Hæstiréttur íslands
Mál nr. 592/2015
Lykilorð
- Lánssamningur
- Gengistrygging
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. september 2015. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 501.054.593 krónur, en til vara 414.374.813 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. mars 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi gerðu Landsbanki Íslands hf. og áfrýjandi, sem þá bar heitið Þormóður rammi-Sæberg hf., með sér samning 6. desember 2005 um að bankinn lánaði félaginu 650.000.000 krónur til 15 ára. Lánið var bundið vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu í desember 2005 og var greitt af því í samræmi við skilmála samningsins.
Samkvæmt samningnum gat lántaki óskað eftir að myntsamsetningu lánsins yrði breytt þannig að eftirstöðvar þess miðuðust að öllu leyti eða að hluta við erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri. Við myntbreytingu skyldi við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils, sem hætt var að miða við, og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skyldi miðað við samkvæmt gengisskráningu bankans á íslensku krónunni tveimur virkum bankadögum fyrir myntbreytingu, nema um annað yrði sérstaklega samið. Þá var þar kveðið á um að við myntbreytingu kynni samningurinn að fá „ný lánsnúmer að öllu leyti eða að hluta.“ Með tölvubréfi 19. desember 2007 óskaði áfrýjandi eftir að „skuldbreyta“ láninu „100% yfir í EUR úr ISK á gjalddaga 07.01.2008.“ Í samningnum var og mælt fyrir um að yrði láninu myntbreytt skyldi lánstími vera til fimm ára í senn. Þá skyldi lántaki greiða bankanum vexti, sem skyldu vera breytilegir vextir jafnháir LIBOR vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 1,30% álags.
Svo sem rakið hefur verið neytti áfrýjandi heimildar í samningi aðila um að láninu yrði breytt úr íslenskum krónum yfir í evrur miðað við gjalddaga 7. janúar 2008. Eftir að það fékk lánið nýtt lánsnúmer og var lánstími til fimm ára í senn, auk þess sem það bar LIBOR vexti með tilteknu álagi. Því til samræmis voru afborganir af láninu ávallt greiddar í evrum frá og með áðurnefndum gjalddaga. Eftir myntbreytinguna fór því um efndir samningsins og framkvæmd hans að öðru leyti í samræmi við að um lán í erlendri mynt hafi verið að ræða. Að þessu virtu verður að leggja til grundvallar að um hafi verið að ræða gilt lán í evrum, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 28. maí 2013 í máli nr. 332/2013, 2. október 2013 í máli nr. 498/2013 og 28. maí 2015 í máli nr. 337/2015. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Eftir úrslitum málsins verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Rammi hf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 11. júní sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Ramma hf., Gránugötu 1-3, Siglufirði, gegn Landsbankanum hf., með stefndu áritaðri um birtingu 18. mars 2014.
Dómkröfur stefnanda eru þær, aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 501.054.593 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 8. mars 2013, til greiðsludags.
Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 414.374.813 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 8. mars 2003 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðalausu úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Stefndi krefst aðallega sýknu af dómkröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
II
Málavextir eru þeir, að stefnandi, sem þá hét Þormóður rammi-Sæberg hf, og Landsbanki Íslands hf., gerðu hinn 6. desember 2005 með sér lánssamning, þar sem stefnandi tók að láni 650.000.000 króna til 15 ára. Skyldi lánið endurgreiðast með 60 jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 5. janúar 2006. Fékk lánssamningurinn númerið 0162-74-620657. Í grein 4.8 í lánssamningnum segir að lánið skuli bundið vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu í desember 2005. Samkvæmt grein 3.1 í lánssamningnum gat stefnandi sem lántaki óskað eftir því á vaxtagjalddaga að myntsamsetningu lánsins yrði breytt þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðuðust að öllu leyti eða að hluta við erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri. Í ákvæðinu var nánar kveðið á um framkvæmd slíks, en tekið fram að gæti bankinn ekki útvegað lántaka einhverja tiltekna mynt eða útvegun hennar kynni hafa í för með sér verulegan kostnað fyrir bankann, væri honum heimilt að nota Bandaríkjadollara, USD, í stað þeirrar myntar. Jafnframt var kveðið á um það að við myntbreytingu skyldi nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt væri að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skyldi miða við, svo sem nánar greindi í ákvæðinu. Í grein 3.2 var kveðið á um að yrði láninu myntbreytt í erlendar myntir samkvæmt grein 3.1 í lánssamningi skyldi lánstíminn vera til fimm ára í senn, með allt að 15 ára endurgreiðsluferli. Í greinum 4.2 og 4.3 var kveðið á um vexti sem greiða bæri, nýtti lántaki sér heimild til myntbreytingar, sem þá skyldu almennt vera LIBOR-vextir með tilteknu álagi.
Með tölvuskeyti, dagsettu 26. nóvember 2007, upplýsti starfsmaður Landsbanka Íslands hf. starfsmann stefnanda um hvernig standa mætti að myntbreytingu samkvæmt lánssamningnum. Hinn 19. desember 2007 óskaði starfsmaður stefnanda síðan eftir því að fá að „skuldbreyta láni“ nr. 620657 „100% yfir í EUR úr ISK á gjalddaga 07.01.2008“, miðað við útreiknaða stöðu þess í íslenskum krónum á umræddum gjalddaga lánsins. Í tölvubréfssamskiptum hinn 3. janúar 2008 kemur fram að í tilefni af fyrirhugaðri breytingu á myntskuldbindingu lánssamningsins muni Landsbanki Íslands hf. selja evrur á genginu 92,23 krónur fyrir hverja evru, og samþykkti starfsmaður stefnanda það tilboð. Myntbreyting lánsins fór síðan fram með þeim hætti, að sögn stefnda, að umrædd fjárhæð í evrum, 6.806.900,21 var tekin út af evrureikningi Landsbanka Íslands hf., nr. 0106-38-710900, í þágu stefnanda og í raun lánuð stefnanda, en hafi hins vegar verið lögð inn á annan reikning lánveitanda, nr. 0100-38-710555, vegna gjaldeyrisviðskiptanna. Fyrir þær evrur hafi síðan samdægurs verið keyptar 627.800.406 íslenskar krónur, sem lagðar hafi verið inn á reikning lánveitanda nr. 0106-26-900900. Þeirri fjárhæð hafi síðan daginn eftir, 8. janúar 2008, verið ráðstafað til greiðslu skuldar stefnanda samkvæmt skuldabréfinu. Eftir hafi staðið skuldbinding stefnanda við Landsbanka Íslands hf. í evrum í stað íslenskra króna, og fékk lánið eftir það nýtt númer, 0106-36-10784. Ofangreindir reikningar Landsbanka Íslands hf., sem fjármunir hafi verið millifærðir af og á, voru reikningar í kerfum þriðja manns, Reiknistofu bankanna.
Fyrsti gjalddagi lánsins eftir myntbreytingu var hinn 7. apríl 2008. Á þeim gjalddaga var afborgun ásamt vöxtum skuldfærð af evrureikningi stefnanda, 0162-38-719206, alls 235.678,06 evrur, sbr. og beiðni starfsmanns stefnanda í tölvuskeyti 3. apríl 2008, þar sem stefnandi óskaði þess að evrur af reikningi stefnanda í Glitni banka hf. yrðu færðar á evrureikning stefnanda hjá Landsbanka Íslands hf., fyrir afborgun lánsins. Sambærilegar ráðstafanir voru og gerðar vegna gjalddaga lánsins hinn 7. júlí 2008 og hinn 7. október 2008. Allar greiðslur vegna gjalddaga á árinu 2008 voru inntar af hendi með millifærslu af evrureikningi stefnanda hjá Landsbanka Íslands hf. Fyrsti gjalddagi lánsins á árinu 2009 var hinn 7. janúar. Óskaði stefnandi þá eftir því að afborgun lánsins yrði greidd með evrum í eigu stefnanda og var það gert sem og vegna gjalddaga 5. október 2009. Á árunum 2010, 2011 og 2012, var sambærilegt fyrirkomulag varðandi greiðslur afborgana og vaxta, þar sem stefnandi óskaði sérstaklega eftir því að reikningur hans hjá stefnda í evrum yrði skuldfærður, en í einhverjum tilvika voru evrur keyptar sérstaklega og lagðar inn á reikninginn til að mæta greiðslu afborgana og vaxta.
Fram að myntbreytingu lánsins hinn 7. janúar 2008 hafði stefnandi hins vegar óskað eftir því að reikningur hans í íslenskum krónum yrði skuldfærður fyrir greiðslu afborgana og vaxta, vegna gjalddaga 5. júlí 2006, 5. janúar 2007 og 5. apríl 2007. Á síðasta gjalddaga fyrir myntbreytingu, eða hinn 5. janúar 2008, seldi stefnandi evrur sérstaklega fyrir íslenskar krónur til að greiða af láninu.
Með lánssamningi, dagsettum 8. mars 2013, var lánsskuldbinding samkvæmt lánssamningi 0106-36-010784 greidd upp miðað við eftirstöðvar eftir gjalddaga í janúar 2013, en hún nam þá 4.270.996.21 evru. Fór það uppgjör fram með fyrirvara stefnanda, sem nánar var tilgreindur í viðauka II við lánssamninginn. Einnig gekkst stefnandi undir þá skuldbindingu að ráðstafa þeirri fjárkröfu sem hann kynni að eignast á hendur stefnda af þessu tilefni til lækkunar á skuld stefnanda samkvæmt hinum nýja lánssamningi.
Stefnandi fékk í október 2007 heimild til að gera ársreikninga sína í evrum frá árinu 2008. Í samstæðureikningi stefnanda á því ári kemur fram að samstæðan hafi gert skiptasamninga til að takmarka gjaldmiðlaáhættu vegna fjárfestinga og að áhrif af samningunum hafi verið færð í rekstarreikning. Kemur þar og fram að tekjur félagsins séu að mestu leyti í evrum, breskum pundum, japönskum jenum og bandarískum dollurum, en meginhluti skulda félagsins sé í evrum.
Með ákvörðun, dagsettri 7. október 2008, tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. og skipaði bankanum skilanefnd í samræmi við 100. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eins og þeim var breytt með lögum nr. 125/2008. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var öllum eignum Landsbanka Íslands hf. ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf. og tók stefndi við réttindum og skyldum Landsbanka Íslands hf. vegna umdeilds lánssamnings, í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að skuld hans samkvæmt áðurnefndum lánasamningi hafi frá 7. janúar 2008 verið vegna láns í íslenskum krónum bundið við gengi evru með ólögmætum hætti. Þannig hafi verðtryggingu á höfuðstól láns hans í íslenskum krónum verið breytt úr vísitölu neysluverðs yfir í gengi evru. Lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2001 sé ávæði 14. gr. laganna ófrávíkjanlegt og verði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki sé stoð fyrir í lögum. Stefnandi byggir á því að ákvæði í samningum hans og stefnda um gengistryggingu hafi verið í andstöðu við þessi fyrirmæli laga nr. 38/2001 og séu því óskuldbindandi fyrir stefnanda.
Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar ráðist það, hvort skuldbinding sé í gengistryggðum íslenskum krónum, og þannig andstæð ákvæðum VI. kafla laga nr. 38/2001, eða erlendum myntum, öðru fremur af skýringu á texta viðkomandi samnings, þar sem lýst sé þeirri skuldbindingu, sem lántaki takist á hendur. Hafi þar skipt mestu sú fjárhæð sem beint eða óbeint sé tilgreind í viðkomandi samningi.
Stefnandi telur óumdeilanlegt að lán hans samkvæmt lánssamningnum 6. desember 2005 hafi verið í íslenskum krónum. Hinn 7. janúar 2008 hafi verðtryggingu á höfuðstól láns stefnanda verið breytt úr vísitölu neysluverðs yfir í gengi evru. Að baki þessari breytingu liggi takmörkuð gögn og telur stefnandi ljóst að stefndi, og forveri hans, verði að bíða allan halla af hvers konar annmörkum á skjalagerð í þessu tilliti. Stefnandi telur þó óumdeilanlegt að breytingin hafi byggt á heimild stefnanda samkvæmt grein 3.1 í lánssamningnum til að breyta myntviðmiðun skuldarinnar, en stefnandi byggi á því að ákvæði greinarinnar séu um ólögmæta gengistryggingu.
Í grein 3.1 í samningnum sé kveðið á um að lántaki geti óskað eftir því að myntsamsetningu lánsins verði breytt, þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða hluta við erlendar myntir eða mynteiningar. Síðan segi í ákvæðinu að við myntbreytingu skuli við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt sé að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skuli miða við, samkvæmt gengisskráningu stefnda á íslensku krónunni. Telur stefnandi að þetta renni stoðum undir að verið sé að miða skuldina við gengi erlendra mynta, enda sé þetta sama orðalag og notað hafi verið í b-lið 4. töluliðar 1. mgr. 39. gr. laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl. með síðari breytingum, en í þeim lögum hafi sagt að það væri skilyrði verðtryggingar samkvæmt lögunum að grundvöllur verðtryggingar „væri sem hér segir: b. miðað sé við gengi erlends gjaldeyris þar sem slíkt er heimilt samkvæmt lögum eða reglugerð“.
Landsbanki Íslands hf. hafi þannig notað sama orðalag og löggjafinn hafi notað við að lýsa „gengistryggingu“. Eftir að heimild til að verðtryggja skuldir með gengi erlendra gjaldmiðla hafi verið afnumin hljóti það að hafa staðið forvera stefnda nær að nota orðalag í skjölum á sínum vegum sem löggjafinn hafi einmitt lagt til grundvallar við lýsingu á gengistryggingu, vilji hann leggja aðra merkingu í orðalag sitt en gert hafi verið í lögum um gengistryggingu.
Stefnandi byggir á því að í framangreindu ákvæði í grein 3.1 í samningnum felist að frá og með breytingu á viðmiðunarmynt, líkt og þeirri sem gerð hafi verið á láninu 7. janúar 2008, sé lánið í raun enn með höfuðstól í íslenskum krónum, en að hann sé miðaður við gengi erlendra gjaldmiðla, í þessu tilviki gengi evru. Í öllu falli sé ljóst að um staðlað samningsákvæði sé að ræða sem forveri stefnda hafi samið einhliða og verði að túlka það stefnda í óhag, sé vafi um inntak þess.
Í annan stað liggi fyrir tölvupóstur, dagsettur 3. janúar 2008, sem starfsmaður Landsbanka Íslands hf., sendi á aðra starfsmenn bankans, sem Haukur Ómarsson, starfsmaður bankans, áframsendi starfsmanni stefnanda. Í tölvupóstinum sé tilkynnt um „nýtt almennt lán“ stefnanda. Þrátt fyrir það telur stefnandi ljóst af efni tölvuskeytisins, að um sé að ræða breytingu á skilmálum lánsins frá 6. desember 2005, í samræmi við ákvæði greinar 3.1 í lánssamningnum. Í tölvuskeytinu sé fjárhæð hins „nýja láns“ tilgreind sem „627.800.406,00 isk“. Síðan segi: „Mun standa í EUR 100%.“ Að lokum segi: „ISK er mynt útgreiðslu.“ Stefnandi telur ljóst og byggir á því að í þessum skilmálum felist að lánið hafi enn verið með íslenskan höfuðstól en að hann hafi með skilmálunum verið tengdur við gengi evru, enda fjárhæð hins „nýja láns“ einungis tilgreind í íslenskum krónum og sérstaklega tiltekið að mynt útgreiðslu væri íslensk króna. Stefnandi byggir á því að kveða hefði þurft á um það með skýrum hætti hafi ætlun aðila verið að breyta mynt lánsins og nauðsynlegt hefði verið að breyta skilmálum lánsins til samræmis og leita samþykkis stefnanda fyrir því. Slíkt hafi ekki verið gert. Verði stefndi, sem lánastofnun, að bíða hallann af öllum óskýrleika hvað þetta varði.
Í þinghaldi hinn 16. október 2014 var bókuð eftir stefnanda ný málsástæða þess efnis að stefndi hafi með tölvupósti 21. október 2011 gefið stefnanda skuldbindandi loforð um að lán stefnanda væri bundið ólögmætri gengistryggingu sem væri óskuldbindandi fyrir stefnanda.
Aðalkrafa stefnanda byggir á því að samkvæmt 1. málslið 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 beri kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hafi ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar. Sama regla leiði af almennum reglum kröfuréttar um endurheimtu ofgreidds fjár, en öll almenn skilyrði þeirra reglna teljist uppfyllt.
Aðalkrafan byggi á því að þar sem hin ólögmæta gengistrygging á lánssamningi aðila hafi verið óskuldbindandi fyrir stefnanda hafi hann ofgreitt stefnda 501.054.593 krónur við uppgreiðslu lánsins miðað við 7. janúar 2013 þegar stefnandi hafi innt af hendi greiðslu að fjárhæð 723.506.760 krónur til stefnda. Stefnandi byggir kröfu sína á því að þegar framangreind greiðsla hafi verið innt af hendi hafi eftirstöðvar lánsins verið að fjárhæð 222.452.167 krónur, miðað við að hin ólögmæta gengistrygging hafi verið óskuldbindandi fyrir stefnanda. Stefnandi hafi greitt upp lánið með sérstökum fyrirvara um endurheimtu ofgreidds fjár, yrði talið að lánið væri með ólögmætri gengisbindingu.
Útreikningur aðalkröfu byggi á því, samhliða því að krafist sé endurgreiðslu ofgreidds fjár vegna óheimillar gengisbindingar, þ.e. endurgreiðslu ofgreiddra afborgana, að stefndi eigi ekki, til frádráttar þeirri kröfu, kröfu um viðbótargreiðslu vegna mismunar á umsömdum vöxtum, sem stefnandi hafi þegar greitt af láni í íslenskum krónum með ólögmætu ákvæði um gengisviðmiðun, og þeim vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001.
Stefnandi byggir á því að hann hafi fengið fullnaðarkvittanir fyrir greiðslu vaxta og því verði hann ekki krafinn um frekari greiðslur á viðkomandi gjalddögum. Stefnandi telur að öll skilyrði séu uppfyllt svo að fullnaðarkvittanir hafi þau áhrif að stefndi hafi glatað frekari kröfu um greiðslu vegna mismunar á umsömdum vöxtum og vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001.
Í fyrsta lagi telji stefnandi óumdeilanlegt að hann hafi verið í góðri trú um að greiðslur hans fælu í sér fullar efndir, þ.e. hann hafi hvorki vitað né mátt vita að greiðslur hans hafi verið ófullnægjandi þegar þær hafi verið inntar af hendi.
Í öðru lagi hafi verið komin festa á framkvæmd lánssamningsins enda hafi stefnandi greitt umsamdar afborganir og vexti að fullu allan lánstímann og hafi staðið í skilum á 20 gjalddögum eftir að lánið hafi verið gengistryggt, sem ákvarðaðir hafi verið á þriggja mánaða fresti, þegar stefnandi hafi greitt skuld sína upp með áðurnefndu láni 8. janúar 2013.
Í þriðja lagi telur stefnandi að umfang hugsanlegrar viðbótarkröfu stefnda vegna vaxta sé verulegt hvort sem miðað sé við höfuðstól lánsins, 7. janúar 2008 að fjárhæð 627.800.406 krónur, eða hlutfall af greiddum vöxtum sem hafi verið samtals 177.431.477 krónur, eftir að lánið hafi verið gengistryggt. Viðbótarkrafa stefnda vegna vaxta nemi samtals 86.679.780 krónum.
Í fjórða lagi telji stefnandi að það hafi staðið stefnda, sem fjármálastofnun, nær að gæta þess að lán aðila væri ekki í andstöðu við ófrávíkjanlegt ákvæði laga nr. 38/2001.
Í fimmta lagi telji stefnandi að aðstöðumunur hafi verið með samningsaðilum, þar sem stefndi hafi verið fjármálafyrirtæki sem starfað hafi á lánamarkaði og boðið viðskiptamönnum sínum ýmis kjör, þar með talin lán með gengistryggingu sem hafi reynst ólögmæt. Á fjármálafyrirtækjum hvíli sérstök skylda til að vanda til samningsgerðar og verði stefndi að bíða hallann af því hversu ófullkomin skjalagerð hafi legið að baki þeirri breytingu, sem gerð hafi verið á láninu 7. janúar 2008. Þá sé til þess að líta að sú breyting, og þar af leiðandi hin ólögmæta gengistrygging, hafi byggst á stöðluðu samningsákvæði í grein 3.1 í lánssamningi aðila, sem samið hafi verið einhliða af stefnda og því hafi stefnandi verið í afar takmarkaðri aðstöðu til að hafa áhrif á þá skilmála sem hafi ráðið því að lánið reyndist ólögmætt. Að þessu leyti hafi verið töluverður aðstöðumunur með aðilum.
Í sjötta lagi byggir stefnandi á því að hann falli ekki í flokk með stórum fyrirtækjum, heldur sé stefnandi meðalstórt fyrirtæki, samkvæmt skilgreiningu þess efnis í viðauka við tilmæli framkvæmdastjórnarinnar nr. 2003/361/EB frá 6. maí 2003 um skilgreininguna á örfyrirtækjum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Starfsmenn stefnanda á árinu 2013 hafi verið 180, mælt í stöðugildum, og velta fyrirtækisins hafi verið um 45 milljón evrur. Stefnandi sé að þessu leyti í sama flokki og Borgarbyggð sem um sé fjallað í hæstaréttarmáli nr. 464/2012, sem hafi haft 238 stöðugildi í árslok 2012. Stefnandi telji því að þau sjónarmið sem fram komi í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 464/2012, og snúi að stórum fyrirtækjum, eigi ekki við um sig.
Þá byggir stefnandi á því að hann hafi gert fyrirvara við uppgjör á láninu um rétt til leiðréttingar og endurgreiðslu þess sem talið yrði ofgreitt. Stefndi hafi samþykkt þann fyrirvara.
Loks verði að gæta að því, hvað sem öðru líði, að stefnda hafi verið í lófa lagið að hafa uppi kröfu um vangreidda vexti fyrir liðna tíð löngu fyrr, enda hafi honum ekki getað dulist ólögmæti gengisbindingarinnar, en aðgerðarleysi hans þar að lútandi standi hvers konar slíkri kröfu í vegi.
Varakröfu sína byggir stefnandi á því, að þar sem hin ólögmæta gengistrygging hafi verið óskuldbindandi fyrir hann hafi hann ofgreitt stefnda 414.374.813 krónur við áðurnefnda uppgreiðslu lánsins miðað við 7. janúar 2013, miðað við að stefndi geti, við endurgreiðslu vegna hinnar óheimilu gengisbindingar, dregið frá fjárhæð sem svari til mismunar á umsömdum vöxtum, sem stefnandi hafi þegar greitt af láni í íslenskum krónum með ólögmætu ákvæði um gengisviðmið, og þeim vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Framangreind krafa fái hvoru tveggja stoð í 1. málslið 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, svo og almennum reglum kröfuréttar um endurheimtu ofgreidds fjár.
Vaxtakröfu sína byggir stefnandi á því að samkvæmt 1. málslið 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 beri kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hafi ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar. Í 6. mgr. greinarinnar segi að ef skuldari eigi að loknum útreikningi samkvæmt 5. mgr. kröfu á lánveitanda skuli lánveitandi greiða þá fjárhæð sem upp á vanti eigi síðar en 30 dögum frá því að krafa sé gerð um endurgreiðslu. Stefnandi hafi tekið nýtt lán hjá stefnda með lánssamningi hinn 8. mars 2013 og nýtt andvirði þess til að gera upp að fullu eftirstöðvar lánssamningsins frá 6. desember 2005. Stefnandi byggir á því að hann hafi haft uppi endurgreiðslukröfu sína með viðauka II við lánið frá 8. mars 2013. Stefnandi byggir þannig á því að hann eigi rétt á dráttarvöxtum frá þeim degi. Verði ekki fallist á dráttarvexti frá 8. mars 2013 byggir stefnandi á því að hann eigi rétt á dráttarvöxtum frá því að 30 dagar hafi verið liðnir frá dagsetningu viðaukans eða frá 8. apríl 2013. Taki bæði aðal- og varakrafa mið af þessu.
Stefnandi hafi ítrekað kröfu sína um greiðslu þeirrar kröfu sem gerð sé í málinu, með bréfi, dagsettu 12. desember 2013, og hafi hann lagt fram eigin útreikninga á henni. Með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 eigi stefnandi í öllu falli rétt á dráttarvöxtum frá 12. janúar 2014 þegar liðinn hafi verið mánuður frá því að stefnandi hafi krafið stefnda um greiðslu með framangreindu bréfi.
Verði ekki fallist á rétt stefnanda til dráttarvaxta frá og með 8. mars 2013 eða 8. apríl 2013, byggir stefnandi á því að hann eigi rétt á vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 á sama tímabili, þ. á m. á grundvelli eðli máls, eða lögjöfnunar frá 1. mgr. 2, gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, eins og henni hafi verið breytt með 1. gr. laga nr. 131/2002.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, ásamt meginreglum samninga- og kröfuréttar, og laga nr. 131/2002.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að lánsskuldbinding stefnanda samkvæmt lánssamningi nr. 0106-36-10784, þ.e. eftir myntbreytingu skuldbindingarinnar, sem farið hafi fram í kjölfar gjalddaga hinn 5. janúar 2008, hafi verið í evrum en ekki í íslenskum krónum bundin með óheimilum hætti við gengi erlends gjaldmiðils í andstöðu við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Lánsskuldbindingin hafi því eftir þann tíma verið í erlendum gjaldmiðli svo sem heimilt sé samkvæmt ákvæðum VI. kafla laga nr. 38/2001. Landsbanki Íslands hf., og síðar stefndi, hafi því réttilega krafið stefnanda um greiðslur í samræmi við skuldbindingu hans á hverjum tíma, þ. á m. við uppgreiðslu og endurfjármögnun skuldbindingarinnar hinn 8. mars 2013.
Hinn 19. desember 2007 hafi stefnandi óskað sérstaklega eftir því að mynt skuldbindingar hans samkvæmt lánssamningi frá 6. desember 2005 nr. 0162-74-620657, yrði breytt úr íslenskum krónum yfir í skuldbindingu í evrum, með „skuldbreytingu“, sbr. framlagt tölvuskeyti. Grein 3.1 í lánssamningnum hafi kveðið á um heimild skuldara til að óska eftir myntbreytingu skuldar sinnar. Beiðni um myntbreytingu skyldi send lánveitanda en væri með fyrirvara um að lánveitandi gæti útvegað umrædda mynt. Við myntbreytingu skyldi nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt væri að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skyldi miðað við, samkvæmt gjaldskrá. Ráðgert hafi verið að við myntbreytingu kynni lánssamningur að fá nýtt lánsnúmer, eins og raunin hafi verið. Í gein 4 hafi sérstaklega verið samið um vexti sem giltu fyrir lánshluta í erlendum myntum, Teljist þetta ákvæði skýrt um þá breytingu á láninu sem skuldari hafi gengist undir við myntbreytingu, þ.e. að mynt lánsins sé breytt, en á engan hátt megi ráða að með myntbreytingu sé átt við breytingu á verðtryggingu. Hafi það og verið afdráttarlaus skilningur aðila, sbr. m.a. þær breytingar sem hafi samhliða orðið á fyrirkomulagi á greiðslum af hálfu stefnanda, sem eftir breytinguna hafi ætíð greitt afborganir og vexti í evrum, í stað íslenskra króna áður.
Í framhaldi af beiðni stefnanda um skuldbreytingu (myntbreytingu), hinn 7. janúar 2008, hafi farið fram viðskipti með evrur að beiðni stefnanda, þannig að evrur hafi verið seldar til öflunar íslenskra króna til uppgreiðslu eldri lánsskuldbindingar í íslenskum krónum. Þannig hafi 6.806.900,21 evra verið tekin af evrureikningi Landsbanka Íslands hf., nr. 0106-38-710900 og þær samhliða lagðar inn á annan gjaldeyrisreikning í Landsbanka Íslands hf. vegna gjaldeyrisviðskiptanna, nr. 0100-38-710555, en evrurnar hafi síðan verið seldar fyrir íslenskar krónur. Hafi verið umsamið að stefnandi greiddi 92,23 krónur fyrir hverja evru og krónurnar yrðu lagðar inn á reikning í Landsbanka Íslands hf., nr. 0106-26-900900, þ.e. 627.800.406 krónur. Sú fjárhæð hafi síðan verið tekin út af þeim reikningi hinn 8. janúar 2008, til lúkningar lánsskuldbindingarinnar í íslenskum krónum, eins og hún hafi þá staðið. Eftir hafi staðið lánsskuldbinding stefnanda við Landsbanka Íslands hf. í evrum, í stað íslenskra króna, sbr. framlagða kaupnótu, og hafi lánið fengið nýtt númer. Hinn erlendi gjaldmiðill hafi því ljóslega skipt um hendur við myntbreytinguna í þeim skilningi sem hér skipti máli, en ekki hafi átt við að afhenda stefnanda evrurnar sérstaklega, þar sem hann hafi þá þegar fengið í hendur og notið upphaflegrar lánveitingar. Umrædd færsla með evrur hafi hins vegar raunverulega farið fram í gegnum reikning Landsbanka Íslands hf., í kerfum þriðja manns, Reiknistofu bankanna (IG-reikningar, innlendir gjaldeyrisreikningar).
Eftir umrædda breytingu á lánsskuldbindingu stefnanda hafi skuldbindingin ætíð verið talin vera í evrum í samningssambandi aðila og hafi báðir aðilar litið svo á. Þá hafi fjárhæðin borið vexti í samræmi við ákvæði greinar 4.2 í lánssamningi, sem miðast hafi við LIBOR-vexti, ásamt umsömdu álagi. Þá hafi allar tilkynningar og greiðslukvittanir tilgreint hina erlendu mynt eingöngu, og eftirstöðvar hafi einnig ætíð verið tilgreindar í evrum. Stefnandi hafi heldur aldrei hreyft neinum andmælum við því. Í samræmi við beiðni stefnanda hafi reikningur hans í evrum ætíð verið skuldfærður fyrir greiðslu afborgana og vaxta, en ekki reikningur í íslenskum krónum, svo sem verið hafi fyrir myntbreytingu. Hér beri og að hafa til hliðsjónar að óumdeilt sé að meginþorri tekna stefnanda hafi verið og sé í erlendum myntum, auk þess sem stefnandi hafi stundað umtalsverð gjaldeyris- og gjaldmiðlavarnaviðskipti, og hafi átt reikning í erlendum myntum. Megi því gera ráð fyrir því að tilgangur stefnanda með myntbreytingunni hafi verið að færa skuld sína yfir í hina erlendu mynt. Stefnandi hafi og tilgreint án sérstaks fyrirvara skuldbindinguna í evrum í ársreikningum sínum.
Með vísan til framangreinds byggi stefndi á því að allt frá breytingu myntar lánsskuldbindingarinnar 7. janúar 2008 og til samræmis við ákvæði umrædds samnings og eftirfarandi framkvæmd hans, hafi lánsskuldbindingin verið lán í erlendum gjaldmiðli. Í beiðni stefnanda hafi þannig verið óskað eftir skuldbreytingu á tilteknu láni úr íslenskum krónum yfir í evrur, en beiðnin verði ekki skilin öðruvísi en svo að óskað hafi verið eftir því að lánsmyntin yrði í evrum í stað íslenskra króna. Viðskipti með evrur hafi ljóslega farið fram samhliða myntbreytingu samkvæmt samningi aðila, og því sýnlega ekki um nein málamyndaviðskipti að tefla. Samhliða myntbreytingunni hafi og verið ráðgert að efndir færu eftir það fram í evrum, og hafi sú orðið raunin. Þá sé og ljóst að stefnandi greiddi lánsskuldbindinguna endanlega upp með nýrri skuldbindingu í evrum, en engu breyti í því sambandi, eins og hér standi á, þó að það hafi verið gert með fyrirvara. Því sé ljóst að meginskyldur aðila, sem hér skipti máli, hafi verið efndar í hinni umsömdu erlendu lánsmynt, þ.e. við myntbreytinguna og í framhaldi af henni.
Líta beri á ákvæði samningsins, um að myntbreyting leiði til þess að myntsamsetning láns verði breytt og að eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða að hluta við erlendar myntir eða mynteiningar, í heild sinni, en af orðalagið greinar 3.1 í lánssamningi megi ljóslega ráða, m.a. af fyrirvara um útvegun tiltekinna mynta, að ákvæðið taki til myntbreytinga sem slíkra, en ekki til gengisbindingar (verðtryggingar). Tilvísun stefnda til laga nr. 13/1979 í þessu tilliti sé haldlaus. Þá sé og haldlaus sú málsástæða stefnanda að lánsskuldbindingin hafi eftir myntbreytingu enn verið í íslenskum krónum, og að þurft hafi að kveða á um það með skýrum hætti ef breyta hafi átt mynt lánsins og jafnframt hafi þurft að breyta skilmálum lánsins til samræmis. Ljóst sé af beiðni stefnanda um myntbreytinguna og af grein 3.1 í lánssamningi, að fyrirkomulag á breytingunni hafi verið skýrt og verði á engan hátt séð að framkvæmd myntbreytingarinnar hafi valdið vafa hjá stefnanda, sem m.a. hafi greitt af skuldbindingunni með evrum, og án nokkurs fyrirvara af sinni hálfu um réttmæti krafna Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda. Stefndi vísar og til þess að þó svo að talið yrði að fyrirkomulag myntbreytingarinnar hafi falið í sér ráðstöfun sem ekki samræmdist ákvæðum VI. kafla laga nr. 38/2001, teldist hún ekki óheimil á grundvelli 3. málsliðar 2. gr. laganna. Eins og hér standi á hafi stefnandi ljóslega haft hagsmuni af því að víkja frá ákvæðum laganna og ráðstöfunin verið honum til hagsbóta. Byggir stefndi á því að sú ráðstöfun hafi verið í samræmi við ósk stefnanda. Verði því að líta svo á að hin fyrri ráðstöfun, þ.e. umþrætt myntbreyting yfir í evrur hafi að sama skapi verið, að mati stefnanda sjálfs, honum hagfelld og til hagsbóta, en því mati geti dómstólar að sjálfsögðu ekki hnekkt. Þess utan verði að telja, með hliðsjón af starfsemi stefnanda og tekjumyntum, að lán bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, hafi svo verið á annað borð, hafi verið stefnanda til hagsbóta hlutrænt séð sambanborið við verðtryggð eða óverðtryggð lán í íslenskum krónum. Hefur stefnandi sönnunarbyrði um annað, eins og hér standi á.
Með bókun dagsettri 30. október 2014 samþykkti stefndi að ný málsástæða stefnanda, sem bókuð var 16. október 2014, kæmist að í málinu. Stefndi mótmælti því hins vegar að stefndi hefði með tölvupósti 21. október 2011, gefið stefnanda skuldbindandi loforð um að lán stefnanda væri bundið ólögmætri gengistryggingu sem væri óskuldbindandi fyrir stefnanda. Tölvuskeytið hafi verið sent stefnda til að upplýsa hann um vinnu stefnda á því tímamarki, en sú staða væri ekki endanleg og gæti breyst. Þá sýni málatilbúnaður stefnanda að hann hafi sjálfur ekki litið svo á að tölvuskeytið hefði falið í sér skuldbindandi loforð stefnda. Hafi stefnandi ekki fyrr en nú um síðir byggt meintan rétt á téðu tölvuskeyti gagnvart stefnda. Ekkert liggi fyrir um það að stefnandi hafi gert formlegar athugasemdir við tölvuskeyti stefnda frá 4. janúar 2012 eða mótmælt sérstaklega þeirri afstöðu stefnda sem þar komi fram. Vísar stefndi í þessu sambandi til tölvuskeytis frá stefnanda til stefnda, dagsett 5. janúar 2012, þar sem stefnandi óski eftir því að afborgun af láninu verði millifærð af evru-reikningi stefnanda.
Fari svo að skuldbinding stefnanda samkvæmt lánssamningi frá 7. janúar 2008, teljist hafa verið bundin óheimilli verðtryggingu, þ.e. í andstöðu við lög nr. 38/2001, byggir stefndi engu að síður á því að ekki beri að fallast á aðal- og varakröfu stefnanda, en í kröfunum felist að skuldbindingin hafi þá verið óverðtryggð fjárhæð í íslenskum krónum, en borið vexti miðað við hina erlendu lánsmynt, eða til vara vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, miðað við óverðtryggðar skuldbindingar.
Lánssamningur stefnanda og Landsbanka Íslands hf. frá 6. desember 2005, hafi upphaflega verið í íslenskum krónum, verðtryggður samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þá hafi skuldbindingin átt að bera vexti, sem skyldu vera kjörvextir, eins og þeir hafi verið ákveðnir af lánveitanda á hverjum tíma miðað við verðtryggðar skuldbindingar. Stefnandi byggi þannig á því að meint breyting á verðtryggingu lánsfjárins hafi verið ólögmæt. Af málatilbúnaði stefnanda leiði, verði talið að um „verðtryggingarbreytingu“ hafi verið að ræða, og til samræmis við viðurkennd sjónarmið fjármunaréttar um réttaráhrif ólögmætra skuldbindinga, sbr. einnig að þessu leyti ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001, að lánsskuldbindingin teljist þá, eins og hér standi á, hafa áfram verið verðtryggð samkvæmt vísitölu neysluverðs í samræmi við ákvæði lánssamningsins og borið vexti í samræmi við ákvæði gr. 4.1 í lánssamningi. Beri þá að reikna skuldbindingu stefnanda í samræmi við ákvæði lánssamningsins sjálfs að þessu leyti, en ekki eigi við að líta fram hjá ákvæði lánssamningsins sjálfs. Þessi afstaða sé til samræmis við ákvæði 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, sem kveði á um að vextir samkvæmt 4. gr. skuli gilda ef „vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin“. Stefndi telur að við þessar aðstæður geti endurheimtukrafa stefnanda því aldrei numið hærri fjárhæð en 265.382.743 krónum, þ.e. greiðsla stefnanda á höfuðstól miðuð við hinn 7. janúar 2013, 707.257.086 krónur, að teknu tilliti til stöðu skuldarinnar þann dag, eftir greiðslu þá áfallinna verðbóta og vaxta, 441.874.343 krónur. Sé þá miðað við að innborganir stefnanda í evrum séu færðar yfir í íslenskar krónur, að teknu tilliti til samningssambands aðila, og eðli máls, miðað við kaupgengi Landsbanka Íslands hf. og síðan stefnda, á evrum á viðkomandi dögum, en ekki gengi sem Seðlabanki Íslands birti, sbr. 1. málslið 19. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Í því sambandi vísar stefndi til þess að ekki verði fram hjá því litið við útreikninginn að verið sé að umbreyta evrum, sem afhentar hafi verið Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda, yfir í íslenskar krónur, og beri þá að miða við kaupgengi síðarnefndra aðila á hverjum tíma, en ekki gengisskráningu Seðlabanka Íslands. Hvað sem þessu líði, þ. á m. við hvaða gengisskráningu rétt sé að miða, sé a.m.k. ljóst að fjárkrafa stefnanda, eins og hún sé fram sett, fái ekki staðist.
Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður stefnda og skuldbindingin teljist eftir breytinguna hafa verið óverðtryggt lán í íslenskum krónum, beri með öllu að líta fram hjá ákvæðum lánssamningsins um hina erlendu vexti en leggja til grundvallar vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010, sbr. og dóm Hæstaréttar frá 16. september 2010 í máli nr. 471/2010. Stefndi krefjist þess þá að stefnandi greiði vexti samkvæmt tilvísaðri 4. gr., í samræmi við meginreglu kröfuréttar um að kröfuhafi, sem fengið hafi minna greitt en hann eigi rétt til, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt sé. Kvittun fyrir greiddum vöxtum leiði ekki til þess að kröfuhafi hafi glatað þessari viðbótarkröfu sinni, eins og hér standi á, sbr. einnig dómaframkvæmd þessu til samræmis.
Við mat á því hvort víkja megi frá meginreglunni hafi m.a. verið litið til þess hvort skuldari hafi verið í góðri trú og þannig hvorki vitað né mátt vita að greiðsla hans á vöxtum væri ófullnægjandi þegar hann hafi innt hana af hendi, hvort aðstöðumunur hafi verið á aðilum og hvorum þeirra stæði nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leitt hafi til þess að vangreitt hafi verið, að því er vextina varði. Í þeim efnum hafi verið litið m.a. til þess hvorum aðila megi fremur kenna um að mistök hafi orðið, hvort samningssamband sé í eðli sínu einfalt eða flókið, og hvert sé umfang viðbótarkröfu. Ekkert eitt atriði sé þó talið geta ráðið úrslitum, heldur heildarmat, en því minna sem óhagræði skuldarans yrði af viðbótargreiðslu, því ríkari séu rökin til að víkja ekki frá meginreglunni.
Telja verði ósannað að stefnandi verði fyrir sérstöku óhagræði við það að beint yrði að honum viðbótarkröfu vegna vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, umfram þá fjárhæð sem stefnandi hafi þegar greitt í vexti. Í gögnum málsins liggi ekkert fyrir um að viðbótarkrafa að þessu leyti myndi fyrirsjáanlega valda slíkri röskun á stöðu stefnanda að jafna megi til óhagræðis sem einstaklingur eða lítið fyrirtæki yrði fyrir vegna óvæntrar kröfu um verulega viðbótargreiðslu, svo sem verið hafi í hæstaréttarmálunum nr. 600/2011 og 50/2013. Stefnandi, sem vilji bera fyrir sig undantekningu frá meginreglu kröfuréttar, hljóti að bera sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum sínum að þessu leyti en þá sönnunarbyrði hafi hann í engu axlað.
Stefnandi teljist vera stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða, en hér skipti ekki máli skilgreining Evrópusambandsins frá 6. maí 2003, þ.e. þegar almennar reglur íslensks kröfuréttar séu annars vegar, en samkvæmt henni teljist stefnandi þó meðalstórt fyrirtæki á alþjóðlegan mælikvarða. Stefnandi sé einn stærsti handhafi úthlutaðra fiskveiðiheimilda hér á landi og fari með u.þ.b. 3,5% þeirra. Fyrirtækið sé raunar í hópi stærstu fyrirtækja landsins, hvort sem mælt sé út frá veltu eða hagnaði. Samkvæmt ársreikningi stefnanda vegna ársins 2012 hafi tekjur hans numið rúmlega 48 milljónum evra, eða 8,1 milljarði króna. Heildareignir hafi verið taldar rúmlega 95 milljónir evra, eða rúmlega 16 milljarðar króna. Skuldir hafi numið tæplega 62 milljónum evra, eða rúmlega 10,5 milljörðum króna.
Stefnanda hafi þannig, með tilliti til stærðar og umsvifa, svo og ætlaðrar sérfræðiþekkingar í viðskiptum og á sviði gjaldmiðla og gjaldmiðlavara, eða aðgangi hans að slíkri þekkingu, ekki getað dulist samhengið milli mynttilgreiningar lánssamnings og vaxtaviðmiðunar, og geti því ekki talist hafa verið í góðri trú um að greiddir vextir teldust endanlega greiddir, þó svo að sá þáttur skuldarinnar sem ótvírætt hafi verið forsenda vaxtanna, þ.e. lánsmyntin, ætti eftir að sæta endurskoðun. Slíkt hljóti að skipta máli við heildarmatið. Megi allt eins ætla að það hefði komið stefnanda á óvart ef ekki væri samhengi milli lánsmyntar og vaxta að þessu leyti.
Þá verði að telja að stefnandi hafi verið í samningsaðstöðu, að því marki sem talið hafi verið nauðsynlegt, til að hafa áhrif á einstök atriði í skilmálum lánssamninganna og hafi jafnframt haft brýnt tilefni til að leita sér allrar nauðsynlegrar sérfræðiaðstoðar við samningsgerðina, þ. á m. við myntbreytinguna, m.a. þegar litið sé til sérákvæðis í lánssamningi um uppgreiðsluþóknun, sem hafi verið umtalsvert lægri en samkvæmt gjaldskrá, auk þess sem stefnandi hafi gert margvíslegar tillögur og breytingar á lánssamningnum, áður en hann hafi verið undirritaður. Þá verði ekki talið, með vísan til samskipta aðila í tengslum við myntbreytinguna og eftirfarandi ráðstafana stefnanda vegna greiðslna afborgana og vaxta, að lánveitandi hafi getað talist grandsamari en stefnandi um meint ólögmæti eða meint mistök.
Ekki sé unnt að fallast á, eins og hér standi á, að fjárhæð viðbótarkröfunnar, þ.e. vaxta samkvæmt 4. gr., í stað hinna erlendu vaxta, sé slík að valdi stefnanda sérstöku óhagræði í fjárhagslegu tilliti. Upphafleg lánsfjárhæð hinn 6. desember 2005 hafi verið 650.000.000 króna, en lánsfjárhæðin, miðað við vísitölu neysluverðs 248/403,3, samsvarandi í mars 2013 1.057.036 krónur. Hinn 8. mars 2013 hafði stefnandi greitt u.þ.b. 1/3 af upphaflegum umsömdum gjalddögum. Ef litið er til afkomu stefnanda sé ljóst að fjárhæð viðbótarkröfu, að teknu tilliti til hagnaðar á árinu 2012, sem hafi numið tæpum 1,5 milljörðum króna (2,0 milljörðum króna ef gengisleiðrétting samkvæmt kröfu stefnanda yrði talin með það ár), næmi 5,7% eða 4,3% af hagnaði, eftir fjármagnsliði og skatta. Þá næmi viðbótarkrafa innan við 30% af vaxtagjöldum stefnanda það árið. Ekki verði heldur litið fram hjá því að stefnandi hafi með samkomulagi við stefnda endurfjármagnað lánsskuldbindingu sína með nýjum lánssamningi, en krefji stefnda um endurgreiðslu á meintri ofgreiðslu sinni. Viðbótarkrafa stefnda fæli því eingöngu í sér lægri endurgreiðslu til stefnanda, en kæmi ekki til greiðslu af hálfu stefnanda á annan hátt en leiði af skilmálum lánssamnings. Eins og hér standi á geti viðbótarkrafan því ekki verið stefnanda sérstaklega íþyngjandi.
Samkvæmt öllu framanröktu fari því fjarri að skilyrði séu uppfyllt til að víkja frá meginreglu kröfuréttar um rétt til viðbótargreiðslu. Í öllu falli verði stefnandi, sem beri fyrir sig undantekningu frá meginreglunni, að bíða halla af hvers konar vafa í því tilliti.
Stefndi mótmælir og útreikningi stefnanda á aðalkröfu. Leggur stefndi fram útreikning sinn, þar sem fram komi að fjárhæð kröfu, sem reiknuð sé miðað við forsendur stefnanda, nemi einungis493.272.513 krónum. Þá sé miðað við, eins og greini í lánssamningi, kaupgengi Landsbanka Íslands hf., og síðar stefnda, á evrum þeim sem stefnandi hafi afhent stefnda til greiðslu á viðkomandi gjalddögum, en ekki eigi að miða við skráð gengi Seðlabanka Íslands, svo sem stefnandi virðist gera. Af hálfu stefnda sé þá litið til atvika málsins, samningssambands aðila og eðli máls.
Stefndi mótmælir og útreikningi stefnanda á varakröfu sinni. Verði talið að skuldbindingin hafi, eftir myntbreytingu, verið óverðtryggð í íslenskum krónum, en borið vexti til samræmis við 4. gr. laga nr. 38/2001, telur stefndi að fjárhæð kröfunnar teljist 403.837.247 krónur. Sé þá miðað við gengi Landsbanka Íslands hf., að breyttum breytanda.
Stefndi mótmælir og sérstaklega kröfu stefnanda um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 8. mars 2013. Ekki verði séð að stefnandi hafi gert kröfu um endurgreiðslu fyrr en með bréfi, dagsettu 12. desember 2013, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Verði fallist á kröfu stefnanda um dráttarvexti krefst stefndi þess að þeir reiknist fyrst frá dómsuppkvaðningu.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010. Þá vísar stefndi til meginreglna fjármunaréttar.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Í máli þessu greinir aðila á um hvort fyrrgreint lán, sem stefnandi tók hjá forvera stefnda, hafi, eftir skilmálabreytingu lánsins í janúar 2008, verið lán í erlendri mynt eða lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Í dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 var því slegið föstu að ófrávíkjanleg ákvæði 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, stæðu því í vegi að lántaki væri skuldbundinn af ákvæði í samningi um að fjárhæð láns í íslenskum krónum tæki breytingum eftir gengi erlends gjaldmiðils. Frá þeim tíma hefur Hæstiréttur kveðið upp marga dóma, þar sem á það hefur reynt hvort skuldbinding samkvæmt lánssamningi teljist vera um fjárhæð í íslenskum krónum, sem á þennan óheimila hátt hefur verið gengistryggð, eða fjárhæð í erlendum gjaldmiðli, einum eða fleiri, sem fyrrnefnt lagaákvæði tekur ekki til. Hefur fyrst og fremst verið byggt á skýringu á texta viðkomandi lánssamnings þar sem lýst er skuldbindingu þeirri sem lántaki gengst undir. Í þeim tilvikum þegar textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis lánssamningurinn er hefur verið litið til þeirra atriða sem lúta að því hvernig hann hefur verið efndur og framkvæmdur að öðru leyti.
Eins og að framan greinir gerðu forveri stefnanda og forveri stefnda með sér lánssamningi hinn 6. desember 2005, þar sem stefndi veitti stefnanda lán að fjárhæð 650.000.000 krónur bundið vísitölu neysluverðs. Í samningnum er kveðið á um myntbreytingarheimild lánsins, þannig að eftirstöðvum þess verið breytt þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða að hluta við erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri. Svo sem rakið hefur verið óskaði stefnandi eftir því með tölvuskeyti til stefnda að skilmálum lánsins yrði breytt á þann hátt að skuldbinding hans yrði ekki lengur í íslenskum krónum heldur í evrum á gjalddaga lánsins í janúar 2008, en áður höfðu farið fram samskipti aðila um hvernig unnt væri að standa að þessari skilmálabreytingu, m.a. um stöðu lánsins í íslenskum krónum og gengi evru á þeim tíma. Skjöl málsins um gjaldeyrisviðskipti bankans af því tilefni bera með sér myntbreytingu lánsins í kerfum bankans og bar lánið eftir það LIBOR-vexti í samræmi við ákvæði lánssamningsins. Eftir þessa breytingu báru skjöl um skuldbindingu stefnanda hvergi með sér fjárhæð lánsins í öðrum gjaldmiðli en evrum og stefnandi greiddi eftir það ætíð af láninu í evrum. Þegar af þeirri ástæðu verður að líta svo á að eftir myntbreytingu, sem gerð var að ósk stefnanda á grundvelli samnings aðila, að um hafi verið að ræða gilda skuldbindingu í erlendum gjaldmiðli, en ekki skuld í íslenskum krónum sem háð hafi verið gengistryggingu í andstöðu við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001. Þá þykir ekki unnt að líta svo á að tölvuskeyti starfsmanns stefnda til starfsmanns stefnanda, þar sem segir: „Það er búið að flokka lánið gengistryggt (ólöglegt) þannig að mér sýnist þið vera að detta í lukkupottinn. Það er hins vegar ekki búið að endurreikna en ætti að gerast fljótlega fyrst búið er að flokka“ feli í sér skuldbindandi loforð um að lánið yrði endurreiknað. Með því að ekki hefur verið fallist á að umþrætt lán hafi, eftir myntbreytingu þess, verið í íslenskum krónum gengistryggt í andstöðu við ákvæði laga nr. 38/2001, verður þegar af þeim sökum að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Ramma hf.
Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.