Hæstiréttur íslands

Mál nr. 208/2011


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Annað fjártjón
  • Varanleg örorka


                                     

Fimmtudaginn 26. janúar 2012.

Nr. 208/2011.

Andrés Júlíus Ólafsson

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Kristín Edwald hrl.)

Skaðabætur. Líkamstjón. Annað fjártjón. Varanleg örorka.

A krafði S hf. um bætur fyrir líkamstjón sem hann varð fyrir í umferðarslysi. Aðilar deildu um hvert væri almennt fjártjón A, en hann hafði þurft að sækja sjúkraþjálfun fjarri heimili sínu, og hvert árslaunaviðmið við útreikning skaðabóta vegna varanlegrar örorku skyldi vera. Hæstiréttur taldi A eiga rétt á frekari greiðslu vegna almenns fjártjóns, en staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að ekki væru efni til að breyta þeirri árslaunaviðmiðun, sem bætur fyrir varanlega örorku voru grundvallaðar á af hálfu S hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 2011. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 27.434.592 krónur með 4,5% vöxtum, af 3.007.600 krónum frá 23. október 2002 til 1. september 2005, af 27.434.592 krónum frá þeim degi til 14. desember 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnu „áætluðu eingreiðsluverðmæti framtíðargreiðslna frá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun ríkisins“ samtals að fjárhæð 5.523.427 krónur miðað við 1. september 2005 og 13.967.189 krónum sem stefndi greiddi 30. mars 2006 og 1.523.088 krónum 18. janúar 2012. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt, þar með talið yfirlit um viðbótargreiðslur sem stefndi greiddi áfrýjanda 18. og 19. janúar 2012.

I

Áfrýjandi hefur fyrir Hæstarétti fallið frá þeirri málsástæðu sem hann byggði á í héraði að áætlað eingreiðsluverðmæti framtíðargreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum eigi ekki að koma til frádráttar bótum fyrir varanlega örorku. Hann telur  hins vegar að áætlað verðmæti 40% eingreiðslna frá lífeyrissjóðum sé 2.652.431 króna en ekki 3.818.251 króna eins og kröfugerð hans var í upphafi miðuð við. Sætir þetta ekki andmælum af hálfu stefnda. Þá hefur áfrýjandi lækkað höfuðstól kröfu sinnar vegna tveggja þátta sem deilt var um í héraði, það er vegna  þjáningabóta og bóta fyrir varanlegan miska, og er lækkunin til samræmis við þær fjárhæðir sem stefndi greiddi áfrýjanda vegna þessara bótaþátta. Loks hefur áfrýjandi breytt vaxtakröfu sinni til samræmis við lækkun krafna vegna þjáningabóta og varanlegs miska. Sæta  breytingar þessar á kröfugerðinni ekki andmælum stefnda. Af þessu leiðir að ágreiningsefni málsins fyrir Hæstarétti eru tvö: Annars vegar deila málsaðilar um hvert sé almennt fjártjón áfrýjanda vegna umferðarslyssins 23. október 2002, sbr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hins vegar er ágreiningur um hvaða árslaun skuli leggja til grundvallar við útreikning bóta fyrir þá 40% varanlegu örorku áfrýjanda sem hann hlaut af slysinu.

II

Áfrýjandi krefur stefnda um 650.000 krónur í bætur fyrir annað fjártjón, sbr. 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Rökstyður hann kröfu sína með því að hann hafi þurft á mikilli sjúkraþjálfun að halda og meðal annars orðið fyrir kostnaði vegna ferða í því skyni milli heimilis síns í Kelduhverfi og Húsavíkur þar sem sjúkraþjálfunin fór fram. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi hefur stefndi þegar greitt áfrýjanda 150.000 krónur vegna þessa. Stefndi andmælir því ekki að áfrýjandi hafi farið 84 ferðir í þessu skyni og óumdeilt er að hann hafi ekið hverju sinni um 100 kílómetra. Vegna óvissuþátta um þennan kröfulið þykir ekki unnt að taka hann til greina að fullu og verða bætur til áfrýjanda vegna hans ákveðnar að álitum 350.000 krónur, en þar af hefur stefndi eins og áður segir þegar greitt áfrýjanda 150.000 krónur. Verður stefndi því dæmdur til að greiða áfrýjanda 200.000 krónur með dráttarvöxtum frá 15. apríl 2006, en þá var liðinn mánuður frá því áfrýjandi upplýsti um forsendur þessa kröfuliðar. Staðfest verður með vísan til forsendna úrlausn hins áfrýjaða dóms um kröfu áfrýjanda um bætur fyrir varanlega örorku.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði áfrýjanda, Andrési Júlíusi Ólafssyni, 200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. apríl 2006 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, 1.200.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 22. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Andrési Júlíusi Ólafssyni, [...], [...], á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 22. desember 2009.

Dómkröfur stefnanda eru þessar:

Aðallega krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu á 28.420.292 kr. með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, af 3.993.300 kr. frá 23. október 2002 til 1. september 2005, en af 28.420.292 kr. frá þeim degi til 14. desember 2005, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 13.967.189 kr.- sem greiddar voru af stefnda þann 30. mars 2006.

Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu á 28.420.292 kr. með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, af 3.993.300 kr. frá 23. október 2002 til 1. september 2005, en af 28.420.292 kr. frá þeim degi til 14. desember 2005, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 13.967.189 kr. sem greiddar voru af stefnda þann 30. mars 2006 og áætluðum greiðslum frá lífeyrissjóðum að fjárhæð 3.818.251 kr.

Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu á 28.420.292 kr. með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, af 3.993.300 kr. frá 23. október 2002 til 1. september 2005, en af 28.420.292 kr. frá þeim degi til 14. desember 2005, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 13.967.189 kr. sem greiddar voru af stefnda þann 30. mars 2006 og áætluðum greiðslum frá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun ríkisins samtals að fjárhæð 6.689.247 kr.

Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefndi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.  Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

Málsatvik

Krafa stefnanda á rætur sínar að rekja til slyss sem hann varð fyrir þann 23. október 2002 er hann ók bifreið suður hringveg í Hörgárbyggð. Á slysdegi var snjókoma, skýjað og mikil hálka á vegum. Snjóruðningstæki var þar á ferð og þyrlaði upp miklu snjókófi sem olli því að bifreið stefnanda og önnur bifreið sem ekið var norður hringveginn rákust saman með framenda og runnu út af veginum. Stefnandi var fluttur með sjúkrabifreið á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA) vegna almennra eymsla í fæti, mjöðm og hné sem talið var að hann hefði fengið vegna höggs á hnéð frá mælaborði bifreiðarinnar. Röntgenrannsókn sýndi brot og liðhlaup á liðkolli vinstri mjaðmar og fór stefnandi þegar í aðgerð vegna þessa. Hinn 6. mars 2005 fór stefnandi í gerviliðaaðgerð vegna slyssins.

Vegna ofangreinds slyss var þess farið á leit við læknana Guðmund Björnsson og Jónas Hallgrímsson með sameiginlegri matsbeiðni aðila, dags. 16. ágúst 2005, að þeir legðu mat á afleiðingar þess á heilsu stefnanda með tilliti til skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. matsgerð þeirra, dags. 21. október 2005. Niðurstaða matslæknanna var sú að tímabundið atvinnutjón stefnanda hafi verið 100% á tímabilinu 23. október 2002 til 10. mars 2003 og einnig 100% á tímabilinu 12. maí 2003 til 1. september 2005 eða fram að batahvörfum. Þjáningatímabilið töldu læknarnir hafa verið frá 23. október 2002 til 1. september 2005 þar af 72 dagar þar sem stefnandi var rúmliggjandi. Varanlegan miska stefnanda töldu þeir vera 20 stig og varanleg örorka hans var metin 40%.

Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 14. nóvember 2005, var þess krafist að stefndi greiddi  27.302.613 kr. vegna afleiðinga slyss stefnanda. Í kjölfarið óskaði stefndi eftir því að tryggingarstærðfræðingur framkvæmdi útreikning á eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris stefnanda. Útreikningur tryggingarstærðfræðings lá fyrir hinn 1. mars 2006 en samkvæmt honum nam eingreiðsluverðmætið samtals  6.689.247 kr. Í kjölfarið lagði stefndi fram tillögu að bótauppgjöri en samkvæmt því voru bætur ákveðnar 13.967.189 kr. Þær bætur voru greiddar út hinn 30. mars 2006 en mótteknar með fyrirvara af hálfu stefnanda.

Í máli þessu hefur stefnandi uppi frekari bótakröfur á hendur stefnda, en ekki er ágreiningur um bótaskyldu.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Aðalkrafa stefnanda sundurliðast þannig:

1.1          Bætur skv. 1. gr. skbl.                                                                       kr.                 650.000,-  

1.2          Bætur skv. 3. gr. skbl.                                                                       kr.              1.641.400,-

                               72   x 2.765 = 199.080

                               968 x 1.490 = 1.442.320

1.3          Bætur skv. 4. gr. skbl.                                                                       kr.              1.701.900,-

                               20% af kr. 8.509.500,-

1.4          Bætur skv. 5-7. gr. skbl.                                                                   kr.             24.426.992,-

                               6.584.095 x 9,275 x 40%

                                                                             

                                                                              Samtals.                               kr.             28.420.292,-

Til frádráttar dómkröfu komi 13.967.189 kr. sem stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., hefur þegar greitt stefnanda.

                                                                              Samtals                 kr.           14.453.103,-

Kröfugerð stefnanda miðast við matsgerð Guðmundar Björnssonar og Jónasar Hallgrímssonar um afleiðingar slyssins, sem tekur mið af skaðabótalögum nr. 50/1993, eins og þau voru á slysdeginum.

Stefnandi gerir kröfu um bætur fyrir almennt fjártjón vegna slyssins, sbr. 1. gr. skbl. Meðal annars beri að nefna að stefnandi fór 85 ferðir í sjúkraþjálfun og þurfti að aka u.þ.b. 100 km í hvert skipti. Áskilur stefnandi sér rétt til að leggja fram reikninga sem styðja þennan lið kröfugerðar hans nánar.

Krafist sé bóta fyrir tímabundinn miska (þjáningabætur) á grundvelli 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í fyrrnefndri matsgerð komi fram að við mat á þjáningatíma beri að miða við 1040 daga. Þar af var stefnandi rúmliggjandi í 72 daga og sé kröfugerð stefnanda miðuð við það. Séu fjárhæðir síðan uppfærðar miðað við lánskjaravísitölu í desember 2009, sbr. 15. gr. skbl.

Í matsgerð áðurgreindra lækna komi fram að varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins nemi 20 stigum. Byggir krafan um bætur til handa stefnanda fyrir varanlegan miska á niðurstöðu þessari og 4. gr. skbl. Fjárhæð bótanna taki mið af grunnfjárhæðinni, 4.000.000 kr., uppfærðri miðað við lánskjaravísitölu í desember 2009, sbr. 15. gr. skbl.

Krafa vegna bóta fyrir varanlega örorku grundvallast einnig á fyrrnefndri matsgerð og taki mið af 2. og 4. mgr. 7. gr. skbl. Árslaun stefnanda voru að teknu tilliti til framlags vinnuveitanda til lífeyrissjóðs og hækkun vísitölu til stöðugleikatímamarks eftirfarandi:

1994 – kr. 4.155.074  1,6 / 133,1 x 269,8 =   7.927.833

1995 – kr. 4.594.844  1,6 / 129,7 x 269,8 = 10.131.613

1996 – kr. 3.961.682  1,6 / 147,9 x 269,8 =   7.660.573

1997 – kr. 4.536.341  1,6 / 157,9 x 269,8 =   8.216.207

1998 – kr. 2.616.826  1,6 / 170,4 x 269,8 =   4.391.906

1999 – kr. 4.487.404  1,6 / 182,0 x 269,8 =   7.051.338

Árið 2000 hafi stefnandi hætt tímabundið á sjó til þess að aðstoða eiginkonu sína við að koma af stað ferðaþjónustu og hafi þegið fyrir það mjög takmörkuð laun. Árið 2002 hóf stefnandi að nýju störf á sjó en hann var við þau störf er hann slasaðist í október 2002. Því sé ekki unnt að líta til tekna stefnanda sl. þrjú almanaksár fyrir þann dag er slysið varð, enda megi augljóst vera að sú tekjuviðmiðun gefi ekki rétta mynd af tekjutjóni stefnanda til framtíðar sem skaðabótalögum sé ætlað að tryggja. Þar sem tekjur stefnanda undanfarin ár, þ.m.t. árið 1999, hafi verið langt umfram hámarkstekjuviðmið 4. mgr. 7. gr. skbl. sé sú tekjuviðmiðun lögð til grundvallar. Stefnandi hafi lokið námi við Háskólann á Bifröst og stundi nú meistaranám við Háskólann í Reykjavík í fjármálum fyrirtækja.

Krafist sé 4,5% vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá því að mánuður var liðinn frá því að krafan var fyrst sett fram með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda dags. 14. nóvember 2005.

Farið sé fram á að mögulegar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins verði ekki dregnar frá bótum á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skbl. fyrir varanlega örorku eins og stefndi hafi boðað í uppgjörstilboði sínu. Um sé að ræða verðmæti greiðslu frá Tryggingastofnun að 2/3, samtals 1.880.879 kr., og verðmæti barnalífeyris að upphæð 990.117 kr., samtals  2.870.996 kr.

Greiðslur sem tjónþolar eigi rétt á frá almannatryggingum við batahvörf geti vissulega tekið breytingum í framtíðinni og í sumum tilvikum ríki raunar mikil óvissa um framtíðarrétt tjónþola til félagslegra greiðslna frá almannatryggingum. Eigi slíkt tvímælalaust við í tilviki stefnanda. Sé því tæplega fyrirséð hvort staða stefnanda haldist óbreytt í áratugi, t.d. hjúskaparstaða eða starfsorka, þannig að réttur til greiðslna almannatrygginga haldist óbreyttur. Hér beri að nefna að á þeim tíma er stefndi gerði upp bætur við stefnanda, hafi félagið tekið mið af tímabundnu mati Tryggingastofnunar á örorku stefnanda. Um hafi verið að ræða tímabundið mat Tryggingastofnunar og því ekki mat á varanlegri örorku stefnanda til frambúðar. Því telur stefnandi útilokað að stefndi geti dregið frá skaðabótum til hans 2/3 hluta uppreiknaðs höfuðstólsverðmætis áætlaðra greiðslna til allt að 67 ára aldurs, enda ekki unnt að gera ráð fyrir óbreyttu mati á örorku um alla framtíð.

Þá vill stefnandi enn fremur benda á það ójafnræði sem ríki annars vegar milli hans, sem njóti greiðslna frá almannatryggingum, og hins vegar þeirra sem ekki njóti slíkra greiðslna. Í síðarnefnda tilvikinu geti tjónþoli notið góðs af því að endurheimta heilsu sína í framtíðinni. Hann geti því hafið störf og bætist launatekjur hans við þær skaðabætur sem hann hafi þegið vegna varanlegrar örorku. Í tilviki stefnanda dragist eingreiðsluverðmæti ætlaðra framtíðargreiðslna til hans frá almannatryggingum hins vegar frá skaðabótum fyrir varanlega örorku við bótauppgjör. Batni heilsufar stefnanda þannig að hann geti hafið störf á ný, skerðist greiðslur til hans úr almannatryggingum eða falli alfarið niður. Í þessu tilviki sé því í raun enginn hvati fyrir stefnanda til að hefja atvinnuþátttöku á ný þar sem hann tapi á að afla sér launatekna vegna þess að greiðslur frá almannatryggingum sem dregnar hafi verið frá skaðabótum til hans skerðist eða falli niður.

Stefnandi telur því að tjón hans sé verulega vanbætt með framangreindu uppgjöri, enda kom fram í þágildandi 1. málslið 4. mgr. 5. gr. skbl. að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns drægjust greiðslur sem tjónþoli fengi frá almannatryggingum. Hljóti hér að vera átt við þær bætur sem stefnandi fær raunverulega úr almannatryggingum en ekki hugsanlegar bætur í framtíðinni. Sé slík skýring á inntaki ákvæðisins í samræmi við orðanna hljóðan. Enn fremur beri að taka tillit til þess að markmið skaðabótalaga sé að tjónþolar fái allt tjón sitt bætt og hljóti þá að þurfa að horfa til þeirra bóta sem þeir fái raunverulega í hendur, en ekki einungis að formi til eða í samræmi við spá fyrir afar langt tímabil, sem háð sé mikilli óvissu. Taka beri fram að mikil óvissa ríki um starfsgetu stefnanda í framtíðinni og því óvíst hvort hann fái nokkuð greitt frá almannatryggingum eftir gildistíma hins tímabundna mats. Af framangreindu sé ljóst að frádráttur við greiðslu bóta frá stefnda árið 2006 átti sér ekki lagastoð.

Stefnandi áskilur sér rétt til að leggja fram útreikning tryggingastærðfræðings um það hvort, og þá að hve miklu leyti, mögulegar greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins og lífeyrissjóða komi til með að hafa áhrif á bótakröfur stefnanda.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda, um að ekki verði dregnar frá bótum hans greiðslur frá lífeyrissjóðum, sé gerð varakrafa sem sundurliðast með eftirfarandi hætti:

Varakrafa:

1.1          Bætur skv. 1. gr. skbl.                                                                       kr.                 650.000,-  

1.2          Bætur skv. 3. gr. skbl.                                                                       kr.              1.641.400,-

                               72   x 2.765 = 199.080

                               968 x 1.490 = 1.442.320

1.3          Bætur skv. 4. gr. skbl.                                                                       kr.              1.701.900,-

                               20% af kr. 8.509.500,-

1.4          Bætur skv. 5-7. gr. skbl.                                                                    kr.             24.426.992,-

                               6.584.095 x 9,275 x 40%

                                                                              Samtals.                               kr.             28.420.292,-

Að frádregnum 40% greiðslum frá lífeyrissjóðum (Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður Norðurlands og Sameinaði lífeyrissjóðurinn) að fjárhæð  3.818.251 kr.

Til frádráttar dómkröfu komi enn fremur 13.967.189 kr., eins og varðandi allar kröfur stefnanda, sem stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafi þegar greitt stefnanda.

                                                                              Samtals.                               kr.           10.634.852,-

Krafist sé 4,5% vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá því að mánuður var liðinn frá því að krafan var fyrst sett fram með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 14. nóvember 2005.

Þó skuli tekið fram að ofangreindur útreikningur á frádrætti vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum byggist á útreikningi Steinunnar Guðjónsdóttur, tryggingarstærðfræðings stefnda, og sé gerður áskilnaður um að leita eftir mati annars tryggingarstærðfræðings á frádrætti.

Varðandi nánari lýsingu á kröfugerð og einstökum liðum hennar sé vísað til umfjöllunar um aðalkröfu.

Verði hvorki fallist á aðalkröfu stefnanda né áðurgreinda varakröfu sé gerð þrautavarakrafa sem sundurliðast með eftirfarandi hætti:

Þrautavarakrafa:

1.1          Bætur skv. 1. gr. skbl.                                                                       kr.                 650.000,-  

1.2          Bætur skv. 3. gr. skbl.                                                                       kr.              1.641.400,-

                               72   x 2.765 = 199.080

                               968 x 1.490 = 1.442.320

1.3          Bætur skv. 4. gr. skbl.                                                                       kr.              1.701.900,-

                               20% af kr. 8.509.500,-

1.4          Bætur skv. 5-7. gr. skbl.                                                                    kr.             24.426.992,-

                               6.584.095 x 9,275 x 40%

                                                                             

                                                                               Samtals.                               kr.             28.420.292,-

Að frádregnum 40% greiðslum frá lífeyrissjóðum (Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður Norðurlands og Sameinaði lífeyrissjóðurinn) að fjárhæð 3.818.251 kr.

Að frádregnum áætluðum greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð  2.870.996 kr.

Til frádráttar dómkröfu koma 13.967.189 kr. sem stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafa þegar greitt stefnanda.

                                                                              Samtals.                               kr.           7.763.856,-

Krafist sé 4,5% vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá því að mánuður var liðinn frá því að krafan var fyrst sett fram með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 14. nóvember 2005.

Þó skuli tekið fram að ofangreindur útreikningur á frádrætti vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum og almannatryggingum byggist á útreikningi Steinunnar Guðjónsdóttur, tryggingarstærðfræðings stefnda, og sé gerður áskilnaður um að leita eftir mati annars tryggingarstærðfræðings á frádrætti.

Varðandi nánari lýsingu á kröfugerð og einstökum liðum hennar vísast til umfjöllunar um aðalkröfu.

Kröfur stefnanda styðjast við skaðabótalög nr. 50/1993, með síðari breytingum, og almennar ólögfestar reglur íslensks réttar um skaðabætur.

Um vaxtakröfuna vísar stefnandi sérstaklega til 16. gr. skbl. nr. 50/1993 og um dráttarvaxtakröfuna til 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.

Málsástæður og lagarök stefnda

Aðalkrafa

Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda. Sýknukrafa stefnda sé aðallega reist á því að stefnandi hafi þegar fengið greiddar fullnaðarbætur vegna þess slyss sem hann varð fyrir hinn 23. október 2002. Stefnandi hafi með engu móti sýnt fram á að hann eigi rétt á frekari bótum en sönnunarbyrði um slíkt hvíli á stefnanda.

Í fyrsta lagi hafnar stefndi þeirri kröfu stefnanda að bætur frá Tryggingastofnun ríkisins skuli ekki dregnar frá bótum í samræmi 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ljóst sé að framangreint ákvæði kveði skýrt á um að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns skuli dragast eingreiddar örorkubætur almannatrygginga. Í því sambandi skipti ekki máli þótt hagir stefnanda kunni að breytast í framtíðinni að því er varðar hjúskaparstöðu og starfsorku. Fyrir liggi skýr dómafordæmi Hæstaréttar um að miða skuli við að tímabundið mat Tryggingastofnunar breytist ekki til framtíðar en greiðslur stofnunarinnar taki hins vegar mið af áætluðum framtíðartekjum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 119/2005. Þá vísar stefndi til þess að til frádráttar skaðabótakröfu eigi að koma réttindin sem slík, þ.e. frádrátturinn eigi að miðast þá greiðslu sem aðili eigi rétt á úr almannatryggingum. Byggir stefndi á því að bótauppgjörið frá 28. mars 2006 grundvallist á framangreindu og eigi sér þannig stoð í lögum og fyrirliggjandi dómafordæmum. Loks hafnar stefndi algerlega þeirri kröfu stefnanda að 40% af greiðslum lífeyrissjóða skuli ekki koma til frádráttar kröfu hans eins og skýrlega sé kveðið á um í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Sé raunar vandséð á hverju stefnandi byggir þá kröfu sína að slíkur frádráttur eigi ekki að fara fram.

Í öðru lagi sé því mótmælt að skilyrði séu uppfyllt til að beita 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við ákvörðun skaðabóta fyrir varanlega örorku stefnanda. Byggir stefndi á því að beita beri 1. mgr. sbr. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við útreikning bóta, sbr. bótauppgjör frá 28. mars 2006. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skulu árslaun metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði en árslaun síðustu þriggja ára fyrir slys sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Hvort tveggja skilyrðanna þurfi að vera uppfyllt til að heimilt sé að beita 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, þ.e. hið fyrra að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi sem og hið síðara að annar mælikvarði en meginregla 1. mgr. 7. gr. sé réttari á líklegar framtíðartekjur. Ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sé undantekningarregla sem skýra beri þröngt.

Stefnandi hafi hvorki sannað að óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi né að annar mælikvarði en meginregla skaðabótalaganna í 1. mgr. 7. gr. sbr. 3. mgr. gefi réttari mynd af líklegum framtíðartekjum hans. Beri því að leggja árslaun hans síðustu þrjú almanaksár fyrir slys til grundvallar. Í þessu sambandi sé vakin athygli á því að inn í tekjum stefnanda fyrir árin 1999, 2000 og 2001 séu tekjur hans vegna vinnu hans sem sjómaður. Árið 2000 hóf stefnandi rekstur gistiheimilis en hann hafi samhliða stundað vinnu á sjónum. Í matsgerð sé haft eftir stefnanda að þau hjón hafi hugsað sér „að reka áfram gistiheimilið með þessum öðrum störfum sínum en það breyttist allt eftir slysið“. Af þessu sé ljóst að tekjur síðustu þriggja almanaksára fyrir slysið ættu að gefa mjög góða mynd af líklegum framtíðartekjum stefnanda. Sérstaklega sé því mótmælt að stefnandi hafi á slysdegi hafið störf að nýju sem sjómaður. Í matsgerð komi fram að stefnandi hafi á slysdegi verið búinn að ráða sig við trollfiskun ,,hluta úr ári“. Sé það í fullu samræmi við það að síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið hafi stefnandi unnið að hluta til sem sjómaður. Af framangreindu telur stefndi ljóst að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að annar mælikvarði en meginregla skaðabótalaganna í 1. mgr. 7. gr. gefi réttari mynd af líklegum framtíðartekjum hans.

Verði talið að skilyrði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga séu uppfyllt og meta beri árslaun stefnanda sérstaklega sé því mótmælt að miða beri við hámarkstekjuviðmið 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Stefnandi beri sönnunarbyrðina um hvaða árslaun leggja beri til grundvallar, þ.e. að önnur og hærri árslaun en hann aflaði fyrir slysið gefi réttari mynd af framtíðartekjum hans. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að líklegt sé að meðaltekjur hans hefðu náð því hámarki sem miðað sé við í 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, þ.e. hefði slysið ekki átt sér stað. Jafnframt hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi átt þess kost að afla þeirra tekna eða að breytingar hafi verið yfirvofandi á atvinnuhögum hans.

Í þriðja lagi mótmæli stefndi kröfu um bætur fyrir annað fjártjón. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn um umræddan kostnað og sé krafan bæði ósönnuð og órökstudd. Beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda vegna þessa kröfuliðar.

Í fjórða lagi sé kröfu um frekari þjáningabætur hafnað en stefnandi hafi fengið  þennan kröfulið að fullu bættan hinn 28. mars 2006 þegar hann tók við bótum vegna 968 daga óvinnufærni þar af 72 daga vegna þess að hann taldist rúmliggjandi í skilningi laganna.

Að öðru leyti sé tölulegri kröfugerð stefnanda mótmælt þar sem hún sé ekki í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993.

Varakrafa

Fari svo að dómurinn telji stefnanda eiga einhverja fjárkröfu á stefnda vegna slyssins 23. október 2002 sé þess krafist að einstakir kröfuliðir stefnanda verði lækkaðir verulega og að málskostnaður verði felldur niður. Um málsástæður fyrir varakröfu sé vísað til umfjöllunar um aðalkröfu stefnda. Þá sé byggt á því að vextir sem féllu til fjórum árum fyrir birtingu stefnu í málinu, þ.e. fyrir 22. desember 2005 eða fyrr, séu fyrndir, sbr. 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Loks sé mótmælt dráttarvaxtakröfu stefnanda frá fyrra tímamarki en dómsuppsögudegi.

Að öðru leyti sé tölulegri kröfugerð stefnanda mótmælt þar sem hún sé ekki í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993.

Niðurstaða

Í málinu er ekki ágreiningur um bótaskyldu, en aðila greinir á um bótafjárhæðir. Kröfugerð stefnanda í málinu miðast við matsgerð læknanna Guðmundar Björnssonar og Jónasar Hallgrímssonar um afleiðingar slyssins, sem tekur mið af skaðabótalögum nr. 50/1993, eins og þau voru á slysdegi. Stefnandi fékk greiddar bætur frá stefnda samkvæmt bótauppgjöri, dags. 28. mars 2006, að fjárhæð 13.967.189, auk lögmannskostnaðar að fjárhæð 626.536 kr. með virðisaukaskatti. Bótagreiðslur voru mótteknar með fyrirvara af hálfu stefnanda.

Stefnandi gerir í fyrsta lagi kröfu um bætur fyrir almennt fjártjón vegna slyssins að fjárhæð 650.000 kr. með vísan til 1. gr. skaðabótalaga. Kveðst stefnandi hafa þurft að sækja sjúkraþjálfun til Húsavíkur frá Kelduhverfi. Hann hafi farið 85 ferðir og þurft að aka u.þ.b. 100 km í hvert skipti. Stefnandi hefur ekki rökstudd þennan kröfulið frekar með framlagningu gagna þrátt fyrir áskilnað þar um, en fyrir liggur að samkvæmt bótauppgjöri 28. mars 2006 voru greiddar 150.000 kr. vegna þessa. Verður því hafnað bótakröfu stefnanda samkvæmt þessum lið.

Stefnandi gerir í öðru lagi kröfu um þjáningabætur að fjárhæð 1.641.400 kr. samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga. Fyrir liggur að samkvæmt bótauppgjöri 28. mars 2006 voru bætur þessar miðaðar við 1040 daga, þar af voru 72 dagar sem stefnandi taldist vera rúmliggjandi. Kröfuliður þessi var þannig að fullu bættur með 1.156.800 kr. sem stefnandi fékk greiddar samkvæmt uppgjörinu. 

Stefnandi gerir í þriðja lagi kröfu um bætur fyrir varanlegan miska að fjárhæð 1.701.900 kr. samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga.  Ekki verður annað séð en að þessi kröfuliður hafi að fullu verið bættur með 1.200.800 kr. samkvæmt bótauppgjöri 28. mars 2006. Er þessari bótakröfu því hafnað.

Stefnandi gerir í fjórða lagi kröfu um bætur fyrir varanlega örorku að fjárhæð 24.426.992 kr. samkvæmt 5.- 7. gr. skaðabótalaga. Krafa stefnanda tekur mið af 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga um óvenjulegar aðstæður og að árslaun til ákvörðunar bóta miðist við hámarkstekjur samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laganna. Eins og fram kemur í tölvubréfi frá stefnda til lögmanns stefnanda 27. mars 2006 og ráðið verður af málflutningi aðila var í bótauppgjöri við stefnanda tekið mið af 2. mgr. 7. gr. við ákvörðun árslaunaviðmiðunar þannig að miðað var við tekjuárin 1999 og 2000 uppreiknuð. Taldi stefndi að með því væri tekið tillit til tekna sem ætla mætti að stefnandi hefði bæði á sjó og í landi og þannig komið til móts við það sjónarmið að tjónþoli myndi í framtíðinni starfa að hluta til á sjó og að hluta til í landi.     

Fyrir dómi skýrði stefnandi svo frá að árin 1994-1999 hafi hann starfað sem sjómaður á rækjufrystitogurum. Árið 2000 hafi vinnuaðstæður breyst þegar hann kom í land tímabundið og stofnaði ásamt konu sinni ferðaþjónustu í Kelduhverfi. Við þá starfsemi væri langmest að gera í þrjá mánuði á sumrin, en eiginlega ekkert aðra mánuði ársins. Ætlun stefnanda hafi verið að vinna við ferðaþjónustu yfir sumarmánuðina, en vera á sjó hina mánuðina. Stefnandi kveðst hafa hætt rekstrinum og flutt á  Bifröst haustið 2005 þegar í ljós kom að hann gæti ekki starfað á sjó. Nú starfi stefnandi sem sérfræðingur hjá rannsóknarþjónustu Háskólans í Reykjavík.        Þegar litið er til þeirra áforma sem stefnandi hafði um framtíðarstörf sín á sjó og jafnframt að hluta til um störf í landi við ferðaþjónustu á árunum 2000 og 2001 verður ekki fallist á að árslaun til ákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku skuli miðuð við hámarkslaun samkvæmt 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og stefnandi gerir kröfu til. Eftir atvikum þykja ekki vera efni til að breyta þeirri árslaunaviðmiðun, sem bætur fyrir varanlega örorku stefnanda voru  grundvallaðar á samkvæmt bótauppgjöri dags. 28. mars 2006.

Þá andmælir stefnandi því að mögulegar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins verði dregnar frá bótum á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga fyrir varanlega örorku eins og stefndi gerir í bótauppgjöri sínu. Um er að ræða verðmæti greiðslu frá Tryggingastofnun að 2/3, samtals 1.880.879 kr. og verðmæti barnalífeyris að upphæð 990.117 kr. eða alls 2.870.996 kr. samkvæmt útreikningi tryggingastærðfræðings, sem ekki hefur verið hnekkt.

Í 1. málslið 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eins og þeirri grein var breytt með 4. gr. laga nr. 37/1999, segir að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns dragist greiðslur sem tjónþoli fær frá almannatryggingum. Í dómaframkvæmd hefur þetta ákvæði verið skýrt svo að frá skaðabótum skuli draga áætlaðar framtíðargreiðslur frá almannatryggingum vegna slyssins. Sú tilhögun frádráttar er eðlileg þegar litið er til þess að skaðabætur fyrir varanlega örorku eru greiddar fyrir líkindatjón fram í tímann. Verður því að telja að heimilt hafi verið að draga þessar greiðslur frá bótum til stefnanda á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eins og gert var samkvæmt bótauppgjöri frá 28. mars 2006.

Samkvæmt greindu bótauppgjöri komu einnig til frádráttar 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti greiðslna frá lífeyrissjóðum, eins og heimilt var samkvæmt ótvíræðu ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt útreikningi tryggingastærðfræðings var þar um að ræða 3.818.251 kr. Var sá  útreikningur miðaður við forsendur um varanlega örorku stefnanda sem lágu fyrir á þeim tíma þegar gengið var frá uppgjöri. Síðar tilkomið endurmat á varanlegri örorku stefnanda getur ekki hróflað við þeirri niðurstöðu.  Bætur fyrir varanlega örorku stefnanda voru því réttilega ákveðnar með 10.800.589 kr. samkvæmt bótauppgjöri frá 28. mars 2006. Verður því ekki fallist á kröfu stefnanda um frekari bætur vegna varanlegrar örorku.

Samkvæmt greindu bótauppgjöri fékk stefnandi greidda vexti af bótum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga.

Samkvæmt framansögðu hefur stefnandi fengið tjón sitt að fullu bætt vegna slyssins sem hann varð fyrir hinn 23. október 2002, með bótauppgjöri dags. 28. mars 2006. Dómkröfur hans ná því ekki fram að ganga og ber að sýkna stefnda af þeim.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.                 

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Andrésar Júlíusar Ólafssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.