Hæstiréttur íslands
Mál nr. 166/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 27. mars 2008. |
|
Nr. 166/2008. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Hjördís Hákonardóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. mars 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt endurrit skýrslu sem tekin var af varnaraðila hjá lögreglu 26. mars 2008 þar sem hann játar aðild að tveimur þeirra rána sem hann er grunaður um og nánar er lýst í hinum kærða úrskurði. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2008.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að kærði, X, [kt.], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. mars nk. kl. 16.
Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að miðvikudaginn 19. mars sl., um kl. 20:40, hafi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist tilkynning um rán á bifreiðastæði við verslun Select, Suðurfelli í Reykjavík. Árásarþoli, A, hafi skýrt frá því að hún hafi tekið út reiðufé í hraðbanka í versluninni. Hún hafi verið komin inn í bifreið sína, ásamt ellefu ára dóttur sinni, er maður, klæddur hvítri dúnúlpu hafi sest inn í bifreiðina. Maðurinn hafi haldið á sprautunál og hótað að stinga hana ef hún ekki léti hann fá veskið sitt. Hún hafi neitað að afhenda honum veskið og þær mæðgur komist út úr bifreiðinni og hafi maðurinn þá farið á brott.
Miðvikudaginn 19. mars sl., um kl. 20:56, hafi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist tilkynning um rán í versluninni King Kong í Eddufelli í Reykjavík. Tilkynnandi og starfsmaður verslunarinnar, B, hafi skýrt frá því að maður íklæddur rauðri hettupeysu og gallabuxum, hafi ráðist á viðskiptavin verslunarinnar, C, og reynt að hrifsa af henni veski. C hafi barist á móti og þau fallið í gólfið. C skýrði frá því að maðurinn hafi hótað að stinga hana með sprautunál ef hún léti hann ekki fá veskið. Hún hafi hins vegar haldið fast um veskið og hann því ekki náð því af henni. Hann hafi þá næst farið inn fyrir afgreiðsluborð verslunarinnar og ógnað starfsmanni verslunarinnar með sprautunál, opnað sjóðsvél verslunarinnar og tæmt hana. Að því búnu hafi hann yfirgefið verslunina.
Fimmtudaginn 20. mars sl., um kl. 12:02, hafi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist tilkynning um rán í söluturninum Leifasjoppu. Tilkynnandi D hafi skýrt frá því að maður íklæddur ljósri hettupeysu, dökkum jakka og brúnum buxum, hafi komið inn í verslunina og farið inn fyrir afgreiðsluborðið, þar sem hann ógnað sér með notaðri sprautunál og opnað sjóðsvél verslunarinnar og tekið peninga úr henni. Þá hafi maðurinn krafið tilkynnanda um að opna aðra sjóðsvél, sem hann og gerði og á maðurinn einnig að hafa tekið fjármuni úr þeim kassa. Að því búni hafi maðurinn yfirgefið söluturninn.
Í dag, um kl. 11:02, hafi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist tilkynning um rán í verslun Select við Suðurfell í Reykjavík. Vitni sem stödd hafi verið á vettvangi skýrðu frá því að þrír aðilar hafi staðið að ráninu. Hafi þau skýrt frá því að maður klæddur í svartan jakka, með svarta húfu hafi komið inn fyrir afgreiðsluborðið og haldið á sprautunál og þannig ógnað starfsfólki verslunarinnar. Hafi maður þessi náð að opna sjóðsvél verslunarinnar og tekið þaðan um 65.000 krónur í reiðufé og tvö karton af Winston sígarettum.
Stuttu síðar hafi E verið handtekinn skammt frá vettvangi. Hafi vitni borið kennsl á E sem einn af þeim þremur sem frömdu ránið í Select. Hafi E skýrt lögreglu frá því að hinir tveir árásarmennirnir væru staddir í íbúð að F, merkt [...]. Hafi lögreglumenn farið að íbúðinni, þar sem kærði G og X hafi verið handteknir.
Við húsleit í íbúð G hafi fundist munir sem taldir eru stafa frá ofangreindum ránum, þá hafi lögregla fundið fatnað sem kemur heim og saman við fatnað ofangreindra árásarmanna.
Í skýrslutöku af kærða nú fyrr í dag hafi hann neitað aðild að ofangreindum brotum. Hann hafi kvaðst dvelja í íbúð G, en hafi enga skýringu gefið á því hvernig munir sem taldir séu tengjast þessum málum hafi komist inn á heimili hans.
Rannsókn málsins sé á frumstigi. Það sé því afar brýnt að lögregla fái svigrúm til að ljúka rannsókn málanna, en nú liggur fyrir lögreglu að taka frekari skýrslur af vitnum og afla annarra sönnunargagna. Kærði sé sterklega grunaður um brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga 19, 1940 og á yfir höfði sér fangelsisrefsingu verði hann sekur fundinn.
Í ljósi ofangreinds er það mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt, enda er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við og að ætla megi, gangi hann frjáls ferða sinna, að hann kunni að torvelda rannsókn málsins, s.s. með undanskoti sönnunargagna eða hafi áhrif á vitni og eða aðra sakborninga.
Kærði er undir rökstuddum grun um að eiga aðild að framangreindum ránum. Samkvæmt 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 getur refsing varðað allt að 16 ára fangelsi. Rannsókn málsins er á frumstigi. Fyrir liggur að það á eftir að yfirheyra vitni og afla frekari sönnunargagna. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, svo sem haft áhrif á framburð vitna og annarra sakborninga. Með vísan til framangreinds er fallist á að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
X, [kt.], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. mars nk. kl. 16.