Hæstiréttur íslands
Mál nr. 1/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 2016 en kærumálsgögn bárust réttinum 9. janúar 2017. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði undir rekstri máls Kaupþings ehf. á hendur sóknaraðila gert að afhenda afrit af skýrslum um lausafjárstöðu Kaupþings banka hf. sem sendar voru varnaraðila fyrir tímabilið 1. ágúst til 30. september 2008. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa sín verði tekin til greina. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Bank of America Merrill Lynch International Ltd., greiði varnaraðila, Seðlabanka Íslands, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2016.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 11. júní 2012. Stefnandi er Kaupþing hf., Borgartúni 26, Reykjavík, og stefndi er Bank of America Merrrill Lynch International Ltd., 2 King Edward Street, London, Englandi.
Við fyrirtöku málsins 10. nóvember 2016 lagði stefndi fram beiðni um að Seðlabanka Íslands yrði með úrskurði gert skylt að afhenda afrit af skýrslum um lausafjárstöðu Kaupþings ehf., kt. 560882-0419, Bortartúni 26 í Reykjavík, sem sendar voru Seðlabanka Íslands fyrir tímabilið 1. ágúst til og með 30. september 2008. Stefndi byggir beiðnina á ákvæðum 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í beiðninni kemur fram að stefndi hafi farið þess á leit við Seðlabanka Íslands að framangreind gögn yrðu afhent en að hinn 9. september sl. hafi Seðlabankinn hafnað þeirri beiðni með vísan til þagnarskylduákvæðis 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Með bréfi dómara til Seðlabanka Íslands, dagsettu 10. nóvember sl., var seðlabankastjóra kynnt beiðnin og hann kvaddur til að sækja dómþing við fyrirtöku málsins með vísan til 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Einnig var honum gefinn kostur á því að leggja fram skriflega greinargerð vegna umræddrar beiðni. Seðlabanki Íslands afhenti dómara skriflegar athugasemdir sínar innan gefins frests. Við fyrirtöku málsins 12. þessa mánaðar var málsaðilum, auk fulltrúa Seðlabanka Íslands, gefinn kostur á munnlegum athugasemdum. Þá áréttaði fulltrúi Seðlabanka Íslands mótmæli gegn beiðni stefnda um afhendingu gagna. Lögmaður stefnanda kvaðst ekki geta tjáð sig um það, hvort umrædd gögn væru í fórum stefnanda og tók undir sjónarmið Seðlabanka Íslands. Af hálfu stefnda var beiðnin ítrekuð og færð fyrir henni rök.
Að loknum munnlegum athugasemdum lögmanna var beiðni stefnda tekin til úrskurðar.
Með beiðni sinni óskar stefndi eftir því að Seðlabanka Íslands verði með úrskurði dómsins skyldaður til að afhenda afrit skýrslna um lausafjárstöðu Kaupþings hf. frá tilgreindu tímabili. Fram kemur í greinargerð Seðlabanka Íslands að þau gögn, sem beiðni stefnda lýtur að, séu til og í vörslu stofnunarinnar. Kröfu sína um aðgang að framangreindum skýrslum byggir stefndi á ákvæðum 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefndi vísar til þess að þrátt fyrir að umbeðin gögn kunni að falla undir þagnarskyldu á grundvelli 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, hafi dómstólar fallist á að skylda Seðlabankann til að afhenda gögn, sem falli undir lagaákvæðið, aðila máls þegar hagsmunir aðila af því að fá gögn afhent eru meiri en hagsmunir Seðlabanka Íslands af því að halda efni gagnanna leyndu. Þá sé ákvæðum laga nr. 36/2001 um bankaleynd og þagnarskyldu ekki ætlað að vernda fjármálafyrirtækin sjálf, heldur viðskiptavini þeirra. Þá verði ekki séð að sérstaks trúnaðar þurfi að gæta um skýrslur um lausafjárstöðu Kaupþing hf. í ljósi þess að félagið missti starfsleyfi og hafi verið tekið til slita og hætt starfsemi sem fjármálastofnun. Verulegar fjárhagsupplýsingar félagsins hafi verið birtar í rannsóknarskýrslu Alþingis og þagnarvernd hafi því í raun verið létt af þeim, m.a. hvað varðar upplýsingar í þeim skýrslum sem stefndi krefjist nú aðgangs að.
Stefndi kveðst hafa verulega hagsmuni af því að krafa hans nái fram að ganga, enda sé fjárhagsstaða Kaupþings á því tímamarki þegar viðskiptin, sem um sé deilt í þessu máli, áttu sér stað eitt af því sem máli skipti við úrlausn á því hvort viðskiptin teljist riftanleg. Með kröfu sinni hyggist stefndi styðja þá málsvörn sína að fjárhagsstaða Kaupþings hafi verið með þeim hætti að riftun komi ekki til álita að enskum lögum. Séu umbeðnar skýrslur um lausafjárstöðu fjarri því að vera bersýnilega þarflausar í skilningi 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.
Af hálfu Seðlabanka Íslands er einkum vísað til ákvæða 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 og 2. málsliðar 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Auk þess beri að hafna kröfu stefnda með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Þá vísar Seðlabanki Íslands til þess að hafna beri kröfu stefnda á þeim grundvelli að stefndi eigi að skora á stefnanda málsins að leggja fram umbeðin gögn, sbr. ákvæði X. kafla laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Í þessum þætti málsins reisir stefndi kröfu um afhendingu gagna á ákvæðum X. kafla laga nr. 91/1991 sem fjallar um skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn. Er krafa stefnda um afhendingu gagna úr hendi Seðlabanka Íslands þannig grundvölluð á því að umbeðin gögn séu stefnda nauðsynleg til þess að styðja málsástæður sínar í máli því sem stefnandi hefur höfðað gegn honum. Af 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 leiðir að dómara ber að synja kröfu stefnda um afhendingu gagna að því marki sem hann telur þau tilgangslaus til sönnunar.
Þá verður jafnframt að líta til þess að samkvæmt ákvæðum X. kafla laga nr. 91/1991 verða sönnur með skjölum og öðrum sýnilegum gögnum að meginreglu færðar í einkamáli með því að málsaðilar leggi fram gögn af þessum toga, sem þeir hafa sjálfir undir höndum, en heimildum 3. mgr. 67. gr. og 2. og 3. mgr. 68. gr. sömu laga til að leggja á þriðja mann skyldu til að afhenda gögn verður því aðeins beitt að hjá því verði ekki komist. Verði aðili ekki við áskorun gagnaðila um framlagningu gagna getur dómurinn brugðist við neitun aðilans með því að telja hann samþykkja staðhæfingar gagnaðilans um efni þeirra, hafi það á annað borð eitthvert gildi í málinu, sbr. 1. mgr. 68. gr. laganna. Er það stefnda að færa rök fyrir því að þessi leið fullnægi ekki þörfum hans við sönnunarfærslu í málinu.
Óumdeilt er að Seðlabanki Íslands hefur í fórum sínum þær skýrslur, sem stefndi krefst afhendingar á. Hins vegar upplýsti lögmaður stefnda um það við fyrirtöku málsins 12. desember sl. að af hálfu stefnda hefði hvorki verið skorað á stefnanda né Arion banka hf. að kanna hvort umrædd gögn væru í fórum þeirra og þá hefði ekki verið skorað á stefnanda að leggja þau fram ef þau fyndust hjá honum. Lögmaður stefnda vísaði til þess að samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. október 2008 hefði Nýi Kaupþing banki hf. tekið í sínar vörslur meðal annars gagnasöfn gamla bankans og það yrði ekki skilið öðruvísi en svo að umbeðin gögn hefðu flust yfir til nýja bankans haustið 2008 og væru því ekki lengur í fórum stefnanda. Lögmaður stefnanda upplýsti aftur á móti í sama þinghaldi að hann gæti ekki tjáð sig um það, hvort umrædd gögn væru í fórum stefnanda, enda hefði stefndi hvorki skorað á hann að kanna það né að afla þeirra.
Að öllu framangreindu virtu og með vísan til meginreglu laga nr. 91/1991 um að sönnur með skjölum og öðrum sýnilegum gögnum verði færðar í einkamáli með því að aðilarnir leggi fram gögn sem þeir hafa sjálfir undir höndum er það mat dómsins að stefndi hafi ekki fært haldbær rök fyrir því að honum sé ekki nægilegt að skora á stefnanda að leggja fram umbeðin gögn að því viðlögðu að dómurinn bregðist við hugsanlegri neitun hans með því að telja hann samþykkja staðhæfingar stefnda um efni þeirra, sbr. 1. mgr. 68. gr. laganna. Tilvitnuð ákvörðun Fjármálaeftirlitsins liggur enda ekki frammi í málinu og hefur Seðlabanki Íslands mótmælt áðurrakinni ályktun stefnda af efni hennar. Að svo stöddu verður kröfu stefnda um afhendingu afrita af skýrslum um lausafjárstöðu Kaupþings hf. á tilgreindu tímabili því hafnað.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Kröfu stefnda, Bank of America Merrrill Lynch International Ltd., um afhendingu afrita af skýrslum um lausafjárstöðu Kaupþings hf., kt. 560882-0419, Borgartúni 26, 105 Reykjavík, sem sendar voru Seðlabanka Íslands fyrir tímabilið 1. ágúst til og með 30. september 2008, er hafnað.