Hæstiréttur íslands
Mál nr. 520/2008
Lykilorð
- Opinberir starfsmenn
- Brottrekstur úr starfi
- Stjórnsýsla
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 28. maí 2009. |
|
Nr. 520/2008. |
Ólafur Þorgeirsson(Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.) og gagnsök |
Opinberir starfsmenn. Frávikning úr starfi. Stjórnsýsla. Skaðabætur.
Ó starfaði sem tollvörður en var vikið frá embætti um stundarsakir og síðar að fullu. Áður höfðu fjórir menn verið handteknir fyrir að taka ófrjálsri hendi áfengi sem skyldi farga. Þeir kváðu Ó hafa verið í vitorði með þeim við þessa háttsemi, en Ó neitaði því. Í sakamáli gegn þeim voru fjórmenningarnir sakfelldir en Ó var sýknaður þar sem ekki var talið sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært var fyrir. Krafðist Ó skaðabóta vegna fjártjóns og miska þar sem honum hafi með ólögmætum hætti verið vikið úr embætti tollvarðar. Ekki var talið að annmarkar hafi verið á lausn Ó úr embætti um stundarsakir. Honum hafi svo verið vikið frá embætti að fullu áður en úrslit yrðu fengin í sakamáli. Ó hafi verið sýknaður í sakamálinu og komi þær ástæður sem ákært var fyrir því ekki til neinna álita við úrlausn málsins. Ráðagerð í lausnarbréfi um fleira en refsiverð brot sem hafi legið að baki stöðumissinum hafi verið almenn og óljós. Talið var að þegar virtur væri sá grundvöllur að frávikningu Ó úr starfi að fullu, sem lagður hafi verið með bréfum tollstjóra, geti síðar gefnar ástæður ekki skipt máli til að réttlæta frávikninguna. Hafi ekki verið sýnt fram á að lagaskilyrði hafi verið til að víkja Ó að fullu úr embætti. Voru skaðbætur til Ó ákveðnar með hliðsjón af dómaframkvæmd á því sviði réttarins sem um ræðir og 2. mgr. 32. gr. laga nr. 70/1996, en ekki þóttu efni til að taka til greina kröfu um miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. september 2008. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 56.340.722 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. febrúar 2007 til 8. júní sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann staðfestingar héraðsdóms um málskostnað og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 28. október 2008. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar úr hans hendi, en til vara að dæmd fjárhæð verði lækkuð og til þrautavara að stefnukröfur verði lækkaðar. Í vara- og þrautavarakröfu er þess krafist að málskostnaður verði látinn falla niður.
I
Aðaláfrýjandi starfaði sem tollvörður hjá tollstjóranum í Reykjavík frá 1. janúar 1984, en samkvæmt 8. tölulið 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins taldist hann til embættismanna hjá gagnáfrýjanda. Honum var veitt lausn frá embætti um stundarsakir 31. ágúst 2006 og vikið frá embætti að fullu 14. febrúar 2007. Áður en þessi atvik urðu hafði aðaláfrýjandi verið í launuðu leyfi frá störfum samkvæmt ákvörðun tollstjóra frá 28. nóvember 2005. Nokkrum dögum fyrr höfðu fjórir starfsmenn Samskipa hf. verið handteknir fyrir að taka ófrjálsri hendi áfengi, sem skyldi farga, og geymt var í vörumiðstöð félagsins. Þeir kváðu aðaláfrýjanda hafa verið í vitorði með þeim við þessa háttsemi, sem sá fyrrnefndi hefur neitað staðfastlega frá upphafi. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðaði mál með ákæru 15. maí 2007, þar sem umræddum starfsmönnum Samskipa hf. var gefinn að sök þjófnaður en aðaláfrýjanda hlutdeild í þjófnaði og brot í opinberu starfi fyrir að misnota aðstöðu sína með því að hafa að beiðni meðákærðu veitt samþykki sitt og látið hjá líða að gera athugasemdir við það að nánar tilgreindu bretti með áfengi var ekki eytt heldur fjarlægt af meðákærðu í þeim tilgangi að þeir kæmust yfir áfengið og flyttu það burt. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2007 voru starfsmenn Samskipa hf. sakfelldir samkvæmt ákæru en aðaláfrýjandi sýknaður þar eð ekki var talið sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem ákært var fyrir. Dómi héraðsdóms var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.
Aðaláfrýjandi reisir kröfur sínar á því að honum hafi með ólögmætum hætti verið vikið úr embætti tollvarðar og hann eigi rétt á skaðabótum fyrir fjártjón og miska af þeim sökum. Af hálfu gagnáfrýjanda er bótaskyldu mótmælt og meðal annars vísað til niðurstöðu nefndar, sem skipuð var samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996 vegna lausnar aðaláfrýjanda úr starfi um stundarsakir og skilaði áliti sínu 15. desember 2006. Í málatilbúnaði gagnáfrýjanda er jafnframt vísað til einstakra atriða, sem varða verklag aðaláfrýjanda við umsjón hans með förgun áfengis í vörslu Samskipa hf. á árunum 2001 til 2005 og gagnáfrýjandi telur hafa falið í sér brot á starfsskyldum hans, meðal annars samkvæmt 14. gr. laga nr. 70/1996. Þar er tilgreint að svokallað slembiúrtak við talningu, þegar miklum birgðum var eytt í einu, hafi verið óforsvaranleg aðferð og að borið hafi að telja birgðir nákvæmlega þótt það hefði tekið lengri tíma. Hið sama eigi við um það að treysta starfsmönnum Samskipa hf. fyrir gæslu áfengisbirgða, ef ekki tókst að ljúka talningu á einum degi, í stað þess að læsa þær inni á öruggum stað yfir nótt þar sem tollgæslan ein hefði lyklavöld. Fleiri einstök atriði eru tilgreind sem brot í starfi varðandi það hvernig umsjón aðaláfrýjanda með förgun áfengisbirgða var háttað. Óumdeilt er að umfang slíkrar förgunar áfengis samkvæmt óskum frá innflytjendum hafi aukist mjög í kjölfar breytinga á reglum um endurgreiðslu á áfengisgjaldi. Atvikum málsins og málsástæðum aðilanna er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.
II
Ekki verður fallist á með aðaláfrýjanda að annmarkar hafi verið á lausn hans úr starfi um stundarsakir 31. ágúst 2006. Tollstjórinn í Reykjavík kaus að víkja honum frá embætti að fullu í byrjun árs 2007 áður en úrslit yrðu fengin í sakamáli, sem vænta mátti að yrði höfðað gegn aðaláfrýjanda. Kemur þá til úrlausnar hvort lagður hafi verið fullnægjandi grundvöllur að frávikningu úr starfi að fullu.
Í áðurnefndu bréfi tollstjórans til aðaláfrýjanda 14. febrúar 2007 var vísað til bréfs þess fyrrnefnda 16. janúar sama ár, þar sem aðaláfrýjanda var tilkynnt um fyrirhugaða frávikningu úr embætti að fullu samkvæmt 2. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 og raktar ástæður hennar. Í því bréfi var vísað til þess að samkvæmt framburði áðurnefndra starfsmanna Samskipa hf. hafi þjófnaður verið stundaður um árabil á áfengi úr vörubirgðum, sem ráðstafað hafi verið til förgunar í vörugeymslum félagsins og að þessi þjófnaður hafi staðið yfir á þeim tíma sem aðaláfrýjanda hafi verið treyst fyrir umsjón með förgun áfengis. Ennfremur sagði í bréfinu að tollverði beri að virða lög og stjórnarskrá og hafa grunnreglur lýðræðis og mannréttinda í heiðri og leggja sig fram við að sinna starfi sínu af alúð, trúmennsku, heiðarleika og ábyrgð. Með vísan til þessa og fyrirliggjandi gagna í málinu hafi aðaláfrýjandi brugðist starfsskyldum sínum og trausti og skipti þá engu hver niðurstaðan verði í væntanlegu refsimáli á hendur honum. Þegar virt sé framkomið brot aðaláfrýjanda á starfsskyldum, aðild að þjófnaði og brot í opinberu starfi sé ekki unnt að treysta honum til áframhaldandi starfa, en tollverðir fari með lögregluvald og verði að vera hafið yfir vafa að þeir séu ekki þátttakendur í lögbrotum eða misfari með vald sitt. Í niðurlagi bréfsins segir: „Eins og gögn málsins bera með sér þá hafið þér átt aðild að þjófnaði. Er það því mat embættisins að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 29. gr. til þess að víkja yður úr embætti tollvarðar að fullu.“
Af orðalagi í niðurlagi bréfsins verður helst ráðið að aðild aðaláfrýjanda að þjófnaði hafi ein og sér leitt til þess að honum yrði vikið frá embætti að fullu. Með dómi héraðsdóms sem féll síðla árs 2007 var aðaláfrýjandi hins vegar sýknaður af ákæru um hlutdeild í þjófnaði og brot í opinberu starfi. Koma þær ástæður ekki til neinna álita við úrlausn málsins. Þrátt fyrir það, sem segir í niðurlagi bréfs tollstjóra, er í fyrri hluta þess að finna ráðagerð um að fleira en refsiverð brot aðaláfrýjanda hafi legið að baki ákvörðun um stöðumissinn. Þar segir að hann hafi brugðist starfsskyldum sínum og trausti, sem starfinu fylgir, auk þess sem rakið var hvernig tollverði beri almennt að haga sér í starfi. Ekki er tilgreint nánar með hvaða athöfnum eða athafnaleysi hann hafi brugðist starfsskyldum sínum og trausti að öðru leyti en því að vísa til þjófnaðar og brots í opinberu starfi. Tilvísun til annarra brota á starfsskyldum en þeirra, sem ákært var fyrir, er almenn og óljós og í engu var getið þeirra ástæðna, sem fyrst var borið við í málsvörn gagnáfrýjanda og getið er í kafla I að framan. Almenn skírskotun til gagna málsins skiptir ekki máli, en þar var ekki heldur að finna þær ástæður, sem gagnáfrýjandi byggir nú á.
Þegar virtur er sá grundvöllur að frávikningu aðaláfrýjanda úr starfi að fullu, sem lagður var með bréfum tollstjórans í Reykjavík 16. janúar 2007 og 14. febrúar sama ár, geta síðar gefnar ástæður ekki skipt máli til að réttlæta frávikninguna. Samkvæmt því verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að gagnáfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að lagaskilyrði hafi verið til að víkja aðaláfrýjanda að fullu úr embætti. Sá síðarnefndi á rétt á bótum af þessum sökum, sem verða ákveðnar með hliðsjón af dómaframkvæmd á því sviði réttarins, sem um ræðir, og 2. mgr. 32. gr. laga nr. 70/1996. Ekki eru efni til að taka til greina kröfu aðaláfrýjanda um miskabætur. Að öllu virtu eru bætur handa aðaláfrýjanda hæfilega ákveðnar 3.000.000 krónur með vöxtum eins og krafist er.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Gagnáfrýjandi verður dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, íslenska ríkið, greiði aðaláfrýjanda, Ólafi Þorgeirssyni, 3.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. febrúar 2007 til 8. júní sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 11. júní sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Ólafi Þorgeirssyni, Skaftahlíð 28, Reykjavík, á hendur íslenska ríkinu, með stefnu áritaðri um birtingu hinn 8. júní 2007.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 56.340.722 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 14. febrúar 2007 til stefnubirtingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi, en til vara, að stefnukrafan verði lækkuð stórlega og málskostnaður felldur niður.
II
Málavextir eru þeir að stefnandi var ráðinn í stöðu tollvarðar hjá tollstjóranum í Reykjavík frá og með 1. janúar 1984.
Hinn 1. september 2006 var stefnanda vikið úr embætti tollvarðar um stundarsakir og var svo vikið að fullu úr embættinu hinn 14. febrúar 2007.
Tildrög uppsagnarinnar voru þau að síðla kvölds hinn 24. nóvember 2005 var stefnandi handtekinn af lögreglunni í Reykjavík og gefið að sök að vera í vitorði með starfsmönnum Samskipa hf. sem höfðu verið handteknir fyrr um daginn fyrir að taka ófrjálsri hendi áfengi er geymt var í vörumiðstöð Samskipa hf., og skyldi farga. Stefnandi var handtekinn á heimili sínu eftir að hinir handteknu starfsmenn Samskipa hf. höfðu bendlað hann við tökuna á áfenginu. Stefnandi kveðst hins vegar ekki hafa komið að töku áfengisins, hvorki komið í vörumiðstöðina umræddan dag né þangað sem starfsmenn Samskipa hf. höfðu flutt áfengið til geymslu. Við yfirheyrslur hjá lögreglu neitaði stefnandi allri sök og kvað áburð starfmannanna í sinn garð ósannan.
Í kjölfar þessa sendi tollstjórinn í Reykjavík stefnanda í launað leyfi frá og með 28. nóvember 2005, sem skyldi vara þar til annað yrði ákveðið. Naut stefnandi þá dagvinnulauna í þann tíma.
Í október 2001 hafði stefnanda verið, auk annarra verka, falin umsjón með förgun tollskyldrar vöru og varð hann af því tilefni tengiliður tollstjóraembættisins við Samskip hf. um það sem snerti förgun áfengis og annarrar tollskyldrar tjónavöru. Stefnandi kveðst, er hann tók við umsjón með förgun, hafa tileinkað sér sama vinnulag, við förgunina, og viðhaft hafði verið um árabil af hálfu embættis tollstjóra. Stefnandi kveðst hafa notið fulltingis annars tollvarðar við framkvæmd förgunarinnar auk aðstoðar lagerstarfsmanna Samskipa hf. um hvar varan væri geymd. Stefnandi kveðst sjaldnast hafa notið aðstoðar sama tollvarðarins í tvö skipti í röð og því hafi margir komið honum til aðstoðar við framkvæmd þessara starfa.
Stefnandi kveður förgun áfengis hafa farið þannig fram að innflytjandi óskaði eftir við Samskip að tilteknu áfengismagni yrði eytt vegna t.d. aldurs, tjóns eða þess að það datt út af sölulista Áfengis og tóbaksverslunar ríkisins. Samskip hafi þá sent innflutningsskjöl og samsvarandi útskriftir úr birgðabókhaldi til Tollstjórans í Reykjavík, þar sem Jóhanna Guðbjartsdóttir deildarstjóri, næsti yfirmaður stefnanda, hafi tekið við þeim og veitt leyfi til förgunar ef gögn voru fullnægjandi. Væri svo ekki hafi það verið hlutverk stefnanda að ganga eftir því við starfsmenn Samskipa, sem störfuðu á frísvæðinu þar sem geymdar voru ótollafgreiddar vörur einstakra innflytjenda, að útvega rétt gögn. Leyfi til förgunar hafi svo verið afhent stefnanda til framkvæmdar. Iðulega hafi verið um að ræða verulegt magn hverju sinni sem farga átti, gjarnan þúsundir lítra en algengt magn fargaðs áfengis á ári hafi verið á milli tvö til þrjúhundruð þúsund lítrar að meðaltali, að mati stefnanda. Það jafngildi u.þ.b. sex hundruð þúsundum einingum.
Byrjunaraðgerðir stefnanda við förgun hafi verið þær að hafa samband við lagerstarfsmenn Samskipa á frísvæðinu og ráðgast við þá um heppilegan tíma fyrir förgun. Stefnandi hafi svo mætt ásamt öðrum tollverði í vöruhús Samskipa þegar búið hafi verið að safna vörunum saman á tiltekinn stað. Hafi síðan hafist talning. Borið hafi verið saman magn til förgunar og það magn sem átti að vera til staðar í vörugeymslu Samskipa. Sökum þess að magn til förgunar hafi verið verulegt, auk þess sem umbúðir áfengisins hafi að hluta verið ónýtar, hafi almennt verið útilokað fyrir stefnanda og aðstoðarmann hans að bera saman förgunarmagn og raunmagn til hlítar. Hafi þá verið viðhöfð svokölluð slembiúrtaksaðferð við talningu í vörugeymslu, þar sem tollverðirnir hafi, ásamt lagerstarfsmönnum, gengið tilviljunarkennt á það sem farga skyldi og borið saman við förgunarleyfið. Stundum hafi talning tekið meira en einn dag og hafi þá áfengið verið í umsjá starfsmanna Samskipa yfir nótt enda engin aðstaða hjá Samskipum til að læsa áfengið inni. Ekki hafi verið höfð vakt yfir áfenginu af hálfu tollstjóraembættisins. Starfsmönnum Samskipa hafi því verið treyst fyrir því að það sem talið hafði verið yrði óhreyft milli talningarlota. Ef magn á lager og skráð magn í förgunarskýrslu reyndist stemma hafi áfengið verið sent í tollfylgd með sendibílum til Efnamóttökunnar hf. í Gufunesi, þar sem vörunni hafi verið fargað. Hafi einnig verið gert slembiúrtak á förgunarstað ef því var að skipta. Að förgun lokinni hafi stefnandi gert skýrslur yfir förgun á hverri tegund fyrir sig og afhent Jóhönnu Guðbjartsdóttur.
Þegar stefnandi var handtekinn hafi staðið yfir undirbúningur að förgun sem Jóhanna yfirmaður stefnanda hafði tekið ákvörðun um að framkvæmd yrði og hafi stefnandi verið í símasambandi við starfsmenn Samskipa til þess að undirbúa förgunina sem fyrirhuguð hafi verið næstu dagana á eftir. Stefnandi hafi þó hvorki kynnt sér skjöl um hverju skyldi farga né farið í vörumóttöku Samskipa vegna þessarar fyrirhuguðu förgunar. Hafi honum því ekki verið ljóst hverju skyldi nákvæmlega farga.
Samhliða handtöku stefnanda hafi verið gerð leit á heimili hans og sambýliskonu hans að Skaftahlíð 28, Reykjavík að fengnu leyfi stefnanda, en þangað hafi hann flust í lok júlí 2005 er hann hafi hafið sambúð. Áfengi hafi fundist á heimilinu, alls 31 flaska af ýmiss konar áfengi og hafi hald verið lagt á það. Ekki hafi verið gerður greinarmunur á því áfengi sem stefnandi átti sjálfur og því sem tilheyrt hafi sambýliskonu hans og því allt áfengið tekið og tilgreint sem áfengi stefnanda í lögregluskýrslu.
Í kjölfar handtöku stefnanda hafi a.m.k. þrír tollverðir verið sendir til þess að telja það magn sem veitt hafði verið leyfi fyrir að farga og hafi það tekið þá a.m.k. 4 daga að telja magn áfengis, á tímabilinu 1. og 2. desember 2005 og 14. og 15. desember 2005. Við þá talningu hafi komið fram að ýmist vantaði eða var meira magn af áfengi en birgðaskýrslur sögðu til um.
Stefndi hefur mótmælt því, að tíðkanlegt vinnulag við förgun hafi verið með þeim hætti sem stefnandi hefur lýst. Yfirmaður stefnanda hafi gefið þau fyrirmæli að aldrei væru færri en tveir tollverðir í förgun og að menn tryggðu að það magn sem ætti að farga yrði fargað. Til þess hafi þurft nákvæma talningu. Þá bendir stefndi á að ekki hafi verið viðhaft sama ferli við förgun á áfengi vegna minniháttar tjóna og vegna annarra atriða. Stefndi kveður stefnanda alfarið hafa séð um förgun vegna minniháttar tjóna í vörugeymslu farmflytjanda, bæði pappírslega afstemmingu og förgunina sjálfa. Stefndi mótmælir og þeirri fullyrðingu stefnanda að útilokað hafi verið fyrir stefnanda og aðstoðarmenn hans að bera saman förgunarmagn og raunmagn þar sem magn til förgunar hafi verið verulegt og umbúðir stundum að hluta til ónýtar. Magnið hafi ekki átt aða hafa áhrif á nákvæmni vinnubragða en getað tekið lengri tíma. Stefndi segir svokallaða slembiúrtaksaðferð ekki hafa verið viðurkennda vinnuaðferð hjá tollstjóraembættinu.
Stefndi kveður og aðferð þá sem stefnandi lýsi í stefnu, um að áfengi hafi verið í umsjá starfsmanna Samskipa ef talning hafi tekið lengri tíma en einn dag, ekki hafa verið í samræmi við starfsskyldur stefnanda, þar sem stefnandi hafi borið ábyrgð á vettvangi.
Stefndi mótmælir því, að yfirmaður stefnanda hafi tekið ákvörðun um framkvæmd förgunar þar sem það hafi verið í verkahring stefnanda eftir að heimild til hennar hafi verið veitt.
Stefndi mótmælir því, að vinnulag stefnanda hafi verið í samræmi við fyrirmæli yfirmanna hans eða tíðkanlegar venjur. Stefnandi hafi borið ábyrgð á vettvangi og átt að sjá til þess að það sem talið var væri varið milli talningarlota.
Á fyrri hluta ársins 2006 kveðst stefnandi ítrekað hafa haft samband við tollstjórann í Reykjavík og óskað eftir niðurstöðu í sínu máli hið fyrsta og hafi hann m.a. átt fund með tollstjóra hinn 31.maí 2006.
Með bréfi, dagsettu 20.júní 2006, til lögreglustjórans í Reykjavík hafi tollstjóri óskað eftir upplýsingum um stöðu rannsóknar málsins og við hvaða lagaákvæði hið meinta brot stefnanda varðaði auk þess að óska eftir lögregluskýrslum til þess að leggja fyrir nefnd samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996.
Með bréfi, dagsettu 4. júlí 2006, hafi lögreglustjóri upplýst að mál stefnanda hefði verið sent til ríkissaksóknara til afgreiðslu. Stefnandi kveður það hafa verið gert þennan sama dag, eða hinn 4.júlí 2006.
Hinn 10. júlí 2006 endursendi ríkissaksóknari rannsóknargögnin til lögreglustjórans í Reykjavík með fyrirmælum um að taka ákvörðun um málshöfðun á hendur stefnanda og öðrum sakborningum vegna ætlaðra brota þeirra.
Hinn 10. júlí 2006 tilkynnti tollstjóri stefnanda bréflega að fyrirhugað væri að veita honum lausn frá embætti um stundarsakir samkvæmt 3. mgr. 26 gr. 70/1996 og vísa málinu til nefndar samkvæmt 27. gr. s.l. Að auki var stefnandi upplýstur um svar lögreglustjórans í Reykjavík til tollstjóra varðandi mál stefnanda.
Stefnandi andmælti fyrirhugaðri ákvörðun með bréfi, dagsettu 20. júlí 2006, með þeim rökum að í fyrri ákvörðun tollstjóra um orlof stefnanda á meðan á lögreglurannsókn stæði fælist stjórnsýsluleg ákvörðun um að bíða skyldi með frekari aðgerðir gegn stefnanda þar til ljóst yrði hvort ávirðingar leiddu til ákæru á hendur honum eður ei enda mætti vænta niðurstöðu ríkissaksóknara innan skamms með hliðsjón af því að lögreglurannsókn hafi löngu verið talið lokið. Ítrekaði stefnandi jafnframt að ávirðingarnar í sinn garð væru rangar.
Með bréfi, dagsettu 31.ágúst 2006, veitti tollstjóri stefnanda lausn um stundarsakir frá og með 1. september 2006. Í lausnarbréfinu var vísað til handtöku hans og gruns um „misferli með ótollafgreidda vöru“ í vörumiðstöð Samskipa sem ástæðu fyrir lausninni. Máli stefnanda var í framhaldinu vísað til nefndar samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996. Nefndin staðfesti ákvörðun tollstjóra með hliðsjón af því að væru ávirðingar réttar teldist hann ekki lengur verður eða hæfur til að rækja starfann og myndi sæta sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga.
Hinn 16. janúar 2007 ritaði tollstjórinn í Reykjavík stefnanda bréf, þar sem honum var kynnt sú fyrirhugaða ákvörðun tollstjóra að víkja honum úr embætti tollvarðar að fullu. Af því tilefni leitaði stefnandi til Tollvarðafélags Íslands og óskaði eftir því að félagið gætti hagsmuna hans vegna þessa. Tollvarðafélagið sendi tollstjóra bréf, þar sem fyrirhugaðri frávikningu var mótmælt og bent á að hvorki nyti við játningar stefnanda um brot í starfi né ákæru á hendur stefnanda og því síður dóms um brot hans sem varðað gætu embættismissi.
Með bréfi, dagsettu hinn 14. febrúar 2007, tilkynnti tollstjóri stefnanda að honum væri vikið úr starfi að fullu frá og með þeim degi að telja.
Ákæra var gefin út á hendur stefnanda hinn 15. maí 2007, en með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 5. október 2007, var stefnandi sýknaður af ákærunni.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að honum hafi með ólögmætum hætti verið vikið úr embætti tollvarðar. Hann eigi því rétt til skaðabóta úr hendi stefnda með vísan til 32. gr. laga nr. 70/1996 og til miskabóta vegna röskunar á stöðu og högum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Um frávikningu um stundarsakir:
Stefnandi byggir á því, að í 26. gr. laga nr. 70/1996 séu þau tilvik talin sem varði lausn úr starfi um stundarsakir. Stefnandi byggir á því að skilyrði 3. mgr. 26 gr. laganna hafi ekki verið uppfyllt þegar honum var vikið úr stöðu um stundarsakir, þar sem grunur um refsiverðan verknað hans hafi ekki verið rökstuddur, hann hafi hvorki stuðst við játningu hans né önnur sönnunargögn sem leitt kynnu til áfellisdóms í refsimáli. Hafi einvörðungu verið stuðst við sögusagnir og óljósar fullyrðingar starfsmanna Samskipa ehf., sem staðnir hafi verið að töku áfengis sem farga skyldi úr vöruskemmu félagsins, um meinta hlutdeild stefnanda. Ljóst sé að slíkur áburður sé ekki fullnægjandi sönnun um refsiverða háttsemi og gegn neitun stefnanda og skorti á öðrum sönnunargögnum hafi verið óheimilt að víkja stefnanda úr starfi um stundarsakir.
Þá hafi ákvæði 2. mgr. 26 gr. ekki átt við enda ekki byggt á henni af hálfu tollstjóra þar engin sönnun hafi verið fyrirliggjandi um að stefnandi hefði brotið gegn 14. gr. laga nr. 70/1996, að vinnulag hans við umsjón á förgun áfengis hafi farið í bága við fyrirmæli yfirmanna hans um framkvæmd starfans og viðurkenndar starfsvenjur hjá tollstjóranum í Reykjavík sem tíðkaðar höfðu verið um árabil.
Að auki hafi tollstjóri áður tekið stjórnsýsluákvörðun um að veita stefnanda leyfi á launum þar til rannsókn lögreglu lyki og ákvörðun lægi fyrir um hvort hann yrði ákærður eður ei. Í þeirri ákvörðun hafi falist að láta niðurstöðu lögreglurannsóknarinnar ráða um hvort gripið yrði til brottvikningar úr embætti. Með því að veita stefnanda lausn um stundarsakir án þess að fyrir lægi um útgáfu ákæru á hendur stefnanda hafi tollstjóri brotið meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Um frávikningu að fullu:
Stefnandi byggir á því að hann hafi verið embættismaður í skilningi 22 gr. laga nr. 70/1996, sbr. 8. tölulið, og því notið þeirra réttinda sem embættismönnum séu veitt í lögunum, sbr. einkum V. kafli. Hafi hann því mátt treysta því að gegna stöðunni þar til hann hefði náð hámarksaldri. Því hafi verið óheimilt að víkja honum úr embætti nema því aðeins að tilgreind atvik í 25. gr. laga nr. 70/1996 ættu við um hann, sbr. og VI. kafla laganna.
Samkvæmt 29. gr. laga nr. 70/1996 sé heimilt að víkja embættismanni með lögmætum hætti úr starfi að fullu í þremur tilvikum. Í fyrsta lagi hafi hann verið sviptur með fullnaðardómi rétti til að gegna því embætti, í öðru lagi hafi hann játað á sig refsiverðan verknað og í þriðja lagi hafi nefnd samkvæmt 27. gr. talið rétt að víkja embættismanni um stundarsakir nema ávirðingar sem á hann hafi verið bornar hafi ekki reynst vera fyrir hendi. Verði að skilja síðastgreinda skilyrðið svo að það eigi við um aðra ámælisverða háttsemi en þá sem leiðir til refsidóms sem leidd hefur verið í ljós með óyggjandi hætti.
Stefnandi byggir á því að ekkert framangreindra skilyrða hafi verið uppfyllt við brottvikningu hans úr embætti. Hafi hvorki verið höfðað sakamál á hendur honum til refsingar og missis starfsréttinda né hafi hann játað á sig refsiverðan verknað eða, eftir atvikum, að hafa brotið gegn starfsskyldum sínum. Þá hafi engin gögn legið fyrir um það að þjófnaður starfsmanna Samskipa á áfengi hafi verið rakinn til brota á starfsskyldum stefnanda. Hafi nefnd samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996 einungis fjallað um hvort réttlætanlegt hefði verið að leysa stefnanda frá störfum um stundarsakir en ekki efnislega um það hvort sakir á hendur stefnanda væru réttar, sbr. þann fyrirvara sem nefndin hafi uppi í áliti sínu um hlutverk sitt. Af þeim sökum verði brottvikning að fullu ekki reist á áliti nefndarinnar enda ávirðingar þess eðlis að það hafi ekki átt undir nefndina að leysa úr, sbr. það að háttsemi stefnanda hafi verið til opinberrar rannsóknar hjá lögreglu.
Stefnandi bendir á að sérstök rannsókn hafi ekki farið fram, svo sem 27. gr. heimili, á því hvort vinnulag stefnanda við förgun áfengis hafi verið í ósamræmi við fyrirmæli yfirmanna hans þar um og þar með hvort ástæða hafi verið að víkja stefnanda að fullu úr starfinu vegna brots á 14. gr. s.l.
Stefnandi byggir á því að vinnulag hans hafi verið í samræmi við tíðkaðar venjur tollstjóraembættisins um förgun áfengis. Engin skrifleg fyrirmæli um tilhögun förgunar hafi verið til staðar. Hafi stefnandi framkvæmt förgun með þeim hætti sem viðhafður hafði verið af forverum hans, þ.e. beitt svokallaðri slembiaðferð enda ekki annar háttur mögulegur í ljósi þess að hann hafi, samkvæmt ákvörðun yfirmanns síns, aðeins notið fulltingis eins tollvarðar við framkvæmd förgunarinnar hverju sinni þrátt fyrir að um væri að ræða verulegt magn áfengis, í ýmsu ástandi, sem að auki hafi ekki verið í umsjá tollyfirvalda á milli talningarlota milli daga. Hafi því verið útilokað fyrir stefnanda að standa þannig að talningu að allt áfengismagn væri talið með óyggjandi hætti fyrir förgun. Hafi hann því þurft, eins og forverar hans, að reiða sig að hluta til á upplýsingar og aðstoð starfsmanna í vöruskemmu Samskipa, þar sem áfengið hafi verið geymt, um magn þess sem skyldi farga. Verði háttsemi starfsmanna Samskipa hf. því fráleitt rakin til þess að stefnandi hafi brotið gegn starfsskyldum sínum heldur einvörðungu til annarra atvika er séu stefnanda óviðkomandi. Með því að víkja stefnanda að fullu úr embætti við þessar aðstæður hafi tollstjóri brotið meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með hliðsjón af framangreindu skortir ákvörðun tollstjóra um að víkja stefnanda að fullu úr embætti tollvarðar viðhlítandi lagagrundvöll og sé þar af leiðandi ólögmæt. Beri stefnanda þar af leiðandi skaðabætur úr hendi stefnda.
Með því að stefnanda hafi verið vikið úr embætti tollvarðar á forsendum sem byggst hafi á ásökunum um ætlað refsivert atferli feli það í sér bótaskylda meingerð gagnvart stefnanda og eigi hann því rétt til miskabóta úr hendi stefnda af þeim sökum.
Stefnandi hefur sundurliðað kröfu sína með eftirgreindum hætti í stefnu:
Skaðabætur vegna lausnar um stundarsakir
|
mánaðarlaun 50% |
kr. 646.152 |
|
yfirvinna 20 t. |
kr. 258.460 |
|
orlof 13,04% |
kr. 117.961 |
|
Samtals |
kr. 1.022.573 |
Skaðabætur vegna brottvikningar að fullu:
Á grundvelli útreiknings tryggingastærðfræðings sé núvirt tekjutap vegna ólögmætrar brottvikningar að fullu með eftirgreindum hætti:
Höfuðstólsverðmæti tekjutaps
|
mánaðarlaun |
kr. 39.456.525 |
|
yfirvinna 20 t. |
kr. 9.259.304 |
|
Lífeyrisréttindi |
kr. 5.602.320 |
|
Samtals |
kr. 54.318.149 |
|
|
|
|
Miskabætur |
kr. 1.000.000 |
|
|
|
|
Stefnukrafa samtals |
kr. 56.340.722 |
Um lagarök vísar stefnandi til almennra skaðabótasjónarmiða í vinnurétti, 32. gr. laga nr. 70/1996 og 26. gr. laga nr. 50/1993.
Kröfu um vexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 6 gr. og 8. gr. laganna.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að stefnandi hafi verið ráðinn í stöðu tollvarðar hjá tollstjóranum í Reykjavík frá og með 1. janúar 1984. Sem tollvörður hafi stefnandi talist til embættismanna, sbr. 8. tl. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Af lögskýringargögnum megi sjá að nauðsynlegt hafi þótt að þeir starfsmenn ríkisins sem halda eigi uppi lögum og reglu í þjóðfélaginu og sinna eigi öryggisgæslu væru embættismenn. Í XXI. kafla tollalaga nr. 88/2005 sé fjallað sérstaklega um hlutverk tollgæslunnar. Þar komi m.a. fram að handhöfum tollgæsluvalds beri að rækja starfa sinn af kostgæfni og samviskusemi og ávallt að gæta fyllstu hlutlægni og réttsýni. Samkvæmt XXI. kafla tollalaga sé ljóst að embætti tollvarða sé ábyrgðarstarf.
Frumskylda sérhvers embættismanns sé að inna embættisstörfin, hver svo sem þau eru, sómasamlega af hendi. Í IV. kafla laga nr. 70/1996, sé fjallað um skyldur embættismanna og annarra starfsmanna er undir lögin heyri. Samkvæmt 14. gr. laganna sé starfsmanni skylt að rækja starf sitt af alúð og samviskusemi. Þar sé jafnframt kveðið á um leiðbeiningarskyldu starfsmanns og svokallaða vammleysisskyldu, þ.e. skyldu starfsmanns til að forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað geti rýrð á það starf eða starfsgrein sem hann vinni við. Skyldur ríkisstarfsmanna til að gæta að siðferði eða vammleysi sínu séu þannig misjafnar og mismiklar eftir því hvers konar starf viðkomandi hafi með höndum og í hvaða starfsgrein.
Stefndi kveður tollstjóra hafa veitt stefnanda leyfi á launum þar til embættið ákvæði annað en ekki þar til niðurstaða sakamáls lægi fyrir.
Stefndi byggir á því að fullnægt hafi verið skilyrðum 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 til þess að veita stefnanda lausn frá embætti um stundarsakir og hafi frávikning um stundarsakir verið lögmæt í alla staði.
Niðurstaða álitsgerðar nefndar samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996 í málinu nr. 2/2006 hafi verið sú að nefndin teldi að tollstjóranum í Reykjavík hafi verið rétt að veita stefnanda lausn frá störfum um stundarsakir hinn 31. ágúst 2006. Ákvörðun tollstjórans í Reykjavík, um að leysa stefnanda frá störfum um stundarsakir, hafi verið reist á 2. málslið 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996, þar sem stefnandi hafi verið grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
Nefndin hafi talið skilyrði fyrir því að stjórnvald beitti þessu ákvæði laganna tvíþætt. Annars vegar að grunur væri fyrir hendi og hins vegar að háttsemin væri þess eðlis að hún hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga.
Nefndin hafi vísað til þess að þegar tollstjórinn í Reykjavík hafi tekið ákvörðun sína hinn 31. ágúst 2006 hafi legið fyrir að lögreglan hefði frá því í nóvember 2005 rannsakað meinta aðild stefnanda að þjófnaði á áfengisbirgðum sem beðið hefðu förgunar og hafi málið verið sent til ríkissaksóknara. Í ljósi málsatvika hafi nefndin talið óumdeilt að grunur væri til staðar um þá háttsemi stefnanda að hafa tekið þátt í meintum þjófnaðarbrotum starfsmanna Samskipa hf. og þannig framið brot í opinberu starfi. Að þessu leyti hafi nefndin talið fyrra skilyrði 2. málsliðar 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 uppfyllt.
Nefndin hafi og byggt á því, að hinn ætlaði refsiverði verknaður væri slíkur, ef sök sannaðist, að starfsmaðurinn teldist ekki lengur verður eða hæfur til að rækja starfann. Hafi nefndin lagt mat á hvert væri eðli hins ætlaða brots. Þau brot sem stefnandi hafi verið grunaður um hafi verið brot í opinberu starfi samkvæmt XIV. kafla almennra hegningarlaga og þjófnaður. Hvað varði brot í opinberu starfi hafi nefndin talið 138. gr. 141. gr. koma sértaklega til álita. Hafi nefndin talið að þau brot sem stefnandi hafi verið grunaður um að hafa framið þegar ákvörðun hafi verið tekin um lausn hans og væru til ákærumeðferðar væru til þess fallin að veikja traust almennings á störfum stefnanda og tollgæslunni almennt, héldi stefnandi áfram störfum, á meðan ekki væri skorið úr um hvort ávirðingar væru réttar. Hafi nefndin tekið það fram að þar sem það lægi fyrir að þjófnaður á áfengi úr þeim birgðum sem stefnanda hefði verið falið að hafa umsjón með hefði verið stundaður um nokkurra ára skeið mætti ráða að stefnandi hefði brugðist því trausti sem fylgdi því ábyrgðarstarfi sem honum hefði verið falið af tollstjóranum í Reykjavík.
Nefndin hafi því talið að ekki væri hjá því komist að telja háttsemi stefnanda, ef sönn reyndist, leiða til þess að hann teldist ekki lengur verður eða hæfur til að rækja starfann og hefði hún þannig í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga.
Stefndi bendir á að framkvæmd starfa stefnanda hafi ekki verið í samræmi við viðurkenndar starfsvenjur hjá tollstjóranum í Reykjavík. Til dæmis hafi framkvæmd með slembiúrtakstalningu og staðfestingu nákvæms magns til förgunar, án athugasemda um að slembiúrtak hefði verið viðhaft, ekki verið í samræmi við viðurkenndar starfsvenjur góðs og gegns tollvarðar.
Stefndi mótmælir því að ekki hafi verið gætt meðalhófs við meðferð málsins samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1996, þegar stefnanda var veitt lausn frá störfum um stundarsakir. Fylgt hafi verið ákvæðum VI. kafla laga nr. 70/1996, við meðferð málsins, og hafi sú meðferð verið staðfest í áliti nefndarinnar frá 15. desember 2006. Stefnanda hafi verið veitt leyfi á launum í upphafi rannsóknar málsins, enda hafi verið vonast til að rannsókn þess tæki skamman tíma. Þegar í ljós hafi komið að rannsóknin dróst á langinn hafi tollstjórinn í Reykjavík óskað eftir því við lögreglustjórann í Reykjavík hinn 20. júní 2006, að hann upplýsti um stöðu rannsóknarinnar og jafnframt hafi verið óskað eftir afriti af lögregluskýrslum sem málið varðaði svo unnt væri að leggja þær fram sem gögn í máli hjá nefnd samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996. Í svari lögreglustjórans hafi komið fram að hann hefði sent málið til embættis ríkissaksóknara. Í ljósi svars lögreglustjórans í Reykjavík hafi tollstjórinn í Reykjavík sent stefnanda bréf, dagsett 10. júlí 2006, þar sem honum hafi verið tilkynnt um fyrirhugaða lausn frá embætti um stundarsakir og stefnanda gefinn kostur á að tjá sig um málið. Með bréfi tollstjórans í Reykjavík, dagsettu 31. ágúst 2006 til stefnanda, hafi honum síðan verið tilkynnt um lausn frá embætti um stundarsakir samkvæmt 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996.
Samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996, hafi tollstjóranum í Reykjavík borið að senda málið til nefndar samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996, og því ekki rétt það sem fram komi í stefnu, að ákvörðun tollstjóra, um að vísa ákvörðun sinni um lausn stefnanda um stundarsakir til nefndar samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996, hafi verið að ófyrirsynju.
Stefnandi hafi sem tollvörður við tollgæsluna í Reykjavík verið embættismaður, sbr. 8. tl. 22. gr. laga nr. 70/1996. Í 23. gr. sömu laga komi fram að embættismenn skuli skipaðir tímabundið til fimm ára í senn nema annað sé tekið fram í lögum. Samkvæmt 6. tl. 25. gr. laga nr. 70/1996 komi fram að þegar maður sé skipaður eða settur í embætti beri að líta svo á að hann skuli gegna því þar til skipunartími hans samkvæmt 23. gr. sé runninn út, nema ákvæði 2. mgr. eigi við. Stefnandi hafi verið skipaður tollvörður fyrir gildistöku núgildandi laga nr. 70/1996 og hafi samkvæmt því átt rétt til að gegna embætti þar til hann næði hámarksaldri starfsmanna ríkisins, sbr. 5. tl. 25. gr. laga nr. 70/1996 og 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í sömu lögum. Í 1. tölulið 25. gr. laga nr. 70/1996 komi fram að þegar maður sé skipaður eða settur í embætti beri að líta svo á að hann skuli gegna því þar til hann brjóti af sér í starfinu svo honum beri að víkja úr því. Eins og orðalag greinarinnar gefi til kynna sé hér átt við brot starfsmanns á starfsskyldum sínum. Þar sem stefnandi hafi gegnt ábyrgðarstarfi þar sem ríkar kröfur séu gerðar um vandvirkni og vammleysi, og í ljósi álits nefndar samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996 um að rétt hafi verið að veita stefnanda lausn úr starfi um stundarsakir, hafi tollstjórinn í Reykjavík tekið það til skoðunar hvort rétt væri að víkja stefnanda að fullu úr starfi. Tollstjórinn í Reykjavík hafi talið m.a. að sá grunur sem fallið hefði á stefnanda, um að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi sem ætla mætti að hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga, væri svo alvarlegur að stefnandi teldist ekki verður til að rækja starf sitt áfram. Fyrir hafi legið að stefnandi hafði verið handtekinn ásamt fjórum öðrum starfsmönnum Samskipa hf. Þeir hafi allir borið um aðild stefnanda að brotastarfseminni og tveir þeirra hafi jafnframt borið um að hafa séð stefnanda taka áfengi. Þá hafi einnig legið fyrir að eftir að rannsókn lauk hafi lögreglan í Reykjavík sent málið til ríkissaksóknara. Ríkissaksóknari hafi síðan falið lögreglustjóranum í Reykjavík málið til meðferðar að nýju, og embætti lögreglustjórans í Reykjavík lýst því yfir að málinu yrði vísað innan skamms til Héraðsdóms Reykjavíkur með útgáfu ákæru.
Í bréfi tollstjórans í Reykjavík, þar sem stefnanda hafi verið kynnt fyrirhuguð lausn frá embætti að fullu, með vísan til 2. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996, dagsettu 16. janúar 2007, komi m.a. fram, að fyrir lægi í málinu að þjófnaður hefði verið stundaður um árabil á áfengi úr vörubirgðum sem ráðstafað hefði verið til förgunar í vörugeymslum Samskipa hf. með vísan til framburðar annarra sakborninga í málinu. Þjófnaður þessi hefði staðið yfir á þeim tíma sem stefnanda hafi verið treyst af tollstjóra fyrir umsjón og eftirliti með förgun, eða í allt að fjögur ár. Tekið hafi verið sérstaklega fram að hafa yrði í huga að tollvörður væri embættismaður sem starfaði í þjónustu ríkisins og honum bæri að haga störfum sínum í samræmi við það. Í því fælist fyrst og fremst að hann skyldi virða lög og stjórnarskrá og hafa grunnreglur lýðræðis og mannréttinda í heiðri. Hann skyldi enn fremur leggja sig fram um að sinna starfi sínu af alúð, trúmennsku, heiðarleika og ábyrgð. Hafi það verið mat tollstjóra að stefnandi hefði gróflega brugðist starfsskyldum sínum ásamt því trausti sem starfanum fylgdi og skipti í því sambandi engu máli hver niðurstaðan kynni að verða í væntanlegu refsimáli. Með þetta í huga hafi tollstjóri talið ljóst að hann gæti ekki með nokkru móti treyst stefnanda til áframhaldandi starfa sem tollverði, þar sem tollverðir færu með lögregluvald og það yrði að vera hafið yfir allan vafa að slíkir starfsmenn væru ekki þátttakendur í lögbrotum eða misfæru með vald sitt.
Það hafi verið mat tollstjórans í Reykjavík að stefnandi hefði með háttsemi sinni í starfi brugðist því trausti sem honum hefði verið sýnt sem umsjónarmanni tollstjóraembættisins með förgun áfengisbirgða. Með því hafi hann brotið gegn starfsskyldum sínum, sbr. 14. gr. laga nr. 70/1996, og háttsemi hans verið honum til vanvirðu og álitshnekkis og varpað rýrð á starf hans og embættisins.
Stefndi byggir á því, að skilyrðum 29. gr. laga nr. 70/1996 hafi verið fullnægt til að heimilt væri að víkja stefnanda að fullu úr starfi. Stefndi eigi sem vinnuveitandi sjálfstætt mat á því hvort embættismaður hafi brotið starfsskyldur sínar eða ekki og hvort brot varði lausn frá embætti og sé matið hluti af ráðningar- og uppsagnarvaldi vinnuveitanda.
Stefndi bendi á að svo umfangsmikill þjófnaður úr áfengisbirgðum sem ráðstafað hafi verið til förgunar og stundaður hafi verið um árabil á meðan stefnanda hafi verið trúað fyrir eftirliti með förguninni hefði ekki getað átt sér stað ef stefnandi hefði sinnt starfsskyldum sínum sem góður og gegn tollvörður. Nefnd samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996 hafi komist að sömu niðurstöðu.
Ekki sé hægt annað en að álykta að fyrir liggi að stefnandi hafi brotið gegn starfsskyldum sínum. Framkvæmd eftirlits hans, eins og því er lýst í stefnu, hafi hann ekki borið undir yfirmenn sína enda hefðu vinnubrögð hans aldrei verið samþykkt af þeirra hálfu.
Ákvörðun um frávikningu að fullu hafi verið tekin af embætti tollstjóra að fenginni niðurstöðu nefndar samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996. Frávikningin sé byggð á fyrirliggjandi gögnum og mati embættis tollstjóra á málavöxtum öllum. Á því er byggt að frávikningin hafi verið tekin þar sem embætti tollstjóra hafi talið stefnanda hafa gerst sekan um refsivert brot í opinberu starfi sem jafnframt hafi falið í sér brot á starfsskyldum hans samkvæmt starfsmannalögum.
Vinnulag stefnanda hafi ekki verið í samræmi við tíðkaðar venjur tollstjóraembættisins um förgun áfengis. Fyrirmæli yfirmanna stefnanda hafi m.a. lotið að því að aldrei skyldu færri en tveir starfsmenn vera viðstaddir förgun og að þeir skyldu tryggja að öllu því magni sem farga átti yrði fargað. Það að umfangsmikill þjófnaður hafi verið stundaður úr förgunarbirgðum á löngu tímabili án athugasemda af hálfu stefnanda, sem ábyrgð hafi borið á eftirlitinu, geti ekki verið skýrður með öðrum hætti en að hann hafi brugðist starfsskyldum sínum sem lotið hafi að því að tryggja að öllu því magni sem hafi átt að farga yrði fargað. Það að staðfesta förgun á áfengi sem aldrei hafði verið fargað sé alvarlegt brot á starfsskyldum tollvarðar. Vinnulag stefnanda hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli yfirmanns hans, m.a. þess efnis að tryggt skyldi að öllu því magni af áfengi sem farga átti yrði fargað.
Stefndi telur það fráleitt að slembiaðferð hafi verið viðurkennd eða nægjanleg í þessu sambandi. Stefnandi hafi getað óskað eftir aðstoð fleiri tollvarða. Hann hafi getað tekið þann tíma í eftirlit sem nauðsynlegt var. Hafnar stefndi þeirri skýringu stefnanda um að útilokað hafi verið fyrir stefnanda að standa þannig að talningu að allt áfengismagn væri talið með óyggjandi hætti fyrir förgun.
Stefndi mótmælir því að sá háttur, sem stefnandi viðhafði við framkvæmd förgunar, hafi verið viðhafður af forverum hans og skýringum stefnanda varðandi vinnulag er hafnað að öllu leyti.
Stefndi mótmælir öllum tölulegum kröfum stefnanda sem ósönnuðum og án nokkurra þekktra fordæma. Eigi það við um kröfugerð stefnanda í heild sinni og forsendur fyrir útreikningi. Útreikningum á meintu tjóni stefnanda er mótmælt að öllu leyti. Ekki séu skilyrði til þess að dæma bætur í málinu, hvorki skaðabætur né miskabætur.
Taki dómurinn kröfu stefnanda að einhverju leyti til greina er á því byggt að eigin sök stefnanda komi í veg fyrir að stefnanda verði dæmdar bætur.
Stefndi byggir á því að ekki sé fullnægt skilyrðum skaðabótaréttar fyrir bótakröfu stefnanda samkvæmt almennum reglum, skaðabótalögum eða öðrum bótareglum. Stefndi telur ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni.
Stefndi byggir varakröfu sína á því að stefnanda verði, vegna eigin sakar og háttsemi sinnar í starfi, gert að bera að mestu leyti tjón sitt sjálfur. Stefndi mótmælir því að stefnandi eigi rétt til skaðabóta vegna lausnar frá starfi um stundarsakir, en engin skilyrði séu til þess að mati stefnda. Bótakrafa vegna þessa þáttar sé auk þess verulega vanreifuð og viðmiðunargrundvöllur hennar of hár. Mótmælir stefndi því sérstaklega að tekið sé mið af yfirvinnu í slíkum útreikningi.
Stefndi telur skaðabótakröfu stefnanda vera allt of háa. Samkvæmt forsendum skaðabótakröfu sé gert ráð fyrir því, að stefnandi muni ekki stunda neina vinnu það sem eftir sé af starfsferli hans. Slíkt sé fráleitt að mati stefnda. Bótakrafan miðist við alltof langt tímabil. Stefnandi sé fæddur árið 1964 og ætti aldur hans við starfslok ekki að verða honum fjötur um fót við atvinnuleit. Þá sé ósannað að atvinnumöguleikar stefnanda séu skertir. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ágæta atvinnumöguleika.
Stefndi mótmælir og sérstaklega viðmiðunargrundvelli launa sem of háum og að hann nái yfir allt of langt tímabil. Ekki eigi að taka tillit til yfirvinnu og lífeyrisréttinda við útreikning bótakröfu.
Stefnanda beri að takmarka tjón sitt. Stefnanda beri að upplýsa um allar tekjur sem hann hafi haft og muni hafa, en slíkar greiðslur eigi að koma til frádráttar bótakröfu stefnanda. Hafi stefnandi þegið atvinnuleysisbætur sé þess krafist að þær komi til frádráttar bótakröfu hans.
Stefndi telur að ekki séu skilyrði samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1993 til að dæma miskabætur, en miskabótakrafa stefnanda sé einnig alltof há.
Stefndi mótmælir sérstaklega upphafsdegi vaxtakröfu. Ekki sé að sjá að stefnandi hafi lagt fram bótakröfu fyrr en með stefnu í máli þessu. Einnig er mótmælt upphafsdegi dráttarvaxtakröfu, en samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 geti stefnandi ekki gert kröfu um dráttarvexti fyrr en mánuði eftir að hann veitti upplýsingar um bótakröfu, þ.e. með stefnu í málinu.
Stefndi mótmælir og sérstaklega tilvísun í 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en ekki komi fram í stefnu hvers vegna sé vísað í það ákvæði.
Um lagarök vísar stefnandi og til tollalaga nr. 55/1987, sbr. nú tollalög nr. 88/2005 og reglugerða sem settar hafa verið með stoð í þeim lögum.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Stefnandi höfðar mál þetta til heimtu bóta fyrir stöðumissi.
Stefnandi var tollvörður hjá tollstjóranum í Reykjavík. Var hann ráðinn til starfa í janúar 1984. Í október 2001 var stefnanda falið að hafa yfirumsjón af hálfu tollstjóraembættisins með förgun birgða. Vegna þessa starfs var hann tengiliður tollstjóraembættisins við flutningafyrirtækið Samskip um það sem varðaði förgun áfengisbirgða og annarrar tjónavöru úr skipum. Aðdragandi uppsagnarinnar var sá, að í nóvember 2005 tilkynnti tollstjóri lögreglunni í Reykjavík, að stefnandi, ásamt nokkrum tilgreindum starfsmönnum Samskipa væri grunaður um þjófnað á áfengi sem ætti að eyða. Hinn 25. nóvember var stefnandi handtekinn og við leit á heimili hans fannst 31 áfengisflaska. Einnig voru fyrrgreindir starfsmenn Samskipa handteknir. Í skýrslum sem teknar voru af sakborningum, starfsmönnum Samskipa, kom fram að stefnandi hefði tekið þátt í brotastarfseminni og lýstu þeir þar nánar aðkomu hans að þjófnaðinum. Jafnframt kom fram að tíðkast hefði frá árinu 2001 að taka áfengi úr förgunarbirgðum. Stefnandi neitaði ætíð öllum sakargiftum.
Tollstjórinn í Reykjavík veitti stefnanda lausn frá störfum um stundarsakir 1. september 2006 með vísun til 2. málsliðar 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og 25. september sama ár var málið fengið nefnd samkvæmt 27. gr. þeirra laga til meðferðar. Álitsgerð nefndarinnar, dagsett 15. desember 2006. Var niðurstaða hennar sú að stefnanda hefði verið réttilega vikið úr starfi um stundarsakir, þar sem skilyrði fyrrgreindrar lagagreinar um að stefnandi væri grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga, hefðu verið uppfyllt. Stefnanda var síðan vikið úr starfi að fullu og öllu frá 14. febrúar 2007 með bréfi Tollstjórans í Reykjavík, dagsettu sama dag. Honum hafði áður verið gefinn kostur á andmælum og hélt hann þá fram sakleysi sínu af þeim ávirðingum sem á hann höfðu verið bornar.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2007 var stefnandi sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Var þeim dómi ekki áfrýjað. Sagði dómurinn að ákærði, stefnandi máls þessa, hefði ætíð neitað sök um að hafa veitt samþykki sitt eða látið hjá líða að gera athugasemdir vegna töku meðákærðu, tilgreindum starfsmönnum Samskipa, á bretti með áfengi. Einungis einn meðákærðu hafi sagt fyrir dómi að hann hefði haft bein samskipti við stefnanda vegna töku brettisins og talið sig hafa fengið einhvers konar leyfi hjá honum, án þess að muna hvernig það hefði verið veitt. Önnur meðákærðu hefðu sjálf ekki orðið vitni að því að stefnandi hefði misnotað aðstöðu sína. Þá var ekki talið að símhringingar stefnanda í gsm- síma eins meðákærða daginn fyrir og sama dag og brettið hefði verið tekið sannaði hlutdeild stefnanda í þjófnaði þessara starfsmanna Samskipa. Var stefnandi því sýknaður, þar sem ekki var talin komin fram sönnun sem ekki yrði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 46. gr. laga nr. 19/1991.
Stefnandi var embættismaður samkvæmt 8. tl. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Um lausn hans frá embætti fór því að VI. kafla þeirra laga. Hann var grunaður um háttsemi sem gat haft í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 6. gr. laga nr. 31/1961. Mátti því víkja honum úr embætti um stundarsakir samkvæmt niðurlagi 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga. Mál hans var til rannsóknar að hætti opinberra mála og var því samkvæmt 1. mgr. 27. gr. sömu laga ekki þörf á að vísa því til nefndar sérfróðra manna, svo sem gert var. Gat sú meðferð máls hans ekki leitt til sjálfstæðrar niðurstöðu nema lausn um stundarsakir væri jafnframt byggð á öðrum ástæðum en fram koma í niðurlagi 3. mgr. 26. gr. laganna.
Í bréfi Tollstjórans í Reykjavík, þar sem stefnanda var tilkynnt að fyrirhugað væri að víkja honum frá störfum að fullu og honum veittur frestur til að gera við það athugasemdir, er vísað til 2. mgr. 29. gr. starfsmannalaganna um heimild til lausnar að fullu og til þess vitnað að nefnd samkvæmt 27. gr. laganna hafi komist að þeirri niðurstöðu að stefnanda hefði verið réttilega veitt lausn um stundarsakir. Þá segir þar að fyrir liggi að þjófnaður hafi verið stundaður um árabil á áfengi úr vörubirgðum sem ráðstafað hafi verið til förgunar í vörugeymslum Samskipa. Magn haldlagðs áfengis á heimilum sakborninga í málinu styðji framburð þeirra hvað þetta varði. Þjófnaðurinn hafi staðið yfir á þeim tíma sem stefnanda hafi verið treyst af hálfu embættisins fyrir umsjón og eftirliti með förgunum eða í allt að fjögur ár. Í þessu sambandi verði að hafa í huga að tollvörður sé embættismaður sem starfi í þjónustu ríkisins og beri honum að haga störfum sínum í samræmi við það. Í því felist fyrst og fremst að hann skuli virða lög og stjórnarskrá og hafa grunnreglur lýðræðisins og mannréttinda í heiðri. Hann skuli enn fremur leggja sig fram um að sinna starfi sínu af alúð, trúmennsku, heiðarleika og ábyrgð. Með vísan til þess og fyrirliggjandi gagna í málinu sé það mat embættisins að stefnandi hafi gróflega brugðist starfsskyldum sínum ásamt því trausti sem starfanum fylgi og skipti þá engu hver niðurstaða refsimálsins verði. Tollverðir fari með lögregluvald og verði að vera hafið yfir allan vafa að slíkir starfsmenn séu þátttakendur í lögbrotum eða misfari með vald sitt. Var það því mat Tollstjóra að skilyrði 2. mgr. 29. gr. starfsmannalaganna væri uppfyllt. Á þessum tíma hafði ekki verið ákært í málinu eða dómur gengið. Hafði því ekki verið gengið úr skugga um að ávirðingar þær, sem á stefnanda voru bornar, ættu við rök að styðjast, sbr. 2. mgr. 29. gr. starfsmannalaga. Ávirðingar þær, sem hann var grunaður um, en sá grunur réttlætti frávikningu hans um stundarsakir án áminningar samkvæmt 4. mgr. 26. gr. sömu laga, hafa ekki sannast. Hefur stefndi þannig ekki getað sýnt fram á að lagaskilyrði hafi verið til þess að víkja stefnanda að fullu úr embætti. Tók Tollstjóri, eins og með þetta mál var farið, áhættu með því að stefnandi fékk ekki haldið stöðunni meðan gengið var úr skugga um ávirðingar hans. Ber því að bæta honum embættismissinn og fer um það samkvæmt 2. mgr. 32. gr. sömu laga.
Stefnandi er fæddur 1964. Hann naut helmings af föstum launum sínum meðan á lausn um stundarsakir stóð, sbr. 1. mgr. 28. gr. starfsmannalaga, og hefði átt rétt á að fá hinn helminginn hefði hann hlotið stöðu sína á ný, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Hann var ráðinn í starf tollvarðar í janúar 1984. Samkvæmt 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis starfsmannalaga, sbr. 25. gr. sömu laga, mátti hann að öllu óbreyttu búast við því að halda embætti sínu þar til hann næði hámarksaldri. Ber að taka tillit til þess þegar fjártjón hans er metið.
Stefnandi fékk tryggingarstærðfræðing til þess að reikna út tekjutap sitt fram til ætlaðra starfsloka. Er stefnukrafan rúmar 50.000.000 króna í samræmi við þann útreikning, eins greint hefur verið frá hér að framan.
Stöðumissir stefnanda var til þess fallinn að sverta æru hans og gera honum erfitt fyrir um stöðuval og verður að líta til þess við ákvörðun bóta, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Á móti kemur hins vegar að í upphafi mátti ætla, eins og málið blasti við stjórnvöldum, að stefnandi væri að einhverju leyti flæktur í mál starfsmanna Samskipa og verklag hans við undirbúning að förgun og eyðingu birgða, sem hann hafði yfirumsjón með, var ekki vandaður og að sögn deildarstjóra Tollstjóra, hvorki í samræmi við reglur þar að lútandi, en þær reglur liggja ekki frammi í málinu, né tíðkanlegt verklag hjá embættinu. Þá eiga að dragast frá bótum hans þær tekjur sem ætla má að hann hefði unnið sér inn frá því að honum var vikið frá störfum.
Samkvæmt framansögðu ber stefnda að greiða stefnanda fjárhags- og miskabætur vegna embættismissis. Heildarbætur þessar þykja hæfilega ákveðnar að álitum með öll framangreind sjónarmið í huga 3.000.000 króna með dráttarvöxtum frá þeim degi er mánuður var liðinn frá birtingu stefnu.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Ólafi Þorgeirssyni, 3.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. júlí 2007 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.