Hæstiréttur íslands

Mál nr. 41/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Endurupptaka


Föstudaginn 9

 

Föstudaginn 9. febrúar 2001.

Nr. 41/2001.

Lykilhótel hf.

(Jón Gunnar Zoëga hrl.)

gegn

Kristínu Aðalsteinsdóttur

(Örn Clausen hrl.)

 

Kærumál. Endurupptaka.

L kærði úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem hafnað var kröfu hans um að mál K á hendur honum yrði endurupptekið. Fallist var á þá niðurstöðu héraðsdóms, að beiðni L um endurupptöku hefði borist dóminum eftir að liðinn var sá frestur sem tilgreindur er í 1. og 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 og að endurupptökubeiðnin fullnægði ekki formskilyrðum 1. mgr. 138. gr. laganna. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. janúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. febrúar sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. janúar 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að mál varnaraðila á hendur honum yrði endurupptekið. Kæruheimild er í q. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að endurupptaka málsins verði heimiluð.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Lykilhótel hf., greiði varnaraðila, Kristínu Aðalsteinsdóttur, 50.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. janúar 2001.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 6. desember sl. vegna kröfu stefnda um endurupptöku málsins.

Með beiðni dags. 28. ágúst 2000, sem móttekin var 30. september s.á., fór Jón G. Zoëga hrl. þess á leit f.h. stefnda að málið nr. E-2893/2000: Kristín Aðalsteinsdóttir gegn Lykilhótelum hf., sem þingfest var 27. apríl sl. og áritað um aðfararhæfi 5. júlí sl., yrði endurupptekið með vísan til 1. tl. 1. mgr. 137. gr. og 138. gr. laga nr. 91/1991.  Lögð var fram trygging í samræmi við 3. mgr. 137. gr. laganna.

Á dómþingi 6. desember sl. er endurupptökubeiðnin var tekin fyrir voru höfð uppi mótmæli gegn henni af hálfu stefnanda.  Byggt var á því að stefnda hafi verið kunnugt um það að dómur væri væntanlegur og kunnugt um dóminn stuttu eftir að hann gekk í júlí sl.  Mánaðarfrestur samkvæmt 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 hafi verið liðinn þegar endurupptökubeiðni barst dómara.  Þannig sé ekki fullnægt lagaskilyrðum um endurupptöku málsins.

Af hálfu stefnda var haldið fast við kröfu um endurupptöku málsins. Því var mótmælt að stefnda hafi verið kunnugt um áritun stefnu í júlímánuði sl., lögmaður stefnda hafi frétt af árituninni um miðjan ágúst sl.  Beiðnin hafi verið gerð 28. ágúst sl. en lögmaðurinn kveðst ekki geta skýrt það hvers vegna hún hafi ekki verið móttekin fyrr en 30. september sl.  Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi verið búinn að samþykkja endurupptöku málsins áður en til áritunar kom, enda hafði ágreiningsefni þetta áður verið fyrir dómi og þá komnar fram varnir í málinu.

Lögmenn aðila tjáðu sig um ágreiningsefnið fyrir dóminum og var málið síðan tekið til úrskurðar um það hvort fullnægt væri lagaskilyrðum til endurupptöku þess.

        Í beiðni stefnda um endurupptöku máls þessa, sem dagsett er 28. ágúst sl., kemur fram að stefnda hafi ekki verið kunnugt um málsúrslit fyrr en í byrjun ágúst.  Beiðni þessi barst Héraðsdómi Reykjavíkur 30. september sl.  Var þá liðinn mánuður frá því að stefnda var kunnugt um málalokin.  Beiðni stefnda um endurupptöku málsins fullnægði því ekki tímafresti samkvæmt 1. og 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991.  Þá er ekki greint frá því í endurupptökubeiðni stefnda hverra breytinga stefndi krefjist á fyrri málsúrslitum og á hverjum málsástæðum, réttarheimildum og sönnunargögnum það sé byggt svo sem tilskilið er samkvæmt 1. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991.  Ber því að hafna beiðni stefnda um endurupptöku málsins.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Beiðni Lykilhótela hf. um endurupptöku málsins nr. E-2893/2000 er hafnað.