Hæstiréttur íslands

Mál nr. 544/2017

Íslenska ríkið (Guðrún Sesselja Arnardóttir lögmaður, Ingvi Snær Einarsson lögmaður 3. prófmál)
gegn
Högum verslunum ehf. (Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Skattur
  • Endurgreiðsla
  • Dráttarvextir

Reifun

Hinn 16. desember 2013 höfðaði H ehf. mál á hendur Í til endurgreiðslu ofgreiddra gjalda fyrir tollkvóta af nánar tilgreindum landbúnaðarvörum á árunum 2009 til 2013. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 317/2015 var fallist á kröfu H ehf. þar sem gjaldtakan var talin brjóta í bága við 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Ágreiningur aðila í máli þessu laut að því frá hvaða tímamarki bæri að reikna dráttarvexti af endurgreiðslu ofgreiddra gjalda fyrir tollkvóta vegna innflutnings H ehf. á landbúnaðarvörum eftir 16. desember 2013. Í dómi Hæstaréttar kom fram að H ehf. hefði reist málatilbúnað sinn í máli nr. 317/2015 á því að gjaldtakan hefði ekki átt sér viðhlítandi stoð í lögum og hefði verið andstæð stjórnarskrá. Í hefði því allar götur frá því H ehf. höfðaði fyrra málið verið kunnugt um afstöðu hans til þess hvort réttmætt hefði verið að krefja hann um þær greiðslur sem hann innti af hendi meðan á rekstri fyrra málsins stóð. Var því fallist á með H ehf. að hann hefði með málsókninni 16. desember 2013 sannanlega lagt fram kröfu um endurgreiðslu oftekinna gjalda, sem hann yrði krafinn um, í skilningi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. ágúst 2017. Hann krefst þess að sér verði gert að greiða stefnda 35.377 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. janúar 2016 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi höfðaði stefndi 16. desember 2013 mál á hendur áfrýjanda til endurgreiðslu ofgreiddra gjalda fyrir tollkvóta af nánar tilgreindum landbúnaðarvörum á árunum 2009 til 2013. Með dómi Hæstaréttar 21. janúar 2016 í máli nr. 317/2015 var fallist á kröfu stefnda, þar sem gjaldtakan var talin brjóta í bága við 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Var áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 245.215.249 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af nánar tilteknum fjárhæðum frá 29. desember 2009 til 16. desember 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Eftir að dómur Hæstaréttar lá fyrir krafði stefndi áfrýjanda 26. janúar 2016 um endurgreiðslu gjalda, sem stefndi hafði greitt fyrir tollkvóta frá 6. janúar 2014 til 4. janúar 2016, samtals að fjárhæð 338.233.600 krónur, auk dráttarvaxta. Með bréfi 4. apríl 2016 féllst áfrýjandi á að endurgreiða stefnda gjöld vegna tollkvóta, sem greidd höfðu verið frá árinu 2013 fram til þess að lög nr. 46/2015 um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum nr. 99/1993 og fleiri lögum tóku gildi 11. júlí 2015, samtals að fjárhæð 217.363.370 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 20. desember 2013 til 26. janúar 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Því til samræmis greiddi áfrýjandi stefnda 233.778.876 krónur 7. apríl 2016. Hagaði áfrýjandi útreikningi kröfunnar meðal annars þannig að fjármagnstekjuskattur var dreginn frá áföllnum vöxtum af endurgreiðslukröfunni áður en áfallnir vextir voru lagðir við höfuðstól hennar eins og hann var á hverjum tíma.

II

Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi fallið frá málsástæðum um að réttilega hafi verið staðið að frádrætti fjármagnstekjuskatts og höfuðstólsfærslu vaxta í fyrrgreindum útreikningi frá 4. apríl 2016. Því til samræmis viðurkennir áfrýjandi að hann standi í skuld við stefnda eins og í dómkröfu áfrýjanda greinir. Samkvæmt því og þar sem ekki er tölulegur ágreiningur milli aðila deila þeir hér fyrir dómi eingöngu um frá hvaða tímamarki beri að reikna dráttarvexti af endurgreiðslu ofgreiddra gjalda fyrir tollkvóta vegna framangreinds innflutnings stefnda á landbúnaðarvörum eftir 16. desember 2013, en sem fyrr segir höfðaði hann þann dag mál á hendur áfrýjanda til endurgreiðslu ofgreiddra gjalda fyrir tollkvóta á árunum 2009 til 2013.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda skal við endurgreiðslu samkvæmt 1. gr. laganna greiða gjaldanda vexti, sem skulu vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður og birtir samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, af því fé sem oftekið var frá þeim tíma sem greiðslan átti sér stað og þar til endurgreiðsla fer fram. Þá segir í 2. mgr. 2. gr. að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skuli greiða dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma er gjaldandi sannanlega lagði fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta eða gjalda.

Með málsókn sinni 16. desember 2013 krafði stefndi áfrýjanda um endurgreiðslu oftekinna gjalda fyrir tollkvóta af landbúnaðarvörum á árunum 2009 til 2013. Reisti stefndi málatilbúnað sinn á því að gjaldtakan ætti sér ekki viðhlítandi stoð í lögum og væri andstæð stjórnarskrá. Með framangreindum dómi Hæstaréttar 21. janúar 2016 var fallist á kröfu stefnda. Meðan á rekstri málsins stóð þurfti stefndi að standa áfrýjanda skil á greiðslum fyrir frekari tollkvóta. Áfrýjanda var því allar götur frá því stefndi höfðaði fyrra málið kunnugt um afstöðu hans til þess hvort réttmætt væri að krefja hann um þær greiðslur. Samkvæmt þessu verður að líta svo á að stefndi hafi með málsókninni 16. desember 2013 sannanlega lagt fram kröfu um endurgreiðslu oftekinna gjalda, sem hann yrði krafinn um, í skilningi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995. Var honum því engin þörf á að krefja áfrýjanda hverju sinni um endurgreiðslu oftekinna gjalda, sem hann yrði krafinn um undir rekstri þess máls, á því tímabili sem krafa hans tekur til. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.

Eftir úrslitum málsins verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er tekið tillit til þess að tvö önnur samkynja mál eru rekin samhliða máli þessu.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Högum verslunum ehf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 31. maí 2017

                                                                          I.

Mál þetta sem var höfðað 12. september 2016, var dómtekið 4. maí 2017. Stefnandi er Hagar verslanir ehf., Hagasmára 1, Kópavogi, en stefndi er íslenska ríkið.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum 23.690.845 krónur, auk dráttarvaxta frá 18. júní 2016 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu, auk málskostnaðar.

                                                                                  II.

Á árunum 2009 til 2016 flutti stefnandi inn tilteknar landbúnaðarvörur á grundvelli tollkvóta, annars vegar svokallaðra WTO-tollkvóta og hins vegar ESB-tollkvóta, en þeim var úthlutað í samræmi við reglugerðir um úthlutun tollkvótanna að undangenginni auglýsingu. Þann 16. desember 2013 höfðaði stefnandi mál á hendur stefnda, íslenska ríkinu, til endurgreiðslu þeirra fjárhæða sem hann hafði greitt fyrir tollkvóta á þeim grundvelli að gjaldtakan væri ólögmæt.

                Með dómi Hæstaréttar Íslands 21. janúar 2016 í máli nr. 317/2015, var fallist á kröfu stefnanda og gjaldtaka ráðherra dæmd ólögmæt. Dómur Hæstaréttar tók til þeirra gjalda sem stefnandi hafði ofgreitt frá árinu 2009 til stefnudags hinn 16. desember 2013.

                Með lögum nr. 46/2015, var fyrirkomulagi um úthlutun tollkvóta breytt þannig að þegar fleiri umsóknir berast um innflutning en sem nemur tollkvóta, er skylt að leita tilboða í heimildirnar.             

                Í kjölfar dóms Hæstaréttar krafði stefnandi stefnda, með bréfi dags. 26. janúar 2016, um endurgreiðslu gjalda sem hann hafði innt af hendi vegna tollkvóta frá desemberlokum árið 2013 til 26. janúar árið 2016. Stefndi hafnaði kröfunni með bréfi, dags. 22. mars 2016, á þeirri forsendu að þegar hefði verið gert upp við stefnanda vegna dómkrafna stefnanda.

                Með bréfi, dags. 4. apríl 2016, tilkynnti stefndi stefnanda um endurupptöku fyrrgreindrar ákvörðunar frá 22. mars 2016. Kom fram í bréfinu að ráðuneytinu hefði yfirsést að kröfur stefnanda fyrir dómi hefðu einungis náð til 16. desember 2013 og því væri fyrri ákvörðun endurupptekin vegna tímabilsins frá 16. desember 2013 fram að gildistöku laga nr. 46/2015, þann 11. júlí 2015, en frá þeim tíma teldi ráðuneytið að væri fullnægjandi lagastoð fyrir gjaldtökunni.

                Þann 7. apríl 2016 endurgreiddi stefndi stefnanda 233.778.876 krónur. Skiptist fjárhæðin þannig: höfuðstóll 217.363.370  krónur, inneignarvextir skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 14.424.825 króna og dráttarvextir skv. 6. gr. vaxtalaga 6.094.549 krónur en að frádregnum 20% fjármagnstekjuskatti að fjárhæð 4.103.868 krónur.

                Með bréfi stefnanda, dags. 18. maí 2016 til fjármálaráðuneytisins, krafðist stefnandi þess að upphafsdagur dráttarvaxta yrði 16. desember 2013 og að vextir yrðu höfuðstólsfærðir á 12 mánaða fresti. Með bréfinu fylgdi sundurliðun kröfu stefnanda. Var þess krafist að endurgreiddur yrði tollkvóti frá 23. desember 2012 til 11. júlí 2016 að fjárhæð 217.363.370 krónur, með dráttarvöxtum frá 16. desember 2013, samtals að fjárhæð 50.132.939 krónur, að frádregnum fjármagnstekjuskatti 10.026.588 króna. Samtals næmi krafa til greiðslu 257.469.721 krónum. Stefndi hefði fallist á að greiða stefnanda 217.363.370 krónur og væru að mati stefnanda því vangreiddar 23.690.845 krónur.

                Með bréfi, dags. 27. maí 2016, hafnaði ráðuneytið kröfu stefnanda. Vísaði ráðuneytið til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995. Taldi ráðuneytið að greiða bæri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim tíma sem gjaldandi sannanlega lagði fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta, sem ráðuneytið taldi vera hinn 27. janúar 2016.

                                                                                 III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi krefst þess að dráttarvextir verði reiknaðir á endurgreiðslukröfu hans frá 16. desember 2013, með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Telur stefnandi að greiða beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma sem gjaldandi sannanlega lagði fram kröfu um endurgreiðslu oftekinna skatta eða gjalda. Þegar stefnandi höfðaði dómsmál á hendur stefnda, þann 16. desember 2013, hefði hann sannanlega lagt fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra gjalda. Á þeim tíma hafi stefnda mátt vera ljóst ólögmæti þeirrar gjaldtöku sem um var að ræða.

                Þá telur stefnandi að fjármagnstekjuskattur vegna greiðslunnar geti fyrst komið til frádráttar við endurgreiðslu kröfunnar, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Samkvæmt lagagreininni skulu vextir af kröfu teljast til tekna þegar þeir eru greiddir eða greiðslukræfir. Ljóst sé að vextir af endurgreiðslukröfu stefnanda á hendur stefnda hafi ekki verið greiddir fyrr en að hluta þann 7. apríl 2016 og hluti þeirra hafi enn ekki verið greiddur. Vextirnir geti því ekki talist til tekna, þannig að fjármagnstekjuskattur komi til frádráttar, fyrr en í fyrsta lagi við endurgreiðslu kröfunnar. Telur stefndi að frádráttur stefnda á fjármagnstekjuskatti frá áföllnum vöxtum, með afturvirkum hætti, áður en þeir leggist við höfuðstól endurgreiðslukröfunnar á 12 mánaða fresti, sé í andstöðu við fyrrgreint ákvæði. Telur stefnandi frádráttinn ólögmætan. Hafi stefndi því ranglega dregið frá það sem með réttu hafi átt að reiknast til höfuðstóls dráttarvaxta til stefnanda.

                Kröfugerð stefnanda byggir á því að endurgreiðslukrafa stefnanda, skuli bera dráttarvexti frá 16. desember 2013 sem skuli leggjast við höfuðstól kröfunnar á 12 mánaða fresti, sbr. m.a. 12. gr. laga nr. 38/2001. Þá telur stefnandi að ekki skuli draga fjármagnstekjuskatt frá áföllnum vöxtum áður en þeir leggjast við höfuðstól endurgreiðslukröfunnar á 12 mánaða fresti heldur skuli fjármagnstekjuskattur dragast frá við endurgreiðslu þegar umræddir vextir falla til sem tekjur. Þannig skuli sérhver greiðsla sem stefnandi greiddi eftir 16. desember 2013 bera dráttarvexti frá greiðsludegi hennar.

                Stefnandi tekur fram að stefndi hafi greitt honum 233.778.876 krónur með eftirfarandi vaxtareikningi og fjármagnstekjuskatti:

 

Endurgreiddur tollkvóti

217.363.370 kr.

Vextir skv. 8. gr. l.38/2001 frá 22.6.2012-26.1.2016

14.424.825 kr.

Dráttarvextir frá 27.1.2016-06.04.2016

6.094.549 kr.

Samtals

237.882.744 kr.

Fjármagnstekjuskattur dreginn frá

4.103.868 kr.

Samtals greitt

233.778.876 kr.

 

                Stefnandi telur greiðslu stefnda vera of lága, sem nemur samtals 23.690.845 krónum, sbr. eftirfarandi:

 

Endurgreiddur tollkvóti

217.363.380 kr.

Vextir skv. 8. gr. l. 38/2001 til 16.12.2013

0 kr.

Dráttarvextir frá 16.12.2013

50.132.939 kr.

Samtals

267.496.309 kr.

Fjármagnstekjuskattur dreginn frá

10.026.588 kr.

Samtals til greiðslu

257.469.721 kr.

Samtals vangreitt

23.690.845kr.

 

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að hinn 16. desember 2013, hafi ekki verið ljóst hvort gjöld vegna tollkvóta væru lögmæt, þó að stefnandi hafi talið að svo væri. Endanleg niðurstaða lá fyrst fyrir með dómi Hæstaréttar í máli nr. 317/2015, frá 21. janúar 2016. Stefnandi hefði greitt gjöld vegna tollkvóta frá stefnubirtingardegi og fram að gildistöku laga nr. 46/2015. Þar sé um að ræða aðrar kröfur en dómur Hæstaréttar hafi tekið til.

                Stefndi telur að almenna reglan sé sú að greiða beri almenna vexti skv. 8. gr. vaxtalaga, en dráttarvexti skv. 6. gr. laganna séu undantekning frá meginreglunni. Vísar stefndi til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 459/2014.

                Stefndi telur að greiðsla með fyrirvara um endurgreiðslu sé ekki endurgreiðslukrafa, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 459/2014. Stefndi hafi auk þess ekki greitt gjaldið með fyrirvara.

                Stefndi bendir á þá meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi verði að bera sig eftir greiðslu, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 184/1999.

                Stefndi lítur svo á að krafa stefnanda um endurgreiðslu ofgreiddra gjalda vegna tollkvóta sem innt voru af hendi eftir 16. desember 2013, hafi fyrst komið fram 27. janúar 2016 þegar endurgreiðslukrafa stefnanda var send stefnda með kröfubréfi.

                Stefndi hafnar sjónarmiðum stefnanda um frádrátt fjármagnstekjuskatts. Vísar stefndi til þess að um endurgreiðslukröfu stefnanda gildi lög nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, en ekki lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, en fyrrnefndu lögin séu sérlög sem gangi framar þeim síðarnefndu.  Í 1. tölulið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996, segi að staðgreiðsla af vöxtum skv. 1.-3. tölulið 1. mgr. 4. gr. laganna skuli fara fram þegar vextir eru greiddir út eða færðir eiganda til eignar á reikningi, sbr. 1. og 2. tölulið 1. mgr. 4. gr. laganna. Inneign stefnanda fellur undir 3. tölulið 1. mgr. 4. gr. og þar með eigi 1. töluliður 1. mgr. 5. gr. við um hana.

                Fjársýsla ríkisins hafi séð um útreikning og endurgreiðslu á tollkvóta í málinu. Verklag Fjársýslu ríkisins í málum sem þessum sé þannig að allar greiðslur séu settar inni í vaxtareiknivél sem inneignir viðkomandi aðila og svo sé fjármagnstekjuskattur dreginn af inneign eftir hvert tímabil áður en ný endurgreiðslufærsla er skráð, í samræmi við 1. tölulið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996. Þannig hafi fjármagnstekjuskattur verið dreginn af inneign vegna greiðslu tollkvóta árið 2013 áður en greiðslur ársins 2014 voru reiknaðar. Að mati stefnda hafi þessi háttur á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts verið í fullu samræmi við 1. tölulið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996, enda höfðu vextirnir verið færðir stefnanda til eignar á reikningi.

                                                                                 IV.

Stefnandi máls þessa flutti inn tilteknar landbúnaðarvörur á grundvelli tollkvóta á árunum 2009 til 2016 í samræmi við gildandi reglugerðir og greiddi þau gjöld sem áskilin voru. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 317/2015 (sbr. einnig dóma Hæstaréttar í málum nr. 318/2015 og 319/2015) var gjaldtaka þessi talin skattur og andstæð 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar af þeim ástæðum sem nánar greinir í dóminum. Með lögum nr. 46/2015, sem tóku gildi 11. júlí 2015, var fyrirkomulaginu um úthlutun tollkvóta breytt þannig að þegar fleiri umsóknir berast um innflutning en nemur tollkvóta er skylt að leita tilboða í heimildirnar. Var talið að þar með væri áskilnaði fyrrgreindra ákvæða stjórnarskrárinnar fullnægt.

                Stefnandi hefur krafið stefnda um endurgreiðslu sem tekur mið af endurgreiddum tollkvóta, samtals að fjárhæð 217.363.370 krónur, ásamt dráttarvöxtum  frá 16. desember 2013 til 18. maí 2016 að því er ætla verður, samtals að fjárhæð 50.132.939 krónur. Frá þeirri fjárhæð sem þannig er fundin dregur hann frá fjármagnstekjuskatt 10.026.588 krónur.

                Þegar tekið hefur verið tillit til þeirra fjárhæða sem stefndi hefur þegar greitt verður eftir mismunur að fjárhæð 23.690.845 krónur sem er stefnukrafa málsins. Af þeirri fjárhæð er svo krafist dráttarvaxta með þeim hætti sem í stefnu greinir. Aðila greinir hins vegar á um það hvort heimilt sé að reikna dráttarvexti með þeim hætti sem stefnandi geri kröfum um, svo og frá hvaða tíma beri að miða upphafsdag dráttarvaxta og af hvaða fjárhæðum heimilt hafi verið að draga fjármagnstekjuskatt vegna vaxtatekna í tengslum við endurgreiðslu tollkvóta.

                Upphafstími kröfu stefnanda um dráttarvexti er miðuð við 16. desember 2013. Þá höfðaði hann dómsmál á hendur stefnda til endurheimtu skatta og gjalda vegna tollkvóta sem hann taldi að hefðu verið ofteknir. 

                Lög nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, mæla fyrir um þá meginreglu í 1. mgr. 2. gr. laganna að við slíka endurgreiðslu skuli greiða gjaldanda vexti sem skuli vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveði og birti eins og nánar greinir í ákvæðinu. Í 2. mgr. kemur þó fram að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skuli greiða dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. mgr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma er gjaldandi sannanlega lagði fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta eða gjalda.

                Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lokum að lögum nr. 29/1995 kemur og fram að dráttarvaxtaákvæði frumvarpsins sé fyrst og fremst ætlað að ná til þeirra tilvika þegar ágreiningur er milli gjaldanda og stjórnvalda um grundvöll að fjárhæð skattgreiðslu. Þau sjónarmið eiga við hér. Samkvæmt því á stefnandi rétt til dráttarvaxta af ofgreiddum gjöldum.

                Þá telur dómurinn engan vafa leika á því að með fyrrgreindri stefnu 16. desember 2013, sem fól í sér málsókn á hendur stefnda, sýndi stefnandi vilja sinn í verki til að fá umrædd gjöld endurgreidd og sem jafna má til kröfu um endurgreiðslu í skilningi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995.

                Niðurstaðan um upphafstíma dráttarvaxta er því sú að stefnandi hafi átt rétt á dráttarvöxtum á hina ofteknu fjárhæð frá 16. desember 2013 til greiðsludags. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, skulu dráttarvextir ætíð reiknast sem dagvextir nema á annan veg sé sérstaklega mælt í lögum. Frá þessu er þó sú undantekning í 12. gr. laganna að sé vaxtatímabil lengra en tólf mánuðir án þess að vextirnir séu greiddir skulu þeir lagðir við höfuðstól og nýir vextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð.

                Samkvæmt framansögðu er því rétt að líta svo á að umræddar forsendur útreiknings stefnanda fyrir dráttarvaxtakröfunni fái staðist. Að öðru leyti er ekki ágreiningur um réttmæti þeirra eða upphafstíma af einstökum endurgreiddum ofteknum fjárhæðum enda hefur stefnufjárhæðinni heldur ekki verið mótmælt tölulega.

                Stefnandi hefur í stefnukröfu sinni dregið frá fjármagnstekjuskatt að fjárhæð 10.026.588 krónur og miðar þá við þær forsendur sem hann leggur til grundvallar í stefnukröfu sinni. Aðilar deila ekki um að fjármagnstekjuskatt skuli greiða af umræddum dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur en þeir deila hins vegar um gjalddaga skattsins. Ekki er tölulegur ágreiningur um þá fjárhæð sem stefnandi miðar við til frádráttar ef forsendur hans eru lagðar til grundvallar. Þá er þess að gæta að dómur í máli þessu um fjárhæð til frádráttar stefnukröfunni vegna fjármagnstekjuskatts bindur ekki skattyfirvöld varðandi skatt á fjármagnstekjur. Við þessar aðstæður verður því miðað við umrædda fjárhæð, 10.026.588 krónur, til frádráttar.

                Niðurstaðan er því sú að stefndi skuli greiða stefnanda stefnukröfu málsins, 23.690.845 krónur, ásamt dráttarvöxtum frá 18. júní 2016 til greiðsludags.

                Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber stefnda að greiða stefnanda 300.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar er tekið tillit til þess að samhliða máli þessu voru flutt önnur samkynja mál.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

                                                                  DÓMSORÐ:

Stefnda, íslenska ríkinu, ber að greiða stefnanda, Högum verslunum ehf., 23.690.845 krónur, auk dráttarvaxta frá 18. júní 2016 til greiðsludags.

Stefnda ber að greiða stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.