Hæstiréttur íslands
Mál nr. 33/2005
Lykilorð
- Opinberir starfsmenn
- Brottrekstur úr starfi
- Stjórnsýsla
- Skaðabótamál
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 22. september 2005. |
|
Nr. 33/2005. |
Skúli B. Árnason(Guðni Á. Haraldsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl. Ása Ólafsdóttir hdl.) og gagnsök |
Opinberir starfsmenn. Frávikning úr starfi. Stjórnsýsla. Skaðabótamál. Sératkvæði.
S var veitt lausn um stundarsakir úr embætti deildarstjóra tollgæslunnar á Selfossi vegna gruns um að hann hefði átt aðild að tolla- og hegningarlagabrotum í tengslum við tollafgreiðslu á nánar tilgreindum bifreiðum. Hann var ákærður fyrir hluta af þessum sakargiftum og fyrir brot í opinberu starfi. Áður en dómur var lagður á sakarefnið var ákveðið að víkja S úr embætti að fullu á grundvelli 2. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanan ríkisins en þá hafði nefnd skv. 27. gr. sömu laga komist að þeirri niðurstöðu að rétt hefði verið að leysa hann frá starfi um stundarsakir. S var sýknaður af þeim atriðum sem hann var ákærður fyrir með dómi Héraðsdóms Suðurlands og í kjölfarið krafði hann íslenska ríkið um bætur fyrir ólögmæta frávikningu. Það var mat réttarins að staðið hefði verið rétt að lausn S úr starfi um stundarsakir. Þá var talið að með þeirri háttsemi, sem vísað hafði verið til þegar S var leystur frá starfi, og sakargiftir í refsimálinu tóku ekki til, hefði hann virt að vettugi skýrar reglur sem giltu um tollafgreiðslu á innfluttum vörum eða sendingum. Var um margítrekuð afglöp af sama toga að ræða sem ekki var unnt að rekja til reynsluleysis S. Varð hann með þessu uppvís að stórfelldri og ítrekaðri vanrækslu og hirðuleysi í starfi sínu og brást því trausti, sem honum var sýnt. Að þessu virtu var á það fallist að heimilt hafi verið að víkja S úr embætti að fullu. Íslenska ríkið var því sýknað af kröfum S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Guðrún Erlendsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. janúar 2005. Hann krefst þess aðallega að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 27.141.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. apríl 2004 til greiðsludags, en til vara 13.676.640 krónur með vöxtum eins og í aðalkröfu. Þá krefst hann staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um málskostnað og að gagnáfrýjanda verði gert að greiða honum málskostnað fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 9. mars 2005 og krefst aðallega sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að bótafjárhæð samkvæmt héraðsdómi verði lækkuð, en að því frágengnu að stefnukrafa aðaláfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður á báðum dómstigum látinn falla niður.
I.
Aðaláfrýjandi var ráðinn deildarstjóri hjá sýslumanninum á Selfossi með samningi 6. og 10. júní 1994, en í stefnu til héraðsdóms kemur fram að hann hafi starfað við embættið allt frá árinu 1984. Samkvæmt ákvæði, sem nú er að finna í 8. tl. 22. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, taldist aðaláfrýjandi til embættismanna. Vann hann við tollafgreiðslu og tollgæslu og var eini starfsmaður tollgæslunnar á Selfossi.
Hinn 4. nóvember 2002 tók lögregla skýrslu af aðaláfrýjanda, en tilefni þess var kæra Sparisjóðs Hafnarfjarðar á hendur A og fleiri mönnum vegna ætlaðra auðgunarbrota í tengslum við innflutning bifreiðarinnar MR 159, sem hafði orðið fyrir tjóni áður en hún var tollafgreidd á Selfossi. Var aðaláfrýjanda gerð grein fyrir að rannsókn beindist einnig að honum, en engin skoðunarskýrsla á bifreiðinni lægi fyrir og hún hafi ekki verið skráð í tollflokk nr. 70 fyrir laskaðar bifreiðir, eins og vera ætti. Slíkri skráningu mun ætlað að tryggja eftirlit með því að gjöld vegna aðvinnslu við skemmdar bifreiðir skili sér í ríkissjóð. Kannaðist aðaláfrýjandi við að hafa tollafgreitt bifreiðina. Hinn 7. nóvember 2002 var enn tekin lögregluskýrsla af aðaláfrýjanda og í það sinn vegna innflutnings áðurnefnds A á 24 notuðum bifreiðum frá Bandaríkjunum, sem tollafgreiddar höfðu verið á Selfossi. Segir í lögregluskýrslunni að með ætluðum tollalagabrotum við innflutning þessara bifreiða hafi innflytjandinn komist hjá að greiða 10.219.481 krónu í aðflutningsgjöld, vörugjald og virðisaukaskatt. Einnig greinir þar að aðaláfrýjanda hafi verið sýndar aðflutningsskýrslur, sem útbúnar voru vegna tollafgreiðslu bifreiðanna, sem hann kannaðist við að hafa tekið við frá innflytjandanum og útbúið fyrir hann tvær þeirra. Þeim fylgdu ekki vörureikningar, heldur hafði innflytjandinn lagt fram skjöl við tollafgreiðslu bifreiðanna, sem báru með sér að vera kvittanir fyrir innborgun á vöruna. Voru aðaláfrýjanda sýnd þessi skjöl. Svaraði hann neitandi þeirri spurningu lögreglu hvort hann teldi forsvaranlegt að tollafgreiða bifreiðir á grundvelli slíkra skjala, en hann hafi leitað til starfsmanna tollstjórans í Reykjavík og ríkistollstjóra varðandi þessar kvittanir og fengið „grænt ljós“ á að tollafgreiða mætti vöruna út á þær. Ekki kvaðst hann geta nafngreint neinn mann sérstaklega, sem hann leitaði til. Við skýrslugjöf hjá lögreglu umrætt sinn var aðaláfrýjandi loks yfirheyrður um tollafgreiðslu 6 bifreiða, sem taldar voru laskaðar við innflutning og hefði því átt að skrá í tollflokk 70, sem þó hafi ekki verið gert. Taldi lögregla jafnframt að innflytjandinn, sem var áðurnefndur A, hafi lagt fram falsaða vörureikninga við tollafgreiðslu bifreiðanna og þannig komist hjá að greiða háar fjárhæðir í aðflutningsgjöld.
Eftir framangreinda skýrslugjöf hjá lögreglu í byrjun nóvember 2002 var aðaláfrýjandi frá vinnu samkvæmt ákvörðun sýslumanns. Sá síðarnefndi veitti aðaláfrýjanda lausn úr starfi um stundarsakir 20. janúar 2003 og var í lausnarbréfinu tekið fram að aðaláfrýjandi væri grunaður um tollalaga- og hegningarlagabrot, sem nánar var lýst og vísað til áðurnefndra lögregluskýrslna. Jafnframt ritaði sýslumaður fjármálaráðuneytinu bréf samdægurs og óskaði eftir að aðaláfrýjanda yrði strax vikið úr embætti að fullu, en auk þess fór hann þess á leit við fjársýslu ríkisins að aðaláfrýjandi yrði strax tekinn af launaskrá. Ráðuneytið varð ekki við ósk sýslumanns. Í bréfi þess til fjársýslu ríkisins 3. febrúar 2003 kom fram að ráðuneytið hefði málið nú til meðferðar og ákvörðunar væri að vænta síðar í sama mánuði, en á meðan skyldi aðaláfrýjandi ekki tekinn af launaskrá. Þann 26. febrúar 2003 veitti ráðuneytið aðaláfrýjanda síðan lausn úr embætti um stundarsakir. Var málið jafnframt sent nefnd sérfróðra manna samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996 til meðferðar. Samhljóða niðurstaða nefndarmanna 27. maí 2003 varð sú að þau brot, sem aðaláfrýjandi var grunaður um þegar ákvörðun var tekin um lausn hans úr embætti um stundarsakir, væru ósamboðin embættismanni í tollgæslunni, sérstaklega þar sem um væri að ræða yfirmann með langa starfsreynslu. Í ljósi stöðu og starfssviðs aðaláfrýjanda væru slík brot sérlega alvarleg. Ef sönn reyndust leiddu þau til þess að hann teldist ekki verður eða hæfur til að vera deildarstjóri í tollgæslunni, sbr. 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var það álit nefndarmanna að fjármálaráðuneytinu hefði verið rétt að veita aðaláfrýjanda lausn úr embætti um stundarsakir.
Með ábyrgðarbréfi 26. júní 2003 tilkynnti fjármálaráðuneytið aðaláfrýjanda að það hygðist víkja honum úr embætti að fullu af ástæðum, sem nánar var getið í bréfinu. Var honum gefinn frestur til andmæla. Aðaláfrýjandi vitjaði ekki bréfsins og nýtti sér ekki þann frest til andmæla, sem veittur var. Var honum við svo búið vikið úr embætti að fullu með bréfi ráðuneytisins 25. júlí 2003. Um ástæður fyrir brottvikningu var vísað til áðurnefnds álits sérfróðra manna og þess, sem kom fram í lögregluskýrslu 7. nóvember 2002. Byggðust forsendur frávikningarinnar ekki einungis á ætlaðri refsinæmri háttsemi aðaláfrýjanda, heldur einnig að með athæfi sínu hafi hann brotið gegn starfsskyldum sínum samkvæmt 14. gr. laga nr. 70/1996 þar sem hann hafi ekki rækt starf sitt af þeirri alúð og samviskusemi, sem krefjast varð af honum sem yfirmanni við tollgæsluna á Selfossi.
Ríkissaksóknari höfðaði mál á hendur aðaláfrýjanda 2. júlí 2003. Sakargiftir samkvæmt ákæru voru meðal annars þær að hann hafi gerst sekur um skjalafals og brot í opinberu starfi á árunum 1997 og 1998 við tollmeðferð á sjö tilgreindum bifreiðum, sem hafi verið óökufærar vegna skemmda, með því að forskrá þær ranglega í tölvukerfi Skráningarstofunnar hf. í gjaldflokk 00 fyrir óskemmdar bifreiðir í stað gjaldflokks 70 og með því að hafa ekki útfyllt eyðublað ríkistollstjóra um skoðun og lýsingu á skemmdum á bifreiðunum. Hafi aðaláfrýjandi með þessu gert innflytjandanum kleift að komast hjá greiðslu aðflutningsgjalda vegna aðvinnslu við nýskráningu þeirra. Voru brotin talin varða við 1. og 3. mgr. 158. gr., 138. gr. og 141. gr. a almennra hegningarlaga. Var um að ræða þær sex bifreiðir, sem að framan var getið í tengslum við skýrslu aðaláfrýjanda hjá lögreglu 7. nóvember 2002 auk bifreiðarinnar MR 159, sem lögregluskýrsla 4. sama mánaðar tók til. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 23. desember 2003 var aðaláfrýjandi sýknaður af þessum sakargiftum. Um þrjú elstu tilvikin var tekið fram í forsendum dómsins að þær bifreiðir hafi verið tollafgreiddar fyrir setningu laga nr. 30/1998, en með þeim var 158. gr. almennra hegningarlaga breytt á þann veg að rangar tilgreiningar í opinberu skjali eigi einnig við um rangfærslu og notkun upplýsinga og gagna, sem geymd eru á tölvutæku formi. Samkvæmt dóminum gat umrædd lagagrein, eins og hún var áður en henni var breytt, ekki tekið til þessara tilvika. Að því er varðar hinar fjórar bifreiðirnar þóttu sakargiftir ósannaðar og var því einnig sýknað af þeim. Ákæruvaldið undi þessum dómi.
Í málinu krefst aðaláfrýjandi skaðabóta og miskabóta vegna lausnar úr starfi um stundarsakir og brottvikningar að fullu og telur að skilyrði hafi í hvorugu tilvikinu verið uppfyllt til að svipta mætti hann því opinbera starfi, sem hann gegndi. Telur hann bæði að meðferð sýslumanns á málinu hafi verið andstæð lögum og að ekki hafi mátt vísa því til nefndar samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996 á sama tíma og það var hjá lögreglu. Þá sé sannað með sýknudómi Héraðsdóms Suðurlands að ásakanir á hendur honum hafi ekki átt rétt á sér. Gagnáfrýjandi krefst sýknu og telur að rétt og skylt hafi verið að bregðast við háttsemi aðaláfrýjanda með þeim hætti, sem gert var, og að framangreindur dómur Héraðsdóms Suðurlands fái engu um það breytt. Við mat á því hvort ávirðingar réttlæti frávikningu að fullu verði þess ekki krafist að opinbert mál sé höfðað, sem taki til háttseminnar, né að refsivert athæfi sé sannað í sakamáli. Úrslitum ráði hvort opinber starfsmaður hafi sýnt af sér háttsemi, sem sé ósamrýmanleg því starfi er hann gegndi. Á það verði að leggja sjálfstætt mat í einkamáli, sbr. til hliðsjónar t.d. dóm Hæstaréttar 1997 á bls. 490 í dómasafni í máli nr. 110/1996 og dóm 1999 á bls. 4247 í dómasafni í máli nr. 132/1999. Málsatvikum og málsástæðum aðilanna er að öðru leyti nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.
II.
Í dómi héraðsdóms var lagt til grundvallar að rétt hafi verið staðið að lausn aðaláfrýjanda úr starfi um stundarsakir. Með vísan til forsendna dómsins verður staðfest niðurstaða hans um þann þátt málsins.
Ákvæði um brottvikningu embættismanns úr starfi að fullu er að finna í 29. gr. laga nr. 70/1996. Samkvæmt 2. mgr. hennar skal víkja embættismanni úr starfi að fullu ef meiri hluti nefndar samkvæmt 27. gr. laganna kemst að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið að víkja honum frá störfum um stundarsakir nema þær ávirðingar, sem honum voru gefnar að sök, hafi ekki reynst vera fyrir hendi. Áður hefur verið getið niðurstöðu nefndar sérfróðra manna í máli aðaláfrýjanda. Kemur þá til álita hvernig sá fyrirvari, sem settur er í niðurlagi 2. mgr. 29. gr. laganna, horfir hér við.
Í I. kafla að framan var meðal annars greint frá því, sem fram kemur í lögregluskýrslu 7. nóvember 2002 um 24 bifreiðir, sem aðaláfrýjandi tollafgreiddi án þess að vörureikningi væri framvísað með aðflutningsskýrslu. Fram er komið að þær voru tollafgreiddar á tímabilinu janúar til október 1998. Ekki er annað fram komið við meðferð málsins en að lýsing í lögregluskýrslu á þessum þætti málsins sé rétt. Ákæra ríkissaksóknara tók ekki til háttsemi aðaláfrýjanda, sem að þessu laut.
Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. tollalaga nr. 55/1987 skal innflytjandi afhenda tollyfirvaldi frumrit eða samrit af vörureikningi yfir hina innfluttu vöru eða sendingu þegar afhendingar aðflutningsskýrslu er krafist samkvæmt 14. gr. laganna. Undantekningu frá þessu má þó gera samkvæmt 2. mgr. 18. gr. með áorðnum breytingum þegar verðmæti vöru er óverulegt eða hún er augljóslega ekki ætluð til sölu hér á landi, til dæmis þegar um persónulega muni er að ræða. Skylda til að láta vörureikning fylgja aðflutningsskýrslu kemur einnig fram í 5. gr. reglugerðar nr. 228/1993 um tollskýrslur og fylgiskjöl þeirra og í 6. gr. hennar er tilgreint í átta liðum hvaða upplýsingar skuli koma fram í vörureikningi, en þar á meðal er söluverð einstakra vörutegunda og greiðsluskilmálar. Þá voru í dreifibréfi ríkistollstjóra 19. ágúst 1996 til allra tollstjóra og sýslumanna kynntar sérstakar verklagsreglur um tollmeðferð notaðra ökutækja, en samkvæmt þeim skyldi eftirlit einkum beinast að trúverðugleika þeirra upplýsinga, sem innflytjandi veitir í aðflutningsskýrslu og öðrum skjölum. Skal ávallt krefja innflytjanda um frumrit vörureiknings, en nánari fyrirmæli voru sett um að reikningsverð ökutækis skyldi borið saman við viðmiðunarverð í viðurkenndum handbókum frá innkaupslandinu.
Skjöl, sem báru með sér að vera kvittanir fyrir innborgun á kaupverði 24 bifreiða, voru ekki vörureikningar samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Aðaláfrýjandi virti þannig að vettugi þær skýru reglur, sem um þetta giltu, og ætlað er meðal annars að tryggja að rétt verð sé lagt til grundvallar við álagningu gjalda á vöruna. Við mat á því hvernig aðaláfrýjandi rækti skyldur sínar að þessu leyti verður ekki litið framhjá því að hann gegndi ábyrgðarstarfi, þar sem ríkar kröfur eru gerðar til vandvirkni í hvívetna. Ekki var um að ræða yfirsjón í eitt eða fá skipti, heldur margítrekuð afglöp af sama toga, en telja verður það meðal frumskyldna starfsmanna tollgæslu að ganga úr skugga um að vara sé tollafgreidd á grundvelli þeirra skjala, sem mælt er fyrir um í lögum. Þá varð reynsluleysi í starfi ekki um kennt hvernig til tókst. Hann varð þannig uppvís að stórfelldri og ítrekaðri vanrækslu og hirðuleysi í starfi sínu og brást því trausti, sem honum var sýnt. Að þessu virtu verður fallist á með gagnáfrýjanda að afglöp aðaláfrýjanda í starfi hafi verið svo alvarleg að heimilt hafi verið að víkja honum úr embætti að fullu. Sú viðbára hins síðarnefnda er ósönnuð og haldlaus að hann hafi fengið heimild frá ónafngreindum starfsmönnum ríkistollstjóra eða tollstjórans í Reykjavík til að standa að verki eins og hann gerði. Samkvæmt því verður gagnáfrýjandi sýknaður af kröfum aðaláfrýjanda.
Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum aðaláfrýjanda, Skúla B. Árnasonar.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
hæstaréttardómara
Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi hófst í byrjun nóvember 2002 lögreglurannsókn á hendur aðaláfrýjanda vegna gruns um að hann hefði í starfi sínu sem deildarstjóri tollgæslunnar á Selfossi gerst sekur um refsiverð brot gegn tollalögum nr. 55/1987 og XIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Tengdust öll hin ætluðu brot innflutningi á vegum A á notuðum bifreiðum, aðallega á árinu 1998, en hann var grunaður um að hafa gerst sekur um skalafals og tollsvik í því skyni að losna undan greiðslu aðflutningsgjalda í ríkissjóð. Var að svo stöddu ekki óskað eftir að aðaláfrýjandi mætti til starfa sinna. Með bréfi fjármálaráðherra 26. febrúar 2003 var honum síðan veitt lausn um stundarsakir úr embætti. Í bréfinu var vísað til 2. málsliðar 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem segir að veita megi embættismanni lausn um stundarsakir ef hann er grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga. Væri ekki skylt að gefa aðaláfrýjanda kost á að tjá sig um ástæður lausnarinnar áður en hún tæki gildi, sbr. 3. málslið 4. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996.
Eftir að nefnd samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996 hafði komist að þeirri niðurstöðu í álitsgerð 27. maí 2003, að fjármálaráðuneytinu hefði verið rétt að veita aðaláfrýjanda lausn um stundarsakir, tilkynnti ráðuneytið honum með bréfi 25. júlí 2003, að honum væri, með vísan til 2. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996, vikið að fullu úr embætti deildarstjóra tollgæslunnar á Selfossi frá og með 1. ágúst 2003. Í bréfinu var meðal annars vísað til álits nefndarinnar og þess að aðaláfrýjandi hefði, við skýrslugjöf hjá ríkislögreglustjóra 7. nóvember 2002, viðurkennt ítrekað mjög alvarlegar yfirsjónir í starfi. Teldi ráðuneytið að hann hefði „nánast viðurkennt“ að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi sem ætla mætti að hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga. Einnig var tekið fram í bréfinu að ríkissaksóknari hefði gefið út ákæru sem hefði verið birt aðaláfrýjanda og hefði opinbert mál á hendur honum verið þingfest fyrir Héraðsdómi Suðurlands. Væri það mat ráðuneytisins að hann hefði með háttsemi sinni í starfi m.a. brotið í bága við ákvæði 14. gr. laga nr. 70/1996 um almennar starfsskyldur starfsmanna ríkisins, þar sem segði að starfsmönnum bæri að rækja starf sitt af alúð og samviskusemi í hvívetna. Jafnframt væri það mat ráðuneytisins, að ávirðingar þær sem aðaláfrýjanda væru gefnar að sök ættu við rök að styðjast og að hann hefði með atferli sínu í starfi, sem fjallað væri um í lögregluskýrslum ríkislögreglustjóra í málinu, brugðist því trausti sem gera mætti til háttsetts embættismanns í tollgæslunni.
Ég er sammála meirihluta réttarins um, að lagaskilyrði hafi verið uppfyllt fyrir því að veita aðaláfrýjanda lausn um stundarsakir þann 26. febrúar 2003 á þeim forsendum sem til var vísað. Öðru máli gegnir um skilyrðin til lausnar að fullu sem tilkynnt var áfrýjanda 25. júlí 2003. Skal það nú skýrt frekar.
Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 skal víkja embættismanni úr embætti að fullu ef meirihluti nefndar samkvæmt 27. gr. laganna kemst að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið að víkja honum frá störfum um stundarsakir nema þær ávirðingar, sem honum voru gefnar að sök, hafi ekki reynst vera fyrir hendi. Hér er til athugunar hvort gagnáfrýjanda hafi tekist að sanna, að ávirðingarnar sem ollu brottvikningunni um stundarsakir hafi reynst vera fyrir hendi. Ljóst er að meginástæða fjármálaráðherra fyrir þeirri ákvörðun var grunur um þátttöku aðaláfrýjanda í ætluðu skjalafalsi og tollsvikum, enda var þá tekið fram að aðaláfrýjandi nyti ekki andmælaréttar, þar sem háttsemi hans var talin geta varðað réttindasviptingu samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga, en skilyrði hennar er að refsiverður verknaður hafi verið framinn. Fjármálaráðherra ákvað að víkja aðaláfrýjanda úr starfi að fullu án þess að bíða niðurstöðu í því opinbera máli, sem hafði verið höfðað á hendur honum vegna hluta þeirra ávirðinga sem orðið höfðu tilefni lögreglurannsóknarinnar haustið 2002. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 23. desember 2003 var aðaláfrýjandi sýknaður af þeim brotum sem hann hafði verið ákærður fyrir. Aðrar ætlaðar ávirðingar hans, sem raktar eru í héraðsdómi, leiddu ekki til opinberrar málsóknar á hendur honum. Við mat á þessu nú er óhjákvæmilegt að leggja til grundvallar, að áfrýjandi sé að öllu leyti saklaus af refsiverðri háttsemi, enda hafa engin refsiverð brot sannast á hendur honum. Frá upphafi hafa aðgerðir gagnáfrýjanda gegn aðaláfrýjanda helgast svo sem áður sagði fyrst og fremst af því að hann væri grunaður um refsiverða háttsemi í starfi sínu, þar með talið brot gegn almennum hegningarlögum, og miðaðist málsmeðferð við það. Þá verður bréf fjármálaráðuneytisins til aðaláfrýjanda 25. júlí 2003 um lausn að fullu vart skilið á annan veg en þann, að ráðuneytið hafi lagt sjálfstætt mat á ávirðingar hans með þeirri niðurstöðu að þær væru refsiverðar.
Gagnáfrýjandi hefur haldið því fram, að heimilt kunni að vera að víkja embættismanni úr starfi að fullu án þess að honum hafi áður verið veitt áminning samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996, ef um sérlega alvarlegar ávirðingar sé að ræða, jafnvel þó að þær hafi ekki leitt til saksóknar og sakfellingar fyrir refsiverða háttsemi. Fallast má á, að slíkt sé ekki útilokað. En til þess að til greina komi að fallast á kröfu í dómsmáli sem á þessu byggir, hlýtur sá sem hana gerir að þurfa að færa fram fullnægjandi sönnunargögn um hinar ætluðu ávirðingar, auk þess sem hann þarf að sanna að ávirðingarnar séu þess eðlis að þær réttlæti slíkt, jafnvel þó að lagt sé til grundvallar að embættismaður hafi ekki brotið gegn refsilögum. Í þessu máli skortir verulega á að gagnáfrýjandi hafi uppfyllt þessa sönnunarskyldu. Þótt leggja megi til grundvallar að aðaláfrýjandi hafi brotið gegn starfsskyldum sínum er hann tollafgreiddi þær 24 bifreiðar sem um er fjallað í málinu, felst í því verulegur annmarki af hálfu gagnáfrýjanda að hafa ekki lagt fram greiðsluskjölin, sem aðaláfrýjandi á að hafa tekið gild í stað vörureikninga í þessum tilvikum. Dómurinn hefur þannig ekki átt þess kost að taka afstöðu til þeirra og hvort aðaláfrýjandi kunni að eiga sér málsbætur varðandi meðferð þeirra. Þá hefur heldur ekki verið lagt fram í málinu rangt vottorð sem aðaláfrýjandi á að hafa gefið Sparisjóði Hafnarfjarðar varðandi skráningu bifreiðarinnar MR-159 og nefnt er í hinum áfrýjaða dómi. Það brot, ef sannað væri, teldist að auki smávægilegt enda mun vera um að ræða vottorð um atriði sem auðvelt er fyrir hvern sem er að fá upplýsingar um í opinberum skrám. Gagnáfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að ríkissjóður hafi orðið fyrir fjárhagslegum skaða vegna starfa aðaláfrýjanda. Þá skiptir enn máli við mat á þessu, hversu langur tími var liðinn síðan aðaláfrýjandi á að hafa gerst sekur um þessar misfellur í starfi sínu, en nær allur innflutningurinn átti sér stað á árinu 1998, meira en fjórum árum áður en rannsóknin á hendur aðaláfrýjanda hófst. Aðaláfrýjandi hefur haldið því fram, að hann hafi leitað til starfsmanna tollstjórans í Reykjavík eða ríkistollstjóra og fengið þar leiðbeiningar um að honum væri heimilt að tollafgreiða bifreiðarnar á þeim grundvelli sem um ræðir. Þó að þetta sé ósannað í málinu er samt á hitt að líta, að ekki komu fram athugasemdir eftirá við umrædda starfshætti aðaláfrýjanda, þrátt fyrir að störf aðaláfrýjanda hafi verið undir eftirliti ríkistollstjóra samkvæmt 2. mgr. 32. gr. tollalaga nr 55/1987, svo sem ákvæðið hljóðaði á þessum tíma, en hlutverk hans var meðal annars að gæta þess að tollframkvæmd væri í samræmi við lög og reglur. Er ekki útilokað að aðaláfrýjandi hafi fremur talið þetta vera í lagi, þar sem honum bárust ekki slíkar athugasemdir jafnóðum eftirá.
Þegar á allt þetta er litið tel ég að gagnáfrýjanda hafi ekki tekist að sanna að ávirðingar aðaláfrýjanda hafi verið aðrar og meiri en svo að þær falli undir 21. gr. laga nr. 70/1996. Hinar alvarlegri ávirðingar sem hann var grunaður um og réttlættu frávikningu um stundarsakir án áminningar hafa ekki sannast. Hefur gagnáfrýjandi þannig ekki getað sýnt fram á að lagaskilyrði hafi verið til þess að víkja aðaláfrýjanda að fullu úr embætti. Gagnáfrýjandi tók á sig áhættu af því að svipta aðaláfrýjanda embætti meðan gengið var úr skugga um þetta. Ber gagnáfrýjanda því að mínum dómi að greiða aðaláfrýjanda bætur samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laga nr. 70/1996 vegna embættismissis hans. Með því að meirihluti dómenda hefur komist að annarri niðurstöðu um þetta er ekki ástæða til að ég fjalli um bótafjárhæðir eða málskostnað.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október 2004.
Stefnandi málsins er Skúli Björn Árnason, kt. 170747-2399 til heimilis að Tannastöðum, Árnessýslu, en stefndi er íslenska ríkið. Málið er höfðað með stefnu, dagsettri 23. mars sl., sem árituð var af ríkislögmanni 29. sama mánaðar. Málið var þingfest hér í dómi 6. apríl sl.
Það var dómtekið 18. október sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.
Dómkröfur:
Dómkröfur stefnanda eru þessar:
1. Aðallega að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmt til þess að greiða honum skaðabætur að fjárhæð kr. 27.141.000, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6.gr. laga nr. 38/2000 frá þingfestingardegi til greiðsludags.
2. Til vara, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 13.676.640., með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6.gr. laga nr. 38/2000 frá þingfestingardegi til greiðsludags.
3. Að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað skv. framlögðum málskostnaðarreikningi, sem byggður sé á gjaldskrá Löggarðs ehf.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins.
Til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar á stefnukröfum og að málskostnaður verði látinn niður falla.
Málavextir.
Stefnandi gegndi starfi deildarstjóra tollgæslunnar á Selfossi og var ráðinn til þess starfa með ráðningarsamningi, sem hlaut staðfestingu fjármálaráðuneytis 6. júní 1994. Áður hafði hann starfað við tollgæslu um tíu ára skeið hjá Sýslumannsembættinu á Selfossi. Í ráðningarsamningnum segir, að gagnkvæmur uppsagnarfrestur skuli vera þrír mánuðir og um réttindi og um skyldur hans fari að lögum og reglum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að svo miklu leyti sem ekki sé á annan veg mælt í ráðningarsamningnum. Með lögum nr. 70/1996 (eftirleiðis starfsmannalög) fékk stefnandi stöðu embættismanns, sbr. 7. tl. 22. gr. (nú 8.tl.) og síðar með lögum nr. 8/1998 var sú breyting gerð á tollalögum nr. 55/1987, að ráðherra skyldi skipa aðaldeildarstjóra og deildarstjóra tollgæslu til 5 ára. Það átti sér ekki stað að því er stefnanda varðar.
Sunnudaginn 3. nóvember 2002 birtist frétt í Morgunblaðinu um rannsókn lögreglu á mögulegum tollsvikum í tengslum við afgreiðslu notaðra bifreiða, sem tollafgreiddir höfðu verið á Selfossi. Fyrirsögn fréttarinnar var „Tollvörður grunaður um aðild að svikum.“ Daginn áður hafði frétt sama efnis birst á vefsíðu Morgunblaðsins.
Stefnandi var yfirheyrður af starfsmönnum efnahagsdeildar ríkislögreglustjóra mánudaginn 4. nóvember. Í skýrslu lögreglu segir, að tilefnið sé kæra frá Lögmönnum Thorsplani f.h. Sparisjóðs Hafnarfjarðar á hendur A o.fl. vegna ætlaðra auðgunarbrota í tengslum við bifreiðina MR-159, sem fólust í innflutningi, tollafgreiðslu, skráningu og veðsetningu hennar. Stefnanda var gerð grein fyrir því, að rannsóknin beindist að honum vegna meintra brota á tollalögum og vegna brots í opinberu starfi. Stefnanda var tjáð, að gögn málsins sýndu, að um tjónabifreið hafi verið að ræða, en engin skoðunarskýrsla lægi fyrir og ekki komi fram í ferilskrá bifreiðarinnar að hún hafi verið skráð í skattflokk 70, eins og vera ætti. Stefnandi kannaðist við að hafa tollafgreitt bifreiðina og taldi, að rétt hefði verið að skrá hana í skattflokk 70. Hann taldi sig hafa útfyllt skoðunarskýrslu og hafa tekið af henni ljósmyndir, sem hann óskaði eftir að fá að kanna á skrifstofu sinni hvort fyndust. Var það veitt, en gögnin fundust ekki. Hinn 7. nóvember var stefnandi aftur kvaddur til yfirheyrslu hjá lögreglu, nú vegna innflutnings A á 24 notuðum bifreiðum frá Bandaríkjunum í nafni X ehf., sem tollafgreiddar hefðu verið á Selfossi, m.a áðurnefndri bifreið MR-159. Við þá skýrslugjöf taldi stefnandi ástæðu þess, að ekki var gerð skoðunarskýrsla við tollafgreiðslu síðastgreindrar bifreiðar, að bifreiðin hafi orðið fyrir tjóni við flutning hennar til landsins og Könnun hf. hafi skoðað hana og metið skemmdir. Því hafi bifreiðin ekki verið skráð í tollflokk 70. Í lögregluskýrslunni segir einnig, að tilefni hennar tengist grun um ætluð brot stefnanda á tollalögum og 14. kafla alm. hegningarlaga að því er varðar forskráningu, vöruskoðun og tollafgreiðslu bifreiðanna, sem hafi orðið þess valdandi, að innflytjandi þeirra hafi komist hjá að greiða aðflutningsgjöld, vörugjöld og virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð 10.129.418 kr. Stefnandi staðfesti, að hann hefði móttekið aðflutningsskýrslur vegna allra þessara bifreiða. Fram kemur í skýrslu lögreglu, að enginn þeirra reikninga, sem innflytjandi hafði lagt fyrir stefnanda, hafi verið fullnægjandi, þar sem þeir séu ýmist merktir „DEPOSIT SLIP“ eða „Lade Model Rebuildables & Repossessions“, en enginn merktur „SALES INVOICE“ eða vörureikningur, eins og lögboðið sé. Stefnandi kvaðst viðurkenna, að þessi vinnubrögð væru ekki forsvaranleg, en hann hefði leitað til starfsmanna tollstjórans í Reykjavík og ríkistollstjóra um leiðbeiningar í þessu sambandi og fengið hjá þeim grænt ljós á afgreiðsluna. Hafi hann sent viðkomandi starfsmönnum þessara embætta umrædda reikninga í símbréfi (faxi). Ekki gat hann eða vildi tilgreint hverjir þetta voru. Reikningar og gögn vegna sex bifreiða voru sérstaklega borin undir stefnanda og og hann inntur eftir því, hverju það sætti, að viðkomandi bifreið hafi ekki verið skráð sem tjónabifreið í skattflokk 70 og ástæðu þess að skoðunarskýrsla hafi ekki verið gerð. Stefnandi gaf þær skýringar, að í sumum tilvikum hafi viðkomandi bifreið verið með óverulegan útlitsgalla og hafi því staðist skráningarskilyrði. Þegar svo stæði á hafi ekki verið talin þörf á því að gera skoðunarskýrslu og skrá hana í skattflokk 70, en í öðrum tilvikum taldi hann sig hafa átt að gera skoðunarskýrslu og skrá bifreið í skattflokk 70.
Því er haldið fram af hálfu stefnanda, að sýslumaðurinn á Selfossi hafi óskað eftir því 4. nóvember, að hann tæki sér tveggja daga frí og léti lykla sína af hendi. Á þetta hafi hann fallist en mætt til vinnu 6. nóvember kl. 8.00. Eftir u.þ.b. klukkustund hafi sýslumaður kvatt hann á sinn fund og óskað eftir því, að hann mætti ekki í vinnu, fyrr en eftir næstu helgi. Sýslumaður hafi síðan komist að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa kynnt sér lögregluskýrslur, að hann ætti ekki annars úrkosta, en víkja honum úr starfi. Þáverandi lögmaður stefnanda ritaði sýslumanni bréf, dags. 18. nóvember, og mótmælti þessari ákvörðun á þeirri forsendu, að skilyrði brottvikningar væru ekki fyrir hendi. Lögmaðurinn ritaði einnig bréf til ríkislögreglustjóra, dags. 6. desember og óskaði skýringa á því, hvort rannsókn málsins beindist að stefnanda og um hvað hann væri sakaður, ef svo væri. Lögmaðurinn benti á það, að tæp fjögur ár væru liðin frá tollafgreiðslu bifreiðarinnar MR-159 og að stefnandi hefði leitað upplýsinga um meðferð málsins hjá ríkistollstjóra og farið að hans leiðbeiningum. Þess var óskað af hálfu lögmannsins, að málið yrði fellt niður og gefið út vottorð í samræmi við 76. gr. oml. Bréfinu var svarað 12. sama mánaðar og tekið fram, að rannsókn stæði yfir í máli stefnanda um ætluð tollalagabrot hans og brot á 147. gr. alm. hegningarlaga, og að rökstuddur grunur lægi fyrir um refsiverða háttsemi stefnanda í starfi. Lögmaður stefnanda ritaði sýslumanni bréf, dags. 16. janúar 2003 og óskaði eftir rökstuddri greinargerð af hans hálfu, ef segja ætti umbj. hans upp störfum. Vísað var til samtals stefnanda við sýslumann, þar sem sýslumaður hefði lýst þessu yfir. Sýslumaður sendi stefnanda bréf, dags. 20. janúar, sem bar yfirskriftina Brottvikning úr starfi, og vék stefnanda úr stafi fyrirvaralaust. Vísað var til þess, að fram komi í bréfi ríkislögreglustjóra hinn 9. desember árinu áður, að stefnandi væri grunaður um brot gegn 147. gr. alm. hgl., auk annarra brota gegn þeim lögum og um brot á tollalögum. Niðurlag bréfsins hljóðar svo: Verður því ekki annað séð en leysa beri yður frá störfum strax. Meðfylgjandi er bréf undirritaðs dagsett í dag til fjármálaráðuneytis með ósk um að þér verðið leystur frá störfum strax. Samdægurs gerði hann fjármálaráðuneytinu grein fyrir ákvörðun sinni, en sendi fjársýslu ríkisins bréf daginn eftir með beiðni um að stefnandi yrði tekinn af launaskrá. Þáverandi lögmaður stefnanda mótmælti uppsögn umbj. síns í bréfi til sýslumanns, dags. 28. janúar og krafðist þess á grundvelli meðalhófsreglu stjórnsýslulaga að mildari aðgerðum yrði beitt, ef ekki yrði á það fallist, að stefnandi tæki við starfi sínu að nýju. Þess var einnig krafist, að stefnanda yrði veitt lausn frá starfi um stundarsakir á hálfum launum meðan á rannsókn í máli hans stæði yfir. Þá var þess óskað, að mál hans sætti meðferð samkvæmt 27. gr. starfsmannalaga. Sýslumaður svaraði bréfinu samdægurs og taldi sig ekki geta breytt ákvörðun sinni. Núverandi lögmaður stefnanda kom að málinu um þetta leyti. Hann ritaði fjármálaráðuneytinu bréf, dags. 3. febrúar og gerði kröfu til þess, að umbj. hans yrðu greidd laun í samræmi við ráðningarsamning hans. Ráðuneytið lagði fyrir fjársýslu ríkisins að greiða stefnanda laun, meðan mál hans væri til athugunar og tilkynnti, að ákvörðunar væri að vænta síðar í mánuðinum. Fjármálaráðuneytið ákvað síðan, með vísan til 2. ml. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga, að leysa stefnanda frá störfum um stundarsakir meðan á lögreglurannsókn í máli hans stæði, og að stefnandi skyldi fá greiddan helming fastra launa á þeim tíma, frá og með 1. mars. Jafnframt var þess getið, að ekki væri skylt að gæta andmælaréttar, eins og mál stefnanda væri vaxið. Þá var stefnanda tilkynnt, að mál hans yrði sent til meðferðar nefndar sérfróðra manna í samræmi við 27. gr. starfsmannalaga (eftirleiðis nefndin). Bréf ráðuneytisins til stefnanda er dagsett 26. febrúar. Lögmaður stefnanda mótmælti ákvörðun ráðuneytisins í bréfi, dags. 3. mars. Hann hélt því m.a. fram, að brotinn hefði verið andmælaréttur á stefnanda, þegar sýslumaður vék honum fyrirvaralaust úr starfi og eins þegar ráðuneytið tók ákvörðun sína um að víkja stefnanda úr starfi um stundarsakir. Áskildi hann umbj. sínum rétt til að skaðabóta, ásamt dráttarvöxtum. Þá mótmælti lögmaðurinn því, að málinu yrði vísað til nefndar skv. 27. gr. starfsmannalaga. Fjármálaráðherra vísaði málinu engu að síður til nefndarinnar með bréfi, dags. 18. mars. Lögmaður stefnanda skilaði greinargerð til nefndarinnar 12. maí. Krafðist hann þess aðallega, að málinu yrði vísað frá nefndinni, en til vara að nefndin hafnaði því, að rétt hafi verið að víkja stefnanda úr starfi um stundarsakir. Frávísunarkrafan var byggð á því, að mál stefnanda sætti opinberri rannsókn og ekki væru lagaskilyrði til þess að reka málið samtímis á tveimur vígstöðvum. Vísaði lögmaðurinn til dóms Hæstaréttar í máli nr. 338/2002 í því sambandi og taldi einnig, að 19. gr. reglna nefndarinnar ætti aðeins við að lokinni opinberri rannsókn. Nefndin skilaði áliti 27. maí. Ályktunarorð hennar eru svohljóðandi: Nefnd samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins telur að fjármálaráðuneytinu hafi verið rétt að veita Skúla Birni Árnasyni lausn um stundarsakir úr embætti deildarstjóra tollgæslunnar á Selfossi þann 26. febrúar 2003.
Með bréfi, dags. 25. júlí 2003 veitti fjármálaráðuneyti stefnanda lausn frá embætti að fullu frá og með 1. ágúst s.á. Vísað var m.a. til þess, að ríkissaksóknari hefði gefið út ákæru á hendur stefnanda fyrir brot í opinberu starfi og hafi stefnandi með háttsemi sinni m.a. brotið í bága við ákvæði 14. gr. starfsmannalaga um almennar starfskyldur ríkisstarfsmanna. Ráðuneytið byggði ákvörðun sína einnig á 2. mgr. 29. gr. starfsmannalaga.
Lögmaður stefnanda mótmælti þessari ákvörðun með bréfi, dags. 30. júlí. Taldi hann umbj. sinn ekki hafa fengið ábyrgðarbréf, sem vísað var til í uppsagnarbréfi ráðuneytisins. Þá taldi hann, að nefndinni hafi verið óheimilt að fjalla um mál stefnanda, þar sem málið hafi verið í opinberri rannsókn og mótmælti því einnig að stefnandi hafi gerst sekur um refsiverðan verknað og játað sök. Fyrir liggur, að stefnandi vitjaði ekki ábyrgðarbréfs, sem ráðuneytið sendi 10. júlí en þar var honum gefinn kostur til að andmæla ákvörðuninni til 19. sama mánaðar. Ríkissaksóknari höfðaði refsimál á hendur stefnanda hinn 2. júlí 2003. Dómur féll í máli stefnanda í Héraðsdómi Suðurlands 23. desember 2003 og var hann sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Í ákæru var stefnandi sakaður um skjalafals og brot í opinberu starfi sem deildarstjóri hjá tollgæslunni á Selfossi með því að hafa á árunum 1997 og 1998 ranglega forskráð sjö tilgreindar bifreiðar sem óskemmdar, sem skrá hefði átt sem skemmdar í tollflokk 70 og með því að hafa látið hjá líða að útfylla eyðublað ríkistollstjóra um skoðun og lýsingu á skemmdum bifreiðanna. Með þessum hætti hafi stefnandi gert innflytjanda bifreiðanna, A, mögulegt að komast hjá greiðslu aðflutnings- og aðvinnslugjalda við nýskráningu þeirra. Einnig var stefnandi sýknaður af öðru meintu broti á almennum hegningarlögum, sem ekki þykir ástæða til að lýsa frekar.
A og aðrir, sem stóðu að innflutningi þeirra bifreiða, sem stefnandi var sakaður um að hafa ranglega tollafgreitt, voru sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins á hendur þeim í Héraðsdómi Suðurlands, með dómi uppkveðnum 20. nóvember s.á. Hvorugum þessara dóma var áfrýjað til Hæstaréttar.
Lögmaður stefnanda ritaði fjármálaráðuneyti bréf, dags. 19. febrúar 2004 og fór þess á leit, að stefnanda yrði gefinn kostur á að taka til starfa að nýju, annað hvort við fyrra starf eða annað sambærilegt starf við tollgæslu á vegum stefnda. Jafnframt var farið fram á, að stefnanda yrði bætt það tjón, sem hann hafði orðið fyrir vegna brottvikningarinnar. Þessu hafnaði ráðuneytið í bréfi til lögmannsins, dags. 9. mars sl. og byggði á því, að stefnandi hefði allt að einu gerst brotlegur í starfi og sýnt af sér óforsvaranlega háttsemi. Þessu var mótmælt af hálfu lögmanns stefnanda í bréfi, dags. 11. mars sl. og málsókn hótað, sem gekk síðan eftir.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því, að hann hafi í starfi sínu sem deildarstjóri við tollgæsluna á Selfosssi haft stöðu embættismanns, samkvæmt 8. tl. 22. gr. starfsmannalaga. Því hafi átt að skipa hann í embætti samkvæmt 36. gr. tollalaga nr. 55/1987 og hefði þá farið um rétt hans samkvæmt 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis starfsmannalaga, sbr. 25. gr. sömu laga. Fjármálaráðuneytið hafi litið á stefnanda sem embættismann, eins og fram komi í bréfum þeirra. Stefnandi styður kröfur sínar á hendur stefnda þeim rökum, að honum hafi með ólögmætum hætti verið vikið úr starfi og eigi það bæði við um tímabundna og varanlega brottvísun hans. Hann eigi því rétt til skaðabóta úr hendi stefnda með vísan til 32. gr. starfsmannalaga og til miskabóta, samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 (eftirleiðis skbl.).
Stefnandi skýrir kröfur sínar nánar með eftirfarandi hætti:
1. Að sýslumaður hafi ekki gætt meginreglna stjórnsýslulaga um andmælarétt. Sýslumenn fari með stjórnsýslu hver í sínu umdæmi þ.m.t. tollstjórn, samkvæmt 10. gr. laga nr. 92/1989 og hafi yfirumsjón með rekstri embætta sinna, sbr. 15. gr. sömu laga. Aðgerðir sýslumanns bendi til þess, að hann hafi talið sig hafa haft heimild til að víkja stefnanda úr starfi og hafi farið fram á það við fjársýslu ríkisins í bréfi, dags. 21. janúar 2003, að stefnandi yrði tekinn af launaskrá og það hafi gengið eftir. Sýslumaður hafi því í raun vikið stefnanda úr starfi, sem fari í bága við meginreglu 26. gr. starfsmannalaga og án þess að gefa honum kost á að andmæla. Ákvörðun fjármálaráðuneytis hafi þannig verið framhald ákvörðunar, sem þegar hafði verið tekin.
2. Þá byggir stefnandi á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ljóst sé að hægt hefði verið að færa stefnanda til í starfi meðan á rannsókn í máli hans stóð og beita þannig vægari úrræðum en gert hafi verið.
3. Stefnandi vísar einnig til þess, að nefnd skv. 27. gr. starfsmannalaga, hafi tekið mál hans til meðferðar, andstætt 5. gr. reglna, sem henni beri að fara eftir. Reglan sé svohljóðandi: Nú óskar starfsmaður eða stjórnvald það, sem í hlut á, opinberrar rannsóknar, með heimild í niðurlagsákvæði 1. mgr. 27. gr. starfsmannalaga, og rannsakar nefndin málið þá eingöngu að því leyti, sem þörf er á viðbótarrannsókn til þess að geta látið uppi rökstutt álit. Rannsókn lögreglu hafi þegar verið hafin, þegar málinu var vísað til nefndarinnar. Ekki hafi verið óskað eftir viðbótarrannsókn af hálfu ráðuneytisins og því hafi nefndin átt að vísa málinu frá. Niðurstaða nefndarinnar hafi síðan sjálfkrafa leitt til þess, að stefnanda var vikið úr starfi. Stefnandi bendir einnig á, að hann sem embættismaður og almennur borgari þurfi ekki að þola, að mál hans sé rannsakað á tveimur stöðum. Hann vísar í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 338/2002.
4. Þá byggir stefnandi á því, að hann hafi verið sýknaður í máli því, sem ákæruvaldið höfðaði á hendur honum. Þannig sé ljóst, að hann hafi ekki brotið gróflega af sér í starfi, sem hann neitar allt að einu að hafa gert. Taka verði tillit til þess, að vanræksla sú, sem honum hafi verið gefin að sök, hafi átt sér stað á árunum 1997 og 1998. Gera verði þá kröfu að innri endurskoðun á tollafgreiðslum eigi sér stað strax og tilefni gefst. Brottvikning stefnanda úr starfi mörgum árum eftir að meint mistök hafi átt sér stað hljóti að fara í bága við meginreglur stjórnsýslu- og starfsmannaréttar. Áminning hefði verið meira við hæfi og í anda meðalhófsreglu, án þess að í því felist nokkur viðurkenning af hálfu stefnanda. Sýkna í máli ákæruvaldsins á hendur A sýni, að ósannað sé, að ríkið hafi orðið fyrir tjóni vegna tollafgreiðslna stefnanda á bifreiðum þeim, sem koma við sögu í málinu.
5. Sýknudómur í máli stefnanda leiði einnig til þess, að stefndi geti ekki sýnt fram á að tilefni hafi verið til brottvikningar hans. Stefnda hafi borið að ganga rækilega úr skugga um það, að ásakanir þær, sem á stefnanda voru bornar, ættu við rök að styðjast, sbr. 2. mgr. 29. gr. starfsmannalaga. Stefndi hafi þannig tekið á sig áhættu um greiðslu skaða- og miskabóta með því að taka ákvörðun um brottvikningu stefnanda úr starfi, án þess að rannsaka mál hans sjálfstætt, sbr.2. mgr. 32. gr. starfsmannalag.
6. Stefnandi bendir enn fremur á, að honum hafi ekki verið veittur réttur til andmæla, áður en ákveðið var að leysa hann að fullu frá starfi, sbr. 2. mgr. 31. gr. starfsmannalaga.
7. Stefnandi styður miskabótakröfu sína þeim rökum, að umfjöllun í fjölmiðlum hafi verið óvægin og brottvikning hans úr starfi hafi skert starfsheiður hans og æru. Hann hafi verið stimplaður glæpamaður og verið vikið úr starfi sem slíkum. Allt þetta hafi skert atvinnumöguleika hans, kollvarpað fjárhag hans , sem leitt hafi til mikilla sálfræðilegra vandamála. Á þessu beri stefndi ábyrgð, sem honum beri að bæta með vísan til 26. gr. sbl.
Stefnandi byggir að öðru leyti á almennu sakarreglunni.
Aðalkrafa stefnanda styðst við útreikning Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings. Hún er byggð á framreiknuðum meðaltekjum hans frá því ári, sem honum var gert að láta af störfum og miðað við, að hann myndi að óbreyttu hafa gegnt starfi sínu til 70 ára aldurs, sbr. 2. mgr. 33. gr. starfsmannalaga. Einnig er þar gert ráð fyrir 6% lífeyrisframlagi af launum hans til B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og 500.000 krónum í miskabætur. Til frádráttar þannig reiknuðum launum komi framreiknuð laun hans til sama tíma frá 1. september sl. en stefnandi réðst þá til starfa hjá IB ehf. á Selfossi, en var atvinnulaus frá því uppsögn hans tók gildi 1. ágúst 2003.
Varakrafa stefnanda jafngildir töpuðum tekjum frá því að honum var veitt tímabundin lausn frá embætti og þar til hann var leystur frá embætti að fullu.
Varakröfu sína sundurliðar stefnandi þannig:
Tapaðar tekjur frá 1. mars 2003 til 1. ágúst s.á. 1.544.000 kr.
Skaðabætur vegna tapaðra tenka fram til 70 ára
aldurs miðað við dómafordæmi Hæstaréttar 11.000.000 kr.
Miskabætur 500.000 kr.
6% lífeyrisframlag 632.640 kr.
Varakrafa, samtals 13.676,640 kr.
Stefnandi krefst þess, að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til kostnaðar við vinnu lögmanns hans vegna málskots stefnda til nefndar samkv. 27. gr. starfsmannalaga.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir á því, að lausn stefnanda úr embætti um stundarsakir hafi í einu og öllu verið að lögum og ekkert í tengslum við hana valdi bótaábyrgð stefnda. Fjármálaráðuneyti hafi hafnað tilmælum sýslumannsins á Selfossi um að vísa stefnanda fyrirvaralaust úr starfi og ákveðið, að stefnandi skyldi áfram vera á launaskrá, sbr. bréf til fjársýslu ríkisins, dags. 3. febrúar 2003. Síðan hafi sú ákvörðun verið tekin í ráðuneytinu, að undangenginni rannsókn, að veita stefnanda lausn um stundarsakir og greiða honum hálf föst laun. Ákvörðun ráðuneytisins hafi verið sjálfstæð og óháð afskiptum sýslumanns gagnstætt því sem stefnandi haldi fram. Legið hafi fyrir á þessum tíma, að stefnandi var grunaður um brot á tollalögum og brot í opinberu starfi, sem varðaði við XIV. kafla alm. hgl., auk ákvæðis 147. gr. alm. hgl. og að stefnandi hafi haft réttarstöðu sakbornings Ljóst hafi verið, að stefnandi hafði ekki rækt starf sitt af þeirri alúð og samviskusemi, sem ætlast megi til af yfirmanni tollgæslunnar á Selfossi. Þetta hafi stefnandi ítrekað viðurkennt við lögreglurannsókn í máli hans. Þannig hafi skilyrðum 2. ml. 3. mgr. 26. gr. stafsmannalaga verið fullnægt í hvívetna.
Stefndi mótmælir því enn fremur að hafa brotið andmælarétt gagnvart stefnanda og vísar til 4. mgr. 26. gr. þessu til stuðnings. Þar komi fram, að óskylt sé að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður lausnar um stundarsakir, sé hann grunaður um háttsemi, sem geti haft í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. alm. hgl. Ekki sé heldur forsvaranlegt, að maður, grunaður um alvarlegt brot í starfi, gegni því meðan slíkum gruni hafi ekki verið eytt.
Einnig mótmælir stefndi því, að málskot til nefndar skv. 27. gr. starfsmannalaga hafi falið í sér brot á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð og leitt sjálfkrafa til þess, að stefnanda var veitt lausn frá embætti að fullu. Tilgreint ákvæði sé sett í þágu starfsmanna í því skyni að endurskoða og yfirfara ákvörðun stjórnvalds í málefnum starfsmanna. Ráðuneytið hafi metið sjálfstætt, hvort veita ætti stefnanda að fullu lausn úr starfi, þegar álit nefndarinnar lá fyrir. Við það mat verði ekki aðeins litið til þess, hvort háttsemi starfsmanns sé refsiverð, heldur einnig hvort hún sé samrýmanleg þeirri ábyrgð og þeim starfskyldum, sem felist í starfi hans. Stefnandi hafði við skýrslugjöf hjá lögreglu nánast viðurkennt háttsemi, sem ætla mátti að hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. alm. hgl. og brugðist starfskyldum sínum og því trausti sem gera verði til embættismanns í ábyrgðarstarfi, sbr. og ákvæði 14. gr. starfsmannalaga. Stefnanda hafi verið tilkynnt í ábyrgðarbréfi, dags. 26. júní 2003, um ákvörðun stefnda um að veita honum að fullu lausn frá störfum og honum gefinn kostur á að andmæla þeirri ákvörðun. Stefndi hafi orðið þess áskynja, að bréfið hafði ekki komist til skila vegna breytts aðseturs stefnanda og því hafi það verið sent honum á rétt heimilisfang með ábyrgðarbréfi, dags. 10. júlí s.á., og honum gefinn frestur til athugasemda til 19. sama mánaðar. Stefnandi hafi ekki vitjað bréfsins og verði að bera hallann af því.
Ljóst sé af gögnum málsins, að stefnandi hafi viðurkennt hjá lögreglu að hafa tollafgreitt 24 bifreiðar á grundvelli skjala, sem fullnægðu á engan hátt þeim lagaskilyrðum, sem mælt er fyrir um í 18. gr. tollalaga nr. 55/1987 og 5. gr. 6. gr. rgl. nr. 228/1993. Tollafgreiðsla stefnanda á umræddum bifreiðum hafi byggst á skjölum, sem báru með sér að hafa verið kvittanir fyrir innborgun, en ekki vörureikningar, eins og áskilið sé í áðurnefndri 18. gr. tollalaga. Í dreifibréfi ríkistollstjóra frá 19. ágúst 1996 hafi verið lagt fyrir tollstjóra að afla frumrita vörureikninga vegna innflutnings notaðra bifreiða. Stefnandi hafi haft þessi fyrirmæli að engu. Þannig hafi stefnandi skráð á aðflutningsskýrslu vegna bifreiðarinnar BT-899 „bifreið með ónýta vél“, en gögn málsins hafi bent til þess, að bifreiðin hafi verið í fullkomnu lagi. Hafi stefnandi að eigin sögn byggt á upplýsingum innflytjanda og brugðist þannig rannsóknarskyldum, sem lagðar séu á tollstarfsmenn, sbr. rgl. 374/1995. Stefnandi hafi einnig veitt Sparisjóði Hafnarfjarðar rangar upplýsingar um skattflokk bifreiðarinnar MR-159 í bréfi, dags. 17. janúar 2002 og brotið þannig alvarlega gegn starfskyldum sínum. Þá hafi stefnandi viðurkennt hjá lögreglu, að rétt hefði verið að skrá 5 bifreiðar, sem forskráðar hafi með útlitsgalla, í skattflokk 70, svo að aðflutningsgjöld af aðvinnslu skiluðu sér í ríkissjóð.
Stefnandi hafi gegnt ábyrgðarstarfi, þar sem ríkar kröfu séu gerðar til vandvirkni og vammleysis. Hann geti ekki borið fyrir sig vankunnáttu um þær reglur, sem um starf hans gildi, einkum þær, sem lúti að framvísun frumrita og samrita vörureikninga, sem tryggja eigi rétta álagningu aðflutningsgjalda. Sama gildi um rannsóknarskyldur, sem lagðar séu á tollstarfsmenn í rgl. nr. 374/1995 og starfskyldur starfsmanna, sem fjallað sé um í lögum nr. 29/1995 um tollverð og aðflutningsgjöld og rgl. nr. 254/1993.
Háttsemi stefnanda hafi verið ósamrýmanleg því ábyrgðarstarfi, sem hann gegndi og því hafi stefndi ekki átt annars úrkosta en að víkja honum að fullu úr starfi.
Stefndi byggir á því, að sýknudómur Héraðsdóms Suðurlands í máli ákæruvaldsins á hendur stefnanda, verði ekki skilinn svo, að stefnandi hafi verið sýknaður af þeim ávirðingum, sem leitt hafi til brottvikningar hans. Sakamálið hafi eingöngu beinst að brotum um skjalafals og brot gegn 158. gr. alm. hgl. við tollafgreiðslu tiltekinna bifreiða. Hann hafi verið sýknaður af hluta þessara brota með hliðsjón af því, að 158. gr. alm. hgl. hafi ekki átt við rangfærslu gagna og upplýsinga, sem geymd voru í tölvutæku formi, fyrr en við gildistöku laga nr. 30/1998. Að öðru leyti hafi dómurinn byggst á þeirri frásögn stefnanda, að hann hafi tilkynnt til Skráningarstofu, nú Umferðarstofu, um breyttingar úr skattflokki 00 í flokk 70. Í þessu sambandi mótmælir stefndi þeirri staðhæfingu stefnanda, að innri endurskoðun hefði átt að gera athugasemdir við starfsaðferðir hans, þegar tilefni hafi gefist. Slíkt geti ekki leyst stefnanda undan ábyrgð.
Stefndi styður varakröfu sína þeim rökum, að stefnandi hljóti að verða að bera að mestu tjón sitt sjálfur vegna áðurnefndrar háttsemi hans. Þá fái það ekki staðist, að sjálfgefið sé, að stefnandi hefði haldið starfi sínu til 70 ára aldurs. Stefnandi hafi verið ráðinn til starfa sem deildarstjóri tollgæslunnar á Selfossi í júní 1994 með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Samkvæmt 23. gr. starfsmannalaga skal skipa embættismenn til 5 ára í senn, nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum. Með 8. gr. laga nr. 81/1998 um breytingu á tollalögum hafi verið ákveðið, að fjármálaráðherra skyldi skipta deildarstjóra til 5 ára í senn en ekki hafi komið til þess, að stefnandi fengi formlega skipun á grundvelli þessarar lagabreytingar.
Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu í varakröfu stefnanda, að dómafordæmi Hæstaréttar styðji kröfu hans um skaðabætur að fjárhæð 11 milljónum króna vegna tapaðra tekna til 70 ára aldurs, svo og kröfu hans um lífeyrisframlag, sem miðist við allt of háa fjárhæð. Krefst stefndi lækkunar hennar og að tekið verði tilliti til þeirra atvinnuleysisbóta, sem stefnandi hafi notið og annarra tekna hans. Stefndi krefst einnig lækkunar á kröfu stefnanda um helming launa fyrir tímabilið mars til júlí 2003. Sú krafa sé einnig allt of há og auk þess vanreifuð. Loks krefst stefndi sýknu af miskabótakröfu stefnanda og vísar því á bug, að hann beri nokkra ábyrgð á umfjöllun fjölmiðla um mál stefnanda.
Niðurstaða:
Við aðalmeðferð málsins var skýrsla tekin af Höskuldi Erlendssyni, starfsmanni tollstjórans í Reykjavík, sem starfar við tollendurskoðun.
Vitnið kvaðst aðspurt ekki geta sagt um það, hvort starfsmenn Umferðarstofu skoði bifreiðar, áður en þeir skrá athugasemdir um tjón á viðkomandi bifreið. Hann viti til þess, að þeir skoði oft svonefnda tjónabíla að eigin frumkvæmi. Fram komi á skráningarskírteini erlendis frá, hvort viðkomandi bíll sé tjónabíll, s.s. að hann hafi t.d. lent í flóði, sé útlitsgallaður eða hafi verið stolið. Þar sé um að ræða svonefnda Salvage skráningu, sem komi fram á skráningarskírteini bifreiðarinnar. Bifreiðar, sem bandarísk tryggingafélög greiði eigendum af einhverjum ástæðum, falli út af bifreiðaskrá þar og fáist yfirleitt ekki endurskráðar. Þannig skráðar bifreiðar geti verið gallalausar, án útlitsgalla og ökufærar og því skráningarhæfar. Salvage skráning hafi ekkert með ástand bifreiðar að gera. Hann upplýsti að á árunum 1997 til 1999 hafi verið starfrækt endurskoðunardeild hjá ríkistollstjóra. Hlutverk hennar hafi verið að fara yfir og endurskoða tollafgreiðslu hjá embættum úti á landi og gera athugasemdir, ef tilefni gafst, m.a. að endurákveða gjöld. Hann kvaðst oft hafa þurft að leiðbeina tollvörðum úti á landi um tollafgreiðslu bifreiða, einkum í sambandi við flokkun bifreiða í tollflokk.
Álit dómsins.
Líta ber til þess, við mat á réttmæti ákvörðunar sýslumannsins á Selfossi og síðar fjármálaráðuneytis um að víkja stefnanda úr embætti, hvaða forsendur lágu henni til grundvallar og á hvaða upplýsingum hún var byggð. Sama á reyndar við um niðurstöðu nefndar skv. 27. gr. starfsmannalaga.
Á þessum tíma stóð yfir rannsókn á embættisfærslu stefnanda, þar sem honum var gefið að sök að hafa gerst brotlegur við tilgreind ákvæði tollalaga og almennra hegningalaga og brot hans talin svo alvarleg, að þau kynnu að varða sviptingu embættis, skv. 68. gr. alm. hgl., ef sönn reyndust. Stefnandi hafði í einhverjum tilvikum viðurkennt fyrir lögreglu mistök í starfi.
Ávirðingar þær, sem stefnandi var sakaður um, voru einkum tvíþættar:
Í fyrst lagi hafði stefnandi viðurkennt við skýrslutöku lögreglu, að hafa tollafgreitt 24 bifreiðar á árunum 1997 til 1999, án þess að fyrir lægju lögboðin gögn. Stefnandi hélt því fram sér til málsbóta að hann hefði leitað leiðsagnar hjá ríkistollstjóra í þessu efni og fengið grænt ljós á afgreiðslu með þessum hætti. Þau gögn, sem stefnandi lagði til grundvallar tollafgreiðslu bifreiðanna, voru innborgunarkvittanir, en ekki vörureikningar, eins og lögskylt var. Vakti það grunsemdir stjórnvalda um, að innkaupsverð umræddra bifreiða væri ranglega tilgreint og var sá grunur studdur gögnum frá hinum erlenda seljanda þeirra, sem Héraðsdómur Suðurlands taldi síðar ótrúverðug. Þannig var talið að stefnandi hafi orðið þess valdandi, að innflytjandi bifreiðanna hafi komist hjá að greiða gjöld í ríkissjóð, samtals að fjárhæð rúmlega 10 milljónir króna, eins og áður er getið.
Í annan stað var stefnandi sakaður um að hafa látið hjá líða að skrá 6 tilgreindar bifreiðar í skattflokk 70 vegna skemmda, sem á þeim voru, þegar þær komu til landsins og valdið ríkissjóði tjóni, þar sem aðvinnslugjöld hafi ekki skilað sér. Við skýrslugjöf hjá lögreglu taldi stefnandi að hluti þeirra bifreiða, sem þar komu við sögu hafi verið lítillega útlitsgallaðar og því engin þörf á því að skrá þær í skattflokk 70, en aðrar hafi líklega átt að skrá í þann flokk.
Einnig lá fyrir á þessum tíma, að stefnandi hafði gefið út rangt vottorð um skráningu bifreiðarinnar MR-159.
Á grundvelli þessara grunsemda og þeirrar vitneskju, að stefnandi hafði gefið út rangt vottorð um skráningu bifreiðarinnar MR-159, vék sýslumaðurinn á Selfossi stefnanda úr embætti að fullu og án fyrirvara með bréfi, dags. 20. janúar 2003, eins og áður er lýst. Sýslumaður byggði brottvikninguna á heimild í 3. mgr. 29. gr. starfsmannalaga, en þar segir, að skylt sé að víkja embættismanni að fullu úr starfi, hafi hann játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi, sem ætla megi að hafi í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. alm. hgl. Vísaði sýslumaður til yfirstandandi lögreglurannsóknar á embættisfærslu stefnanda.
Fjármálaráðuneytið ógilti heimildarlausa brottvikningu sýslumanns, eins og fyrr er rakið, á þeirri forsendu, að fjármálaráðherra skipaði deildarstjóra við tollembætti til starfa og jafnframt væri það í hans valdi en ekki sýslumanns að ákveða, hvort veita skyldi stefnanda lausn frá embætti eða ekki. Ráðuneytið ákvað síðan, eftir að hafa kannað málið, að veita stefnanda tímabundna lausn úr embætti, með vísan til 2. ml. 3. mgr. starfsmannalaga, og greiða honum hálf föst laun, þar til annað yrði ákveðið, sbr. 28. gr. sömu laga. Stefnanda var tilkynnt þessi ákvörðun í bréfi, dags. 26. febrúar, þar sem stefnanda var enn fremur tjáð, að málið yrði sent nefnd samkvæmt 27. gr. starfsmannalaga. Ákvörðun ráðuneytisins var studd sömu rökum og sýslumaður hafi áður byggt á.
Áliti nefndarinnar er áður lýst. Þar var m.a. fjallað um frávísunarkröfu stefnanda í ljósi dóms Hæstaréttar í máli nr. 338/2002. Í tilefni af umfjöllun Hæstaréttar um störf nefndarinnar í því máli var leitað eftir því við fjármálaráðuneyti, hvort það hygðist reka mál stefnanda áfram eða afturkalla það. Ráðuneytið óskaði eftir því að málinu yrði haldið áfram. Nefndin ákvað að fjalla aðeins um þann þátt málsins, sem varðaði það álitaefni, hvort rétt hafi verið að víkja stefnanda úr embætti um stundarsakir, en ráðuneytið hafði einnig óskað álits nefndarinnar um það, hvort víkja bæri stefnanda að fullu úr embætti. Nefndin byggði niðurstöðu sína á því, að rökstuddur grunur lægi fyrir um refsiverða háttsemi stefnanda, og að lögreglurannsókn stæði yfir í máli hans. Við túlkun 68. gr. alm. hgl. væri við það miðað, að hinn refsiverði verknaður væri slíkur, að starfsmaðurinn teldist ekki lengur verður eða hæfur til að rækja starfann og það ætti við í tilviki stefnanda, að mati nefndarinnar.
Dómurinn telur, með vísan til þess sem að framan er rakið, að rétt hafi verið staðið að brottvikningu stefnanda úr embætti um stundarsakir. Rökstuddur grunur lá fyrir um brot stefnanda í starfi. Hann naut andmælaréttar, þegar lögskylt var. Ekki var gengið lengra í aðgerðum gagnvart stefnanda, en rétt getur talist, með hliðsjón af atvikum, eins og þau lágu þá fyrir. Brottvikning sýslumannsins á Selfossi var ógilt af fjármálaráðuneyti, strax og málið kom þangað til meðferðar og öll meðferð málsins á þess vegum í fullu samræmi við lagafyrirmæli. Fjármálaráðuneytinu var skylt að vísa málinu til nefndarinnar samkvæmt skýrum ákvæðum 27. gr. starfsmannalaga og nefndinni jafnskylt að taka afstöðu til úrlausnarefnisins.
Niðurstaða nefndarinnar leiddi á hinn bóginn til þess, að fjármálaráðuneytið ákvað að víkja stefnanda úr starfi frá og með 1. ágúst 2003, eins og áður er lýst. Í 2. mgr. 29. gr. starfsmannalaga, sem ráðuneytið byggði brottvikninguna á, er mælt svo fyrir, að víkja skuli embættismanni að fullu úr starfi og fyrirvaralaust, ef meirihluti nefndar, skv. 27. gr. starfsmannalaga, kemst að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið að víkja starfsmanni tímabundið úr starfi, nema þær ávirðingar, sem honum voru gefnar að sök hafi ekki reynst vera fyrir hendi.
Fjármálaráðuneytið kaus að víkja stefnanda úr embætti frá og með 1. ágúst 2003, í stað þess að bíða niðurstöðu sakamáls, sem höfðað hafði verið á hendur stefnanda og ljóst var að lokið yrði innan nokkurra mánaða. Telja verður þessa ákvörðun, eins og hér stóð sérstaklega á, hafa farið í bága við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem stefndi verði að bera hallann af.
Stefnandi var sýknaður af þeim ávirðingum, sem honum voru gefnar að sök og aðgerðir fjármálaráðuneytisins á hendur honum byggðust einkum á, bæði brottvikning um stundarsakir og endanleg brottvikning úr starfi.
Dómurinn hefur hvorki heimild né skilyrði til að endurmeta dóm Héraðsdóms Suðurlands í máli stefnanda með vísan til 116. gr. laga nr. 91/1991, eins og stefndi heldur fram.
Hlutverk dómsins er á hinn bóginn að leggja mat á það, hvort lagaskilyrði hafi verið fyrir hendi til að víkja stefnanda úr embætti að fullu, þrátt fyrir sýknudóm Héraðsdóms Suðurlands og hvort stefndi sé bótaskyldur gagnvart stefnanda, verði talið, að það hafi verið óheimilt.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands fjallaði um þau kæruatriði, sem vikið er að í upphafi þessa kafla og tók afstöðu til þeirra, s.s. meinta vanrækslu stefnanda um að skoða viðkomandi tjónabifreiðir og gera skýrslu um ástand þeirra, skráningu þeirra í réttan tollflokk, meinta þátttöku stefnanda í broti A um undanskot gjalda við innflutning bifreiðanna og meinta rangfærslu reikninga um tilgreiningu á innkaupsverði þeirra. Verður því ekki frekar fjallað um þessi álitaefni.
Ljóst er á hinn bóginn og viðurkennt af stefnanda, að hann fór ekki að lagafyrirmælum við tollafgreiðslu umræddra 24 bifreiða. Hann lét það viðgangast í öllum tilvikum, að innflytjandi framvísaði eins konar innborgunarkvittunum frá hinum erlenda seljanda bifreiðanna í stað þess að krefjast frumrits eða samrits vörureiknings, eins og áskilið er í 18. gr. tollalaga nr. 55/1987. Sú vanræksla stefnanda varð kveikjan að aðgerðum stjórnvalda á hendur honum, að því er best verður séð. Stefnandi viðurkenndi einnig við skýrslutöku hjá lögreglu 4. nóvember 2002 að hafa af vangá gefið út ranga yfirlýsingu til Lögmanna Thorsplani í bréfi, dags. 17. janúar 2002, í tilefni af fyrirhugaðri veðsetningu bifreiðarinnar MR-159. Ekki var ákært vegna þessara mistaka stefnanda.
Stefndi byggir á því, þrátt fyrir sýknudóm, að stefnandi hafi sýnt svo stórkostlega vanrækslu í starfi að rétt hafi verið allt að einu að víkja honum fyrirvaralaust úr embætti. Um sé að ræða þýðingarmikið ábyrgðarstarf, sem njóta verði tiltrú almennings. Hátterni stefnanda hafi verið ósamboðið embættismanni í hans stöðu og hafi því verið óhjákvæmilegt að víkja honum úr starfi. Vísar stefndi m.a. í því sambandi til 14. gr. starfsmannalaga.
Við mat á ávirðingum stefnanda verður, að mati dómsins, að líta til þess hver hefðu verið rétt og eðlileg viðbrögð stefnda og sýslumannsins á Selfossi, yfirmanns hans, ef sú vanræksla ein hefði komið til álita, sem hann hefur gengist við. Hvort áminning hefði þá talist hæfileg. Rétt þykir, að stefnandi eigi í þessu tilliti að njóta vafans með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.
Stefnandi þykir, með vísan til framangreindra sjónarmiða, eiga rétt á skaðabótum úr hendi stefnda vegna brottvikningar hans úr embætti.
Ljóst er, að stefnandi hefur orðið fyrir tekjutapi vegna uppsagnarinnar. Hann fékk greiddan helming fastra launa frá 1. mars 2003 til 1. ágúst s.á. og var atvinnulaus frá því uppsögn hans tók gildi hinn 1. ágúst 2003 og þar til hann réðst til starfa hinn 1. september sl. Á þessu tímabili naut hann greiðslna úr atvinnuleysistryggingasjóði samtals að fjárhæð 635.021 króna og örorkubóta frá Lífeyrissjóði verslunarmanna að fjárhæð 265.812 krónur.
Aðalkrafa stefnanda miðast við mismun þeirra tekna, sem hann nú nýtur og þeirra tekna, sem hann myndi hafa aflað að óbreyttu til 70 ára aldurs, hefði honum ekki verið vikið úr embætti, en varakrafa miðast að hans sögn að mestu leyti við dómafordæmi Hæstaréttar, án þess að það sé nánar skýrt.
Hæstiréttur hefur í málum af þessu tagi dæmt bætur að álitum, án þess að fyrir liggi, hvaða reikningsaðferðum hafi verið beitt, enda atvik og aðstæður ólíkar frá einu máli til annars.
Í þessu máli þykir einnig rétt að dæma stefnanda bætur að álitum, enda þykir ekki sjálfgefið, að stefnandi hefði haldið starfi sínu til 70 ára aldurs, sé litið til þess, að ráðning í embætti deildarstjóra við tollgæslu er tímabundin og miðast hverju sinni við 5 ára ráðningartíma. Einnig þykir verða að líta til þess, að telja verður að stefnandi eigi nokkra sök á því, að stefndi sá sig knúinn til að víkja honum úr starfi. Í öðru lagi þykir stefndi eiga sér nokkrar málsbætur, en til þess ber að líta með vísan til niðurlagsákvæðis 2. mgr. 32. gr. starfsmannalaga. Afstöðu dómsins til beggja þessara þátta hefur verið lýst.
Stefnandi krefst einnig miskabóta úr hendi stefnda að fjárhæð 500.000 krónur. Á því er m.a. byggt að umfjöllun fjölmiðla um mál hans hafi valdið honum miska og andlegri áraun.
Fallist er á þá málsástæðu stefnda, að hann eigi enga sök á umfjöllun fjölmiðla af máli stefnanda og verða stefnanda eigi dæmdar miskabætur af þessari ástæðu einni og sér.
Hins vegar verður að telja, að fyrirvaralaus uppsögn ein og sér, sem byggð er á ásökunum um refsiverða háttsemi, feli í sér bótaskylda meingerð.
Bætur að álitum með vísan til framangreindra sjónarmiða þykja hæfilegar 1.000.000 króna og er þá tekið tillit til þeirra greiðslna, sem stefnandi naut hjá atvinnuleysistryggingasjóði og Lífeyrissjóði verslunarmanna.
Rétt þykir að stefndi greiði stefnanda dráttarvexti frá þingfestingardegi, 6. apríl 2004 til greiðsludags, eins og nánar er lýst í dómsorði.
Lögmaður stefnanda lagði fram málskostnaðarreikning við aðalmeðferð málsins. Krefst hann þess að tekið verði tillit til kostnaðar umbj. síns við meðferð málsins á fyrri stigum þess, m.a. við reksturs þess fyrir nefnd samkvæmt 27. gr. starfsmannalaga, en sá kostnaður hafi numið kr. 509.556 krónum.
Stefndi dæmist til að greiða stefnanda málskostnað að fjárhæð 580.000 krónur. Við þá ákvörðun er litið til 3. tl. 130. gr. laga nr. 91/1991 og einnig til kostnaðar stefnanda á fyrri stigum málsins.
Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
Dómsorð.
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Skúla B. Árnasyni, 1.000.000 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. apríl 2004 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 580.000 krónur í málskostnað.