Hæstiréttur íslands
Mál nr. 536/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Þriðjudaginn 22. september 2009. |
|
Nr. 536/2009. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Vitni.
X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu ákæruvaldsins um að heimilt yrði að leggja fram vottorð starfsmanns Stígamóta, og að leiða hana sem vitni í málinu til að staðfesta vottorðið. Féllst héraðsdómur á framangreindar kröfur eftir upphaf aðalmeðferðar málsins. Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að ákæruvaldinu yrði heimilt að leiða tilgreint vitni í málinu til staðfestingar á vottorðinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. september 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 14. september 2009, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að heimilt væri að leggja fram vottorð Þórunnar Þórarinsdóttur 9. september 2009 og að heimilt væri að leiða hana sem vitni í málinu til að staðfesta vottorðið. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um að Þórunn Þórarinsdóttir verði leidd fyrir dóm sem vitni verði hafnað.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Varnaraðili er ákærður fyrir kynferðisbrot gegn A, sem leitar einnig dóms um skaðabótakröfu á hendur honum. Ef til þess kemur að varnaraðili verði fundinn sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök ber dómara að taka afstöðu til afleiðinga brots bæði hvað varðar ákvörðun refsingar, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og skaðabóta. Það verður því ekki talið að 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 heimili dómara að meina sóknaraðila að leiða vitnið. Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um það ágreiningsefni sem liggur fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um að Þórunn Þórarinsdóttir verði leidd sem vitni til að staðfesta vottorð.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 14. september 2009.
Mál þetta var höfðað hinn 28. maí 2009 með ákæru ríkissaksóknara á hendur X, fæddum [...], til heimilis að [...],
„fyrir kynferðisbrot gegn stjúpsystur sinni A, fæddri [...], með því að hafa á tímabilinu frá því haustið 1999 þar til í október 2003, á heimili stúlkunnar að [...], allt að 40 sinnum haft munnmök við hana og káfað á kynfærum hennar innan og utan klæða auk þess sem ákærði lét stúlkuna hafa einu sinni við sig munnmök.
Telst þetta varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/2003 og 11. gr. laga nr. 61/2007.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkarfa:
Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 1.299.600 ásamt dráttarvöxtum á höfuðstól kröfunnar frá 6. desember 2007 til greiðsludags.”
Mál þetta var þingfest í dag en vegna búsetu ákærða erlendis var ákveðið að aðalmeðferð málsins færi fram í beinu framhaldi af þingfestingunni. Sækjandi sendi 4. þessa mánaðar dómurum og verjanda og réttargæslumanni lista yfir þau vitni sem hann ætlaði að kveðja fyrir dóminn í dag. Síðastliðinn föstudag sendi hann síðan með tölvupósti til sömu aðila vottorð Þórunnar Þórarinsdóttur ráðgjafa hjá Stígamótum og tilkynnti að hún hafi verið boðuð fyrir dóminn til skýrslugjafar. Verjandi lýsti, með tölvupósti sama dag, þeirri skoðun sinni að vottorðið ætti ekki erindi í málið og taldi að nefnd Þórunn gæti ekki talist vitni í málinu.
Í dag þegar málið var þingfest óskaði sækjandi eftir að leggja fram vottorð Þórunnar en verjandi mótmælti framlagningu vottorðsins. Þá þegar gaf dómari sækjanda og verjanda kost á að tjá sig um framlagningu skjalsins og jafnframt hvort rétt væri að leiða Þórunni Þórarinsdóttur fyrir dóminn sem vitni og er þessi ágreiningur hér til úrlausnar.
Af vottorði Þórunnar má ráða að brotaþoli hafi verið hjá henni í einstaklingsviðtölum frá því í janúar 2007 til júní 2008, fyrst vikulega og síðar á tveggja vikna fresti. Í viðtölunum hafi þær farið yfir sögu brotaþola og afleiðingar kynferðisofbeldisins sem hún hafi orðið fyrir.
Hér háttar svo til að málsatvik eru um flest mjög lík og í Hæstaréttarmáli nr. 146/2009 en með þeim dómi staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms. Í dómi héraðsdóms kemur m.a. fram að löng dómaframkvæmd sé fyrir því í kynferðisbrotamálum að lögð séu fram vottorð sálfræðinga og annarra sérfræðinga sem haft hafa brotaþola til meðferðar vegna afleiðinga meintra kynferðisbrota. Hafa slíkir sérfræðingar þá í flestum tilfellum gefið vitnaskýrslur varðandi það sem fram kemur í vottorði þeirra. Hafa gögn þessi verið talin nauðsynlegur og eðlilegur þáttur í að upplýsa um afleiðingar hins meinta brots fyrir brotaþola og jafnvel til þeirra litið við mat á sök eða sakleysi ákærða. Fjölmörg dæmi séu um að slík vottorð hafi verið lögð fram undir rekstri máls, allt til aðalmeðferðar þess, auk þess sem dæmi séu um framlagningu slíkra vottorða fyrir Hæstarétti án þess að það hafi áður verið lagt fram í héraði. Í dómi héraðsdóms er einnig rakið að af nýjum lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008 verði ekki ráðið að ætlun löggjafans hafi verið að breyta einhverju hvað þetta varðar frá eldri löggjöf eða réttarframkvæmd. Meginreglan sé sem fyrr sú að sönnunarmat dómara sér frjálst og gert ráð fyrir að einnig verði að horfa til óbeinna sönnunargangna, sbr. 1. og 2. mgr. 109. gr. laga 88/2008. Þá er sem fyrr á því byggt að leggja skuli megináherslu á að leiða hið sanna í ljós í hverju máli og að sækjandi og dómari hafi ríkar skyldur í því efni. Í 2. mgr. 171. gr. komi skýrt fram að ekki skipti máli hvenær sönnunargöng koma fram undir rekstri máls og skv. 168. gr. geti það jafnvel gerst eftir að mál er dómtekið. Loks verði ekki séð af athugasemdum með 1. mgr. 116. gr., þrátt fyrir orðalagsbreytingu frá samsvarandi ákvæði eldri laga, að ætlun löggjafans hafi verið að breyta einhverju í þeirri framkvæmd sem að framan er rakin varðandi skýrslugjöf sérfræðinga sem fyrir dómi sem hafa komið að meðferð viðkomandi brotaþola.
Öll framangreind sjónarmið eiga við í þessu máli. Í raun er eini munurinn milli málanna sá að ekkert liggur fyrir um menntun Þórunnar Þórarinsdóttur en í nefndu Hæstaréttarmáli nr. 146/2009 var deilt um hvort leiða ætti sem vitni sálfræðing sem stundað hafði brotaþola í því máli. Óumdeilt er að starfsmenn Stígamóta hafa í mörg ár aðstoðað þolendur kynferðisbrota m.a. með viðtalsmeðferð eins og ætla má að átt hafi sér stað í þessu tilviki en af vottorði Þórunnar verður ráðið að hún hafi í allmörg skipti átt viðtöl við brotaþola vegna hinna meintu kynferðisbrota. Upplýsingar um menntun og reynslu Þórunnar munu koma fram þegar hún gefur skýrslu fyrir dóminum og munu dómendur sem endranær m.a. horfa til þeirra þátta þegar mat verður lagt á framburð hennar. Með hliðsjón af því sem að farman er rakið svo og því að brotaþoli leitar dóms um skaðabótakröfu á hendur ákærða vegna afleiðinga meintra brota er fallist á kröfu ákæruvalds um að vottorð Þórunnar Þórarinsdóttur verði lagt fram í málinu og þá er og fallist á að hún skuli koma fyrir dóminn sem vitni til staðfestingar á vottorðinu.
Halldór Halldórsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Fallist er á kröfu ákæruvalds, annars vegar um að sækjanda sé heimilt að leggja fram vottorð Þórunnar Þórarinsdóttur, dagsett 9. september 2009, og hins vegar að heimilt verði að leiða hana sem vitni fyrir dóminn til að staðfesta vottorðið.