Hæstiréttur íslands

Mál nr. 493/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


Þriðjudaginn 30

 

Þriðjudaginn 30. desember 2003.

Nr. 493/2003.

Sýslumaðurinn í Kópavogi

(Karl Vilbergsson fulltrúi)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103 gr. laga nr. 19/1991. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

 

X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. desember 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. desember 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald yfir varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til 19. janúar 2004 kl. 16.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og greint er frá í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili játað að hafa í félagi við annan mann framið vopnað rán í verslun að kvöldi 8. desember sl. Samkvæmt frásögn þeirra og starfsmanna verslunarinnar komu þeir með hulin andlit inn í verslunina, ógnuðu starfsfólki með haglabyssum og söfnuðu því saman í kaffistofu verslunarinnar þar sem þrír starfsmenn voru neyddir til að fara niður á hnén meðan sá fjórði var neyddur til að fara inn á skrifstofu, opna þar peningaskáp og afhenda þá fjármuni sem þar voru. Stóðu þeir allan tímann vopnaðir yfir starfsfólkinu. Yfirgáfu þeir síðan verslunina með ránsfenginn og óku á brott. Við yfirheyrslur hafa þeir sagt að skotvopnin hafi verið óhlaðin þegar þeir frömdu ránið, en viðurkennt að hafa haft skotfæri í vörslum sínum, sem þeir losuðu sig við áður en þeir voru handteknir skömmu eftir ránið. Skotvopnin, sem notuð voru og fundust í bifreið þeirra, voru tvær haglabyssur, sem báðar höfðu verið útbúnar þannig að af þeim hafði verið sagað hlaup og skefti. Einnig liggur fyrir játning eins starfsmanns verslunarinnar um að hann hafi verið í vitorði með mönnunum, veitt þeim upplýsingar og átt að fá hluta ránsfengsins.

Varnaraðili var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins 9. desember 2003 á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og rann það gæsluvarðhald út 23. desember síðastliðinn.

Varnaraðili og annar maður hafa báðir játað að hafa framið brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og styðja gögn málsins þá játningu. Brot á því ákvæði getur varðað allt að 10 ára fangelsi og allt að 16 ára fangelsi ef mjög mikil hætta hefur verið samfara brotinu. Við verknaðinn notuðu þeir hættuleg skotvopn, sem sérstaklega voru útbúin til ofbeldisverka og þeir öfluðu gagngert í því skyni að nota við ránið. Þá hafa þeir viðurkennt að hafa haft skotfæri í vörslum sínum. Sú háttsemi sem þeir eru grunaðir um var til þess fallin að vekja mikinn ótta hjá þeim sem fyrir urðu. Þegar allt framangreint er virt verður að telja að eðli þess brots, sem varnaraðili er grunaður um að hafa framið, sé slíkt að almannahagsmunir standi til þess að hann verði látinn sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til 19. janúar 2004 kl. 16.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. desember 2003.

                Lögreglustjórinn í Kópavogi krefst þess að kærða, X, [kt.], til heimilis að [...], verði með dóms­úrskurði gert að sæta gæsluvarð­haldi allt til kl. 16:00 mánudaginn 19. janúar 2004 vegna gruns um rán sam­kvæmt 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Kröfunni til stuðnings er vísað til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opin­berra mála.

                Kærði krefst þess að synjað verði um gæsluvarðhaldskröfuna.

I.

                Mánudaginn 8. desember síðastliðinn, laust fyrir kl. 20, fór kærði við annan mann inn í verslun [...], báðir vopnaðir afsöguðum hagla­byssum og með hettur fyrir andliti, skipuðu starfsmönnum að leggjast á kné inni á kaffistofu og gætti annar þeirra starfsfólksins á meðan hinn lét einn starfsmannanna opna peninga­skáp verslunarinnar, þaðan sem kærði og samverkamaður hans tóku um 600.000 krónur og hurfu út í náttmyrkrið.  Mennirnir voru handteknir skömmu síðar í útjaðri Reykjavíkur og voru þá með ránsfenginn og vopnin í fórum sínum.  Þeir voru báðir úrskurðaðir í gæsluvarðhald 9. desember, í þágu rannsóknar málsins, og renna þeir úrskurðir á enda kl. 16:00 í dag.  Fram kemur í kröfugerð lögreglustjóra að rann­sókn málsins sé á lokastigi og liggur fyrir skýlaus játning bæði kærða og samverka­manns hans á ætluðu broti.  Einnig hefur verið upplýst að þeir áttu sér vitorðsmann í versluninni [...], sem mun hafa lagt á ráðin með þeim, en ekki hefur verið farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim manni.  Ekkert er fram komið, sem bendir til þess að umrædd skotvopn hafi verið hlaðin á verknaðar­stundu.

II.

Kærði er 19 ára að aldri og hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi.  Sterkur grunur leikur á því að hann hafi nú gerst brot­legur við ránsákvæði 252. gr. almennra hegningarlaga, svo sem hann hefur játað ský­laust fyrir dómi, en refsing fyrir slík brot getur að lögum varðað fangelsi allt að 16 árum.  Ætlað brot kærða mun hafa verið unnið í sameiningu við tvo aðra menn og er háttsemin því alvarlegri fyrir þær sakir, þótt ekki skipti það öllu í því máli, sem hér er til meðferðar, enda alvarleiki ránsbrots sem þessa ávallt mikill. 

Við mat á því hvort ætlað brot kærða sé þess eðlis að ætla megi gæsluvarð­hald „nauð­synlegt með tilliti til almanna­hags­muna“, svo sem gert er að skilyrði í 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, nægir ekki að almennt megi líta svo á að gæsla sé nauðsynleg með tilliti til almannahagsmuna, heldur verður svo einnig að vera í því tilviki, sem hér er til úrlausnar.  Með hliðsjón af því að kærði hefur hreint sakavottorð, er í fastri vinnu tengdu iðnnámi og hefur fasta búsetu þykir, eins og mál þetta liggur fyrir, ekki nauðsynlegt vegna almannahagsmuna, að hann sæti frekara gæsluvarðhaldi en orðið er vegna fyrr­nefnds verknaðar.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að synja beri um gæslu­varð­haldskröfu Lögreglustjórans í Kópavogi.  Kærði skal því laus úr gæsluvarðhaldi.

Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Synjað er um gæsluvarðhaldskröfu Lögreglustjórans í Kópavogi.  Kærði, X, skal því laus úr haldi.