Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-307

Suðurgafl ehf., Sigríður Vilhjálmsdóttir, Þórir Sigurðsson ehf., Hrönn Greipsdóttir, Sigurður Haukur Greipsson, Minningarsjóður Ársæls Jónassonar kafara, Svava Loftsdóttir, Marta Loftsdóttir, Pétur Guðfinnsson, Margrét Sigríður Pálsdóttir og Inga Ingibjörg Guðmundsdóttir (Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Ívar Pálsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kaupsamningur
  • Fasteign
  • Fasteignakaup
  • Túlkun samnings
  • Matsgerð
  • Yfirmat
  • Vextir
  • Verðbætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 6. desember 2021 leita Suðurgafl ehf., Sigríður Vilhjálmsdóttir, Þórir Sigurðsson ehf., Hrönn Greipsdóttir, Sigurður Haukur Greipsson, Minningarsjóður Ársæls Jónassonar kafara, Svava Loftsdóttir, Marta Loftsdóttir, Pétur Guðfinnsson, Margrét Sigríður Pálsdóttir og Inga Ingibjörg Guðmundsdóttir leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 19. nóvember sama ár í máli nr. 338/2020 milli framangreindra aðila og íslenska ríkisins á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um greiðslu kaupverðs á grundvelli kaupsamnings aðila 7. október 2016. Aðilar áttu land í óskiptri sameign á svokölluðu Geysissvæði í Haukadal þar sem leyfisbeiðendur áttu 74,72% eignarhlut og gagnaðili 25,28%. Samið var um kaup gagnaðila á eignarhlut leyfisbeiðenda með áðurgreindum kaupsamningi. Þar sem ekki náðist samkomulag um kaupverð var samið um að fela dómkvöddum mönnum að meta sanngjarnt kaupverð, fyrst með dómkvaðningu þriggja matsmanna og síðar fimm yfirmatsmanna. Gagnaðili greiddi leyfisbeiðendum það kaupverð sem hann taldi leiða af yfirmatsgerð en leyfisbeiðendur töldu þá greiðslu ekki samræmast kaupsamningi aðila þar sem í yfirmatsgerð hefði jafnframt verið kveðið á um greiðslu verðbóta og vaxta.

4. Með dómi meirihluta Landsréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sýkna gagnaðila af kröfu leyfisbeiðenda. Þar kom fram að gagnaðila væri ekki skylt að greiða leyfisbeiðendum vexti og verðbætur á kaupverðið samkvæmt kaupsamningi aðila og að slík skylda yrði heldur ekki leidd af lögum. Þá hefðu leyfisbeiðendur ekki sannað venju um slíka skyldu. Einn dómara í Landsrétti skilaði sératkvæði þess efnis að ekki ætti að staðfesta dóm héraðsdóms heldur fallast á kröfu leyfisbeiðenda að hluta þannig að kaupverðið tæki mið af breytingu á byggingarvísitölu auk þess sem hann féllst á kröfu um greiðslu dráttarvaxta.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi. Mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um túlkun kaupsamnings, heimildir yfirmatsmanna til að kveða á um að kaupverð skuli vera verðtryggt og bera almenna vexti og þýðingu laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 í því sambandi. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að úrlausn málsins varði mikilvæga hagsmuni sína þar sem um verulega fjárhagslega hagsmuni sé að ræða. Þá sé dómur Landsréttar rangur að efni til. Þar vísa þau meðal annars til þess að Landsréttur hafi klofnað í niðurstöðu sinni og af því megi ráða að ágreiningur hafi verið um túlkun kaupsamningsins og þeirra réttarreglna sem vísað sé til.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.