Hæstiréttur íslands
Mál nr. 401/2002
Lykilorð
- Samlagsaðild
- Vátryggingarsamningur
- Slysatrygging
- Takmörkun ábyrgðar
- Skaðabætur
- Vinnuveitendaábyrgð
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 20. febrúar 2003. |
|
Nr. 401/2002. |
Jóhanna Þóra Sveinjónsdóttir(Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Ingvar Sveinbjörnsson hrl.) þrotabúi Dillon ehf. og Sturlu Jónssyni (Guðmundur Ágústsson hdl.) |
Samlagsaðild. Vátryggingarsamningur. Slysatrygging. Takmörkun ábyrgðar. Skaðabætur. Vinnuveitandaábyrgð. Gjafsókn.
J og H sátu í boði S við drykkju á veitingastaðnum D, en S var starfsmaður D. Eftir að staðnum hafði verið lokað kastaði J öskubakka að bar veitingastaðarins og vísaði S þá henni og H út. Kom í framhaldi af því til átaka. J leitaði til slysadeildar um nóttina þar sem gert var að skurði á augabrún hennar. Um hádegið daginn eftir leitaði hún aftur til slysadeildar og reyndist þá handleggsbrotin. Höfðaði hún af þessu tilefni mál á hendur S, D ehf. og vátryggingarfélaginu S hf. þar sem hún krafðist viðurkenningar á því annars vegar að hún ætti rétt á greiðslu úr fjölskyldutryggingu sinni hjá S hf. vegna áverka sem hún hefði orðið fyrir á hægri framhandlegg og hægri augabrún og hins vegar að hún ætti skaðabótarétt á hendur D ehf. og S vegna umræddra áverka, sem S hefði veitt henni. Krafa S um sýknu var reist á því að áverka J mætti rekja til annarra atvika en átaka við S í umrætt sinn og að hann hafi ekki orðið valdur að þeim. Af hálfu S hf. var hins vegar talið að leggja yrði til grundvallar að til átaka hafi komið milli J og S í umrætt sinn og að J hafi meiðst á hendi í þeim átökum. Aftur á móti væri tjón J ekki bótaskylt úr tryggingu hennar hjá S hf. vegna ákvæða í skilmálum, sem um trygginguna giltu. Héraðsdómur féllst á að J ætti rétt á greiðslu úr fjölskyldutryggingu sinni vegna áverka á augabrún, en sýknaði stefndu að öðru leyti af kröfum hennar. Með dómi Hæstaréttar var niðurstaða héraðsdóms um sýknu S og D ehf. staðfest þar sem J hafi ekki sýnt fram á að H hafi með saknæmum hætti valdið handleggsbroti hennar eða áverka á augabrún. Þá var S hf. sýknað af kröfu J á þeim grundvelli að hún hafi gerst þátttakandi í handalögmáli, en trygging hennar hjá S hf. næði ekki til tjóns af þess völdum. Þar sem héraðsdómi var ekki gagnáfrýjað af hálfu S hf. kom niðurstaða hans um bótaskyldu S hf. vegna áverka á augabrún J ekki til skoðunar fyrir Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 12. júlí 2002, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 21. ágúst sama árs. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994, áfrýjaði hún héraðsdómi öðru sinni 28. ágúst 2002. Gagnvart stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. krefst hún þess aðallega að viðurkennt verði að hún eigi rétt á greiðslu úr fjölskyldutryggingu sinni, slysatryggingu í frítíma, hjá félaginu vegna slyss, sem hún varð fyrir 19. nóvember 2000 á veitingastaðnum Dillon, Laugavegi 30 í Reykjavík, er hún slasaðist á hægri framhandlegg og fékk við það varanleg örkuml, auk þess að fá skurð á hægri augabrún. Til vara krefst áfrýjandi að viðurkennt verði að hún eigi rétt á greiðslu úr sömu tryggingu vegna slyss, sem hún varð fyrir 19. nóvember 2000, er hún slasaðist á hægri framhandlegg og fékk við það varanleg örkuml, auk þess að fá skurð á hægri augabrún. Jafnframt krefst hún þess að viðurkennt verði að hún eigi rétt til skaðabóta úr hendi stefndu þrotabús Dillon ehf. og Sturlu Jónssonar vegna áverka, sem Sturla veitti henni 19. nóvember 2000 á hægri framhandlegg og augabrún. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
Stefndi, Sturla Jónsson, krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.
Bú Dillon ehf. mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta 25. september 2002. Hefur þrotabúið ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því litið svo á að það krefjist staðfestingar héraðsdóms, sbr. 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991, eins og henni var breytt með 12. gr. laga nr. 38/1994.
I.
Málavextir eru þeir að áfrýjandi og Halldór Auðarson sátu í boði stefnda Sturlu við drykkju aðfaranótt 19. nóvember 2000 á veitingastaðnum Dillon við Laugaveg í Reykjavík eftir að honum hafði verið lokað og aðrir gestir höfðu yfirgefið hann, en stefndi Sturla var þá rekstrarstjóri veitingastaðarins. Þegar leið á nóttina mun áfrýjandi hafa kastað öskubakka að bar hússins og stefndi Sturla þá vísað henni og Halldóri út. Urðu í framhaldi af því átök, sem aðila greinir á um, eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Stefndi Sturla kvaddi lögreglu á staðinn klukkan 5.36 og segir í frumskýrslu hennar að sjá hafi mátt að miklar skemmdir hafi verið unnar á veitingastaðnum. Samkvæmt skýrslunni rakti lögreglan blóðslóð frá veitingastaðnum til áfrýjanda og Halldórs þar skammt frá og var hún þá blóðug. Voru þau handtekin vegna gruns um skemmdarverk. Halldór var vistaður í fangageymslu, en áfrýjandi flutt á slysadeild Landspítalans í Fossvogi, þar sem gert var að sárum hennar. Að því búnu var hún leidd fyrir varðstjóra, en síðan látin laus úr haldi. Leitaði hún aftur til slysadeildar klukkan 13.40 sama dag vegna óþæginda í hægri framhandlegg. Í vottorði læknis þar segir meðal annars að áfrýjandi hafi, er hún kom í fyrra sinnið, verið með sár á augabrún, sem hafi verið saumað. Þá hafi hún haft tognunareinkenni frá hægri olnboga. Hafi hún haft þokkalega góða hreyfingu í olnboganum, en þó verið með verki. Ekki hafi verið „um ákveðinn brotagrun að ræða.“ Við síðari komuna var tekin röntgenmynd af áfrýjanda og kom þá í ljós að handleggur hennar var brotinn.
II.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að sækja fleiri en einn í sama máli ef dómkröfur á hendur þeim eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Áfrýjandi byggir á að sama atvik veiti henni rétt á hendur stefndu, hverjum fyrir sig, þótt kröfur hennar á hendur þeim séu ekki reistar á sömu málsástæðum og lagarökum. Henni er því heimilt að sækja þá í sama máli. Þótt áfrýjandi hafi kosið að neyta þeirrar heimildar verður að leysa úr kröfum hennar á hendur hverjum stefnda fyrir sig, eins og um aðskilin mál væri að ræða.
Stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. telur að leggja verði til grundvallar að til átaka hafi komið milli áfrýjanda og stefnda Sturlu á veitingastaðnum í umrætt sinn og að áfrýjandi hafi meiðst á hendi í þeim átökum. Félagið telur hins vegar að tjón áfrýjanda sé ekki bótaskylt úr tryggingu hennar hjá félaginu vegna ákvæða í skilmálum, sem um trygginguna giltu.
Stefndi Sturla heldur því á hinn bóginn fram að af gögnum málsins verði ráðið að áverka áfrýjanda megi rekja til annarra atvika en átaka við sig í umrætt sinn og að hann hafi ekki orðið valdur að þeim.
III.
Kröfu sína á hendur stefnda Sturlu reisir áfrýjandi á því að hann hafi veitt henni umrædda áverka með saknæmum hætti. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að sýkna stefnda Sturlu af kröfu áfrýjanda. Af því leiðir að stefndi þrotabú Dillon ehf. verður einnig sýknað af kröfu áfrýjanda, enda byggist hún á því að þrotabúið beri vinnuveitandaábyrgð á skaðabótaskyldum verknað stefnda Sturlu.
IV.
Aðalkrafa áfrýjanda á hendur stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. er á því reist að hún hafi orðið fyrir líkamstjóni í átökum við stefnda Sturlu umrædda nótt og að það tjón sé bótaskylt úr fjölskyldutryggingu þeirri, sem hún hafði hjá félaginu. Er eins og að framan er rakið ekki ágreiningur milli áfrýjanda og hins stefnda félags um að hún hafi orðið fyrir fyrrnefndum meiðslum í átökum við stefnda Sturlu.
Í e. lið 10. gr. þess hluta skilmála stefnda Sjóvá-Almennra trygginga hf., sem varða sérstaklega slysatryggingu í frítíma, er kveðið á um að félagið bæti ekki: „Slys er vátryggður verður fyrir í handalögmáli, við þátttöku í refsiverðum verknaði, undir áhrifum deyfi- og eiturlyfja eða í ölæði, nema sannað sé að ekkert samband hafi verið milli ástands þessa og slyssins.“
Eins og að framan segir ber áfrýjanda og Halldóri Auðarsyni annars vegar og stefnda Sturlu hins vegar ekki saman um tildrög eða framvindu átakanna, auk þess sem ekki er samræmi milli þeirra skýrslna, sem hvert þeirra um sig gaf um atburðinn á mismunandi tímum. Í frumskýrslu lögreglu var haft eftir áfrýjanda að eftir að hún hafi yfirgefið veitingastaðinn, í framhaldi af því að hafa kastað öskubakka í barinn, hafi hún farið aftur inn á staðinn til að „athuga með Halldór“. Hafi hann þá verið í ryskingum við stefnda Sturlu og „hafi hún ætlað að skipta sér af því“, en stefndi Sturla þá snúið upp á hönd hennar og hent einhverju í höfuð hennar. Þann 24. nóvember 2000, fimm dögum eftir atburðinn, tók lögregla skýrslu af áfrýjanda í tilefni af því að hún lagði fram kæru á hendur stefnda Sturlu vegna líkamsárásar. Þar kvað áfrýjandi sér hafa orðið litið til baka eftir að hún var komin út af veitingastaðnum og þá séð að stefndi Sturla hafi ráðist aftan að Halldóri og snúið hann niður. Hafi hún þá „farið til þeirra og reynt að toga Sturlu ofan af Halldóri, en hann náði taki á hægri hendi hennar“ og snúið illa upp á handlegginn auk þess sem hann henti henni upp að vegg. Hafi höfuð hennar lent í veggnum, en hún einnig fengið hnefahögg í andlit og maga. Á meðan á þessu stóð hafi Sturla haldið Halldóri í gólfinu. Enn gaf áfrýjandi skýrslu hjá lögreglu 3. september 2001. Þar lýsti hún atburðum svo að þar sem hún hafi staðið á gangstéttinni utan veitingastaðarins hafi hún séð inn um útidyrnar að stefndi Sturla hafi ráðist aftan að Halldóri og tekið hann hálstaki, en þeir síðan fallið í gólfið. Hafi hún þá „farið upp tröppurnar og inn í anddyri hússins til að freista þess að fá Sturlu ofan af Halldóri.“ Hafi stefndi Sturla þá staðið upp og ráðist að henni. Hafi hann tekið um hægri handlegg hennar, snúið upp á hann og hún fengið áverkana í þeirri atlögu. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi lýsti áfrýjandi þessum atburðum svo að þegar hún var nýkomin út af veitingastaðnum hafi sér snúist hugur og ætlað að athuga hvort ekki væri allt í lagi með Halldór. Þegar hún hafi snúið til baka hafi hún séð hvar Sturla réðist aftan að Halldóri þannig að hann féll. Hafi hún hlaupið upp tröppurnar og ætlað að reyna að hjálpa Halldóri, en Sturla þá verið snöggur að rísa upp, tekið í handlegg sér, snúið upp á hann og skellt sér utan í vegg, en við það hafi hún hlotið áverkana.
Þótt ekki sé fullt samræmi í framangreindum skýrslum áfrýjanda er ljóst af þeim að eftir að hún var komin út af veitingastaðnum sneri hún við, sá að stefndi Sturla og Halldór áttu í átökum og hugðist veita þeim síðarnefnda lið. Hún var því á engan hátt hlutlaus áhorfandi að átökunum, heldur blandaði hún sér í þau. Verður því að líta svo á að hún hafi gerst þátttakandi í handalögmáli, en áfrýjandi og stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. eru sem fyrr segir sammála um að hún hafi orðið fyrir meiðslum sínum í þeim átökum. Þar sem ákvæði laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga setja því ekki skorður að um slíkar ábyrgðartakmarkanir sé samið og slysið verður rakið til þeirrar auknu áhættu, er handalögmálum fylgir, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 1. mars 2001 í máli nr. 397/2000, verður niðurstaða héraðsdóms staðfest og stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. sýknaður af kröfu áfrýjanda um að hún eigi rétt á greiðslu úr fjölskyldutryggingu sinni vegna áverka á hægri framhandlegg. Þar sem héraðsdómi hefur ekki verið gagnáfrýjað af hálfu stefnda Sjóvá-Almennra trygginga hf. kemur niðurstaða héraðsdóms um bótaskyldu félagsins vegna áverka á augabrún áfrýjanda ekki til skoðunar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Rétt er að hver aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda og stefnda Sturlu Jónssonar fyrir Hæstarétti fer svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Jóhönnu Þóru Sveinjónsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðst úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.
Gjafsóknarkostnaður stefnda, Sturlu Jónssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 9. þessa mánaðar, er höfðað 6. september 2001 af Jóhönnu Þóru Sveinjónsdóttir, Svarthömrum 25, Reykjavík, gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, Dillon ehf., Laugavegi 30, Reykjavík, og Sturlu Jónssyni, Stóragerði 18, Reykjavík.
Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:
1. Að viðurkennt verði með dómi, að stefnandi eigi rétt á greiðslu úr fjölskyldutryggingu sinni, slysatryggingu í frítíma, hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. samkvæmt vátryggingasamningi þar um við hið stefnda félag, vegna slyss sem hún varð fyrir þann 19. nóvember 2000 á veitingastaðnum Dillon, Laugavegi 30, Reykjavík, er hún slasaðist á hægri framhandlegg og fékk við það varanleg örkuml, auk þess að fá skurð á hægri augabrún.
2. Að viðurkennt verði með dómi, að stefnandi eigi ,,skaðabótarétt á hendur Dillon ehf. og stefnda Sturlu Jónssyni vegna áverka, sem Sturla veitti henni þann 19. nóvember 2000 á hægri framhandlegg og augabrún.”
Í báðum tilvikum er gerð krafa um málskostnað.
Stefndu krefjast hver fyrir sig sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.
I.
Málavextir eru þeir, að kl. 5.36 aðfaranótt sunnudagsins 19. nóvember 2000 var lögregla kvödd að veitingahúsinu Dillon að Laugavegi 30 hér í borg. Segir í frumskýrslu lögreglu um málið, að innandyra á veitingastaðnum hafi mátt sjá, að miklar skemmdir höfðu verið unnar þar, brotnar flöskur og brotin glös verið út um allt og fyrir innan barborðið hafi verið mikið af glerbrotum eftir flöskur, spegla og glerhillu fyrir aftan barborðið. Einnig hafi þar verið barstólar og bjórkútar, sem virtist hafa verið kastað í barhilluna. Þá hafi mátt sjá blóð í anddyri staðarins. Hafi slóð þess verið rakin að gatnamótum Klapparstígs og Grettisgötu, þar sem fyrir hafi verið stefnandi málsins og maður að nafni Halldór Auðarson. Hafi hann virst vera mjög ölvaður og tjáð lögreglumönnum, að hann hefði ,,rústað Dillon”, án þess þó að skýra það frekar. Stefnandi og Halldór voru handtekin vegna gruns um skemmdarverk. Þá var stefnandi flutt á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi, þar sem gert var að sárum hennar, en í framhaldi af því var hún flutt á lögreglustöð. Þar tjáði hún lögreglumönnum, að eigandi veitingastaðarins hefði verið með svívirðingar í hennar garð, hún orðið mjög reið og hent öskubakka í hillu fyrir aftan barborðið. Eftir það hafi hún farið út, en skömmu síðar komið aftur inn til að athuga með Halldór. Hafi hann og ,,eigandi veitingastaðarins” þá verið í ryskingum, stefnandi ætlað að skipta sér af því, en ,,eigandinn” þá snúið upp á hönd hennar og hent einhverju í höfuð hennar. Samkvæmt skýrslunni virtist stefndi, Sturla Jónsson, mjög ölvaður. Tjáði hann lögreglumönnum, að hann hefði vísað tveimur mönnum út af veitingastaðnum og lent í ryskingum við annan þeirra, en hinn hafi kastað einhverju í barinn og skemmt hann.
Stefnandi og Halldór kærðu bæði stefnda, Sturlu, fyrir líkamsárás greint sinn. Kemur fram í kæruskýrslu stefnanda frá 24. nóvember 2000, að eftir að gestir voru farnir af staðnum umrædda nótt, hafi þau Halldór og stefndi setið við barborðið í boði stefnda og þau öll verið að drekka. Hafi stefndi og Halldór verið að ræða saman og stefnandi viljað blanda sér í það, en stefndi þá verið mjög dónalegur við hana. Við það hafi hún reiðst og hent glasi, sem hún drakk úr, á barborðið. Hafi stefndi þá vísað þeim Halldóri út og stefnandi hlýtt því án mótmæla. Er hún hafi verið komin út, hafi henni verið litið til baka og þá séð, að stefndi réðst aftan að Halldóri og sneri hann niður. Stefnandi hafi þá farið aftur inn og reynt að toga stefnda ofan af Halldóri, en hinn síðarnefndi náð taki á hægri hönd hennar og snúið illa upp á hana, auk þess sem hann hafi hrint henni upp að vegg, þar sem hann hafi haldið henni fastri. Hafi hún fengið hnefahögg í andlit og maga. Kvaðst hún enga aðra leið hafa séð til þess að losa Halldór en að grípa til nærliggjandi glasa og grýta þeim í barinn. Það hafi tekist, stefndi sprottið upp sem og Halldór, stefndi flúið bak við barborðið, en þau Halldór haldið áfram að grýta glösum og Halldór þar að auki grýtt bjórkút að barnum. Eftir það hafi þau farið út og lögreglan komið að þeim skömmu síðar.
Skýrsla var tekin af Halldóri Auðarsyni 19. nóvember 2000 kl. 12.28 eftir dvöl í fangageymslu. Var tilefni skýrslutökunnar ætluð eignaspjöll hans í nefndu veitingahúsi nóttina áður. Skýrði Halldór þar svo frá, að hann hafi verið á veitingastaðnum með ,, ...vinkonu sinni, stefnanda málsins. Hafi hann verið undir áhrifum áfengis, en ekki mikið ölvaður að sínu mati, og setið við borð og verið að ræða við ,,eiganda staðarins sem heitir Sturla” og hafi stefnandi líka setið við borðið. Kvaðst Halldór ekki vita hvað gerðist, en ,,hann hafi allt í einu séð að Jóhanna kom alblóðug til hans þegar þau hafi verið að fara og hafi hann verið á leiðinni út þegar það gerðist.” Í framhaldi af þessu hafi gleraugu hans verið tekin af honum, en það sé mjög bagalegt fyrir hann, þar sem hann hafi aðeins 25% sjón. Síðan er eftirfarandi bókað eftir Halldóri: ,,Það sem á eftir gerðist segist mætti ekki vilja tjá sig um. Mætti segist þó vilja segja það að hann hafi ekki byrjað á neinu og sé ekki upphafsmaður í þessu máli. Mætti segist því ekki viðurkenna neitt í þessu máli þ.e. varðandi skemmdir á staðnum og verði því að sanna það með öðrum hætti.” Halldór gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 29. nóvember 2000 og kærði þá stefnda, Sturlu, fyrir líkamsárás. Skýrir hann þar svo frá, að hann og stefndi, Sturla, hafi verið í vinsamlegum samræðum, en er stefnandi hafi reynt að blanda sér í þær, hafi stefndi brugðist illa við og verið með svívirðingar í hennar garð. Við það hafi stefnandi staðið upp og vitnið ætlað að fylgja henni, eftir að hafa hreytt einhverju í stefnda. Þegar vitnið hafi verið komið í anddyrið hafi stefndi stokkið aftan á það, tekið það hálstaki og fellt í gólfið, þannig að andlitið sneri niður. Vitnið hafi svo skyndilega orðið vart við, að tökin losnuðu, staðið upp og séð, að stefnandi var mjög blóðug í andliti. Hafi stefndi verið að reyna að kljást við hana, en hún grýtt glösum að barnum, eftir að stefndi hafi leitað þar skjóls. Vitnið hafi verið mjög reitt og tekið þátt í að grýta barinn með stefnanda. Minntist það þess að hafa kastað tómum bjórkút að barnum. Eftir það hafi vitnið og stefnandi gengið burtu og lögreglan komið skömmu síðar á vettvang.
Framburðarskýrsla var tekin af stefnda, Sturlu, hjá lögreglu 28. maí 2001 í tilefni af framangreindum líkamsárásarkærum. Greinir stefndi þar svo frá, að þeir Halldór hafi verið að spjalla saman, en stefnandi, sem hafi verið mjög ölvuð, sífellt verið reyna að blanda sér í samræðurnar. Sökum ástands hennar hafi það innlegg verið út í hött. Er hún hafi stjakað við öskubakka á barborðinu, þannig að hann kastaðist og lenti á tréverki, hafi stefndi sagt henni að hætta þessu og þá hafi hann bent henni á tjónshættu á áfengisflöskum, spegli og glerhillum. Eftir um 10 mínútur hafi stefnandi tekið annan öskubakka og þeytt honum, þannig að hann lenti á áfengisflösku, sem við það hafi brotnað. Hafi stefndi þá sagt þeim tveimur, að nú væri nóg komið og vísað þeim út. Hafi hann gengið með þeim í anddyrið og opnað útidyrnar. Skyndilega hafi stefnandi slegið á hægra eyra stefnda og um leið hafi Halldór ráðist á hann. Hafi stefndi náð tökum á þeim báðum, þannig að hann hafi legið nánast ofan á þeim með þau í hálstaki, stefnanda á grúfu og Halldór á bakinu. Kveðst stefndi þá hafa séð hvar tveir ungir menn komu hlaupandi upp útitröppurnar og þá sleppt tökum á þeim báðum, hlaupið bak við barinn og hringt í lögreglu. Er hann var að því, hafi öskubakki komið fljúgandi og lent á spegli við barinn og eftir það hafi komið drífa af glösum og ýmsu lauslegu, sem hafi verið grýtt á barinn. Hafi stefndi beygt sig niður bak við barborðið, en yfir hann hafi lagt glerbrot. Þá hafi tómum bjórkút verið grýtt á barinn. Neitaði stefndi eindregið ásökunum stefnanda og Halldórs um líkamsárás á þau greint sinn.
Í læknisvottorði vegna komu stefnanda á slysadeild kl. 5.30 að morgni 19. nóvember 2000 kemur fram, að stefnanda hafi sinnast við barþjón og grýtt öskubökkum og glösum í barinn og ,, ...fengið eitthvað til baka.” Við það hafi hún fengið skurð á hægri augabrún. Þá kvartaði stefnandi undan verkjum í hægri handlegg og olnbogasvæði. Sár á augabrún, ½ sm langur skurður, var saumað, og þá fékk stefnandi teygjusokk á olnboga. Stefnandi kom aftur á slysadeild kl. 13.40 sama dag vegna óþæginda í hægri framhandlegg. Kemur fram í læknisvottorðinu, að hún hafi greint frá því, að eftir að hún fór af slysadeild um morguninn, hafi verið snúið upp á hægri framhandlegg og eftir það hafi verkirnir í olnboganum aukist svo, að hún hafi lítið getað sofið. Röntgenmynd sýndi skábrot efst í sveif. Var stefnandi lögð inn á Landspítala, þar sem hún gekkst undir aðgerð sama dag. Í vottorði bæklunarskurðlæknis frá 11. mars 2001 segir, að pinnar, sem komið var fyrir, er brotið var sett rétt, hafi verið teknir 20. desember 2000. Við skoðun sé stefnandi með 50% skerðingu á snúningi um olnbogann, en auk þess vanti 30° upp á fulla réttingu um olnbogann. Mikil eymsli séu við þreifingu um olnbogann og sé stefnandi með þreytuverki frá honum og geti lítið beitt honum.
Með bréfum lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettum 26. október 2001, var stefnanda, Halldóri Auðarsyni og stefnda, Sturlu, tilkynnt, að rannsókn líkamsárásarkæra stefnanda og Halldórs á hendur stefnda væri lokið og þættu rannsóknargögn ekki gefa tilefni til frekari aðgerða í málinu. Væri málið því látið niður falla.
II.
Gagnvart hinu stefnda tryggingafélagi byggir stefnandi dómkröfur sínar því, að hún hafi orðið fyrir slysi í frítíma, sem hún eigi enga sök á. Stefnandi hafi farið á ölkrá með vini sínum og drukkið þar bjór greint sinn. Eftir að venjulegum opnunartíma lauk, hafi stefndi, Sturla Jónsson, sem rekið hafi bjórkrána, boðið henni og vini hennar upp á bjór. Hafi þau setið og spjallað, þar til Sturla fór að atyrða hana. Hafi stefnandi þá fljótlega búist til brottferðar. Áður en hún var komin út af kránni, hafi hún ákveðið að athuga, hvað vini sínum, Halldóri, liði. Þá hafi hún séð, að Sturla hafði fellt Halldór í gólfið, þar sem hann hélt honum og bjóst til að veita honum hnefahögg. Hafi hún ætlað að koma Halldóri til hjálpar og skipað Sturlu að hætta barsmíðunum, en Sturla sprottið upp, tekið um hægri hönd hennar, snúið upp á hana og tekið hana aftur fyrir bak stefnanda, lyft hendinni upp undir herðablöð og ýtt henni af afli upp að vegg. Við þessa árás kveðst stefnandi hafa hlotið þá áverka, sem tilgreindir séu í læknisvottorðum.
Stefnandi byggir á, að hún eigi fébótarétt úr þeirri fjölskyldutryggingu, sem hún hafi samið um við hið stefnda félag. Eigi hún og samkvæmt lögum um tryggingasamninga og grunnreglum vátryggingaréttar rétt á þeirri bótavernd, sem hún sækir í þessu máli. Stefnandi hafi ekki veitt sér áverkana sjálf, heldur Sturla Jónsson. Þá hafi hún ekki verið ofurölvi eða undir áhrifum deyfilyfja og ekki verið í handalögmáli eða áflogum við Sturlu. Hún hafi hins vegar orðið fyrir tilefnislausri og grófri líkamsárás. Þá hafi hún heldur ekki sýnt af sér stórkostlegt gáleysi, hvorki í merkingu skaðabótaréttar né vátryggingaréttar. Stefnandi hafi að vísu hent einu glasi yfir barborðið, eftir að Sturla Jónsson hafi móðgað hana og áður en hún gekk frá borðinu, þar sem þau höfðu setið. Það hafi hins vegar verið eftir árásina, sem hún og Halldór hafi tekið það til bragðs að henda glösum og öðru í Sturlu, en það hafi verið gert til að forðast sturlaðan mann.
Stefnandi byggir og á, að samkvæmt reglum vátryggingaréttar hafi hið stefnda félag sönnunarbyrði um, að slysið hafi orðið vegna ölæðis stefnanda eða af þeim sökum, að hún hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi samkvæmt vátryggingarétti eða staðið í handalögmálum, en sannað sé, að stefnandi hafi orðið fyrir slysi á veitingastaðnum.
Kröfu á hendur veitingahúsinu Dillon ehf. byggir stefnandi á, að starfsmaður þess, Sturla Jónsson, hafi verið þar að störfum verulega ölvaður. Hafi hann, undir áhrifum áfengis, ráðist á stefnanda og veitt henni líkamlega áverka, með því að taka hægri hönd hennar, snúa upp á höndina aftur fyrir bak og slengja stefnanda í þeirri stöðu upp að vegg, þar sem hún hafi fengið djúpan skurð á hægri augabrún. Hafi komið í ljós, að Sturla hafi brotið framhandleggsbein stefnanda á hægri hendi við olnboga. Byggir stefnandi á, að með hegðun sinni hafi Sturla sýnt af sér saknæmt athæfi, sem Dillon ehf. beri húsbóndaábyrgð á. Liggi sökin öðru fremur í, að Sturla, sem hafi haft umsjón með veitingastaðnum, hafi ekki hegðað sér eins og veitingamaður eigi að gera og ætlast megi til af honum. Tjón stefnanda og þá atburðarrás, sem fór í gang, er stefnandi og Halldór hugðust yfirgefa veitingastaðinn, megi rekja til ölvunarástands Sturlu, en fram komi í skýrslu lögreglu, að hann hafi verið mjög drukkinn, er lögregla kom á staðinn. Ekki sé því vafi á, að Sturla hafi sýnt af sér sök, sem eigandi veitingastaðarins beri ábyrgð á. Ljóst sé einnig, að Sturla hafi ráðist á stefnanda að fyrra bragði og veitt henni áverka með líkamlegu afli.
Stefnandi sæki mál þetta á hendur Sturlu persónulega á þeim grundvelli, að Sturla hafi veitt henni varanlega áverka á líkama hennar, sem hann beri persónulega ábyrgð á samkvæmt almennu skaðabótareglunni.
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á hendur tryggingafélaginu á almennum reglum vátryggingaréttar. Þá vísar stefnandi sérstaklega til 18. greinar vátryggingasamningalaga og 20. greinar sömu laga, sem og 45. - 51. gr., 99. gr., 121. gr. og 124. gr. laganna, eftir því sem við á. Varðandi kröfur á hendur stefndu, Dillon ehf. og Sturlu Jónssyni, vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar og húsbóndaábyrgð-arreglunnar. Um báðar viðurkenningarkröfurnar vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., byggir á því, að í skilmálum hinnar frjálsu ábyrgðartryggingar, 10. gr. e. lið, komi skýrt fram, að undanskildar áhættur tryggingarinnar nái til slysa, sem vátryggður verði fyrir í handalögmáli. Þá taki undanþágan einnig til slyss í ölæði, sbr. sama lið og einnig skv. f. lið til slysa, sem rakin verða til stórkostlegs gáleysis vátryggingataka. Umrætt slys hafi orðið í handalögmáli, sem stefnandi hafi tekið þátt í eða jafnvel stofnað til. Undir slíkum kringumstæðum sé um að ræða hlutlæga ábyrgðarleysistakmörkun á gildissviði vátryggingarinnar, þannig að vátryggingin nái að efni til ekki til tjóns, sem verði við þær aðstæður. Megi í þessu tilviki t.d. vísa í hæstaréttardóm nr. 397/2000, þar sem fallist hafi verið á ofangreind sjónarmið.
Þá er á því byggt, að önnur undanþáguákvæði tryggingarinnar eigi einnig við, þ.e. að slysið verði rakið til ölæðis stefnanda og að hún hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með framkomu sinni á veitingastaðnum með því að grýta glösum og taka þátt í slagsmálum, en henni hafi mátt vera ljóst, að slys gat hlotist af slíkri framkomu, eins og reyndin hafi orðið.
Stefndi, Dillon ehf., byggir á því, að ekkert skaðaverk hafi átt sér stað, sem stefndi eða meðstefndi beri ábyrgð á. Meint meiðsl stefndu megi rekja til hennar eigin gjörða, en ekki stefnda eða meðstefnda. Meint atvik hafi átt sér stað eftir að búið var að loka veitingastaðnum og á þeim tíma sólarhringsins, þegar starfsfólk hafi verið hætt störfum. Stefndi, Sturla, hafi boðið stefnanda og vini hennar, Halldóri, að sitja lengur við drykkju, en það hafi honum verið óheimilt. Hafi það því verið algjörlega á hans ábyrgð, en ekki stefnda. Þá hafi umræddur meðstefndi ekki verið að störfum þetta kvöld, enda ekki í ástandi til að sinna veitingastörfum. Telur stefndi, að hann geti ekki borið ábyrgð á verkum, sem starfsmenn vinna í ölæði utan vinnutíma. Sérstaklega geti ábyrgðin ekki verið fyrir hendi í þeim tilvikum, þegar starfsmaður situr fram eftir að drykkju með félögum sínum. Þó að atvikið hafi gerst inni á veitingastaðnum, hafi það ekki verið í tengslum við rekstur stefnda, heldur megi rekja hið meinta slys til ölvunarástands allra hlutaðeigandi umrædda nótt. Telur stefndi, að túlka beri regluna um vinnuveitendaábyrgð þannig, að hún nái til skaðaverka starfsmanna, sem þeir vinna við framkvæmd starfa sinna, en hvorki til skaðaverka, sem þeir vinna utan vinnutíma, eða skaðaverka, sem ekki eru í tengslum við störf þeirra. Þá telur stefndi, að vinnuveitendaábyrgðin geti ekki náð til skaðaverka, sem starfsmaður vinnur í ölvunarástandi.
Stefndi, Sturla, mótmælir því, að hann hafi valdið stefnanda áverkum umrætt kvöld og hann sé skaðabótaskyldur gagnvart henni. Hafi hann hvorki lagt hendur á stefnanda með því að snúa upp á hönd hennar né skella henni í gólfið. Sá áverki, sem stefndi eigi að hafa valdið henni, sé handleggsbrot á hægri hendi. Hafi brotið átt sér stað inni á veitingarstaðnum, sé afar ólíklegt, að hún hafi getað, ásamt Halldóri, nánast ,,rústað staðnum” með því að henda með þessari sömu hendi alls kyns lausamunum að barnum. Samkvæmt frásögn hennar hafi ástæða þess, að hún henti þessum glösum o.fl. að barnum, verið sú að stefndi hafi ráðist á hana, en það hafi gerst eftir meint átök við stefnda. Fyrir liggi, að stefnda hafi hrasað, er hún yfirgaf veitingastaðinn og sé hugsanlegt, að við það hafi hún handleggsbrotnað. Komi fram í lögregluskýrslu, að blóðblettir hafi verið á tröppum og að lögreglan hafi fylgt þessum blóðblettum við leit að henni, en inni á staðnum hafi engir blóðblettir fundist. Þá hafi, við við komu stefnanda á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur þessa sömu nótt, ekki verið talið, að um beinbrot væri að ræða. Einnig hafi stefnandi lýst því við endurkomu á slysadeild, að eftir að hún fór af slysadeild um nóttina, hafi verið snúið upp á hægri framhandlegg hennar og eftir það hafi verkirnir aukist. Í stefnu sé sú skýring gefin á þessu, að stefnandi hafi sýnt lögreglunni mótþróa, er færa átti hana aftur á lögreglustöðina í stað þess að leyfa henni að fara heim. Frásögn stefnanda um átök á milli hennar og stefnda fái ekki stuðning í fyrirliggjandi vettvangskoðun lögreglunnar. Þá sé hún tvísaga um þessa meintu árás. Í lögregluskýrslu segi hún, að stefndi hafi hent í sig einhverju lauslegu og við það hafi skurður myndast á höfði hennar, en í framburðarskýrslu hjá lögreglu segi hún, að stefndi hafi skellt henni á vegg. Engin verksummerki hafi verið á staðnum, sem styðji aðra hvora þessara skýringa. Bendi ekkert í frásögn vitnisins, Halldórs, til þess, að stefndi hafi ráðist að stefnanda eða snúið upp á hönd hennar. Enn fremur liggi fyrir í lögregluskýrslu, að stefnandi hafi verið ofurölvi þetta kvöld og því lítið á framburði hennar byggjandi um málsatvik, en stefnandi hafi sönnunarbyrðina fyrir staðhæfingu sinni.
III.
Fram er komið í málinu, að eftir lokun veitingastaðarins Dillons umrædda nótt voru stefnandi og Halldór Auðarson þar í boði stefnda, Sturlu Jónssonar, sem upplýst er að á þeim tíma hafi verið þar starfandi sem rekstrarstjóri. Þá liggur fyrir, að stefndi og Halldór ræddu saman drjúga stund og að stefnandi vildi blanda sér í þær samræður. Mislíkaði stefnda þau afskipti stefnanda og ber stefnanda og Halldóri saman um, að stefndi hafi atyrt stefnanda af því tilefni. Varð það til þess, að stefnandi kastaði öskubakka að barnum, án þess þó að til eftirmála kæmi. Nokkru síðar, er stefnandi vildi aftur blanda sér í samræður þeirra stefnda og Halldórs, sem stefndi mun sem áður hafa brugðist illa við, grýtti stefnandi aftur öskubakka að barnum, er hafði í för með sér, að áfengisflaska brotnaði. Varð það stefnda tilefni til að vísa stefnanda og Halldóri út úr húsinu. Eftir einhver orðaskipti hlýddu þau skipun stefnda og gengu áleiðis út. Um það, sem á eftir fór, ber aðilum ekki saman.
Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir stefnanda, að eigandi staðarins hafi verið með svívirðingar í hennar garð. Hafi hún orðið mjög reið og hent öskubakka í hillu sem staðsett sé aftan við barborðið. Hafi hún farið út af staðnum, en skömmu síðar hafi hún farið aftur inn til að athuga með Halldór. Hafi hann og eigandi staðarins þá verið í ryskingum. Hafi hún ætlað að skipta sér af því, en eigandinn þá snúið upp á hönd hennar og hent einhverju í höfuð hennar. Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglu 24. nóvember 2000 og þá skýrir stefnandi svo frá, að hún hafi hlýtt boði stefnda um að yfirgefa húsið án mótmæla. Er hún hafið verið komin út, hafi henni verið litið til baka og þá séð, að stefndi réðst aftan að Halldóri og sneri hann niður. Stefnandi hafi þá farið aftur inn og reynt að toga stefnda ofan af Halldóri, en hinn síðarnefndi náð taki á hægri hönd hennar og snúið illa upp á hana, auk þess sem hann hafi hrint henni upp að vegg, þar sem hann hafi haldið henni fastri. Í skýrslu, sem tekin var af stefnanda 3. september 2000, kveður stefnandi, að er hún hafi farið aftur inn í húsið, til að freista þess að fá stefnda ofan af Halldóri, hafi stefndi staðið upp og ráðist að henni, tekið um hægri handlegg og snúið upp á hann. Telji hún, að handleggurinn hafi brotnað við það. Hafi stefndi síðan skellt stefnanda upp að vegg og hún fengið skurð á vinstri augabrún. Gaf stefnandi þá skýringu á breyttum framburði, að hún hafi verið í ,,sjokki” er hún gaf fyrri skýrsluna og einnig verið á sterkum verkjalyfjum, sem skýri hvers vegna hún hafi ekki tekið betur eftir því, sem fram kom hjá henni við skýrslugjöfina, áður en hún skrifaði undir skýrsluna. Í skýrslunni kemur og fram, að eftir að hún fór af slysadeild umræddan morgun í fylgd lögreglu, hafi einn lögreglumanna tekið um hægri handlegg hennar og haldið fast um hann frá slysadeild að lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Hafi stefnandi fundið til mikils sársauka við þetta. Lögreglumaðurinn hafi hins vegar ekki snúið upp á handlegginn. Sagðist hún ekki skilja framkomu lögreglumannanna gagnvart sér, en hún ætlaði þó ekki að leggja fram kæru af því tilefni.
Vitnið, Halldór Auðarson, kveður í skýrslu, sem tekin var af honum sem sakborningi hjá lögreglu um hádegisbil 19. nóvember 2000, að hann viti ekki, hvað gerðist, en hann hafi allt í einu séð, hvar stefnandi kom alblóðug til hans, er þau hafi verið að fara út. Í framhaldi af því hafi gleraugu hans verið tekin af honum og þar sem hann hafi aðeins 25% sjón, sé það mjög bagalegt fyrir hann. Um það, sem á eftir gerðist, kvaðst vitnið ekki vilja tjá sig. Í skýrslutöku hjá lögreglu 29. nóvember 2000, þar sem Halldór kærði stefnda, Sturlu, fyrir líkamsárás greint sinn, skýrir vitnið svo frá, að er hann hafi verið kominn í anddyrið, hafi stefndi stokkið aftan á vitnið, tekið það hálstaki og fellt í gólfið, þannig að andlitið sneri niður. Vitnið hafi svo skyndilega orðið var við, að tökin losnuðu, staðið upp og séð, að stefnandi var mjög blóðug í andliti. Hafi stefndi verið að reyna að kljást við hana, en hún grýtt glösum að barnum, eftir að stefndi hafði leitað þar skjóls. Við skýrslutöku hjá lögreglu 21. maí 2001 kveður Halldór, að stefndi, Sturla, hafi verið með vitnið í hálstaki á gólfinu í anddyri hússins. Er stefnandi hafi komið aftur inn í húsið hafi stefndi sleppt tökum á vitninu, sem þá hafi verið vankaður og búinn að týna gleraugum sínum. Kveðst vitnið hafa ,,heyrt læti hjá sér þegar Sturla og Jóhanna voru í átökum.” Hafi vitnið litið til hliðar og þá séð, er stefndi þreif í hægri handlegg stefnanda, sneri henni og skellti á vegginn hægra megin við útidyr veitingahússins. Segir svo í skýrslunni: ,,Segist Halldór telja að um leið hafi Sturla haldið einhvern veginn í hann með annarri hendi eða fæti.”
Stefndi, Sturla, skýrir svo frá hjá lögreglu 28. maí 2001, að eftir að hann hafi verið búinn að vísa stefnanda og Halldóri út af veitingastaðnum, hafi hann gengið með þeim í anddyrið og opnað útidyrnar. Skyndilega hafi stefnandi slegið á hægra eyra stefnda og um leið hafi Halldór ráðist á hann. Hafi stefndi náð tökum á þeim báðum, þannig að hann hafi legið nánast ofan á þeim með þau í hálstaki, stefnanda á grúfu og Halldór á bakinu. Kveðst stefndi þá hafa séð hvar tveir ungir menn komu hlaupandi upp útitröppurnar og þá sleppt tökum á þeim Halldóri og stefnanda, hlaupið bak við barinn og hringt í lögreglu. Sé fjarstæða, að stefndi hafi tekið í hönd stefnanda og snúið upp á handlegg hennar um leið og hann hafi verið í átökum við Halldór. Kvaðst stefndi vera viss um að vera ekki valdur að handleggsbroti stefnanda.
Framburður stefnanda fyrir dómi var mjög á sama veg og í fyrrgreindri skýrslu hennar hjá lögreglu 2. september 2000 og þá var vætti Halldórs í samræmi við skýrslu hans hjá lögreglu 21. maí 2001. Kvaðst vitnið hafa séð stefnda, Sturlu, skella stefnanda upp að vegg í anddyri veitingahússins, með því að rífa í höndina á henni, sem hann hafi snúið upp á. Hafi vitnið séð þetta útundan sér, þrátt fyrir að hafa misst gleraugun og 25% sjón. Sem fyrr neitaði stefndi, Sturla, eindregið ásökunum stefnanda um, að hann hafi handleggsbrotið stefnanda umrætt sinn og var framburður hans mjög í samræmi við skýrslu hjá lögreglu. Kvað stefndi, að stefnanda hafi skrikað fótur, er hún yfirgaf veitingahúsið, og hún hrasað. Þá hafi stefndi ekki séð neina blóðbletti inni í húsinu, en hins vegar á tröppunum fyrir utan.
Svo sem fyrr greinir kom stefnandi á slysadeild í lögreglufylgd kl. 6.01 að morgni 19. nóvember 2000. Segir í upphafi skýrslu læknis um komu hennar þangað, að stefnandi hafi verið stödd á skemmtistað, þar sem henni hafi sinnast eitthvað við barþjón, grýtt öskubökkum og glösum í barinn og fengið eitthvað til baka. Við það hafi hún fengið skurð á hægri augabrún. Um skoðun segir, að stefnandi hafi verið mjög ölvuð, hún hafi verið með ½ sm skurð og ,,haematom” sé að myndast þar undir, en sárið sé hreint og skurðbrúnir heilar. Um hægri olnboga segir, að stefnandi sé eymslalaus yfir ,,olecranion og sveifarhaus (caput radii)”. Finnist henni erfitt að ,,pro/supinera (snúningshreyfingar)” og beygja og rétta, en passivar hreyfingar séu eðlilegar. Fram kemur, að röntgenmyndir hafi ekki verið teknar við fyrstu komu. Var sár á augabrún saumað og þá fékk stefnandi teygjusokk á olnboga. Var henni ráðlagt að koma aftur sama dag, þegar hún væri búin ,,að jafna sig.” Stefnandi kom aftur kl. 13.40 sama dag á slysadeild vegna óþæginda í hægri framhandlegg. Um síðari komu hennar á slysadeildina segir svo í læknisvottorðinu: ,,Eftir að hún fór héðan segir hún, að það hafi verið snúið upp á hæ. framhandlegg og eftir það jukust verkirnir í olnboganum svo að hún gat lítið sofið eftir að hún kom heim. Skoðun: Hæ. olnbogi: Mjög sár að hreyfa. Getur rétt úr að fullu, beygir aðeins u.þ.b. 60-70° Pro/supination (snúningur á sveif) er mjög sársaukafull og það eru verkir efst við sveif (radius) ... Röntgen: Sýnir brot rétt framan við collum radii, skábrot, sem er tilfært. Greining: Brot á efri enda sveifar (radius). Meðferð: Er innlögð á LSH Hringbraut ... Niðurstaða: ... Fær sár á augabrún og tognunareinkenni frá hæ. olnboga, en ekki kemur nákvæmlega fram hvernig hún fékk þau einkenni... Er með þokkalega góða hreyfingu í olnboganum en þó með verki, en skv. lýsingu var ekki um ákveðinn brotagrun að ræða. Hún fer síðan heim og hvílir sig. Kemur aftur síðar sama dag samkvæmt ráðleggingum slysadeildarlæknis. Segir að hún hafi lent í því að það hafi verið snúið upp á hæ. framhandlegg eftir að hún fór frá slysadeild og við það jukust verkirnir ... Erfitt er að segja hvort hún nær sér að fullu, viss hætta er á að hún fái hreyfiskerðingu í olnbogann til frambúðar ...”
Stefnandi hefur sönnunarbyrði fyrir því, að stefndi, Sturla, hafi ráðist á hana greint sinn, handleggsbrotið og veitt henni áverka á hægri augabrún, svo sem hún fullyrðir. Staðhæfing stefnanda um sök stefnda á nefndum áverkum fær stoð í síðustu skýrslu Halldórs Auðarsonar hjá lögreglu og framburði hans fyrir dómi. Eins og hér háttar til þykir verða að meta sönnunargildi framburðar hans með hliðsjón af ákvæðum 59. gr. laga nr. 91/1991. Segir þar, að við mat á sönnunargildi vitnisburðar við úrlausn máls, skuli meðal annars hugað að afstöðu vitnis til aðila, hagsmunum þess af málsúrslitum, þroska þess, áreiðanleika skynjunar þess á atvikum, minni, ástandi og hegðun þess við skýrslugjöf, skýrleika í svörum og samræmi í frásögn. Kemur hér sérstaklega til skoðunar afstaða vitnisins til aðila, áreiðanleiki skynjunar þess á atvikum og samræmi í frásögn. Fram er komið í málinu, að góður kunningsskapur er með stefnanda og vitninu og jafnframt, að vitnið kærði umræddan stefnda fyrir líkamsárás greint sinn. Vitnið gat í engu skýrt atburðarrás við skýrslutöku hjá lögreglu og sagði það eitt, að hann vissi ekki, hvað gerðist, en hann hafi allt í einu séð, hvar stefnandi kom alblóðug til hans, er þau hafi verið að fara út. Í skýrslu 29. nóvember 2000 kvað vitnið, að andlit sitt hafi snúið niður, eftir að stefndi hafi snúið hann niður og eftir að tökin losnuð skyndilega hafi vitnið séð, að stefnandi var mjög blóðug í andliti. Halldór hefur hins vegar fullyrt í skýrslu 21. maí 2001 og fyrir dómi, að hann hafi séð stefnda snúa upp á hægri handlegg stefnanda, en hins vegar hefur vitnisburður hans ekki beinlínis lotið að tilurð áverkans á hægri augabrún stefnanda, þótt draga megi þá ályktun af framburði hans, að áverkinn hafi hlotist af því, að stefndi hafi skellt henni upp að veggnum. Þá hefur komið fram hjá Halldóri, að hann hafi aðeins 25% sjón og að hann hafi misst gleraugun í átökunum við stefnda. Enn fremur segir í frumskýrslu lögreglu, að Halldór hafi virst vera mjög ölvaður, er hann var handtekinn umræddan morgun. Þegar framangreind er virt, er það mat dómsins, að tengsl Halldórs við stefnanda, framangreint misræmi í frásögn hans í veigamiklum atriðum, sjóndepurð hans og ölvunarástand að mati lögreglu, rýri svo sönnunargildi framburðar hans, að ekki sé unnt að leggja hann til grundvallar við mat á sönnun þess, hvort nefndir áverkar stefnanda séu af völdum stefnda, Sturlu, eins og stefnandi heldur fram.
Áður er frá því greint, að við fyrri komu stefnanda á slysadeild hafi ekki verið fyrir að fara grun um brot á olnboga, heldur var talið, að um tognun væri að ræða og ekki talin ástæða til röntgenmyndatöku. Í læknisvottorði er ekkert haft eftir stefnanda um tilurð eymsla í olnboganum. Þá þykir ekki verða litið fram hjá því, að í læknisvottorði er haft eftir stefnanda vegna síðari komu hennar á slysadeild, að eftir að hún fór þaðan um morguninn hafi verið snúið upp á hægri framhandlegg hennar og við það hafi verkirnir aukist. Þykir því ekki vera loku fyrir það skotið, að umrædd handleggsbrot hafi átt sér stað eftir að stefnandi yfirgaf veitingahúsið. Þá kemur fram í vottorðinu, að skurðbrúnir á augabrún séu heilar, sem þykir geta samrýmst því, að hún hafi, eftir að hún hafði ,, ... grýtt öskubökkum og glösum í barinn ...” fengið ,,eitthvað til baka.” Á því er hins vegar ekki byggt í málinu af hálfu stefnanda, heldur einungis, að áverkarnir séu af völdum stefnda, Sturlu, vegna afleiðinga líkamsárásar hans á stefnanda.
Telja verður nægilega fram komið í málinu, að til handalögmála hafi komið milli stefnanda og Halldórs annars vegar og stefnda, Sturlu, hins vegar, eftir að stefndi vísaði þeim út úr veitingahúsinu í tilefni af því, að stefnandi grýtti öðru sinni öskubakka í barinn með þeim afleiðingum, að vínflaska brotnaði. Þegar á hinn bóginn allt framangreint er virt, er það mat dómsins, að stefnandi hafi ekki, gegn mótmælum stefnda, Sturlu, fært fram fullægjandi sönnun þess, að stefndi hafi með saknæmum hætti valdið handleggsbroti stefnanda eða áverka á augabrún greint sinn. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, sem jafnframt leiðir þegar af þeirri ástæðu til sýknu stefnda, Dillons ehf., þar sem skilyrði bótaábyrgðar þess stefnda er, að til sé að dreifa sök af hálfu starfsmanns hans, meðstefnda, Sturlu.
Þá kemur til skoðunar, hvort stefnandi eigi rétt á skaðabótum úr hendi stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. á grundvelli fjölskyldutryggingar þeirrar, sem óumdeilt er, að í gildi var milli aðila á slysdegi. Samkvæmt e) lið 10. gr. tryggingarinnar bætir félagið ekki slys, er vátryggður verður fyrir í handalögmáli, við þátttöku í refsiverðum verknaði, undir áhrifum deyfi- og eiturlyfja eða í ölæði, nema sannað sé, að ekkert samband hafi verið milli ástands þessa og slyssins. Þá bætir félagið ekki samkvæmt f) lið sömu greinar slys, sem verða vegna stórkostlegs gáleysis vátryggingartaka eða vátryggðs. Byggir hið stefnda tryggingafélag sýknukröfu sína á þessum hlutlægu ábyrgðarleysistakmörkunum á gildissviði vátryggingarinnar, sem heimilar eru samkvæmt 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Er því ekki haldið fram af stefnanda, að umrædd ábyrgðarleysistakmörkunarákvæði í tryggingarskilmálunum stangist á við þá lagagrein eða önnur ákvæði laganna um vátryggingasamninga.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu mátti sjá blóð í anddyri veitingahúss þess, er hér um ræðir, og var slóð þess rakin að gatnamótum Klapparstígs og Grettisgötu, þar sem stefnandi og Halldór voru handtekin vegna gruns um skemmdarverk í nefndu veitingahúsi. Þá kom fram hjá Einari Eiríkssyni, fyrirsvarsmanni stefnda, Dillons ehf., í skýrslu hans fyrir dómi, að hann hafi séð stóran blóðpoll í tröppunni við útidyr veitingahússins daginn eftir umrædda atburði. Samkvæmt því, sem rakið hefur verið, þykir nægilega í ljós leitt, að stefnandi hafi hlotið áverkann á augabrúnina í veitingahúsinu eða við það, enda er ekkert fram komið í málinu um, að stefndi eða Halldór hafi hlotið slíka áverka í átökunum, að þeim hafi blætt. Þá þykir ljóst af gögnum málsins, að stefnandi hafi hlotið handleggsbrotið á tímabilinu frá því henni var vísað út úr veitingahúsinu og þar til hún kom á slysadeild í síðara skiptið eftir hádegi 19. nóvember 2000. Ósannað er hins vegar samkvæmt framansögðu, að áverkarnir verði raktir til afleiðinga saknæmrar háttsemi stefnda, Sturlu, í handalögmálum milli hans annars vegar og stefnanda og Halldórs hins vegar.
Enda þótt stefnandi hafi viðurkennt að hafa orðið völd að skemmdarverkum á greindum veitingastað, er ósannað, að umræddir áverkar hennar hafi beinlínis orðið til við þátttöku stefnanda í þeim verknaði, sem er refsiverður eftir 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er ekkert fram komið í málinu um, að stefnandi hafi greint sinn verið undir áhrifum deyfi- eða eiturlyfja. Stefnandi hefur viðurkennt að hafa tvívegis grýtt öskubökkum í bar veitingahússins umrædda nótt. Er fram komið í málinu og viðurkennt af hálfu stefnanda, að síðara tilvikið hafi orðið tilefni brottvísunar hennar og Halldórs af staðnum. Þá hefur stefnandi og viðurkennt að hafa, eftir fyrrgreind handalögmál, grýtt glösum og fleiru í barinn og valdið eignaspjöllum, eftir að stefndi hafði leitað þar skjóls. Fram kemur í frumskýrslu lögreglu og fyrrgreindu læknisvottorði, að stefnandi hafi verið mjög ölvuð við handtöku og komu á slysadeild umræddan morgun. Á móti kemur, að stefnanda var ekki tekið blóðsýni og er því engum áþreifanlegum sönnunargögnum til að dreifa um ölvunarástand hennar.
Stefnandi byggir málsókn sína á því, að hún hafi orðið fyrir umræddum áverkum, inni í veitingahúsinu af völdum stefnda, Sturlu. Áður er komist að þeirri niðurstöðu, að ósannað sé, að áverkarnir verði með óyggjandi hætti raktir til handalögmálanna milli stefnanda og stefnda, Sturlu. Allt að einu þykir ljóst af framansögðu, að áverkinn á augabrún hafi orðið í þann mund, sem stefnandi yfirgaf veitingastaðinn. Hins vegar er óljóst um orsök handleggsbrotsins og tímasetningu, en þó liggur fyrir, að þann áverka hafi stefnandi hlotið, áður en hún kom á slysadeildina í síðara skiptið.
Þrátt fyrir að ráðið verði af lögregluskýrslu og læknisvottorði um komu stefnanda á slysadeild umræddan morgun, að stefnandi hafi verið undir talsverðum áfengisáhrifum greint sinn, þykir stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., ekki hafa sýnt fram á með óyggjandi hætti, að áverkann á augabrún stefnanda megi að verulegu leyti rekja til ölvunarástands hennar. Þykir þannig bera að taka til greina kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótarétti vegna þess áverka á grundvelli fjölskyldutryggingar hennar, slysatryggingu í frítíma, hjá tryggingafélaginu.
Stefnandi krefst og viðurkenningar á bótaskyldu tryggingafélagsins vegna brots á hægri framhandlegg (collum radii). Á það ber hins vegar að líta, að kröfugerð hennar og málatilbúnaður er einskorðaður við, að sá áverki hafi átt sér stað á umræddum veitingastað og sé afleiðing líkamsárásar stefnda, Sturlu, á stefnanda, svo sem rakið hefur verið. Samkvæmt því, er áður greinir um óvissu á orsökum handleggsbrotsins og með því að ósannað er, að það sé af völdum stefnda, Sturlu, þykir, eins og kröfugerð stefnanda er háttað samkvæmt framansögðu, ekki verða hjá því komist að sýkna hið stefnda tryggingafélag af kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda vegna afleiðinga þessa áverka.
Rétt þykir eftir atvikum, að málskostnaður milli aðila falli niður, en ákveða ber, að allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, útlagður kostnaður að fjárhæð 38.000 krónur og laun lögmanns hennar, Steingríms Þormóðssonar hrl., er þykja hæfilega ákveðin 300.000 krónur, samtals 338.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndu, Sturla Jónsson og Dillon ehf., eru sýknir af kröfum stefnanda, Jóhönnu Þóru Sveinjónsdóttur.
Viðurkennd er bótaábyrgð stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., gagnvart stefnanda á grundvelli fjölskyldutryggingar stefnanda, slysatryggingar í frítíma, hjá stefnda, samkvæmt vátryggingarsamningi þar um milli aðila, vegna slyss á augabrún sem hún varð fyrir á veitingastaðnum Dillon, Laugavegi 30, Reykjavík, 19. nóvember 2000, en að öðru leyti er stefndi sýkn af kröfum stefnanda í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, 338.000 krónur, þar með talin laun lögmanns hennar, Steingríms Þormóðssonar hrl., 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.