Hæstiréttur íslands
Mál nr. 717/2009
Lykilorð
- Þjófnaður
- Umferðarlagabrot
- Ölvunarakstur
- Akstur án ökuréttar
- Ökuréttarsvipting
- Ítrekun
|
|
Þriðjudaginn 30. mars 2010. |
|
Nr. 717/2009. |
Ákæruvaldið (Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn Friðriki Halldóri Kristjánssyni (Brynjar Níelsson hrl.) |
Þjófnaður. Umferðarlagabrot. Ölvunarakstur. Akstur án ökuréttar. Ökuréttarsvipting. Ítrekun.
F var sakfelldur fyrir þjófnað með því að hafa brotist inn á skemmtistað og stolið þaðan sjö flöskum af sterku áfengi og svartri leðurtösku með 120 geisladiskum. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot með því að hafa í heimildarleysi tekið bifreið og ekið henni, undir áhrifum áfengis, sviptur ökurétti og án þess að hafa öðlast ökuréttindi, uns lögregla stöðvaði aksturinn. Voru brotin talin varða við 244. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk umferðarlaga nr. 50/1987. F átti talsverðan sakaferil að baki og hafði dómur frá 2006 ítrekunaráhrif á brot hans. Við ákvörðun refsingar var litið til sakaferils F og þess að hann hefði játað brot sín greiðlega og gripið til aðgerða til að vinna bug á áfengis- og vímuefnavanda sínum. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin 9 mánaða fangelsi. Að virtum sakaferli F voru engin efni til að skilorðsbinda refsinguna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. nóvember 2009 og krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og höfð óskilorðsbundin, svo og að staðfest verði ævilöng svipting ökuréttar ákærða.
Ákærði krefst þess aðallega að refsing verði milduð en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.
Farið var með mál þetta í héraði sem játningarmál samkvæmt 164. gr., sbr. 3. mgr. 183. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða. Eins og þar kemur fram á ákærði talsverðan sakaferil að baki og hefur hann frá árinu 1999 sex sinnum hlotið refsidóm fyrir ölvunarakstur, tvisvar fyrir að aka án þess að hafa öðlast ökuréttindi og fjórum sinnum fyrir akstur sviptur ökurétti, síðast 22. desember 2006. Með þeim dómi hlaut hann 14 mánaða fangelsi og var sviptur ökurétti ævilangt fyrir ölvun og réttindaleysi við akstur, en jafnframt var tekin upp og dæmd með 10 mánaða skilorðsbundin fangelsisrefsing til tveggja ára, sem hann hlaut með dómi 9. maí 2006 fyrir skjalafals. Þá hefur ákærði auk þess margsinnis verið dæmdur fyrir ýmis hegningarlagabrot, þar af tvisvar fyrir þjófnað, síðast 6. febrúar 2006, en með þeim dómi hlaut ákærði 9 mánaða fangelsi, þar af 6 mánuði skilorðsbundið. Brot ákærða, sem hér er fjallað um, voru framin 18. apríl 2009 og hefur dómurinn frá 6. febrúar 2006 ítrekunaráhrif á brot ákærða vegna hins óskilorðsbundna hluta dómsins.
Með hliðsjón af sakaferli ákærða og vísan til forsendna héraðsdóms um refsingu hans er hún hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, en að virtum sakaferli hans eru engin efni til að skilorðsbinda refsinguna.
Ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu ákærða og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Friðrik Halldór Kristjánsson, sæti fangelsi í 9 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu ákærða og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 228.264 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 26. október 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 20. október sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Seyðisfirði, útgefinni 28. september 2009, á hendur Friðriki Halldóri Kristjánssyni, kt. 010880-2979, Tjarnarbraut 17, Egilsstöðum, og Alfreði Karli Behrend, kt. 040486-2919, Bjarnahóli 2, Höfn í Hornafirði,
„I.
á hendur ákærðu báðum fyrir þjófnað, með því að hafa, í félagi, aðfaranótt laugardagsins 18. apríl 2009, brotist inn á skemmtistaðinn Thai thai, við Kaupvang 2 á Egilsstöðum, með því að brjóta rúðu í glugga á austurhlið hússins og stela þaðan 7 flöskum af sterku áfengi, samtals að verðmæti um 28.571 krónur og svartri leðurtösku með 120 stk. af geisladiskum.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
á hendur ákærða Friðriki fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot á Fljótsdalshéraði, með því að hafa laugardagsmorguninn 18. apríl 2009, í heimildarleysi tekið bifreiðina NA-389 og ekið henni, undir áhrifum áfengis og án þess að hafa öðlast ökuréttindi, eftir Tjarnarbraut á Egilsstöðum, um Fagradalsbraut og til norðurs um Þjóðveg nr. 1, uns lögreglan stöðvaði aksturinn við Heiðarenda. Vínandamagn í blóði kærða mældist 1,65 nefnt sinn.
Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og ákærði Friðrik verði auk þess dæmdur til sviptingar réttar til að öðlast ökuskírteini skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 5071987, sbr. breytingarlög.“
Með framhaldsákæru, sem lögð var fram við þingfestingu málsins 6. október sl., krafðist lögreglustjórinn á Seyðisfirði þess að II. lið ákæru málsins yrði breytt þannig að í stað orðanna „án þess að hafa öðlast ökuréttindi“ komi „sviptur ökurétti“.
Þáttur ákærða, Friðriks Halldórs Kristjánssonar, var klofinn frá við þingfestingu málsins 6. október sl. og verður dæmt um þátt meðákærða sérstaklega á upphaflegu málsnúmeri, S-107/2009. Er hér einungis til umfjöllunar þáttur ákærða Friðriks Halldórs.
Ákærði játaði brot sín skýlaust fyrir dóminum eins og þeim er lýst í framangreindri ákæru, með þeirri breytingu sem gerð var með framhaldsákærunni, og var málið því þegar tekið til dóms samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, eftir að ákærði sjálfur og fulltrúi ákæruvalds höfðu tjáð sig stuttlega um ákvörðun viðurlaga. Með játningu ákærða, sem fær fulla stoð í gögnum málsins, telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um þau brot sem lýst er í ákæru, með þeirri breytingu sem gerð var með framhaldsákærunni, og sem þar eru rétt heimfærð til refsiákvæða. Telur dómurinn skilyrði uppfyllt fyrir útgáfu framhaldsákærunnar, sbr. 1. mgr. 153. gr. laga nr. 88/2008, enda mátti ákærða, sem er sviptur ökurétti ævilangt, vera villan ljós.
Ákærði á töluverðan sakaferil að baki. Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærði frá árinu 1999 sex sinnum fengið dóm fyrir ölvunarakstur og auk þess sex sinnum verið dæmdur fyrir að aka sviptur ökurétti frá árinu 2000. Auk þess hefur hann margoft verið dæmdur fyrir ýmis hegningarlagabrot, þar af þrisvar sinnum fyrir þjófnað og önnur auðgunarbrot, síðast með dómi 6. febrúar 2006, og tvisvar fyrir nytjastuld, síðast á árinu 2001. Síðast hlaut hann dóm 22. desember 2006 og var honum þá dæmd 14 mánaða óskilorðsbundinn fangelsisrefsing, auk ævilangrar ökuréttarsviptingar, fyrir ölvunar- og sviptingarakstur, en þá var 10 mánaða skilorðsbundinn fangelsisdómur sem ákærði hlaut 9. maí sama ár fyrir brot gegn 155. gr. almennra hegningarlaga tekinn upp og dæmdur með. Hefur ákærði lokið afplánun samkvæmt framangreindum dómum og var honum veitt reynslulausn af 170 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar í eitt ár 6. janúar 2008. Brot ákærða sem hann er nú sakfelldur fyrir er framið eftir 6. janúar 2009 og verður því ekki annað séð en að hann hafi staðist skilyrði reynslulausnar.
Við ákvörðun refsingar ákærða vegna fyrri liðar ákærunnar hefur dómur frá 6. febrúar 2006 ítrekunaráhrif, sbr. 255. gr. almennra hegningarlaga. Þá er tekið mið af því að það brot hans var framið í félagi við annan mann, en aftur á móti verður ekki talið að það tjón sem af því hlaust hafi verið stórvægilegt. Með brotum sínum samkvæmt síðari lið ákærunnar hefur ákærði gerst sekur um nytjastuld og auk þess í 7. sinn gerst sekur um bæði ölvunar- og sviptingarakstur. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærði hefur játað brot sín greiðlega hér fyrir dómi og að hann hefur gripið til aðgerða til að vinna bug á áfengis- og vímuefnavanda sínum. Þykir refsing ákærða með hliðsjón af framangreindu og í samræmi við ákvæði 77. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin 9 mánaða fangelsi.
Ákærði upplýsti fyrir dómi að hann væri á leið á áfangaheimili á Akureyri til tveggja ára meðferðar og hygðist freista þess að ná tökum á lífi sínu, en hann upplýsti jafnframt að afbrot hans hafi í öllum tilvikum tengst áfengis- og vímuefnavanda hans. Liggur fyrir bréf Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi og tölvubréf deildarstjóra á áfangaheimili á Akureyri, sem staðfesta að ákærði hafi fengið pláss á áfangaheimilinu og undirritað endurhæfingarsamning, sem jafnframt liggur fyrir. Þykir því fram komið að ákærði hafi gripið til raunhæfra aðgerða til að ná tökum á lífi sínu. Þá liggur fyrir að ákærði stóðst skilyrði reynslulausnar og kom einnig fram hjá honum að það brot sem hann er nú sakfelldur fyrir hafi verið framið þegar hann hafði fallið eftir að hafa verið í áfengis- og vímuefnabindindi um nokkurt skeið. Í ljósi þess að ákærði hefur samkvæmt framansögðu sýnt vilja í verki til að vinna bug á vímuefnavanda sínum þykir dómnum unnt, þrátt fyrir sakaferil ákærða, að fresta fullnustu refsingar hans og skal hún falla niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Fyrir liggur að ákærði virðist aldrei hafa öðlast ökuréttindi en hefur þrátt fyrir það margítrekað verið sviptur ökurétti vegna ölvunaraksturs. Þá hefur hann einnig margítrekað verið dæmdur fyrir akstur sviptur ökurétti. Ákærði var sviptur ökurétti ævilangt með dómi 22. desember 2006. Þykir með vísan til 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga rétt að ítreka ævilanga ökuréttarsviptingu ákærða, en í ökuréttarsviptingu felst ekki aðeins svipting réttar samkvæmt ökuskírteini heldur einnig svipting réttar til að öðlast ökuskírteini, sbr. 5. mgr. 101. gr. sömu laga.
Þá verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, sem samkvæmt yfirliti ákæruvalds nemur 26.461 krónu.
Dómur þessi er kveðinn upp af Halldóri Björnssyni dómstjóra í dómsal Héraðsdóms Austurlands að Lyngási 15, Egilsstöðum, klukkan 15:30 mánudaginn 26. október 2009.
Dómsorð:
Ákærði, Friðrik Halldór Kristjánsson, sæti fangelsi í 9 mánuði, en fullnustu refsingar hans er frestað og skal hún falla niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.
Ákærði greiði 26.461 krónur í sakarkostnað.