Hæstiréttur íslands

Mál nr. 504/2006


Lykilorð

  • Skuldamál
  • Umboð
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. mars 2007.

Nr. 504/2006.

Cell Objects á Íslandi ehf.

(Ágúst Sverrir Egilsson)

gegn

Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins

(Anton Björn Markússon hrl.)

 

Skuldamál. Umboð. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.

Í málinu var deilt um hvort J, fyrrverandi framkvæmdastjóri C, hefði með undirritun lánssamnings og skuldabréfs fyrir hönd C í lok nóvember 2002 skuldbundið C gagnvart N samkvæmt þessum skjölum. Í málinu lá fyrir sú afstaða stjórnarmanna C, sem bókuð var á stjórnarfundi 6. ágúst 2002, að J skyldi annast lántöku hjá N, en N hafði 7. nóvember 2001 fallist á lánsumsókn C. Þá lá fyrir að J hafði annast samskipti af hálfu C við N vegna lántökunnar. Talið var að við þessar aðstæður hefði C verið nauðsynlegt, ef félagið vildi afturkalla heimild J til að annast lántökuna fyrir sína hönd, að tilkynna N sérstaklega um það. Gáfu samskipti J og Á, stjórnarformanns C, skömmu fyrir lántökuna ennfremur sérstakt tilefni til að bregðast við með þessum hætti. C sendi N ekki slíka tilkynningu og var N því rétt að líta svo á að J hefði umboð til lántökunnar en óumdeilt var að lánsféð var lagt inn á bankareikning C. Samkvæmt því varð C skuldbundinn N samkvæmt skuldabréfinu og krafa N um endurgreiðslu lánsins, ásamt dráttarvöxtum, tekin til greina. Kröfu N um almenna vexti á nánar tilgreindu tímabili var hins vegar vísað frá dómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. september 2006. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Í forsendum hans er aðdragandi hinnar umdeildu lántöku rakinn og meðal annars vikið að því sem fram kom í samkomulagi milli hluthafa áfrýjanda 4. febrúar 2002 og á stjórnarfundum hjá áfrýjanda 14. og 21. maí, 13. júní og 6. ágúst sama ár. Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort Jón Helgi Egilsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri áfrýjanda, hafi með undirritun lánssamnings og skuldabréfs fyrir hönd áfrýjanda í lok nóvember 2002 skuldbundið áfrýjanda gagnvart stefnda samkvæmt þessum skjölum.

Í málinu liggur fyrir sú afstaða stjórnarmanna áfrýjanda, sem bókuð var á stjórnarfundi 6. ágúst 2002, að nefndur Jón Helgi skyldi annast lántöku hjá stefnda sem meðal annars ætti að nýta til að greiða honum ógreidd laun, en stefndi hafði 7. nóvember 2001 fallist á lánsumsókn áfrýjanda. Fyrir liggur að Jón Helgi hafði annast samskipti af hálfu áfrýjanda við stefnda vegna lántökunnar. Við þessar aðstæður var áfrýjanda nauðsynlegt, ef hann vildi afturkalla heimild Jóns Helga til að annast lántökuna fyrir sína hönd, að tilkynna stefnda sérstaklega um það. Stjórnarformaður áfrýjanda, Ágúst Sverrir Egilsson, fékk þar að auki sérstakt tilefni til að bregðast við með þessum hætti þegar kom fram í nóvembermánuð, þar sem af samskiptum hans við Jón Helga með tölvupóstum verður ráðið að honum varð kunnugt um að Jón Helgi væri þá enn í viðræðum við stefnda um lánveitinguna og að fyrir lægju drög að lánssamningi sem taka þyrfti afstöðu til. Meðal annars kom fram af hálfu Jóns Helga í orðsendingu til Ágústs Sverris 12. nóvember 2002 ráðagerð um að ganga mætti frá lántökunni hjá stefnda án atbeina þess síðarnefnda. Áfrýjandi sendi stefnda ekki slíka tilkynningu og var stefnda því rétt að líta svo á að Jón Helgi hefði umboð til lántökunnar, en óumdeilt er að lánsféð, 2.500.000 krónur, var lagt inn á bankareikning áfrýjanda 2. desember 2002. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að áfrýjandi hafi orðið skuldbundinn stefnda samkvæmt skuldabréfinu 27. nóvember 2002. Leiðir þetta til þess að héraðsdómur verður staðfestur um höfuðstól kröfu stefnda og málskostnað.

Í dómsorði hins áfrýjaða dóms er áfrýjandi í samræmi við kröfu stefnda dæmdur til að greiða höfuðstól „ásamt Raibor vöxtum (6. mánaða) Seðlabanka Íslands auk 5% álags frá 25. mars 2004 til 2. maí 2004“, án nánari tilgreiningar. Vaxtakrafa þessi samrýmist ekki 11. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og verður henni því vísað frá héraðsdómi. Héraðsdómur verður hins vegar staðfestur um dráttarvaxtakröfu stefnda.

Samkvæmt úrslitum málsins verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að kröfu stefnda, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, um vexti tímabilið 25. mars 2004 til 2. maí 2004 er vísað frá héraðsdómi.

Áfrýjandi, Cell Objects á Íslandi ehf., greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. júní 2006.

Mál þetta var þingfest 29. júní 2005 og tekið til dóms 7. júní 2006.  Stefnandi er Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Borgartúni 35, Reykjavík en stefndi er Cell Objects á Íslandi ehf., Haukanesi 11, Garðabæ.  Réttargæslustefndi er Jón Helgi Egilsson, Haukanesi 11, Garðabæ.

Dómkröfur stefnanda eru þær að hið stefnda einkahlutafélag verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 2.844.153 krónur ásamt Raibor vöxtum Seðlabanka Íslands (6 mánaða) auk 5% álags frá 25. mars 2004 til 2. maí 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða 2.500.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af stefnufjárhæðinni frá 2. janúar 2003 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda í málinu og málskostnaðar að mati dómsins.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og hann gerir ekki kröfur í málinu.

I.

Í málinu er deilt um hvort stefndi sé bundinn af skuldabréfaláni sem stefnandi veitti stefnda.  Réttargæslustefndi, sem var framkvæmdastjóri stefnda, undirritaði skulda­bréfalánið fyrir hönd stefnda og rann andvirði lánsins til réttargæslustefnda.  Þegar réttargæslustefndi undirritaði skuldabréfið hafði stefndi sent tilkynningu til fyrirtækjaskrár Hagstofu Íslands um að réttargæslustefndi væri ekki lengur framkvæmdastjóri félagsins og hefði ekki prókúru fyrir það.

Málavextir eru að öðru leyti þeir að hið stefnda félag var stofnað á árinu 2000 og samkvæmt tilkynningu til Hagstofu Íslands var aðalstarfsemi félagsins hugbúnaðar­þróun.  Samkvæmt hluthafasamkomulagi 4. febrúar 2002 átti réttargæslu­stefndi, Jón Helgi Egilsson, 43% af hlutafé í félaginu, bróðir hans, Ágúst Sverrir Egilsson, 45% og Íslenskir aðalverktakar hf. 12%.  Réttargæslustefndi var framkvæmdastjóri og fór með prókúru fyrir félagið. 

Þann 6. febrúar 2002 gerði stefndi starfs- og launasamkomulag við réttargæslustefnda.  Segir meðal annars í samningnum að réttargæslustefndi sé á launum frá 1. nóvember 2001 og séu honum ekki tryggð laun nema félagið hafi fjármuni til greiðslu launa í formi sölu hlutafjár eða lántöku sem samþykkt sé af stjórn.  Gildistími þessa samnings var frá 1. nóvember 2001 til 1. maí 2002. 

Stefndi falaðist eftir láni hjá stefnanda og þann 7. nóvember 2001 samþykkti stjórn stefnanda að ganga til viðræðna við stefnda um lánafyrirgreiðslu allt að 5.000.000 króna.  Með bréfi 21. janúar 2002 óskaði stefndi eftir breytingu á lánskjörum en því var hafnað af hálfu stefnanda 28. sama mánaðar.

Á stjórnarfundi stefnda 14. maí 2002 var bókað að réttargæslustefndi bendi á að samningur hans sem framkvæmdastjóri sé í raun runninn út og ekkert hafi verið rætt um framhaldið.  Ágúst Sverrir Egilsson lagði til að samningur yrði framlengdur á sama grunni.  Réttargæslustefndi benti þá á að vegna áhuga hluthafa á að fresta töku láns hjá stefnanda væri réttargæslustefndi í raun að lána stefnda og þyrfti því að ná samkomulagi um það.  Ákveðið var að taka málið upp á næsta fundi.

Á stjórnarfundi 21. maí 2002 var bókað að réttargæslustefndi hafi greitt ýmsan kostnað auk þess sem hann láni félaginu laun sín svo lengi sem lántöku hjá stefnanda sé frestað og önnur fjármögnun láti á sér standa.  Á fundinum óskaði réttargæslustefndi eftir viðbrögðum fundarmanna hvernig þeir sæju lausn á þessu máli og var niðurstaða umræðna að fela einum stjórnarmanni, Viktori Jens Vigfússyni, að vinna drög að lausn málsins í samstarfi við Ágúst.

Á minnisblaði Viktors frá 12. júní 2002 kemur meðal annars fram að félagið skuldi réttargæslustefnda laun þar sem ekki hafi verið gengið frá láni við stefnanda. 

Þann 13. júní 2002 var haldinn stjórnarfundur í stefnda og þá meðal annars bókað að samþykkt hafi verið að framlengja samning réttargæslustefnda til 1. september með þeim skilmálum sem áður giltu, meðal annars varðandi áhættutengda fjármögnun. 

Á stjórnarfundi 23. júlí 2002 kom meðal annars fram ráðagerð um að taka lán hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar og Sparisjóði Keflavíkur til að brúa fjármögnun tímabundið uns lán fengist hjá stefnanda. 

Á stjórnarfundi 6. ágúst 2002 var bókað að stjórnarmaðurinn Viktor Jens Vigfússon legði til að lán frá stefnanda eða aðrir fjármunir, sem félaginu standi mögulega til boða, yrðu meðal annars nýttir til að gera upp laun réttargæslustefnda til 1. maí 2002.  Bókað var jafnframt að Ágúst styddi að lán frá stefnanda yrði tekið að því gefnu að 3.000.000 króna yrðu nýttar til að greiða laun til réttargæslustefnda en það sem eftir stæði yrði nýtt til að greiða kostnað vegna einkaleyfis og annarra hluta.  Bókað var að Ágúst lýsti því jafnframt yfir að hann teldi það hlutverk réttargæslustefnda að ganga frá þessu láni. 

Þann 7. ágúst 2002 sendi Viktor Ágústi tölvupóst og ítrekaði afstöðu sína til þess að tekið yrði lán hjá stefnanda til þess að gera upp laun við réttargæslustefnda.  Ágúst svaraði þessum tölvupósti sama dag og sagði meðal annars að það væri búið að samþykkja þetta lán og samkomulag um að 3.000.000 króna rynnu til réttargæslustefnda en 2.000.000 króna yrði ráðstafað vegna annarra mála, fyrst og fremst vegna einkaleyfis.

Þann 21. ágúst 2002 ritaði lögmaður réttargæslustefnda bréf og krafði stefnda um vangoldin laun fyrir tímabilið 1. nóvember 2001 til 1. maí 2002.  Því svaraði stjórnarformaður stefnda, Ágúst Sverrir Egilsson, samdægurs og sagði meðal annars að það væri löngu ákveðið að taka lán frá stefnanda til að greiða meðal annars laun réttargæslustefnda og hafði réttargæslustefnda verið falið að ganga frá lántökunni.

Aðalfundur var haldinn hjá stefnda 29. ágúst 2002.  Á því er byggt af hálfu stefnda að á þessum fundi hafi verið tekin ákvörðun um að réttargæslustefndi hætti sem framkvæmdastjóri og prókúruumboð til hans afturkallað.  Í málinu hefur verið lögð fram tilkynning til fyrirtækjaskrár Hagstofu Íslands þar sem tilkynnt var að samkvæmt fundi 29. ágúst 2002 hafi stjórnarformaður verið kjörinn Ágúst Sverrir Egilsson og meðstjórnendur Hákon Guðbjartsson og réttargæslustefndi.  Enginn framkvæmdastjóri sé í félaginu og prókúruhafi Ágúst Sverrir Egilsson.  Fram hefur komið í málinu að Ágúst undirritaði þessa tilkynningu og sendi Hagstofu Íslands sem móttók hana 18. september 2002.  Eftir að réttargæslustefndi hafði gert athugasemdir við tilkynninguna hjá Hagstofu Íslands undirrituðu þáverandi stjórnarmenn einnig tilkynninguna, þeir Hákon Guðbjartsson og Ólafur Thors, og var hún að því búnu send Hagstofu Íslands á ný, sem móttók hana 2. október 2002.  Eins og áður sagði byggir stefndi á því að eftir þennan fund hafi réttargæslustefndi verið umboðslaus.  Þykir því rétt að rekja að nokkru það sem fram fór á aðalfundinum 29. ágúst 2002.  Bókað var að mættir væru Ólafur Thors, sem fór með 12% hlut Íslenskra aðalverktaka.  Með Ólafi mætti Hilmar Magnússon hdl.  Bókað var að framkvæmdastjórinn, réttargæslustefndi, væri ekki mættur og hefði ekki boðað forföll.  Þá voru heldur ekki mættir Viktor Jens Viktorsson og Patrick Thomas en Ágúst Sverrir Egilsson tók þátt í fundinum í gegnum síma frá Bandaríkjunum.  Dagskrá fundarins var í fyrsta lagi skýrsla stjórnar, í öðru lagi reikningar bornir undir samþykki, í þriðja lagi kjör stjórnar, varamanns og endurskoðanda og í fjórða lagi önnur mál.  Varðandi það sem hér skiptir máli var meðal annars bókað að ekki skuli ráðið í stöðu framkvæmdastjóra fyrr en búið væri að finna fjármagn til reksturs félagsins.  Af hálfu Ólafs Thors var bókað undir liðnum önnur mál að hann setti fram vantraust á störf framkvæmdastjórans.  Taldi Ólafur að réttargæslustefndi hafi ekki staðið við skyldu sína sem framkvæmdastjóri og því sé sjálfkrafa fallið úr gildi samkomulag það sem gert hafi verið við réttargæslustefnda um framlengingu á samningi réttargæslustefnda til 3. september 2002.  Engin sérstök samþykkt var gerð um þessa bókun og var fundi síðan slitið.

Með stefnu útgefinni 10. október 2002 höfðaði réttargæslustefndi mál á hendur stefnda og krafðist þess aðallega að aðalfundur stefnda 29. ágúst 2002 yrði ógiltur en til vara að kosning nýrrar stjórnar og varamanns yrði ógilt svo og sú ákvörðun fundarins að ráða ekki nýjan framkvæmdastjóra.  Sýknudómur féll í héraði 8. júlí 2003 en málinu var vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar 11. mars 2004.

Í tölvupósti Ágústar 12. nóvember 2002 til fjölskyldu sinnar segir meðal annars að hann sjái sig knúinn til að svara réttargæslustefnda vegna launamála hans.  Segir Ágúst að bókað hafi verið á stjórnarfundi 6. ágúst 2002 að réttargæslustefndi hafi verið hvattur til að taka lán hjá stefnanda til að borga réttargæslustefnda laun að fjárhæð 3.000.000 króna.  Í tölvupóstinum lætur Ágúst fylgja úrdrátt úr fundargerð þar sem fram kemur að þetta hafi verið samþykkt á stjórnarfundi.  Síðan segir Ágúst í tölvupóstinum að hann hafi oft eftir þetta ítrekað við réttargæslustefnda að taka lánið og borga sér laun í samræmi við vilja stjórnar.

Þann 27. nóvember 2002 undirritaði réttargæslustefndi lánssamning við stefnanda þar sem fram kemur að stefnandi samþykki að lána stefnda 5.000.000 krónur. Skyldi lánið greitt út til stefnda með þeim hætti að 2.500.000 krónur yrðu greiddar 2. desember 2002 og 2.500.000 krónur þann 15. janúar 2003.  Skuldabréf að fjárhæð 2.844.153 krónur var útbúið og ritaði réttargæslustefndi undir það fyrir hönd stefnda.  Fjárhæðin 2.500.000 krónur var lögð inn á reikning stefnda og er óumdeilt að réttargæslustefndi millifærði 2.450.000 krónur yfir á sinn einkareikning.

Fyrir dóminn komu Hreinn Sigmarsson, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Ágúst Sverrir Egilsson, stjórnarfomaður stefnda, Hilmar Magnússon hdl., Viktor Jens Vigfússon, fyrrverandi stjórnarmaður í stefnda, Skeggi G. Þormar, fyrrverandi stjórnarmaður í stefnda og réttargæslustefndi, Jón Helgi Egilsson.

II.

Stefnandi telur hið stefnda félag skuldbundið af samningi aðila og skuldabréfinu sem út hafði verið gefið.  Stefnandi telur að stefndi geti ekki vikið sér undan endur­greiðsluskyldu með tilvísun til þess að réttargæslustefndi hafi ekki haft prókúru fyrir stefnda á þessum tíma.  Í því sambandi bendir stefnandi á að samþykkt hafi verið í stjórn stefnda að fela réttargæslustefnda að semja um og taka umrætt lán.  Þá sé einnig til þess að líta að afturköllun á prókúru réttargæslustefnda hafi ekki verið lögum samkvæm.  Sú tilkynning hafi verið gerð án sérstakrar formlegrar umfjöllunar í stjórn stefnda og þess vegna sé hún ekki marktæk eða skuldbindandi fyrir stefnanda.

Líta beri einnig til þess að undirritun lánssamnings og fylgiskjala hafi verið liður í löngu ferli umsókna og vinnu starfsmanna stefnanda í langan tíma.  Undirritunin hafi aðeins verið lokaþáttur í því ferli sem verði að skoða í heild.  Þegar þessi vinna hafi hafist hafi réttargæslustefndi verið framkvæmdastjóri stefnanda með prókúru og einnig í stjórn félagsins.  Stefnandi hafi verið grandalaus um það að breyting hafi orðið á hans högum hjá félaginu.

Varakröfu sína byggir stefnandi á því að stefndi geti aldrei verið annað en ábyrgur fyrir endurgreiðslu þeirra fjármuna sem að honum hafi verið greiddar.  Fjármunirnir hafi verið greiddir beint inn á reikning stefnda og því beri stefndi ábyrgð á endurgreiðslu þeirra.  Stefnandi geti ekki borið ábyrgð á því hverjir hafi heimild til úttektar af reikningum stefnda heldur verði stefndi að bera hallann af því ef umboðslaus aðili hefur millifært fé af reikningi stefnda. 

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að stefndi hafi aldrei skuldbundið sig með þeim hætti sem stefnandi telur.  Undirritun réttargæslustefnda nægi ekki til að skuldbinda stefnda samkvæmt samþykktum félagsins.  Skýrt sé tekið fram í sam­þykktum að meirihluta stjórnar þurfi til að rita firmað.  Svo hafi ekki verið í þessu tilfelli.  Þá hafi réttargæslustefndi ekki verið framkvæmdastjóri félagsins á þessum tíma og umboð hans útrunnið.  Stjórnarformaður félagsins, Ágúst Sverrir Egilsson, hafi haft prókúru fyrir stefnda og því hafi réttargæslustefndi ekki getað skuldbundið félagið með áritun sinni.  Sú skylda hafi hvílt á stefnanda að kanna opinberar skráningar í þessu sambandi.  Stefnandi hafi auk þess sérfræðinga á þessu sviði og því sé ábyrgð stefnanda meiri en ella.

Stefndi mótmælir þeim staðhæfingum stefnanda að tilkynning til Hagstofu Íslands hafi verið gerð án þess að um það hafi verið fjallað og tekin lögleg ákvörðun á fundi stefnda.  Þvert á móti hafi tilkynningin verið undirrituð af meirihluta stjórnar og ákvörðunin tekin á stjórnarfundi. 

Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi ekki verið í góðri trú um heimild réttargæslustefnda þar sem slík heimild hafi ekki verið til staðar samkvæmt skýlausum opinberum gögnum.  Þó að réttargæslustefndi hafi komið að málinu áður hafi stefnanda borið að athuga umboð hans þegar til undirskriftar kom.

Þá mótmælir stefndi því að hann sé bundinn samkvæmt skuldabréfinu á þeirri forsendu að peningarnir hafi runnið inn á reikning stefnda.  Stefndi hafi enga hugmynd haft um notkun réttargæslustefnda á reikningnum og getur slíkt ekki verið á ábyrgð stefnda.

Varðandi varakröfu bendir stefndi á að stefndi hafi engin ráð til að endurheimta féð og því verði hann ekki látinn bera ábyrgð á þeim mistökum og vanrækslu sem stefnandi hafi sýnt af sér.  Enn síður verði hann látinn bera ábyrgð á háttsemi réttargæslustefnda vegna óheimillar notkunar reikningsins.

III.

Aðilar deila um hvort réttargæslustefndi hafi haft heimild stjórnar stefnda til að skuldbinda hið stefnda félag með því að undirrita lánssamning og skuldabréf fyrir hönd stefnda. Hér að framan er rakið hvernig umræða spannst um þetta efni á stjórnarfundum og í tölvupósti milli stjórnarmanna.

Óumdeilt er að stefndi falaðist eftir láni hjá stefnanda og má upphaf þess rekja til 7. nóvember 2001 er stjórn stefnanda féllst á viðræður við stefnda um það efni.  Í hluthafasamkomulagi 4. febrúar 2002 segir í 6. grein að hluthafarnir þrír séu sammála um að veita stjórn heimild til að semja við stefnanda um lánafyrirgreiðslu.  Á stjórnarfundi 14. maí 2002 vekur réttargæslustefndi athygli á því að þar sem hluthafar hafi ákveðið að fresta lántöku hjá stefnanda væri fyrirséð að hann fengi ekki greidd laun sem framkvæmdastjóri og þyrfti að lána stefnda áfram laun sín.  Bókað var á stjórnarfundi 21. maí 2002 að réttargæslustefndi lánaði stefnda laun sín svo lengi sem lántöku hjá stefnanda væri frestað.  Ákveðið var einnig að stjórnarmaðurinn Viktor Jens Vigfússon ynni drög að lausn málsins í samvinnu við stjórnarformanninn Ágúst Sverri Egilsson.  Starfssamningur við réttargæslustefnda var framlengdur til 1. september 2002 á fundi stjórnar 13. júní 2002.  Á stjórnarfundi 6. ágúst 2002 var bókað meðal annars að stjórnarmaðurinn Viktor legði til að lán frá stefnanda yrði nýtt að hluta til að gera upp laun við réttargæslustefnda.  Bókað var að Ágúst styddi það að því marki að 3.000.000 króna rynnu til réttargæslustefnda en lánið yrði einnig nýtt til annarra hluta.  Þá lýsti Ágúst því einnig yfir að hann teldi það hlutverk réttargæslustefnda að „ganga frá þessu láni.“

Óumdeilt er að starfssamningur réttargæslustefnda sem framkvæmdastjóra féll niður 1. september 2002 og var það áréttað á stjórnarfundi 29. ágúst 2002.

Tölvupóstur aðila er rakinn hér að framan og þar eru framangreindar samþykktir á stjórnarfundum áréttaðar, sérstaklega af stjórnarformanni, Ágústi Sverri Egilssyni.  Nægir þar að nefna tölvupóst frá 12. nóvember 2002 þar sem Ágúst staðfestir stjórnarsamþykkt frá 6. ágúst 2002 og segir að réttargæslustefndi hafi verið „hvattur til þess að taka lánið og borga 3 milljónir til síns sjálfs sem allra fyrst.“  Síðar í bréfinu segir Ágúst að þetta hafi oft verið ítrekað við réttargæslustefnda „... að taka lánið og borga sér laun í samræmi við vilja stjórnar.“  Innheimtubréfi lögmanns réttargæslustefnda svaraði Ágúst 21. ágúst 2002 á sama hátt, „... búið er að ákveða fyrir löngu að taka þetta lán NSA og nota það til þess að greiða kostnað vegna Jóns... og fól [stjórn] Jóni að ganga frá lántökunni fyrir alllöngu eins og fram kemur í bókun stjórnar....“

Samkvæmt öllu framansögðu er það mat dómsins að ekki leiki nokkur vafi á að lögmæt stjórnarsamþykkt lá fyrir hjá stefnda sem veitti réttargæslustefnda heimild til að taka lán hjá stefnanda fyrir hönd stefnda og greiða sér allt að 3.000.000 króna vegna vangoldinna launa sem framkvæmdastjóri félagsins.  Réttargæslustefndi fór að þessum vilja stjórnar og greiddi sér 2.450.000 krónur.

Sú málsástæða stefnda að réttargæslustefndi hafi verið hættur sem framkvæmdastjóri og prókúra hans afturkölluð þykir ekki skipta máli í þessu sambandi því skýr vilji stjórnar lá fyrir, stjórnarsamþykktir sem veittu réttargæslustefnda, sem var og er stjórnarmaður í stefnda og eigandi 43% hlutafjár, heimild til að skuldbinda félagið með þeim hætti sem hann gerði.  Þessar stjórnarsamþykktir voru aldrei afturkallaðar á síðari stjórnarfundum áður en lánið kom til útgreiðslu.

Niðurstaða málsins verður því sú að fallist verður á aðalkröfu stefnanda.  Vaxtakrafa stefnanda er útskýrð í stefnu og segir þar að fyrsti gjalddagi bréfsins hafi verið 2. maí 2004 og hafi skuldabréfið þá verið gjaldfellt þar sem ekkert hafi verið greitt af því. Vaxtakröfu stefnanda hefur ekki verið andmælt af hálfu stefnda og verður hún því tekin til greina.

 Eftir þessari niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Cell Objects á Íslandi ehf., greiði stefnanda, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, 2.844.153 krónur ásamt Raibor vöxtum (6. mánaða) Seðlabanka Íslands auk 5% álags frá 25. mars 2004 til 2. maí 2004 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og 400.000 krónur í málskostnað.