Hæstiréttur íslands

Mál nr. 560/2010


Lykilorð

  • Ómerking
  • Heimvísun


Fimmtudaginn 14. apríl 2011.

Nr. 560/2010.

Þrotabú Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. og

Karl Steingrímsson

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Helgi Sigurðsson hrl.)

Ómerking. Heimvísun.

Bankinn A hf. krafði þb. V ehf. og K um greiðslu fjárhæðar sem nam yfirdrætti þrotabúsins hjá bankanum, sem felldur hafði verið niður, og K bar sjálfskuldarábyrgð á. Í héraði var krafa A hf. tekin til greina. Hæstiréttur taldi að héraðsdómur hefði ekki  leyst úr málsástæðu  þb. V ehf. og K með rökstuddum hætti og að auki í úrlausn sinni byggt á málsástæðum sem A hf. hafði ekki uppi í héraði. Af þeim sökum var ekki hjá því komist að ómerkja inn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Eggert Óskarsson héraðsdómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 29. september 2010. Þeir krefjast þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara sýknu af kröfu stefnda. Að því frágengnu krefjast áfrýjendur þess að þeim verði gert að greiða stefnda 24.526.512 krónur að frádreginni innborgun að fjárhæð 23.500.000 krónur 10. janúar 2011 „og dráttarvextir reiknist frá dómsuppsögudegi í Hæstarétti“. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að áfrýjendum verði óskipt gert að greiða sér 24.526.512 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 3. október 2009 til greiðsludags, að frádreginni innborgun 23.500.000 krónur 10. janúar 2011. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms um málskostnað og málskostnaðar fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi áfrýjenda. 

Aðalkrafa áfrýjenda er annars vegar reist á því að héraðsdómur hafi ekki leyst úr þeirri meginmálsástæðu að Eignarhaldsfélaginu Vindasúlum ehf. væri heimilað að skuldajafna yfirdráttarskuld við innistæðu á handveðsettum reikningi og hins vegar á því að héraðsdómur hafi í úrlausn sinni er laut að niðurfellingu yfirdráttarheimildar byggt á málsástæðum sem stefndi hafði ekki uppi fyrir héraðsdómi. Varðandi hið fyrrnefnda þá eru í forsendum héraðsdóms rakin efnisatriði yfirlýsingar um sjálfskuldarábyrgð og handveðsetningar og síðan segir svo: „Af framangreindu verður ekki beinlínis ráðið að stefnanda beri að verða við kröfu stefndu um að skuldajafna stefnufjárhæðina við innistæðu á reikningi nr. 0358-22-322.“ Hvorki er úr því leyst með rökstuddum hætti né að því vikið hvort skilyrði fyrir skuldajöfnuði séu fyrir hendi. Um hið síðarnefnda er í héraðsdómi vísað til þess að „gildar ástæður“ hafi verið fyrir niðurfellingu yfirdráttarheimildar vegna „sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði“ og það hafi verið „andstætt góðri viðskiptavenju“ að hafa yfirdráttarheimildina í gildi. Í gögnum málsins, þar með talið endurritum þinghalda, kemur ekki fram að þessar málsástæður hafi verið hafðar uppi af hálfu stefnda í héraði. Úrlausn héraðsdóms samkvæmt framansögðu var andstæð fyrirmælum f. liðar 1. mgr. 114. gr. og 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti, en ákvörðun um málskostnað í héraði bíði niðurstöðu héraðsdóms.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. september 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 1. september 2010, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Nýja Kaupþingi banka hf., kt. 581008-0150, Borgartúni 4, Reykjavík, gegn Eignarhaldsfélaginu Vindasúlur ehf., kt. 670195-2799, Kirkjutorgi 4, Reykjavík, og Karli Steingrímssyni, kt. 190347-8269, Laugarásvegi 35, Reykjavík, með stefnum sem birtar voru 20. október og 24. október 2009.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 24.526.512 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 24.526.512 kr. frá 21. ágúst 2009 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur stefndu eru að þau verði alfarið sýknuð af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað að mati dómsins.

Stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því:  Stefnandi lýsir því að félagið hafi, hinn 12. maí 1998, samþykkt umsókn Eignarhaldsfélags Kirkjuhvols ehf., sem nú beri nafnið Eignahaldsfélagið VINDASÚLUR ehf., um stofnun veltureiknings með heimild til yfirdráttar í útibúi stefnanda.  Veltureikningurinn hafi borið númerið 0301-26-1943.  Þá liggur fyrir að hinn 31. ágúst 2007 undirritaði stefndi, Karl Steingrímsson, yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð á greiðslu yfirdráttar að fjárhæð 30.000.000 kr. á tékkareikning Eignarhaldsfélagsins Kirkjuhvols ehf. nr. 1943 hjá Kaupþingi banka hf., kt. 560882-0419, sbr. dskj. nr. 3.

Stefnandi, Nýi Kaupþing banki hf., lýsir því að með heimild í lögum nr. 125/2008, er tóku gildi 7. október 2008, hafi Fjármálaeftirlitið ákveðið, hinn 9. október 2008, að taka yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka hf., kt. 560882-0419, víkja stjórn bankans frá og skipa skilanefnd yfir hann. Hinn 22. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið ráðstafað eignum og skuldum Kaupþings banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf.

Stefnandi, Nýi Kaupþing banki hf., lýsir því að hinn 21. ágúst 2009 hafi heimild til yfirdráttar á veltureikningi nr. 03.01-26-1943 runnið út; 24.526.512 kr. hafi þá verið í vanskilum.  Þrátt fyrir innheimtutilraunir hafi skuldin ekki fengist greidd.

Stefndu lýsa málavöxtum á þann veg að Eignarhaldsfélagið Vindasúlur ehf. hafi stofnað hlaupareikning nr. 1943 við útibú Kaupþings banka hf. nr. 301.  Við stofnun stefnanda hafi reikningurinn verið færður frá Kaupþingi yfir til stefnanda.  Á þeim tíma hafi yfirdráttarheimildin verið að fjárhæð 30.000.000 kr.  Hinn 31. ágúst 2007 hafi stefndi, Karl Steingrímsson, ábyrgst greiðslu á yfirdrættinum í fjögur ár frá útgáfudegi yfirlýsingar hans um sjálfskuldarábyrgðina, sbr. dskj. nr. 3.  Hinn 3. október 2008 hafi Vindasúlur ehf. veitt Kaupþingi banka hf. handveð í innistæðu reiknings félagsins hjá bankanum nr. 0358-22-322 til tryggingar öllum skuldum félagsins við bankann.  Innistæða á reikningnum nemi nú [þ.e. 15. desember 2009] 107.344.356 kr.  Bankinn hafi þannig fé Vindasúlna ehf. í sínum fórum sem honum beri að ráðstafa til lúkningar á yfirdráttarskuld félagsins.  Í ágúst 2009 hafi virst sem stefnandi hafi fellt einhliða niður yfirdráttarheimildina án þess að tilkynna stefndu um það.

Helstu málsástæður stefnanda og réttarheimildir er hann byggir á:  Stefnandi byggir á því að stefndu hafi ekki staðið skil að 24.526.512 kr. sem stefndi, Eignarhaldsfélagið Vindasúlur ehf., skuldi bankanum og stefndi, Karl Steingrímsson, beri sjálfskuldarábyrgð á.

Um réttarheimildir vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttarins og meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fá m.a. stoð í lögum nr. 7/1936.  Þá er vísað til 4. gr. laga nr. 94/1933, en samkvæmt þeirri grein sé útgefandi tékka skuldbundinn til að hafa til umráða fé hjá greiðslubanka sem honum er heimilt samkvæmt samningi við greiðslubankann að ráðstafa með tékka.  Vísað er til XXI. kafla laga nr. 91/1991 varðandi kröfu um málskostnað og til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 varðandi kröfu um dráttarvexti.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur, sbr. 10. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, og beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu við ákvörðun málskostnaðar.  Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 91/1991.  Varðandi aðild vísar stefnandi til 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og ákvarðana Fjármálaeftirlitsins.

Helstu málsástæður stefndu og réttarheimildir er þau byggja á:  Í fyrsta lagi er byggt á því að skuldajafna beri kröfu stefnanda við innistæðu á reikningi nr. 0358-22-322.  Samkvæmt handveðssamningi sé innistæða handveðsetts reiknings 107.344.356 kr.  Vindasúlur ehf. eigi því inni hjá stefnanda og beri að skuldajafna hinni umkröfðu skuld við þá innistæðu.  Óeðlilegt sé að stefnandi haldi hinni veðsettu fjárhæð á lægri vöxtum án þess að ganga að innistæðunni til lúkningar kröfunni og safni á sama tíma vanskilavöxtum á hendur stefndu.

Í öðru lagi er byggt á því að yfirdráttarheimildin sé enn í fullu gildi.  Engin gögn í málinu sýni að henni hafi verið sagt upp með löglegum hætti.  Í tölvupósti, sbr. dskj. nr. 12, sé fallist á að heimildin hafi að ósekju og einhliða verið felld úr gildi.  Yfirdrátturinn sé því ekki gjaldfallinn eins og sjá megi á því að sjálfskuldarábyrgð Karls Steingrímssonar sé ætlað að gilda í 4 ár, frá 31. ágúst 2007 til 31. ágúst 2011.  Ábyrgð hans sé reist á þeirri forsendu að ekki reyni á hana fyrr en í lok þess tíma.  Stefnandi eigi því ekki rétt á að fá skuldina greidda.  Hann eigi nú aðeins rétt á að fá vexti af yfirdráttarheimildinni.  Því aðeins sé um vanefnd að ræða að farið hafi verið yfir umsamið hámark sem sé 30.000.000 kr. en það hafi ekki verið gert.

Í þriðja lagi er byggt á aðildarskorti stefnanda.  Skuldbindingar stefndu séu við Kaupþing banka hf. en ekki við stefnanda, Nýja Kaupþing banka hf.  Stefndu hafi ekki samið við Nýja Kaupþing banka hf. um yfirdrátt heldur við Kaupþing banka hf.  Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, hinn 22. október 2008, standist ekki eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar.  Óheimilt hafi verið að flytja bankaviðskipti stefndu að þeim forspurðum í hendur annars aðila.

Í fjórða lagi er þess krafist að kröfu bankans um dráttarvexti verði hafnað.

Um réttarheimildir vísa stefndu til III. kafla laga nr. 7/1936, einkum 36. gr. sbr. og 36. gr. a-d.  Einnig vísa stefndu til 16. gr. laga nr. 91/1991.

Sverrir Guðmundsson, aðstoðarútibússtjóri hjá Arion banka, bar fyrir rétti m.a. að hafa verið aðstoðarútibússtjóri í fjögur til fimm ár.  Vindasúlur ehf. og Karl Steingrímsson hafi átt viðskipti við útibúið og Karl hafi í mörg ár átt viðskipti við bankastofnunina.  Kvaðst Sverrir hafa séð um hans mál innan útibúsins.  Karl hafi haft heimild til yfirdráttar á reikningi nr. 1943 í mörg ár og ávallt sótt eftir að endurnýja hana.

Lagt var fyrir Sverri dskj. nr. 18, sem er yfirlit yfir heimild á yfirdráttarreikningi, en þar kemur fram að heimildin féll niður hinn 4. júní 2009.  Spurt var hvort einhver frá Vindasúlum hafi haft við hann samband eftir þetta.  Sverrir sagði að það kynni að vera að hann hafi átt símtal við Karl eftir þetta en kvaðst ekki vilja fullyrða það.  Hann kvaðst ekki muna að Karl hafi haft við það að athuga, að yfirdráttarheimildin féll niður.

Lagt var fyrir Sverri dskj. nr. 11, sem eru tölvubréf milli þáverandi lögmanns stefndu og Sverris hinn 17. og 18. september 2009.  Spurt var hvort hann hafi átti í einhverjum samskiptum við Vindasúlur ehf. eða Karl eftir þann tíma.  Sverrir kvað svo ekki vera.

Lagt var fyrir Sverri dskj. nr. 10, sem er yfirlýsing, dags. 3. október 2008, um að Eignarhaldsfélagið Kirkjuhvoll ehf., sem veðsali, láti Kaupþingi banka hf. að handveði reikning nr. 0358-22-322 og alla innistæðu hans, eins og hún er hverju sinni.  Sverrir sagði að þarna hafi verið sett fram trygging fyrir greiðslu skulda veðsala.  Bankinn eigi rétt á að ráðstafa þessum fjármunum á móti skuldum veðsala svo sem hentar bankanum.

Niðurstaða:  Ekki er deilt um að stefndi, Eignahaldsfélagið Vindasúlur ehf., skuldaði stefnanda 24.526.512 kr., hinn 21. ágúst 2009, samkvæmt veltureikningi nr. 03.01-26-1943.  Í stefnu er staðhæft að heimild til yfirdráttar á reikningnum hafi á þeim tíma verið útrunnin, sbr. dskj. nr. 4.  Stefndu, Eignarhaldsfélagið Vindsúlur ehf. og Karl Steingrímsson, byggja hins vegar kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að hinni umstefndu kröfu skuli skuldajafna við innistæðu á reikningi nr. 0358-22-322, svo sem rakið var hér að framan.

Í yfirlýsingu stefnda, Karls Steingrímssonar, um sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildar á reikningi nr. 1943 hjá Kaupþingi banka hf. allt að fjárhæð 30.000.000 kr., dags. 31. ágúst 2007, segir m.a.:

Með sjálfskuldarábyrgð þessari skuldbindur ábyrgðaraðili sig persónulega til að tryggja Kaupþingi banka hf., kt. 560882-0419, efndir á skuldbindingum reikningseiganda.  Ábyrgðaraðili ábyrgist greiðslu skuldar eins og um hans eigin skuld væri að ræða.  Ábyrgðaraðila er skylt að greiða skuldina við vanskil, ef bankinn krefst þess, þótt bankinn hafi engar tilraunir gert til að fá hana greidda hjá reikningseiganda.  Ábyrgðaraðili ábyrgist alla skuldina og ef ábyrgðaraðilar eru fleiri en einn, ábyrgist hver um sig fulla greiðslu gagnvart kröfuhafa (óskipt ábyrgð/in solidum).  Við vanefnd reikningseiganda er bankanum í sjálfsvald sett, hvern hann krefur fyrst, reikningseiganda eða ábyrgðaraðila.  Röð ábyrgðaraðila á skuldaskjali/ábyrgðaryfirlýsingu skiptir ekki máli.  Ef ábyrgðaraðili greiðir ábyrgðarskuld, öðlast hann sama rétt á hendur reikningseiganda og bankinn átti og með sömu takmörkunum.  Honum er einnig heimilt að krefja meðábyrgðaraðila sína um greiðslu hluta skuldarinnar (skipta ábyrg/pro rata).

Með handveðsetningu 3. október 2008, sbr. dskj. nr. 10, setti Eignarhaldsfélagið Kirkjuhvoll ehf. [nú Eignarhaldsfélagið Vindsúlur ehf.], sem veðsali, Kaupþingi banka hf., kt. 560882-0419, sem veðhafa, að handveði reikning nr. 0358-22-322 og alla innistæðu reikningsins eins og hún er hverju sinni.  Skjalið er undirritað af Karli Steingrímssyni f.h. félagsins.  Þar segir m.a.:

Handveð þetta er til tryggingar skilvísum og skaðlausum greiðslum til veðhafa á öllum skuldum og fjárskuldbindingum sem veðsali tekst á hendur gagnvart veðhafa, sem þegar hafa stofnast eða sem síðar munu stofnast, hvort sem þær eru skv. víxlum, skuldabréfum, yfirdráttum á tékkareikningum, debet og kreditkortaviðskiptum, lánasamningum, reikningslánum, afurðalánum, erlendum lánum, og hvers kyns ábyrgðum í hvaða formi sem er og í hvaða gjaldmiðli sem er, og hvort sem um er að ræða höfuðstól, verðbætur, gengishækkanir, vexti, dráttarvexti og hvers kyns kostnað þ.m.t. innheimtukostnað lögmanna.

Handveðsrétturinn nær til allrar innistæðu hins veðsetta, eins og hún er hverju sinni, hverju nafni sem nefnist, hvort sem um höfuðstól, vexti, verðbætur eða annað er að ræða.  Handveðsréttur veðhafa nær til hvers konar arðs og vaxta sem falla til á gildistíma veðsetningarinnar enda þótt þær skuldbindingar sem hið veðsetta á að tryggja séu ekki gjaldfallnar.

Verði vanskil á einhverri þeirri kröfu sem veðandlagið á [að] tryggja eða hafi veðsali vanefnt einhverja skyldur sínar skv. einhverri þeirri skuld sem veðandlagið á að tryggja eða hafi veðsali brotið með einhverjum hætti gegn ákvæðum handveðsyfirlýsingu þessarar, er veðhafa heimilt að nota andvirði veðandlagsins í heild eða hluta, til fullnustu á þeim kröfum, sem veðandlagið á að tryggja, án undangenginnar tilkynningar eða aðvörunar.

Þeim hluta inneignar veðsala, sem ekki er þörf til greiðslu á kröfum veðhafa skv. framangreindu skal hann skila til veðsala innan 7 sólarhringa frá því ljóst er að hvaða marki nota þarf veðandlagið til fullnustu á kröfum veðhafa.

Hið handveðsetta er í vörslum og á ábyrgð veðhafa og honum til hér tilgreindrar tryggingar og ráðstöfunar frá undirritun þessarar handveðsyfirlýsingar, og verður það svo lengi sem hún gildir.  Veðsala er óheimilt, meðan skuld sú, sem veðandlagið á að tryggja er ekki að fullu greidd, að ráðstafa veðandlaginu með hvaða hætti sem er, nema hann hafi áður fengið til þess skriflegt leyfi veðhafa.  Verði þörf á frekari atbeina veðsala til að ráðstafa veðandlaginu, skuldbindur veðsali sig til að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir í því efni.

Handveðsetning samkvæmt yfirlýsingu þessari gildir frá og með undirritun hennar og þar til sú skuldbinding, svo og allur kostnaður sem handveðið á að tryggja, eru að fullu greiddar.

Af framangreindu verður ekki beinlínis ráðið að stefnanda beri að verða við kröfu stefndu um að skuldajafna stefnufjárhæðina við innistæðu á reikningi nr. 0358-22-322.  En ljóst er að með þeim hætti mundi stefnandi að sama skapi falla frá að krefja stefnda, Karl Steingrímsson, um greiðslu „eins og um hans eigin skuld væri að ræða“, og jafnframt skerða innistæðuna til greiðslu á öðrum skuldum Eignarhaldsfélagsins Vindsúlna ehf. við bankann.  Ekki eru efni til að fallast á að þessi ákvörðun stefnanda sé í andstöðu við 36. gr., sbr. og 36. gr. a-d, laga nr. 7/1936.

Í öðru lagi byggja stefndu að því að yfirdráttarheimildin sé enn í fullu gildi.  Engin gögn séu um það í málinu að heimildinni hafi verið sagt upp með löglegum hætti.

Hér verður að horfa til þess með hvaða hætti sótt var um yfirdráttarheimild og hvernig bankinn svaraði umsókninni.  Af gögnum málsins verður hvorki ráðið að stefndu hafi upphaflega sótt skriflega um yfirdráttarheimild né síðar sótt skriflega um framlengingu á yfirdráttarheimildinni.  Hér virðist því vera um munnlegt samkomulag að ræða um að hið stefnda félaga hefði heimild til yfirdráttar, að fjárhæð 30.000.000 kr., á reikningi sínum hjá bankanum en án ákvörðunar um hvenær og hvernig yfirdráttarheimildin félli niður.

Í þessu samhengi - og í ljósi sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði - verður heimild til yfirdráttar á reikningi viðkomandi hjá bankanum, allt að 30.000.000 kr., að teljast andstæð góðri viðskiptavenju og jafnframt að gildar ástæður hafi verið til að fella niður þessi fríðindi Eignarhaldsfélagins Vindsúlna ehf. hjá bankanum.  Verður því að fallast á að bankinn hafi einhliða mátt fella yfirdráttarheimildina niður þegar forráðamenn bankans töldu bankann ekki lengur hafa efni til að framlengja hana.

                Í þriðja lagi byggja stefndu á aðildarskorti stefnanda.  Skuldbindingar stefndu séu við Kaupþing banka hf. en ekki stefnanda.  Stefndu hafi aldrei samið við stefnanda um yfirdrátt, heldur við Kaupþing banka hf.  Óheimilt hafi verið að flytja bankaviðskipti stefndu að þeim fornspurðum í hendur annars aðila, það standist ekki eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Fyrir liggur að Fjármálaeftirlitið ákvað að ráðstafa eignum og skuldum Kaupþings banka hf. til Arion banka hf. hinn 21. október 2008.  Ákvörðun var tekin samkvæmt heilmild í 100 gr. a. í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.  Þá liggur fyrir í málinu yfirlýsing frá skilanefnd Kaupþings banka hf. þar sem staðfest er að krafa Kaupþings banka hf. á hendur Eignarhaldfélaginu Vindsúlum ehf. og Karli Steingrímssyni var flutt yfir til Arion banka hf., hinn 21. október 2008. sbr. dskj. nr. 16.  Ekki verður því ráðið að um aðildarskort sé að ræða.  Þá verður ekki talið brot á friðhelgi eignaréttar stefndu að krefja þá um greiðslu á umdeildri skuld.

Í fjórða lagi krefjast stefndu þess að dráttarvaxtakröfu bankans verði hafnað.  Engin lagastoð er fyrir því að hafna dráttarvaxtakröfu bankans alfarið.  Rétt þykir að dæma stefndu til að greiða dráttarvexti frá 3. október 2009, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Samkvæmt framangreindu verða stefndu dæmdir óskipt til að greiða Arion banka hf. umkrafða fjárhæð ásamt dráttarvöxtum og málskostnað allt eins og í dómsorði greinir.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndu, Eignarhaldsfélagið Vindsúlur ehf. og Karl Steingrímsson, greiði óskipt Arion banka hf. 24.526.512 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti verðtryggingu af sömu fjárhæð frá 3. október 2009 til greiðsludags.

Stefndu greiði Arion banka hf. óskipt 500.000 krónur í málskostnað.