Hæstiréttur íslands

Mál nr. 244/2006


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Akstur sviptur ökurétti
  • Sönnun


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. nóvember 2006.

Nr. 244/2006.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Kristjáni Þóri Kristjánssyni

(Bjarni S. Ásgeirsson hrl.)

 

Ölvunarakstur. Akstur án ökuréttar. Sönnun.

K var sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis. Með vísan til sakaferils K var honum gert að sæta fangelsi í 60 daga og sviptur ökurétti ævilangt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinson og Garðar Gíslason.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. apríl 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu ákærða.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.

Krafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms er reist á því að héraðsdómur hafi átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og að verulegir annmarkar hafi verið á mati hans á sönnunargildi munnlegs framburðar og öðrum sönnunargögnum. Ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skipi dóm í máli ef sýnt þykir að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Eins og sönnunargögnum er háttað þykir ekki tilefni til að hnekkja mati héraðsdóms að þessu leyti. Rakinn er í héraðsdómi framburður ákærða og vitna. Ekki hafa verið færð fram rök í málinu, sem veita líkur fyrir því að mat héraðsdómara á sönnunargildi munnlegs framburðar eða á öðrum sönnunargögnum kunni að vera rangt þannig að einhverju skipti um úrslit málsins. Ómerkingarkröfu ákærða er því hafnað.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Kristján Þórir Kristjánsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 177.510 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Bjarna S. Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 164.846 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 5. apríl 2006.

 

Mál þetta, sem dómtekið var 15. mars sl., er höfðað með ákæru sýslumannsins í Hafnarfirði útgefinni 25. janúar sl., á hendur ákærða Kristjáni Þóri Kristjánssyni, kt. 191079-4699, Blómvangi 3, Hafnafirði, „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 26. desember 2005, um kl. 06:09 ekið bifreiðinni OE-555 undir áhrifum áfengis, með alkóhólmagn í blóði 0,96 o/oo og sviptur ökuréttindum austur Blómvang í Hafnarfirði að húsi nr. 3.

Telst háttsemi þessi varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1.mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993 og  48/1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar, skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, 23/1998 og 84/2004.“

Af hálfu ákærða er krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar er lög heimila. Þá er krafist að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Bjarna Ásgeirssonar, hæstaréttarlögmanns.

Við þingfestingu málsins þann 15. febrúar síðastliðinn neitaði ákærði sök.

Í frumskýrslu lögreglunnar í Hafnarfirði, sem skráð var 29. desember 2005 segir að upphaf málsins megi rekja til þess að varðstjóri í lögreglunni í Hafnarfirði, Gylfi Sigurðsson, var á ferð á ómerktri bifreið lögreglunnar í Hafnarfirði um klukkan 06:00, aðfaranótt mánudagsins 26. desember 2005. Hann kvaðst hafa veitt athygli bifreiðinni OE-555 þar sem hún var kyrrstæð en í gangi við biðskyldu við gatnamót Lækjarkinnar og Lækjargötu. Sá hann að ökumaður, sem var snoðklipptur, var einn í bifreiðinni.

 Á sama tíma voru lögreglumennirnir Sverrir Guðfinnsson og Snorri Birgisson staddir á bensínstöð Esso við Lækjargötu á lögreglubifreið í öðrum erindagjörðum. Í þann mund er þeir voru að aka frá bensínstöðinni sáu lögreglumennirnir bifreiðina OE-555 aka af stað. Var ökumaður einn í bifreiðinni og var hann með mjög stuttklippt hár.

Varðstjórinn veitti bifreiðinni eftirför þar sem hún ók inn á Lækjargötu og norður Reykjanesbraut, norður Fjarðarhraun, vestur Hjallahraun, þar sem hún snéri við og ók suður Reykjavíkurveg og Hraunbrún. Þar kvaðst varðstjórinn hafa misst sjónar af bifreiðinni.

Tilkynnti varðstjóri lögreglumönnunum Sverri Guðfinnssyni og Snorra Birgissyni það og var þeim tjáð heimilisfang skráðs eiganda bifreiðarinnar OE 555 sem var Blómvangur 3. Á leið þangað, nánar tiltekið í Miðvangi sáu þeir bifreiðina OE-555 þar sem henni var beygt til hægri af Miðvangi og austur eftir Blómvangi. Lögreglan kvaðst hafa fylgt bifreiðinni eftir og hafi ekið örskammt á eftir henni er ökumaður hennar tók handbremsubeygju inn í bifreiðastæði við Blómvang 3.

Í frumskýrslu lögreglu er skráð að þegar lögreglan hafi komið inn í innkeyrsluna hafi Snorri Birgisson lögreglumaður séð hvar ökumaður stöðvaði bifreiðina og hafi afturljós hennar verið tendruð. Sverrir Guðfinnsson lögreglu­maðurinn fór út úr lögreglubifreiðinni og hafði tal af ökumanni bifreiðarinnar sem hafði stigið út úr bifreiðinni. Reyndist hann vera ákærði í máli þessu og er búsettur í kjallara í húsinu Blómavang 3. Lögreglumaðurinn kvaðst hafa þekkt ákærða af fyrri afskiptum lögreglunnar af ákærða og taldi lögreglumaðurinn að ákærði væri sviptur ökuréttindum sem reyndist rétt vera. Útlit ökumanns svaraði til þess manns er lögreglan sá undir stýri bifreiðarinnar þegar hún var við Lækjarkinn.

Í frumskýrslu lögreglunnar kemur fram að ákærði hafi ekki tekið vel afskiptum lögreglunnar. Lagði áfengisþef af vitum ákærða. Hann var færður í lögreglubifreiðina, þar sem hann var handtekinn, grunaður um ölvunarakstur og akstur sviptur ökuréttindum.

Ákærði neitaði að hafa ekið bifreiðinni í umrætt sinn. Hann bar að annar maður hefði gert það en tilgreindi ekki nafn hans. Á lögreglustöð gekkst ákærði undir öndunarpróf í S-D2 mæli klukkan 06:16 og mældist alkóhólmagn í útöndunarlofti ákærða 1,50°/°°. Lagt var hald á kveikjuláslykla bifreiðar ákærða sem hann bar á sér.

Fóru tveir lögreglumenn á vettvang  og rannsökuðu bifreiðina OE 555. Fram kemur í frumskýrslu lögreglunnar að engar áfengisumbúðir hafi verið sjáanlegar, púströrið og bremsudiskar hafi verið heit viðkomu  og bifreiðin hafi verið læst.

Fram kemur í frumskýrslu lögreglunnar að tekin hafi verið varðstjóraskýrsla af ákærða, þar sem hann hafi borið að einhver hafi verið með bifreiðina að láni, sem hann hafi ekki vitað hver væri. Sjálfur hafi ákærði verið að sækja geisladiska í bifreiðina er lögreglan bar að.

Tekið var blóðsýni úr ákærða klukkan 06:45 og þvagsýni klukkan 06:48 til þess að kanna alkóhólmagn í blóði og þvagi ákærða. Alkólhólmagn í blóði ákærði reyndist vera 0.96°/°° og í þvagi 1.31°/°°. Að því búnu var ákærði frjáls ferða sinna og var klukkan þá 06:50.

Fyrir dómi bar ákærði að þessa umræddu nótt hafi frændi sinn komið “brennandi” upp planið á bifreiðinni OE-555. Sjálfur hafi hann “tölt upp tröppurnar” í því skyni að sækja geisladiska er voru í bifreiðinni. Frændi hans hafi stokkið út úr bifreiðinni og farið inn í íbúðina til þess að kasta þvagi. Ákærði kvaðst hafa verið að teygja sig inn í bifreiðina er lögreglan kallar á hann og bað hann að koma inn í lögreglubifreiðina. Ákærði kvaðst hafa sagt lögreglunni að hann hefði ekki verið að aka í umrætt sinn. Lögreglan hafi beðið hann að setjast inn í lögreglubifreiðina til þess að ræða málin frekar. Hann hafi orðið við þeirri beiðni og hafi lögreglan umsvifalaust ekið á brott og tilkynnt honum að hann væri grunaður um ölvunarakstur. Ákærði bar að hann hefði sagt lögreglunni að hann hefði lánað frænda sínum bifreiðina, en frændi hans hafi verið meðal veislugesta í skírnaveislu sonar hans á jóladag. Hafi frændi hans, A, verið að skila bílnum þegar lögreglan kom. Ákærði kvaðst ekki hafa tilgreint nafn frænda síns þegar hann var handtekinn, þar sem hann vildi ekki blanda frænda sínum inn í málið. Hins vegar hafi hann stuttu síðar farið með frænda sinn á lögreglustöð og sagt lögreglunni að þessi maður hefði ekið bifreiðinni í umrætt sinn. Minnti ákærða að lögreglumaðurinn hafi heitið Ægir. Lögreglan hafi ekki tekið skýrslu af A. Nánar inntur um það hvenær ákærði hafi farið á lögreglustöðina, tiltók ákærði að það hafi verið tveimur til fjórum vikum eftir atburðinn.

Ákærði mótmælti málavaxtalýsingu lögreglu sem rangri eins og hún er skráð í frumskýrslu lögreglu og bar að bifreiðin hafi ekki verið í gangi er lögreglan ók inn á bifreiðastæðið.

Vitnið A bar fyrir dómi að hafa fengið bifreiðina OE-555 lánaða hjá ákærða eftir að hafa verið í skírnarveislu hjá ákærða á jóladag. Vitnið hafi síðar áttað sig á því að hann hafi skilið verkfæri föður síns eftir í bifreið sinni hjá heimili ákærða og viljað ná í þau. Hafi hann því ákveðið að skila bíl ákærða um kl. 06:00 umræddan morgun. Hafi hann látið ákærða vita símleiðis að hann væri að koma og skila bílnum. Vitnið hafi síðan ekið einsamall frá heimili sínu á Berjavöllum heim til ákærða. Vitnið kvaðst hafa ekið sem leið lá eftir Ásbraut  um Strandgötu, Fjarðargötu, Reykjavíkurveg, Hjallabraut, Miðvang og Blómvang. Vitnið bar að hann hefði allan tímann ekið rólega. Þegar hann hafi komið að Blómvangi 3 hafi ákærði komið á móti honum í miðjum stiganum að kjallaraíbúð þeirri sem ákærði kom út úr. Vitnið hafi farið inn til að kasta þvagi en þar hafi sambýliskona ákærða verið fyrir. Þegar vitnið hafi svo komið aftur út hafi ákærði verið farinn og hann ekki vitað um ferðir hans. Hafi vitnið hvorki orðið vart lögreglu þegar hann ók að heimili ákærða né við það að ákærði hefði farið með lögreglu af vettvangi. Vitnið bar að hann hefði verið með stutt, rakað hár á þeim tíma sem málið varðar. Þá kom fram af hálfu vitnisins að það hafi ekki talið það vera í sínum höndum að fara á lögreglustöð í þeim tilgangi gefa skýrslu sína vegna málsins fyrr en ákærði hafi beðið hann sérstaklega um það. Þegar þeir hafi svo farið á lögreglustöð í þeim tilgangi síðar hafi hins vegar ekki verið tekin af honum skýrsla vegna málsins.

Vitnið B, sambýliskona ákærða, bar fyrir dómi að eftir skírnarveislu sem hafi verið á heimili hennar og ákærða þann 25. desember 2005 hafi A fengið bifreið ákærða að láni. A hafi skilað bílnum aftur um nóttina en þá hafi vitnið og ákærði verið búin að fá sér nokkra bjóra. Þegar A hafi komið með bílinn hafi ákærði hlaupið út og A síðan komið niður til að kasta þvagi og farið skömmu síðar. Ákærði hafi svo ekki komið aftur niður. Gat vitnið ekki lýst afstöðu bifreiðarinnar á vettvangi fyrir dómi og bar að hún hefði ekki orðið vör við komu lögreglu á staðinn. Ákærði hafi svo skýrt vitninu frá því hvað gerst hafði þegar hann hafi komið til baka um klukkustund síðar. Vitnið hafi hins vegar ekki talið þörf á því að hún færi á lögreglustöð til að gefa skýrslu vegna málsins.

Vitnið Gylfi Sigurðsson, varðstjóri, bar á sama veg og skráð er í frumskýrslu lögreglu. Vitnið kvaðst hafa veitt bifreiðinni OE-555 eftirför þá leið sem hann greindi frá í frumskýrslu. Vitnið kvaðst hafa missti sjónar af bifreiðinni á Hraunbrún. Vitnið kvaðst hafa verið í sambandi við lögreglumenn sem voru í eftirliti og þegar þeir komu auga á bifreiðina í Miðvangi stuttu síðar, kvaðst vitnið hafa farið niður á lögreglustöð til þess að taka skýrslu af ökumanni bifreiðarinnar, þegar lögreglan myndi færa hann á lögreglustöð. Vitnið bar að ákærði hafi haldið því fram við skýrslutöku hjá lögreglu að engin hafi verið að aka bifreiðinni.

Vitnið Sverrir Guðfinnsson, lögreglumaður bar fyrir dómi að hann og Snorri Birgisson, lögreglumaður, hafi verið á lögreglubifreið við eftirlitsstörf umrædda nótt. Varðstjóri hafi tilkynnt þeim að hann þyrfti aðstoð til þess að fylgjast með bifreiðinni OE-555, sem þá hafi verið stödd á gatnamótum Lækjarkinnar og Lækjargötu. Vitnið kvaðst hafa verið statt á bensínstöð Esso við Lækjargötu og hafi hann séð bifreiðina við framangreind gatnamót. Hafi ökumaður, sem var snoðklipptur, verið einn í bifreiðinni og kvaðst vitnið hafa séð er hann ók af stað. Vitnið gat hins vegar ekki staðfest að ökumaðurinn hafi verið ákærði. Þegar vitnið og Snorri hafi verið á leið að Blómvangi 3, hafi þeir séð bifreiðina við Miðvang og elt hana inn að Blómvangi 3, þar sem bifreiðinni hafi þá verið beygt handbremsubeygju inn í innkeyrslu hússins. Hafi lögreglubifreiðin ávallt fylgt fast á eftir bifreiðinni en vitnið þó misst sjónar af henni í örstutta stund þegar hún beygði inn innkeyrsluna, enda vitnið þá verið að gera sig klárt til að stökkva út úr henni. Hafi ákærði staðið við dyr bifreiðarinnar, sem ekki hafi verið í gangi, þegar vitnið hafi komið að henni. Bar vitnið að það hefði ekki séð ákærða stíga út úr bifreiðinni en að ákærði hefði verið með lykla hennar í vasanum. Bar vitnið að það hafi strax þekkt manninn sem ákærða. Vitnið kvaðst þá hafa fundið áfengislykt af ákærða og því boðið honum að fara í lögreglubifreiðina og tilkynnt honum að hann væri handtekinn. Vitnið hafi ekki séð aðra á vettvangi. Ákærði hafi borið á vettvangi að hafa ekki verið ökumaður bifreiðarinnar en tilgreindi ekki ökumann hennar.

Vitnið Snorri Birgisson, lögreglumaður, bar fyrir dómi að hann hafi verið ásamt Sverri Guðfinnssyni, lögreglumanni, að aðstoða borgara við Strandgötu og hafi þeir verið að aka niður Lækjargötu þegar kallað hafi verið til þeirra í talstöð að kanna kyrrstæða bifreið á mótum Lækjarkinnar og Lækjargötu. Hafi þeir hins vegar ekki getað haft afskipti af bílnum þá þar sem þeir hafi enn verið að aðstoða borgarann. Hafi Gylfi Sigurðsson tilkynnt þeim að hann fylgdi eftir bifreiðinni á ómerktri lögreglu­bifreið en vitnið síðar fengið upplýsingar um hvar skráður eigandi bifreiðarinnar byggi að Blómvangi 3. Bar vitnið að lögreglumennirnir hefðu í kjölfarið séð bifreiðina aftur við Miðvang og þá veitt henni eftirför inn Blómvang en bifreiðin þá tekið handbremsubeygju inn á Blómvang 3. Hafi lögreglubifreiðin fylgt fast á eftir bifreiðinni eða verið í um 8-10 metra fjarlægð. Við það að bifreiðinni hafi verið beygt inn innkeyrsluna að Blómvangi 3 hafi vitnið hins vegar misst sjónar á henni örskamma stund. Hafi bifreiðin svo verið stöðvuð þegar lögreglubifreiðin hafi komið inn á stæðið. Vitnið bar að hann hafi séð ákærða fara út úr bifreiðinni og að enginn annar hefði verið á vettvangi eða í bifreiðinni. Í kjölfarið hafi Sverrir Guðfinnsson, lögreglumaður, farið og haft afskipti af ökumanni hennar. Þá bar vitnið að ákærði hefði haldið því fram að hann hefði ekki verið ökumaður bifreiðarinnar en hins vegar hefði ekki komið fram af hans hálfu að frændi hans hefði ekið henni. Hafi ákærði þá verið færður á lögreglustöð þar sem tekin hafi verið af honum skýrsla og honum tekin blóð- og þvagsýni.

Vitnið Ægir Ellertsson, lögreglumaður, bar fyrir dómi að ákærði hefði komið á lögreglustöð í kringum 23. janúar og með honum A. Hafi ákærði þá haft orð á því að A hefði ekið þeirri bifreið sem mál þetta snýst um umrætt sinn. Ekki hafi þó verið rætt frekar við A þetta sinn. Vitnið bar að Fangelsismálastofnun hafi á þessum tíma verið að boða ákærða í afplánun vegna eldra máls og hafði áður synjað beiðni ákærða að fá að afplána fangelsisrefsingu með samfélagsþjónustu á þeirri forsendu að mál þetta væri enn ódæmt.

Niðurstöður.

Ákærði hefur bæði fyrir dómi og hjá lögreglu neitað sök. Ákærði bar á vettvangi að annar maður hefði ekið bifreiðinni án þess að tilgreina nafn hans. Ákærða var í lófa lagið að tilgreina nafn frænda síns sem þá var staddur á heimili hans að hans sögn fyrir dómi, en það gerði hann ekki og hefur ekki gefið á því neina skynsamlega skýringu. Þá er framburður ákærða líka ótrúverðugur í ljósi þess að hann sá ekki ástæðu til þess að tilgreina nafn meints ökumanns hjá lögreglu fyrr en 23. janúar 2006 eftir að hafa fengið boðunarbréf frá Fangelsismálastofunum að koma í afplánun vegna eldri dóms. Fangelsismálstofnun mun hafa hafnað því að ákærði afplánaði þá refsingu með samfélagsþjónustu, þar sem ákærði ætti ódæmt mál í kerfinu, samkvæmt framburði Ægis Ellertssonar, lögreglumanns fyrir dómi.

Þá er framburður vitnisins A einnig metinn ótrúverðugur. Vitnið bar fyrir dómi að hann hefði fengið lánaðan bíl ákærða fyrr um kvöldið er hann yfirgaf skírnarveisluna, þrátt fyrir að hafa komið á bifreið er hann kvaðst hafa skilið eftir á bifreiðastæði fyrir utan heimili ákærða. Þá er það ótrúverðugt að ákveða að skila bifreiðinni heim til ákærða um klukkan sex að morgni annars í jólum, en þá kvaðst vitnið hafa verið á heimili sínu á Berjavöllum. Vitnið lýsti fyrir dómi þeirri leið er hann ók frá heimili sínu að heimili ákærða og liggur sú leið hvergi saman um þær götur er lögreglan veitti bifreið ákærða eftirför að undaskildu Miðvangi og Blómvangi.

Eftir að Gylfi Sigurðsson, varðstjóri missir sjónar af bifreiðinni við Hraunbrún sjá lögreglumennirnir Sverri Guðfinnsson og Snorri Birgisson bifreiðina þar sem henni var ekið eftir Miðvangi. Lögreglumennirnir báru fyrir dómi að þeir hafi veitt bifreiðinni eftirför um Miðvang og Blómvang og fylgt henni fast eftir. Þeir kváðust hafa misst sjónar af bifreiðinni í örskamma stund er hún sveigði með handbremsubeygju inn í innkeyrsluna við Blómvang 3. Vitnið Snorri Birgisson bar fyrir dómi að bifreiðin hafi verið stöðvuð er þeir hafi ekið inn á bifreiðastæðið, en hann kvaðst hafa séð ákærða stíga út úr bifreiðinni. Enginn annar hafi verið á vettvangi.

Vitnið Sverri Guðfinnsson lögreglumaður bar fyrir dómi að lögreglubifreiðin hafi fylgt bifreið ákærða fast eftir sem leið lá um Miðvang og Blómvang. Vitnið kvaðst hafa misst sjónar af bifreiðinni í örstutta stund er henni var ekið inn í innkeyrsluna við Blómvang 3. Vitnið kvaðst í sama mund hafa undirbúið sig til þess að stökkva út úr bifreiðinni. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða standa við bifreiðina og hún hafi ekki verið í gangi. Ákærði hafi verið með kveikjuláslykla bifreiðarinnar í vasanum. Vitnið kvaðst ekki hafa séð aðra á vettvangi. Ennfremur bar vitnið að útlit ákærða samsvaraði til útlits ökumanns bifreiðarinnar, þegar henni var ekið af stað við gatnamót Lækjarkinnar og Lækjargötu.

Þegar þetta er virt sem að framan er rakið, verður ekki vefengt með skynsamlegum rökum, að ákærði hafi ekið bifreiðinni OE-555, undir áhrifum áfengis í umrætt sinn. Telst því sannað að ákærði hafi gerst sekur um brot það er í ákæru greinir og er það rétt fært til lagaákvæða. Verður hann því dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar, eins og í ákæru er krafist.

Á árinu 1998 var ákæru frestað á hendur ákærða skilorðsbundið vegna þjófnaðar. Sama ár gekkst ákærði undir lögreglustjórasátt vegna umferðarlagabrots og var sviptur ökurétti í 2 mánuði. Á árinu 2000 hlaut ákærði með dómi skilorðbundið 4 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Á árinu 2002 hlaut ákærði dóm fyrir of hraðan akstur, 60.000 króna sekt og ökuréttarsviptingu í 3 mánuði. Á árinu 2003 hlaut ákærði dóm fyrir sviptingarakstur og of hraðan akstur, 145.000 króna sekt. Næst hlaut ákærði dóm þann 7. júlí 2004 fyrir of hraðan akstur, og fyrir að hafa ekki meðferðis ökuskírteini og ölvunarakstur. Var ákærða gerð sektarrefsing og sviptur ökurétti í 7 mánuði frá 8. október 2004. Þá hlaut ákærði dóm 3. mars 2005 fyrir of hraðan akstur og fyrir að hafa ekki ökuskírteini meðferðis. Var honum gerð sekt. Næst hlaut ákærði dóm 4. apríl 2005 fyrir ítrekaðan sviptingar­akstur og var honum gerð sektarrefsing að fjárhæð 100.000 krónur. Ákærði hlaut dóm þann 23. september 2005 fyrir ítrekaðan sviptingarakstur öðru sinni og var gert að sæta fangelsi í 30 daga. Næst hlaut ákærði dóm 12. október 2005 fyrir ítrekaðan ölvunarakstur. Hlaut ákærði 160.000 króna sekt og var svipur ökurétti í 2 ár. Brot ákærða sem hann er nú fundinn sekur að er því ölvunarakstur ítrekað öðru sinni og sviptingarakstur ítrekað í  þriðja sinn. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði.

Ákærði er með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

Dæma ber ákærða með vísan til 165. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 að greiða áfallinn sakarkostnað 30.117 krónur auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns Bjarna Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 164.846 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ólöf Pétursdóttir, dómstjóri kvað upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Kristján Þórir Kristjánsson, sæti fangelsi í 60 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá dómsbirtingu að telja.

Ákærði greiði 30.117 krónur í sakarkostnað auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Bjarna Ásgeirssonar hrl. 164.846 krónur.