit fylgdi. Af upphafi samtalsins verður ekki annað ráðið en að þeir hafi á fyrri stigum átt orðaskipti um efnið, sem skipuritið varðaði, þótt gögn liggi ekki að öðru leyti fyrir um það í málinu. Ítrekað kom fram í þessu símtali að BÓ hafi rætt við „Óla“, sem hann kaus að nefna svo og bersýnilega var ákærði Ólafur, um ýmis atriði í tengslum við viðskipti með hlutabréfin. Án tillits til þess hvort BÓ hafi þar tjáð sig sem umboðsmaður ákærða Ólafs, sem ummæli hans benda þó eindregið til, eða aðeins sem viðmælandi ákærða Ólafs í þágu Kaupthing Bank Luxembourg S.A. getur engin skynsamleg ástæða verið til að efast um að orð BÓ í símtalinu hafi verið reist á samræðum hans við ákærða Ólaf. Í símtalinu kom margsinnis fram að álitaefni hafi verið uppi um hvort þátttaka ákærða Ólafs í fjármögnun Q Iceland Holding ehf. til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. gæti valdið því að flöggunarskylda eftir ákvæðum IX. kafla laga nr. 108/2007 myndi kvikna og kvaðst BÓ hafa rætt við ákærða Ólaf um það. EH sagði jafnframt að það væri „náttúrulega uppleggið frá Magga“, sem ætla verður að hafi verið ákærði Magnús, að „hann má ekki flagga, við viljum bara að Qatarinn flaggi og enginn annar“. Ekki getur leikið vafi á því að orðaskipti EH og BÓ í símtalinu um tilhögun og kjör á láni frá sérstöku fjárfestingarfélagi í jafnri eigu ákærða Ólafs og MAT til Q Iceland Holding ehf. hafi tekið mið af því að „grundvallarspurningin er náttúrulega ... er flöggun þarna eða ekki“, svo sem BÓ tók til orða, og hafi viðfangsefni þeirra því snúist um að leita leiða til að gera ákærða Ólaf og MAT eins setta og hefðu þeir sjálfir veitt félagi í sameign sinni lán til kaupa á hlutabréfunum og notið þannig án milliliða hugsanlegs arðs af kaupunum. Umræður um kjör á láni sérstaka fjárfestingarfélagsins til Q Iceland Holding ehf. beindust af þessum sökum að því að finna leið til að láta arð af þessum kaupum renna allt að einu að endingu til þeirra beggja, ákærða Ólafs og MAT, þótt sá arður þyrfti áður að fara um nokkurn veg. Leiðin, sem EH og BÓ ræddu um í þessu símtali og var jafnframt tilefni þess að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. leitaði 16. september 2008 eftir álitsgerð frá endurskoðunarfyrirtækinu Ernst & Young Cyprus Ltd., sem lokið var 19. sama mánaðar, kann í einstökum atriðum að hafa verið ókunn mörgum öðrum, sem hér komu við sögu, en markmið hennar var þó sýnilega allt að einu á annarra vitorði, svo sem séð verður meðal annars af fyrrnefndu tölvubréfi HBL 19. september 2008 til GÞG og SÖS, þar sem hann kastaði fram spurningu um „hvernig samning ÓÓ gerir við Sjeikinn til að tryggja sér sinn hlut af hagnaðinum af Kaupþings bréfunum sem þeir eru að kaupa.“ Er á þessum grunni hafið yfir skynsamlegan vafa að frá öndverðu hafi verið gengið út frá því að í viðskiptunum um hlutabréfin yrði mynduð leið til að láta ákærða Ólaf njóta til jafns við MAT hugsanlegs arðs af hlutunum, sem félag í einkaeign þess síðarnefnda myndi kaupa í Kaupþingi banka hf. með lánsfé sem að uppruna stafaði frá þeim báðum. Þótt útfærsla á þeirri leið verði ekki sannanlega rakin til ákærða Hreiðars, gagnstætt því sem á við um önnur atriði í fyrrnefndu skipuriti frá 15. september 2008, getur það engu breytt við úrlausn málsins.
EH sendi sem áður segir með tölvubréfi 18. september 2008 aðra útgáfu af skjalinu, sem sýndi skipurit viðskiptanna um kaup á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf., og var bréfinu beint til BÓ, LS og SÖS. Þessari útgáfu af skipuritinu var áður lýst í einstaka atriðum, en milli hennar og fyrstu útgáfunnar frá 15. september 2008 var að því leyti, sem hér skiptir máli, munur í tveimur atriðum. Annars vegar var í annarri útgáfunni ráðgert að tvö félög á Bresku Jómfrúareyjunum, annað í eigu ákærða Ólafs og hitt í eigu MAT, tækju hvort fyrir sitt leyti lán að fjárhæð 150.000.000 evrur frá Kaupþingi banka hf., en í fyrstu útgáfunni var gengið út frá því að þeir tveir tækju þessi lán sjálfir. Var tekið fram í annarri útgáfunni að eigandi hvors félags gengist í ábyrgð fyrir láni til þess, en að auki yrðu lagðar til tryggingar eftir almennum venjum. Hins vegar var í annarri útgáfu skipuritsins ráðgert eins og í þeirri fyrstu að lánsfé, sem fengið yrði frá Kaupþingi banka hf., rynni áfram til sérstaks fjárfestingarfélags í jafnri eigu ákærða Ólafs og MAT, en gagnstætt því, sem fram kom í fyrstu útgáfunni, var tekið fram í annarri útgáfunni að þetta félag yrði á Kýpur. Var síðan gengið út frá því í báðum útgáfum að sérstaka fjárfestingarfélagið veitti Q Iceland Holding ehf. lán að fjárhæð 200.000.000 evrur til kaupanna á hlutabréfum, svo og að kjör þess láns réðust af þróun á verðmæti þeirra.
Eftir að EH sendi þessa aðra útgáfu skipuritsins frá sér áttu ákærðu Hreiðar og Magnús, sem virðast þá báðir hafa verið erlendis, símafund síðdegis 18. september 2008 með þremur starfsmönnum Kaupþings banka hf., sem staddir voru í höfuðstöðvum hans í Reykjavík. Virðist óumdeilt að tveimur þeirra, HBL og GÞG, hafi fram að þessum fundi ekkert verið kunnugt um fyrirhuguð kaup félags á vegum MAT á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Ákærði Hreiðar lýsti þessum fundi þannig í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að hann hafi gefið þar fyrirmæli í fyrsta lagi um að lána fé fyrir fullu kaupverði 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. og ættu þessi lán að fara gegnum tvö félög, annars í eigu MAT og hins í eigu ákærða Ólafs. Í öðru lagi ætti að lána félagi í eigu MAT 130.000.000 evrur til að eiga viðskipti við Deutsche Bank AG um „Credit Linked Notes“, en í þriðja lagi ætti að lána félagi í eigu þess sama 50.000.000 bandaríkjadali til fjárfestinga gegn veði í áðurnefndum „Credit Linked Notes“ og hlutum í báðum félögunum. Í upphafi símtals, sem HBL átti 18. september 2008 við SÖS og lýst var hér fyrr, sagðist HBL hafa rétt áður verið á fundi með ákærðu Hreiðari og Magnúsi og vissi hann „allt um þennan díl“. Af símtalinu verður ráðið að báðum hafi HBL og SÖS meðal annars verið kunnugt um að greiða ætti hvoru af tveimur félögum á Bresku Jómfrúareyjunum út peningamarkaðslán til eins mánaðar að fjárhæð 100.000.000 evrur og yrði annað félagið í eigu MAT, sem myndi bera ábyrgð á láninu til þess, og hitt í eigu ákærða Ólafs, sem bæri ekki hliðstæða ábyrgð. Þessi tvö félög ættu að lána féð til þriðja félagsins, sem yrði í eigu þeirra á Kýpur. Í ljósi þess sem áður segir getur ekki staðist að HBL hafi fengið vitneskju um þessi eða önnur atriði í viðskiptunum frá öðrum en ákærðu Hreiðari og Magnúsi á nýloknum fundi þeirra. Að stofni til voru þessar upplýsingar um hlutabréfakaupin reistar á sama grunni og birtist í fyrstu útgáfu skipuritsins frá EH, en þær tóku þó einnig mið af þeim tveimur atriðum, sem síðar virðast hafa verið afráðin og fyrst komu fram í annarri útgáfu skipuritsins, annars vegar að félög á Bresku Jómfrúareyjunum tækju lánin frá Kaupþingi banka hf. en ekki MAT og ákærði Ólafur sjálfir og hins vegar að sérstaka fjárfestingarfélagið yrði á Kýpur. Þótt ekki verði fullyrt á þessum grunni að ákærðu Hreiðar og Magnús hafi haft undir höndum eintak af annarri útgáfu skipuritsins er hafið yfir vafa að þeim hafi 18. september 2008 verið kunnugt um öll efnisatriði, sem þar var að finna, jafnt þau sem voru óbreytt frá fyrstu útgáfu skipuritsins og þau sem tekið höfðu breytingum.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi báru ákærðu Hreiðar og Ólafur báðir í skýrslum sínum við aðalmeðferð málsins að ástæða þess að ákærða Ólafi hafi yfirleitt verið blandað inn í viðskipti MAT í tengslum við kaup félags á hans vegum á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. hafi í meginatriðum verið sú að sá síðastnefndi hafi áður en þetta kom til verið búinn að skuldbinda sig til að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir láni frá Kaupþingi banka hf. að fjárhæð 150.000.000 evrur, sem hafi átt að ganga til annarra fjárfestinga hans og ákærða Ólafs sem væru þessu óviðkomandi. Þegar samist hafi um kaup MAT á hlutabréfunum í Kaupþingi banka hf. hafi ákærði Hreiðar lagt til að nýta þá ábyrgð í viðskiptunum með hlutabréfin til að flýta fyrir þeim og auka líkur á að þau yrðu samþykkt. Til að tryggja að ábyrgð þessi næði ekki til stærri hluta láns fyrir kaupverði hlutabréfanna en þess helmings, sem samið hafi verið um, hafi verið gripið til þess ráðs að félag á vegum ákærða Ólafs tæki um stundarsakir lán fyrir hinum helmingnum, en nýtt yrði sú uppsetning á félögum, sem ákærði Ólafur og MAT hafi komið sér saman um vegna annarra fjárfestinga, til að miðla lánum vegna hlutabréfakaupanna til félags MAT, sem stæði að kaupunum. Er svo að skilja að ætlunin hafi þá verið að koma þessum viðskiptum á síðari stigum í þann endanlegan búning að MAT eða félag á hans vegum stæði eitt í skuld fyrir kaupverði hlutabréfanna og myndi hann veita veðréttindi til tryggingar helmingi hennar.
Um framangreindar skýringar ákærðu verður að gæta að því að félögin Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp., sem tóku hvort fyrir sig 100.000.000 evrur að láni hjá Kaupþingi banka hf. til að miðla áfram til félags í eigu MAT til kaupa á hlutabréfunum, komust ekki í eigu ákærða Ólafs og MAT fyrr en með kaupsamningum, sem þeir gerðu við Kaupthing Bank Luxembourg S.A. um alla hluti í félögunum tveimur og dagsettir voru 20. september 2008. Kaupsamningur um félagið Choice Stay Ltd. liggur ekki fyrir í málinu, en yfirlýsingar Gerland Assets Ltd., Serval Trading Group Corp. og Jackal Finance Inc. um að þau félög væru raunverulegir eigendur Choice Stay Ltd. voru einnig dagsettar 20. september 2008. Þessi félög gátu því ekki hafa verið hluti af eldri uppsetningu ákærða Ólafs og MAT á félögum til að standa að öðrum óskyldum viðskiptum. Þá verður að líta til þess að áður var hér lýst efni tíu skjala, sem MAT undirritaði og dagsett voru 20. september 2008, en þau tóku öll mið af því að lántökur hjá Kaupþingi banka hf. og miðlun lánsfjárins til félags, sem myndi kaupa hlutabréf í bankanum, yrðu með þeim hætti sem raun varð á. Meðal þessara skjala var jafnframt yfirlýsing MAT um sjálfskuldarábyrgð á skuld Serval Trading Group Corp. við Kaupþing banka hf., en þetta félag eignaðist hann fyrst með undirritun áðurnefnds kaupsamnings við þetta sama tækifæri. Var því á engan hátt verið að nýta til viðskiptanna kringum hlutabréfakaupin einhverja ábyrgð, sem MAT hafði gefið eða heitið að veita í öðru samhengi. Auk þessa stangast þessar skýringar í öllum atriðum á við það, sem skipurit vegna viðskiptanna bar með sér. Þegar af þessum ástæðum verður með öllu að hafna þessum haldlausu skýringum ákærðu.
Að virtu því, sem hér að framan greinir, verður að leggja til grundvallar að þótt gengið hafi verið út frá því frá upphafi að íslenskt einkahlutafélag, sem yrði að öllu leyti í eigu MAT, myndi kaupa 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf., hafi einnig verið ráðgert frá öndverðu að lán, sem Kaupþing banki hf. hafði skuldbundið sig til að veita fyrir öllu kaupverði hlutanna, myndi ganga að helmingi til hvors þeirra MAT og ákærða Ólafs eða félaga á þeirra vegum og síðan frá þeim til félags í sameign þeirra, en loks þaðan sem lán til kaupanda hlutabréfanna. Hefði ætlunin verið sú að MAT stæði einn að kaupunum á hlutabréfunum gegnum íslenska einkahlutafélagið í eigu hans má augljóst vera að í lófa hefði verið lagið að komast fram hjá öllum þessum fléttum í viðskiptunum með því að félag hans tæki sjálft lán hjá Kaupþingi banka hf. fyrir kaupverði bréfanna með ábyrgð hans fyrir helmingi skuldarinnar. Á þeirri mynd, sem viðskiptin tóku í raun á sig, getur engin önnur skýring verið en sú að með henni hafi átt að dylja að ákærði Ólafur stæði að baki þeim að helmingi, bæði að því er varðar fjárframlög til þeirra og væntinga um arð af þeim. Getur engum vafa valdið að ákærða Ólafi hafi verið þetta kunnugt.
4
Eins og ákærðu hafa greint frá tilgangi þeirra viðskipta sem málið varðar og lýst hefur verið að nokkru hér að framan átti Kaupþing banki hf. að veita lán fyrir öllu kaupverði 5,01% hlutafjár í félaginu og jafnframt að lána einu eða tveimur félögum í eigu MAT fé til að standa að öðrum tilteknum viðskiptum. Þrátt fyrir þetta bera gögn málsins skýrlega með sér að starfsmenn annars banka, Kaupthing Bank Luxembourg S.A., höfðu að minnsta kosti allt frá 8. september 2008 fengist við margvísleg atriði, sem tengdust þessum fyrirhuguðu viðskiptum, þar á meðal að draga upp heildarmynd þess þáttar í þeim, sem varðaði kaupin á hlutabréfunum, og semja verulegan hluta skjala sem tengdust einstökum þáttum viðskiptanna. Starfsmenn Kaupþings banka hf., sem áttu að sinna allri framkvæmd viðskiptanna, virðast á hinn bóginn enga vitneskju hafa fengið um þau fyrr en síðdegis 18. september 2008. Þegar það loks gerðist virðist hafa verið afráðið að hrinda ætti fyrstu atriðum þeirra í framkvæmd strax daginn eftir. Á þessari verkaskiptingu hefur engin haldbær skýring komið fram í málinu.
Hér að framan hafa að nokkru verið raktar þær skýringar, sem ákærðu Hreiðar og Magnús gáfu við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi um ástæðu þess að þeim síðarnefnda hafi verið falið að fara með ákærða Ólafi til fundar við MAT í Qatar 16. september 2008, svo og hvað þeir báru um hvenær og hvernig ákærði Magnús hafi fengið vitneskju um fyrirhuguð viðskipti. Myndin sem dregin var upp af þessu í framburði ákærðu Hreiðars og Magnúsar stangast mjög á við þá, sem framlögð skjöl í málinu bera með sér. Þannig liggur fyrir að enski lögmaðurinn SS ritaði bréf til ákærða Magnúsar 8. september 2008 í þeim tilgangi að stofna til reikningsviðskipta fyrir MAT við Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og sendi með bréfinu skjöl, sem sá síðastnefndi hafði undirritað degi fyrr. Af tölvubréfi, sem ákærði Magnús sendi nokkrum starfsmönnum Kaupthing Bank Luxembourg S.A. 11. september 2008 til að greiða fyrir þessu erindi, er augljóst að hann taldi sig þekkja þó nokkuð til MAT og væri í mun að efna til viðskipta við hann, en í bréfinu tjáði hann sig eins og hann gætti hagsmuna allrar samstæðu Kaupþings banka hf. en ekki aðeins dótturfélagsins, sem hann veitti forstöðu. Ákærði Magnús sendi ákærða Hreiðari fyrrnefnd tölvubréf 17. september 2008 til að spyrjast fyrir um með hverjum kjörum veita ætti MAT lán, sem ætlunin var þó að kæmi frá Kaupþingi banka hf., og upplýsti jafnframt ákærða Hreiðar um heiti félags, sem ætti að fá lánið, og fjárhæð þess. Um leið bað ákærði Magnús um upplýsingar um hvaða starfsmaður ætti að sinna þessu innan Kaupþings banka hf. til þess að hann gæti rekið á eftir því. Ákærði Magnús óskaði einnig eftir og tók við upplýsingum 18. sama mánaðar frá Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. um kjör á hugsanlegu láni þaðan til langtímafjármögnunar á hlutdeild MAT í láni til kaupa á hlutabréfunum í Kaupþingi banka hf. Þá tók ákærði Magnús þátt í símafundi síðdegis 18. september 2008, sem ákærði Hreiðar efndi til með þremur starfsmönnum Kaupþings banka hf. til að hrinda í framkvæmd viðskiptunum, sem sá banki átti þó einn að standa að. Að kvöldi þess dags sendi síðan ákærði Magnús tölvubréf til ákærða Hreiðars, EH og GÞG, þar sem hann lýsti brýnni þörf á að öll gögn, sem MAT ætti að undirrita, yrðu að vera tilbúin daginn eftir og beindi hann orðum sínum ítrekað til viðtakenda bréfsins eins og hann og þeir ættu allir þátt í því verki. HBL beindi 19. september 2008 fyrirspurn til ákærða Magnúsar, sem snerist um hvernig ganga ætti frá samningi um skiptingu hagnaðar af viðskiptum með „Credit Linked Notes“ milli félags í eigu MAT og Kaupþings banka hf., og fól svar ákærða Magnúsar við fyrirspurninni í sér fyrirmæli, sem orðuð voru eins og hann kæmi fram í nafni Kaupþings banka hf. Í símtali, sem HBL átti sama dag við þrjá starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A., ræddi hann um fyrirmæli ákærðu Hreiðars og Magnúsar um útborgun lánsfjár frá Kaupþingi banka hf. til Brooks Trading Ltd., sem yrði kyrrt á reikningi félagsins við fyrrnefnda bankann þar til ákærði Magnús segði til um annað. Ítrekað var einnig rætt í öðrum skjölum málsins um fyrirmæli frá ákærðu Hreiðari og Magnúsi um viðskiptin eins og þau hafi komið frá þeim sameiginlega. Ákærði Magnús fór og til fundar 20. september 2008 með ákærða Ólafi og áðurnefndum SS til að afhenda skjöl, sem MAT voru ætluð til undirritunar, og verður ráðið af tölvubréfi, sem LS sendi BK, EH og SÖS 22. sama mánaðar, að ákærði Magnús hafi gert breytingar á þessum skjölum í tengslum við þann fund. Af fyrrgreindum símtölum og tölvubréfum, sem voru ýmist milli starfsmanna Kaupthing Bank Luxembourg S.A. innbyrðis eða milli þeirra og starfsmanna Kaupþings banka hf. í aðdraganda þessa fundar og framhaldi af honum, er og ljóst að ákærði Magnús hafi borið mikið álag af honum, en einn starfsmanna fyrrnefnda bankans sá eins og áður kom fram ástæðu til að orða það svo að bókstaflega væri eins og framtíð Kaupþings banka hf. væri að veði fyrir árangri ákærða Magnúsar af þeim fundi. Ákærði Magnús átti einnig virkan hlut að gerð fréttatilkynningar, sem birt var 22. september 2008 um kaup félags á vegum MAT á hlutabréfunum í Kaupþingi banka hf., og voru bornar undir hann flöggunartilkynningar vegna viðskiptanna, sem hann hafði milligöngu um að koma á framfæri við Q Iceland Finance ehf. Enn frekar lét ákærði Magnús þessi viðskipti til sín taka með því að grípa 26. september 2008 inn í framkvæmd væntanlegs uppgjörs á söluverði hlutabréfanna 29. sama mánaðar þegar hann gaf fyrirmæli um að láta uppgjörið fara fram í krónum en ekki evrum eins og ráðgert hafði verið. Auk þessa fékk ákærði Magnús mikinn fjölda tölvubréfa, sem vörðuðu þessi viðskipti á einn eða annan hátt, og svaraði margsinnis fyrirspurnum um hvernig standa ætti að verki.
Þótt ekki verði efast um að rétt sé, sem ákærðu hafa vísað til, að ákærði Magnús hafi ekki verið í formlegri stöðu til að skuldbinda Kaupþing banka hf., er í ljósi þess sem að framan greinir fráleitt að hann hafi komið að þessum viðskiptum nánast sem sendiboði til að bera gögn milli manna og til að stuðla að viðskiptum fyrir Kaupthing Bank Luxembourg S.A með einkabankaþjónustu fyrir MAT og fjölskyldu hans. Er þvert á móti hafið yfir allan vafa að ákærði Magnús hafi tekið fullan þátt í skipulagningu þessara viðskipta, öðrum undirbúningi þeirra og framkvæmd, jafnt þeim þáttum, sem Kaupþing banki hf. átti að hafa á hendi, og þeim sem Kaupthing Bank Luxembourg S.A. átti að sinna.
5
Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi lýsti ákærði Hreiðar því að ákærði Sigurður hafi verið upplýstur um veitingu lána frá Kaupþingi banka hf. til kaupa á 5,01% hlutafjár í félaginu og hafi hann verið samþykkur því. Hafi ákærði Sigurður einnig vitað um veitingu láns frá bankanum til Brooks Trading Ltd. að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir, en hann hafi jafnframt setið í lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf., þar sem þessi lánveiting hafi verið samþykkt. Aðspurður um hvort ákærði Sigurður hafi verið „upplýstur og samþykkur þessu öllu saman“ sagði ákærði Hreiðar að aftur væri „það stóra myndin“ og vísaði með þeim orðum greinilega til þess sama og hann kvaðst hafa kynnt á fyrrnefndum fundi sínum síðdegis 18. september 2008 með ákærða Magnúsi, BHD, GÞG og HBL.
Hér áður var vísað til símtals, sem HBL átti við SÖS í beinu framhaldi af fundinum með ákærða Hreiðari og fleirum 18. september 2008. Verður að leggja til grundvallar að það, sem HBL vissi á því stigi um viðskiptin sem málið varðar, hljóti að hafa komið fram á þeim fundi þegar ákærði Hreiðar lýsti stóru mynd viðskiptanna, sem hann nefndi svo í skýrslu sinni. Að því er varðar þann hluta viðskiptanna, sem sneri að kaupum á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. og veitingu lána til þeirra, hefur áður verið ályktað að þessi stóra mynd hafi 18. september 2008 í reynd svarað til þeirra upplýsinga, sem sjá má í annarri útgáfu skipurits sem EH lét frá sér fara þann dag.
Ákærði Sigurður lýsti meðal annars fyrir dómi eindregnum áhuga, sem hann hafi haft á því að fá nýja erlenda hluthafa að Kaupþingi banka hf., meðal annars frá Qatar, og þátt sinn í því að reyna að koma slíku til leiðar. Hann kvaðst hafa verið mjög ánægður með að samningar hafi tekist í september 2008 við MAT, sem hann hafi þekkt fyrir, um kaup á ríflega 5% hlutafjár í Kaupþingi banka hf., en hann hafi verið upplýstur um að lán, sem veitt yrði fyrir kaupverðinu öllu, yrði tryggt með veði í hlutabréfunum og að helmingi með sjálfskuldarábyrgð MAT. Hann hafi á hinn bóginn ekki vitað um heildarmynd viðskiptanna.
Þegar framburður ákærða Sigurðar er metinn í ljósi þess, sem ákærði Hreiðar bar fyrir héraðsdómi samkvæmt áðursögðu, verður að líta til þess að ákærði Sigurður gegndi fullu starfi sem formaður stjórnar Kaupþings banka hf. og virðist ekki aðeins óumdeilt að hann hafi sem slíkur verið í nánum tengslum við ákærða Hreiðar, heldur að hann hafi einnig í ýmsum atriðum tekið virkan þátt í stjórnun félagsins. Fyrir liggur að ákærði Sigurður átti samskipti við MAT í aðdraganda viðskipta hans í tengslum við kaup á hlutum í Kaupþingi banka hf. Þau kaup vörðuðu gríðarlega hagsmuni félagsins, ekki aðeins með því að það seldi með þeim eigin hluti, heldur enn frekar með tilliti til orðspors þess og stöðu á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Er fjarri allri skynsemi að ætla að starfandi stjórnarformanni félagsins, ákærða Sigurði, hafi ekki í það minnsta verið kunnugt um þá stóru mynd viðskiptanna, sem ákærði Hreiðar kvað hann hafa fengið upplýsingar um. Verður þannig að leggja til grundvallar að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærða Sigurði hafi verið kunn þau atriði, sem gengið er samkvæmt áðursögðu út frá að upplýsingar hafi verið gefnar um á fundinum 18. september 2008.
6
Einn þáttur í viðskiptunum, sem gögn málsins bera með sér að Kaupþing banki hf. og MAT hafi lagt drög að, laut sem fyrr greinir að lánveitingu frá bankanum til félags í eigu hans til að eiga viðskipti við Deutsche Bank AG um svonefnd „Credit Linked Notes“. Meðal gagna málsins er sem fyrr segir óundirritaður samningur, sem var dagsettur 8. september 2008, um kaup MAT á öllum hlutum í Mink Trading Corp. af Kaupthing Bank Luxembourg S.A., svo og óundirrituð yfirlýsing þess fyrstnefnda, dagsett sama dag, um að hann væri raunverulegur eigandi þess félags. Ekki liggur fyrir samningur um kaup MAT á hlutum í félaginu Brooks Trading Ltd., en á hinn bóginn kom fram á eyðublöðum fyrir upplýsingar vegna reglna um varnir gegn peningaþvætti, sem voru fylltar út fyrir Kaupthing Bank Luxembourg S.A. 12. september 2008 og fyrir Kaupþing banka hf. 19. sama mánaðar, að MAT væri raunverulegur eigandi þessa félags.
Þess var áður getið að í tölvubréfi, sem LS sendi nokkrum samstarfsmönnum sínum í Kaupthing Bank Luxembourg S.A. 11. september 2008, kom fram að ótilgreind viðskipti við Mink Trading Corp. og Brooks Trading Ltd. væru orðin aðkallandi, enda færi ákærði Magnús nokkrum dögum síðar á fund við ónafngreindan viðskiptavin í Qatar og yrðu öll skjöl, sem viðskiptavinurinn þyrfti að undirrita, að verða tilbúin næsta dag. Skipurit var gert í Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem dagsett var 16. september 2008, þar sem fram kom að MAT væri eigandi Mink Trading Corp., sem væri aftur eini eigandi Brooks Trading Ltd. Í skýringum var þess getið að Brooks Trading Ltd. yrðu útvegaðar 125.000.000 evrur til að eiga viðskipti með skuldabréf við Deutsche Bank AG. Sama dag var gerð yfirlýsing í nafni Brooks Trading Ltd., sem var beint til Deutsche Bank AG, um að félagið hafi verið stofnað til þess eins að eiga viðskipti við þann banka um „Credit Linked Notes“ fyrir 125.000.000 evrur. Þessa yfirlýsingu sendi Kaupthing Bank Luxembourg S.A. ásamt upplýsingum um MAT með tölvubréfum til Deutsche Bank AG 17. september 2008. Þá liggur einnig fyrir að lögmaðurinn SS leitaði eftir því með tölvubréfi til ákærðu Magnúsar og Ólafs 16. september 2008, sama dag og þeir áttu fund með MAT í Qatar, að fá lýsingu á viðskiptum, sem gerð hafi verið tillaga um, og sendi LS af þessu tilefni samkvæmt beiðni ákærða Magnúsar tölvubréf til lögmannsins næsta dag, sem skilmálar í hliðstæðum viðskiptum með „Credit Linked Notes“ fylgdu. Þá sendi LS sem áður segir tölvubréf til HBL 18. september 2008 og óskaði eftir að fá staðfest að Kaupþing banki hf. myndi veita lán til MAT vegna viðskipta með „Credit Linked Notes“ með sömu kjörum og gert hafi verið í tveimur fyrri tilvikum, sem vörðuðu aðra viðskiptamenn, en hún tók fram að ákærði Magnús hafi farið með skjöl vegna þessa til viðskiptavinarins í liðinni viku og gæti HBL leitað nánari upplýsinga til ákærða Hreiðars. Það gerði HBL í beinu framhaldi með tölvubréfi til ákærða og sendi hann svo nokkru síðar það svar að kjörin yrðu þau sömu og fyrr ásamt því að spyrja hvenær greiða þyrfti út lán af þessu tilefni. Öll þessi atvik gerðust áður en ákærðu Hreiðar og Magnús kynntu fyrirhuguð heildarviðskipti MAT fyrir HBL og fleirum á áðurnefndum fundi 18. september 2008. Af framangreindum gögnum verður þannig séð að þótt ráðagerðir um viðskipti MAT með „Credit Linked Notes“ hafi átt að verða þáttur í heildarviðskiptum hans við Kaupþing banka hf., þá hafa ráðstafanir til að hrinda þessum þætti í framkvæmd byrjað fyrr en varðandi aðra þætti viðskiptanna.
Í tölvubréfi, sem áður var nefnt og HBL sendi að kvöldi 18. september 2008 til LS, EH, SÖS og ákærða Magnúsar, kvaðst hann hafa rætt við ákærðu Hreiðar og Magnús um hvort lán að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir ætti að ganga til Mink Trading Corp. eða Brooks Trading Ltd. Hann hafi síðan rætt þetta nánar við SÖS og þeir komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að þetta lán, sem ætti að svara til hlutdeildar eiganda félagsins í hagnaði af viðskiptum með „Credit Linked Notes“, yrði veitt Brooks Trading Ltd. til þess að geta fengið tryggingu fyrir láninu í þeim bréfum. Lýsti HBL því einnig að hann vissi ekki hvað MAT hygðist gera við þetta fé, en spurning væri hvort sá síðarnefndi gæti ekki flutt það yfir til Mink Trading Corp. frekar en að því félagi yrði veitt lánið og gert síðan það sem honum sýndist við féð. Að morgni 19. september 2008 leitaði HBL með tölvubréfi til þeirra sömu eftir upplýsingum um hvert greiða ætti 50.000.000 bandaríkjadali, sem Brooks Trading Ltd. væri að fá að láni hjá Kaupþingi banka hf. Þetta tölvubréf varð tilefni símtals milli HBL, LS og SÖS, sem áður var rakið í nokkru máli, en þar lýstu þau tvö síðastnefndu undrun á því að unnt væri fyrir fram að reikna út hagnað af viðskiptum með „Credit Linked Notes“, sem ekki hefði verið stofnað til eða skilmálar fengnir um, og veita lán út á hann. Í því samtali kom skýrlega fram hjá HBL að efasemdir um þetta fengju engu ráðið, því fyrirmæli væru einfaldlega um að greiða út þetta fé. Eftir þetta sendi HBL tölvubréf til ákærða Magnúsar, þar sem hann spurði hvort ekki væri réttur sá skilningur sinn að MAT ætti að hámarki að fá 50.000.000 bandaríkjadali af hagnaðinum af viðskiptunum með „Credit Linked Notes“ og Kaupþing banki hf. fengi það, sem eftir stæði, en af því tilefni varpaði hann fram hvort ekki þyrfti að gera samning um þessa skiptingu hagnaðarins samhliða lánssamningi um framangreinda fjárhæð. Því svaraði ákærði Magnús með því að skilningur HBL væri réttur, en stilla mætti af skiptingu hagnaðarins á síðari stigum. HBL lýsti því síðan í svari sínu að samningur um þessa skiptingu myndi bíða þar til hann heyrði frekar frá ákærða Magnúsi.
Á þessum grunni voru 50.000.000 bandaríkjadalir greiddir 19. september 2008 inn á reikning Brooks Trading Ltd. hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Af því, sem að framan er rakið, getur enginn vafi leikið á því að sú greiðsla hafi að minnsta kosti í orði kveðnu átt að vera lán frá Kaupþingi banka hf., sem svaraði til hlutdeildar MAT í væntanlegum hagnaði af viðskiptum við Deutsche Bank AG um „Credit Linked Notes“, svo sem fram kom í fyrrnefndri lánsbeiðni, sem HBL sendi lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf. sama dag, þótt þess sjáist ekki merki í svonefndri lokaútgáfu draga að fundargerð lánanefndarinnar frá fundi hennar 24. september 2008.
Lánsbeiðnin, sem HBL sendi til lánanefndar 19. september 2008, tók auk þess sem getið var hér að framan til láns handa Mink Trading Corp., sem átti að verða framlag til Brooks Trading Ltd. til að eiga viðskipti við Deutsche Bank AG um „Credit Linked Notes“ fyrir 125.000.000 evrur auk 5.000.000 evra vegna kostnaðar. Skjölin sem áður var vísað til bera þess merki að í raun hafi staðið til að stofna til slíkra viðskipta og þetta hafi verið borið upp við Deutsche Bank AG, svo sem sést einnig af fyrrnefndum tölvubréfaskiptum HBL 18. september 2008 við starfsmann lögmannsstofunnar BBA-Legal um þetta efni. Þessar ráðagerðir hafa þó sýnilega ekki verið komnar langt á veg þegar greiðslan á 50.000.000 bandaríkjadölum barst inn á bankareikning Brooks Trading Ltd. 19. september 2008, enda lýsti HBL því í áðurgreindu símtali, sem hann átti að morgni þess dags við LS og SÖS, að ákærðu Hreiðar og Magnús hafi ekki verið á einu máli um hvort MAT ætti að ganga inn í samning við Deutsche Bank AG um viðskipti með „Credit Linked Notes“, sem vinna væri komin lengra með fyrir annan viðskiptamann, og hafi þeir því ætlað að ræða við þann banka að kvöldi 18. sama mánaðar um gerð nýs samnings fyrir MAT. Ekki liggur fyrir hvort slíkar viðræður hafi farið fram eða þær leitt til nokkurs, en skjöl málsins bera þess hvergi merki að eitthvað frekar hafi verið aðhafst um þetta annað en það að lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf. samþykkti beiðni um lán að fjárhæð 130.000.000 evrur til þessara viðskipta á fundi sínum 24. september 2008. Af fyrrnefndum tölvubréfum, sem fóru meðal annars milli HBL og ákærða Magnúsar 1. október 2008, verður ráðið að þegar þar var komið sögu hafi þessum viðskiptum að minnsta kosti verið slegið á frest um óákveðinn tíma og af þeim varð svo aldrei.
Í málinu hafa engar haldbærar skýringar komið fram á því hvernig unnt hefði verið að reikna fyrir fram út hagnað af fyrirhuguðum samningi til fimm ára, sem tæki mið af þróun skuldatryggingarálags Kaupþings banka hf. á því tímabili, eða á hvaða grunni hefði yfirleitt mátt telja ljóst að hagnaður yrði af þeim viðskiptum.
7
Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi lýsti ákærði Hreiðar því að á símafundinum, sem hann átti ásamt ákærða Magnúsi með HBL og tveimur öðrum starfsmönnum Kaupþings banka hf. síðdegis 18. september 2008, hafi hann gefið „tiltölulega einföld“ fyrirmæli um viðskiptin í tengslum við MAT og gerði hann grein fyrir þeim í þremur liðum. Að einu leyti kvað ákærði Hreiðar þessi fyrirmæli hafa snúið að því að það „skyldi lána 50 milljónir dollara til nýstofnaðs félags Sheikh AT sem myndi fara í fjárfestingar á vegum félagsins og tryggingar fyrir því láni yrðu eignir félagsins og skuldabréf útgefið af Deutsche Bank sem væri tengt skuldatryggingarálagi Kaupþings.“ Með þessu hefur ákærði sýnilega átt við lánið til Brooks Trading Ltd., sem getið var hér að framan. Tilefnið fyrir þessu láni barst í tal í fyrrnefndu símtali, sem HBL átti við SÖS í beinu framhaldi af fundinum 18. september 2008, og sagði sá fyrrnefndi að leyfa ætti MAT að „taka út 50 milljón dollara í hagnað á morgun“. Má ljóst vera að sú skýring á þessari ráðstöfun hljóti einnig að hafa komið fram á fundinum.
Eftir lok þessa fundar tilkynnti HBL tveimur starfsmönnum í fjárstýringu Kaupþings banka hf. með tölvubréfi að næsta dag þyrfti meðal annars að greiða 50.000.000 bandaríkjadali inn á reikning hjá Kaupþing Bank Luxembourg S.A., en á móti myndi sama fjárhæð berast aftur þaðan. Í framhaldi af þessu tölvubréfi átti hann símtal við annan viðtakanda þess, HSK, og greindi þá frá því að umrædd greiðsla yrði peningamarkaðslán til fjögurra vikna, en HSK svaraði um hæl að ekki væri til fé fyrir henni. Í símtali þeirra sömu 19. september 2008 sagði HBL að senda yrði þessa greiðslu til Kaupthing Bank Luxembourg S.A., en sá banki myndi senda sömu fjárhæð til baka sem greiðslu á skuld við Kaupþing banka hf. Spurði þá HSK hvort ekki mætti skuldajafna þessu milli bankanna og kvaðst HBL myndu kanna það. Það gerði hann með tölvubréfi til bankans ytra og kvaðst jafnframt óska eftir upplýsingum um hver sú skuld Kaupthing Bank Luxembourg S.A. væri, sem jafna mætti greiðslunni við. Af þessu tilefni áttu þrír starfsmenn þess banka símtal við HBL, þar sem einn viðmælenda hans spurði hvort féð, sem senda ætti, myndi standa kyrrt á reikningi og kvað HBL svo eiga að vera þar til ákærði Magnús segði til um annað. Lagði þá viðmælandinn til að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. myndi lána Kaupþingi banka hf. þessa fjárhæð í eina viku, en þá yrði gjalddagi á skuld þess fyrrnefnda við þann síðarnefnda, sem neyta mætti skuldajafnaðar á. Virðist sem HBL hafi samþykkt þessa tillögu og kvaðst einn viðmælenda hans þá myndu senda fyrirmæli frá Brooks Trading Ltd. um að lánið skyldi greitt út með innborgun á reikning félagsins þar ytra. Í framhaldi af því bárust HBL þessi greiðslufyrirmæli, nokkru síðar sendi Kaupthing Bank Luxembourg S.A. svonefnt SWIFT-skeyti til Kaupþings banka hf. með boð um þessa lánveitingu til 29. september 2008 og þar á eftir staðfestingu um samning þessa efnis. Gögn málsins bera með sér að þessi viðskipti hafi verið færð í bókum Kaupþings banka hf. sem peningamarkaðslán til Brooks Trading Ltd. 19. september 2008 að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir, sem yrði á gjalddaga 30. sama mánaðar, svo og að bankinn stæði í skuld sömu fjárhæðar við Kaupthing Bank Luxembourg S.A.
Í ljósi framangreinds getur enginn vafi leikið á því að Kaupþing banki hf. veitti Brooks Trading Ltd. lán að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir 19. september 2008 og greiddi það út, þótt staðið hafi verið á þennan hátt að flutningi fjárins milli Kaupþings banka hf. og Kaupthing Bank Luxembourg S.A. til innlagnar á reikning félagsins hjá síðarnefnda bankanum. Er því haldlaus sú málsvörn að lánveiting þessi hafi í raun ekki verið framkvæmd fyrr en 30. september 2008, þegar Kaupþing banki hf. framlengdi peningamarkaðslánið til Brooks Trading Ltd. til 14. október sama ár. Þá er þess að gæta að samkvæmt yfirliti um skilmála peningamarkaðsláns Kaupþings banka hf. til Brooks Trading Ltd., sem fylgdi yfirlýsingu MAT dagsettri 20. september 2008 um ákvörðun hans sem hluthafa í félaginu um þessa lántöku, kom fram að lánið ætti að verða til eins mánaðar. Ástæðan fyrir því að lánið hafi þrátt fyrir þetta í fyrsta kasti verið veitt til ellefu daga en ekki eins mánaðar tengdist bersýnilega framangreindum ráðstöfunum varðandi útborgun lánsins inn á reikning við Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Átti Kaupþing banki hf. því ekki kost á að innheimta þessa kröfu á gjalddaganum 30. september 2008, svo sem ákærðu hafa borið við, heldur bar honum eftir skilmálum lánsins að framlengja það til þess tíma, sem upphaflega hafði verið samið um.
Þegar lánið var greitt út til Brooks Trading Ltd. 19. september 2008 samkvæmt framansögðu hafði MAT sem forsvarsmaður hluthafans í félaginu, Mink Trading Corp., ekki undirritað yfirlýsingu um ákvörðun um þessa lántöku, þótt skrifleg greiðslufyrirmæli hafi þá legið fyrir frá stjórnarmanni í félaginu. Í tengslum við útborgun lánsins gerði Kaupþing banki hf. sem áður segir skjal til staðfestingar á peningamarkaðsláninu til Brooks Trading Ltd. að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir með gjalddaga eins og að framan greinir. Þetta skjal var dagsett 19. september 2008 og fært í búning samnings um lánið, sem ætlast var til að undirritaður yrði bæði af lánveitanda og lántaka. Í málinu liggur ekki fyrir undirritað eintak af þessu skjali og verður að leggja til grundvallar að frá því hafi aldrei verið gengið á þann hátt.
Lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf. hélt sem fyrr segir fund 24. september 2008, þar sem afgreidd var lánsbeiðni Mink Trading Corp., Brooks Trading Ltd. og Serval Trading Group Corp., sem HBL beindi til nefndarinnar 19. sama mánaðar. Brooks Trading Ltd. leitaði í beiðninni eftir láni að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir, sem hermt var að væri hluti hagnaðar af viðskiptum við Deutsche Bank AG með „Credit Linked Notes“. Á fundi lánanefndarinnar 24. september 2008 var þessi beiðni samþykkt á þann hátt að veitt yrði lán til fimm ára með þeim áskilnaði að verðbréf þessi yrðu sett að veði fyrir skuldinni. Ekki er unnt að líta svo á að lánanefndin hafi með þessu samþykkt eftir á það lán, sem greitt var út til Brooks Trading Ltd. 19. september 2008 og helmingi nefndarmanna virðist með öllu hafa verið ókunnugt um, enda var það ekki til fimm ára, heldur peningamarkaðslán til ellefu daga samkvæmt skilmálum, sem tóku þó eftir hljóðan sinni til slíks láns til eins mánaðar. Að auki stóðu engin verðbréf að veði fyrir þessu peningamarkaðsláni, svo sem lánanefndin hafði þó áskilið í samþykki sínu.
Hér áður voru að nokkru rakin atvik, sem gerðust 8. október 2008 á síðasta starfsdegi Kaupþings banka hf. áður en Fjármálaeftirlitið setti yfir hann skilanefnd, þegar innstæða í bandaríkjadölum á reikningi Brooks Trading Ltd. við Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem átti rætur að rekja til fyrrnefnds peningamarkaðsláns, var tekin út og henni ráðstafað til greiðslu upp í skuld Serval Trading Group Corp. við Kaupþing banka hf. Ekkert liggur fyrir um hvort þetta kunni að hafa verið gert að beiðni stjórnarmanns í Brooks Trading Ltd. eða raunverulegs eiganda félagsins, en að framkvæmd þessa verks komu starfsmenn bæði Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og Kaupþings banka hf. Svo sem ráðið verður af því, sem fyrr segir um þessar ráðstafanir, virðist hafa verið kannað meðan á þeim stóð hvort innstæða á reikningi Brooks Trading Ltd. við Kaupthing Bank Luxembourg S.A. væri á einhvern hátt bundin eða ráðstöfunarréttur yfir henni takmarkaður, en starfsmenn bankans kváðu upp úr um að svo væri ekki. Eins og málið liggur fyrir verður ekki séð að svo hafi heldur verið fyrir þann tíma frá því að féð var lagt á reikning Brooks Trading Ltd., en Kaupþingi banka hf. hefði þó verið í lófa lagið að áskilja sér tryggingarréttindi yfir innstæðunni á reikningnum.
Eftir framangreinda ráðstöfun á innstæðu Brooks Trading Ltd. stóð félagið eftir sem áður í skuld við Kaupþing banka hf., en var á hinn bóginn orðið eignalaust. Að hluta fékkst krafan á hendur félaginu greidd 12. febrúar 2013 af fé, sem þrotabú þess hafði endurheimt með samningi við MAT, en sú greiðsla nam rúmum helmingi af fjárhæð kröfunnar eins og hún virðist hafa staðið 20. janúar 2009. Að endingu varð Kaupþing hf. því fyrir fjártjóni, sem þeim mismun nam.
8
Enn er þess að geta að í skýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst ákærði Hreiðar hafa á fyrrnefndum fundi síðdegis 18. september 2008 gefið þau fyrirmæli að Kaupþing banki hf. skyldi veita lán fyrir fullu kaupverði 5,01% hlutafjár í félaginu og færu þau „í gegnum tvö félög“, annars í eigu MAT en hins í eigu ákærða Ólafs. Þessi félög, sem ákærði kvaðst ekki á þessum tíma hafa þekkt nöfnin á, reyndust sem áður segir vera Serval Trading Group Corp. og Gerland Assets Ltd., en alla hluti í félögunum seldi Kaupthing Bank Luxembourg S.A. með kaupsamningum dagsettum 20. september 2008, í því fyrrnefnda MAT og í því síðarnefnda ákærða Ólafi. Af símtali HBL við SÖS í framhaldi af fundinum 18. september 2008, tölvubréfi hans stuttu síðar til HSK og ÓFG og símtölum hans við HSK síðla þennan dag er ljóst að á fundinum hljóti að hafa komið fram að lán til hvors félags ætti að nema 100.000.000 evrum, þetta yrðu peningamarkaðslán til fjögurra vikna og greiða ætti þau út næsta dag, en lánsféð gengi síðan áfram til kýpversks félags í eigu lántakendanna og þaðan til félags sem myndi kaupa hlutabréfin. Enn fremur að MAT gengist í ábyrgð fyrir láni til síns félags, en ákærði Ólafur ekki fyrir sitt leyti, sem samrýmist einnig framburði ákærða Hreiðars fyrir héraðsdómi, þar sem hann kvað það aldrei hafa staðið til að ákærði Ólafur tæki á sig slíka ábyrgð. Af þessum gögnum verður jafnframt séð að upphaflega hafi ætlunin verið sú að greiða lánsféð inn á reikninga félaganna hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sökum þess að ekki næðist í tæka tíð að ljúka athugun á þeim vegna reglna um varnir gegn peningaþvætti til að geta opnað reikninga fyrir þau hjá Kaupþingi banka hf. Vegna efasemda, sem HSK færði fram í símtölunum um að fé yrði fyrir hendi til að flytja á þennan hátt til erlenda bankans, beindust umræður inn á þær brautir að leggja lánsféð þess í stað inn á reikninga hjá Kaupþingi banka hf.
Af fjölmörgum skjölum málsins, sem áður hefur verið lýst, sést að atvik þróuðust á þann veg að framangreind lán komu ekki til útborgunar fyrr en 29. september 2008. Áður en til þess kom hafði lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf. samþykkt á fundi 24. september 2008 lánsbeiðni, sem HBL beindi til hennar 19. sama mánaðar meðal annars vegna óskar Serval Trading Group Corp. um lán að fjárhæð 150.000.000 evrur til fjárfestinga í verðbréfum, en í fundargerð lánanefndarinnar var áskilið að MAT gengist í ábyrgð fyrir láninu, sem yrði fyrst í stað peningamarkaðslán til þriggja mánaða. Áður en lánin voru greidd út lá meðal annars fyrir yfirlýsing MAT um sjálfskuldarábyrgð á láninu til Serval Trading Group Corp. auk skjala með fyrirmælum þess félags og Gerland Assets Ltd. um ráðstöfun lánsfjárins, 100.000.000 evra handa hvoru þeirra, til Choice Stay Ltd. og fyrirmælum síðastnefnda félagsins um ráðstöfun 200.000.000 evra af bankareikningi sínum til Q Iceland Finance ehf. Á hinn bóginn lágu ekki fyrir fyrirmæli frá Serval Trading Group Corp. og Gerland Assets Ltd. um útborgun lánsfjárins til sín. Þá tóku öll fyrirmæli og yfirlýsingar um ákvarðanir í tengslum við töku lánanna og ráðstöfun þeirra til fjárhæða í evrum, en á grundvelli fyrirmæla, sem ákærði Magnús gaf HBL 29. september 2008 og áður var lýst, voru lánin allt að einu látin hljóða á fjárhæðir í krónum, þau voru greidd út sama dag á þann hátt og féð síðan flutt milli reikninga í sama gjaldmiðli allt á leiðarenda. Þá er þess og að gæta að við útborgun lánsfjárins til Serval Trading Group Corp. og Gerland Assets Ltd. 29. september 2008 virðast hafa verið til reiðu skjöl frá Kaupþingi banka hf. um staðfestingu á peningamarkaðslánum til félaganna, sem ætlast var til að undirrituð yrðu af hendi lánveitanda og lántaka, en eftir gögnum málsins var aldrei skrifað undir þessi skjöl.
Eins og áður hefur komið fram fékk Kaupþing banki hf. lánið til Serval Trading Group Corp. að fullu endurgreitt, annars vegar með ráðstöfun innstæðu á reikningi Brooks Trading Ltd. hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. 8. október 2008 og hins vegar með greiðslu eftirstöðva skuldarinnar, sem ákærði Ólafur innti af hendi 21. sama mánaðar. Sakargiftir í málinu snúa ekki að þeirri lánveitingu, en ákærðu telja atriði henni tengd þó allt að einu hafa vægi við úrlausn málsins. Byggja þeir þannig á því að líta verði á lánin til Serval Trading Group Corp. og Gerland Assets Ltd. eins og eina heild þegar metið er hvort viðhlítandi trygging hafi verið gefin fyrir kröfum Kaupþings banka hf. á hendur félögunum að teknu tilliti til verðmætis hlutabréfanna, sem lánin voru veitt til að kaupa. Um þessar varnir ákærðu verður að gæta að því að kröfuréttindi Kaupþings banka hf. á hendur hvoru félaginu fyrir sig voru algjörlega ótengd innbyrðis, þótt lánin hafi verið veitt þeim til sameiginlegs markmiðs. Ábyrgðin, sem MAT tókst á hendur vegna skuldar Serval Trading Group Corp., gat þannig undir engum kringumstæðum færst yfir á skuld Gerland Assets Ltd. við Kaupþing banka hf., enda augljóst að ábyrgðin myndi falla niður ef skuld fyrrnefnda félagsins yrði greidd að fullu, svo sem raunin einnig varð, algjörlega án tillits til þess hvort skuld þess síðarnefnda væri að engu greidd. Hlutabréfin í Kaupþingi banka hf., sem Q Iceland Finance ehf. keypti fyrir fé sem átti rætur að rekja til lánveitinga bankans til Serval Trading Group Corp. og Gerland Assets Ltd., stóðu hvorki að veði fyrir kröfum bankans á hendur síðastnefndu félögunum né fyrir skuld Q Iceland Finance ehf. við Choice Stay Ltd. Kaupþing banki hf. hafði heldur enga tryggingu fyrir því að Serval Trading Group Corp. og Gerland Assets Ltd. myndu ekki stofna til skulda við aðra lánardrottna, sem kynnu að leita fullnustu í kröfum félaganna á hendur Choice Stay Ltd., eða að svo myndi ekki fara að því er varðar kröfu Choice Stay Ltd. á hendur Q Iceland Finance ehf. Síðastnefnda félagið hefði jafnframt hvenær sem er getað ráðstafað hlutabréfunum og öðrum eignum sínum án þess að Kaupþing banki hf. fengi rönd við reist. Var því engin trygging fólgin í hlutabréfunum, sem lánsfénu var að endingu varið til að kaupa. Að þessu virtu eru engin efni til að líta svo á að nokkur trygging hafi staðið fyrir greiðslu skuldar Gerland Assets Ltd. við Kaupþing banka hf.
Svo sem áður kom fram liggur fyrir í málinu að skuld Gerland Assets Ltd. við Kaupþing banka hf. nam 13.574.134.458 krónum 20. janúar 2009 og virðist óumdeilt að ekkert hafi fyrr eða síðar fengist greitt upp í hana. Fjártjón af þessu nemur þannig í reynd allri þeirri fjárhæð.
9
Af ýmsum skjölum málsins, sem áður voru rakin, sést að stjórnir erlendu félaganna, sem hér koma við sögu, voru á einn eða annan hátt tengdar Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Þannig var félagsstjórn bæði í Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp. í höndum Allied Directors Corp., Global Managers Inc. og International Officers Ltd., en fyrir þau félög komu fram þrír starfsmenn bankans. Þá var stjórn Choice Stay Ltd. og Brooks Trading Ltd. í höndum Jaeger Investment Corp. sem áðurnefndur lögmaður í Luxembourg, KVE, kom fram fyrir, en í málinu liggur fyrir að hann hafi sinnt þessu verki að ósk Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Ákærðu telja að til þessa þurfi að líta við mat á því hvort hætta hafi verið á fjártjóni vegna lánveitinga til Gerland Assets Ltd., Serval Trading Group Corp., Choice Stay Ltd. og Brooks Trading Ltd., þar sem stjórnarmenn í þeim félögum hafi í reynd átt að gæta hagsmuna bankans og tryggja að ekki yrði farið með fé þeirra á nokkurn hátt, sem andstæður væri þeim hagsmunum.
Um þessa málsvörn ákærðu er til þess að líta að eftir almennum reglum félagaréttar ber stjórnarmanni í félagi að láta hag þess ráða för og gæta um leið hagsmuna hluthafa, en ekki að fara eftir fyrirmælum utanaðkomandi manna í verkum sínum. Þá verður og að hafa í huga að stjórnarmennirnir tengdust allir Kaupthing Bank Luxembourg S.A., en ekki Kaupþingi banka hf. Í þessum efnum skiptir á hinn bóginn mestu að í framlögðum gögnum um Gerland Assets Ltd., Serval Trading Group Corp., Choice Stay Ltd. og Brooks Trading Ltd., þar á meðal stofnskrám félaganna, samþykktum þeirra og kaupsamningum um hluti í þeim, verður hvergi séð að nokkur takmörkun hafi verið gerð á því að hluthafar í félögunum hefðu hvenær sem þeim hefði þóknast getað efnt til hluthafafundar og kosið nýja stjórn án þess að Kaupþing banki hf. eða Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hefði getað aftrað því. Þegar af þessum ástæðum hafði stjórnarseta þessara manna ekkert gildi til tryggingar fyrir hagsmuni Kaupþings banka hf.
Ákærðu hafa einnig skírskotað til þess að í skilmálum fyrir bankaviðskiptum, sem þessi félög hafi gengist undir, hafi verið mælt fyrir um tryggingarréttindi í innstæðum þeirra fyrir kröfum bankans. Skírskotun þessi varðar skilmála fyrir viðskipti við Kaupthing Bank Luxembourg S.A., ekki Kaupþing banka hf., og getur hún þegar af þeirri ástæðu engu skipt í málinu.
10
Ákærðu hafa jafnframt byggt á því að við sölu á 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. til Q Iceland Finance ehf. hafi í raun engin verðmæti horfið úr fyrrnefnda félaginu, því hlutirnir hafi verið verðlausir í höndum þess og í stað þeirra hafi það fengið með ráðstöfunum, sem þessu tengdust, kröfuréttindi á hendur tveimur öðrum félögum, sem að hluta voru tryggð með sjálfskuldarábyrgð MAT. Hafi því fjártjón af þessum ráðstöfunum ekkert getað orðið.
Framangreindar röksemdir ákærðu eru að grunni til reistar á þeirri forsendu að það leiði af reglum um reikningsskil að hlutir í Kaupþingi banka hf., sem félagið átti sjálft, hafi ekki mátt teljast til eigna við ákvörðun eigin fjár þess. Fram hjá því er að vísu horft í þessum röksemdum, sem skiptir þó ekki meginmáli, að Kaupþing banki hf. átti samkvæmt fyrirliggjandi gögnum 36.179.216 eigin hluti 21. september 2008 og þurfti félagið því að kaupa að minnsta kosti 920.784 hluti til að geta selt Q Iceland Finance ehf. þá 37.100.000 hluti, sem samið var um. Samkvæmt tilkynningu, sem birtist í kauphöll 22. sama mánaðar, keypti Kaupþing banki hf. hlutina, sem á milli bar, fyrir 744 krónur hvern eða samtals 68.506.329 krónur og verður ekki dregið í efa að þau verðmæti hafi horfið úr félaginu í beinum tengslum við þessar ráðstafanir. Það sem þó skiptir mestu í þessum efnum er á hinn bóginn að reikningsskilareglur, sem giltu um ákvörðun eigin fjár Kaupþings banka hf., gátu engu breytt um það að verðmæti fólust að sönnu í hlutabréfum í félaginu, sem það átti sjálft, enda hefði það að öllu eðlilegu getað selt þá hluti öðrum en Q Iceland Finance ehf. á markaði fyrir gangverð þeirra. Þetta verðmæti hefði eftir sem áður verið fyrir hendi ef hlutabréfin hefðu ekki verið seld Q Iceland Finance ehf. Við þetta meginatriði verður að miða við mat á því hvort hætta á verulegu fjártjóni hafi tengst ráðstöfunum varðandi sölu hlutabréfanna til Q Iceland Finance ehf., en ekki þá staðreynd að öll hlutabréf í Kaupþingi banka hf. urðu af óskyldum ástæðum verðlaus liðlega tveimur vikum síðar þegar Fjármálaeftirlitið setti skilanefnd yfir félagið 9. október 2008.
Varðandi fjárhag Kaupþings banka hf. á þeim tíma, sem viðskiptin sem málið varðar stóðu yfir, verður að öðru leyti að minnast þess að þegar til átti að taka virtist bankinn í raun hvorki geta greitt út lán til Brooks Trading Ltd. að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir né lán til Serval Trading Group Corp. og Gerland Assets Ltd, að fjárhæð 100.000.000 evrur til hvors félags með því að flytja lánsféð í þessum gjaldmiðlum inn á reikninga félaganna hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A., svo sem upphaflega virtist hafa staðið til, heldur þurfti að breyta þeim ráðagerðum til þess að raunverulegar greiðslur í erlendum gjaldmiðlum færu ekki fram. Þá er þess að geta að samkvæmt öðrum skjölum, sem áður hefur verið vísað til, átti Kaupþing banki hf. á þessum tíma almennt við vanda að etja út af lausafjárstöðu, sem einkum snerist um erlendan gjaldeyri. Þannig kom meðal annars fram í tölvubréfi milli starfsmanna félagsins 17. september 2008 að bankann mætti reka frá degi til dags og þyldi hann engin áföll, en mjög hægt gengi að skipta krónum í erlenda gjaldmiðla. Í tölvubréfi ákærða Hreiðars 23. september 2008 til nokkurra stjórnenda bankans ræddi hann um þörfina á að selja tilteknar erlendar eignir, jafnvel næsta dag, en setja yrði á „crisis mode“ ef lausafjárstaða bankans færi undir tiltekin mörk. Í svari, sem ákærði Hreiðar fékk, var bent á að það hafi verið keyrt í algjöru „crisis mode“ þann dag. Í tölvubréfi til GA 24. sama mánaðar sagði starfsmaður Kaupþings banka hf. að staðan væri „alls alls alls ekki góð“, búið væri að fara gegnum allar bækur í leit að „lausum eignum“ og gera endurhverf viðskipti um allt, sem unnt væri, en lausn á þessu yrði að fást á næstu dögum, ekki næstu vikum eða mánuðum.
Við þær aðstæður, sem lýst var á framangreindan hátt, framkvæmdi Kaupþing banki hf. þau viðskipti, sem málið á rætur að rekja til.
11
Að því hefur áður verið vikið að á þeim fundi, sem ákærðu Hreiðar og Magnús áttu síðdegis 18. september 2008 með HBL, GÞG og BHD, gáfu þeir tveir fyrstnefndu fyrirmæli um framkvæmd viðskipta, sem hinir virtust ekkert hafa fyrr heyrt af. Hér að framan var dregin sú ályktun af skjölum málsins að þau fyrirmæli hafi meðal annars beinst að því að næsta dag, 19. september 2008, skyldi félagi á vegum MAT, sem hvorugum þeirra ákærðu Hreiðari eða Magnúsi virtist vera ljóst hvort verða ætti Mink Trading Corp. eða Brooks Trading Ltd., veitt lán að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir, sem lagt yrði inn á reikning lántakans hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Jafnframt að þau fyrirmæli hafi verið um að 19. september 2008 yrði tveimur félögum á Bresku Jómfrúareyjunum, öðru í eigu MAT og hinu í eigu ákærða Ólafs, hvoru veitt lán að fjárhæð 100.000.000 evrur og virðist sem einnig hafi verið ætlast til að það lánsfé yrði lagt á reikninga þessara félaga við bankann í Luxembourg. Þessi tvö félög reyndust vera Serval Trading Group Corp. og Gerland Assets Ltd., sem MAT og ákærði Ólafur eignuðust þó ekki fyrr en með kaupsamningum, sem voru dagsettir 20. september 2008.
Ákærðu Hreiðari og Magnúsi var á þeirri stundu, sem fyrrnefndur fundur var haldinn, án nokkurs vafa ljóst að MAT hefði ekki enn undirritað nokkurt þeirra skjala, sem framkvæmd viðskiptanna var háð, þar á meðal yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð sína á láni til Serval Trading Group Corp., og að það gæti fyrst gerst í framhaldi af því að ákærði Magnús færði þessi skjöl í hendur lögmannsins SS á fundi þeirra með ákærða Ólafi í London 20. september 2008. Fjölmörg gögn málsins, sem áður hefur verið lýst, bera þess glögg merki að rík áhersla hafi verið lögð á að þessum fyrirmælum yrði sinnt með hraði ásamt þeim viðskiptum, sem fylgja ættu í kjölfarið. Augljóst mátti vera að fjölmörg atriði í útfærslu þessara viðskipta stóðu óútkljáð, vinna við skjalagerð vegna þeirra var almennt skammt á veg komin og eftir stóð að opna bankareikninga fyrir þessa nýju viðskiptamenn Kaupþings banka hf. og gera ráðstafanir til að kerfi bankans gætu tekið við upplýsingum um viðskipti þeirra, en síðastnefnd atriði voru meðal annars háð reglum um varnir gegn peningaþvætti, sem áskildu upplýsingaöflun um viðskiptamenn. Síðast en ekki síst hlaut öllum þeim, sem í hlut áttu, að vera fullljóst að lán þessi voru slík að umfangi og innbyrðis tengslum að óhjákvæmilegt væri að lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf. veitti samþykki sitt fyrir þeim áður en þau yrðu greidd út. Þótt verklagsreglur í tengslum við lánveitingar, sem lýst var í framlagðri regluhandbók Kaupþings banka hf., hafi ekki beinlínis átt við ákvarðanir, sem lánanefnd stjórnar félagsins tók, má hvað sem öðru líður jafnframt hafa þær til hliðsjónar um þau almennu vinnubrögð, sem stjórnendur bankans töldu að viðhafa bæri í starfsemi hans.
Þegar til átti að taka við framkvæmd þessara fyrirmæla risu margvísleg vandamál, svo sem ráðið verður af efni þeirra skjala sem áður hefur verið rakið. Á fyrstu stigum höfðu starfsmenn Kaupþings banka hf., sem þessu áttu að sinna, ekki upplýsingar um heiti félaganna, sem eiga átti viðskiptin við og enn síður höfðu þeir þá gögn undir höndum um tilvist þessara félaga, hverjir væru í fyrirsvari fyrir þau eða hvaða ákvarðanir eða beiðnir þeir hefðu gert um viðskiptin. Þegar hindranir komu upp vegna tafa, sem leitt gætu af því að virtar yrðu reglur um varnir gegn peningaþvætti, kom til tals að komast hjá þeim með því að láta tiltekna þætti viðskiptanna fara fram gegnum reikninga hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sökum þess að þar mætti stofna reikninga „bara með handaafli“ án þess að athugun samkvæmt þeim reglum væri lokið, svo sem fram kom í símtali milli HBL og HSK 18. september 2008, eða fá ákærða Hreiðar til að samþykkja að reikningur yrði opnaður hjá Kaupþingi banka hf. án slíkrar athugunar, svo sem HBL ræddi í símtali við LS og SÖS 19. sama mánaðar. Gripið var til þess ráðs að veita umrædd lán í formi peningamarkaðslána til að „kaupa okkur frest til að ganga frá pappírum“ og breyta þeim síðan í lán til þriggja ára, svo sem HBL og SÖS ræddu í símtali 18. september 2008. Þá var leitað með tölvubréfi 19. sama mánaðar eftir því að KVE undirritaði sem stjórnarmaður í Brooks Trading Ltd. bréf með fyrirmælum um útborgun láns frá Kaupþingi banka hf. til félagsins, en um leið var tekið fram að eigandi þess, MAT, myndi undirrita yfirlýsingu um ákvörðun um þessa lántöku næsta dag. Þegar upp var staðið var lán til Brooks Trading Ltd. greitt út á tilsettum tíma 19. september 2008 með ýmsum ráðstöfunum, sem neyta þurfti til að geta framkvæmt þá aðgerð með innborgun fjárins á reikning hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A., en án þess að fyrir lægju gögn um samþykki eiganda félagsins fyrir þeirri lántöku, undirritaður samningur um lánið eða samþykki lánanefndar stjórnar bankans fyrir veitingu þess. Lá í raun þá ekki enn fyrir staðfesting á því að MAT myndi yfirleitt ganga til þessara viðskipta. Áður höfðu komið fram verulegar efasemdir starfsmanna Kaupthing Bank Luxembourg S.A. um forsendur lánveitingarinnar til Brooks Trading Ltd., sem þeir starfsmenn Kaupþings banka hf. sem unnu að þessu verki samsinntu að nokkru marki. Eins og fyrr greinir kom ekki til þess að lán til Serval Trading Group Corp. og Gerland Assets Ltd. yrðu greidd út fyrr en 29. september 2008, en þegar það var gert lágu þó ekki fyrir beiðnir frá félögunum um útborgun lánanna, skjöl sem höfðu verið undirrituð um þessi viðskipti tóku mið af því að þau færu fram í evrum en ekki krónum svo sem raun varð á, samningar voru ekki undirritaðir um lánin og lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf. hafði ekki samþykkt lánveitingu til Gerland Assets Ltd.
Þegar ákærðu Hreiðar og Magnús gáfu starfsmönnum Kaupþings banka hf. fyrirmæli 18. september 2008 um að hrinda næsta dag í framkvæmd þeim lánveitingum, sem að framan greinir, gat þeim ekki með nokkru móti dulist að það væri borin von að það yrði gert á þann hátt, sem var samrýmanlegur verklagsreglum bankans. Þeir skeyttu því í engu. Verður að meta þetta framferði þeim til ásetnings að því leyti, sem framkvæmd fyrirmæla þeirra kann að hafa verið andstæð lögum.
Samkvæmt framburði JS fyrir héraðsdómi hafði ákærði Hreiðar símsamband við hann að kvöldi 19. september 2008 og fól honum að semja fréttatilkynningu um kaup Q Iceland Finance ehf. á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Eins og áður hefur verið rakið bera framlögð skjöl í málinu með sér að í framhaldi af þessu var unnið að gerð þessarar tilkynningar með virkum afskiptum allra ákærðu og lauk því verki 21. september 2008. Þann dag fór jafnframt í hönd vinna að öðrum tilkynningum vegna viðskipta með hlutabréfin. Að áliðnu kvöldi þess dags barst svo staðfesting á því að MAT hafi undirritað skjöl, þar á meðal yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð á láni Serval Trading Group Corp. frá Kaupþingi banka hf., sem ákærðu hafa borið að nauðsynleg hafi þótt til að staðfesta að komist hefðu á kaup á hlutabréfunum.
Að fenginni þeirri staðfestingu, sem að framan greinir, var við fyrsta tækifæri snemma morguns 22. september 2008 tilkynnt opinberlega að félag í eigu MAT hafi keypt 5,01% hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. og fylgdu svo í kjölfarið flöggunartilkynningar vegna viðskiptanna. Þegar allt framangreint er virt í heild getur engum vafa valdið að sá mikli asi, sem einkenndi framkvæmd fyrirmælanna sem ákærðu Hreiðar og Magnús gáfu á margnefndum fundi 18. september 2008, beindist að því að fyrrnefndar tilkynningar kæmu fram og hefðu áhrif á verðbréfamarkaði. Við eftirfarandi úrlausn um einstök atriði í ákæru verður þessu til samræmis að leggja til grundvallar að megintilgangur þeirra viðskipta, sem lýst hefur verið að framan í löngu máli, hafi beinst að þeim atriðum, sem sakargiftir í III. og IV. kafla ákærunnar snúa að, en einstök atriði í framkvæmd viðskiptanna hafi verið afleiðingar af þessu, þar á meðal þau, sem fyrstu tveir kaflar ákærunnar taka til.
VI
I
Í a. lið I. kafla ákæru er ákærði Hreiðar sem fyrr segir borinn sökum um að hafa brotið gegn 249. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa í september 2008 misnotað aðstöðu sína sem forstjóri Kaupþings banka hf. þegar hann hafi farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga með því láta bankann lána 19. þess mánaðar Brooks Trading Ltd. 50.000.000 bandaríkjadali „í formi óundirritaðs peningamarkaðsútláns“ án þess að fyrir lægi samþykki lánanefnda bankans og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti, en þannig hafi hann valdið bankanum verulegri fjártjónshættu.
Hér að framan hefur þegar verið komist að þeirri niðurstöðu að sannað sé í málinu að ákærði Hreiðar hafi ásamt ákærða Magnúsi gefið þremur starfsmönnum Kaupþings banka hf. fyrirmæli á fundi 18. september 2008 um að greiða út lán 19. sama mánaðar að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir til Brooks Trading Ltd., sem var svo gert með því að leggja fyrir atbeina bankans þá fjárhæð inn á reikning þessa félags hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Einnig hefur áður verið komist að þeirri niðurstöðu að vegna fjárhæðar lánsins og tengsla þess við tvö önnur umfangsmikil lán, sem ákærði Hreiðar gaf fyrirmæli um við sama tækifæri, hefði borið að afla samþykkis lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf. fyrir láninu til Brooks Trading Ltd. áður en það yrði greitt út. Ákærða Hreiðar brast því heimild til að gefa upp á sitt eindæmi fyrirmæli um veitingu og útborgun lánsins og misnotaði hann því stöðu sína sem forstjóri Kaupþings banka hf. þegar hann beitti boðvaldi yfir þessum þremur undirmönnum sínum til að fá þeim fyrirmælum hrundið í framkvæmd.
Gegn neitun ákærða Hreiðars er ósannað að hann hafi gefið undirmönnum sínum bein fyrirmæli á fundinum 18. september 2008 eða í framhaldi af honum um að greiða út lánið til Brooks Trading Ltd. án þess að aflað yrði samþykkis lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf. Á hinn bóginn átti ákærði Hreiðar sæti í lánanefndinni og hlaut honum af þeim sökum vera kunnugt um að henni væri ekki ætlað að koma saman til fundar fyrr en 24. september 2008. Í tengslum við þetta hefur ákærði Hreiðar vísað til þess að í framkvæmd hafi tíðkast að lánanefndin veitti samþykki milli funda sinna fyrir einstaka lánveitingum og hafi hann ekki mátt reikna með öðru en að undirmenn sínir gættu að því og myndu afla slíks samþykkis áður en lánið til Brooks Trading Ltd. yrði greitt út. Um þetta verður að líta til þess að vegna setu ákærða Hreiðars í lánanefndinni hefði óhjákvæmilega orðið að leita sérstaklega eftir afstöðu hans til þessarar lánveitingar ef afgreiða hefði átt þetta erindi milli funda hennar. Með því að það var ekki gert hlaut honum að vera ljóst að ekki var farið eftir þessari leið við undirbúninginn að framkvæmd fyrirmæla hans um lánveitinguna. Á fundi, sem lánanefndin hélt síðan 24. september 2008, var sem áður segir samþykkt beiðni um lán til Brooks Trading Ltd. að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir, en það átti þó að vera til fimm ára og veitt gegn veði í tilteknum verðbréfum. Hér áður var komist að þeirri niðurstöðu að þetta samþykki lánanefndarinnar gæti ekki af framangreindum ástæðum talist hafa náð til peningamarkaðslánsins, sem Brooks Trading Ltd. var veitt án trygginga 19. september 2008 og standa átti samkvæmt skilmálum þess til eins mánaðar. Þegar af þeirri ástæðu getur þessi samþykkt lánanefndarinnar engu breytt og verður því lagt til grundvallar að ákærði Hreiðar hafi hér farið út fyrir heimildir sínar eins og honum er gefið að sök í þessum lið ákæru.
Engar tryggingar voru settar fyrir peningamarkaðsláninu, sem Brooks Trading Ltd. fékk greitt út 19. september 2008, en ákærða Hreiðari hlaut að vera ljóst að um væri að ræða algjörlega eignalaust erlent félag með takmarkaðri ábyrgð. Að framan var komist að þeirri niðurstöðu að innstæða á reikningi félagsins hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem lánið að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir myndaði, hafi verið óbundin og því staðið félaginu til frjálsrar ráðstöfunar. Jafnframt hefur hér áður verið hafnað þeirri röksemd ákærðu að hagsmunir Kaupþings banka hf. geti á einhvern hátt talist hafa verið tryggðir sökum þess að maður sá, sem sat í stjórn Brooks Trading Ltd., hafi verið fenginn til þess verks af Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Eins og málið liggur fyrir var tilgangur þessarar lánveitingar með öllu á huldu að frátalinni þeirri skýringu, sem úr litlu bætir í þeim efnum, að með láninu hafi átt að láta MAT njóta strax hagnaðar af fyrirhugðum viðskiptum við Deutsche Bank AG með svonefnd „Credit Linked Notes“, sem ekki hefði þó átt að falla til fyrr en að fimm árum liðnum. Gat því ekki verið nokkurt tilefni til að reikna með því að lánsféð stæði til loka lánstímans kyrrt á bankareikningi Brooks Trading Ltd., sem Kaupþing banki hf. naut þess utan engra tryggingarréttinda yfir, eða að í stað þess kæmu aðrar eignir til handa félaginu, sem unnt yrði að leita fullnustu í. Með háttsemi sinni bakaði þannig ákærði Hreiðar Kaupþingi banka hf. verulega og augljósa fjártjónshættu með ráðstöfun, sem um leið var til þess fallin að verða eiganda Brooks Trading Ltd. til auðgunar.
Samkvæmt öllu framangreindu verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ákærði Hreiðar hafi gerst sekur um brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga með þeirri háttsemi, sem um ræðir í a. lið I. kafla ákæru, og eru sakir hans í þessu efni mjög miklar í skilningi lokaorða þess lagaákvæðis.
2
Í b. lið I. kafla ákæru er ákærði Magnús borinn sökum um hlutdeild í framangreindu broti ákærða Hreiðars með því að hafa átt annars vegar þann hlut í undirbúningi brotsins að hafa haft milligöngu um samningaviðræður við raunverulegan eiganda Brooks Trading Ltd., MAT, og „útvega félagið“ sem hann notaði „í viðskiptunum“ og hins vegar þann hlut í framkvæmd brotsins að hafa tekið þátt með ákærða Hreiðari í því að fyrirskipa starfsmönnum Kaupþings banka hf. að greiða út fyrrnefnt lán til Brooks Trading Ltd., en ákærða Magnúsi hafi hlotið að vera ljóst að ákærða Hreiðar hafi brostið heimild til að veita þetta lán og að engar ábyrgðir eða tryggingar hafi verið settar fyrir því.
Um þær sakargiftir á hendur ákærða Magnúsi, sem að framan greinir, er þess fyrst að geta að í málinu er ósannað að hann hafi átt í samningaviðræðum við MAT um veitingu lánsins til Brooks Trading Ltd. að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir, sem greitt var út til félagsins 19. september 2008. Ekki hefur verið skýrt af hálfu ákæruvaldsins hvað átt sé við í þessum lið ákæru þegar rætt er um milligöngu ákærða Magnúsar um slíkar samningaviðræður eða hvernig milliganga í því sambandi gæti hafa verið honum saknæm. Þá hefur heldur ekki verið rökstutt hvernig ákærði Magnús geti hafa bakað sér refsiábyrgð með því einu að hafa „útvegað“ MAT félagið Brooks Trading Ltd., sem fékk það fé að láni sem ákærði Hreiðar hefur hins vegar hér að framan verið sakfelldur fyrir að hafa veitt félaginu. Þessi atriði í verknaðarlýsingu í b. lið I. kafla ákærunnar geta því ekki komið frekar til álita.
Öðru máli gegnir á hinn bóginn um sakargiftir á hendur ákærða Magnúsi fyrir að hafa tekið þátt í því með ákærða Hreiðari að hafa fyrirskipað starfsmönnum Kaupþings banka hf. að greiða út umrætt lán til Brooks Trading Ltd. Hér áður var komist að þeirri niðurstöðu að sannað sé að ákærði Magnús hafi átt fullan þátt í því með ákærða Hreiðari að hafa gefið starfsmönnum bankans fyrirmæli á fundi 18. september 2008 um þessa lánveitingu, svo og að lánið skyldi greitt út næsta dag. Yfir þessum starfsmönnum hafði ákærði Magnús ekki boðvald, en með atbeina sínum veitti hann ákærða Hreiðari liðsinni í skilningi 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga til þess brots gegn 249. gr. sömu laga, sem ákærði Hreiðar hefur verið sakfelldur fyrir hér að framan. Vegna áralangra starfa hjá bönkum innan samstæðu Kaupþings banka hf. gat ákærða Magnúsi ekki dulist að ákærða Hreiðar brysti heimild til að kveða á um þessa lánveitingu án samþykkis lánanefndar stjórnar félagsins. Þótt ákærði Magnús hafi ekki verið í aðstöðu til að vita af eigin raun hvort slíkt samþykki hafi verið veitt og ósannað sé að honum hafi með öðrum hætti átt að vera beinlínis kunnugt um það verður að gæta að því, sem áður greinir, að honum gat ekki dulist að borin von væri að tekist gæti við þær aðstæður, sem uppi voru, að hrinda fyrirmælum um lánveitinguna til Brooks Trading Ltd. í framkvæmd á þann hátt, sem samrýmanlegur yrði verklagsreglum bankans. Með því að ákærði Magnús skeytti því í engu verður að líta svo á að hann hafi haft ásetning til að liðsinna ákærða Hreiðari án tillits til þess hvort sá síðarnefndi færi út fyrir heimildir sínar með háttsemi sinni og hefði í engu látið það ráða gerðum sínum að honum hefði verið kunnugt um það. Að þessu virtu og með því að ákærða Magnúsi voru ekki síður en ákærða Hreiðari að fullu ljós öll áðurgreind atvik, sem ollu Kaupþingi banka hf. verulegri fjártjónshættu af lánveitingunni 19. september 2008 til Brooks Trading Ltd., verður ákærði Magnús sakfelldur fyrir þá hlutdeild í framkvæmd brots ákærða Hreiðars, sem að framan greinir. Þessi háttsemi ákærða Magnúsar varðar við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga og eru sakir hans mjög miklar í skilningi fyrrnefnda lagaákvæðisins.
3
Í a. lið II. kafla ákæru er ákærða Hreiðari sem forstjóra Kaupþings banka hf. og ákærða Sigurði sem starfandi formanni stjórnar félagsins og formanni lánanefndar stjórnarinnar gefið að sök að hafa brotið gegn 249. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa í september 2008 misnotað aðstöðu sína þegar þeir hafi farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga með því að hafa í sameiningu látið bankann lána 29. þess mánaðar Gerland Assets Ltd. 12.863.497.675 krónur „í formi óundirritaðs peningamarkaðsútláns“ án þess að fyrir lægi samþykki lánanefnda bankans og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti, en þannig hafi þeir valdið bankanum verulegri fjártjónshættu.
Á hliðstæðan hátt og gert var að framan þegar leyst var úr sakargiftum samkvæmt a. lið I. kafla ákæru verður vísað hér til þess að þegar hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að sannað sé í málinu að ákærði Hreiðar hafi ásamt ákærða Magnúsi gefið þremur starfsmönnum Kaupþings banka hf. fyrirmæli á fundi 18. september 2008 meðal annars um að greiða út lán að fjárhæð 100.000.000 evrur til félags í eigu ákærða Ólafs, sem síðar reyndist vera Gerland Assets Ltd., til að standa straum af helmingi kaupverðs 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. Svo sem áður hefur verið rakið fór svo að fyrirmælum þessum var hrundið í framkvæmd á þann hátt að Gerland Assets Ltd. var veitt peningamarkaðslán til liðlega eins mánaðar með samsvarandi fjárhæð, sem greidd var út 29. september 2008 með innborgun á 12.863.497.675 krónum á reikning félagsins hjá Kaupþingi banka hf. Á sama hátt verður einnig vísað til þess að áður hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að vegna fjárhæðar lánsins og tengsla þess við tvö önnur umfangsmikil lán, sem ákærði Hreiðar og Magnús gáfu fyrirmæli um við sama tækifæri, hefði borið að afla samþykkis lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf. fyrir láninu til Gerland Assets Ltd. áður en það yrði greitt út. Ákærða Hreiðar brast því heimild til að gefa upp á sitt eindæmi fyrirmæli um veitingu og útborgun lánsins og misnotaði hann því stöðu sína sem forstjóri Kaupþings banka hf. þegar hann beitti boðvaldi yfir þremur undirmönnum sínum til að fá þeim fyrirmælum hrundið í framkvæmd.
Fyrir liggur í málinu að aldrei var borin undir lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf. beiðni um framangreint lán til Gerland Assets Ltd. Gegn neitun ákærða Hreiðars er ósannað að hann hafi gefið undirmönnum sínum bein fyrirmæli á fundinum 18. september 2008 eða í framhaldi af honum um að greiða þetta lán út án þess að aflað yrði samþykkis nefndarinnar. Í nefndinni átti ákærði Hreiðar á hinn bóginn sæti og kom hún í eitt skipti saman á tímabilinu frá því að hann gaf undirmönnum sínum fyrirmæli 18. september 2008 um útborgun lánsins fram til þess að fyrirmælunum var fylgt eftir 29. sama mánaðar, en það gerðist þegar nefndin hélt fund 24. þess mánaðar. Til fundarins hafði sem fyrr segir verið boðað með tölvubréfi 21. september 2008, þar sem lánsbeiðnir sem koma áttu til afgreiðslu voru taldar upp, en beiðnirnar fylgdu jafnframt með bréfinu. Á fundi þessum var meðal annars samþykkt beiðni um lán til Serval Trading Group Corp., sem var sömu fjárhæðar og ætlað til sömu þarfa og lánið til Gerland Assets Ltd. Um bæði þessi lán, sem námu verulegum fjárhæðum, tilgang þeirra og fyrirhugaða notkun fjárins var ákærða Hreiðari fullkunnugt. Að auki verður að gæta að því að á sama fundi lánanefndarinnar kom til afgreiðslu lánsbeiðni frá Kjalari hf., sem ákærði Ólafur átti stærsta hlutinn í. Í beiðninni um það lán var farið yfir skuldbindingar annarra félaga, sem einnig tengdust ákærða Ólafi, og munu þær hafa numið samtals 77.198.306.522 krónum. Í engu var getið þar um Gerland Assets Ltd. Er algjörlega með ólíkindum að það hefði fyrir slysni getað farið fram hjá ákærða Hreiðari að láðst hafi að bera undir lánanefndina á þessum fundi beiðni um lán að fjárhæð 12.863.497.675 krónur til enn eins félags, sem tengt var ákærða Ólafi og nota átti til sömu þarfa og lánið til Serval Trading Group Corp. Verður þannig að leggja til grundvallar að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði Hreiðar hafi af ásetningi látið hjá líða að sjá til þess að beiðni um lánið til Gerland Assets Ltd. yrði tekin til afgreiðslu á fundi lánanefndarinnar. Á sama hátt og áður var komist að niðurstöðu um þegar leyst var úr sakargiftum samkvæmt a. lið I. kafla ákæru getur ekki komið hér til álita að ákærði Hreiðar hafi mátt telja að beiðni um lán þetta hafi verið afgreidd af lánanefndinni milli funda hennar. Verður því lagt til grundvallar að ákærði Hreiðar hafi hér farið út fyrir heimildir sínar eins og honum er gefið að sök í þessum lið ákæru.
Engar tryggingar voru settar fyrir peningamarkaðsláninu, sem Gerland Assets Ltd. fékk greitt út 29. september 2008, en ákærði Hreiðar lét þess getið sem áður segir í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að aldrei hafi staðið til að krefja eiganda félagsins, ákærða Ólaf, um slíkar tryggingar. Ákærða Hreiðari var ljóst að við útborgun lánsins inn á reikning félagsins hjá Kaupþingi banka hf. yrði lánsféð rakleitt flutt af þeim reikningi yfir á reikning í eigu Choice Stay Ltd. hjá bankanum og aftur þaðan inn á reikning Q Iceland Finance ehf. við bankann, en af þeim reikningi yrði þetta fé svo tekið til að greiða helming af kaupverði 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. Ákærða Hreiðari hlaut að vera kunnugt um að Gerland Assets ehf., erlent félag með takmarkaðri ábyrgð, hafi fyrir þessa lánveitingu verið með öllu eignalaust og að staða félagsins hafi í reynd lítt verið bættari eftir að lánsféð hafði verið tekið aftur af bankareikningi þess, enda hafði þá komið í stað bankainnstæðu vegna lánsfjárins krafa á hendur öðru erlendu félagi, Choice Stay Ltd., sem eins var komið fyrir. Kaupþing banki hf. naut engra veðréttinda fyrir kröfu sinni á hendur Gerland Assets Ltd. í hlutabréfunum, sem Q Iceland Finance ehf. keypti að hluta fyrir féð, sem átti uppruna sinn í þessu láni. Áður hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði litið svo á að Kaupþing banki hf. hafi notið á óbeinan hátt tryggingar fyrir kröfu sinni á hendur Gerland Assets Ltd. vegna þeirrar sjálfskuldarábyrgðar, sem MAT gekkst undir fyrir skuld Serval Trading Group Corp. við bankann. Þá hefur því einnig verið hafnað að Kaupþing banki hf. hafi á óbeinan hátt notið einhverrar raunhæfrar tryggingar fyrir kröfu sinni í hlutabréfunum, sem Q Iceland Finance ehf. keypti, kröfuréttindum Choice Stay Ltd. á hendur því félagi eða kröfuréttindum Gerland Assets Ltd. á Choice Stay Ltd. Jafnframt hefur því áður verið hafnað að það geti hafa gert stöðu Kaupþings banka hf. tryggari í þessum viðskiptum öllum að stjórnarmenn í Gerland Assets Ltd., Serval Trading Group Corp. og Choice Stay Ltd. hafi tengst Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Gat því í raun ekki verið tilefni til að reikna með því að lán þetta fengist endurgreitt nema með fúsum og frjálsum vilja lántakans. Með þessari háttsemi sinni bakaði ákærði Hreiðar Kaupþingi banka hf. verulega og augljósa fjártjónshættu með ráðstöfun, sem um leið var til þess fallin að verða eiganda Gerland Assets Ltd. til auðgunar.
Samkvæmt öllu framangreindu verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ákærði Hreiðar hafi gerst sekur um brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga með þeirri háttsemi, sem greinir í a. lið II. kafla ákæru. Á sama hátt og í a. lið I. kafla ákæru eru sakir ákærða Hreiðars í þessu tilviki mjög miklar í skilningi niðurlagsorða þess ákvæðis.
Um sakargiftir á hendur ákærða Sigurði í þessum lið ákæru er þess að gæta að eftir gögnum málsins hafði hann ekki á hendi heimild til að taka ákvörðun um veitingu lána frá Kaupþingi banka hf. í skjóli stöðu sinnar sem formaður stjórnar félagsins, hvorki upp á eindæmi sitt né í félagi með ákærða Hreiðari. Sem formaður lánanefndar stjórnar hafði hann vissulega á hendi vald til að taka slíkar ákvarðanir, en því deildi hann með þremur öðrum nefndarmönnum. Lánanefndin tók þó aldrei ákvörðun um að Gerland Assets Ltd. skyldi veitt lán frá Kaupþingi banka hf.
Fram hjá því verður á hinn bóginn ekki litið að hér áður var því slegið föstu að ákærða Sigurði hafi verið kunnugt um sömu atriðin og fram komu af hendi ákærðu Hreiðars og Magnúsar á fundinum 18. september 2008, þar á meðal um efnisinntak fyrirmælanna, sem þeir gáfu þar. Verður því í þessu samhengi að leggja til grundvallar að ákærði Sigurður hafi vitað að starfsmenn Kaupþings banka hf. hafi fengið fyrirmæli um að Gerland Assets Ltd. skyldi veitt lán að jafnvirði 100.000.000 evrur án nokkurra trygginga í þeim tilgangi, sem áður var getið. Honum gat ekki annað en verið ljós öll áðurgreind atriði, sem lutu að verulegri fjártjónshættu af þessari ráðstöfun. Ekki síst hlaut honum að vera ljóst að ákærði Hreiðar hafði ekki vald til að mæla fyrir um þessa lánveitingu án samþykkis lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf., þar sem þeir báðir áttu sæti. Af þeim ástæðum, sem áður voru raktar varðandi sakir á hendur ákærða Hreiðari í þessum lið ákæru, fær hvorki staðist að ákærða Sigurði hafi getað yfirsést að lánsbeiðni vegna Gerland Assets Ltd. hafi ekki verið lögð fyrir lánanefndina né að hann hafi getað staðið í þeirri trú að nefndin, sem hann var formaður fyrir, hafi afgreitt þá beiðni milli funda án vitneskju sinnar. Vegna stöðu sinnar sem formaður lánanefndarinnar og jafnframt sem formaður stjórnar Kaupþings banka hf. bar hann ekki síður en ákærði Hreiðar skyldu til að tryggja að beiðni Gerland Assets Ltd. um lán frá bankanum yrði tekin til afgreiðslu í nefndinni. Verður að meta það ákærða Sigurði til ásetnings að það hafi ekki verið gert.
Með því að ákærði Sigurður fór samkvæmt áðursögðu ekki með slíkt vald til ákvörðunar um lánveitingar Kaupþings banka hf., sem hann er borinn sökum um að hafa misnotað í þessum lið ákæru, getur ekki komið til álita að sakfella hann sem aðalmann í broti gegn 249. gr. almennra hegningarlaga. Með því á hinn bóginn að hafa af ásetningi látið hjá líða að tryggja að lánsbeiðni Gerland Assets Ltd. yrði lögð fyrir lánanefnd Kaupþings banka hf. liðsinnti ákærði Sigurður ákærða Hreiðari við framningu brots hans gegn þessu lagaákvæði samkvæmt þessum lið ákæru. Verður ákærði Sigurður því sakfelldur fyrir hlutdeild í því broti, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga, og verða sakir hans að skoðast mjög miklar í skilningi 249. gr. sömu laga. Niðurstaða þessi um sakfellingu ákærða Sigurðar fyrir hlutdeild í broti ákærða Hreiðars er samrýmanleg 4. málslið 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008, enda verður ekki litið svo á að vörn hans hafi verið áfátt að þessu leyti.
4
Ákærða Ólafi er í b. lið II. kafla ákæru aðallega gefin að sök hlutdeild í því broti gegn 249. gr. almennra hegningarlaga, sem greinir í a. lið sama kafla ákærunnar og ákærði Hreiðar hefur hér að framan verið sakfelldur fyrir sem aðalmaður, en til vara brot gegn 254. og 264. gr. sömu laga, með því að hafa með ákærðu Hreiðari og Sigurði lagt á ráðin um að Kaupþing banki hf. greiddi út fyrrnefnt lán til Gerland Assets Ltd., þrátt fyrir verulega fjártjónshættu bankans af því, og látið það félag sitt taka við lánsfénu án nokkurra ábyrgða eða trygginga til þess að koma því áfram í hendur Q Iceland Finance ehf. til að greiða hluta af kaupverði 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf.
Ákærði Hreiðar framdi brotið gegn 249. gr. almennra hegningarlaga, sem hann var sakfelldur fyrir hér að framan, með því að hafa misnotað boðvald sitt sem forstjóri Kaupþings banka hf. yfir öðrum starfsmönnum félagsins þegar hann gaf þeim fyrirmæli um að greiða út lán til Gerland Assets Ltd. án þess að lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf. hafi samþykkt þá lánveitingu, en til ákvörðunar um hana án slíks samþykkis hafði ákærði Hreiðar ekki heimild. Svo sem áður kom fram gegndi ákærði Ólafur hvorki starfi hjá Kaupþingi banka hf. né átti hann sæti í stjórn félagsins, þótt hann hafi farið fyrir öðru félagi, sem mun hafa verið næst stærsti hluthafinn í Kaupþingi banka hf. Þótt ekki verði efast um að hann hafi lagt á ráðin með ákærða Hreiðari um lántöku Gerland Assets Ltd., ráðstöfun lánsfjárins frá því félagi og notkun þess í framhaldi af því, er engin sönnun komin fram fyrir því að þessar ráðagerðir þeirra hafi meðal annars gagngert beinst að þeirri háttsemi, sem var ákærða Hreiðari saknæm samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga. Í viðskiptum Gerland Assets Ltd. við bankann kom ákærði Ólafur fram sem fyrirsvarsmaður lántakans og mátti hann sem slíkur standa að öðru óreyndu í þeirri trú að ákvörðun forráðamanna bankans um lánveitinguna yrði tekin eftir formlega réttum leiðum. Ekki er fram komið að honum hafi verið kunnugt að það hafi ekki verið gert að því leyti sem að framan greinir. Það eitt að honum hljóti ekki síður en ákærða Hreiðari að hafa verið ljós sú verulega fjártjónshætta, sem þessi lánveiting olli Kaupþingi banka hf., eða að ákærði Ólafur hafi látið félag sitt taka við lánsfénu vitandi um þá hættu nægir ekki til að gera hann að hlutdeildarmanni í fyrrgreindu broti ákærða Hreiðars gegn 249. gr. almennra hegningarlaga svo að varði við 1. mgr. 22. gr. sömu laga. Með því að ósannað er að ákærða Ólafi hafi verið eða mátt vera kunnugt um að lánsféð hafi komist í hendur félags síns með verknaði, sem fól í sér brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga, getur háttsemi hans, sem greinir í b. lið II. kafla ákæru, hvorki varðað við 254. né 264. gr. sömu laga. Hann verður því sýknaður af sakargiftum samkvæmt þessum lið ákærunnar.
5
Í a. lið III. kafla ákæru eru ákærðu Hreiðar og Sigurður bornir sökum um markaðsmisnotkun, sem varði við a. lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 146. gr. laga nr. 108/2007. Megininntaki þessara sakargifta er þar lýst á þá leið að ákærðu Hreiðar og Sigurður hafi látið ranglega líta svo út að þekktur fjárfestir frá Qatar, MAT, hafi lagt félagi í sinni eigu, Q Iceland Finance ehf., til fé til að kaupa 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. og borið af því fulla áhættu, en leynt um leið að bankinn hafi lánað allt fé til þessara kaupa og borið helming áhættu af kaupunum, svo og að ákærði Ólafur, sem á þeim tíma hafi farið fyrir eiganda 9,88% hlutafjár í Kaupþingi banka hf., hafi á nánar tiltekinn hátt komið að þessum kaupum. Hafi ákærðu Hreiðar og Sigurður tekið sameiginlega ákvörðun um þetta, en sá fyrrnefndi gefið starfsmönnum bankans fyrirmæli um framkvæmd viðskiptanna. Hafi þessi viðskipti, sem hafi falið í sér blekkingu og sýndarmennsku, tekið til stórs hlutar í Kaupþingi banka hf. og verið líkleg til að gefa spurn eftir hlutabréfum í félaginu og verð þeirra misvísandi til kynna.
Í b. lið III. kafla ákærunnar er ákærðu Magnúsi og Ólafi gefin að sök hlutdeild í framangreindri háttsemi ákærðu Hreiðars og Sigurðar, sem varði við sömu ákvæði laga nr. 108/2007, sbr. 3. mgr. 147. gr. þeirra laga og 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.
Hér áður hefur í einstökum atriðum verið lýst bakgrunni kaupa Q Iceland Finance ehf. á 5,01% hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. eins og hann blasir við í framlögðum skjölum í málinu. Þótt félag þetta, sem gegnum annað einkahlutafélag var í fullri eigu MAT, hafi keypt þessi hlutabréf bjó þar í raun að baki að félag í fullri eigu ákærða Ólafs lagði þessu félagi til gegnum millilið helming kaupverðsins og er eins og áður hefur verið rökstutt hafið yfir skynsamlegan vafa að félag ákærða Ólafs hafi einnig átt að njóta helmings hugsanlegs arðs, sem þessi kaup hefðu leitt af sér. Í þessu tilliti var félag ákærða Ólafs í reynd eins sett fjárhagslega og hefði það berum orðum verið kaupandi að helmingi þessara hlutabréfa, en Q Iceland Finance ehf. aðeins kaupandi að hinum helmingnum. Í málinu liggur ekkert fyrir um hvort að baki þessu öllu hafi verið frekari samningar um hvernig fara hefði átt með atkvæðisrétt og önnur réttindi á grundvelli hlutabréfanna, en það getur ekki breytt því meginatriði að leggja verður til grundvallar að MAT hafi aðeins staðið að kaupum á helmingi þeirra.
Þessum hlutabréfakaupum var út á við ótvírætt gefin sú ásýnd að þekktur auðmaður, MAT, hafi staðið að þeim og með því að þögn ríkti um að Kaupþing banki hf. hafi lagt til lánsfé fyrir kaupunum í heild gátu þeir, sem utan þessara viðskipta stóðu, ekki ætlað annað en að maður þessi hafi greitt fyrir hlutabréfin með reiðufé sem hann hafi sjálfur átt eða útvegað sér á annan hátt. Samkvæmt tilkynningu um viðskiptin seldi Kaupþing banki hf. með þeim 37.100.000 eigin hluti fyrir 690 krónur hvern og hefði því mátt ætla að bankinn hafi fengið fyrir þá 25.599.000.000 krónur í reiðufé. Í reynd fékk bankinn ekkert reiðufé, heldur kröfuréttindi á hendur tveimur erlendum félögum með takmarkaðri ábyrgð, að fjárhæð 12.863.497.675 krónur gagnvart hvoru þeirra. MAT veitti sjálfskuldarábyrgð fyrir kröfunni á hendur öðru félaginu, en engin trygging var sett fyrir kröfunni á hendur hinu. Þótt ekki séu efni til að efast um að sjálfskuldarábyrgð þessi hafi verið raunhæf var eins og ítarlega hefur verið rakið hér áður undir hælinn lagt hvernig tekist gæti til með innheimtu kröfu á hendur hinu félaginu. Varðandi þá kröfu Kaupþings banka hf., sem MAT gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir, verður heldur ekki horft fram hjá því að samhliða kaupunum á hlutabréfunum veitti Kaupþing banki hf. félagi í eigu ábyrgðarmannsins, Brooks Trading Ltd., lán að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir, sem ekki var gefin trygging fyrir, og hefur sem fyrr segir ekki komið fram í málinu skiljanleg og haldbær ástæða fyrir þeirri ráðstöfun.
Það hlutfall hlutabréfa í Kaupþingi banka hf., sem kaupin tóku til, náði með minnsta mögulega mun því marki, sem leiddi til skyldu samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 108/2007 til að gefa út flöggunartilkynningu um þau. Fráleitt er að tilviljun ein hafi ráðið umfangi þessara kaupa og hefur ekkert komið fram í málinu um að búið hafi að baki því fjárhagslegar ástæður. Hefðu þessi kaup verið klædd í þann raunverulega búning þeirra, sem rakinn var hér að framan, hefði ekki komið til þess að flagga hefði borið vegna hlutabréfakaupa félagsins Q Iceland Finance ehf. í eigu MAT. Verður í þessu samhengi ekki horft fram hjá fyrrgreindum orðum, sem EH lét falla í símtali við BÓ 17. september 2008 um að „uppleggið“ frá ákærða Magnúsi hafi verið að ákærði Ólafur mætti „ekki flagga, við viljum bara að Qatarinn flaggi og enginn annar“. Má og minnast þess, sem fyrr greinir, að EH sagði í öðru símtali við þann sama 18. september 2008 að það ætti „bara að fara að tjakka, setja tjakkinn af stað, bara búa til eftirspurn“. Þessi ummæli lýsa í hnotskurn þeim ályktunum sem draga verður af öllu framansögðu.
Eins og kaup Q Iceland Finance ehf. á 5,01% hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. voru kynnt út á við gáfu þau ekki aðeins til kynna að þekktur og auðugur erlendur fjárfestir hafi einn átt þátt í þeim og staðið sjálfur straum af kaupverði hlutabréfanna, heldur hafi jafnframt búið þar að baki traust á félaginu sem banka á alþjóðlegum fjármálamarkaði og trú á arðsemi kaupanna. Hefði opinberlega verið greint frá raunverulegu megininntaki þessara kaupa er ótvírætt að þetta traust og sú trú hefði fengið á sig allt aðra og lakari mynd. Í þessum ráðstöfunum fólst því markaðsmisnotkun í skilningi a. liðar 1. töluliðar og 2. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007.
Mótun þessara viðskipta með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. ber þess augljós merki að frá öndverðu hafi verið stefnt að því að þau fengju þá ásýnd sem að framan greinir. Eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að ákærði Hreiðar hafi af hendi Kaupþings banka hf. lagt á ráðin um þau með vitneskju og samþykki ákærða Sigurðar, ákærði Ólafur hafi sem raunverulegur aðili að viðskiptunum einnig lagt á ráðin um þau og haft að auki milligöngu við MAT um að koma þeim á og ákærði Magnús hafi veitt ákærðu Hreiðari og Ólafi báðum í verki liðsinni í þessum efnum. Verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu þeirra allra fyrir brotin, sem þeim eru gefin að sök í III. kafla ákæru og eru þar réttilega heimfærð til refsiákvæða að því gættu að brot þessi varða refsingu samkvæmt 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007.
6
Í IV. kafla ákæru er ákærðu öllum gefin að sök markaðsmisnotkun, sem efnislega hafi verið fólgin í birtingu fréttatilkynningar í kauphöll að morgni 22. september 2008 um kaup Q Iceland Finance ehf. á 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf., sem þeir hafi allir staðið að, sbr. a. lið IV. kafla, og síðan nánar tilteknum ummælum, sem ákærðu Hreiðar, Ólafur og Sigurður hafi hver fyrir sig látið falla um þessi kaup í tilteknum viðtölum í fjölmiðlum, sem birt voru sama dag og þann næsta, sbr. b., c. og d. lið sama kafla ákærunnar. Háttsemi þeirra allra er í ákæru talin varða við 3. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 146. gr. laga nr. 108/2007.
Hér áður var tekinn upp orðréttur texti fréttatilkynningarinnar sem um ræðir í þessum kafla ákærunnar. Því hefur jafnframt verið lýst í einstökum atriðum hvernig fréttatilkynning þessi varð til frá því að ákærði Hreiðar gaf starfsmanni Kaupþings banka hf., JS, fyrirmæli að kvöldi 19. september 2008 um að semja hana og þar til endanlegur texti hennar lá fyrir 21. sama mánaðar, þar á meðal hvernig allir ákærðu komu hver fyrir sitt leyti að gerð hennar. Um ummælin, sem ákærðu Hreiðar, Ólafur og Sigurður létu síðan falla í viðtölum við fjölmiðla 22. og 23. september skal vísað hér til hins áfrýjaða dóms, þar sem þau eru tekin orðrétt upp úr ákæru.
Fréttatilkynningin sem var birt í kauphöll 22. september 2008 fól í sér opinbera kynningu á kaupum Q Iceland Finance ehf. á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf., en kaupin sem slík eins og um þau var búið voru rótin að broti ákærðu samkvæmt III. kafla ákæru. Sakargiftir í þeim kafla ákærunnar tóku ekki til birtingar þessarar tilkynningar sem slíkrar, heldur til viðskiptanna sem hún fjallaði um. Ákvæði 3. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007, sem háttsemi ákærðu samkvæmt IV. kafla ákærunnar er þar talin varða við, tekur á hinn bóginn meðal annars til dreifingar upplýsinga og frétta, sem eru líklegar til að gefa rangar eða misvísandi upplýsingar eða vísbendingar um fjármálagerninga. Er þetta sjálfstætt brot gegn ákvæðum 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 og verður því ekki fallist á með ákærðu að háttsemin, sem hér um ræðir, falli undir þau brot sem III. kafli ákærunnar tekur til.
Í 29. og 30. gr. laga nr. 108/2007 og reglugerðum nr. 994/2007 og 191/2008, sem settar hafa verið á grundvelli 31. gr. laganna, er að finna fyrirmæli um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja um viðskipti með hlutabréf, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, skyldu fjármálafyrirtækja til að tilkynna um slík viðskipti og efni tilkynninga um þau. Þá eru fyrirmæli í 78. gr. laganna um flöggunarskyldu við nánar tilgreindar aðstæður um viðskipti með hlutabréf, sem hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, og eru í 85. gr. laganna ákvæði um efni tilkynningar um þetta og í 95. gr. um birtingu hennar. Þessar reglur tóku til þess þegar Q Iceland Finance ehf. keypti 5,01% hlutabréfa í Kaupþingi banka hf., enda höfðu þau verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.
Í einfaldaðri mynd leiddu framangreindar reglur af sér skyldu Kaupþings banka hf. til að tilkynna að Q Iceland Finance ehf. hafi keypt af bankanum og utan skipulagðs verðbréfamarkaðar tiltekinn fjölda hlutabréfa í Kaupþingi banka hf., á hvaða verði það hafi verið gert og hvenær. Vegna flöggunarskyldu, sem umfang viðskiptanna og aðild að þeim leiddu af sér, bar jafnframt að tilkynna Fjármálaeftirlitinu að þessi viðskipti hefðu farið fram, hvenær það gerðist, hvernig atkvæðisréttur hluthafa í Kaupþingi banka hf. hafi breyst með viðskiptunum og hver ætti viðkomandi hluti og færi eftir atvikum með atkvæðisrétt á grundvelli þeirra. Þeirri tilkynningarskyldu um kaup Q Iceland Finance ehf. á hlutabréfunum af Kaupþingi banka hf., sem af þessu leiddi, var fullnægt annars vegar með sérstakri tilkynningu síðarnefnda félagsins til kauphallar og hins vegar með tilkynningum um flöggun, en í þeim var að finna tilskildar upplýsingar. Fréttatilkynningin, sem Kaupþing banki hf. fékk birta í kauphöll og sakargiftir í IV. kafla ákæru taka meðal annars til, var ekki nauðsynlegur þáttur í rækslu þessarar tilkynningarskyldu. Verður því ekki annað séð en að Kaupþingi banka hf. hafi verið í sjálfsvald sett að taka upp í þessa tilkynningu þau atriði sem félagið kaus. Það gerði félagið með því að greina frá því að Q Iceland Finance ehf. hafi keypt 5,01% hlutabréfa í því, um 37.100.000 hluti hafi verið að ræða, þeir hafi verið keyptir fyrir 690 krónur hver og Q Iceland Finance ehf. hafi með þessu orðið þriðji stærsti hluthafinn í Kaupþingi banka hf. Þessi atriði í fréttatilkynningunni upplýstu í raun ekki annað en það, sem ella hefði mátt ráða af fyrrnefndum tilkynningum sem skylt var að koma á framfæri og sendar voru. Í fréttatilkynningunni var þó ekki látið við það sitja, heldur bætt við að félagið, sem keypti hlutabréfin, væri í eigu MAT, sem var tilgreindur með fullu nafni og tign, og tekið var fram að hann væri í konungsfjölskyldu sem hafi verið við völd í Qatar frá því á nítjándu öld. Í framhaldi af þessu voru höfð ummæli innan tilvitnunarmerkja eftir MAT og síðan ákærða Sigurði í tilefni af kaupunum. Í tilkynningu þessari var á hinn bóginn í engu getið þeirra atriða, sem fjallað var um hér að framan í tengslum við III. kafla ákæru og vörðuðu nánari tilgreiningu á raunverulegu inntaki viðskiptanna með hlutabréfin í Kaupþingi banka hf. Tilkynningin gaf því rangar og misvísandi upplýsingar um þessi kaup, sem síðan voru ítrekaðar í þeim viðtölum fjölmiðla við ákærðu Hreiðar, Ólaf og Sigurð, sem áður var getið.
Framangreind háttsemi allra ákærðu fól í sér brot gegn 3. tölulið 1. mgr. 117. gr. nr. 108/2007, sem varðar refsingu samkvæmt 1. tölulið 146. gr. sömu laga. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu þeirra fyrir þau brot sem IV. kafli ákæru tekur til.
VII
Samkvæmt því, sem að framan greinir, er ákærði Hreiðar sakfelldur fyrir öll brotin, sem honum eru gefin að sök í ákæru, en þau felast í umboðssvikum, sbr. a. lið I. kafla og a. lið II. kafla ákæru, og markaðsmisnotkun, sbr. a. lið III. kafla og a. og b. lið IV. kafla hennar. Ákærði Sigurður er sakfelldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum ákærða Hreiðars samkvæmt a. lið II. kafla ákæru og fyrir markaðsmisnotkun, sbr. a. lið III. kafla og a. og d. lið IV. kafla hennar. Ákærði Ólafur er sýknaður af sakargiftum aðallega um hlutdeild í umboðssvikum og til vara um hylmingu og peningaþvætti samkvæmt b. lið II. kafla ákæru, en sakfelldur fyrir hlutdeild í markaðsmisnotkun, sbr. b. lið III. kafla, og fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt a. og c. lið IV. kafla ákærunnar. Loks er ákærði Magnús sakfelldur fyrir öll brotin, sem hann er borinn sökum um í ákæru, en þau eru hlutdeild í umboðssvikum samkvæmt b. lið I. kafla, hlutdeild í markaðsmisnotkun, sbr. b. lið III. kafla, og markaðsmisnotkun samkvæmt a. lið IV. kafla hennar.
Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að umboðssvik samkvæmt I. og II. kafla ákærunnar snerust um gífurlegar fjárhæðir, en við útborgun láns, sem um ræðir í fyrrnefnda kaflanum, svaraði fjárhæð þess samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands 19. september 2008 til 4.633.000.000 króna, og lánið, sem síðarnefndi kaflinn snýr að, nam 12.863.497.675 krónum þegar það var greitt út tíu dögum síðar. Upp í lánið, sem um ræðir í I. kafla ákærunnar, greiddist 12. febrúar 2013 fjárhæð, sem eftir sama gengi og áður getur samsvaraði 2.405.707.053 krónum, en lánið, sem II. kafli hennar varðar, hefur að engu leyti greiðst. Háttsemi ákærðu samkvæmt þessum köflum ákæru fól í sér alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart stóru almenningshlutafélagi og leiddi til stórfellds fjártjóns. Brotin samkvæmt III. og IV. kafla ákæru beindust í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi í heild og verður tjónið, sem leiddi af þeim beint og óbeint, ekki metið til fjár. Þessi brot voru stórum alvarlegri en nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot. Kjarninn í háttsemi ákærðu fólst í þeim brotum, sem III. kafli ákærunnar snýr að, en þau voru þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi. Öll voru brotin framin í samverknaði og beindust að mikilvægum hagsmunum. Verður og að líta til þess að af broti samkvæmt III. kafla ákæru hafði ákærði Ólafur óbeina fjárhagslega hagsmuni gegnum félag, sem eins og fyrr greinir var næst stærsti hluthafinn í Kaupþingi banka hf. Ákærðu, sem ekki hafa sætt refsingu fyrr, eiga sér engar málsbætur. Að þess öllu virtu og með tilliti til þess að þáttur ákærðu að brotum, sem þeir eru sakfelldir fyrir, er mismikill verður ákvörðun refsingar ákærða Hreiðars samkvæmt hinum áfrýjaða dómi staðfest, þar á meðal ákvæði dómsins um frádrátt gæsluvarðhaldsvistar sem hann sætti, en ákærði Sigurður skal sæta fangelsi í fjögur ár og ákærðu Ólafur og Magnús í fjögur ár og sex mánuði. Til frádráttar refsingu ákærða Magnúsar kemur gæsluvarðhald, sem hann sætti vegna málsins, svo sem í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð að öðru leyti en því að eftir úrslitum málsins verður fjórðungur þess sakarkostnaðar, sem ákærða Ólafi var þar gert að greiða, lagður á ríkissjóð. Um áfrýjunarkostnað málsins fer samkvæmt því sem segir í dómsorði, en í fjárhæð málsvarnarlauna verjenda ákærðu er innifalinn virðisaukaskattur.
Vegna aðfinnsla, sem fram komu í garð tveggja verjenda ákærðu í niðurlagi hins áfrýjaða dóms og vikið hefur verið að hér áður, er rétt að taka fram að hvorki er í lögum nr. 88/2008 lagt berum orðum bann við því að verjandi eigi samtal við mann, sem ráðgert er að gefi skýrslu sem vitni við aðalmeðferð máls fyrir dómi, né verður ályktað af ákvæðum laganna að hindrun sé lögð við því. Geri verjandi þetta ber honum á hinn bóginn að gæta þess af varfærni að leitast við að hafa engin áhrif á framburð, sem vitni á eftir að gefa. Verður í því sambandi að líta til þess að samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 88/2008 er það hlutverk verjanda að draga fram í máli allt sem verða má skjólstæðingi hans til sýknu eða hagsbóta og gæta réttar hans í hvívetna, en í því skyni má þó aldrei víkja frá þeirri meginreglu 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn að þeim ber aðeins að neyta lögmætra úrræða til að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna. Tilefni fyrir aðfinnslum héraðsdóms, sem hér um ræðir, verður væntanlega rakið til þess að við skýrslugjöf fyrir dómi kvaðst vitnið BHD aðspurður hafa hitt verjendur ákærðu Hreiðars og Ólafs, sem hafi farið „gegnum hvað þeir myndu spyrja um“, og vitnið HS sagði ónafngreindan verjanda hafa rætt við sig til að grennslast fyrir um hvort hann gæti veitt upplýsingar um nánar tilgreint atriði. Sé það lagt til grundvallar, sem þessi tvö vitni sögðu um þetta efni, var ekki ástæða til aðfinnsla í garð verjenda að því er varðar þessi samskipti. Á hinn bóginn verður að gæta að því að við skýrslutöku af vitninu GÞG svaraði hann því til að hann hafi rætt fyrir aðalmeðferð málsins bæði við ákærða Hreiðar ásamt verjanda hans og ákærða Ólaf og verjanda hans. Slík samtöl, sem voru ekki aðeins við verjendur heldur um leið ákærðu, geta vart hafa átt það tilefni eitt að verjendur hafi talið þörf á að leita upplýsinga um hverju vitni kynni að geta svarað við skýrslugjöf fyrir dómi. Þá er til þess að líta að við skýrslugjöf vitnisins BÓ fyrir dómi var lögð fyrir hann í tilefni af breyttum framburði hans frá lögregluskýrslu um tiltekið atriði spurning um hvort hann hafi átt samtöl sem þessi og lýsti hann því fyrst í stað að hann hafi rætt við „ákærðu og verjendur þeirra eftir að ákæran kom“, síðan að hann hafi „farið yfir gögnin“ af því að hann „vantaði bara að fá ýmsar upplýsingar“, nánar aðspurður sagðist hann hafa hitt „verjendur í þessu máli“, en að endingu að um hafi verið að ræða verjanda ákærða Hreiðars. Af svörum, sem ákærðu Hreiðar og Sigurður gáfu við aðalmeðferð málsins við spurningum sem snerust um atriði í framburði BÓ hjá lögreglu, verður ekki annað ráðið en að þeir hafi báðir gengið út frá því að framburður þessa vitnis í skýrslu, sem hann átti eftir að gefa fyrir dómi, yrði á annan veg en framburður hans hjá lögreglu. Atriði varðandi þessi tvö síðastnefndu vitni gaf réttmæta ástæðu til aðfinnslu, en ekki voru efni til að tengja hana sem slíka við ummæli um trúverðugleika vitna, svo sem gert var í hinum áfrýjaða dómi. Að gefnu þessu tilefni skal svo bent á að í dómi þessum hefur ekkert reynt á atriði, sem varða sönnunargildi skýrslna þessara fjögurra vitna fyrir dómi.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða Hreiðars Más Sigurðssonar.
Ákærði Sigurður Einarsson sæti fangelsi í 4 ár.
Ákærði Ólafur Ólafsson sæti fangelsi í 4 ár og 6 mánuði.
Ákærði Magnús Guðmundsson sæti fangelsi í 4 ár og 6 mánuði, en til frádráttar þeirri refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist hans frá 7. til 14. maí 2010.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð að öðru leyti en því að ákærði Ólafur skal greiða þargreind málsvarnarlaun verjenda sinna að ¾ hlutum, en að ¼ hluta skulu þau greidd úr ríkissjóði.
Um sakarkostnað fyrir Hæstarétti fer sem hér segir: Ákærði Hreiðar greiði 24.756.600 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Harðar Felix Harðarsonar hæstaréttarlögmanns, ákærði Sigurður 14.012.000 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Ólafs Eiríkssonar hæstaréttarlögmanns, ákærði Ólafur 17.763.000 krónur, sem eru ¾ hlutar málsvarnarlauna verjanda hans, Hákonar Árnasonar hæstaréttarlögmanns, og ákærði Magnús 20.199.600 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Kristínar Edwald hæstaréttarlögmanns. Úr ríkissjóði skal greiða ¼ hluta málsvarnarlauna verjanda ákærða Ólafs, 5.921.000 krónur. Annan áfrýjunarkostnað málsins, 1.097.525 krónur, skulu ákærðu greiða óskipt.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2013.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að lokinni aðalmeðferð 14. nóvember sl., er höfðað af Embætti sérstaks saksóknara með ákæru 16. febrúar 2012 á hendur Hreiðari Má Sigurðssyni, kt. [...], búsettum í Lúxemborg, Sigurði Einarssyni, kt. [...], búsettum í Bretlandi, Ólafi Ólafssyni, kt. [...], búsettum í Bretlandi, og Magnúsi Guðmundssyni, kt. [...], búsettum í Lúxemborg, fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um verðbréfaviðskipti:
I.
a) Á hendur ákærða Hreiðari Má fyrir umboðssvik, með því að hafa í september 2008 misnotað aðstöðu sína sem forstjóri Kaupþings banka hf., þegar hann fór út fyrir heimildir sínar til lánveitinga með því að láta bankann veita Brooks Trading Ltd., eignalausu félagi með takmarkaðri ábyrgð, skráðu á Tortola á Bresku Jómfrúaeyjum, í eigu Mink Trading Corp., félags í eigu MAT, 50.000.000 Bandaríkjadala lán, í formi óundirritaðs peningamarkaðsútláns, án þess að fyrir lægi samþykki lánanefnda bankans og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti og hafa þannig valdið bankanum verulegri fjártjónshættu. Var lánið veitt þann 19. september 2008 og lánsfjárhæðin sama dag lögð inn á reikning lántaka í Kaupthing Bank Luxembourg S.A., með milligöngu þess banka, félaginu til frjálsrar ráðstöfunar. Peningamarkaðsútlánið var á gjalddaga 30. september 2008 en var þá framlengt til 14. október 2008 og síðan til 18. nóvember 2008. Lánsfjárhæðin hefur síðan verið í vanskilum og verður að telja hana Kaupþingi banka hf. að fullu glataða.
b) Á hendur ákærða Magnúsi, framkvæmdastjóra Kaupthing Bank Luxembourg S.A., fyrir hlutdeild í umboðssvikum meðákærða Hreiðars Más, með því að hafa tekið þátt í undirbúningi og framkvæmd þeirra. Fólst hlutdeild hans í undirbúningnum í því að Magnús hafði bæði milligöngu um samningaviðræður við raunverulegan eiganda Brooks Trading Ltd., MAT, og um að útvega félagið sem notað var af hálfu MAT í viðskiptunum. Hlutdeild Magnúsar í framkvæmd brotsins fólst í því að taka þátt í því með meðákærða Hreiðari Má að fyrirskipa starfsmönnum bankans að greiða út lánið. Hlaut honum að vera ljóst að Hreiðar Má brast heimild til lánveitingarinnar og að lánið var veitt án nokkurra ábyrgða eða trygginga.
II.
a) Á hendur ákærðu Hreiðari Má og Sigurði fyrir umboðssvik, með því að hafa misnotað aðstöðu sína, Hreiðar Már sem forstjóri Kaupþings banka hf. og Sigurður sem starfandi stjórnarformaður og formaður lánanefndar stjórnar bankans, þegar þeir fóru út fyrir heimildir sínar til lánveitinga í september 2008 með því að láta í sameiningu bankann veita Gerland Assets Ltd., kt. 590908-9080, eignalausu félagi með takmarkaðri ábyrgð, skráðu á Tortola á Bresku Jómfrúaeyjum, í eigu meðákærða Ólafs, sem átti 9,88% hlut í bankanum í gegnum félög sín, 12.863.497.675 króna lán, í formi óundirritaðs peningamarkaðsútláns, án þess að fyrir lægi samþykki lánanefnda bankans og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti og hafa þannig valdið bankanum verulegri fjártjónshættu. Lánið var greitt út þann 29. september 2008 og lánsfjárhæðinni ráðstafað á reikning Gerland Assets Ltd. nr. 0358-26-005909 í Kaupþingi banka hf. og sama dag millifærð á reikning Choice Stay Ltd., kt. 590908-9160, nr. 0358-26-009160 í bankanum og þaðan á vörslureikning nr. 0329-26-494601 í eigu Q Iceland Finance ehf. í bankanum. Lánsfjárhæðinni var varið til kaupa á hlutafé í Kaupþingi banka hf. eins og nánar er rakið í III. kafla ákæru. Allar millifærslurnar voru framkvæmdar 29. september 2008. Lánsfjárhæðin var ekki endurgreidd á gjalddaga hinn 31. október 2008. Lánsfjárhæðin hefur síðan verið í vanskilum og verður að telja hana Kaupþingi banka hf. að fullu glataða.
b) Á hendur ákærða Ólafi, aðallega fyrir hlutdeild í umboðssvikum meðákærðu Hreiðars Más og Sigurðar, en til vara fyrir hylmingu og peningaþvætti, með því að hafa, ásamt meðákærðu Hreiðari Má og Sigurði, lagt á ráðin um að umrætt lán yrði greitt úr sjóðum bankans, þrátt fyrir verulega fjártjónshættu fyrir bankann og láta félag sitt Gerland Assets Ltd. taka við lánsfjárhæðinni án nokkurra ábyrgða eða trygginga, til þess að henni yrði ráðstafað áfram til félagsins Q Iceland Finance ehf. til þeirra viðskipta sem lýst er í III. kafla ákæru.
III.
a) Á hendur ákærðu Hreiðari Má og Sigurði fyrir markaðsmisnotkun í viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. í september 2008 með því að láta ranglega líta svo út að þekktur fjárfestir frá Katar, MAT, hefði lagt fé til kaupa á 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. og borið af þeim fulla markaðsáhættu, þegar Q Iceland Finance ehf., dótturfélag í eigu eignarhaldsfélags hans Q Iceland Holding ehf., keypti umræddan hlut af bankanum, og leyna fullri fjármögnun bankans á hlutabréfakaupunum og aðkomu meðákærða Ólafs að þeim, en hann átti á þeim tíma 9,88% hlutafjár í bankanum í gegnum félög sín. Um var að ræða kaup á 37.100.000 hlutum í Kaupþingi banka hf. og var kaupverðið 690 krónur á hvern hlut og voru viðskiptin að fullu fjármögnuð af bankanum. Viðskiptunum var flaggað 22. september 2008 í Kauphöll Íslands (OMX Nordic Exchange á Íslandi) í samræmi við ákvæði 78. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Uppgjörsdagur viðskiptanna var 29. september 2008. Í þessum tilgangi var sett upp viðskiptaflétta sem var fólgin í því að Kaupþing banki hf. lánaði helming kaupverðsins, eða 12.863.497.675 krónur, félaginu Serval Trading Group Corp., kt. 590908-8940, eignalausu félagi með takmarkaðri ábyrgð, skráðu á Bresku Jómfrúaeyjum, í eigu MAT sem gekkst í persónulega ábyrgð fyrir láninu. Kaupþing banki hf. lánaði hinn helming kaupverðsins, eða 12.863.497.675 krónur, félaginu Gerland Assets Ltd., kt. 590908-9080, eignalausu félagi með takmarkaðri ábyrgð, skráðu á Bresku Jómfrúaeyjum, í eigu meðákærða Ólafs, án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti og án samþykkis lánanefnda Kaupþings banka hf. Báðar lánsfjárhæðirnar voru greiddar á bankareikninga þessara félaga hjá Kaupþingi banka hf. en þaðan millifærðar á reikning Choice Stay Ltd., nr. 0358-26-009160 í bankanum og þaðan á vörslureikning nr. 0329-26-494601 í eigu Q Iceland Finance ehf. í bankanum en allar millifærslurnar voru framkvæmdar 29. september 2008. Ákærðu Hreiðar Már og Sigurður tóku sameiginlega ákvörðun um hlutabréfaviðskiptin og fjármögnun þeirra og gaf ákærði Hreiðar Már starfsmönnum bankans fyrirmæli um framkvæmd þeirra. Var um að ræða viðskipti með stóran hlut í Kaupþingi banka hf. sem fólu í sér blekkingu og sýndarmennsku og voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í bankanum misvísandi til kynna þar sem dulin var full fjármögnun bankans sjálfs á viðskiptunum og að auki aðkoma stórs hluthafa bankans, meðákærða Ólafs, að þeim og einnig dulið að helmingur markaðsáhættu vegna hlutabréfanna hvíldi á bankanum sjálfum eftir viðskiptin.
b) Á hendur ákærðu Magnúsi og Ólafi fyrir hlutdeild í markaðsmisnotkun meðákærðu Hreiðars Más og Sigurðar. Áttu þeir milligöngu um að koma viðskiptunum á og áttu samskipti við MAT um þau. Þá tók ákærði Magnús þátt í undirbúningi og útfærslu viðskiptafléttunnar. Ákærði Ólafur tók einnig þátt í undirbúningi viðskiptafléttunnar og í að gera hlutabréfaviðskiptin að veruleika með aðkomu að fjármögnun þeirra, eins og lýst er í II. kafla ákæru.
IV.
Á hendur ákærðu Hreiðari Má, Sigurði, Magnúsi og Ólafi fyrir markaðsmisnotkun, með því að hafa í september 2008, í fréttatilkynningu sem birt var á vef Kauphallar Íslands og viðtölum við fjölmiðla í kjölfarið, dreift fréttum og upplýsingum sem hver fyrir sig og í heild gáfu eða voru líklegar til að gefa misvísandi upplýsingar og vísbendingar um þau hlutabréfaviðskipti sem lýst er í III. kafla ákæru. Í upplýsingunum voru gefnar vísbendingar um að með sölunni á 5,01% hlutafjár Kaupþings banka hf. til félagsins Q Iceland Finance ehf. í september 2008 væri fjármagn að koma inn í bankann frá Katar en því leynt að Kaupþing banki hf. fjármagnaði að fullu umrædd hlutabréfakaup með lánveitingum. Jafnframt var gefið til kynna að MAT stæði einn að viðskiptunum en aðkomu ákærða Ólafs að þeim leynt. Um var að ræða stór viðskipti með hlutafé bankans fyrir alls um 26 milljarða króna á tímum þar sem bankinn stóð höllum fæti og því afar mikilvægt að upplýst væri um hina óvenjulegu fjármögnun viðskiptanna og þá sem stóðu að viðskiptunum og fjármögnuninni með réttum og nákvæmum hætti. Þær upplýsingar sem ákærðu veittu voru misvísandi og gáfu einnig misvísandi vísbendingar um hlutabréfaviðskiptin og þýðingu þeirra fyrir Kaupþing banka hf. þar sem þær gáfu til kynna að bankinn nyti mikils trausts virts erlends fjárfestis sem væri tilbúinn að verja miklu fé til að fjárfesta í hlutabréfum hans. Upplýsingarnar voru til þess fallnar að hafa áhrif á ákvarðanir varðandi viðskipti með hlutabréf bankans. Þær misvísandi upplýsingar og vísbendingar, sem ákærðu veittu og fela í sér markaðsmisnotkun hver fyrir sig og í heild sinni, voru eftirfarandi:
a) Ákærðu Hreiðar Már, Sigurður, Magnús og Ólafur lögðu atbeina sinn að því að Kaupþing banki hf. birti svohljóðandi fréttatilkynningu vegna viðskiptanna á vef Kauphallarinnar kl. 6.56 að morgni 22. september 2008: „Q Iceland Finance ehf., dótturfélag í eigu Q Iceland Holding ehf., sem er eignarhaldsfélag hans hátignar [MAT], hefur keypt 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. Q Iceland Finance keypti alls 37,1 milljón hluta á genginu 690 krónur á hlut og verður þar með þriðji stærsti hluthafi bankans. Hans hátign [MAT] er í konungsfjölskyldunni sem verið hefur við völd í Qatar frá því á nítjándu öld. Hans hátign [MAT]: „Við höfum fylgst náið með Kaupþingi í nokkurn tíma og teljum þetta góða fjárfestingu. Staða Kaupþings er sterk og við höfum trú á stefnu og stjórnendum bankans, enda hefur Kaupþing náð góðum árangri við þær erfiðu aðstæður sem nú eru á markaðnum og sýnt fram á getu til þess að breytast og laga sig að nýjum veruleika í bankastarfsemi. Við lítum á hlut okkar í Kaupþingi sem langtímafjárfestingu og hlökkum til að eiga góð samskipti við stjórnendur bankans.“ Sigurður Einarsson, stjórnarformaður: „Okkur er mikil ánægja að bjóða hans hátign [MAT] velkominn í hluthafahóp Kaupþings. Það hefur lengi verið stefna okkar að laða nýja fjárfesta að bankanum og því er ánægjulegt að sjá að við höfum nú náð að breikka hluthafahópinn enn frekar. Við hlökkum til að vinna með hans hátign [MAT] í framtíðinni.“
b) Ummæli ákærða Hreiðars Más:
1. Í viðtali í morgunfréttum Ríkisútvarpsins 22. september 2008 í kjölfar spurningar fréttamanns: „En útvíkkar þetta starfsemi bankans til nýrra landa?“ Ákærði Hreiðar Már: „Nei, við erum búin að vera með starfsemi núna í Katar í eitt ár og í Mið-Austurlöndum í rúmlega ár, bæði í Katar og Dubai og þetta er í sjálfu sér fyrsta beina fjárfestingin þeirra til okkar eftir að við hófum starfsemi þar.“ Fréttamaður: „Er þetta vísun á meira af því sama?“ Ákærði Hreiðar Már: „Það kemur okkur ekkert á óvart og vonandi munum við sjá fleiri fjárfesta koma til liðs við bankann.“
2. Í viðtali í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 22. september 2008:
a. Ákærði Hreiðar Már: „Það er náttúrulega mikil auðsöfnun sem á sér stað í Mið-Austurlöndum í dag í kjölfar hás orkuverðs. Og þeir er hugsa til framtíðar og hvernig þeir ráðstafi þessum auð á sem bestan hátt og því það er ljóst að þessar auðlindir duga ekki til eilífðar þó að Katar sé reyndar í bestri stöðu allra ríkja í heiminum hvað það varðar. Svo það er þeirra markmið að ávaxta sitt pund vel, að fjárfesta til framtíðar.“
b. Fréttamaður: „Hreiðar Már kveðst vonast til þess að þessi kaup séu undanfari fleiri slíkra, enda þurfi bankinn á erlendri fjárfestingu að halda til frekari vaxtar. Þá segir hann stöðu bankans styrkjast á alþjóðlegum fjármálamörkuðum við þessi kaup.“ Ákærði Hreiðar Már: „Alveg klárlega og við höfum séð að þeir bankar sem hafa náð að sækja peninga, fjármuni til Asíu, Mið-Austurlanda, að þeir standa sterkar að vígi en margir aðrir. Við sjáum Katar fjárfesta með myndarlegum hætti í Barcleys nýlega fyrir u.þ.b. tveimur mánuðum síðan og við sjáum að Barcleys er að taka yfir Lehman Brothers í dag. Og ég er sannfærður um að Barcleys væri ekki í þessari stöðu og væri ekki að fara í þessa yfirtöku á Lehman Brothers ef þeir hefðu ekki fengið fjármuni frá Katar á sínum tíma.“
3. Í viðtali í Markaðsfréttum Stöðvar 2, kvöldið 22. september 2008:
Ákærði Hreiðar Már: „Þetta hefur mikla þýðingu fyrir okkur, það er mjög mikilvægt í þessu umhverfi að fá fjársterka fjárfesta að bankanum.“
4. Í viðtali í fréttum Sjónvarpsins kl. 19, 22. september 2008:
Ákærði Hreiðar Már: „Ég held þetta styrki bankann. Það er ljóst að það er óraunhæft fyrir okkur að sækja mikið meira fjármagn til íslenskra fjárfesta, bankinn er orðinn það stór og ef við ætlum að halda áfram að vaxa á alþjóðlegum markaði þá verðum við að ná í alþjóðlega fjárfesta.“
5. Í viðtali í Morgunblaðinu 23. september 2008:
Ákærði Hreiðar Már: „Við teljum að þetta sé mikil traustsyfirlýsing fyrir félagið. Það er búið að fara í gegnum mikla úttekt og grandskoðun á rekstri bankans á undanförnum mánuðum og þessi fjárfesting er gerð í kjölfar þess.“
c) Ummæli ákærða Ólafs:
1. Í viðtali í Morgunblaðinu 23. september 2008:
Ákærði Ólafur: „Þetta er mikil viðurkenning fyrir Kaupþing.“
2. Í frétt í 24 stundum 23. september 2008:
a. Ákærði Ólafur: „Ég er ekki í vafa um að þessi kaup munu skipta miklu fyrir Kaupþing. Bankar og fjármálafyrirtæki út um allan heim hafa legið utan í mönnum í Katar með það fyrir augum að fá þá inn sem hluthafa. Það gefur því góða mynd af styrk Kaupþings að [MAT] skuli kaupa hlut í bankanum.“
b. „Ólafur segir mikilvægt að íslensk fyrirtæki geti sýnt að þau séu tilbúin að vinna með erlendum fjárfestum. „Það hefur tekist hjá Kaupþingi að fá góða erlenda fjárfesta inn í hópinn og það mun skipta sköpum í framtíðinni.““
d) Ummæli ákærða Sigurðar: Í viðtali í Viðskiptablaðinu 23. september 2008: „Við erum búin að vera með annan fótinn í Katar í töluverðan tíma og þekkjum þennan mann ágætlega og hans fólk. Þeir eru alltaf að leita að fjárfestingartækifærum enda hafa safnast saman mikil auðæfi þarna niður frá.“
Er háttsemi ákærða Hreiðars Más í I. og II. kafla ákæru og háttsemi ákærða Sigurðar í II. kafla ákæru talin varða við 249. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
Er háttsemi ákærða Magnúsar í I. kafla ákæru talin varða við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. laga, nr. 19/1940.
Er háttsemi ákærða Ólafs í II. kafla ákæru talin aðallega varða við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. laga, nr. 19/1940, en til vara við 254. og 264. gr. sömu laga.
Er háttsemi ákærðu Hreiðars Más og Sigurðar í III. kafla ákæru talin varða við a-lið 1. tl. og 2. tl. 1. mgr. 117. gr., sbr. 146. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.
Er háttsemi ákærðu Ólafs og Magnúsar í III. kafla ákæru talin varða við a-lið 1. tl. og 2. tl. 117. gr., sbr. 146. gr., sbr. 3. mgr. 147. gr., laga nr. 108/2007, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga, nr. 19/1940.
Er háttsemi allra ákærðu í IV. kafla ákæru talin varða við 3. tl. 1. mgr. 117. gr., sbr. 146. gr. laga nr. 108/2007.
Er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærðu krefjast sýknu og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Með bréfi Fjármálaeftirlitsins 13. mars 2009 var beint til Embættis sérstaks saksóknara rannsókn Fjármálaeftirlitsins á kaupum Q Iceland Finance ehf. á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf., vegna gruns um refsiverða háttsemi stjórnenda Kaupþings banka hf. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins kemur fram að Fjármálaeftirlitinu hafi 9. desember 2008 borist bréf bankastjóra Seðlabanka Íslands vegna grunsamlegra fjármagnsflutninga Kaupþings banka hf. skömmu fyrir fall bankans 8. október 2008. Þá hafi Fjármálaeftirlitinu 9. janúar 2009 borist skýrsla frá óháðum sérfræðingum sem skilanefnd Kaupþings banka hf. hafi fengið til að kanna hvort vikið hafi verið frá lögum og reglum eða innri reglum bankans á tímabilinu 1. september 2008 til 21. október sama ár. Í skýrslunni hafi ítarlega verið fjallað um nefnd hlutabréfaviðskipti sem gefið hafi til kynna að nauðsynlegt væri að þau yrðu rannsökuð frekar. Í kjölfarið, eða 16. janúar 2009, hafi Fjármálaeftirlitið, á grundvelli 9. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, skipað ÁÁÁ héraðsdómslögmann sem sérfræðing, til að skoða kaup Q Iceland Finance ehf. á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. og viðskiptahætti Kaupþings banka hf. í aðdraganda og kjölfar umræddra viðskipta. Hafi sérfræðingurinn skilað álitsgerð sinni um viðskiptin 6. mars 2009. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins kom fram að hugsanlega væru, að mati Fjármálaeftirlitsins, um að ræða tvö aðskilin mál. Annars vegar hugsanleg umboðssvik við lánveitingar Kaupþings banka hf. og hins vegar hugsanlega markaðsmisnotkun af hálfu bankans, þar sem viðskipti með hlutabréfin væru hluti af umfangsmeira máli.
Um atvik málsins kom fram í bréfi Fjármálaeftirlitsins að 22. september 2008 hafi Kaupþing banki hf. birt fréttatilkynningu þess efnis að Q Iceland Finance ehf., íslenskt félag í eigu MAT, hafi keypt 5,01% hlut í bankanum, það er 37.100.000 hluti á genginu 690 fyrir samtals 25.600.000.000 króna. Kaupin hafi verið fjármögnuð með lánum sem Kaupþing banki hf. hafi annars vegar veitt til félagsins Serval Trading Ltd., að fjárhæð 12.863.675 krónur, gegn sjálfskuldarábyrgð MAT, en hins vegar lán, án ábyrgðar, til félagsins Gerland Assets Ltd. Þessi lán hafi verið færð í gegnum Kýpur til Q Iceland Finance ehf. til að fjármagna hlutabréfakaupin, en gjalddagi á báðum þessum lánum hafi verið 31. október 2008. Þessu til viðbótar hafi félagið Brooks Trading Ltd., þann 19. september 2008, fengið lán frá Kaupþingi banka hf. að fjárhæð 50.000.000 Bandaríkjadala. Lánið hafi virst greitt sem ,,fyrirfram greiddur hagnaður“ af fyrirhuguðum afleiðuviðskiptum Brooks Trading Ltd. við Deutsche Bank, en um hafi verið að ræða viðskipti með svokölluð ,,Credit Link Notes“ eða CLN, á skuldatryggingarálag Kaupþings banka hf. Aldrei hafi orðið af þessum afleiðuviðskiptum, þannig að lánið hafi í raun verið veitt án nokkurra trygginga. Lánið til Serval Trading Group Corp hafi verið greitt upp fyrir gjalddaga með tveim greiðslum. Sú fyrri hafi farið fram 8. október 2008 með millifærslu fjárhæðar að upphæð 12.520.750.000 krónur frá félaginu Brooks Trading Ltd., en félagið hafi notað 50.000.000 Bandaríkjadala sem það hefði fengið lánaða frá Kaupþingi banka hf. til að kaupa krónur á genginu 250. Mótaðilinn í gjaldeyrisviðskiptunum hafi verið Kaupþing banki hf. Síðari greiðslan hafi farið fram 21. október 2008 þegar Ólafur Ólafsson hafi greitt 401.885.137 krónur af eigin reikningi inn á lánið. Lánin til Brooks Trading Ltd. og Gerland Assets Ltd. hefðu ekki fengist greidd og mætti telja víst að þau væru töpuð.
Í bréfi Fjármálaeftirlitsins er rakið að svo virðist sem lánveitingar Kaupþings banka hf. til félagana í eigu MAT og Ólafs Ólafssonar hafi brotið gegn verklagsreglum Kaupþings banka hf. og góðum viðskiptaháttum og venjum. Vegna þess um hve háar fjárhæðir hafi verið að ræða í umræddum lánveitingum hafi lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf. þurft að samþykkja lánveitingarnar fyrirfram. Samþykki lánanefndar hafi einnig þurft til að unnt væri að veita lán án trygginga. Lán til Serval Trading Group Corp. hafi verið tryggt með sjálfskuldarábyrgð MAT. Lánið hafi verið kynnt fyrir lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf. sem lán vegna fjárfestinga í skuldatryggingum, en ekki hlutabréfum. Hafi lánið að öðru leyti virst hafa fengið eðlilega afgreiðslu. Lánanefnd stjórnar hafi aldrei veitt heimild fyrir lánveitingu til félagsins Gerland Assets Ltd., auk þess sem engar tryggingar hafi verið fyrir því. Lán til félagsins Brooks Trading Ltd. hafi verið veitt 19. september 2008, en ekki verið kynnt fyrir lánanefnd stjórnar fyrr en 24. september sama ár. Lánveitingin hafi verið samþykkt með tryggingum, en engin trygging í raun lögð fram. Lánið hafi síðan verið nýtt til að greiða niður lánið til Serval Trading Group Corp., þar sem MAT hafi verið með persónulega ábyrgð. Kaupþing banki hf. hafi að öllum líkindum tapað að minnsta kosti 25.726.995.360 krónum á viðskiptunum, en sennilega meiru þar sem Kaupþing banki hf. hafi líklega selt hlutabréfin á lægra verði en bankinn hafi keypt þau á. Framangreind viðskipti kunni að teljast varða við 249. gr. laga nr. 19/1940 sem umboðssvik.
Umrædd hlutabréfaviðskipti veki einnig upp grun um hugsanlega markaðsmisnotkun af hálfu Kaupþings banka hf., sbr. 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Kaupþing banki hf. hafi tilkynnt um viðskiptin við Q Iceland Finance ehf. 22. september 2008 og viðskiptunum verið flaggað þann dag. Tilkynningin gefi til kynna að MAT hafi verið eini kaupandinn og hvergi minnst á Ólaf Ólafsson. Þá hafi hvergi komið fram að viðskiptin hafi að öllu leyti verið fjármögnuð af Kaupþingi banka hf. Þetta gefi til kynna að KaupþingI banka hf. hafi verið mikið í mun að tilkynningin kæmi út sem fyrst og gæfi til kynna að staða bankans væri svo góð að hún laðaði að fjársterka erlenda fjárfesta. Stjórnendur bankans hafi haft beinna hagsmuna að gæta, enda allir stórir hluthafar í bankanum.
Með bréfi Fjármálaeftirlitsins til Embættis sérstaks saksóknara var álitsgerð ÁÁÁ héraðsdómslögmanns frá 6. mars 2009 varðandi sölu á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. til Q Iceland Finance ehf. Í álitsgerðinni kemur fram að hún sé byggð á gögnum sem lögmaðurinn hafi fengið frá Fjármálaeftirlitinu, skilanefnd Kaupþings banka hf. og PriceWaterHouseCoopers. Til viðbótar hafi verið ráðist í sjálfstæða gagnaöflun. Í niðurstöðu sinni kemst skýrsluhöfundur að því, að því er varði lánveitingar til félaganna Gerland Assets Ltd., Serval Trading Group Corp og Brooks Trading Ltd., að ljóst sé að Kaupþing banki hf. hafi tapað gríðarlegum fjárhæðum á lánveitingum til félaganna. Í Reglubók Kaupþings banka hf., sem beri heitið ,,Internal Control and Procedural Handbook“, komi skýrt fram að óheimilt sé að veita útlán án tryggingatöku nema með samþykki viðeigandi lánanefnda. Að því er varði lán til Brooks Trading Ltd. hafi lánið verið veitt áður en heimild lánanefndar stjórnar hafi legið fyrir og engar tryggingar teknar fyrir lánveitingunni. Í tilviki Gerland Assets Ltd. hafi verið um að ræða lán hárrar fjárhæðar án trygginga og án þess að lánveitingin hafi verið borin undir lánanefnd stjórnar. Væru þessir fjármunir tapaðir.
Samþykktir fyrir Kaupþing banka hf. eru frá 7. mars 2008, undirritaðar af Hreiðari Má Sigurðssyni forstjóra. Fram kemur í 9. gr. samþykkta að félaginu sé heimilt að kaupa eigin hluti, að því marki sem lög leyfi. Æðsta vald í málefnum félagsins séu í höndum lögmæltra hluthafafunda. Stjórn félagsins skuli skipuð 9 mönnum kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Stjórn kjósi sér formann úr sínum hópi. Hafi stjórn æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda. Stjórn félagsins skuli ekki hafa afskipti af ákvörðunum félagsins um einstök viðskipti, nema þau séu veruleg miðað við stærð félagsins. Ráði stjórn félagsins framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri og félagsstjórn fari sameiginlega með stjórn félagsins. Annist framkvæmdastjóri daglegan rekstur félagsins og skuli í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum, sem félagsstjórn hafi ákveðið. Hinn daglegi rekstur taki ekki til ráðstafana og fyrirætlana sem séu óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir geti framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá félagsstjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana félagsstjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins. Í slíkum tilvikum skuli hann tafarlaust tilkynna félagsstjórn um ráðstöfunina. Fram kemur að þar sem ákvæði samþykktanna taki ekki til um hvernig með skuli farið skuli fara samkvæmt lögum nr. 161/2002, ákvæðum laga um hlutafélög og öðrum lagaákvæðum sem við geti átt. Í 2. mgr. 21. gr. samþykktanna er mælt fyrir um að stjórn Kaupþings banka hf. skuli setja reglur um verkaskiptingu stjórnar og framkvæmdastjóra þar sem fram komi mörk lánaheimilda framkvæmdastjóra, svo og reglur varðandi ákvarðanir um fjárfestingar.
Kaupþing banki hf. hefur gefið út handbók um innra eftirlit og verkferla, en hún ber heitið ,,Internal Control and Procedural Handbook“. Í upphafsákvæðum handbókarinnar kemur fram að reglur handbókarinnar skuli ávallt endurspegla nýjustu reglur og gildandi fyrirmæli innan Kaupþings banka hf. Gildi reglur handbókarinnar um einstaka deildir félagasamstæðu Kaupþings banka hf. sem tilgreindar eru og er Kaupthing Bank Luxembourg S.A. þar á meðal. Skuli reglurnar endurspegla lög og samninga í viðkomandi landi. Handbókina skuli gefa út í nóvember eða desember ár hvert. Uppfæra skuli bókina um leið og breytingar séu gerðar á innri reglum bankans. Breytingar að ráði og breytingar sem áhrif hafi á mörk lánveitinga skuli lagðar fyrir stjórn bankans til staðfestingar áður en þær öðlist gildi. Að öðru leyti sé framkvæmdastjórn bankans heimilt, á milli stjórnarfunda, að gera breytingar á bókinni. Handbókin skuli lögð fyrir stjórnarfund í september á hverju ári til samþykktar. Ákvæði kafla 3.3 í handbókinni varða útlána- og mótaðilaáhættu. Samkvæmt ákvæði 3.3.1 er útlánaáhætta skilgreind sem mögulegar vanefndir mótaðila á skuldbindingum sínum samkvæmt samningi. Skuli þær gilda um alla starfsemi bankans sem skapi útlánaáhættu fyrir bankann. Samkvæmt kafla 3.3.1.1 hafi bankinn komið upp stöðluðu mati á skuldurum sem magngreini áhættu á vanskilum skuldara. Í kafla 3.3.3 er mælt fyrir um lánveitingavald. Í kafla 3.3.3.1.2 er mælt fyrir um lánafyrirmæli fyrir lánanefnd stjórnar. Fram kemur að lánanefnd stjórnar skuli skipuð formanni stjórnar bankans, tveimur fulltrúum stjórnar bankans og forstjóra samstæðunnar. Formaður stjórnar bankans sé formaður lánanefndar stjórnar og forstjóri samstæðu varaformaður. Hinir tveir fulltrúar lánanefndar skuli kjörnir af stjórn bankans. Lánanefnd stjórnar hittist eftir þörfum, en yfirleitt mánaðarlega. Formaður lánanefndar boði fundi lánanefndar en varaformaður í hans fjarveru. Ákvörðunarvald lánanefndar stjórnar sé endanlegt. Nefndin taki ákvarðanir um útlán sem nemi eða séu hærri en 165.000.000 evra. Almennt þurfi gild útlánaákvörðun að vera undirrituð af formanni lánanefndar stjórnar og tveim öðrum lánanefndarmönnum. Í fjarveru formanns megi samþykkja lánaákvörðun með undirskrift þriggja fulltrúa lánanefndar stjórnar. Ef um brýna lánatillögu er að ræða sem ekki geti beðið næsta reglulega fundar lánanefndar megi taka gilda og framkvæmanlega lánaákvörðun, svo fremi hún sé undirrituð af aðilum sem myndu geta fullgilt hana á reglulegum fundi. Slík ákvörðun skuli kynnt, skoðuð og skráð í fundargerð næsta reglulega fundar lánanefndar. Nefndinni sé heimilt að fela einstökum starfsmönnum ákvörðunarvald undir sérstökum kringumstæðum. Fram kemur að áhætta gagnvart einstökum mótaðila eða hópi fjárhagslega tengdra aðila megi aldrei vera meiri en sem nemi 25% af eiginfjárgrunni bankans. Samkvæmt kafla 3.3.3.1.5 þurfi allar áhættuskuldbindingar gagnvart fjármálastofnunum samþykki til þess bærrar lánanefndar sem notist við ramma og mörk fyrir lán til almennra viðskiptamanna. Innlán og áhættuskuldbindingar vegna peningamarkaðsgerninga skuli fá sömu meðferð og venjuleg útlán en með tilvísunarmörkum á grundvelli mats á mótaðila sem byggt sé á innra matslíkani fyrir fjármálastofnanir. Ef innra mat sé ekki til staðar megi nota mat Moody´s, S&P eða Fitch til viðmiðunar. Samkvæmt ákvæði 3.3.8 megi engar greiðslur, að hluta eða fullu, vera heimilar áður en gild útlánaákvörðun hafi verið tekin. Öll lánsskjöl, sem þurfi fyrir lánaákvörðun, verði að liggja fyrir, réttilega undirrituð af lántaka, ábyrgðaraðilum og öðrum viðkomandi aðilum.
Brooks Trading Ltd. var stofnað á Bresku Jómfrúaeyjum 18. júlí 2008, og skráð til heimilis á Tortola á eyjunum. Við stofnun félagsins var eini hluthafi í félaginu Mink Trading Corp., einnig skráð til heimilis á Tortola á Bresku Jómfrúaeyjum. Choice Stay Ltd. er félag skráð á Kýpur. Eigendur þess félags eru Gerland Assets Ltd. að 42,85% hluta, Serval Trading Group Corp., að 42,85% hluta, og Jackal Finance Inc., að 13,30% hluta. Öll eru þessi félög skráð á sama heimili á Tortola á Bresku Jómfrúaeyjum. Samkvæmt yfirliti frá Kaupthing Bank Luxembourg A.S. er Ólafur Ólafsson skráður eigandi, eða ,,beneficial owner“ félagsins Gerland Assets Ltd. Þá er MAT skráður eigandi að félaginu Mink Trading Corp. Samkvæmt yfirliti úr Hlutafélagaskrá er Q Iceland Finance einkahlutafélag og samþykktir félagsins frá 19. september 2008. Stjórn félagsins skipa TH, sem stjórnarmaður, og ILB, sem varamaður í stjórn. Firmað ritar stjórnarmaður og er TH skráður framkvæmdastjóri félagsins. Er tilgangur félagsins kaup og sala hlutabréfa og fleiri skyld atriði. Stofnandi félagsins er KH. Samþykktir fyrir félagið Q Iceland Finance ehf. voru samþykktar á fundi félagsins 19. september 2008, en þær voru mótteknar hjá Fyrirtækjaskrá 22. september 2008. Er hlutafé félagsins skráð 500.000 krónur.
Hluthafasamþykkt fyrir Gerland Assets Ltd. er frá í september 2008, en félagið var stofnað á Tortola á Bresku Jómfrúaeyjum 18. júlí 2008. Fram kemur að eini hluthafi félagsins ætli að taka lán hjá Kaupþingi banka hf. að heildarupphæð allt að 150.000.000 evra. Þá ætli hluthafinn að kaupa 42,85% hlut í félagi sem nefnist Choice Stay Ltd. eða félagi sem stofnað sé samkvæmt lögum á Kýpur, samkvæmt þeim skilningi að Gerland Assets Ltd. muni eiga 42,85% hluta í Choice Stay Ltd. og að Jackal Finance Inc. muni eiga 14,30% hluta í Choice Stay Ltd. Þá gefi hluthafinn Choice Stay Ltd. skipun um að veita dótturfélagi að fullu í eigu Q Iceland Holding ehf., stofnað samkvæmt íslenskum lögum, lán að heildarfjárhæð 200.000.000 evra. Loks gefur eigandi stjórnanda Choice Stay Ltd. fyrirmæli um að undirrita skjöl í þeim tilgangi að miðla seinna láninu til dótturfélags að fullu í eigu Q Iceland Holding ehf. Í viðauka A við hluthafasamþykktina kemur fram að lánsform sé ótryggt peningamarkaðslán, allt að 150.000.000 evra, til þriggja mánaða. Láninu verði breytt í 3 ára langtímalán með sömu vöxtum, tryggt með veði sem Kaupthing Bank Luxembourg S.A. taki gilt, á því þriggja mánaða tímabili sem peningamarkaðslánið sé endurgreitt. Á stjórnarfundi í Gerland Assets Ltd. í september 2008 var samþykkt að taka að láni hjá Kaupþingi banka hf. lán, að fjárhæð allt að 150.000.000 evra, í samræmi við hluthafasamþykkt Gerland Assets Ltd. Undir stjórnarfundargerð rita fulltrúar félaga í stjórn Allied Directors Corp., Global Managers Inc. og International Officers Limited, þeir AS, MP og GB.
Á meðal rannsóknargagna málsins er óundirritað skjal sem stafar frá Kaupþingi banka hf. sem auðkennt er sem peningamarkaðsútlán nr. 398424/449463. Samkvæmt þessu skjali, sem dagsett er 19. september 2008, gera Brooks Trading Ltd. og Kaupþing banki hf. með sér samkomulag um að Kaupþing banki hf. láni til Brooks Trading Ltd. 50.000.000 Bandaríkjadala miðað við 19. september 2008 sem fyrsta vaxtadag. Er gjalddagi lánsins 30. september 2008. Ekki kemur fram inn á hvaða reikning lánið skuli greiða en greiðslur lántaka skuli berast inn á reikning nr. 0011-39-0325. Þá er meðal rannsóknargagna málsins millifærsluskjal á milli Kaupþings banka hf. og Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem dagsett er 19. september 2008, skráð miðað við kl. 13.39 þennan dag. Samkvæmt texta í skjalinu eru 50.000.000 Bandaríkjadala fjárhæð sem Kaupþing banki hf. á að greiða viðskiptavini Kaupthing Bank Luxembourg S.A. þennan sama dag. Muni Kaupthing Bank Luxembourg S.A. lána Kaupþingi banka hf. fjáræðina frá 19. september 2008 til 29. september sama ár. Sé um að ræða ,,netting against lending“. Þá er á meðal rannsóknargagna málsins beiðni félagsins Brooks Trading Ltd., frá 19. september 2008, sem beint er til Kaupþings banka hf., um útgreiðslu lánsins inn á reikning félagsins nr. 402296 í Kaupthing Bank Luxembourg S.A.
Óundirrituð fundargerð lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf. frá 24. september 2008 er á meðal gagna málsins. Fund lánanefndar eru viðstaddir stjórnarmennirnir Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, BÓ og GPP. Aðrir viðstaddir á fundi eru BHD, framkvæmdastjóri útlána, og GH, ritari lánanefndar. Samkvæmt fundargerðinni ber eitt af fundarefnum yfirskriftina MAT. Í fundargerð kemur fram að fyrirtæki MAT séu á skrá yfir undanþágur hvað varði lánshæfismat. Beiðnin sé að heildarfjárhæð allt að 320.000.000 evra, í þrem mismunandi tillögum. Snúi hún í fyrsta lagi að Brooks Trading Ltd. sem sé félag með sérstakan tilgang með það að markmiði að fjárfesta í tvöfalt skuldsettu lánshæfistengdu skuldabréfi (CLN) sem gefið sé út af Deutsche Bank með tengingu við Kaupþing banka hf. Skuldabréfið sé með lokagjalddaga 20. september 2013. Grundvallarfjárhæð skuldabréfsins sé 125.000.000 evra. Að baki Brooks Trading Ltd. standi eitt eignarhaldsfélag, Mink Trading Corp. MAT sé raunverulegur eigandi Mink Trading Corp. Deutsche Bank láni Brooks Trading Ltd. 125.000.000 evra og þær 130.000.000 evra sem þá vanti upp á komi frá Mink Trading Corp. Mink Trading Corp vilji fá að láni allt að 130.000.000 evra sem sé framlagt eigið fé fyrirtækisins í þessum viðskiptum, auk lántökugjalds og viðskiptakostnaðar. Brooks Trading Ltd. vilji þar að auki fá að láni 50.000.000 Bandaríkjadala sem sé hluti hagnaðar af viðskiptunum. Til tryggingar láni til Mink Trading Corp. taki bankinn veð í hlutafé í Mink Trading Corp. ásamt þeim hlutum sem Mink Trading Corp. eigi í Brooks Trading Ltd. Til tryggingar áni til Brooks Trading Ltd. taki bankinn veð í CLN-bréfinu. Í annan stað snúi lánsbeiðni MAT að Serval Trading Group Corp., sem sé félag með sérstakan tilgang skráð á Bresku Jómfrúaeyjum sem ætli að fjárfesta í ákveðnum verðbréfum. MAT sé raunverulegur eigandi félagsins. Hafi MAT farið þess á leit að bankinn láni Serval Trading Group allt að 150.000.000 evra. Lagt sé til að bankinn bjóði félaginu lán, fyrst með skammtíma peningamarkaðsláni, sem síðar yrði endurfjármagnað, líklega í gegnum ,,KSF“. Persónuleg ábyrgð verði lögð fram sem trygging og að henni verði líklega skipt út gegn veði í ákveðnum eignum á síðara stigi. Í þriðja lagi hafi MAT um þessar mundir engar útistandandi stöður gagnvart Kaupþingi banka hf. Bankinn vinni þó að því að veita honum 28.000.000 evra í lán í gegnum félag með sérstakan tilgang sem nefnist Q Iceland Holding ehf. til þess að fjárfesta í hlutabréfum í Alfesca. Til tryggingar fái bankinn veð í 850.000.000 hluta í Alfesca með núverandi 60% útlánahlutfalli og veðkalli við 80% útlánahlutfall. Þegar öll framangreind lán hafi verið greidd út verði heildarskuldbindingar MAT um 350.000.000 evra. Fram kemur að lánanefnd hafi samþykkt beiðnina. Önnur óundirrituð fundargerð frá sama fundi liggur fyrir í málinu. Er hún samhljóða þeirri fyrri utan að í þeirri síðari hefur SPK, framkvæmdastjóra áhættustýringar, verið bætt við fundarmenn á lánanefndarfundinum. Þá hefur verið tekið út úr fundargerð varðandi lán til Brooks Trading Ltd. að Mink Trading Group Corp vilji fá að láni allt að 130.000.000 evra og að Brooks Trading Ltd. vilji að auki fá að láni 50.000.000 Bandaríkjadala sem sé hluti hagnaðarins af viðskiptum. Meðfylgjandi fundargerð lánanefndar stjórnar er lánsumsókn frá MAT til lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf. að fjárhæð um 320.000.000 evra, tengd þrem félögum í eigu MAT. Fram kemur að lánsumsóknin sé útbúin af HBL viðskiptastjóra og er hún dagsett 19. september 2008. Í lánsumsókninni kemur meðal annars fram að til viðbótar láni að fjárhæð 125.000.000 evra til Brooks Trading Ltd. komi lán að fjárhæð 50.000.000 Bandaríkjadala sem sé hagnaður vegna viðskipta. Til tryggingar því láni taki bankinn veð í CLN-bréfum.
Samkvæmt óundirrituðu lánsskjali, dagsettu 29. september 2008, veitir Kaupþing banki hf. félaginu Gerland Assets Ltd. þann dag peningamarkaðsútlán nr. 398625/449668 að fjárhæð 12.863.497.675 krónur. Ekki kemur fram inn á hvaða reikning félagsins lánsfjárhæð skuli greidd, en endurgreiðsla lánsins fari inn á reikning nr. 0300-26-001010. Er gjalddagi lánsins 31. október 2008. Þá er með samsvarandi hætti í gögnum málsins óundirritað skjal sem stafar frá Kaupþingi banka hf. þar sem bankinn veitir Serval Trading Group Corp. lán, 29. september 2008, að fjárhæð 12.863.497.675 krónur. Reikningur sem lánsfjárhæð á að greiðast inn á er ótilgreindur, en endurgreiðsla skal berast inn á tilgreindan reikning í Sparisjóðabanka. Er gjalddagi lánsins 31. október 2008. Á meðal rannsóknargagna málsins er bréf félagsins Serval Trading Group Corp., dagsett 26. september 2008, þar sem félagið gefur Kaupþingi banka hf. þau greiðslufyrirmæli að færa út af reikningi félagsins í bankanum 100.000.000 evra inn á reikning félagsins Choice Stay Ltd. nr. 0358-38-718042 í Kaupþingi banka hf. Með samsvarandi hætti er bréf frá Gerland Assets Ltd., dagsett sama dag, þar sem Kaupþingi banka hf. eru gefin þau greiðslufyrirmæli að færa 100.000.000 evra af reikningi félagsins í Kaupþingi banka hf. inn á reikning félagsins Choice Stay Ltd. í bankanum. Samkvæmt kaupnótu útgefinni af Kaupþingi banka hf., miðað við viðskiptadag 26. september 2008, kaupir Q Iceland Finance ehf. 37.100.000 hluti í Kaupþingi banka hf. á genginu 690 fyrir samtals 25.726.995.350 krónur, að teknu tilliti til þóknunar og annars kostnaðar. Er uppgjörsdagur viðskipta skráður 29. september 2008.
Á meðal rannsóknargagna málsins eru tölvupóstssamskipti frá 15. september 2008 á milli EH, framkvæmdastjóra lögfræðisviðs í Kaupthing Bank Luxembourg S.A., og Magnúsar Guðmundssonar, framkvæmdastjóra bankans. Ber tölvupósturinn yfirskriftina ,,Structure Proposal 16-09-08.ppt“. Ber tölvupósturinn með sér að viðhengi við póstinn hefur verið gagn sem borið hefur sömu yfirskrift og tölvupósturinn. Með póstinum var glærukynning merkt Kaupthing Bank Luxembourg S.A. á fjármögnunarverkefni sem MAT myndi fara í ásamt Ólafi Ólafssyni, og hugsanlega öðrum. Í almennum texta kynningarinnar kemur meðal annars fram að tilgangurinn sé að fjármagna sérstakt fjárfestingarfélag, sem aftur muni fjármagna fjárfestingarfélagið Q Iceland Holding ehf. Samhliða fjármögnun á hinu sérstaka fjárfestingarfélagi muni Q Iceland Holding ehf. stefna að því að kaupa 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. MAT og Ólafur Ólafsson muni hvor um sig taka lán hjá Kaupþingi banka hf. að fjárhæð 150.000.000 evra, sem þeir muni hvor um sig veita veð sem tryggingu fyrir. Lánin muni renna inn í hið sérstaka fjárfestingarfélag sem stofnað verði og MAT og Ólafur Ólafsson eiga að jöfnu. Fjárfestingarfélagið muni verja 200.000.000 evra til kaupa á 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. með lánveitingu í gegnum félagið Q Iceland Holding ehf. Lánskjör á því láni verði háð gengi hinna keyptu hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. sem Q Iceland Holding ehf. kaupi. Í kynningunni er að finna myndræna uppsetningu viðskiptanna. Þar kemur fram að fjárfestingarfélagið Q Iceland Holding ehf. skuli að fullu vera í eigu MAT. Samkvæmt gögnum málsins sendi EH, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs, tölvupóst 18. september 2008 til SÖS, LS, starfsmanna lögfræðideildar Kaupthing Bank Luxembourg S.A., og BÓ lögmanns, með yfirskriftinni ,,Structure Proposal II 16-09-08.ppt“. Í póstinum kemur fram að um sé að ræða uppfærða útgáfu af tillögu að strúktúr. Í almennum texta kynningarinnar hafa breytingar verið gerðar á orðalagi, án þess að efnisinnihald sæti breytingum, fyrir utan að bætt hefur verið við að tvö félög, í eigu Ólafs Ólafssonar annars vegar og MAT hins vegar, stofni í sameiningu hið sérstaka fjárfestingarfélag, sem auk Ólafs og MAT geti látið í té ábyrgðir fyrir lánum til félaga Ólafs og MAT. Þá hefur því verið bætt við að hið sameiginlega fjárfestingarfélag Ólafs og MAT skuli staðsett á Kýpur. Áfram er í kynningunni gert ráð fyrir að kjör lána séu háð gengi hlutabréfa í Kaupþingi banka hf.
Kaupþing banki hf. gaf út fréttatilkynningu 22. september 2008 í tilefni af kaupum á 5,01% hlut í bankanum. Í fréttatilkynningunni segir eftirfarandi: Q Iceland Finance ehf., dótturfélag í eigu Q Iceland Holding ehf., sem er eignarhaldsfélag hans hátignar [MAT], hefur keypt 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. Q Iceland Finance keypti alls 37,1 milljón hluta á genginu 690 krónur á hlut og verður þar með þriðji stærsti hluthafi bankans. Hans hátign [MAT] er í konungsfjölskyldunni sem verið hefur við völd í Katar frá því á nítjándu öld. Hans hátign [MAT]: „Við höfum fylgst náið með Kaupþingi í nokkurn tíma og teljum þetta góða fjárfestingu. Staða Kaupþings er sterk og við höfum trú á stefnu og stjórnendum bankans, enda hefur Kaupþing náð góðum árangri við þær erfiðu aðstæður sem nú eru á markaðnum og sýnt fram á getu til þess að breytast og laga sig að nýjum veruleika í bankastarfsemi. Við lítum á hlut okkar í Kaupþingi sem langtímafjárfestingu og hlökkum til að eiga góð samskipti við stjórnendur bankans.“ Sigurður Einarsson, stjórnarformaður: „Okkur er mikil ánægja að bjóða hans hátign [MAT] velkominn í hluthafahóp Kaupþings. Það hefur lengi verið stefna okkar að laða nýja fjárfesta að bankanum og því er ánægjulegt að sjá að við höfum nú náð að breikka hluthafahópinn enn frekar. Við hlökkum til að vinna með hans hátign [MAT] í framtíðinni.“ Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Ólafur Ólafsson veittu viðtöl vegna þessara viðskipta sem birtust í fjölmiðlum 22. og 23. september 2008, en til þeirra er vitnað í ákæruskjali.
Í greinargerð rannsakenda í málinu kemur fram að við rannsókn málsins hafi verið teknar skýrslur af alls 40 vitnum. Flest hafi vitnin verið yfirheyrð á Íslandi, en 5 í Lúxemborg af lögreglu þar í landi í febrúar 2010. Við tvö vitni hafi verið rætt í óformlegri skýrslutöku í London í október 2009 og október 2011. Í þágu rannsóknarinnar hafi verið ráðist í umfangsmikla gagnaöflun. Hafi gagnaöflunin tengst rannsóknum annarra mála vegna starfsemi Kaupþings banka hf. Í þágu rannsóknar málsins hafi verið framkvæmdar húsleitir 22. maí 2009 í Reykjavík, Kópavogi og á Snæfellsnesi. Mikils magns skjala og rafrænna gagna hafi verið aflað í húsleitunum. Í þágu rannsóknar málsins hafi réttarbeiðnir verið lagðar fram við yfirvöld í Þýskalandi og Lúxemborg. Á grundvelli réttarbeiðnanna hafi húsleitir farið fram í Lúxemborg 9. til 12. febrúar 2010. Gögn úr þeim húsleitum hafi borist Embætti sérstaks saksóknara í febrúar 2011. Þá hafi í þágu rannsóknar málsins verið aflað heimilda dómstóla til símahlustana. Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins, Hreiðar Már frá 7. til 17. maí 2010 og Magnús frá 7. til 14. maí 2010. Loks hafi Hreiðar Már og Magnús sætt farbanni vegna málsins, Hreiðar Már frá 17. til 28. maí 2010 og Magnús frá 14. til 28. maí 2010.
Ákærði, Hreiðar Már Sigurðsson, kvaðst hafa starfað sem forstjóri Kaupþings banka hf. í september 2008. Á sama tíma hafi hann verið stjórnarformaður lánanefndar samstæðu bankans og einn af þremur lánanefndarmönnum. Einnig hafi ákærði setið í lánanefnd stjórnar bankans og verið þar einn af fjórum lánanefndarmönnum. Þessu til viðbótar hafi ákærði setið í lánanefndum dótturbanka Kaupþings banka hf., þ.e. Kaupthing Singer og Friedlander, FIH, Kaupþings í Svíþjóð og Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Kaupþing banki hf. hafi verið stór banki með um 3.000 starfsmenn. Hafi bankinn verið með starfsemi í 15 löndum. Hafi ákærði setið í stjórn dótturfélaga flestallra stærstu dótturfélaga bankans. Helstu verkefni ákærða hafi verið á samstæðugrundvelli innan bankans. Undir það síðasta hafi ákærði ekki sinnt daglegum störfum á Íslandi þar sem búið hafi verið að ráða forstjóra fyrir Kaupþing á Íslandi. Forstjóri hafi verið fyrir hverja einingu í viðkomandi landi. Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi verið sjálfstætt starfandi fyrirtæki, 100% í eigu Kaupþings banka hf. á Íslandi. Ákærðu, Hreiðar Már og Sigurður, hafi setið í stjórn þess banka, sem tveir af fjórum stjórnarmönnum. Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi fyrst og fremst boðið upp á alþjóðlega einkabankaþjónustu. Meðákærði, Magnús, sem verið hafi framkvæmdastjóri Kaupthing Bank Luxembourg S.A., hafi ekki haft heimildir til að skuldbinda Kaupþing banka hf. á Íslandi og ekki verið á sérstökum undirskriftarlista í bankanum yfir þá sem heimildir hefðu til þess. Meðákærði hafi að engu leyti komið að starfsemi Kaupþings banka hf. á Íslandi og því ekki haft neina eftirlitsskyldu vegna lánareglna Kaupþings banka hf. á Íslandi. Þannig hafi meðákærði ekki komið að ákvörðun um lánveitingu til félagsins Brooks Trading Ltd. í september 2008.
Töluverður aðdragandi hafi verið að viðskiptunum við MAT með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Forsaga málsins hafi verið sú að stjórnendur Kaupþings banka hf. hafi allt frá árinu 2003 talið mikilvægt fyrir bankann að fá alþjóðlega fjárfesta sem hluthafa í bankanum til að styðja við vöxt og viðgang bankans. Þeim hafði orðið nokkuð ágengt á árunum 2003 til 2007 við að fá nýja erlenda hluthafa, m.a. sænska fjárfesta við skráningu bankans í Kauphöllinni í Svíþjóð og eins um það bil fjörtíu fjárfesta í hlutafjárútboði bankans haustið 2006 sem verið hafi í umsjón alþjóðlegu fjárfestingarbankanna Morgan Stanley og Citigroup. Á undanförnum áratug hafi orðið mikil auðsöfnun í ríkjunum við botni Miðjarðarhafs sem haft hafi gott aðgengi að olíuauðlindum. Af þeim sökum hafi margar alþjóðlegar fjármálastofnanir beint augum sínum að þessum ríkjum á árunum 2007 og 2008 þegar þær hófu leit að hugsanlegum fjárfestum til að styrkja stöðu sinna stofnana í þeim ólgusjó sem geisað hafi á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Kaupþing banki hf. hafi þar engin undantekning verið og raunar fyrr en flestir aðrir alþjóðlegir bankar byrjað að leita hófanna í Miðausturlöndum að fjárfestum. Fyrsti formlegi fundurinn vegna þessarar vinnu hafi verið í Washington haustið 2007 með fjármálaráðherra Katar sem ákærðu, Hreiðar Már og Sigurður, stjórnarformaður bankans, hafi átt. Á þeim fundi hafi fjármálaráðherra Katar lýst yfir áhuga á að skoða fjárfestingu á verulegum hlut í Kaupþingi banka hf. í gegnum Qatar National Bank. Viðræðurnar við Qatar National Bank í árslok 2007 og í ársbyrjun 2008 hafi ekki leitt til fjárfestinga í Kaupþingi banka hf. Þess í stað hafi farið af stað viðræður við Qatar Investment Authority, eða QIA sem væri í raun olíusjóður Katar, um að fjárfesta í Kaupþingi banka hf. Hafi stjórnendur Kaupþings banka hf. talið það enn betri kost fyrir Kaupþing banka hf. þar sem QIA væri einn stærsti fjárfestingarsjóður heims. Sumarið 2008, í Suður Frakklandi, hafi ákærði, ásamt meðákærðu, Sigurði og Ólafi, átt fund með HAT, forsætisráðherra Katar og stjórnarformanni QIA, á þeim tíma. Meðákærði, Ólafur, hafi verið lykilmaður í að setja upp þann fund og án tengsla hans við ráðamenn í Katar ólíklegt að stjórnendur Kaupþings banka hf. hefðu náð fundi með forsætisráðherranum. Á þeim fundi hafi verið ákveðið að stefna að kaupum QIA á 20% hlut í Kaupþingi banka hf. að undangenginni áreiðanleikakönnun. Í framhaldi af þessum fundi hafi KPMG í London verið fengið til að ljúka við áreiðanleikakönnun á Kaupþingi banka hf. Sú áreiðanleikakönnun, sem m.a. hafi falist í könnun á útlánasafni bankans og stærstu rekstrareiningum, hafi komið vel út fyrir Kaupþing banka hf. og engin atriði í skýrslu KPMG í London sem mælt hafi gegn kaupum QIA á hlutum í bankanum. Í framhaldi af vinnu KPMG í London hafi verið boðað til fundar í Doha, höfuðborg Katar, þar sem ákærði hafi eytt nokkrum dögum með ráðgjöfum QIA. Niðurstaða þeirra viðræðna hafi verið að ekki yrði gengið til viðskipta þar sem QIA hafi farið fram á háan afslátt frá gengi hlutabréfa Kaupþings banka hf. á markaði á þeim tíma. Er borið var undir ákærða hvort QIA hafi boðið 399 krónur á hlut kvað ákærði það geta staðist. Ekki væri í sjálfu sér óalgengt að gefinn væri afsláttur við kaup alþjóðlegra fjárfesta á nýútgefnu hlutafé í bönkum. QIA hafi hins vegar farið fram á það mikinn afslátt að stjórnendur bankans hafi talið ómögulegt að fá hluthafa til að samþykkja útgáfu nýs hlutafjár á því verði. Hafi því ekki orðið af viðskiptum. Meginröksemd QIA fyrir miklum afslætti hafi verið ósk um að viðskiptavild sem var á efnahagsreikningi Kaupþings banka hf., vegna kaupa á Singer og Friedlander, og FIH bankans, drægist frá virði bankans. MAT, bróðir emírsins í Katar og fyrrum fjármálaráðherra landsins, og ráðgjafar hans, hefðu fylgst með viðræðum bankans og QIA í gegnum tengsl við meðákærða, Ólaf.
Sumarið 2008 hafi farið af stað vinna að stofnun sameiginlegs fjárfestingarfélags meðákærða, Ólafs, og MAT. Kaupþing banki hf. hafi átt að koma að uppsetningu fjárfestingarfélagsins sem fjármögnunaraðili og eins sem ráðgjafi við hugsanlegar fjárfestingar. Ætlunin hafi verið að stofna fjárfestingarfélag sem myndi fjárfesta fyrir um 350.000.000 evra. Hugmyndin hafi verið sú að MAT legði fyrst í stað fram sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 150.000.000 evra til tryggingar vegna fjármögnunar Kaupþings banka hf. Ráðgjafi MAT, SAT, hafi að sama skapi ætlað að leggja fram sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 50.000.000 evra. Þessum sjálfskuldarábyrgðum yrði síðar skipt út fyrir traust veð. Þessar fyrirhuguðu fjárfestingar hafi verið án nokkurra tengsla við hlutabréfaviðskipti sem síðar hafi orðið, enda þau ekki komið til tals gagnvart MAT á þessum tímapunkti. Í framhaldi af þessari vinnu við uppsetningu á fjárfestingarfélaginu og í ljósi þess að ekki varð af kaupum QIA á 20% hlut í Kaupþingi banka hf., hafi ákærði leitað til meðákærða, Ólafs, og spurt hvort hann teldi að MAT hefði áhuga á að koma sjálfur að fjárfestingu á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Svo hafi farið að samkomulag hafi náðst á milli Kaupþings banka hf. og MAT í september 2008 um að fjárfestingarfélag í eigu MAT myndi kaupa 5,01% hlut í bankanum. Kaupin yrðu fjármögnuð að fullu af Kaupþingi banka hf. en MAT kæmi með tryggingu fyrir 50% af kaupverðinu, fyrst í formi sjálfskuldarábyrgðar sem fljótlega yrði breytt í tryggingu í fasteignum og löndum í hans eigu. Kaupþing banki hf. myndi fjármagna kaup á svokölluðum ,,credit link notes“ eða CLN-bréfum, en um hafi verið að ræða skuldabréf útgefin af Deutsche Bank þar sem vextir og áhætta bréfanna fylgdi skuldaálagi og greiðsluhæfi Kaupþings banka hf. Í þriðja lagi myndi Kaupþing banki hf. lána fjárfestingarfélagi í eigu MAT, 50.000.000 Bandaríkjadala. Þeir fjármunir skyldu notaðir til fjárfestinga og til tryggingar kæmu einnig CLN-skuldabréf útgefin af Deutsche Bank. Áfram hafi verið ætlunin að vinna að stofnun fjárfestingarsjóðs sem yrði í eigu þriggja einstaklinga, MAT, SAT og meðákærða, Ólafs. Af þeim sökum hafi sjálfskuldarábyrgð MAT ekki verið upp á 90.000.000 evra, sem hafi verið helmingur kaupverðs hlutabréfanna, heldur 150.000.000 evra. Af sömu ástæðu hafi SAT einnig undirritað sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 50.000.000 evra, en hvorki hann né meðákærði, Ólafur, hafi átt neina hlutdeild í hlutabréfakaupunum. Þrátt fyrir að hlutabréfakaup MAT hafi að fullu verið fjármögnuð af Kaupþingi banka hf. hafi ákærði talið að um mjög góð viðskipti fyrir bankann væri að ræða. Ástæðurnar hafi verið nokkrar. Í fyrsta lagi hafi Katar ríki verið eitt auðugasta ríki heims og fyrirséð að sú auðsöfnun myndi halda áfram og það að fá kjölfestufjárfesta frá Katar gæti veitt Kaupþingi banka hf. aðgang að mörgum viðskiptatækifærum. Í öðru lagi hafi verið stöðugt innstreymi á innlánsreikninga bankans á öllum mörkuðum í Evrópu og september 2008 verið metmánuður, með yfir 800.000.000 evra í innstreymi. Bankinn hafi ekki talið sig í þörf fyrir lausafé þar sem Edge reikningarnir svonefndu myndu duga til að gjörbreyta fjármögnun bankans. Að fá inn fjársterkan aðila sem hluthafa hafi hins vegar skipt miklu máli. Í þriðja lagi hafi kaupin verið hugsuð sem fyrsta skref í mun meiri viðskiptum við MAT á vegum einkabanka- og fjárfestingarbankahluta Kaupþings banka hf. sem myndi skila sér í tekjum af vöxtum vegna lánveitinga og þóknunum af eignastýringu og fjárfestingarverkefnum. Í fjórða lagi hafi Kaupþing banki hf. ekki verið eini bankinn í Evrópu sem metið hafi það svo að það væri gott að fá fjárfesta frá Katar, en fjárfestar frá Katar hefðu fjárfest í þremur bönkum í Evrópu haustið 2008. Um hafi verið að ræða Kaupþing banka hf., og tvo af stærstu bönkum Evrópu, þ.e. Credit Suisse og Barclays.
Þegar stjórnendur Kaupþings banka hf. hafi talið að viðskiptin væru í meginatriðum samþykkt hafi verið ákveðið að senda mann frá Kaupþingi banka hf. til Doha í Katar og setjast niður með MAT. Hafi ákærði farið fram á það við meðákærða, Magnús, þáverandi framkvæmdastjóra Kaupthing Bank Luxembourg S.A., að fara til Katar þar sem ákærði hafði séð fyrir sér að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. myndi sjá um rekstur fjárfestingarfyrirtækja sem sett yrðu upp og mikið viðskiptatækifæri í því fólgið fyrir Kaupthing Bank Luxembourg S.A. að fá meðlimi konungsfjölskyldunnar í Katar í viðskipti. Á þessum tímapunkti hafi verið komin nokkuð endanleg mynd á viðskipti við MAT. Hafi viðskiptin verið komin á nokkurn rekspöl er meðákærða, Magnúsi, hafi verð kynnt þau. Meðákærði, Magnús, hafi ekki tekið þátt í eiginlegum samningaviðræðum við MAT. Meðákærði, Ólafur, hafi sennilega farið í þessa ferð þar sem hann hafi komið á tengslum við MAT, auk þess sem þeir hafi þá verið að stofna sameiginlegan fjárfestingarsjóð. Ákærði kvaðst hafa talið að MAT hafi á þessum tíma vitað um aðkomu meðákærða, Ólafs, að þessum kaupum. Miðað við gögn málsins hafi MAT borið að hann hafi ekki vitað um aðkomu meðákærða, sem væri sérkennilegt þar sem hann hafi vitað um sameiginlegt fjárfestingarfélag þeirra. Meðákærði, Ólafur, hafi komið að viðskiptunum á fyrstu stigum og komið boðum aðallega í gegnum SAT og lögmann hans, SS. Meðákærði, Ólafur, hafi hins vegar ekki komið að frágangi viðskiptanna. Eftir fund meðákærðu, Magnúsar og Ólafs, og MAT 16. september 2008 hafi ákærði fengið símtal frá meðákærða, Magnúsi, þar sem meðákærði hafi staðfest að MAT væri samþykkur viðskiptunum og vildi ganga til þeirra eins og rætt hafi verið um við ráðgjafa hans. Hafi ákærði glaðst mjög yfir ákvörðun MAT og talið hana afskaplega góða fyrir Kaupþing banka hf. á tímum þar sem mikið fárvirði hafi geisað á fjármálamörkuðum í kjölfar falls alþjóðlegra banka og tryggingafélaga. Ákærði hafi í kjölfarið tekið viðskiptin áfram. Aðkoma ákærða að þessum viðskiptum hafi þó fyrst og fremst snúist um stóru myndina, það er að segja að ná samkomulagi við ráðgjafa MAT og koma málinu í réttan farveg innan bankans. Gerð kynninga fyrir lánanefnd, gerð lánssamninga, fyrirmæli um útgreiðslu lána og fleiri atriði sem væru nauðsynleg í viðskiptum af þessu tagi, hafi ákærði ekki komið að.
Þann 18. september 2008 hafi ákærði leitt málið í þann farveg sem hann hefði talið réttan innan Kaupþings banka hf. og í samræmi við vinnuferla og hvernig ætíð hafi verið staðið að sambærilegum málum. Samkvæmt gögnum málsins hafi verið haldinn símafundur þann dag með tveimur viðskiptastjórum, þeim HBL og GÞG, ásamt BHD, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs. BHD hafi verið yfirmaður viðskiptastjóranna beggja. BHD hafi sennilega setið fundinn að hluta. Verið geti að meðákærði, Magnús, hafi einnig tekið þátt í fundinum. Ákærði hafi sjálfur verið staddur á skrifstofu sinni í bankanum í London. Fyrirmælin sem ákærði hafi gefið á fundinum hafi verið tiltölulega einföld varðandi lánveitingar. Í fyrsta lagi að lána skyldi 100% til kaupa á 5,01% hlut í bankanum. Lánin færu í gegnum tvö félög. Annars vegar félag í eigu MAT og hins vegar í gegnum félag í eigu meðákærða, Ólafs. Nöfn félaganna hafi ákærði ekki þekkt á þessum tíma. Í öðru lagi að lána skyldi fjárfestingarfélagi MAT til kaupa á skuldabréfum útgefnum af Deutsche Bank sem væri tengt skuldatryggingarálagi bankans, allt að 130.000.000 evra. Í þriðja lagi að lána skyldi 50.000.000 Bandaríkjadala til nýstofnaðs félags MAT, Brooks Trading Ltd., sem myndi fara í fjárfestingar á vegum félagsins og tryggingar fyrir því láni yrðu eignir félagsins og skuldabréf útgefið af Deutsche Bank sem væri tengt skuldatryggingarálagi Kaupþings banka hf. Félög sem stofnuð yrðu í tengslum við fyrirhugaðan fjárfestingarsjóð yrðu notuð við fjármögnunina. Öryggi yrði fyrir bankann fólgið í því að starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. yrðu í stjórnum félaganna og myndu þannig tryggja að félögin færu ekki gegn hagsmunum bankans. Í svonefndum opnunarskjölum þessara félaga hjá bankanum kæmi fram að allar eigur félaganna væru veðsettar bankanum. Aðrar leiðir hefðu verið mögulegar en þetta verið einfalt, án aukinnar áhættu fyrir bankann, auk þess sem með þessari framkvæmd hefði það náðst fram að sjálfskuldarábyrgð MAT tæki einungis til helmings kaupverðsins, líkt og samið hefði verið um. Þau félög sem lánað hafi verið til hafi aldrei átt að eiga neitt tilkall til hlutabréfanna. Þau hafi einungis verið milliliður við fjármögnunina. Afskiptum ákærða af þessu máli hafi í reynd lokið á þessum fundi, fyrir utan að ákærði hafi setið fund lánanefndar stjórnar 24. september 2008 sem einn fjögurra lánanefndarmeðlima þar sem samþykktar hafi verið lánveitingarnar vegna viðskipta MAT. Að auki hafi ákærði komið beint að málinu í tengslum við samskipti við fjölmiðla eftir að viðskiptin hefðu verið tilkynnt.
Ákærði hafi litið svo á að það væri viðskiptastjórans, HBL, að taka málið áfram, en það hafi verið hlutverk viðskiptastjóra í samræmi við skilgreind ferli innan bankans. Hafi ákærði ekki gefið HBL eða öðrum fyrirmæli um hvaða lánsform skyldi nota varðandi lánveitinguna. Ekki hafi ákærði verið í sambandi við viðskiptastjórana HBL eða GÞG í tengslum við framkvæmd lánveitinga tengda hlutabréfakaupunum, fyrir utan, eins og áður segir, að taka þátt í lánanefndarfundi stjórnar 24. september 2008. Ákærði kvaðst ekki þora að fullyrða hversu nákvæmlega hann hafi lýst strúktúr viðskiptanna á símafundinum 18. september 2008, en farið hafi verið yfir stóru myndina. Ákærði hafi ekki gefið sérstök fyrirmæli um einstök atriði, eins og að greiða út svokölluð peningamarkaðslán, svo sem gert hafi verið. Legið hafi fyrir að engir fjármunir myndu í reynd fara út úr bankanum. Um hafi verið að ræða færslur milli reikninga innan bankans. Það sem átt hafi sér stað hafi verið að samtímis því að bankinn hafi afhent hlutabréf í Kaupþingi banka hf., sem hann hafi sjálfur átt, hafi hann fengið í staðinn tvo lánssamninga. Bankinn hafi þannig afhent hlutabréf að verðmæti 25.000.000.000 króna og fengið á móti tvo lánssamninga hvorn að verðmæti 12.500.000.000 króna. Keyrðar hafi verið færslur inn og út af bankareikningum þessara félaga. Engir fjármunir hafi hins vegar farið út til félaganna. Félögin hafi sjálf ekki getað gert neitt með fjármunina. Meðákærði, Sigurður, hafi verið upplýstur um lánveitingar vegna hlutabréfakaupanna og verið þeim samþykkur. Hafi meðákærði meðal annars vitað um lánveitinguna til félagsins Brooks Trading Ltd. að fjárhæð 50.000.000 Bandaríkjadala. Meðákærði hafi setið í lánanefnd stjórnar, þar sem lánveitingin hafi verið samþykkt. Meðákærði hafi vitað um þá stóru mynd er ákærði hafi lýst á fundinum 18. september 2008. Ákærði kvaðst ekki líta svo á að viðskiptin með kaup á hlutabréfum í bankanum hafi verið komin á 18. september 2008. Það hafi ekki verið fyrr en 21. september 2008, við undirritun MAT á sjálfskuldarábyrgð vegna kaupanna.
Viðskipti bankans og MAT hafi gengið í gegn helgina 19. 21. september 2008 með undirritun viðeigandi samninga, þá einkum sjálfskuldarábyrgðarinnar. Þau hafi síðan verið tilkynnt á mánudeginum 22. september 2008. Skipt hafi miklu máli að tilkynna strax um viðskiptin vegna reglna Kauphallarinnar. Ekki hafi á þeim tíma þurft að vera búið að ganga frá öllum lánveitingum. Það sem átt hafi sér stað á þeim degi hafi verið að Kaupþing banki hf. hafi selt hlutabréf til Q Iceland Finance ehf. og um leið átt kröfu á hendur félaginu. Ákærði hafi örugglega gefið fyrirmæli um að þessi viðskipti ættu að ganga hratt fyrir sig. Miðað við reynsluna skipti miklu að viðskipti sem þessi gengju hratt fyrir sig. Lausafjárstaða bankans í erlendum gjaldeyri hafi verið góð á þessum tíma. Hafi það verið staðfest á stjórnarfundi í bankanum 25. og 26. september 2008, en framkvæmdastjóri fjárstýringar hafi gert grein fyrir henni. Bankinn hafi verið með lánalínur upp á yfir 1.500.000.000 evra, sem bankinn hafi getað gengið á. Næsti stóri gjalddagi á skuldabréfum bankans hafi ekki verið fyrr en í maí 2009. Þá hafi um 6.000.000.000 evra safnast saman á fyrstu 9 mánuðum ársins í nýjum innlánum. Með sama áframhaldi hefði bankinn getað endurfjármagnað alla skuldabréfaútgáfu bankans. Einstök ummæli starfsmanna bankans um stöðu bankans yrði að skoða í ljósi þess að þeir hefðu ekki haft heildaryfirlit yfir stöðu bankans. Á fyrsta ársfjórðungi 2008 hafi verið leitað til Deutsche Bank um ráðgjöf varðandi mikið innstreymi á reikninga félagsins í útlöndum og hvernig best væri að verja þeim fjármunum. Hafi ráðleggingar Deutsche Bank falist í því annars vegar að kaupa til baka skuldabréf sem bankinn hefði gefið út, sem myndi hafa jákvæð áhrif á vaxtaálag bankans og hins vegar að finna fjárfesta sem gætu tekið þátt í skuldatryggingarmarkaðinum í London. Hvort tveggja hafi verið framkvæmt, en bankinn hafi meðal annars fundið fjárfesta og fjármagnað þá til að kaupa skuldabréf, Credit Link Notes, útgefin af Deutsche Bank, sem tengd hafi verið skuldatryggingarálagi bankans. Hafi áhætta bankans af þessum viðskiptum verið metin mjög lítil þar sem annað tveggja hafi þurft til að bankinn tapaði á viðskiptunum, útgefandi bréfanna Deutsche Bank færi á hausinn eða Kaupþing banki hf. Hafi ákærði talið mjög jákvætt að selja MAT ríflega 5% hlut í Kaupþingi banka hf. Það hafi verið mjög jákvætt fyrir bankann að geta flaggað viðskiptunum. Ákærði kvaðst telja að lánanefnd stjórnar bankans hafi 24. september 2008 átt að gera sér grein fyrir hvernig fjármögnun kaupa á hlutabréfum í bankanum væri háttað. Þar hafi verið upplýst að MAT hafi komið með sjálfskuldarábyrgð upp á 12.500.000.000 króna fyrir helmingi kaupverðsins. Miðað við það hafi lánanefndin átt að geta ályktað að kaupin yrðu að fullu fjármögnuð. Stjórn bankans sjálfs hafi hins vegar ekki verið upplýst sérstaklega um þetta. Einstök lánamál hafi aldrei verið tekin upp í stjórn. Einu sinni á ári hafi verið farið yfir lánabók bankans og þar gerð grein fyrir öllum stærstu útlánum. Margoft hafi gerst að bankinn hafi fjármagnað kaup á hlutabréfum í bankanum sjálfum. Hafi Fjármálaeftirlitið skoðað lánabók bankans og séð þetta í útlánaúttekt. Engar athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu eftirlitsins.
Bankinn hafi fallið 8. október 2008, eða rúmum tveimur vikum eftir stjórnarfundinn dagana 25. og 26. september. Við fall hans hafi ekki verið farið í fjárfestingu á skuldabréfi útgefnu af Deutsche Bank í tengslum við skuldatryggingu Kaupþings banka hf., eins og til hafi staðið, en annar hluti viðskiptanna gengið eftir. Eftir fall bankans hafi komið í ljós, sem ákærði hafi ekki gert sér grein fyrir, að mistök hefðu átt sér stað innan bankans við framkvæmd lánveitinganna. Það hafi ekki verið gert að beiðni ákærða né með hans vitneskju. Það hafi verið vilji ákærða að lánveitingar vegna þessara viðskipta færu í einu og öllu eftir réttum ferlum innan bankans. Það hafi verið rétt hjá ákærða að kalla viðskiptastjórana og framkvæmdastjóra útlánasviðs á fund eins og ákærði hafi gert 18. september 2008 og gera þeim grein fyrir meginþáttum fyrirhugaðra viðskipta og hvaða samkomulag hafði í grundvallaratriðum náðst við MAT. Ef ætlun ákærða hefði verið að þessar lánveitingar færu leynt og ekki eftir ferlum bankans, hefði ákærði vart kallað á sinn fund tvo viðskiptastjóra og framkvæmdastjóra á fyrirtækjasviði bankans til að ganga frá viðskiptunum. Það hafi verið hlutverk viðskiptastjóra að sjá um skjalagerð, fá samþykki lánanefnda og sjá til þess að lánin yrðu ekki greidd út án samþykkis réttra aðila innan bankans. Með þessu væri ekki ætlun ákærða að varpa ábyrgð á aðra starfsmenn bankans. Um hafi verið að ræða hreina og klára yfirsjón og engu breytt um efni viðskiptanna þótt allra réttra ferla hefði verið gætt. Engin áhöld hafi verið um ágæti þessara viðskipta fyrir bankann. Ákærði hafi ekki gefið fyrirmæli um að lánveitingar færu ekki fyrir lánanefnd og lánaskjöl ekki undirrituð. Liðið hafi tæplega sólarhringur frá því að ákærði hafi átt fund með viðskiptastjórum bankans þar til fyrirmæli virðist hafa verið gefin um lánveitingu. Nægur tími hafi gefist til að tryggja að réttum vinnubrögðum og ferlum yrði fylgt eins og mörg dæmi væru um í sögu Kaupþings banka hf. Að sama skapi hafi það ekki verið vilji ákærða að ellefu dögum eftir fund með viðskiptastjórum bankans 18. september 2008 skyldi lán vera veitt til Gerland Assets Ltd. að fjárhæð 12.800.000.000 króna í formi óundirritaðs peningamarkaðsláns. Í millitíðinni hafi verið haldinn lánanefndarfundur í lánanefnd stjórnar og því augljóst að nægur tími hafi verið fyrir viðskiptastjóra að fá samþykki lánanefndar. Teldi ákærði upplýst að um hafi verið að ræða mistök hjá HBL viðskiptastjóra. Málið hafi fallið á milli skips og bryggju. Engin fyrirmæli hafi verið gefin um að lánveitingunni skyldi haldið utan lánanefndar og engin leynd verið innan bankans um þetta fyrirkomulag lánveitingar vegna hlutabréfaviðskiptanna. Ákærði kvaðst ekki hafa gefið nein fyrirmæli um að lán til Brooks Trading Ltd. skyldi vera fyrir fram greiddur hagnaður af svokölluðum CLN-viðskiptum. Að því marki sem HBL hafi borið um það hafi verið um misskilning að ræða af hálfu HBL. HBL hafi gefið fyrirmæli um lánveitingu til Gerland Assets Ltd., en það mætti sjá af gögnum málsins. Hafi HBL sjálfsagt talið sig vera að vinna að málinu í samræmi við fundinn 18. september 2008. Kaupþing banki hf. hafi verið lánveitandi og eignir Gerland Assets Ltd. til tryggingar lánveitingunni. Komið hafi í ljós síðar að lán til Gerland Assets Ltd. hafi fyrir mistök ekki farið fyrir lánanefnd. Eins og áður sagði hafi viðskiptastjórinn HBL borið ábyrgð á því. Að því er það lán varðaði hafi ekki staðið til að meðákærði, Ólafur, legði fram persónulega ábyrgð vegna aðkomu að kaupum félagsins á hlutafé í bankanum. Einungis hafi verið um það að ræða að lán hafi verið veitt í gegnum félag meðákærða. Það hafi verið gert þar sem þessi strúktúr um sameiginlegar fjárfestingar meðákærða, Ólafs, og MAT hafi verið til og heppilegast að nota hann vegna kaupa MAT á hlutabréfum í Kaupþingi hf. Með því að nota þennan strúktúr, sem legið hafi fyrir, hafi verið mestar líkur á að viðskiptin fengjust samþykkt og gengju fyrir sig hratt og örugglega. Þrátt fyrir þessa uppsetningu hafi ákærði ekki litið á kaup á hlutabréfunum sem viðskipti meðákærða, Ólafs. Ávinningur meðákærða, Ólafs, hafi verið fólginn í því að með þessu yrði MAT stór hluthafi í Kaupþingi banka hf. Félagið Gerland Assets Ltd. hafi verið svokallað ,,Special Purpose Vehicle“ eða félag sett upp í ákveðnum tilgangi. Tilgangur félagsins hafi verið einungis einn, þ.e. að veita lán inn í Choice Stay Ltd. Búið hafi verið að rita undir opnunarskjöl í Lúxemborg þar sem allar eigur félagsins Gerland Assets Ltd. hafi staðið til tryggingar skuldbindingum félagsins. Þá hafi starfsmenn bankans komið að félaginu. Með þessu hafi áhætta bankans verið takmörkuð við lánveitingu til félagsins. Meðákærði, Ólafur, sem eigandi Gerland Assets Ltd., hafi átt margar eignir á þessum tíma en jafnframt verið skuldsettur.
Fjármögnun kaupa Q Iceland Finance ehf., sem hafi að fullu verið í eigu MAT, hafi að hluta komið frá félagi í eigu meðákærða, Ólafs. Þrátt fyrir að Kaupþing banki hf. hafi lánað félagi í eigu meðákærða, Ólafs, sem lánað hafi til félaga í eigu MAT, hafi engin skylda eða kvöð myndast fyrir aðila viðskiptanna að tilkynna um hvernig fjármögnun þeirra hafi verið háttað. Meðákærði, eða félag í hans eigu, hafi ekki átt að fá hlutdeild í hækkun eða lækkun hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. Raunverulegur eigandi bréfanna, og það félag sem borið hafi alla áhættu af hækkun og lækkun hlutabréfanna í Kaupþingi banka hf., hafi verið Q Iceland Finance ehf. Meðákærði hafi ekki átt rétt til arðgreiðslna, hækkunar á virði bréfanna, né hafi hann haft ákvörðunarvald um hvort bréfin yrðu seld eða keypt. Ekki hafi verið um neina markaðsmisnotkun að ræða í viðskiptum. Fréttatilkynning Kaupþings banka hf. til Kauphallar Íslands, sem birst hafi í innlendum fjölmiðlum, hafi verið rétt og ekkert rangt sem þar hafi komið fram.
Dagurinn 8. október 2008 hafi verið örlagadagur í lífi Kaupþings banka hf. Íslensku viðskiptabankarnir, Glitnir hf. og Landsbanki Íslands hf., hefðu fallið á dögunum og vikunum á undan. Alþingi hefði samþykkt svokölluð neyðarlög að kvöldi 6. október 2008 og traust erlendra aðila á íslensku bankakerfi hrunið. Um morguninn 8. október 2008 hafi bresk yfirvöld tekið ákvörðun um að loka starfsemi Kaupthing Singer & Friedlander og færa innlánastarfsemi bankans yfir til annarrar fjármálastofnunar. Við fall Kaupthing Singer & Friedlander hafi starfsemi Kaupþings banka hf. í raun verið sjálfhætt þar sem allir lánasamningar bankans hafi verið komnir í uppnám vegna gjaldfellingarákvæða. Stjórn bankans hafi ákveðið á fundi 8. október 2008 að leita til Fjármálaeftirlitsins með starfsemi bankans. Fleira hafi gerst 8. október 2008 sem ákærði hafi ekki verið upplýstur um fyrr en eftir fall bankans. Þannig hafi 50.000.000 Bandaríkjadala lán til fjárfestingarfélags MAT verið notað til að kaupa krónur af Kaupþingi banka hf. á um 250 krónur fyrir Bandaríkjadal. Fyrir 50.000.000 Bandaríkjadala hafi fengist 12.500.000.000 króna. Þær krónur hafi verið notaðar til að borga að stærstum hluta upp lán félagsins Serval Trading Group Corp., sem tryggt hafi verið með sjálfskuldarábyrgð MAT. Strax í fyrstu yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara í júní 2009 hafi ákærði bent starfsmönnum embættisins á að þetta væri mjög óeðlilegt og slitastjórn Kaupþings banka hf. hlyti að hefja innheimtuaðgerðir vegna þessa. Slíkar aðgerðir hafi reyndar hafist löngu síðar og leitt til milljarðagreiðslna frá MAT.
Ekki hafi verið um nein sýndarviðskipti að ræða með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. heldur raunveruleg viðskipti þar sem MAT hafi tekið raunverulega áhættu og orðið fyrir umtalsverðu fjártjóni vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Eins sé ljóst að engin markaðsmisnotkun eða umboðssvik hafi verið framin í þessum viðskiptum. Engin leynd hafi hvílt yfir aðkomu meðákærða, Ólafs, að viðskiptunum. Félög í eigu meðákærða hafi verið stofnuð í kerfum bankans og meðákærði farið í gegnum peningaþvættisathugun. Viðskiptin hafi verið gerð í þágu Kaupþings banka hf. og ásetningur stjórnenda bankans aldrei staðið til annars. Bankinn hafi orðið í mun betri stöðu eftir viðskiptin en fyrir þau. Kaupþing banki hf. hafi fengið greitt frá MAT um 3.500.000.000 króna vegna viðskiptanna. Það sé sú fjárhæð sem Kaupþing banki hf. hafi orðið betur settur með vegna þessara viðskipta en ef ekki hefði verið gengið til þeirra. Ef ekki hefði komið til ráðstöfunar á 50.000.000 Bandaríkjadala 8. október 2008 hefði bankinn verið enn betur settur, eða sem nemur tæplega 13.000.000.000 króna. Þau viðskipti sem ákærði hafi átt þátt í að koma á hafi sannanlega bætt stöðu bankans sem þeirri fjárhæð nemi. Lán Kaupþings banka hf. til Brooks Trading Ltd. hafi ekki verið ætlað sem hvati fyrir MAT til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Ákærði kvaðst ekki fyrr en á rannsóknarstigi málsins hafa séð svokallaða glærukynningu af viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. sem útbúin hafi verið af starfsmönnum Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Ekki hafi ákærði gefið EH, starfsmanni Kaupthing Bank Luxembourg S.A., nein fyrirmæli varðandi vinnu við teikningarnar. Ákærði kvaðst aldrei hafa gefið nein fyrirmæli um hagnaðartengd lán, svo sem gefið væri í skyn á teikningunum. Aldrei hafi staðið til að Gerland Assets Ltd. nyti hækkunar eða lækkunar hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. Þá hafi ekki staðið til að félagið fengi arðgreiðslur af hlutabréfakaupunum í Kaupþingi banka hf. Fjármagn til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. hafi að hálfu leyti komið í gegnum Gerland Assets Ltd. sem lán. Fjárfestingar meðákærða, Ólafs, og MAT, í gegnum sameiginlegt fjárfestingafélag, hafi ekki verið farnar af stað er félagastrúktúr þeirra hafi verið notaður. Þó kvaðst ákærði telja að þegar hafi verið búið að taka ákvörðun af þeirra hálfu um að fjárfesta í Alfesca. Ákærði kvaðst ekki muna sérstaklega eftir umræðu á sínum tíma um hvort flagga þyrfti aðkomu meðákærða, Ólafs, að viðskiptum með hlutabréfin í Kaupþingi banka hf. Ákærði kvaðst þó öruggur um að ekki hafi þurft að flagga hans aðkomu að viðskiptunum. Flaggað hafi verið með réttum hætti í þessum viðskiptum. Q Iceland Finance ehf. hafi verið eini eigandi hlutabréfanna í Kaupþingi banka hf.
Ákærði lýsti því að svokölluð peningamarkaðslán væru skammtímalánveitingar. Þau hafi verið veitt bæði til fjármálastofnana og fyrirtækja. Ákærði kvaðst hafa setið fund lánanefndar stjórnar 24. september 2008. Að því er varðaði svokallaða undanþágulista hafi það almennt verið þannig að fyrirtæki hafi farið í gegnum lánshæfismat áður en lán hafi verið veitt. Ef lánshæfismat fór ekki fram þyrftu fyrirtæki að fara á nefndan undanþágulista. Lán til verðbréfakaupa hafi almennt farið á undanþágulista yfir lánshæfismat. Ekki hafi verið kerfi innan bankans til að útbúa lánshæfismat fyrir fjármögnun verðbréfa. Ákærði staðfesti að reglubók Kaupþings banka hf. hafi verið samþykkt af stjórn bankans 27. september 2007. Lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf. hafi haft heimild til að veita lán án trygginga og ekkert hámark verið á þeim lánveitingum. Þá hafi lánanefndin einnig haft heimildir til að veita víkjandi lán. Þannig hafi bankinn veitt fjármálastofnunum og fyrirtækjum í rekstri lán án trygginga sem orðið hefðu víkjandi fyrir öðrum kröfuhöfum. Hvað reglubókina varðaði hafi í henni falist rammi fyrir deildir og starfsmenn bankans. Ákærði kvaðst í starfi sínu fyrir Kaupþing banka hf. aldrei sjálfur hafa veitt einstök lán. Það hafi ekki verið hlutverk hans í bankanum. Hafi hann aldrei gefið fyrirmæli um að greiða út lán og lán alltaf átt að fara fyrir lánanefndir. Viðskiptastjórar bankans hafi átt að bera ábyrgð á því að ritað væri undir lánsskjöl.
Ákærði kvaðst þeirrar skoðunar að fréttatilkynning Kaupþings banka hf. frá 22. september 2008 um viðskipti með hlutabréf í bankanum hafi gefið rétta mynd af viðskiptum með hlutabréf í bankanum. Ekki hafi verið getið um fjármögnun kaupanna þar sem engin skylda hafi verið til þess. Þá hafi engin venja staðið til þess heldur. Ekki hafi verið ástæða til að geta aðkomu meðákærða, Ólafs, að kaupunum. Ákærði kvaðst ekki muna nákvæmlega hvaða áhrif fréttatilkynningin hefði haft á virði hlutabréfa í bankanum. Ákærði kvaðst hafa lesið yfir drög að tilkynningunni. Samskiptasvið bankans hafi séð um gerð fréttatilkynningarinnar. Framkvæmdastjóri sviðsins hafi haft yfirumsjón með gerð hennar. Það hafi verið sameiginleg ábyrgð þeirra að tilkynningin væri rétt. Meðákærði, Magnús, hafi ekki komið mikið að gerð tilkynningarinnar, svo hann vissi til. Meðákærði hafi verið búinn að vera í einhverjum samskiptum við ráðgjafa MAT. Ákærði kvaðst ekki þekkja aðkomu meðákærða, Ólafs, að tilkynningunni. Ákærði kvaðst ekki þekkja hvort tilkynningin hefði verið borin undir MAT sjálfan. Að því er varðaði viðtal við ákærða í morgunfréttum Ríkisútvarpsins 22. september 2008 kvaðst ákærði þeirrar skoðunar að viðtalið gæfi rétta mynd af viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Hægt hafi verið að halda því fram að verið væri að sækja fjármuni til Asíu þar sem MAT hafi undirritað sjálfskuldarábyrgð vegna kaupanna, en í því hafi verið fólgnir fjármunir. Engu máli hafi skipt í þessu sambandi þó að Kaupþing banki hf. hafi að fullu fjármagnað kaup hlutabréfanna. Með sama hætti hafi viðtal við ákærða í Markaðsfréttum Stöðvar 2 að kvöldi 22. september 2008 gefið rétta mynd af viðskiptunum, sem og önnur viðtöl sem ákærði hefði veitt og fram kæmu í ákæru.
Ákærði, Sigurður Einarsson, kvaðst hafa verið stjórnarformaður Kaupþings banka hf. í september 2008. Ákærði hafi á sama tíma verið formaður lánanefndar stjórnar. Kaupþing banki hf. hafi verið móðurfélagið og Kaupthing Bank Luxembourg S.A. dótturfélag þess. Sá banki hafi verið rekinn sem sjálfstæður banki. Meðákærði, Magnús, hafi verið framkvæmdastjóri Kaupthing Bank Luxembourg S.A. en engar heimildir haft gagnvart móðurfélaginu á Íslandi. Hafi hann af þeim sökum ekki getað skuldbundið Kaupþing banka hf. Þá hafi hann ekkert boðvald haft gagnvart einstökum starfsmönnum Kaupþings banka hf. á Íslandi.
Að því er varðaði sölu á ríflega 5% hlut í Kaupþingi banka hf. í september 2008 til Q Iceland Finance ehf., sem hafi verið félag í eigu MAT frá Katar, hafi aðdragandi sölunnar verið sá að fyrirsvarsmenn Kaupþings banka hf., líkt og stjórnendur fjölmargra annarra banka um allan heim, hefðu um nokkurt skeið á árunum 2007 og 2008 haft það sem markmið að fá til liðs við sig stönduga fjárfesta. Hafði töluvert af tíma ákærða farið í viðræður við hina ýmsu aðila er lotið hafi að þessu markmiði, enda ákærði búið í útlöndum síðan árið 2004. Meðal fjárfesta sem ákærði hefði rætt ítrekað við hafi verið fjárfestar frá Katar. Þeir hafi þó langt í frá verið þeir einu sem ákærði hafi átt í samskiptum við. Á árunum 2007 og 2008 hafi ákærði farið fjölmargar ferðir til Katar, auk þess sem ákærði hafi hitt þarlenda fjárfesta bæði í Evrópu og Ameríku. Meðal þeirra sem ákærði hafi átt viðræður við hafi verið bankastjórar og ráðherrar, þar á meðal forsætisráðherra og fjármálaráðherra Katar. Viðræður hafi átt sér stað við QIA sjóðinn um fjárfestingu í Kaupþingi banka hf. Einn af fjölmörgum aðilum sem ákærði hafi kynnst hafi verið MAT, fyrrum fjármálaráðherra landsins. Það hafi verið ákærða og Kaupþingi banka hf. fagnaðarefni er í ljós hafi komið að MAT hafi viljað kaupa ríflega 5% hlut í bankanum, enda MAT einn af efnameiri fjárfestum heimsins. Hugmynd að viðskiptum MAT með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. hafi væntanlega komið frá meðákærða, Hreiðari Má, sem borið hafi hana undir meðákærða, Ólaf. Í framhaldi hafi hugmyndin, fyrir milligöngu meðákærða, Ólafs, verið borin undir MAT.
Aðkoma ákærða að útfærslu og framkvæmd viðskiptanna hafi þó eðlilega verið engin, frekar en endranær með viðskipti í bankanum, hvort sem hafi verið við kaup eða sölu eigna eða lánveitingar. Ákærði hafi verið stjórnarformaður bankans og sem slíkur ekkert umboð haft við útfærslu eða framkvæmd viðskipta, svo sem við ákvörðun lánsfjárhæða, trygginga, greiðsluskilmála o.s.frv. Ákærði hafi verið ánægður með viðskiptin enda verið upplýstur um það að lánveiting vegna viðskiptanna væri tryggð með veði í bréfunum sjálfum sem og 50% sjálfskuldarábyrgð frá MAT. Hugmyndin hafi verið kynnt þannig fyrir ákærða að Kaupþing banki hf. myndi fjármagna kaup bréfanna að fullu. Fráleitt hefði verið að ákærði hefði farið fram á það að starfsmenn Kaupþings banka hf. greiddu lánsfjárhæð eða útbyggju lána- og tryggingaskjöl með ákveðnum hætti. Í raun myndi ákærði ekki eftir að hafa, í aðdraganda kaupa MAT á hlutabréfum í bankanum, rætt við neinn starfsmann Kaupþings banka hf. nema meðákærða, Hreiðar Má, forstjóra bankans. Aðkomu ákærða að viðskiptunum hafi lokið þegar ákærði, ásamt öðrum nefndarmönnum í lánanefnd stjórnar, hafi 24. september 2008 samþykkt lán til Serval Trading Group Corp., félags í eigu MAT. Í framhaldi þess hafi ákærði sent MAT bréf og óskað honum til hamingju með viðskiptin og boðið hann velkominn í hluthafahóp bankans.
Ákærði kvað lán til félagsins Brooks Trading Ltd., félags í eigu MAT, veitt í september 2008, ekki hafa verið ætlað sem hvata fyrir MAT til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Ákærði kvaðst ekki þekkja til eða hafa séð svonefndan strúktúr að baki kaupum MAT á hlutabréfum í bankanum, sem starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi verið að vinna með. Hafi ákærði ekki vitað hver hafi hannað umræddan strúktúr.
Ákærði kvaðst ekki hafa samþykkt lánveitingu til Gerland Assets Ltd. í september 2008. Hafi lánið ekki farið fyrir lánanefnd stjórnar. Hann hafi því ekki þekkt sérstaklega til þessarar lánveitingar eða vitað um stóru mynd viðskiptanna. Það væri því ekki unnt fyrir ákærða að álykta hvort lánveitingin hafi staðist lánareglur bankans. Lánareglur hafi hins vegar verið brotnar að því leyti að lánið hafi ekki verið lagt fyrir lánanefnd. Kvaðst ákærði þeirrar skoðunar að viðskiptastjóri bankans hafi borið ábyrgð á því að setja lánið fyrir lánanefnd. Lán tengd þessum viðskiptum hafi verið ein heild og ekki ástæða til að líta á hvert þeirra eitt og sér. Þannig beri að líta á lán sem veitt hafi verið áfram í gegnum félög í eigu meðákærða, Ólafs, og MAT. Aldrei hafi staðið til að meðákærði, Ólafur, færi að leggja fram persónulegar ábyrgðir í tengslum við kaup MAT á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. enda félagið einungis milliliður um færslu fjármuna. Áhætta meðákærða hafi því aldrei verið nein af viðskiptunum og hagnaður til hans aldrei átt að verða neinn. Aðrar leiðir hafi verið færar til að koma á kaupum milli bankans og MAT, en niðurstaðan hafi orðið sú sama. Sú leið sem valin hafi verið hafi einfaldlega þótt heppileg. Öll áhætta í viðskiptunum hafi lent á MAT, hinum raunverulega kaupanda bréfanna. Hafi kaupandinn enda lagt fram sjálfskuldarábyrgð vegna kaupanna fyrir helmingi kaupverðsins. Meðákærði, Ólafur, hafi ekki komið að kaupum á hlutabréfum í bankanum að öðru leyti en því að koma á tengslum við MAT. Ákærði kvaðst ekki hafa þekkt sérstaklega fjárhagsstöðu meðákærða, Ólafs, á þeim tíma er viðskipti hafi gengið í gegn. Lán af hálfu bankans hafi stundum verið samþykkt utan reglulegra funda. Hafi það verið í þeim tilvikum er hraði hafi verið mikill í viðskiptum, sérstaklega í tengslum við viðskipti með verðbréf. Komið gat fyrir að lánanefndarmenn væru á ferðalögum og hafi ákærði þá hringt eða sent skeyti, sem formaður lánanefndar, til að fá viðhorf lánanefndarmanna til lánveitinga.
Ákærði kvaðst telja að Kaupþing banki hf. hafi notið góðra trygginga vegna viðskipta við MAT. Bæði hafi kaupandi lagt fram sjálfskuldarábyrgð, auk þess sem félög, sem staðið hafi að baki kaupunum, hafi verið í vörslum Kaupþings banka hf. Ef þau félög hefðu ekki staðið í skilum hefðu þau verið tekin yfir af bankanum. Jafngilti það því að Kaupþing banki hf. hafi haft hald í bréfunum. Kaupþing banki hf. hafi eftir viðskiptin verið í fjárhagslega mun betri stöðu en ef viðskiptin hefðu ekki átt sér stað. Engir fjármunir hafi farið út úr bankanum en inn komið sjálfskuldarábyrgð fjársterks aðila sem Kaupþing banki hf. hafi endað með að ganga á og innheimta nær helming skuldarinnar. Hefði Kaupþing banki hf. ekki selt hlutabréf í bankanum sjálfum hefði ekkert komið inn í bankann vegna þeirra enda bréfin verðlaus stuttu síðar. Af því leiði að ásakanir um fjártjón hafi verið fráleitar og hvað þá að yfir viðskiptunum hafi verið einhvers konar leynd eða þau falið í sér markaðsmisnotkun. Ákærði kvaðst telja að SAT hafi kynnt viðskipti með hlutabréfin fyrir MAT og þá væntanlega eftir að meðákærði, Ólafur, hafi, að beiðni meðákærða, Hreiðars Más, sent SAT boðið. Ákærði kvaðst geta sér þessa til, en nákvæmlega hvernig þetta hafi atvikast hafi hann ekki þekkt. Ákærði kvaðst ekki hafa þekkt ástæðu þess að söluhluturinn hafi verið 5.01% af hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Meðákærði, Hreiðar Már, hafi ákveðið efni tilboðsins til MAT. Ákærði hafi sjálfur ekki verið í sambandi við MAT vegna kaupanna, eða lögmann hans SS.
Það sem eftir ákærða væri haft í fjölmiðlum og gagnvart Kauphöll, samkvæmt d-lið IV. kafla ákæru, væri satt og rétt og ekkert rangt í þeirri umfjöllun. Þá hafi fréttatilkynning er Kaupþing banki hf. hafi sent út vegna viðskiptanna gefið rétta mynd af viðskiptunum. Hafi það verið mat bankans að tilkynningin uppfyllti allar þær kröfur sem um hana giltu, t.d. varðandi Kauphöllina. Kaupandi hlutabréfanna, MAT, hafi lagt fram sjálfskuldarábyrgð vegna kaupa hlutabréfa í bankanum og hafi það verið hans beina framlag. Ákærði kvaðst telja að lánanefndarmenn hefðu getað ályktað að bankinn fjármagnaði kaup bréfanna að fullu. Þá hafi þessi mál verið kynnt á stjórnarfundi í bankanum dagana 25. og 26. september 2008, en ákærði hafi gert grein fyrir þeim á fundinum. Stjórn bankans hafi verið ánægð með kaupin. Engin leynd hafi verið yfir aðkomu meðákærða, Ólafs, að viðskiptunum. Þá kvaðst ákærði ekki muna eftir umræðu um að flagga þyrfti aðkomu meðákærða, Ólafs, að kaupunum. Þá væri ljóst að komast mætti fram hjá slíkum vangaveltum, t.d. með því að bankinn lánaði beint til Q Iceland Finance ehf., kaupanda hlutabréfanna.
Ákærði, Ólafur Ólafsson, bar að tengsl hans við Kaupþing banka hf. mætti rekja til sameiningar Búnaðarbankans og Kaupþings en félagið Egla Invest, sem ákærði hafi átt hlut í, hefði við sameiningu þeirra orðið hluthafi í sameinuðum banka. Við yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Kaupþingi banka hf. haustið 2008 hafi eignarhlutur Eglu Invest í Kaupþingi banka hf. samtals numið 9,88%. Ákærði hafi ekki setið í stjórn þess félags en það hafi verið félag í óbeinni eigu Kjalars ehf., sem að stærstum hluta hafi verið í eigu ákærða. Frá því síðla árs 2006 hafi ákærði hvorki selt né keypt, eða félög í eigu ákærða, eitt einasta hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Hafi ákærði aldrei setið í stjórn, ráðum eða nefndum á vegum Kaupþings banka hf., forvera hans, né dótturfyrirtækja. Þá hafi ákærði aldrei verið starfsmaður Kaupþings banka hf. eða tengdra félaga.
MAT væri sonur fyrrum emírs af Katar, en eldri bróðir MAT hafi verið emírinn af Katar. Árið 1997 hafi MAT verið aðstoðarforsætisráðherra Katar. Hafi hann hætt afskiptum af opinberri stjórnsýslu í kringum árin 2003 og 2004 og farið að stunda sín eigin viðskipti. SAT væri frændi MAT. Hann hefði unnið fyrir MAT og rekið margvísleg viðskipti fyrir hann. Hafi ákærði fyrst kynnst umræddum mönnum haustið 2005 á skotveiðum á landi SS, sem hafi verið lögfræðingur þeirra. Á árunum 2006, 2007 og 2008 hafi ákærði hitt þá oft, en SAT oftar, við ýmis tækifæri.
Meðákærði, Sigurður, stjórnarformaður Kaupþings banka hf., hafi lýst yfir áhuga Kaupþings banka hf. á að hasla sér völl í Mið-Austurlöndum. Árið 2007 hafi ákærði komið á fundi milli SAT og meðákærða, Sigurðar, í London til að ræða mögulega ferð til Mið-Austurlanda í því skyni. SAT hafi aðstoðað við að skipuleggja þá ferð og komið á fundum bæði í Katar og í Dubai við ýmsa aðila. Í byrjun árs 2008 hafi SAT bent á Qatar Investments Authorities, sem væri í eigu ríkisins, sem mögulegan áhugaverðan kost fyrir Kaupþing banka hf., m.a. vegna hins mikla fjárhagslega styrks sjóðsins. Talið væri að sjóðurinn hefði yfir að ráða 80.000.000.000 Bandaríkjadala, eða 10 þúsund milljörðum króna. Hafi ákærði rætt hugmyndina við meðákærða, Sigurð. Í framhaldinu hafi SAT haft samband við forsætisráðherra Katar, sem jafnframt hafi verið forstjóri Qatar Investments Authorities. Í kjölfarið hafi átt sér stað fjórir fundir á tímabilinu mars til júlí 2008. Meðal annars hafi ákærði átt tvo einkafundi með forsætisráðherra Katar og forstjóra Qatar Investments Authorities og ráðgjafa hans. Annars hafi fundirnir verið við stjórnir Qatar Investments Authorities. Qatar Investments Authorities hafi látið KPMG og Barclays Bank framkvæma ítarlega áreiðanleikakönnun á Kaupþingi banka hf. Hafi ákærði engan þátt átt í viðræðum milli aðila og engan þátt tekið í vinnu við áreiðanleikakönnunina. Í júlí 2008 hafi komið fram að Qatar Investments Authorities litist vel á bankann en þeir gert athugasemdir við verðmæti viðskiptavildar tveggja dótturfélaga bankans, FIH í Danmörku og Kaupthing Singer & Friedlander í London. Hafi ákærði sent forsætisráðherra Katar bréf í kjölfarið. Hafi ákærði fengið þau skilaboð að rétt væri að taka upp þráðinn eftir Ramadan. Ramadan hafi lokið 30. september árið 2008.
Á fyrsta ársfjórðungi 2008 hafi farið af stað viðræður við SAT um mögulega fjárfestingu MAT í Alfesca. Ákærði hafi verið stjórnarformaður Alfesca á þessum tíma og einn stærsti hluthafi. Þeir frændur hafi sýnt félaginu mikinn áhuga og lýst yfir áhuga á því að fjárfesta í Alfesca. Umtalsverð vinna hafi farið í gang því tengd. Um mitt ár 2008 hafi verið gengið frá samningum um kaup á nýju óútgefnu hlutafé í Alfesca fyrir um 5.500.000.000 króna. Þannig myndi MAT eignast allt að 12,6% af hlutafé félagsins. Vegna bankahrunsins hafi samningsaðilar samþykkt að falla frá samningnum. Samhliða samningaviðræðum MAT um kaup á hlutum í Alfesca hafi verið rætt um stofnun fjárfestingarsjóðs. Fyrstu ítarlegu umræðurnar um formlega stofnun sjóðsins hafi átt sér stað 1. júní 2008 í London og verið á milli ákærða og SAT. Rætt hafi verið um að eignarhald fjárfestingarsjóðsins ætti að vera að jöfnu milli ákærða og MAT. Frekari ítarlegar umræður um sjóðinn hafi verið í júlí annars vegar í Doha og hins vegar í London. Það hafi síðar verið ákveðið að SAT yrði einnig meðstofnandi og eigandi sjóðsins. Þannig ættu þeir frændur meirihluta í sjóðnum. Hlutföllin yrðu þannig að MAT og ákærði ættu hvor um sig að eiga 42,85% og leggja til 115.000.000 evra en SAT 14,3% og leggja 50.000.000 evra til sjóðsins. Ýmis fjárfestingaverkefni hafi verið rædd. Mætti þar nefna fasteignaverkefni í Doha, í París, ýmis verkefni í Íran, kaup á hlutabréfum í fyrirtæki eins og Mitchell og Butler í Bretlandi og fleira. Jafnframt hafi verið rætt um fjárfestingu sem MAT hafi þá þegar átt í súkkulaðiverksmiðju í Belgíu. Ákærði hefði rætt þessi áform um fjárfestingarsjóðinn við meðákærða, Hreiðar Má, á fyrri stigum en farið ítarlega yfir áformin með meðákærða á fundi með honum og SAT í Doha 1. júlí 2008. Meðákærði hafi lýst yfir miklum áhuga af hálfu bankans og á samstarfi um slík verkefni. Félli það vel að hugmyndum bankans um frekara samstarf við aðila frá Mið-Austurlöndum. Meðákærði hafi lýst yfir vilja til þess að bankinn fjármagnaði sjóðinn þannig að hlutafé eða tryggingar væru minnst 50% af heildarfjármagni sjóðsins og að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. tæki að sér ákveðna umönnum og utanumhald um eignir sjóðsins. Rætt hafi verið um að lagðar yrðu fram ábyrgðir eða tryggingar fyrir fjármögnun sjóðsins. SAT og MAT hafi ætlað að leggja fram persónulegar ábyrgðir. Ákærði hafi hins vegar átt að leggja fram ábyrgðir eða tryggingar sem Kaupþing banki hf. mæti nægjanlega góðar. Til að stýra sjóðnum hafi verið ákveðið að nota skrifstofu Eglu Invest í London, en þar hafi MAT og SAT jafnframt átt að hafa starfsaðstöðu. Ákveðið hafi verið að skattaleg heimilisfesti sjóðsins yrði þar sem hagkvæmast yrði fyrir aðila, sem búið hefðu í mismunandi löndum. Ákærði hafi haft samband við KH, lögmann á lögmannsstofunni Fulltingi, vegna þessara fyrirætlana. KH hafi lýsti yfir áhuga stofunnar á því að aðstoða við uppsetningu á fjárfestingarsjóðnum og samningsgerð því samfara. Hafi hann mælt með því að TH, lögmaður á Fulltingi, kæmi að verkinu. Ákærði hafi í kjölfarið átt fund með TH í London um uppsetningu á sjóðnum og hún í framhaldinu átt fund í Lúxemborg með EH, lögfræðingi hjá Kaupthing Bank Luxembourg A.S.
Um mánaðamótin júlí ágúst 2008 hafi SAT, ásamt forstjóra Alfesca og fleirum, komið til Íslands, m.a. til laxveiða. Með þeim í för hafi verið meðákærði, Sigurður. Meðan á Íslandsdvölinni stóð hafi SAT farið á kynningarfund með meðákærða, Hreiðari Má, í Kaupþingi banka hf. Meðákærði hafi kynnt fyrir honum rekstur bankans, afkomu og uppbyggingu. Dagana 26. og 27. ágúst 2008 hafi MAT, SAT, meðákærði, Sigurður, ásamt ákærða og fleirum, verið við skotveiðar í Englandi. Þar hafi komið fram að SAT væri hrifinn af Kaupþingi banka hf. og þeir frændur borið traust til meðákærða, Sigurðar, og þeirra stjórnenda sem SAT hefði hitt. Í lok ágúst 2008 hafi meðákærði, Hreiðar Már, borið þá hugmynd upp við ákærða, hvort MAT kynni að vera áhugasamur um að kaupa hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Hafi ákærði borið þá hugmynd til SAT, sem honum hafi fundist áhugaverð. SAT hafi spurst fyrir um verð og kjör. Meðákærði hafi sagt að verðið tæki mið af markaðsvirði bréfanna og bankinn myndi fjármagna söluverðið gegn 50% eigin áhættu MAT. SAT hafi sagst hafa rætt við JK, sem hafi verið ráðgjafi forsætisráðherra, og forstjóra Qatar Investments Authorities, um áreiðanleikakönnun Qatar Investments Authorities á Kaupþingi banka hf. og hafi JK mælt með bankanum. Í byrjun september 2008 hafi SAT staðfest áhuga MAT á að kaupa hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Hlutabréf bankans hafi þá lækkað um 19% frá því viðræður hafi farið af stað við Qatar Investments Authorities.
Eftir að ljóst varð að MAT hygðist kaupa hlutabréf í Kaupþingi banka hf. hafi meðákærði, Hreiðar Már, lagt til að ábyrgðin sem MAT hefði samþykkt að veita, vegna fjárfestingarsjóðsins, yrði til að byrja með notuð til tryggingar fyrir 50% af kaupverði bréfanna, þar til búið væri að ganga frá formlegum tryggingum í eignum hans í Katar. SAT hafi einnig gengist í formlega ábyrgð fyrir 50.000.000 evra, sem hafi verið hans hlutur vegna fjárfestingarsjóðsins og ábyrgðin verið lögð fram til Kaupþings banka hf. Ábyrgð MAT hafi hins vegar hljóðað upp á 150.000.000 evra. Tilboð bankans hafi falið í sér að kaupandinn yrði einungis krafinn um tryggingar fyrir helmingi kaupverðsins, eða 90.000.000 evra, sem þá hafi verið 12.800.000.000 króna. Ljóst hafi verið að ef átt hafi að notast við ábyrgð sem MAT hefði þá þegar lagt fram eða stefndi að leggja fram, yrði að hámarka hana við 50% verðmæti þeirra hlutabréfa sem hann væri að kaupa, sem hafi verið mun lægri upphæð heldur en ábyrgðin hljóðaði upp á. Margar leiðir hafi sjálfsagt verið færar til þess að ná því markmiði en tillaga meðákærða, Hreiðars Más, hafi verið að notast við fyrirhugaðan fjárfestingarsjóð, sem ákærði, SAT og MAT hefðu ákveðið að stofna. Ákærði hafi samþykkt tillögu meðákærða að félag í eigu ákærða myndi fjármagna helming kaupanna til skamms tíma, þ.e.a.s. þriggja mánaða, enda ljóst að það skipti engu varðandi fjárhagsáhættu bankans og því fylgdi hvorki áhætta né hagnaðarvon fyrir ákærða. Persónuleg ábyrgð MAT næði til félags hans. Þannig hafi verið búið að tryggja að hann bæri aðeins ábyrgð á 50% kaupverði bréfanna. Innan 90 daga ætti að ganga frá fjármögnun MAT með veði í landi eða öðrum eigum og hreinsa upp fjármögnunina í gegnum fjárfestingarsjóðinn, sem hugsaður hafi verið til annarra verkefna. Aðkoma ákærða að umræddri fjármögnun hafi því aðeins verið ætluð til skamms tíma. Ákærði hafi aldrei átti neinn hlut og ekki átt að njóta nokkurs hagnaðar af hlutafjárviðskiptum MAT. Sjálfir kaupendurnir hafi verið mjög áhugasamir um fjárfestinguna. Þann 16. september 2008, á miðjum Ramadam, hafi ákærði, ásamt meðákærða, Magnúsi, framkvæmdastjóra Kaupthing Bank Luxembourg S.A., farið til Doha til að hitta SAT og MAT. Ákærði hafi, án meðákærða, Magnúsar, hitt SAT og átt með honum langan fund. Eftir sólsetur hafi þeir þrír farið á búgarð MAT til fundar við hann. MAT, SAT og ákærði hafi fyrst haldið fund og rætt hugmyndir um fjárfestingarsjóðinn og næstu skref. Eins hafi verið gengið frá því á þessum fundi að SAT yrði meðfjárfestir í sjóðnum. Meðákærði, Magnús, hafi ekki setið þann fund, en hafi síðan verið kallaður inn á fundinn. Hafi hann afhent þeim gögn frá bankanum sem sennilega hafi tengst stofnun félagsins í eigu MAT. Ákærði hafi ekki þekkt innihald gagnanna og ekki skipt sér af frágangi þeirra.
Vegna þátttöku ákærða í fyrirhuguðum fjárfestingarsjóði hafi Kaupthing Bank Luxembourg S.A. lagt til að Gerland Assets Ltd., sem bankinn hafði sjálfur stofnað 18. júlí 2008, yrði notað í þessu sambandi. Þann 20. september 2008 hafi ákærði tekið félagið yfir og skrifað samtímis undir hluthafasamþykkt. Hún hafi veitt starfsmönnum Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem átt hafi sæti í stjórn félagsins, umboð til að taka lán allt að 150.000.000 evra. Lánið hafi átt að vera ótryggt fyrstu 90 dagana en skyldi endurfjármagnað til þriggja ára innan 90 daga og það tryggt með veðum sem bankinn teldi fullnægjandi. Þann 20. september 2008 hafi verið haldinn fundur á skrifstofu ákærða í London með SS, lögmanni sheikanna, og meðákærða, Magnúsi. Þar hafi meðákærði afhent SS gögn, sem tengst hafi viðskiptum sheikanna við bankann. Á sama fundi hafi SS skýrt frá sjónarmiðum sheikanna og opinberri tilkynningu viðskiptanna. Á sama fundi hafi SS óskað eftir því að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. myndi opna sjálfstætt og sérstakt félag á Kýpur til að vera eignarhaldsfélag um hlutinn í Alfesca. Þann 21. september 2008, eða daginn eftir, hafi ákærði fengið send drög að fréttatilkynningu um kaup MAT á hlutum í Kaupþingi banka hf. frá starfsmönnum Kaupþings banka hf. Hafi ákærði talið fréttatilkynninguna gefa rétta mynd af viðskiptunum og vera í samræmi við það sem fram hafi komið á fundinum deginum áður með SS. Ákærði hafi ekki náð tali af SS því S hafi verið í flugi til Doha með skjalapakkann í töskunni. Í framhaldi hafi ákærði hringt í GJO, íslenskan lögmann MAT og stjórnarmann í Q Iceland Holding ehf., og borið undir hann innihald tilkynningarinnar. Hafi GJO ekki gert neina athugasemd við tilkynninguna. Ákærði hafi svaraði því í tölvupósti ,,Er ok.“ Ákærði kvaðst ítreka að öll formleg samskipti milli Kaupþings banka hf. og sheikanna eða lögmanna þeirra, vegna hlutabréfakaupanna, hafi verið bein og milliliðalaus og án þátttöku ákærða. Öll skjalagerð, sem hafi verið margvísleg og náð yfir mörg félög í þeirra eigu, hafi verið bein og milliliðalaus milli bankans og þeirra. Í eitt skipti hafi ákærði áframsent skjöl í tölvupósti en þau líka farið eftir formlegri leið lögmanna sheikanna til bankans. Ákærði hafi engin samskipti átt við nokkurn stjórnarmann bankans vegna fjármögnunar á kaupum MAT á 5,01 % hlut í bankanum. Ákærði hafi aldrei rætt við lánanefndarmenn eða stjórnarmenn bankans. Ákærði hafi einungis átt samskipti við meðákærða, Hreiðar Má. Ákærði hafi aldrei óskað eftir láni frá Kaupþingi banka hf. f.h. Gerlands Assets Ltd., og aldrei skrifað undir lánsfjárbeiðni. Ákærði hafi aldrei litið svo á að það væri verið að veita Gerlandi Assets Ltd. sjálfstætt lán, heldur einvörðungu verið að verða við beiðni bankans um að fjármagna sölu á hlutabréfum í bankanum, þannig að hægt væri að nýta fyrirliggjandi ábyrgð MAT og takmarka áhættu hans á fjárfestingunni við 50%, eins og tilboð bankans hafi kveðið á um.
Ákærði hafi talið þessi viðskipti milli bankans og MAT um hlutabréf í Kaupþingi banka hf. góð fyrir bankann. Ákærði hafi haft fulla trú á því að forstjóri bankans hefði umboð til þess að selja þessi hlutabréf í bankanum og fjármagna þau með þeim hætti sem hann sjálfur hafi lagt til. Ákærði hafi ekki séð neina áhættu fyrir bankann samfara þessum viðskiptum og þau einungis getað verið bankanum til hagsbóta. Ákærða hafi verið kynnt að bankinn hygðist fjármagna kaup MAT á hlutabréfum að jafnvirði 200.000.000 evra, sem reynst hafi 180.000.000 evra, gegn 100.000.000 evra sjálfskuldarábyrgð MAT, sem reynst hafi 90.000.000 evra. Ákærði hefði samþykkt að þessi fjármögnun mætti flæða í gegnum þau fyrirtæki sem sett hefðu verið á stofn í tengslum við fjárfestingarsjóð ákærða, SAT og MAT. Að öðru leyti hafi ákærði ekki komið að tæknilegri útfærslu kaupanna og ekki verið um hana kunnugt. Hafi einhverjum vinnuferlum, frágangi skjala, eða samþykktum í nefndum og ráðum Kaupþings banka hf. verið ábótavant, hafi það verið eitthvað sem ákærði hafi enga vitneskju haft um og ekki haft aðstöðu til að hafa vitneskju um það. Ákærði kvaðst fyrst hafa séð svonefndan strúktúr að viðskiptum MAT með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. á rannsóknarstigi málsins. Ákærði kvaðst í viðskiptum við Kaupþing banka hf. aldrei hafa lagt fram persónuleg veð fyrir persónulegum fjárfestingum sínum. Þegar um félög í eigu ákærða hafi verið að ræða hafi ávallt verið lagðar fram tryggingar eða veð. Lán til Gerlands Assets Ltd. hafi verið sérstakt að þessu leyti, en lánið hafi einungis verið til 90 daga og átt að greiðast upp þegar MAT myndi leggja fram aðrar tryggingar fyrir láninu. Það skyldi þar með hreinsað úr strúktúrnum en þá tækju við ný lán sem yrðu veðtryggð til þriggja ára. Fjárhagsleg áhætta vegna viðskipta með hlutabréfin hafi öll verið hjá MAT. Félagið Gerland Assets Ltd. hafi getað tapað á þessum viðskiptum. Það hafi í raun orðið niðurstaðan því slitastjórn Kaupþings banka hf. hafi tekið félagið yfir. Hefði bankinn verið með verðmæti í höndum sem hafi verið undirliggjandi hlutabréf í Kaupþingi banka hf., hefði verið gengið eftir því. Það hafi ekki verið gert því hlutabréfin hafi orðið verðlaus. Ekki hafi staðið til að Gerland Assets Ltd. færi af stað í sín fjárfestingarverkefni á meðan lán til félagsins hafi verið áhvílandi á félaginu. Þegar því yrði aflétt hafi átt að fara af stað með SAT og MAT í gegnum félög þeirra. Ákærði kvaðst ekki viss, eftir að hafa séð framburð SAT og MAT, við lögreglurannsókn málsins, að þeir hafi vitað að skipulag í gegnum fjárfestingarsjóð þeirra og ákærða yrði notað til að koma lánsfénu frá Kaupþingi banka hf. til kaupanda bréfanna, Q Iceland Finance ehf. Það gæfu svör þeirra hjá lögreglu til kynna.
Ákærði kvaðst ekki hafa séð svokallaða glærukynningu sem starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hefðu unnið að í tengslum við viðskiptin með hlutabréfin í Kaupþingi banka hf. BÓ lögmaður hafi ekki tekið þátt í vinnu við þennan strúktúr sem lögmaður eða ráðgjafi ákærða. BÓ hafi hins vegar á sínum tíma aðstoðað ákærða og fjölskyldu hans við flutning til London vegna skattalegra mála, sem hafi verið flókin. EH, yfirlögfræðingur Kaupthing Bank Luxembourg S.A., og BÓ hafi sjálfsagt verið að huga að skattalegum atriðum í sambandi við þessi viðskipti. Það hafi sjálfsagt leitt af sér einhvern misskilning varðandi það að ákærði ætti í gegnum Gerland Assets Ltd. að njóta einhvers hagnaðar af kaupum á bréfum í Kaupþingi banka hf. Svo hafi hins vegar ekki átt að vera. Ákærði hafi ekki verið að taka hagnaðartengt lán með þessum viðskiptum. Þá hafi vinna þessara lögfræðinga augljóslega verið á vinnslustigi þar sem gögn hafi borið með sér að vera vinnuskjöl. Ákærði kvaðst ekki þekkja til umræðu um að flagga þyrfti aðkomu ákærða að þessum viðskiptum. Hafi hann ekki verið inni í neinni umræðu um slíkt.
Að því er varðaði viðtal við ákærða í Kastljósi 19. janúar 2009 hafi ákærði rætt vítt og breytt um viðskipti MAT með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Ákærði hafi talið að MAT hafi tapað verulegum fjármunum í þessum viðskiptum. Ákærði kvaðst ekki kannast við að hafa gefið nein fyrirmæli um að lán til félagsins Brook Trading Ltd. skyldi notað til að greiða upp lán Serval Trading Group Corp. Hafi ákærði að engu leyti komið að þeirri ákvörðun. Þá vissi ákærði ekki hver hafi átt frumkvæðið að því. SAT hafi komið að máli við ákærða og viljað gera upp eftirstöðvar af láni til Serval Trading Group Corp. Seðlabanki Íslands hafi verið lokaður og lánið í íslenskum krónum. SAT hafi vantað íslenskar krónur og spurt ákærða hvort ákærði gæti gengið frá láninu. Hafi ákærði samþykkt það og greitt 401.000.000 króna. Ákærði kvaðst kannast við fréttatilkynningu er Kaupþing banki hf. hafi sent frá sér við kaup MAT á 5.01% hlut í Kaupþingi banka hf. Ákærði kvaðst þeirrar skoðunar að fréttatilkynningin hafi gefið rétta mynd af kaupum á hlutabréfum í bankanum. Aldrei hafi verið rætt við ákærða um að koma þyrfti fram í tilkynningunni aðkoma ákærða að viðskiptunum. Hafi ákærði talið að ekki þyrfti í tilvikum sem þessum að geta um fjármögnun kaupa hlutabréfa. Ákærði kvaðst sjálfur ekki hafa látið frá sér efni í tilkynninguna. Ákærði hafi setið fund með meðákærða, Magnúsi, og SS í London að morgni 20. september 2008. Þar hafi tilkynninguna borið á góma. Ákærði hafi hins vegar ekki verið textahöfundur að tilkynningunni. Meðákærði, Magnús, hafi afhent SS gögn. Á fundinum hafi komið fram ósk frá SS um að meðákærði, Magnús, myndi beita sér fyrir því að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. myndi opna eignarhaldsfélag fyrir sheikana á Kýpur vegna annarra viðskipta. Einnig hafi verið rætt um fréttatilkynningu. Næsta dag hafi SS farið til Doha. Ákærði hafi fengið tölvupóst frá samskiptasviði Kaupþings banka hf. þar sem fullsköpuð fréttatilkynning hafi legið fyrir. Ákærði hafi ekki talið í sínum verkahring að taka afstöðu til hennar. Hafi ákærði gert það eina sem hann hafi getað, sem hafi verið að reyna að hringja í SS. Þar sem ekki hafi verið hægt að ná í SS, þar sem hann hafi verið í flugi, hafi ákærði hringt í lögmann þeirra, GJO. GJO hafi engar athugasemdir gert. Þar með hafi afskiptum ákærða af tilkynningunni lokið. Að því er varðaði ummæli ákærða samkvæmt c lið IV. kafla ákæru kvaðst ákærði þeirrar skoðunar að ummælin hefðu verið rétt. Ummælin hafi gefið rétta mynd af viðskiptum.
Ákærði, Magnús Guðmundsson, kvaðst hafa komið til starfa hjá Kaupþingi banka hf. á árinu 1994. Fjórum árum síðar, eða 1998, hafi ákærði flutt búferlum til Lúxemborgar til þess að stofna fyrsta dótturfyrirtæki Kaupþings banka á erlendri grundu, Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Hafi ákærði veitt því dótturfyrirtæki forstöðu í áratug eða þar til að bankinn hafi farið í greiðslustöðvun, eins og aðrar einingar innan Kaupþings samstæðunnar. Í september 2008 hafi í stjórn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. setið meðákærðu, Hreiðar Már og Sigurður, og BJ. Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi verið stór alþjóðlegur banki með útibú í Belgíu og Sviss. Einkabankaþjónusta hafi verið meginstarfsemin, en í tengslum við hana verið veitt ráðgjöf varðandi uppsetningu eignarhaldsfélaga. Meðan á greiðslustöðvun Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi staðið hafi ákærði í 9 mánuði unnið með skilanefnd bankans við það að endurskipuleggja bankann og tryggja hag kröfuhafa. Hafi ákærði unnið náið með Fjármálaeftirlitinu í Lúxemborg, Seðlabanka Lúxemborgar og Seðlabanka Evrópu. Einnig hafi ákærði unnið með skilanefnd og þeim kröfuhöfum sem komið hafi að bankanum. Þegar þessari vinnu hafi lokið hafi bankinn verið endurreistur sem Bank Haveland. Hafi ákærði starfað sem bankastjóri þess banka allt þar til að ákærði hafi verið handtekinn af sérstökum saksóknara í maí 2010 í tengslum við rannsókn þessa máls. Ákærði kvaðst í starfi sínu sem framkvæmdastjóri Kaupthing Bank Luxembourg A.S. ekki hafa haft neinar heimildir gagnvart móðurfélaginu á Íslandi. Þannig hafi ákærði ekki getað gefið einstökum starfsmönnum Kaupþings banka hf. á Íslandi fyrirmæli, né ritað undir skjöl á Íslandi í bankanum svo skuldbindandi væri fyrir hann. Ekki hafi ákærði þekkt til lánareglna í Kaupþingi banka hf., en þær reglur hafi verið frábrugðnar þeim sem gilt hafi í Lúxemborg.
Einhverjum fáum dögum fyrir 15. september 2008 hafi ákærði fyrst frétt af fyrirhugaðri fjárfestingu MAT í hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Verið geti að það hafi verið dagana 8. eða 9. september. Ákærði kvaðst hafa verið í hádegismat í London með meðákærðu, Hreiðari Má og Ólafi, þar sem meðákærði, Hreiðar, hafi greint frá því að til stæði að MAT myndi kaupa bréf í bankanum. Fyrir þann tíma hafi ákærða verið ljóst að til hafi staðið af hálfu MAT að taka þátt í kaupum á skuldabréfi gefnu út af Deutsche Bank með afleiðutengda skuldatryggingu á Kaupþing banka hf. Ákærði kvaðst ekki vita hver hafi átt hugmynd að viðskiptum við MAT. Ákærði kvaðst hafa frétt frá meðákærða, Hreiðari Má, að til stæði að senda fulltrúa bankans til Katar vegna viðskiptanna. Hafi ákærði sóst eftir því að fara í þá ferð þar sem ákærði hafi séð tækifæri í því að ná auðugum manni í einkabankaþjónustu Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Ákærði, ásamt meðákærða, Ólafi, hafi haldið til Katar og lent að morgni dags. Á meðan beðið hafi verið eftir því að sól settist í Katar, hafi ákærði fundað með forstjóra Kaupþings í Katar. Um kvöldið hafi ákærðu og SAT farið til fundar við MAT. Hlutverk ákærða í ferðinni hafi verið að fá MAT í einkabankaþjónustu við Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og bera til hans skjöl sem gerð hefðu verið í lögfræðideild bankans í Lúxemborg. Hafi ákærði haft þá tilfinningu að viðskiptin hefðu þegar verið komin á er ákærði hafi komið til fundar við MAT. Hafi ákærði skynjað það svo að MAT ætlaði að ganga til viðskipta um kaup á hlutabréfunum. Hafi ákærði ekki þurft að útskýra fyrir honum neitt varðandi viðskiptin. Hinn svokallaði strúktúr viðskiptanna hafi ekki verið kynntur á þessum fundi. Kynning sem EH, yfirlögfræðingur Kaupthing Bank Luxembourg S.A., hefði verið búinn að undirbúa hafi t.a.m. ekki verið kynnt. Fundurinn hafi verið stuttur og staðið í 5 til 10 mínútur. Um hafi verið að ræða eins konar kurteisisfund. Áður en ákærði hafi komið til fundarins hafi meðákærði, Ólafur, átt fund með MAT og SAT. Ákærði kvaðst þess fullviss að MAT hafi vitað um aðkomu meðákærða, Ólafs, að viðskiptunum. Í þeim skjölum er ákærði hafi afhent á þessum fundi hafi það komið fram. Í hluthafasamþykkt fyrir Serval Trading Group Corp., sem hafi verið eitt af þeim skjölum sem MAT hafi þurft að undirrita, hafi komið fram hvernig láni frá Kaupþingi banka hf. skyldi ráðstafað og nöfn félaga í því tilliti komið fram. Þar hafi komið fram um fjárfestingarfélag meðákærða, Ólafs. Kvaðst ákærði þeirrar skoðunar að ekki hafi nægjanlega skýrt komið fram í skýrslum er lögregla hefði tekið af MAT og SAT að hvaða marki þeir hafi vitað af aðkomu meðákærða, Ólafs, að viðskiptunum. Lögregluyfirheyrslan hafi ekki verið nægjanlega vönduð að því leyti. Meðákærði hafi tjáð ákærða að á fundi meðákærða með MAT og SAT hafi verið rætt um sameiginleg fjárfestingarverkefni þeirra þriggja. Ákærði kvaðst hafa verið í sambandi við meðákærða, Hreiðar Má, vegna fararinnar en meðákærði hafi beðið ákærða um að fara þessa ferð. Eins hafi ákærði verið í sambandi við meðákærða, Sigurð, vegna fararinnar. Þeir báðir hafi viljað vita um niðurstöðu fundarins. Ákærði kvaðst telja að hann hefði verið með í fórum sínum á leið sinni á fundinn drög að skjölum vegna þessara fyrirhuguðu viðskipta. Hafi ákærði reiknað með að þurfa að fara með MAT yfir skjölin á fundinum og því undirbúið þau með hliðsjón af því. Um hafi verið að ræða svonefnd opnunarskjöl viðskipta. Skjölin hafi hins vegar verið sett til hliðar á fundinum og sagt að lögmenn myndu í framhaldi sjá um skjölin. Ákærðu hafi flogið til baka frá Katar samdægurs, eða 16. september 2008. Við komu til Lúxemborgar hafi lögfræðideild bankans tekið til við að vinna áfram að gerð skjalanna. Ákærði hafi farið til London að morgni 19. september 2008. Næsta dag, eða 20. september 2008, hafi ákærði hitt á fundi meðákærða, Ólaf, og lögfræðilegan ráðgjafa MAT, SS. Fundurinn hafi verið á skrifstofu meðákærða í London. Hlutverk ákærða á fundinum hafi verið að afhenda SS skjölin sem komin hafi verið í endanlega mynd. Á meðal þessara gagna hafi verið sjálfskuldarábyrgð fyrir MAT til að rita undir í tengslum við viðskiptin. SS hafi átt að fara til Katar með skjölin til að afla nauðsynlegra undirritana og senda þau til baka. Það hafi gengið eftir og skjölin síðar borist til Lúxemborgar.
Ákærði kvaðst ekki hafa farið þess á leit við EH, yfirmann lögfræðideildar Kaupthing Bank Luxembourg S.A., að hann hannaði svokallaðan strúktúr að viðskiptunum. EH hafi verið yfir lögfræðisviði bankans og ákærði hans næsti yfirmaður. Ákærði hafi gefið EH grófa hugmynd að viðskiptum MAT með hlutabréf í bankanum. Ákærði hafi sagt að stofna ætti sameiginlegt fjárfestingarfélag MAT og meðákærða, Ólafs. Kaupþing banki hf. myndi lána 50.000.000 Bandaríkjadala vegna kaupa á skuldabréfum útgefnum af Deutsche Bank tryggðum með CLN. Þetta hafi verið stóra myndin. EH hafi í framhaldi farið að vinna að þessum viðskiptum og átt mörg samskipti við lögmennina BÓ og TH. Ákærði hafi hins vegar ekki gefið EH nákvæm fyrirmæli varðandi fyrirkomulagið. Í þeim strúktúr sem EH hafi sett upp hafi síðar komið fyrir hagnaðartengt lán tengt viðskiptunum. Það hafi verið eitthvað sem EH hafi komið inn með sjálfur. Ákærði hafi ekki gefið nein fyrirmæli um slíkt. Væri það í raun það eina sem rangt væri við þá glærukynningu sem fram hafi komið við rannsókn málsins hjá lögreglu. Ákærði hafi í raun ekki gefið fyrirmæli um að hanna ætti einhvern strúktúr. Fyrirmælin hafi einungis lotið að grófri hugmynd að viðskiptunum. EH hafi án vafa sett viðskiptin upp þannig að sem hagstæðast væri fyrir viðskiptavini bankans. Þessi strúktúr hafi ekki verið sýndur MAT. Ákærði kvaðst ekki muna hvort hann hafi leiðrétt þetta atriði í samtölum við EH. Þrátt fyrir aðkomu meðákærða, Ólafs, að viðskiptunum hafi meðákærði ekki átt að fá neinn hagnað af viðskiptunum. Félag hans hafi einungis verið notað sem milliliður við að koma lánsfé frá Kaupþingi banka hf. til fjárfestingarfélags á Kýpur, sem aftur hafi komið fénu til Q Iceland Finance ehf., sem keypt hafi hlutabréfin í Kaupþingi banka hf. Hagur meðákærða, Ólafs, af þessum viðskiptum hafi sjálfsagt verið fólginn í því að sterkur fjárfestir hafi keypt umtalsverðan hlut í bankanum, sem meðákærði hafi átt stóran hluta í. Á engan hátt hafi verið leynt aðkomu meðákærða, Ólafs, að kaupunum. Ákærði kvaðst ekki vita ástæðu þess að BÓ lögmanni hafi verið blandað í vinnu við gerð viðskiptanna. Að því er varðaði flöggunarskyldu hafi lögfræðideild Kaupthing Bank Luxembourg S.A. verið mjög varkár er komið hafi að slíkum atriðum. Af þeim ástæðum hafi deildin látið kanna sérstaklega um skyldu til flöggunar. Ákærði kvaðst ekki þekkja ástæðu þess að SAT hafi komið inn í strúktúrinn á síðari tímum. Án þess að ákærði myndi það væri ekki útilokað að ákærði hafi verið milligöngumaður um að koma upplýsingum um það atriði til EH. Uppfæra hafi þurft skjöl sem útbúin hafi verið miðað við þær upplýsingar. Upplýsingar um þetta atriði geti hafa komið frá SS eða meðákærða, Ólafi.
Meðákærði, Heiðar Már, hafi sent fundarboð um símafund 18. september 2008. Ákærði kvaðst ekki geta staðfest að hafa verið á fundinum, þó svo gögn málsins bentu til þess. Ákærði hafi sennilega verið í Lúxemborg á þessum tíma. Ákærði kvaðst kannast við lán sem Kaupþing banki hf. hafi veitt Brooks Trading Ltd. í september 2008, að fjárhæð 50.000.000 bandaríkjadalir. Ákærði hafi sent meðákærða, Hreiðari Má, upplýsingar um hver ætti að vera lántaki að láni til MAT. Lánið hafi verið tengt CLN-viðskiptum sem MAT hafi áformað að ráðast í. Útreiknaður hagnaður af þeim lánum hafi að lágmarki verið 50.000.000 Bandaríkjadala. Það hafi verið reiknað út. Það hafi leitt til rangrar hugtakanotkunar sem m.a. hafi komið fram í öðrum tölvupóstsamskiptum síðar. Þetta tiltekna lán hafi hins vegar verið venjulegt lán sem viðskiptastjórinn HBL hafi afgreitt með lánsbeiðni til lánanefndar stjórnar með beiðni um afgreiðslu á láni til félagsins Brooks Trading Ltd. Lánið hafi átt að vera tryggt, en það hafi komið fram í lánsbeiðninni, með veði í skuldabréfum útgefnum af Deutsche Bank, tengt skuldatryggingarálagi Kaupþings banka hf. Um hafi verið að ræða örugg viðskipti, því annað tveggja hafi þurft að koma til svo tap yrði á viðskiptunum; fall Deutsche Bank eða Kaupþings banka hf. Ákærði ætti sök á því að röng hugtakanotkun hafi farið af stað varðandi þetta lán. Aldrei hafi staðið til að um væri að ræða hagnaðartengt lán. Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi útvegað félagið Brooks Trading Ltd., svo sem venja hafi staðið til í þjónustu við viðskiptavini. Fyrirtækjaráðgjafi á Bresku Jómfrúaeyjum hafi stofnað félagið. Starfsmenn lögfræðisviðs Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi örugglega hringt í KVE og sagt að það vantaði félag fyrir viðskipti sem ættu að eiga sér stað. Ákærði hafi sjálfur ekki verið í sambandi við KVE vegna málsins. Hafi bankinn oft útvegað félög fyrir viðskiptavini bankans. Ákærði hafi gefið EH fyrirmæli um að útvega félög tengd viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Lán til Brooks Trading Ltd. hafi ekki verið þóknun til handa MAT fyrir að kaupa hlutabréfin í Kaupþingi banka hf. Ákærði kvaðst ekki hafa litið svo á að innstæða á reikningi Brooks Trading Ltd., eftir að andvirði lánsins hafi verið greitt inn á reikning félagsins, væri því laust til ráðstöfunar. Í skjölum sem lögð hafi verið inn til lánanefndar stjórnar vegna lánveitingarinnar hafi komið fram að lánið yrði tryggt með veði í CLN-viðskiptunum. Ákærði kvaðst ekki þekkja ástæður þess að lán til Brooks Trading Ltd. hafi verið notað til að greiða upp lán Serval Trading Group Corp. 8. október 2008. Hafi ákærði ekkert komið að þeirri ráðstöfun. Ákærði kvaðst líta svo á að í þeim tilvikum sem starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi setið í stjórn félaga sem sett hefðu verið á stofn af bankanum og lánað til, hafi starfsmennirnir haft að leiðarljósi hagsmuni bankans og látið þá ganga framar öðru. Ákærði kvaðst telja að brotið hafi verið gegn lögum með ráðstöfun fjármuna á grundvelli lánsins til Brooks Trading Ltd. til greiðslu lánsins til Serval Trading Group Corp. 8. október. Félagið hafi ekki getað ráðstafað fénu að eigin vild. Félagið hafi verið bundið af reglum hlutafélagalaga. MAT hafi átt að bera alla áhættu af viðskiptum með bréf í Kaupþingi banka hf. enda eigandi félagsins Q Iceland Finance ehf. Enginn hagnaður hafi átt að renna til meðákærða, Ólafs. Ákærði kvaðst ekki vita hver hefði tekið ákvörðun um að veita félaginu Gerland Assets Ltd. lán að fjárhæð 12.800.000.000 króna í september 2008. Þá hafi ákærði ekki þekkt hvaða lánsform hafi verið notað varðandi lánið. Ákærði hafi hins vegar vitað að umrætt félag hafi verið hluti af sameiginlegu fjárfestingarfélagi MAT, SAT og meðákærða, Ólafs. Ekki hafi verið nein leynd yfir láni Kaupþings banka hf. til þessa félags.
Fundur hafi verið haldinn á skrifstofu meðákærða, Ólafs, í London. Á þeim fundi hafi verið ákærði, ásamt meðákærða og SS, lögmanni MAT. Á fundinum hafi verið rætt stuttlega um hvers konar tilkynning myndi koma fram af hálfu Kaupþings banka hf. vegna hlutabréfakaupanna og hvað væri heimilt að nýta frá MAT í þeirri tilkynningu. Síðan hafi ákærði ekki vitað meira um það atriði fyrr en JS, yfirmaður samskiptasviðs Kaupþings banka hf., hafi hringt í ákærða. Þá hafi meðákærði, Hreiðar Már, verið búinn að hringja í JS og sagt að til stæði að MAT myndi kaupa hlutabréf í bankanum. Ákærði hafi sent á JS grunnupplýsingar um kaupin, svo sem varðandi nafn kaupandans. Á þeim tíma hafi legið fyrir drög nr. 2 af tilkynningunni, en þar hafi verið misfarið með nafn kaupandans. Fréttatilkynningin hafi verið á ábyrgð samskiptasviðs Kaupþings banka hf. Ekkert rangt hafi hins vegar verið í tilkynningunni. Ákærða hafi verið annt um að ekkert rangt væri í henni og því beðið um það sérstaklega að fá að sjá lokaeintak hennar til að ákærði gæti verið viss um að tilvitnanir í MAT væru réttar. Hafi það verið í samhengi við það sem rætt hafi verið um á fundinum með SS og meðákærða, Ólafi, í London. Hafi ákærði hringt í meðákærða, Ólaf, og meðákærði fengið lokaeintak af tilkynningunni. Hann hafi borið hana undir einhvern fyrir hönd MAT. Ákærði kvaðst þeirrar skoðunar að tilkynningin hafi gefið rétta mynd af þeim viðskiptum sem átt hafi sér stað. Ekki hafi verið venjan að geta um fjármögnun kaupa í viðlíka tilfellum.
EH kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupthing Bank Luxembourg S.A. í september 2008. Næstu yfirmenn hans hafi verið bankastjórar bankans, ákærði, Magnús, og BJ. Fyrirmæli til EH vegna starfa í bankanum hafi einkum komið frá bankastjórunum tveim. Bankinn hafi á þessum tíma verið með mjög marga viðskiptavini í einkabankaþjónustu. Í upphafi hafi bankinn verið nánast einvörðungu með einkabankaþjónustu, en síðar þróast út í fyrirtækjaþjónustu til viðbótar. Hlutverk lögfræðisviðs bankans hafi verið stuðningur við einkabankaþjónustuna. Í því hafi meðal annars verið fólgið að setja upp félög og yfirferð skattalegra atriða fyrir viðskiptavini. Undir lok starfseminnar hafi EH verið með um 20 starfsmenn í sinni deild. Á þeim tíma hafi deildin verið orðin umsvifameiri en áður en til viðbótar hafi komið umsýsla með verðbréfasjóði og eignarhaldsfélög. Lögfræðideildin hafi ýmist séð um að stofna félög fyrir viðskiptavini sína eða að afla félaganna fyrir utan bankann. Sömuleiðis hafi þjónustuaðilar utan bankans getað gert það. Starfsmenn bankans hafi getað stofnað félög í Lúxemborg, en ef stofna hafi þurft félög í öðrum löndum hafi þurft að fá þjónustuaðila til þess. Ákærði, Magnús, hafi á fyrri stigum sjálfur haft með höndum slíka vinnu fyrir viðskiptavini bankans, en á síðari tímum hafi sú vinna færst yfir á lögfræðisviðið. Að því er varðaði stofnun félaga vegna kaupa MAT á hlutafé í Kaupþingi banka hf. hafi verið um tíðkaða starfsemi að ræða sem ekki hafi verið frábrugðin annarri sams konar vinnu starfsmanna bankans.
Að því er varðaði lán til félagsins Brooks Trading Ltd. í september 2008, hafi Kaupþing banki hf. á Íslandi veitt það lán. Lánsskjöl vegna viðskiptanna hafi verið dregin upp í Kaupþingi banka hf. Hafi starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. engar heimildir eða boðvald haft gagnvart Kaupþingi banka hf. til að mæla fyrir um lánveitingar fyrir hönd bankans. Ekki hafi starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. getað stýrt útgreiðslu lána Kaupþings banka hf. Þá hafi það ekki verið hlutverk starfsmanna Kaupthing Bank Luxembourg S.A. að hafa eftirlit með því að starfsmenn Kaupþings banka hf. færu eftir réttum lánareglum við afgreiðslur lána. Lánið til Brooks Trading Ltd. hafi í raun verið peningamarkaðslán, en samskipti á þessum tíma milli Kaupþings banka hf. á Íslandi og Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi gefið til kynna að um hafi verið að ræða fyrir fram greiddan hagnað af svonefndum CLN-viðskiptum. Upphaflega hafi félagið Brooks Trading Ltd. verið sett upp í þeim tilgangi að vera aðili að CLN-viðskiptum, en þau hefðu ekki gengið í gegn og greiðslan því verið veitt áður en viðskiptin voru sett í gang. Ákærði kvaðst ekki þekkja frá hverjum hafi komið að lánið yrði skilgreint sem fyrir fram greiddur hagnaður. EH kvaðst ekki hafa verið í vinnu sinni á starfsstöð í Lúxemborg 19. september 2008 er lán til Brooks Trading Ltd. hafi verið greitt út. Hann hafi hins vegar þekkt til þess að gengið hafi verið frá undirritun nauðsynlegra skjala varðandi lánveitinguna þá dagana. Ákærði kvaðst hins vegar ekki geta fullyrt hvort lánið hafi verið greitt út áður en nauðsynleg skjöl hafi verið undirrituð vegna lánveitingarinnar. Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi gengið frá hluthafasamþykkt fyrir félagið Brooks Trading Ltd. fyrir eigandann, MAT, til að rita undir. Í samþykktinni hafi komið fram að lánið skyldi vera án trygginga og lánsformið vera peningamarkaðslán. Upplýsingar um þessi atriði hafi væntanlega komið frá lánveitanda, Kaupþingi banka hf. Á þessum tíma hafi starfsmenn bankans í Lúxemborg unnið með starfsmönnum Kaupþings banka hf. að málinu. Um hafi verið að ræða starfsmennina SÖS og LS frá Lúxemborg og viðskiptastjórana HBL og GÞG frá Kaupþingi banka hf. Þessir aðilar hafi starfað mest í kringum skjalagerð og uppsetningu viðskipta. EH kvaðst ekki geta svarað því af hverju komið hafi greiðslufyrirmæli um að leggja fjárhæðina inn á reikning Brooks Trading Ltd. í Lúxemborg en ekki á Íslandi. Inni á reikningi Brooks Trading Ltd. hafi verið unnt að velja svokallað ,,time deposit“. Sá tími hafi getað verið 3, 6 eða 12 mánuðir, allt eftir því um hvað hafi verið samið. Samkomulagsatriði hafi verið við bankann hvort hægt yrði að nota fjármunina á meðan þeir hafi verið bundnir með þessum hætti. Ef bankinn heimilaði notkun fjármunanna innan þessa tíma hefði það verið eiganda heimilt.
Að því er varðaði svonefnd CLN-viðskipti, hafi uppleggið ávallt verið þannig að um hafi verið að ræða tvö félög. Félagið Brooks Trading Ltd. hafi verið annað tveggja félaga í þessum viðskiptum. Mink Trading Corp. hafi verið móðurfélag Brooks Trading Ltd. Öll fyrirmæli er EH hafi fengið varðandi þessi viðskipti Brooks Trading Ltd. hafi komið frá ákærða, Magnúsi. Í tvígang áður hafi verið stofnað til CLN-viðskipta, en um hafi verið að ræða félögin Partraits og Chesterfield. Þau viðskipti hafi enn verið opin við fall bankans í október 2008 og því ekki reynt á hagnað í viðskiptunum. Aldrei hafi verið lokið við CLN-viðskipti tengd Brooks Trading Ltd. og Mink Trading Corp. Í hinum tilvikunum hafi ekki verið um það að ræða að hagnaður af viðskiptunum yrði greiddur út fyrir fram, hvorki í formi greiðslu né láns. Umræða á meðal starfsmanna bankans í Lúxemborg á þessum tíma sem tengst hafi málinu hafi verið á þann veg að starfsmönnum hafi þótt einkennilegt að verið væri fyrir fram að greiða út hagnað vegna CLN-viðskipta, þar sem viðskiptin hefðu ekki verið komin í hús.
Ákærðu, Ólafur og Magnús, hafi gengið frá viðskiptum við MAT vegna kaupa MAT á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Í tölvupósti hafi ákærði, Ólafur, rætt um að ákærðu væru búnir með ,,helgarstubb“. Hafi ákærðu væntanlega verið að vísa til þess að þeir hafi fengið nauðsynlegar undirritanir á skjöl varðandi viðskipti með hlutabréfin, en um hafi verið að ræða hluthafasamþykktir, lánsskjöl og ábyrgðir. Að því er varðaði lánsformið kvaðst EH ekki hafa verið í sambandi við MAT og því ekki vitað niðurstöðu samningaviðræðna við kaupanda. Starfsmenn bankans hafi einfaldlega fengið fyrirmæli um að þessi atriði skyldu vera með þessum hætti. Þau skilaboð hafi eins og áður segði komið í gegnum ákærða, Magnús. Sama hafi verið um atriði eins og að lánið skyldi ekki vera tryggt. EH kvaðst ekki hafa þekkt samspil lánveitingar til Brooks Trading Ltd. og lána til fjárfestingarfélaga vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. þar sem EH hafi ekki verið aðili að samskiptum um kaupin.
EH kvaðst hafa verið á Íslandi 8. október 2008. Þann dag hafi hann fengið símhringingu frá ákærða, Ólafi, þar sem ákærði hafi verið ,,í öngum sínum“ yfir stöðu mála. Hafi ákærði spurt hvort til væru einhverjar lausnir til að fella niður ábyrgðir MAT tengdar lánum til Serval Trading Group Corp. Hafi EH tjáð ákærða að EH hefði ekkert vald í þeim efnum. Í framhaldi hafi spunnist umræða um Bandaríkjadali sem MAT hafi fengið greidda inn á reikning Brooks Trading Ltd. í Lúxemborg. Í kjölfarið hafi farið af stað vinna við að skoða hvort þessir fjármunir væru lausir til ráðstöfunar þar sem þeir hefðu á sínum tíma verið skilgreindir sem fyrir fram greiddur hagnaður. Fram hefði komið að fjármunirnir væru lausir til ráðstöfunar, en staðfesting hefði fengist frá starfsmönnum bankans í Lúxemborg á að svo væri. Um hafi verið að ræða starfsmennina LS og BK. Að auki hafi EH rætt þetta atriði við ákærða, Magnús. Hefði verið sameiginleg niðurstaða þessara aðila að fjármunirnir væru lausir til ráðstöfunar. Engar tryggingar eða veð hafi hamlað því. Í framhaldi hafi farið af stað vinna við að selja Bandaríkjadali á reikningum og kaupa fyrir þá krónur á markaðsgengi krónunnar. Hefði ákærði, Ólafur, óskað eftir að fjármunir Brooks Trading Ltd. yrðu notaðir til greiðslu á láninu til Serval Trading Group Corp. Stjórn Brooks Trading Ltd. eða Mink Trading Corp. hafi eftir vitneskju EH ekki komið að þessari ákvörðun. Hafi EH síðan verið í sambandi við viðskiptastjórann HBL vegna greiðslu fjármunanna. Hafi HBL vitað um uppruna fjármunanna. Við að fá verð á gengi gjaldmiðla hafi EH verið í sambandi við ÓFG, forstöðumann á millibankaborði í fjárstýringu Kaupþings banka hf., auk GAS fjármálastjóra og SPK, framkvæmdastjóra áhættustýringar. EH kvaðst ekkert hafa komið að lánveitingu Kaupþings banka hf. til félagsins Gerland Assets Ltd. Fullt forræði á lánveitingu til félagsins og annarra, tengt kaupum á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf., hafi verið hjá Kaupþingi banka hf. Aðkoma starfsmanna Kaupthing Bank Luxembourg S.A. að málinu hafi tengst undirbúningi og uppsetningu skjala tengdum viðskiptunum. Allar upplýsingar um kjör á lánum, lánsform og tryggingar hafi komið frá lánveitanda.
Að því er varðaði svonefndan strúktúr að baki viðskiptunum hafi upphafleg fyrirmæli varðandi uppsetningu kaupanna komið frá ákærða, Magnúsi, sem æðsta yfirmanns EH. Ekki kvaðst EH minnast þess að hafa fengið fyrirmæli varðandi strúktúrinn frá ákærðu, Hreiðari Má eða Sigurði. Í upphafi hafi komið fyrirmæli um að tvö félög tækju lán og fjármögnuðu síðan annað félag eða ættu í öðru félagi. Uppsetningin hafi þróast. Ákærði, Magnús, hafi falið EH að vinna að þessari uppsetningu í byrjun september 2008. Öll fyrirmæli innan úr bankanum varðandi uppsetningu strúktúrsins hafi komið frá ákærða. Vinnan hafi farið af stað í samstarfi við BÓ lögmann. Venja hafi staðið til þess að uppsetningar í viðlíka tilvikum hafi verið unnar þannig að starfsmenn bankans kæmu að þeim og fulltrúar viðskiptavina. Hafi EH litið á BÓ sem lögmann ákærða, Ólafs. Hafi það verið í ljósi þess að ákærði, Ólafur, hafi komið að þessum viðskiptum. Hafi BÓ virst hafa góða yfirsýn yfir hvernig strúktúrinn ætti að líta út. Hafi EH skilist að lögmannsstofan Logos, þar sem BÓ hafi starfað, hafi unnið fyrir MAT í öðru verkefni við uppsetningu á Q Iceland Finance ehf. Hafi EH tekið við fyrirmælum frá BÓ um hvernig strúktúrinn ætti að líta út. Ekki kvaðst EH geta svarað því hver hefði beðið BÓ um að sinna þessu verkefni. EH hefði ekki gert það. EH kvaðst hafa útbúið svokallaða glærukynningu sem hann hafi sent ákærða, Magnúsi, í tölvupósti 15. september 2008. Það hafi verið vinnuregla hjá EH að vinna með strúktúra til að allir er koma þyrftu að málum áttuðu sig betur á eignarhaldi, fjármagnsflæði o.s.frv. Upphaflegar forsendur í þessa kynningu hafi komið frá ákærða, Magnúsi, og síðan þróast í samvinnu við BÓ. Ef komið hefðu athugasemdir, t.d. frá ákærða, Magnúsi, hefði verið við þeim brugðist. Í kynningunni og strúktúrnum hafi komið fram að lán ætti að vera háð gengi hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. Hafi EH fengið það upplegg í vinnuna að lán til Q Iceland Finance ehf. ætti að vera hagnaðartengt lán. Með því væri átt við að afkoma félagsins af fjárfestingunni myndi leiða til þess að vextir af láninu myndu hækka ef ávinningur fjárfestingarinnar yrði hærri. Myndi það endurspeglast til baka í láninu. Lánið myndi verða greitt í samræmi við skilmála þess. Hugmyndin væri sú að höfuðstóll lánsins yrði greiddur til baka til þess aðila sem veitti lánið. Þannig myndi greiðslan enda í höndum þess aðila sem upphaflega lánaði félaginu, annað hvort í formi vaxta eða arðs. Þær forsendur hafi komið í vinnu með BÓ. Ekki mundi EH eftir því að ákærði, Magnús, hefði komið með þá forsendu. Ekki hafi verið búið að ganga frá einstökum atriðum varðandi hagnaðartenginguna er bankinn hafi fallið, eins og hversu hátt hlutfall af hagnaðinum hafi átt að streyma til félagsins. Sú vinna hafi öll verið í gangi. Eitt af félögunum hafi verið skrásett á Kýpur. Endurskoðunarskrifstofan Ernst & Young á Kýpur hafi verið að vinna að því að útfæra þetta í ljósi þess að félagið hafi verið skrásett þar. Þeirri vinnu hafi ekki verið lokið við fall bankans. Miðað við þá vinnu sem hafi verið í gangi hafi verið við það miðað að 90% af hagnaði fjárfestingarinnar ætti að renna til Choice Stay Ltd. Að því er 10% sem eftir stæðu varðaði yrði alltaf við hagnaðartengda vinnu sem þessa að hafa ákveðið gólf eða grunnvexti, þar sem ella myndu yfirvöld í viðkomandi ríki aldrei samþykkja strúktúra sem þessa. Vextir yrðu í raun einungis vextir og myndu greiðast sem slíkir. Afgangurinn yrði hagnaðartengdur. EH kvaðst hafa haft af því áhyggjur að flagga þyrfti aðkomu ákærða, Ólafs, að kaupunum. Ákærði hafi í raun verið það sem kallað væri ,,beneficial owner“, eigandi að félögum sem hafi verið lántaki og lántaki sem hefði ávinning af útkomu fjárfestingar í bréfum í Kaupþingi banka hf. Skoða þyrfti hvort það gæti haft áhrif á stöðu hans sem stórs hluthafa í bankanum. Hafi EH rætt þetta atriði við lögmann á lögfræðiskrifstofunni Logos, sem skoðað hafi málið. Niðurstaða þessa lögmanns hafi verið að ekki þyrfti að flagga aðkomu ákærða eins og strúktúrinn væri settur upp. Að því er varðaði félög, sem síðar urðu Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp., sem bætt hefði verið ofan á strúktúrinn í seinni útgáfum, hafi hugmyndir um þá viðbót komið frá BÓ. Hafi það verið afrakstur vinnu á lögmannsstofunni Logos, að félög ættu að vera inni í strúktúrnum. EH kvaðst ekki þekkja forsendur þess að ástæða hafi þótt til að bæta félögunum inn. EH kvaðst hafa átt fund með ákærða, Ólafi, í Lúxemborg um strúktúrinn og viðbótarverkefni sem ætlunin hafi verið að setja af stað í tengslum við þessar fjárfestingar. Hafi ákærði óskað eftir því, eftir þann fund, að TH fengi ekki að vita um að félag ákærða hefði fengið að láni frá Kaupþingi banka hf. 150.000.000 evra. Ekki hefði verið óvenjulegt að viðskiptavinur óskaði eftir einhverju sérstöku á þessum nótum. Starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A., þau EH, SÖS og LS, hafi ekki þekkt efni fjárfestinga MAT að því leyti að Kaupþing banki hf. væri að fjármagna kaup á hlutabréfum í eigu bankans. Þau hafi í raun ekki vitað hver væri mótaðili MAT í viðskiptunum fyrr en um það leyti er viðskiptin hefðu átt sér stað. Sá strúktúr sem starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi sett upp varðandi kaup á hlutafé hafi verið hluti af öðru. Ætlunin hafi verið að annað kæmi inn í framhaldi af kaupum á hlutabréfunum. Gert hafi verið ráð fyrir öðrum fjárfestingum. Í tengslum við þann strúktúr er EH hafi teiknað upp hafi hins vegar einungis verið gert ráð fyrir kaupum á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Spurður um símtal er EH hafi átt þar sem hann hafi sagt að uppsetning á strúktúrnum hafi verið til að forða því að flagga þyrfti ákærða, Ólafi, hafi virst sem átt hafi að láta strúktúrinn vera með þeim hætti til að ákærði, Ólafur, hefði ekki ,,control“ á bréfunum og væri því væntanlega ekki flöggunarskyldur. Eins hafi EH viðhaft orðatiltækið að ,,lengja í lúpunni“ en með því hafi hann verið að segja að hafa þyrfti ákærða, Ólaf, ofar í keðjunni.
BÓ kvaðst hafa verið í stjórn Kaupþings banka hf. frá árinu 2003 allt þar til bankinn hafi fallið í október 2008. Þá hafi hann átt sæti í lánanefnd stjórnar bankans. Viðskipti MAT með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. hafi átt langan aðdraganda. Bankinn hafi opnað skrifstofu í Katar 2007. Hafi lengi verið unnið að því að fá fjárfesta frá þessum heimshluta til að fjárfesta í bankanum og koma þannig inn í hluthafahópinn. Viðskiptin við MAT hafi verið í samræmi við stefnu og markmið bankans. BÓ kvaðst hafa setið stjórnarfund í Kaupþingi banka hf. dagana 25. og 26. september 2008. Þar hafi verið tilkynnt um viðskipti MAT og mikil ánægja verið með þau innan stjórnar. Á stjórnarfundum hafi ekki verið farið yfir einstök lánamál. Á þessum fundi hafi verið farið yfir lausafjárstöðu bankans sem, þrátt fyrir ástand á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, hafi þótt góð. BÓ kvaðst hafa setið fund lánanefndar stjórnar 24. september 2008 er lán til félagsins Brooks Trading Ltd. hafi verið tekið fyrir og samþykkt. Hafi BÓ gert sér ljóst að Kaupþing banki hf. væri að fjármagna kaup MAT á hlutabréfum í bankanum sjálfum. Undir rannsókn málsins hafi BÓ verið kynnt að lán til félagsins hefði verið greitt út 19. september 2008 og það komið BÓ á óvart. Hafi framburður hans hjá lögreglu borið þess vitni. BÓ hafi hins vegar kynnt sér þessi atriði betur síðar í gögnum málsins og þá komist að því að lán Kaupþings banka hf. til Brooks Trading Ltd. hafi verið greitt út 29. september 2008. Hafi atburðarásinni verið lýst þannig í lögregluyfirheyrslu að lánin hafi verið greidd út 19. september. Ef það hefði verið málið hefði lánanefndin verið blekkt þar sem samþykki hafi þá ekki legið fyrir. Hins vegar hafi lánið verið greitt út 29. september 2008, að því er BÓ teldi. BÓ kvaðst hafa rætt þessi mál við verjanda ákærða, Hreiðars Más, eftir að ákæra hefði verið gefin út. Hafi BÓ fengið aðgang að gögnum málsins hjá honum til undirbúnings fyrir skýrslutökuna. Lánanefndin hefði því í raun ekki verið blekkt. Í lánanefndarsamþykkt hafi komið fram að lánið væri fyrir fram greiddur hagnaður. Slíkt hefði BÓ ekki séð áður í starfi í lánanefndinni. Hefði þetta atriði eitthvað verið rætt á fundinum. BÓ kvaðst hafa verið þeirrar skoðunar að umrætt lán hefði verið með tryggingu í svonefndum CLN-bréfum. Lánanefnd stjórnar hefði haft heimildir til að veita lán án trygginga. Að því er varðaði umrætt lán hafi bankinn átt að njóta hagnaðar af lánveitingunni í formi vaxta og þóknana. Engin áhætta hafi verið fólgin í lánveitingunni fyrir lántaka. Áhætta hafi legið hjá lánveitanda. Áhættan hafi verið venjubundin eins og hjá lánastofnun almennt.
BÓ kvaðst ekki hafa þekkt til lánveitingar til félagsins Gerland Assets Ltd. í september 2008. Hann hafi síðar frétt af lánveitingu til félagsins, sem ekki hafi komið fyrir lánanefnd stjórnar. Þar hafi verið um hrein og klár mistök að ræða af hálfu starfsmanna bankans. Að því er varðaði svonefndan strúktúr viðskipta kvaðst BÓ hafa komi að því máli að beiðni Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Hafi hann ekki komið að málinu sem lögmaður ákærða, Ólafs. Hafi hann aldrei rætt þessa vinnu við ákærða. Hafi hann unnið málið í samvinnu við EH, yfirmann lögfræðideildar bankans, og MP, starfsmann deildarinnar. BÓ hafi í gegnum tíðina reglulega aðstoðað starfsmenn bankans við ýmsa lögfræðilega vinnu. Hafi þessi vinna verið af þeim toga. Hafi vinna BÓ tengst skattalegum þætti viðskipta. Í vinnu við strúktúrinn hafi BÓ verið að veita endurráðgjöf á hugmyndir sem lagðar hafi verið fram af hálfu bankans í Lúxemborg. Ekki hafi BÓ haft vitneskju um hvaðan EH hefði upplýsingar sínar eða fyrirmæli varðandi uppsetningu strúktúrsins. Huga hafi þurft að þætti ákærða, Ólafs, vegna tengsla hans við Bretland. BÓ hafi sennilega séð nefndan strúktúr fyrst er hann hafi fengið sendan tölvupóst með honum frá EH 17. september 2008. Engar forsendur í strúktúrnum væru frá BÓ komnar. Í strúktúrnum hafi komið fyrir svonefnt hagnaðartengt lán. Allar hugmyndir um hagnaðartengt lán hafi komið frá starfsmönnum Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Í umræðu við EH hafi sennilega einnig komið upp umræða um flöggun og hvort flagga þyrfti aðkomu ákærða, Ólafs, að fjárfestingunni. Hafi BÓ farið yfir þann þátt með ÓAS, héraðsdómslögmanni á lögmannsstofunni Logos. Niðurstaðan hafi verið sú að ekki þyrfti að flagga aðkomu ákærða. Ástæða þess að tveim félögum hafi verið bætt ofan á strúktúrinn síðar hafi tengst umræðu um flöggunarskylduna. Einnig hafi EH nefnt það að lengja þyrfti í ,,lúpunni“. BÓ kvaðst hafa skilið þann strúktúr sem starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hefðu sett saman þannig að ákærði, Ólafur, ætti að njóta hagnaðar af fjárfestingu í strúktúrnum. Ekki hafi verið ætlunin með uppsetningu strúktúrsins að leyna aðkomu ákærða, Ólafs, að viðskiptunum. BÓ kvaðst ekki hafa komið að samningaviðræðum við MAT vegna viðskiptanna eða nokkru sinni haft samband við kaupandann. Þá hafi BÓ ekki verið í sambandi við ákærðu, Hreiðar Má eða Sigurð, við gerð strúktúrsins í Kaupþingi í Lúxemborg. BÓ kvaðst kannast vel við vinnu Kaupthing Bank Luxembourg S.A. að stofna aflandsfélög fyrir viðskiptavini bankans í skattalegum tilgangi. Starfsmenn bankans hefðu setið í stjórnum þessara félaga og átt að gæta að hagsmunum bankans í starfsemi félaganna. Í starfi í lánanefnd stjórnar hafi BÓ litið til þessara þátta varðandi áhættu bankans. BÓ kvaðst kannast við svonefnd CLN-viðskipti en í þeim tilvikum hafi viðkomandi fjárfest í skuldatryggingarálagi Kaupþings banka hf. Slík viðskipti hafi verið góð fyrir bankann. Hafi verið litið svo á að engin raunveruleg tapsáhætta væri í þessu fólgin fyrir bankann. Áhætta af lánveitingu til Brooks Trading Ltd. í september 2008 hafi verið metin út frá þessu. Kaupþing banki hf. hafi 22. september 2008 sent frá sér fréttatilkynningu um kaup MAT á hlutabréfum í bankanum. Ekki hafi verið tekið fram í tilkynningunni um fjármögnun kaupa. Hafi ekki verið ástæða til þess og það ekki þurft á grundvelli lagaskyldu. BÓ kvaðst standa við þann framburð sinn hjá lögreglu, að þrátt fyrir að lagafyrirmæli kvæðu ekki á um að fjármögnun þyrfti að tilgreina, hefði verið ástæða til að setja spurningamerki við að ekki hafi verið veitt vitneskja um að bankinn kæmi að fjármögnun kaupanna. Þetta væri meira samviskuatriði en annað. Það væri hins vegar löggjafans að ákveða þessa hluti.
SÖS kvaðst hafa starfað í lögfræðideild Kaupthing Bank Luxembourg S.A. í september 2008. Hafi EH, framkvæmdastjóri deildarinnar, verið hans yfirmaður. Í september 2008 hafi EH farið þess á leit við SÖS og LS að vinna skjöl varðandi stofnun félaga sem myndu taka lán til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Þetta hafi verið nokkuð óvenjulegt þar sem SÖS og LS hafi almennt ekki unnið að skjalagerð varðandi stofnun félaga í eigu bankans. Hafi þau verið tekin úr sínum venjulegu verkefnum til að sinna þessu og samkvæmt fyrirmælum veitt þessu forgang. Ekki vissi SÖS hvaðan EH hefði fengið sín fyrirmæli um stofnun þessara félaga. EH hafi kynnt fyrir SÖS og LS glærukynningu sem hafi lýst þessum strúktúr. Þaðan í frá hafi verið unnið að málinu í gegnum tölvupóst og síma við starfsmenn Kaupþings banka hf. á Íslandi. Mynd sú sem dregin hafi verið upp fyrir SÖS hafi verið á þann veg að Kaupþing banki hf. myndi lána tilgreindum félögum, sem yrðu í eigu MAT annars vegar og ákærða, Ólafs, hins vegar og myndu þau félög setja fjármunina inn í félag á Kýpur, sem aftur myndi fjárfesta í íslensku félagi sem að lokum myndi kaupa hlutabréf sem næmi 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. Vinna SÖS hafi alfarið snúist um að setja upp stjórnarbókanir fyrir umrædd félög, sem hafi verið Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp., og lánasamninga sem því hafi fylgt. Ótal spurningar hafi vaknað í tengslum við þetta og SÖS og LS aðallega verið í sambandi við viðskiptastjórana HBL og GÞG vegna málsins. Þeir hafi komið með forsendur í vinnuna. Þegar frá upphafi hafi legið fyrir að fjármögnun kaupanna kæmi frá Kaupþingi banka hf. Ljóst hafi verið að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. væri ekki að lána þessa fjármuni. Ekki kvaðst SÖS þekkja ástæðu þess að lán til Brooks Trading Ltd. hefði verið greitt inn á reikning félagsins í Lúxemborg. Á þessum tíma hafi verið unnið að nokkrum atriðum samhliða. Inn í þessa vinnu hafi blandast vinna við kaup MAT á skuldabréfum í gegnum Deutsche Bank tengd skuldatryggingarálagi á Kaupþing banka hf. Kvaðst SÖS muna eftir að hafa spurt ákærða, Magnús, af hvaða ástæðu Kaupþing banki hf. væri að lána félaginu Brooks Trading Ltd. og hafi ákærði, Magnús, svarað því til að um væri að ræða fyrir fram greiddan hagnað til MAT af CLN-viðskiptunum með skuldabréfin í Deutsche Bank. Af þeim viðskiptum hafi hins vegar aldrei orðið. SÖS kvaðst ekki muna nákvæmlega hvernig atvik hefðu þróast varðandi peningagreiðslurnar sjálfar, en sennilega hafi fjármunir farið út úr Kaupþingi í Lúxemborg til Brooks Trading Ltd. og átt að skuldajafna þeim við Kaupþing banka hf. á Íslandi í framhaldi en þetta hafi verið gert til að flýta greiðslunni frá Íslandi. SÖS kvaðst ekki þekkja önnur dæmi þess að greiða hafi átt út fyrir fram hagnað af viðskiptum. Hafi honum þótt þetta stórfurðulegt þar sem ekki hafi verið búið að setja upp og ganga frá nefndum CLN-viðskiptum við Deutsche Bank. Að greiða út fyrir fram hagnað af viðskiptum sem hafi átt að innleysa að 5 árum liðnum, af samningi sem ekki hafi verið búið að gera eða farið að vinna neina pappírsvinnu við, hafi SÖS þótt stórfurðulegt. SÖS kvaðst telja að ástæða þess að notast hafi verið við svokallað peningamarkaðslán í viðskiptum frá Íslandi við félögin Brooks Trading Ltd. og Gerland Assets Ltd. hafi verið sú að flýta fyrir. Starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi verið búnir að biðja um upplýsingar um skilmála í lánasamningum við félögin og þær upplýsingar einfaldlega ekki legið fyrir á þeim tíma. Tími hafi ekki unnist til að klára þetta og ferlinu hraðað með því að greiða út fjárhæðina á grundvelli peningamarkaðsláns. Þau lán hafi síðar átt að leysa af hólmi með öðrum lánssamningi. Augljós flýtir hafi verið á málinu. Því hafi verið komið á framfæri við starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og hafi þau verið beðin um að víkja til hliðar öðrum verkefnum. Annað hvort EH eða ákærði, Magnús, hafi gert þeim þetta ljóst. Vinnan hafi ekki átt ,,að fara hátt“. SÖS kvaðst ekki hafa átt neina aðkomu að hinum svokallaða strúktúr. SÖS og LS hafi einungis unnið að skjölum tengdum félögunum og lánaskjölum. Hafi þau ekkert haft um strúktúrinn að segja. Hafi SÖS og LS því ekkert tengst ákvörðunum um hin hagnaðartengdu lán. Umræða um hugsanlega flöggunarskyldu tengda viðskiptunum hafi ekki verið á borði SÖS. SÖS kvaðst á sínum tíma hafa velt fyrir sér hvort viðskiptin með hlutabréfin væru lögleg. Hafi hann fengið upplýsingar um að Kaupþing banki hf. væri í gegnum félög að fjármagna kaup MAT á hlutabréfum í bankanum sjálfum. Þá væri verið að lengja í einhverjum keðjum. Hafi SÖS snemma í ferlinu sagt við ákærða, Magnús, að hann teldi viðskiptin vera málamyndagerning. Hafi ákærði svarað því til að SÖS skildi ekki út á hvað þetta gengi. SÖS kvaðst ekki hafa litið svo á að einhver eftirlitsskylda hafi myndast hjá starfsmönnum Kaupthing Bank Luxembourg S.A. gagnvart störfum starfsmanna Kaupþings banka hf. varðandi lánveitingarnar eða skyld atriði. Það hafi ekki verið þeirra hlutverk.
LS kvaðst hafa starfað í lögfræðideild Kaupthing Bank Luxembourg S.A. í september 2008. Hafi hún komið að viðskiptum MAT með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. tengd félaginu Q Iceland Finance ehf. Hafi hún komið að undirbúningnum í tengslum við vinnslu ákveðinna gagna. Yfirmaður lögfræðideildar, EH, hafi beðið LS um að vinna þessa vinnu. Í upphafi hafi LS unnið að málinu í samvinnu við EH, en síðar hafi SÖS bæst í hópinn. EH hafi kynnt viðskiptin fyrir LS. Viðskiptin hafi snúist um lán með ábyrgð og markmiðið verið fjárfesting í íslenska fyrirtækinu Q Iceland Finance ehf. LS hafi undirbúið hluthafasamþykktir fyrir Gerland Assets Ltd. Einnig hafi hún unnið að viðauka við samþykktir. Fyrirmæli skilmála lána hafi komið frá starfsmönnum Kaupþings banka hf. Í upphafi hafi LS ekki vitað hver fjármagnaði viðskiptin með hlutabréfin í Kaupþingi banka hf. Síðar hafi komið fram að bankinn myndi sjálfur fjármagna kaupin. Að því er varðaði lán til félagsins Brooks Trading Ltd., sem veitt hafi verið í september 2008, hafi LS fengið upplýsingar um að það lán væri fyrirfram greiddur hagnaður vegna skuldabréfs tengdu skuldatryggingarálagi Kaupþings banka hf. Hafi LS meðal annars sent tölvupóst til starfsmanns Deutsche Bank um að félagið Brooks Trading Ltd. hefði hug á að eiga viðskipti með CLN-bréf. Ekki hafi viðskiptavinur í öðrum tilvikum, að því er LS þekkti til, fengið lán út á fyrir fram greiddan hagnað af viðskiptum. Kvaðst LS hafa orðið undrandi á þessum viðskiptum og ekki fundist neitt vit í þeim. Kvaðst LS telja að hún hefði fengið fyrirmæli um að lán yrði án tafar að greiðast út til Brooks Trading Ltd. Ákærði, Magnús, hafi gefið þau fyrirmæli. Ákærði hafi ekki komið að vinnunni fyrr en á leið og er komin hafi verið tímapressa á það. Hafi hann lagt áherslu á að lánið yrði greitt út strax. LS kvaðst ekki hafa komið að því að fjármunir af reikningi Brooks Trading Ltd. yrðu 8. október 2008 notaðir til að greiða upp lán Serval Trading Group Corp. LS kvaðst muna eftir að hafa komið að svonefndum strúktúr. Hafi LS haft þann skilning að ákærði, Ólafur, hafi átt að reiða fram persónulega ábyrgð vegna viðskipta.
HBL kvaðst hafa verið viðskiptastjóri á útlánasviði Kaupþings banka hf. í september 2008. Næsti yfirmaður hans hafi verið BHD framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs. Almennt hafi HBL tekið við fyrirmælum frá BHD, þó svo í einstaka tilvikum hafi fyrirmæli komið frá öðrum. Í því tilviki hafi aðallega verið um að ræða ákærða, Hreiðar Má. HBL staðfesti að hafa átt símtal við LIS, innri endurskoðanda Kaupþings banka hf., 17. janúar 2009. Símtalið hafi komið í kjölfar fyrirspurnar frá LIS í tölvupósti, væntanlega tengt reikningsnúmerum í millifærslum fjármuna milli Choice Stay Ltd. og Q Iceland Finance ehf. Hafi HBL verið að velta ýmsu fyrir sér í þessu símtali. Hafi hann velt fyrir sér af hverju hluti fjármuna til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. hafi verið lánaður í gegnum félag í eigu ákærða, Ólafs. Hafi HBL velt því fyrir sér hvort verið væri að fela einhverja slóð. Í raun hafi verið um getgátur að ræða af hálfu HBL eftir að hafa horft á þann strúktúr sem settur hafi verið upp vegna viðskipta Q Iceland Finance ehf. með hlutabréfin í Kaupþingi banka hf. Opinbera skýringin á strúktúr kaupanna hafi verið sú að greiðsla í formi láns til Brooks Trading Ltd. væri fyrir fram greiddur hagnaður af CLN-viðskiptum, en getgátur HBL hafi verið þær, eftir að hafa horft á strúktúrinn, hvort óopinbera skýringin væri sú að um væri að ræða greiðslu fyrir að ljá nafn sitt við viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. HBL hafi þótt sérkennilegt að verið væri að greiða út fjármuni áður en stofnað hafi verið til viðskipta á CLN-bréfum. Hafi hann heyrt um sameiginlegan fjárfestingarsjóð ákærða, Ólafs, og MAT. Hann hafi þó ekki tengst vinnu við þann sjóð og lítið þekkt til hans.
HBL staðfesti að hafa sem viðskiptastjóri komið að viðskiptum Q Iceland Finance ehf. með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Aðild hans að því máli hafi byrjað með símafundi er ákærðu, Hreiðar Már og Magnús, hafi átt með honum, GÞG viðskiptastjóra og BHD framkvæmdastjóra, 18. september 2008. Ákærðu hafi verið í síma en hinir fundarmenn saman í bankanum. Kvaðst hann þar hafa fengið yfirlit um hvernig þau myndu líta út, eða hinn svokallaði strúktúr viðskiptanna. Því hafi verið lýst af ákærðu í sameiningu fyrir fundarmönnum að kaupa ætti 5,01% hlut í bankanum. MAT myndi leggja fram persónulega ábyrgð en að lána ætti til tveggja félaga, annars vegar í eigu MAT og hins vegar í eigu ákærða, Ólafs, og að þessir fjármunir yrðu notaðir til að kaupa hlutabréfin. Strúktúrnum hafi verið lýst í grófum dráttum. Þar hafi komið fram um hagnaðarhlutdeild á milli ákærða, Ólafs, og MAT. Hafi HBL spurt hvort hann ætti að koma að vinnu við þessa hagnaðarskiptingu en verið tjáð að sú vinna færi fram í Lúxemborg. Hafi HBL, GÞG og BHD verið beðnir að vinna að málinu á móti starfsmönnum Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og ljúka málinu. Í því hafi falist að sjá um gerð lánaskjala, útgreiðslu peninga, og annað viðskiptunum tengt. Á þessum fundi hafi komið fram að lána ætti félaginu Mink Trading Corp 120.000.000 eða 130.000.000 evra og fyrir þá fjármuni ætti að kaupa CLN-bréf hjá Deutsche Bank. Síðan ætti að lána Brooks Trading Corp 50.000.000 evra, en um hafi verið að ræða félög þar sem ,,beneficial owner“ hafi verið MAT. Um hafi verið að ræða fyrir fram tekinn hagnað út úr nefndum CLN-viðskiptum. Hafi HBL í tvígang áður komið að gerð viðlíka strúktúra. Í báðum tilvikum hafi staðið til að lána fyrir hagnaði til eigenda en ekki hafi verið búið að ganga frá því. Búið hafi verið að kaupa bréfin í þeim tilvikum, en ekki lána út á hagnaðinn. Í tilviki Brooks Trading Ltd. hafi þessu verið öfugt farið. Búið hafi verið að lána út á hagnaðinn en ekki kaupa bréfin. Ekki hafi komið fram á þessum símafundi 18. september að ákærði, Ólafur, ætti að leggja fram persónulega ábyrgð af sinni hálfu fyrir kaupunum. Á fundinum hafi komið fram að viðskiptin ættu að fara yfir 5% hlut í Kaupþingi banka hf. til að viðskiptin yrðu flöggunarskyld. Á það hafi verið lögð áhersla. HBL og GÞG hafi verið viðskiptastjórar á útlánasviði og í þeirra hlut komið að taka málið áfram. Komið hafi fram að flýtir væri á málinu. Það hafi komið fram af hálfu ákærðu beggja. HBL kvaðst ekki hafa komið að því að ákveða hvernig strúktúr viðskipta með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. yrði settur upp. Hafi HBL því ekki þekkt ástæðu þess að hinum endanlega kaupanda bréfanna yrði einfaldlega ekki lánað fyrir kaupum þeirra. Þá hefði hann engar skýringar á aðkomu ákærða, Ólafs, að kaupunum. Hafi það verið skilningur HBL að ákærði, Ólafur, ætti að fá hagnað út úr viðskiptunum. Þó hefði hann ekkert annað fyrir sér í því en uppsetningu á strúktúr kaupanna. Rætt hafi verið um á símafundinum 18. september 2008 að koma þyrfti á einhvers konar samningi milli MAT og ákærða, Ólafs, vegna uppsetningar viðskiptanna. Hafi HBL spurt hvort hann ætti að koma að þeirri vinnu, en verið tjáð að það yrði gert í Kaupþingi Lúxemborg. Ekki kvaðst HBL þekkja aðkomu ákærða, Sigurðar, að kaupum Q Iceland Finance ehf. á kaupum á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. HBL kvaðst ekki hafa verið í samskiptum við ákærða, Ólaf, í aðdraganda lánveitinga til félaganna í viðskiptunum. Einhverjum dögum eftir fall Kaupþings banka hf., í október 2008, hafi staðið eftir einhver hundruð milljóna af láninu til Serval Trading Group Corp. Hafi ákærði, Ólafur, snúið sér til HBL til að hafa milligöngu um að eftirstöðvar skuldar félagsins yrðu greiddar. Hafi HBL hitt ákærða í bankanum þar sem ákærði hafi beðið um upplýsingar um stöðu lánsins og hvernig hann gæti hlutast til um að eftirstöðvarnar yrðu greiddar. Hafi HBL fengið upplýsingar um stöðu lánsins frá fjárstýringu eða bakvinnslu og hvert bæri að millifæra þá fjármuni er út af hafi staðið. Hafi HBL komið þeim upplýsingum áfram til ákærða, Ólafs.
HBL staðfesti að hafa sent ákærða, Hreiðari Má, tölvupóst 18. september 2008 kl. 14.56, þar sem HBL hafi spurt um kjör á láni til Brooks Trading Ltd. og hvort leyfa ætti lán að fjárhæð 50.000.000 Bandaríkjadala fyrir hagnaði. Hafi ákærði svarað því munnlega að leyfa ætti slíkt lán. Svörin í því samtali hafi verið að greiða ætti þetta lán út þegar í stað. Hafi HBL spurt ákærða hvort ekki ætti að ganga frá CLN-viðskiptunum fyrst eins og gert hefði verið í fyrri tilvikum, en HBL fengið þau fyrirmæli frá ákærða að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því þar sem það yrði gert í Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Þá þyrfti HBL ekki að hafa áhyggjur af samþykki fyrir þessari lánveitingu. Ætti hann einungis að greiða út peningana og það með hraði. Hafi HBL borið þetta undir yfirmann sinn, BHD, framkvæmdastjóra útlána, sem samþykkt hafi að þessi háttur yrði hafður á. Bæði BHD og ákærði, Hreiðar Már, hafi því verið þess full meðvitaðir að lánið yrði greitt út án þess að fyrir lægi samþykki lánanefndar. HBL hafi útbúið lánsbeiðni vegna lánsins til Brooks Trading Ltd. Ekki hafi verið unnt að fá samþykki lánanefndar fyrir útgreiðslu lánsins miðað við þann flýti er hafi verið á málinu. Fyrirmælin hafi verið um greiðslu lánsins sem peningamarkaðsláns. Hafi HBL talið ákærða, Hreiðar Má, hafa haft heimild til að mæla fyrir um útgreiðslu lánsins. Er greidd hafi verið út peningamarkaðslán hafi það verið gert með einblöðungi sem prentaður hafi verið út úr tölvukerfi bankans. Að greiða lánið út sem peningamarkaðslán hafi verið eini kosturinn í stöðunni miðað við þann flýti sem hafi verið á málinu. Peningamarkaðslán hafi verið skammtímalán og veitt aðilum sem hafi verið í miklum viðskiptum við bankann. Hafi HBL komið mjög lítið að slíkum lánum. Ekki kvaðst HBL viss um hvort ákærða, Magnúsi, hafi verið það ljóst að lánið yrði greitt út sem peningamarkaðslán. Fyrirmæli inn á hvaða reikning lánið til Brooks Trading Ltd. skyldi greitt hafi komið frá starfsmönnum Kaupthing Bank Luxembourg S.A. HBL hafi annars almennt verið í litlum samskiptum við starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og málið óvenjulegt að því leyti. Eignarhald umræddra félaga hafi verið í Lúxemborg, en þar hafi þau verið stofnuð og í stjórn þeirra aðilar sem staðið hafi að bankanum í Lúxemborg. Í því ljósi hafi verið eðlilegt að greiðsluleiðbeiningar kæmu þaðan, frá fyrirsvarsmönnum þessara félaga.
Hlutverk HBL sem viðskiptastjóra hafi almennt verið að útbúa lánsbeiðnir fyrir lánanefndir. Í slíkum tilvikum hafi viðskiptastjóri gengið úr skugga um að formlegar heimildir lægju fyrir áður en fyrirmæli væru gefin um greiðslu lána. Þá hafi bakvinnslan einnig haft hlutverki að gegna í því sambandi sem hafi átt að tryggja að ekki yrði greitt út án þess að heimildir væru fyrir hendi. Er mál hafi farið fyrir lánanefnd stjórnar hafi BHD framkvæmdastjóri fylgt þeim úr hlaði. HBL staðfesti að hafa átt símtal við SÖS, starfsmann Kaupthing Bank Luxembourg S.A., kl. 19.10 að Lúxemborgartíma þann 18. september 2008. Hafi HBL í því samtali sagt að hann hefði verið á fundi með ákærðu og þekkti allt til viðskiptanna. Þá staðfesti HBL að hafa sent tölvubréf 19. september 2008, til HSK og ÓFG á millibankaborði í fjárstýringu, þar sem fram hafi komið að starfsmaður Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi verið sammála því að ,,netta“ viðskiptin og því væri ekki um neina raunverulega millifærslu að ræða. Með því hafi HBL verið að vísa til þess að lánið hafi átt að koma frá Kaupþingi banka hf., en verið færð úr bankanum í Lúxemborg inn á reikning félagsins Brooks Trading Ltd. og að skuldajafnað yrði á móti greiðslunni. Þannig yrði lánið flutt á efnahagsreikninga bankanna, annars vegar Kaupþings banka hf. og hins vegar Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Að því er varðaði svonefnda undanþágulista varðandi lánshæfismat, hafi verið lánshæfismatskerfi í bankanum fyrir fyrirtæki sem tekið hafi venjuleg lán. Þau hafi verið lánshæfismetin miðað við hversu góðir lántakar þau væru. Kerfið hafi hentað vel fyrir venjuleg rekstrarfélög og félög með sjóðsstreymi. Þau hafi hins vegar ekki hentað fyrir eignarhaldsfélög og venja því staðið til að þau færu á nefndan undanþágulista. Ekki hafi verið óþekkt innan bankans að lán væru greidd út án þess að fyrir lægi heimild lánanefnda. Hafi formlegra heimilda verið aflað í kjölfarið. Eins hafi þekkst að tölvupóstur væri sendur til lánanefndarmanna og samþykkis þeirra aflað milli funda fyrir útgreiðslu lána. GÞG viðskiptastjóri hafi haldið utan um málefni ákærða, Ólafs, í bankanum. Hafi þeir viðskiptastjórarnir rætt saman í kjölfar fundarins 18. september og orðið ásáttir um að HBL sæi um lánveitingu til Serval Trading Group Corp. og GÞG sæi um lánveitingu til Gerland Assets Ltd. Lánsbeiðni vegna Gerland Assets Ltd. hafi ekki ratað fyrir lánanefnd. Hugsanlega hafi verið um einhvern misskilning að ræða milli HBL og GÞG varðandi það atriði. HBL staðfesti að greidd hafi verið út lán í september 2008 tengt viðskiptunum með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Hafi ákærði, Magnús, gefið HBL fyrirmæli um útgreiðslu lána til Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp. Þau fyrirmæli hafi borist frá ákærða í tölvupósti 29. september 2008. Til hafi staðið að endurfjármagna þessi lán með hefðbundnum lánasamningum síðar. Hafi það átt að vera eins fljótt og tími ynnist til. HBL hafi sent tölvupóst 29. september 2008 til HSK í fjárstýringu um greiðslur lána til Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp og þaðan til Choice Stay Ltd. og áfram á vörslureikning Q Iceland Finance ehf. HBL kvaðst hafa verið milligöngumaður um að tengja saman starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. við starfsmenn fjárstýringar Kaupþings banka hf. þegar fjármunir á reikningi Brooks Trading Ltd. í Lúxemborg hafi verið notaðir til að greiða upp lán hjá félaginu Serval Trading Group Corp. Ekki hafi HBL verið í neinum samskiptum við ákærða, Hreiðar Má, vegna þess. Hafi HBL skilist að EH, yfirmaður lögfræðideildar Kaupthing Bank Luxembourg S.A., ræki það mál áfram. Hafi HBL ekki komið nærri þessu uppgjöri að öðru leyti.
GÞG kvaðst hafa verið viðskiptastjóri á útlánasviði Kaupþings banka hf. í september 2008. Yfirmaður GÞG hafi verið BHD, framkvæmdastjóri útlána. Auk þess að fá fyrirmæli frá BHD hafi GÞG stundum fengið fyrirmæli frá ákærða, Hreiðari Má. Í verkahring viðskiptastjóra hafi verið að útbúa lánsferil mála fyrir lánanefndir og afla undirritunar á lánsskjöl. Þá hafi viðskiptastjóri átt að taka málið áfram eftir samþykki lánanefnda og framfylgja ákvörðun nefndarinnar. Ekki hafi viðskiptastjóra verið heimilt að gefa fyrirmæli um lánveitingar án þess að samþykki lánanefnda lægi fyrir. GÞG kvaðst í starfi sínu hafa komið að viðskiptum bankans varðandi fjármögnun hlutabréfakaupa. Í þeim tilvikum hafi almennt verið meiri hraði á afgreiðslu mála. Hafi það verið nauðsynlegt því tilkynna hafi þurft um viðskipti um leið og þau hafi verið ákveðin. Þá hafi verið skammur tími þar til standa hafi þurft við greiðslur. Lítill tími hafi því gefist til að vinna málin. GÞG kvaðst eitthvað hafa komið að vinnu innan bankans á sínum tíma tengda kaupum Q Iceland Finance ehf. á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Á þeim tíma hafi verið í gangi vinna tengd málinu á lánasviði bankans. Vegna anna á þeim tíma hafi GÞG hins vegar fjarlægst málið meira eða minna. Að einhverju leyti hafi honum samt sem áður verið haldið upplýstum, þó svo hann hafi ekki unnið beint að málinu. Um hafi verið að ræða peningamarkaðslán, en þau lán væru skammtímalán. Þau hafi ekki verið veitt hverjum sem var. Peningamarkaðslán hafi talsvert verið notuð ef hraða hafi þurft lánaafgreiðslu. Venjulega hafi GÞG ráðfært sig við yfirmenn sína, BHD framkvæmdastjóra eða ákærða, Hreiðar Má, áður en slík lán hafi verið afgreidd. Ef mál hafi þurft að afgreiða fyrir næsta lánanefndarfund hafi nefndarmönnum verið kynnt málið milli funda. Hafi ákærði, Hreiðar Már, vitað að viðskiptavinum bankans hafi í sumum tilvikum verið veitt peningamarkaðslán. Í einhverjum tilvikum hafi GÞG fengið heimild frá ákærða til að veita slík lán. Þá hafi verið dæmi þess að ákærði hafi mælt fyrir um veitingu slíks láns. GÞG kvað sig ráma í fund með ákærðu, Hreiðari Má og Magnúsi, og viðskiptastjórum, þeim GÞG og HBL, 18. september 2008. Um hafi veri að ræða símafund þar sem ákærðu hafi ekki verið á staðnum. GÞG myndi ekki annað eftir fundinum en að til umræðu hafi verið viðskipti MAT með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Þá hafi verið rædd fjármögnun kaupanna. GÞG kvaðst á þessum tíma hafa verið viðskiptastjóri ákærða, Ólafs. Er tekin hafi verð skýrsla hjá lögreglu af GÞG í fyrsta sinn hafi hann ekki munað eftir því að félag í eigu ákærða, Ólafs, hafi átt að fá lán vegna viðskiptanna. Þetta hafi komið fram í yfirheyrslunni og væri þetta því GÞG kunnugt. Myndi GÞG ekki eftir hvað honum og HBL hefði verið falið að gera á fundinum 18. september 2008. Að sumu leyti hafi verið eðlilegt að GÞG hefði verið falið að annast lánamál ákærða, Ólafs, eftir þennan fund en það hafi þó ekki verið algild regla. Annir hafi t.d. getað skýrt það.
GÞG kvaðst telja að sér hafi verið kunnugt um lánveitingu til Brooks Trading Ltd. á sínum tíma, sem afgreitt hafi verið í september 2008. Ekki myndi GÞG eftir því hvort það lán hafi átt að tengjast svonefndum CLN-viðskiptum. GÞG staðfesti að hafa sent tölvupóst til HBL, 18. september 2008, sem snúið hafi að útgreiðslu láns til Brooks Trading Ltd. Án þess að GÞG myndi eftir þessu tilviki hafi stundum komið fyrir að lán hafi verið greidd út af öðrum banka en veitt hafi lánið og hafi þá verið uppgjörsatriði á milli bankanna að ganga frá í kjölfarið. Ekki myndi GÞG eftir því hvaðan fyrirmæli hafi komið um að uppgjör láns Brooks Trading Ltd. milli Kaupþings banka hf. og Kaupthing Bank Luxembourg S.A. ætti að vera ,,funding neutral“. Ekki myndi GÞG eftir umræðu um að lánið hafi átt að vera greiðsla fyrir einhvers konar fyrir fram greiddan hagnað. GÞG kvaðst muna eftir lánveitingu til félagsins Gerland Assets Ltd. 29. september 2008. Hafi hann séð tölvuskeyti tengd því láni. Hann myndi þó í sjálfu sér ekki eftir málinu sem slíku. Ekki kynni GÞG skýringu á því að það lán hafi ekki farið fyrir lánanefnd bankans. Þó svo GÞG myndi ekki eftir málinu mætti ráða af tölvupóstsamskiptum hans frá þessum tíma að honum hafi verið kunnugt um að félag ákærða, Ólafs, Gerland Assets Ltd., fengi lán frá Kaupþingi banka hf. vegna kaupa MAT á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Ekki myndi GÞG eftir umræðu 19. september 2008, milli GÞG, HBL og SÖS um hvernig ákærði, Ólafur, myndi tryggja sér hagnað af kaupum á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. með samningi við MAT. Á þessum tíma hafi verið fylgst talsvert með eignum og skuldum ákærða, Ólafs, þar sem hann hafi átt stóran hlut í Kaupþingi banka hf. Hafi þau bréf hans lækkað í verði. Þrýstingur hafi verið kominn á allar eignir og það verið ástæða fyrir athugasemd GÞG í tölvupósti frá þessum tíma að ákærði væri undir stöðugu eftirliti. Í skýrslutöku hjá lögreglu hefði GÞG sagt að annaðhvort ákærði, Hreiðar Már, eða HBL hefðu gefið fyrirmæli um að veita félaginu Gerland Assets Ltd. lán án veða. GÞG kvaðst vilja breyta þeim framburði fyrir dómi. Hefði hann nú áttað sig á því að hann vissi ekki hver hefði gefið slík fyrirmæli. Mætti ráða það af tölvupósti GÞG frá þessum tíma þar sem GÞG hefði sagt að það væri ekkert fyrir ákærða, Ólaf, að veðsetja. Það hafi verið á ábyrgðarsviði HBL að afgreiða lán til Gerland Assets Ltd. Varðandi endurgreiðslu á láni til Serval Trading Group Corp., 8. október 2008, sem greitt hafi verið með fjármunum inni á reikningi Brooks Trading Ltd., þá hefði GÞG ekkert komið að greiðslu lánsins þann dag. GÞG kvaðst eftir útgáfu ákæru í málinu hafa rætt við verjendur ákærðu, Hreiðars Más og Ólafs. Hafi það verið gert í aðdraganda aðalmeðferðar málsins.
GB kvaðst í september 2008 hafa starfað í lögfræðideild Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Hafi EH, yfirmaður deildarinnar, verið yfirmaður hans. Hefði GB óljósa minningu um félögin Serval Trading Group Corp., Gerland Assets Ltd. og Brooks Trading Ltd. og helst muna eftir einu þessara félaga. Hafi félögin verið sett á laggirnar fyrir viðskiptavini Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Í stjórn þessara félaga hafi verið Allied Directors Corp., Global Managers Inc. og Internal Officers Inc. Hafi GB sennilega setið í stjórn allra þessara félaga að beiðni EH. Hafi það verið hluti af starfi GB fyrir Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Hafi GB tekið ákvarðanir í sambandi við þessi félög eftir fyrirmælum frá EH eða ákærða, Magnúsi. Hafi GB ritað undir skjöl tengd þessum félögum.
KVE kvaðst á árinu 2008 hafa starfað fyrir Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Hafi KVE útvegað bankanum félög í Lúxemborg og annars staðar. Hafi vinnan tengst lögfræðisviði bankans í Lúxemborg. Hafi vinnan verið fyrir ýmsa aðila, t.a.m. EH. Í sumum tilvikum hafi KVE setið í stjórnum þeirra félaga er hann hafi útvegað. Hafi það farið eftir ákvörðun starfsmanna bankans og viðskiptavina hans. Ekki hafi KVE í þeim störfum tekið sjálfstæðar ákvarðanir varðandi félögin. Hann hafi hins vegar unnið út frá hagsmunum viðskiptavinarins og getað tekið ákvarðanir eftir fyrirmælum eigenda fyrirtækjanna. KVE kvaðst hafa útvegað bankanum í Lúxemborg félagið Brooks Trading Ltd. Ekki þekkti KVE til fjármuna sem runnið hafi inn á reikning félagsins hjá bankanum í Lúxemborg. Ekki hafi KVE verið hafður með í ráðum er fjármunir á reikningi félagsins hafi verið notaðir til að greiða upp lán hjá félaginu Serval Trading Group Corp. í október 2008. Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi stjórnað því ferli. KVE kvaðst einnig hafa setið í stjórn Choice Stay Ltd. sem hafi verið skráð á Kýpur. Hafi hann gegnt sams konar hlutverki í stjórn þess félags og endranær í störfum sínum fyrir Kaupthing Bank Luxembourg S.A.
TH greindi frá því að föstudaginn 19. september 2008 hafi verið haft samband við lögmannsstofuna Fulltingi, er TH hafi unnið hjá. Hafi stofan verið beðin um að selja félag sem myndi halda utan um viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Hafi TH verið beðin um að sitja í stjórn þess félags. Að mestu hafi verið gengið frá gögnum í tengslum við þetta sama dag en félagið hafi borið nafnið Q Iceland Holding ehf. Að einhverju leyti hafi verið unnið að málinu um helgina. Skjöl málsins hafi farið fyrir Fyrirtækjaskrá á mánudeginum 22. september 2008. Hafi TH skrifað undir flöggunartilkynningu frá Kaupþingi banka hf., en hún hafi verið í sambandi við ÓEE, regluvörð Kaupþings banka hf., vegna þess. Einnig hafi hún ritað undir spurningalista um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Hafi TH ekki komið að málinu að öðru leyti og því t.a.m. ekki komið að fjármögnun kaupa á hlutabréfum í bankanum. Ákærði, Ólafur, hafi verið í sambandi við TH og beðið hana um að vera skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í félaginu fyrir hönd MAT. Ekki hafi hún verið í sambandi við MAT vegna málsins. Hún hafi hins vegar verið í sambandi við SS lögmann MAT og GJO lögmann, sem hafi verið skráður sem stjórnarformaður í Q Iceland Holding ehf. TH kvaðst fyrst við rannsókn málsins hjá lögreglu hafa frétt af láni til Brooks Trading Ltd. frá Kaupþingi banka hf. sem veitt hafi verið í september 2008. Ekki hafi hún heldur vitað um lán veitt Gerland Assets Ltd. 29. september 2008. Hún hafi hins vegar heyrt af félögunum Serval Trading Group Corp og Choice Stay Ltd. á sínum tíma í tengslum við viðskipti MAT með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Hafi það komið fram í London er hún hafi verið að vinna fyrir ákærða, Ólaf. Hafi hugsunin verið sú að stofna fjárfestingarsjóð í eigu ákærða, MAT og SAT. Hafi Kaupþing banki hf. átt að koma að sjóðnum. Sjóðurinn hafi átt að fjárfesta á Íslandi. Hafi hún hitt EH, yfirmann lögfræðideildar Kaupthing Bank Luxembourg S.A., vegna þessa og BÓ lögmann. Þessi atriði hafi verið skoðuð, en ekki farið ,,á neitt flug“. Ekki hafi hún þekkt til félagastrúktúrsins í kringum kaupin á bréfum í Kaupþingi banka hf. Ákærði, Ólafur, hafi í huga TH komið að þessum kaupum sem vinur MAT og milligöngumaður um kaupin. Hafi hún ekki talið hann þátttakanda í kaupunum. Varðandi fjármögnun kaupa hafi TH skilið það svo að fjármögnun hafi átt að vera í öðru félagi en því sem keypt hafi bréfin. Hafi verið ætlunin að hafa kaupin og fjármögnunina aðskilin vegna áhættu við kaupin. Hafi TH ætlað að kalla eftir svörum um þetta en ekki fengið nein skýr svör um þessi atriði fyrr en nokkru síðar. Hafi hún leitað eftir þeim frá SS og starfsmönnum Kaupþings banka hf. Að lokum hafi hún fengið svör um þessi atriði frá ákærða, Ólafi. Þá hafi hún fengið þau svör að MAT legði fram sjálfskuldarábyrgð vegna helmings kaupanna. Hinn helmingurinn hafi átt að vera tryggður með veði í hlutabréfunum sjálfum. Ekki hafi TH vitað að Kaupþing banki hf. hafi fjármagnað kaupin á hlutabréfunum. Hafi hún ekki komið að samningsgerðinni í viðskiptunum með hlutabréfin. Á spurningalista um peningaþvætti hafi hún skráð að uppruni fjármagns kaupa á hlutabréfunum væri í Qatar. Hafi henni skilist að MAT fjármagnaði sjálfur kaup bréfanna.
GJO kvaðst hafa fengið símtal frá ákærða, Ólafi, að kvöldi sunnudagsins 21. september 2008, tengt viðskiptum MAT með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Hafi það verið fyrstu kynni GJO af þeim viðskiptum. Ástæða þess að ákærði hafi haft samband við GJO hafi verið að GJO hafi áður unnið fyrir MAT í tengslum við önnur verkefni. Hafi MAT verið að skoða fjárfestingar í Alfesca. GJO kvaðst hafa verið stjórnarmaður í Q Iceland Holding ehf. en félagið hafi verið systurfélag Q Iceland Finance ehf. Q Iceland Holding ehf. hafi verið í eigu MAT og SAT, en Q Iceland Finance ehf. sett upp af öðrum lögmönnum og verið með eignarhaldi MAT. GJO kvað ákærða hafa borið undir GJO tilkynningu til Kauphallar vegna viðskipta MAT með hlutabréfin í Kaupþingi banka hf. Hafi GJO sagt að hann hefði ekki umboð til að tjá sig um tilkynninguna. GJO kvaðst ekki hafa vitað af félaginu Brooks Trading Ltd. í september 2008. Þá hafi GJO ekki þekkt til félagsins Gerland Assets Ltd. eða lánveitinga til þess félags í september 2008. Ekki hafi GJO heldur á þessum tíma þekkt strúktúr að baki kaupum MAT á hlutabréfunum. Öll samskipti GJO við MAT tengd viðskiptum hafi farið fram í gegnum ráðgjafa MAT. Hafi GJO að mestu verið í tengslum við SS lögmann hans.
HSK kvaðst í september 2008 hafa starfað á millibankaborði í fjárstýringu Kaupþings banka hf. Í deildinni hafi hann starfað á árunum 2004 til 2008. Yfirmaður HSK hafi verið ÓFG, forstöðumaður deildarinnar. Starf HSK hafi einkum verið fólgið í viðskiptum á milli banka en það hafi verið næstum 95% af starfinu. Öðru hvoru hafi starfsmenn þó fengið fyrirmæli um að setja viðskipti frá lánasviði bankans inn. Í þeim tilvikum hafi þurft að lána tilteknum félögum. Fjárstýring hafi verið með tölvukerfi sem haldið hafi utan um slíka hluti þar sem deildin hafi verið með lausafjárstýringu bankans. Af þeim ástæðum hafi þurft að vita um alla gjaldmiðla sem hafi farið inn eða út úr bankanum. Málefni Q Iceland Finance ehf. varðandi kaup á hlutabréfum í Kaupþingi banka hafi komið inn á borð fjárstýringar í september 2008. Málið hafi komið frá lána- eða fyrirtækjasviði bankans. Hafi starfsmönnum fjárstýringar verið tilkynnt að verið væri að veita lán. Ekki hafi verið í verkahring HSK að velta fyrir sér fjármögnun kaupa á hlutabréfunum í Kaupþingi banka hf. Hafi HSK þurft að ganga úr skugga um að bankinn væri í gnóttstöðu í öllum myntum hverju sinni. Í því hafi ekki falist ábyrgð á því hvort einhver tiltekin eignarhaldsfélög eða fyrirtæki væru að fá lán. Almennt væri það þannig að fyrirtækjasvið eða lánasvið hefði samband við fjárstýringu á millibankaborði og tilkynnti að verið væri að veita lán til einhvers verkefnis eða einhverra aðila, í tiltekinn tíma og á tilteknum kjörum. Væru þessar upplýsingar settar inn í fjárstýringakerfi sem færu í framhaldi áfram til bakvinnslu þar sem lánið væri greitt út með skeytum. Að því er varðaði símtal frá HBL 18. september 2008 hafi verið orðið þröngt um hluti á þessum tíma vegna ástands á alþjóðlegum fjármálmörkuðum. Búið hafi verið að setja innan bankans ákveðnar skorður við lánveitingum til að draga úr þeim. Það hafi þó ekki þýtt að ekki hafi verið til fjármunir innan bankans. Verið gæti að til hafi verið evrur en Bandaríkjadali hafi skort. Ef um væri að ræða svokallaða ,,nettun“ á milli banka færi hún þannig fram að í stað þess að tiltekin fjárhæð væri greidd út kæmi annað á móti. Ef samkomulag banka hafi staðið til þess hafi verið um að ræða uppgjörsatriði þeirra á milli. Peningamarkaðslán hafi verið skammtímalán, veitt frá einum degi til 12 mánaða. Ef bankinn hafi verið í gnóttstöðu á ákveðnum degi hafi hann reynt að ávaxta þá fjármuni á einhvern hátt, t.d. með því að lána öðrum banka yfir nótt eða í viku, svo dæmi væru tekin. Almennt hafi þessi lán verið á milli fjármálafyrirtækja, en einnig hafi verið unnt að lána félögum. Hafi það verið gert í einhverjum mæli. Ef um hafi verið að ræða lán milli banka hafi ekki verið tekin veð fyrir lánum, en slík tilvik hafi verið á millibankaborði í fjárstýringu. Ef um hafi verið að ræða lán frá lána- eða fyrirtækjasviði hafi verið á þeirra borði að ákveða með tryggingar. Ef lán hafi verið veitt milli banka hafi ekki verið nein skjalagerð tengd lánveitingum. Þar sem lán milli félaga hafi ekki verið á millibankaborði þekkti HSK ekki til skjalagerðar í tengslum við þau.
BHD kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri útlána í september 2008. Yfirmenn hans hafi verið ákærði, Hreiðar Már, sem yfirmaður Kaupþings samstæðunnar, og IH, forstjóri starfseminnar á Íslandi. Að því er varðaði kaup Q Iceland Finance ehf. á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. í september 2008 hafi BHD kynnst málinu á þann veg að ákærði, Hreiðar Már, hafi komið að máli við BHD í september 2008. Hafi hann tjáð BHD að fjárfestar frá Qatar hefðu áhuga á að kaupa stóran hlut í bankanum og að það þyrfti að ganga frá fjármögnun vegna þessa. Hafi ákærði falið BHD að koma málinu í farveg innan bankans. Hafi BHD í kjölfarið haft samband við viðskiptastjórana GÞG og HBL og sett þá inn í málið. Þeir, ásamt ákærðu Hreiðari Má og Magnúsi, hafi átt símafund vegna málsins 18. september 2008. Hafi BHD setið þann fund lítillega, en hann hafi komið seint á fundinn þar sem hann hafi verið að sinna öðru erindi. BHD kvaðst ekki minnast þess að strúktúr að baki viðskiptunum hafi verið kynntur á fundinum 18. september. Hann hafi í það minnsta ekki verið kynntur á þeim tíma sem BHD hafi setið á fundinum. Hafi BHD ekkert vitað um hvort ákærði, Ólafur, hafi átt að tengjast viðskiptunum og ekkert komið fram um það á fundinum á meðan BHD hafi notið við. GÞG og HBL hafi gengið frá lánabeiðnum. Hafi það verið eðlilegt og í samræmi við ferla innan bankans. Ákærði, Hreiðar Már, hafi ekki á þeim tíma sem BHD hafi verið á fundinum, gefið fyrirmæli um að lán tengd MAT skyldu afgreidd án þess að þau kæmu fyrir lánanefnd stjórnar. Málið hafi verið lagt fyrir lánanefnd stjórnar en skuldbindingin hafi gert það að verkum að lánið hafi heyrt undir lánanefndina. Hafi BHD kynnt málið fyrir lánanefndinni á fundi hennar í London 24. september 2008. Þann fund hafi setið ákærðu, Hreiðar Már og Sigurður, og stjórnarmennirnir BÓ og GPP. Einnig hafi setið fundinn SPK, framkvæmdastjóri áhættustýringar bankans. Þar fyrir utan hafi setið fundinn GH, ritari lánanefndar. BHD kvaðst ekki muna nákvæmlega hvernig lán til kaupa á hlutabréfum hefðu verið kynnt fyrir lánanefnd. Eftir því sem BHD myndi hafi komið fram að Kaupþing banki hf. væri að fjármagna kaup á hlutabréfunum í bankanum. BHD staðfesti að lán til félagsins Gerland Assets Ltd., sem veitt hafi verið í tengslum við kaupin, hafi ekki farið fyrir lánanefndarfundinn. Kvaðst BHD telja að um mistök hefði verið að ræða. Hafi HBL verið falið að vinna undirbúningsvinnu varðandi kaupin, sem hafi falist í því að útbúa skjöl varðandi kaupin og fara með málið fyrir lánanefnd. Að öllu eðlilegu hafi það heyrt undir GÞG, þar sem hann hafi fremur verið í verðbréfafjármögnun, en HBL hafi meira sinnt lánastarfsemi á Norðurlöndum. Minna hafi verið að gera í lánastarfsemi á Norðurlöndum á þessum tíma en venjulega en mikið verið að gera hjá GÞG. Af þeim ástæðum hafi HBL verið falið að sjá um skjalagerðina. GÞG hafi verið viðskiptastjóri fyrirtækja ákærða, Ólafs. Málið hafi sennilega fallið niður á milli þeirra tveggja með því að hvor um sig hafi gert ráð fyrir að hinn gengi frá lánabeiðnum vegna Gerland Assets Ltd. BHD hafi ekki á þessum tíma vitað um aðkomu ákærða, Ólafs, að þessum viðskiptum og fyrst frétt það eftir 8. október 2008. Er málið hafi verið kynnt fyrir lánanefnd hafi BHD staðið í þeirri trú að einungis Gerland Assets Ltd. væri að kaupa bréf í bankanum. Ekki kvaðst BHD þekkja ástæðu þess að úr fyrstu drögum að fundargerð lánanefndar vegna láns til Brooks Trading Ltd. hafi verið tekið að lánið væri hluti hagnaðar af viðskiptum. Ritari lánanefndar hafi fært fundargerð. Hafi drög verið send út og þau leiðrétt eftir atvikum. Hafi BHD alltaf farið yfir drög að fundargerðum og leiðrétt þau eftir þörfum. BHD kvaðst ekki kannast við að HBL hafi borið undir BHD hvort greiða ætti 50.000.000 Bandaríkjadala peningamarkaðslán til Brooks Trading Ltd. í kjölfar fundarins 18. september 2008. Ekki hafi verið lánabann á þessum tíma en minna verið um lánveitingar í erlendum myntum. Hafi vilji staðið til þess að halda þeim sem mest innan bankans. Orðfæri BHD í lögregluskýrslu á sínum tíma um þetta efni hafi verið ónákvæmt. BHD kvaðst kannast við CLN-viðskipti sem Kaupþing banki hf. hefði fjármagnað á árinu 2008. Tveir strúktúrar hafi verið settir upp í slíkum viðskiptum. Viðkomandi félög hafi ekki komið með eigið fé í viðskiptin og áhætta þeirra því ekki verið mikil. Viðskiptin hafi að miklu leyti verið gerð til hagsbóta fyrir bankann vegna síhækkandi skuldatryggingarálags. Mætti líkja þessu við að bankinn hafi verið að kaupa eigin skuldabréf með afslætti. Bankinn hafi borið áhættuna í þessum viðskiptum og notið ábatans. Þau viðskipti sem sett hefðu verið upp hefðu tengst góðum viðskiptavinum sem hefðu verið í viðskiptum um langt skeið.
Peningamarkaðslán, hafi í raun verið skammtímafyrirgreiðslur. Beðið hafi verið endanlegrar úrlausnar lánanefndar stjórnar. Ástæða þess að notast hafi verið við þessa aðferð hafi verið sú að mikið hafi legið við. Bankinn hafi ekki getað beðið eftir formlegri úrlausn lánanefndar, þ.e. staðfestum fundargerðum og þess háttar. Samþykki lánanefndar stjórnar hafi verið sótt eftir á. Þó hafi í flestum tilvikum, ef ekki öllum, verið búið að fara í gegnum þau mál með lánanefndarmönnum. Hafi það einnig tengst því að lánanefnd stjórnar hafi ekki komið reglulega saman. Þá hafi meðlimir hennar verið mjög uppteknir og ferðast víða um heiminn. Erfitt hafi verið að ná þeim saman. Fjárstýring hafi séð um afgreiðslu peningamarkaðslána. Starfsmenn fjárstýringar hefðu ekki greitt út slík lán nema þau væru innan þess ramma sem þeir væru með eða samkvæmt beinum fyrirmælum frá forstjóra Kaupþings banka hf. BHD kvaðst hafa litið svo á að í þessum lánum væri fólgin ákveðin rekstraráhætta fyrir bankann. Hafi BHD haft af því áhyggjur að starfsmenn fjárstýringar gætu greitt út háar fjárhæðir án þess að áður lægju fyrir formlegar úrlausnir. Hafi BHD orðað þessar áhyggjur við ákærða, Hreiðar Má. Á stjórnarfundi Kaupþings banka hf. í London dagana 25. og 26. september 2008 hafi meðal annars verið farið yfir lánabók bankans. BHD og allir viðskiptastjórar hafi komið að því að safna saman upplýsingum um lán áður en farið hafi verið yfir lánabókina. Að því er varðaði tryggingar hafi talsvert verið við það stuðst að lánað yrði til félaga, sem sett væru sérstaklega upp fyrir tiltekin viðskipti. Þá hafi fyrirkomulagið verið þannig að fulltrúi bankans hafi farið inn í stjórn viðkomandi félags. Það hafi leitt til þess að félögin hafi ekki átt að geta tekið ákvarðanir sem gengju gegn hagsmunum bankans. Þannig hafi bankinn fengið auknar tryggingar í tengslum við þessi viðskipti. Handbók Kaupþings banka hf. hafi haft að geyma ýmsar leiðbeiningar varðandi innri starfsemi bankans. Í bókinni hafi verið kafli ,,Collateral Value and Haircuts“, nr. 3.3.6.2. Í kaflanum hafi verið til meðferðar svonefnd tryggingarþekja. Þessi ákvæði handbókarinnar hafi tekið til afleiðuviðskipta, viðskipta sem unnin hafi verið af starfsmönnum bankans í markaðsviðskiptum og eftir atvikum fjárstýringu, sem ekki hafi farið fyrir lánanefnd. Þau lán sem fallið hafi undir kaflann hafi farið sjálfkrafa út úr bankanum, ef svo mætti orða það. Í þessum tilvikum hafi starfsmenn á viðskiptagólfi gert framvirka samninga við viðskiptavini og haft ákveðinn ramma að miða við til að þurfa ekki að bera viðskipti undir einhvern annan innan bankans. Fjárstýring hafi haft eins konar ,,mekanískt“ eftirlit með þessum viðskiptum, en lánveitingar og skuldbindingar samkvæmt þeim veittar af starfsmönnum á gólfi. Í þessum ákvæðum bókarinnar hafi falist að lánanefndir hafi getað tekið ákvarðanir um lánveitingar án þess að áskildar væru tryggingar á bak við. Ekki hafi verið neinar takmarkanir á heimildum lánanefnda til að lána án trygginga. Fjölmörg dæmi hafi verið um þetta í framkvæmd. Bankinn hafi einnig veitt víkjandi lán í þessu samhengi. Að því er varðaði ákvæði 3.3.1.5 hafi ekki verið unnt að heimfæra þessi ákvæði upp á skammtímalánveitingar eins og peningamarkaðslánin. Kaflinn hafi átt við um innlán og afleiðuskuldbindingar gagnvart fjármálafyrirtækjum. Þegar um peningamarkaðslán hafi veri að ræða hafi gilt aðrar takmarkanir samkvæmt almennum reglum. Hafi þar fyrst og fremst verið um ákvæði hlutafélagalaga að ræða. Ekki hafi verið óvenjulegt í stórum viðskiptum að gengið hafi verið frá skammtímafjármögnun viðskipta með skammtímalánafyrirgreiðslum, á meðan beðið væri eftir því að gengið yrði frá lánsskjölum til lengri tíma og þá oft með tilheyrandi veðum og öðrum tryggingum. Þrátt fyrir þetta fyrirkomulag hafi áhætta bankans verið takmörkuð, sérstaklega þegar um sjálfskuldarábyrgð hafi verið að ræða eins og í tilviki MAT. Þá hafi þau félög sem lánað var, Serval Trading Group Corp, Gerland Assets Ltd. og Choice Stay Ltd., verið undir stjórn starfsmanna Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Það hafi dregið verulega úr áhættu bankans. Þessi félög hafi verið stofnuð sérstaklega vegna þessara viðskipta. Félögin hafi því ekki verið með neinar aðrar skuldbindingar. Í venjulegum tilvikum, þegar gengið væri frá samningum um fjárfestingu hlutabréfaviðskipta, væri hefðin sú að eigið fé í viðskiptunum tæki fyrstu áhættu, með öðrum orðum að tryggingin dekkaði fyrsta tapið ef undirliggjandi eignir féllu í verði. Að því er varðaði fjármögnun hlutabréfaviðskipta hafi venjan verið sú að slík fjármögnun væri ekki tilkynnt til Kauphallar eða út á markað. BHD kvaðst hafa átt fund með verjendum ákærðu, Hreiðars Más og Ólafs, fyrir aðalmeðferð málsins. Þar hafi komið fram hverjar yrðu spurningar þeirra til vitnisins.
TSP kvaðst í september 2008 hafa setið í stjórn Kaupþings banka hf. Hafi hann verið á stjórnarfundi í bankanum dagana 25. og 26. september 2008. Ekki hafi hann vitað um lán til Brooks Trading Ltd. sem veitt hafi verið í september 2008, né lán til Gerland Assets Ltd., 29. sama mánaðar. Einstakar lánveitingar hafi almennt ekki verið til umræðu og stjórn ekki átt aðkomu að þeim nema í gegnum lánanefnd stjórnar. Á nefndum stjórnarfundi hafi verið farið í gegnum eigna- og lánasafn bankans. Fram hafi komið á fundinum að MAT hefði keypt 5,01% hlut í bankanum. Ekki hafi komið fram hvernig hluturinn hefði verið fjármagnaður, né að félag í eigu ákærða, Ólafs, hefði fengið lán vegna kaupanna. Ef fram hefði komið að Kaupþing banki hf. hefði fjármagnað kaupin hefði á þessum stjórnarfundi verið gripið til aðgerða vegna þess.
GPP kvaðst allt frá árinu 2001 hafa setið í stjórn Kaupþings banka hf. Í talsverðan tíma fyrir september 2008 hafi átt sér stað umræða innan stjórnar um að breikka hluthafahópinn með því að fá erlenda fjárfesta að bankanum. GPP hafi átt sæti í lánanefnd stjórnar. Auk hans hafi setið í lánanefndinni BÓ og ákærðu, Hreiðar Már og Sigurður. GPP kvaðst hafa heyrt í fjölmiðlum um kaup MAT á 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. Lán til Brooks Trading Ltd. hafi verið tekið fyrir á fundinum. Það lán hafi verið kynnt þannig að um væri að ræða fjárfestingu í svonefndum CLN-viðskiptum. Fram hafi komið að þau viðskipti færu fram fyrir tilstuðlan Deutsche Bank. Viðskiptin hafi verið metin örugg þar sem talið hafi verið að bankinn væri ekki að fara á hliðina þó svo skuldatryggingarálag hans hefði farið hækkandi. Vonir hafi staðið til þess að það færi niður. Kynning á láni til Brooks Trading Ltd. hafi komið í gengum lánsumsóknina, sem útbúin hafi verið af HBL. Ekki hafi komið fram á þessum fundi að búið hafi verið að greiða út lánið til Brooks Trading Ltd. Í tengslum við lánið hafi verið rætt um að þetta væri hagnaður af CLN-viðskiptum. Fyrirgreiðslan til Brooks Trading Ltd. hafi þó verið afgreidd sem lánveiting. Ekki hafi verið til umræðu á fundinum lán til Gerland Assets Ltd. Þá hafi ekki komið fram að félag í eigu ákærða, Ólafs, hafi fengið lán að fjárhæð 13.000.000.000 króna í september 2008. Ekki hafi verið minnst á aðkomu ákærða, Ólafs, í tengslum við kaup MAT á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Á þessum tíma hafi markaðir verið orðnir nokkuð erfiðir. Ákærði, Ólafur, hafi verið einn af stærstu viðskiptavinum bankans og bankinn fjármagnað stór viðskipti hjá honum. Á fundinum hafi verið fjallað um lánveitingar til Serval Trading Group Corp., félags í eigu MAT. Hafi legið fyrir að um hafi verið að ræða kaup á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Fram hafi komið að þessi viðskipti væru væntanlega upphafið að meiri viðskiptum af hans hálfu við bankann. Ekki hafi þó komið fram að bankinn fjármagnaði kaupin að fullu. Þá hafi verið upplýst um sjálfskuldarábyrgð MAT vegna lánveitingarinnar til Serval Trading Group Corp.
HJ kvaðst hafa verið stjórnarmaður í Kaupþingi banka hf. og verið viðstaddur stjórnarfund í bankanum í London dagana 25. og 26. september 2008. HJ hafi hvorki verið kunnugt um lánveitingu til félagsins Brooks Trading Ltd. í september 2008, né til félagsins Gerland Assets Ltd. í sama mánuði. Þá hafi ekki legið fyrir upplýsingar um að Kaupþing banki hf. hafi fjármagnað að fullu kaup MAT á 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. Kaupin hafi þó verið kynnt á fundi stjórnar af ákærða, Sigurði. Á þessum tíma hafi verið umræða innan stjórnar um að breikka hluthafahópinn og fá í hann erlenda fjárfesta. Kaup MAT á hlut í bankanum hafi verið í samræmi við markmið stjórnenda Kaupþings banka hf. Almenn ánægja hafi verið með kaupin á stjórnarfundinum. Öll þau ár sem HJ hafi setið í stjórn bankans hafi einstök lánamál aldrei verið rædd. Einu sinni á ári hafi verið farið yfir svonefnda lánabók bankans þar sem gerð hafi verið grein fyrir stöðu einstaka skuldbindinga. Lánanefnd stjórnar hafi fengið það umboð að afgreiða einstök lánamál.
BH og ÁT báru með sama hætti um atvik. Hafi þau í september 2008 bæði setið í stjórn Kaupþings banka hf. og verið á stjórnarfundinum í London dagana 25. og 26. september 2008. Einstök lánamál hafi ekki verið til afgreiðslu á stjórnarfundum og því ekki komið til tals lánveitingar til Brooks Trading Ltd. og Gerland Assets Ltd. Því hafi ekki komið fram að félag ákærða, Ólafs, hefði fengið lán til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Ekki mundu þau sérstaklega eftir því að til umræðu hafi verið kaup MAT á 5,01% hlut í bankanum. Lánanefnd stjórnar hafi haft umboð til að afgreiða einstaka lánveitingar.
LG kvaðst í september 2008 hafa verið varaformaður stjórnar Kaupþings banka hf. Hafi LG verið viðstaddur fund stjórnar dagana 25. og 26. september 2008. Lán til einstakra viðskiptavina hafi ekki verið rædd á stjórnarfundum í bankanum. Af þeim ástæðum hafi ekki borið á góma lánveitingar til Brooks Trading Ltd. eða Gerland Assets Ltd., eða að félag í eigu ákærða, Ólafs, hefði komið að viðskiptunum. Viðskipti Q Iceland Finance ehf. hafi verið rædd á stjórnarfundinum og stjórn almennt verið ánægð með kaupin á hlutabréfunum í bankanum. Ekki hafi komið fram í þeirri kynningu hvernig kaupin hefðu verið fjármögnuð eða að kaupandinn legði fram sjálfskuldarábyrgð í tengslum við kaupin. LG kvaðst staðfesta að innan stjórnar hefði á þessum tíma verið rætt um að leggja áherslu á að breikka hluthafahóp bankans, einkum með því að leita eftir fjársterkum útlendum aðilum. Viðskipti MAT hafi verið í samræmi við þessa stefnu stjórnar.
GH kvaðst hafa verið starfsmaður áhættustýringar Kaupþings banka hf. og verið ritari lánanefndar. Sem ritari hafi hún tekið við fundargögnum fyrir fundi og sent þau á nefndarmenn. Þá hafi hún ritað fundargerðir lánanefndarfunda. Á fundum nefndarinnar hafi verið lögð fram dagskrá og hún fyrir fram verið send á nefndarmenn. BHD framkvæmdastjóri hafi yfirleitt kynnt einstök mál á fundum nefndarinnar. Í einhverjum tilvikum hafi viðskiptastjórar verið kallaðir til í þeim tilgangi. Í þeim tilvikum að mál hafi verið tekin fyrir milli funda hafi tölvupóstur verið sendur á nefndarmenn og þeir beðnir um að lýsa afstöðu sinni til málefna. Hafi GH haldið utan um það og séð til þess að mál sem væru þannig afgreidd væru tekin fyrir á næsta fundi í nefndinni. GH kvaðst hafa verið stödd á fundi lánanefndar 24. september 2008 og hafa ritað þar fundargerð. Ekki mundi hún sérstaklega eftir lánveitingu til Brooks Trading Ltd. sem tekin hafi verið fyrir á fundinum. Inntak í lánabeiðnum hafi jafnan endurspeglað fundargerðir lánanefndar. BHD hafi jafnan lesið yfir fundargerðir lánanefndar. Að því er varðaði breytingu á fundargerð vegna láns til Brooks Trading Ltd. kvaðst GH ekki hafa tekið út úr fyrri drögum að fundargerð atriði varðandi fyrirframgreiðslu á hagnaði tengd lánveitingunni. Ekki vissi hún hver hefði gert þessa breytingu á fundargerðinni.
IH kvaðst hafa verið forstjóri yfir Kaupþingi á Íslandi í september 2008. Yfirmaður IH hafi verið ákærði, Hreiðar Már. Yfir IH hafi einnig verið svokölluð verkstjórn. Í henni hafi verið ákærðu, Hreiðar Már og Sigurður, og SPK, yfirmaður fjárstýringar bankans. IH kvaðst ekkert hafa komið að lánveitingum til félaganna Brooks Trading Ltd. og Gerland Assets Ltd. í september 2008. Þá hafi IH ekki þekkt til þess að félag í eigu ákærða, Ólafs, hafi fengið lán til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Að því er varðaði viðskipti Q Iceland Finance ehf. með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. hafi ákærði, Hreiðar Már, hringt í IH helgina 19. til 21. september 2008 og tilkynnt að komin væru á viðskipti með um 5% hlut í bankanum. Það hafi verið fyrstu fregnir sem IH hafi haft af málinu. Hafi ákærði falið IH að annast frágang viðskiptanna í samræmi við upplýsingar er ákærði hafi látið í té. Hafi IH átt að sjá um að upplýsingar yrðu sendar til Kauphallarinnar og á aðra nauðsynlega staði til að koma viðskiptum á réttan hátt á markað. Hafi IH sett sig í samband við eigin viðskipti og markaðsviðskipti bankans. Eitthvað hafi vantað upp á að bankinn ætti nægjanlega mörg hlutabréf í bankanum og hafi IH verið falið að útvega það sem á hafi vantað til að nægt magn hlutabréfa væri til á mánudeginum 22. september 2008. Ekki hafi IH haft upplýsingar um hvernig kaup Q Iceland Finance hf. á bréfunum yrðu fjármögnuð. Hafi IH á sínum tíma talið viðskiptin góð fyrir bankann.
HS kvaðst í september 2008 hafa verið framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings banka hf. Yfirmenn HS á þessum tíma hafi verið ákærði, Hreiðar Már, og IH. Að því er varðaði viðskipti Q Iceland Finance ehf. með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. hafi HS fyrst frétt af þeim viðskiptum helgina 20. til 21. september 2008. Hafi HS verið beðinn um að tilkynna viðskiptin til Fjármálaeftirlitsins og sjá um að flagga viðskiptunum. Ekki hafi HS á sínum tíma verið kunnugt um lán Kaupþings banka hf. til félagsins Brooks Trading Ltd. frá í september 2008 eða lán til félagsins Gerland Assets Ltd., sem veitt hafi verið 29. september 2008. Að því er varðaði kaup MAT á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. hafi HS vitað til þess að MAT fengi lán frá Kaupþingi banka hf. til kaupa á hlutabréfunum og að hann legði fram á móti sjálfskuldarábyrgð fyrir helmingi kaupverðsins. Þetta hafi sennilega komið upp á sínum tíma í viðræðum við ákærða, Hreiðar Má. Ekki hafi HS vitað um aðkomu ákærða, Ólafs, að viðskiptunum og að félagi í hans eigu yrði lánað fyrir kaupum á hlutabréfum í bankanum. HS kvaðst hafa verið viðstaddur fund í stjórn Kaupþings banka hf. dagana 25. og 26. september 2008. Í lok fundarins hafi komið fram um kaup Q Iceland Finance ehf. á hlutabréfum í bankanum. Hafi því verið fagnað því lengi hafi verið unnið að því að fá fjárfesta frá Mið-Austurlöndum til að fjárfesta í bankanum og koma þannig með hlutafé inn í bankann. Á stjórnarfundinum hafi ekki verið farið yfir fjármögnun kaupanna. Hafi almennt ekki verið rætt um einstök viðskipti á stjórnarfundum í bankanum. Að því er varðaði tölvupóst sem HS hafi sent ákærða, Magnúsi, og IH 22. september 2008, þar sem HS hafi sagt að félagið Q Iceland Finance ehf. gæti augljóslega ekki staðið undir miklum viðskiptum og að það þjónaði takmörkuðum tilgangi að gera mikla samninga við það, hafi HS gengið út frá þeirri forsendu að einhverjar ábyrgðaryfirlýsingar þyrftu að koma inn til að unnt yrði að ganga frá viðskiptum við félagið. HS kvaðst einungis hafa haft stóru mynd þessara kaupa er fréttatilkynning vegna kaupanna hafi verið gefin út. Hafi HS ekki vitað um aðkomu ákærða, Ólafs, að þeim. Hafi hann vitað að MAT væri að kaupa umrædda hluti í bankanum, að hann ætlaði að leggja fram sjálfskuldarábyrgð fyrir helmingi kaupverðsins og að Kaupþing banki hf. hafi ætlað að fjármagna kaupin. Ekki hafi HS vitað nákvæmlega hve mikið yrði lánað til kaupanna, en það yrði að verulegu leyti. Á þessum tíma hafi verið töluverður lausafjárskortur í öllum heiminum. Um hafi verið að ræða mjög umfangsmikil viðskipti og HS því ekki gert ráð fyrir því að kaupandinn kæmi með stóra fjármuni inn í bankann. Hafi HS talið viðskiptin mikilvæg fyrir bankann. Á þessum tíma hafi 50% hlutfall trygginga eða eiginfjár í viðskiptum þótt mjög gott. Reglur um flöggun hafi verið hluti af upplýsingaskyldu á verðbréfamarkaði og sú meginregla gilt að upplýsingum yrði að koma á framfæri þegar í stað, eða eins fljótt og unnt væri. Þannig hafi átt að tilkynna um viðskipti jafnvel þó svo þau væru ekki endanlega frágengin. Hafi enginn vafi verið í huga HS um að borið hafi að tilkynna um viðskiptin á þessum tíma. Ekkert hafi komið fram um fjármögnun kaupanna í tilkynningunni. Það hafi ekki verið venja að gera það hjá Kaupþingi banka hf. né öðrum aðilum sem sent hafi upplýsingar inn á markað. Í því efni hafi bankinn farið eftir lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Reglur Kauphallar fyrir útgefendur fjármálagerninga, ákvæði nr. 2.18 um kaup og sölu fyrirtækja, hafi ekki átt við um kaup og sölu á hlutabréfum. Hafi reglurnar átt við um kaup og sölu félags og fyrirtækis í heild sinni þegar verið væri að selja fyrirtæki. Í tilviki Q Iceland Finance ehf. hafi verið um að ræða 5% hlut í bankanum og ekki verið venja að tilkynna fjármögnun kaupa í slíkum tilvikum. Þá hafi verið áhöld um hvort ákvæði um þagnarskyldu heimiluðu að slíkar upplýsingar yrðu veittar um fjármögnun kaupa. HS kvaðst telja að engu skipti um flöggun viðskiptanna þó svo félag í eigu ákærða, Ólafs, hafi komið að viðskiptunum. Flöggun snerist um atkvæðisrétt.
Í stærri viðskiptum innan bankans hafi oft verið beðið með frágang á skjölum. Í lánasamningum hafi verið algengast að gengið væri frá svokölluðu ,,head of turns“ áður en gengið yrði frá endanlegri skjalagerð. Hagsmunir Kaupþings banka hf. hafi verið nægjanlega tryggðir þó svo ekki yrði gengið frá endanlegum lánasamningum þegar í upphafi. Um hafi verið að ræða mjög fjársterkan aðila frá Mið-Austurlöndum og enginn vafi á að slíkur einstaklingur færi ekki af stað í viðlíka viðskipti án þess að ætla að standa við þau. Þá hafi aukið öryggi varðandi lánveitingar jafnframt falist í því að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi útvegað viðskiptavinum félög sem væru lántakendur. Þeim félögum hafi verið stýrt af starfsmönnum bankans, sem séð hafi um að hagsmunir bankans væru tryggðir. Þannig hafi þurft aðkomu starfsmanna bankans til að fjármunum yrði ráðstafað út úr þessum félögum. HS kvaðst hafa komið að gerð handbókar fyrir Kaupþing, svonefndrar reglubókar. Það hafi hann gert í samvinnu við SPK, framkvæmdastjóra fjárstýringar, en þeir tveir hafi nánast verið ritstjórar bókarinnar. Kafli 3.3.6.2 í bókinni hafi tekið til svonefndra afleiðuviðskipta og einungis átt við um þau viðskipti. Þessi ákvæði hafi ekki átt við um lánveitingar til félaga MAT um kaup á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Hefðbundnar lánveitingar innan bankans hafi ekki takmarkast við innstæður og verðbréf sem tryggingar. Bankinn hafi tekið sem tryggingar veð í vörubirgðum, vörureikningum, lausafé, bifreiðum o.s.frv. Umræddur kafli hafi einungis átt við um þessa tiltekna tegund viðskipta sem hafi verið afleiðuviðskipti eða ,,derivaties“. Þetta atriði hafi ekki vafist fyrir neinum innan bankans. Hefðbundnar eiginfjárkröfur í hlutabréfaviðskiptum á þessum tíma hafi verið um 20%. Engar reglur innan bankans hafi kveðið á um það. Lánanefndir hafi haft heimildir til að veita lán án veða. Ekki hafi verið neinar takmarkanir á því. Eins hafi verið veitt víkjandi lán með samþykki lánanefnda. Lán til stórra fjármálafyrirtækja hafi meira og minna verið án veðsetninga. Hafi það gilt um lán til ríkis, sveitarfélaga, ríkisfyrirtækja, skráðra félaga, fjármálafyrirtækja og stórfyrirtækja. Í lánssamningum til þessara lögaðila hafi verið ákvæði þess efnis að viðkomandi lögaðilum hafi verið óheimilt að veita tryggingar í einstökum lánaviðskiptum. Þá hafi verið ákvæði um að allir stæðu jafnir til eigna félagsins. Þá hafi verið tiltekið eiginfjárhlutfall sem hafi verið lagt til grundvallar. Þannig hafi öll stærri lán verið án trygginga. Hafi þetta ekki verið bundið við Kaupþing banka hf. og komið fram í alþjóðlegum lánasamningum. Ákvæði 3.3.3.1.5 í handbók Kaupþings banka hf. hafi tekið til afleiðuviðskipta, innstæðna og peningamarkaðslána sem fjárstýring hafi gert við aðrar fjármálastofnanir. Um hafi verið að ræða ávöxtun á skammtímafé. Hafi bankinn jafnan verið með skammtímafé sem hann hafi þurft að ávaxta til skamms tíma. Ákveðinn ramma hafi þurft í kringum slík lán. Þessi ákvæði yrðu hins vegar ekki yfirfærð á skammtímalánveitingar bankans í hlutafjárviðskiptum. Þegar reglubókin hafi verð samin á sínum tíma hafi hún ekki verið hugsuð fyrir æðstu stjórnendur bankans. Staða þeirra hafi verið ágætlega skilgreind í lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um hlutafélög og ýmsum reglum sem Fjármálaeftirlitið hefði gefið út. Handbókin hafi litlu bætt við í þeim efnum. Bókin hafi verið ætluð öðrum innan bankans sem hafi tekið viðskiptalegar ákvarðanir. Þeir hafi ekki haft mikið annað til að styðjast við. Sala á hlutabréfum í bankanum hafi farið þannig fram að fjárhæðinni hafi verið ráðstafað inn á reikning viðkomandi í bankanum og samtímis út af honum aftur til greiðslu á kaupverði. Þannig hafi ekki verið um sambærilega áhættu að ræða og þegar verið væri að veita ný lán. HS kvað verjanda ákærða, Hreiðars Más, hafa verið í sambandi fyrir aðalmeðferð málsins. Hefði verjandinn spurst fyrir um hvort HS gæti upplýst í aðalmeðferðinni um tiltekin atriði sem verjandinn hygðist spyrja um.
JRJ staðfesti að endurskoðunarskrifstofan Grant Thornton hefði sent skilanefnd Kaupþings banka hf. bréf vegna skipta á þrotabúi Brooks Trading Ltd. Þar hafi skiptastjórinn verið þeirrar skoðunar að ráðstöfun á fjármunum félagsins til að greiða niður lán Serval Trading Group Corp hafi verið óheimil samkvæmt félagarétti í Lúxemborg og ógild eða ógildanleg. Hafi slitastjórn Kaupþings banka hf. krafist gjaldþrotaskipta á félaginu. Hafi slitastjórnin unnið að því að endurheimta þessa fjármuni vegna ráðstöfunar þeirra út af reikningi Brooks Trading Ltd. 8. október 2008. Slitastjórn hafi fengið upplýsingar um ráðstöfunina fljótlega eftir að Fjármálaeftirlitið hafi tekið yfir Kaupþing banka hf. Í upphafi dags 8. október 2008 hafi Kaupþing banki hf. átt kröfu á félagið Brooks Trading Ltd. sem hafi átt 50.000.000 Bandaríkjadala inni á reikningi félagsins. Kaupþing banki hf. hafi sömuleiðis átt kröfu á hendur félaginu Serval Trading Group Corp, sem hafi verið í eigu MAT, upp á tæplega 12.900.000.000 króna. Krafan á hendur Serval Trading Group Corp hafi verið tryggð með sjálfskuldarábyrgð MAT. Í þriðja lagi hafi Kaupþing banki hf. átt kröfu á félagið Gerland Assets Ltd. upp á sömu fjárhæð. Það félag hafi verið í eigu ákærða, Ólafs. Endurheimtumöguleikar Kaupþings banka hf. hafi því verið góðir að morgni þessa dags. Eftir að fjármunir Brooks Trading Ltd. hafi verið notaðir til að greiða inn á lánið til Serval Trading Group Corp. hafi endurheimtur Kaupþings banka hf. breyst á svipstundu. Eftir það, eða 9. október 2008, hafi Kaupþing banki hf. einungis átt litla kröfu á Serval Trading Group Corp, eða sem numið hafi um 400.000.000 króna, einungis kröfu á hendur Brooks Trading Ltd., sem þá hafi litlar sem engar eignir átt. Loks hafi bankinn átt kröfu á hendur Gerland Assets Ltd. Kröfur bankans á hendur Serval Trading Group Corp. hafi verið greiddar upp af ákærða, Ólafi, fyrir hönd MAT. Hafi slitastjórnin skoðað þessi mál og PriceWaterHouseCoopers komið að því. Þá hafi lögmenn í Bretlandi verið ráðnir til þess að skoða þessi mál og mögulegar endurheimtur. Hafi niðurstaðan verið sú að einhverjar endurheimtur væru mögulegar. Slitastjórnin hafi haft samband við lögmenn MAT varðandi þessi atriði til að leita sátta um mögulegar greiðslur frá MAT til slitastjórnarinnar. Þær umleitanir hafi ekki gengið eftir og stefna á hendur MAT verið gefin út í kjölfarið. Áður en hún hafi verið þingfest hafi náðst sátt við MAT. Samkvæmt samningi við MAT hafi hann greitt skiptastjóra Brooks Trading Ltd., 26.500.000 Bandaríkjadali til að ljúka málinu. Slitastjórn Kaupþings banka hf. hafi fengið stóran hluta af þeirri fjárhæð við skipti á búinu. Það hafi verið mat þeirra er að málinu hafi komið að farsælt væri að ljúka því með þessum hætti. Hafi lögmenn MAT haft uppi varnir gagnvart kröfunni og meðal annars borið því við að MAT hafi talið sig blekktan við kaup á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Ekki hafi komið til greina af hálfu slitastjórnar að rifta kaupum MAT á hlutabréfum í bankanum. Þau hafi verið verðlaus eftir 8. október 2008.
SPK kvaðst í september 2008 hafa verið framkvæmdastjóri áhættustýringar Kaupþings samstæðunnar. Ákærði, Hreiðar Már, hafi verið yfirmaður SPK. Í Kaupþingi banka hf. hafi verið tvær lánanefndir. Lánanefnd samstæðu annars vegar og lánanefnd stjórnar hins vegar. Hafi SPK setið fundi lánanefndar samstæðu og lánanefndar stjórnar og haft eftirlit með störfum nefndanna án þess að taka þátt í ákvörðunum þeirra. Eftirlit SPK hafi falist í því að sjá til þess að áhættureglum yrði fylgt og að lánanefndir hefðu allar þær upplýsingar sem þær þyrftu við ákvarðanatöku. Hafi lánanefndir átt að fara eftir áhættureglum. Alla jafnan hafi viðskiptastjórar eða BHD, framkvæmdastjóri lánasviðs, kynnt mál á fundum. SPK kvaðst hafa vitað til þess um viku fyrir viðskipti Q Iceland Finance ehf. með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. að þessi viðskipti stæðu til. Hafi hann haft vitneskju um að ákærði, Magnús, hafi farið til Katar vegna kaupanna. Skömmu áður hafi SPK tekið þátt í kynningu á starfsemi bankans fyrir fjárfestingarsjóði í Katar. SPK hafi setið fund lánanefndar stjórnar 24. september 2008 þar sem lánveitingar tengdar þessum kaupum hafi komið upp. Þar hafi komið upp lán til félagsins Brooks Trading Ltd. Í lánsbeiðni hafi komið fram hver væri eigandi félagsins. Ekki hafi lánanefnd vitað til þess að lán til þessa félags hefði hugsanlega verið greitt út 19. september 2008. Ekki myndi SPK eftir umræðu í lánanefnd um að lánið tengdist fyrir fram greiddum hagnaði af CLN-viðskiptum, þó svo það hafi greinilega tengst CLN-strúktúr. Fram hafi komið að CLN-strúktúrar væru veðsettir til tryggingar láninu. Fyrir hafi legið að Kaupþing banki hf. væri að fjármagna kaup Q Iceland Finance ehf. á hlutum í bankanum. Einnig hafi verið gerð grein fyrir sjálfskuldarábyrgð MAT fyrir helmingi kaupverðs bréfanna. SPK kvað lánanefndum hafa verið heimilt að veita lán án trygginga. Áhætta hafi vissulega verið í því fólgin, en starfsemi banka gengi út á að lána fé og í sumum tilvikum án trygginga. Lán til Brooks Trading Ltd. hafi verið til félags sem hafi verið í umsjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Að auki hafi fjármunir til félagsins verið í bankanum í Lúxemborg. Það hafi átt að minnka áhættu tengda láninu. Hafi SPK skilið þetta svo að þessir fjármunir hafi átt að fara í fjárfestingar undir stjórn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Eigandi Brooks Trading Ltd. hafi í sjálfu sér ekki tekið áhættu með þessum viðskiptum. Ekki kvaðst SPK muna eftir lánveitingu til félagsins Gerland Assets Ltd. í september 2008. Þá hafi hann ekki vitað að ákærði, Ólafur, hafi hafi átt aðkomu að viðskiptum Q Iceland Finance með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Hafi SPK ekkert komið að eða þekkt strúktúr að baki viðskiptum Q Iceland Finance ehf. með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Hefðbundnar eiginfjárkröfur í viðskiptum af þessum toga hafi verið allt frá 0% upp í 50%, allt eftir mótaðila í viðskiptum. Algeng tala hafi verið á bilinu 20 til 25%. Því hafi verið um hátt veðhlutfall að ræða í viðskiptum við MAT. Ekki hafi neinar reglur innan bankans kveðið á um lágmarkshlutfall trygginga í hlutabréfaviðskiptum. Hafi lánanefnd haft heimild til að samþykkja það hlutfall sem hún teldi nægjanlegt. SPK kvaðst hafa verið nokkurs konar ritstjóri regluhandbókar Kaupþings banka hf. Hafi hún verið kynnt fyrir stjórn bankans einu sinni á ári. Bankinn hafi breyst hratt og erfitt reynst að láta handbókina, samþykkta af stjórn, fylgja breytingum. Af þeim ástæðum hafi verið sett inn ákvæði um að forstjóri bankans hefði heimild til þess að breyta reglunum. Hafi forstjórinn ekki getað farið yfir þá heimild, en getað breytt reglunum að öðru leyti. Ákvæði 3.3.6.2 í regluhandbók Kaupþings hafi einungis átt við um afleiðuviðskipti bankans. Sérákvæði um veðhlutföll og heimildir til afleiðuviðskipta hafi verið inni þar sem þessi mál hafi ekki farið fyrir lánanefndir. Þessi viðskipti hafi farið fram í deild innan bankans sem ekki hafi haft heimildir til að taka lánaáhættu. Að því er varðaði ákvæði 3.3.3.1.5 í reglubókinni hafi sú heimild tekið til lána milli fjármálastofnana, svonefnd millibankalán, þar sem fjármálastofnanir hafi verið að ávaxta laust fé til skemmri tíma. Um hafi verið að ræða ramma fyrir fjárstýringu til að fara eftir. Viðkomandi ákvæðum handbókarinnar hafi ekki átt að beita þegar um skammtímalán til félaga eins og Brooks Trading Ltd. eða Gerland Assets Ltd. hafi verið að ræða. Form lánsins hafi ekki skipt máli í því sambandi. Almennar reglur hafi gilt um slíkar lánveitingar. SPK kvaðst hafa setið í ALCO-nefnd innan bankans sem hafi haft það hlutverk að fylgjast með lausafjárstöðu bankans. Staða bankans hafi verið ,,batnandi“ í september 2008 og verið orðin nokkuð góð. Innlán í evrum hafi aukist mikið. Hafi stjórnendur bankans séð fram á að með sama áframhaldi myndu innlán duga til að greiða upp langtímaskuldir. Bjartsýni hafi því ríkt. Staðan hafi gjörbreyst við fall Glitnis banka hf. Með því hafi erlendir bankar hætt að treysta íslenskum mótaðila. Hafi lánshæfismat íslenska ríkisins verið fært niður sem myndað hafi þak fyrir lánshæfismat bankanna. Þetta hafi leitt til þess að lánshæfismat Kaupþings banka hf. hafi lækkað og lánalínur farið í uppnám vegna þess.
ÓFG kvaðst í september 2008 hafa verið forstöðumaður á millibankaborði í fjárstýringu Kaupþings banka hf. Yfirmaður ÓFG hafi verið GÞG framkvæmdastjóri fjárstýringar. Dagleg störf hafi falist í lausafjárstýringu bankans og gjaldeyrisstýringu á millibankaborði. Peningamarkaðslán hafi verið lán sem veitt hafi verið milli banka. Að auki hafi peningamarkaðslán verið lán þar sem fyrirtækjasvið hafi lánað út fjármuni. Hafi nægjanlega hátt settur framkvæmdastjóri komið með slík lán, og haft til þess heimild, hafi þessi lán verið afgreidd inn í kerfi fjárstýringar. Viðskiptastjórar á fyrirtækjasviði hafi haft slíka heimild, sem og yfirmenn þeirra. Því til samræmis hafi t.a.m. ákærði, Hreiðar Már, og HBL viðskiptastjóri haft slíka heimild. Fyrirmæli hafi komið af fyrirtækjasviði um að tekin hafi verið ákvörðun um að lána tilteknu fyrirtæki. Hafi þess verið farið á leit að fjárstýring setti þetta inn í kerfi sitt. Viðskiptin hafi í kjölfarið verið afgreidd í bakvinnslunni. Ef fyrirtækjalán hafi komið til fjárstýringar hafi það ekki verið hlutverk starfsmanna þar að athuga hvort gilt samþykki lánveitanda lægi fyrir. Lausafjárstaða bankans hafi verið erfið í september 2008. Helsta hlutverk ÓFG á þessum dögum hafi verið að láta bankann ,,rúlla“ á hverjum degi og gæta að því að nægjanlegir fjármunir væru til inni á öllum reikningum til að greiða það sem þyrfti að greiða. ÓFG kvaðst hafa komið að því 8. október 2008 er fjármunir af reikningi Brooks Trading Ltd. í Lúxemborg hafi verið notaðir til að greiða lán til félagsins Serval Trading Group Corp. Á þessum tíma hafi ÓFG verið að reyna að ná í allan þann gjaldeyri sem hann hafi getað þar sem mikill skortur hafi verið á honum. Boð hafi komið frá bankanum í Lúxemborg um að þeir ættu 50.000.000 Bandaríkjadala sem þeir þyrftu að skipta yfir í krónur og Kaupþing banki hf. gæti keypt. Hafi Kaupþing banki hf. því fengið bandaríkjadali í hendur. Í framhaldi hafi krónurnar verið notaðar til að greiða upp tiltekið lán og krónur því komið til baka með þeim hætti inn í bankann. Hafi EH, yfirlögfræðingur í Kaupthing Bank Luxembourg A.S., upprunalega haft samband við ÓFG vegna þessa. Starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi þekkt gengi krónunnar á þessum tíma á alþjóðlegum mörkuðum og frekar viljað eiga viðskipti við Kaupþing banka hf. Hafi starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. stungið upp á verðinu og ÓFG samþykkt það verð þar sem verð á erlendum mörkuðum hafi verið enn hærra. Hafi ÓFG talið sig geta losað krónurnar út, hefði hann fengið tíma til þess, þar sem verð á erlendum mörkuðum hafi þá verið enn hærra. Hafi ÓFG á þessum tíma sennilega borið þetta undir yfirmann sinn, SPK framkvæmdastjóra, og fengið samþykki hans. Legið hafi á að klára þessi viðskipti sama dag og sú pressa komið m.a. frá EH. ÓFG hafi talið að með þessu fengi hann 50.000.000 Bandaríkjadala inn í bankann. Síðar hafi komið í ljós að hann hafi ekki fengið dalina til sín heldur hafi þeir verið notaðir til að ,,netta“ á móti bankanum í Lúxemborg. Það hafi bókhald bankans séð um eftir að fjármunir hafi verið komnir inn í bakvinnsluna.
GAS kvaðst í september 2008 hafa verið fjármálastjóri Kaupþings samstæðunnar. Hafi hún sem fjármálastjóri borið ábyrgð á reikningshaldi og uppgjöri bankans. Hafi hún fyrst frétt af viðskiptum Q Iceland Finance ehf. með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. er kaupin hafi verið tilkynnt 22. september 2008. Hún hafi þess vegna ekkert þekkt til lána til félaganna Brooks Trading Ltd. og Gerland Assets Ltd. í september 2008. Hún hafi þó vitað af því að einhverju fyrr hafi áreiðanleikakönnun verið í gangi á bankanum vegna hugsanlegra viðskipta með hlutabréf í bankanum. Ekki hafi GAS komið að því að fjármunir á reikningi Brooks Trading Ltd. hafi verið notaðir til að greiða upp lán til félagsins Serval Trading Group Corp. Hún myndi þó eftir því að ÓFG, forstöðumaður á millibankaborði í fjárstýringu, hefði rætt um að gera gjaldeyrisviðskipti á milli Kaupþings banka hf. og Kaupthing Bank Luxembourg S.A. GAS kvaðst hafa setið í svonefndri ALCO nefnd innan bankans. Lausafjárstaða bankans hafi verið til meðferðar í nefndinni. Í kringum 22. september 2008 hafi almennt verið talið að lausafjárstaða bankans færi ,,batnandi“. Jákvæð teikn hefðu verið á lofti varðandi innlánssöfnun bankans þannig að fréttir varðandi lausafjárstöðuna hafi fremur verið jákvæðar en neikvæðar á þessum tíma. Við útreikning á eiginfjárhlutfalli bankans hafi eigin bréf bankans komið til frádráttar. Við viðskipti bankans við Q Iceland Finance ehf. hafi bankinn afhent eigin hlutabréf í bankanum. Það hafi leitt til þess að eiginfjárstaða bankans hafi batnað. Að því er varðaði skjal sem bæri yfirskriftina beiðni um millifærslu, sem dagsett væri 29. september 2008, þar sem tilgreind væru félögin Serval Trading Group Corp og Gerland Assets Ltd., hafi verið um að ræða útibú Kaupþings banka hf. Annað hafi tilheyrt fjárstýringu bankans en hitt hafi tilheyrt útlánasviði eða fyrirtækjasviði. Báðir reikningarnir hafi því verið innan Kaupþings banka hf. Fjárhæðir hafi verið færðar í mörgum færslum sem hver hafi verið nærri 990.000.000 króna af þeirri ástæðu að ekki hafi verið unnt að millifæra í kerfinu hærri fjárhæð en 999.000.000 krónur þar sem kerfi Reiknistofu bankanna hafi ekki ráðið við stærri tölur. Í skjalinu komi fram millifærsla á ríflega 12.800.000.000 króna frá Serval Trading Group Ltd., annars vegar, og Gerland Assets Ltd. hins vegar, til félagsins Choice Stay Ltd. Þá væri kaupnóta vegna kaupa á Q Iceland Finance ehf. á 37.100.000 hlutum í Kaupþingi banka hf. sem tekið hafi verið út af tilgreindum reikningi. Þar með hafi hringnum verið lokað. Kaupþing banki hf. hafi þar með fengið fjármunina aftur inn á eigin reikning. Fjármunirnir hafi því alla tíð verið innan bankans. Lausafjárstaða bankans hafi því ekkert breyst við færslurnar.
ÓEE kvaðst hafa verið regluvörður Kaupþings banka hf. í september 2008. Yfirmaður hennar hafi verið HS, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs bankans. Sem regluvörður bankans hafi hún almennt ekki haft með fjármögnun hlutabréfaviðskipta að gera. ÓEE kvaðst hafa frétt af viðskiptum Q Iceland Finance ehf. með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. í september 2008 er HS hafi hringt í hana og látið hana vita af viðskiptunum. Það hafi sennilega verið sunnudaginn 21. september 2008. Flagga hafi þurft viðskiptunum og hafi regluvörður bankans haft það hlutverk með höndum að sjá um hina formlegu hlið þess þáttar. Mikil pappírsvinna hafi verið í kringum það sem hafi þurft að annast. Hafi ÓEE verið kölluð niður í bankann þennan sunnudag til að ganga frá þessum hlutum. Mikið af hlutum í bankanum sjálfum hafi verið búið að safnast saman inn á bók bankans. Hlutafélag hafi að hámarki mátt eiga 10% í sjálfu sér og enginn akkur verið í því fyrir félagið að eiga of mikið. Í samtölum við HS hafi komið fram að bankinn hafi ekki viljað fara yfir 5% markið í viðskiptunum. Hafi ÓEE skilið þetta þannig að söluþungi hafi verið á bréfunum. Mikið hafi verið búið að hlaðast upp og hafi það verið talið vandamál. Eigin viðskipti hafi á undan verið búin að kaupa mikið af bréfum í sjálfum bankanum. Hafi ÓEE upplifað stöðuna þannig að á árinu 2008 hafi orðið sífellt erfiðara að selja bréf í bankanum og því hafi stórum viðskiptum eins og þeim við Q Iceland Finance ehf. verið fagnað. Ekki hafi ÓEE á þessum tíma fengið upplýsingar um hvernig að fjármögnun kaupa Q Iceland Finance ehf. hafi verið staðið. Á sínum tíma hafi ÓEE ekki séð fyrir sér að Kaupþing banki hf. væri að fjármagna kaupin sjálfur. Hafi hún talið að viðlíka eignamaður og MAT myndi kaupa þessa hluti eins og hverja aðra fjárfestingu. Þar sem hlutabréfaviðskipti væru áhættufjárfesting hefði hún ekki hugsað þau sem lánsviðskipti. Máli hafi skipt hvernig kaupandinn hafi verið kynntur. Hafi hún hugsað kaupin þannig að kaupandinn myndi einfaldleg sækja kaupverðið í sína sjóði. ÓEE hafi þó ekki haft yfirsýn yfir það innan bankans hversu algengt hafi verið að bankinn fjármagnaði sjálfur kaup á hlutabréfum í bankanum. Að því er varðaði flöggun kaupanna væri til staðar staðlað form fyrir flöggun og peningaþvættisspurningalista sem væru á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins. Þar sem ÓEE hafi verið hagvön í þessum málaflokki hafi hún verið beðin um að sjá til þess að þessi atriði væru í lagi varðandi þau félög sem komið hafi að viðskiptunum. Hún hafi þó ekki fyllt út formin varðandi hin félögin þar sem það hafi ekki verið eðlilegt. Ekki kvaðst ÓEE hafa komið að því að semja fréttatilkynningu vegna kaupanna, en verið geti að hún hafi þó lesið hana yfir þegar hún hafi verið tilbúin.
AVS kvaðst hafa verið starfsmaður í lögfræðideild Kaupthing Bank Luxembourg S.A. í september 2008. Yfirmaður AVS hafi verið EH, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs. AVS kvaðst fyrst og fremst hafa komið að viðskiptum Q Iceland Finance ehf. með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. í gegnum stjórnarsetu í félögum sem aftur hafi verið í stjórn félaganna Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp. Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi haft umsjón með þessum félögum. Um hafi verið að ræða félögin Allied Directors Corp., Global Managers Inc. og International Officers Limited. Seta í þessum félögum hafi verið liður í þjónustu Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sem veitt hafi verið viðskiptavinum bankans. Í þeirri vinnu hafi verið fólgið að hafa umsjón með rekstri eignarhaldsfélaga. Með því hafi viðskiptavinir ekki þurft að sækja þá þjónustu á annan stað. Ekki hafi verið hlutverk bankans að taka sjálfstæðar ákvarðanir í félögunum heldur hafi allt byggst á samningssambandi við viðskiptavini. Uppbyggingin hafi í raun verið þannig að ekki hafi verið heimilt að taka ákvarðanir nema í samræmi við ósk viðskiptavinar. Ef hins vegar hafi komið upp atriði eins og að félagið mætti ekki eiga fasteign, hafi verið hlutverk fulltrúa bankans í stjórn að leiðbeina eiganda félagsins með það atriði. Almennt hafi verið farið eftir fyrirmælum eigenda, svo fremi sem þau brytu ekki í bága við samþykktir, samninga eða slík atriði. Það hafi verið verklagsregla að þessi félög væru með sína reikninga og skuldbindingar eingöngu innan Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Hafi það verið gert til að tryggja yfirsýn yfir heildarrekstur þessara félaga. Hafi það að sumu leyti verið gert til að tryggja hagsmuni bankans sjálfs, en þó aðallega hagsmuni þess félags sem í hlut ætti til að það færi ekki í einhverjar skuldbindingar eða ráðstafanir sem það fyrirkomulag sem sett hefði verið upp réði ekki við. Með aðkomu starfsmanna bankans í stjórnum þessara félaga hafi verið stefnt að því að bankinn gæti í raun og veru sinnt því hlutverki sínu að taka sér á hendur samninga við viðskiptavini um rekstur félaganna. Með því hafi rekstaráhætta bankans sjálfs vissulega verið takmörkuð. Hluti af þjónustu bankans við viðskiptavini hafi verið að annast gerð skjala fyrir félögin. Hafi stjórnsýsla þessara félaga og skjalagerð verið í höndum lögfræðideildar en hjá öðrum deildum að annast hluti eins og gerð lánasamninga. AVS kvaðst hafa ritað undir hluthafasamþykkt fyrir félagið Brooks Trading Ltd. sem stjórnarmaður hluthafa félagsins, sem hafi verið félagið Mink Trading Corp. Ekki hafi AVS komið að því er fjármunir af reikningi Brooks Trading Ltd. hafi 8. október 2008 verið notaðir til að greiða niður lán til félagsins Serval Trading Group Corp. Ekki myndi hann eftir því að þessi ráðstöfun hefði verið borin undir hluthafa félagsins. Ekki myndi hann heldur eftir því að hinn raunverulegi eigandi félags, eða ,,beneficial owner“ hefði haft prókúru á reikning félags. Aðkomu starfsmanna bankans hafi þurft til að fjármunir yrðu færðir út af reikningi félagsins.
BK kvaðst í september 2008 hafa starfað sem viðskiptastjóri hjá Kaupthing Bank Luxembourg A.S. Í starfi BK hafi falist að sinna viðskiptavinum og reikningum þeirra hjá bankanum. Yfirmaður BK hafi verið BJ. Hafi MAT opnað reikninga í Lúxemborg sem BK hafi verið viðskiptastjóri eða sjóðsstjóri fyrir. BK hafi farið með opnunarskjöl vegna þessara reikninga til London og hitt þar ákærða, Ólaf, og MAT, á skrifstofu ákærða. Hafi ákærði, Magnús, farið þess á leit við BK að hann færi í þessa ferð. Um hafi verið að ræða venjubundna samninga sem gerðir hafi verið við viðskiptavini þegar þeir opnuðu reikninga við bankann. Á fundinum hafi verið lögmaður MAT og annar til sem BK hafi ekki þekkt. Markmiðið með fundinum hafi einungis verið að afhenda opnunarskjöl tengd viðskiptunum. Ekki hafi BK á þessum tíma vitað um kaup Q Iceland Finance á 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf., eða verið búið að kynna honum áform um þau viðskipti. Í tengslum við starf sitt í Lúxemborg hafi BK verið í talsverðum samskiptum við ákærða, Ólaf. Hafi BK fjárfest fyrir ákærða, auk þess að sinna millifærslum eftir beiðni frá starfsmönnum ákærða. Um hafi verið að ræða hefðbundin verkefni. Fyrirmæli vegna starfa hafi BK fengið úr ýmsum áttum. Hafi þau getað komið frá ákærða, Magnúsi, BJ, sem hafi verið yfir einkabankaþjónustu bankans, eða eftir atvikum EH, framkvæmdastjóra lögfræðisviðs. Ekki kvaðst BK hafa þekkt til aðkomu ákærða, Ólafs, að viðskiptum Q Iceland Finance ehf. með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Hafi BK ekki þekkt til lánveitingar til Brooks Trading Ltd. í september 2008. Myndi hann eftir umræðu um hvort þessir fjármunir hefðu verið lausir til ráðstöfunar 8. október 2008, en hann hefði verið spurður af samstarfskonu sinni, LS, um það. Hafi BK komist að þeirri niðurstöðu að fjármunirnir væru lausir til ráðstöfunar. Þá niðurstöðu hafi hann byggt á kerfi bankans. Þar hafi komið fram hvort fjármunir væru veðsettir. Svo hafi ekki verið í þessu tilviki og því unnt að millifæra fjármunina. EH hafi gefið BK fyrirmæli um að skipta þessum fjármunum á reikningi Brooks Trading Ltd. yfir í krónur. Hafi BK í kjölfarið haft samband við gjaldeyrismiðlun bankans en búið hafi verið að ganga frá viðskiptunum í raun og veru. Hafi BK verið látinn bóka það inn í kerfið. BK hafi fengið fyrirmæli um hvert gengið ætti að vera. Myndi BK eftir því að uppruni fjármuna inni á reikningi Brooks Trading Ltd. hafi verið skráð lán frá Kaupþingi banka hf. Þannig hafi fjármunirnir verið skráðir í kerfi bankans. Að því er varðaði fjármunina inni á reikningi Brooks Trading Ltd. hafi eigandi félagsins ekki getað millifært fjármunina inni á reikningi félagsins án aðkomu starfsmanna Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Ekki hafi verið við að styðjast netbanka, eins og þeir þekktust í dag. Fjármunir á reikningnum kæmu fram í kerfi bankans, sem bæri nafnið Absis. Á yfirliti reikningsins kæmi fram 22. september 2008 ,,creation timed deposit“ og 29. september ,,repaiment timed deposit“. Með því hafi verið átt við bundið innlán sem hafi þýtt að fjármunir hafi verið settir á bundið innlán í skilgreindan tíma. Fjármunirnir hafi verið leystir undan bindingunni 29. september og endurgreiddir. Yrðu þeir ekki aðgengilegir eiganda nema með samþykki bankans. Miðað við yfirlit reiknings hafi fjármunir á honum verið í formi bundins innláns 8. október 2008. BK kvaðst ekki hafa komið að vinnu við svonefndan strúktúr að baki kaupum á 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. í september 2008.
EPS kvaðst í september 2008 hafa verið forstöðumaður eigin viðskipta Kaupþings banka hf. Yfirmaður hans hafi verið GÞG framkvæmdastjóri fjárstýringar og fyrir ofan hann IH forstjóri og ákærði, Hreiðar Már. Ekki kvaðst EPS muna eftir því að hafa í störfum sínum fengið fyrirmæli frá ákærða, Hreiðari Má. EPS kvaðst ekki hafa átt aðkomu að kaupum Q Iceland Finance ehf. á kaupum á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Kvöldið áður en viðskiptin hafi átt sér stað hafi IH forstjóri hringt og sagt að þessi viðskipti myndu fara fram. Hafi komið fram að um væri að ræða 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. Viðskiptin yrðu að ganga í gegn snemma næsta morgun. Því hafi þurft að ganga frá sölu bréfanna úr eigin viðskiptum yfir í miðlunarbók, þar sem séð yrði í um að ganga frá viðskiptunum. Hafi EPS því einungis þekkt þann hluta sem snúið hafi að því að bréfin færu út úr eigin viðskiptum í Kaupþingi banka hf. Af þessu tilefni hafi EPS hringt í yfirmann sinn, GÞG, og annan til og látið boð út ganga um að menn myndu mæta snemma að morgni næsta dags til að ganga frá viðskiptunum. Bankinn hafi að mestu átt þessi hlutabréf sjálfur, en þurft að kaupa eitthvert lítilræði til að ná 5,01% hlut í bankanum. Verið geti að bankinn hafi átt sem numið hafi 4,75% hlut og vantað afganginn. Á þessum tíma hafi EPS ekki þekkt hvernig kaupandinn myndi fjármagna kaup hlutabréfanna. Á sínum tíma hafi EPS sennilega talið að kaupandinn myndi staðgreiða bréfin. Kvaðst EPS staðfesta að hafa sagt við lögreglurannsókn málsins að þegar þessi viðskipti hefðu komið hefði verið mikil ánægja með það, eins og ,,þeir hefðu unnið HM í fótbolta eða eitthvað“. Hafi starfsmenn bankans talið að kaupandinn væri að koma með fjármagn inn í bankann. Eins og málinu hafi verið stillt upp í framhaldinu af þeim sem rannsakað hafi málið og eftir umræðu í fjölmiðlum hafi starfsmenn nánast litið á þetta eins og um eins konar svindl hefði verið að ræða að ekki kæmu fjármunir inn í bankann við viðskiptin. Ekki myndi EPS eftir því hvort hann hafi á þessum tíma vitað um sjálfskuldarábyrgð kaupanda vegna kaupanna.
GÞG kvaðst í september 2008 hafa verið framkvæmdastjóri fjárstýringar Kaupþings banka hf. Næsti yfirmaður GÞG hafi verið IH forstjóri. GÞG kvaðst ekki hafa komið að viðskiptum Q Iceland Finance ehf. með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. í september 2008. Kvaðst GÞG staðfesta að hafa átt samskipti við ÓFG forstöðumann á millibankaborði fjárstýringar þar sem GÞG hafi lýst yfir vonbrigðum með að ekki kæmi gjaldeyrir inn í bankann við viðskiptin. Ekki hafi hann þekkt til sjálfskuldarábyrgðar kaupandans á þeim tíma. Peningamarkaðslán hafi verið notuð á milli fjármálastofnana þegar þær hafi verið að ávaxta fé sitt til skamms tíma. Bankar hafi í slíkum tilfellum einfaldlega millifært fjármuni sín á milli og einfaldar staðfestingar verið sendar á milli vegna þessara lánveitinga. Ekki þekkti GÞG til er slík peningamarkaðslán hefðu verið veitt eignarhaldsfélögum, en GÞG hefði aldrei haft slík lán undir höndum. Fjárstýring hafi heldur ekki séð um að útbúa slík lán, heldur einungis að greiða þau út samkvæmt fyrirmælum annars staðar frá úr bankanum. Þau fyrirmæli hafi yfirleitt komið frá BHD, framkvæmdastjóra útlána, eða viðskiptastjóra á fyrirtækjasviði.
BSB og PKG kváðust báðir hafa starfað í eigin viðskiptum Kaupþings banka hf. í september 2008. Yfirmaður þeirra hafi verið EPS, forstöðumaður eigin viðskipta. Báðir kváðust þeir vera undir ákæru fyrir markaðsmisnotkun í starfsemi Kaupþings banka hf. PKG kvaðst hafa fengið um það boð frá yfirmönnum sínum að mæta snemma að morgni dags í bankann 22. september 2008 til að ganga frá sölu hlutabréfa úr eigin viðskiptum bankans vegna kaupa Q Iceland Finance ehf. á hlutabréfum úr bankanum. Hafi eigin viðskipti átt fyrir bréf fyrir um 4% hlut í bankanum og þurft að kaupa eitthvað til viðbótar til að eiga næg bréf. Kvaðst PKG staðfesta að hafa átt símtal við HG á þessum tíma vegna viðskiptanna og að hafa lýst því yfir að einhverjir milljarðar króna væru á leiðinni og að þeir peningar hefðu aldrei komið þar sem kaupin hefðu verið fjármögnuð af bankanum. Kvaðst PKG hafa staðið í þeirri trú á þessu tíma að peningar hefðu verið að koma inn í bankann vegna viðskiptanna. Hafi það verið tengt kaupandanum sem hafi verið olíufursti frá arabalöndum. Ekki kvaðst PKG á sínum tíma hafa vitað um sjálfskuldarábyrgð kaupanda tengda kaupunum.
DG kvaðst í september 2008 hafa starfað við fjárfestatengsl á samskiptasviði Kaupþings banka hf. Næsti yfirmaður DG hafi verið JS, framkvæmdastjóri samskiptasviðs. Kvaðst DG hafa samið fyrstu drög að fréttatilkynningu bankans vegna kaupa Q Iceland Finance ehf. á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Fyrsta aðkoma DG að málinu hafi verið er yfirmaður hans, JS, hafi hringt í DG og beðið hann um að semja drög að tilkynningunni. Í því símtali hafi væntanlega ekki komið fram fjöldi hluta eða verð í kaupum. Hafi JS útskýrt í stuttu máli hvernig í málinu lægi, en JS hafi þá verið staddur í útlöndum. Uppkast að tilkynningunni hafi DG síðan sent á JS. Tilvitnanir í fréttatilkynningunni hafi komið frá JS. Ekki vissi DG hvaðan JS hefði fengið tilvitnanirnar. Ekki hafi DG heldur vitað af hverju drög að tilkynningunni hefðu verið send á ákærða, Magnúsi. Þá hafi hann ekki vitað um þátt ákærða, Ólafs, í tilkynningunni eða aðkomu ákærða, Hreiðars Más, að henni.
JS kvaðst í september 2008 hafa verið framkvæmdastjóri samskiptasviðs Kaupþings banka hf. Yfirmaður JS hafi verið ákærði, Hreiðar Már. Í starfi framkvæmdastjóra samskiptasviðs hafi falist að halda utan um fréttatilkynningar bankans og samskipti bankans við fjölmiðla og markaðinn. Ákærði, Hreiðar Már, hafi hringt í JS föstudagskvöldið 19. september 2008 og beðið hann um að semja fréttatilkynningu vegna kaupa Q Iceland Finance á hlut í Kaupþingi banka hf. Fréttatilkynningin þyrfti að birtast í fjölmiðlum mánudaginn 22. september 2008. JS hafi þá verið í útlöndum. Í kjölfarið hafi JS hringt í DG á samskiptasviði og beðið hann um að koma að málinu og vinna að því með sér. Í tilkynningunni hafi komið fram um fjölda hluta og slík atriði. Þau atriði hafi einhver látið DG fá. Ákveðið hafi verið að setja inn í tilkynninguna lýsingu á kaupandanum þar sem Íslendingar hafi ekki þekkt kaupandann. Þær upplýsingar er vantað hafi um MAT hafi JS fengið frá ákærða, Magnúsi, eftir ábendingu um það frá ákærða, Hreiðari Má. Tilvitnun í fréttatilkynningunni frá MAT, hafi því komið í gegnum ákærða, Magnús. Ákærði, Magnús, hafi því verið nokkurs konar milliliður við kaupandann. Ekki hafi JS verið persónulega í sambandi við MAT vegna tilkynningarinnar. Kvaðst JS fljótlega hafa heyrt að kaupandinn legði fram sjálfskuldarábyrgð vegna helmings kaupanna. JS hafi að öðru leyti lítið verið inni í strúktúr kaupanna og því ekki vitað um aðkomu félags í eigu ákærða, Ólafs, að kaupunum. Fréttatilkynningin hafi gengið manna á milli áður en hún hafi verið send út. Margir hafi því komið að gerð hennar. Mikilvægt hafi þótt að koma því á framfæri að einn ríkasti maður heims væri að kaupa stóran hlut í bankanum. Ekki hafi JS orðið var við aðkomu ákærða, Ólafs, að tilkynningunni. JS hafi þó sent hana á ákærða, í ljósi þess að ákærði hafi fundið þennan kaupanda. GA, yfirmaður fjárstýringar, hafi verið í sambandi við Moody´s. Áður hafi komið fyrir að gleymst hafi að hringja í þá vegna viðskipta með hlutabréf í bankanum. Oftast hafi verið hringt í Moody´s nokkrum mínútum áður en upplýsingar um kaup hafi birst á netinu. Með birtingu á netinu hafi upplýsingar dreifst hratt um heiminn. Moody´s hafi ekki viljað frétta af þessum atriðum í fjölmiðlum og þeir viljað fá frekari upplýsingar um viðskiptin, eins og hvernig greitt hafi verið fyrir hluti. Þannig hafi lánshæfismatsfyrirtækið fengið mun nákvæmari upplýsingar en almennt hafi verið veittar.
ÓAS kvaðst hafa starfað á lögmannsstofunni Logos í september 2008. BÓ lögmaður á sömu stofu, hafi komið að máli við ÓAS og rætt hugsanlega tilkynningaskyldu í tengslum við viðskipti sem hafi staðið fyrir dyrum. Fram hafi komið að Q Iceland Finance ehf. væri að kaupa hlut sem væri stærri en 5% í Kaupþingi banka hf. Væri spurningin hvort viðskiptin væru flöggunarskyld. Inni í þeirri umræðu hafi verið vangaveltur í tengslum við fjármögnun kaupanna og hvort hún hefði áhrif á flöggunarskylduna. Niðurstaða hafi verið sú að fjármögnunin hefði ekki áhrif þar sem flöggunarskyldan snerist um atkvæðisrétt í félagi, en ekki fjármögnun kaupa. Í þessari umræðu hafi verið rætt um einhvern strúktúr kaupanna. Við mat á flöggunarskyldu kæmi til skoðunar hvað einhver aðili ætti og að ef einhver aðili væri í samstarfi við annan aðila og þeir færu sameiginlega yfir flöggunarmörk, þá kynni að reyna á flöggunarskyldu. Ekki kæmi inn í mat á flöggunarreglum hugsanlegur hagnaður af viðskiptum eða fjármögnun þeirra.
ÞÞ kvaðst hafa ritað frétt í Morgunblaðið 23. september 2008 sem hafi borið yfirskriftina ,,Sheikinn veðjar á Kaupþing“. Aðdragandi fréttarinnar hafi verið fréttatilkynning sem Kaupþing banki hf. hafi sent frá sér 22. september 2008. Í kjölfarið hafi ÞÞ rætt við ákærða, Hreiðar Má, eftir að JS á samskiptasviði hafi komið viðtali í kring. Haft hafi verið eftir ákærða í beinni ræðu. Í samtali við ákærða hafi ekki verið upplýst um fjármögnun þessara kaupa. Í fréttatilkynningunni hafi verið talað um mikla traustsyfirlýsingu fyrir bankann. Fréttatilkynningin hafi því ekki gefið tilefni til að spyrja um fjármögnun kaupanna og ÞÞ skilið hana þannig að eigið fé MAT kæmi inn við kaupin. Hafi ÞÞ ekki órað fyrir því að fjármögnun hefði að hluta komið frá Kaupþingi banka hf. Ef ÞÞ hefði vitað um fjármögnun kaupa Q Iceland Finance ehf. hefði frétt hans umrætt sinn orðið með allt öðrum hætti. Ekki hafi verið haft samband af stjórnendum Kaupþings banka hf. eftir að fréttin hafi birst þar sem komið hafi verið á framfæri leiðréttingu við fréttina.
ARS kvaðst hafa skrifað frétt sem birst hefði í Viðskiptablaðinu 23. september 2008 vegna kaupa MAT á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Aðdragandi fréttarinnar hafi verið fréttatilkynning sem bankinn hafi sent frá sér 22. september 2008 vegna kaupanna. Hafi ARS rætt við ákærðu, Hreiðar Má og Sigurð, vegna fréttarinnar. Ekki hafi komið fram í samtölum við ákærðu hvernig fjármögnun kaupa á hlutabréfum hefði verið háttað, þar sem það hefði verið tekið fram í fréttinni að öðrum kosti. Þá hafi ekki verið getið um aðkomu ákærða, Ólafs, að kaupunum. Hafi hún reynt að ná sambandi við MAT vegna kaupanna, en þær tilraunir ekki borið árangur. Ekki hafi ákærðu, Hreiðar Már eða Sigurður, haft samband við sig eftir birtingu fréttarinnar til að koma leiðréttingu við hana á framfæri.
HÞG kvaðst starfa hjá Embætti sérstaks saksóknara og vera sérfræðingur um rekstur tölvukerfis og rannsóknarkerfis embættisins. Þekkti hann svonefnd Clearwell leitarkerfi, en það kerfi hafi HÞG séð um innan embættisins. Svo sem fram kæmi í skýrslu rannsakenda sem fylgdi ákæru í málinu hafi tölvupóstur á heimasvæði tiltekinna einstaklinga verið gerður leitarhæfur í Clearwell. Mál hafi fengið heitið S Kaup Q Iceland og undir því verið 8956 skjöl sem fundist hafi við leit. Málið sem slíkt hafi verið hægt að taka út úr kerfinu og setja í geymslu, en setja það aftur inn síðar. Margir möguleikar á flokkun gagna séu í þessu kerfi. Þannig væri hægt að flokka gögn eftir nöfnum sendenda, viðtakenda, dagsetningu og slíku. Hægt væri að taka gögn út úr kerfinu og færa yfir í excel.
Niðurstaða:
Ákærða, Hreiðari Má, er í I. kafla ákæru gefin að sök umboðssvik og ákærða, Magnúsi, hlutdeild í umboðssvikum meðákærða, við lánveitingu til félagsins Brooks Trading Ltd. Í II. kafla ákæru er ákærðu, Hreiðari Má og Sigurði, gefin að sök umboðssvik við lánveitingu til félagsins Gerland Assets Ltd. Í þeim kafla er ákærða Ólafi, aðallega gefin að sök hlutdeild í umboðssvikum meðákærðu, en til vara hylming og peningaþvætti. Í III. kafla ákæru er ákærðu, Hreiðari Má og Sigurði, gefin að sök markaðsmisnotkun, en ákærðu, Magnúsi og Ólafi, hlutdeild í markaðsmisnotkun meðákærðu, með því að hafa stofnað til viðskiptafléttu sem sett hafi verið upp við kaup MAT á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf., en í viðskiptafléttunni hafi verið fólgin blekking og sýndarviðskipti. Í IV. kafla ákæru er ákærðu öllum gefin að sök markaðsmisnotkun í tengslum við kaup á hlutabréfunum í bankanum, með því að dreifa fréttum og upplýsingum sem hafi eða hafi verið líklegar til að gefa misvísandi upplýsingar og vísbendingar um hlutabréfaviðskiptin. Ákærðu neita allir sök.
I. kafli ákæru
Ákærða, Hreiðari Má, er í þessum kafla ákæru gefin að sök umboðssvik, með því að hafa í september 2008 misnotað stöðu sína sem forstjóri Kaupþings banka hf. þegar hann hafi farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga með því að láta bankann veita félaginu Brooks Trading Ltd., eignalausu félagi með takmarkaðri ábyrgð, skráðu á Tortola á Bresku Jómfrúaeyjum, í eigu Mink Trading Corp., félags í eigu MAT, 50.000.000 Bandaríkjadala lán, í formi óundirritaðs peningamarkaðsláns, án þess að fyrir lægi samþykki lánanefnda bankans og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti og að hafa þannig valdið bankanum verulegri fjártjónshættu. Hafi lánið verið veitt 19. september 2008 og lánsfjárhæðin sama dag verið lögð inn á reikning lántaka í Kaupthing Bank Luxembourg S.A. með milligöngu þess banka, félaginu til frjálsrar ráðstöfunar.
Að því er lánveitingu til félagsins Brooks Trading Ltd. varðar liggur fyrir í gögnum málsins óundirritað lánsskjal sem stafar frá Kaupþingi banka hf. Er skjalið auðkennt sem peningamarkaðsútlán nr. 398424/449463. Samkvæmt þessu skjali, sem dagsett er 19. september 2008, gera Brooks Trading Ltd. og Kaupþing banki hf. með sér samkomulag um að Kaupþing banki hf. láni til félagsins Brooks Trading Ltd. 50.000.000 Bandaríkjadala miðað við 19. september 2008 sem fyrsta vaxtadag. Er gjalddagi lánsins 30. september 2008.
Rannsókn málsins á sínum tíma beindist meðal annars að því að sannreyna með hvaða hætti hafi stofnast til þessarar lánveitingar. Staðhæfði ákærði, Hreiðar Már, að hann hefði í byrjun september 2008, er fyrir hafi legið að MAT myndi fjárfesta í hlutabréfum í Kaupþingi banka hf., boðað tvo viðskiptastjóra útlána innan bankans á sinn fund til að koma þessum viðskiptum í farveg, eins og það var orðað. Hafi hann gefið viðskiptastjórunum, HBL og GÞG, grófar útlínur á því hvernig viðskiptin skyldu líta út og hvaða lánveitingar væru nauðsynlegar í því sambandi. Með rannsóknargögnum málsins, framburðum ákærðu, Hreiðars Más og Magnúsar, og vætti viðskiptastjóranna, HBL og GÞG, er í ljós leitt að fundur um þetta efni var haldinn 18. september 2008. Þá liggur jafnframt fyrir, með vísan til framburðar ákærðu og ofangreindra vitna, að fundurinn var símafundur að því leyti að ákærðu, Hreiðar Már og Magnús, voru hvorugur í höfuðstöðvum Kaupþings banka hf. í Borgartúni. BHD, framkvæmdastjóri útlána og yfirmaður viðskiptastjóranna beggja, hefur staðfest að fundurinn hafi verið haldinn, en bar að hann hefði ekki komist á fundinn nema rétt í lokin. Í málinu er deilt um hvaða fyrirmæli ákærði, Hreiðar Már, hafi gefið á þessum fundi tengd þessum viðskiptum. Ákærði, Hreiðar Már, hefur lýst því að meðal annars hafi komið fram að veita skyldi, félaginu Brooks Trading Ltd. lán að fjárhæð 50.000.000 Bandaríkjadala. Hafi ákærði gengið út frá því að með málið yrði farið eftir réttum boðleiðum innan bankans. Vissulega hafi skipt máli að lánveitingunni yrði hraðað svo sem kostur væri þar sem um hafi verið að ræða stór viðskipti með hlutabréf í bankanum og miklu skipt að gengið yrði frá þeim sem fyrst. HBL hefur staðhæft að á þessum fundi hafi ákærði, Hreiðar Már, gefið þau fyrirmæli að lána skyldi félaginu Brooks Trading Ltd. þessa fjárhæð í formi peningamarkaðsláns, auk þess sem strúktúr viðskiptanna hafi verið lýst. Hafi HBL undirbúið málið og miðað við að senda það í venjubundinn farveg. Þau fyrirmæli hafi hins vegar komið síðar frá ákærða, Hreiðari Má, í tveggja manna tali þeirra á milli, að lánið skyldi afgreitt þegar í stað og skyldi HBL ekki hafa áhyggjur af nauðsynlegu samþykki til lánveitingarinnar. Í kjölfarið hafi HBL hlutast til um að lánið yrði afgreitt þegar í stað og haft samband við starfsmenn innan bankans til að það yrði greitt út.
Að því er þessi atriði varðar er til þess að líta að samkvæmt gögnum málsins hefur GÞG viðskiptastjóri samþykkt fundarboð frá HBL, á fund sem haldinn yrði 18. september 2008 milli kl. 16.00 og 17.00. Fundurinn yrði með ákærðu, Hreiðari Má og Magnúsi, og gert væri ráð fyrir nærveru viðskiptastjóranna beggja. Er hér án nokkurs vafa um að ræða fund ákærðu, Hreiðars Más og Magnúsar, með viðskiptastjórunum báðum, sem ákærði, Hreiðar Már, hefur vísað til. Í símtali þeirra HBL og HSK, en sá síðarnefndi starfaði á millibankaborði í fjárstýringu bankans, sem átti sér stað þennan dag kl. 17.34, tjáði HBL HSK að þrjú félög þyrftu á þessum peningum að halda. Þetta væru tvisvar sinnum 100.000.000 evra og einu sinni 50.000.000 Bandaríkjadala. Svaraði HSK því til að bankinn ætti ekki fyrir þessu. Í samtalinu var í framhaldi um það rætt að ef félögin ættu reikninga í Kaupþingi banka hf. myndi það breyta miklu þar sem fjármunirnir myndu í því tilviki ekki fara út úr bankanum. HBL og HSK ræddust aftur við í síma stuttu síðar, eða kl. 17.54, og kom þá fram hjá HBL að ,,... vildu fá þetta til Lúx ...“. Hafði HBL þá uppi þau ummæli að ,,þetta kemur frá Hreiðari sko þannig að þess vegna er verið að reyna að redda þessu svona á síðustu stundu ...“.
Meðfylgjandi fundargerð lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf., frá fundinum sem haldinn var 24. september 2008, var lánsumsókn frá MAT til lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf. tengd þrem félögum í eigu MAT. Fram kemur að lánsumsóknin sé útbúin af HBL viðskiptastjóra og er hún dagsett 19. september 2008. Í lánsumsókninni kemur meðal annars fram að til viðbótar láni að fjárhæð 125.000.000 evra til Brooks Trading Ltd. komi lán að fjárhæð 50.000.000 Bandaríkjadala sem sé hagnaður vegna viðskipta. Til tryggingar því láni taki bankinn veð í CLN-bréfum.
HBL var í september 2008 viðskiptastjóri útlána innan Kaupþings banka hf. Var hans næsti yfirmaður BHD, framkvæmdastjóri útlána, en ákærði, Hreiðar Már, var yfirmaður BHD. Lánveitingar til félaga í eigu MAT námu verulegum fjárhæðum á þessum tíma. Ósennilegt verður að telja að viðskiptastjóri á útlánasviði bankans hafi tekið um það ákvörðun að veita lán til félagsins Brooks Trading Ltd. án þess að hafa til þess skýr fyrirmæli yfirboðara sinna. Framburður viðskiptastjórans fyrir dómi þótti að mati dómsins trúverðugur um þátt hans í lánveitingu til félagsins Brooks Trading Ltd. Verður því lagt til grundvallar að ákærði, Hreiðar Már, hafi á fundinum 18. september 2008 eða í tengslum við hann gefið viðskiptastjóranum HBL fyrirmæli um að lán til félagsins Brooks Trading Ltd. skyldi vera í formi peningamarkaðsláns og að lánið skyldi greitt út þegar í stað þó svo ekki lægi fyrir samþykki lánanefndar stjórnar bankans.
Samkvæmt gögnum málsins var 19. september 2008, í tengslum við þessa lánveitingu, útbúið sérstakt millifærsluskjal á milli Kaupþings banka hf. og Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Samkvæmt texta í skjalinu eru 50.000.000 Bandaríkjadala fjárhæð sem Kaupþing banki hf. á að greiða viðskiptavini Kaupthing Bank Luxembourg S.A. þennan sama dag. Fram kemur að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. muni lána Kaupþingi banka hf. fjárhæðina frá 19. september 2008 til 29. september sama ár. Sé um að ræða ,,netting against lending“. Þá kemur fram í símtali á milli HBL viðskiptastjóra og HSK, starfsmanns á millibankaborði fjárstýringar, 19. september 2008 kl. 10.29, að þessum fjármunum verði jafnað út á milli bankanna í framhaldi. Einnig liggur fyrir í staðfestum framburði EH, framkvæmdastjóra lögfræðisviðs Kaupthing Bank Luxembourg A.S., að sá banki hafi ekki veitt lán til félagsins Brooks Trading Ltd. í september 2008. Loks liggur fyrir tölvubréf frá HBL 19. september 2008 til HSK og ÓFG, forstöðumanns á millibankaborði í fjárstýringu, um að HBL hafi daginn áður rætt við FXC í Kaupthing Bank Luxembourg A.S. um að þeir hafi verið sammála um að ,,netta“ fjárhæðina. Ekki ætti að eiga sér stað nein raunveruleg millifærsla. Með hliðsjón af þessu og því að stefnt var að því að veita félaginu Brooks Trading Ltd. lán frá Kaupþingi banka hf. verður við það miðað að lán til félagsins Brooks Trading Ltd. hafi verið veitt 19. september 2008 af Kaupþingi banka hf.
Í ljósi fjárhæðar skuldbindingarinnar og með vísan til ákvæða 3.3.3.1.2 í handbók Kaupþings banka hf. um innra eftirlit og verkferla, eða ,,Internal Control and Procedural Handbook“, þurfti lán til félagsins Brooks Trading Ltd. að fara fyrir lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf. Lánsumsókn þessi var tekin fyrir á fundi í lánanefnd stjórnar 24. september 2008. Samkvæmt óundirrituðum fundargerðum lánanefndar stjórnar 24. september 2008 var lán til Brooks Trading Ltd. samþykkt gegn því að veð yrði tekið í svokölluðum CLN-bréfum. Fyrir liggur að til þeirra viðskipta var aldrei stofnað. Slíkar tryggingar lágu því ekki að baki lánveitingunni er lánið var greitt út 19. september 2008.
Lögð hafa verið fyrir dóminn gögn sem leiða í ljós að lán hafa í einhverjum tilvikum verið samþykkt utan reglulegra funda lánanefndar stjórnar. Samkvæmt handbók bankans um innra eftirlit var heimilt að samþykkja lán utan reglulegra funda ef mikið lá við. Vitni báru um að í slíkum tilvikum hefði samþykki lánanefndarmanna legið fyrir í tölvupósti. Í slíkum tilvikum hafi þær lánveitingar verið bornar upp á næsta fundi lánanefndar til staðfestingar. Er það í samræmi við nefnda handbók Kaupþings banka hf. um innra eftirlit. Engra slíkra heimilda hafði verið aflað er lán til Brooks Trading Ltd. var greitt út 19. september 2008.
Lán til félagsins Brooks Trading Ltd. átti að veita gegn tryggingu í CLN-skuldabréfum tengt skuldatryggingarálagi á Kaupþing banka hf. Til þeirra viðskipta hafði ekki verið stofnað 19. september 2008. Lá því ljóst fyrir er ákvörðun um lánveitinguna var tekin að lánið yrði ekki veitt gegn þeirri tryggingu. Með þeirri háttsemi sinni að taka ákvörðun um að veita félaginu Brooks Trading Ltd. ofangreint peningamarkaðslán, án þess að fyrir lægi samþykki lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf. og án þess að trygging hafi verið sett fyrir láninu, braut ákærði, Hreiðar Már, gegn reglum bankans um lánveitingar og skapaði með því bankanum fjártjónshættu.
Í ákæru er miðað við að lán til Brooks Trading Ltd. hafi verið félaginu til frjálsrar ráðstöfunar og að það sé að fullu glatað. Fyrirsvarsmenn og prókúruhafar Brooks Trading Ltd. gátu ekki ráðstafað þessum fjármunum að vild þar sem taka þurfti almennt tillit til hagsmuna félagsins og samningsskuldbindinga tengt lánveitingunni. Fjármunirnir voru því ekki félaginu frjálsir til ráðstöfunar í þeim skilningi. Það breytir því hins vegar ekki að fyrirsvarsmenn og prókúruhafar félags hafa venjubundna ráðstöfunarheimild yfir fjármunum félags og öðrum eignum þess. Var lánsféð félaginu því frjálst til ráðstöfunar í þeim skilningi. Þá er staðhæft í ákæru að lánsféð sé slitastjórn Kaupþings banka hf. að fullu glatað. Fyrir dómi kom fram í vætti JRJ, lögmanns slitastjórnar Kaupþings banka hf., að slitastjórn bankans hefði náð samkomulagi við MAT, raunverulegan eiganda Brooks Trading Ltd., um greiðslu fjárhæðar í tilefni af skaðabótamáli slitastjórnar gegn MAT. Hafi það skaðabótamál meðal annars varðað ólögmæta ráðstöfun fjármuna Brooks Trading Ltd. við greiðslu þeirra fjármuna inn á lán til félagsins Serval Trading Group Corp. 8. október 2008. Gerð hafi verið sátt við MAT sem leitt hafi til þess að hann hafi greitt fjármuni til skiptastjóra þb. Brooks Trading Ltd. Hafi slitastjórn fengið hluta þeirra fjármuna til sín. Það mun þó ekki hafa dugað til að gera bankann skaðlausan af lánveitingunni til Brooks Trading Ltd.
Brot samkvæmt 249. gr. laga nr. 19/1940 er fullframið við misnotkun á aðstöðu. Var brot ákærða því fullframið 19. september 2008. Ekki er áskilið að tjón hljótist af háttseminni, heldur er fjártjónshætta nægjanleg. Að þessu gættu verður ákærði, Hreiðar Már, sakfelldur samkvæmt I. kafla ákæru og er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærða, Magnúsi, er gefin að sök hlutdeild í umboðssvikum meðákærða, Hreiðars Más, með því að hafa tekið þátt í undirbúningi og framkvæmd lánveitingarinnar. Er hlutdeildin að því er undirbúning varðar, talin hafa falist í því að vera milligöngumaður um samningaviðræður við hinn raunverulega eiganda Brooks Trading Ltd., MAT og með því að hafa útvegað honum félag sem notað hafi verið af hálfu MAT í viðskiptunum. Hafi hlutdeildin að því er framkvæmd varðar, falist í því að taka þátt í því með meðákærða, að fyrirskipa starfsmönnum bankans að greiða lánið út. Hafi honum hlotið að vera ljóst að meðákærða brysti heimild til lánveitingarinnar og að lánið hafi verið veitt án nokkurra ábyrgða eða trygginga.
Ákærði, Magnús, ber því við að brot hans hafi verið framin utan íslenskrar refsilögsögu, sbr. 1. ml. 1. tl. 4. gr. laga nr. 19/1940, sbr. og 2. tl. 1. mgr. 5. gr. laganna. Ákærða er gefin að sök hlutdeild í broti gegn lögum nr. 19/1940 og fullframið brot gegn lögum nr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Eru brotin bundin við starfsemi Kaupþings banka hf. Nær refsilögsaga íslenska ríkisins því til þeirra brota er ákærða eru gefin að sök.
Ákærði, Magnús, hefur lýst aðkomu sinni að kaupum MAT á hlutabréfum í Kaupþingi hf. á þann hátt að ákærði hafi fengið símtal frá meðákærða, Hreiðari Má, í september 2008 þar sem meðákærði hafi upplýst ákærða um að MAT hygðist kaupa hlutabréf í Kaupþingi banka hf., eftir að meðákærði, Ólafur, hafi komið á tengslum við MAT. Hafi ákærði fengið upplýsingar um grófa mynd viðskiptanna frá meðákærða, Hreiðari Má. Ekki hafi hann komið að samningaviðræðum um kaupin, heldur einungis borið skjöl til undirritunar á milli aðila. Í þeim tilgangi hafi ákærði farið til Doha í Katar þar sem hann hafi stuttlega hitt MAT. Viðskiptin hafi ekki verið rædd og ákærði litið svo á að þau hefðu þegar verið ákveðin. Er þessi framburður ákærða í samræmi við framburð meðákærðu, Hreiðars Más og Ólafs.
För ákærða, Magnúsar, til Katar 16. september 2008 hefur átt sér nokkurn aðdraganda. Samkvæmt tölvubréfi sem ákærði sendi meðákærða, Hreiðari Má, 11. september 2008, er ferðin til Katar þá þegar í undirbúningi. Sendi ákærði meðákærða, Hreiðari Má, aftur tölvubréf vegna fundarins 14. september 2008 þar sem rætt er um mikilvægi þess að ákærði fari vel undirbúinn á fundinn. EH, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupthing Bank Luxembourg S.A., hefur lýst því að ákærði, Magnús, hafi lýst fyrir honum hvernig umrædd viðskipti skyldu úr garði gerð og hvaða félög þyrfti að stofna í tengslum við þau. Hafi EH sett viðskiptin upp í kynningarformi til að auðvelda vinnu í tengslum við undirbúning þeirra. Forsendur í þeirri kynningu hafi upphaflega komið frá ákærða, Magnúsi, auk þess sem frekari vinna við undirbúninginn, sem BÓ lögmaður hafi meðal annars tekið þátt í , hafi leitt af sér einstaka forsendur. EH sendi ákærða, Magnúsi, tölvubréf 15. september 2008 með fyrstu drögum að kynningu sem ákærði hefði í fórum sínum á fundinn í Katar. Er kynningin auðkennd með dagsetningu fundarins í Katar. Þá liggur fyrir að ákærði var á fundinum 18. september 2008 þegar meðákærði, Hreiðar Már, gaf undirmönnum sínum fyrirmæli um lánveitingar tengdar kaupum MAT á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. og hvernig þau viðskipti skyldu ganga fyrir sig.
Í ljósi þess sem að framan greinir hefur ákærði, Magnús, því án nokkurs vafa þekkt svonefndan strúktúr viðskiptanna vel og nauðsynlegar lánveitingar tengdar honum. Í lánsumsókn sem HBL útbjó vegna lánveitingarinnar til Brooks Trading Ltd. kom fram um lánveitingu til félagsins Brooks Trading Ltd. og að til tryggingar því láni kæmu veð í svonefndum CLN-bréfum, tengdum skuldatryggingarálagi á Kaupþing banka hf., sem ráðast ætti í. Í fundargerð lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf. 24. september 2008 er lán til félagsins Brooks Trading Ltd. samþykkt gegn áðurnefndri tryggingu. Á sama fundi er samþykkt lánveiting til Mink Trading Corp. til kaupa á umræddu CLN-skuldabréfi. Fyrir liggur að ekki hafði verið ráðist í viðskipti með svonefnd CLN-bréf er lán til félagsins Brooks Trading Ltd. var greitt út 19. september 2008. Hafa SÖS og LS, starfsmenn í lögfræðideild Kaupthing Bank Luxembourg A.S., staðfest það og lýst því að furðu hafi sætt að lán skyldu veitt vegna hagnaðar af þessum viðskiptum, þegar ekki hafi verið búið að stofna til þeirra. Kvaðst SÖS hafa tjáð ákærða, Magnúsi, að hann teldi að um málamyndagerning væri að ræða. Ákærða, Magnúsi, gat því ekki dulist að er meðákærði, Hreiðar Már, gaf fyrirmæli um lánveitingar til félagsins Brooks Trading Ltd. 18. september 2008, að lán til félagsins gæti aldrei verið tryggt með veði í nefndum CLN-skuldabréfum þar sem til þeirra hafði ekki verið stofnað. Ákærði, Magnús, þekkti vel til innviða Kaupþings banka hf. Kom hann til starfa hjá Kaupþingi banka hf. á árinu 1994 og starfaði þar allt til ársins 1998, er hann tók við starfi framkvæmdastjóra Kaupthing Bank Luxembourg A.S. Þá er til þess að líta að fyrirmæli tengd útlánum og mörk útlánaheimilda voru þau sömu í Kaupþingi banka hf. og Kaupthing Bank Luxembourg A.S. þar sem handbók Kaupþings banka hf., um lánaheimildir og lánamörk, gilti samkvæmt ákvæði í handbókinni einnig fyrir Kaupthing Bank Luxembourg A.S. Ákærða, Magnúsi, gat því ekki dulist að er meðákærði, Hreiðar Már, gaf fyrirmæli um lánveitinguna, að hún gæti ekki farið fram innan þeirra heimilda er meðákærði hefði. Ákærði kom með ýmsum hætti að lánveitingunni. Fyrir hans tilstuðlan höfðu starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg A.S. það hlutverk með höndum að útvega félög sem taka myndu lán hjá Kaupþingi banka hf. vegna viðskipta MAT. Þá fór ákærði með opnunarskjöl vegna þessara lánaviðskipta til Doha þar sem þau voru látin í hendur MAT. Er kom að útgreiðslu lánsins gaf hann greiðslufyrirmæli, þótt hann hafi reyndar mælt fyrir um greiðslu þess inn á reikning Mink Trading Corp. Með þessari háttsemi hefur ákærði, Magnús, gerst sekur um hlutdeild í broti meðákærða, Hreiðars Más. Verður hann sakfelldur samkvæmt I. kafla ákæru og er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
II. kafli ákæru
Í II. kafla ákæru eru ákærðu, Hreiðari Má og Sigurði, gefin að sök umboðssvik með því að fara út fyrir heimildir sínar til lánveitinga í september 2008 með því að láta í sameiningu bankann veita Gerland Assets Ltd., eignalausu félagi með takmarkaða ábyrgð, skráð á Bresku Jómfrúaeyjum, í eigi meðákærða, Ólafs, 12.863.497.675 króna lán, í formi óundirritaðs peningamarkaðsláns, án þess að fyrir lægi samþykki lánanefnda bankans og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti og að hafa þannig valdið bankanum verulegri fjártjónshættu. Í ákæru er miðað við að lánið hafi verið greitt út 29. september 2008 og lánsfjárhæðinni varið til kaupa á hlutafé í Kaupþingi banka hf. í gegnum félög í eigu MAT.
Að því er lán til félagsins Gerland Assets Ltd. varðar, að fjárhæð 12.863.497.675 krónur, liggur fyrir í gögnum málsins óundirritað lánsskjali dagsett 29. september 2008 þar sem Kaupþing banki hf. veitir félaginu Gerland Assets Ltd. þann dag peningamarkaðsútlán nr. 398625/449668 að fjárhæð 12.863.497.675 krónur. Er gjalddagi lánsins 31. október 2008. Þá er á meðal rannsóknargagna málsins bréf félagsins Gerland Assets Ltd., dagsett 26. september 2008, þar sem Kaupþingi banka hf. eru gefin greiðslufyrirmæli um að færa 100.000.000 evra af reikningi félagsins í Kaupþingi banka hf. inn á reikning félagsins Choice Stay Ltd. í bankanum. Ákærði, Hreiðar Már, hefur staðfest að lán til félagsins Gerland Assets Ltd. hafi ekki farið fyrir lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf. Hafi verið um mistök að ræða af hálfu viðskiptastjóra á útlánasviði bankans, sem hafi átt að sjá um að lán til félagsins færi í hefðbundið ferli innan bankans með tilheyrandi samþykki. Ákærði, Sigurður, hefur fyrir dómi kannast við að hafa þekkt til uppsetningar viðskipta við MAT vegna kaupa hans á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Hafi ákærði verið þeim samþykkur. Hafi meðákærði, Hreiðar Már, kynnt kaupin fyrir ákærða. Þá kvaðst ákærði á fundi lánanefndar stjórnar 24. september 2008 hafa samþykkt lán til félagsins Serval Trading Group Corp. Ákærði hafi hins vegar ekki samþykkt lán til félagins Gerland Assets Ltd. Lánareglur bankans hafi verið brotnar með því að það lán hafi ekki farið fyrir lánanefnd stjórnar.
Síðasti fundur í lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf. var haldinn 24. september 2008. Svo sem áður er rakið var á þeim fundi samþykkt lán til félagsins Brooks Trading Ltd. að fjárhæð 50.000.000 Bandaríkjadala. Einnig var þann dag samþykkt lán til félagsins Serval Trading Group Corp. að fjárhæð 12.863.497.675 krónur. Lán til félagsins Gerland Assets Ltd. var hins vegar ekki á dagskrá fundarins. Fund þennan sátu með atkvæðisrétt ákærðu, Hreiðar Már og Sigurður, og stjórnarmennirnir BÓ og GPP. Á fundinum voru einnig BHD, framkvæmdastjóri útlána, og GH er ritaði fundargerð. Í annarri útgáfu af sömu fundargerð hefur SPK framkvæmdastjóra áhættustýringar verið bætt við fundarmenn. BÓ og GPP hafa staðfest að lán til Gerland Assets Ltd. hafi ekki verið til afgreiðslu á fundinum.
Að því er greiðslu á láni til Gerland Assets Ltd. varðar eru á meðal gagna málsins tölvupóstsamskipti á milli HBL viðskiptastjóra og þeirra SÖS og LS, starfsmanna Kaupthing Bank Luxembourg A.S. HBL sendi SÖS og LS tölvupóst 26. september 2008, með afriti á ákærða, Magnús, og EH, framkvæmdastjóra lögfræðisviðs Kaupthing Bank Luxembourg A.S., þar sem HBL óskar eftir greiðsluleiðbeiningum vegna lánveitinga til félaganna Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp. LS svaraði HBL sama dag með greiðslufyrirmælum frá félögunum Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp. inn í félagið Choice Stay Ltd. HBL sendi tölvupóst sama dag og bað um greiðsluleiðbeiningar vegna greiðslna inn á reikning félaganna Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp. frá Kaupþingi banka hf. Afrit af þessum pósti er sent á ákærða, Magnús, og EH. Ákærði, Magnús, svaraði HBL og spurði hvort viðskiptin hefðu gengið í gegn. Ef svo væri ekki vildi hann ræða þau á ný við viðskiptavininn, ellegar léti HBL ákærða vita. HBL sendi ákærða tölvupóst mánudaginn 29. september 2008 og spurði ákærða að því hvaða fjárhæð ætti að ,,draga“ í íslenskum krónum. Spurði hann í framhaldi að því hvort ,,draga“ ætti tilgreinda fjárhæð í íslenskum krónum. Ákærði svaraði því játandi. Fyrir dómi kvaðst HBL hafa litið svo á að í þessum fyrirmælum ákærða, Magnúsar, hafi falist fyrirmæli um útgreiðslu láns til Gerland Assets Ltd. Sama dag hafi HBL sent tölvupóst til HSK í fjárstýringu um greiðslur lána til félaganna Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp. og þaðan áfram til félagsins Choice Stay Ltd. og síðan áfram inn á vörslureikning Q Iceland Finance ehf.
Ákærði, Hreiðar Már, var í september 2008 forstjóri Kaupþings banka hf. og sat að auki í lánanefnd stjórnar bankans. Ákærði, Sigurður, var á þessum tíma stjórnarformaður Kaupþings banka hf. og var að auki formaður stjórnar lánanefndarinnar. Ákærði, Hreiðar Már, átti veg og vanda að því að MAT keypti hlutabréf í Kaupþingi banka hf. í gegnum félag sitt Q Iceland Finance ehf. Ákærði, Sigurður, kvaðst hafa verið upplýstur um kaupin og þeim samþykkur. Kaup MAT á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. höfðu átt sér nokkurn aðdraganda. Samkvæmt framburði ákærða, Ólafs, átti ákærði, Sigurður, fund með SAT í London á árinu 2007 tengdan fjárfestingum í Kaupþingi banka hf. Þá höfðu stjórnendur bankans sumarið 2008 átt í viðræðum við fjárfesta frá Katar um kaup á hlutabréfum í bankanum. Ákærði, Sigurður, hafði átt þátt í þessum fundum. Samkvæmt framburði ákærða, Ólafs, hitti ákærði, Sigurður, MAT í Skotlandi í lok ágúst 2008. Kaup á 5% hlut í Kaupþingi banka hf. voru mjög stór viðskipti fyrir bankann. Ekki fær annað staðist en að ákærðu, Hreiðar Már og Sigurður, hafi í sameiningu unnið að þessum viðskiptum og ákærði, Sigurður, verið þeim í alla staði kunnugur.
Á fundi lánanefndar stjórnar 24. september 2008 var fjallað um lánveitingar tengdar MAT, en um var að ræða lán til félagsins Mink Trading Corp. vegna viðskipta í svonefndum CLN-skuldabréfum og hins vegar lán til félagsins Brooks Trading Ltd. tengt sömu skuldabréfum. Mátti ákærðu báðum vera ljóst að lán til félaganna Mink Trading Corp. og Brooks Trading Ltd. væru ekki veitt til að fjármagna kaup á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Á sama fundi var tekið fyrir lán til félagsins Serval Trading Group Corp. að fjárhæð 12.863.497.675 krónur, sem reyndar var kynnt sem fjárfesting í verðbréfum. Þrátt fyrir það mátti ákærðu vera ljóst, í ljósi viðskipta við MAT um kaup á hlutabréfum í bankanum, að um væri að ræða lán til félags í eigu MAT sem ætlað væri til kaupa á hlut í bankanum. Þó svo ekki sé fyllilega upplýst með hvaða hætti ferill lánsins var innan bankans má þó ljóst vera að ákærði, Hreiðar Már, gaf um það fyrirmæli á fundinum 18. september 2008 að lánað skyldi til tveggja félaga sem saman myndu kaupa 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. Ákærðu báðum gat því ekki dulist, eftir fundinn 24. september 2008, að lán yrði veitt af hálfu bankans sem veita þyrfti samþykki fyrir í lánanefnd stjórnar bankans.
Kaupþing banki var hlutafélag. Samkvæmt 68. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, fer félagsstjórn með málefni félags og skal hún annast um að skipulag og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Fara félagsstjórn og framkvæmdastjóri með stjórn félags. Fer framkvæmdastjóri með daglegan rekstur félags og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið. Skal félagsstjórn annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félags. Skal framkvæmdastjóri sjá um að bókhald félags sé fært í samræmi við lög og meðferð eigna félags sé með tryggilegum hætti. Í dómaframkvæmd liðinna ára hafa dómstólar margsinnis slegið því föstu að á framkvæmdastjóra og stjórnarformanni hlutafélags hvílir eftirlitsskylda með fjárhagslegri starfsemi félags og bera þeir, í ljósi hennar, ríka ábyrgð á ólögmætum athöfnum undirmanna sinna er tengist meðferð fjármuna félagsins. Stöðu sinni samkvæmt, bæði sem æðstu stjórnendum bankans og vegna starfa í lánanefnd stjórnar, bar ákærðu báðum að hafa stjórn á lánveitingum bankans vegna kaupa MAT á hlutabréfum í bankanum. Gat þeim, í ljósi ákvarðana sem teknar höfðu verið á fundi í lánanefnd stjórnar 24. september 2008, ekki dulist að er bankinn veitti lán til félagsins Gerlands Assets Ltd. 29. september 2008 hafi það verið utan heimilda ákærðu til lánveitinga, án aðkomu lánanefndar stjórnar. Með því að lánið var greitt út þann dag af hálfu bankans, án þess að fyrir lægi samþykki lánanefndar stjórnar, fóru ákærðu út fyrir heimildir sínar til lánveitinga. Fram hefur komið að lán þetta sé ógreitt, enda engar tryggingar að baki lánveitingunni. Með hliðsjón af þessu verða ákærðu báðir sakfelldir fyrir umboðssvik samkvæmt II. kafla ákæru og er háttsemi þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
Ákærða, Ólafi, er í II. kafla ákæru aðallega gefin að sök hlutdeild í umboðssvikum meðákærðu, en til vara hylming og peningaþvætti, með því að hafa, ásamt meðákærðu, lagt á ráðin um að umrætt lán yrði greitt úr sjóðum bankans, þrátt fyrir verulega fjártjónshættu fyrir bankann og að láta félag sitt, Gerland Assets Ltd. taka við lánsfjárhæðinni án nokkurra ábyrgða eða trygginga, til að henni yrði ráðstafað áfram til félagsins Q Iceland Finance ehf. til viðskipta MAT með hlutabréf í Kaupþingi banka hf.
Í framburði ákærða fyrir dómi kom fram að hann hefði komið á fundi á milli meðákærða, Sigurðar, og SAT í London 2007 vegna áforma Kaupþings banka hf. um að hasla sér völl í Mið-Austurlöndum. Á tímabilinu mars til júlí 2008 hafi ákærði átt tvo einkafundi með forsætisráðherra Katar og forstjóra Qatar Investments Authorities og ráðgjafa hans vegna hugsanlegra kaupa þeirra á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Samhliða samningaviðræðum MAT um kaup á hlutum í Alfesca hafi verið rætt um stofnun sameiginlegs fjárfestingarsjóðs af þeirra hálfu. Fyrsti fundur um það efni hafi verið í London 1. júní 2008, en á þeim fundi hafi ákærði og SAT hist. Frekari umræður um sjóðinn hafi átt sér stað í júlí 2008 og ákvörðun verið tekin um að SAT kæmi einnig að þeim sjóði. Þar hafi ýmis fjárfestingarverkefni verið rædd. Meðákærði, Hreiðar Már, hafi lýst yfir vilja til að Kaupþing banki hf. myndi fjármagna sjóðinn. Um mánaðamótin júlí ágúst 2008 hafi SAT, ásamt forstjóra Alfesca, komið til Íslands. Ákærðu, Ólafur og Sigurður, hafi dagana 26. og 27. ágúst 2008 verið við veiðar í Englandi ásamt MAT og SAT. Í lok ágúst 2008 hafi meðákærði, Hreiðar Már, borið upp þá spurningu við ákærða hvort hann teldi að MAT væri áhugasamur um að kaupa hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Hafi ákærði borið þá hugmynd áfram til SAT. SAT hafi spurst fyrir um verð og kjör. Í byrjun september 2008 hafi SAT staðfest áhuga MAT á að kaupa hlutabréf í bankanum. Meðákærði, Hreiðar Már, hafi leitað eftir samþykki ákærða fyrir því að fyrirhugaður fjárfestingarsjóður ákærða og MAT yrði notaður við kaup MAT á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Hafi ákærði fallist á það. Þar hafi komið fram að félag í eigu ákærða myndi fjármagna helming kaupanna til skamms tíma. Ákærði hafi, ásamt meðákærða, Magnúsi, farið til Doha í Katar 16. september 2008 til fundar við SAT og MAT. Hafi ákærði, án meðákærða, hitt þá tvo á fundi. Þar hafi verið rædd sameiginleg fjárfestingarverkefni þeirra þriggja. Vegna fyrirhugaðrar þátttöku ákærða í fjárfestingarsjóðnum hafi Kaupthing Bank Luxembourg A.S. lagt til að félagið Gerland Assets Ltd., sem bankinn hafi sjálfur stofnað 18. júlí 2008, yrði notað í þessu sambandi. Hafi ákærði tekið félagið yfir 20. september 2008 og skrifað þá undir hluthafasamþykkt fyrir það. Ákærði hafi átt fund á skrifstofu sinni í London 20. september 2008 með SS lögmanni MAT. Á þeim fundi hafi meðákærði, Magnús, afhent lögmanninum gögn sem tengst hafi viðskiptum MAT og SAT við bankann. Á þeim fundi hafi SS óskað eftir því að Kaupthing Bank Luxembourg A.S. myndi opna sjálfstætt félag á Kýpur til að vera eignarhaldsfélag utan um hlut í Alfesca. Næsta dag hafi ákærði fengið send drög að fréttatilkynningu Kaupþings banka hf. frá starfsmönnum bankans vegna kaupa MAT á hlutabréfum í Kaupþingi. Ákærði hafi ekki náð sambandi við SS því SS hafi verið í flugi á leið til Katar með skjöl fyrir MAT til undirritunar. Hafi ákærði hringt í GJO, íslenskan lögmann MAT, og borið undir hann innihald fréttatilkynningar bankans. Ekki hafi GJO gert athugasemd við tilkynninguna og ákærði svarað starfsmanni Kaupþings banka hf. að fréttatilkynningin væri í lagi. Í eitt skipti hafi ákærði framsent skjöl varðandi viðskipti MAT með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. en að öðru leyti hafi ákærði ekki átt aðkomu að skjalagerð í málinu. Ákærði hafi aldrei óskað eftir láni fyrir félagið Gerland Assets Ltd. eða ritað undir lánsbeiðni fyrir félagið. Ákærði hafi aldrei séð svonefnda glærukynningu af strúktúr viðskipta MAT, sem útbúin hafi verið af starfsmönnum Kaupthing Bank Luxembourg A.S.
Af því sem að framan er rakið um aðkomu ákærða að viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. í gegnum félagið Q Iceland Finance ehf. má ljóst vera að ákærði kom að málinu á ýmsan hátt. Bæði með því að leiða saman aðila viðskiptanna, vera viðstaddur á ýmsum fundum með aðilum og vera í beinu sambandi við ákærðu, Hreiðar Má og Sigurð, vegna þeirra. Ákærði var á þessum tíma stór hluthafi í Kaupþingi banka hf. í gegnum eignarhald sitt á félögum og átti hann í september 2008 á þann hátt 9,88% hlut í félaginu. Fullyrðing ákærða um að hann hafi ekki þekkt náið til viðskipta Q Iceland Finance ehf. með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. fær að mati dómsins ekki staðist. Ákærði átti á þessum tíma langa sögu viðskipta og var þaulreyndar á þeim vettvangi. Er hann viðskiptafræðingur að mennt. Höfðu félög á hans vegum, þegar þar var komið, átt mikil viðskipti bæði við Kaupþing banka hf. og Kaupthing Bank Luxembourg A.S. Ákærði var skráður eigandi að félaginu Gerland Assets Ltd. og hafði einungis fáeinum dögum fyrir lánveitinguna til félagsins ritað undir hluthafasamþykktir fyrir það. Ákærði átti mikilla hagsmuna að gæta af því að viðskipti MAT með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. yrðu að veruleika. Er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi, í félagi við meðákærðu, Hreiðar Má og Sigurð, lagt á ráðin um lánveitingu til félagsins Gerland Assets Ltd. Það félag var nýstofnað og átti ekki aðrar eignir til að veðsetja en eigin hlutabréf. Lán til félagsins að fjárhæð 12.863.497.675 krónur, sem ekki voru veittar sérstakar tryggingar fyrir, fól því í sér verulega fjártjónshættu fyrir Kaupþing banka hf. og liggur fyrir að lán þetta er ógreitt. Með þátttöku sinni í hinni ólögmætu lánveitingu, sem ákærða gat ekki dulist að var umfram heimildir meðákærðu, varð ákærði hlutdeildarmaður í broti meðákærðu, Hreiðars Más og Sigurðar. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt II. kafla ákæru og varðar háttsemi hans þar við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 19/1940.
III. kafli ákæru
Í III. kafla er ákærðu, Hreiðari Má og Sigurði, gefið að sök að hafa stofnað til blekkingar- og sýndarviðskipta með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. í tengslum við kaup MAT á hlutabréfum í bankanum. Ákæra miðar við að um markaðsmisnotkun hafi verið að ræða af hálfu ákærðu í viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. í september 2008 með því að láta ranglega líta svo út að þekktur fjárfestir frá Katar, MAT, hefði lagt fé til kaupa á 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. og borið af þeim fulla markaðsáhættu þegar Q Iceland Finance ehf., dótturfélag í eigu eignarhaldsfélags hans Q Iceland Holding ehf. hafi keypt umræddan hlut af bankanum. Hafi fullri fjármögnun bankans á hlutabréfakaupunum verið leynt og aðkomu meðákærða, Ólafs, að þeim, en hann hafi á þeim tíma átt 9,88% hlutafjár í bankanum í gegnum félög sín. Í þessum tilgangi hafi verið sett upp viðskiptaflétta sem hafi verið fólgin í því að Kaupþing banki hf. hafi lánað helming kaupverðsins til félagsins Serval Trading Group Corp, í eigu MAT, sem gengist hafi í persónulega ábyrgð fyrir því láni. Kaupþing banki hf. hafi lánað hinn helming kaupverðsins félaginu Gerland Assets Ltd., í eigu meðákærða, Ólafs, án þess að endurgreiðsla lánsins væri trygg með nokkrum hætti og án samþykkis lánanefndar Kaupþings banka hf. Ákærðu, Hreiðar Már og Sigurður, hafi tekið sameiginlega ákvörðun um hlutabréfaviðskiptin og fjármögnun þeirra og ákærði, Hreiðar Már, gefið starfsmönnum bankans fyrirmæli um framkvæmd þeirra. Um hafi verið að ræða viðskipti með stóran hlut í Kaupþingi banka hf., sem falið hafi í sér blekkingu og sýndarmennsku og verið líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í bankanum misvísandi til kynna þar sem dulin hafi verið að fullu fjármögnun bankans sjálfs í viðskiptunum og að auki aðkoma stórs hluthafa bankans, meðákærða, Ólafs, að þeim og dulið að helmingur markaðsáhættu vegna hlutabréfanna hvíldi á bankanum sjálfum eftir viðskiptin.
Umrædd viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi hf. áttu sér talsverðan aðdraganda, svo sem áður hefur komið fram. Í september 2008 hafði þrengt talsvert að á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, en um það báru vitni fyrir dómi, auk þess sem ákærðu gerðu grein fyrir því. Af hálfu stjórnenda Kaupþings banka hf. voru miklar vonir bundnar við gott streymi innlána í bankann, sérstaklega tengt svonefndum Edge innlánsreikningum. Lausafjárstaða bankans var til umræðu á stjórnarfundi í bankanum dagana 25. og 26. september 2008. Fram kom í framburði stjórnarmanna að almenn ánægja hafi ríkt með stöðu bankans að því leyti, þrátt fyrir kreppu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Ákærði, Sigurður, ritaði bréf 26. janúar 2009, þar sem hann lét frá sér athugasemdir í tilefni af því að Kaupþing banki hf. var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu 8. október 2008. Í bréfinu gerir ákærði meðal annars grein fyrir ,,fjármálakreppu“ sem farið hafi af stað í júlí 2007 þegar skuldabréfaálög hafi tekið að hækka. Hafi þau náð hámarki í mars 2008, en þá tekið að lækka aftur. Þrátt fyrir ýmsar aðgerðir æðstu stjórnenda Kaupþings banka hf. hafi álag á skuldatryggingar bankans tekið að hækka á ný sumarið 2008. Eftir að Lehman Brothers hafi orðið gjaldþrota 15. september 2008 hafi ástandið versnað verulega á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Skuldatryggingarálag á Kaupþing banka hf. hafi hækkað eins og á aðra banka. Ástandinu á haustdögum hafi ekki verið unnt að lýsa öðruvísi en sem bankaáhlaupi, ekki aðeins á íslensku bankana, heldur fjármálakerfi heimsins alls.
Um mitt ár 2008 áttu æðstu stjórnendur Kaupþings banka hf. viðræður við fyrirsvarsmenn fjárfestingarsjóðsins Qatar Investments Authorities um fjárfestingar í Kaupþingi banka hf. Í framburði ákærða, Hreiðars Más, kom fram að í tengslum við þær viðræður hafi KPMG í London verið falið að ljúka áreiðanleikakönnun á bankanum. Í kjölfar vinnu með KPMG hafi verið boðið til fundar í Doha í Katar. Ekki hafi verið gengið til samninga við Qatar Investments Authorities þar sem fjárfestingarsjóðurinn hafi farið fram á háan afslátt frá gengi hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. Er borið var undir ákærða hvort boð sjóðsins hafi hljóðað upp á 399 krónur á hlut kvað ákærði það getað staðist. Samkvæmt tölvupósti sem HEG sendi ákærða, Heiðari Má, og SPK, framkvæmdastjóra áhættustýringar Kaupþings banka hf., 20. ágúst 2008, var boð QIA um 399 krónur á hlut.
Samkvæmt 78. gr. laga nr. 108/2007, er snýr að flöggun viðskipta, skal eigandi, sem aflar eða ráðstafar hlutum í útgefanda hlutabréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, senda tilkynningu með sannanlegum hætti til viðkomandi útgefanda og Fjármálaeftirlitsins, ef öflun eða ráðstöfun leiðir af sér að atkvæðisréttur hans nái, hækki eða lækki niður fyrir tilgreind mörk, þ. á m. 5%. Í samræmi við ákvæðið sendi Kaupþing banki hf. tilkynningu til Kauphallar Íslands 22. september 2008 um eigin viðskipti bankans við sölu á 37.100.000 hlutum í bankanum. Fram kemur að kaupverð hafi verið 690 krónur á hlut. Jafnframt var Fjármálaeftirlitinu tilkynnt um kaupin og þar tekið fram að kaupandi væri Q Iceland Finance ehf.
Kaup Q Iceland Finance ehf. á 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. voru fjármögnuð með þeim hætti að bankinn sjálfur veitti félögunum Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Corp., báðum til heimilis á Bresku Jómfrúaeyjum, lán vegna þessara kaupa. Lánum þessum var í beinu framhaldi beint inn á reikning félagsins Choice Stay Ltd. í bankanum, en það félag var skrásett á Kýpur. Sama dag var þessum fjármunum ráðstafað inn á reikning félagsins Q Iceland Finance ehf. í Kaupþingi banka hf. Ákærðu, Hreiðar Már og Magnús, létu starfsmönnum sínum í té upplýsingar um þessi viðskipti, hvernig þau skyldu ganga fyrir sig og með hvaða hætti þau yrðu fjármögnuð. Svo sem slegið var föstu í I. og II. kafla ákæru gaf ákærði, Hreiðar Már, 18. september 2008 starfsmönnum sínum fyrirmæli um lánveitingar tengdar þessum kaupum á fundi með meðákærða, Magnúsi, og viðskiptastjórum á útlánasviði.
Samkvæmt framburði EH, framkvæmdastjóra lögfræðisviðs Kaupthing Bank Luxembourg A.S., fyrir dóminum, gaf ákærði, Magnús, honum í byrjun september 2008 fyrirmæli og forsendur til að vinna eftir við uppsetningu kaupa MAT á 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. EH kvaðst í kjölfarið, svo sem jafnan, hafa sett forsendur kaupanna í myndrænt kynningarform til að auðvelda vinnu við viðskiptin og til að þeir er að vinnunni kæmu gætu áttað sig vel á þeim félögum er ættu í hlut og flæði fjármuna. Samkvæmt gögnum málsins sendi EH fyrstu drög að þessari kynningu til ákærða, Magnúsar, með tölvupósti 15. september 2008. Samkvæmt þessari kynningu var gert ráð fyrir því að lán að fjárhæð 200.000.000 evra yrði veitt frá Kaupþingi banka hf. til sérstaks fjárfestingarfélags að jöfnu í eigu ákærða, Ólafs, og MAT. Lánið yrði veitt frá þessu fjárfestingarfélagi til félagsins Q Iceland Holding ehf., sem aftur keypti 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. Félagið Q Iceland Holding ehf. væri í eigu MAT. Í skýringum við hina myndrænu uppsetningu var tekið fram að kjör lánsins frá fjárfestingarfélaginu til Q Iceland Holding ehf. væru háð gengi hlutabréfa í Kaupþingi hf. EH sendi SÖS og LS, báðum starfsmönnum Kaupthing Bank Luxembourg A.S., tölvubréf 18. september 2008 með þeim skilaboðum að um væri að ræða lítils háttar uppfærða útgáfu. Þeim tölvupósti var jafnframt beint til BÓ lögmanns. Í þeim pósti var hinni myndrænu uppsetningu viðskiptanna breytt þannig að sérstök félög voru komin í stað ákærða, Ólafs, og MAT, sem eigendur hins sameiginlega fjárfestingarfélags. Fram kom að þessi félög væru að fullu í eigu ákærða, annars vegar og MAT, hins vegar. Áfram var gert ráð fyrir flæði fjármuna í gegnum fjárfestingarfélagið til Q Iceland Holding ehf., sem væri að fullu í eigu MAT. Þá var áfram gert ráð fyrir að kjör láns til Q Iceland Holding ehf. réðist af gengi hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. EH hefur staðhæft að forsendur um hagnaðartengt lán hafi komið frá BÓ lögmanni, sem komið hafi að vinnu við uppsetningu viðskiptanna. Hafi EH litið á BÓ sem lögmann ákærða, Ólafs, í uppsetningu þeirra, þar sem ákærði hafi tengst þessum viðskiptum. EH hafi engar forsendur haft til að ákveða þetta sjálfur. Innan bankans hafi verið unnið með hið hagnaðartengda lán, þar sem það hafi varðað hið sérstaka eignarhaldsfélag sem staðsett skyldi á Kýpur. Hafi sérfræðingar á Kýpur verið fengnir til að skoða þann þátt en þeirri vinnu ekki verið lokið 8. október 2008. Á meðal gagna málsins er símtal frá 17. september 2008 á milli EH og BÓ lögmanns þar sem rætt var um þetta lán. Verður símtal þetta ekki skilið á annan hátt en að lán á milli fjárfestingarfélaganna og Q Iceland Holding ehf. skyldi vera hagnaðartengt og taka mið af fjárfestingunni í Kaupþingi banka hf. Þá kom fram síðar í þessu símtali að EH skildist að ákærði, Ólafur, vildi fá sinn part af ,,kökunni“. Undir það tekur BÓ. EH staðfesti þessi atriði fyrir dóminum. Var framburður EH afdráttarlaus og skýr um öll atriði málsins, að því marki sem EH gat af eigin raun borið um atvik, og í samræmi við skýrslur hans á rannsóknarstigi málsins. Var EH trúverðugur að mati dómsins um þessi atriði. Með því og með hliðsjón af því sem hér að framan var rakið, telur dómurinn unnt að slá því föstu að ætlunin hafi verið að félög í eigu ákærða, Ólafs, og MAT skyldu njóta ávinnings af gengi hlutabréfa í Kaupþingi banka hf.
Ákærði, Ólafur, var á þessum tíma stór hluthafi í Kaupþingi banka hf., en félög á hans vegum áttu 9,88% hlut í Kaupþingi banka. Í símtali milli EH og BÓ frá 17. september 2008 greindi EH frá því að ,,uppleggið frá Magga var ... ... hann má ekki flagga, við viljum bara að Qatar-inn flaggi og enginn annar, hann er bara einn í þessu sko.“ Þá hafi EH sagt varðandi ákærða, Ólaf, að það þyrfti að ,,lengja í lúpunni“ varðandi eignarhald ákærða. EH staðfesti fyrir dómi að hafa viðhaft þessi ummæli í símtali.
Viðskipti MAT með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. í september 2008 höfðu jákvæð áhrif á gengi hlutabréfa í bankanum. Á yfirliti um verðþróun hlutabréfa í bankanum frá Kauphöll Íslands hafði dagslokaverð hlutabréfa í bankanum verið nærri 690 krónum á hlut í nokkurn tíma fram undir 20. september 2008. Þann 22. september 2008 hækkaði verð á hlut í 737 krónur á hlut og fór hæst í 755 krónur á hlut 25. sama mánaðar. Eftir það tóku bréfin að lækka á ný.
Í ákæru er háttsemi ákærðu, Hreiðars Más og Sigurðar, í III. kafla ákæru talin varða við a-lið 1. tl. og 2. tl. 1. mgr. 117. gr., sbr. 146. gr. laga nr. 108/2007. Samkvæmt a-lið 1. tl. 1. mgr. 117. gr. er markaðsmisnotkun óheimil. Í ákvæðinu er tekið fram að með markaðsmisnotkun sé átt við að eiga viðskipti eða gera tilboð sem gefi eða séu líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 117. gr. laganna sé með markaðsmisnotkun átt við að eiga viðskipti eða gera tilboð sem byggð séu á tilbúningi eða þar sem notuð séu einhver form blekkingar eða sýndarmennsku. Samkvæmt 118. gr. laga nr. 108/2007 skal ráðherra setja reglugerð um nánari skilgreiningu á markaðsmisnotkun. Það hefur ráðherra gert með reglugerð nr. 630/2005, um innherjaupplýsingar og markaðssvik. Samkvæmt a-lið 8. gr. reglugerðarinnar skal við mat á því hvort um markaðsmisnotkun sé að ræða meðal annars líta til þess hversu stórt hlutfall umrædd tilboð eða viðskipti séu af daglegri meðalveltu viðkomandi fjármálagernings á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði, einkum þegar þau leiði til marktækra breytinga á verði viðkomandi fjármálagerninga. Samkvæmt b-lið 8. gr. skal einnig líta til þess að hve miklu leyti tilboð eða viðskipti aðila sem eigi viðskipti vegna stöðutöku í fjármálagerningi hafi í för með sér marktækar breytingar á verði viðkomandi fjármálagernings eða undirliggjandi verðbréfa sem tekin hafi verið til skráningar á skipulegum verðbréfamarkaði.
Við mat á niðurstöðu er til þess að líta að viðskipti Q Iceland Finance ehf. með 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. voru mjög stór, sé miðað við venjulega veltu hlutabréfanna í bankanum. Þá höfðu viðskiptin marktækar breytingar í för með sér á virði hlutabréfa í bankanum. Í tilkynningu til kauphallar var þess ekki getið að Kaupþing banki hf. hefði fjármagnað kaupin að fullu. Þá var þess ekki getið að ákærði, Ólafur, hefði komið að fjármögnun kaupanna með því að lánsféð frá Kaupþingi banka hf. rann að helmingi í gegnum félag ákærða. Ákærði, Ólafur, átti að njóta hagnaðar af þróun gengis hlutabréfa í bankanum. Telur dómurinn engum vafa undirorpið að upplýsingar um þessi atriði hefðu haft áhrif á virði hlutabréfa í bankanum. Ákærðu, Hreiðar Már og Sigurður, tóku ákvörðun um hlutabréfaviðskipti Kaupþings banka hf. við MAT og ákvörðun um að veita lán til félaganna Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Cor. sem veittu þeim lánum áfram til félagsins Q Iceland Finance ehf. Þá liggur fyrir að lánveitingar ákærðu, Hreiðars Más og Sigurðar, voru ólögmætar að því marki sem ákærðu fóru út fyrir heimildir sínar til lánveitinga fyrir Kaupþing banka hf. Kaupandi lagði fram sjálfskuldarábyrgð fyrir helmingi kaupverðsins. Er sjálfskuldarábyrgð einungis ábyrgð þar sem kröfuhafi getur gengið að ábyrgðarmanni að skuld þegar skuldari efnir ekki samningsskyldur sínar á réttum tíma. Af þessu leiðir að fjármunir komu ekki inn í Kaupþing banka hf. við kaupin, sem bættu því ekki lausafjárstöðu bankans eða gjaldeyrisforða á erfiðum tímum á fjármálamörkuðum. Á sama tíma þurfti bankinn að gæta mikils aðhalds við útstreymi gjaldeyris úr bankanum og hafði dregið segl mikið saman að því leyti til. Í ljósi þess að ekki lá nein trygging að baki láni til Gerland Assets Ltd. bar bankinn af viðskiptunum hálfa markaðsáhættu. Loks liggur fyrir að fjárfestingarsjóðurinn Qatar Investments Authorities hafði boðið Kaupþingi banka hf. 399 krónur á hvern hlut hlutabréfa, en í viðskiptum bankans við Q Iceland Finance ehf. fáeinum dögum síðar var verð á hlut 690 krónur, eða hartnær helmingi hærra en fyrra tilboð. Var það á tíma sem ,,bankaáhlaup“ var í gangi. Með hliðsjón af öllu þessu telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að kaupin hafi verið blekking að stofni til. Áttu ákærðu viðskipti sem gáfu verð fjármálagerninga ranglega til kynna. Sömuleiðis áttu þeir viðskipti þar sem notaðir voru bæði blekkingar og sýndarmennska. Með því hafa ákærðu gerst brotlegir við a-lið, 1. tl. og 2. tl., 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Verða þeir samkvæmt því sakfelldir samkvæmt ákæru og er háttsemi þeirra í III. kafla ákæru rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærðu, Magnúsi og Ólafi, er gefin að sök hlutdeild í framangreindri markaðsmisnotkun meðákærðu, með því að hafa haft milligöngu um að koma viðskiptunum á og að hafa átt samskipti við MAT um þau. Sömuleiðis hafi ákærði, Magnús, tekið þátt í undirbúningi og útfærslu viðskiptafléttunnar. Ákærði, Ólafur, hafi tekið þátt í undirbúningi viðskiptafléttunnar og í því að gera hlutabréfaviðskiptin að veruleika með aðkomu að fjármögnun þeirra.
Aðkomu ákærðu að þessum viðskiptum hefur áður verið lýst. Þar var slegið föstu að ákærði, Magnús, þekkti vel til viðskiptanna. Lét hann starfsmenn sína undirbúa viðskiptin, þess meðvitaður að Kaupþing banki hf. hefði fjármagnað þau að fullu. Þá vissi hann um aðkomu meðákærða, Ólafs, að viðskiptunum og gat honum ekki dulist hagnaðartenging láns til meðákærða, Ólafs, þar sem þær upplýsingar komu fram í kynningu er hann hafði í höndum tengt þessum viðskiptum. Gerði ákærði engar tilraunir til að leiðrétta þá mynd sem þar var sett upp. Ákærða, Ólafi, var einnig fullkunnugt um viðskiptafléttuna og tilgang með henni. Undirritaði hann nauðsynleg skjöl varðandi félagið Gerland Assets Ltd. til að unnt væri að hrinda viðskiptunum í framkvæmd. Með þessari háttsemi gerðust ákærðu báðir sekir um hlutdeild í brotum meðákærðu, Hreiðars Más og Sigurðar. Verða þeir því einnig sakfelldir samkvæmt III. kafla ákæru og er háttsemi þeirra þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
IV. kafli ákæru
Í IV. kafla ákæru er ákærðu öllum gefin að sök markaðsmisnotkun með því að hafa í september 2008, í fréttatilkynningu sem birt var á vef Kauphallar Íslands og í viðtölum í fjölmiðlum í kjölfarið, dreift fréttum og upplýsingum sem gáfu eða voru líklegar til að gefa misvísandi upplýsingar og vísbendingar um hlutabréfaviðskipti Q Iceland Finance ehf. með hlutabréf í Kaupþingi banka hf.
Í fréttatilkynningu frá Kaupþingi banka hf., sem birt var 22. september 2008 á vef Kauphallar Íslands, sagði svo: „Q Iceland Finance ehf., dótturfélag í eigu Q Iceland Holding ehf., sem er eignarhaldsfélag hans hátignar [MAT], hefur keypt 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. Q Iceland Finance keypti alls 37,1 milljón hluta á genginu 690 krónur á hlut og verður þar með þriðji stærsti hluthafi bankans. Hans hátign [MAT] er í konungsfjölskyldunni sem verið hefur við völd í Qatar frá því á nítjándu öld. Hans hátign [MAT]: „Við höfum fylgst náið með Kaupþingi í nokkurn tíma og teljum þetta góða fjárfestingu. Staða Kaupþings er sterk og við höfum trú á stefnu og stjórnendum bankans, enda hefur Kaupþing náð góðum árangri við þær erfiðu aðstæður sem nú eru á markaðnum og sýnt fram á getu til þess að breytast og laga sig að nýjum veruleika í bankastarfsemi. Við lítum á hlut okkar í Kaupþingi sem langtímafjárfestingu og hlökkum til að eiga góð samskipti við stjórnendur bankans.“ Sigurður Einarsson, stjórnarformaður: „Okkur er mikil ánægja að bjóða hans hátign [MAT] velkominn í hluthafahóp Kaupþings. Það hefur lengi verið stefna okkar að laða nýja fjárfesta að bankanum og því er ánægjulegt að sjá að við höfum nú náð að breikka hluthafahópinn enn frekar. Við hlökkum til að vinna með hans hátign [MAT] í framtíðinni““.
Samkvæmt gögnum málsins sendi DG, þá starfsmaður á samskiptasviði Kaupþings banka hf., tölvupóst laugardaginn 20. september 2008, kl. 13.17, til yfirmanns síns, JS, framkvæmdastjóra samskiptasviðs. Í tölvupóstinum voru drög að fréttatilkynningu Kaupþings banka hf. vegna kaupa MAT á 5,01% hlut í bankanum. Í tilkynningunni var gerð grein fyrir kaupum MAT á ,,5,1%“ hlut í bankanum eða 37.763.103 hlutum. Jafnframt var um beinar tilvitnanir í ákærða, Sigurð, að ræða, sem og MAT, vegna kaupanna, þar sem þeir lýstu báðir ánægju með kaupin. JS svaraði tölvupóstinum samstundis og tjáði DG að hann biði eftir því að ákærði, Magnús, hringdi í sig vegna málsins. Klukkan 13.45 sama dag sendi DG aftur tölvupóst til JS, sem auðkenndur var ,,draft 2“, þar sem enn var verið að senda á milli drög að fréttatilkynningunni. Var nánari grein gerð fyrir því félagi sem keypt hefði bréfin, hluturinn sagður vera 5,01% og væru hlutirnir 37.100.000. Tilvitnun í ummæli MAT voru óbreytt, en lítils háttar breyting var gerð á tilvitnun í ákærða, Sigurð. JS svaraði DG samstundis með þeim skilaboðum að hann myndi hringja stuttu síðar.
DG sendi ákærða, Magnúsi, tölvupóst með fréttatilkynningunni sunnudaginn 21. september 2008, kl. 14.08. Var tölvupósturinn auðkenndur sem ,,Drög að tilkynningu-final“. Afrit af þeim pósti var sent á JS. Ákærði, Magnús, sendi tölvupóst á DG kl. 15.01 þennan sama dag, með afriti á JS, með breytingum eftir fund ákærðu, Magnúsar og Ólafs. Ákærði sendi á ný tölvupóst á sömu aðila kl. 18.35 þennan dag með þeim skilaboðum að einhverjar breytingar yrðu til viðbótar. Klukkan 19.05 þennan dag sendi ákærði, Magnús, enn á ný tölvupóst til sömu aðila og áður með lítils háttar breytingu á tilkynningunni. Að síðustu sendi ákærði, Magnús, tölvupóst á sömu aðila, þar sem gerðar voru aðrar lítils háttar breytingar á tilkynningunni, með fyrirmælum um að senda hreina útgáfu yfirlýsingarinnar á ákærðu, Magnús, Hreiðar Má og Ólaf. Var póstfang ákærða, Ólafs, sagt vera ,,olafur.olafsson@kaupthing.com“.
Ákærði, Ólafur, hefur fyrir dómi greint frá því að hann hafi borið tilvitnun í MAT undir GJO, lögmann MAT. Hefur GJO fyrir dóminum staðfest það, en jafnframt borið að hann hafi lýst yfir að hann hafi ekki verið í þeirri aðstöðu að taka ákvarðanir fyrir hönd umbjóðanda síns, MAT. Má ljóst vera að umrædd fréttatilkynning var aldrei borin undir MAT sjálfan. Í gögnum málsins liggja frammi viðtöl ákærðu, Hreiðars Más, Sigurðar og Ólafs, í fjölmiðlum í kjölfar kaupa MAT á hlutum í Kaupþingi banka hf. Hafa ákærðu staðfest fyrir dómi að hafa viðhaft þau ummæli um kaupin sem til er vitnað í IV. kafla ákæru.
Brot samkvæmt IV. kafla ákæru eru talin varða við 3. tl. 1.mgr. 117. gr., sbr. 146. gr. laga nr. 108/2007. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði er markaðsmisnotkun óheimil, en með markaðsmisnotkun sé átt við dreifingu upplýsinga, frétta eða orðróms sem gefi eða sé líkleg til að gefa rangar eða misvísandi upplýsingar eða vísbendingar um fjármálagerninga, enda hafi sá sem dreift hafi upplýsingunum vitað eða mátt vita að upplýsingarnar voru rangar eða misvísandi.
Af því sem að framan er rakið um vinnu við gerð fréttatilkynningar sem birt var á vef Kauphallar Íslands liggur fyrir að ákærðu komu allir með einhverju móti að gerð tilkynningarinnar. Í niðurstöðu um III. kafla ákæru var talið sannað að ákærðu hefðu gerst sekir um markaðsmisnotkun í tengslum við viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Þar var slegið föstu að í viðskiptunum hafi verið fólgin blekking og sýndarmennska af hálfu ákærðu, og látið líta út fyrir að MAT hefði greitt fyrir hlutabréfin. Hafi sjálfskuldarábyrgð MAT vegna kaupa á helmingi hlutabréfa engu breytt um það efni. Ákærðu, Hreiðar Már, Sigurður og Ólafur, létu frá sér ummæli í kjölfar fréttatilkynningarinnar sem fólu í sér misvísandi upplýsingar um hlutabréfakaupin. Leituðust þeir á engan hátt við að koma þeim upplýsingum á framfæri að kaup bréfanna hefðu að fullu verið fjármögnuð af bankanum og að ákærði, Ólafur, hefði átt þátt í viðskiptunum, þrátt fyrir að þeim hafi mátt vera ljóst að upplýsingar um þessi atriði hefðu verðmótandi áhrif á fjármálamarkaði. Verð hluta í bankanum hækkaði í kjölfar viðskiptanna og umfjöllun fjölmiðla um þau. Með framangreindri háttsemi hafa ákærðu allir gerst sekir um markaðsmisnotkun. Verða þeir sakfelldir samkvæmt IV. kafla ákæru og er háttsemi þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði, Hreiðar Már, er fæddur í nóvember 1970, ákærði, Sigurður, í september 1960, ákærði, Ólafur, í janúar 1957 og ákærði, Magnús, í apríl 1970. Enginn ákærðu hefur áður sætt refsingu svo kunnugt sé.
Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærðu, Hreiðar Már og Sigurður, voru á þeim tíma er brotin voru framin æðstu stjórnendur stærsta viðskiptabanka á Íslandi. Ákærði, Magnús, var framkvæmdastjóri viðskiptabanka í samstæðu Kaupþings banka hf. og ákærði, Ólafur, einn stærsti einstaki hluthafi í bankanum í gegnum félög sín. Hin refsiverðu viðskipti ákærðu vörðuðu verulegum fjárhæðum. Eiga brotin sér ekki hliðstæðu í íslenskri réttarframkvæmd. Þá er við ákvörðun refsingar litið til þess að verulegt fjárhagslegt tjón hlaust af brotum ákærðu, sem fullframin voru á tímabilinu 18. til 23. september 2008. Eiga ákærðu sér engar málsbætur. Með hliðsjón af þessu sæti ákærði, Hreiðar Már, fangelsi í 5 ár og sex mánuði. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 7. til 17. maí 2010. Ákærði, Sigurður, sæti fangelsi í 5 ár og ákærði, Ólafur, fangelsi í 3 ár og sex mánuði. Ákærði, Magnús, sæti fangelsi í 3 ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 7. til 14. maí 2010.
Ekki hefur annan sakarkostnað leitt af máli þessu en kostnað við vörn ákærðu. Ákærðu greiði málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, með þeim hætti er í dómsorði er mælt fyrir um. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ákveðið var að hafa aðalmeðferð í máli þessu 11. apríl 2013, eftir samráð dómara við sækjanda og verjendur og samþykki þeirra í tölvuskeytum 17. desember 2012. Boðaði dómari formlega til aðalmeðferðarinnar með tölvuskeyti 19. sama mánaðar. Skipaðir verjendur ákærðu, Hreiðars Más, Ólafs og Magnúsar, óskuðu eftir því í þinghaldi 7. mars 2013 að aðalmeðferð málsins yrði frestað og kröfðust úrskurðar dómsins þar um. Með úrskurði dómsins þann sama dag var kröfu verjendanna hafnað. Með bókun í þinghaldi 25. mars 2013 lögðu allir verjendur ákærðu fram kröfu um að aðalmeðferð málsins yrði frestað og var málið á ný tekið til úrskurðar um þá kröfu. Var kröfu um frestun aðalmeðferðar á ný hafnað með úrskurði dómsins næsta dag. Verjandi ákærða, Sigurðar, Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður og verjandi ákærða, Ólafs, Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður, óskuðu eftir því með bréfi til dómsins 8. apríl 2013 að þeir yrðu leystir undan verjendastörfum. Hafnaði dómari því samdægurs. Tilkynntu verjendurnir sama dag að þeir myndu ekki mæta til aðalmeðferðar málsins 11. apríl. Á dómþingi þann dag mættu verjendurnir ekki og voru þeir við svo búið leystir undan verjendastörfum. Á dómþinginu voru ákærðu skipaðir nýir verjendur.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 223. gr. laga nr. 88/2008 má ákveða sekt á hendur verjanda fyrir að valda af ásetningi óþörfum drætti á máli. Samkvæmt d-lið sama ákvæðis má ákveða verjanda sekt fyrir að misbjóða virðingu dómsins með framferði í þinghaldi. Ákæra í máli þessu var gefin út 16. febrúar 2012. Hafði verjendum gefist ríkulegt ráðrúm til að undirbúa vörn ákærðu með fullnægjandi hætti þegar að aðalmeðferð málsins kom 11. apríl 2013, þrátt fyrir að í millitíðinni væru lögð fram frekari gögn í málinu. Ákvörðun þeirra um að segja sig frá vörn ákærðu olli óþörfum drætti á málinu og gekk þannig gegn hagsmunum ákærðu. Þá var sú háttsemi verjendanna að mæta ekki á dómþing við aðalmeðferð máls, þegar dómari hafði synjað þeim um að vera leystir undan verjendastörfum, til þess fallin að misbjóða virðingu dómsins. Er óhjákvæmilegt annað en að verjendunum verði af þessum ástæðum ákveðin sekt í ríkissjóð að fjárhæð 1.000.000 króna.
Við aðalmeðferð málsins kom fram að fjögur vitni hefðu átt fund með verjendum ákærðu, Hreiðars Más og Ólafs, fyrir aðalmeðferð málsins og þau kynnt sér gögn málsins á skrifstofu verjendanna. Samkvæmt 3. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 kynnir dómari ekki fyrir vitni skýrslur þess hjá lögreglu eða önnur sýnileg sönnunargögn fyrr en dómara þykir þess þörf til skýringar eða leiðréttingar skýrslu þess. Með því að ræða við vitnin fyrir aðalmeðferð máls og sýna þeim sýnileg sönnunargögn var farið á svig við greind lagafyrirmæli, auk þess sem sú háttsemi var til þess fallin að rýra trúverðugleika vitnanna, sbr. 7. tl. 122. gr. laga nr. 88/2008. Er þetta aðfinnsluvert.
Símon Sigvaldason, Ingimundur Einarsson og Magnús Benediktsson héraðsdómarar kváðu upp þennan dóm.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Hreiðar Már Sigurðsson, sæti fangelsi í 5 ár og sex mánuði. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 7. til 17. maí 2010.
Ákærði, Sigurður Einarsson, sæti fangelsi í 5 ár.
Ákærði, Ólafur Ólafsson, sæti fangelsi í 3 ár og sex mánuði.
Ákærði, Magnús Guðmundsson, sæti fangelsi í 3 ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 7. til 14. maí 2010.
Ákærði, Hreiðar Már, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Harðar Felix Harðarsonar hæstaréttarlögmanns, 33.495.950 krónur.
Ákærði, Sigurður, greiði málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, Ólafs Eiríkssonar hæstaréttarlögmanns, 3.526.550 krónur og Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 10.855.750 krónur. Að auki greiði ákærði útlagðan kostnað verjanda að fjárhæð 90.202 krónur.
Ákærði, Ólafur, greiði málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, Þórólfs Jónssonar héraðsdómslögmanna, 14.708.600 krónur og Ragnars Halldórs Hall hæstaréttarlögmanns, 5.898.500 krónur.
Ákærði, Magnús, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Karls Axelssonar hæstaréttarlögmanns, 20.255.700 krónur.
Hæstaréttarlögmennirnir Gestur Jónsson og Ragnar H. Hall greiði hvor um sig 1.000.000 króna sekt í ríkissjóð.