Hæstiréttur íslands

Mál nr. 207/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Ákæruvald
  • Dómstóll
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Sératkvæði


         

Fimmtudaginn 8. maí 2008.

Nr. 207/2008.

A

(Arnar Þór Stefánsson hdl.)

gegn

ríkissaksóknara

(Hákon Árnason hrl.)

 

Kærumál. Stjórnvaldsákvörðun. Ákæruvald. Dómstólar. Frávísunarúrskurður staðfestur. Sératkvæði.

 

Í málinu krafðist A ógildingar á ákvörðun R um að hætt skyldi lögreglurannsókn á atvikum varðandi andlát dóttur hans. Talið var að sú ákvörðun um meðferð valdheimilda R gæti eðli sínum samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla og því bæri samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að vísa málinu frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. apríl 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2008, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í málinu leitar sóknaraðili ógildingar á ákvörðun varnaraðila 15. júní 2007 um að hætt skyldi lögreglurannsókn á atvikum varðandi andlát dóttur sóknaraðila aðfaranótt 5. maí 2006. Sú ákvörðun um meðferð valdheimilda varnaraðila getur eðli sínu samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla og ber því samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Sératkvæði

Hjördísar Hákonardóttur

Ferill málsins er rakinn í hinum áfrýjaða úrskurði. Varnaraðili er æðsti handhafi ákæruvalds, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, og nýtur sjálfstæðis í starfi sínu og ákvörðunum, en dómsmálaráðherra hefur eftirlit með framkvæmd ákæruvalds, sbr. 1. mgr. 26. gr. sömu laga. Varnaraðili hafnaði 15. júní 2007 endurupptöku rannsóknar á andláti ungrar dóttur sóknaraðila aðfaranótt 5. maí 2006, og lýsti því yfir að rannsókn væri lokið samkvæmt 1. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991. Ákvörðun þessari skaut sóknaraðili til dómsmálaráðherra með vísan til 2. mgr. 26. gr., en til vara 4. mgr. 66. gr., laga nr. 19/1991 og óskaði þess að sérstakur saksóknari yrði settur til að fara með og rannsaka málið. Dómsmálaráðherra hafnaði erindinu á þeim grundvelli að varnaraðili hefði fullnaðarúrskurðarvald í málinu og að ákvörðunin sætti því ekki endurskoðun dómsmálaráðuneytis.

Dómstólar skera úr ágreiningi um lögmæti og mörk athafna yfirvalda samkvæmt 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, þar með talið um það hvort lög veiti stjórnvaldi fullnaðarúrskurðarvald á tilteknu sviði. Í kæru sinni til Hæstaréttar leggur sóknaraðili á það áherslu, að krafa hans fyrir héraðsdómi lúti að því að felld verði úr gildi stjórnvaldsathöfn, sem er framangreind ákvörðun varnaraðila 15. júní 2007. Sóknaraðili á samkvæmt 70. gr. stjórnarskrár rétt á að fá úrlausn dómstóla um gildi stjórnvaldsathafna sem varða lögmæta hagsmuni hans. Sóknaraðili reynir með málssókn þessari að fá ógilta ákvörðun sem varðar rannsókn á láti ungrar dóttur. Eðli málsins samkvæmt tengjast líf og dauði barna réttindum og skyldum foreldra þeirra í skilningi 70. gr. stjórnarskrár, í ljósi þessa og vegna persónulegrar stöðu foreldris hefur sóknaraðili lögmæta hagsmuni af úrlausn sakarefnisins. Samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga 19/1991 skal lögregla rannsaka mannslát, burtséð frá því hvort grunur er um refsivert athæfi, þá getur varnaraðili látið fara fram rannsókn ef ríkir almanna- eða einkahagsmunir mæla með því. Byggir sóknaraðili á þessari heimild í stefnu. Synjun á að slík rannsókn fari fram má kæra til dómsmálaráðherra, sbr. 4. mgr. 66. gr. sömu laga.

Dómstólum ber að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur ná til nema það sé skilið undan lögsögu þeirra samkvæmt lögum, samningi, venju eða eðli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ákvörðun varnaraðila sem lýtur að framgangi rannsóknar er eðlisólík ákvörðun um útgáfu ákæru við lok rannsóknar. Í ljósi þess stjórnarskrárbundna hlutverks dómstóla að skera úr um lögmæti stjórnvaldsathafna, og stjórnarskrárbundins réttar þess sem aðild hefur átt að máli fyrir stjórnvaldi að fá úrlausn dómstóla um hvort farið hafi verið að lögum við meðferð þess og úrlausn, þá ber að leggja fyrir héraðsdóm að taka kröfu sóknaraðila til efnismeðferðar um lögmæti ákvörðunar varnaraðila frá 15. júlí 2007 og fella því úr gildi ákvæði héraðsdóms um frávísun málsins.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2008.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 9. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, [heimilisfang],  á hendur ríkissaksóknara, Hverfisgötu 6, Reykjavík, með stefnu birtri  28. febrúar 2008.

Mál þetta er rekið sem flýtimeðferðarmál samkvæmt heimild í XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómkröfur stefnanda eru þær að ógilt verði með dómi sú ákvörðun ríkissaksóknara frá 15. júní 2007 að ljúka opinberri rannsókn á andláti dóttur stefnanda, B. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að máli þessu verði vísað frá dómi, en til vara, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Jafnframt krefst stefndi í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Í þessum þætti málsins er krafa stefnda um frávísun málsins tekin til úrskurðar. Stefnandi hafnar frávísunarkröfu stefnda og krefst þess að málskostnaður bíði efnisdóms.

 Málavextir.

Aðfararnótt 5. maí 2006 andaðist 2. ára dóttir stefnanda, B. Var barnið í umsjá móður sinnar og sambýlismanns hennar. Þau voru gestkomandi hjá afa sambýlismannsins og eiginkonu hans. Móðirin og sambýlismaður hennar fóru að sofa eftir miðnætti og vöknuðu um kl. 7:00 morguninn eftir við vekjaraklukku og sáu þá að eitthvað var að, þar sem þau hefðu ekki fengið nein viðbrögð hjá barninu. Hóf sambýlismaðurinn lífgunartilraunir með blástursaðferð og hjartahnoði, en afinn hringdi í 112. Lögregla kom á vettvang kl. 07:34 og læknir kl. 07:40. Skoðaði læknirinn barnið og úrskurðaði það látið að skoðun lokinni.

Hinn 8. maí 2006 fór fram réttarkrufning á líki barnsins og var niðurstaðan sú að ekkert óeðlilegt fannst og ekki reyndist unnt að skýra dánarorsök.

Með bréfi 1. desember 2006 tilkynnti sýslumaður að ekki þætti grundvöllur til að halda rannsókninni áfram og hefði henni því verið hætt, sbr. 1. mgr. 76. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Var jafnframt bent á heimild til að bera ákvörðunina undir ríkissaksóknara.

Ákvörðunin var kærð 18. desember 2006 til ríkissaksóknara. Óskaði stefnandi þess, að málið yrði tekið upp að nýju og að ríkissaksóknari gæfi rannsóknara fyrirmæli um frekari rannsóknaraðgerðir, sbr. 2. mgr. 77. gr. oml.

Með bréfi 11. janúar 2007 felldi ríkissaksóknari hina kærðu ákvörðun sýslumanns úr gildi með því að ekki hefði verið tekin skýrsla af móður barnsins. Lagði hann fyrir sýslumann að taka skýrslu af móðurinni og fór sú skýrslutaka fram.

Með bréfi lögreglunnar 12. febrúar 2007 til ríkissaksóknara upplýsti lögreglan einnig, að lögreglumenn hefðu rætt við réttarmeina­fræð­ing um niðurstöður krufningarinnar og hafi komið fram hjá honum að við endanlegt mat á niðurstöðum krufningarinnar hefði ekkert komið i ljós og engar grunsemdir komið upp um að utanaðkomandi þættir hefðu á nokkurn hátt átt þátt í láti barnsins og ekkert óeðlilegt verið að finna við krufningu á líki þess.

Hinn 22. mars 2007 kom stefnandi á skrifstofu saksóknara. Þar var farið yfir gögn málsins og gerð grein fyrir því að ekki væri ástæða til frekari aðgerða í málinu.  

Með tölvubréfi 22. mars 2007 tilkynnti saksóknarinn sýslumanninum að ekki teldist ástæða til frekari aðgerða og því rétt að rannsókninni yrði aftur hætt.

Stefnandi óskaði eftir því við Meton ehf. að starfsmenn þess færu yfir rannsóknargögn málsins.  Skýrsla Metons ehf., er dags. 3. apríl 2007. Þar eru gerðar margar athugasemdir við rannsóknina.

Með bréfi 17. apríl 2007 sendi lögmaður stefnanda skýrslu Metons ehf. til stefnda og fór þess á leit, að málið yrði endurupptekið og tekið til rannsóknar að nýju. Stefndi sendi réttarmeinafræðingi skýrsluna til umsagnar. Í umsögn hans eru gerðar margvíslegar athugasemdir við skýrslu Metons ehf. 

Með bréfi 15. júní 2007 tilkynnti stefndi lögmanni stefnanda, að ekki yrði talin ástæða til að taka málið til rannsóknar að nýju. Rannsókn málsins teldist því lokið, sbr. 1. mgr. 76. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Hinn 9. ágúst 2007 kærði stefnandi ákvörðunina til dómsmálaráðherra og óskaði þess með vísan til 2. mgr. 26. gr. oml. nr. 19/1991, að ráðherra legði til við forseta Íslands, að ákvörðunin yrði felld úr gildi og sérstakur saksóknari settur til að fara með málið. Ef ráðherra teldi ekki grundvöll til að verða við þeirri ósk sé ákvörðun ríkissaksóknara kærð, sbr. 4. mgr. 66. gr. oml. nr. 19/1991.

Með bréfi dómsmálaráðherra 12. nóvember 2007 var kæru stefnanda hafnað þar sem lagaskilyrði hefðu ekki verið fyrir hendi til að taka þær til greina.

Stefnandi hefur höfðað mál þetta með kröfu um, að fyrrnefnd ákvörðun  ríkis­saksóknara frá 15. júní 2007 um lok opinberrar rannsóknar á andláti dóttur hans, B, verði ógilt með dómi.

Málsástæður og lagarök stefnda fyrir frávísun málsins.

Frávísunarkrafa stefnda, ríkissaksóknara, er í fyrsta lagi á því byggð, að ekki sé innan valdsviðs dómstóla að dæma um þá ákvörðun ríkissaksóknara, að rannsókn lögreglu á máli skuli hætt.  Beri því þegar af þeirri ástæðu að vísa ógildingarkröfu stefnanda  frá dómi, sbr. 1. mgr. 24. gr. eml. nr. 91/1991. Þessu til stuðnings er bent á eftirfarandi:

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. oml. nr. 19/1991 er ríkissaksóknari æðsti handhafi ákæruvalds. Er ríkissaksóknari við meðferð þess valds óháður vilja stjórnvalda sem annarra. Á ríkissaksóknari fullnaðarúrskurðarvald að lögum um það, hvort rann­sóknum lögreglu skuli hætt, ef ekki þykir grundvöllur til að halda rannsókn áfram, sbr. 1. mgr. 76. gr. oml. 

Gildir það um allar rannsóknir lögreglu með þeirri einu undantekningu, sem greinir í 4. mgr. 66. gr. oml., en hún á ekki við hér eins og rakið er í bréfi dómsmálaráherra.

Nýtur ríkissaksóknari í þessu sambandi fulls sjálfstæðis í starfi og á fullnaðarmat um það, hvort grundvöllur sé til þess að halda rannsókn áfram eða hætta henni. Geta dómstólar ekki með dómi sett sitt eigið mat um þau atriði í stað mats ríkissaksóknara. Er því ekki á valdsviði dómstóla að ógilda slíka ákvörðun ríkissaksóknara.

Væri dómstólum hins vegar játuð slík afskipti nyti ríkissaksóknari ekki lengur sjálfstæðis í starfi. Gætu dómstólar þá líka að sama skapi endurmetið og ógilt  ákvarðanir ríkissaksóknara um það, hvort ákært skuli eða ekki. Væri það í fullkominni andstöðu við sjálfstæði embættis ríkissaksóknara skv. oml. og grunnreglunni um þrígreiningu ríkisvaldsins. Eru ákvarðanir ríkissaksóknara um það, hvort rannsókn skuli hætt eða haldið áfram þannig bæði að lögum og samkvæmt  eðli sínu undanskilin  lögsögu dómstóla.

Er því ekki innan valdsviðs dómstóla að taka hina umstefndu ógildingarkröfu stefnanda til meðferðar og ber að vísa henni frá dómi þegar af þeirri ástæðu, sbr. 1. mgr. 24. gr. eml. nr. 91/1991. 

Í annan stað er frávísunarkrafa stefnda byggð á því, að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá hina umstefndu ákvörðun ríkissaksóknara fellda úr gildi. Beri því að vísa ógildingarkröfu stefnanda frá dómi einnig af þeirri ástæðu. Því til stuðnings er bent á eftirfarandi:

Ákvörðun ríkissaksóknara, á grundvelli 1. mgr. 76. gr. oml., um það, hvort rannsókn á mannsláti skuli hætt eða haldið áfram, er gerð með opinbera hags­muni fyrir augum, en ekki einkahagsmuni. Er og ekki réttarsamband á milli stefnanda og ríkissaksóknara. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á hvaða lögvarða hagsmuni hann hafi af því, að hin umstefnda ákvörðun ríkissaksóknara verði ógilt.

Felst í meginreglu 2. mgr. 25. gr. eml. nr. 91/1991, um að aðili þurfi að hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn sakarefnis, að dómur um sakarefnið hafi áhrif á stöðu hans að lögum.  Svo stendur ekki á hér. Er stefnandi hvorki sakborningur né brotaþoli. Réttarstaða hans mundi heldur ekki breytast að neinu leyti, þó að hin umstefnda ákvörðun ríkissaksóknara yrði af einhverjum ástæðum felld úr gildi. Stæði stefnandi í sömu sporum eftir sem áður.

Er hér á það að líta, að þó dómstólum væri játað vald til að fella ákvörðun ríkissaksóknara úr gildi, t.d. vegna ólögmætis hennar, þá hafa þeir ekkert vald til að fyrirskipa lögreglu eða ríkissaksóknara að hefja rannsóknina að nýju. Er og ekki á valdi dómstóla að leggja nýtt mat á mat lögreglu og ríkissaksóknara um það, hvort grundvöllur sé til að halda rannsókninni áfram eða ekki. Myndi ógilding ákvörðunarinnar, eins og stefnandi krefst, því engu breyta um lyktir rannsóknarinnar né stöðu stefnanda að lögum. Væri með ógildingu ákvörðun­arinnar því eingöngu verið að leysa úr lögfræðilegu álitaefni.

Hefur stefnandi þannig ekki lögvarða hagsmuni af því að umstefnd ákvörðun ríkissaksóknara verði felld úr gildi og ber því einnig af þeirri ástæðu að vísa ógildingarkröfu stefnanda frá dómi, sbr. 1. og 2. mgr. 25. gr. eml. nr. 19/1991.

Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísun málsins.

Stefnandi hafnar því að vísa eigi málinu frá dómi. Hann tekur fram að lagagrundvöllur stefnda til að hætta rannsókn málsins sé í 76. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Þar komi hvergi fram að ríkissaksóknari hafi fullnaðarvald um þessa ákvörðun og ekki sé unnt að bera hana undir dómstóla.

Stefnandi vísar kröfum sínum til stuðnings til 60. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, en þar er það dómenda að skera úr um allan ágreining um embættistakmörk yfirvalda.  Einnig vísar stefnandi til 70. gr. en þar er kveðið á um rétt öllum til handa til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli.

Stefnandi telur það fátítt eða jafnvel óþekkt að framkvæmdavaldshafi eða stjórnvöld hafi fullnaðarúrskurðarvald um lögmæti stjórnarathafna er snúa að borgurum og að slík skipun fái ekki samrýmst nútíma hugmyndum um réttaröryggi borgaranna.  Hann telur að víðtækt úrskurðarvald dómstólanna um lögmæti ákvarðana framkvæmdavaldsins veiti einstaklingum ríka lögvernd gegn hvers konar rangsleitni yfirvalda.

Stefnandi tekur fram að ákvarðanir ríkissaksóknara séu ólíkar og byggi á mismunandi lagagrunni.  Útgáfa ákæru byggist á 116. gr. laga um meðferð opinberra mála en rannsókn mála byggist á IX. kafla sömu laga. Dómstólar hafi heimild til að endurskoða ákvörðun ríkissaksóknara varðandi rannsókn máls þótt þeir hafi það ekki varðandi útgáfu ákæru þar sem um annan lagagrundvöll er að ræða.

Þá hafnar stefnandi því að hann hafi ekki lögvarða hagsmuni í máli þessu. Þvert á móti telur hann hagsmuni sína stórfellda. Rannsókn beinist að andláti ungrar dóttur hans og það skipti föður miklu að skyndilegt andlát barns sé rannsakað gaumgæfilega og ekkert til sparað og að rannsakað sé hvort andlátið sé að rekja til refsiverðs atferlis.

Hann bendir á að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi fallist á að um stórfellda hagsmuni sé að ræða með því að heimila flýtimeðferð á máli, sbr. 123. gr. laga um meðferð einkamála.

Þá telur hann að stefndi sjálfur hafi fallist á að hann ætti lögvarða hagmuni með því að taka til meðferðar kæru hans frá desember 2006.  Þá bendir stefnandi á að ríkissaksóknari hafi með svörum sínum til hans veitt honum aðild að málinu og þar með aðild til að bera stjórnvaldsákvörðunina undir dóm.

Að lokum tekur stefnandi fram að kröfugerð hans sé svokölluð neikvæð kröfugerð. Verði hún tekin til greina þá hefur það í för með sér að engin stjórnvaldsákvörðun sé til staðar og þar með að stefnda beri að hefjast handa við rannsóknina.

Forsendur og niðurstaða.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991, með áorðnum breytingum, er ríkissaksóknari æðsti handhafi ákæruvalds. Við meðferð þess er hann óháður vilja stjórnvalda sem annarra, en samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 26. gr. sömu laga hefur dómsmálaráðherra eftirlit með framkvæmd ákæruvalds.

Grunnurinn að kröfu stefnanda er sá að hann telur að rannsókn á láti dóttur sinnar hafi verið ófullnægjandi og nefnir tiltekin dæmi því til stuðnings. Stefndi hefur með bréfi 15. júní 2007 hafnað frekari rannsókn málsins og tilkynnt stefnanda að henni væri lokið, sbr. 1. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum.

Í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 178/2001 eru ummæli um stöðu og sjálfstæði ríkissaksóknara. Þar segir að hvorki tjónþola né öðrum sé ætlað að hafa áhrif á einstakar ákvarðanir ríkissaksóknara í tengslum við framkvæmd ákæruvaldsins, en um þær njóti ríkissaksóknari sjálfstæðis í starfi. Er sérstaklega tilgreint í dóminum að mat ríkissaksóknara sé fullnaðarmat þegar meta skal hvort nauðsyn sé fyrir hendi sem réttlætir að krefjast þess að grunaður maður eða ákærður sæti þvingunar-ráðstöfunum. Að mati dómsins á eins við um mat ríkissaksóknara á því hvort rannsókn skuli felld niður. Ríkissaksóknari nýtur fulls sjálfstæðis í starfi sínu og á fullnaðarmat um það, hvort grundvöllur sé fyrir því að halda rannsókn áfram eða hætta henni. Það á ekki undir valdsvið dómstóla að ógilda slíka ákvörðun ríkissaksóknara og skiptir engu þótt ekki sé tekið fram í 76. gr. laga nr. 19/1991 að um fullnaðarmat sé að ræða. Það ræðst eins og að framan greinir af sjálfstæði hans. Ber því að vísa málinu frá sbr. 1. mgr. 24. gr. laga um meðferð einkamála. Þegar af þessari ástæðu er málinu vísað frá dómi. 

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Arnar Þór Stefánsson hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Hákon Árnason hrl.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Málinu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.