Hæstiréttur íslands

Mál nr. 450/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Yfirmat


Miðvikudaginn 2

 

Miðvikudaginn 2. nóvember 2005.

Nr. 450/2005.

Margrét E. Hallgrímsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Kristín Edwald hrl.)

 

Kærumál. Dómkvaðning matsmanna. Yfirmat.

Beiðni M um að dómkvaddir yrðu menn til að meta yfirmati áverka, sem hún hafði hlotið í tveimur umferðarslysum, var hafnað þar sem yfirmat hafði þegar farið fram um öll þau atriði sem máli þóttu skipta.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. október 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dómkvaddir yrðu tveir lögfræðingar og einn læknir til að framkvæma yfirmat á undirmatsgerð 14. júní 2005, að því er varðaði fjóra nánar tilgreinda matsliði. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að dómkveðja tvo lögfræðinga og einn lækni til að framkvæma hið umbeðna yfirmat. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðil krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I.

Sóknaraðili varð fyrir umferðarslysum 29. mars 2000 og 20. október 2003. Í báðum tilvikum var ekið aftan á bifreið sem hún ók. Varnaraðili var vátryggjandi þeirra bifreiða sem sóknaraðili ók í umrædd skipti. Þann 28. febrúar 2001 mun Júlíus Valsson læknir hafa metið afleiðingar slyssins 29. mars 2000 svo, að sóknaraðili hefði orðið fyrir 5% varanlegum miska en engri varanlegri örorku. Gengu aðilar til fullnaðaruppgjörs bóta á þessum grundvelli 8. mars 2001. Þann 19. mars 2004 voru að beiðni sóknaraðila dómkvaddir tveir menn, læknir og lagaprófessor, til að meta afleiðingar fyrrgreindra tveggja slysa. Spurningar sem sóknaraðili óskaði að matsmenn veittu svar við voru eftirfarandi:

„a. Hverjir eru nú í dag líkamlegir og andlegir áverkar matsbeiðanda, sem rekja má til slyssins, þann 29. mars 2000, og hvernig má reikna með að þessir áverkar lýsi sér í framtíðinni. Í hvaða mæli má reikna með að matsbeiðandi þurfi að neyta lyfja vegna áverkanna og hvaða áhrif mun sú lyfjaneysla hafa á andlega og líkamlega getu hennar og endingu líffæra í framtíðinni. Að hvaða leyti má rekja ástand hennar í dag til slyssins frá 20. október 2003.

b. Hafa ófyrirséðar breytingar orðið á heilsu matsbeiðanda frá því matið 28. febrúar 2001 fór fram, vegna þeirra áverka sem hún hlaut í slysinu þann 29. mars 2000 og hverjar eru þær breytingar.

c. Hver er varanlegur miski matsbeiðanda vegna þeirra áverka sem hún hlaut í slysinu þann 29. mars 2000, samkvæmt 4. gr. laga nr. 50/1993 með síðari breytingum, ef miskinn er grundvallaður á þeim miskatöflum, sem gilda samkvæmt dönsku skaðabótalögunum (lov nr. 228/1984 om erstatningsansvar) vegna þeirra áverka sem rekja má til slyssins. Hver er á sömu forsendum miski matsbeiðanda vegna slyssins 20. október 2003.

d. i. Hver var sá miski í stigum sem matsbeiðandi bjó við fyrir slysið 29. mars 2000 [og] vegna hvaða áverka (veikinda). ii. Hver er varanlegur miski matsbeiðanda vegna þeirra áverka sem rekja má til slyssins 29. mars 2000, samkvæmt 4. gr. laga nr. 50/1993 með síðari breytingum, a) samkvæmt miskatöflum örorkunefndar. b) Ef bæði er tekið mið af afleiðingum slyssins frá læknisfræðilegu sjónarmiði, þ.e. matstöflunum, svo og til þeirra erfiðleika sem tjónið (áverkarnir) hafa valdið í lífi matsbeiðanda. Hver er af sömu ástæðu miski matsbeiðanda vegna slyssins 20. október 2003.

e. i. Bjó matsbeiðandi við varanlega örorku fyrir slysið, þann 29. mars 2000, samkvæmt meginreglu skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum og vegna hvaða áverka. Hvert var stig þeirrar varanlegu örorku. ii. Hver er varanleg örorka matsbeiðanda almennt, samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1993 í dag af völdum slyssins þann 29. mars 2000, en af völdum slyssins þann 20. október 2003. iii. Hver er varanleg örorka matsbeiðanda samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1993, samanber 1. gr. sömu laga til heimilisstarfa af völdum þeirra áverka sem matsbeiðandi hlaut í slysinu, þann 29. mars 2000, en vegna þeirra áverka sem hún hlaut í slysinu þann 20. október 2003. iv. Hver er varanleg örorka matsbeiðanda samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1993 vegna slyssins, þann 29. mars 2000, miðað við að sú vinnugeta sem matsbeiðandi þá hafði hafi verið 100% vinnugeta (aflahæfi), en vegna slyssins 20. október 2003, þ.e. hvað minnkar sú vinnugeta og það aflahæfi sem matsbeiðandi hafði fyrir slysið 29. mars 2000 um mörg stig.“

Matsgerð er dagsett 14. júní 2004 og svöruðu matsmenn framangreindum spurningum með eftirfarandi hætti:

„1. Afleiðingar slyssins 29. mars 2000 eru hálstognun, vægur höfuðáverki, væg tognun í mjóbaki og hægri úlnlið og hendi. Afleiðingar slyssins 20. október 2003 eru versnun á hálstognun og tognun í mjóbaki.

2. Frá því matið 28. febrúar 2001 fór fram hefur orðið versnun á einkennum matsbeiðanda og fyrir liggja önnur læknisfræðileg gögn sem benda til þess að matsbeiðandi hafi hlotið meiri áverka en talið var.

3. Varanlegur miski grundvallaður á þeim miskatöflum, sem gilda samkvæmt dönsku skaðabótalögunum, vegna umræddra slysa telst vera 25% - tuttugu og fimm stig.

4. Varanlegur miski matsbeiðanda á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga, metinn eftir íslenskri miskatöflu, vegna umræddra slysa er 25% - tuttugu og fimm stig, þ.e. 20% vegna slyssins 29. mars 2000 og 5% vegna slyssins 20. október 2003.

5. Varanleg örorka matsbeiðanda á grundvelli 5. gr. skaðabótalaga vegna umræddra slysa er 25% - tuttugu og fimm stig, þ.e. 20% vegna slyssins 29. mars 2000 og 5% vegna slyssins 20. október 2003.“

Á grundvelli matsgerðarinnar höfðaði sóknaraðili mál á hendur varnaraðila til heimtu bóta vegna umræddra slysa og var málið þingfest 9. september 2004. Varnaraðili krafðist dómkvaðningar yfirmatsmanna og voru tveir læknar og  héraðsdómslögmaður dómkvaddir 8. febrúar 2005 til þeirra starfa. Voru yfirmatsmenn beðnir að meta eftirfarandi atriði á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993:

„1. Hvort ófyrirsjáanlegar [breytingar] hafi orðið á heilsufari matsþola frá því að Júlíus Valsson læknir framkvæmdi mat sitt á matsþola þann 28. febrúar 2001 vegna þeirra áverka sem matsþoli hlaut í umferðarslysi því sem hún lenti í 29. mars 2000, og nánar er vikið að í gögnum máls þessa.

2. Við hve mikinn varanlegan miska matsþoli hafi búið fyrir slysið 29. mars 2000, og hver teljist varanlegur miski matsþola vegna slyssins 29. mars 2000 annars vegar og umferðarslyss sem matsþoli lenti í 20. október 2003 hins vegar, sbr. 4. gr. skaðabótalaga.

3. Við hve mikla varanlega örorku matsþoli hafi búið fyrir slysið 29. mars 2000, og hver teljist varanleg örorka matsþola vegna slyssins 29. mars 2000 annars vegar og slyssins 20. október 2003 hins vegar, sbr. 5. gr. skaðabótalaga.“

Yfirmatsgerð er dagsett 19. júlí 2005 og er niðurstaða hennar svohljóðandi:

„Í stuttu máli eru heildarniðurstöður matsgerðar þessarar um breytingar á heilsufari, varanlegan miska og örorku matsþola, Margrétar E. Hallgrímsson, af völdum umferðarslysanna 29. mars 2000 og 20. október 2003 sem hér segir:

1. Engar ófyrirsjáanlegar breytingar urðu á heilsufari matsþola frá því að Júlíus Valsson læknir framkvæmdi mat sitt á matsþola 28. febrúar 2001 vegna þeirra áverka sem matsþoli hlaut í umferðarslysi því sem hún lenti í 29. mars 2000.

2. Varanlegur miski matsþola samkvæmt 4. gr. laga nr. 50/1993 vegna afleiðinga umferðarslyssins 29. mars 2000 telst vera 10% - tíu af hundraði. Varanlegur miski vegna afleiðinga umferðarslyssins 20. október 2003 telst vera 5% - fimm af hundraði. Samanlagður varanlegur miski matsþola vegna beggja umferðarslysanna telst því vera 15% - fimmtán af hundraði.

3. Varanleg örorka matsþola samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1993 vegna afleiðinga umferðarslyssins 29. mars 2000 telst vera 10% - tíu af hundraði. Varanleg örorka vegna afleiðinga umferðarslyssins 20. október 2003 telst vera 5% - fimm af hundraði. Samanlögð varanleg örorka matsþola vegna beggja umferðarslysanna telst því vera 15% - fimmtán af hundraði.“

Yfirmatsgerðin var lögð fram á dómþingi 8. september 2005. Á sama dómþingi lagði sóknaraðili einnig fram hina umdeildu beiðni um dómkvaðningu yfirmatsmanna. Krefst hann þess í beiðni sinni að dómkvaddir verði tveir lögfræðingar og einn læknir til að svara eftirfarandi spurningum:

„a. Hverjir eru í dag líkamlegir og andlegir áverkar matsbeiðanda, sem rekja má til slyssins, þann 29. mars 2000, og hvernig má reikna með að þessir áverkar lýsi sér í framtíðinni. Í hvaða mæli má reikna með að matsbeiðandi þurfi að neyta lyfja vegna áverkanna og hvaða áhrif mun sú lyfjaneysla hafa á andlega og líkamlega getu hennar og endingu líffæra í framtíðinni.

b. Hafa ófyrirsjáanlegar breytingar orðið á heilsu matsbeiðanda frá því matið þann 28. febrúar 2001 fór fram, vegna þeirra áverka sem hún hlaut í slysinu þann 29. mars 2000 og hverjar eru þær breytingar.

c. Hver er varanlegur miski matsbeiðanda, vegna þeirra áverka sem hún hlaut í slysinu þann 29. mars 2000, samkvæmt 4. gr. laga nr. 50/1993, með síðari breytingum, ef miskinn er grundvallaður á þeim miskatöflum sem gilda samkvæmt dönsku skaðabótalögunum (lov nr. 228/1984) vegna þeirra áverka sem rekja má til slyssins.

d. i. Bjó matsbeiðandi við varanlega örorku fyrir slysið þann 29. mars 2000, samkvæmt meginreglu skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum og vegna hvaða áverka. Hvert var stig þeirrar varanlegu örorku. ii. Hver er varanleg örorka matsbeiðanda almennt samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1993 í dag af völdum slyssins þann 29. mars 2000. iii. Hver er varanleg örorka matsbeiðanda skv. 5. gr. laga nr. 50/1993, samanber 1. gr. sömu laga til heimilisstarfa af þeim áverkum sem matsbeiðandi hlaut í slysinu þann 29. mars 2000. iv. Hver er varanleg örorka matsbeiðanda skv. 5. grein skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna slyssins 29. mars 2000, miðað við að sú vinnugeta sem matsbeiðandi hafi þá (fyrir slysið) verið 100% vinnugeta.“

Í þinghaldi 22. september 2005 mótmælti varnaraðili beiðni sóknaraðila þar sem yfirmat hefði þegar farið fram og var henni hafnað í hinum kærða úrskurði.

II.

Röksemdir sóknaraðila fyrir kröfum sínum eru raktar í hinum kærða úrskurði. Eins og þar segir telur sóknaraðili að ekki hafi farið fram það sem hann kallar „raunverulegt yfirmat“ á niðurstöðum undirmatsmanna og vísar sérstaklega til matsspurninga sem merktar eru a. og c. í undirmatsbeiðni. Þá telur sóknaraðili að þar sem mat á varanlegri örorku samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga sé ekki læknisfræðilegt  heldur lögfræðilegt geti niðurstaða tveggja lækna og eins lögfræðings ekki talist yfirmat á niðurstöðu eins læknis og eins lögfræðings. Í samræmi við það gerir hún  kröfu til þess að dómkvaddir verði tveir lögfræðingar og einn læknir. Varnaraðili byggir einkum á því að fyrir liggi yfirmat og þess verði ekki krafist að nýju.

III.

Í 64. gr. laga nr. 91/1991 greinir að aðili geti krafist yfirmats þar sem tekin verði til endurmats þau atriði sem áður hafi verið metin. Þetta gerði varnaraðili og liggur yfirmatsgerð fyrir. Hvorki við dómkvaðninguna né síðar gerði sóknaraðili athugasemdir við hverjir voru dómkvaddir sem yfirmatsmenn né hvernig spurningum var beint til þeirra. Í beiðni sinni um yfirmat setur sóknaraðili fram að nýju fjórar af þeim fimm matsspurningum sem hann hafði beint til undirmatsmanna. Eru spurningar þessar nánast eins orðaðar utan þess að tilvísanir til síðara slyssins hafa verið felldar brott.

Í yfirmatsbeiðni varnaraðila voru spurningar orðaðar með nokkuð öðrum hætti en sóknaraðili hafði gert í matsbeiðni sinni í upphafi. Hins vegar þykir ljóst að yfirmatsgerð svarar öllum þeim spurningum sem fram eru settar í nýrri yfirmatsbeiðni sóknaraðila, að frátalinni spurningu um mat á miskastigi sóknaraðila samkvæmt dönskum töflum um miskastig. Er þá meðal annars haft í huga að ekki er unnt að kveða á um örorku og miska tjónþola vegna tiltekins slyss nema leysa um leið úr því hvaða áverka hann hafi hlotið við slysið. Talið verður að sönnunarfærsla um miskastig samkvæmt dönskum lögum sé bersýnilega tilgangslaus í skilningi 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 og verður hún því ekki heimiluð. Samkvæmt framansögðu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2005.

Sóknaraðili er Margrét Hallgrímsson, [kt.], Bræðraborgarstíg 13, Reykjavík, en varnaraðili er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., [kt.], Kringlunni 5, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að dómkvaddir verði tveir lögfræðingar og einn læknir til að framkvæma yfirmat á matsgerð Guðrúnar Karlsdóttur læknis og Páls Sigurðssonar lagaprófessors frá 14. júní 2004, hvað varðar niðurstöður matsspurninga merktum a, b, c, og e í matsbeiðninni á dómskjali 26, en 1, 2, 3 og 5 í matsgerðinni sjálfri.

Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila þar sem yfirmatsspurningum hafi þegar verið svarað í yfirmatsgerð, dagsettri 19. júlí 2005.

Sóknaraðili byggir á því að raunverulegt yfirmat hafi ekki farið fram.  Mat Ragnheiðar Bragadóttur héraðsdómslögmanns og læknanna Jónasar Hallgrímssonar og Stefáns Yngvasonar frá 19. júlí 2005 sé ekki slíkt yfirmat, þar sem ekki hafi verið beðið um yfirmat á fyrstu matsspurningunni, þ.e. hvaða áverka Margrét hefði fengið í umferðarslysinu 29. mars 2000.  Guðrún og Páll hafi metið það svo að áverkarnir væru eftirfarandi: 1) hálstognun, 2) vægur höfuðáverki, 3) væg tognun í mjóbaki og 4) væg tognun á hægra úlnlið og hendi.  Hafi þau metið þessa áverka eftir danskri miskatöflu og komist að eftirfarandi niðurstöðu: Afleiðingar hálstognunar með viðvarandi, meðalslæmum einkennum og með vægum einkennum höfuðáverka teljast 10%; afleiðingar tognunar í mjóbaki teljast 5-10%; afleiðingar tognunaráverka á hægri úlnlið og hendi teljast minni en 5%.  Samtals 20%.  Yfirmat á þessu mati liggi ekki fyrir.

             Þá byggir sóknaraðili á því að yfirmatsgerðin frá 19. júlí 2005 tilgreini ekki hvernig miskamatið er grundvallað.

             Að lokum byggir sóknaraðili á því að mat á varanlegri örorku sé ekki læknisfræðilegt mat, heldur fjárhagslegt.  Þegar til þess sé litið að við mat á varanlegri örorku, hinu fjárhagslega mati, hafi aðeins komið einn lögfræðingur, er fyrra matið fór fram, þ.e. Páll Sigurðsson, og einn, er svokallað yfirmat fór fram, eða Ragnheiður Bragadóttir, verði ekki séð að síðara matið sé yfirmat í þeim skilningi að tveir sérfróðir menn um fjárhagslega örorku hafi komið að hinu svokallaða yfirmati.  Sóknaraðili eigi því rétt á að biðja um yfirmat þar sem tveir lögfræðingar verði dómkvaddi til að meta varanlega örorku stefnanda.

 

Ályktunarorð:  Samkvæmt 64. gr. laga nr. 91/1991 getur aðili krafist yfirmats þar sem tekin verði til endurmats þau atriði sem hafa áður verið metin.  Varnaraðili byggir kröfu sína á því að með kröfu um yfirmat 8. desember 2004 og yfirmatsgerð, dags. 19. júlí 2005, hafi þessu réttarfarsúræði verið beitt að fullu og það metið sem meta skyldi samkvæmt dómkvaðningu og nægilega rökstutt.

             Yfirmatsbeiðnin var tekin fyrir á dómþingi 8. desember 2004.  Ekki verður ráðið af gögnum málsins að sóknaraðili hafi gert athugasemdir við orðalag og framkvæmd yfirmatsins fyrr en í ágúst 2005.  Gegn andmælum varnaraðila á þörf á frekara endurmati verður að telja að ný krafa um yfirmat af hálfu sóknaraðila sé of seint fram komin.

             Samkvæmt framangreindu verður kröfu sóknaraðila hafnað.

             Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

             Hafnað er kröfu sóknaraðila um að dómkvaddir verði tveir lögfræðingar og einn læknir til að framkvæma yfirmat á matsgerð Guðrúnar Karlsdóttur læknis og Páls Sigurðssonar lagaprófessors frá 14. júní 2004, hvað varðar niðurstöður matsspurninga merktum a, b, c, og e í matsbeiðninni á dómskjali 26, en 1, 2, 3 og 5 í matsgerðinni sjálfri.