Hæstiréttur íslands
Mál nr. 300/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Föstudaginn 4. maí 2012. |
|
Nr. 300/2012.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Páll Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. maí 2012 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. maí 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili verið ákærður 30. apríl 2012 fyrir fimm brot, sem sögð eru framin frá 26. mars til 4. apríl 2012, en hann lauk afplánun 15 mánaða fangelsisdóms 21. mars sama ár. Þá kemur fram að embætti ríkissaksóknara hafi til meðferðar ætlað ránsbrot varnaraðila til ákvörðunar um ákæru. Verður fallist á með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2012.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt.[...] , verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 30. maí 2012 kl. 16:00.
Í greinargerð kemur fram að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-192/2012 frá 4. apríl sl., hafi kærða X verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála til dagsins í dag kl. 16.00.
Kærði hafi margsinnis komið við sögu lögreglu og sé nú undir sterkum grun um þjófnaði, rán, hótanir og hylmingu á rúmlega vikutíma eða frá 26. mars sl. til 4. apríl sl. þegar kærði hafi verið látinn sæta gæsluvarðhaldi. Kærði hafi hlotið marga fangelsisdóma fyrir samskonar brot en hann hafi lokið afplánun 15 mánaða fangelsisrefsingar þann 21. mars sl.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi gefið út ákæru dagsetta þann 30. apríl sl. á hendur kærða fyrir fimm mál, nánar tiltekið fyrir fjögur þjófnaðarbrot, hótunarbrot og hylmingarbrot. Kærði hafi játað hluta þessara brota hjá lögreglu. Embætti ríkissaksóknara hafi fengið til meðferðar ránsmál á hendur kærða og félaga hans og samkvæmt upplýsingum frá embættinu muni ákæra verða gefin út á næstu dögum.
Þyki að mati lögreglu ljóst að kærði hafi einbeittan brotavilja og virðist ekkert lát vera á brotastarfsemi hans. Eins og að ofan greini sæti eftirfarandi mál ákærumeðferð en von sé á ákæru í máli 007-2012-17641 á næstu dögum:
007-2012-16572
Þann 26. mars sl. hafi verið tilkynnt um þjófnað á greiðslukortum og síma úr bifreið við Húsasmiðjuna í Skútuvogi í Reykjavík. Síðar sama dag hafi verið höfð afskipti af kærða og öðrum manni þar sem þeir hafi setið í bifreið. Í vasa kærða hafi síminn fundist og þá hafi greiðslukortin legið á gólfi bifreiðarinnar fyrir framan kærða. Kærði hafi viðurkennt við skýrslutöku að hafa farið inn í bifreiðina og tekið þaðan greiðslukort og síma.
007-2012-17148
Þann 28. mars sl. hafi verið tilkynnt um að maður hefði komið að innbrotsþjófi að [...] í Reykjavík og elt hann út að gatnamótum Snorrabrautar og Hverfisgötu. Aðilinn hafi verið sagður vera í hvítri adidas peysu, gallabuxum, snoðklipptur og um 190 sm á hæð. Þá hafi komið tilkynning um að sést hefði til mannsins hlaupa inn í Hverfisgötu 106a. Þar hafi kærði verið og hafi fatnaður hans svarað til lýsingar á meintum geranda. Þá hafi munir úr íbúðinni að [...] fundist í fórum kærða en um sé að ræða sjónvarpsflakkara, playstation tölvu, fjarstýringar og heyrnartól. Kærði hafi viðurkennt við skýrslutöku hjá lögreglu að hafa brotist inn í íbúðina.
007-2012-17484
Þann 30. mars sl.hafi verið tilkynnt um mann sem hefði verið að reyna að stela verðmætum úr búningsklefa kórfélaga við [...] í Reykjavík. Er lögregla hafi komið á vettvangi hafi tilkynnandi greint frá því að hún hefði komið að hávöxnum, grönnum, snoðklipptum manni með skollitað hár í ljósri hettupeysu og í rauðum adidas íþróttabuxum, þar sem hann hafi haldið á síma sem væri í eigu annarrar konu í kórnum. Maðurinn hafi afsakað sig og ætlað að ganga burt en henni hafi sýnst hann vera með eitthvað innanklæða og því reynt að stöðva hann. Þá hafi maðurinn tvívegis sagt henni að hætta að elta sig því hann væri með hníf og haldið um buxnavasa sinn. Á hlaupunum hafi hann misst kvenmannsveski í eigu meðlims kórsins undan fötum sínum. Við skýrslutöku hafi kærði sagst ekki muna eftir atvikum en hann hafi þó viðurkennt að hafa verið að [...], og þá samsvaraði sá fatnaður sem kærði hafi verið í við lýsingu tilkynnanda. Þá hafi hann viðurkennt að hafa verið með hníf í fórum sínum á umræddum tíma.
007-2012-17641
Þann 31. mars sl. hafi verið tilkynnt um að tveir menn væru að ráðast á einn við Háspennu við Rauðarárstíg í Reykjavík. Mennirnir hafi verið sagðir í adidas peysum, annar í svartri en hinn í hvítri. Mennirnir hafi verið farnir af vettvangi en lögregla hafi fundið þá ásamt þriðja manni í porti við Laugaveg 67a. Hafi kærði verið annar þeirra, klæddur hvítri adidas peysu. Þá hafi verið haldlagður hnífur af kærða við öryggisleit. Þriðji maðurinn hafi verið bólginn á auga og virst óttasleginn. Hafi hann greint lögreglu frá því að kærði hefði gripið hann kverkataki og sagt honum að tæma vasana og síðan kýlt hann tvisvar sinnum með krepptum hnefa í vinstra auga. Þeir hafi síðan farið með honum að hraðbanka þar sem hann hafi átt að taka út pening og afhenda kærða og félaga hans en ekkert hafi verið inni á kortinu. Þá hafi félagi kærða tekið upp hníf og ógnað honum. Þeir hafi sagt honum að hann skuldaði þeim pening.
Við skýrslutöku hafi kærði greint svo frá að hann og félagi hans hafi farið með brotaþola að hraðbanka þar sem brotaþoli hafi ætlað að taka út pening. Hann neiti því að um rán hafi verið að ræða. Hann viðurkenni að hafa tekið í hann og hótað honum að nauðga honum ef hann borgaði þeim ekki peninga sem hann skuldaði félaga hans. Hann neiti að hafa kýlt brotaþola eða tekið hann kverkataki.
Félagi kærða hafi greint frá því að kærði hafi kýlt brotþola tvisvar í augað og tekið hann kverkataki en þeir hafi ætlað að taka af honum símann hans. Þá hafi kærði spurt brotaþola um pin númerið á kortinu hans og þeir farið í hraðbanka en innstæðan aðeins verið 14 kr. Félagi kærða viðurkenni að hafa ógnað brotaþola með hníf.
007-2012-17981
Þann 2. apríl sl. hafi verið tilkynnt um stuld á farsíma af Tannlæknastofu [...] við í Reykjavík. Félagi kærða hafi viðurkennt hjá lögreglu að hafa stolið símanum og látið kærða fá sem greiðslu upp í skuld. Kærði hafi viðurkennt hjá lögreglu að hafa tekið við símanum frá félaga sínum upp í skuld og engra spurninga spurt um símann. Kærði hafi jafnframt hafnaði að greiða bótakröfu þar sem hann hafi sagst vita að símanum hefði verið stolið.
007-2012-18537
Kærði hafi verið handtekinn þann 4. apríl grunaður um innbrot í hús Samhjálpar við Stangarhyl 3a í Reykjavík. Þar hafi verið brotin rúða og farið inn í húsið og sjóðsvél tekin en hún legið fyrir utan gluggann er lögregla kom á vettvang. Tilkynnt hafi verið um dökkklæddan mann vera að berja á rúður. Á vettvangi hafi kærði verið, klæddur í svartar buxur og bláa peysu. Þá hafi kærði verið með nýja skurði á vísifingri og þumalfingri. Kærði hafi viðurkennt hjá lögreglu að hafa verið að verki.
Með vísan til framangreinds og ferils kærða telji lögregla yfirgnæfandi líkur á því að kærði muni halda brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sæti dómsmeðferð.
Sakarefni málanna séu talin varða við 233., 244., 252. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 10 árum ef sök sannist. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Eins og að framan er rakið hefur kærði nýverið verið dæmdur til fangelsisvistar fyrir fjölmörg brot. Flest brotanna framdi hann á stuttu tímabili meðan hann var frjáls ferða sinna. Þá hefur 30. apríl sl. verið gefin út ákæra á hendur kærða fyrir nokkur brot. Þá liggur fyrir að embætti ríkissaksóknara hefur með til meðferðar mál á hendur kærða vegna gruns um aðila að ráni. Er kærði undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Í þessu ljósi og með hliðsjón af sakarferli kærða verður að ætla að hann muni halda áfram brotum ef hann verður leystur úr haldi. Skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt. Verður því krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald kærða tekin til greina. Ekki er efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Símon Sigvaldason kvað upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...] , skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 30. maí 2012 kl. 16:00.