Hæstiréttur íslands
Mál nr. 272/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Mánudaginn 22. apríl 2013. |
|
Nr. 272/2013. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.) |
Kærumál. Farbann.
X var gert að sæta farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. apríl 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. apríl 2013, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi allt til miðvikudagsins 15. maí 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 17. apríl 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að X, fd. [...].[...][...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta farbanni allt til miðvikudagsins 15. maí 2013 kl. 16:00.
Krafan er sett fram með vísan til 1. mgr. 100. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Þá er þess krafist að kærða verði gert að tilkynna sig á lögreglustöðinni við Hverfisgötu 113115 í Reykjavík á meðan á farbanni stendur á [...]dögum, [...]dögum og [...]dögum á tímabilinu frá kl. [...]:00 til [...]:00.
Varnaraðili mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar fíkniefnabrot er varði innflutning á sterkum fíkniefnum hingað til lands. Upphaflega hafi rannsókn lögreglu hafist í nóvember á síðasta ári þegar henni hafi borist upplýsingar um að X og A stæðu að innflutningi fíkniefna hingað til lands. Þann 8. mars sl. hafi lögreglan fylgst með ferðum X, en hann hafi komið til landsins þá og tekið flugrútuna til Reykjavíkur. X hafi farið inn á BSÍ og hringt þar úr almenningssíma. Stuttu síðar hafi hann farið að gistiheimilinu við [...] í Reykjavík. Um klukkustund síðar hafi hann hitt þar A við bensínafgreiðslu N1 við Hringbraut. Þaðan hafi þeir farið saman að Lyfju við Lágmúla þar sem A hafi keypt hægðalosandi lyf. Þaðan hafi þeir ekið að JL- húsinu þar sem þeir hafi keypt mat í Nóatúni. Þaðan hafi þeir ekið að [...] þar sem A hafi yfirgefið bifreiðina en X tekið við akstri hennar. Hafi X þá ekið sem leið lá að gistiheimilinu við [...] í [...] og hafi hitt þar meðkærða B og hafi þeir farið saman inn á gistiheimilið. Stuttu síðar hafi X yfirgefið gistiheimilið og ekið að [...] þar sem hann hafi verið handtekinn. Þá hafi B einnig verið handtekinn á gistiheimilinu við [...]. Við leit í herbergi B hafi fundist laxerolía og 12 hylki sem höfðu að geyma fíkniefni. Þá hafi þar einnig fundist plastpoki úr 10-11 og plastpoki úr Nóatúni. Við líkamsrannsókn á B hafi mátt sjá aðskotahluti neðarlega í meltingarvegi hans. B hafi viðurkennt að hafa innbyrgt um 50 hylki sem höfðu að geyma fíkniefni. Samtals hafi verið um að ræða rúmlega 450 g af kókaíni sem hann hafi innbyrgt og flutt inn til landsins. Þann 11. mars sl. hafi A verið handtekinn, einnig grunaður um aðild að innflutningnum. Kærði X hafi nú sætt gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins frá 9. mars sl. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði nú játað það að hafa átt að taka við fíkniefnunum hér á landi og bíða frekari fyrirmæla. Kærði X hafi setið í gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins frá 9. 20. mars sl. en þá hafi honum verið gert að sæta farbanni.
Rannsókn málsins sé nú á lokastigi en óskað hafi verið eftir aðstoð erlendra yfirvalda við hluta af rannsókn málsins. Nú sé unnið að skýrslugerð og frágang málsins.
Kærði hafi játað að hafa staðið að innflutningi sterkra fíkniefna hingað til lands frá London. Kærði sé [...] ríkisborgari búsettur í London á Englandi. Að mati lögreglu þykir vera fyrir hendi lagaskilyrði til að úrskurða X í farbann, enda sé hann nú undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem fangelsisrefsing sé lögð við og megi ætla, gangi hann frjáls ferða sinna, kunni hann að koma sér undan málsmeðferð hjá dómstólum og fullnustu refsingar. Byggi lögregla þetta mat sitt á því að X hafi lítil tengsl, svo vitað sé, við landið og því sé hætta talinn á að hann kunni að reyna koma sér undan.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 1. mgr. 100. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr., og 3. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé þess krafist að kærði verði úrskurðaður í farbann.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Kærði er erlendur ríkisborgari og er fallist á að áfram sé nauðsynlegt að tryggja nærveru hans meðan máli hans er ekki lokið, enda er skilyrðum 1. mgr. 100. g., sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 fullnægt til þess að honum verði bönnuð för úr landinu samkvæmt 100. gr. laganna. Upplýst hefur verið af hálfu lögreglustjóra að ákæra verði gefin út í næstu viku. Verður því fallist á kröfu lögreglustjórans um að kærði sæti áfram farbanni allt til miðvikudagsins 15. maí 2013 kl. 16:00.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Varnaraðila, X, fd. [...][...], er bönnuð för frá Íslandi allt til miðvikudagsins 15. maí 2013 kl. 16:00.