Hæstiréttur íslands

Mál nr. 182/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Þorgeir Þorgeirsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kærufrestur
  • Frávísun frá Hæstarétti

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi. Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem kæran hafði borist héraðsdómi eftir að frestur 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var liðinn.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Þorgeir Ingi Njálsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. mars 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. apríl sama ár klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili og verjandi hans voru viðstaddir uppsögu hins kærða úrskurðar og lýsti varnaraðili því þá yfir að tekinn væri lögboðinn frestur til að taka ákvörðun um hvort hann kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Eins og áður greinir barst kæra héraðsdómi 17. mars 2017, en þá var liðinn kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

                                              

                                                   

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2017.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. apríl nk. kl 16:00.

Í greinargerð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu rannsaki nú tilraun til manndráps eða eftir atvikum alvarlega líkamsárás X, hér eftir kærði, gegn A, utan við [...] í Reykjavík aðfaranótt sunnudagsins 5. mars sl.

Samkvæmt frumskýrslu hafi lögreglu borist tilkynning laust eftir miðnætti þann 5 mars sl. um aðila sem gengi berserksgang á bifreiðarstæðinu við söluturninn [...] í Reykjavík og hefði hann m.a. sparkað í bifreið sem þar væri. Skömmu seinna hafi borist önnur tilkynning þess efnis að aðilinn væri hugsanlega vopnaður hníf. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hitti hún fyrir kærða sem hafi verið handtekinn á vettvangi. Neitaði hann að vera sá sem tilkynnt hefði verið um að hefði sparka í bifreið en kannaðist við að hafa verið með umrædda bifreið í láni hjá vinkonu sinni. Þá kannaðist kærði við að á bílastæðið hefði komið maður sem hefði ráðist á sig en sá aðili væri farinn. Kærði hafi verið í annarlegu ástandi og greinilega undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Þegar lögreglan hafi verið að ræða við kærða á vettvangi hafi eigandi umræddrar bifreiðar, B, komið og gefið sig á tal við lögreglu. Sagði hún lögreglu að skömmu áður á bílastæðinu hefði kærði stungið A í höfuðið og hefði vitnið séð það gerast.

Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 6. mars sl. sagði B að brotaþoli hefði verið að aðstoða vitnið við að fá bifreið sína hjá kærða sem hann hefði fengið að láni hjá henni tveimur dögum áður en síðan neitað að skila henni til baka. Hafi kærði síðan mælt sér mót við vitnið við  [...] um miðnætti 5. mars sl. en vitnið ekki þorað að fara þangað eitt til að ræða við kærða og brotaþoli boðist til að koma með vitninu. Kærði hafi á vettvangi verið beðinn um að skila vitninu lyklunum en þá hafi hann reiðst og ráðist á brotaþola. Þeir hafi síðan tekist á. Kærði hafi síðan skyndilega dregið upp hníf sem hann hafi verið með og stungið brotaþola í höfuðið. Sagði vitnið í framhaldi hafa náð lyklunum úr bifreiðinni og eftir það farið með brotaþola inn í húsnæði skammt frá.

Framburður brotaþola sé til samræmis við framburð vitnisins. Lýsti brotaþoli því að hann hafi verið beðinn um að koma með vitninu að  [...]  til að hitta kærða sem hafi verið með bíl vitnisins í leyfisleysi. Hafi kærði komið en neitað að afhenda eigandanum lykla bifreiðarinnar. Sagðist brotaþoli hafa verið rólegur en kærði hafi hinsvegar verið mjög æstur og virtist ekki vita hvað hann var að segja. Hafi kærði ætt út úr bílnum og ráðist á brotaþola. Þeir hafi tekist á en þá hafi kærði tekið upp hníf og stungið brotaþola í höfðið. Í framhaldi hafi byrjað að spýtast blóð úr höfðinu á brotaþola. Brotaþoli hafi komið sér í burtu og síðan hringt í vinkonu sína og fengið hana til að skutla sér á slysadeild. Brotaþoli hafi verið inntur eftir því hver hafi komið með hnífinn á vettvang og sagði brotaþoli að það hefði verið kærði sem hefði verið með hnífinn.

Við komu á slysadeild hafi A reynst vera með alvarlega stunguáverka á höfði og slagæðarblæðingu úr höfuðleðri. Samkvæmt bráðabirgða áverkavottorði hafi tölvusneiðmynd sýnt áverka á höfuðkúpu sem virtist ná í gegnum fulla þykkt höfuðkúpunnar. Við nánari skoðun hafi síðan komið síðan í ljós að áverkinn hafi náð í gegnum beinþykktina en ekkert inn fyrir kúpuna sjálfa. Hafi það verið mat vakthafandi læknis á heila og taugadeild LSH að ef eggvopnið hefði gengið inn í heilavefinn hefði ekki verið að sökum að spyrja og áverkinn getað leitt til mikils varanlegs tjóns og jafnvel dauða.

Kærði neiti sök. Hann kannist við að hafa mælt sér mót við eiganda bifreiðarinnar fyrir utan  [...]. Með eigandanum hafi einnig komið brotaþoli sem hafi að sögn kærða ráðist á sig vopnaður hníf. Þeir hafi lent í átökum og þar sem kærði hafi verið að reyna að koma í veg fyrir að brotaþoli myndi stinga sig með hnífnum hefði hnífurinn farið í höfuð brotaþola í átökunum. Í framhaldi hafi brotaþoli farið af vettvangi og tekið hnífinn með sér.

Þann 8. mars sl. hafi vitnið B óskað eftir því að fá að gefa skýrslu á ný vegna málsins. Fram hafi komið hjá vitninu að hún héldi sig við fyrri framburð sinn nema að því leyti að hún vildi taka fram að brotaþoli hefði komið með hnífinn á vettvang. Hafi brotaþoli verið með hnífinn í vasanum. Í átökunum við kærða hafi hnífurinn hinsvegar dottið úr vasa brotaþola og kærði tekið hann í framhaldi upp og stungið brotaþola í hausinn með hnífnum. Eftir að hafa stungið brotaþola hafi kærði hent hnífnum í burtu.

Vitni sem búi skammt frá árásarstaðnum lýsi því að hafa séð brotaþola ganga í burtu af vettvangi með stórt sár á höfðinu og líklega með hníf í hendinni.

Kærði var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...] gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá mánudeginum 5. mars sl. til dagsins í dag sem staðfest var með dómi Hæstaréttar nr. 150/2016.

Í greinargerð lögreglunnar er vísað til þess að kærði liggi nú undir sterkum grun um brot gegn 211. gr., sbr. 20 gr. almennra hegningarlaga, eða til vara gegn 2. mgr. 218. gr. sömu laga, sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi, með því að hafa ráðist á brotaþola með hníf og stungið hann í höfuðið. Sé ljóst að beiting vopnsins og staðsetning áverkans sé lífshættuleg og hafi kærða mátt vera það ljóst. Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sé nú rekið sakamál á hendur kærða þar sem honum sé gefið að sök annars vegar líkamsárás sem heimfærð er undir 1. mgr. 218 gr. gr. hegningarlaga og hinsvegar brot gegn valdstjórninni. Með hliðsjón af framangreindu og með tilliti til almannahagsmuna sé það mat lögreglustjóra að brot kærða sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að hann gangi ekki laus meðan mál hans er til meðferðar.

Sakarefni málsins sé talið varða við 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Niðurstaða:

                Þegar litið er til rannsóknargagna málsins, einkum framburðar vitnis að átökum kærða og brotaþola, og þess sem rakið er í greinargerð sóknaraðila verður á það fallist að kærði sé undir sterkum grun um tilraun til manndráps eða stórfellda líkamsárás, sbr. 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga getur varðað fangelsi ekki skemur en í fimm ár eða ævilangt. Þá getur brot gegn 2. mgr. 218. gr. sömu laga varðar allt að 16 ára fangelsi. Skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um að sterkur grunur leiki á að sakborningur hafi framið afbrot sem varðað getur 10 ára fangelsi, er því fyrir hendi. Brot það sem kærði er grunaður um er enn fremur þess eðlis að ætla verður að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Því verður fallist á kröfu sóknaraðila um að kærði sæti gæsluvarðahaldi á grundvelli heimildar í 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 eins og í úrskurðarorði greinir.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. apríl nk. kl 16:00.