Hæstiréttur íslands

Mál nr. 292/2016

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum (Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri)
gegn
X (Jón Bjarni Kristjánsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og  Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. apríl 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 8. apríl 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. apríl 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. maí 2016 klukkan 16.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til var að úrskurðurinn verði staðfestur, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en sóknaraðili krefst.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að fullnægt sé skilyrðum   c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi.

Fyrir liggur að ólokið er nokkrum málum varnaraðila. Samkvæmt því verður krafa sóknaraðila tekin til greina eins og hún er fram sett.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. maí 2016 klukkan 16.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 8. apríl 2016.

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur krafist þess að X, kt. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. maí 2016, klukkan 16:00.

Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað, en krefst þess til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. 

Lögreglustjóri krefst þess að kærða verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, en hann var úrskurðaður í Héraðsdómi Suðurlands þann 13. mars sl., í gæsluvarðhald til dagsins í dag að telja, nánar tiltekið til kl. 16:00. Áðurnefndur úrskurður var staðfestur í Hæstarétti þann 21. mars sl., sbr. mál réttarins nr. 220/2016. Vísar lögreglustjóri til þess að enn megi ætla að kærði muni halda áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið í refsivörslukerfinu. Þá liggi fyrir að kærði hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafa verið sett með dómi frá 17. september 2015 . 

Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að eftirtalin mál séu annað hvort enn í rannsókn eða dómur ekki fallinn. Í rannsókn séu enn mál lögreglu nr. 319-2016-[...], 319-2016-[...] og 319-2016-[...], en rannsókn sé á lokastigi:

Mál nr. 319-2016-[...]:  Málavextir eru þeir helstir að lögreglu hafi kl. 03:36 laugardaginn 12. mars  sl., borist tilkynning frá dyravörðum á skemmtistaðnum [...] um að brotaþoli væri þar í tökum dyravarða. Atvikum hafi verið lýst þannig á vettvangi að brotaþoli hafi verið laminn af þremur mönnum inni á salerni staðarins á efri hæð. Hann hafi síðar ætlað að veitast að einum þeirra, kærða sem hafi staðið í dyrum veitingastaðarins en dyraverðir hafi stöðvað hann og lagt hann í gólfið. Kærði hafi þá komið þar að inn um bakdyr og sparkað í höfuð hans þar sem hann hafi legið. Þegar lögregla hafi komið á staðinn hafi árásarþoli enn verið á staðnum en sakborningar á bak og burt. Samkvæmt lýsingum vitna hafi það verið kærði sem hafi sparkað í höfuð árásarþola og hafi hann leitað í kjölfarið til læknis. Læknir hafi haft samband við lögreglu að morgni laugardags og lýst alvarlegum og miklum áverkum árásarþola og miklum höfuðkvölum hans og talið árásina alvarlega. Leitað hafi verið að kærða sem hafi verið handtekinn kl. 13.55 þann 12. mars 2016 en vegna annarlegs ástands hans vegna fíkniefnaneyslu hafi ekki verið mögulegt að ræða við hann fyrr en kl. 13:00 daginn eftir eða þann 13. mars 2016. Í greinargerð lögreglustjóra segir að enn liggi ekki fyrir áverkavottorð brotaþola, sem hafi þurft að leita sérfræðiaðstoðar vegna áverka á augnsvæði og höfði. Samkvæmt gögnum sem fylgdu kröfu lögreglustjóra kemur fram að mál þetta sé rannsakað sem brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1040,  eða eftir atvikum 218. gr. sömu laga.

Mál nr. 319-2016-[...]:  Föstudaginn 11. mars 2016 kl. 23.24 hafi lögreglu borist tilkynning frá 16 ára dreng um að kærði hafi ætlað að ráðast á hann og vin hans, elt hann á bifreið að heimili hans og eftir að hann hafi farið út úr bílnum hafi kærði elt hann upp tröppur að heimili hans og hótað honum líkamsmeiðingum en tilkynnandi komist undan. Drengurinn hafi upplýst að kærði ætti eitthvað sökótt við vin sinn vegna líkamsárásar gegn honum þann 5. júlí 2015 sem sé mál lögreglu nr. 319-2015-[...] og sé komið í ákærumeðferð. Fram kemur í greinargerð lögreglustjóra að rannsókn málsins, sem lögreglustjóri telur varða við 108. gr. almennra hegningarlaga, sé á lokastigi.

Mál nr. 319-2016-[...]: Til rannsóknar sé ætlað fíkniefnalagabrot kærða þann 12. mars sl., en þann dag fundust á kærða við flutning fyrir dóm í kjölfar handtöku 1 gramm af ætluðu kannabis. Beðið sé eftir efnaskýrslu í málinu.

Þá hafi í dag, þann [...]. apríl 2016, verið þingfest í Héraðsdómi Suðurlands málið nr. S-[...]/2016, mál lögreglu nr. 319-2016-[...] og 007-2015-[...]. Þar er kærða gefið að sök líkamsárás þann 9. janúar sl., á skemmtistaðnum [...] í [...] og hin ætlaða háttsemi heimfærð undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, og umferðarlagabrot þann 30. desember 2015, þ.e. brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Málinu hafi verið frestað ótiltekið en verjandi ákærða áskildi sér rétt til að skila greinargerð í málinu.  

Framangreindum brotum sé því enn ólokið í réttarvörslukerfinu en lögreglustjóri telji nauðsynlegt að afgreiða málin meðan kærði sæti gæsluvarðhaldi.  Nauðsynlegt sé að stöðva brotahrinu hans en hann hafi átt samfellda brotahrinu líkamsárása frá því sumarið 2015. Af ofangreindum brotum séu tvær líkamsárásir, þar af varði a. m.k. önnur þeirra við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og hótun, sem einnig sé barnaverndarlagabrot. Þar hafi kærði með háttsemi sinni reynt að hafa áhrif á vitni í máli sem sé til meðferðar fyrir dómi. 

Kærði hafi hlotið fjölmarga refsidóma þrátt fyrir ungan aldur en kærði verði [...] ára gamall þann [...]. maí nk. Kærði hafi gengist undir viðurlagaákvörðun vegna fíkniefnalagabrots 26. júní 2013, hlotið dóm þann 26. maí 2014 þar sem refsingu hafi verið frestað fyrir þjófnað, nytjastuld og akstur án ökuréttinda. Þann 17. febrúar 2015 hafi kærði gengist undir sátt vegna fíkniefnalagabrots hjá lögreglustjóranum á Höfuðborgarsvæðinu.

Með dómi Héraðsdóms Suðurlands dags. [...]. júlí 2015 í máli nr. [...]/2015 hafi kærði verið dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. og 245. gr. almennra hegningarlaga auk fíkniefnalagabrots, og  ákvörðun refsingar frestað.

Með dómi Héraðsdóms Suðurlands dags. [...]. júlí 2015 í máli nr. [...]/2015 hafi kærði verið dæmdur fyrir þjófnað, en sýknaður af húsbroti og ákvörðun refsingar frestað.

Með dómi Héraðsdóms Suðurlands dags. [...]. september 2015 í máli nr. [...]/2015 hafi kærði verið ákærður fyrir líkamsárás og dæmdur í 3 mánaða skilorðsbundinn dóm í 2 ár, dómurinn hafi verið birtur kærða þann 23. september 2015.

Með dómi Héraðsdóm Suðurlands dags. [...]. mars 2016 í máli nr. [...]/2015 hafi kærði verið dæmdur fyrir fjórar líkamsárásir og fíkniefnalagabrot og hlotið 5 mánaða skilorðsbundinn dóm í 2 ár.

Þá hafi kærði í dag, 8. apríl 2016, verið dæmdur í Héraðsdómi Suðurlands í 8 mánaða fangelsi, en fullnustu 5 mánaða frestað í 2 ár, fyrir þrjár líkamsárásir, barnaverndarlagabrot, þrjú fíkniefnalagabrot og tollalagabrot.

Þó kærði sé ungur að árum telur lögreglustjóri engu að síður nauðsynlegt að hann verði vistaður í síbrotagæslu til þess að koma í veg fyrir að hann haldi brotum sínum áfram, sem að mati lögreglustjóra sé yfirgnæfandi líkur á að verði með vísan til brotaferils hans, á meðan málum hans er ekki lokið auk þess sem enginn vafi leiki á að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafi verið sett í skilorðsbundnum dómi.

Með vísan til alls framangreinds, samfelldrar brotahrinu frá því í júní 2015 og þess að kærði beiti jafnan ofbeldisfullum líkamsárásum þar sem alvarleg líkamstjón hafi hlotist af, sé það mat lögreglustjóra að nauðsyn sé að stöðva brotahrinu kærða og klára mál hans fyrir dómstólum, sbr. c - liður 1. mgr. 95. gr. 88/2008, með því að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. maí 2016, klukkan 16:00.

 

Niðurstaða 

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður sakborningur því aðeins úrskurðaður í gæsluvarðhald að fram sé kominn rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, enda hafi hann náð 15 ára aldri. Auk þess verða að vera fyrir hendi eitthvert þeirra skilyrða sem tilgreind eru í a-d lið greinarinnar. Samkvæmt c-lið, er það skilyrði að ætla megi að sakborningur muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið eða rökstuddur grunur leiki á að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafa verið sett í skilorðsbundnum dómi.

Þau mál kærða sem enn er ekki lokið eru eftirfarandi. Í fyrsta lagi mál lögreglu nr. 319-2016-[...] og 319-2016-[...], en samkvæmt þeim er kærði grunaður um að hafa þann 11. og 12. mars sl., tvívegis framið brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Bæði málin, sem enn eru til rannsóknar hjá lögreglu, geta varðað kærða fangelsisrefsingu. Fyrrnefnd ætluðu brot eru framin eftir að kærða var birtur skilorðsbundinn dómur sem hann hlaut 17. september 2015. Þá er kærði einnig undir rökstuddum grun um smávægilegt fíkniefnalagabrot þann 13. mars sl. Í öðru lagi er til meðferðar í Héraðsdómi Suðurlands ákæra, dagsett 31. mars sl., á hendur á kærða fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga þann 9. janúar sl., samkvæmt fyrri lið ákæru, og umferðarlagabrot þann 30. desember 2015,  samkvæmt síðari lið ákæru. Afstaða kærða til sakarefnisins liggur fyrir, en kærði neitaði sök við þingfestingu málsins fyrr í dag samkvæmt fyrri ákærulið, þannig að hann kannaðist við að hafa skallað brotaþola en gerir athugasemdir við heimfærslu brotsins til ákvæða. Kærði játaði hins vegar sök samkvæmt síðari lið ákæru. Upplýsti verjandi ákærða í þinghaldi í dag að kærði ætlaði ekki að gefa skýrslu við aðalmeðferð málsins.

Kærði lýsti því yfir í þinghaldi í dag að sótt hafi verið fyrir hann um meðferð á Vogi og staðfesti verjandi kærða það. Af rannsóknargögnum málsins má ráða að kærði hafi átt við áfengis- og fíkniefnavanda að glíma. Að mati dómsins er ákærði undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Með vísan til þess sem að framan er rakið og rannsóknargagna verður að fallast á það með lögreglustjóra að ætla megi að kærði muni halda áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið. Þá er fallist á það með lögreglustjóra að rökstuddur grunur leiki á að kærði hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafa verið sett í skilorðsbundnum dómi, allt sbr. c- lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Eru því að mati dómsins skilyrði til gæsluvarðhalds samkvæmt nefndu lagaákvæði uppfyllt. Hins vegar er fallist á það með ákærða að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími enda verður að gera þá kröfu til lögreglustjóra að hann hraði allri málsmeðferð þegar um er að ræða grunaðan mann sem sætir þvingunarúrræðum eins og háttar til í tilviki kærða sem nú þegar hefur setið í fjórar vikur í gæsluvarðahaldi. Verður ekki annað ráðið af rannsóknargögnum sem fylgdu kröfu lögreglustjóra og varða þau tvö hegningarlagabrot sem ákærði er grunaður um og enn eru í rannsókn, að ljúka megi þeim málum á allra næstu dögum en yfirheyrði lögregla nokkurn fjölda vitna fljótlega eftir að rannsókn mála hófst þann 11. og 12. mars sl.  

Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. apríl 2016 klukkan 16:00.