Hæstiréttur íslands
Mál nr. 431/1999
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Umboð
- Skuldabréf
- Kröfugerð
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 24. febrúar 2000. |
|
Nr. 431/1999. |
Ingolf Jón Petersen (Guðni Á. Haraldsson hrl.) gegn Samvinnusjóði Íslands hf. (Jónatan Sveinsson hrl.) og gagnsök |
Lausafjárkaup. Umboð. Skuldabréf. Kröfugerð. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta.
Árið 1996 sammæltust I, E og Þ um að kaupa bifreiðir af S til að selja aftur í ábataskyni og skyldi einkahlutafélagið H, sem Þ var í fyrirsvari fyrir, annast sölu bifreiðanna. I gaf út skuldabréf til S 28. nóvember það ár og afhenti Þ, sem afhenti það S í umboði I. Skömmu síðar var gengið frá viðskiptum, sem fólust í því að S afsalaði 23 bifreiðum til H og kvittaði meðal annars fyrir greiðslu á skuldum I, E og Þ, en skuld I var talin tilkomin vegna innflutnings I á tveimur bifreiðum fyrr á árinu. I neitaði því að hafa tengst innflutningi þessara tveggja bifreiða og lántöku hjá S af því tilefni. Þá taldi hann Þ hafa farið út fyrir heimild sína þegar hann samdi um það við S, að bifreiðunum 23 skyldi afsalað til H. Krafðist hann þess, að S afhenti sér skuldabréfið, en greiddi sér að öðrum kosti andvirði þess ásamt nánar tilteknum dráttarvöxtum. Talið var, að S hefði ekki hnekkt þeirri staðhæfingu I um að hann, E og Þ hefðu sammælst um að bifreiðum þeim, sem ætlunin var að kaupa af S, skyldi afsalað á þeirra nöfn. Á S hvíldi að sanna, að hann hefði haft heimild til þess að ráðstafa skuldabréfinu eða andvirði þess með þeim hætti, sem hann gerði. Gegn andmælum I hefði S ekki sannað að sú heimild hefði verið fyrir hendi og bæri S því ábyrgð á afhendingu skuldabréfsins eða andvirði þess til I. Þar sem I hefði þegar fengið dóm fyrir kröfu sinni samkvæmt skuldabréfinu í máli, sem rekið hafði verið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, væru engin fjárhagsleg réttindi lengur tengd því að hann fengi skuldabréfið í hendur. Bæri því að vísa aðalkröfu hans frá héraðsdómi. Á hinn bóginn var fallist á að hann ætti rétt til andvirðis skuldabréfsins ásamt dráttarvöxtum með þeim hætti, sem hann gerði kröfu um.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. október 1999. Hann krefst þess aðallega, að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að afhenda sér frumrit skuldabréfs, sem hann gaf út til gagnáfrýjanda 28. nóvember 1996, að fjárhæð 7.251.435 krónur, en til vara, að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 7.444.807 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 28. mars 1997 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 11. nóvember 1999. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað, sem hann krefst í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi aðaláfrýjanda.
I.
Um mitt ár 1996 voru fluttar til landsins tvær bifreiðir, sem skráðar voru á nafn Nýju bílasölunnar 12. júlí sama árs og síðar á nöfn annarra. Í bókum gagnáfrýjanda, sem lagði fé til innflutningsins, var aðaláfrýjandi talinn standa að honum og meðal annars skuldfærður fyrir kaupverði þeirra og kostnaði tengdum innflutningnum. Aðaláfrýjandi hefur neitað því að hafa tengst innflutningi bifreiðanna og lántöku hjá gagnáfrýjanda af því tilefni.
Síðla sama árs sammæltust aðaláfrýjandi, Einar Einarsson og Þorbjörn Helgi Stefánsson um að kaupa bifreiðir af gagnáfrýjanda til að selja aftur í ábataskyni. Var um það samið að Hyrja ehf., sem Þorbjörn Helgi var í fyrirsvari fyrir, annaðist sölu bifreiðanna, en aðaláfrýjandi átti að færa bókhald um þessa starfsemi. Aðaláfrýjandi gaf út skuldabréf til gagnáfrýjanda 28. nóvember 1996 að fjárhæð 7.251.435 krónur og afhenti Þorbirni Helga. Um líkt leyti kveðst aðaláfrýjandi hafa stofnað bankareikning á kennitölu Hyrju ehf. vegna bókhaldsvinnunnar. Þorbjörn Helgi afhenti gagnáfrýjanda skuldabréfið í umboði aðaláfrýjanda. Skömmu síðar var gengið frá viðskiptum, sem fólust í því að gagnáfrýjandi afsalaði 23 bifreiðum til Hyrju ehf. að andvirði 17.643.789 krónur, og kvittaði fyrir greiðslu á skuldum aðaláfrýjanda, Einars Einarssonar og Þorbjörns Helga samtals að fjárhæð 3.892.697 krónur, en skuld aðaláfrýjanda vegna framangreinds bifreiðainnflutnings var talin 1.260.733 krónur. Þá var kvittað fyrir greiðslu á viðskiptaskuldum Þorbjörns Helga og Nýju bílasölunnar 2.570.372 krónur og skuldum samkvæmt víxlum og skuldabréfum sjö tilgreindra aðila 5.910.815 krónur, en Hyrja ehf. mun hafa verið í sjálfskuldarábyrgð fyrir þeim. Samtala þessara fjárhæða, 30.117.673 krónur, var innt af hendi með afhendingu fimm skuldabréfa útgefnum af aðaláfrýjanda, Einari Einarssyni, Þorbirni Helga, Hyrju ehf. og Réttingaskálanum ehf., en Þorbjörn Helgi var einnig í fyrirsvari fyrir það félag. Skuldabréf þeirra þriggja síðastnefndu voru hvert að fjárhæð 5.214.781 króna, en skuldabréf Einars Einarssonar 7.331.333 krónur. Andvirði þeirra bifreiða, sem aðaláfrýjandi er talinn hafa keypt, var 5.881.263 krónur. Enginn skriflegur samningur var gerður um þessi viðskipti og hafði Þorbjörn Helgi einn milligöngu um þau við gagnáfrýjanda.
Með skriflegum samningi 24. júní 1997 milli gagnáfrýjanda annars vegar og Þorbjörns Helga, Hyrju ehf., Réttingaskálans ehf. og Nýju bílasölunnar ehf. hins vegar greiddu hinir síðarnefndu skuldir sínar í heild eða að hluta við gagnáfrýjanda, samtals 40.650.300 krónur, með því að afsala um 40 ökutækjum til hans, en meðal þeirra voru nokkrar bifreiðir, sem í fyrrgreindum viðskiptum hafði verið afsalað til Hyrju ehf. Undir samning þennan ritaði Arnór Arnórsson fyrir gagnáfrýjanda en Þorbjörn Helgi fyrir sína hönd og félaganna þriggja.
Fyrsti gjalddagi skuldabréfs þess, sem aðaláfrýjandi gaf út, var 28. mars 1997. Hann neitar því að hafa fengið nokkra þeirra þriggja tilkynninga um greiðslu afborgana og vaxta, sem gagnáfrýjandi kveður hafa verið sendar. Skilmálum skuldabréfsins var breytt 23. desember 1997 með skjali, þar sem meðal annars var kveðið á um að skuldabréfsfjárhæðina ásamt vöxtum, verðbótum, dráttarvöxtum og kostnaði skyldi greiða á tveimur gjalddögum 15. mars 1998 og 15. júlí sama árs. Gagnáfrýjandi kveðst fyrst hafa fengið tilkynningu um greiðslu á síðari gjalddaganum og í framhaldi af því gert gangskör að athugun á hvernig sú krafa væri til komin. Er óumdeilt í málinu að áðurnefndur Þorbjörn Helgi falsaði nafn hans á skjal um skilmálabreytingu skuldabréfsins.
Gagnáfrýjandi hefur höfðað mál til heimtu á kröfu samkvæmt skuldabréfi því, sem aðaláfrýjandi gaf út, í samræmi við upphaflega skilmála þess. Í málflutningi fyrir Hæstarétti kom fram að hann hefur fengið dóm fyrir þeirri kröfu.
II.
Aðaláfrýjandi hefur fullyrt að hann hafi ekki talið sig hafa ástæðu til að ætla að hann skuldaði gagnáfrýjanda neitt, því bifreiðakaupin í nóvember 1996 hefðu gengið til baka samkvæmt upplýsingum Þorbjörns Helga. Ekki hefur verið sýnt fram á að gagnáfrýjandi hafi sent aðaláfrýjanda neina skilagrein um ráðstöfun skuldabréfsins eða andvirðis þess.
Gagnáfrýjandi hefur ekki hnekkt þeirri staðhæfingu aðaláfrýjanda að hann, Einar Einarsson og Þorbjörn Helgi hafi sammælst um að bifreiðum þeim, sem ætlunin var að kaupa af gagnáfrýjanda, skyldi afsalað á þeirra nöfn. Þorbjörn Helgi hafði umboð til að afhenda aðaláfrýjanda skuldabréf það, sem málið varðar. Umboð hans var heimildarumboð samkvæmt 18. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Aðaláfrýjandi byggir málatilbúnað sinn á því að Þorbjörn Helgi hafi farið út fyrir heimild sína þegar hann samdi um það við gagnáfrýjanda að bifreiðunum skyldi afsalað til Hyrju ehf. Þótt gagnáfrýjandi hafi verið grandlaus um heimildarskort Þorbjörns Helga að þessu leyti verður aðaláfrýjandi ekki bundinn við þessa ráðstöfun samkvæmt 2. mgr. 11. gr. síðastgreindra laga. Á gagnáfrýjanda hvílir að sanna að hann hafi haft heimild til að ráðstafa skuldabréfinu eða andvirði þess með þeim hætti, sem hann gerði, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í dómasafni 1993, bls. 1882. Gegn andmælum aðaláfrýjanda hefur gagnáfrýjandi ekki sannað að sú heimild hafi verið fyrir hendi. Hann ber því ábyrgð á afhendingu skuldabréfsins eða andvirði þess til aðaláfrýjanda.
Mál það, sem gagnáfrýjandi höfðaði á grundvelli skuldabréfsins, var rekið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kom aðaláfrýjandi ekki að vörnum í því. Þar sem gagnáfrýjandi hefur fengið dóm fyrir þeirri kröfu sinni er ekki unnt að taka aðalkröfu aðaláfrýjanda til greina, enda eru engin fjárhagsleg réttindi lengur tengd því að hann fái skuldabréfið í hendur, þótt dómi um afhendingu þess yrði fullnægt með aðför. Ber að vísa aðalkröfunni frá héraðsdómi. Verður á hinn bóginn að fallast á að hann eigi rétt til andvirðis skuldabréfsins ásamt dráttarvöxtum úr hendi gagnáfrýjanda með þeim hætti, sem hann gerir kröfu um, en henni hefur ekki verið andmælt tölulega. Verður varakrafa aðaláfrýjanda því tekin til greina.
Gagnáfrýjandi verður dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og dómsorði greinir.
Dómsorð:
Vísað er frá héraðsdómi kröfu aðaláfrýjanda, Ingolfs Jóns Petersen, um að gagnáfrýjandi, Samvinnusjóður Íslands hf., verði dæmdur til að afhenda frumrit skuldabréfs útgefið af aðaláfrýjanda 28. nóvember 1996 til gagnáfrýjanda að fjárhæð 7.251.435 krónur.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 7.444.807 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 28. mars 1997 til greiðsludags.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. þessa mánaðar, er höfðað með stefnu, þingfestri 20. maí 1999.
Stefnandi er Ingolf Jóns Petersen, kt. 300340-4669, Njálsgötu 4, Reykjavík.
Stefndi er Samvinnusjóður Íslands, kt. 691282-0829, Sigtúni 41, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til þess að afhenda stefnanda frumrit skuldabréfs, útgefið af stefnanda 26. nóvember 1996 til stefnda, upphaflega að fjárhæð 7.251.435 krónur, en til vara, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda andvirði skuldabréfsins, 7.444.807 krónur, með dráttarvöxtum frá 26. nóvember 1996 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi.
I.
Málavextir
Hinn 28. nóvember 1996 gaf stefnandi út skuldabréf til stefnda, upphaflega að fjárhæð 7.251.435 krónur. Skyldi endurgreiða fjárhæðina með 12 jöfnum afborgunum á fjögurra mánaða fresti, í fyrsta sinn 28. mars 1997. Sjálfskuldarábyrgðaraðili á bréfinu var ,,Hyrja hf.-Bílabær”, sem skráð var í hlutafélagaskrá sem einkahlutafélagið Hyrja í mars 1995. Sá félagið um sölu notaðra bifreiða, meðal annars fyrir stefnda. Tilgangur stefnanda með útgáfu bréfsins var að kaupa 23 bifreiðar af stefnda í félagi með Einari Einarssyni, kt. 210333-3879, og Hyrju ehf., sem Þorbjörn Helgi Stefánsson, kt. 080157-4449, rak, og var bréfið afhent stefnda í þeim tilgangi. Kom áðurnefndur Þorbjörn Helgi fram gagnvart stefnda fyrir hönd kaupenda. Eftir kaupin var gert ráð fyrir, að Hyrja ehf. endurseldi bifreiðarnar í gegnum Nýju bílasöluna ehf., sem Þorbjörn Helgi rak, og var öllum bifreiðunum afsalað til Hyrju ehf.
II.
Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Í aðalkröfu byggir stefnandi á því, að stefndi hafi á ólögmætan hátt hagnýtt sér skuldabréf í eigu stefnanda og þannig notað andvirði þess til að greiða upp skuldir 3ja manns að honum forspurðum. Stefnandi sé eigandi umrædds skuldabréfs og hafi hann því lögvarða hagsmuni af því að fá skuldabréfið afhent sér, enda hafi stefndi nú þegar stefnt málinu inn fyrir dómstóla og reynt fjárnámsgerð á hendur stefnanda.
Andvirði lánsins hafi hvorki verið lagt inn á reikning stefnanda né hafi því verið ráðstafað í hans þágu. Hann hafi heldur engar tilkynningar fengið um ráðstöfun þess frá stefnda. Stefndi hafi ekkert umboð haft frá stefnanda til þess að ráðstafa andvirði lánsins eins og gert var. Hafi stefndi ekki aflað sér ótvíræðrar heimildar til þeirrar ráðstöfunar, eins og honum beri að gera sem lánastofnun samkvæmt lögum nr. 123/1993. Um þetta vísar stefnandi til meginreglna eignaréttar um tilheyrslu.
Þá liggi fyrir í málinu samkomulag, dagsett 24. júní 1997, milli annars vegar stefnda og hins vegar Þorbjörns Stefánssonar, Hyrju ehf., Réttingarskálans ehf. og Nýju bílasölunnar ehf., um uppgjör og innborganir á skuldum þeirra við sjóðinn, samtals að fjárhæð 40.650.300 krónur. Þrátt fyrir þetta hafi verið þingfest mál fyrir héraðsdómi, þar sem stefnandi sé krafinn greiðslu á skuldabréfi því, sem mál þetta tekur til, enda þótt stefndi hafi hvorki greitt stefnanda andvirði bréfsins né afhent honum eignir í stað þess.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda er þess krafist, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda andvirði bréfsins, 7.142.655 krónur, andvirði stimpilgjalds, 108.780 krónur, auk samningsvaxta, 193.372 krónur, en dráttarvaxta frá 28. nóvember 1997 til greiðsludags, sem sé fyrsti gjalddagi bréfsins. Kröfu um endurgreiðslu byggir stefnandi á því, að stefndi hafi ráðstafað andvirði bréfsins, sem hafi verið eign stefnanda, án hans samþykkis, og því eigi hann nú heimtingu á því að fá sér andvirðið endurgreitt með vöxtum og kostnaði. Er um þetta vísað til meginreglna eignaréttar og kröfuréttar um endurgreiðslu oftekins fjár.
III.
Helstu málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi heldur því fram, að þegar skuldabréfið var gefið út, hafi viðskipti stefnda og stefnanda staðið þannig, að stefnandi hafi skuldað stefnda 1.260.733 krónur. Hafi skuldin verið til komin vegna fyrirgreiðslu stefnda við stefnanda við innflutning stefnda á bifreið frá Bandaríkjunum af gerðinni Ford Probe, árgerð 1992. Í nóvembermánuði 1996 hafi stefnandi og tveir aðrir menn, þeir Einar Einarsson og Þorbjörn Helgi Stefánsson, persónulega og í nafni einkahlutafélagsins Hyrja ehf., sem tveir þeirra síðastnefndu hafi átt, falast eftir kaupum á nánar tilteknun 23 notuðum bifreiðum í eigu stefnda. Bifreiðarnar hafi þeir haft í hyggju að endurselja í gegnum Nýju bílasöluna ehf., sem umræddur Þorbjörn Helgi hafi átt og rekið, og hafa af viðskiptunum ábata. Samkvæmt frásögn stefnanda sjálfs í kæru til lögreglu hafi orðið að samkomulagi með þeim þremenningum, að stefnandi hefði á sinni hendi bókhald og fjármál Hyrju ehf. vegna þessara tilteknu viðskipta. Eftir nokkra skoðun á málinu hafi stefndi fallist á að ganga til þessara viðskipta með þeim skilyrðum, að um leið yrðu gerðar upp allar viðskipta- og víxilskuldir þessara þriggja manna og fyrirtækja á þeirra vegum við stefnda og einnig gjaldfallnir viðskiptavíxlar og skuldabréf, sem stefndi hafði keypt af nefndum Þorbirni Helga og fyrirtækjum á hans vegum, nánar tiltekið Réttingarskálanum ehf. og Hyrju ehf. Umsamið söluverð allra bifreiðanna hafi numið 17.643.789 krónum og fjárhæð þeirra skulda við stefnda, sem jafnframt skyldu gerast upp, samtals 12.474.084 krónum. Heildar samningsfjárhæðin hafi því numið 30.117.873 krónum. Svo hafi einnig verið um samið, að samningsfjárhæðina mætti greiða með skuldabréfum, útgefnum af stefnanda, Einari Einarssyni, Þorbirni Helga Stefánssyni og firmunum Réttingaskálanum ehf. og Hyrju ehf. Fjárhæð skuldabréfa þeirra, sem stefnandi og Einar Einarsson hafi þannig átt að gefa út, hafi numið þriðjungshlut af söluverði bifreiðanna, að viðbættri viðskiptaskuld hvors þeirra fyrir sig. Við þá fjárhæð hafi bæst stimpilgjald af skuldabréfunum. Jafnframt hafi svo verið um samið, að afsal fyrir bifreiðunum gengju til Hyrju ehf., sem hefði samkvæmt framansögðu milligöngu um endursölu bifreiðanna. Fjárhæð skuldabréfsins, 7.251.435 krónur, hafi samanstaðið af þriðjungi kaupverðs bifreiðanna, að fjárhæð 5.881.263 krónur, og skuld stefnanda á viðskiptareikningi hjá stefnda, að fjárhæð 1.260.733 krónur, eða samtals 7.141.996 krónur, og við þessa fjárhæð verið bætt 109.439 krónum vegna stimpil- og lántökukostnaðar af skuldabréfinu:
Ágreiningslaust sé, að stefnandi hafi gefið skuldabréfið út til stefnda af fúsum og frjálsum vilja til efnda á tilteknum samningsskyldum við stefnda. Hér sé því um nafnbréf að ræða, sem lúti reglum kröfuréttarins um viðskiptabréf. Ekki sé heldur ágreiningur um það, að bréfið hafi verið afhent stefnda að tilhlutan stefnanda eða af honum sjálfum. Stefndi sé því skráður kröfuhafi og um leið eigandi allra kröfuréttinda, sem skuldabréfið hljóðar upp á. Stefndi verði því þegar af þeirri ástæðu ekki skyldaður með dómi til að láta skuldabréfið af hendi, nema sá, sem slíks krefjist, sanni betri rétt sinn til bréfsins, en stefndi hafi sem skráður rétthafi þess. Stefnandi hafi hvorki sýnt fram á að bréfið sé að fullu greitt né að viðskiptin að baki afhendingu þess hafi gengið til baka. Beri því að sýkna af kröfu stefnanda um afhendingu skuldabréfsins.
Útgáfa stefnanda á skuldabréfinu til stefnda og afhending þess hafi því verið liður í efndum á samningsskyldum stefnanda gagnvart stefnda vegna sölu á tilgreindum bifreiðum til stefnanda og tveggja nafngreindra félaga hans í lok nóvember 1999 og að hluta til uppgjör á viðskiptaskuld stefnanda hjá stefnda. Mótmælt er, að stefnda hafi skort umboð til að ráðstafa bréfinu með þeim hætti sem gert var. Sama gegni um þá málsástæðu stefnanda að upp á stefnda hafi staðið sú skylda að ráðstafa andvirði skuldabréfsins inn á einhvern ótilgreindan bankareikning stefnanda. Þá er krafist sýknu af varakröfu með skírskotun til sömu raka og að ofan greinir.
IV.
Forsendur og niðurstaða
Af gögnum málsins, þar á meðal aðilaskýrslu stefnanda, er ljóst, að tilgangur stefnanda með útgáfu umrædds skuldabréfs var að kaupa 23 bifreiðar af stefnda í félagi við Einar Einarsson og Hyrju ehf. og selja þær með hagnaði fyrir milligöngu einkahlutafélagsins, en á þessum tíma sá áðurnefndur Þorbjörn Helgi Stefánsson alfarið um rekstur þess. Viðurkennt er af hálfu stefnanda, að Þorbjörn Helgi hafi við kaupin haft umboð frá stefnanda til að koma fram gagnvart stefnda fyrir hönd stefnanda. Hinu sama gegnir um Einar Einarsson. Upplýst er, að stefndi uppfyllti kaupsamninginn fyrir sitt leyti og var öllum bifreiðunum afsalað til Hyrju ehf.
Í bréfi stefnanda til sýslumannsins í Kópavogi, dagsettu 7. desember 1998, þar sem stefnandi óskar opinberrar rannsóknar á ætlaðri fölsun Þorbjörns Helga á nafnritun stefnanda á skuldbreytingu umrædds skuldabréfs 23. desember 1997 sem greiðanda þess, segir m.a. svo: ,,Þegar mig fór að lengja eftir athöfnum og [ég] gekk eftir því við Þorbjörn, sagði hann mér, að ýmist væru bílarnir ekki þar, sem þeir voru sagðir vera, eða ekki í því ástandi, sem um hafi verið talað eða enn á þeim veðbönd. Því er ekki að neita, að mér létti, þegar hann sagði mér enn síðar, að kaupin hefðu gengið til baka vegna þessara annmarka, sem áður voru nefndir. Þegar ég spurði um skuldabréfið sagði hann, að ég fengi það aftur, en það væri inni í Samvinnusjóðnum ...” Þá kemur fram í kærunni, að samkomulag hafi verið með þeim þremenningum um, að stefnandi hefði á sinni hendi bókhald og fjármál Hyrju ehf. vegna þessara viðskipta.
Af framansögðu verður ráðið, að Þorbjörn Helgi hafi leynt stefnanda því, að bifreiðaviðskiptin höfðu í raun farið fram á þann hátt, sem ráðgert hafði verið. Miðað við þá hagsmuni, sem voru í húfi fyrir stefnanda og óljós svör Þorbjörns Helga, er það mat dómsins, að rík ástæða hafi verið fyrir stefnanda að komast til botns í málinu með því að spyrjast fyrir um það hjá stefnda.
Stefnandi ber ekki brigður á, að hann hafi ritað eigin hendi undir skuldabréfið af fúsum og frjálsum vilja og að það hafi verið þeirrar fjárhæðar, sem það ber með sér. Þykir því ekki skipta máli við úrlausn málsins sú fullyrðing stefnda, sem stefnandi mótmælir, að hluti fjárhæðar skuldabréfsins hafi verið vegna fyrri bifreiðaviðskipta málsaðila.
Með samningi 24. júní 1997 milli stefnda og Þorbjörns Helga fór fram uppgjör og á skuldum hans, Hyrju ehf., Réttingarskálans ehf. og Nýju bílasölunnar ehf. við stefnda, samtals að fjárhæð 40.650.300 krónur. Er þess hvergi getið í samningnum, að veðskuldabréf það, er stefnandi gaf út samkvæmt framansögðu, sé innifalið í uppgjörinu. Er því haldlaus sú málsástæða stefnanda, að svo hafi verið.
Skuldabréf það, er hér um ræðir, er nafnbréf, sem lýtur reglum kröfuréttarins um viðskiptabréf. Er stefndi þar skráður kröfuhafi og um leið eigandi allra kröfuréttinda, sem skuldabréfið hljóðar upp á. Að mati dómsins hefur stefnandi ekki sannað betri rétt sinn til bréfsins, en stefndi hefur sem skráður rétthafi þess, eða sýnt fram á, að bréfið sé að fullu greitt. Þá er og ósannað af hálfu stefnanda, að umrædd bifreiðaviðskipti hafi gengið til baka. Hins vegar verður ráðið af gögnum málsins, að hagnaðaráform kaupenda bifreiðanna náðu ekki fram að ganga vegna ástæðna, er varða umræddan Þorbjörn Helga Stefánsson.
Það er því niðurstaða dómsins, að stefnandi hafi gefið skuldabréfið út til að efna samningsskyldur sínar við stefnda vegna umræddra bifreiðaviðskipta. Var því ekki um að ræða lánveitingu af hálfu stefnda sem lánastofnunar í skilningi laga nr. 123/1993. Samkvæmt því og að öðru leyti með skírskotun til þess, sem að framan er rakið, ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum er rétt, að málskostnaður þeirra í millum falli niður.
Dóminn kveður upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Samvinnusjóður Íslands, er sýknaður af kröfum stefnanda, Ingolfs Jóns Petersen, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.