Hæstiréttur íslands

Mál nr. 744/2009


Lykilorð

  • Brot gegn valdstjórninni
  • Refsiákvörðun


Fimmtudaginn 27. janúar 2011.

Nr. 744/2009.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari)

gegn

Cresente Paraiso Montemayor

(Sigmundur Hannesson hrl.)

Mark Vincent Canada Aratea  

(Bjarni Hauksson hrl.)

Michael Jade Canada Aratea  

(Björgvin Jónsson hrl.)

Rey Christian Alguno  

(Björn Jóhannesson hrl.)

Reyni Þór Resgonia og

(Eiríkur Elís Þorláksson hrl.)

Romeo Penas Barriga

(Kristján Stefánsson hrl.)

Brot gegn valdstjórninni. Refsiákvörðun.

C, MV, MJ, RC, RÞ og RP voru sakfelldir fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa veist með ofbeldi að tveimur nafngreindum lögreglumönnum, sem kvaddir höfðu verið á vettvang til að stöðva hávaðasamt samkvæmi sem ákærðu tóku þátt í. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að báðir lögreglumennirnir hlutu alvarlega áverka með varanlegum afleiðingum fyrir heilsu þeirra. Þá var litið til þeirrar breytingar sem gerð var til þyngingar á refsimörkum 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlögum með lögum nr. 25/2007 og þess að ákærðu réðust að tilefnislausu og margir saman á lögreglumennina tvo og beittu við aðförina verulegu ofbeldi. Var refsing C, RÞ og RP ákveðin fangelsi í níu mánuði, refsing MV og MJ fangelsi í sex mánuði og refsing RC fangelsi í sjö mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. desember 2009 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærðu, en að refsing þeirra verði þyngd. 

Ákærði, Cresente Paraiso Montemayor, krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð.

Ákærði, Mark Vincent Canada Aratea, krefst þess að refsing hans verði milduð og hún bundin skilorði að öllu leyti. Þá krefst hann þess að gæsluvarðhald, sem hann sætti undir rannsókn málsins, komi til frádráttar refsingu.

Ákærði, Michael Jade Canada Aratea, krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms, til vara sýknu en að því frágengnu að refsing hans verði milduð og bundin skilorði að öllu leyti.

Ákærði, Rey Christian Alguno, krefst þess að refsing hans verði milduð og hún bundin skilorði að öllu leyti. Hann krefst þess að við ákvörðun refsingar verði tekið tillit til gæsluvarðhalds, sem hann sætti undir rannsókn málsins.

Ákærði, Reynir Þór Resgonia, krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing hans verði milduð og að vistun sem hann sætti í sólarhring undir rannsókn málsins komi til frádráttar refsingu.

Ákærði, Romeo Penas Barriga, krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms, til vara sýknu en að því frágengnu sýknu af broti samkvæmt II. kafla ákæru og að refsing hans verði milduð og bundin skilorði. Þá krefst hann þess að gæsluvarðhald sem hann sætti undir rannsókn málsins komi til frádráttar refsingu.

I

Krafa ákærðu Michael Jade og Romeo Penas um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins er reist á því að héraðsdómara hafi mátt vera ljóst frá öndverðu að niðurstaða um sök ákærðu myndi ráðast af mati á sönnunargildi munnlegra skýrslna ákærðu, brotaþola og annarra vitna, sem gefnar væru fyrir dóminum. Atvik máls væru flókin, margir ákærðir, sakarefni alvarlegt og nokkuð um liðið frá því atvik áttu sér stað. Sönnunarmatið hefði því verið snúið og þess vegna hefði átt að neyta heimildar 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og ákveða að þrír héraðsdómarar skipuðu dóm í málinu.

Eins og málið er vaxið má fallast á með þessum ákærðu að héraðsdómara hefði frá upphafi mátt vera ljóst að niðurstaða málsins myndi ráðast af mati á sönnunargildi munnlegra skýrslna ákærðu og vitna fyrir dómi. Í því ljósi, og með því að um alvarlegar sakargiftir var að ræða, hefði að réttu lagi átt að neyta í héraði heimildar tilvitnaðs lagaákvæðis og ákveða að þrír héraðsdómarar skipuðu dóm í málinu. Þrátt fyrir það, og með hliðsjón af því að ákvæðið veitir heimild en kveður ekki á um skyldu, eru ekki næg efni til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til nýrrar meðferðar.

II

Ákærðu er gefið að sök að hafa aðfaranótt 19. október 2008 veist með ofbeldi að tveimur nafngreindum lögreglumönnum að [...], Reykjavík. Háttsemin er, að undangenginni þessari almennu lýsingu, tilgreind nánar í tveimur töluliðum í ákærunni. Í fyrri lið er því lýst að ákærði Romeo Penas hafi, á bílastæði fyrir framan fjöleignarhúsið, komið aftan að öðrum lögreglumanninum og rifið í axlir hans en við það hafi einkennismerki farið af. Í síðari lið er öllum ákærðu gefið að sök að hafa, í framhaldi af þessari háttsemi Romeo Penas, í sameiningu veist að lögreglumönnunum tveimur með hnefahöggum í stigagangi hússins. Í þessum lið er einnig lýst tilgreindri háttsemi tveggja ákærðu. Loks er í ákæru gerð grein fyrir afleiðingum árásanna á lögreglumennina tvo.

Brot ákærðu er talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í þeirri grein er lýst refsiverð háttsemi, sem felst í að ráðist er ,,með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu ... og eins [háttsemi þess], sem á sama hátt leitast við að hindra framkvæmd slíks starfa ...“

Eins og ákæra er úr garði gerð er málatilbúnaður ákæruvalds reistur á því að um samverknað allra ákærðu sé að ræða. Verður fallist á með héraðsdómi að sannað sé að allir ákærðu hafi í sameiningu veist að lögreglumönnunum með þeim hætti að um brot á 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga sé að ræða. Skiptir þá ekki máli um sakfellinguna, hvort sannað sé að hver og einn hinna ákærðu hafi veist að báðum lögreglumönnunum eða einungis öðrum þeirra. Framganga einstakra ákærðu, að því leyti sem sönnuð er, kemur á hinn bóginn til athugunar, eins og í hinum áfrýjaða dómi, við útmælingu refsingar hvers og eins þeirra. Er einnig fallist á með héraðsdómi að sönnuð sé sú háttsemi sem ákærða Romeo Penas er gefin að sök í fyrri og síðari lið ákærunnar og sú háttsemi sem ákærða Rey Christian er í síðari liðnum sérstaklega gefið að sök að hafa viðhaft.

III

Áverkum þeim sem lögreglumennirnir tveir hlutu við árásir ákærðu er lýst í stuttu máli í ákæru. Lögð hafa verið fram örorkumöt unnin af Atla Þór Ólasyni, dr. med., sérfræðingi í bæklunarskurðlækningum, um afleiðingar líkamstjóns lögreglumannanna tveggja. Er matið vegna A gert 6. október 2009 en vegna B 22. desember 2009. Í fyrra örorkumatinu er því lýst að varanlegar afleiðingar líkamstjóns þess er A hlaut við árásir ákærðu séu ör á hnakka, óþægindi í hálsi við tilteknar aðstæður vegna hálstognunar og að hann hafi einnig þurft að gangast undir tannviðgerð. Þá er hann talinn bera ,,vægar menjar andlegs eðlis sem tengjast líkamsárásinni.“ Varanleg örorka hans er metin 3% en varanlegur miski 5 stig. Í síðarnefnda örorkumatinu eru varanlegar afleiðingar fyrir B taldar vera viðbótarhálstognun og að hún hafi einkenni áfallastreituröskunar. Varanleg örorka hennar er talin vera 8% og varanlegur miski 12 stig.

Samkvæmt framansögðu er sannað að báðir lögreglumennirnir hlutu alvarlega áverka við árásir ákærðu sem hafa haft varanlegar afleiðingar fyrir heilsu þeirra. Kemur þetta til athugunar við ákvörðun refsingar ákærðu.

IV

Með lögum nr. 25/2007, sem tóku gildi 29. mars það ár, var 106. og 107. gr. almennra hegningarlaga breytt. Gerð var sú breyting á 1. mgr. 106. gr. að refsing fyrir brot samkvæmt málsgreininni, sem beindist gegn opinberum starfsmanni, er heimild hefði til líkamlegrar valdbeitingar, skyldi vera fangelsi allt að átta árum í stað sex eins og áður gilti. Markmið þessarar lagabreytingar, eins og það er skýrt í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til breytingalaganna, er að skerpa á og auka refsivernd þeirra opinberu starfsmanna sem heimild hafa til valdbeitingar sem veitt er í lögum.

Ákærðu réðust að tilefnislausu á lögreglumennina tvo, sem kvaddir höfðu verið á vettvang til að stöðva hávaðasamt samkvæmi í íbúð fjöleignarhúss, sem ákærðu tóku þátt í. Höfðu ákærðu hlítt fyrirmælum um að fara úr samkvæminu og voru að minnsta kosti flestir komnir út úr íbúðinni. Ákærðu réðust margir saman á lögreglumennina meðal annars með höggum. Þeir beittu verulegu ofbeldi eins og lýst er að framan. Þykir hvorki ástæða til að fallast á kröfur ákærðu um mildun refsinga sem þeim var ákvörðuð í héraðsdómi né þykir ástæða til að skilorðsbinda refsingu þeirra. Verður einnig hafnað kröfu ákærða Reynis Þórs um að til frádráttar dæmdri fangelsisrefsingu hans komi sá tími, sem hann var í haldi lögreglu í framhaldi af handtöku, enda standa sett lög ekki til slíks frádráttar. Á hinn bóginn er fallist á með héraðsdómi að draga skuli frá tildæmdri refsingu, þar sem við á, þann tíma sem ákærðu sættu gæsluvarðhaldi.

Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Ákærðu verður gert að greiða óskipt áfrýjunarkostnað málsins, annan en málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, sem þeir greiði hver fyrir sig. Verða málsvarnarlaunin ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

 Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærðu greiði óskipt 81.939 krónur af áfrýjunarkostnaði málsins, en hver fyrir sig málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem í öllum tilvikum eru ákveðin 313.750 krónur, ákærði Cresente Paraiso Montemayor málsvarnarlaun Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, ákærði Mark Vincent Canada Aratea málsvarnarlaun Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, ákærði Michael Jade Canada Aratea málsvarnarlaun Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, ákærði Rey Christian Alguno málsvarnarlaun Björns Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, ákærði Reynir Þór Resgonia málsvarnarlaun Eiríks Elís Þorlákssonar hæstaréttarlögmanns, og ákærði Romeo Penas Barriga málsvarnarlaun Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2009.

I

Málið, sem dómtekið var 7. október sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 3. júní 2008 á hendur „Cresente Paraiso Montemayor, kennitala 120187-2019 Torfufelli 48, 111 Reykjavík, X, kennitala [...], [...], [...] Reykjavík, Y, kennitala [...], [...], [...] Reykjavík, Mark Vincent Canada Aratea, kennitala 191084-2099, Leifsgötu 32, 101 Reykjavík, Michael Jade Canada Aratea, kennitala 290989-4269, Strandaseli 9, 109 Reykjavík, Rey Christian Alguno, kennitala 070290-4059, Hólabraut 13, 220 Hafnarfirði, Reyni Þór Resgonia, kennitala 281276-2049, Hraunbæ 94, 110 Reykjavík og Romeo Penas Barriga, kennitala 110970-2429, Hrísmóum 3, 210 Garðabæ fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 19. október 2008 að [...] í Reykjavík, veist með ofbeldi að lögreglumönnunum A og B, sem þar voru við skyldustörf, svo sem hér greinir:

1.                   Ákærða Romeo Penas með því að hafa, á bílastæði fyrir framan fjöleignarhúsið að [...], rifið í axlir A þannig að lögreglueinkenni á jakka hans rifnuðu af.

2.                   Ákærðu öllum með því að hafa, í kjölfar atviks þess, sem lýst er í 1. ákærulið, í sameiningu veist að lögreglumönnunum A og B með hnefahöggum í stigagangi áðurnefnds fjöleignarhúss að [...], auk þess sem ákærði Romeo Penas tók B hálstaki og ákærði Rey Christian sparkaði í hnakka A. Afleiðingar af árásinni urðu þær að A hlaut fjölmarga áverka á höfði, þar með talið opin sár aftan til á höfði, blæðingu inn á augnslímu utanvert á vinstra auga, hálstognun í hnakka og brot upp úr glerungi tveggja tanna og B hlaut mar og bólgu yfir vinstra gagnauga og roða í hársverði.

Háttsemi ákærðu telst varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 25/2007.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærðu neituðu allir sök við þingfestingu nema ákærði Mark Vincent Canada, sem krefst vægustu refsingar.  Aðrir ákærðu krefjast sýknu.  Krafist er málsvarnarlauna.

II

Málavextir eru þeir að framangreindir lögreglumenn voru kvaddir að [...] aðfaranótt sunnudagsins 19. október 2008 en kvartað hafði verið undan hávaða í íbúð í húsinu.  Að beiðni lögreglumannanna vísaði húsráðandi gestum sínum út og biðu lögreglumennirnir þar til gestirnir höfðu yfirgefið íbúðina.  Þessu næst héldu þeir að bifreið sinni, en þegar þeir voru að setjast inn í hana gekk maður að A, að hans sögn, og þreif í axlir honum þannig að einkennismerki slitnuðu af.  Lögreglumennirnir hugðust nú handtaka mann þennan, en hann varðist og félagar hans veittu honum lið.  Síðan segir í skýrslu sem tekin var af A:  „Við reynum að setja hann í jörðina og setja hann í handjárn en þá eru þrír til fjórir af þessum mönnum að toga í okkur og reyna að losa þennan strák frá okkur.  Það endar með því að þessi strákur sem við vorum að reyna að handjárna sleppur frá okkur og hleypur aftur inn á stigaganginn og við hlaupum á eftir honum og vinir hans elta okkur inn á stigaganginn.  Þegar við komum inn á stigaganginn þá byrja einhver handalögmál og þá er maðurinn í rauðu Liverpool peysunni kominn niður og byrjar að ýta í mig.  Þeir sem voru úti koma inn og ég man að B er í einhverjum vandræðum með þennan strák sem við ætluðum að handtaka og ég ætlaði að gera mig líklegan til að aðstoða hana.  Þá ráðast þeir á mig sem komu á eftir okkur inn á stigaganginn.  Þetta gerðist á stigapallinum við póstkassann og þeir eru fjórir og þeir kýldu mig allir í andlitið.  Ég taldi samtals sjö högg sem ég fékk í andlitið en ég man ekki til þess að hafa fengið högg annars staðar í líkamann.  Fyrsta höggið fékkst frá manni sem var í svörtum jakkafatafrakka og mér finnst eins og hann hafi verið með svarta perlufesti um hálsinn.  Annað höggið kom frá manni sem er með áberandi lýti á nefi.  Eftir annað höggið þá missti ég jafnvægið og er þá kominn inn á stigaganginn og fell niður tvær tröppur sem liggja niður í kjallara.  Þegar ég reyni að standa upp þá fæ ég þriðja höggið en ég sá ekki frá hverjum það kom.  Ég lít svo upp og þá sé ég hvítan skó koma á móti mér og ég fékk í kjölfarið spark í hvirfilinn.  Við það féll ég alveg niður í kjallarann og þá koma sömu menn á eftir mér.  Ég fór hálfstandandi upp að vegg þarna og fann til í höfðinu og byrjaði að strjúka mér þar og þeir kýla mig þar niðri strax þremur höggum í andlit og ég tel að þeir hafi allir þrír veitt mér eitt högg.  Ég heyri svo í B vera að öskra frá stigapallinum fyrir ofan og ég næ að rífa mig lausan en þeir náðu að rífa mig úr jakkanum.  Ég hleyp upp til B og þegar ég er kominn upp þá sé ég að hún liggur á gólfinu og það er maður sem stendur fyrir ofan hana og kýlir hana í andlitið einu höggi.  Ég treysti mér ekki til að lýsa útliti hans nema að hann var ljósri peysu og af asísku bergi brotinn.  Hann hleypur svo út og ég elti hann og leit aðeins til baka niður í kjallarann og sá hvar mennirnir voru þá búnir að taka talstöðina mína.  Ég elti þennan mann út úr stigaganginum og hann var strax horfinn.  Það var allt búið inni og ég beið fyrir utan til að kanna hvort það væri ekki aðstoð á leiðinni og skömmu seinna kom ómerktur civil-bíll okkur til aðstoðar.“     

Í skýrslu B koma fram sömu atriði um upphaf átakanna og að framan voru rakin úr skýrslu A.  Einnig er skýrslan samhljóða því sem þar segir um tilraunir lögreglumannanna til að handtaka manninn sem reif einkennismerkin af A.  Að sögn B bárust átökin inn í stigagang hússins og síðan segir:  „Ég næ svo að setja manninn einhvern veginn upp að vegg vinstra megin þegar gengið er inn á stigaganginn en ég náði þá ekki að fylgjast með A. Maðurinn reyndi að bíta mig og það næsta sem ég veit er að hann tekur um hálsinn á mér og ég fæ högg í andlitið og ég næ þá að slá hann aftur fyrir mig í höfuðið með handjárnunum.  Það er líka gripið í hárið á mér og veit ég í rauninni ekki hver gerði það.  Í þessum átökum reif ég vinstri buxnaskálmina hans.  Á meðan hann er með mig í hálstaki og fyrir aftan mig þá fékk ég nokkur högg vinstra megin í andlitið.  Ég er ekki klár á því hvað höggin voru mörg en þau voru að minnsta kosti fjögur.  Þessi maður nær svo að sleppa frá mér og hljóp upp stigaganginn en ég var gjörsamlega búin eftir átökin og það næsta sem ég veit er að A kemur inn á stigaganginn að utan allur alblóðugur í andlitinu.“

Lögreglumennirnir leituðu læknis og í vottorði segir um meiðsli B að á höfði yfir vinstra gagnauga hafi sést „þó nokkur bólga og byrjandi mar undir húðinni.  Dálítill roði í kinnum og ekki hægt að útiloka marmyndun á vinstra kinnbeini.  Í hársverði sjást skilmerki þess efnis að það hafi verið rifið í hárið.  Það er roði í hársverði en ekki mikil merki um að hár hafi beinlínis verið fjarlægt.“  Í vottorði um meiðsli A segir að við skoðun hafi hann verið „með u.þ.b. 3 cm langan skurð aftarlega á hvirfli.  Svæði umhverfis bæði kinnbein voru bólgin og hruflsár þar yfir.  Hann var með bólgu á báðum augum og merkja mátti smá blæðingu út í augnslímu utanvert á vinstra auga.  Þá voru augljós eymsli aftan á hálsi, verra hægra megin og liggja niður á öxl þeim megin.  Þetta var einnig að finna vinstra megin en þó í minna mæli.  Þá var hann með grunna hruflrák framan við hægra eyra.  Eymsli áberandi fyrir aftan tönn númer 1 í vinstri efri gómi.  Spurning hvort aðeins hafi kvarnast úr tönninni, slíkt þarf að sannreyna hjá tannlækni.  Rispu var að finna yfir vinstri augabrún.“  Við skoðun hjá tannlækni kom í ljós að brotið var upp úr tveimur tönnum.

Við lögreglurannsókn málsins voru allmargir menn yfirheyrðir sem sakborningar, þar á meðal ákærðu.  Sumir hinna ákærðu sátu um tíma í gæsluvarðhaldi og einnig menn sem ekki eru ákærðir í málinu.  Ekki verður hér rakið það sem fram kom við yfirheyrslur hjá lögreglu, en í næsta kafla verður rakinn framburður fyrir dómi og þá getið um framburð ákærðu og vitna hjá lögreglu eftir því sem tilefni gefst til.

III

Í þessum kafla verður rakið það sem fram kom við aðalmeðferð málsins.  Samhengisins vegna er rétt að rekja fyrst framburð lögreglumannanna, síðan ákærðu og loks annarra vitna en lögreglumannanna.

A bar að hann hefði ásamt B verið sendur að [...] í umrætt sinn vegna hávaða sem barst þar frá íbúð.  Þau vísuðu fólki út og biðu  á stigaganginum á meðan fólkið fór en fóru síðan út og að lögreglubifreiðinni.  Þá voru um tíu til fimmtán manns fyrir utan húsið og var mikill hávaði í þeim.  Þau báðu fólkið um að hafa lægra og var því vel tekið.  Þegar A var kominn að bifreiðinni kvað hann mann hafa komið aftan að sér án þess að hann yrði þess var og rifið einkennismerki af jakka hans og kvaðst A hafa kastast aftur á bak við þetta.  A kvað sig og B hafa ætlað að handtaka manninn og tekið hann og lagt upp að lögreglubifreiðinni í því skyni að handjárna hann, en í því hafi félagar mannsins komið að þeim, farið að stugga við þeim og sögðu þeim að láta manninn í friði.  Við þetta hafi losnað um manninn og hann komist frá lögreglumönnunum sem hafi reynt að leggja hann í jörðina til að handjárna.  Þetta tókst ekki og komst maðurinn undan og inn í stigagang hússins.  Þau fór á eftir honum.  Við það hafi maður í rauðri Liverpool peysu komið upp að sér.  Ýtti hann A upp að veggnum og var með handlegg upp að hálsi hans og sagði honum að fara í burtu, en ekki hefði þessi maður slegið sig.  Við þetta kvaðst A hafa misst sjónar af B en tveir menn hafi komið að sér og kýlt sig beint í andlitið.  Kvaðst hann aðeins hafa vankast og hrasað tvö til þrjú þrep niður tröppur sem eru þarna.  Í því hafi hann litið upp og séð hvítan skó og hafi sá sem var í skónum sparkað fast í höfuð sér og blæddi úr því.  Við þetta kvaðst hann hafa misst jafnvægið og dottið niður stigann.  Á eftir honum hafi komið þrír menn sem allir hafi barið hann í andlitið og í átökum við að losna undan mönnunum kvaðst hann hafa misst talstöðina og hafi einn mannanna tekið hana og hlaupið með hana í burtu.  Eftir þetta kvaðst hann hafa farið upp stigann og séð mann halda í hár B og var hann að kýla hana.  Þegar A kom að sleppti maðurinn B og fór upp stigann.  Þau fóru út úr húsinu og í því komu lögreglumenn sem fóru á eftir manninum og handtóku hann.  A kvað einn manninn hafa verið með kúlu á nefinu og hefði sá kýlt sig í andlitið.  Þá hafi það verið sami maður sem kýldi B og hefði rifið einkennismerkin af sér. 

B bar að hafa komið í [...] vegna hávaða frá íbúð.  Eftir að þau höfðu stillt til friðar og fólkið var komið út úr húsinu hafi þau farið út og hún verið að setjast inn í lögreglubifreiðina.  Þá hafi hún séð mann koma gangandi aftan að A, sem þreif í axlirnar á honum og reif einkennismerki af öxlum jakka hans.  B kvaðst hafa þrifið í manninn og skellt honum upp að bifreiðinni til að handjárna hann.  Við það hafi hópur manna komið að þeim, en þetta voru menn er höfðu verið í samkvæminu, og reyndu þeir að frelsa hann.  Við þetta kvaðst hún hafa haldið manninum en átökin hafi borist út á grasflöt og hafi hún og A reynt að fella manninn til að handjárna hann.  Þetta tókst hins vegar ekki og misstu þau hann.  Hljóp hann þá inn í stigagang hússins og hún á eftir og gerði þar aðra tilraun til að handjárna manninn en réði ekki við það.  Ákvað hún þá að halda í manninn þar til aðstoð bærist.  Mennirnir, sem voru fyrir utan, komu inn í stigaganginn og myndaðist þar kraðak af fólki og kvaðst B eiga erfitt með að greina hvað gerðist í kringum hana.  Hún kvað manninn hafi reynt að bíta sig, en hún hafi haldið honum með handleggnum upp að vegg.  Honum hafi svo tekist að snúa henni, enda hún farin að þreytast, greip hana síðan hálstaki, en hún sló hann með handjárnunum.  Við það sleppti maðurinn hálstakinu en reif þess í stað í hár hennar og hélt henni uppi.  B kvaðst í þessu hafa verið slegin, sitt hvoru megin í andlitið, og hlaut maðurinn að hafa slegið hana öðru megin.  Allt í einu sleppti maðurinn henni og hljóp upp stigann en hún kvaðst hafa séð A standa alblóðugan fyrir utan hurðina.  Hún kvað manninn, sem hún var í átökum við, hafa verið í ljósri hettupeysu og með svartan klút á höfðinu.  Hún kvaðst hafa rifið gallabuxur mannsins þegar hún festist í þeim.  Hún kvaðst ekki hafa séð þá menn sem voru í átökum við A, en hún kvað menn hafa verið að reyna að stía henni og manninum í sundur í þeim tilgangi að frelsa hann.  Ekki vissi hún hverjir það voru.  Eins var reynt að stía henni og A sundur

Ákærði Cresente Paraiso Montemayor bar að hafa verið í samkvæmi í [...] í umrætt sinn.  Eftir að samkvæmið hafði verið leyst upp kvaðst hann hafa farið út og þá séð tvo lögreglumenn halda meðákærða Romeo.  Einhver átök urðu milli þeirra og duttu meðákærði og lögreglukonan.  Þau hafi síðan staðið upp og farið inn í húsið.  Hann kvaðst síðan hafa farið inn í húsið og þá hafi allt saman verið byrjað eins og hann orðaði það.  Hann kvaðst ekki hafa slegið lögreglumann, en hann hefði sett hendur sínar upp en ekki gert neitt.  Hann kvað hafa verið dimmt þarna inni og hann lítið séð, en hann hefði ekki séð hver eða hverjir slógu lögreglumennina og ekki hefði hann séð hvort þeir voru slegnir.  Hann kvaðst hafa verið klæddur í svartan jakka.  Ákærði var spurður hvað meðákærðu hefðu gert en gat ekkert borið um hvort þeir hefðu gert eitthvað á hlut lögreglumannanna.  Borið var undir ákærða það sem hann hafði borið á meðákærða Rey Christian í lögregluskýrslu og kvað hann það vera misskilning því hann hefði sagt að hann væri ekki viss og eins hefði hann viljað losna úr varðhaldinu.  Borið var undir ákærða það sem meðákærðu báru hjá lögreglu, en meðákærði Y kvaðst þar hafa séð ákærða veitast að lögreglumanni í kjallara stigagangsins ásamt meðákærðu Reyni og Michael, en ákærði kvaðst hafa verið á leið út þegar meðákærði sá hann.  Einnig var borinn undir ákærða framburður meðákærða Rey Christian um að ákærði hefði hrint lögreglumanninum og kýlt hann og ákærði og meðákærði Mark hefðu farið niður í kjallarann og báðir kýlt lögreglumanninn í andlitið.  Ákærði kvað þetta ekki vera rétt.  Hann kvaðst hafa tekið talstöð lögreglumannsins sem hann hafi séð í stiganum.  Hann kvaðst hafa haldið að þetta væri sími og hent henni en ekki tekið hana með heim.  Spurður af verjanda meðákærða Romeo hvort hann hefði séð meðákærða í átökum við lögreglumenn kvaðst hann ekki hafa séð það, hvorki inni né úti. 

Ákærði X bar að upphaf málsins hafi verið að meðákærði Romeo og lögreglumenn hafi verið að rífast og síðan hafi hafist átök milli þeirra sem hafi borist inn í stigaganginn.  Þar hafi átökin haldið áfram og í þeim hafi meðákærði slegið lögreglukonuna í höfuð og maga og ýtt henni upp að veggnum með því að ýta að hálsi hennar, en ekki kvaðst hann hafa séð meðákærða bíta lögreglukonuna.  Ákærði kvaðst hins vegar ekki hafa séð átök milli meðákærða Romeos og lögreglumanns inni í stigaganginum.  Þá hefði meðákærði Michael barið lögreglukonuna og kvaðst hann hafa séð það.  Ákærði kvaðst hafa séð blóð á hendi meðákærða Michaels.  Ákærði kvaðst hafa reynt að hindra meðákærða Romeo í að berja lögreglukonuna, en ekki tekist.  Í framhaldinu hefði C farið með sig út.  Ákærði kannaðist við að hafa sagt vinum sínum að hann hefði slegið lögreglukonuna, en hann hefði bara verið að gorta af kröftum sínum því hann langaði til að vera sterkan eins og þeir.  Hann hefði hins vegar ekki barið hana og hann hefði heldur ekki barið lögreglumanninn.  Þá bar hann að niðri, eins og hann orðaði það, hefðu verið fjórir menn sem hefðu barið lögreglumanninn.  Ekki kvaðst hann hafa séð þetta en vera engu að síður viss um að þeir hefðu gert þetta.  Hann hefði heyrt að átök voru þarna niðri og vitað að þessir menn voru þarna.  Það hefðu verið meðákærðu Cresente, Reynir Þór, Mark og svo maður að nafni D, en ekki vissi ákærði frekari deili á honum.  Ákærði kvað meðákærða Y hafa reynt að stöðva átök Romeos og lögreglumannanna.  Ákærði kvaðst hafa verið í svörtum og gulum bol með merki á og í svörtum buxum.  Þá kvaðst hann hafa verið í svörtum Nike skóm.  Undir ákærða var borinn framburður E hjá lögreglu um að hann hefði séð ákærða og meðákærða Michael slá lögreglukonuna í líkamann.  Ákærði kvaðst hafa verið að reyna að skilja meðákærða Romeo og lögreglukonuna að en ekki verið að slá hana.  Þá bar ákærði að Reynir Þór hefði verið í hvítum skóm þetta kvöld.  Spurður um þátt meðákærða Rey Christian kvaðst hann ekki hafa séð hann gera neitt. 

Ákærði Y bar að þegar hann hafi komið niður úr íbúðinni hafi þar verið læti og lögreglan verið búin að handtaka meðákærða Romeo, en þegar lögreglukonan hafi ætlað að handjárna meðákærða kvaðst hann hafa ætlað að stöðva þetta, eins og hann orðaði það, og láta meðákærða eiga sig og fara sjálfur heim.  Ákærði kvað lögreglumanninn hafa verið að rífast við meðákærða Cresente og kvaðst sjálfur hafa reynt að skilja lögreglukonuna og meðákærða Romeo, en hann kvaðst hafa séð meðákærða berja lögreglukonuna og ýta henni í gólfið.  Þá kvaðst hann hafa séð meðákærða Michael slá lögreglukonuna.  Hann hefði hins vegar ekki séð meðákærða X slá hana, en meðákærði hefði sagt það síðar og þá verið að monta sig.  Ákærði kvað meðákærða Rey Christian hafa sparkað í höfuð lögreglumannsins og meðákærðu Mark og Cresente hafi verið niðri í kjallara, en ákærði kvaðst ekki vita hvað gerðist þar.  Ákærði kvaðst hafa reynt áfram að skilja meðákærða Romeo og lögreglukonuna og þess vegna ekki viljað fara af vettvangi þegar aðrir fóru.  Síðar um nóttina kvað ákærði meðákærða Michael hafa sagt að hann hefði slegið lögreglukonuna og var hann blóðugur á hendi, einnig sagðist hann hafa ráðist á lögreglumanninn.  Ákærði kvaðst hafa séð meðákærða Michael slá eitthvað, eins og hann orðaði það, þegar hann var spurður hvort hann hefði séð meðákærða slá lögreglumanninn og hefði það verið einu sinni.  Ákærði kvaðst hafa reynt að skilja lögreglumanninn og meðákærðu Mark og Cresente og í því skyni haldið lögreglumanninum, en meðákærðu hefðu barið lögreglumanninn niðri í kjallara.  Nánar spurður um árásina á lögreglumanninn kvað ákærði að fyrst hefði meðákærði Reynir barið hann í andlitið.  Við það hafi lögreglumaðurinn beygt sig niður.  Þá hafi meðákærði Rey Christian sparkað í hann.  Lögreglumaðurinn  fór þá niður í kjallarann, en ekki vissi ákærði hvort hann datt eða var dreginn niður.  Einnig fóru meðákærðu Mark og Cresente niður í kjallara og meðákærði Michael en ekki mundi ákærði hvort meðákærði Rey Christian hefði farið niður.  Ákærði kvaðst hafa séð meðákærðu Mark og Crestente slá lögreglumanninn.  Sjálfur kvaðst ákærði hafa reynt að skilja þá og ætlað að láta lögreglumanninn kæla sig þar eð hann hefði verið æstur.  Ákærði kvaðst ekki hafa slegið lögreglumanninn og heldur ekki lögreglukonuna en verið gæti að hann hefði rekist í lögreglumanninn.  Lögreglumaðurinn kom svo upp úr kjallaranum til að huga að lögreglukonunni og leita að talstöð sinni.  Ákærði kvaðst hafa verið í svörtum jakka og bláum buxum sem hefðu verið eitthvað rifnar.    

Ákærði Mark Vincent bar að þegar lögreglumenn hefðu komið og beðið fólkið að fara hefði það gert það.  Í framhaldinu hefði meðákærði Romeo verið handtekinn og spurðu hann og félagar hans þá að því af hverju það hefði verið gert.  Þeir hefðu ekki fengið önnur svör en þau að hann hefði verið handtekinn.  Allt í einu hefði meðákærði hlaupið inn í húsið og þegar ákærði kom sjálfur inn voru læti þar og kvaðst hann hafa séð lögreglukonuna sitja en niðri hafi lögreglumaðurinn verið.  Þar voru einnig meðákærðu Cresente og Rey Christian og voru þeir að ýta hver við öðrum þarna niðri og hafi meðákærðu verið fyrir aftan lögreglumanninn.  Ákærði kvaðst hafa farið niður og sagt lögreglumanninum að mennirnir væru drukknir, en lögreglumaðurinn hafi ýtt við honum og hann fallið við það á stigahandriðið.  Ákærði kvaðst hafa staðið upp og slegið lögreglumanninn einu sinni í öxlina, en síðan beðist afsökunar á því og hlaupið aftur upp til að komast út.  Hann kvað lögreglumanninn fyrst hafa ýtt við sér, en tilefnið hafi verið að ákærði var að reyna að stöðva átökin og koma því til skila að meðákærði Rey Christian væri drukkinn.  Ákærði kvaðst ekki hafa séð átök við lögreglukonuna inni í húsinu og ekki hafa veist að henni.  Hann kvaðst ekki hafa séð meðákærða Rey Christian sparka í lögreglumanninn.  Ákærði kvaðst hafa verið klæddur í svartan teinóttan jakka, gallabuxur og svarta skó þetta kvöld. 

Ákærði Michael Jade bar að eftir að samkvæminu lauk umrætt kvöld hefði meðákærði Romeo viljað tala við lögreglumennina og eftir það hefðu átök hafist milli þeirra.  Sjálfur kvaðst hann hafa sagt meðákærða að gera þetta ekki en síðan séð hann slá lögreglukonuna og  einnig hefði meðákærði barið lögreglumanninn.  Ákærði kvaðst ekki hafa slegið lögreglukonuna, en orðið blóðugur á höndunum við að stía meðákærða Romeo og henni í sundur.  Þá hefði hann séð meðákærða Reyni Þór vera á lögreglumanninum og séð hann slá hann.  Hann kvaðst og hafa séð meðákærða Rey Christian sparka í háls og bak lögreglumannsins sem hefði dottið við það.  Hins vegar hefði hann ekki séð meðákærða slá lögreglumennina.  Þá kvaðst hann hafa séð lögreglumanninn slá meðákærða Mark sem slegið hafi á móti.  Eftir þetta kvaðst ákærði hafa farið heim, en hafði áður reynt að fá félaga sína með sér og meðal annars togað í þá í því skyni.  Ákærði kvað meðákærða Reyni Þór hafa slegið lögreglumanninn tvö til þrjú högg og lentu þau í baki hans og á kjálka.  Einnig hefði hann séð meðákærða Cresente berja lögreglumanninn einu sinni í andlitið hægra megin og taka farsíma hans sem lögreglumaðurinn missti við höggið.  Sjálfur kvaðst ákærði hafa verið að reyna að stilla til friðar og stía þeim í sundur sem voru í átökum.  Hann neitaði að hafa slegið lögreglumennina.  Ákærði kvaðst hafa verið í grárri skyrtu, svörtum buxum og rauðum skóm.     

Ákærði Rey Christian bar að þegar hann hefði komið niður úr íbúðinni hefði hann sest í stigann og orðið var við mikil læti í kringum sig.  Þá hefði lögreglukonan haldið meðákærða Romeo en hann streist á móti og meðákærði Y hefði verið að reyna að stöðva þau.  Ákærði kvaðst hafa séð meðákærða Romeo slá lögreglukonuna einu sinni í öxlina, en  ekki séð hann taka hana hálstaki.  Meðákærði hafi verið að ýta lögreglukonunni, eins og hann orðaði það, til að komast hjá handtöku.  Hann kvaðst hafa séð meðákærða Reyni slá lögreglukonuna einu sinni í andlitið og þá kvaðst ákærði hafa staðið upp og slegið lögreglumanninn í andlitið hægra megin.  Síðan kvaðst hann hafa ýtt í lögreglumanninn með höndum og fótum og hefði lögreglumaðurinn dottið niður við það.  Hann kvaðst hafa ýtt eða sparkað og slegið lögreglumanninn í bringuna, en neitaði að hafa sparkað í höfuð hans.  Einnig kvaðst ákærði hafa séð meðákærða Mark slá lögreglumanninn einu sinni í andlitið.  Einnig hefði hann séð meðákærða Cresente slá lögreglumanninn í andlitið tvisvar sinnum og henda talstöð hans.  Meðákærðu hefðu báðir slegið lögreglumanninn í kjallaranum.  Ákærði kvaðst hafa farið niður með meðákærðu Cresente og Mark, en ekki hefði hann slegið lögreglumanninn þar.  Ákærði kvaðst  hafa séð meðákærða Mark slá lögreglukonuna.  Síðan hefði bróðir ákærða komið og sótt sig.  Ákærði kvaðst ekki hafa séð hvað gerðist úti áður en lætin hófust inni.  Ákærði kvaðst ekki hafa séð meðákærða Ennis og ekki séð annað til meðákærða Y en að hann hefði ýtt lögreglukonunni.  Hann kvaðst ekki hafa séð meðákærða Michael inni í húsinu.  Ákærði kvaðst hafa verið í gallabuxum og hvítum skóm. 

Ákærði Reynir Þór bar að hann hefði ekki lent í átökum við lögregluna umrædda nótt.  Hann hefði ekki verið á staðnum þegar átökin urðu.  Undir ákærða var borinn framburður meðákærðu varðandi þátt ákærða í átökunum og kvað hann þar ekki rétt frá skýrt.  Hann ítrekaði að hann hefði ekki verið á staðnum þegar átökin áttu sér stað.  Þá kvað hann það ekki rétt að hann hefði reynt að hafa áhrif á framburð meðákærðu og vitna.  Hann kvaðst hafa verið klæddur í rauða Liverpool peysu.  Hann kvaðst hafa verið ganga út þegar hann hafi séð meðákærða Romeo í viðræðum við tvo lögreglumenn, en ekki hefðu þau verið í átökum og ekki hefði hann séð fleiri þarna inni.  Ákærði ítrekaði að hann hefði ekki verið á staðnum þegar átökin urðu og ekki geta borið um þátt meðákærðu.   

Ákærði Romeo kvaðst hafa verið að [...] umrætt sinn, en kvaðst ekki muna til þess að hafa rifið einkennismerki af lögreglumanni eða lent í átökum við lögreglumenn.  Hann kvaðst ekki hafa orðið var við átök við lögreglumenn, hvorki við húsið né í því.  Framburður annarra var borinn undir ákærða og kvaðst ákærði ekki muna eftir því sem þeir lýstu.  Hann kvaðst hafa drukkið mikið áfengi þetta kvöld, hann myndi ekki hve mikið, en hann hefði verið mjög drukkinn.  Hann kvaðst hafa verið í hvítum bol með rauðum röndum, í hvítgrárri peysu og brúnum skóm og dökkbrúnum buxum.  Hann kvaðst hafa haft svartan Nike höfuðklút.  Ákærði kvaðst muna til þess að buxnaskálm hans hefði rifnað í þetta skipti en buxurnar voru órifnar þegar hann fór í samkvæmið. 

Vitnið F var í samkvæminu að [...] í umrætt sinn.  Eftir að lögreglan hafði leyst það upp fór hópur manna þaðan niður og þar urðu læti.  Þarna niðri kvaðst vitnið hafa séð ákærðu Romeo, Y, Reyni og Rey Christian.  Vitnið kvaðst ekki hafa séð átök utandyra en séð lögreglukonuna handtaka ákærða Romeo innandyra og ákærðu Y, Reynir og Rey Christian voru að reyna að stía þeim í sundur.  Vitnið kvað ákærða Romeo hafa verið að reyna að sleppa frá lögreglukonunni og ákærða Y verið að stía þeim í sundur.  Vitnið og félagar fóru upp til að lenda ekki í átökunum.  Það kvaðst ekki hafa séð ákærða Rey Christian gera neitt, enda hefði ákærði verið mjög drukkinn.  Einnig kvaðst vitnið hafa séð ákærða Reyni vera stía ákærða Romeo og lögreglukonunni í sundur, en ekki hafa séð hann gera neitt annað og ekki kvaðst það hafa séð lögreglukonuna tekna hálstaki.  Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða Cresente eiga í átökum. 

Vitnið G bar að þegar fólkið var komið út úr húsinu hafi hann  séð lögreglumennina reyna að handtaka ákærða Romeo, en ekki vissi vitnið af hverju var verið að handtaka hann.  Ákærði hefði komist undan inn í húsið og fóru lögreglumennirnir á eftir.  Vitnið kvaðst og hafa séð ákærðu Reyni og Y inni í húsinu og var ákærði Reynir að slást við lögreglukonuna, en ákærði Y að stía þeim sundur.  Ákærði Romeo hefði verið á leiðinni upp meðan á þessu stóð.  Einnig kvaðst vitnið hafa séð ákærða Mark vera að reyna að stía ákærða Romeo og lögreglukonunni í sundur og hefði ákærði Mark og ákærði Reynir verið hjá lögreglukonunni eftir að ákærði Romeo var farinn upp eftir að hafa ýtt henni upp að vegg og þannig sloppið frá henni.  Vitnið kvað ákærða Reyni hafa reynt að kýla lögreglukonuna og ákærði Y reyndi að skilja þau að.  Ákærði Romeo hefði verið þar hjá á meðan eða áður en hann fór upp.  Meðan á þessu stóð var lögreglumaðurinn í kjallaranum og með honum þeir ákærðu Michael og  Mark og einhverjir fleiri sem vitnið mundi ekki hverjir voru.                 

Vitnið H bar að hafa séð lögreglukonuna reyna að handtaka ákærða Romeo.  Það kvaðst hafa séð ákærðu Rey Christian og Mark inni en ekki séð þá slá neinn.  Það kvaðst, ásamt þeim og fleirum ákærðu, hafa farið á bar og þar hefði ákærði Cresente sagst hafa hent talstöð lögreglumannsins og eins hefði ákærði sagt að það væri svo góð tilfinning að kýla lögreglumann.  Eftir þetta hefði hver farið til síns heima.  Sérstaklega spurður kvaðst vitnið ekki hafa séð átök manna við lögreglumennina nema hvað lögreglukonan hafi verið að reyna að handtaka ákærða Romeo inni í húsinu.  Borið var undir vitnið það sem haft er eftir því í lögregluskýrslu þar sem það kvaðst hafa séð ákærða Reyni slá í átt að lögreglukonunni og gat það ekki staðfest með vissu að svo hefði verið.  Taldi vitnið sig hafa munað þetta betur þegar það gaf lögregluskýrsluna.  Þá staðfesti vitnið að ákærði Reynir hefði sagt við sig og aðra að ekki mætti segja frá því sem gerðist þarna. 

Vitnið C bar að hafa séð átök fyrir utan húsið þegar lögreglukonan var að reyna að setja ákærða Romeo í handjárn.  Ákærði slapp og fór aftur inn í húsið.  Ekki kvaðst vitnið hafa séð meira af átökum enda farið í burtu af staðnum. 

Vitnið E bar að hafa verið úti með vitninu C og séð einhver átök inni í húsinu.  Menn voru að lemja tvo lögreglumenn eins og hann orðaði það.  Nánar spurður kvaðst hann hafa verið úti og séð það, sem gerðist inni, í gegnum rúðu.  Borið var undir vitnið það sem það hafði borið hjá lögreglu að það hefði séð í gegnum rúðu ákærðu X og Michael kýla lögreglukonuna í andlitið og staðfesti það að það væri rétt.  Ekki vissi vitnið hversu mörg höggin voru.  Vitnið kveðst svo hafa farið á brott, enda vildi það ekki vera með í átökunum.

Ófeigur Tryggvi Þorgeirsson læknir staðfesti framangreind vottorð sín þar sem meiðslum lögreglumannanna er lýst.  Hann bar að áverkar lögreglumannanna, sem lýst er í ákærunni, komi heim og saman við þá áverka sem þeir báru þegar hann skoðaði þá á sínum tíma.  Hann staðfesti að lýsing lögreglumannanna á árásinni og þeim höggum sem þeir fengu kæmi heim og saman við það sem hann hefði komist að með skoðun sinni.  Þá kvað hann hina líkamlegu áverka ekki vera allt því að andlegar afleiðingar væru ekki betri og gæti tekið langan tíma að ná sér af þeim. 

IV

Í fyrri ákærulið er ákærða Romeo Penas gefið að sök að hafa rifið í axlir A lögreglumanns þannig að einkennismerki rifnuðu af jakkanum.  Ákærði neitaði  sök og kvaðst ekki muna eftir þessu atviki.  Lögreglumennirnir báru báðir að eftir að þeir voru komnir út úr húsinu að [...] hafi maður komið aftan að A og rifið einkennismerki af jakka hans.  Lögreglumennirnir reyndu að handtaka manninn, sem þetta gerði, en hann komst undan og inn í húsið.  Ákærðu Cresente, X, Y, Mark, Michael og Rey hafa allir borið um átök ákærða við lögreglumennina þegar þeir reyndu að handtaka hann, eins og rakið var.  Hið sama bera vitnin G, H og C.  Með þessum framburði meðákærðu og vitna telur dómurinn sannað að það hafi verið ákærði Romeo sem veittist að A lögreglumanni eins og honum er gefið að sök í fyrri lið ákærunnar.

Í síðari ákæruliðnum er ákærðu gefið að sök að hafa í sameiningu veist að lögreglumönnunum með hnefahöggum auk þess sem ákærða Romeo er gefið að sök að hafa tekið B hálstaki og ákærða Rey er gefið að sök að hafa sparkað í hnakka A.  Ákærðu neita allir sök, nema ákærði Mark.  Í kaflanum hér að framan var rakinn framburður ákærðu og vitna um það sem gerðist inni í [...] eftir að ákærði Romeo komst þangað undan lögreglumönnunum.  Af þessum skýrslum er ljóst að þarna inni kom til átaka milli lögreglumannanna og hóps manna.  Átökin voru bæði í anddyrinu sjálfu og einnig bárust átökin við A niður stiga og voru í ganginum þar.  Meðal gagna málsins eru ljósmyndir af lögreglumönnunum og áverkavottorð.  Þessi gögn bera með sér að lögreglumennirnir hlutu áverka í átökunum og hefur læknir, sem skoðaði þá eftir átökin, borið að lýsing þeirra á árásinni og höggunum sem þeir fengu hafi samrýmst því sem hann komst að við skoðun og gaf vottorð um.

Nú verður fjallað um hvern hinna ákærðu fyrir sig og komist að niðurstöðu um sekt eða sýknu.

Ákærði Cresente neitaði sök og kvaðst ekkert hafa gert á hlut lögreglumannanna, en kannaðist við að hafa verið á staðnum og þar hefðu orðið átök.  Ekki kvaðst hann hafa séð hver eða hverjir slógu lögreglumennina.  Ákærði X bar að niðri, og mun þá hafa átt við ganginn fyrir neðan stigann úr anddyrinu, hefðu verið fjórir menn, ákærðu Cresente, Reynir Þór og Mark auk manns sem hann nefndi D, en engar frekari upplýsingar fengust um hann í málinu, hvorki hjá ákærðu né vitnum.  Þessir menn hefðu barið lögreglumanninn.  Ekki kvaðst ákærði X hafa séð þetta, en vera viss um það engu að síður, enda hefði hann heyrt til þeirra.  Ákærði Y bar að ákærði Cresente hefði, ásamt ákærða Mark, verið í átökum við lögreglumanninn í anddyrinu.  Ákærði Y bar enn fremur að ákærðu Cresente, Mark og Michael hefðu farið niður ásamt lögreglumanninum og þar hefði hann séð ákærðu Cresente og Mark slá lögreglumanninn.  Ákærði Mark bar að ákærðu Cresente og Rey Christian hefðu verið fyrir aftan lögreglumanninn og verið að ýta hvor við öðrum en ekki bar hann um atlögu ákærða Cresente að lögreglumanninum.  Ákærði Michael bar að hafa séð ákærða Cresente slá lögreglumanninn einu sinni í andlitið.  Ákærði Rey Christian bar að hafa séð ákærða Cresente slá lögreglumanninn og eins hefði ákærði Cresente farið niður ásamt sér og ákærða Mark.  Eins og nú hefur verið rakið bera framangreindir meðákærðu um þátt ákærða Cresente í atlögunni að A og verður hann því sakfelldur, gegn neitun sinni.  Enginn ber hins vegar um að ákærði hafi átt þátt í atlögunni að B og er það ósannað gegn neitun hans.

Ákærði X neitaði sök og bera ekki aðrir á hann sakir en vitnið E sem kvaðst hafa séð í gegnum rúðu þá ákærðu X og Michael kýla lögreglukonuna í andlitið.  Að svo vöxnu máli er ekki komin fram lögfull sönnun um sekt ákærða og verður hann sýknaður.

Ákærði Y neitaði sök, en kannaðist við afskipti af átökunum eins og rakið var.    Hann skýrði afskipti sín á þann veg að hann hefði verið að stía félögum sínum og lögreglumönnunum í sundur.  Ákærði er með lýti á nefi og bar A að maður með kúlu á nefinu hefði kýlt sig í andlitið.  Ákærði Rey Christian bar að hafa séð ákærða Y ýta við lögreglukonunni.  Vitnið F bar að ákærði Y hafi verið niðri með ákærðu Reyni og Rey Christian og eins sá það ákærða Y vera að stía ákærða Romeo og lögreglukonunni í sundur.  Hið sama bar vitnið G.  Með vísun til þess sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi tekið þátt átökunum hvað svo sem líður hugmyndum hans um tilgang hans með því.  Hann verður því sakfelldur samkvæmt ákærunni.

Ákærði Mark játaði sök og kvaðst hafa sagt lögreglumanninum að mennirnir væru drukknir en lögreglumaðurinn hefði þá ýtt við honum og hefði hann fallið við það á stigahandriðið.  Þegar ákærði stóð upp sló hann lögreglumanninn einu sinni í öxlina en baðst síðan afsökunar og hljóp út.  Ákærði Y bar að ákærði Mark hefði, ásamt ákærða Cresente, barið lögreglumanninn niðri.  Ákærði Michael bar að hafa séð lögreglumanninn slá ákærða Mark sem hefði slegið á móti.  Þá bar ákærði Rey Christian að hafa séð ákærða Mark slá báða lögreglumennina.  Með játningu ákærða og framburði meðákærðu, er sannað að hann hafi gerst sekur um það sem honum er gefið að sök í ákærunni.

Ákærði Michael neitaði sök en kvaðst hafa reynt að stilla til friðar og stía þeim í sundur sem voru í átökum.  Ákærði X bar að hafa séð ákærða Michael berja lögreglukonuna og hið sama bar ákærði Y.  Þá bar vitnið E að hafa í gegnum rúðu séð ákærðu X og Michael kýla lögreglukonuna í andlitið.  Samkvæmt þessu er sannað að ákærði Michael barði lögreglukonuna og verður hann sakfelldur fyrir það.               Ákærði Rey Christian neitaði sök en viðurkenndi fyrir dómi að hafa slegið lögreglumanninn í andlitið og ýtt við honum með höndum og fótum og hefði lögreglumaðurinn dottið við það.  Hann viðurkenndi að hafa ýtt eða sparkað og slegið lögreglumanninn í bringuna en neitaði að hafa sparkað í höfuð hans.  Ákærði Y bar að hann hefði séð ákærða Rey Christian sparka í höfuð lögreglumannsins og ákærði Michael kvaðst hafa séð ákærða Rey Christian vera á lögreglumanninum og slá hann og eins hefði hann séð hann sparka í háls og bak lögreglumannsins.  Ákærði kvaðst hafa verið í hvítum skóm í þetta skipti og A bar að það hefði verið maður í hvítum skóm sem hefði sparkað í höfuð sér.  Með játningu ákærða, framburði meðákærðu og vitna er sannað að ákærði hafi gerst sekur um það sem honum er gefið að sök í ákærunni, þar með að hafa sparkað í hnakka A.

Ákærði Reynir Þór neitaði sök og kvaðst ekki hafa verið á staðnum þegar átökin urðu.  Ákærði X bar að ákærði Reynir Þór hefði verið meðal þeirra sem voru niðri og hann kvaðst vera viss um að hefðu verið að berja lögreglumanninn eins og rakið var í þætti ákærða Cresente.  Ákærði Y bar að hafa séð ákærða Reyni Þór slá lögreglumanninn í andlitið og hið sama bar ákærði Michael, sem bar að hafa séð ákærða Reyni Þór slá lögreglumanninn tvö til þrjú högg sem lentu á baki og kjálka.  Ákærði Rey Christian bar að hafa séð ákærða Reyni Þór slá lögreglukonuna einu sinni í andlitið.  Samkvæmt þessu er sannað að ákærði Reynir Þór, í félagi með meðákærðu, veittist að lögreglumönnunum með höggum eins og honum er gefið að sök í ákærunni.

Ákærði Romeo neitaði sök og kvaðst ekki muna til þess að hafa lent í átökum við lögreglumenn og reyndar hefði hann ekki orðið var við átök í umrætt sinn.  Ákærði kannaðist við að önnur buxnaskálm hans hefði rifnað í þetta skipti en hún hefði verið órifin þegar hann fór í samkvæmið.  A bar að það hefði verið sami maður sem hefði rifið af sér einkennismerkin og hefði haldið í hár B og kýlt hana.  B bar um að hafa farið á eftir þessum manni inn í húsið og náð honum þar.  Milli þeirra hefðu síðan hafist átök í anddyrinu, eins og rakið var.  Hann hefði tekið sig hálstaki, rifið í hár hennar og slegið sig.  Hún kvaðst hafa rifið buxur mannsins þegar hún festist í þeim.  Hér fyrr var það talið sannað að maður þessi var ákærði Romeo.  Ákærði X bar að hafa séð ákærða Romeo slá lögreglukonuna í höfuð og maga og ýta henni upp að vegg með því að ýta að hálsi hennar.  Ákærði Y bar að hafa séð ákærða Romeo berja lögreglukonuna og ýta henni í gólfið.  Ákærði Michael bar að hafa séð ákærða Romeo slá lögreglukonuna og eins kvaðst ákærði Rey Christian hafa séð ákærða Romeo slá lögreglukonuna í öxlina.  Vitnin F og G bera bæði um átök ákærða Romeo við lögreglukonuna og framburður vitnanna H og C styður framburð þeirra eins og rakið var.  Samkvæmt þessu telur dómurinn sannað að ákærði Romeo hafi gerst sekur um það sem honum er gefið að sök í ákærunni, þar með að hafa tekið B hálstaki.

Brot ákærðu eru rétt færð til refsiákvæðis í ákærunni.

Ákærði Cresente hefur tvívegis, 2006 og 2007, verið sektaður fyrir umferðarlagabrot og ákvörðun refsingar var frestað á hendur ákærða Michael 2006 fyrir hlutdeild í þjófnaði.  Aðrir ákærðu hafa hrein sakavottorð.

Ákærðu Cresente, Reynir Þór og Romeo verða, hver um sig, dæmdir í 9 mánaða fangelsi.  Ákærði Rey Christian viðurkenndi við aðalmeðferð að mestu leyti það sem hann er ákærður fyrir og er rétt að hann njóti þess.  Er refsing hans hæfilega ákveðin 7 mánaða fangelsi.  Ákærðu Y, Mark og Michael verða, hver um sig, dæmdir í 6 mánaða fangelsi, enda er í ljós leitt að þáttur þeirra í átökunum var ekki eins mikill og hinna.

Til frádráttar refsingum ákærðu Y, Mark, Rey Christian og Romeo skal koma gæsluvarðhaldsvist sem þeir sættu eins og nánar greinir í dómsorði. 

Hér fyrr var gerð grein fyrir því að lögreglumennirnir komu að [...] vegna kvartana nágranna yfir hávaða frá íbúð þar sem haldið var samkvæmi.  Íbúar þar urðu við tilmælum lögreglu um að hætta leiknum og flestir gestir hurfu á brott.  Þegar lögreglumennirnir höfðu lokið störfum á vettvangi og voru í þann mund að setjast inn í bifreið sína réðst ákærði Romeo á A eins og lýst var.  Lögreglumönnunum mistókst að handtaka hann og komst hann inn í húsið þar sem hann og aðrir ákærðu gengu í félagi í skrokk á lögreglumönnunum eins og rakið hefur verið.  Árás ákærða Romeo á lögreglumanninn var algerlega tilefnislaus svo og afskipti meðákærðu af handtöku hans og árás þeirra á lögreglumennina.  Virða ber ákærðu það til refsiþyngingar að þeir réðust sem hópur á lögreglumennina.  Ákærðu eiga sér engar málsbætur og samkvæmt framansögðu eru ekki forsendur til að skilorðsbinda refsingarnar.

Loks verða þeir ákærðu, sem sakfelldir hafa verið, dæmdir til að greiða óskipt 4.233 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun verjenda sinna eins og nánar greinir í dómsorði.  Málvarnarlaun verjanda ákærða X skulu greidd úr ríkissjóði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Cresente Paraiso Montemayor, sæti fangelsi í 9 mánuði.

Ákærði, X, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Ákærði, Y, sæti fangelsi í 6 mánuði, en til frádráttar komi 5 daga gæsluvarðhaldsvist.

Ákærði, Mark Vincent Canada Aratea, sæti fangelsi í 6 mánuði, en til frádráttar komi 5 daga gæsluvarðhaldsvist.

Ákærði, Michael Jade Canada Aratea, sæti fangelsi í 6 mánuði.

Ákærði, Rey Christian Alguno, sæti fangelsi í 7 mánuði , en til frádráttar komi 3 daga gæsluvarðhaldsvist.

Ákærði, Reynir Þór Resgonia, sæti fangelsi í 9 mánuði.

Ákærði, Romeo Penas Barriga, sæti fangelsi í 9 mánuði en til frádráttar komi 5 daga gæsluvarðhaldsvist.

Ákærðu, Cresente, Y, Mark, Michael, Rey Christian, Reynir Þór og Romeo, greiði óskipt 4.233 krónur í sakarkostnað.

Ákærði, Cresente, greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar hdl., 600.000 krónur.

Málsvarnarlaun verjanda ákærða, X, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 400.000 krónur, skulu greidd úr ríkissjóði.

Ákærði, Y, greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 608.662 krónur.

Ákærði, Mark, greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Bjarna Haukssonar hrl., 808.662 krónur.

Ákærði, Michael, greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Björgvins Jónssonar hrl., 600.000 krónur.

Ákærði, Rey Christian, greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Guðbjarna Eggertssonar hdl., 808.662 krónur.

Ákærði, Reynir Þór, greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur hdl., 600.000 krónur.

Ákærði, Romeo, greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 893.671 krónu.

Málsvarnarlaun eru ákvörðuð með virðisaukaskatti.