Hæstiréttur íslands
Mál nr. 412/1999
Lykilorð
- Vátrygging
- Sjómaður
- Skaðabótamál
|
|
Fimmtudaginn 17. febrúar 2000. |
|
Nr. 412/1999. |
Einar Einarsson(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.) gegn Landssambandi smábátaeiganda (Erlendur Gíslason hrl.) |
Vátrygging. Sjómenn. Skaðabótamál.
Útgerðarmaðurinn E slasaðist í bílslysi. Taldi hann að Landssambandi smábátaeigenda (L) hefði borið að sjá til þess að hann væri slysatryggður samkvæmt samningi sem L hafði gert við tryggingarfélagið T. Samkvæmt ákvæðum siglingalaga, sem vísað var til í samningi L og T, hvíldi skylda til að kaupa tryggingu á útgerðarmanni. Í samningnum var ekki kveðið á um skyldu L til þess að annast um að félagsmenn væru slysatryggðir og lög kváðu ekki á um slíka skyldu. Ekki var heldur sýnt fram á að L hefði sérstaklega tekið að sér að tryggja E samkvæmt samningnum en ekki varð séð að félagið hefði getað bundið útgerðarmenn við samninginn án atbeina þeirra. Var því sýknað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 6. október 1999. Hann krefst þess að stefndi greiði 4.198.994 krónur með ársvöxtum samkvæmt 7. gr., sbr. 8. gr., vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. júlí 1993 til 10. september 1998, en með dráttarvöxtum samkvæmt 15. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist að málskostnaður falli niður. Áfrýjandi hafði gjafsókn í héraði og hefur einnig gjafsókn fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að fjárkrafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt ljósrit úr handbók Landssambands smábátaeigenda 1992 1993.
I.
Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Kemur þar fram að áfrýjandi slasaðist 22. júlí 1992 þegar hann missti stjórn á bifreið sinni. Hann var þá á leið til skips frá Reykjavík til Patreksfjarðar. Hefur honum verið metin 65% varanleg örorka af völdum slyssins. Sækir hann stefnda um bætur vegna þess, þar sem hann telur að trygging hans samkvæmt samningi stefnda og Tryggingamiðstöðvarinnar hf. frá 31. janúar 1992 um slysa- og líftryggingar hafi fallið niður vegna saknæmra mistaka stefnda. Heldur áfrýjandi því fram að stefndi hafi tekið að sér að tryggja hann og greiða iðgjald tryggingarinnar af fjármunum sem stefndi hafði fengið vegna áfrýjanda af svonefndum greiðslumiðlunarreikningi samkvæmt 6. gr. og 8. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Fyrir Hæstarétti vitnar hann, auk þess er greinir í héraðsdómi, sérstaklega til handbókar stefnda en þar segir um þessa tryggingu: „Eins og á síðasta ári geta félagsmenn tryggt sig og skipverja sína gegnum L.S. Endurnýjaður hefur verið samningur við Tryggingamiðstöðina hf. sams konar og gilti á síðasta ári. Hann kveður á um að allir þeir sem greiða í gegnum „greislumiðlunarkerfið“ á þessu ári verði sjálfkrafa slysatryggðir á því tímabili sem róðrar fara fram. Þess ber þó að geta að samningurinn nær einungis til þeirra sem eru óslysatryggðir. Það er því ekki um tvítryggingu að ræða.“
Stefndi heldur því hins vegar fram að samkvæmt samningnum og skilmálum tryggingarinnar hafi skyldan til að halda tryggingunni við hvílt á áfrýjanda sjálfum enda hafi þar verið vitnað til 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985, sem skyldar útgerðarmann til að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum. Fullyrðir stefndi að hvorki samkvæmt lögum né samningnum hafi hvílt skylda á sér til þess að tryggja áfrýjanda án frumkvæðis hans.
II.
Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að stefndi hafi tekið að sér gagnvart honum sérstaklega að tryggja hann samkvæmt samningnum. Væri hann hins vegar tryggður átti stefndi að greiða iðgjaldið. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefndi hafi greitt iðgjald án þess að útgerðarmenn óskuðu eftir tryggingunni. Verður heldur ekki séð að félagið hafi getað bundið útgerðarmenn við samninginn án atbeina þeirra. Verður að skoða tilvitnuð orð handbókarinnar í þessu ljósi. Með þessari athugasemd en annars með skírskotun til raka héraðsdóms ber að staðfesta hann.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af áfrýjun málsins. Gjafsóknarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður málsins fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns áfrýjanda, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 28. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Einari Einarssyni, kt. 280455-4589, Hjaltastöðum, Hjaltastaðahreppi, gegn Landssambandi smábátaeigenda, kt. 650985-0959, Klapparstíg 27, Reykjavík, með stefnu birtri 27. júlí 1998.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur að upphæð 4.198.994 kr. með vöxtum skv. 7. gr., sbr. 8. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30 júlí 1993 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum skv. 15. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda auk virðisaukaskatts samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnandi fékk gjafsóknarleyfi með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins dags. 8. júní 1998. Stefnandi krefst þess að dráttarvextir leggist við málskostnaðinn á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 15 dögum eftir dómsuppsögudag.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi og að við ákvörðun hans verði tekið tillit til skyldu stefnda til að greiða virðisaukaskatt á málflutningsþóknun.
I
Málavextir
Stefnandi málsins var sjómaður á trillu og gerði út bátinn Sif HF 247 frá Patreksfirði. Þann 22. júlí 1992 slasaðist stefnandi alvarlega í umferðarslysi er hann missti stjórn á bifreið sinni JY 650 með þeim afleiðingum að hún lenti utan vegar. Áverkar hans voru upphaflega taldir vera slit á hliðarliðböndum utarlega á vinstri þumalfingri og tognun á mjóbaki. Síðar kom í ljós skrið á neðsta mjóhryggjarlið sem leiddi síðar til þess að framkvæmd var spengingaraðgerð þar sem spengdir voru tveir neðstu hryggjarliðir í mjóbaki. Ragnar Jónsson læknir, sem framkvæmdi spengingaraðgerðina, taldi stefnanda ekki færan um að vinna sína fyrri vinnu sem sjómaður þó svo að aðagerðin myndi takast og gróa vel. Björn Önundarson læknir mat læknisfræðilega slysaörorku stefnanda þann 15. september 1993 varanlega 65% og það sama gerðu læknarnir Jónas Hallgrímsson og Grétar Guðmundsson 18. febrúar 1993.
Tildrög þessa máls eru þau að þann 31. janúar 1992 gerði stefndi í þessu máli samning við Tryggingamiðstöðina hf. (TM), sem fól í sér að TM tók að sér að slysa- og líftryggja áhafnir á smábátum allt að 9,99 brúttórúmlestum sem stunduðu fiskveiðar í atvinnuskyni. Trygging samkvæmt þessum samningi skyldi ná til þeirra sem legðu upp hjá framleiðendum sjávarafurða og öðrum fiskkaupendum, er greiddu inn á greiðslumiðlunarreikning smábáta, sbr. 6. og 8. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Trygging þessi tók til þeirra sem voru ekki slysatryggðir hjá öðru vátryggingafélagi.
Samkvæmt ákvæðum laganna var fiskkaupanda skylt að halda eftir 10% af hráefnisverði hvers skips við uppgjör og leggja það inn á reikning hjá Stofnfjársjóði fiskiskipa. Hluti greiðslunnar, eða 47%, voru greiddar inn á tryggingareikning hjá stefnda, þannig að hver smábátur eignaðist með þessu sérreikning hjá stefnda. Stefndi greiddi síðan iðgjaldskröfur tryggingafélaganna fyrir þá félagsmenn sem ekki voru tryggðir annars staðar, annars vegar vegna húftryggingar og hins vegar vegna slysatryggingar. Slysatryggingin átti hins vegar alltaf að vera greidd á undan húftryggingu. Hins vegar gátu félagsmenn óskað eftir að fá inneign á reikningi þeirra hjá stefnda greidda, þótt þeir hefðu ekki keypt slysatryggingu annars staðar enda var um þeirra eign að ræða.
Stefnandi fór í dómsmál við TM til greiðslu skaðabóta vegna slyssins á grundvelli fyrrgreinds samnings en félagið sýknað á þeirri forsendu að stefnandi hafi ekki verið slysatryggður hjá TM þegar slysið varð. Þegar stefnandi slasaðist hafði hann ekki keypt sér frjálsa slysatryggingu og var þ.a.l. ekki tryggður þegar slysið bar að höndum. Þann 10. ágúst 1992, eftir slysið, þegar stefnandi kom á skrifstofu stefnda, óskaði hann eftir því að fá slysatryggingu sem gilda skyldi til áramóta það ár. Tryggingunni sagði stefnandi fljótlega upp en iðgjald vegna hennar var greitt þann 25. september s.á. Haldið var eftir 5.000 kr. inn á reikningi stefnanda og var þeim ráðstafað til greiðslu húftryggingar vegna báts stefnanda.
Stefnandi gerði kröfur á hendur stefnda þessa máls með bréfi, dags. 25. nóvember 1997, þar sem óskað var afstöðu til bótaskyldu stefnda. Því bréfi var hins vegar ekki svarað og hefur stefnandi því höfðað mál þetta á hendur stefnda til greiðslu skaðabóta vegna slyssins.
II
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir á því að þær lögbundnu greiðslur af skiptaverðmæti þess afla sem hann lagði upp hjá framleiðendum sjávarafurða hafi verið greiddar inn á reikning hjá stefnda til að standa skil á iðgjaldagreiðslum samkvæmt samningi stefnda við TM. Jafnframt telur stefnandi að stefndi hafi tekið að sér að ganga frá tryggingamálum fyrir stefnanda þar sem hann hefði ekki tryggt sig sjálfur með öðrum hætti.
Stefnandi telur að ákvæði 8. gr. laga nr. 24/1986 séu fortakslaus og að stefnda hafi, sem vörslumanni fjármunanna, borið að sjá til þess að uppsöfnuðu fé væri ráðstafað til greiðslu iðgjalda af lögboðinni slysa- og örorkutryggingu. Það hafi farist fyrir hjá starfsmönnum stefnda og á þeirri handvömm starfsmanna stefnda, að stefnandi hafi hvorki verið slysa- né örorkutryggður þegar hann lenti í umferðarslysi á leið til skips þann 22. júlí 1992, skuli stefndi bera ábyrgð.
Telur stefnandi að þegar hann hafi keypt frjálsa tryggingu þann 10. ágúst 1992, eftir slysið, hafi starfsmenn stefnda vitað eða mátt vita að tryggingin tæki ekki til liðins tíma, enda hafi tryggingin verið keypt fyrir milligöngu stefnda og greitt fyrir hana af tryggingareikningi stefnanda hjá stefnda. Starfsmönnum stefnda hafi borið að ganga úr skugga um hvort stefnandi hafi verið slysatryggður áður en hann keypti trygginguna og stefnda hafi borið að nota þá fjármuni sem safnast hefðu inn á tryggingareikning stefnanda til greiðslu iðgjalda af slysa- og örorkutryggingu í samræmi við 8. gr. laga nr. 24/1986 a.m.k. til þess tíma er hin frjálsa slysatrygging tók gildi. Það væri tilgangur nefndra laga að tryggja að bátasjómenn væru ávallt slysatryggðir og að sú trygging rofnaði ekki. Fyrir mistök hafi nefndri fjárhæð, sem fara hafi átt til greiðslu slysatryggingar, verið ráðstafað til greiðslu skuldar vegna húftryggingar báts stefnanda. Á þessu beri stefndi ábyrgð.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi tekið að sér að gæta velferðar smábátasjómanna í tryggingamálum í samræmi við lög nr. 24/1986 og stefndi hafi því það hlutverk að uppfylla ákvæði laganna um slysatryggingu bátasjómanna. Sú handvömm sem hafi orðið hjá stefnda leiði til skaðabótaábyrgðar hans. Starfsmenn stefnda hafi hvorki átt né mátt, undir neinum kringumstæðum, ráðstafa fjárhæðum tryggingareiknings stefnanda með öðrum hætti en kveðið væri á um í lögunum eða láta hjá líða að greiða iðgjöld slysatryggingar sjómanna. Það hafi hins vegar verið gert og beri stefndi skaðabótaábyrgð á því á grundvelli húsbóndaábyrgðar.
Bótakrafan á hendur stefnda er byggð á þeim bótagreiðslum sem stefnandi varð af vegna þess að stefndi hafi ekki greitt iðgjöld vegna slysa- og örorkutryggingar stefnanda samkvæmt samningi við TM. Krafan sundurliðast því eins og segir í samningi stefnda og TM frá 31. janúar 1992.
|
Dagpeningar í 357 daga * 654,60 |
kr. |
238.274,00 |
|
Örorkubætur vegna 65 % örorku: |
kr. |
825.150,00 |
|
Fyrir hvert örorkustig 1-25 % kr. 33.006,- |
|
|
|
Fyrir hvert örorkustig 26-50 % kr. 66.012,- |
kr. |
1.650.300,00 |
|
Fyrir hvert örorkustig 51-65 % kr. 99.018,- |
kr. |
1.485.270,00 |
|
Alls bætur til greiðslu |
kr. |
4.198.994,00 |
Stefnufjárhæðin byggist á niðurstöðum matsgerðar Björns Önundarsonar læknis (65 % örorka) og læknanna Jónasar Hallgrímssonar og Grétars Guðmundssonar ( 65 % örorka) og á bótaákvæðum tryggingasamnings sem í gildi var á milli stefnda og TM þegar stefnandi varð fyrir líkamstjóni í slysinu 22. júlí 1992.
Dagpeninga er krafist í 52 vikur frá 30. júlí 1992 til 29. júlí 1993, sbr. skilmálar slysatryggingar sjómanna hjá TM. Örorkubóta er krafist skv. sömu skilmálum, sbr. tryggingarsamningur stefnda og TM frá 30. júlí 1993.
Krafist er vaxta skv. 7. gr. sbr. 8. gr. laga nr. 50/1987 frá 30. júlí 1993 til þingfestingardags, en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags skv. 15. gr. vaxtalaga.
Engu breyti um ábyrgðina þótt stefnandi kunni sjálfur að hafa talið að trygging væri óþörf. Tryggingasamningurinn milli stefnda og TM hafi átt að tryggja að stefnandi væri tryggður í samræmi við ákvæði laganna.
Stefnandi byggir kröfur sínar á ólögfestri meginreglu skaðabótaréttar um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna sinna, sk. húsbóndaábyrgðarreglu.
Málskostnaðarkrafan er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Krafa um virðisaukaskatt styðst við lög nr. 50/1988 og reglugerð nr. 562/1989.
III
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi byggir á því að það hafi ekki hvílt á honum skylda samkvæmt lögum að tryggja stefnanda. Stefnandi hafi sjálfur haft ráðstöfunarrétt á tryggingarmálefnum sínum og borið að annast um þau, enda þótt hann hafi getað gengið að handbæru fé til greiðslu iðgjalds vegna slysa- og húftryggingar á reikningi sínum hjá stefnda. Það sé eigin sök stefnanda að vilja ekki slysatryggingu og því beri að sýkna stefnda af skaðabótakröfu stefnanda.
Megintilgangur ákvæða 5.-11. gr. laga nr. 24/1986 hafi verið sá að auðvelda útgerðarmönnum að hafa handbært fé til greiðslu nokkurra mikilvægra þátta í rekstri útgerðar, svo sem vátrygginga og lífeyrisiðgjalda. Samkvæmt 2. tl. 8. gr. laganna hafi 47% af greiðslufénu átt að sundurgreinast og renna til greiðslu vátryggingariðgjalda, annars vegar greiðslu iðgjalda af slysa- og örorkutryggingu skipverja og hins vegar vátryggingu báts. Með þessu móti gæti útgerðarmaður gengið að fjármunum til greiðslu iðgjalda, sem til væru komin vegna reksturs hans.
Skylda til að kaupa viðkomandi tryggingar hafi verið í höndum viðkomandi útgerðarmanns, sbr. 2. tl. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 um skyldu útgerðarmanns til að kaupa tryggingu fyrir dánar- og slysabótum og 2. gr. laga nr. 18/1976 um skyldu til að vátryggja skip undir 100,49 brúttórúmlestum.
Ákvæði laga nr. 24/1986 feli ekki í sér skyldu fyrir stefnda til að kaupa tryggingar fyrir viðkomandi útgerðarmenn, sem lögin taki til. Það sé á ábyrgð þeirra sjálfra og áhættu að annast um sínar tryggingar og sjá um þær með réttum hætti. Ef ætlunin með fyrrgreindum lögum hefði verið sú að leggja slíka skyldu á stefnda, hefði þurft að taka það sérstaklega fram. Engin lagaskylda hvíldi því á stefnda til að gera samning við tryggingafélag um tryggingu fyrir félagsmenn sína eða skylda stefnda til að greiða sjálfstætt iðgjöld samkvæmt samningi. Hér hafi verið um að ræða þjónustu stefnda við félagsmenn sína, án allrar lagaskyldu.
Það hafi ekki getað hvílt sú skylda á stefnda að kalla eftir gögnum eða rengja félagsmenn sína þegar þeir skýrðu frá því hvort þeir væru tryggðir eða ekki, enda hafi hér verið um að ræða þjónustu umfram lagaskyldu. Skylda til að tryggja sig hafi hvílt á félagsmönnunum sjálfum og stefndi hafi því ekki getað annað en treyst upplýsingum frá þeim um tryggingamál. Í sumum tilvikum hafi félagsmenn óskað eftir því að fá inneign á reikningum sínum greidda þrátt fyrir að þeir væru ekki slysatryggðir og hafi stefnda þá ekki verið stætt á að gera nokkuð í slíkum málum þar sem engin lagaheimild hafi verið fyrir hendi og inneignir félagsmanna á reikningum þeirra hafi tilheyrt þeim sjálfum.
Samkvæmt ákvæði 8. tl. samnings stefnda við TM hafi um uppgjör og iðgjaldagreiðslur vegna samningsins verið farið eftir nánara samkomulagi. Í samningnum hafi ekkert verið kveðið á um skyldu stefnda til að ganga eftir upplýsingum frá félagsmönnum eða hvernig að því skyldi staðið. Engar skuldbindingar hafi því hvílt á stefnda. Við uppgjör hafi venjan hins vegar verið sú, að byggt hafi verið á upplýsingum frá félagsmönnunum sjálfum.
Þegar stefnandi hafi komið á skrifstofu stefnda í mars 1993 og óskað eftir greiðslu inneignar sinnar hafi hann verið sérstaklega spurður um hvort hann væri slysatryggður. Hafi stefnandi veitt þær upplýsingar að tryggingamál hans væru í lagi og inneign hans því ráðstafað í samræmi við upplýsingar hans en þar sem hann hafi átt ógreitt iðgjald af húftryggingu báts síns hafi inneignin runnið til greiðslu þess. Stefndi hafi við þetta byggt á upplýsingum stefnanda en stefnda hafi ekki borið nein skylda til að ganga úr skugga um að stefnandi hefði verið slysatryggður áður en hann hafi keypt slysatrygginguna 10. ágúst 1992 eins og haldið sé fram af hálfu stefnanda. Stefnandi hafi sjálfur mátt vita að hann væri ekki slysatryggður á þeim tíma er hann varð fyrir slysi og átti þá að upplýsa um það. Það hafi hann ekki gert og verði því að bera ábyrgð á því sjálfur.
Einnig verði að hafa í huga að stefnandi hafi verið útgerðarmaður og hafi átt að vera ljósar skyldur hans að lögum. Á árinu 1991 hafi stefnandi sjálfur gengið frá sínum tryggingamálum og starfsmenn stefnda hafi því enga ástæðu haft til að rengja hann. Engu máli skipti þótt stefnandi haldi því fram að hann hafi ekki vitað af samningi stefnda og TM. Þá telur stefndi að stefnandi hafi mátt vita af umræddum samningi, enda hafi hann verið kynntur í fréttabréfum stefnda.
Þá byggir stefndi á því að slys stefnanda hefði fallið utan gildissviðs samnings stefnda og TM og þar af leiðandi geti stefnandi ekki byggt kröfur sínar á ákvæðum hans.
Í samningnum sé tekið fram að um slysatryggingu sjómanna gildi ákvæði 172. gr. siglingalaga. Í skilmálum áhafnartryggingar segi svo um slysatryggingu sjómanna: „Slysatrygging sjómanna samkvæmt lögum nr. 34/1985 vátryggir sjómenn, sem ráðnir eru í skipsrúm og útgerðarmenn sem fiska á eigin bát, ef slys ber að höndum er hlutaðeigandi var staddur á báti eða vann í beinum tengslum við rekstur báta.“ Stefndi telur ljóst að slysið hafi ekki verið í beinum tengslum við rekstur báts og mótmælir því að ákvæði samningsins geti tekið til ferða stefnanda í bifreið hans, enda hafi hann þá notið tryggingar samkvæmt umferðarlögum.
Stefndi tekur fram að samningur stefnda og TM geti jafnframt ekki tekið til stefnanda þar sem hann hafi verið slysatryggður samkvæmt lögboðinni slysatryggingu umferðarlaga þegar slysið varð. Samningnum hafi einungis verið ætlað að taka til þeirra tilvika er útgerðarmenn voru ekki tryggðir hjá öðrum vátryggingafélögum, sbr. ákvæði hans um tvítryggingu, og stæðu þeir því uppi ótryggðir ef slys yrði við útgerðarstörf. Þar sem stefnandi byggi kröfu sína á samningi stefnda og TM verði hann að lúta takmörkunum þess samnings og tilætlan samningsaðila.
Þá telur stefndi að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi annars vegar við veitingu upplýsinga um tryggingamál sín og hins vegar við akstur bifreiðar sinnar þegar hann varð fyrir slysinu. Stefnandi hafi sjálfur gefið þær upplýsingar sem á hafi verið byggt og á honum hafi hvílt sú sjálfsagða skylda sem atvinnurekanda og útgerðarmanns að ganga úr skugga um sín tryggingamál.
Þá verði að líta til þess með hvaða hætti sjálft slysið hafi orðið. Ástæða þess hafi verið sú að stefnandi gætti ekki að sér við akstur bifreiðar sinnar og hægði ekki á hraða hennar þrátt fyrir að tilefni væri til. Stefnandi hlaut að þekkja aðstæður á þeim slóðum er slysið varð enda hafi hann gert út trillu sína frá Patreksfirði. Slysið hafi því verið rakið til stórkostlegs gáleysis af hans hálfu og því beri að sýkna stefnda.
Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi fengið tjón sitt bætt að fullu. Samkvæmt upplýsingum frá TM hafi stefnanda verið greiddar skaðabætur úr lögboðinni slysatryggingu ökumanns og eiganda vegna slyssins. Hafi heildarbætur vegna tímabundinnar örorku, varanlegrar örorku, miska o.fl. numið 9.028.320 kr. Þar sem um skaðabótakröfu sé að ræða geti stefnandi ekki fengið meiri bætur en sem nemi tjóni hans sem hafi verið að fullu gert upp með bótagreiðslum TM úr slysatryggingu ökumanns. Ef stefnandi hefði verið slysatryggður á þeim tíma er slysið varð hefðu greiðslur úr slíkri tryggingu komið til frádráttar við uppgjör tjónsbóta úr slysatryggingu ökumanns. Tjón stefnanda sé því ekkert.
Stefnandi hafi jafnframt verið slysatryggður samkvæmt ákvæði d-liðar 1. mgr. 29. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar, sbr. nú c-lið 1. mgr. 124. gr. laga nr. 117/1993. Þær greiðslur sem stefnandi hafi þegið frá almannatryggingum vegna slyssins beri jafnframt að draga frá skaðabótakröfu hans.
Enn fremur efast stefndi um að þau örorkumöt, sem stefnandi hafi lagt fram og byggi kröfu sína á, gefi rétta mynd af afleiðingum slyssins á heilsu stefnanda og fjárhag. Stefnandi bendir í því sambandi m.a. á að í mati eins læknisins sé t.d. byggt á upplýsingum stefnanda sjálfs um minnisskerðingu og einbeitningarleysi, án þess að sjálfstætt mat sé lagt á ástand viðkomandi.
Stefndi byggir jafnframt á því að tómlæti stefnanda við að halda fram rétti sínum leiði til þess að sýkna beri stefnda. Slysið hafi orðið 22. júlí 1992. Á árinu 1994 hafi kröfur verið settar fram gegn TM árið 1994 og síðan farið í dómsmál, án þess að gera samhliða kröfur á hendur stefnda. Niðurstaða í því máli hafi legið fyrir 17. janúar 1996. Það hafi hins vegar ekki verið fyrr en með bréfi lögmanns stefnanda 25. nóvember 1997 sem því sé haldið fram að stefndi beri ábyrgð á tjóninu. Slíkt tómlæti leiði til sýknu.
Þá mótmælir stefndi vaxta- og dráttarvaxtakröfum stefnanda, bæði að því er varðar upphafstíma og vaxtafót.
Stefndi vísar til 6. og 8. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, 2. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985, 2. gr. laga nr. 18/1976 um bátaábyrgðarfélög, d-lið 1. mgr. 29. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar, sbr. nú c-lið 1. mgr. 24. gr. laga nr. 117/1993 um sama efni, og almennra reglna skaðabótaréttarins.
Málskostnaðarkrafa stefnda styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991.
IV
Niðurstöður
Í máli þessu er ágreiningur um það hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir af völdum umferðarslyss þann 22. júlí 1992. Kröfur sínar í málinu byggir stefnandi á því að stefnda hafi borið skylda til að annast um tryggingamál stefnanda á grundvelli laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins og samnings við Tryggingamiðstöðina hf.
Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 24/1986 kemur fram að megintilgangur ákvæða laganna um greiðslumiðlun var að tryggja örugga greiðslu á nokkrum mikilvægum þáttum í útgerðarrekstrinum, svo sem vöxtum og afborgunum, vátryggingum fiskiskipa, lífeyrisiðgjöldum sjómanna ásamt framlögum til samtaka sjómanna og útvegsmanna. Samkvæmt 2. tl. 8. gr. laganna skyldi 47% af fé því sem safnaðist á greiðslumiðlunarreikning sundurgreinast og renna til greiðslu vátryggingariðgjalda, annars vegar greiðslu iðgjalda af slysa- og örorkutryggingu skipverja og hins vegar vátryggingu báts. Með þessu móti gæti útgerðarmaður gengið að fjármunum til greiðslu iðgjalda, sem til væru komin vegna reksturs hans. Í lögunum er ekki kveðið á um skyldu til kaupa á þeim tryggingum, sem greiðslumiðlun tekur til.
Stefnandi byggir á því að stefnda hafi verið skylt að slysatryggja hann samkvæmt samningi sem stefndi gerði við Tryggingamiðstöðina hf. þann 31. janúar 1992 og var í gildi er stefnandi lenti í nefndu slysi. Í 2. tl. samningsins segir að um slysatryggingu sjómanna fari eftir 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Í 1. mgr. nefndrar greinar segir að útgerðarmaður beri ábyrgð á kröfum vegna lífs- eða líkamstjóns þeirra sem ráðnir séu í skipsrúm hjá honum, hafi slys borið að höndum er hlutaðeigandi hafi verið staddur á skipi eða unnið í beinum tengslum við rekstur skipsins. Í 2. mgr. segir síðan: „Skylt er útgerðarmanni að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum er á hann kunna að falla samkvæmt 1. mgr. “
Samkvæmt lagaákvæði þessu, sem vísað er til í samningi stefnda og TM, kemur skýrt fram að skylda til að kaupa tryggingu hvíli á útgerðarmanni. Í samningnum er ekki kveðið á um skyldu stefnda til þess að annast um að félagsmenn væru slysatryggðir og lög nr. 24/1986 kveða ekki á um slíka skyldu. Það er á ábyrgð og áhættu útgerðarmanna sjálfra að annast um sínar tryggingar og ganga frá þeim með réttum hætti.
Fyrir liggur að stefndi hafði ekki sjálfur gengið frá slysatryggingu sinni þegar hann varð fyrir slysi hinn 22. júlí 1992. Þegar af þeirri ástæðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Málskostnaður verður felldur niður en allur gjafsóknarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hdl., 200.000 kr. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Landssamband smábátaeigenda, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Einars Einarssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður málsins, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hdl., 200.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.