Hæstiréttur íslands
Mál nr. 335/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Stefna
- Kröfugerð
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 27. maí 2013. |
|
Nr. 335/2013.
|
A (Helga Vala Helgadóttir hdl.) gegn B og C (Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.) |
Kærumál. Stefna. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli A á hendur B og C var vísað frá dómi. A hafði m.a. krafist refsingar B og C fyrir að hafa farið í leyfisleysi inn á einkasvæði á fésbókarsíðu A, skoðað einkasamskipti hans og sent þau í leyfisleysi til óviðkomandi aðila. Þá krafðist A þess að C yrði refsað fyrir að hafa dróttað um sig. Tilvísanir til refsiheimilda þóttu óljósar og óljóst var hvort líta bæri svo á að í dómkröfum væri einnig að finna málsástæður A. Í stefnu var ekki tiltekið nægjanlega hvenær hin ætlaða refsiverða athöfn hefði átt sér stað eða hvenær A fékk vitneskju um hinn seka. Ekki var gerð grein fyrir þætti hvorrar þeirra B og C fyrir sig í hinum meintu brotum. B og C hafði bæði verið stefnt sameiginlega til greiðslu miskabóta sem og C einni. Þrátt fyrir þetta var í stefnu ekki gerð grein fyrir grundvelli þess að B og C var stefnt til óskiptrar greiðslu miskabóta. Í ljósi alls þessa þótti stefnan ekki uppfylla kröfur d., e., og f. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. maí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, A, greiði varnaraðilum, B og C, 200.000 krónur í kærumálskostnað hvorri fyrir sig.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2013.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar hinn 28. febrúar sl., að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefndu, var höfðað af A, á hendur B, og C, með stefnu þingfestri 11. október 2012.
Dómkröfur stefnanda eru eftirgreindar: „Stefnandi krefst þess að stefnda B verði dæmd til refsingar fyrir brot á friðhelgi einkalífs stefnanda sbr. ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994 auk 228. gr. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hgl., fyrir að hafa í leyfisleysi farið inn á einkasvæði á fésbókarsíðu hans með ólögmætum og refsiverðum hætti, skoðað einkasamskipti hans þar við þriðju aðila, og sent samskiptin í leyfisleysi áfram til óviðkomandi aðila.
Stefnandi krefst þess einnig að stefnda C verði dæmd til refsingar fyrir brot á friðhelgi einkalífs stefnanda sbr. ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994 auk 228. og 229. gr. hegningarlaga fyrir að hafa í leyfisleysi farið inn á einkasvæði á fésbókarsíðu hans með ólögmætum og refsiverðum hætti, skoðað einkasamskipti hans þar við þriðju aðila, og sent samskiptin í leyfisleysi áfram til óviðkomandi aðila.
Þá krefst stefnandi þess að stefnda Cverði dæmd til refsingar fyrir brot gegn 235. og 236. gr. hgl. fyrir að hafa dróttað að því við stefnda [svo í stefnu] sem og borið aðdróttun út meðal almennings gegn betri vitund, er hún bar fram þau ósannindi hvort tveggja hjá lögreglu sem og í almennri umræðu við fjölda fólks að stefnandi hefði gerst sekur um kynferðisbrot gegn dóttur stefnanda, dótturdóttur stefndu C.
Þá krefst stefnandi þess að stefndu veðri in solidum dæmdar til þess að greiða honum miskabætur að fjárhæð 3.500.000 kr. ásamt vöxtum sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 4. maí 2012 til 11. október 2012 og dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, fyrir brot gegn friðhelgi einkalífs stefnanda.
Einnig krefst stefnandi þess að stefnda C verði dæmd til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 2.000.000.- kr. ásamt vöxtum sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. maí 2012 til 11. október 2012 og dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, fyrir brot gegn 235. og 236. gr. hgl.
Þá er krafist málskostnaðar in solidum úr höndum stefndu, stefnanda að skaðlausu að mati dóms eða skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.“
Dómkröfur stefndu, B, eru þær aðallega, að kröfum á hendur henni verði vísað frá dómi, en til vara krefst hún sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til þrautavara krefst stefnda að miskabótakrafa verði stórlega lækkuð. Einnig krefst stefnda málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, og við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefndu til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanna sinna.
Dómkröfur stefndu, C, eru þær aðallega, að kröfum á hendur henni verði vísað frá dómi, en til vara krefst hún sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til þrautavara krefst stefnda að miskabótakrafa verði stórlega lækkuð. Einnig krefst stefnda málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, og við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefndu til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanna sinna.
Mál þetta var flutt um frávísunarkröfu stefndu og er einungis sá þáttur málsins til úrlausnar nú.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en úrskurður var kveðinn upp.
II
Stefnandi og stefnda B hafa undanfarin misseri staðið í harðri forsjárdeilu, en saman eiga þau eina dóttur. Stefnda C, sem er móðir stefndu B, hefur beitt sér mikið í deilunni, að sögn stefnanda. Einnig hafa verið deilur milli aðila vegna rannsóknar á meintu kynferðisafbroti stefnanda gegn dóttur þeirra. Hinn 6. apríl 2010 sendi stefnda B Barnaverndarnefnd Reykjavíkur tilkynningu vegna gruns um að dóttir hennar hefði sætt kynferðislegu ofbeldi af hálfu stefnanda. Málið hefur nú verið fellt niður af hálfu ríkissaksóknara og barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar.
Stefnandi kveður stefndu í sameiningu undir rekstri forsjármálsins hafa borið út þá ávirðingu að stefnandi hefði brotið kynferðislega gegn dóttur sinni. Hafi dóttir stefnanda ítrekað verið leidd í barnahús til rannsóknar, og hafi það m.a. haft þær afleiðingar að stefnandi hafi um langt skeið ekki fengið að hitta dóttur sína. Þrátt fyrir ítrekaðar kærur og frásagnir stefndu hafi í öllum tilvikum komið í ljós að enginn fótur hafi verið fyrir ávirðingunum. Stefndu hafi ekki látið þar við sitja heldur hafi þær dreift þessum aðdróttunum víða. Þar sem brot gegn 233. gr. b í hegningarlögum skuli sæta opinberri ákæru beini stefnandi kröfu sinni vegna þessa framferðis beggja stefndu eingöngu að stefndu C.
Stefnandi kveður að undir rekstri forsjármálsins hafi virst að stefndu hefðu upplýsingar sem enginn hafi átt að hafa utan stefnandi og hans nánustu. Samskipti stefnanda við þriðju aðila hafi verið gerð að ágreiningsefni í forsjármálinu sem og meint samskipti hans og meint skilgreining á samskiptum hans við þriðju aðila. Aðgangur stefndu að upplýsingum um stefnanda hafi verið á huldu þar til vorið 2012 er stefnanda hafi verið gerð grein fyrir því að stefndu hefðu í fullkomnu leyfisleysi komist að aðgangsorðum stefnanda að fésbókarsíðu hans. Komið hafi í ljós að stefndu hefðu um nokkurt skeið fylgst með samskiptum stefnanda við vini og fjölskyldu í einkaskilaboðum þeirra á milli auk þess sem stefndu hafi tekið sig til og dreift einkaskilaboðum stefnanda til óviðkomandi aðila, að því er virðist í þeim tilgangi að valda honum skaða í tengslum við forsjárdeilu hans og stefndu B. Eftir að stefnanda hafi verið gerð grein fyrir innbrotinu á fésbókarsíðuna hafi hann breytt aðgangsorði sínu. Stefnda B hafi þá sent vini sínum, sem sé vel kunnugur tölvumálum, beiðni og óskað aðstoðar hans við að komast aftur inn á einkasvæði stefnanda. Stefnandi kveður þann mann hafa hafnað beiðninni, en óvíst sé hvort stefndu hafi tekist að fá aðra aðila til verksins og hafa því enn ólögmætan aðgang að einkaskilaboðum stefnanda.
Stefndu gera athugasemdir við þá staðhæfingu stefnanda í stefnu, að þær hafi „dreift þessum aðdróttunum víða“, og telja hana ranga. Þá hafna stefndu því að stefnda B hafi átt aðkomu að málinu. Hins vegar liggi fyrir játning stefndu, C, hjá lögreglu um að hafa sent póst í nafni stefndu B á mann að nafni D. Stefndu kveða það mál enn vera til rannsóknar hjá lögreglu. Þá telja stefndu rangt að þær hafi átt frumkvæði að dreifingu á einkasamskiptum stefnanda, eins og stefnandi haldi fram.
III
Stefnandi telur ljóst að um innbrot á einkasvæði hans sé að ræða og brot á friðhelgi einkalífs hans. Ekki sé eingöngu um brot stefndu á 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 228. gr. hegningarlaga að ræða fyrir að hafa verið staðnar að því að hnýsast í hans einkasamskipti, bréf, og samtöl og komist yfir gögn með því að fara með ólögmætum hætti inn á læsta síðu hans heldur einnig fyrir að hafa brotið gegn sama ákvæði stjórnarskrár og 229. gr. sömu laga með því að hafa dreift gögnum sem fengin hafi verið með ólögmætum hætti, og skýrt þannig opinberlega frá einkamálefnum stefnanda, án þess að nægar ástæður væru fyrir hendi er réttlætt gætu verknaðinn.
Stefnandi kveðst byggja á því að stefndu hafi í fullkomnu leyfisleysi og með ólögmætum og refsiverðum hætti hnýst í einkaskilaboð hans á fésbókarsíðu hans og brotið með því gegn friðhelgi einkalífs hans, sbr. ákvæði 228. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá sé jafnframt á því byggt að stefndu hafi með ólögmætum og refsiverðum hætti, sbr. 229. gr. hegningarlaga, skýrt opinberlega frá einkamálefnum stefnanda án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi er réttlætt gætu verknaðinn og með því aukið tjón stefnanda vegna brots á friðhelgi einkalífs hans. Styður stefnandi málshöfðun sína við ákvæði 25. gr. hgl., þar sem um einkarefsimál sé að ræða.
Þá byggist málareksturinn jafnframt á því að stefnda, C, hafi brotið gegn ákvæðum 235. og 236. gr. hegningarlaga fyrir að hafa með vísvitandi hætti, og gegn betri vitund, borið það út að stefnandi hefði gerst sekur um kynferðisbrot gegn dóttur sinni. Telur stefnandi að stefndu hefði mátt vera það ljóst frá byrjun að frásagnir hennar og meðstefndu B um meint kynferðisbrot ættu ekki við rök að styðjast. Stefndu C hafi átt að vera það ljóst þegar búið hafi verið í fyrsta sinn að rannsaka hið meinta, enda hafi frásagnir um brotið ekki komið frá dóttur stefnanda heldur stefndu sjálfum, eins og fram komi í rannsóknum hjá Barnahúsi. Telur stefnandi framferði stefndu C hafa verið með þeim hætti að æra hans og mannorð hafi beðið umtalsverða hnekki, enda erfitt fyrir stefnanda að ætla sér að rekja ósannindin til allra þeirra er móttekið hafi þau frá stefndu.
Fyrri miskabótakröfu sína kveðst stefnandi styðja við b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda telji hann sig hafa orðið fyrir töluverðum miska vegna málsins er einkasamtöl hans hafi verið birt óviðkomandi aðilum sem og þar sem stefndu hafi sjálfar hnýst í hans persónulegu mál.
Miskabótakröfu sína gegn stefndu C, vegna brota á 235. og 236. gr. hegningarlaga kveðst stefnandi byggja á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda telji stefnandi sig hafa orðið fyrir umtalsverðum og óafturkræfum hnekki á mannorði sínu vegna rógburðar stefndu um meint kynferðisbrot hans gagnvart barni sínu. Slík brot sé erfitt að sanna, en enn erfiðara geti verið, þrátt fyrir að margsinnis sé búið að sanna að ekkert slíkt brot hafi átt sér stað, að hreinsa mannorð sitt af slíkum áburði. Stefndu hafi báðar haldið áfram að breiða út þá sögu að stefnandi hafi brotið gegn barni sínu og sé stefnanda ómögulegt að rekja sögusagnir stefndu til að geta leiðrétt þær rangfærslur sem þær hafi farið með og þar með bjargað mannorði sínu. Því sé krafist miskabóta úr hendi stefndu C vegna brota gegn 235. og 236. gr. hegningarlaga.
Stefnandi kveðst vísa um réttarfarsleg lagarök, svo sem um fyrirsvar og aðild, til 18. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
IV
Stefndu krefjast frávísunar málsins vegna annmarka á málatilbúnaði stefnanda, sem uppfylli ekki kröfur 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Kröfugerð stefnanda sé of óskýr til að hægt sé að leggja á þær dóm, t.a.m. sé kröfugerð um miskabætur vegna friðhelgisbrots þannig úr garði gerð að ótækt sé að leggja hana til grundvallar nema báðar stefndu verði taldar sekar um brot gegn 228. og 229. gr. hegningarlaga. Þá sé verknaðarlýsingum ekki heldur til að dreifa í stefnu varðandi brot stefndu gegn framangreindum lagaákvæði, sem geri varnir stefndu afar erfiðar, eða nánast ómögulegar.
Almennt sé gerður ríkur áskilnaður um nákvæmni við heimfærslu málsatvika undir ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þegar refsikrafa sé höfð uppi í ærumeiðingarmáli en ekki verði séð að gætt hafi verið að þeim áskilnaði í stefnu. Ljóst sé að einkarefsikröfur stefnanda, sem séu reistar á meintum brotum gegn 235. gr. og 236. gr. hegningarlaga, séu haldnar annmörkum að því leyti að í kröfunum sjálfum sé ekki að finna fullnægjandi lágmarks lýsingu á þeim verknaði sem talinn sé varða refsingu. Í stefnu sé aðeins vísað til þess að stefnda, C, hafi borið aðdróttun út meðal almennings gegn betri vitund, um að stefnandi hafi gerst sekur um kynferðislegt brot gegn dóttur sinni, hjá lögreglu og í almennri umræðu við fjölda fólks. Hvergi sé leitast við að afmarka hvaða ummæli nákvæmlega hafi verið höfð frammi af hálfu stefndu, C, né við hverja, heldur sé einvörðungu stuðst við almennar staðhæfingar stefnanda, sem ekki séu studdar neinum gögnum. Ljóst sé að stefnda, C, hafi ríka hagsmuni af því að geta varist kröfunni og þeim ásökunum sem þar komi fram, án þess að þurfa að geta sér til um efni þeirra, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Í stefnu sé ekki gerð grein fyrir þeirri refsingu sem krafist sé vegna einkarefsikrafna stefnanda. Stefnda bendir á að þrátt fyrir að gerð sé tilraun til að renna stoðum undir grundvöll miskabótakrafna stefnanda sé enginn reki gerður að því að rökstyðja fjárhæð þeirra. Af þeim sökum sé stefndu torveldað að færa fram mótrök gegn kröfunni.
Stefndu vísa til þess að stefnandi hafi á sínum tíma kært til lögreglu meint brot stefndu á friðhelgi. Stefndu hafi ekki borist tilkynningar frá lögreglu þess efnis að rannsókn málsins hafi verið felld niður og því sé málið ekki fullrannsakað. Það verði því að telja afar sérstaka stöðu, að lögregla skuli á sama tíma vera að rannsaka mögulegt brot stefndu, þar sem allra gagna varðandi sekt eða sakleysi aðila verði aflað, og kærandi stefni sömu aðilum fyrir dóm í einkarefsimáli. Þessi staðreynd beri með sér hvern hug stefnandi beri til stefndu.
Af öllu ofangreindu virtu leiði að málatilbúnaður stefnanda sé svo vanbúinn og kröfugerð hans svo óskýr að ekki sé hægt að leggja dóm á kröfu hans. Verði því að vísa málinu frá í heild eða að hluta.
V
Með málssókn þessari krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdar til refsingar sem og til greiðslu miskabóta, in solidum, sem og að stefnda, C verði ein dæmd til greiðslu þeirra.
Stefndu hafa krafist frávísunar málsins, m.a. á þeim grunni að málatilbúnaður stefnanda uppfylli ekki kröfur 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Samkvæmt d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, skal, eins og þar segir, í stefnu greina svo glöggt sem verða má, dómkröfur stefnanda svo sem „refsingu fyrir tilgreind orð eða athafnir“. Í meiðyrðamáli og samkvæmt fyrrgreindu ákvæði laga um meðferð einkamála er gerð sú krafa, að fram komi lágmarkslýsing á þeim verknaði sem refsingu er talinn varða, enda hafa stefndu ríka hagsmuni af því að geta varist kröfunni án þess að þurfa að geta sér til um þetta.
Dómkröfum stefnanda hefur verið lýst hér að framan. Er þar m.a. krafist refsingar stefndu fyrir brot gegn 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1944. Er brotinu svo lýst að stefndu hafi farið í leyfisleysi inn á einkasvæði á fésbókarsíðu stefnanda með ólögmætum og refsiverðum hætti, skoðað einkasamskipti hans þar við þriðju aðila, og sent samskiptin í leyfisleysi áfram til óviðkomandi aðila. Þá krefst stefnandi þess einnig að stefnda C verði jafnframt dæmd til refsingar fyrir brot gegn 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga, „fyrir að hafa dróttað að því við stefnda sem og borið aðdróttun út meðal almennings gegn betri vitund, er hún bar fram þau ósannindi hvort tveggja hjá lögreglu sem og í almennri umræðu við fjölda fólks að stefnandi hefði gerst sekur um kynferðisbrot gegn dóttur stefnanda, dótturdóttur stefndu C“.
Stefnandi gerir og miskabótakröfu á hendur stefndu in solidum, að fjárhæð 3.500.000 krónur, sem hann segir vera vegna brots gegn friðhelgi einkalífs. Einnig krefst stefnandi miskabóta úr hendi stefndu, C, að fjárhæð 2.000.000 króna, fyrir brot gegn 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga.
Eins og dómkröfur stefnanda eru fram settar er ekki ljóst til hvaða refsiheimildar stefnandi vísar til varðandi ætluð brot á stjórnarskránni, mannréttindasáttmála Evrópu eða hvort líta beri svo á að í dómkröfum sé einnig að finna málsástæður stefnanda. Hvorki er í dómkröfum né í stefnu tiltekið hvenær hin ætlaða refsiverða athöfn á að hafa átt sér stað eða hvenær stefnandi fékk vitneskju um hinn seka, sbr. 29. gr. almennra hegningarlaga, um málshöfðunarfrest. Þá er þar ekki gerð grein fyrir þætti hvorrar stefndu fyrir sig í hinum meintu brotum. Verður að telja að með þessari framsetningu á kröfugerð sé ekki fullnægt skilyrðum d-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991.
Í stefnu er og vísað til 18. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, varðandi samaðild til varnar. Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu vísaði stefnandi til 19. gr. sömu laga, um samlagsaðild. Eins og að framan hefur verið lýst krefst stefnandi miskabóta úr hendi stefndu in solidum, sem og úr hendi stefndu C einnar. Hins vegar er í stefnu ekki gerð grein fyrir grundvelli þess að þeim er stefnt til óskiptrar greiðslu miskabóta. Uppfyllir stefnan að þessu leyti ekki kröfur e og f liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, en í stefnu skortir á að rökstutt sé hvernig stefndu geti að hluta borið óskipta bótaábyrgð gagnvart stefnanda. Þá er verknaðarlýsing í stefnu mjög almenn og í engu rökstuddur þáttur hvorrar stefndu fyrir sig í meintri meingerð gegn stefnanda, sem og hvernig hvert og eitt tilgreint lagaákvæði almennra hegningarlaga geti átt við um háttsemi þeirra.
Að öllu því virtu sem að framan er rakið þykja dómkröfur stefnanda bæði ruglingslegar, óljósar og óskýrar og þvílíkir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda að í andstöðu sé við meginreglur einkamálaréttarfars um glöggan og skýran málatilbúnað. Hefur stefnandi ekki lagt málið upp með nægjanlega skýrum hætti og ekki lagt þann grundvöll að málinu, sem nauðsynlegur er til þess að efnisdómur verði á það lagður. Varðar það frávísun málsins í heild samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Eftir þessari niðurstöðu ber að úrskurða stefnanda til þess að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur til hvorrar um sig. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefndu.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, A, greiði stefndu, B og C, hvorri um sig 150.000 krónur í málskostnað.