Hæstiréttur íslands
Mál nr. 115/2001
Lykilorð
- Líkamsárás
- Sönnunarmat
- Dómari
- Gagnaöflun
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 31. maí 2001. |
|
Nr. 115/2001. |
Ákæruvaldið(Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Birni Stefánssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Líkamsárás. Sönnunarmat. Dómarar. Gagnaöflun. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.
B var ákærður fyrir að hafa slegið konu í andlitið á skemmtistað með þeim afleiðingum að gat kom á hljóðhimnu og hún varð fyrir heyrnartapi. Þegar málið var fyrst tekið fyrir í héraðsdómi neitaði ákærði sök. Þar sem ljóst var af gögnum frá rannsókn málsins að niðurstaða þess myndi að verulegu leyti ráðast af mati á sönnunargildi framburðar B og konunnar, sem bar að B hefði slegið sig, var talið að héraðsdómur hefði þá átt að neyta heimildar laga nr. 19/1991 til að láta þrjá héraðsdómara skipa dóm í málinu. Þá var talið að átt hefði að leita eftir framburði dyravarða, sem fullyrt höfðu á vettvangi að B hefði slegið til konunnar, og álitsgerðar læknis um áverka konunnar og batahorfur hennar. Þá þótti héraðsdómur að nokkru óskýr um hvað teldist sannað í einstökum atriðum í málinu. Af þessum sökum var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til frekari meðferðar og dómsálagningar á ný.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. mars 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð.
I.
Aðdragandanum að máli þessu er lýst svo í frumskýrslu lögreglunnar að hún hafi verið kvödd á veitingastaðinn LA café við Laugaveg í Reykjavík kl. 4.22 aðfaranótt 6. febrúar 2000 og tilkynnt að dyraverðir þar væru með mann „í tökum“. Á vettvangi hafi dyravörður tjáð lögreglumönnum að maður þessi hafi slegið konu í andlitið, þar sem þau hafi verið stödd á dansgólfi inni á veitingahúsinu. Hafi enginn dyravörður orðið vitni að slagsmálum þeirra, en konan væri innandyra og hygðist kæra málið til lögreglu. Lögreglumennirnir hafi síðan hitt konuna, Stellu Björgvinsdóttur, sem hafi verið lítilsháttar ölvuð og með góðri meðvitund. Hún hafi tjáð þeim að hún hafi verið að dansa inni á veitingastaðnum þegar maðurinn hafi ráðist á sig og slegið í höfuðið, en eftir það heyrði hún ekkert á vinstra eyra. Ekki hafi verið að sjá áverka á henni að undanskildum roða á vinstri kinn. Hún hafi sagst mundu fara á slysadeild sjálf. Lögreglumennirnir hafi síðan hitt fyrir manninn, sem reyndist vera ákærði. Hafi hann verið „orðinn rólegur og yfirvegaður og höfðu dyraverðir sleppt taki á honum“. Ákærði hafi virst vera nokkuð mikið ölvaður og framburður hans verið lítillega ruglingslegur. Var haft eftir honum að hann viðurkenndi að hafa slegið í höfuð konu með hægri hendi, en það hafi gerst á dansgólfi veitingastaðarins. Í byrjun hafi hann ýtt við konunni af nánar tilgreindum ástæðum, en hún þá ráðist á hann og klórað og hann síðan slegið hana flötum lófa. Hafi hann ekki slegið hana fast. Þess var getið í skýrslunni að ákærði hafi verið klóraður á kinn á tveimur eða þremur stöðum og hafi honum verið ekið heim.
Stella Björgvinsdóttir kom fyrir lögreglu 11. febrúar 2000 og gaf skýrslu um málið. Hún kvað ákærða hafa verið að angra sig og Maríu Sigvaldadóttur, þar sem þær hafi verið staddar saman á áðurnefndu veitingahúsi, og þær því ákveðið að fara þaðan. Á leið þeirra út hafi ákærði gripið um ól á tösku Stellu, sem hafi ítrekað en árangurslaust beðið hann um að sleppa. Hann hafi króað hana af upp við vegg, tekið með annarri hendi um hnakka hennar og slegið krepptum hnefa með hinni hendinni í höfuð hennar. Höggið hafi komið á vinstra eyra. Hún kvað tvo menn hafa komið að þeim ákærða eftir þetta og hafi hún kannast við annan þeirra, sem héti Egill. Þeir hafi haldið ákærða þar til dyraverðir komu á vettvang. Hún hafi farið á slysadeild eftir að hafa skýrt lögreglunni frá málavöxtum, en komið hafi í ljós að gat hafi komið á hljóðhimnu á vinstri eyra og væri hún nánast heyrnarlaus á því.
Lögreglan tók skýrslu 16. nóvember 2000 af áðurnefndri Maríu Sigvaldadóttur. Hún greindi með líkum hætti og Stella Björgvinsdóttir frá skiptum þeirra við ákærða fyrst í stað, svo og að þær hafi ákveðið að yfirgefa veitingahúsið af fyrrnefndri ástæðu. Hún hafi gengið á undan Stellu í átt að útgangi og verið komin að fatahengi þegar hún varð þess vör að þær hefðu orðið viðskila. Hún hafi því litið aftur inn í sal veitingahússins og þá séð Stellu í deilu við ákærða nærri dansgólfi, en hann hafi haldið í hana eða tösku hennar. Kvaðst María ekki hafa skipt sér af þessu og farið aftur að fatahenginu, en skömmu síðar hafi Stella komið og gefið sig á tal við dyraverði. Stella hafi síðan sagt sér að ákærði hefði slegið sig á eyrað. Þær hafi rætt lítillega við lögregluna, en eftir það farið saman á slysadeild. María kvaðst ekki hafa veitt athygli áverkum á andliti Stellu.
Fyrir liggur í málinu skýrsla lögreglunnar um samtal 21. nóvember 2000 við Egil Jónasson, sem kannaðist við að hafa hitt Stellu Björgvinsdóttur, sem hann væri lítillega kunnugur, á fyrrnefndum veitingastað aðfaranótt 6. febrúar sama árs. Hann kvaðst hafa séð hana í samræðum við mann nærri dansgólfi, svo og að maðurinn hafi lyft hendinni, en ekki hafi hann séð hvort maðurinn hafi slegið hana. Hann hafi haldið ferð sinni áfram, en síðan hitt Stellu í anddyri veitingastaðarins, þar sem hún hafi sagt honum að maðurinn hafi slegið hana í andlitið. Hann taldi að Stella hafi borið einhverja áverka, sem hann minntist þó ekki nánar.
Lögreglan tók 27. nóvember 2000 skýrslu af ákærða, sem kannaðist við að hafa í umrætt sinn reitt Stellu Björgvinsdóttur til reiði með nánar tilgreindum ummælum, en hún hafi af því tilefni ráðist á hann og klórað. Hann hafi borið fyrir sig hendurnar, en eftir nokkurn tíma hafi komið dyraverðir, sem hafi fylgt honum fram í anddyri veitingastaðarins. Hann neitaði því ítrekað aðspurður að hafa reynt að stöðva för Stellu af staðnum eða veitt henni höfuðhögg, en taldi lögreglumenn eitthvað hafa misskilið frásögn sína um að hann hafi borið fyrir sig hendurnar, þegar skráð var í áðurnefndri frumskýrslu um málið að hann viðurkenndi að hafa slegið hana í höfuðið.
Í málinu liggur fyrir vottorð læknis við háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala Fossvogi frá 2. október 2000, þar sem staðfest var að Stella Björgvinsdóttir hafi leitað á slysadeild við sjúkrahúsið 6. febrúar sama árs kl. 4.54. Hún hafi orðið fyrir líkamsárás, fengið högg á vinstra eyra og kvartaði undan að heyra ekki með því. Við skoðun á slysadeild hafi sést að hljóðhimnan væri sprungin. Stella hafi næsta dag komið á háls-, nef- og eyrnadeild, þar sem smásjárskoðun hafi verið gerð og heyrnarmæling, sem hafi leitt í ljós verulegt heyrnartap. Stella hafi komið aftur til skoðunar 2. mars 2000 og síðan 8. sama mánaðar, en þá hafi enn verið verulegt gat á hljóðhimnu, sem hafi ekki gróið. Hafi verið sett pappírsbót yfir hljóðhimnuna og Stellu fundist heyrnin aukast við það. Ráðgert hafi verið að hún kæmi aftur til skoðunar eftir sex vikur og yrði þá kannað hvort hljóðhimnan hefði náð að gróa, en að öðrum kosti myndi verða þörf aðgerðar.
Ekki verður séð að lögreglan hafi við rannsókn málsins aflað frekari gagna, sem einhverju skipta, en hér hefur verið getið. Á grundvelli þeirra var málið höfðað með ákæru ríkissaksóknara 1. febrúar 2001, þar sem ákærða var gefin að sök líkamsárás með því að hafa aðfaranótt 6. febrúar 2000 ráðist að Stellu Björgvinsdóttur, þar sem þau voru stödd á áðurnefndum veitingastað, og slegið hana í höfuðið með þeim afleiðingum að gat hafi komið á hljóðhimnu á vinstri eyra hennar, en af því hafi hún hlotið mikið heyrnartap. Þótti þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
II.
Þegar mál þetta var fyrst tekið fyrir í héraði 14. febrúar 2001 kom ákærði fyrir dóm og neitaði sök. Af þeirri ástæðu og eins og málið lá að öðru leyti fyrir samkvæmt áðurnefndum gögnum um rannsókn þess mátti héraðsdómara vera ljóst að allar líkur væru til að niðurstaða þess myndi að verulegu leyti ráðast af mati á sönnunargildi munnlegra skýrslna ákærða og Stellu Björgvinsdóttur fyrir dómi. Sú varð og raunin við aðalmeðferð málsins, enda voru þá ekki leiddir fyrir dóm til skýrslugjafar aðrir, sem gátu borið um höfuðhögg sem sjónarvottar. Sakargiftir samkvæmt ákæru gátu varðað ákærða þungri refsingu ef sannaðar yrðu. Var því full ástæða til þess að neyta fyrir héraðsdómi heimildar síðari málsliðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1994 og 36. gr. laga nr. 15/1998, til að láta þrjá héraðsdómara skipa dóm í málinu.
Svo sem áður er getið kom fram í frumskýrslu lögreglunnar um atvik málsins að dyraverðir á veitingastaðnum LA café hafi tjáð lögreglumönnum þegar þeir komu þar á vettvang að ákærði hafi slegið konu í andlitið, en þau hafi verið stödd á dansgólfi þegar slagsmál hafi orðið milli þeirra. Þótt sérstaklega hafi þar verið tekið fram að dyraverðir hafi ekki orðið vitni að slagsmálunum var full ástæða til að leitast við að afla í málinu framburðar þess eða þeirra, sem lögreglan hafði þetta eftir, enda gæti talsverðu skipt varðandi mat á trúverðugleika frásagnar ákærða annars vegar og Stellu Björgvinsdóttur hins vegar hvernig þau greindu þessum viðmælendum sínum frá atburðinum á allra fyrstu stigum.
Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi lá fyrir áðurnefnt læknisvottorð frá 2. október 2000. Þá kom einnig fyrir dóm til skýrslugjafar læknir, sem ritaði undir þetta vottorð. Í skýrslu hans kom fram að hann hafi aðeins hitt Stellu eitt skipti, en það hafi verið 8. mars 2000 þegar hann setti pappírsbót á hljóðhimnu í vinstra eyra hennar. Hún hafi átt að koma aftur til eftirlits og mats um frekari aðgerðir, en ekki kæmi fram í gögnum háls-, nef- og eyrnadeildarinnar að af því hafi orðið. Í sambandi við batalíkur Stellu kvaðst læknirinn ekkert geta sagt, enda væri sér ekki kunnugt um hvort hljóðhimnan hafi gróið eftir að pappírsbótin var sett á hana, en ef það hafi ekki gerst mætti leita bata með aðgerð, sem krefðist dvalar á sjúkrahúsi í einn sólarhring. Slík aðgerð bæri árangur í 90% tilvika. Læknirinn staðfesti að áverki sem þessi gæti hlotist af höggi eða þrýstingsbylgju á eyra án þess að ummerki væru sýnileg. Hann var sérstaklega spurður að því hvort unnt hafi verið að sjá hvort um væri að ræða nýjan áverka eða gamlan og svaraði því til að 8. mars 2000 hafi útlit getað bent til þess að „þetta væri nýr áverki eða nýlegur ... ekki margra ára gamalt gat.“ Mjög skortir á að með þessu hafi verið gerð viðhlítandi grein fyrir þeim sérfræðilegu atriðum, sem áhrif gætu haft við úrlausn málsins. Þannig liggur ekkert fyrir af hendi þess læknis, sem tók við Stellu á slysadeild aðfaranótt 6. febrúar 2000, um ástand hennar þá, greiningu áverka og hugsanleg ummerki eftir árás. Áður tilvitnuð orð í skýrslu læknisins fyrir héraðsdómi gefa sérstakt tilefni til að leita nánari álitsgerðar sérfræðings um hvort gat á hljóðhimnu, sem greindist á sjúkrahúsi í framhaldi af skiptum ákærða og Stellu, kunni hugsanlega að hafa verið eldra en svo að það verði rakið til þeirra. Engin læknisfræðileg gögn liggja fyrir um núverandi ástand Stellu, þar með talið hvort hún hafi hlotið bata eða eftir atvikum gert ráðstafanir til að fá hann, svo og hvort enn væri unnt að leita hans hafi ekkert enn verið að gert.
Auk þess, sem að framan greinir, er enn til þess að líta að í hinum áfrýjaða dómi skortir nokkuð á að nægilega skýrt komi fram hvað héraðsdómari telji í einstökum atriðum sannað í málinu og með hvaða hætti, sbr. 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991, eins og henni var breytt með 5. gr. laga nr. 37/1994. Að öllu þessu athuguðu er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til gagnaöflunar, aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.
Í ljósi þessara úrslita málsins verður allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, sem ákveðin eru í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur. Lagt er fyrir héraðsdóm að taka málið til frekari meðferðar og dómsálagningar á ný.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Björns Stefánssonar, á báðum dómstigum, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, samtals 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2001.
Málið er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 1. febrúar sl. á hendur ákærða, Birni Stefánssyni, kt. 250456-4099, Njálsgötu 34 í Reykjavík, “fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 6. febrúar 2000, á skemmtistaðnum LA-kaffi, Laugavegi 45, Reykjavík, slegið Stellu Björgvinsdóttur, kennitala 200366-3959, í höfuðið með þeim afleiðingum að gat kom á hljóðhimnu vinstra eyra hennar og hlaut hún mikið heyrnartap.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Málavextir
Sunnudagsnóttina 6. febrúar í fyrra var óskað eftir því að lögregla yrði send á veitingastaðinn “LA café”, Laugavegi 45 hér í borg. Samkvæmt staðfestri skýrslu Karls Eyjólfs Karlssonar lögreglumanns, fór hann ásamt Þórði Þórðarsyni lögreglumanni, til þess að sinna þessu. Á veitingastaðnum hittu þeir dyravörð sem sagði þeim að aðrir dyraverðir væru með mann í tökum sem slegið hefði konu í andlitið. Þar hittu þeir einnig kæranda málsins, Stellu Björgvinsdóttur. Sagði hún frá því að maður sem þarna var staddur, ákærði í málinu, hefði slegið hana í höfuðið og heyrði hún ekkert með vinstra eyranu. Segir í skýrslunni að ekki hafi séð á konunni annað en roða á vinstri kinn. Kvaðst hún ætla að fara sjálf á slysadeild. Þá segir að ákærði hafi verið allölvaður og frásögn hans ruglingsleg. Hafi hann viðurkennt að hafa slegið konuna í höfuðið úti á dansgólfi. Hefði hann verið að dansa við konu nokkra og önnur kona komið þar að og farið að reyna við þá sem hann var að dansa við. Hefði hann reiðst við þetta og ýtt við þeirri sem var að trufla þau en hún þá klórað hann á móti. Við það hefði hann slegið konuna með flötum lófa hægri handar. Segir í skýrslunni að ákærði hafi verið klóraður á hægri kinn.
Stella Björgvinsdóttir leitaði þegar um nóttina til slysadeildar Landspítalans. Í málinu er vottorð Friðriks Kristjáns Guðbrandssonar, læknis á háls-, nef- og eyrnadeild spítalans, dagsett 2. október sl. Segir þar m. a.:
“Við skoðun á slysadeild sást að vinstri hljóðhimnan var sprungin og lýst risastóru gati á hljóðhimnunni. Í ljósi þessa var sjúklingur skoðaður þann 7. febrúar á háls-, nef og eyrnadeild og við smásjárskoðun sást gat á vinstri hljóðhimnu. Heyrnarmæling sýndi verulega mikið heyrnartap á vinstra eyra. Áætluð er skoðun eftir 6-8 vikur til eftirlits og staðfestingar á gróanda og kom Stella á nýjan leik þann 02.03. árið 2000. Var þá um að ræða áfram stórt rof á hljóðhimnu og mikið heyrnartap á vinstra eyra og vaknaði spurning hvort beinkeðja miðeyrans hefði skaddast við höggið. Í framhaldi af þessu kom hún til skoðunar hjá undirrituðum 08.03.00 og var þá enn um að ræða verulegt gat á vinstri hljóðhimnu sem hefur ekki enn gróið. Það var sett pappírsbót yfir hljóðhimnuna og fannst Stellu heyrnin aukast við það. Áætlað er að leyfa pappírnum að vera næstu 6 vikur og meta ástandið þá aftur, hvort hljóðhimnan hafi náð að gróa. Annars stæði hún frammi fyrir því að gera þyrfti viðgerð á hljóðhimnu með vöðvahimnu síðar.
Í samantekt er um að ræða slæmt gat og stórt á vinstri hljóðhimnu af völdum hnefahöggs. Nokkrar líkur eru á að gatið muni ekki gróa af sjálfsdáðum og þurfi því að gera aðgerð síðar til að loka gatinu og í heyrnarbætandi skyni. Hugsanlega getur verið um að ræða varanlegan skaða á hljóðhimnu og heyrnarkerfi.”
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins.
Ákærði neitar sök. Hann segist hafa komið á veitingastaðinn upp úr miðnætti og þegar fór að líða á nóttina hafi hann boðið konu upp í dans. Höfðu þau dansað nokkra dansa þegar kærandi kom og fór að spjalla við konuna sem hann var að dansa við. Virtist ákærða eins og hún vildi fá dansfélaga hans á brott með sér. Ákærði segist hafa fengið það á tilfinninguna að konan væri að spilla á milli þeirra og kveðst hann hafa spurt hana hvort hún væri “lesbía”. Konan hafi þá reiðst og klórað hann. Kveðst hann hafa borið fyrir sig hendurnar og úr því orðið smá ryskingar. Neitar ákærði því að hafa slegið til konunnar eða eins og hann orðar það: “Ja, ég myndi nú ekki kalla það að slá hana beint. Ég held ég hafi bara borið fyrir mig hendurnar, svona.” Hann kveðst ekki minnast þess að hafa viðurkennt fyrir lögreglumönnunum sem komu á vettvang að hann hefði slegið konuna. Hann kveðst ekki geta ímyndað sér að áverkinn á konunni sé af hans völdum. Hann segist ekki hafa séð neina áverka á kærandanum. Ákærði segist hafa verið búinn að drekka um fjóra bjóra þegar þetta gerðist.
Ákærði er að eigin sögn húsasmiður og vinnur við þá iðn. Hann er fráskilinn en hefur börn sín hjá sér að nokkru leyti. Hann kveðst hafa farið í áfengismeðferð enda hefði hann verið farinn að drekka fullmikið þegar hann skildi við konu sína. Hann kveðst þó ennþá neyta áfengis. Hann kveðst yfirleitt vera mjög rólegur og ekki eiga vanda til þess að missa stjórn á skapi sínu þegar hann drekki. Hann segir samkomulag við fyrrverandi eiginkonu vera mjög gott núna. Sé hann að hjálpa henni að flytja í annað húsnæði og einnig aðstoði hann hana fjárhagslega.
Stella Björgvinsdóttir hefur skýrt frá því að þær María Lovísa hafi farið saman út að skemmta sér og farið á umræddan veitingastað. Þær hafi sest einar við sex manna borð við dansgólfið og farið að tala saman. Segist hún hafa aðeins drukkið einn bjór í þetta sinn. Ákærði hafi komið þarna að og spurt hvort hann mætti setjast við borðið og þær samþykkt það, enda væri þetta sex manna borð. Maðurinn hafi komið eðlilega og þægilega fyrir og spjallað við þær smástund. Hann hafi boðið þeim í glas en þær ekki þegið það. Hann hafi boðið Maríu Lovísu upp og dansað við hana tvo eða þrjá dansa. Hann hafi svo farið að vera ágengur við hana en María Lovísa gert honum ljóst að hún kærði sig ekki um það, enda ætti hún mann og þær tvær væru saman úti að skemmta sér. Hann hafi sífellt gerst ágengari við þær og ekki sinnt því þótt þær bæðu hann að láta þær í friði. Þær tvær hafi farið út á gólf að dansa og hafi hann komið þangað og áreitt þær þar og gengið á milli þeirra. Hann hafi sest hjá þeim aftur en svo staðið upp en komið aftur. Loks hafi þær ákveðið að fara og hafi ákærði þá þrifið í hana og spurt hana hvert hún ætlaði og hún þá svarað að hún væri á förum. Hafi hann þá sagt að hún væri ekki að fara neitt en hún svarað því að hún væri það víst. Hann hafi þá sagt að hún gæti farið en ekki vinkona hennar því að hún ætlaði að fara með sér. Hún kveðst hafa margbeðið hann um að sleppa sér og spurt hvort hann ætti við einhver “persónuleg vandamál” að stríða. Við það hafi ákærði “trompast”, þrýst henni upp að vegg og slegið hana bylmingshögg með krepptum hnefa á eyrað. Þarna hafi verið nærstaddur maður að nafni Egill sem hún kannast við og hafi hún beðið hann að halda manninum meðan kallað væri á dyraverði. Þeir hafi komið og fjarlægt manninn. Hún kveðst ekki hafa klórað ákærða enda sé hún alltaf með mjög stuttar neglur, atvinnu sinnar vegna, og á þeim sé slíkur stærðarmunur að hún gæti ekki náð til þess að gera það. Hún kveðst hafa misst alla heyrn á vinstra eyranu við þetta högg og hafi hún stöðugan höfuðverk og eins hafi jafnvægisskyn hennar verið skert í fyrstu. Hún kveðst vera með skerta heyrn á hægra eyra frá fæðingu en hafa haft fulla heyrn á vinstra eyra fyrir atburðinn.
María Lovísa Sigurðardóttir, sem hefur verið vinkona Stellu í mörg ár og var með henni í umrætt sinn, hefur skýrt frá því að maður sem hún ekki þekkir hafi verið uppáþrengjandi við þær. Líklega hafi hann sest við borðið hjá þeim. Hún kveðst hafa dansað tvo dansa við hann. Hann hafi beðið hana um að koma heim með sér. Þær hafi ákveðið að fara og þegar þær voru á förum hafi maðurinn gripið í Stellu sem hafi reynt að rífa sig lausa. Hún hafi ekki séð né heyrt hvað gerðist á milli þeirra eftir það en Stella hafi komið fram á eftir henni og talað við dyraverði sem hafi farið eitthvað inn. Minnir vitnið að Stella hafi þá sagt henni að maðurinn hefði slegið hana á eyrað og hún hafi einnig sagt að dyraverðirnir hefðu ráðlagt henni að fara sjálf á slysadeildina. Hún segist ekki hafa séð neina áverka á Stellu og hún hafi ekki kvartað um verki. Hún hafi hins vegar talað um að hún heyrði ekki með öðru eyranu. Ekki muni hún hvoru. Hún segist ekki hafa séð að Stella klóraði manninn.
Karl Eyjólfur Karlsson lögreglumaður, hefur staðfest skýrslu sína og skýrt frá því að þeir lögreglumennirnir hafi hitt konu fyrir utan veitingastaðinn sem hafi sagt þeim að hún hefði verið slegin í andlitið. Þeir hafi farið inn og þar inni á upphækkuðu gólfi hafi þeir hitt mann sem dyraverðir hefðu sagt að hefði verið tekinn fyrir einhver átök. Maðurinn hafi verið alveg rólegur og þeir á endanum ekið honum heim. Hann kveðst ekki muna eftir orðaskiptum við manninn.
Þórður Þórðarson lögreglumaður, segist muna eftir því að hafa haft afskipti af manni á umræddum veitingastað í þetta skipti. Maðurinn hafi verið nokkuð ölvaður en rólegur. Að öðru leyti man hann lítið eftir þessu atviki.
Egill Hilmar Jónasson sem áður var nefndur gaf dómskýrslu í síma samkvæmt heimild í 3. mgr. 49. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991, sbr. lög nr. 36, 1999. Hann segist hafa séð að Stella og einhver maður voru að kýta “uppi”. Hann minnir að hann hafi séð manninn lyfta höndunum. Síðar kveðst hann hafa hitt Stellu “niðri” og hún þá verið bólgin í andliti. Hann kveðst ekki muna hvort Stella hafi sagt þarna hvað komið hafði fyrir. Hann kveðst annars hafa verið nokkuð ölvaður þarna.
Friðrik Kristján Guðbrandsson læknir, hefur komið fyrir dóminn og staðfest vottorð sitt. Hann hefur skýrt frá því að rof á hljóðhimnu eins og Stella hafi verið með geti stafað af höggi á eyrað. Stella hafi komið til hans 8. mars í fyrra og þá kveðst hann hafa sett pappírsbót yfir gatið á hljóðhimnunni sem hafi verið töluvert stórt og hafi Stellu fundist að heyrnin skánaði eitthvað við það. Gatið hafi virst vera fremur nýlegt heldur en gamalt. Það hafi verið það stórt að ekki séu miklar líkur á því að það grói sjálfkrafa. Hann hafi þó ekki skoðað Stellu eftir þetta. Hafi gatið ekki gróið af sjálfu sér þurfi að koma til aðgerð á sjúkrahúsi og séu um 90% líkur á því að hún heppnist. Hann kveður heyrnarmælingu hafa leitt í ljós að heyrn á hægra eyra væri skert.
Niðurstaða
Ákærði neitar því að hafa slegið Stellu Björgvinsdóttur á eyrað og valdið henni þeim áverka sem greinir í ákærunni. Hann hefur þó viðurkennt að hafa átt í ryskingum við konuna. Framburður Stellu er aftur á móti einarður, greinargóður og trúverðugur. Nýtur hann stuðnings af skýrslum annarra vitna, frumskýrslu lögreglunnar og læknisvottorðinu, bæði um það að ákærði hafi slegið hana á vinstra eyrað og að hún hafi misst heyrn á eyranu við höggið. Þá kemur fram í frumskýrslu lögreglu að roði hafi sést á vinstri kinn konunnar og í læknisvottorðinu segir að þegar hún hafi komið til skoðunar á slysadeild um nóttina hafi sést “risastórt” gat á hljóðhimnunni í vinstra eyra. Þykir alveg vafalaust að ákærði hafi slegið Stellu í höfuðið þannig að hljóðhimnan í vinstra eyra hennar sprakk og hún missti heyrn á eyranu. Telja verður að líkamstjón Stellu sé stórfellt í skilningi 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og er ákærði sakfelldur fyrir brot gegn því refsiákvæði.
Refsing og sakarkostnaður
Ákærði hefur borið því við að Stella hafi klórað hann í andlitið en hún neitar því. Enda þótt ákærði kynni að hafa rispast á vanganum í átökum við aðra en Stellu þykir, til þess að ekki sé á hann hallað, þykir verða að byggja á því að hún hafi klórað hann. Ákærði var dæmdur í 3ja mánaða skilorðsbundið fangelsi 11. júní 1999 fyrir hrottalega líkamsárás. Hann hefur nú rofið skilorð þess dóms og ber að dæma hann upp og gera ákærða refsingu í einu lagi. Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.
Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun til verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 75.000 krónur.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Björn Stefánsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun til verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar hrl., 75.000 krónur.