Hæstiréttur íslands

Mál nr. 3/2013


Lykilorð

  • Veðskuldabréf
  • Gengistrygging


                                     

Fimmtudaginn 16. maí 2013.

Nr. 3/2013.

Ívar Már Kjartansson

(Björn Þorri Viktorsson hrl.)

gegn

Dróma hf.

(Hildur S. Pétursdóttir hrl.)

Veðskuldabréf. Gengistrygging.

Aðilar deildu  um það hvort krafa samkvæmt skuldabréfi, útgefið af Í til S, sem nú var í eigu D hf., væri skuld í erlendri mynt eða íslenskum krónum og bundið við gengi japansks jens með ólögmætum hætti samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, kom fram að samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar meðal annars í málum nr. 551/2011 og 552/2011 yrði við úrlausn ágreiningsefnisins fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem lægju til grundvallar skuldbindingunni. Þegar litið væri til heitis skuldabréfsins, tilgreiningar á lánsfjárhæðinni, þeirra vaxtakjara sem tilgreindir voru í skuldabréfinu og þeirra skilmálabreytinga sem gerðar hefðu verið á skuldabréfinu, þótti verða að leggja til grundvallar að Í hefði tekið lán í erlendum gjaldmiðli. Þá yrði ráðið af dómum Hæstaréttar, sérstaklega í máli nr. 524/2011, að ekki skipti máli þótt greiðslur færu fram í íslenskum krónum þegar skýrt kæmi fram í lánssamningi að skuldin væri í erlendri mynt. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu D hf. staðfest með þeirri athugasemd að um væri að ræða viðskiptabréf sem hefði að geyma tæmandi lýsingu á þeim réttindum sem það veitti og þeim takmörkunum sem á þeim réttindum kynni að vera. Síðari breytingar, sem með skriflegum löggerningum voru gerðar á veðskuldabréfinu, hefðu því ekki áhrif á skilmála þess að um væri að ræða kröfu í japönskum jenum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. janúar 2013. Hann krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að veðskuldabréf nr. 0398-35-010166, sem út var gefið af áfrýjanda 28. febrúar 2007 til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, feli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum og sé verðtryggt þannig, að fjárhæð skuldabréfsins sé bundin við gengi japansks jens, í andstöðu við 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Til vara krefst hann þess að stefnda ,,verði gert að standa við aðalskyldu“ framangreinds skuldabréfs á þann hátt að stefndi afhendi áfrýjanda 9.636.364 japönsk jen, gegn því að áfrýjandi skili stefnda 5.243.150 íslenskum krónum, sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis greiddi fyrir skuldabréfið inn á reikning áfrýjanda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Krafa stefnda, sem áfrýjandi krefst að viðurkennt verði að sé krafa í íslenskum krónum bundin gengi erlendrar myntar og því andstæð ákvæðum 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001, er reist á veðskuldabréfi. Eins og önnur viðskiptabréf hefur það að geyma tæmandi lýsingu á réttindum sem það veitir og þeim takmörkunum, sem á þeim réttindum kunna að vera. Í hinum áfrýjaða dómi er efni veðskuldabréfsins lýst. Þar er einnig gerð grein fyrir dómi Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011 og hver atvik hafi þar einkum þýðingu við mat á því hvort um skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendri mynt sé að ræða. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að hafna beri kröfu áfrýjanda, enda hafa síðari breytingar, sem með skriflegum löggerningum voru gerðar á efni veðskuldabréfsins, ekki áhrif á þá skilmála þess að um sé að ræða kröfu í japönskum jenum.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um varakröfu áfrýjanda staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2012.

                Mál þetta, sem var dómtekið 11. september sl., var höfðað 22. febrúar 2012.

                Stefnandi er Ívar Már Kjartansson, Rauðhömrum 3, Reykjavík.

                Stefndi er Drómi hf., Lágmúla 6, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að veðskuldabréf nr. 0398-35-010166, dags. 28. febrúar 2007, útgefið af stefnanda til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, feli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum og sé verðtryggt þannig, að fjárhæð skuldabréfsins sé bundin við gengi japansks jens, í andstöðu við 13. gr., sbr. 14. gr., laga nr. 38/2001. Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að standa við aðalskyldu skuldabréfs nr. 0398-35-010166, dags. 28. febrúar 2007, útgefnu af stefnanda til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, þannig að stefndi afhendi stefnanda 9.636.364 japönsk jen gegn því að stefnandi skili stefnda til baka 5.243.150 íslenskum krónum sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis greiddi fyrir skuldabréfið inn á reikning stefnanda. Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda.

I

                Helstu málsatvik eru þau að stefnandi óskaði eftir láni hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) með lánsumsókn 12. febrúar 2007. Umsóknareyðublaðið ber yfirskriftina „Umsókn um lán í erlendri mynt“. Í reit þar sem gert er ráð fyrir viðmiðunarfjárhæð í íslenskum krónum er ritað 5.300.000 krónur og þar fyrir neðan segir að fjárhæðin sé í myntinni jen, 100%. Þá hefur stefnandi skráð íslenskan tékkareikning sinn sem skuldfærslureikning fyrir afborgunum og vöxtum. Umsóknin var samþykkt af SPRON 26. febrúar 2007. Tveimur dögum síðar, 28. febrúar, gaf stefnandi út veðskuldabréf með fyrirsögninni „Veðskuldabréf í erlendri mynt“. Kemur þar fram að stefnandi sem skuldari viðurkenni að skulda SPRON ,,eftirgreindar fjárhæðir í erlendum myntum“. Fram kemur að upphafleg lánsfjárhæð sé 9.733.701 japanskt jen. Skuldin beri breytilega LIBOR-vexti, auk 3,5% álags. LIBOR-vextirnir nemi 0,63313% á lántökudegi og séu því vextirnir samtals 4,13313%. Vextir greiddust mánaðarlega á sama tíma og afborganir af láninu og var fyrsti gjalddagi þess 1. apríl 2007. Skuldabréfið er tryggt á 2. veðrétti í fasteign stefnanda að Rauðhömrum 3 í Reykjavík.

                Fram kemur í skuldabréfinu að skuldari geti óskað breytingar á myntsamsetningu lánsins. Skuli hann þá tilkynna SPRON það með sannanlegum hætti að minnsta kosti þremur bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils. Þá segir að greiðslur verði skuldfærðar á tilgreindan reikning á gjalddaga og lántaki skuldbindi sig til að eiga næga innstæðu til ráðstöfunar greiðslu gjaldfallinnar skuldar. Í grein 2 í veðskuldabréfinu segir að gjaldfallnar fjárhæðir umreiknist ávallt í íslenskar krónur.

                Við undirritun skuldabréfsins ritaði stefnandi einnig undir yfirlýsingu sem er fylgiskjal með láni í erlendri mynt. Þar er lánið tilgreint að jafnvirði 5.300.000 krónur í myntinni „JPY (yen) 100%“. Þá segir að lántaki geri sér grein fyrir því að höfuðstóll lánsins geti hækkað umtalsvert á lánstímanum. Bæði sé um að ræða vaxtaáhættu og sveiflur á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum.

                Þann 7. mars 2007 voru 5.243.150 krónur lagðar inn á ráðstöfunarreikning stefnanda hjá SPRON, nr. 1157-26-030467, og var sá reikningur einnig skuldfærslureikningur stefnanda. Stefnandi greiddi afborganir og vexti af láninu og liggja fyrir í málinu kvittanir fyrir greiðslum hans frá 2. apríl 2007 til 1. nóvember 2011.

                Þann 21. nóvember 2008 var gerð skilmálabreyting á láninu, þannig að greiðslu afborgana var frestað í tólf mánuði. Í beiðni stefnanda um skilmálabreytinguna kemur fram að eftirstöðvar lánsins séu 13.618.421. Ekki er þess getið um hvaða mynt er að ræða. Í skilmálabreytingunni kemur fram að upphafleg lánsfjárhæð hafi verið 5.300.000 krónur í myntinni 9.733.701 japönsk jen. Þá kemur þar fram að eftirstöðvar lánsins 20. nóvember 2008 hafi verið 9.192.940 japönsk jen.

                Önnur skilmálabreyting var gerð á láninu 5. febrúar 2010. Ber hún fyrirsögnina „Breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfs með erlendu myntviðmiði – greiðslujöfnun“. Var þessi skilmálabreyting gerð í kjölfar samkomulags viðskiptaráðuneytisins, Samtaka fjármálafyrirtækja og skilanefndar SPRON um beitingu greiðslujöfnunar gengistryggðra fasteignaveðlána einstaklinga. Aðdragandi þess samkomulags voru tilmæli frá ríkisstjórn Íslands frá 15. október 2008 um að „frystar verði afborganir skuldara á myntkörfulánum“. Tilmælin voru ítrekuð með tilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu 22. október 2008 sem bera fyrirsögnina „Frysting erlendra lána“.

                Stefnandi kveðst hafa farið að forvitnast um endurútreikning skuldabréfsins hjá stefnda í kjölfar dóma Hæstaréttar í málunum nr. 603/2010 og 604/2010 og setningu laga nr. 151/2010. Hafi hann fengið þau svör að stefndi teldi að skuldabréfið væri í erlendri mynt og því bæri stefnda ekki skylda til endurútreiknings á stöðu skuldabréfsins. Þar sem höfuðstóll skuldabréfsins hafi hækkað um rúmlega 150% hafi stefnandi mikla hagsmuni af því að fá skuldabréfið endurreiknað. Honum sé því sá einn kostur nauðugur að höfða þetta mál til viðurkenningar á því að skuldbindingin samkvæmt skuldabréfinu sé í íslenskum krónum, þar sem fjárhæð þess sé bundin gengi erlends gjaldmiðils.

                Stefndi hefur á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009 tekið yfir allar eigur og önnur réttindi SPRON, þ.m.t. kröfuréttindi samkvæmt veðskuldabréfi því sem mál þetta varðar. SPRON er nú í slitameðferð samkvæmt ákvæðum XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

II

                Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að skuldabréfið sé skuldbinding í íslenskum krónum og fjárhæð þess verðtryggð miðað við gengi japansks jens. Slíkt fyrirkomulag sé í mótsögn við ákvæði 13. gr., sbr. 14. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt 14. gr. laganna sé einungis heimilt að verðtryggja skuldbindingar er varði lánsfé í íslenskum krónum við vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands reikni samkvæmt lögum sem um vísitöluna gildi. Þá sé einnig heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda sem erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæli breytingar á almennu verðlagi. Ákvæði 14. gr. laganna sé ófrávíkjanlegt.

                Deila málsaðila snúist eingöngu um það hvort lánið teljist vera skuldbinding í íslenskum krónum eða í japönskum jenum. Með dómum Hæstaréttar í málunum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010, 604/2010 og 155/2011 hafi Hæstiréttur mótað þau sjónarmið sem líta verði til þegar ákvarðað sé hvort lán skuli teljast hafa verið veitt í íslenskum krónum eða í erlendri mynt. Sjónarmiðin sem Hæstiréttur hafi lagt til grundvallar séu helst þau að lánsfjárhæð samninga og skuldabréfa hafi verið ákveðin í íslenskum krónum og beri að endurgreiða hana í sama gjaldmiðli, að lán hafi verið bundin við sölugengi Seðlabanka Íslands á tilteknum erlendum gjaldmiðlum sem bendi ótvírætt til þess að þau séu í íslenskum krónum, enda væri engin þörf á því að kveða á um gengi krónunnar ef lán væri í raun í erlendri mynt, að ekki skipti máli að staðhæfing um erlent lán komi fram í fyrirsögn lánssamninga né yfirlýsing lántaka um að skulda í erlendum gjaldmiðlum ,,jafnvirði“ tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum, að ekki skipti máli þó að fjárhæð gjaldmiðla hafi verið tilgreind síðar eða jafngildi hennar í erlendum myntum, að líta þurfi til ákvæða í lánssamningi um heimild til að breyta gjaldmiðlum, en þar komi glöggt fram að erlendir gjaldmiðlar hafi verið til viðmiðunar um höfuðstól skuldarinnar, að aðalskylda lánveitanda hafi verið efnd með greiðslu fjárhæðarinnar í íslenskum krónum inn á íslenskan tékkareikning lántaka í samræmi við útborgunarbeiðni, að aðalskylda lántaka hafi verið efnd með greiðslu vaxta og höfuðstóls með skuldfærslu íslensks tékkareiknings lántaka hjá lánveitanda til greiðslu vaxta og höfuðstóls og því hafi báðir samningsaðilar efnt meginskyldur sínar samkvæmt samningnum með greiðslum í íslenskum krónum.

                Stefnandi telji að skuldbinding samkvæmt skuldabréfinu sé í íslenskum krónum þar sem skuldbindingin sé verðtryggð miðað við gengi japanska jensins og því eigi að endurreikna lánið í samræmi við 18. gr. laga nr. 38/2001. Stefnandi telji það engu máli skipta þótt fjárhæð skuldabréfsins sé tilgreind í erlendri mynt í skuldabréfinu sjálfu, heldur sé þar einungis um að ræða hina raunverulegu tímasetningu á verðtryggingu miðað við gengi japansks jens. Í stað þess að fjárhæð jensins hafi verið ákveðin við útborgunardag, líkt og í þeim samningum sem framangreind mál fjalli um, hafi fjárhæð í japönskum jenum verið ákvörðuð við gerð skuldabréfsins. Stefnandi hafi óskað eftir láni að fjárhæð 5.300.000 krónur með lánsumsókn til fyrirrennara stefnda, SPRON. Umsókn stefnanda hafi verið samþykkt og sé sérstaklega tekið fram að um sé að ræða lán að fjárhæð 5.300.000 krónur. Þeirri fjárhæð hafi einungis verið breytt í 9.733.701 japanskt jen í skuldabréfinu sjálfu og hafi gengistryggingin þá þegar tekið gildi, í stað þess að miðast við útborgunardag lánsins líkt og í þeim tilfellum þar sem höfuðstóllinn hafi verið tilgreindur í íslenskum krónum, gengistryggður í ákveðnum prósentuhlutföllum við gengi erlendra mynta. Í skuldabréfinu komi sérstaklega fram ,,Kaupgengi SPRON“ 26. febrúar 2007 þegar skuldabréfið hafi verið útbúið af sparisjóðnum. Ljóst sé að kaupgengið hafi ekkert vægi sé um að ræða raunverulegt lán í japönskum jenum. Hér sé því einungis verið að skýra gengistrygginguna, þ.e. að fjárhæð skuldabréfsins í japönskum jenum samsvari þeim 5.300.000 krónum sem stefnandi hafi óskað eftir að fá að láni. Þá hafi stefnandi getað óskað eftir breytingu á myntsamsetningu lánsins, en það kunni að hljóma undarlega ef um væri að ræða lán í japönskum jenum.

                Það sem mestu máli skipti sé að í skuldabréfinu séu ákvæði um að fjárhæðinni verði ráðstafað inn á íslenskan krónureikning stefnanda, reikning nr. 1157-26-030467. Ekki sé tiltekið í skuldabréfinu sjálfu að SPRON muni kaupa íslenskar krónur fyrir hina erlendu fjárhæð bréfsins, sé bréfið í þeirri mynt, enda hafi aðeins verið um að ræða umritun fjármunanna í skuldabréfinu sjálfu, í þeim tilgangi að festa strax inn í það „gengistryggingarvísitölu“ þá er skyldi höfð til viðmiðunar. Stefnandi telji því að SPRON hafi borið að greiða fjárhæðina inn á jena reikning stefnanda hafi lánið verið í þeirri mynt. Sömu sjónarmið komi til skoðunar varðandi skuldfærslureikninginn, sem sé sá sami og hinn fyrrnefndi. Aðalskylda fyrirrennara stefnda sem lánveitanda hafi því verið að lána ákveðna fjármuni, skylda sem hann hafi efnt í íslenskum krónum. Aðalskylda stefnanda hafi verið að endurgreiða skuldabréfið, sem hann hafi ávallt gert í íslenskum krónum, án nokkurra mótmæla frá stefnda. Báðir samningsaðilar hafi því efnt meginskyldur sínar samkvæmt skuldabréfinu með greiðslum í íslenskum krónum. Annað geti varla komið til greina en að íslenskar krónur hafi því í raun verið lánaðar. Slík niðurstaða væri í fullkomnu samræmi við dóm Hæstaréttar í málinu nr. 155/2011.

                Stefnandi hafi sótt um lán að fjárhæð 5.300.000 krónur 12. febrúar 2007. Þrátt fyrir að umsóknin sjálf beri heitið ,,Umsókn um lán í erlendri mynt“ standi skýrum stöfum að viðmiðunarfjárhæð lánsins hafi verið 5.300.000 krónur, sem sé nákvæmlega sú fjárhæð sem stefnandi hafi fengið lánaða miðað við skuldabréfið sjálft. Lánsumsókn stefnanda hafi verið samþykkt af SPRON 26. febrúar sama ár og sé upphæð lánsins þar tilgreind 5.300.000 krónur. Í samþykkinu komi ekki fram að um sé að ræða japönsk jen, heldur einungis að álag á LIBOR skuli vera 3,5%. Umsóknin innihaldi engin japönsk jen, enda hafi báðum samningsaðilum verið ljóst frá upphafi að stefnandi væri að fá að láni 5,3 milljónir íslenskra króna. Það hafi verið sú upphæð sem stefnandi hafi óskað eftir og SPRON samþykkt.

                Stefnandi hafi verið látinn rita undir yfirlýsingu samhliða undirritun skuldabréfsins 28. febrúar 2007. Í yfirlýsingunni segi: „Vegna láns í erlendri mynt, útgefnu dags. 27.02.2007 af Ívari Má Kjartanssyni kt. 120467-3019, að jafnvirði IKR 5.300.000 – samkvæmt neðangreindri mynt: JPY (yen) 100%.“ Stefnandi byggi á því að í yfirlýsingunni komi skýrt fram að lánið hafi verið í íslenskum krónum, svokallað jafnvirðislán, en Hæstiréttur hafi þegar fjallað um þetta orðalag í dómum sínum í málum nr. 603/2010 og 604/2010. Að auki komi fram í yfirlýsingunni að lántaka með þessum hætti sé áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum, meðal annars vegna gengisáhættu, þar sem höfuðstóll láns sem tekið sé í framangreindri mynt geti hækkað umtalsvert á lánstímanum. Yfirlýsingin standist ekki nánari skoðun sé um að ræða lán í japönskum jenum, enda sé ljóst að lánið muni þá ekki bera neina gengisáhættu, né geti höfuðstóll lánsins hækkað við slíkar gengisbreytingar. Höfuðstóllinn hljóti því að vera í íslenskum krónum, enda sé það eina leiðin til þess að um gengisáhættu geti verið að ræða eða að höfuðstóllinn geti hækkað. Höfuðstóll lánsins hljóti því að vera í íslenskum krónum. Stefnandi byggi á því að þessi yfirlýsing SPRON, í stöðluðum samningsskilmála, staðfesti í raun þann skilning sinn að höfuðstóll lánsins sé frá upphafi í íslenskum krónum og að sá skilningur hafi verið gagnkvæmur.

                Stefnandi hafi óskað eftir skilmálabreytingu vegna skuldabréfsins 17. nóvember 2008, eða skömmu eftir að gengi íslensku krónunnar hafi hrunið og afborganir og höfuðstóll skuldabréfsins tæplega þrefaldast. Í beiðninni komi fram upplýsingar um lánið sem útfylltar séu af SPRON. Segir þar meðal annars að eftirstöðvar lánsins nemi þá 13.618.421 krónu. Stefnandi hafi óskað eftir því að fresta greiðslum afborgana í tólf mánuði. SPRON hafi samþykkt umrædda skilmálabreytingu. Þann 17. nóvember 2008 hafi stefnandi ritað undir skilmálabreytinguna. Aftur hafi verið um að ræða staðlað blað frá SPRON þar sem upplýsingar um skuldabréfið hafi komið fram. Þar segi meðal annars að lánið hafi verið ,,upphaflega að fjárhæð ISK 5.300.000 í eftirtöldum myntum: JPY 9.733.701“.

                Önnur skilmálabreyting hafi verið gerð 5. febrúar 2010. Hún hafi verið vegna svokallaðrar greiðslujöfnunar. Á skjalinu sjálfu, sem útbúið hafi verið af Nýja Kaupþingi banka (Arion banka) fyrir hönd stefnda segi: ,,Breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfs með erlendu myntviðmiði – greiðslujöfnun.“ Þar sé fjallað um að breytingin sé gerð með vísan til samkomulags Viðskiptaráðuneytisins, Samtaka fjármálafyrirtækja og skilanefndar SPRON fyrir hönd SPRON frá 8. apríl 2009 um beitingu greiðslujöfnunar ,,gengistryggðra fasteignaveðlána“ einstaklinga. Komi þar fram að fjárhæð lánsins sé umreiknuð í íslenskar krónur miðað við sölugengi mynta þann dag. Í samkomulagi Viðskiptaráðuneytisins, samtaka fjármálayfirtækja og skilanefndar SPRON sé margoft tekið fram að um sé að ræða greiðslujöfnunarúrræði fyrir þá aðila sem fengið hafi „gengistryggð“ fasteignaveðlán. Stefnandi telji að hér hafi stefndi í raun viðurkennt, meðal annars með umræddu samkomulagi og yfirlýsingunni, að um væri að ræða skuldabréf með erlendu myntviðmiði eða gengistryggt fasteignaveðlán. Hafi ekki verið um slíkt skuldabréf að ræða hefði stefnanda aldrei boðist umrædd skilmálabreyting. Það hafi hins vegar ekki verið fyrr en eftir að dómar Hæstaréttar í framangreindum gengislánamálum hafi fallið að stefndi hafi breytt afstöðu sinni varðandi skuldabréfið, að það væri ekki gengistryggt, enda hafi stefnda virst í mun að hámarka eignir félagsins fyrir kröfuhafa SPRON, burt sé frá lögmætum sjónarmiðum stefnanda.

                Öll framangreind skjöl, sem hafi verið samin einhliða af SPRON, bendi til þess að SPRON sjálft hafi litið svo á að fjárhæðin væri í íslenskum krónum. Sé sérstaklega tiltekið að skuldabréfið hafi upphaflega verið að fjárhæð 5.300.000 krónur og einnig að eftirstöðvar lánsins við skilmálabreytinguna hafi numið 13.618.421 krónu. Stefnandi hafi litið svo á að hann hefði tekið að láni íslenskar krónur. Hann ítreki að hann byggi á því að hin svokallaða gengistrygging skuldabréfsins sé algerlega sambærileg við gengistryggingar í þeim skuldaskjölum sem Hæstiréttur hafi nú þegar dæmt um. Örlítill blæbrigðamunur eigi sér stað í skjalagerð, þannig að upphæðin sem óskað hafi verið eftir sé sett inn í skuldabréfið í japönskum jenum við samningu skuldabréfsins. Gengistryggingin byrji að telja á þeim tímapunkti, en ekki við útborgunardag eins og í hinum svokölluð jafnvirðislánasamningum. Þetta leiði því einungis til þess að lántaki fái annaðhvort hærri eða lægri fjárhæð greidda inn á reikning sinn. Öll skjöl bendi til þess að hann hafi óskað eftir, fengið samþykkt, undirritað yfirlýsingu og gert skilmálabreytingar vegna láns sem hafi upphaflega verið að fjárhæð 5.300.000 krónur. Þá hafi stefnandi fengið greiddar út íslenskar krónur og greitt afborganir og vexti í íslenskum krónum. Hafi því verið um að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum þar sem fjárhæð skuldbindingarinnar hafi verið bundin við gengi erlendra gjaldmiðla. Erlend mynt hafi aldrei skipt um hendur í réttarsambandi aðila.

                Stefnandi leggi áherslu á meginreglu samningaréttar um að líta skuli til efnis samninga en ekki einungis til heitis þeirra. Þannig verði að skoða skuldabréfið í heild sinni, aðdraganda þess og hvernig hin raunverulega lánveiting hafi átt sér stað, sem og endurgreiðsla lánveitingarinnar. Þannig nægi ekki að líta til einstakra liða eins og að fjárhæð hinna umræddu mynta komi fram í skuldabréfinu. Það sem skipti hvað mestu máli sé að fjárhæð skuldabréfsins hafi verið greidd út í íslenskum krónum og sé greidd til baka í íslenskum krónum. Þannig hafi báðir samningsaðilar fullnægt aðalskyldu sinni með greiðslum í íslenskum krónum. Að auki bendi viðaukar skuldabréfsins til þess að litið sé á lánið sem það sé í íslenskum krónum.

                Stefnandi telji að skuldabréfið sé skuldbinding í íslenskum krónum þar sem greiðslur hafi ávallt farið fram í íslenskum krónum. Slíkt sé í fullkomnu samræmi við vilja löggjafans. Í 13. gr. laga nr. 38/2001 segi að ákvæði VI. kafla laganna gildi um skuldbindingar sem varði sparifé og lánsfé í íslenskum krónum. Í frumvarpi því er hafi orðið að lögum nr. 38/2001 segi: „Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður.“ Þá segi einnig: „Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.“

                Af framangreindu megi ráða að löggjafinn hafi sérstaklega tekið fram að undir VI. kafla laga nr. 38/2001 falli ekki einungis skuldir sem skráðar séu í íslenskum krónum heldur líka skuldbindingar í íslenskum krónum með víðtækari hætti. Sérstaklega hafi þótt þurfa að taka fram að taka skuli af allan vafa þar að lútandi. Lánveiting SPRON til stefnanda hafi að hans mati að öllu leyti verið skuldbinding í íslenskum krónum. Sótt hafi verið um lán í íslenskum krónum, útborgun lánsins hafi verið í íslenskum krónum og afborganir hafi farið fram í íslenskum krónum. Það eina sem frábrugðið sé þeim samningi sem dæmdur hafi verið ólögmætur með dómi Hæstaréttar í málunum nr. 155/2011, 603/2010 og 604/2010 sé að fjárhæð skuldabréfsins sé tilgreind í erlendri mynt. Ágreiningur þessa máls snúist því fyrst og fremst um það hvort lánveitingin hafi verið skuldbinding í íslenskum krónum eða ekki.

                Tilgangur 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/2001 hafi verið sá að fella niður heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og að tekinn yrði af allur vafi þar að lútandi. Vilji löggjafans hafi verið ótvíræður og skýr. Stefnandi telji að ekki sé hægt að semja sig frá lögunum, sem taka hafi átt af allan vafa, með þeim einfalda hætti að snúa hlutunum við með því að umrita í skuldabréfi skuld úr krónum í erlenda mynt, sem hafi síðan verið greidd út í íslenskum krónum og taka jafnframt við greiðslum í íslenskum krónum. Að halda því fram að slík skuld sé lán í erlendri mynt fái ekki staðist. Verði litið á slíka útfærslu á lánveitingu sem skuldbindingu í erlendri mynt sé ljóst að hinn ótvíræði vilji löggjafans um að banna skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla sé með öllu merkingarlaus og tilviljun ein ráði því hvort um lögmætt eða ólögmætt lán sé að ræða, allt eftir því hvernig lánveitandi hafi hagað orðalagi og uppsetningu skuldabréfa. Lánveiting SPRON hafi verið veitt til viðskipta stefnanda þar sem undirliggjandi verðmæti hafi verið í íslenskum krónum og greiðsla hafi farið fram í íslenskum krónum, þrátt fyrir að erlend lánsfjárhæð væri tilgreind í texta samningsins, enda hafi stefnandi talið að gengistryggingin hafi farið fram við samningu skuldabréfsins og hafi verið samþykkt við undirritun þess.

                Þá byggi stefnandi á andskýringarreglu samningaréttar sem sé meginregla við skýringu og túlkun staðlaðra samninga. Í reglunni felist að komi upp vafi við túlkun eða skýringu staðlaðs samnings beri að skýra slíka samninga þeim í óhag sem samið hafi hina einhliða skilmála. Óumdeilt sé að umrætt skuldabréf hafi verið einhliða samið af stefnda.

                Verði aðalkröfu stefnanda hafnað og komist að þeirri niðurstöðu að skuldabréfið sé í erlendri mynt krefjist stefnandi þess til vara að stefndi standi við kaupin á skuldabréfinu samkvæmt aðalefni þess. Stefnandi telji að þá beri stefndi þá skyldu að afhenda stefnanda 9.636.364 japönsk jen inn á reikning í hans eigu gegn því að stefnandi afhendi stefnda 5.243.150 krónur, en það sé sú fjárhæð sem lögð hafi verið inn á reikning stefnanda 7. mars 2007. Fjárhæðin 9.636.364 japönsk jen sé sú fjárhæð sem fram komi á skuldabréfinu; 9.733.701 jen að frádregnum 1% lántökukostnaði eins og skuldabréfið kveði á um.

                Varakrafan byggist á meginreglu samningaréttar um að samninga skuli halda. Í skuldabréfinu sé skýrt kveðið á um að lántaki viðurkenni að skulda SPRON 9.733.701 japanskt jen, en stefndi hafi átt að fá greiðslu inn á reikning sinn 9.636.364 jen þegar búið hafi verið að draga lántökukostnað frá. Ljóst sé að SPRON hafi ekki getað bæði haldið og sleppt í þessum efnum og lánað og greitt inn á reikning stefnanda íslenskar krónur og talið að lánið væri í erlendum myntum, enda hafi stefnandi enga heimild eða möguleika haft til að selja umrædda mynt í íslenskar krónur, þar sem hann hafi aldrei fengið hana afhenta. Sé fallist á skýringar stefnda um að lánið hafi verið í erlendri mynt hafi SPRON borið samkvæmt skuldabréfinu að lána og greiða lánið út í hinni erlendu mynt. Stefnandi muni þá, um leið og sú greiðsla sé innt af hendi, endurgreiða stefnda þá fjárhæð sem lögð hafi verið inn á reikning hans 7. mars 2007 í íslenskum krónum. Þá sé aðalskylda lánveitanda loks uppfyllt samkvæmt samningnum.

                Stefnandi leggi áherslu á að þrátt fyrir að fallist sé á varakröfu stefnanda þýði það ekki að skuldabréfið sé sett í uppnám við þá viðurkenningu, þvert á móti sé skuldabréfið ,,rétt“ samkvæmt orðum sínum. Hér sé eingöngu gerð sú krafa að aðalskylda stefnda sé uppfyllt samkvæmt skuldabréfinu. Engu breyti hvort gengi japanska jensins hafi hækkað eða lækkað á lánstímanum, enda sé ljóst að þar sem stefndi líti svo á að hann sé einungis að lána erlenda mynt skipti verðmæti þeirra mynta gagnvart hinni íslensku krónu engu máli.

                Að lokum krefjist stefnandi greiðslu málskostnaðar sér að skaðlausu, en sú krafa styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Að öðru leyti sé vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, meginreglna samninga- og kröfuréttar og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að veðskuldabréfið sé í erlendri mynt. Hann kveðst styðja þá ályktun fyrst og fremst við efni og orðalag veðskuldabréfsins sem skuldbindingin sé reist á, lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og lögskýringargögn með þeim og síðast en ekki síst dómafordæmi Hæstaréttar í sambærilegum málum.

                Stefndi telji lánsumsóknina, orðalag hennar og efni, sýna glöggt að vilji og ætlun stefnanda hafi staðið til þess að taka erlent lán. Hvergi í veðskuldabréfinu komi fram að skuldin sé í íslenskum krónum eða að hún sé gengistryggð. Orðin „gengistrygging“, „verðtrygging“ eða önnur í þeim dúr sé hvergi að finna í skilmálum skuldabréfsins. Þá sé engin gengistryggingar- eða verðtryggingargrunnur í skilmálum bréfsins sem hljóti að teljast meginforsenda þess að skuld verði talin gengis- eða verðtryggð. Eina tilgreining lánsfjárhæðarinnar í veðskuldabréfinu sé í japönskum jenum. Málatilbúnaður stefnanda sem byggi á því að skuldabréfið sé gengis- eða verðtryggt fái því ekki stoð í skuldabréfinu sjálfu.

                Í veðskuldabréfinu sé hvort tveggja getið ráðstöfunarreiknings og skuldfærslureiknings, en í báðum tilvikum sé um að ræða tékkareikning stefnanda hjá stefnda í íslenskum krónum. Stefnandi hafi valið framangreinda reikninga, en ekki stefndi. Stefnanda hafi verið frjálst, eins og öðrum lántökum hjá stefnda, að hafa ráðstöfunar- og/eða skuldafærslureikninginn hvort sem var í japönskum jenum eða íslenskum krónum eða eftir atvikum í annarri mynt. Í samræmi við skilmála skuldabréfsins um greiðslu andvirðis skuldabréfsins inn á tékkareikning stefnanda hafi andvirðið verið greitt inn á ráðstöfunarreikninginn 7. mars 2007. Með vísan til framangreinds sé því alfarið hafnað sem segi í stefnu málsins að stefnda hafi borið að greiða lánsfjárhæðina „inn á jena reikning stefnanda“ enda hafi þess ekki verið óskað af hálfu stefnanda á neinum tímapunkti. Ósannað sé að stefnandi hafi átt reikning í japönskum jenum. Þá hafi stefnandi aldrei gert athugasemdir við útgreiðslu lánsins fyrr en í stefnu málsins, sem staðfesti málatilbúnað stefnda að þessu leyti, enda hafi stefnandi sýnt af sér verulegt tómlæti í þessum efnum.

                Í samræmi við beiðni stefnanda um að tékkareikningur hans yrði skuldfærður fyrir greiðslu afborgana og vaxta hafi stefnandi í kjölfar hverrar mánaðarlegrar afborgunar fengið senda greiðslukvittun. Stefndi telji efni kvittananna skýrt um að lánið sé í erlendri mynt.

                Í skilmálabreytingu í nóvember 2008 sé ekki frekar en í veðskuldabréfinu getið gengis- eða verðtryggingar. Önnur skilmálabreyting hafi verið gerð í febrúar 2010 í kjölfar samkomulags viðskiptaráðuneytisins, Samtaka fjármálafyrirtækja og skilanefndar SPRON um beitingu greiðslujöfnunar gengistryggðra fasteignaveðlána einstaklinga. Aðdragandi þess samkomulags hafi verið tilmæli frá ríkisstjórn Íslands um að „frystar verði afborganir skuldara á myntkörfulánum“. Tilmælin hafi verið ítrekuð með tilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu 22. október 2008 sem beri fyrirsögnina „Frysting erlendra lána“. Stefndi vilji árétta að á þessum tíma hafi gengi japansks jens gagnvart gengi íslenskrar krónu hækkað úr 0,5786 frá ársbyrjun í 1,1902 þann 22. október 2008, eða ríflega tvöfaldast. Gengi annarra gjaldmiðla hafi einnig hækkað mikið. Greiðslubyrði þeirra sem hafi haft tekjur í íslenskum krónum og verið með erlend lán eða lán sem síðar hafi komið í ljós að hafi verið gengistryggð hafi því þyngst verulega. Af þeirri ástæðu hafi tilmæli ríkisstjórnarinnar verið sett fram og framangreint samkomulag gert. Tilgangur samkomulagsins hafi verið að greiðslubyrði bæði gengistryggðra og erlendra lána yrði miðuð við maí 2008 og skyldi sú fjárhæð í íslenskum krónum breytast til hækkunar eða lækkunar eftir vísitölu greiðslumarks sem nánar sé skilgreind í lögum nr. 63/1985. Stefndi hafni því alfarið að með þessari skilmálabreytingu hafi lánið „breyst“ í íslenskt lán, heldur hafi einfaldlega verið samið um breytingu á afborgunarskilmálum lánsins vegna efnahags- og gjaldeyrishrunsins.

                Í stefnu sé ítarleg grein gerð fyrir því sem nefnt sé „fylgiskjöl skuldabréfsins“ sem stefnandi telji vera lánsumsókn og yfirlýsingu. Stefndi mótmæli því að lánsumsóknin og yfirlýsingin séu fylgiskjöl skuldabréfsins sem geti að einhverju leyti skoðast sem hluti þess og vísist til almennra reglna um viðskiptabréf því til stuðnings.

                Stefndi bendi á að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu 16. júní 2010 í málunum nr. 92/2010 og nr. 153/2010 að lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla, þar sem slíkt sé í andstöðu við 13. gr. og 14. gr., sbr. 2. gr. laganna. Hæstiréttur hafi komist að sömu niðurstöðu í dómum frá 14. febrúar 2011 í málunum nr. 603/2010 og 604/2010, dómum frá 8. mars 2011 í málunum nr. 30/2011 og 31/2011 og dómi frá 9. júní 2011 í málinu nr. 155/2011. Framangreindir dómar séu ekki fordæmisgefandi fyrir úrlausn þessa máls. Þau skuldaskjöl sem fjallað hafi verið um í málum þessum séu í veigamiklum atriðum ólík veðskuldabréfi því sem um sé deilt í máli þessu, öðrum gögnum og atvikum þessa máls. Í öllum framangreindum málum sé tilgreining lánsfjárhæðar í skuldaskjölum í íslenskum krónum en ekki erlendri mynt. Þar sé lánsfjárhæðin í flestum tilvikum sögð „jafnvirði“ erlendra mynta í tilteknum prósentuhlutföllum. Í engu framangreindra mála hafi lánsfjárhæðin verið tilgreind eða ákveðin í erlendri mynt eins og í máli þessu. Hæstiréttur hafi þegar komist að þeirri niðurstöðu að við mat á því hvort um skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendri mynt sé að ræða skipti tilgreining lánsfjárhæðar mestu um efni þeirra, sbr. dóma Hæstaréttar í málunum nr. 520/2011, 551/2011 og 552/2011. Af þessum dómum leiði að mati stefnda að lán stefnanda sé í japönskum jenum.

                Um frekari rökstuðning vísist til þess að í forsendum úrskurða héraðsdóms, sem Hæstiréttur hafi staðfest í málunum nr. 30/2011 og 31/2011, sé það liður í rökstuðningi að „fjárhæð hinna erlendu gjaldmiðla [komi] hvergi fram í samningi aðila“ og að bankanum hefði „verið í lófa lagið að tilgreina fjárhæðir“ hinna erlendu mynta. Þá sé það liður í forsendum í máli nr. 155/2011 að í samningum aðila sé „hvergi getið um fjárhæð skuldarinnar í hinum erlendu gjaldmiðlum“. Stefndi telji að í dómunum felist að sé fjárhæð hinna erlendu mynta tilgreind í samningi aðila með nákvæmum hætti, eins og í samningi aðila þessa máls, sé um erlent lán að ræða.

                Framangreint styðjist jafnframt við orðalag 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu þar sem fjallað sé um heimildir til að verðtryggja „skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum“. Augljóst sé að forsenda þess að skuldbinding verði talin verðtryggð, þ.e. höfuðstóll skuldbindingar, sé að hún sé samkvæmt orðlagi ákvæðisins ákveðin og tilgreind í íslenskum krónum, enda falli skuldbindingar í erlendri mynt ekki undir VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í málinu nr. 471/2010.

                Stefndi vísi jafnframt til þess að í íslenskum lögum sé gert ráð fyrir lánveitingum í erlendri mynt. Til dæmis megi vísa til 2. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Með hliðsjón af ákvæðinu sé skuldar stefnanda við stefnda eingöngu getið í japönskum jenum á veðbandayfirliti vegna Rauðhamra 3.

                Í dómum Hæstaréttar í málunum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010 og 604/2010 segi í öllum tilvikum í skuldaskjölum að samningar séu gengistryggðir og sé grunns gengistryggingar getið. Í skuldaskjali aðila þessa máls sé ekki getið um gengistryggingu eða annars konar verðtryggingu. Af hálfu stefnda sé á því byggt að samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar verði skuldbinding ekki talin gengistryggð nema gengistryggingar sé getið í skuldaskjali.

                Stefndi hafni því alfarið að inntak og eðli skuldbindingarinnar geti ráðist af því í hvaða mynt lánsfjárhæðin hafi verið greidd stefnanda eða í hvaða mynt stefnandi hafi greitt afborganir auk vaxta, enda hafi engin skilyrði verið sett af hálfu stefnda í þeim efnum. Stefnanda hafi verið frjálst að velja skuldfærslu- og ráðstöfunarreikning að eigin vali. Með öðrum orðum hafi stefnanda verið valkvætt í hvaða mynt „aðalskyldur“ aðila væru samkvæmt samningnum. SPRON, sem hafi veitt lánið, hafi getað greitt stefnanda hvort sem var japönsk jen eða íslenskar krónur. Stefnandi hafi óskað eftir því að lánsfjárhæðin yrði greidd honum í íslenskum krónum og þannig hafi verið samið. Það sé alkunna að tékkareikningar, sem í bönkum og sparisjóðum beri höfuðbókarnúmerið 26, séu í íslenskum krónum. Þá vísi stefndi einnig til þess að í febrúar 2007, þegar lánið hafi verið veitt, hafi ríkt hér á landi frelsi í gjaldeyrismálum. Stefnandi hafi því getað skipt lánsfjárhæðinni milli gjaldmiðla að vild með kaupum og sölu á gjaldeyrismarkaði, hvort sem var hjá SPRON eða öðrum aðilum sem hafi sýslað með gjaldeyri.

                Stefndi vísi einnig til þess að umrætt veðskuldabréf sé viðskiptabréf. Samkvæmt þeim meginreglum sem gildi um viðskiptabréf sé veðskuldabréfið þess efnis sem það hljóði um. Framsalshafi megi almennt leggja til grundvallar að viðskiptabréfskrafa sé þess efnis sem viðskiptabréfið beri með sér. Skuldabréf stefnanda beri að skoða með hliðsjón af þessari meginreglu viðskiptabréfsreglna. Að mati stefnda kveði það augljóslega ekki á um skuldbindingu í íslenskum krónum.

                Samkvæmt viðskiptabréfsreglum missi skuldari viðskiptabréfs almennt rétt til að bera fyrir sig mótbárur gagnvart grandlausum framsalshafa sem hann hafi getað beitt gegn framseljanda ef ekki verði séð af bréfinu að þær mótbárur séu til. Stefnandi, sem skuldari bréfsins, geti ekki komið að þeim mótbárum gagnvart stefnda, sem framsalshafa í máli þessu, að veðskuldabréfið hljóði á um skuldbindingu í íslenskum krónum þvert gegn orðalagi bréfsins, enda tapi skuldari rétti til að hafa uppi slíkar mótbárur við framsalshafa bréfsins. Það að auki leiði sjónarmið um tómlæti til sömu niðurstöðu.

                Af skjölum málsins sé ljóst að enginn vafi leiki á því að vilji aðila hafi við samningsgerðina staðið til þess að semja um lán í erlendri mynt. Við skýringu og túlkun á samningi aðila, auk annarra gagna málsins, beri að hafa í huga meginreglu íslensks réttar um frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningum við aðra þannig að samningar teljist gildir nema sýnt sé fram á að þeir fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum.

                Stefnanda hafi ekki getað annað en verið ljóst hvert efni og inntak samninganna hafi verið, þ.e. að skuldbinding hans væri í erlendri mynt, í samræmi við orðalag og fyrirsagnir þeirra skjala sem áður hafi verið rakin, þ.m.t. lánsumsókn, veðskuldabréf, kaupnótu, greiðslukvittanir, veðbandayfirlit og yfirlýsingu.

                Verði framangreindum málsástæðum og lagarökum stefnda hafnað byggi stefndi til vara á því að gengistrygging skuldabréfa sem njóti samningsveðréttar í fasteign hér á landi sé heimil að lögum. Í þessu sambandi vísi stefndi til þess að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð sé heimilt „í veðbréfi að binda fjárhæðir við hækkun samkvæmt vísitölu eða gengi, enda sé það tilgreint í bréfinu sjálfu og þar komi fram tegund og grunntala verðtryggingar“. Lögin gangi framar lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtrygging á grundvelli almennra lögskýringarreglna um að sérreglur gangi framar almennum reglum. Skuldabréf það sem mál þetta snúi að uppfylli framangreind skilyrði. Að sama skapi skuli bent á 3. mgr. 50. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sem fjalli um úthlutun söluverðs, en þar segi að þegar ákveðið sé í frumvarpi hvað greiðist af einstökum kröfum skuli miðað við að vextir, verðbætur og gengistrygging reiknist af þeim til þess dags sem uppboði á eigninni hafi lokið. Með vísan til framangreindra málsástæðna, sem hér sé haldið fram til vara, sé þess einnig krafist að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda í málinu.

                Stefndi vísi til alls þess sem að framan greini til stuðnings sýknukröfu vegna varakröfu stefnanda, allt eftir því sem við eigi. Fyrst og fremst sé vísað til þess að lánsfjárhæðin hafi verið greidd út í íslenskum krónum samkvæmt samkomulagi aðila. Aðalskylda SPRON samkvæmt skuldabréfi aðila hafi verið að greiða lánsfjárhæðina inn á tékkareikning í íslenskum krónum, ráðstöfunarreikning, og þá skyldu hafi SPRON efnt. Stefnda verði ekki gert að efna þessa skyldu öðru sinni og annars efnis en samningur aðila gefi skýrlega til kynna. Stefnanda hefði verið í lófa lagið að óska eftir útgreiðslu fjárins í japönskum jenum.

                Í öðru lagi sé því hafnað að „aðalskylda“ SPRON hafi verið að greiða lánsfjárhæðina út í japönskum jenum. Sú meinta „aðalskylda“ eigi sér hvorki stoð í samningi aðila né lögum.

                Í þriðja lagi fái kröfugerðin sem slík ekki staðist þar sem stefnandi hafi fengið lánsfjárhæðina greidda 7. mars 2007. Stefnandi geti ekki haft uppi kröfu um að skila lánsfjárhæðinni í íslenskum krónum gegn því að fá japönsk jen, enda eigi sú kröfugerð sér enga stoð í samningi aðila eða lögum. Þá fái kröfugerðin engan veginn staðist almennar reglur um skýrleika krafna, enda sé ekkert tillit tekið til þeirra afborgana sem greiddar hafi verið af skuldinni eða núverandi stöðu skuldarinnar.

                Í fjórða lagi sé á því byggt að stefnandi hafi tapað meintum rétti sínum vegna tómlætis. Lánið hafi verið greitt út fyrir fimm árum og stefnandi hafi engar athugasemdir gert við útgreiðsluna fyrr en með málsókn þessari.

                Í fimmta lagi sé uppi ómöguleiki til að verða við kröfunni. Stefndi í máli þessu sé í dag ekki eigandi japanskra jena. Honum sé óheimilt að kaupa gjaldeyri nema að uppfylltum skilyrðum reglna nr. 370/2010 um gjaldeyrismál. Þau skilyrði sem reglugerðin setji eigi ekki við í máli þessu, sbr. einnig lög nr. 87/1992 um gjaldeyrismál.

                Í sjötta lagi telji stefndi að hafna beri varakröfu stefnanda á grundvelli sjónarmiða um óréttmæta auðgun. Ef stefnandi fengi afhent 9.636.364 japönsk jen gegn því að greiða stefnda 5.234.150 krónur væri stefnanda skylt samkvæmt 12. gr. reglna nr. 370/2010 um gjaldeyrismál að skila jenunum. Skráð kaupgengi japansks jens hjá Seðlabanka Íslands, þegar greinargerð stefnda hafi verið rituð, hafi verið 1,548. Því fengi stefnandi greiddar 14.917.091 krónu fyrir jenin. Óréttmæt auðgun stefnanda yrði þá mismunur þess og þeirrar fjárhæðar sem hann krefjist „að skila stefnda til baka“ eða 9.673.941 króna (14.917.091 - 5.234.150).

                Stefndi vísi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 13. og 14. gr. Einnig sé vísað til laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og reglna nr. 370/2010 um sama efni. Vísað sé til meginreglna kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga. Þá sé vísað til meginreglna samningaréttar um samningsfrelsi, sem og túlkunarreglna samningaréttarins og viljakenningarinnar. Jafnframt sé vísað til laga nr. 75/1997 um samningsveð og laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Málskostnaðarkrafa styðjist við 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                                                                                              IV

                Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort veðskuldabréf útgefið 28. febrúar 2007 af stefnanda til SPRON sé um skuld í erlendri mynt eða íslenskum krónum sem bundnar séu gengi erlends gjaldmiðils með ólögmætum hætti samkvæmt 13. gr., sbr. 14. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Er aðalkrafa stefnanda sú að viðurkennt verði að veðskuldabréfið feli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum og sé verðtryggt þannig að fjárhæð bréfsins sé bundin við gengi japansks jens, í andstöðu við framangreind lagaákvæði. Stefndi telur hins vegar veðskuldabréfið vera í erlendri mynt.

                Um heimildir til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár er fjallað í 14. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum við vísitölu neysluverðs, sem Hagstofa Íslands reiknar, eða hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi. Ekki er heimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum á þann hátt að það sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla eða á annan hátt en þann sem sérstaklega er heimilaður í lögunum, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010, 604/2010, 30/2011, 31/2011 og 155/2011. Lán í erlendri mynt falla hins vegar ekki undir reglur um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum.

                Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar, meðal annars dómum í málunum nr. 551/2011 og 552/2011, verður við úrlausn framangreinds ágreiningsefnis fyrst og fremst litið til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skipti einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin sé tilgreind í þeim gerningum. Í dómi Hæstaréttar frá 7. júní sl. í málinu nr. 524/2011 segir að við úrlausn þess hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum sé fyrst að líta til heitis skuldabréfsins sem deilt sé um í málinu. Í öðru lagi verði litið til tilgreiningar á lánsfjárhæðinni. Í þriðja lagi verði litið til þess að vaxtakjör séu í samræmi við það að um erlent lán sé að ræða. Þá verði litið til skilmálabreytingar skuldabréfsins.

                Skuldabréf það sem liggur til grundvallar lögskiptum aðila í máli þessu ber yfirskriftina „Veðskuldabréf í erlendri mynt“. Upphafleg lánsfjárhæð í bréfinu er tilgreind í japönskum jenum, en ekki er getið jafnvirðis í íslenskri mynt. Þá eru vextir tilgreindir sem LIBOR-vextir 0,63313% og álag 3,5%. Þykja þessi atriði benda til þess að hér sé um að ræða skuldbindingu í erlendri mynt, en ekki íslenskum krónum.

                Við munnlegan flutning málsins byggði stefnandi meðal annars á því að samkvæmt ákvæði greinar 2 í veðskuldabréfinu hafi honum verið skylt að inna greiðslur af hendi í íslenskum krónum og verði því að líta svo á að skuldbinding hans hafi verið um íslenskar krónur. Stefndi andmælti því ekki að þessi málsástæða kæmist að, en mótmælti henni sem rangri. Ekki þykir unnt að fallast á þessa röksemd stefnanda, enda er þetta ákvæði, sem gerir ráð fyrir því að gjaldfallnar fjárhæðir umreiknist ávallt í íslenskar krónur, til samræmis við ákvæði veðskuldabréfsins um skuldfærslu af íslenskum tékkareikningi hans, svo sem hann hafði óskað eftir í lánsumsókn sinni.

                Skilmálum veðskuldabréfsins var breytt tvisvar sinnum. Fyrri skilmálabreytingin var gerð 21. nóvember 2008. Í skilmálabreytingunni, sem ber yfirskriftina „Breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfs nr. 903“ kemur fram að upphafleg fjárhæð skuldabréfsins hafi verið 5.300.000 krónur „í eftirtöldum myntum JPY 9.733.701“. Þá eru eftirstöðvar lánsins tilgreindar í japönskum jenum, en jafnvirðis í íslenskri mynt ekki getið, þótt það komi fram í beiðni stefnanda um skilmálabreytingu. Síðari skilmálabreytingin er dagsett 5. febrúar 2010 og ber yfirskriftina „Breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfs með erlendu myntviðmiði – greiðslujöfnun“. Í skjalinu er upphaflegrar fjárhæðar getið sem „-5.455.390“. Skilmálabreyting þessi var eins og fyrr greinir gerð í kjölfar samkomulags viðskiptaráðuneytisins, Samtaka fjármálafyrirtækja og skilanefndar SPRON um beitingu greiðslujöfnunar gengistryggðra fasteignaveðlána einstaklinga. Virðist sem þetta úrræði hafi staðið viðskiptavinum lánastofnana til boða hvort heldur sem þeir höfðu gengistryggt lán eða lán í erlendri mynt og var því ætlað að létta greiðslubyrði vegna þeirra. Þykja skilmálabreytingarnar ekki benda til þess að talið hafi verið um að ræða lán í íslenskum krónum. Þá geta önnur gögn, svo sem lánsumsókn eða yfirlýsing um gengisáhættu, ekki leitt til annarrar niðurstöðu.

                Með vísan til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 520/2011, 551/2011, 522/2011 og 50/2012 eru niðurstöður í málunum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010, 604/2010 og 155/2011 ekki fordæmi fyrir ólögmæti skuldbindingar þeirrar sem fjallað er um í þessu máli, en þar voru aðstæður með þeim hætti að skuldbindingin var ekki tilgreind í erlendum gjaldmiðlum.

                Stefnandi byggir á því að greiðsla SPRON til hans í íslenskum krónum og afborganir hans í íslenskum krónum leiði til þess að telja verði að um hafi verið að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum. Af dómum Hæstaréttar, sérstaklega dómi í málinu nr. 524/2011, verður hins vegar ályktað að ekki skipti máli þótt greiðslur fari fram í íslenskum krónum þegar skýrt kemur fram í lánssamningi að skuldin sé í erlendri mynt.

                Þegar litið er til allra framangreindra atriða og dómaframkvæmdar Hæstaréttar þykir verða að leggja til grundvallar að stefnandi hafi tekið gilt lán í erlendum gjaldmiðli. Verður stefndi því sýknaður af aðalkröfu stefnanda.

                Varakrafa stefnanda lýtur að því að verði talið að um lán í erlendri mynt hafi verið að ræða verði stefnda gert að afhenda honum 9.636.364 japönsk jen gegn því að hann skili til baka 5.243.150 krónum sem hann hafi fengið greiddar inn á reikning sinn fyrir skuldabréfið. Stefnandi óskaði eftir því að fá lánið greitt inn á íslenskan bankareikning sinn sem tilgreindur er í skuldabréfinu. SPRON greiddi honum íslenskar krónur í samræmi við samkomulag þeirra. Stefndi hefur því efnt skuldbindingu sína samkvæmt samkomulaginu. Verður hann af þessum sökum einnig sýknaður af varakröfu stefnanda.

                Við aðalmeðferð málsins féll stefndi frá málskostnaðarkröfu sinni. Málskostnaður milli aðila fellur niður.

                Barbara Björnsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

                                                                              D Ó M S O R Ð :

                Stefndi, Drómi hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Ívars Más Kjartanssonar.

                Málskostnaður fellur niður.