Hæstiréttur íslands

Mál nr. 424/2002


Lykilorð

  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Res Judicata


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. mars 2003.

Nr. 424/2002.

Flutningsjöfnunarsjóður olíuvara

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

Skeljungi hf.

(Gestur Jónsson hrl.)

 

Stjórnvaldsákvörðun. Res judicata.

S hf. krafðist þess að viðurkennt yrði að við útreikning á flutningsjöfnun á gasolíu frá 1. desember 1998 til og með 31. október 1999 hefði F borið að fara eftir þeim flutningstöxtum sem ákveðnir voru á fundi stjórnar F í desember 1998. Í málinu var deilt um túlkun á niðurstöðu héraðsdóms í fyrra máli F og S hf., sem ekki var áfrýjað, þar sem fallist var á kröfu S hf. um að felld yrði úr gildi ákvörðun stjórnar F um að afturkalla fyrrnefnda ákvörðun frá desember 1998. Talið var að umrædd ákvörðun stjórnar F hefði verið tvíþætt og afturköllunin einnig. Fyrrnefnd niðurstaða héraðsdóms um að felld yrði úr gildi afturköllun á þessari ákvörðun F leiddi því til þess að báðir þættir hennar voru í fullu gildi. Hefði S hf. höfðað það mál á þeim grunni að afturköllunin hefði verið ólögmæt frá upphafi og yrði að líta svo á að héraðsdómur hefði fallist á það en af því leiddi að réttarástand var orðið eins og engin afturköllun hefði verið gerð. Var því fallist á kröfur S hf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. september 2002 og krefst aðallega frávísunar þess frá héraðsdómi en til vara sýknu af kröfu stefnda. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningur málsaðila lýtur að túlkun á niðurstöðu héraðsdóms 25. nóvember 1999 í fyrra máli þeirra, en dómnum var ekki áfrýjað. Það mál höfðaði stefndi til þess að felld yrði úr gildi ákvörðun stjórnar áfrýjanda frá 8. febrúar 1999 um að afturkalla sína eigin ákvörðun frá 9. nóvember 1998 og varð niðurstaða dómsins að fallist var á kröfu stefnda.

Með vísan til forsendna úrskurðar héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um að hafna frávísunarkröfu áfrýjanda.

Svo sem nánar greinir í héraðsdómi var með ákvörðun stjórnar áfrýjanda 9. nóvember 1998 samþykkt að Krossanes við Akureyri yrði innflutningshöfn á gasolíu um leið og fyrsti beini innflutningur á gasolíu væri kominn í tanka stöðvarinnar. Jafnframt var ákveðið að sjóflutningar á gasolíu tækju mið af þessari breytingu og að taxtar miðuðust sem fyrr við skemmstu flutningsleið á sjó frá næstu innflutningshöfn á gasolíu. Þessi ákvörðun var í fullu samræmi við 2. málslið 8. gr. laga nr. 103/1994 um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, en samkvæmt ákvæðinu skal stjórn áfrýjanda miða greiðslur úr sjóðnum við þá flutningshætti sem ódýrastir eru á hverjum tíma. Í lögunum felst að það er ekki hlutverk áfrýjanda að endurgreiða flutningskostnað olíuvara innan lands hver sem hann er, heldur ber að miða við þann kostnað sem lægstur er frá innflutningshöfn.

Enda þótt nýir flutningstaxtar vegna tilkomu Krossaness sem innflutningshafnar hafi ekki verið samþykktir í stjórn áfrýjanda fyrr en 21. desember 1998, með gildistíma frá 1. þess mánaðar, er ljóst að þeir hlutu að fylgja ákvörðuninni 9. fyrra mánaðar, eins og hún sjálf bar með sér. Í þessu ljósi verður skilin hin umdeilda samþykkt stjórnar áfrýjanda 8. febrúar 1999 um afturköllun á þessari ákvörðun, en samkvæmt orðanna hljóðan fólst bæði í henni að afturkallað var að Krossanes yrði innflutningshöfn og „sá þáttur ákvörðunarinnar sem laut að breytingu á töxtum vegna sjóflutninga á gasolíu.“ Ákvörðun stjórnar áfrýjanda 9. nóvember 1998 var í þessum skilningi tvíþætt og afturköllunin 8. febrúar 1999 á henni var það einnig. Niðurstaða héraðsdóms 25. nóvember 1999 um að felld yrði úr gildi afturköllun á þessari ákvörðun stjórnar áfrýjanda frá 9. nóvember 1998 leiddi því til þess að báðir þættir hennar voru í fullu gildi. Það mál höfðaði stefndi á þeim grunni að afturköllunin hafi verið ólögmæt frá upphafi og verður að líta svo á að héraðsdómur hafi fallist á það. Af því leiðir að réttarástand var orðið eins og engin afturköllun hafi verið gerð. Vegna þessa og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Flutningsjöfnunarsjóður olíuvara, greiði stefnda, Skeljungi hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júní 2002.

I

Mál þetta var höfðað 13. nóvember 2001 og dómtekið 21. maí 2002. 

Stefnandi er Skeljungur hf., kt. 590269-1749, Suðurlandsbraut 4, Reykjavík, en stefndi er Flutningsjöfnunarsjóður olíuvara, kt. 480983-0179, Rauðarárstíg 10, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að við útreikning á flutningsjöfnun á gasolíu frá 1. desember 1998 til og með 31. október 1999 hafi stefnda borið að fara eftir þeim flutningstöxtum sem ákveðnir voru á fundi stjórnar stefnda 21. desember 1998.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda auk þess sem hann krefst málskostnaðar.

Stefndi gerði í upphafi aðallega kröfu um frávísun málsins en með úrskurði uppkveðnum 27. mars 2002 var frávísunarkröfu hans hafnað.

II

Stefndi, Flutningsjöfnunarsjóður olíuvara, er stjórnvald sem starfar á grundvelli laga nr. 103/1994 um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara en samkvæmt lögunum skal leggja flutningsjöfnunargjald á allar olíuvörur sem fluttar eru til landsins og ætlaðar eru til nota innanlands.  Gjald þetta rennur í sérstakan sjóð, flutningsjöfnunarsjóð olíuvara.  Samkvæmt 8. gr. laganna skal stjórn flutnings-jöfnunarsjóðs olíuvara úrskurða hvað teljast skuli flutningskostnaður og er stjórninni skylt að ákveða að jöfnun flutningskostnaðar milli innflutningshafnar, olíuhafnar og útsölustaða skuli takmörkuð við kostnað af þeim flutningsháttum sem ódýrastir eru á hverjum tíma. 

Stefnandi, Olíufélagið hf. og Olíuverslun Íslands hf., fara saman með eitt atkvæði á stjórnarfundum í stefnda og taka þannig þátt í ákvarðanatöku stjórnarinnar.

Forsaga máls þessa er sú að með bréfi 12. október 1998 tilkynnti stefnandi stefnda að félagið hygðist hefja beinan innflutning á gasolíu í olíustöðina Krossanes við Akureyri og var þess jafnframt óskað að birgðastöðin Krossanes yrði viðurkennd sem innflutningshöfn í skilningi laga nr. 103/1994.  Erindi stefnanda var tekið fyrir á fundi stjórnar stefnda 9. nóvember 1998 og var samþykkt að Krossanes við Akureyri yrði innflutningshöfn á gasolíu um leið og fyrsti beini innflutningur á gasolíu væri kominn í tanka stöðvarinnar.  Jafnframt var ákveðið að sjóflutningar á gasolíu tækju mið af framangreindu og að taxtar sjóflutninga á gasolíu miðist sem hingað til við skemmstu flutningsleið á sjó frá næstu innflutningshöfn.  Fram kemur í gögnum málsins að stefnandi landaði farmi á Krossanesi 4. desember 1998. 

Á fundi stjórnar stefnda 21. desember 1998 voru gerðar breytingar á gildandi flutningstöxtum vegna tilkomu Krossaness sem flutningshafnar fyrir gasolíu og var samþykkt að taxtarnir tækju gildi frá 1. desember 1998. 

Á fundi stjórnar stefnda 8. febrúar 1999 var samþykkt tillaga um að stjórnin drægi til baka fyrrgreinda ákvörðun sína frá 9. nóvember 1998.  Sem rökstuðning við því kemur fram að við töku ákvörðunarinnar á sínum tíma hafi verið byggt á þeirri forsendu að innflutningur á heilum förmum yrði hafinn fyrir alvöru en ekki á slöttum úr förmum.  Þá kemur fram í rökstuðningi tillögunnar að skilyrðin fyrir því að Krossanes við Akureyri yrði innflutningshöfn og um leið umskipunarhöfn hafi ekki verið uppfyllt og að ákvörðunin væri því afturkölluð vegna forsendubrests og þar með sá þáttur ákvörðunarinnar sem lotið hefði að breytingu á töxtum vegna sjóflutninga á gasolíu.

Af þessu tilefni lét fulltrúi stefnanda bóka að ákvörðun stjórnar stefnda, að samþykkja beiðni stefnanda um að birgðastöðin við Krossanes yrði viðurkennd sem innflutningsbirgðastöð, hafi verið samþykkt samhljóða og án nokkurra skilyrða.  Á meðan engin skilyrði væru sett sem uppfylla þyrfti svo að birgðastöð teldist innflutningsbirgðastöð telji stefnandi óheimilt að afturkalla fyrri ákvörðun.

Stefnandi höfðaði mál gegn stefnda í mars 1999, mál nr. E-1438/1999, og krafðist þess að felld yrði úr gildi ákvörðun stjórnar stefnda frá 8. febrúar 1999 um að afturkalla fyrri ákvörðun stjórnarinnar frá 9. nóvember 1998.  Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 1999 í málinu var fallist á kröfu stefnanda eins og hún var sett fram og hljóðar dómsorðið þannig: “Úr gildi er felld ákvörðun stjórnar stefnda frá 8. febrúar 1999 um að afturkalla fyrri ákvörðun stjórnarinnar frá 9. nóvember 1998 þess efnis að olíuhöfnin Krossanes við Akureyri yrði viðurkennd sem innflutningsbirgðastöð á gasolíu um leið og fyrsti beini innflutningur væri kominn í tanka stöðvarinnar....”   Dómi þessum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar. 

Stefnandi heldur því fram að af dómi þessum hafi leitt að ákvörðun stjórnar stefnda frá 9. nóvember 1998 væri enn í gildi hvað snerti viðurkenningu á Krossanesi sem innflutningshöfn og ákvörðun stjórnar stefnda frá 21. desember 1998 um breytta flutningstaxta á sjó frá 1. desember 1998 hafi verið í fullu gildi.  Hefur stefnandi ítrekað gert þá kröfu til stefnda að flutningsjöfnun á gasolíu, frá 1. desember 1998 til og með 31. október 1999, verði þegar endurreiknuð og leiðrétt í samræmi við taxta sjóðsins eins og þeir hafi verið ákvarðaðir á fundi 28. desember 1998.  Stefndi hefur hafnað þeim skilningi stefnanda að dómurinn hafi tekið nokkuð á taxtaákvörðunum stjórnar stefnda, enda hafi dómkröfur stefnanda í því máli ekki lotið að því.

Í greinargerð stefnda kemur fram að meðan á rekstri framangreinds héraðsdómsmáls hafi staðið hafi flutningsjöfnun verið gerð upp á grundvelli eldri taxta en greidd flutningsjöfnun samkvæmt eldri töxtunum hafi verið mun hærri en flutningsjöfnun hefði orðið samkvæmt ákvörðun stjórnar frá 21. desember 1998. 

Á fundi stjórnar stefnda 19. október 1999 voru nýir taxtar samþykktir fyrir flutningsjöfnun á sjó og fyrir flutninga á landi og tóku þeir gildi 1. nóvember 1999.  Fulltrúi stefnanda í stjórn stefnda stóð að samþykkt þessari varðandi nýja taxta og er krafa stefnanda um endurreikning takmörkuð við tímabilið frá 1. desember 1998 til 31. október 1999. 

Í samráði við stefnda kveðst stefnandi hafa leitað til endurskoðenda stefnda til að láta endurreikna flutningsjöfnunina til samræmis við niðurstöðu dómsins samkvæmt skilningi stefnanda.  Kemur fram hjá stefnanda að útreikningarnir hafi borist honum 19. september 2000 og komi þar fram að á tímabilinu 1. desember 1998 til 31. október 1999 hafi olíufélögunum verið ofgreiddar 62.120.004 krónur í flutningsjöfnun fyrir þær hafnir sem Krossanes við Akureyri hafði áhrif á.

Í bréfi lögmanns stefnanda til formanns stjórnar stefnda 25. september 2000 er gerð grein fyrir útreikningum endurskoðanda sjóðsins og þess krafist að stjórn sjóðsins geri þegar í stað leiðréttingar á jöfnunargreiðslum fyrir umrætt tímabil.  Bréf lögmanns stefnanda var rætt á fundi stjórnar stefnda 25. október 2000 og tekið fyrir að nýju á fundi stjórnar stefnda 14. desember 2000.

Á fundi stjórnar stefnda 28. desember 2000 gerði meirihluti stjórnar samþykkt vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. nóvember 1999 í máli nr. E-1438/1999.  Í samþykktinni kemur fram sú túlkun meirihluta stjórnar stefnda á dóminum að í honum hafi ekki verið fallist á þá málsástæðu stefnanda að stjórn sjóðsins hefði ekki rétt til að taka ákvarðanir um hvaða hafnir séu innflutningshafnir og setja skilyrði í því sambandi.  Í dóminum felist ekki annað en að formgalli á afturköllun 9. febrúar 1999 valdi því að afturköllunin sé felld úr gildi.  Þá segir jafnframt að af hálfu stefnanda hafi ekki verið gerð sú dómkrafa að sjóflutningstaxtar, sem byggt hafi verið á í reynd, yrðu ógiltir.  Sé því eigi litið svo á að dómurinn feli í sér ógildingu á sjóflutningstöxtum og muni stjórn sjóðsins fylgjast með því hvort innflutningur til Akureyrar sé með þeim hætti að ástæða sé til að endurskoða taxtana. 

Af þessu tilefni lét fulltrúi stefnanda í stjórn stefnda bóka að hann teldi óviðunandi að meirihluti stjórnar sjóðsins ætli ekki að fara að niðurstöðu dómsins um Krossanes sem innflutningshöfn og leiðrétta ofgreidda flutningsjöfnun til samræmis við gildandi sjóflutningstaxta fyrir þegar liðið tímabil, frá 1. desember 1998 til 31. október 1999.  Í bókuninni segir jafnframt að þann 30. nóvember 1999 hafi stefnandi sett fram kröfu um að flutningsjöfnun frá 1. desember 1998 tæki mið af niðurstöðu dómsins.  Frá því að dómurinn hafi legið fyrir hafi málið tafist langt umfram það sem eðlilegt sé og vænti félagið þess að í kjölfar útreikninga endurskoðenda, sem dagsettir séu 11. september 2000, verði gerðar nauðsynlegar leiðréttingar vegna liðins tíma að fjárhæð 62.120.004 krónur.  Að öðrum kosti væri nauðsynlegt að leita til dómstóla til að knýja stjórn stefnda til að viðurkenna niðurstöðu dómsins.

Stefnandi höfðaði mál gegn stefnda í febrúar 2001, mál nr. E-1612/2001, og gerði sömu dómkröfur og fjallað er um í þessu máli.  Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 30. október 2001 var málinu vísað frá dómi þar sem talið var að verulega skorti á að gerð væri grein fyrir því í stefnu hverjir þeir hagsmunir væru sem stefnandi teldi að væru í húfi fyrir sig. 

III

Stefnandi kveður að samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 103/1994 nái jöfnun flutningskostnaðar til flutnings á bensíni og öðrum olíuvörum frá innflutningshöfnum til annarra hafna sem tekið geti á móti olíuskipum.  Flutningsjöfnunin taki jafnframt til flutnings frá innflutningshöfnum eða olíuhöfnum til ákveðinna lykilverslunarstaða sem séu án viðunandi hafnar.  Hugtakið innflutningshöfn sé notað víða í lögunum án þess að þar sé að finna nánari upplýsingar um inntak þess.  Í greinargerð með lögunum sé tekið fram að olíufélögin geti komið sér upp nýrri aðstöðu í höfnum landsins eða flutt þá sem fyrir sé þannig að flutningur sjóleiðis taki breytingum í samræmi við eftirspurn í landinu á hverjum tíma. 

Þetta kveður stefnandi að olíufélögin hafi þegar nýtt sér og lagt niður olíubirgðastöðvar í hagræðingarskyni og reist aðrar nýjar.  Þessar aðgerðir geti haft töluverð áhrif á greiðslur úr flutningsjöfnunarsjóði, enda sé stjórn sjóðsins skylt að miða greiðslur úr sjóðnum við þá flutningshætti sem ódýrastir séu á hverjum tíma, sbr. 2. ml. 8. gr. laganna. 

Ákvörðun olíufélags um að setja upp olíubirgðastöð á stað þar sem engin slík sé fyrir geri það að verkum að við ákvörðun kostnaðar við landflutning á olíu á tiltekna útsölustaði beri stjórn stefnda að miða við flutning frá hinni nýju olíuhöfn í stað annarrar hafnar lengra frá útsölustöðunum. Þetta gildi um endurgreiðslu flutningskostnaðar til allra olíufélaganna sem starfi hér á landi þótt einungis eitt þeirra eigi aðgang að hinni nýju birgðastöð.

Sömu reglur gildi eðli málsins samkvæmt um uppbyggingu og niðurlagningu innflutningshafna.  Stefnandi hafi tekið þá ákvörðun að flytja gasolíu frá Noregi beint til Akureyrar.  Af því tilefni hafi hann óskað eftir því að birgðastöðin Krossanes við Akureyri yrði viðurkennd sem innflutningsbirgðastöð.  Beiðni stefnanda hafi verið samþykkt á fundi stjórnar stefnda 9. nóvember 1998.  Samþykki stjórnarinnar hafi verið skilyrðislaust auk þess sem á sama fundi hafi verið ákveðið að sjóflutningar á gasolíu tækju mið af þessari breytingu þannig að taxtar sjóflutninga á gasolíu miðuðust við skemmstu flutningsleið á sjó frá næstu innflutningshöfn á gasolíu.  Í samræmi við þá ákvörðun hafi sjóflutningstöxtum verið breytt frá og með 1. desember 1998 á fundi stjórnar stefnda 21. desember 1998.

Á fundi stjórnar stefnda 28. desember 2000 hafi komið fram í samþykkt meirihluta stjórnarinnar að það væri afstaða hans að dómur héraðsdóms frá 25. nóvember 1999 hafi ekki falið í sér ógildingu á þeim sjóflutningstöxtum sem greiðslur úr sjóðnum á umræddu tímabili hafi verið grundvallaðar á.  Stefnandi kveðst ekki skilja þessa ályktun meirihluta stjórnarinnar.  Stefnandi telur að með dómi þessum hafi afturköllun stjórnar stefnda á ákvörðuninni frá 9. nóvember 1998 verið ógilt og að í ógildingunni felist að ákvörðun stjórnar stefnda, um viðurkenningu á Krossanesi sem innflutningshöfn frá 9. nóvember 1998, standi óhögguð.  Sé það í samræmi við þá meginreglu íslensks stjórnsýsluréttar að réttaráhrif ógildingar teljist frá því hin ólögmæta ákvörðun var tekin “ex tunc” en ekki frá þeim tíma þegar ógildingarannmarki sé staðfestur af dómstólum “ex nunc”. 

Jafnframt kveður stefnandi að ljóst sé að ákvörðun þess fundar um að sjóflutningar á gasolíu tækju mið af þessari breytingu, og þær breytingar sem gerðar hafi verið á sjóflutningstöxtum í kjölfarið á fundi stjórnar stefnda 21. desember 1998, hafi gilt allt þar til flutningstöxtum var breytt að nýju á fundi stjórnar stefnda 19. október 1999.  Af þeim sökum telur stefnandi að reikna beri flutningsjöfnun frá 1. desember 1998 samkvæmt þeim töxtum sem þá voru löglega ákveðnir af stjórn stefnda.  Þar sem fulltrúi stefnanda í stjórn stefnda hafi samþykkt breytingar á umræddum töxtum á fundi stjórnar stefnda 19. október 1999 sé einungis krafist viðurkenningar á að reikna beri flutningsjöfnun samkvæmt ákvörðun stjórnar stefnda 21. desember 1998 frá 1. desember 1998 til og með 31. október 1999.

Sé það skilningur meirihluta stjórnar stefnda að afturköllun ákvörðunarinnar frá 9. nóvember 1998 hafi jafnframt falið í sér afturköllun ákvörðunar um breytta sjóflutningstaxta frá 21. desember 1998 telur stefnandi ljóst að sá skilningur sé rangur.  Tillaga stjórnar stefnda sem samþykkt var á fundi stjórnarinnar 8. febrúar 1999 laut að afturköllun á ákvörðuninni frá 9. nóvember 1998 en ekki á ákvörðun stjórnar um nýja sjóflutningstaxta frá 21. desember 1998.  Hvergi sé í tillögunni minnst á ákvörðunina frá 21. desember 1998.  Hins vegar sé í tillögunni tekið fram að sá þáttur ákvörðunarinnar frá 9. nóvember 1998 sem lotið hafi að breytingu á töxtum vegna sjóflutninga á gasolíu sé jafnframt afturkallaður.  Það telur stefnandi að breyti engu um gildi ákvörðunarinnar frá 21. desember 1998.

Jafnvel þótt afturköllunin frá 8. febrúar 1999 verði með einhverjum hætti túlkuð svo að sjóflutningstaxtarnir sem ákveðnir voru 21. desember 1998 teljist ekki í gildi, og talið verði að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. nóvember 1999 hafi ekki áhrif á þann hluta afturköllunarinnar, þá telur stefnandi engu að síður ljóst að stjórn stefnda hafi verið óheimilt að reikna flutningsjöfnun með þeim hætti sem gert var á tímabilinu 1. desember 1998 til og með 31. október 1999.  Stjórninni sé skylt skv. 2. ml. 8. gr. laga nr. 103/1994 að ákveða jöfnun á flutningskostnaði milli innflutningshafnar, olíuhafnar og útsölustaða miðað við þá flutningshætti sem ódýrastir séu hverju sinni.  Þegar olíufélag hefji beinan innflutning á birgðastöðvar sem ekki hafi verið flutt beint á áður sé stjórn stefnda skylt að taka tillit til þessara breytinga við útreikning á kostnaði við sjóflutning.  Framangreindar ákvarðanir stjórnar stefnda á fundum stjórnarinnar 9. nóvember og 21. desember 1998 hafi því verið í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 103/1994.  Þá ákvörðun stefnda að líta fram hjá því við ákvörðun greiðslna úr sjóðnum að Krossanes sé viðurkennd innflutningshöfn telur stefndi hafa verið óheimila.

Þá kveður stefnandi að í gögnum málsins gefi að líta útreikninga frá endurskoðanda stefnda þar sem raunverulegar greiðslur til olíufélaganna þriggja á tímabilinu l. desember 1998 til 31. október 1999 séu bornar saman við þær greiðslur sem inntar hefðu verið af hendi ef miðað hefði verið við þá flutningstaxta sem samþykktir voru 21. desember 1998.  Af útreikningunum megi ráða að á umræddu tímabili hafi olíufélögunum verið ofgreiddar í flutningsjöfnun 62.120.004 krónur fyrir þær hafnir sem Krossanes við Akureyri hafði áhrif á sem viðurkennd innflutningshöfn.  Af þessari fjárhæð hafi 31.325.749 krónur gengið til Olíufélagsins hf. (50,5%), 18.989.419 krónur til Olíuverslunar Íslands hf. (30,5%) en 11.804.836 krónur til stefnanda (19,0%). 

Til að standa undir þessum ofgreiðslum hafi olíufélögunum verið gert að innheimta gjald af seldu eldsneyti.  Það gjald hafi verið of hátt sem þessum muni nemi og verið innheimt hjá félögunum í samræmi við stærð þeirra á markaðinum.  Sé ljóst að þar hafi hallað töluvert á stefnanda enda sé markaðshlutdeild stefnanda á landinu öllu heldur meiri en hlutdeild félagsins á því svæði sem taki mið af Akureyri sem innflutningsbirgðastöð.   Ef greiðslur í og úr flutningsjöfnunarsjóði á tímabilinu frá l. desember 1998 til 31. október 1999 yrðu reiknaðar að nýju og leiðréttar miðað við þá flutningstaxta sem samþykktir voru 21. desember 1998, fengi stefnandi endurgreitt frá stefnda en Olíufélagið hf. og Olíuverslun Íslands hf. þyrftu að endurgreiða sjóðnum.

Með málsókn þessari sé ætlun stefnanda að fá úr því skorið hvort stefnda sé skylt að ákvarða greiðslur úr sjóðnum á tímabilinu 1. desember 1998 til 31. október 1999 á grundvelli flutningstaxta sem ákveðnir voru á fundi stjórnar stefnda 21. desember 1998 og giltu frá 1. desember 1998.  Verði fallist á dómkröfur stefnanda leiði það, að mati stefnanda, til þess að stefnda beri að endurreikna og leiðrétta greiðslur úr sjóðnum fyrir umrætt tímabil.  Það sé hins vegar ekki á valdi stefnanda að ákveða hvernig slíkar leiðréttingar verði framkvæmdar.

Í ljósi þess að viðleitni stefnanda til að fá flutningsjöfnunargreiðslur fyrir tímabilið 1. desember 1998 til 31. október 1999 leiðréttar hafi ekki borið árangur sé stefnanda nauðsyn að höfða mál til viðurkenningar á þeim rétti sínum.

Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að allar forsendur bresti fyrir kröfu stefnanda.  Af hans hálfu er því mótmælt að í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. nóvember 1999 sé fjallað um taxtaákvarðanir stjórnar stefnda.  Hvergi í dóminum sé vikið að ákvörðunum stefnda um þau efni og í dómsorðinu segi ekkert um taxtaákvarðanir, enda hafi dómkröfur stefnanda ekki lotið að þeim.  Engin krafa hafi verið gerð um leiðréttingu taxtanna í héraðsdómsmálinu né yfirleitt vikið að því að krafa yrði gerð um slíka leiðréttingu aftur í tímann.  Telur stefndi dómsorðið fela í sér að afturköllun ákvörðunar um að Krossanes sé viðurkennd sem innflutningsbirgðastöð á gasolíu sé felld úr gildi en ekki sé ákveðið að afturköllunin skuli vera ógild. Á því tvennu sé reginmunur.  Með því að afturköllunin hafi aðeins verið felld úr gildi þá hljóti að verða litið svo á að hún hafi verið í gildi og eigi að hafa full réttaráhrif alveg fram að þeim tíma sem dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, féll 25. nóvember 1999.  Krafa stefnanda byggi á því að afturköllunin eigi ekki að hafa réttaráhrif, líkt og ákvörðun um réttaráhrif hefði aldrei verið tekin, á tímabilinu 1. desember 1998 til 31. október 1999.  Bresti því allar forsendur fyrir kröfu stefnanda og beri  þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda.

Þá byggir stefndi á því að ljóst sé að stjórn stefnda hafi verið rétt að fara ekki eftir töxtunum sem samþykktir voru 21. desember 1998.  Stjórn stefnda hafi lögum samkvæmt verið óheimilt að fara eftir ákvörðuninni frá 21. desember 1998, sbr. 4. og 8. gr. laga nr. 103/1994, því hafi afturköllunin verið heimil samkvæmt 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga.

Stefndi kveður að aldrei hafi verið farið eftir taxtaákvörðuninni 21. desember 1998 og hún hafi verið afturkölluð 8. febrúar 1999, enda hafi taxtarnir ekki endurspeglað raunverulegan flutningskostnað á tímabilinu 1. desember 1998 til 31. október 1999 við flutning þess magns af olíu sem dugði til að svara eftirspurn á svæðinu umhverfis Akureyri.

Ef farið hefði verið eftir taxtaákvörðuninni 21. desember 1998 hefði það haft íþyngjandi áhrif á þá aðila sem rétt eigi til greiðslna úr flutningsjöfnunarsjóði.  Stefndi kveður að fulltrúi Olíufélagsins hf. hafi 21. desember 1998 látið bóka að taxtaákvörðunin hafi ekki verið í neinu samræmi við raunflutningskostnað í sjóflutningum og áskilið félaginu allan rétt til að leita réttar síns varðandi endurgreiðslu frá stefnda.  Þegar í ljós hafi komið 8. febrúar 1999 að taxtaákvörðunin 21. desember 1998 endurspeglaði ekki raunverulegan kostnað þá hafi ákvörðunin verið afturkölluð. 

Það að ákvörðunin hafi ekki endurspeglað raunverulegan flutningskostnað, megi sjá af því að taxtarnir sem samþykktir voru 21. desember 1998 hafi falið í sér verulega lækkun á endurgreiðslum flutningskostnaðar.  Nýir taxtar sem hafi verið samþykktir á fundi 19. október 1999 frá og með 1. nóvember 1999 feli einnig í sér hærri endurgreiðslur en taxtarnir sem samþykktir voru 21. desember 1998.

Stefndi kveður stefnanda í raun viðurkenna að nýju taxtarnir frá 1. nóvember 1999 séu í samræmi við raunverulegan flutningskostnað.  Það sé beinlínis tekið fram í bókun fulltrúa stefnanda í stjórna stefnda á fundinum 19. október 1999.  Því verði samkvæmt þessu að líta svo á að taxtarnir sem samþykktir voru 21. desember 1998 hafi verið miklu lægri en raunverulegur flutningskostnaður.  Megi sem dæmi nefna flutning til Dalvíkur.  Samkvæmt málflutningi stefnanda hafi raunverulegur kostnaður við að flytja gasolíu þangað verið rösklega 1.200 krónur á tonnið fyrir 1. desember 1998 en eftir 1. desember 1998 til 31. október 1998 hafi sá kostnaður skyndilega orðið röskar 200 krónur á tonnið en eftir það snarlega hækkað og aftur orðið röskar 1.200 krónur á tonnið.  Telur stefndi þetta sýna hversu ótrúverðugur málflutningur stefnanda sé.

Þá leiði það einnig af eðli máls að taxtarnir sem ákvörðun var tekin um 21. desember 1998 séu ekki í samræmi við raunkostnað.  Stefnandi haldi því fram að við dreifingu á olíuvörum á svæðinu umhverfis Akureyri sé ódýrast að flytja inn olíu beint til Krossaness og því sé óskiljanlegt af hverju stefnandi hafi ekki sjálfur notfært sér þessa ódýru flutningsleið.  Sú staðreynd að stefnandi hafi nánast ekkert flutt inn af olíu eftir þessari meintu ódýru flutningsleið feli ekki annað í sér en enn frekari staðfestingu á því að viðkomandi flutningsleið sé ekki ódýrust.  Stjórn stefnda sé því rétt og skylt lögum samkvæmt að fara ekki eftir töxtunum og vísar stefndi til 4. og 8. gr. laga nr. 103/1994 þar um.  Verði einhver vafi talinn leika á því hver hafi verið raunverulegur flutningskostnaður tímabilið 1. desember 1998 til 31. október 1999 þá beri við úrlausn málsins að hafa í huga að stefnandi hljóti að bera sönnunarbyrðina fyrir því að kostnaðurinn hafi verið annar en stjórn stefnda tók mið af.

Þá telur stefndi að samþykkt stjórnar stefnda 21. desember 1998 um nýja taxta hafi byggst á þeirri röngu forsendu að taxtarnir endurspegluðu raunverulegan flutningskostnað á svæðinu umhverfis Akureyri.  Sú forsenda fái ekki staðist.  Telur stefndi að gera verði þá kröfu til þess að miðað sé við tiltekinn stað sem upphafspunkt í útreikningum á flutningskostnaði að á þeim stað sé alltaf fyrir hendi nægjanlegt magn af olíuvörum til að selja öllum, þ.m.t. olíufélögum sem óski eftir olíu á viðkomandi svæði.  Stefnanda hafi aldrei verið mögulegt að sinna allri eftirspurn á svæðinu umhverfis Akureyri, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 103/1994.  Stefnandi hafi einungis einu sinni á tímabilinu sem hér um ræði flutt in gasolíu til Akureyrar og þá hafi verið um bílagasolíu að ræða.  Sá innflutningur verði að skoðast sem afar takmarkaður enda sé ljóst að það magn af gasolíu sem ætlað er fyrir bíla sé einungis örlítið brot af því magni sem ætlað sé fyrir skip.  Fulltrúa stefnanda hafi átt að vera kunnugt um að af hálfu stjórnar stefnda hafi verið gengið út frá því að innflutningur yrði meiri en raun bar vitni.

Verði litið svo á að innflutningur Skeljungs hf. til Akureyrar á tímabilinu 1. desember 1998 til 31. október 1999 ætti að leiða til þess að taxtarnir sem voru samþykktir 21. desember 1998 hefðu átt að ganga í gildi, þá telur stefndi það ljóst að að þeir hefðu aldrei verið lagðir til grundvallar óbreyttir frá 31. október 1999.  Alltaf hafi legið fyrir að endurskoða þyrfti flutningstaxta á sjó.  En þar sem töxtunum sem samþykktir voru 21. desember 1998 var aldrei beitt þá hafi endurskoðunin aldrei farið fram.  Þá hafi skilyrðið um að innflutningur til Akureyrar yrði í heilum förmum ekki komið seinna fram en 8. febrúar 1999 en við það skilyrði hafi aldrei verið staðið af hálfu stefnanda.

Stefndi mótmælir því að ákvörðun um Krossanes sem innflutningshöfn leiði sjálfkrafa til þess að fara verði eftir töxtunum sem samþykktir voru 21. desember 1998.  Ákveðin tengsl séu milli ákvörðunar um innflutningshöfn og taxtaákvarðana stjórnar stefnda.  Þau tengsl geti hins vegar aldrei leitt til þess að stjórn stefnda greiði ekki raunverulegan flutningskostnað af olíuvörum.  Þá vísar stefndi þeim málatilbúnaði stefnanda á bug að ákvörðun taxta frá 21. desember 1998 hafi aldrei verið afturkölluð.  Stefnanda, sem fékk greitt úr sjóðnum líkt og engin taxtaákvörðun hefði verið tekin 21. desember 1998, hljóti að hafa verið ljóst að aldrei stóð til að leggja ákvörðunina 21. desember til grundvallar endurgreiðslum flutningskostnaðar.

V

Í máli þessu krefst stefnandi viðurkenningardóms þess efnis að við útreikning á flutningsjöfnun á gasolíu frá 1. desember 1998 til og með 31. október 1999 hafi stefnda borið að fara eftir flutningstöxtum sem stjórn stefnda samþykkti 21. desember 1998 og taka áttu gildi 1. desember 1998.

Forsaga máls þessa og efni þeirra ákvarðana sem um hefur verið deilt er rakið hér að framan.  Í fundargerðum sem liggja frammi í málinu kemur fram að stjórn stefnda samþykkti, 9. nóvember 1998, Krossanes sem innflutningshöfn um leið og fyrsti beini innflutningur á gasolíu væri kominn í tanka stöðvarinnar.  Jafnframt því var ákveðið að sjóflutningar á gasolíu tækju mið af framangreindu og að taxtar sjóflutninga á gasolíu miðuðust sem hingað til við skemmstu flutningsleið á sjó frá næstu innflutningshöfn á gasolíu.  Til samræmis við þessa yfirlýsingu voru á fundi stjórnar stefnda 21. desember 1998 formlega samþykktar breytingar á þágildandi flutningstöxtum á sjó við það að innflutningur á gasolíu hæfist á Akureyri sem miðuðust við að taxtarnir tækju gildi frá 1. desember 1998 og myndu gilda fyrst um sinn en jafnframt að hraðað yrði endurskoðun á flutningstöxtum á sjó.

Með ákvörðun stjórnar stefnda 8. febrúar 1999 var fyrrgreind ákvörðun um viðurkenningu á Krossanesi sem innflutningshöfn afturkölluð.  Í fundargerð um þetta segir að ákvörðunin sé afturkölluð vegna forsendubrests og þar með sá þáttur hennar sem laut að breytingu á töxtum vegna sjóflutninga á gasolíu.   Með hliðsjón af þessu er ljóst að stefndi leit svo á að ákvörðun um breytingar á töxtum vegna sjóflutninga sem tekin var á fundi stjórnar stefnda 21. desember 1998 væri þáttur í að viðurkenna Krossanes sem innflutningshöfn, þó með þeim fyrirvara að taxtarnir yrðu endurskoðaðir eins og síðar varð þann 19. október 1999 er nýir taxtar tóku gildi og ekki er ágreiningur um í máli þessu.  Verður því ekki hjá því komist að líta svo á að ákvörðun stjórnar stefnda um flutningstaxta hafi grundvallast á fyrri ákvörðun stjórnarinnar um viðurkenningu á Krossanesi sem innflutningshöfn og að ákvarðanir þessar séu svo samþættar að gildi þeirrar síðarnefndu sé háð gildi þeirrar fyrri. 

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. nóvember 1999 í málinu nr. E-1438/1999 var afturköllun stjórnar stefnda 8. febrúar 1999 á fyrrgreindri ákvörðun frá 9. nóvember 1998 felld úr gildi.  Eins og rakið hefur verið greinir aðila á um þýðingu dómsins fyrir það ágreiningsefni sem hér er til umfjöllunar.  Þykir ljóst að í dómi þessum er ekki fjallað sérstaklega um ákvörðun þá sem tekin var á fundi stjórnar stefnda þann 21. desember 1998 varðandi taxta og lítur stefndi þannig á að því standi afturköllun hans á þeim töxtum auk þess sem dómurinn kveði á um að umdeild afturköllun hafi verið felld úr gildi en ekki að hún skuli vera ógild sem leiði til þess að afturköllunin hafi haft full réttarárhrif fram til þess tíma að dómur féll.

Eins og rakið er í niðurstöðu dómsins var ákvörðun stjórnar stefnda 9. nóvember 1998 ívilnandi fyrir stefnanda sem hafði óskað eftir henni og við hina umdeildu afturköllun hennar var þess ekki gætt af hálfu stjórnar stefnda að afturköllunin væri ekki til tjóns fyrir aðila sbr. 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga og samkvæmt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga hafi stjórn stefnda borið að veita stefnanda hæfilegt svigrúm til að uppfylla það skilyrði sem sett var fram á stjórnarfundi 8. febrúar 1999 um leið og ákvörðunin frá 9. nóvember 1998 var afturkölluð.  Af þessu verður ekki dregin önnur ályktun en sú að afturköllun sú sem felld var úr gildi með dóminum hafi verið ólögmæt frá upphafi og því ekki fallist á þá málsástæðu stefnda að umdeild afturköllun hefði verið í gildi fram til þess dags er dómur féll enda þykir sú niðurstaða vera í samræmi við þá meginreglu íslensks réttar að ógilding stjórnarathafna verki aftur fyrir sig og teljist ógild frá upphafi.  Verður því við það miðað við úrlausn þessa máls að dómurinn hafi haft þá réttarverkan að ákvörðun stjórnar stefnda frá 9. nóvember 1998 um viðurkenningu Krossaness sem innflutningshafnar hafi staðið óhögguð og verið gild og þar með þær ákvarðanir sem af henni leiddu.  Með hliðsjón af því sem að ofan greinir um samhengi þeirrar ákvörðunar og ákvörðunar um breytta flutningstaxta verður að líta svo á að þar með hafi stjórn stefnda borið að beita þeim flutningstöxtum sem hún hafði samþykkt 21. desember 1998 þar til önnur ákvörðun þar að lútandi yrði tekin.  Slík ákvörðun var síðar tekin 19. október 1999 eins og að framan er rakið og skyldi hún taka gildi frá og með 1. nóvember 1999.  Sú staðreynd að ekki var sérstaklega kveðið á um taxtaákvarðanirnar í fyrrgreindum dómi þykir því engu breyta hvað þetta varðar.

Þá verður ekki fram hjá því litið að ákvörðun stjórnar stefnda um breytta flutningstaxta byggði á þeim forsendum að taxtarnir endurspegluðu raunverulegan flutningskostnað.  Stefndi hefur ekki sýnt fram á það með nokkrum haldbærum rökum að þeir flutningstaxtar sem fólust í ákvörðuninni 21. desember 1998 hafi ekki endurspeglað raunverulegan flutningskostnað með þeim hætti að í andstöðu væri við tilgang laga nr. 103/1994 eða að það hefði í för með sér íþyngjandi áhrif á þá aðila sem rétt eigi til greiðslu úr flutningsjöfnunarsjóði að fara eftir þeirri taxtaákvörðun sem tekin var 21. desember 1998.  Breytir þar engu bókun fulltrúa Olíufélagsins hf. í stjórn stefnda á þeim fundi.  Eins og mál þetta liggur fyrir dóminum verður því engin afstaða tekin til þess hvort umræddir flutningstaxtar sem ákveðnir voru 21. desember 1998 voru í samræmi við þær reglur sem stjórn stefnda ber að fylgja í ákvörðunum sínum enda ekkert fram komið í málinu sem styður þær fullyrðingar stefnda að óheimilt hafi verið að fara eftir töxtum þessum.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 103/1994 úrskurðar stjórn flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara hvað teljast skuli flutningskostnaður og er stjórninni skylt að ákveða að jöfnun flutningskostnaðar milli innflutningshafnar, olíuhafnar og útsölustaða skuli takmörkuð við kostnað af þeim flutningsháttum sem ódýrastir eru á hverjum tíma.  Verður að leggja til grundvallar að ákvörðun stjórnar stefnda sem tekin var á fundi hennar 21. desember 1998 hafi verið í samræmi við skyldur stjórnarinnar og við það miðað að sú ákvörðun hafi staðið óhögguð þar til stjórnin tók ákvörðun um nýja taxta á fundi sínum 19. október 1999.

Að því virtu sem nú hefur verið rakið þykir ljóst að með því að afturköllun stjórnar stefnda um að viðurkenna Krossanes sem innflutningshöfn var ógild stóð sú ákvörðun óhögguð og því þeir flutningstaxtar sem ákveðnir voru í samræmi við að Krossanes væri innflutningshöfn.  Verða kröfur stefnanda því teknar til greina.

Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Gestur Jónsson hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Reimar Pétursson hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

   Viðurkennt er að við útreikning á flutningsjöfnun á gasolíu frá 1. desember 1998 til og með 31. október 1999 bar stefnda, Flutningsjöfnunarsjóði olíuvara, að fara eftir þeim flutningstöxtum sem ákveðnir voru á fundi stjórnar stefnda 21. desember 1998.

   Stefndi greiði stefnanda Skeljungi hf. 400.000 krónur í  málskostnað.