Hæstiréttur íslands

Mál nr. 767/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Miðvikudaginn 23

 

Miðvikudaginn 23. desember 2009.

Nr. 767/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

X

(Jón Egilsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 3. mgr. 97. gr. sömu laga, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti Íslands, en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 16. mars 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en að því frágengnu verði varnaraðili einungis látinn sæta farbanni.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.  

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur. 

                                   

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2009.

                Ríkissaksóknari hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 2. mgr. 95. gr., sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að X, kt. [...],[...], verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 16. mars 2010 kl. 16.00.

                Dómfelldi mótmælir kröfunni og krefst þess aðallega að henni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

                Krafan er reist á því að dómfelldi hafi verið dæmdur í héraðsdómi fyrir brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.

                Í kröfu ríkissaksóknara kemur m.a. fram að dómfelldi hafi verið handtekinn 22. maí 2009 vegna rannsóknar stórfellds fíkniefnabrots en dómfelldi hafi verið grunaður um að hafa flutt inn 6149,58 g af amfetamíni frá Hollandi. Tollgæslan hafi lagt hald á efnið 21. apríl 2009 í vörugeymslu á Keflavíkurflugvelli. Ákæra hafi verið gefin út á hendur dómfellda 13. ágúst sl. og aðalmeðferð lokið 30. október sl. Dómur hafi verið kveðinn upp 25. nóvember sl. í Héraðsdómi Reykjaness í máli nr. S-677/2009 þar sem dómfelldi hafi verið sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir stórfellt fíkniefnabrot og dæmdur til að sæta fangelsi í þrjú og hálft ár. Ákærði hafi áfrýjað dóminum til Hæstaréttar með yfirlýsingu sem borist hafa embætti ríkissaksóknara 18. desember sl. Dómfelldi hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 22. maí 2009.

                Af hálfu ríkissaksóknara er byggt á því að sökum alvarleika sakarefnisins þyki nauðsynlegt vegna almannahagsmuna að dómfelldi sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir Hæstarétti. Vísað er til dómvenju í því sambandi svo og til framlagðra gagna.

                Að öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með ríkissaksóknara að skilyrði 2. mgr. 95. gr., sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála séu fyrir hendi í málinu. Krafa ríkissaksóknara verður því tekin til greina eins og hún er fram sett og dómfellda gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 16. mars 2010 kl. 16.00.  Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

                Dómfelldi, X, skal sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar hjá Hæstarétti, þó ekki lengur en til þriðjudagsins 16. mars 2010 kl. 16.00.