Hæstiréttur íslands

Mál nr. 281/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Sjálfræðissvipting
  • Málskostnaður


Mánudaginn 24

 

Mánudaginn 24. júlí 2000.

Nr. 281/2000.

 

X

(Ólafur Birgir Árnason hrl.)

gegn

Akureyrarbæ

(Hákon Stefánsson hdl.)

 

Kærumál. Sjálfræðissvipting. Málskostnaður.

Fallist var á kröfu um að X yrði sviptur sjálfræði tímabundið, enda væri hann ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júlí, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. júlí, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í sex mánuði frá uppsögu úrskurðarins að telja. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurðinn fyrir sitt leyti 18. júlí 2000. Hann krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar að öðru leyti en því að honum verði dæmd þóknun úr ríkissjóði vegna meðferðar málsins fyrir héraðsdómi. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Aðild varnaraðila byggist á d. lið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 71/1997.  Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur að öðru leyti en um málskostnað.

Samkvæmt 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ólafs Birgis Árnasonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Samkvæmt gögnum málsins var Hákon Stefánsson héraðsdómslögmaður skipaður talsmaður varnaraðila í héraði. Þar sem hann var þannig skipaður talsmaður ber samkvæmt 17. gr. lögræðislaga að ákveða honum þóknun vegna meðferðar málsins fyrir héraðsdómi og Hæstarétti, sem greiðist úr ríkissjóði, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ólafs Birgis Árnasonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 70.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Hákonar Stefánssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 50.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. júlí 2000.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 10. þ.m., er tilkomið vegna Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar, kt. 410169-6229, Glerárgötu 26 Akureyri, en með bréfi dagsettu 20. f.m. krefst Hákon Stefánsson hdl. þess f.h. sóknaraðila að X sem þá er nauðungarvistaður á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, verði sviptur sjálfræði í 6 mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar að telja.  Þá krefst sóknaraðili þess að allur málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. lögmannskostnaður hans, en krafist er lögmannskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

Skipaður verjandi varnaraðila, X, Ólafur Birgir Árnason hrl., mótmælir kröfunni og vísar til þinghalds 22. f.m. þar sem varnaraðili kvaðst algjörlega andvígur kröfunni og krefst málsvarnarlauna að mati dómara.

Sóknaraðili lýsir málsatvikum, málsástæðum og lagarökum svo, að varnaraðili sé vistaður nauðungarvistun á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri samkvæmt samþykki Dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 30. maí 2000.  Sé varnaraðili 75% öryrki vegna geðklofasjúkdóms schizophrenia paranoica og hafi verið það til marga ára.  Hafi hann verið óvinnufær frá árinu 1983 og búi einn.  Varnaraðili hafi haft lélegt sjúkdómsinnsæi og hafi átt erfitt með að stjórna lyfjatöku sjálfur að undanförnu.  Hafi hann ekki viljað sinna aðstoðar heimahjúkrunar vegna lyfjagjafa og hafnað að tala við heimilislækni sinn og í raun afneitað honum.  Þá sé það mat þess fagfólks sem reynt hafi að sinna varnaraðila að honum hafi mjög hrakað, hann hafi horast og sjúkdómseinkennin hafi komið fram í auknum mæli.  Þá hafi háttalag hans breyst, en hann hafi t.d. setið í bifreið sinni um miðjar nætur með útvarpið á hæsta styrk, látið bifreið sína standa í gangi framan við híbýli sín, talað við ímyndaðar persónur í stigagangi að heimili sínu og þá hafi skapast hætta vegna matreiðslu varnaraðila.  Einnig hafi hann ítrekað neitað þeirri lyfjagjöf sem að telja verði honum nauðsynlega til að hann geti lifað sem eðlilegustu lífi.  Nágrannar varnaraðila hafi kvartað við hjúkrunarfólk, svo og sóknaraðila um ótta sinn við varnaraðila, en hann hafi t.a.m. haft uppi fullyrðingar um meint manndráp í stigagangi heimilis síns.  Þá hafi skapgerðareinkenni hans breyst til hins verra, en að undanförnu hafi verið mun þyngra yfir honum, heldur en þegar hann hafi sinn inntöku lyfja.  Um frekara ástand varnaraðila er vísað til vottorðs Kristins Eyjólfssonar læknis, dagsett 26. maí s.l.

Mál þetta sé til komið á grundvelli tilmæla heimilislæknis varnaraðila, sem skýri jafnframt aðild sóknaraðila máls þessa, sbr. d. lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997.  Með vísan til þessa lagaákvæðis telur sóknaraðili að honum beri að eiga aðild að máli þessu, en ekki Akureyrarbær, þrátt fyrir að hann skorti hæfi að lögum til eiga réttindi og bera skyldur. 

Vekur sóknaraðili athygli á því að sveitarfélagi er ekki heimiluðu aðild á grundvelli tilvitnaðs lagaákvæðis, en sóknaraðili svarar til þeirrar stofnunar sem nefnd er í ákvæðinu. 

Krafan byggir á því að skilyrðum a liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997 sé fullnægt, þ.e.a.s. varnaraðili sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms og nauðsynlegt sé að vista hann nauðugan á sjúkrahúsi svo hann geti hlotið viðeigandi læknismeðferð. 

Telur sóknaraðili með vísan til framlagðra gagna nauðsynlegt að krafa hans sé tekin til greina þannig að varnaraðili geti náð nægjanlegum bata, enda sé það honum fyrir bestu. 

Upphaflega hafi vonir staðið til að læknismeðferð yrði lokið áður en nauðungarvistun rynni út 29. f.m., en ljóst sé að svo verði ekki, af þeim sökum sé nauðsynlegt að óska eftir takmarkaðri sjálfræðissviptingu í samræmi við ákvæði 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga, sé það forsenda fyrir áframhaldandi bráðnauðsynlegri læknismeðferð. 

Með vísan til 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga krefst sóknaraðili þess að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi ríkissjóðs, vegna beiðni þessarar, þ.m.t. lögmannskostnaðar, enda ótvírætt að ríkissjóður beri allan kostnað af máli þessu.  Þess er jafnframt krafist að dómari meti hæfilegan málskostnað, en gerður er áskilnaður um að leggja fram reikning til stuðnings öðrum útlögðum kostnaði sóknaraðila en lögmannskostnaði. 

Í læknisvottorði Kristins Eyjólfssonar á dskj. nr. 2, dagsett 19. f.m. kemur fram að hann hafi verið heimilislæknir varnaraðila frá 1995 og þekki hann því gjörla.  Hafi hann verið óvinnufær frá september 1983 vegna schizophrenia paranoica og sé 75% öryrki og hafi verið það til margra ára.  Hafi hann hætt að taka nauðsynleg geðlyf og neitað að fá forðalyfjasprautur.  Sé sjúkdómsinnsæi hans ekkert og miklu verra en það hafi nokkurn tíma verið áður hjá honum og þurfi hann að fá viðeigandi læknismeðferð á geðdeild.

Á dómþingi 22. f.m. kvaðst varnaraðili, X, vera algjörlega heilbrigður og kvað Kristinn Eyjólfsson vera lélegan lækni og ekki lengur heimilislækni sinn.  Að nú væri heimilislæknir hans Aðalheiður Ólafsdóttir, Sunnuhlíð 21 hér í bæ, en hún væri bæði læknir og prestur.  Taldi hann sjúkrahúsdvöl sína algjörlega að nauðsynjalausu og fælist hún í því að honum væru gefin lyf, en aðra meðferð fengi hann ekki.  Hafi hann áður verið vistaður á geðdeild FSA, en ítrekað aðspurður kvaðst hann ekki muna hversu oft.

Á dskj. nr. 7 er álitsgerð Hallgríms Magnússonar geðlæknis á geðdeild FSA, dagsett 29. f.m. og móttekin 30. s.m., en með bréfi dómsins 28. f.m. var þess óskað að hann léti dóminum í té sérfræðiálit um geðheilsu varnaraðila og færni hans til að ráða persónulegum högum sínum.  Í álitsgerðinni kemur fram að gagnaöflun hafi farið fram 26.-28. f.m., tvö viðtöl hafi verið við varnaraðili í herbergi hans á geðdeild FSA og upplýsingar hafi verið fengnar úr sjúkraskrá FSA. 

Fram kemur að varnaraðili er yngstur fimm systkina og var stúdent á Akureyri [...].  Sjúkrasaga hans hefst árið 1976 er hann fór að finna fyrir miklum kvíða og hafi þá leitað hjálpar hjá heimilislækni sínum.  Hafi óþægindin aukist og hafi hann farið að finna fyrir óþægindum í starfi, einkum þar sem hann var gjaldkeri og þurfti að hafa samskipti við margt fólk daglega.  Hafi hann óskað tilflutnings í starfi, en smám saman hafi farið að bera á ofsóknahugmyndum og hafi hann talið vinnufélaga sína ásækja sig.  Ástandið hafi versnað og á endanum hafi orðið að fá lögreglu og færa hann til innlagnar á FSA árið 1979.  Síðan hafi hann verið lagður inn 11 sinnum á geðdeild, tvisvar sinnum 1979, einu sinni árin 1981, 1982 og 1992, tvisvar sinnum 1995, einu sinni 1996, tvisvar sinnum 1999 í seinna skiptið 30.12.-19.01.2000, svo og 31. maí s.l.  Vandamál hans í þessum innlögnum hafi verið af ýmsum toga, oftast hafi hann verið lagður inn nauðugur, en þó hafi komið fyrir að hann hafi komið sjálfviljugur.

Eigin óþægindi hafi verið eftirfarandi: 

1. Raddir.  Hann hefur heyrt mjög óþægilegar raddir, sem eru svo óþægilegar að hann treystir sér ekki til að tala um þær og vita fáir ef nokkur hvað þær segja við hann.  Fyrir hefur komið að hann hefur sést standa í hrókasamræðum við þessar raddir.

2. Ofsóknarhugmyndir.  Öðru hvoru hefur hann talið að verið væri að ofsækja sig, gjarnan bent á ákveðna einstaklinga og nú síðast sé það heimilislæknirinn, sem hefur stundað hann lengst af í veikindum hans, sem verði fyrir þessum hugmyndum.

3. Aðrar ranghugmyndir.  Á tímabilum hefur hann talið að aðrir gætu talað í gegnum sig, en slíkar hugmyndir hafa þó ekki verið áberandi. 

4. Þunglyndiseinkenni.  Hafi hann fengið talsvert áberandi þunglyndiseinkenni á fyrstu árum veikinda sinna, einkum á bilinu 1981-1983, en þau einkenni hafi verið minna áberandi á síðustu árum.

5. Lyfjanotkun.  Hann hefur gripið til þess ráðs að taka ýmis lyf í stórum skömmtum og segir hann þetta sjálfur vera til að dempa vanlíðan sína.  Séu þetta lyf af eftirtöldum flokkum, Benzodíasepin, Benzhexol og skyld lyf og Prometasin.

Allar innlagnir að undanskilinni einni hafi verið styttri en tveir mánuðir og hafi hann jafnan útskrifast í sæmilega góðu formi og tilbúinn til þess að taka áfram lyf með miklum semingi þó.  Lyfin hafi verið í töfluformi og einnig í sprautuformi og sé þar um að ræða langverkandi sprautur sem hann fái á tveggja eða þriggja vikna fresti hjá heimilislækni sínum.  Hafi þetta gengið nokkuð vel, þó hafi verið löng tímabil þar sem hann hafi verið ómeðhöndlaður. 

Frá 1982-1992 hafi hann ekki legið inni á sjúkrahúsi, en hafi þá að mestu verið heima í skjóli fyrrverandi eiginkonu sinnar.  Á þessum tíma megi segja að hann hafi vart farið út úr húsi. 

Aðdragandi innlagna á sjúkrahús sé venjulega sá að hann hættir að vilja taka lyfin  og versni þá strax, auknar raddir, auknar aðsóknarhugmyndir og þ.a.l. afbrigðileg og stundum ógnandi hegðun. 

Fyrir síðustu innlögn hafi hann afneitað heimilislækni sínum algjörlega og neitað öllum lyfjatökum. 

Í núverandi legu hafi hann fengið geðlyf eins og venja er til m.a. í sprautuformi, en áhrifin virðast vera minni en oft áður.  Í viðtali við lækninn 27. og 28. f.m. er varnaraðili mjög samvinnugóður en dálítið pirraður og óþolmóður.  Stendur hann uppréttum í viðtölum og vill ekki setjast og ekki hægt að ná augnsambandi við hann.  Staðhæfir hann að hann sé frískur og ekkert sé að honum og er hálfafundinn er hann er spurður hvers vegna hann hafi verið óvinnufær svo lengi.  Segist hann heyra raddir og séu þær svo óþægilegar að hann vilji ekki tala um þær.  Telji hann þetta ekki óeðlilegt, segir að allir heyri raddir, finnist honum að stundum hafi lyf hjálpað honum, en þau geri það ekki núni.  Greinilegar ofsóknarhugmyndir koma fram gegn heimilislækningum sem hann afneitar og segir hann vera með óþverraskap gagnvart sér.  Finnist honum mjög ósanngjarnt að honum sé haldið inni og kennir heimilislækninum um það.  Á köflum er hann dálítið pirraður í viðtalinu, en nær góðri stjórn á því.  Aðspurður um frekari óþægindi og vanlíðan segist hann hafa straum upp í höfuðið og í fæturna og þessi straumur komi vegna þess að einhver sem hefur kraftinn horfi á hann.  Segir hann til frekari útskýringar, ef einhver sem hefði kraftinn myndi horfa svona á þig fengirðu þetta líka.  Aðspurður hver hafi kraftinn, segist hann ekki vita það, hugsanlega séu það fleiri en einn. 

Sjúkdómsgreining. 

Sjúklingurinn hefur sjúkdómsgreininguna schizophrenia paranoides (F20.0) eins og henni er lýst í alþjóða sjúkdómsgreiningarskránni, X. útgáfu.  Rökstuðningur er eftirfarandi:

1.Hann heyrir raddir sem eru svo óþægilegar að hann getur ekki sagt frá þeim.

2.Hann finnur fyrir líkamlegum óþægindum sem annað fólk getur undir vissum

kringumstæðum valdið honum á óbeinan og dularfullan hátt.

3.Einkennin hafa staðið yfir í 24 ár.

4.Ekki hafa fundist líkamlegar orsakir fyrir þessu ástandi.

5.Ofheyrnir og að hluta ranghugmyndir eru mest ráðandi einkennin.

Niðurstaða. 

Hér er um að ræða 54 ára gamlan mann sem að hefur síðan 1976 þjáðst af alvarlegum geðsjúkdómi með ofheyrnum og ranghugmyndum.  Við skoðun nú eru þessi einkenni staðfest og má telja fullvíst að þau komi í veg fyrir að hann geti ráðið persónulegum högum sínum.  Vegna þessara einkenna er líklegt að hann sýni óheppilega hegðun.  Hætta er á að einbeitingu hans sé mjög ábótavant og getur það leitt til atferlis sem gæti skaðað hann eða aðra.  Lítið sjúkdómsinnsæi hans hefur torveldað lyfjameðferð mjög.  Þótt lyfjameðferð hafi oftast dregið talsvert úr einkennum hefur ekki verið svo síðustu fjórar vikur, því er ólíklegt að hann verði fær um að ráða ráðum sínum á næstu mánuðum.

 

Álit dómsins:

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir sýnt að högum varnaraðila, X, sé svo komið að hann sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms, sbr. staflið a í 4. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997 og er því krafa um lögræðissviptingu hans til 6 mánaða tekin til greina.

Samkvæmt þessu ber ríkissjóði að greiða skipuðum verjanda hans Ólafi Birgi Árnasyni hrl. kr. 40.000 í málsvarnarlaun, auk þess allan annan málskostnað.

Ekki er tekin til greina krafa lögmanns sóknaraðila um málskostnað honum til handa þar sem lagaskilyrði þykja til þess skorta, sbr. 17. gr. lögræðislaga og greinargerð með henni.

Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.

 

Á L Y K T A R O R Ð :

X, er sviptur sjálfræði í 6 mánuði frá 12. júlí 2000 að telja.

Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda hans Ólafs Birgis Árnasonar hrl. kr. 40.000.