Hæstiréttur íslands

Mál nr. 86/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæra
  • Frávísun frá Hæstarétti


Miðvikudaginn 25

 

Miðvikudaginn 25. febrúar 2009.

Nr. 86/2009.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hdl.)

 

Kærumál. Kæra. Frávísun máls frá Hæstarétti.

 

Í kæru X til Hæstaréttar voru ekki uppfyllt skilyrði í ákvæði 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. febrúar 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. febrúar 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess í greinargerð til Hæstaréttar að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar á dómþingi 20. febrúar 2009 var bókað eftir varnaraðila, að viðstöddum verjanda hans, að hann kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Ekki var bókað í þingbókina í hvaða skyni kært væri svo sem áskilið er í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Úr þessum annmarka var ekki bætt með skriflegri kæru til héraðsdóms innan kærufrests svo sem unnt hefði verið, sbr. sama lagaákvæði. Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. febrúar 2009.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess fyrir dóminum, að X kt. [...], með lögheimili að [...], Reykjavík, en dvalarstað að [...], Reykjavík, verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. febrúar 2009, kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að þann 19. febrúar sl. um kl. 15:16 hafi lögregla fengið tilkynningu um að maður hefði verið numinn á brott af heimili sínu með valdi frá Y í Keflavík og að árásarmennirnir hefðu verið á bifreiðinni Z. Þegar lögreglu hafi borið að í Y hafi augljóslega mikið gegnið þar á, munir hafi verið á víð og dreif og sumir þeirra skemmdir eða brotnir. Hafi í upphafi málsins komið upp rökstuddur grunur um að brotthvarf hins ætlaða brotaþola tengdist innheimtu á gamalli skuld hans vegna ætlaðra fíkniefnakaupa. Hefðu þessar upplýsingar verið kallaðar út til lögreglumanna og í kjölfarið hafi bifreiðin Z verið stöðvuð við Kleppsveg í Reykjavík. Við athugun hafi komið í ljós að kærði var farþegi í bifreiðinni og hefði hann verið annar þeirra sem numið höfðu ætlaðan brotaþola á brott umrætt sinn. Hefði hinn ætlaði brotaþoli verið með áverka á höfði og víðar um líkamann.

Samkvæmt greinargerð lögreglu er einnig til rannsóknar annað mál, sambærilegt þessu, þar sem annar ætlaður brotaþoli mun hafa verið numinn á brott frá heimili sínu aðfaranótt 1. febrúar sl. og orðið fyrir hrottalegri líkamsárás. Mun hinn ætlaði brotaþoli hafa borið kennsl á meðkærða kærða frá 19. febrúar sl. en með meðkærða hefðu verið nokkrir hettuklæddir menn sem hinn ætlaði brotaþoli þekkti ekki. Gruni lögreglu að kærði kunni að tengjast því máli.

Lögregla kveður rannsókn framangreindra mála vera á frumstigi en það er ætlun hennar að fleiri kunni að tengjast hinum ætluðu ólöglegu innheimtum og þeim frelsissviptingum sem brotaþolar munu hafa orðið fyrir. Meðal þess, sem rannsaka þurfi, séu því tengsl kærða við hugsanlega vitorðsmenn og aðild meðkærða að málunum. Ætlaðar árásir og frelsissviptingar séu mjög alvarlegar og framdar í ávinningsskyni. Sé það því mat lögreglu að hin ætlaða háttsemi kærða kunni að varða við ákvæði 2. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæða 106., 218., 231., 233. 244. og 257. gr. sömu laga auk ákvæða laga nr. 65/2974 um ávana- og fíkniefni. Ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málanna og hafa áhrif á samseka gangi hann laus.

Þess er krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 auk þess sem honum verði gert að sæta takmörkunum samkvæmt e- og f-liðum 1. mgr. sömu greinar.

Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 2. mgr. 226. gr., auk ákvæða 106., 218., 231., 233., 244. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/ 1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. febrúar 2009 kl. 16.00.

Eins og rakið hefur verið var kærði handtekinn í gær, fimmtudaginn 19. febrúar. Að framanrituðu og rannsóknargögnum málsins virtum, er fallist á það með lögreglu að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varða fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi og haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, komið sönnunargögnum undan eða haft áhrif á framburð vitorðsmanna eða vitna. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fallist á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá verður með sömu rökum og rakin eru hér að framan og vísan til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sakamálalaga fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun á meðan hann sætir gæsluvarðhaldi samkvæmt úrskurði þessum.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. febrúar 2009 kl. 16:00.

Kærði skal sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu.