Hæstiréttur íslands
Mál nr. 573/2009
Lykilorð
- Umferðarlagabrot
- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
- Ítrekun
- Ökuréttarsvipting
|
|
Fimmtudaginn 18. mars 2010. |
|
Nr. 573/2009. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn Eiríki Hannesi Kjerúlf (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Umferðalagabrot. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ítrekun. Ökuréttarsvipting.
E var ákærður fyrir umferðalagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Var brot hans talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987. Hann var með dómi héraðsdóms dæmdur í 30 daga fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt. Ekki var fallist á með E að ákvæði í c. lið 7. mgr. 102. gr. laga nr. 50/1987 ætti við um hann. Þá var með vísan til 6. mgr. 102. gr. sömu laga ekki heldur fallist á þá málsástæðu E að fyrri ölvunarakstursbrot hans hefðu ekki áhrif til þyngingar refsingar nú þar sem umrætt brot væri vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Með vísun til framangreinds, 3. mgr. 101. gr. laga nr. 50/1980, fyrri dóma Hæstaréttar, sakaferils E og þess að þetta var í þriðja sinn sem hann gerðist sekur um akstur undir áhrifum áfengis eða ávana- og fíkniefna var ákvörðun héraðsdóms um refsingu og ökuréttarsviptingu E staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. október 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og sviptingu ökuréttar markaður skemmri tími.
Farið var með mál þetta í héraði sem játningamál samkvæmt 164. gr., sbr. 3. mgr. 183. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Brotið var framið 19. febrúar 2009. Ákærði hefur þrisvar hlotið refsingu sem hér kemur til skoðunar. Með lögreglustjórasátt 11. ágúst 2003 var honum gerð sekt fyrir ölvunarakstur og fíkniefnabrot og sviptur ökurétti í fjóra mánuði. Með viðurlagaákvörðun 2. mars 2005 var honum gerð sekt fyrir ölvunarakstur og fleiri umferðarlagabrot; var hann sviptur ökurétti í þrjú ár. Loks var honum gerður hegningarauki með dómi Hæstaréttar 17. nóvember 2005 við síðastgreinda viðurlagaákvörðun vegna tveggja ölvunarakstursbrota. Ákærði heldur því fram að þessi brot hafi ekki áhrif til þyngingar refsingar nú vegna þess að áður hafi verið um að ræða ölvunarakstur, sbr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en brotið nú sé vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna, sbr. 45. gr. a. sömu laga. Með 5. gr. laga nr. 66/2006 var umferðarlögum breytt og nefndu ákvæði 45. gr. a. bætt við lögin. Þar er lagt bann við akstri ef viðkomandi er undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði. Með 18. gr. sömu laga var ákvæðum 102. gr. umferðarlaga breytt og er þar meðal annars í 6. mgr. lögfest gagnkvæm ítrekunaráhrif brota samkvæmt 45. gr. og 45. gr. a., sjá dóm Hæstaréttar 8. maí 2008 í máli nr. 644/2007. Verður því hafnað vörn ákærða sem að þessu lýtur.
Þá heldur ákærði því fram að magn þess efnis sem fannst í blóði hans hafi verið svo lítið að það eigi að leiða til mildunar ákvörðunar um tímalengd ökuréttarsviptingar samkvæmt þeim sjónarmiðum sem fram komi í c. lið 7. mgr. 102. gr. umferðarlaga. Ekki er fallist á með ákærða að þetta ákvæði eigi við um hann, enda gekkst hann ekki undir læknisskoðun eins og þar greinir. Mælist ávana- og fíkniefni í blóði eða þvagi ökumanns telst hann vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega, sbr. 2. mgr. 45. gr. a. laganna, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 30. október 2008 í máli nr. 226/2008.
Ákærði hefur nú í þriðja sinn gerst sekur um akstur undir áhrifum áfengis eða ávana- og fíkniefna. Með vísan til framangreinds, sakarferils ákærða, 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga, breytingalaga nr. 66/2006 og fyrri dóma Hæstaréttar verður ákvörðun héraðsdóms um refsingu ákærða og ökuréttarsviptingu staðfest.
Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Eiríkur Hannes Kjerúlf, skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samtals 155.822 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 150.600 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2009.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hinn 12. maí 2009 á hendur:
,,Eiríki Hannesi Kjerúlf, kt.[ ],
Hraunbæ 107, Reykjavík,
fyrir umferðarlagabrot í Reykjavík með því að hafa fimmtudaginn 19. febrúar 2009 ekið bifreiðinni VV-800 óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði 70 ng/ml) úr Kópavogi að Langholtsvegi 147 í Reykjavík, þar sem lögregla hafði afskipti af honum.
Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“
Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins út ríkissjóði.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur brot það sem hann er ákærður fyrir og er brotið rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.
Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta.
Ákærði á að baki sakaferil frá árinu 1993 en er nú í þriðja sinn innan ítrekunartíma fundinn sekur um brot gegn 45. gr. umfl. eða 45. gr. a. Refsing ákærða er ákvörðuð í samræmi við áralagna dómvenju sem fangelsi í 30 daga.
Með vísan til tilvitnaðra ákvæða umferðarlaga í ákæru skal sæta ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði greiði 103.576 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.
Ákærði greiði 50.000 krónur í málsvarnarlaun til Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti.
Jóhann Svanur Hauksson aðstoðarsaksóknari, flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Eiríkur Hannes Kjerúlf, sæti fangelsi í 30 daga.
Ákærði skal sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði greiði 103.576 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvalsins.
Ákærði greiði 50.000 krónur í málsvarnarlaun til Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti.