Hæstiréttur íslands

Mál nr. 325/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innsetningargerð
  • Börn
  • Málskostnaður


Miðvikudaginn 12

 

Miðvikudaginn 12. september 2001.

Nr. 325/2001.

M

(Hörður F. Harðarson hrl.)

gegn

K

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

 

Kærumál. Innsetningargerð. Börn. Málskostnaður.

Við skilnað M og K ákváðu franskir dómstólar að forsjá barnsins X skyldi vera sameiginleg en föst búseta þess var ákveðin hjá K í Frakklandi. Kom X til Íslands í júlí 2001 til umgengni við M en sneri ekki aftur til K á þeim tíma sem áður hafði verið kveðið á um. Krafðist K að henni yrði heimilað að fá X tekinn úr umráðum M og afhentan sér með beinni aðfarargerð. Með vísan til Evrópusamnings um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endurheimt forsjár barna og laga nr. 160/1995 þótti ljóst að dómstólum á Íslandi bæri að fallast á kröfu K og koma fram fullnustu ákvörðunar um forsjá X. Ekki þótti unnt að synja um afhendingu X á grundvelli 1. tl. 7. gr. laganna, sbr. 1. tl. 1. mgr. 10. gr. Evrópusamningsins. Fellt var niður ákvæði hins kærða úrskurðar um greiðslu málskostnaðar K úr ríkissjóði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. september 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. ágúst 2001, þar sem varnaraðila var heimilað að fá nafngreindan son málsaðila tekinn úr umráðum sóknaraðila og afhentan sér með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi niðurstaða úrskurðar héraðsdómara um að kæra hans fresti ekki framkvæmd aðfarargerðar, svo og að hafnað verði kröfu varnaraðila um aðfarargerð. Sóknaraðili krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða sér kærumálskostnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða héraðsdómara að varnaraðila sé heimilt að fá son málsaðila afhentan sér með beinni aðfarargerð ef sóknaraðili lætur hann ekki sjálfur í umsjá varnaraðila í Frakklandi eða stuðlar á annan hátt að för hans þangað til lands. Er hæfilegt að sóknaraðili hafi frest til að gera þetta í þrjár vikur frá uppsögu þessa dóms.

Í hinum kærða úrskurði var málskostnaður látinn falla niður milli aðilanna fyrir héraðsdómi. Verður sú niðurstaða staðfest. Þar var varnaraðila á hinn bóginn dæmd nánar tiltekin fjárhæð í málskostnað úr ríkissjóði og vísað um það til ákvæðis 1. mgr. 19. gr. laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. Íslenska ríkið hefur á engu stigi verið aðili að máli þessu og verður því ekki dæmt til að greiða málskostnað eftir almennum reglum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varnaraðili hefur ekki aflað sér gjafsóknar samkvæmt XX. kafla sömu laga. Þótt í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 160/1995 sé mælt svo fyrir að greiða skuli úr ríkissjóði kostnað beiðanda vegna meðferðar máls hér á landi til að koma fram fullnustu ákvörðunar um forsjá barns samkvæmt Evrópusamningi 20. maí 1980, er þar engin stoð fyrir því að íslenska ríkið verði dæmt til að greiða þann kostnað í dómsmáli milli tveggja annarra aðila, sbr. dóm Hæstaréttar 12. desember 2000 í máli nr. 403/2000. Samkvæmt því verður fellt niður ákvæði hins kærða úrskurðar um greiðslu málskostnaðar varnaraðila úr ríkissjóði.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu.

Það athugast að héraðsdómara hefði hér að réttu lagi borið að neyta heimildar í 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 til að mæla svo fyrir að kæra úrskurðar hans myndi fresta aðfarargerð, svo sem sóknaraðili krafðist fyrir héraðsdómi.

Dómsorð:

Varnaraðila, K, er heimilt að liðnum þremur vikum frá uppsögu þessa dóms að fá X tekinn úr umráðum sóknaraðila, M, og afhentan sér með beinni aðfarargerð, hafi sóknaraðili ekki áður fært hann til Frakklands samkvæmt því, sem nánar greinir í forsendum þessa dóms.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. ágúst 2001:

                Ár 2001, föstudaginn 31. ágúst, er á dómþingi Héraðsdóms Reykja­­ness, sem háð er í dómhúsinu að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði, af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara kveðinn upp úrskurður í málinu nr. A-47/2001: K gegn M, sem tekið var til úrskurðar 29. sama mánaðar að loknum munnlegum mál­­flutningi.

                Sóknaraðili er K, fædd [...] Frakklandi.  Varnaraðili er M, kt. [...].

                Sóknaraðili krefst dómsúrskurðar um að sonur málsaðila, X, kt. [...], verði með beinni aðfarargerð tekinn úr umráðum varnar­aðila og sóknaraðila fengin umráð hans.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt fram­lögðum málskostnaðarreikningi, auk þess að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntan­­legri gerð.

                Varnaraðili krefst þess að synjað verði um kröfu sóknaraðila um nefnda aðfarar­gerð.  Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.  Verði hins vegar fallist á aðal­kröfu sóknaraðila er þess krafist að kveðið verði á um í dóms­úrskurði að málskot til Hæstaréttar fresti framkvæmd aðfarargerðar.

I.

                Málsaðilar gengu í hjónaband 21. september 1990.  Í október 1991 fæddist þeim sonurinn X.  Í kjölfar sambúðarslita um mitt ár 1996 fór sóknar­aðili fram á lög­skilnað 8. ágúst 1997 fyrir héraðsdómstólnum í Evry í Frakklandi, en máls­­aðilar voru búsettir þar.  Með dómi uppkveðnum 1. september 1997 var lýst yfir lög­skilnaði milli aðila og meðal annars kveðið á um sameiginlega forsjá eða foreldra­vald yfir barninu, sem skyldi hafa fasta búsetu hjá sóknaraðila en eiga nánar til­greindan umgengnis­rétt við varnaraðila.  Dóminum var áfrýjað til Áfrýjunar­dóm­stólsins í París, sem kvað upp bráðabirgðaúrskurð í málinu 5. janúar 2000.  Dóm­stóllinn staðfesti lögskilnað milli aðila og kvað á um óbreytta búsetu barnsins hjá sóknar­aðila að sinni og umgengnisrétt við varnaraðila, en fyrirskipaði jafnframt að áður en úrskurðað yrði um fasta búsetu barnsins skyldi það gangast undir læknis­fræði­lega og sálfræði­lega skoðun í því skyni að hlýtt yrði á barnið, foreldra þess, móður­foreldra og kennara og dóm­stólnum veittar allar þær upplýsingar er gerðu honum kleift að kveða upp úrskurð barninu í hag um hvar það skyldi hafa fasta búsetu.  Höfðu komið fram ítrekaðar óskir barnsins um að fá að búa hjá varnaraðila.  Með úrskurði áfrýjunardóm­stólsins 4. júlí 2001 var staðfest fyrri ákvörðun um fasta búsetu barnsins hjá sóknaraðila.  Jafnframt var mælt svo fyrir varðandi umgengnisrétt varnar­aðila, að þau ár sem bera oddatölu skuli hann njóta umgengnisréttar við barnið í skóla­­leyfum í febrúar og allraheilagramessuleyfum, sem og í júlímánuði; en jafntöluár í jóla­­leyfum og vorleyfum, sem og í ágústmánuði í samræmi við franska skólaárið.   

                Varnaraðili er nú búsettur á Íslandi og hefur svo verið undanfarin ár.  Sonurinn X kom hingað til lands 6. júlí síðastliðinn til dvalar hjá varnaraðila og átti samkvæmt nýgengnum dómi í Frakklandi að snúa aftur til sóknaraðila 31. júlí.  Fyrir þann tíma tilkynnti varnaraðili sóknaraðila að barnið yrði áfram á Íslandi þrátt fyrir niðurstöðu Áfrýjunardómstólsins í París.  Þá afstöðu varnaraðila mun lög­maður hans hafa áréttað í símtali við lög­mann sóknaraðila 1. ágúst síðastliðinn, en í fram­haldi var máli þessu skotið til úrlausnar héraðsdóms 13. sama mánaðar.

II.

Í þágu meðferðar málsins fól héraðsdómari Þorgeiri Magnússyni sálfræðingi að kanna afstöðu barnsins til álitaefnisins og þess að hve miklu leyti réttmætt kunni að vera að taka tillit til skoðana barnsins, með tilliti til þroska þess, við úrlausn málsins, sbr. 17. gr. laga nr. 160/1995.  Ræddi sálfræðingurinn við barnið 21. ágúst síðast­liðinn á skrifstofu héraðsdómara og í áheyrn hans, en dómari kom einnig að við­talinu að því marki sem efni þóttu til.  Að viðtali loknu gerðu dómari og sálfræðingurinn lög­mönnum aðila grein fyrir því hver afstaða barnsins væri með svohljóðandi bókun:

„X verður tíu ára í október næst komandi.  Almenn þroska­staða virðist eðlileg.  Hann kemur vel fyrir, er kurteis, yfirvegaður og talsvert full­orðins­­legur í tali og hefur gott vald á íslensku, miðað við langdvöl í öðru landi.  Drengnum er talsvert niðri fyrir vegna þessa máls og umhugað um að koma sjónar­miðum sínum til skila.  Hann er vel heima í atburðarás að því er málið varðar og notar skil­greiningar, hugtök og líkingamál sem óvenjulegt er fyrir barn á þessum aldri.

Drengurinn lýsir því ótilkvaddur fyrir viðmælendum að hann vilji fremur búa hjá föður sínum á Íslandi, en hjá móður í Frakklandi.  Reyndar notar hann þau orð að hann vilji „alls ekki búa í Frakklandi“ og hefur greinilega nokkrar áhyggjur af því að þessi afstaða hans verði mistúlkuð.  Hann tekur því nokkrum sinnum skýrt fram að hann vilji eindregið búa á Íslandi.  Hann rökstyður þessa afstöðu sína með ýmsum hætti, ber saman lífið í þessum löndum og hjá ættingjum sínum á hvorum stað og finnur því ýmislegt til foráttu að búa í Frakklandi.  Allt er það huglægs eðlis, háð mati hans sjálfs og viðhorfum, s.s. að aðbúnaði í skóla sé áfátt og kennarar „lélegir“.  Þrá hans eftir því að búa hjá föður virðist vera sterk og ein­læg og hann efast um að hann muni njóta sín annars staðar.  Ekki kemur þó fram að honum finnist steðja að sér sér­stök ógn í Frakklandi eða að hann sæti þar illri með­­ferð.  Hann virðist vera tengdur aðstandendum sínum ytra sterkum tilfinninga­böndum, en eiga erfitt með að sjá þau í jákvæðu ljósi.  Þannig segist hann halda að móður sinni þyki ekki vænt um hann og bætir því að það sé vegna þess að hún vilji ekki leyfa honum að búa á Íslandi.  Ekkert kemur fram í viðtalinu sem bendir til þess að daglegt líf drengsins í Frakklandi sé óvenjulegt eða að uppeldisaðstæðum hans sé almennt áfátt.  Hann segir að sér gangi vel í skóla, hann eigi sína vini og æfi íþróttir og kórsöng.  

Framangreind afstaða drengsins til búsetu er í samræmi við það sem áður hefur komið fram í samtölum drengsins við þá rannsóknaraðila sem á sínum tíma komu að forsjárdeilu foreldranna.  Afstaðan lá því fyrir þegar Áfrýjunardómstóll í París úrskurðaði í málinu þann 4. júlí síðastliðinn.  Þrátt fyrir það ákvað dómstólinn að drengurinn skyldi búa hjá móður sinni, með þeirri megin röksemd, að því er virðist, að hjá henni gefist honum betra tækifæri til að öðlast persónulegt sjálfstæði.

Ljóst er að drengurinn er löngu orðinn flæktur í togstreitu milli foreldranna og telur sér skylt að gera allt sem í hans valdi stendur til að hafa áhrif á niðurstöður mála.  Hann sýnir talsverða þekkingu eða skilning á lagahlið þessa máls og segir frá því að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum með úrskurð Áfrýjunardómstólsins í París.  Hann hafi svo byrjað að vona að hægt væri að hnekkja úrskurðinum hér á Íslandi eftir að faðir hans hafi upplýst hann um þann möguleika í „afhendingarmáli“.“

III.

                Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili haldi barninu, X, með ólögmætum hætti fyrir sóknaraðila og vísar aðalkröfu sinni til stuðnings til laga nr. 160/1995 um viður­kenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl., en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna, sbr. Evrópu­samningur um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endur­­heimt forsjár barna frá 20. maí 1980, sem Ísland og Frakkland hafi fullgilt, skuli ákvörðun um forsjá, búsetu og umgengnisrétt við barn, sem tekin sé í ríki, sem er aðili að Evrópu­samningnum, viðurkennd hér á landi.  Ákvörðun Áfrýjunardómstólsins í París sé full­nustu­hæf í Frakklandi og því skuli vera unnt að fullnægja ákvörðuninni hér á landi á grundvelli laga nr. 160/1995 og laga nr. 90/1989 um aðför, enda engar þær ástæður fyrir hendi samkvæmt 7. gr. fyrrnefndu laganna er réttlætt geti synjun viður­­­kenningar eða fullnustu.  Skipti engu máli í því sambandi ætlaður vilji barnsins til að búa hér á landi.  Þar sem áfrýjunar­dóm­stóll í Frakklandi hafi þegar úrskurðað um forsjá barnsins, búsetu þess og umgengnis­rétt við varnaraðila teljist hald varnar­aðila á barninu ólögmætt og brot á ákvörðun dómstólsins, frönskum lögum og lögum nr. 160/1995.

                Sóknaraðili bendir einnig á að hald á barninu feli í sér stórfellda röskun á lífi þess, auk þess sem hagsmunir barnsins séu algjörlega fyrir borð bornir með ger­ræðis­legri ákvörðun varnaraðila að halda barninu hér á landi þrátt fyrir skýra niður­stöðu franskra dómstóla og mótmæli sóknaraðila.  Telji varnaraðili að rétturinn sé sín megin og að synja eigi um fullnustu ákvörðunar Áfrýjunardómstólsins í París hér á landi beri hann sönnunarbyrði fyrir því að þær ástæður séu fyrir hendi að synja beri um aðfarar­gerðina.  Í því sambandi leggur sóknaraðili áherslu á að endanlegur dómur hafi fallið 4. júlí síðastliðinn um forsjá hennar með barninu og því sé útilokað að slík breyting hafi orðið á aðstæðum að réttlætt gæti synjun um gerðina hér á landi.  Þá er bent á að ágreiningur málsaðila um forsjá barnsins hafi farið fyrir héraðs­dómstól og áfrýjunar­dóm­stól í Frakklandi, þar sem varnaraðili hafi haft uppi kröfur sér til handa á báðum dómstigum, en í hvorugu tilvikinu hafi verið talin ástæða til að fallast á kröfur hans um forsjá barnsins.

                Sóknaraðili gerir þá tillögu um afhendingu barnsins, meðal annars með til­liti til áframhaldandi skólagöngu þess í Frakklandi í byrjun september, að varnaraðila verði veittur tveggja daga frestur frá uppsögu úrskurðar héraðsdóms til þess að skila barninu til Frakklands, en að öðrum kosti verði barnið tekið úr umráðum varnaraðila og afhent sóknaraðila eða lögmanni hennar með beinni aðfarargerð. 

                Auk framangreindra lagaraka vísar sóknaraðili kröfum sínum til stuðnings almennt til laga nr. 160/1995 og Evrópusamningsins um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endur­heimt forsjár barna, einkum 7. gr. og 2. tl. 1. mgr. 10. gr. samningsins, Haagsamningsins frá 25. október 1980 um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa, sbr. 11. gr. laga nr. 160/1995, barna­laga nr. 20/1992 og laga nr. 90/1989 um aðför, einkum 78. gr. laganna.  Þá vísar sóknar­aðili jafn­framt til 11. gr. sáttmála Sam­einuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

IV.

                Varnaraðili byggir á því að með lögum nr. 160/1995 um viður­kenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brott­numinna barna o.fl. hafi verið lögfest ákvæði, sem nauðsynleg hafi verið til fullgildingar af hálfu Íslands á tveimur alþjóðlegum samningum um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi for­sjá barna; annars vegar Evrópusamningnum frá 20. maí 1980 og hins vegar Haag­samningnum frá 25. október 1980.  Í samningunum sé gert ráð fyrir að synja megi um afhendingu barns við tilteknar aðstæður.  Þannig sé í 17. gr. Evrópusamningsins kveðið á um heimild samningsríkja til að gera fyrirvara við 8. og 9. gr. samningsins á grundvelli þeirra ástæðna, sem tilgreindar séu í 10. gr. samningsins.  Þessa heimild hafi Ísland nýtt sér og til þess vísað í frumvarpi til laga nr. 160/1995 að slíkur fyrirvari sé í samræmi við þá grundvallarreglu íslensks barnaréttar að hagsmunir barnsins skuli vera öðrum sjónarmiðum æðri.  Þær ástæður, sem réttlætt geti synjun um afhendingu á grundvelli Evrópusamningsins, séu tilgreindar í 7. gr. nefndra laga.  Með sama hætti séu tilgreindar í 12. gr. laganna ástæður, sem réttlætt geti synjun á grundvelli Haag­samningsins, en sóknaraðili byggi rétt sinn á báðum samningunum.

                Þá er á því byggt að í 17. gr. laga nr. 160/1995 sé kveðið á um skyldu héraðs­dómara til að kanna afstöðu barns, sem náð hafi þeim aldri og þroska að rétt sé að taka tillit til skoðana þess.  Engin sérstök aldursmörk séu tiltekin í þessu sambandi, en ljóst sé af greinargerð með ákvæðinu að gert sé ráð fyrir að gengið verði langt í að kanna afstöðu barns í ljósi þess að niðurstaða mála af þessu tagi geti haft úrslitaáhrif um fram­tíð barnsins.  Nefnt lagaákvæði sé í samræmi við ákvæði 1. mgr. 15. gr. Evrópu­samningsins og 2. mgr. 13. gr. Haagsamningsins.  Í 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992 og alþjóðsamningum, sem Ísland sé aðili að, s.s. 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sé jafnframt að finna ákvæði, sem eigi að tryggja að börn fái að láta skoðanir sínar í ljós í málum sem þau varða og að réttmætt tillit sé tekið til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska viðkomandi barns.

                Í ljósi framanritaðs bendir varnaraðili á að sonur málsaðila, X, hafi ítrekað lýst yfir eindregnum og afdráttarlausum vilja sínum til að búa hjá varnar­aðila á Íslandi.  Er í því sambandi meðal annars vísað til skýrslu Gabríelu Sigurðar­dóttur sálfræðings frá 8. maí 1999 og fransks geðlæknis, herra Ouvry, sem lokið hafi geð­læknisfræðilegri athugun á barninu 2. febrúar 2001 í tengslum við rekstur dóms­málsins milli aðila fyrir Áfrýjunardómstólnum í París.  Af skýrslu fyrrnefnds sér­fræðings sé ljóst að barninu hafi liðið illa í Frakklandi og að það hafi verið verulega ósátt við þær uppeldisaðstæður, sem því hafi verið búið þar í landi.  Skýrsla geð­læknisins hafi staðfest að þau lífsskilyrði, sem barninu væru búin í Frakklandi og endur­­teknar synjanir á óskum barnsins geti reynst því skaðleg.  Þá sé það mat geð­læknisins að ekkert hafi komið fram, sem gefi tilefni til að taka afstöðu barnsins með fyrirvara og mælt með því að óskir barnsins vegi þyngst við endanlega ákvörðun um dvalar­stað þess.  Varnaraðili kveður afstöðu barnsins og vilja vera óbreyttan og vísar til bókunar fyrir héraðsdómi 21. ágúst síðastliðinn, sem rakin er í kafla II. að framan.  Engin ástæða sé til að draga í efa að barnið hafi látið í ljós einlægan og skýran vilja til að búa hjá varnaraðila og að barnið hafi nægan þroska til að skylt sé að taka tillit til vilja þess.   

                Varnaraðili telur skyldu íslenskra dómstóla til að virða vilja X birtast í 1. mgr. 15. gr. Evrópusamningsins og 2. mgr. 13. gr. Haagsamningsins, 7., 12. og 17. gr. laga nr. 160/1995, einkum 1. tl. 7. gr. og 3. og 4. tl. 12. gr. laganna, 4. mgr. 34. gr. barnalaga og 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem Ísland hafi fullgilt.  Þá telur varnaraðili að afhending barnsins þvert ofan í stað­fastan vilja þess sé til þess fallin að skaða barnið andlega.  Er í því sambandi vísað til áðurnefndrar álitsgerðar herra Ouvry geðlæknis og 2. tl. 12. gr. laga nr. 160/1995. 

Varnaraðili krefst þess að kæra til Hæstaréttar, komi til hennar, fresti aðför, enda verði réttur varnaraðila til úrslausnar Hæstaréttar ekki tryggður með öðrum hætti. 

Loks styður varnaraðili kröfu sína um málskostnað við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

V.

                Ísland er aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna frá 20. nóvember 1989 um réttindi barnsins, en með full­gildingu samningsins hér á landi og gildistöku 27. nóvember 1992 skuldbatt Ísland sig, líkt og önnur aðildarríki, meðal annars til að gera ráðstafanir gegn því að börn séu flutt ólöglega úr landi og þeim haldið erlendis, sbr. 11. gr. samningsins.  Frakkland er einnig meðal samningsríkja.  

Í framhaldi gerðist Ísland aðili að Evrópusamningi frá 20. maí 1980 um viður­kenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endur­­heimt forsjár barna (Evrópu­samningnum), sem gerður var á vettvangi Evrópuráðsins, en aðildarríki þess geta gerst aðilar að ­samningnum með fullgildingu, viðurkenningu eða staðfestingu hans, sbr. 21. gr. samningsins.  Evrópusamningurinn var fullgiltur af hálfu Frakklands 4. ágúst 1982, með gildistöku fyrir Frakkland 1. september 1983, sbr. 1. mgr. 22. gr. samningsins.  Samningurinn var fullgiltur af hálfu Íslands 22. júlí 1996, með gildis­töku fyrir Ísland 1. nóvember sama ár, sbr. 2. mgr. 22. gr. samningsins.  Evrópu­samningurinn er því í gildi milli ríkjanna Íslands og Frakklands.

Annar alþjóðasamningur, nátengdur Evrópusamningnum, er samningur frá 25. október 1980 um einka­réttar­leg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa, sem gerður var á vegum Haagráðstefnunnar um alþjóðlegan einkamálarétt (Haag­samningur­inn).  Ríki sem voru þátttakendur (aðilar) að Haagráðstefnunni við gerð Haag­­samningsins gerðust aðilar að samningnum með fullgildingu, viðurkenningu eða stað­­festingu hans, sbr. 37. gr. samningsins.  Frakkland var eitt þessara ríkja og fullgilti samninginn 16. september 1982.  Sérhvert annað ríki getur gerst aðili að Haag­samningnum, sbr. 1. mgr. 38. samningsins.  Ísland gerðist aðili að samningnum 14. ágúst 1996, en samkvæmt 1. málslið 4. mgr. 38. gr. samningsins hefur aðild Íslands aðeins gildi varðandi samskipti íslenska ríkisins og þeirra samningsríkja, sem lýst hafa því yfir að þau viðurkenni aðild Íslands.  Slík yfirlýsing hefur ekki verið gefin af hálfu Frakklands, sem aðildarríkis að Haagráðstefnunni, vegna aðildar Íslands að samningnum.  Samkvæmt því er Haagsamningurinn ekki í gildi milli ríkjanna Íslands og Frakklands.

Með lögum nr. 160/1995 um viður­kenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. frá 27. desember 1995 voru lög­fest hér á landi nauðsynleg ákvæði til þess að unnt væri að standa við þjóðréttarlegar skuldbindingar, sem Ísland gekkst undir samkvæmt Evrópusamningnum annars vegar og Haagsamningnum hins vegar.  Í I. kafla laganna (1.-4. gr.) er fjallað um gildissvið þeirra og í II. kafla (5. gr.) um svokallað móttökustjórnvald, sem er dómsmálaráðu-neytið hér á landi.  III. kafli laganna (6.-10. gr.) lýtur að viðurkenningu og fullnustu á grundvelli Evrópusamningsins og IV. kafli (11.-12. gr.) að afhendingu á grundvelli Haag­samningsins.  Í V. kafla laganna (13.-19. gr.) er fjallað um málsmeðferð.  Loks eru í VI. kafla (20.-23. gr.) ýmis ákvæði, þar á meðal um gildistöku laganna, 23. gr.  Þar segir beinlínis í 2. mgr., að ákvæði Haagsamningsins eigi aðeins við um ólög­mætan brott­flutning eða hald á barni, sem átti sér stað eftir að samningurinn tók gildi gagn­­vart ríki þar sem barnið var búsett rétt áður en brottflutningurinn eða haldið átti sér stað.  Er óumdeilt að með hugtakinu búseta („habitual residence“ samkvæmt enskum texta samningsins) sé hér á landi átt við „fasta búsetu“ í skilningi 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili.  Einnig er óumdeilt að viðkomandi barn, X, var búsett í Frakklandi rétt áður en mál þetta reis.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið liggur óyggjandi fyrir að ákvæði Haag­samningsins eiga ekki við þegar tekin verður afstaða til þess hvort fallast beri á aðalkröfu sóknaraðila í málinu.  Af því leiðir enn fremur að ákvæði IV. kafla laga nr. 160/1995, þar á meðal 12. gr., sem varnaraðili byggir aðalkröfu sína meðal annars á, koma ekki til skoðunar við úrlausn málsins.

VI.

Evrópusamningurinn um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi for­sjá barna og endurheimt forsjár barna, sem gildir samkvæmt framansögðu milli Íslands og Frakklands, er viðurkenningar- og fullnustusamningur.  Það er grundvallar­regla samkvæmt samningnum, sbr. 7. gr. hans, að forsjárákvörðun, sem tekin er í einu samningsríki (hér Frakklandi), skuli viðurkenna og fullnægja í öðru samningsríki (hér Íslandi) án tillits til þess hvort brottflutningur eða hald á barni feli í sér ólögmæta athöfn.  Fullgilding samningsins hefur þannig í megindráttum í för með sér að forsjár­ákvörðun, sem tekin er í Frakklandi, öðlast sömu réttaráhrif hér á landi og ákvörðun um forsjá, sem tekin er hér á landi og gagnkvæmt. 

Í 1. gr. laga nr. 60/1995 segir meðal annars að ákvæði 3.-10. gr., 13. gr., 14. gr., 1. mgr. 16. gr., 17. gr., 18. gr. 1. mgr. 19. gr., 21. gr., 22. gr. og 1. mgr. 23. gr. laganna gildi í samskiptum Íslands við ríki, sem eru aðilar að Evrópusamningnum.

Sam­kvæmt 4. gr. laganna merkir „ákvörðun“ í skilningi laganna meðal annars dóma, úrskurði og aðrar ákvarðanir dómstóls.  Í 1. mgr. 6. gr. laganna segir, að ákvörðun um forsjá, búsetu eða umgengnis­rétt við barn, sem tekin er í ríki sem er aðili að Evrópusamningnum, skuli viður­kennd hér á landi.  Samkvæmt beiðni sé og heimilt að fullnægja slíkri ákvörðun hér á landi ef heimilt er að fullnægja henni í því ríki þar sem hún var tekin, þ.e. Frakk­­landi í því tilviki, sem hér er til skoðunar.  Er fyrir­liggjandi og óumdeilt í máli þessu að ákvörðun Áfrýjunardóm­stólsins í París frá 4. júlí 2001 um fasta búsetu barnsins X var fullnustuhæf í Frakklandi þegar eftir uppkvaðningu úrskurðar dómstólsins og án þess að úrskurðurinn veitti nokkur úrræði til frestunar á fullnustu samkvæmt frönskum lögum.  Að þessu virtu og með vísan til 7. gr. Evrópu­samningsins, 11. tl. 1. mgr. 1. gr. og 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. og 1. mgr. 75. gr. barnalaga nr. 20/1992, er ljóst að dómstólum á Íslandi ber að fullnægja eða kveða á um fullnustu úrskurðar Áfrýjunardómstólsins í París, nema að einhverjar þær ástæður, sem tilgreindar eru í 7. gr. laga nr. 160/1995, sbr. 8.-10. gr. Evrópusamningsins, eigi við.  Eins og máli þessu horfir koma aðeins til skoðunar ákvæði 1. tl. 7. gr. laganna, sbr. 1. tl. 1. mgr. 10. gr. Evrópusamningsins, en sam­kvæmt þeim ákvæðum skal því aðeins synja um fullnustu ákvörðunar ef hún er aug­ljós­lega ekki í samræmi við grund­vallar­reglur íslenskra laga um réttarstöðu fjöl­skyldna og barna.  Er hér um undan­þágu­reglur að ræða, sem túlka ber þröngt og hefur sá sem andvígur er viðurkenningu eða fullnustu sönnunarbyrði fyrir því að þær aðstæður séu fyrir hendi að synja beri um gerð.  Ber í því sambandi að hafa í huga að samkvæmt 3. mgr. 9. gr. Evrópu­samningsins má dómstóll á Íslandi aldrei endurskoða hina erlendu ákvörðun að því er efni hennar varðar. 

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 160/1995 skal héraðsdómari, áður en hann tekur ákvörðun um fullnustu ákvörðunar samkvæmt Evrópusamningnum, kanna afstöðu barns, sem náð hefur þeim aldri og þroska að rétt sé að taka tillit til skoðana þess.  Eiga ákvæði 4. mgr. 34. gr. barnalaga við þegar afstaða barns er könnuð.  Í samræmi við fyrirmæli laganna fól héraðsdómari Þorgeiri Magnússyni sálfræðingi að kynna sér við­­horf X til álitaefnisins með viðtali á skrifstofu héraðsdómara.  Vísast nánar um þetta til kafla II. að framan.  Það er álit dómsins að drengurinn, sem er tæplega tíu ára að aldri, hafi þann þroska að rétt hafi verið að kanna viðhorf hans.  Í viðtalinu lýsti drengurinn eindregnum vilja sínum til að búa hjá varnar­aðila á Íslandi og virtist sú þrá vera bæði einlæg og sterk.  Ekkert kom fram í viðtalinu, sem benti til þess að drengnum stæði ógn af búsetu í Frakklandi eða að hann sæti þar illri með­­ferð.  Þá kom ekkert fram, sem benti til þess að daglegt líf drengsins í Frakklandi sé óvenju­legt eða að uppeldisaðstæðum hans sé almennt áfátt.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að málsmeðferð fyrir Áfrýjunar­dómstólnum í París hafi verið vönduð og að varnaraðili hafi komið að sjónar­­miðum sínum og skriflegum gögnum áður en fullnaðarúrskurður gekk í skilnaðar­máli hans og sóknaraðila.  Dómstóllinn kannaði viðhorf X til þess hjá hvoru foreldri hann vildi búa og aflaði sérfræðigagna um hagi drengsins.  Að því loknu komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að drengurinn skyldi hafa fasta búsetu hjá sóknaraðila.   

Samkvæmt framansögðu skal í máli því sem hér er til meðferðar því aðeins synja um viðurkenningu og fullnustu ákvörðunar ef hún er augljóslega ekki í sam­ræmi við grundvallarreglur íslenskra laga um réttarstöðu fjölskyldna og barna.  Varnar­­aðili hefur ekki sýnt fram á að þær ástæður séu fyrir hendi að synja beri um aðfarargerð og er ekkert fram komið sem bendir til þess að málsmeðferð og ákvörðun Áfrýjunardóm­stólsins í París brjóti í bága við grundvallarreglur íslenskra laga.  Ber því að verða við kröfu sóknaraðila í málinu um afhendingu barnsins X. 

Í Evrópusamningnum felst að fullnusta löglegra forsjárákvarðana í samnings­ríki skuli ganga hratt fyrir sig, eigi tilgangur samningsins að ná fram að ganga.  Með til­liti til þess og hagsmuna umrædds barns, sem haldið hefur verið hér á landi með ólög­­­mætum hætti í einn mánuð og hefja á skólagöngu í Frakklandi á næstu dögum, er kveðið svo á að varnaraðili skuli afhenda barnið til sóknaraðila eigi síðar en að liðnum sjö dögum frá uppkvaðningu þessa úrskurðar, þ.e. eigi síðar en föstu­daginn 7. september næst komandi.  Láti varnaraðili hins vegar ekki verða af því að afhenda barnið á þennan hátt skal sóknaraðila heimilt að láta fara fram aðfarargerð að þeim tíma liðnum í samræmi við kröfu sína þar að lútandi, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/1995, svo að fullnusta megi skyldu varnaraðila til að skila barninu í hendur sóknar­­aðila.

Með hliðsjón af málsatvikum og tilliti til hagsmuna barnsins þykir ekki rétt að kveða svo á um að kæra til Hæsta­réttar fresti aðfarargerð. 

Rétt þykir að málskostnaður falli niður. 

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 160/1995 greiðist kostnaður sóknar­aðila af meðferð málsins hér á landi, annar en sá sem leiðir af flutningi barnsins frá Íslandi, úr ríkissjóði, þar á meðal málflutningsþóknun lögmanns sóknaraðila, sem þykir hæfilega ákveðin krónur 400.000.  Hefur þá verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.

Það athugast, að vegna ákvæðis í 2. mgr. 1. gr. aðfararlaga er ekki tilefni til að mæla sérstaklega fyrir um heimild til fjárnáms fyrir kostnaði af framkvæmd aðfarar­gerðar, komi til hennar á annað borð.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Sóknaraðila, K, er heimilt að liðnum sjö dögum frá uppkvaðningu þessa úrskurðar að fá barnið X tekið úr umráðum varnaraðila, M, og afhent sér með beinni aðfarargerð, hafi varnaraðili ekki áður afhent sóknaraðila barnið.  Kæra til Hæstaréttar frestar ekki framkvæmd aðfarargerð.

Málskostnaður fellur niður.

Kostnaður sóknaraðila af meðferð málsins, annar en sá sem leiðir af flutningi barnsins frá Íslandi, greiðist úr ríkissjóði, þar á meðal 400.000 króna mál­flutnings­þóknun lögmanns sóknaraðila.