Hæstiréttur íslands
Mál nr. 165/2005
Lykilorð
- Sjómaður
- Skiprúmssamningur
|
|
Fimmtudaginn 1. desember 2005. |
|
Nr. 165/2005. |
Eskja hf. (Jóhannes B. Björnsson hrl. Jón H. Magnússon hdl.) gegn Gunnari Jónssyni (Jónas Haraldsson hrl. Eyvindur G. Gunnarsson hdl.) |
Sjómenn. Skiprúmssamningur.
G hafði verið 1. vélstjóri á skipi sem E hf. seldi árið 2003. Við söluna var skipverjum boðið að fara yfir á annað skip með 1648 kw aðalvél í eigu E hf. og var því boði tekið. G hafði ekki réttindi til að starfa á skipi með svo aflmikla vél og því var sótt um undanþágu samkvæmt 8. gr. laga nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum. Beiðninni var hafnað og þegar G var tilkynnt um þá niðurstöðu hætti hann þegar í stað störfum við að undirbúa skipið til fiskveiða. Krafði hann E hf. um bætur með vísan til 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 á þeim grundvelli að honum hefði verið vikið fyrirvaralaust úr skiprúmi þegar skipið, sem hann hafði verið á, var afhent nýjum eiganda. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að ráðning G í starf 1. vélstjóra á nýja skipinu hafi verið háð þeirri forsendu að undanþágan fengist og að hann hafi orðið að bera áhættu af því. Þó að hann hafi ekki haft réttindi til að starfa sem 1. vélstjóri á skipinu eftir að beiðninni hafði verið hafnað yrði að líta svo á að áfram hafi verið í gildi ráðningarsamningur um starf hans á skipinu, sem ekki hafi verið bundið tilteknu starfsheiti. Hann hafi hætt störfum um borð í kjölfar þess að honum var tilkynnt um synjun undanþágunefndar og hafnaði auk þess tilboði um að vinna í uppsagnarfresti sem 2. vélstjóri á skipinu. Með því að hafna þessu fyrirgerði G rétti til launa í uppsagnarfresti. Ekki var talið að 25. gr. sjómannalaga ætti við í málinu þar sem honum hafði ekki verið vikið úr skiprúmi. E hf. var því sýknað af kröfu G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 22. apríl 2005. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla fyrir báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og fram kemur í héraðsdómi var stefndi 1. vélstjóri á fiskiskipinu Hólmanesi SU-1, sem var í eigu áfrýjanda, frá 24. júní 2003 þar til skipið var selt og afhent nýjum eiganda í febrúar 2004, en ekki liggur annað fyrir en að ráðning stefnda hafi verið ótímabundin. Kom skipið úr sinni síðustu veiðiferð fyrir áfrýjanda 23. febrúar og fór þá í slipp á Akureyri. Samkomulag varð um, að stefndi yrði um borð til aðstoðar nýrri áhöfn skipsins til 13. mars 2004, en þá fór hann til Eskifjarðar þar sem hann vann til 25. mars við breytingar á Hólmatindi SU-1, nýju skipi áfrýjanda. Óumdeilt er, að áfrýjanda og öðrum skipverjum á Hólmanesi var ekki sagt upp þegar skipið var selt, heldur var þeim boðið að fara yfir á Hólmatind og var því boði tekið.
Stefndi hafði ekki réttindi til að vera 1. vélstjóri á skipi, sem var með stærri aðalvél en 750 kw. Hólmanesið var með 1251 kw aðalvél og allan þann tíma, sem stefndi var á því skipi fékk hann undanþágu til að gegna starfinu samkvæmt 8. gr. laga nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, sbr. 6. gr. starfsreglna fyrir undanþágunefnd nr. 417/2003. Hólmatindur var með enn stærri vél en Hólmanes, eða 1648 kw, þannig að ljóst var, að sækja yrði um undanþágu fyrir stefnda svo að hann gæti tekið við starfi 1. vélstjóra á því skipi. Útgerðarstjóri áfrýjanda sótti um undanþágu til undanþágunefndar 18. mars 2004, en þeirri beiðni var hafnað 25. sama mánaðar. Kom höfnunin báðum málsaðilum á óvart, en fyrir liggur, að stefndi hafði margsinnis fengið undanþágu til starfa á skipum með stærri vél en var í Hólmatindi. Í ljós er leitt, að vélstjóri með full réttindi til starfa á Hólmatindi sóttist eftir starfinu, en undanþágu samkvæmt 8. gr. laga nr. 113/1984 má aðeins veita, ef skortur er á mönnum með nægileg vélstjórnarréttindi, sbr. 6. gr. og 8. gr. starfsreglna nr. 417/2003.
Stefndi hætti samstundis störfum á Hólmatindi er ljóst var 25. mars 2004, að beiðni um undanþágu hafði verið hafnað og sagðist ekkert hafa þar meira að gera. Stuttu síðar bauð áfrýjandi stefnda vinnu sem 2. vélstjóri á Hólmatindi, en hann hafnaði því.
II.
Eins og að framan greinir hafði stefndi fengið undanþágu til starfa sem 1. vélstjóri á Hólmanesinu, en samkvæmt 8. gr. laga nr. 113/1984 er heimilt, ef skortur er á mönnum með nægileg vélstjórnarréttindi, að veita manni, sem ekki fullnægir skilyrðum laganna, undanþágu til starfa á tilteknu skipi eða tiltekinni gerð skipa um takmarkaðan tíma, þó eigi lengur en í 6 mánuði. Ljóst var að undanþágu væri einnig þörf til starfa stefnda sem 1. vélstjóra á Hólmatindi. Fram er komið, að stefndi vildi starfa áfram hjá áfrýjanda, sem gerði Hólmatind út frá Eskifirði, en stefndi var búsettur í Neskaupstað. Hóf stefndi störf á Hólmatindi 15. mars 2004 við að undirbúa skipið til veiða og vann þar til 25. mars, þegar vitneskja barst um höfnun beiðninnar um undanþágu. Ráðning stefnda í starf 1. vélstjóra á Hólmatindi var háð þeirri forsendu að undanþága fengist, sem samkvæmt framansögðu er tímabundin, en af því varð hann að bera áhættu. Þótt stefndi hafi ekki haft réttindi til að starfa sem 1. vélstjóri á Hólmatindi eftir að hafnað hafði verið að veita honum undanþágu til að gegna þeirri stöðu, verður allt að einu að líta svo á að áfram hafi verið í gildi ráðningarsamningur um starf hans á skipinu, sem ekki hafi verið bundið tilteknu starfsheiti. Þegar fyrir lá að hafnað hafi verið að veita stefnda undanþágu hætti hann þegar í stað störfum um borð í skipinu. Stuttu síðar bauð útgerðarstjóri áfrýjanda stefnda að vinna í uppsagnarfresti sem 2. vélstjóri á Hólmatindi, en því hafnaði hann. Með því að hafna þessu boði fyrirgerði stefndi rétti til launa í uppsagnarfresti, en ákvæði 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 á ekki við í þessu tilviki, þar sem honum var ekki vikið úr skiprúmi. Ber því að sýkna áfrýjanda af kröfu stefnda.
Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Eskja hf., er sýkn af kröfu stefnda, Gunnars Jónssonar.
Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 24. janúar 2005.
Mál þetta sem höfðað var 15. júní 2004 var dómtekið 6. desember sl.
Stefnandi er Gunnar Jónsson, kt. [...], Melgötu 15, Neskaupstað.
Stefndi er Eskja hf., kt. [...], Strandgötu 39, Eskifirði.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 1.807.544,00 auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 12.03.2004 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað. Til vara krefst stefndi þess að stefnukrafan verði lækkuð og málskostnaður verði felldur niður.
I.
Mál þetta hefur stefnandi höfðað til heimtu bóta á grundvelli 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.
Stefnandi gegndi stöðu 1. vélstjóra á Hólmanesi SU-1, skipaskrárnúmer 1346, 451 brúttórúmlesta skuttogara í eigu stefnda frá 24. júní 2003 til 12. mars 2004 er Þórður Snæbjörnsson var ráðinn í vélstjórastöðuna en Íshaf hf. hafði þá tekið við útgerð skipsins. Áhöfninni á Hólmanesi var ekki sagt upp störfum þegar skipið var selt og nýr aðili tók við útgerð þess heldur var henni boðið að fara yfir á Hólmatind SU-1, skipaskránúmer 2332, sem stefndi hafði fengið í skiptum fyrir m.a. Hólmanesið.
Stefndi lýsir málsatvikum nánar þannig að útgerðarstjóri stefnda hafi haft af því nokkrar áhyggjur að stefnandi, sem er með 750 kw réttindi og hafði starfað á undanþágu á Hólmanesinu, gæti starfað á Hólmatindi þar sem skipið sé með 1648 kw vél og því með stærri aðalvél en Hólmanesið, sem sé með 1251 kw aðalvél. Stefnandi hafi hins vegar talið áhyggjurnar ástæðulausar þar sem hann væri í góðu sambandi við aðila í undanþágunefndinni auk þess sem hann hefði áður fengið undanþágu á stærri vélar, þ.e. þegar hann var vélstjóri á Beiti NK sem sé með 1943 kw vél og Kambaröst SU sem sé með 1920 kw vél. Stefnanda hafi því ekki verið sagt upp störfum sínum á Hólmanesi frekar en öðrum skipverjum.
Hólmanesið hafi komið úr sinni síðustu veiðiferð 23. febrúar 2004 og farið í slipp. Að samkomulagi hafi orðið að stefnandi yrði um borð til að koma nýjum skipstjórnar- og vélstjórnarmönnum inn í málin en aðrir yfirmenn hafi farið til Eskifjarðar og byrjað að vinna við breytingar á Hólmatindi. Hafi stefnandi verið við störf í Hólmanesinu frá 24. febrúar til 13. mars. Stefnandi hafi síðan komið til Eskifjarðar og unnið við breytingar á Hólmatindi frá 15. - 25. mars eða allt til þess að stefnanda hafi verið tilkynnt að undanþágubeiðni fyrir hann hefði verið hafnað. Stefnandi hafi þá brugðist ókvæða við og farið frá borði og sagst ekkert hafa meira að gera um borð.
Jóhann Bremnes hafi síðan verið ráðinn sem 1. vélstjóri á Hólmatind. Til að koma á móts við stefnanda hafi honum í byrjun apríl verið boðin staða 2. vélstjóra á skipinu en hann hafi afþakkað hana og sagst vera búinn að ráða sig á Beiti NK.
Stefnandi kannast við að stefndi hafi boðið honum að leysa af einn eða tvo túra sem 3. vélstjóri á Jóni Kjartanssyni. Útgerðarstjóri stefnda hafi síðan haft samband við hann og sagt að hann hefði getað sent hann út í 3 mánuði meðan hann var að klára uppsagnarfrestinn. Hann hafi þá ekki verið búinn að ráða sig á Beiti en ekki getað farið. Hann hafi ekki fengið það starf á Hólmatindi sem að honum hafði verið boðið.
II.
Stefnandi byggir á að við ráðningu hans sem vélstjóra á skuttogarann Hólmanes SU-1 skipaskrárnúmer 1346 hafi legið ljóst fyrir að skipinu yrði haldið út til fiskveiða og hafi hann ráðið sig til starfans á þeirri forsendu. Þá sé ljóst að hann hafi notið þriggja mánaða uppsagnarfrests samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga enda yfirmaður í skilningi 2. mgr. 5. gr. laganna.
Fyrirvaralaus brottvikning stefnanda úr skipsrúmi í kjölfar þess að skipið hafi verið afhent nýjum útgerðaraðila og lögskráning annars manns í hans stað baki stefnda bótaskyldu samkvæmt 25. gr., sbr. 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Beri stefnda að greiða honum sem nemi þriggja mánaða kaupi miðað við meðaltalslaun stefnanda síðustu mánuðina áður en riftun skiprúmssamnings átti sér stað. Bæturnar skerðist ekki þótt stefnandi hafi unnið sér inn einhverjar tekjur fyrstu þrjá mánuðina eftir ráðningarslit eins og fjölmörg dómafordæmi Hæstaréttar sýni.
Hæstiréttur hafi ekki slegið því föstu við hversu langt tímabil eigi að miða þegar meðalbætur samkvæmt 25. gr. sjómannalaga séu reiknaðar. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 319/2002 sé miðað við það tímabil sem sjómaðurinn var fastráðinn hjá útgerðinni. Þá séu efndabæturnar reiknaðar út frá lögskráningardögum sjómannsins en ekki ráðningardögum hans rétt eins og gert sé í dómi Hæstaréttar í máli nr. 292/2002.
Stefnandi byggir kröfu sína á þeim launum sem hann hafði á 155 lögskráningardögum á ráðningartímanum frá 24. júní 2003 til 12. mars 2004, eða samtals 2.936.902 krónum sem geri að meðaltali 18.947 krónur á dag í laun. Sú fjárhæð margfölduð með 90 dögum geri samtals 1.705.230 krónur og við þá fjárhæð bætist glötuð lífeyrisréttindi, 6% að fjárhæð 102.314 krónur eða höfuðstóll kröfu 1.807.544 krónur. Stefnandi byggir á að dráttarvexti beri að reikna frá ráðningarlokum sbr. Hrd. 2001:1483. Hæstiréttur hafi ítrekað bætt glötuðum lífeyrisréttindum ofan á vangreidd laun, sbr. t.d. Hrd. í máli nr. 284/1999.
III.
Stefndi byggir á að stefnandi, sem hafi starfað á undanþágu sem 1. vélstjóri og yfirvélstjóri og því ekki verið fastráðinn þar sem forsenda fastráðningar séu tilskilin réttindi, hafi látið fyrirvaralaust af störfum hjá stefnda þann 25. mars 2004 og að stefndi hafi að fullu staðið stefnanda skil á kaupi í samræmi við 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og kjarasamning vélstjóra á fiskiskipum.
Stefndi mótmælir því að stefnanda hafi verið vikið fyrirvaralaust úr starfi. Ekki hafi verið vitað til þess að neinn úr áhöfninni hefði áhuga á að starfa hjá nýju útgerðinni. Engum hafi verið sagt upp þar sem öll áhöfnin hafi tekið boði um að fara yfir á nýja skipið Hólmatind þar sem stefnandi hafi starfað frá 15. 25. mars er hann hætti fyrirvarlaust störfum. Þá hafi stefnandi hafnað starfi sem honum hafi verið boðið hjá stefnda í byrjun apríl. 25. gr. sjómannalaga geti því ekki átt við í málinu.
Varakröfu um lækkun byggir stefndi á að bætur verði ákvarðaðar á grundvelli þessi að stefnandi eigi annað hvort viku eða í hæsta lagi mánaðar uppsagnarfrest skv. 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Stefnandi hafi ekki haft tilskilin réttindi til yfirmannsstarfs og því ekki getað öðlast rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests samkvæmt greininni. Höfnun undanþágunefndar geti ekki verið á ábyrgð stefnda.
Stefndi gerir kröfu um að við ákvörðun bóta verði reiknuð meðallaun/meðaltekjur miðað við ráðningardaga. Vísar stefndi til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 326/2000 en af honum verði ekki dregin önnur ályktun en að meðallaun undanfarandi mánaða eigi að endurspegla væntingar um laun á uppsagnarfrestinum. Aðeins meðallaun á hvern ráðningardag geti endurspeglað launavæntingar. Meðallaun sem reiknuð séu á hvern lögskráningardag geti hins vegar ekki gefið rétta mynd af því hvaða laun viðkomandi sjómaður gat vænst að fá að meðaltali á mánuði ef útgerð skipsins hefði ekki verið hætt. Þá vísar stefndi einnig til Hæstaréttardóms frá 29. nóvember 2001 í máli Engilberts Ómars Steinssonar gegn Bergi-Huginn ehf. Byggir stefndi á að þau sjónarmið sem fram koma í dóminum ættu ekki við ef rétt væri að reikna aðeins meðallaun út frá lögskráningardögum. Þá vísar stefndi til fordæmis í dómi Hæstaréttar í máli nr. 326/2000: Róbert Pálsson gegn Þormóði ramma-Sæbergi hf. um að útreikning meðallauna skuli miða við ráðningardaga hvort sem það er fyrir liðna 3 mánuði eða lengri tíma. Þá sé í dómi Hæstaréttar í máli nr. 197/2001 tekið fram að miða megi við lengri tíma en 3 mánuði til sveiflujöfnunar tekna.
Heildartekjur stefnanda á 6 mánuðum frá 27. ágúst 2003 til 27. febrúar 2004 séu 3.294.899 krónur. Mánaðartekjur stefnanda séu samkvæmt því 549.150 krónur.
Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um greiðslu á 6% aukatillagi vegna lífeyrisréttinda þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi glatað lífeyrisréttindum eða sýnt fram á það hvernig hann hafi eignast kröfu Lífeyrissjóðs sjómanna að þessu leyti. Þá kveði 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga aðeins á um rétt til kaups til þess dags er ráðningu ljúki.
Þá byggir stefndi á að vexti beri ekki að reikna nema frá 16. maí 2004, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 319/2002.
IV.
Ágreiningur málsaðila snýst um hvort stefnanda beri bætur samkvæmt ákvæðum 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Vill stefnandi við það miða að ráðningarsamningi hans hafi verið rift þegar Hólmanesið var afhent nýjum útgerðaraðila og nýr vélstjóri ráðinn í hans stað. Þá deila aðilar um útreikning bóta samkvæmt ákvæðinu.
Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda, sbr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sem er með svokölluð 750 kw réttindi og gegndi starfi 1. vélstjóra á Hólmanesinu, sem er með 1251 kw aðalvél, með undanþágu frá 24. júní 2003 til 12. mars 2004 er nýr aðili tók við útgerð skipsins og annar maður var ráðinn til starfans í hans stað. Verður því við það að miða að ráðning stefnanda hafi verið ótímabundin. Fyrir liggur að þegar í nóvember eða desember 2003 lá fyrir að stefndi myndi hætta útgerð Hólmaness og að skipið afhent nýjum eigendum í lok febrúar eða byrjun mars 2004. Áhöfn Hólmaness var ekki sagt upp störfum heldur var henni boðin störf á Hólmatindi, sem er með 1648 kw aðalvél. Ljóst var að stefnandi hafði ekki réttindi til að starfa sem 1. vélstjóri á Hólmatindi og því þyrfti undanþágu fyrir hann. Með umsókn til undanþágunefndar dags. 18. mars 2004 sótti stefndi um undanþágu fyrir stefnanda til að starfa sem 1. vélstjóri á Hólmatindi til 20. apríl 2004. Útgerðarstjóri stefnda bar fyrir dóminum að hann hefði haft af því áhyggjur að ekki fengist undanþága fyrir stefnanda og að ekki hafi verið sótt um undanþágu fyrr þar sem talið hafi verið meiri líkur á að undanþága fengist ef sótt væri um skömmu áður en skipið héldi til veiða og í stuttan tíma. Stefnandi var við störf um borð í Hólmatindi frá 15. mars 2004 og þar til honum var hinn 25. sama mánaðar tilkynnt að undanþága hefði ekki fengist fyrir hann. Hætti stefnandi strax störfum þar sem hann taldi ekkert vera meira fyrir sig að gera um borð.
Eins og hér háttar til þykir verða við það að miða að stefnanda hafi verið vikið úr skipsrúmi á Hólmanesinu þegar nýr vélstjóri var ráðinn í hans stað. Breytir engu þar um þó stefndi hafi boðið stefnanda pláss á Hólmatindi, þar sem stefndi starfaði um borð um fárra daga skeið, þar sem með öllu var ótryggt að undanþága fengist fyrir hann. Á stefnandi því rétt á bótum úr hendi stefnda sbr. 25. gr. sjómannalaga, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna sem nemi fullum launum hans í þrjá mánuði frá 12. mars 2004.
Með hliðsjón af þeim dómafordæmum Hæstaréttar sem stefnandi vísar til kröfu sinni til stuðnings verða bætur til stefnanda reiknaðar út frá lögskráningardögum hans. Fyrir liggur að laun stefnanda á því tímabili er hann starfaði hjá stefnda voru að meðaltali 18.947 krónur á lögskráningardag eða samtals 1.705.230 krónur miðað við 90 daga. Frá þeirri fjárhæð ber að draga 107.028 krónur sem eru laun þau sem stefnandi hafði í starfi hjá stefnda eftir riftun skipsrúmssamningsins. Samtals laun eru því 1.598.202 krónur. Af þeirri fjárhæð ber stefnda að greiða 6% eða 95.892 krónur sem mótframlag í lífeyrissjóð. Að öðrum kosti væri tjón stefnanda vegna tímabundins atvinnutjóns ekki að fullu bætt. Samtals er stefndi því dæmdur til að greiða stefanda 1.694.094 krónur með vöxtum eins og krafist er og greinir í dómsorði.
Eftir niðurstöðu málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 280.000 krónur í málskostnað og hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Þorgerður Erlendsdóttir dómstjóri kveður upp dóminn. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómara en endurflutningur málsins var talinn óþarfur.
Dómsorð:
Stefndi, Eskja hf., greiði stefnanda Gunnari Jónssyni, 1.694.094 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 12.03.2004 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 280.000 krónur í málskostnað.