Hæstiréttur íslands
Mál nr. 82/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Sjópróf
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Föstudaginn 17. mars 2000. |
|
Nr. 82/2000.
|
Básafell hf. (Sigurbjörn Magnússon hrl.) gegn Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara |
Kærumál. Sjópróf. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Þótt héraðsdómari hefði með alls óviðunandi röksemdum hafnað réttmætri beiðni um sjópróf gat Hæstiréttur í engu hreyft við þeirri niðurstöðu, enda væri hvergi að finna í lögum heimild til að kæra úrskurð héraðsdómara þessa efnis.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. febrúar 2000, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um sjópróf. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og XVII. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hann krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að halda umbeðið sjópróf.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Í hinum kærða úrskurði hefur héraðsdómari með alls óviðunandi röksemdum hafnað réttmætri beiðni sóknaraðila um að haldið verði sjópróf samkvæmt ákvæðum XIII. kafla siglingalaga nr. 34/1985. Við þeirri niðurstöðu getur Hæstiréttur hins vegar í engu hreyft, enda er hvergi að finna í lögum heimild til að kæra úrskurð héraðsdómara þessa efnis, sbr. meðal annars dóm réttarins í dómasafni 1997, bls. 1063. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 29. febrúar 2000.
I.
Með bréfi Sigurbjörns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, sem dóminum barst 9. febrúar síðastliðinn, var þess farið á leit fyrir hönd Básafells hf., kt. 680292-2059, Sindragötu 1, Ísafirði, að haldið verði sjópróf vegna slyss sem Sigbjörn Guðmundsson háseti varð fyrir um borð í frystitogaranum Skutli ÍS-180 þegar skipið var við veiðar á Flæmska hattinum 19. nóvember 1999. Mun Sigbjörn hafa fingurbrotnað og misst framan af baugfingri annarrar handar. Er atvikum nánar lýst í sjóprófsbeiðninni jafnframt því sem vísað er til frásagnar af slysinu í meðfylgjandi ljósritum úr skipsdagbók. Einnig fylgdi beiðninni áhafnarlisti úr umræddri veiðiferð, tilkynning um slysið til útgerðar skipsins og Tryggingastofnunar ríkisins, bréf lögmanns hins slasaða og ljósrit úr dagbók lögreglunnar í Hafnarfirði; svokölluð frumbókun, miðvikudaginn 29. desember 1999 kl. 11:36. Er í bókuninni greint frá því að skipstjóri og 1. stýrimaður hafi komið á lögreglustöðina í Hafnarfirði og tilkynnt um framangreint slys. Segir í bókuninni að ekki hafi verið tekin skýrsla af tilkynnendum, að svo komnu máli, en málið þess í stað látið bíða upphafsrannsóknar á Höfn þar sem hinn slasaði átti heima. Mun lögreglunni á Höfn hafa verið tilkynnt um málið. Af dagbókarljósritinu verður ráðið að lögreglurannsókn hafi ekki verið hafin 1. febrúar síðastliðinn.
Fram kemur í sjóprófsbeiðninni að Skutull liggi nú í Hafnarfjarðarhöfn. Farið er fram á að sjópróf verði haldið sem allra fyrst og að teknar verði skýrslur af hinum slasaða, Einari Sturlusyni skipstjóra, Halldóri Gústafssyni 1. stýrimanni, Mikael Rodriguez bátsmanni og Ásmundi Sveinssyni netamanni.
Ekki nýtur gagna um hvert sé tryggingafélag skipsins.
II.
Ákvæði íslenskra laga um sjópróf er að finna í XIII. kafla siglingalaga nr. 34/1985 (219.-231. gr.). Eru þau ákvæði óbreytt að stofni til frá setningu laganna. Með 82. gr. laga nr. 92/1991 um breyting á ýmsum lögum vegna aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds í héraði 1. júlí 1992 voru þó gerðar orðalagsbreytingar á nokkrum ákvæðanna ,,til samræmis við nýja dómstólaskipan og breyttar réttarfarsreglur” eins og segir í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til laganna.
Framangreind sjóprófsbeiðni er reist á 1. tl. 219. gr. siglingalaga, en samkvæmt þeirri lagagrein skal meðal annars halda sjópróf þegar skipverji hefur orðið fyrir meiri háttar líkamstjóni er skip var statt utan íslenskrar hafnar. Er þá skipstjóra skylt að sjá til þess að sjópróf sé haldið svo skjótt sem auðið er, sbr. 224. gr. og skal eftir föngum boða þá sem vitað er eða sem ætla má að hafi verulegra hagsmuna að gæta vegna þess atburðar sem var tilefni sjóprófsins. Falla hér undir Siglingastofnun Íslands og rannsóknarnefnd sjóslysa, sbr. 5. og 7. mgr. 226. gr., en einnig hefur verið talið að tilkynna beri útgerðarfélagi skips og viðkomandi tryggingafélagi um sjópróf, auk þess sem vitni eru boðuð til skýrslugjafar.
Samkvæmt 223. gr. siglingalaga, sbr. breytingarlög nr. 92/1991, skulu nú sjópróf hér á landi fara fram ,,fyrir héraðsdómi”, en fyrir 1. júlí 1992 voru þau haldin ,,á bæjarþingi eða aukadómþingi”, sem áður hétu. Ber héraðsdómara því að boða til sjóprófa samkvæmt framansögðu.
Fáum blandast hugur um að sjópróf séu liður í opinberri rannsókn máls. Til marks um það má skoða ákvæði 221. gr. siglingalaga. Þar segir í 1. mgr.: ,,Tilgangur sjóprófs er að leiða í ljós, svo sem framast má verða, orsakir viðkomandi atburðar og aðrar staðreyndir sem máli skipta í því sambandi, þ.m.t. upplýsingar um allt það er varðar mat á haffærni skips eða öryggi á siglingu, svo og um allt er leitt gæti til aukins öryggis sjófarenda eða refsi- eða skaðabótaábyrgðar útgerðarmanns, skipstjóra, skipverja eða annarra manna.” Samkvæmt 2. mgr. skal ,,dómari sá, sem stjórnar sjóprófi” leita aðstoðar lögreglu við skýrslutöku, vettvangskönnun ,,og aðra þætti málsrannsóknar” eftir því sem frekast verður við komið, einkum þó ef manntjón hefur orðið eða meiri háttar líkamstjón. Skal lögð á það áhersla að lögreglurannsókn hefjist sem fyrst eftir að slys varð eða skip kom til hafnar.
Hér ber einnig að nefna 225. og 226. gr. siglingalaga. Í fyrrnefnda ákvæðinu er mælt fyrir um hvaða gögn skuli fylgja sjóprófsbeiðni. Í því máli, sem hér er til meðferðar, er fyrirmælum ákvæðisins fylgt í hvívetna. Í niðurlagsákvæði greinarinnar segir hins vegar: ,,Dómur metur að öðru leyti hverra gagna skuli aflað, svo sem um starfsréttindi og lögskráningu skipshafnar.” Samkvæmt 3. og 4. mgr. 226. gr. er það síðan dómari sem ,,rannsakar eftir föngum öll þau atriði er máli skipta, svo sem um skip og útbúnað þess, farm, framferði skipstjóra og skipshafnar, hafnsögumanns o.s.frv.” og skal dómari í tengslum við sjópróf skoða skip ef telja má að slík skoðun geti skipt einhverju máli fyrir rannsókn slyss og jafnframt framkvæma eða láta framkvæma aðra þá skoðun sem nauðsyn ber til.
Loks er rétt að geta í þessu sambandi ákvæðis í 4. mgr. 238. gr. siglingalaga, sem heimilar meiri hluta dómenda í sjóprófi að svipta skipstjóra skipstjórnarréttindum til bráðabirgða með úrskurði verði hann talinn hafa unnið til réttindasviptingar og brýna nauðsyn beri til þeirrar sviptingar, en samkvæmt ákvæðinu er það á færi dómstóls þess er fer með viðkomandi refsimál að hrinda þeirri ákvörðun sjóprófenda þannig að skipstjóri haldi réttindum sínum þar til dómur gengur í máli hans.
III.
Með lögum nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, sem tóku gildi 1. júlí 1992, var að því stefnt að skilja endanlega á milli dómsvalds og framkvæmdavalds í héraði, eins og heiti laganna ber með sér. Þannig skyldu dómstólar eftirleiðis einungis fara með dómstörf, en sýslumenn með stjórnsýslu ríkisins, þar á meðal lögreglustjórn og aðrar rannsóknarathafnir. Tilgangurinn með aðskilnaði var sá að koma á fót dómstólum í héraði, sem væru sjálfstæðir og óháðir öðrum handhöfum ríkisvalds og tryggja þannig sem best réttvísi og réttaröryggi í landinu. Var um að ræða ,,gerbreytingu á dómstólaskipun í héraði” eins og segir í athugasemdum er fylgdu lagafrumvarpinu á sínum tíma. Jafnframt voru sett ný lög um meðferð opinberra mála, um meðferð einkamála, um skipti, nauðungarsölu, aðfarargerðir og önnur réttarfarsatriði er tengdust markmiði löggjafans um aðskilnað dómvalds og framkvæmdavalds. Er umrætt markmið byggt á grundvallarreglum um stjórnskipulag íslenska ríkisins, sem birtist í 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og reist er á kennningunni um þrígreiningu ríkisvalds í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald.
Með gildistöku aðskilnaðarlaga nr. 92/1989 og nýrra laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 verður að líta svo á að skilið hafi verið að fullu á milli ákæruvalds og lögreglu annars vegar og dómsvalds hins vegar, sbr. ummæli í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til síðarnefndu laganna. Þar segir að rannsókn mála skuli eftirleiðis verða ,,að öllu leyti í höndum ákæruvalds og lögreglu og dómari á aldrei frumkvæði að né stýrir rannsókn. Dómsrannsóknir verða lagðar niður og hlutverk dómara á rannsóknarstigi máls takmarkast einkum við úrlausn á ýmsum ágreiningsefnum, sem aðilar bera undir hann.”, eins og segir í frumvarpinu. Ágætt dæmi þessa er ákvæði 75. gr. laga nr. 19/1991, en samkvæmt því má bera undir dómara ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu og ágreining um tilteknar rannsóknaraðgerðir. Væri fróðlegt að sjá hvernig dómari sá er stýrði sjóprófi myndi leysa úr slíkum ágreiningi.
Framangreind ákvæði í siglingalögum nr. 34/1985 um rannsóknarhlutverk dómara í tengslum við sjópróf eiga sér ekki hliðstæður í ákvæðum annarra laga um verkefni dómara. Þegar litið er til þeirra ákvæða annars vegar og til áðurgreinds markmiðs löggjafans um algeran aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði frá og með 1. júlí 1992 hins vegar verður vart séð hvernig það fái samrýmst að héraðsdómara sé í senn falið frumkvæði og rannsóknarskylda í einum málaflokki, en gert að gæta hlutleysis og óhlutdrægni í öðrum. Í fljótu bragði mætti halda því fram, að gera verði greinarmun á rannsókn opinberra mála í skilningi laga nr. 19/1991 og opinberri rannsókn á þeim málum er falla undir ákvæði XIII. kafla siglingalaga. En ef betur er að gætt kemur í ljós, að á rannsókn slíkra mála er aðeins stigsmunur, ekki eðlis-. Því til stuðnings nægir að benda á þær skyldur, sem í siglingalögum eru lagðar á herðar dómara, að rannsaka fyrir dómi allt er leitt gæti til refsi- eða skaðabótaábyrgðar útgerðarmanns, skipstjóra, skipverja eða annarra, en við slíka rannsókn skal dómari leita aðstoðar lögreglu við skýrslutöku, vettvangskönnun og aðra þætti málsrannsóknar eftir því sem frekast verður við komið. Til samanburðar má nefna ný ákvæði í lögum um meðferð opinberra mála, sbr. lög nr. 36/1999, sem kveða á um heimild og eftir atvikum skyldu lögreglu til að leita atbeina dómstóla við yfirheyrslur á lögreglurannsóknarstigi kynferðisbrota og annarra ofbeldisbrota, en í þeim lögum er frumkvæði að slíkri meðferð alfarið í höndum lögregluyfirvalda, sem stýra málsrannsókn og takmarkast þáttur dómstóla við skýrt afmörkuð verkefni. Er þar ólíku saman að jafna.
IV.
Með gildistöku laga nr. 15/1998 um dómstóla 1. júlí 1998 voru gerðar breytingar á heiti laga nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, þannig að eftirleiðis skyldu lögin heita ,,lög um framkvæmdarvald ríkisins í héraði”. Óbreytt stóðu ákvæði laganna um að sýslumenn færu almennt, hver í sínu umdæmi, með lögreglustjórn að því leyti sem hún væri ekki falin öðrum. Er hér einkum átt við hlutverk ríkislögreglustjóra, sbr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Í 2. mgr. 6. gr. laganna segir að lögreglustjórar fari með stjórn lögregluliðs, hver í sínu umdæmi. Þeir annast daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæmi sínu og bera ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess. Ekki er í lögunum að finna ákvæði um boðvald dómara yfir lögreglu eða um skyldu lögreglumanna til að hlíta fyrirmælum dómara um rannsóknaraðgerðir.
Sem fyrr vakna hér áleitnar spurningar um það hvernig skýra beri áðurgreind ákvæði XIII. kafla siglingalaga nr. 34/1985 um rannsóknarskyldur dómara og frumkvæði að rannsóknaraðgerðum í tengslum við sjópróf, með og án atbeina lögreglu, í ljósi nýrri löggjafar um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði nr. 92/1989, gjörbreyttra laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og loks lögreglulaga nr. 90/1996. Er ljóst, að áliti héraðsdómara í þessu máli, að ákvæði hinna fyrst nefndu laga fái ekki lengur staðist í framkvæmd. Ákvæðin voru sett í tíð eldri dómstólaskipunar þegar almennt tíðkaðist að sýslumenn færu jafnframt með dómsvald, hver í sínu umdæmi, og mörk milli ýmissa embættisathafna þeirra, sem lögreglustjórar annars vegar og dómendur hins vegar, voru óljós. Bera ákvæði XIII. kafla siglingalaga þess glögg merki og hljóta þau að verða skýrð í því ljósi.
Eins og rakið er að framan var tilgangurinn með aðskilnaði dómsvalds og umboðsvalds í héraði að skilja endanlega á milli þessara tveggja þátta ríkisvalds og koma á fót sjálfstæðum, óháðum og óvilhöllum dómstólum í héraði og tryggja þannig sem best réttvísi og réttaröryggi í landinu í samræmi við hugmyndina um þrígreiningu ríkisvalds, sbr. og 2. gr. stjórnarskrárinnar. Sú hugmynd lýtur ekki einungis að sjálfstæði dómstóla, heldur einnig að sjálfstæðu hlutverki hvers þáttar ríkisvalds gagnvart öðrum og að þeir seilist ekki inn á svið hvers annars. Að þessu virtu og með vísan til annars þess, sem áður er rakið, telur héraðsdómari að það fái ekki lengur samrýmst hlutverki dómara að hefja frumrannsókn lögreglumáls fyrir dómi í tengslum við sjópróf og stýra slíkri rannsókn með þeim hætti, sem kveðið er á um í XIII. kafla siglingalaga. Ber því að synja um sjóprófsbeiðni Básafells hf. í máli þessu.
Málskostnaður dæmist ekki.
Jónas Jóhannsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Synjað er um beiðni Básafells hf. um sjópróf samkvæmt XIII. kafla siglingalaga nr. 34/1985.
Málskostnaður dæmist ekki.