Hæstiréttur íslands
Mál nr. 223/2014
Lykilorð
- Umferðarlög
- Ölvunarakstur
- Ítrekun
- Ökuréttarsvipting
|
|
Mánudaginn 22. desember 2014. |
|
Nr. 223/2014.
|
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn Jónínu Benediktsdóttur (Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.) |
Umferðarlög. Ölvunarakstur. Ítrekun. Ökuréttarsvipting.
J var ákærð fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis. J neitaði sök og hélt því fram að hún hefði drukkið áfengi eftir að hún lét af akstri bifreiðarinnar. Framburður J, þess efnis að hún hefði fyrst hafið áfengisneyslu eftir aksturinn, þótti ekki samrýmast niðurstöðu alkóhólmælinga úr blóðsýni hennar og framburður vitna studdi ekki þann framburð. Var J því sakfelld samkvæmt ákæru og gert að sæta 30 daga fangelsi. Þá var hún svipt ökurétti ævilangt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. mars 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.
Ákærða krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð.
Í skýrslu sem tekin var af ákærðu hjá lögreglu sama dag og hún var handtekin kvaðst hún hafa ekið bifreið vinar síns frá heimili sínu og að Reykjavíkurflugvelli. Hún hafi keypt áfengi þar og vinur sinn tekið þar við akstrinum. Kvaðst hún hafa neytt töluverðs áfengis á skömmum tíma áður en lögregla stöðvaði akstur bifreiðarinnar, en ekki muna magn þess. Þá hafi hún neytt einhvers áfengis inni á flugstöðinni. Hún kvað fyrrgreindan vin sinn hafa ekið á ,,handrið“ við flugvöllinn, en síðar í yfirheyrslunni kvaðst hún sjálf hafa ekið á það er hún ók að flugstöðinni og neitaði að hafa ekið bifreiðinni frá flugstöðinni.
Fyrir dómi kvaðst hún hafa ekið bifreiðinni að Reykjavíkurflugvelli, keypt þar áfengi, staldrað stutt við og ekki neytt þar áfengis. Hún kvaðst hafa sest undir stýri bifreiðarinnar er út var komið og ekið henni utan í stólpa sem þar var. Hefði vinur sinn þá tekið við akstrinum og hún drukkið mjög hratt úr vodkapela sem verið hafi í aftursæti bifreiðarinnar og neytt hluta þess áfengis sem hún hafði keypt.
Samkvæmt framangreindu er verulegt ósamræmi í framburði ákærðu hjá lögreglu og fyrir dómi. Þá verður af gögnum málsins ráðið að tilkynning barst til lögreglu um ætlaðan ölvunarakstur klukkan 10.45 umræddan dag, frá manni sem staddur var á Reykjavíkurflugvelli og hafði séð þar til ákærðu, en lögregla hafði afskipti af ákærðu nokkrum mínútum síðar er bifreið sú sem hún var farþegi í var stöðvuð og hún handtekin klukkan 10.57. Sá skammi tími sem leið frá því að ákærða kvaðst hafa hafið neyslu áfengis og þar til hún var handtekin samrýmist því á engan hátt niðurstöðu alkóhólmælinga úr blóðsýni hennar, en fyrra blóðsýnið var tekið úr henni klukkan 11.53 og hið síðara klukkan 13.05 og var þá magn áfengis í blóði fallandi. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærðu verður gert að greiða allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærða, Jónína Benediktsdóttir, greiði áfrýjunarkostnað málsins, 529.193 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hildar Sólveigar Pétursdóttur hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 17. janúar 2014, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 5. nóvember 2013, á hendur Jónínu Benediktsdóttur, kt. [...], [...], [...], fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, þriðjudaginn 18. júní 2013, ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,50), úr bifreiðastæði við Reykjavíkurflugvöll við Þorragötu í Reykjavík uns bifreiðinni var ekið utan í járngrind við enda bifreiðastæðisins.
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.
Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.
Verjandi krefst þess aðallega að ákærða verði sýknuð af kröfum ákæruvalds, en til vara að hún verði dæmd til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins, sem greiðist úr ríkissjóði.
Málsatvik
Þriðjudaginn 18. júní 2013, klukkan 10:45, barst lögreglu tilkynning um að bifreiðinni [...] hefði verið ekið á skilti framan við Reykjavíkurflugvöll og væri ökumaður hugsanlega undir áhrifum áfengis. Þá hafi ökumaðurinn sést skipta um sæti við farþega sem var í bifreiðinni, sem hefði síðan ekið á brott. Kom fram að ökumaður bifreiðarinnar hefði verið kona, en farþeginn sem hún skipti um sæti við, eldri karlmaður. Lögreglumenn, sem staddir voru í bifreið á Hjarðarhaga, brugðust við tilkynningunni og kemur fram í skýrslu þeirra að þeir hafi ekið suður Suðurgötu og beygt inn Þorragötu og mætt bifreiðinni þar á móts við Reykjavíkurveg. Hefði lögreglubifreiðinni verið snúið við og akstur bifreiðarinnar stöðvaður á Suðurgötu við Lynghaga. Ökumaður bifreiðarinnar reyndist vera A, en ákærða sat í farþegasæti. Kemur fram í lögregluskýrslu að hún hafi verið greinilega nokkuð ölvuð, en hún hafi neitað að gefa öndunarsýni. Var hún færð á lögreglustöð þar sem tekin voru blóðsýni úr henni klukkan 11:53 og 13:06. Samkvæmt greinargerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði mældist 1,50 alkóhóls í fyrra sýninu, en 1,20 í því síðara.
Lögreglumaður ræddi jafnframt við vitni í flugstöðinni á Reykjavíkurflugvelli og tók niður framburð þeirra.
Ákærða var yfirheyrð af lögreglu þetta kvöld og liggur fyrir hljóðupptaka af þeirri skýrslutöku. Ákærða neitaði að hafa ekið bifreiðinni undir áhrifum áfengis. Hún kvaðst hafa ekið frá heimili sínu að flugstöðinni og hefði hún þá verið allsgáð. Hún hefði farið inn í flugstöðina og keypt þar áfengi. Kvaðst ákærða hafa drukkið talsvert magn af áfengi á skömmum tíma. Henni hefði liðið illa og hefði hún sturtað í sig áfengi á Reykjavíkurflugvelli. Hún kvaðst hafa drukkið eitthvað af áfenginu inni í flugstöðinni. Ákærða kvað A hafa tekið við akstri bifreiðarinnar eftir þetta og hefði hann ekið frá flugstöðinni. Hún kannaðist við að hafa ekið á handrið á bifreiðastæðinu, eins og vitni hefðu borið um, en kvað það hafa gerst þegar hún ók bifreiðinni að flugstöðinni.
Við aðalmeðferð málsins lýsti ákærða því að A hefði komið á bifreið sinni að sækja hana á heimili hennar um morguninn. Þau hefðu ætlað í sund og kvaðst ákærða hafa ekið bifreiðinni áleiðis að Sundlaug Vesturbæjar. Hún kvaðst síðan hafa ákveðið að fara að Reykjavíkurflugvelli og kaupa þar áfengi. Hún hefði lagt bifreiðinni við grind eða stólpa á bifreiðastæðinu við flugstöðina og farið þar inn. Þar hefði hún tekið eftir manni sem fylgdist með henni og elti hana og hefði henni liðið illa yfir því. Ákærða kvaðst hafa keypt rauðvín og tekið það með sér út í bifreiðina. Hún kvaðst hafa bakkað bifreiðinni aðeins út úr bifreiðastæðinu, en bifreiðin hefði þá rekist utan í stólpann. Þau A hefðu farið út úr bifreiðinni og skoðað ákomuna á bifreiðinni og hefði A síðan tekið við akstri bifreiðarinnar. Ákærða kvaðst hafa sest í farþegasætið við hlið A. Hún kvaðst hafa seilst í vodkapela sem hún vissi af í aftursætinu. Hún hefði lengi vitað af þessu áfengi í bifreiðinni, en maður sem var að vinna fyrir hana hefði skilið það eftir. Hún kvaðst hafa sturtað í sig um hálfum vodkapelanum og síðan drukkið af rauðvíninu sem hún hafði keypt í flugstöðinni. Um 10 mínútum síðar hefði lögregla stöðvað bifreiðina á Suðurgötu. Ákærða kvaðst hafa falið það fyrir A að hún var að drekka áfengi og hefði hún snúið sér frá honum á meðan. Hún kvað það sem eftir var af rauðvíninu hafa farið ofan í sundtöskuna hennar, sem hefði orðið eftir í bifreiðinni þegar hún var handtekin.
Ákærða tók fram að við yfirheyrslu hjá lögreglu hefði hana minnt að hún hefði ekið á stólpann þegar hún kom að flugstöðinni. Síðan hefði rifjast upp fyrir henni að það hefði verið þegar hún ók frá flugstöðinni. Ákærða kvaðst ekki hafa verið búin að drekka áfengi þegar hún ók á stólpann. Þá kvaðst hún ekki hafa neytt áfengis þegar hún var inni í flugstöðinni og væri því ekki rétt það sem hefði komið fram hjá henni um þetta við yfirheyrslu hjá lögreglu.
Vitnið A kvað ákærðu hafa ekið bifreiðinni að flugstöðinni í umrætt sinn. Hann hefði síðan tekið við akstrinum og taldi vitnið bifreiðina hafa rekist á stólpa þegar hann ók frá flugstöðinni. Vitnið kvað ákærðu hafa setið í farþegasætinu við hlið sér og hefði hann ekki orðið var við að hún væri að drekka áfengi. Þá kvaðst hann ekki hafa orðið var við að hún væri undir áhrifum áfengis. Vitnið kvaðst vera eigandi bifreiðarinnar og hefði hann ekið henni að heimili ákærðu um morguninn. Hann kvaðst ekki kannast við að vodkapeli hefði verið í bifreiðinni. Sérstaklega spurður kvað vitnið minni sitt ekki vera fullkomið, en hann hefði greinst með [...] fyrir tveimur eða þremur árum.
Vitnið B kvaðst hafa verið að bíða eftir flugi í farþegasal flugstöðvarinnar þegar hann hefði séð áberandi drukkna konu vafra inn á flugstöðina og kaupa sér bjór í veitingaafgreiðslunni. Hefði hann síðan séð að konan settist inn í bifreið fyrir utan og ók henni á varnarstaur á bifreiðastæðinu. Hefði konan farið út og skoðað skemmdir á bifreiðinni. Aldraður maður sem var með henni í bifreiðinni hefði síðan tekið við akstri bifreiðarinnar, en konan sest í farþegasæti. Kvaðst vitnið hafa hringt til lögreglu og tilkynnt um atvikið, enda hefði hann ekki heldur verið viss um ástand mannsins.
Vitnið C kvaðst hafa setið á skrifstofu sinni í flugstöðinni, sem snúi út að bifreiðastæði. Vitnið kvaðst hafa heyrt hljóð frá bifreiðastæðinu og litið út um glugga. Hann hefði þá séð að maður fór út úr bifreið og virtist vera að skoða stuðara hennar. Þá hefði kona stigið út úr bifreiðinni ökumannsmegin og hefði fólkið rætt aðeins saman. Konan hefði síðan sest í farþegasætið og maðurinn ekið bifreiðinni á brott. Vitnið kvaðst hafa séð að konan hélt á flösku, sem líktist maltflösku.
Vitnið D var stödd á skrifstofu sinni við hlið skrifstofu vitnisins C. Hún kvaðst hafa heyrt hvell og gert sér grein fyrir að bifreið hefði verið ekið á eitthvað. Hún hefði séð út um glugga að maður var að skoða skemmdir á bifreið þar fyrir utan. Kona sem sat í ökumannssæti hefði síðan komið út úr bifreiðinni, sest í farþegasætið og hefði maðurinn ekið á brott.
Lögreglumennirnir Dóra Birna Kristinsdóttir og Árni Gunnar Ragnarsson stöðvuðu akstur bifreiðarinnar á Suðurgötu í umrætt sinn. Vitnin báru að aðeins nokkrar mínútur hefðu liðið frá því tilkynning barst um hugsanlega ölvaðan ökumann við flugstöðina þar til bifreiðin var stöðvuð. Hefði kona sem var farþegi í bifreiðinni verið áberandi ölvuð. Þá kom fram hjá vitnunum að bifreiðin hefði ekki verið skoðuð sérstaklega og hefði ekki verið leitað eftir áfengisumbúðum í henni.
Vitnið Þorgeir Albert Elíesersson lögregluvarðstjóri kvaðst hafa rætt við vitni í flugstöðinni eftir að tilkynning barst um ölvaðan ökumann og síðan tekið við málinu á lögreglustöðinni. Hann kvað tvö blóðsýni hafa verið tekin úr ákærðu til alkóhólmælingar þar sem hún hefði neitað að láta í té þvagsýni.
Vitnið Kristín Magnúsdóttir, deildarstjóri Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, gerði grein fyrir niðurstöðum rannsóknar á tveimur blóðsýnum, sem tekin voru úr ákærðu á lögreglustöð klukkan 11:53 og 13:06 þennan dag, en samkvæmt greinargerð rannsóknastofunnar mældist 1,50 alkóhóls í fyrra sýninu, en 1,20 í því síðara, að teknu tilliti til vikmarka. Vitnið kvað niðurstöðu mælinganna sýna að styrkur etanóls í blóði hefði náð hámarki og verið fallandi er síðara sýnið var tekið. Hún kvað ólíklegt að jafnhár styrkur og mældist í fyrra sýninu hefði náðst ef áfengisdrykkja hefði hafist um klukkustund áður en sýnið var tekið. Taldi vitnið jafnframt að hærra magn etanóls hefði mælst í síðara sýninu ef svo hefði verið. Vitnið tók þó fram að útreikningar hefðu getað orðið nákvæmari ef þvagsýni hefði legið fyrir.
Niðurstaða
Ákærða neitar sök í málinu og hafnar því að hafa verið undir áhrifum áfengis er hún ók bifreiðinni í umrætt sinn.
Framburður ákærðu um atvik málsins hefur ekki verið stöðugur að öllu leyti. Þannig bar ákærða við yfirheyrslu hjá lögreglu að bifreiðin hefði rekist utan í járngrindina þegar hún ók inn í bifreiðastæðið. Hún hefði eftir þetta farið inn í flugstöðina, keypt þar áfengi og drukkið eitthvað af því þar inni. Við aðalmeðferð málsins kvað ákærða það hafa rifjast upp fyrir sér að hún hefði ekið á járngrindina eftir að hún kom út úr flugstöðinni og hún kannaðist ekki við að hafa neytt áfengis þar inni.
Vitnið A, sem sat við hlið ákærðu í bifreiðinni, kvaðst ekki hafa orðið var við að hún neytti áfengis er þau óku frá flugstöðinni. Vitnið, sem er eigandi bifreiðarinnar, kannaðist heldur ekki við að vodkapeli hefði verið í aftursæti bifreiðarinnar, svo sem ákærða bar við aðalmeðferð málsins. Framburður vitnisins var afdráttarlaus að þessu leyti og þykir ekki draga úr vægi hans þótt fram hafi komið hjá honum að minni hans væri ekki jafngott sem fyrr. Vitnið B kvað ákærðu sjáanlega hafa verið undir áhrifum áfengis er hún kom inn í flugstöðina og kvaðst hann þess vegna hafa gert lögreglu viðvart um aksturinn, auk þess sem hann hefði verið óviss um ástand mannsins sem tók við akstri bifreiðarinnar. Þá báru lögreglumennirnir Dóra Birna Kristinsdóttir og Árni Gunnar Ragnarsson að ákærða hefði verið áberandi ölvuð er þau höfðu afskipti af henni, en óumdeilt er að lögreglumennirnir stöðvuðu bifreiðina aðeins nokkrum mínútum eftir að henni var ekið frá flugstöðinni. Loks er að líta til vitnisburðar Kristínar Magnúsdóttur deildarstjóra Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, sem taldi ólíklegt að styrkur etanóls sem mældist í fyrra blóðsýni hefði náðst ef drykkja áfengis hefði hafist á þeim tíma sem ákærða hefur borið, auk þess sem vitnið taldi að hærra magn etanóls hefði þá mælst í síðara sýninu.
Samkvæmt framansögðu hefur framburður ákærðu verið nokkuð misvísandi, auk þess sem lýsingar hennar á áfengisneyslu í umrætt sinn eru að verulegu leyti í ósamræmi við framburð vitna og niðurstöður alkóhólmælingar í blóðsýnum. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið þykir frásögn ákærðu um að hún hafi byrjað að neyta áfengis eftir að hún lét af akstri bifreiðarinnar ótrúverðug og verður hún ekki lögð til grundvallar í málinu. Þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærða hafi verið undir áhrifum áfengis er hún ók bifreiðinni úr bifreiðastæði við Reykjavíkurflugvöll, sem í ákæru greinir. Verður ákærða sakfelld fyrir þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru og er háttsemin þar rétt færð til refsiákvæða.
Ákærða er fædd árið 1957. Samkvæmt sakavottorði er ölvunarakstursbrot hennar ítrekað öðru sinni. Þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.
Ákærða er svipt ökurétti ævilangt frá uppkvaðningu dómsins að telja.
Ákærða greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hrl., 188.250 krónur, og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Magnúsar Jónssonar hdl., 37.650 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærða greiði 42.934 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Dagmar Ösp Vésteinsdóttir aðstoðarsaksóknari.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærða, Jónína Benediktsdóttir, sæti fangelsi í 30 daga.
Ákærða er svipt ökurétti ævilangt frá dómsuppkvaðningu að telja.
Ákærða greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hrl., 188.250 krónur, og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Magnúsar Jónssonar hdl., 37.650 krónur. Ákærða greiði 42.934 krónur í annan sakarkostnað.