Hæstiréttur íslands
Mál nr. 334/1999
Lykilorð
- Hlutafélag
- Veðréttindi
|
|
Fimmtudaginn 16. desember 1999. |
|
Nr. 334/1999. |
Skjöldur ehf. (Brynjólfur Kjartansson hrl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (Reinhold Kristjánsson hrl.) |
Hlutafélög. Veðréttur.
Þ gaf út tryggingarbréf fyrir hvers konar skuldum, sem félagið kynni að standa í við L. Fasteign í eigu hlutafélagsins S var sett til tryggingar skuldunum og samþykktu tveir af stjórnarmönnum S veðsetninguna. L höfðaði mál gegn Þ til greiðslu skuldar, en gegn S til að þola viðurkenningu og staðfestingu á veðrétti samkvæmt tryggingarbréfinu. Hélt Þ ekki uppi vörnum, en S krafðist sýknu af kröfum L á grundvelli þess að ekki hefði nægt til að skuldbinda félagið að tveir stjórnarmenn hefðu samþykkt veðsetninguna. Í samþykktum S frá árinu 1940 sagði að stjórn félagsins skyldi skipuð þremur mönnum og að undirskrift allrar stjórnarinnar þyrfti til að skuldbinda félagið. Í tilkynningu S til hlutafélagaskrár á árinu 1990 kom fram að tveir stjórnarmenn rituðu firmað og var greint frá þessum upplýsingum í auglýsingu hlutafélagaskrár sem birt var í Lögbirtingablaði. Ekki lá fyrir að samþykktum félagsins hefði verið breytt í samræmi við þetta. Talið var að á grundvelli tilkynningar til hlutafélagaskrár og auglýsingar í Lögbirtingablaði hefðu grandlausir viðsemjendur félagsins getað treyst því að tveir stjórnarmenn gætu í sameiningu skuldbundið félagið, sbr. áður 2. og 3. mgr. 149. gr. laga nr. 32/1978 um hlutafélög og nú 2.4. mgr. 125. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, sbr. 6. gr. laga nr. 31/1997. Var krafa L því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. ágúst 1999. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda, svo og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins gaf Þumall-Magma sf. út tryggingarbréf 22. júní 1993 fyrir hvers konar skuldum, sem félagið kynni að standa í við stefnda, að fjárhæð allt að 12.000.000 krónur. Til tryggingar þeim skuldum var þar sett að veði nánar tiltekinn eignarhluti áfrýjanda í fasteigninni Hafnarstræti 19 í Reykjavík. Á tryggingarbréfið var rituð svofelld yfirlýsing: „Samþykkir framanritaðri veðsetningu sem þinglýstir eigendur. Í stjórn h.f. Skjaldar“. Undir hana voru rituð nöfn tveggja stjórnarmanna. Var þess getið við nafnritanir þeirra að annar stjórnarmaðurinn væri formaður, en hinn gjaldkeri.
Félagið, sem gaf út tryggingarbréfið, mun síðar hafa orðið einkafirma með heitinu Þumall kvikmyndagerð. Stefndi kveður tékkareikningi firmans hjá sér hafa verið lokað, en yfirdráttarskuld á honum hafi í október 1997 numið 14.687.976,48 krónum.
Stefndi höfðaði málið með héraðsdómsstefnu 25. ágúst 1998 á hendur eiganda einkafirmans til greiðslu yfirdráttarskuldar þess, en áfrýjanda til að „þola viðurkenningu og staðfestingu“ á veðrétti samkvæmt tryggingarbréfinu. Af hálfu þess fyrrnefnda var ekki haldið uppi vörnum í héraði, en áfrýjandi krafðist þar sýknu fyrir sitt leyti af kröfu stefnda á þeirri forsendu að ekki nægði til að skuldabinda hann að aðeins tveir stjórnarmenn hafi ritað undir áðurgreinda yfirlýsingu. Með hinum áfrýjaða dómi voru kröfur stefnda á hendur báðum gagnaðilum hans teknar til greina. Fyrir Hæstarétti reisir áfrýjandi sýknukröfu sína á sömu málsástæðu og áður var getið.
II.
Í 15. gr. svonefndra laga fyrir hlutafélagið Skjöld, sem samþykkt voru á stofnfundi þess 4. maí 1940, var kveðið á um að stjórn þess skyldi skipuð þremur mönnum úr röðum hluthafa. Þar sagði ennfremur: „Undirskrift allrar stjórnarinnar þarf til þess að skuldbinda félagið gagnvart öðrum.“ Í tilkynningu félagsins til hlutafélagaskrár 27. júlí 1990 var greint frá nöfnum þriggja manna, sem voru kjörnir í stjórn þess á aðalfundi 10. maí sama árs, svo og hverjir hefðu prókúruumboð fyrir það. Þar var eftirfarandi og tekið fram: „Firmað rita tveir stjórnarmenn saman.“ Í auglýsingu hlutafélagaskrár, sem var birt í Lögbirtingablaði 29. nóvember 1990, var greint frá þessum upplýsingum úr tilkynningunni. Í tilkynningu félagsins 22. apríl 1991 voru hlutafélagaskrá veittar upplýsingar um breytingar á stjórn félagsins og prókúruumboði, en einskis annars var þar getið. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að félagið hafi beint frekari tilkynningum til hlutafélagaskrár eftir þetta og fram til þess tíma, sem fyrrnefnt tryggingarbréf til stefnda var gefið út.
Áfrýjandi hefur lagt fram fundargerð frá áðurnefndum aðalfundi 10. maí 1990. Þar er ekki getið um að samþykktum félagsins hafi verið breytt á fundinum. Áfrýjandi heldur því fram að fyrrgreindu ákvæði í 15. gr. samþykktanna hafi heldur ekki verið breytt við annað tækifæri áður en tryggingarbréfið var gefið út 22. júní 1993. Þessu hefur stefndi ekki hnekkt. Fram hjá því verður hins vegar ekki litið að samkvæmt tilkynningunni til hlutafélagaskrár 27. júlí 1990 og auglýsingunni um hana í Lögbirtingablaði 29. nóvember sama árs var nægilegt að tveir stjórnarmenn í félaginu stæðu að ráðstöfun svo skuldbindandi yrði fyrir það. Af þessum gögnum var ekki unnt að ráða að samþykktum félagsins hefði ekki verið breytt í það horf, sem hér um ræðir. Máttu því grandlausir viðsemjendur félagsins eftir þetta treysta að tveir stjórnarmenn gætu í sameiningu skuldbundið það, svo sem leitt verður af þeirri meginreglu, sem bjó að baki 2. mgr. og 3. mgr. 149. gr. þágildandi laga um hlutafélög nr. 32/1978, sbr. nú 2.-4. mgr. 125. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, eins og þeim var breytt með 6. gr. laga nr. 31/1997. Í málinu hefur ekki verið sýnt fram á að stefndi hafi mátt vita að umrædd tilkynning og auglýsing um hana væri í ósamræmi við samþykktir félagsins. Af þeim sökum verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest að því leyti, sem hann er hér til endurskoðunar.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 4. júní sl., var höfðað með stefnu, birtri 1. og 10. sept. 1998.
Stefnandi er Landsbanki Íslands hf., kt. 540291-2259, Austurstræti 11, Reykjavík.
Stefndu eru Karl Sigtryggsson, kt. 140752-4879, Efstasundi 79, Reykjavík, vegna einkafirma hans, Þumals kvikmyndagerðar, kt. 711284-0959, Suðurlandsbraut 12, Reykjavík og Skjöldur ehf., kt. 590269-7009, Hafnarstræti 19, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda:
Að stefndi, Karl, verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 14.687.976,48 kr. með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. lög nr. 90/1992 frá 21. sept. 1997 til greiðsludags og að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Jafnframt er krafist málskostnaðar að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Stefnda, Skildi ehf., er stefnt til að þola viðurkenningu og staðfestingu á þinglýstum 2. veðrétti (upphaflega 6. veðrétti) í fasteigninni Hafnarstræti 19, Reykjavík m.01, allt steinhúsið og öll nýbygging, ¸ hl. í kjallara og jarðhæð nýbyggingar, 97,53%, með tilheyrandi lóðarréttindum og öllu sem því fylgir og fylgja ber, allt skv. ákvæðum tryggingarbréfs nr. 31879 (allsherjarveðs) útgefnu 22. júní 1993 af Þumli-Magma sf., að fjárhæð 12.000.000 króna.
Dómkröfur stefnda Skjaldar ehf:
Stefndi, Skjöldur ehf., krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða honum málskostnað að mati réttarins auk virðisaukaskatts.
Þingsókn stefnda, Karls Sigtryggssonar, féll niður án þess að til andmæla væri tekið af hans hálfu.
Málavaxtalýsing stefnanda, málsástæður og lagarök
Stefnandi segir stefnukröfu þannig til komna að Þumall kvikmyndagerð hafi haft heimild til yfirdráttar á tékkareikningi nr. 39807 við Landsbanka Íslands, Reykjavík, aðalbanka. Vegna vanskila hafi reikningnum verið lokað. Á síðasta reikningsyfirliti yfir tímabilið 30. sept. 1997 til 10. okt. 1997 hafi reikningurinn verið yfirdreginn um 14.687.976,48 krónur ásamt vöxtum.
Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra skulda Þumals-Magma sf., kt. 711284-0959 (sem sé sama fyrirtæki og Þumall kvikmyndagerð) svo og öllum kostnaði sem af vanskilum kynni að leiða, eða eins og segi í tryggingarbréfinu “ hvort sem það eru víxilskuldir mínar, víxilábyrgðir, yfirdráttur á tékkareikningi eða hvers konar aðrar skuldir ” hafi stjórn Skjaldar ehf. samþykkt með undirritun sinni veðsetningu ofangreindrar þinglýstrar fasteignar sinnar að Hafnarstræti 19, Reykjavík, m.01, allt steinhúsið og öll nýbygging, ¸ hl. í kjallara og jarðhæð nýbyggingar, 97,53%, ásamt tilheyrandi lóðarréttindum, allt skv. áðurnefndu tryggingarbréfi. Meðal annars vegna tryggingar þessarar hafi Þumli kvikmyndagerð verið heimilaður yfirdráttur á reikningi sínum og þar sé að finna réttarsambandið milli skuldar og veðs.
Krafist er staðfestingar á veðrétti þessum og viðurkenningar á rétti stefnanda til að hagnýta sér tryggingarrétt bréfsins.
Þumall kvikmyndagerð sé einkafyrirtæki Karls Sigtryggssonar og beri hann ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum þess.
Af hálfu stefnanda er um rökstuðning fyrir kröfum vísað til almennra reglna kröfu- og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga, laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, þ.m.t. 129. gr. vegna málskostnaðarkröfu og III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 ásamt síðari breytingum. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því beri honum nauðsyn til á fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
Málsástæður og rökstuðningur stefnda, Skjaldar ehf.
Af hálfu stefnda, Skjaldar ehf., er því haldið fram að heimild til veðsetningar eignar félagsins sem rituð er á tryggingarbréfið á dskj. 16 sé ekki gild þar sem hún sé aðeins undirrituð af tveimur stjórnarmönnum en til þess að binda félagið þurfi undirskrift þriggja stjórnarmanna, eins og fram komi á vottorði úr Hlutafélagaskrá.
Tryggingarbréfið sé aðeins undirritað af Jóni Hermannssyni, formanni stjórnar, og Einari Nielsen gjaldkera en ekki af þriðja stjórnarmanninum sem á þessum tíma hafi verið Bjarni Jóhannesson. Því liggi ekki fyrir undirskrift þriggja stjórnarmanna eins og áskilið sé í samþykktum félagsins.
Félagið hafi verið stofnað 4. maí 1940 og séu gildandi samþykktir þess frá þeim degi. Í 15. gr. samþykktanna segi.
“Stjórn félagsins skipa 3 menn úr flokki hluthafa, og skulu þeir kosnir til 1 árs í senn- forrmaður er fundurinn kýs sérstaklega og tveir meðstjórnendur-. Heimilt er að endurkjósa menn í stjórnina. Félagsstjórnin ræður öllum félagsmálum milli funda, hefir almenna umsjón eð rekstri félagsins og fjárhag þess og heimild til að taka fyrir félagið lán, sem hún telur nauðsynleg við atvinnureksturinn og getur skuldbundið félagið og eignir þess- meðal annars veðsett þær- með ályktunum sínum og samningum. Undirskrift allrar stjórnarinnar þarf til þess að skuldbinda félagið gagnvart öðrum”.
Hinn 10. maí 1990 hafi verið kosnir í stjórn Skjaldar, Jón Hemannsson og Haukur Gunnarsson. Hinn 19. mars 1991 hafi Haukur Gunnarsson gengið úr stjórninni og í stað hans komið varamaðurinn Bjarni Jóhannesson. Hinn 20. apríl 1994 hafi Einar Nielsen orðið formaður stjórnar og meðstjórnendur Jón Hermannsson og Svanhildur Jóhannesdóttir.
Niðurstaða
Þingsókn stefnda, Karls Sigtryggssonar, vegna Þumals kvikmyndagerðar, féll niður án þess að til andmæla væri tekið af hans hálfu. Ber því samkvæmt 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að dæma málið að því er þennan stefnda varðar eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda og framlögðum gögnum.
Kröfur stefnanda á hendur stefnda, Karli Sigtryggssyni, vegna Þumals kvikmyndagerðar, eru í samræmi við framlögð reikningsyfirlit stíluð á Þumal sf., sem mun vera einkafyrirtæki stefnda, Karls Sigtryggssonar, og verða því teknar til greina að því er þennan stefnda varðar þó þannig að dráttarvextir verða ekki dæmdir fyrr en frá 1. okt. 1997.
Stefndi, Karl Sigtryggsson, greiði stefnanda í málskostnað 650.000 kr. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið litið til virðisaukaskattskyldu lögmannsþóknunar.
Tryggingarbréfið sem stefnandi reisir kröfur sínar á var útgefið 22. júní 1993 af stjórn Þumals Magma sf. og áritað án sérstakrar dagsetningar svo: “Samþykkir framanritaðri veðsetningu sem þinglýstir eigendur. Í stjórn h.f. Skjaldar Jón Hermannsson formaður Einar L. Nielsen gjaldkeri.” Tryggingarbréf þetta var afhent 22. júni 1993 til þinglýsingar og innfært í veðmálabækur 24. sama mánaðar.
Meðal skjala málsins eru tilkynningar sem borist hafa fyrirtækjaskrá varðandi stjórn Skjaldar ehf. frá árinu 1990. Þar kemur fram að á fundi í hlutafélaginu Skildi, sem haldinn var 10. maí 1990, var Jón Hermannsson kosinn formaður félagsins og meðstjórnendur þeir Haukur Gunnarsson og Einar Nielsen. Þar segir að firmað riti tveir stjórnarmenn saman. Hinn 22. apríl 1991 var tilkynnt til firmaskrár að Haukur Gunnarson hafi afsalað sér stjórnarsæti sínu í Skildi hf. en Bjarni Jóhannesson varamaður í stjórn tekið sæti Hauks. Frá þeim degi hafa prókúruumboð fyrir félagið þeir Jón Hermannsson og Einar Nielsen. Hinn 7. júní 1994 var tilkynnt til firmaskrár að á fundi Skjaldar hf., sem haldinn var 20. apríl 1994, hafi Einar Nielsen verið kosinn formaður stjórnar og meðstjórnendur þau Jón Hermannsson og Svanhildur Jóhannesdóttir.
Á þeim tíma sem tryggingabréfið, sem stefnandi byggir kröfur sínar á gagnvart stefnda, Skildi ehf., var undirritað, þ.e. 22. júní 1993, var Jón Hermannsson formaður stjórnar og Einar Nielsen meðstjórnandi. Þeir Jón og Einar höfðu prókúruumboð fyrir félagið frá og með 22. apríl 1991.
Hinn 3. sept. 1990 undirrituðu þeir Jón Hermannsson og Einar Nielsen f.h. Skjaldar samþykki um veðsetningu fasteignar Skjaldar hf., Hafnarstrætis 19, Reykjavík, til tryggingar 12.000.000 kr. skuld. Hinn 19. mars 1991 undirrituðu sömu menn f.h. Skjaldar hf. tryggingarbréf að fjárhæð 4.750.000 kr. þar sem sama eign var veðsett.
Stefnandi hefur í höndum þinglýst tryggingarbréf. Veðsetning samkvæmt bréfinu var samþykkt af stjórnarformanni og gjaldkera sem jafnframt voru prókúruhafar þinglýsts eiganda. Skjöl málsins sýna að þessir menn hafa í öðrum tilvikum veðsett og samþykkt veðsetningar Skjaldar hf. með sama hætti. Verður því að telja að þeir Jón Hermannsson og Einar Nielsen hafi haft umboð til þess að samþykkja veðsetningu þá sem stefnandi krefst staðfestingar á. Enda er ekkert fram komið um að stefnandi hafi mátt vita um ákvæði 15. gr. laga hlutafélagsins frá 4. maí 1940 þar sem fram kemur að undirskrift allrar stjórnarinnar þurfi til þess að skuldbinda félagið gagnvart öðrum, sbr. 61. gr. þágildandi laga um hlutafélög nr. 32/1978 og einnig 52. gr. núgildandi laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.
Með vísan til framanritaðs verður krafa stefnanda á hendur Skildi ehf. tekin til greina.
Ekki er gerð krafa um málskostnað á hendur stefnda, Skildi ehf.
Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Karl Sigtryggsson, vegna Þumals kvikmyndagerðar, greiði stefnanda, Landsbanka Íslands hf., 14.687.976,48 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. okt. 1997 til greiðsludags. Heimilt er að leggja áfallna vexti við höfuðstól á 12 mánaða fresti.
Stefndi, Karl Sigtryggsson, vegna Þumals kvikmyndagerðar, greiði stefnanda, Landsbanka Íslands hf., 650.000 krónur í málskostnað.
Staðfestur er 2. veðréttur stefnanda (upphaflega 6. veðréttur) í fasteigninni Hafnarstræti 19, Reykjavík m.01, allt steinhúsið og öll nýbygging, ¸ hl. í kjallara og jarðhæð nýbyggingar, 97,53%, með tilheyrandi lóðarréttindum og öllu sem því fylgir og fylgja ber, allt skv. ákvæðum tryggingarbréfs nr. 31879, útgefnu 22. júní 1993 af Þumli-Magma sf., að fjárhæð 12.000.000 krónur.