Hæstiréttur íslands

Mál nr. 87/2013


Lykilorð

  • Fjárdráttur
  • Fjármögnunarleiga


                                                        

Fimmtudaginn 12. september 2013.

 

Nr. 87/2013.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson

vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

(Árni Ármann Árnason hrl. f.h. brotaþola)

Fjárdráttur. Fjármögnunarleiga.

X var ákærður fyrir fjárdrátt í félagi við annan mann með því að hafa sem framkvæmdastjóri H hf. dregið félaginu gólfhreinsivélar sem voru í eigu L hf., en félagið hafði selt vélarnar án heimildar L hf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að bæði X og meðákærði hefðu borið svo við að sá síðarnefndi hefði einn komið að samningum um leigu og sölu á vélunum án nokkurrar vitneskju X og samrýmdist sú frásögn skjallegum gögnum málsins. Var því ekki talið nægilega fram komið að X hefði átt hlut að máli við sölu vélanna og var sök hans því ekki sönnuð. Var X sýknaður af kröfu ákæruvaldsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. janúar 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en að því frágengnu að refsing verði felld niður eða milduð. Þá krefst hann þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara sýknu af henni.

Lýsing hf. krefst þess að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína og málskostnað. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var ákærði framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins H. Fólst starfsemi félagsins einkum í að kaupa inn hreinsivélar frá útlöndum til endursölu hér á landi, en ekki liggja fyrir gögn um umfang starfseminnar að öðru leyti. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 19. desember 2008. Vegna þeirra fjögurra hreinsivéla sem greinir í ákæru gerði H ehf. fjármögnunarleigusamning við Lýsingu hf. Félagið fékk þannig fjármögnun til að standa straum af innflutningi vélanna sem miðað var við að gerð yrði upp við sölu þeirra. Fyrir liggur að þær þrjár hreinsivélar sem ákæra tekur endanlega til voru seldar meðan þær voru enn í eigu Lýsingar hf. samkvæmt framangreindum fjármögnunarleigusamningi. Samkvæmt gögnum málsins var vél sem greind er undir lið 2 í ákæru seld J ehf. 19. október 2007, vél samkvæmt lið 3 í ákæru SP hf. 16. janúar 2008 og vél samkvæmt lið nr. 4 í ákæru S hf. 2. maí 2008.

Röksemdir ákærða fyrir aðalkröfu sinni um frávísun máls frá héraðsdómi lúta að því að ákæra sé ekki nægilega nákvæm um fjárhæðir einkum með tilliti til tjóns Lýsingar hf. og um fjárhagsleg samskipti H ehf. við það félag. Rök þessi eru haldlaus og verður kröfunni hafnað.

Bæði ákærði og meðákærði í héraði lýstu því við meðferð málsins þar að sá síðarnefndi hefði einn komið að málum hvað varðar samninga um leigu og sölu á þessum tilgreindu þremur vélum með þeim hætti sem að framan greinir. Hafi hann gert það án nokkurrar vitneskju ákærða en andvirði vélanna hafi runnið til félagsins líkt og andvirði annarra véla sem seldar voru á þess vegum. Samrýmist þessi frásögn þeirra skjallegum gögnum málsins um leigu og sölu vélanna. Eins og hér háttar til er ekki nægilega fram komið að ákærði hafi átt hlut að máli við sölu á þeim tilgreindu vélum sem saksóknin lýtur að. Er sök hans því ekki sönnuð og verður hann sýknaður af kröfu ákæruvaldsins og einkaréttarkröfu á hendur honum vísað frá héraðsdómi.

Allur sakarkostnaður hvað ákærða varðar eins og hann var ákveðinn í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af refsikröfu ákæruvaldsins.

Einkaréttarkröfu Lýsingar hf. á hendur ákærða er vísað frá héraðsdómi.

Allur sakarkostnaður í héraði hvað ákærða varðar greiðist úr ríkissjóði sem og áfrýjunarkostnaður málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hjörleifs Kvaran hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2012.

      Mál þetta, sem dómtekið var 23. nóvember sl., er höfðað af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með ákæru dagsettri 3. júlí 2012 á hendur A, kt. [...]-[...], [...], [...], og X, kt. [...]-[...], [...], [...] fyrir eftirtalið brot:

Fyrir fjárdrátt á tímabilinu 12. febrúar 2007 til 17. september 2009 með því að hafa í sameiningu sem eigendur og daglegir stjórnendur einkahlutafélagsins H, kt. [...]-[...], ákærði A sem stjórnarformaður og ákærði X sem framkvæmdastjóri, dregið H hf. fjórar gólfþvottavélar af gerðinni Factory Cat, sem voru í eigu Lýsingar hf., kt. [...]-[...], en H ehf. hafði umráð yfir samkvæmt fjármögnunarleigusamning við Lýsingu hf. Ákærðu seldu golfþvottavélarnar og nýttu andvirðið til reksturs H hf. Tilvikin sundurliðast sem hér segir:

Tilvik                              Tegund vélar og raðnúmer                            Kaupverð m. vsk..  

1                            Mini Magnum 20“  170-20FD  (46346)                           314.681                          

2                            Mini Magnum 24“  170-24FC  (46345)                           392.352                          

3                            253 27“ Cylindrical 250-28FC (46374)                                           751.955                                        

4                            253 Magnum 30“ 253-30 FC    (46313)                                          529.261                                        

                                                                  Samtals:          kr. 1.988.249                               

Er talið að brot þetta varði við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Er þess krafist að ákærðu verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu Lýsingar hf. er þess krafist að ákærðu verði dæmdir in solidum til að greiða skaðabætur að fjárhæð 836.784 krónur auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. desember 2008 til 30. nóvember 2011 en dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. s.l. frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærðu neita sök. Af hálfu verjenda ákærðu er krafist sýknu og þess að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

Af hálfu ákæruvalds hefur verið fallið frá tilviki nr. 1 í ákæru.

Með bréfi 25. janúar 2010 var af hálfu Lýsingar hf. lögð fram kæra hjá lögreglu á hendur ákærðu fyrir ætlað brot gegn XXVI. kafla laga nr. 19/1940. Í kærunni er því lýst að gerður hafi verið fjármögnunarleigusamningur á milli Lýsingar hf. og H ehf. 12. febrúar 2007. Samningurinn hafi gert ráð fyrir að Lýsing hf. myndi kaupa tilgreindar hreinsivélar af H ehf. og leigja fyrirtækinu vélarnar aftur. H ehf. hafi verið teknar til gjaldþrotaskipta 19. desember 2008 og hafi Lýsing hf. þá rift umræddum fjármögnunarleigusamningum og krafist afhendingar á vélunum. Óskað hafi verið eftir liðsinni skiptastjóra þrotabúsins til að fá vélarnar afhentar en með bréfi 24. september 2009 hafi skiptastjóri upplýst að í skýrslu sem hann hafi tekið af ákærða, A, fyrirsvarsmanni hins gjaldþrota félags, að umræddar vélar hafi verið seldar.

Með bréfi Lýsingar hf. fylgdi afrit af fjármögnunarleigusamningi Lýsingar hf. sem leigusala og H ehf. sem leigutaka, frá 12. febrúar 2007. Samkvæmt samningi er hið leigða 5 Factory Cat hreinsivélar. Er grunnleigutími frá 20. mars 2007 til 19. mars 2011. Í 15. gr. samningsins er meðal annars tekið fram að Lýsing hf. sé eigandi hins leigða. Sé leigutaka óheimilt að stofna til hvers kyns löggerninga um hið leigða. Þá megi leigutaki ekki veita öðrum aðila afnot af hinu leigða, né afhenda það með öðrum hætti, nema með samþykki Lýsingar hf. Þá er tekið fram í 29. gr. samningsins að sé samningi sagt upp eða honum rift skuli leigutaki tafarlaust skila hinu leigða á þann stað er Lýsing hf. tilgreini. Undir samning þennan ritar ákærði, A, fyrir hönd H ehf.

Samkvæmt yfirliti úr hlutafélagaskrá var ákærði, X, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður H ehf. samkvæmt fundi í félaginu 10. júlí 2006. Þá var ákærði, A, stjórnarformaður félagsins. Ákærðu voru báðir skráðir með prókúru fyrir félagið. Samkvæmt yfirlitinu var félagið úrskurðað gjaldþrota 19. desember 2008.

Ákærði, A, hefur greint svo frá að hann hafi starfað sem stjórnarformaður og fjármálastjóri H ehf. á því tímabili sem ákæra taki til. Ákærðu hafi keypt félagið í ágúst 2006 og verið tveir eigendur að hlutafé þess. Ákærðu hafi skipt með sér störfum, en í því hafi falist að þeir hafi skipt umboðum á milli sín. Starfsemi félagsins hafi falist í því að kaupa inn hreinsivélar frá útlöndum til endursölu hér á landi. Reksturinn hafi gengið vel í fyrstu. Síðan hafi rekstrarumhverfið orðið erfiðara og undir lokin hafi ákærði verið kominn í aðra vinnu samhliða því að starfa fyrir H ehf. þar sem reksturinn hafi ekki borið að ákærðu væru báðir á launum hjá fyrirtækinu. Meðákærði hafi ekki haft neinar fjárreiður tengdar rekstri félagsins með höndum. Á árinu 2007 hafi staða félagsins verið þannig að félagið hafi verið með lán í þremur bönkum. Ekki hafi frekari fyrirgreiðslu verið að fá og ákærðu velt upp möguleikum á því hvernig þeir gætu fengið fjármuni inn í reksturinn. Ákærði kvaðst hafa þekkt B, sem hafi verið starfsmaður hjá Lýsingu hf. Í tal hafi borist fjármögnun og ákærði lýst því að ákærðu væru að leita eftir nokkurs konar brúarláni, þ.e. að fá fjármagn til að leysa til sín vélar sem yrðu síðan endurseldar. B hafi nefnt það að Lýsing hf. gæti komið að því að lána fjármuni til rekstursins. Í framhaldi hafi verið útbúinn fjármögnunarleigusamningur frá 12. febrúar 2007. Kvaðst ákærði hafa undirritað samninginn fyrir hönd H ehf. Síðan hafi verið ætlunin að fjármögnunarleigusamningurinn yrði gerður upp um leið og vélarnar yrðu seldar. Ein vél af þeim fimm sem samningurinn hafi hljóðað um hafi verið seld og andvirðið runnið til Lýsingar hf. Greitt hafi verið af samningnum lengi vel. Eftir það hafi farið að halla verulega undan fæti, en í nóvember 2007 hafi viðskiptabankar farið að halda að sér höndum. Í upphafi árs 2008 hafi krónan staðið höllum fæti og síðan hafi hið svonefnda bankahrun orðið í október 2008. Hafi ákærðu verið með mörg tæki í sölu á þessu tímabili. Hafi ákærðu selt aðrar vélar samkvæmt rekstrarleigusamningnum og söluandvirðið runnið inn í rekstur H ehf. Meðákærði hafi vitað af stöðu mála, þ.e. hvernig rekstrinum væri háttað, en þeir hafi staðið sameiginlega að rekstrinum. Hafi meðákærði því sennilega vitað að fjármunir sem komið hafi inn fyrir sölu vélanna hafi runnið inn í reksturinn. Fjárþurrð hafi leitt til þess að peningum hafi ekki verið skilað til Lýsingar hf. í samræmi við fjármögnunarleigusamninginn. 

Ákærði, X, kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri H ehf. á þessum tíma. Hafi hann meira séð um tæknimál félagsins, svo sem viðgerðir og þjónustu og samskipti við útlenda aðila og innlenda tengt innflutningi tækja. Ákærði kvaðst muna er þær vélar hafi verið fluttar til landsins sem fram komi í ákæru og að gerður hafi verið samningur við Lýsingu hf. vegna fjármögnunar á þeim. Ákærði kvaðst hafa vitað um bága stöðu fyrirtækisins er hreinsivélarnar hafi verið seldar. Meðákærði hafi komið að því að sjá um fjármögnun þessara véla. Velta hafi verið lítil og undir lokin hafi ákærðu verið hættir að greiða sjálfum sér laun. Ákærði kvaðst hafa vitað um ábyrgð sína á rekstrinum sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í félaginu. Hafi ákærðu rætt saman um fjármál félagsins á meðan á rekstri hafi staðið.

B kvaðst hafa þekkt ákærða, A. Hafi hann þekkt að H ehf. væru að flytja inn hreinsivélar frá útlöndum til sölu hér á landi. Hafi B einhverju sinni komið í fyrirtækið. Að beiðni ákærðu hafi Lýsing hf. gert fjármögnunarleigusamning við H ehf. Gengið hafi verið út frá því að Lýsing hf. myndi kaupa vélarnar og leigja þær aftur til H ehf. Í samræmi við ákvæði samningsins hafi verið greidd af honum leigugreiðsla. Fjármögnunarleigusamningar hafi verið eitt form eignaleigu. Unnt hafi verið að semja um að samningsaðili samkvæmt samningi myndi kaupa það tæki sem samningurinn væri um. Tíðkað hafi verið hjá innflutningsaðilum að nota slíka samninga. Engar aðrar tryggingar hafi verið teknar aðrar en í tækinu sjálfu. Þannig hafi verið lánað út á tækið sjálft ef um eignaleigufyrirtæki hafi verið að ræða eins og Lýsingu hf. Í fjármögnunarleigusamningi væru skýr ákvæði þess efnis að eignarréttur að viðkomandi tæki væri hjá eignaleigufyrirtækinu. Fyrirtæki sæju sér hag í því að fjármagna tæki með fjármögnunarleigusamningi því skattahagræði væri af því. Með því móti væri hægt að gjaldfæra leigugreiðslur en ekki þyrfti að eignfæra tækin. Unnt væri að selja eignir sem væru fjármagnaðar með þessum hætti en það væri háð samþykki leigusala hverju sinni. Í slíkum tilvikum væri samningurinn gerður upp. Ef samningurinn væri ekki gerður upp væri greitt reglulega af honum í samræmi við skilmála hans og í þann tíma er samningurinn héldi gildi sínu. Lýsing hf. hafi á þessum tíma einnig boðið kaupleigusamninga, sem væri annað form eignaleigu.  

Niðurstaða:

Ákærðu er gefið að sök fjárdráttur með því að hafa á tímabilinu 12. febrúar 2007 til 17. september 2009, dregið H ehf. gólfþvottavélar, sem voru í eigu Lýsingar hf. samkvæmt fjármögnunarleigusamningi, en H ehf höfðu umráð yfir þeim. Eftir breytingu á ákæru eru hreinsivélarnar nú þrjár. Samkvæmt ákæru hafi ákærðu nýtt söluandvirðið til reksturs H ehf. Ákærðu voru á þessum tíma eigendur og daglegir stjórnendur H ehf., ákærði, A, stjórnarformaður og ákærði, X, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður.

Í málinu liggur frammi í rannsóknargögnum fjármögnunarleigusamningur frá 12. febrúar 2007, sem ákærði, A, hefur undirritað fyrir hönd H ehf. Samkvæmt samningi er hið leigða 5 hreinsivélar af gerðinni Factory Cat. Leigusali er Lýsing hf. og leigutaki H ehf. Er fyrsta leigugreiðsla miðuð við 20. mars 2007 og síðasta leigugreiðsla miðuð við 19. mars 2011. Samkvæmt ákvæði 15. gr. samningsins er Lýsing hf. eigandi hins leigða og leigutaka óheimilt að stofna til hvers kyns löggerninga um hið leigða. Ákærðu hafa lýst því að fyrsta vélin hafi verið seld og söluandvirði runnið til Lýsingar hf. Ákærðu hafa viðurkennt að þrjár vélar hafi verið seldar án þess að heimild hafi komið til þess frá Lýsingu hf. Hafi söluandvirði þeirra véla runnið inn í daglegan rekstur H ehf. Reksturinn hafi þá verið orðinn mjög erfiður og félagið orðið gjaldþrota á árinu 2008.

Samkvæmt því er framan greinir seldu ákærðu hinar leigðu vélar án þess að fyrir lægi heimild frá eiganda vélanna, Lýsingu hf. Ákvæði fjármögnunarleigusamningsins eru afdráttarlaus um eignarrétt að hinu leigða. Fjármögnunarleigusamningar eru vel þekktir fjármálagerningar hér á landi. Bera þeir þau höfuðeinkenni að leigusali er eigandi hins leigða og umráð leiguhlutar hjá leigutaka. Liggur því ljóst fyrir frá upphafi hvernig eignarrétti að hinu leigða er háttað. Ákærðu voru báðir við störf í H ehf. er fjármögnunarleigusamningurinn var gerður og ritaði ákærði, A, undir samninginn. Ákærði, X, var þá framkvæmdastjóri félagsins og hafa ákærðu lýst því að þeir hafi reglulega rætt saman um fjárhagsstöðu félagsins. Fær ekki staðist að ákærðu hafi verið grunlausir um annað en að ráðstöfun vélanna, án heimildar frá eiganda þeirra, með sölu væri í beinni andstöðu við fjármögnunarleigusamninginn. Með ráðstöfunum sínum seldu ákærðu því hluti sem annar aðili var eigandi að. Fjármununum ráðstöfuðu þeir í kjölfarið í þágu H ehf. Með háttsemi sinni drógu ákærðu því H ehf. fjármuni sem ákærðu höfðu í vörslum sínum en Lýsing hf. var eigandi að. Er slík háttsemi fjárdráttur samkvæmt 1. mgr. 247. gr. laga nr. 19/1940. Verða ákærðu því sakfelldir samkvæmt ákæru og er háttsemi þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði, A, er fæddur í [...] árið [...]. Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, svo kunnugt sé. Ákærði, X, er fæddur í [...] árið [...]. Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði ekki heldur gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé. Með hliðsjón af sakarefni málsins er refsing ákærðu hvors um sig ákveðin fangelsi í 2 mánuði, sem í ljósi sakaferils heimilt þykir að skilorðsbinda með þeim hætti er í dómsorði greinir.

Af hálfu Lýsingar hf.  hefur verið krafist skaðabóta úr hendi ákærðu að fjárhæð 994.125 krónur, auk vaxta. Í skaðabótakröfunni er miðað við að Lýsing hf. hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna ætlaðra brota ákærðu. Þar sem vélarnar hafi horfið og séu ekki lengur tiltækar hafi Lýsing hf. orðið af umtalsverðum verðmætum. Kemur fram að ekki liggi fyrir verðmat á vélunum og hafi ekki verið unnt að afla slíks verðmats þar sem vélarnar hafi farið úr vörslu leigutaka. Miðar Lýsing hf. við að fjárhagslegt tjón félagsins nemi að lágmarki 50% af nývirði vélanna. Með því telji Lýsing hf. að sanngjarnt tillit hafi verið tekið til verðfalls á vélunum miðað við notkun þeirra og aldur. Miðist kröfugerðin við það og nemi 836.784 krónum auk vaxta. Ákærðu hafa mótmælt skaðabótakröfunni. Ákærðu hafa með saknæmri og ólögmætri háttsemi sinni valdið Lýsingu hf. tjóni, sem þeir bera skaðabótaábyrgð á. Verður að telja skaðabótakröfuna og útreikning hennar byggja á lögmætum grundvelli. Verður hún tekin til greina eins og hún er fram sett, ásamt vöxtum og málskostnaði, eins og í dómsorði greinir. Vextir miðast við þann dag er ákærðu bar að skila vélunum sem er gjaldþrot Hreinsivéla ehf. og dráttarvextir við þingfestingu málsins fyrir dómi.   

Ákærðu greiði málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, svo sem í dómsorði er mælt fyrir um. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. 

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp þennan dóm.

                                                                                  D ó m s o r ð :

                Ákærðu, A og X, sæti hvor um sig fangelsi í 2 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar beggja ákærðu og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærðu hvor um sig almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærðu greiði sameiginlega Lýsingu hf. 836.784 krónur í skaða­bætur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 19. desember 2008 til 5. september 2012, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Ákærðu greiði sameiginlega Lýsingu hf.  80.000 krónur í málskostnað.

Ákærði, A, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hjörleifs Kvaran hæstaréttarlögmanns, 564.750 krónur.

Ákærði, X, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Davíðs Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, 564.750 krónur