Hæstiréttur íslands

Mál nr. 136/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Haldsréttur
  • Nauðungarsala
  • Ómerking héraðsdóms


                                              

Föstudaginn 22. mars 2013.

Nr. 136/2013.

Guðmundur Bjarni Yngvason

(Bjarki Þór Sveinsson hdl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(enginn)

Kærumál. Haldsréttur. Nauðungarsala. Ómerking héraðsdóms.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu G um að ómerkt yrði ákvörðun sýslumanns um að endursenda nauðungarsölubeiðni G á vinnulyftu í eigu Í hf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ágreiningslaust væri að G hefði verið falið að geyma vinnulyftuna gegn greiðslu og að geymslugjaldið hefði ekki verið greitt, þrátt fyrir áskoranir G þar um. Með geymslu lyftunnar í þágu Í hf. hefði G öðlast haldsrétt í lyftunni fyrir geymslugjaldi og gat því krafist nauðungarsölu hennar á grundvelli 6. töluliðar 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Ákvörðun sýslumanns var því felld úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. febrúar 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 5. febrúar 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila þess efnis að ákvörðun sýslumannsins í Borgarnesi frá 28. ágúst 2012 um endursendingu nauðungarsölubeiðni yrði ómerkt og að lagt yrði fyrir sýslumann að selja tækið Omme-lift 2200 RBDJ árgerð 2006 nauðungarsölu. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sýslumanninum gert að selja framangreint tæki nauðungarsölu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. 

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I

Eins og fram kemur í samningi um fjármögnunarleigu sem Höldar ehf. gerði við

Glitni fjármögnun 27. september 2006, leigði Glitnir fjármögnun fyrrgreindu félagi Omme-lift vinnulyftu, árgerð 2006. Fyrsti gjalddagi samningsins var 15. nóvember 2006 og samningstími til 14. nóvember 2011. Með yfirlýsingum sem Glitnir fjármögnun og síðar Íslandsbanki fjármögnun stóðu að, voru gerðar breytingar á greiðsluáætlun samningsins, 1. desember 2008, 20. maí 2009 og 18. nóvember sama ár. Bú Hölda ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 14. maí 2010 og lýsti varnaraðili kröfu í búið. Sóknaraðili byggir á því að munnlegt samkomulag hafi orðið milli sín og Hölda ehf. um að sóknaraðili tæki vinnulyftuna í geymslu. Ágreiningslaust er að sóknaraðili hefur frá mars 2009 geymt vinnulyftuna í húsnæði sem hann hefur haft til umráða.

Með bréfi 14. september 2011 til varnaraðila krafðist sóknaraðili uppgjörs áfallinna geymslugjalda. Með bréfi 24. janúar 2012 var framangreind krafa ítrekuð og tilkynnt að ef ekki kæmi til uppgjörs hennar yrði haldsréttar í lyftunni neytt og óskað eftir nauðungarsölu. Þá sendi sóknaraðili greiðsluskorun 1. júní sama ár til varnaraðila, þar sem efni framangreindra bréfa var ítrekað. Í kjölfar þess bréfs sendi varnaraðili sóknaraðila bréf 12. júní sama ár. Af efni bréfsins verður ráðið að ágreiningur standi um fjárhæð geymslugjalds en þar sagði jafnframt að varnaraðili væri tilbúinn til að greiða ,,sanngjarna og eðlilega fjárhæð fyrir geymslu greinds tækis“.

Beiðni sóknaraðila um nauðungarsölu var send sýslumanninum í Borgarnesi 23. ágúst 2012. Sýslumaður endursendi beiðnina 28. sama mánaðar með vísan til 1. mgr. 13. gr. laga nr. 90/1991. Þeirri ákvörðun sýslumanns skaut sóknaraðili til Héraðsdóms Vesturlands 13. september 2012 og krafðist þess að ákvörðun sýslumanns yrði felld úr gildi og lagt fyrir sýslumann að selja vinnulyftuna. Með hinum kærða úrskurði var þeirri kröfu hafnað.

Með aðfararbeiðni 4. janúar 2012 til Héraðsdóms Reykjavíkur krafðist varnaraðili þess að vinnulyftan yrði, með beinni aðfarargerð, tekin úr vörslum sóknaraðila og fengin varnaraðila. Það mál var fellt niður þar sem upp kom ágreiningur með aðilum um reikning sóknaraðila vegna geymslukostnaðar.

II

Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðili sé eigandi vinnulyftu þeirrar sem mál þetta er sprottið af og hefur hann lýst því yfir að hann sé tilbúinn til að greiða sanngjarnt og eðlilegt gjald til varnaraðila fyrir geymslu lyftunnar. Ágreiningslaust er að geymslugjald hefur ekki verið greitt, þrátt fyrir áskoranir sóknaraðila þar um, en ágreiningur stendur um fjárhæð þess. 

Með geymslu lyftunnar í þágu varnaraðila hefur sóknaraðili öðlast haldsrétt í lyftunni fyrir geymslugjaldi og getur á grundvelli 6. töluliðar 6. gr. laga 90/1991 krafist nauðungarsölu á lyftunni. Ágreiningur um fjárhæð geymslugjalds breytir engu um uppboðsheimildina sjálfa.

Verður því fallist á kröfu sóknaraðila á þann hátt sem greinir í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum greiði varnaraðili sóknaraðila málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.  

Dómsorð:

Ákvörðun sýslumannsins í Borgarnesi 28. ágúst 2012 um að hafna nauðungarsölu á tækinu Omme-lift 2200 RBDJ, árgerð 2006, er felld úr gildi. 

Varnaraðili, Íslandsbanki hf., greiði sóknaraðila, Guðmundi Bjarna Yngvasyni, samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 5. febrúar 2013.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 24. janúar sl.

Sóknaraðili er Guðmundur Bjarni Yngvason, Tröllaborgum 18, Reykjavík,

Varnaraðili er Íslandsbanki hf., Reykjavík.

Með bréfi dagsettu 13. september sl. skaut sóknaraðili, ákvörðun sýslumannsins í Borgarnesi um endursendingu nauðungarsölubeiðni til dómstólsins skv. 2. mgr. 13. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, sbr. XIII. kafla sömu laga.

Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumanns um endursendingu nauðungarsölubeiðni dags. 28. ágúst 2012 verði ómerkt.

Þá gerir sóknaraðili þá kröfu að nauðungarsala samkvæmt beiðninni nái fram að ganga. Loks gerir hann kröfu um málskostnað.

Varnaraðili gerir þá kröfu að ákvörðun Sýslumannsins í Borgarnesi um endursendingu nauðungarsölubeiðni dags. 28.08.2012 verði staðfest. 

Þá er krafist málskostnaðar.

MÁLSATVIK

Sóknaraðili hefur á undanförnum árum leigt út geymslu fyrir lausafé. Jafnframt er sóknaraðili fyrirsvarsmaður fyrirtækisins Sólhúsa ehf. Vorið 2009 tóku Sólhús ehf. að sér verkefni erlendis. Til þess verkefnis þurfti vinnulyftu og var ein slík boðin Sólhúsum til kaups af fyrirtækinu Höldar ehf. Ekki varð af kaupunum en Höldar ehf. óskuðu þá eftir því við sóknaraðila að hann tæki lyftuna til geymslu og heldur sóknaraðili því fram að samkomulag hafi orðið um að sóknaraðili geymdi lyftuna gegn gjaldi. Lyftunni var komið til geymstu hjá sóknaraðila í marsmánuði 2009.

Hinn 27. september 2006 tók Höldar ehf., vinnulyftu þessa á fjármögnunarleigu hjá Glitni fjármögnun (nú Ergo). Bú Hölda ehf. var úrskurðað gjaldþrota hinn 14. maí 2010 og lýsti varnaraðili, f.h. Ergo, kröfu í þrotabúið.

Hinn 4. janúar 2012 sendi varnaraðili aðfararbeiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem óskað var dómsúrskurðar um að vinnulyftan DK0492 yrði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum sóknaraðila, Guðmundar Bjarna Yngvasonar. Málið var fellt niður þar sem í kjölfar þess máls kom upp ágreiningur um fjárhæð reiknings sóknaraðila fyrir geymslu tækisins. Aðilar á vegum varnaraðila fengu að skoða vinnulyftuna í geymslu sóknaraðila í apríl 2012 og í kjölfar þeirrar skoðunar kveður varnaraðili hafa komið í ljós að reikningur sóknaraðila hafi verið í engu samræmi við þá þjónustu sem verið var að veita. Vinnulyftan hafi verið geymd í gömlu refahúsi með malargólfi en verð hjá öðrum aðilum sem bjóði upp á sambærilega þjónustu, þó í betra húsnæði, hefði verið mun lægra.

Þrátt fyrir kröfur sóknaraðila og ítrekuð loforð Hölda ehf. um að sækja vinnulyftuna og greiða geymslukostnað hafi ekki orðið af því og allt frá gjaldþroti Hölda ehf. hafi varnaraðili ítrekað krafið sóknaraðila um að sækja lyftuna og koma að uppgjöri geymslukostnaðarins. Sóknaraðili hafi sent varnaraðila kröfubréf 14. september 2011 þar sem krafist hafi verið uppgjörs áfallins geymslukostnaðar.

Hinn 23. ágúst sl. sendi sóknaraðili beiðni um nauðungarsölu á vinnulyftunni til sýslumannsembættisins í Borgarnesi. Beiðnin var endursend með bréfi dagsettu 28. ágúst 2012. Hinn 3. september gaf sóknaraðili út yfirlýsingu um að ákvörðun sýslumanns væri skotið til dómstóla. Sóknaraðili telur að öll skilyrði laga nr. 90/1991 fyrir því að umbeðin nauðungarsala nái fram að ganga séu uppfyllt. Því sé sóknaraðila nauðsynlegt að höfða mál þetta til að hnekkja ákvörðun sýslumanns um endursendingu beiðninnar og hún nái fram að ganga.

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK

Sóknaraðili ber fyrir sig að samkvæmt 6. tl. 1. mgr. 6. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 megi krefjast nauðungarsölu á eign samkvæmt haldsrétti í eigninni. Í lagagreininni sé ekki tekið fram hvaða skilyrði séu gerð til sönnunar fyrir kröfu haldsréttarhafa, t.d. segi hvergi að hann þurfi að hafa fengið dóm fyrir haldsréttinum.

Sóknaraðili hafi verið í viðræðum við umráðamann lyftunnar um kaup á henni, Af kaupum hafi ekki orðið og í kjölfarið hafi tekist munnlegt samkomulag með Höldum ehf. og sóknaraðila um að sóknaraðili myndi geyma lyftuna fyrir Hölda ehf.

Sóknaraðili telur ákvörðun sýslumanns um endursendingu nauðungarsölubeiðninnar byggða á þeirri röngu forsendu að Höldar ehf. hafi verið eigandi lyftunnar á þeim tíma sem samningurinn milli Hölda ehf. og sóknaraðila var gerður. Því til stuðnings megi nefna að sýslumaður vísi til Hölda ehf. sem „fyrri eiganda" í lið 2 í upptalningu á upplýsingum sem liggi fyrir, að mati sýslumanns. Þessi tilgreining sýslumanns sé röng, enda liggi ekkert fyrir í málinu um að Höldar ehf. hafi nokkurn tímann verið eigandi lyftunnar.

Hið rétta sé að varnaraðili hafi verið eigandi lyftunnar allan þann tíma sem um ræðir í málinu. Höldar ehf. hafði umráð lyftunnar á grundvelli eignaleigusamnings sem gerður hafi verið árið 2006.

Í ákvörðun sýslumanns segi að ekkert hafi verið lagt fram um það hvort varnaraðili hafi tekið að sér skuldbindingar þrotabús Hölda ehf. gagnvart sóknaraðila við yfirfærslu eignaréttarins að vinnulyftunni frá þrotabúinu til varnaraðila. Hið rétta sé að engin slík yfirfærsla hafi átt sér stað, þar eð lyftan hafi verið í eigu varnaraðila allan þann tíma er atvik málsins urðu. Sóknaraðili telur að sýslumaður hafi látið það ráða niðurstöðu sinni að ekki verði tekin afstaða til beiðninnar meðan óvissa sé uppi um lögskipti varnaraðila, sóknaraðila og þriðja manns. Málið snúi hins vegar einungis að réttarsambandi varnaraðila og sóknaraðila. Sóknaraðili leggur áherslu á að hvorki gjaldþrot né eftirfarandi skiptameðferð Hölda ehf. hafi nokkra þýðingu fyrir réttarsamband aðila máls þessa, þar eð varnaraðili hafi verið eigandi lyftunnar allan þann tíma sem atvik málsins áttu sér stað.

Sýslumaður vísi til þess í ákvörðun sinni að til þess að sóknaraðili geti beint kröfu sinni að varnaraðila verði að koma til einhver staðfesting á kröfu hans gagnvart honum. Endursending beiðninnar sé reist á því mati sýslumanns að enginn samningur hafi komist á um geymslu lyftunnar og því þurfi efnisdóm fyrir kröfunni til að staðfesta haldsréttinn. Það sé hins vegar rangt, þar sem Höldar ehf. hafi verið umráðamaður lyftunnar og hafi gert munnlegan samning við sóknaraðila um geymslu hennar. Sóknaraðili byggi á meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og að munnlegir samningar séu jafngildir skriflegum. Samningur milli sóknaraðila og varnaraðila hafi komist á þar sem Höldar ehf. hafi gert löggerninginn í  umboði varnaraðila í skjóli umráðaréttar síns.

Þá komi hvergi fram í 6. tl. 1. mgr. 6. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 að það sé skilyrði haldsréttar að haldsréttarhafi hafi fengið efnisdóm fyrir rétti sínum. Gert sé ráð fyrir því að til haldsréttar stofnist ýmist á grundvelli samnings, eða án þess að hann sé sérstaklega heimilaður í samningi. Þá taki lögin einnig til lögákveðins haldsréttar sem grundvallist fyrst og fremst á eðli máls, en geti auk þess stuðst við venju og ákvæði í settum lögum.

Það sé viðurkennd óskráð regla í íslenskum rétti að vörslumaður verðmæta öðlist haldsrétt í þeim fyrir þeim kostnaði sem af geymslu hljótist. Þetta megi m.a. leiða af eðli máls, venju, 6. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 91/1991 um nauðungarsölu og grunnreglu 1. mgr. 200. gr. siglingalaga nr. 34/19ð5.

Jafnvel þótt ekki verði fallist á að samningur um geymslu hafi komist á milli sóknaraðila og varnaraðila fyrir umboð Hölda ehf., hafi sóknaraðila allt að einu borið að varðveita lyftuna fyrir varnaraðila.

Lyftunni hafi verið kornið í vörslur sóknaraðila til geymslu að beiðni umráðamanns hennar, gegn gjaldi. Frá þeim tíma hafi sóknaraðili borið þá skyldu að stuðla að því að lyftan héldi gildi sínu, varðveita hana og forða henni frá skemmdum, en af geymslunni hafi hann haft nokkurn kostnað. Þrátt fyrir að geymslugjald fengist ekki greitt hafi sóknaraðila allt að einu verið skylt að varðveita lyftuna og tryggja verðmæti hennar, enda hætta á eyðileggingu verðmætisins annars. Við skiptameðferð Hölda ehf. hafi varnaraðili fengið upplýsingar um staðsetningu vinnulyftunnar en ekkert aðhafst til þess að fá hana í sínar vörslur. Um viðtökudrátt af hálfu varnaraðila hafi því verið að ræða og hafi orðið sóknaraðili að annast verðmætið fyrir hönd varnaraðila, svo lengi sem nauðsyn hafi krafið og sanngjarnt hafi verið að ætlast til af honum. Telja verður að sá tími sé löngu liðinn og að sóknaraðili hafi öðlast haldsrétt í lyftunni fyrir nauðsynlegum kostnaði sem af varðveislunni hafi leitt, Allt frá gjaldþroti Hölda ehf. hafi sóknaraðili krafið varnaraðila ítrekað um að sækja lyftuna og koma að uppgjöri geymslukostnaðarins. Hinn 14. september 2011 hafi sóknaraðill sent varnaraðila bréf þar sem krafist hafi verið uppgjörs áfallins geymslukostnaðar. Því verði ekki talið sannað að vörslurnar hafi staðið lengur en þörf krafði.

Sóknaraðili hefur fært geymslukostnað vegna lyftunnar á sérstakt skjal ásamt dráttarvöxtum. Samkvæmt gjaldskrá sóknaraðila í maí 2009 hafi gjald fyrir geymslukostnað verið 1.100 krónur á sólarhring með virðisaukaskatti fyrir geymslu á ökutæki eða vinnuvél af sömu eða svipaðri stærð. Gjaldið hafi átt að greiðast mánaðarlega með gjalddaga fyrsta dag hvers mánaðar. Gjaldskráin hafi hækkað um 10% milli ára 2009 og 2010, um 10% milli ára 2010 og 2011 og um 8% milli ára 2011 og 2012. Þá hafi dráttarvextir lagst á kröfu sóknaraðila skv. 5. og 6. gr. laga nr. 38/2001.

Sóknaraðili telur gjaldskrá sinni mjög í hóf stillt og bendir í því samhengi á almennt verð fyrir geymslu bifreiða og tækja. Sóknaraðili leggur fram gjaldskrá Vöku Björgunarfélags hf. frá 16. maí 2012 þar sem geymslukostnaður fyrir ýmis konar bifreiðar sé talinn upp. Öll þau verð séu hærri en sá geymslukostnaður sem sóknaraðili krefji gerðarþola um fyrir geymslu vinnulyftunnar. Sérstaklega bendir sóknaraðill á að geymslan hafi komist á með litlum fyrirvara og með loforði um að lyftan yrði sótt innan skamms. Af þessum ástæðum hafi kostnaður við geymslu orðið meiri en hjá aðilum sem sérhæfi sig í langtímageymslu bifreiða og tækja yfir vetrartímann. Slíka geymslu sé unnt að skipuleggja með góðum fyrirvara og þannig að lítið sem ekkert þurfi að hreyfa tækin. Sóknaraðili hafi hins vegar sífellt þurft að hafa lyftuna til taks fyrir varnaraðila ef ske kynni að orðið væri við kröfum hans um að lyftan yrði sótt. Því hafi sóknaraðili sífellt þurft að færa lyftuna til eftir því sem nýting á geymsluplássi hans breyttist.

Samkvæmt gjaldskrá Vöku Björgunarfélags greiðist 2.650 krónur á sólarhring fyrir geymslu jeppabifreiðar innanhúss. Geymslukostnaður Vöku byggi á sömu sjónarmiðum og að framan séu rakin um kostnað sóknaraðila. Því telji sóknaraðili umkrafinn geymslukostnað sanngjarnan með vísan til 28. gr. laga nr. 42/2000 auk þess sem um hann hafi verið samið við upphaf geymslutímans.

Af framangreindum röksemdum telur sóknaraðili ljóst að öll skilyrði laga nr. 90/1991 fyrir því að umbeðin nauðungarsala nái fram að ganga séu uppfyllt. Því beri að hnekkja ákvörðun sýslumanns um endursendingu hennar og beiðnin nái fram að ganga.

Sóknaraðili byggir á meginreglum samningaréttar og reglum kröfuréttar sem og ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Þá byggir sóknaraðili á hinum óskráðu meginreglum sem gildi um stofnun haldsréttar á grundvelli eðlis máls og venjum um geymslu og varðveislu hlutar að beiðni umboðsmanns eiganda og á ákvæðum XI. kafla laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 um umönnun söluhlutar.

Málskostnaðarkrafa sóknaraðila byggir á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Af hálfu varnaraðila er til þess vísað að ekki liggi fyrir skriflegur samningur á milli sóknaraðila og Hölda ehf. um geymslu á tækinu og séu skilmálar þessa samnings því á huldu, þ.á.m. verð fyrir geymsluna og í hversu langan tíma sóknaraðili skyldi geyma tækið. Þá liggi ekki fyrir að sóknaraðili hafi lýst kröfu sinni í þrotabú Hölda ehf. en slíkt mætti telja eðlilegt þar sem sóknaraðili telji sig eiga rétt á greiðslu geymslugjalda frá maí 2009 en bú Hölda ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota í maí 2010.

Einnig liggi fyrir að ágreiningur er á milli aðila um geymslugjöldin en varnaraðili telur verð sóknaraðila fyrir geymsluna allt of hátt og ekki í neinu samhengi við verð hjá öðrum aðilum sem bjóði upp á sambærilega þjónustu, sérstaklega þó með tilliti til þess að hvorki liggi fyrir samningur um geymsluna né gjaldskrá sóknaraðila.

Varnaraðili telur að hér ætti að líta til 28. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000, en þar segir: „Hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er." Þess megi geta að varnaraðili hafi ítrekað lýst yfir þeim vilja sínum að greiða sanngjarna fjárhæð fyrir geymslu tækisins.

Sóknaraðili hafi lagt fram gjaldskrá Vöku Björgunarfélags hf. og styðji gjaldskrá sóknaraðila við hana, en taki fram að sóknaraðili taki lægra gjald fyrir. Varnaraðili telur að gjaldskrá Vöku Björgunarfélags hf. eigi ekki við hér og bendir á því til stuðnings að Vaka taki gjöld fyrir hvern sólarhring og miðist þeirra verð því frekar við geymslu í skamman tíma sem sé ekki raunin hér og þætti því eðlilegra að miða við langtímageymslupláss.

Því til stuðnings að eðlilegra væri að miða við langtímageymslupláss megi benda á að sóknaraðili lýsi því í greinargerð sinni að „Allt frá gjaldþroti Hölda ehf. krafði sóknaraðili varnaraðila ítrekað um að sækja lyftuna og koma að uppgjöri geymslukostnaðarins." Hins vegar liggi aðeins fyrir í málinu bréf sóknaraðila til varnaraðila dags 14. september  2011, eða 16 mánuðum eftir gjaldþrot Hölda ehf.

Af framangreindum röksemdum telur varnaraðili það með öllu óljóst hvort sóknaraðili eigi haldsrétt í tækinu og verði sóknaraðili því að fá efnisdóm fyrir kröfu sinni áður en hann getur krafist nauðungarsölu á grundvelli haldsréttar.

Lagatilvísanir

Varnaraðili byggir á meginreglum kröfuréttar og 28. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000. Málskostnaðarkrafan byggir á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

NIÐURSTAÐA

Sóknaraðili reisir kröfur sínar á því að samkvæmt 6. tl. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu megi hann krefjast nauðungarsölu á eign sem hann hefur í vörslum sínum með því að hann hafi haldsrétt í henni, til fullnustu kröfu sem hann eigi á hendur varnaraðila.

Áður en leyst verður úr þeim ágreiningi aðila hvort heimila beri nauðungarsölu á umræddri vinnuvél á grundvelli haldsréttar  er þess að gæta að ágreiningur er um hver sé höfuðstóll peningakröfu sóknaraðila en engin gögn um efni samkomulags sóknaraðila og Hölda ehf. um geymslu vinnuvélarinnar liggja fyrir. Sóknaraðili hefur um það sönnunarbyrði hver sé höfuðstóll kröfu hans og með því að um það er ágreiningur með aðilum og ekki liggja fyrir gögn sem taka af tvímæli, hvað fjárhæð kröfu sóknaraðila varðar, þykja ekki vera fyrir hendi skilyrði til þess að nauðungarsölu verði beitt á meðan sá ágreiningur hefur ekki verið leiddur til lykta. Þegar af þessari ástæðu verður kröfu sóknaraðila hafnað.

Með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað. 

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

ÚRSKURÐARORÐ

Kröfu sóknaraðila Guðmundar Bjarna Yngvasonar um að ákvörðun sýslumannsins í Borgarnesi frá 28. ágúst 2012 um endursendingu nauðungasölubeiðni verði ómerkt og að lagt verði fyrir sýslumann að selja tækið Omme-lift 2200 RBDJ, árgerð 2006 nauðungarsölu er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila Íslandsbanka hf. 300.000 krónur í málskostnað.